Færslur

Knarrarnesholt

Í fyrri ferð um svæðið austan við Knarrarnesholt bar ýmislegt fyrir augu í skammdegisbirtunni. Nú var ætlunin að ganga um heiðina vestan við Knarrarnesholt að Brunnastaðalangholti, en svæðið þar fyrir vestan hafði áður verið skoðað.

Knarrarnesholtsvarða

Enn sem fyrr hékk náttúruleg skammdegisljósadýrðin yfir heiðinni. Gengið var niður um Djúpudali, “djúpa grasbolla sem ganga inn í klapparholt eða hóla. Í Djúpudali var farið með kýrnar frá Stóra Knarrarnesi í tíð Ólafs Péturssonar bónda þar”.
Gróningarnir milli holtanna eru grasgefnir, enda hafa þeir verið hið ágætasta skjól í heiðinni. Drjúg leið er milli bæja og dalanna svo ætla mætti að einhvers staðar væri þar að finna smalaskjól, þótt lítið væri. Tveir staðir komu til greina, en þó annað öllu líklegra. Um var að ræða ferhyrnda gróna rúst í “anddyri” dalanna. Sjá mátti grjót í veggjum, en ekki hefur afdrepið verið stórt, líkara varðskýli. Líklegt er að kýrnar hafi ekki leitað upp á holtin heldur ætlað heimleiðis um dalverpið þegar nóg var komið. Þá var skýlið vel staðsett. Leitað var að kúastekk á svæðinu, sem líklega er þarna einhvers staðar í eða við Djúpudali, en án árangurs að þessu sinni. Horfa til þess að skammdegisbirtan gaf ekki mikla möguleika eða kjörin tækifæri til uppgötvanna eftir að vinnu lauk þann daginn. Þá eru myndatökur með venjulegum tækjabúnaði við slíkar aðstæður mjög erfiðar.
KnarrarnesholtsvarðanNeðan og vestan við Djúpudali er Knarrarnesholt. “Þess er getið í landamerkjabréfum Knarrarness og Ásláksstaða. Holtið er lágt en formfallegt séð frá [Reykjanes]brautinni og á því er kubbslaga, lágreist en þó áberandi varða, u.þ.b. 1,5 m á hlið.” Varðan er á áberandi stað, hvort sem horft er upp í heiðina heiman frá bæ eða niður hana af Knarrarnesselsstígnum þar skammt austar. Hæðin á vörðunni er ekki nema ca. 0,50 m, ferköntuð og fyllt í miðju. Ætla mætti að henni hafi verið ætlað að verða hærri (enda landamerkjavarða), en vegna þess hversu 
nægilega áberandi kennileiti hún var orðin svona lágreist hafi þetta verið látið duga. Skoðað var hvort varðan gæti einnig hafa verið ætluð sem refagildra, en engin merki þess sáust.
Afstapavarða“Suðvestur af Knarrarnesholti og Djúpudölum eru svo Ásláksstaðaklofningar eða Klofningar en það er hólaþyrping rétt neðan Reykjanesbrautar og utan við beitarhólfið sem þarna er enn.”
Ásláksstaðaklofningar eru lágir klapparhólar og litlir m.v. nágranna þeirra, grónir á millum. Gróin varða er á þeim, en tilefnið virtist óljóst.
Í bakaleiðinni var staðnæmst við norðurenda Afstapahrauns, ofan Kúagerðis. Þar er varða, hvorki gömul né ný, að því er virðist. Hún er hlaðin á efsta (fremsta) brunahólnum í þessu úfna apalhrauni. Ætla mætti við fyrstu hugsun að hún hafi verið hlaðin til dundurs af vegagerðarmönnum er lögðu akveginn fyrsta sinni milli Innnesja og Útnesja í kringum 1910 (1906-1912).
AfstapavarðaÍ örnefnalýsingu fyrir Hvassahraun segir hins vegar: 

