Staðarborg
Gengið var að Staðarborg á Strandarheiði. Lagt var upp frá Prestsvörðu sunnan Strandarvegar skammt austan afleggjarans að Kálfatjörn.
Staðarborg

Staðarborg.

Ofar eru svonefndar Klifflatir. Vörður eru á leiðinni svo auðvelt er að nálgast borgina. Staðarstekkur er í lágum hól skammt norðan við hana.
Staðarborg er hringlaga fjárborg, hlaðin eingöngu úr grjóti og er hverjum steini hagrætt í hleðslunni af hinni mestu snilld. Vegghæðin er um 2 m og þvermál að innan um 8 m. Ummál hringsins að utanverðu er um 35 m. Gólfið inni í borginni er bæði slétt og gróið.
Ekki er vitað hvenær borgin var hlaðin upphaflega, en menn telja hana nokkur hundruð ára gamla. Fjárborgir voru víða hlaðnar í heiðinni. Sumar eru horfnar í svörðinn. Sérstök hús yfir fé voru ekki byggð fyrr en í byrjun 20. aldar. Þangað til var það vistað í fjárskjólum (hellum og hraunskútum) nærri bæjum. Tilgangur borganna var að veita fé, sem var á útigangi, skjól í vondum veðrum.

Staðarborg

Staðarborg.

Munnmæli herma að maður að nafni Guðmundur hafi hlaðið borgina fyrir Kálfatjarnarprest. Guðmundur vandaði vel til verka, safnaði grjóti saman úr nágrenninu, bar það saman í raðir og gat einnig valið þá hleðslusteina sem saman áttu. Ætlun hans var að hlaða borgina í topp. En er hann var nýbyrjaður að draga veggina saman að ofanverðu kom húsbóndi hans í heimsókn. Sá hann þá strax í hendi sér að fullhlaðin yrði borgin hærri en kirkjuturninn á Kálfatjarnarkirkju og tilkomumeiri í alla staði. Reiddist hann Guðmundi og lagði brátt bann við fyrirætlan hans. En þá fauk í Guðmund svo hann hljóp frá verkinu eins og það var og hefur ekki verið hreyft við borginni síðan. Staðarborg var friðlýst sem forminjar árið 1951.

Staðarborg

Staðarborg.

Borgin er í þægilegu göngufæri frá Strandarvegi, u.þ.b. miðja vegu á milli hans og Reykjanesbrautar. Vestar eru nokkrar gamlar fjárborgir, sem áhugavert er að skoða, s.s. Þórustaðaborg, Auðnaborg, Lynghólsborg, Hringurinn og Gíslaborg.

Sagan segir að fyrrum hafi þversteinn verið efst í inngangi borgarinnar. Kálfur hafi komst inn í hana og hafi honum ekki verið komið út aftur án þess að fjarlægja hafi þurft steininn fyrst. Hann liggur nú undir veggnum gegnt dyrunum. Leitað var að hugsanlegum ártalssteini í borginni, en enginn fannst að þessu sinni.

Staðarborg

Staðarborg og nágrenni.

Að sögn Sæmundar á Stóru-Vatnsleysu var borgin ávallt nefnd Prestborg fyrrum.
Af ummerkjum að dæma í nágrenni borgarinnar virðist sem þunn hraunskorpan hafi verið brotin skipulega niður og grjótið notað í hleðsluna. Hleðslan sjálf virðist einnig staðfesta það.

Þórustaðaborg

Þórustaðaborg.

Gengið var til vesturs að Þórustaðaborg. Hún er í hvarfi við hraunhól í ca. 10 mín fjarlægð frá Staðarborg. Falleg fuglaþúfa er á hólnum. Borginni hefur einhvern tímann verið breytt í stekk, en suðaustan í honum er gróin tóft. Þá er stök tóft, greinilega gömul, norðvestan undir klapparhólnum, í skjóli fyrir suðaustanáttinni. Vel gróið er í kringum borgina. Þórustaðastígurinn liggur þarna upp með borginni og sést hann vel þar sem hann liggur til suðausturs ofan hennar, áleiðis að Keili. Stígurinn liggur upp á Vigdísarvelli.
Krækiberjalyngið er farið að reskjast. Sólstafir kitluðu Vogana. Krían átti í erfiðleikum með að fljúga gegn hreyfanlegu logninu. En þrátt fyrir það var veður með ágætum – bjart og hlýtt.

Heimild: http://www.nat.is/travelguide/ahugav_st_stadarborg.htm

Staðarborg

Staðarborg