Staðarborg
Gengið var að Staðarborg á Strandarheiði. Lagt var upp frá Prestsvörðu sunnan Strandarvegar skammt austan afleggjarans að Kálfatjörn.
Staðarborg

Staðarborg.

Ofar eru svonefndar Klifflatir. Vörður eru á leiðinni svo auðvelt er að nálgast borgina. Staðarstekkur er í lágum hól skammt norðan við hana.
Strandarborg er hringlaga fjárborg, hlaðin eingöngu úr grjóti og er hverjum steini hagrætt í hleðslunni af hinni mestu snilld. Vegghæðin er um 2 m og þvermál að innan um 8 m. Ummál hringsins að utanverðu er um 35 m. Gólfið inni í borginni er bæði slétt og gróið.
Ekki er vitað hvenær borgin var hlaðin upphaflega, en menn telja hana nokkur hundruð ára gamla.

Staðarborg

Staðarborg.

Munnmæli herma að maður að nafni Guðmundur hafi hlaðið borgina fyrir Kálfatjarnarprest. Guðmundur vandaði vel til verka, safnaði grjóti saman úr nágrenninu, bar það saman í raðir og gat einnig valið þá hleðslusteina sem saman áttu. Ætlun hans var að hlaða borgina í topp. En er hann var nýbyrjaður að draga veggina saman að ofanverðu kom húsbóndi hans í heimsókn. Sá hann þá strax í hendi sér að fullhlaðin yrði borgin hærri en kirkjuturninn á Kálfatjarnarkirkju og tilkomumeiri í alla staði. Reiddist hann Guðmundi og lagði brátt bann við fyrirætlan hans. En þá fauk í Guðmund svo hann hljóp frá verkinu eins og það var og hefur ekki verið hreyft við borginni síðan. Staðarborg var friðlýst sem forminjar árið 1951.

Staðarborg

Staðarborg.

Borgin er í þægilegu göngufæri frá Strandarvegi, u.þ.b. miðja vegu á milli hans og Reykjanesbrautar. Vestar eru nokkrar gamlar fjárborgir, sem áhugavert er að skoða, s.s. Þórustaðaborg, Auðnaborg, Lynghólsborg, Hringurinn og Gíslaborg.

Sagan segir að fyrrum hafi þversteinn verið efst í inngangi borgarinnar. Kálfur hafi komst inn í hana og hafi honum ekki verið komið út aftur án þess að fjarlægja hafi þurft steininn fyrst. Hann liggur nú undir veggnum gegnt dyrunum. Leitað var að hugsanlegum ártalssteini í borginni, en enginn fannst að þessu sinni. Að sögn Sæmundar á Stóru-Vatnsleysu var borgin ávallt nefnd Prestborg fyrrum.

Þórustaðaborg

Þórustaðaborg.

Gengið var til vesturs að Þórustaðaborg. Hún er í hvarfi við hraunhól í ca. 10 mín fjarlægð frá Staðarborg. Falleg fuglaþúfa er á hólnum. Borginni hefur einhvern tímann verið breytt í stekk, en suðaustan í honum er gróin tóft. Þá er stök tóft, greinilega gömul, norðvestan undir klapparhólnum, í skjóli fyrir suðaustanáttinni. Vel gróið er í kringum borgina. Þórustaðastígurinn liggur þarna upp með borginni og sést hann vel þar sem hann liggur til suðausturs ofan hennar, áleiðis að Keili. Stígurinn liggur upp á Vigdísarvelli.
Krækiberjalyngið er farið að reskjast. Sólstafir kitluðu Vogana. Krían átti í erfiðleikum með að fljúga gegn hreyfanlegu logninu. En þrátt fyrir það var veður með ágætum – bjart og hlýtt.http://www.nat.is/travelguide/ahugav_st_stadarborg.htm

Staðarborg

Staðarborg