“Markavarða við Fögruvík; úr Markavörðu í Afstapavörðu, úr Afstapavörðu í Snókafell, úr Snókafelli um Lambafell, úr Lambafelli í landamerkjalínu Krýsuvíkur norðan Mávahlíðar.” Varðan sú virðist skv. þessu vera svonefnd Afstapavarða á merkjum Hvassahrauns og Stóru-Vatnsleysu. Sbr. framangreint ætti einnig að vera landamerkjavarða á Einihlíðum norðan Mávahlíða.
Samkvæmt landamerkjabréfi Hvassahrauns og Vatnsleysu, dags. 15. júní 1889 og þingl. 17. júní 1889 eru merki Hvassahrauns til vesturs sögð frá ,,..Innra hraunshorninu í Fögruvík, og þaðan í afstapaþúfu, og þaðan beina stefnu í Snókafell, og úr Snókafelli beina stefnu í Krýsuvíkurland.”
LambafelLandamerkjabréfið er áritað vegna Hvassahrauns og Vatnsleysu. Merkjum er lýst með sambærilegum hætti í gerðabók fasteignamats 1916-1918 og þar segir að merki milli Hvassahrauns og Vatnsleysu séu miðuð við 

,,… Klettur innan til við Fögruvík, þaðan í Afstapaþúfu þaðan í Snókafell, það að Krýsuvíkurl”. Líklegt má telja að Afstapavarða hafi verið hlaðin við svonefnda Afstapaþúfu til áréttingar mörkunum. Síðasta örnefnið sem er tiltekið áður en línan er dregin að Krýsuvíkurlandi er Snókafell. Fellið liggur fyrir norðan Eldborgarhraun og er því nokkru fyrir neðan mörk Krýsuvíkur.
Frábært veður. Gangan tók 1 klst og 1 mín.

Heimildir m.a.:
-SGG – Örnefni og gönguleiðir í Vatnsleysustrandarhreppi – 2007.

Knarrarnesheiði

Varða á Knarrarnesheiði.

Knarrarnesheiði

Ætlunin var að skoða neðanverða Strandarheiði frá Geldingahólum og Knarrarnesholti í áttina að Hlöðunes- og Brunnastaðalangholtum í vestri. Vitað var að Vatnshóll væri þarna á millum og austur af Nyrðri-Geldingahól væru leifar af krossgarði (skjólgarði) fyrir fé. Þá voru gerðar vonir um að berja mætti þarna ýmislegt fleira augum er ekki hefur þótt augljóst.
MannvirkiGengið var frá Reykjanesbraut niður með svonefndum Skrokkum. Norðan þeirra mátti sjá hleðslur á klapparhól, auk þess sem vörður og vörðubrot voru hvarvetna. Þegar komið var niður að Auðnaborg var stefnan tekin upp (suður) stíg er þar lá vestan hennar, Auðnaselsstíg. Í örnefnalýsingu segir m.a. um borgina og selsstíginn: “Hrúthóll heitir klapparhóll og Vatnshólar og svo er Auðnaborg fjárborg. Upp og suður af Skálholti er Auðnaborg í grasmóa sunnan í hól. Þar er nokkuð heilleg fjárrétt með stórum almenningi og tveimur dilkum, en uppi á hólnum við réttina eru rústir af tveimur kofum. Lítill stekkur er rétt neðan og vestan við borgina en engar heimildir eru til um nafn hans.”
VarðaUm stíginn segir: “Þá liggur fyrir Klofgjá og blasir við Klifgjárbarmur og rétt þar fyrir ofan er Auðnasel og Höfðasel og Breiðagerðissel. Til selja þessara lá aðeins einn stígur Auðnaselsstígur.” Auðnaselsstígur lá skáhallt frá Auðnum til selsins og hefur þá vísast legið 400-500 m austan við Þyrluvörðu  og um 2 km vestan við þar sem Marteinsskáli sést frá Reykjanesbrautinni. Þyrluvarðan er rétt norðan brautarinnar áður en komið er að Langholtunum. Auðvelt er að fylgja stígnum um heiðina upp með Auðnaborginni og áfram áleiðis upp í selið.
SkjólgarðurSkammt suðvestar var komið að Geldingahólum. Um Nyrðri-Geldingahól liggja landamerki. Knarrarnesselstígur liggur upp með hólnum vestanverðum. Í örnefnalýsingu fyrir Knarrarnes segir m.a.: “Heiman frá Knarrarneshliði lá Knarrarnesselsstígurinn upp alla Heiðina í Knarrarnessel.”  Slóðinn hefur verið um 1 km vestan við Þyrluvörðu og um 1 km austan við línuvegsafleggjarann. Líkt og með Auðnaselsstíginn var tiltölulega auðvelt að fylgja Knarrarnesselsstígnum áleiðis upp heiðina.

Landamerki

Þegar gengið var um heiðina, mót blóðrauðu sólarlaginu, voru rifjaðar upp þær breytingar, sem orðið hafa á samfélagi voru bæði nú og fyrrum. Líkja má hvorutveggja við kúfvendingar. Meðan efnahagskreppan núverandi kippir landsmönnum skyndilega u.þ.b. 12 ár aftur í tímann má segja að slíkt og hið sama hafi gerst fyrir u.þ.b. 120 árum – þegar grundvellinum var skyndilega kippt undan fyrri tíma búskaparháttum er ráðið hafði ríkjum allt frá landnámsöld. Þegar seljabúskapurinn lagðist af urðu öll mannvirki honum tengdum skyndilega óþörf sem og vinnuaflið er hann hafði krafist svo lengi. Vinnuaflið lá hins vegar ekki lengi í dróma heldur leitaði á önnur mið; útvegurinn naut góðs af og þorpsmyndun hófst hér á landi.
Í ljósi þessa má lesa eftirfarandi frétt er birtist í Mbl 1992: “Ekið á kind á Reykjanesbraut – Lausaganga bönnnuð frá árinu 1992. Ekið var á kind á Reykjanesbraut í Vatnsleysustrandarhreppi í vikunni en þar hefur lausaganga búfjár verið bönnuð frá 1. desember 1992.

Heiðin

Að sögn Karls Hermannssonar aðstoðaryfirlögregluþjóns hefur mikið verið kvartað vegna kinda við Reykjanesbraut. Bílstjóri er bótaskyldur gagnvart fjáreiganda, þótt laugasaganga sé bönnuð, að sögn Reynis Haukssonar tryggingarmanns, vegna ákvæða umferðarlaga um hlutlæga ábyrgð gagnvart öðrum. Bætur lækki aðeins ef sá er hafi búféð í vörslu sýni af sér vanrækslu.
Ásgeir Eiríksson, fulltrúi hjá sýlsumanni, segir þetta haf verið vandamál fyrr en sumar. Ekki hafi verið leitað til lögreglunnar um smölun fjárins. Í samþykkt um búfjárhald í hreppnum segir í 5. gr. að lausagöngufé skuli handsama og skrá. Eigendum sé skylt að sækja gripi sína og greiða áfallinn kostnað og tjón, þar með talinn kostnað við handsömun gripanna. Þrátt fyrir ríkjandi bann gengur margt fé laust í Strandarheiði og alveg niður í byggð í Vogum, og er hér einkum um fé Grindvíkinga að ræða.”
Hér, líkt og um aldir, skella Vogamenn skuldinni á Grindvíkinga. Í dag hefur öllu lausafé á svæðinu verið komið fyrir í beitarhólfum.
Rjúpan lét í sér heyra í heiðinni umrætt sinni. Til gamans er hér rifjuð upp frásögn um hinn merka fugl í Mbl rjúpaárið 1934: “
Rjúpunni fjölgar og fækkar – Talsvert hefur verið af rjúpu hjer á Reykjanesskaga að undanförnu, og hefir fjöldi manna hafði herferð gegn henni. Er sagt að sumir liggi úti í tjöldum á Strandarheiði og víðar, aðeins til þess að brytja niður þessa vesalinga. Sagt er að sumar skyttur hafi skotið um 30 rjúpur á dag og hafi veiðin verið nokkuð jöfn enn sem komið er. Rjúpan heldur sig nú helst fram við sjó, en ekki upp um fjöll, og var það gamalla manna mál að það boði harðan vetur, er hún hegðar sjer svo.” Spurningin er hvort áður ætlaðar mannvistarleifar eftir refaskyttur á klapparhólum strandarinnar gætu hugsanlega hafa verið eftir rjúpnaskyttur. Það skýrir a.m.k. hleðslur víða er virðast vera án tengsla við möguleg greni.
Verkefnið framundan er og að ganga hluta Strandarheiðar frá Ásláksstaðaklofningum um Brunnastaðalangholtin til vesturs að Vogavegi.
Frábært veður. Gangan tók 2 klst og 2 mín.

Heimildir m.a.:
-Mbl – 4. nóvember 1934.
-MBL – 8. sept. 1995.
-Örnefnalýsingar fyrir Auðna og Knarrarness.

Auðnaborg