Grjóthleðsla

Námskeið í “grjóthleðslu í gömlum stíl” var haldið í Vogunum á vegum Miðstöð Símenntunnar á Suðurnesjum.
Á námskeiðinu, sem tók tvo vinnudaga, var m.a. ætlunin að “hlaða frístandandi og fljótandi veggi úr náttúrulegu grjóti. VeggurAuk þess var ætlunin að kenna öll grundvallaratriði grjóthleðslu. Nemendur áttu að læra að hlaða horn og bogaveggi og að „toppa“ grjótvegg. Þetta var að mestu verklegt námskeið og gert var ráð fyrir töluverðu líkamlegu puði!”
Hér er fyrri degi námskeiðsins lýst, öðrum til fróðleiks.
Mæting var kl. 08:30 við félagsheimilið í Vogum. Þar tóku fulltrúar MSS og sveitarfélagsins Voga á móti þátttakendum, 24 talsins, nákvæmlega á sólarúrsslaginu. Þorvaldur Örn Árnason lýsti verkefni dagsins og kynnti leiðbeinendur til sögunnar, Guðjón S. Kristinsson, torf- og grjóthleðslumeistara og skrúðgarðyrkjumann, og bróður hans Benjamín Kristinsson, húsasmíðameistari og bátasmiður. Báðir hafa þeir starfað lengi við grjóthleðslur og þekkja orðið bæði allar hliðar grjóts sem og hornin fjögur (ef svo mörgum er til að dreifa). Verbúðin við Bolungarvík sem og tilgátubærinn á Eiríksstöðum eru t.a.m. handverk þeirra, grjóthleðslur á Akranesi, endurhleðsla Skálholtsvörðu, steinbogabrú í Áslandi, grjótveggur við Mosfell í Grímsnesi, kirkjugarðsveggur að Búrfelli í Grímsnesi og svo mætti lengi telja.
Byrjað að rífaGuðjón sagðist hvorki ætla að halda langa né lærða ræðu um efnið. Þátttakendur myndu fljótlega finna það á eigin skinni. Málið væri bara að byrja og þreifa sig síðan áfram. Hæfnin kæmi með reynslunni. Ræðan tók innan við eina mínútu. Mættu margir lærðir taka sér það til fyrirmyndar, þ.e. viðhafa færri orð en þess fleirri handtök. Handverkið var jú það sem mestu skipti hér á landi fyrrum – með allri virðingu fyrir rituninni, sem var reyndar að 2/3 hluta handverk. Það gleymist oft þegar handritin eru dásemuð sem mikil “þjóðargersemi” að aðrar áþreifanlegar fornleifar, t.a.m. hleðslur, eru það engu að síður. Þær eru einnig hin áþreifanlegu tengsl nútímafólksins við uppruna sinn, forfeður þeirra, sem þraukað höfðu við þeirra tíma húsaskjól svo það mætti njóta alls þess sem dagurinn í fag hefur upp á að bjóða.
Nánari upplýsingar með námskeiðslýsingunni höfðu verið þessar: “Skoða og meta grjóthleðslur í Vogum og á Vatnsleysuströnd, svo sem vörður, túngarða, sjóvarnargarða, fjárborgir, gripahús, sjávarhús og íbúðarhús. Læra að endurhlaða og lagfæra grjótveggi, garða og vörður. Lagfæra nokkrar tegundir af hleðslum sem þarfnast lagfæringa
Tileinka sér lög, reglur og viðhorf um vernd fornminja. Aukin þekking á einkennum, þróun og varðveislu menningarlandslags á Íslandi. Virkja og efla fólk til minjaverndar og að halda við gömlum hleðslum og læra að hlaða nýjar hleðslur í gömlum stíl.”
Um var að ræða fyrsta námskeiðið af nokkrum fyrirhuguðum. “Lengd námskeiðs: 2 heilir dagar (2×8 klst.). Hámark 10 manns í hópi.” Vegna mikils áhuga var þátttakendum fjölgað í 24 og stóðu þó 6 utangarðs.
Samstarfsaðilar að verkefnu þessu voru Sveitarfélagið Vogar, Minjafélag Vatnsleysustrandarhrepps (sem er farið að beita sér af auknum þunga á svæðinu) og Fornleifavernd ríkisins (illu heilli reyndar, en óhjákvæmilega), auk þess sem námskeiðið var styrkt af Menningarráði Suðurnesja. Þátttökugjald var kr. 4000-. Ætla mætti, að fenginni reynslu, að greiða þyrfti fólki fyrir alla vinnuna, sem leggja þurfti að mörkum. Ánægjan vó hins vegar þyngra en þreytan – auk þess sem þátttakendur nutu bæði hóflegrar og skynsamlegrar leiðsagnar, húsaskjóls og máltíða meðan varði.
EndurgerðTil forna og allt fram á 20. öld var grjót aðalbyggingarefnið á Suðurnesjum. Gamlar grjóthleðslur setja hvarvetna svip á menningarlandslagið. Hleðslur þessar voru lagfærðar árlega meðan þær voru í notkun og byggingar endurbyggðar reglulega. Eftir að hætt var að viðhalda þessum hleðslum hafa þær gengið mjög úr sér. Bæði hafa rofaöflin séð um niðurbrot þeirra sem og maðurinn. Frostverkun, jarðskjálftar og vatns- og vindrof hafa leikið hleðslurnar grátt í gegnum aldirnar, en auk þess hafa margar hleðslur verið fjarlægðar vegna framkvæmda. T.d. var bæði grjót í vörðum og görðum endurnýtt í bryggjur á árdögum þeirra á fyrri hluta 20. aldar. Þá hurfu mörg áberandi og vönduð mannvirki sem sérhverju sveitarfélagi hefði verið mikill sómi af í dag.
Ekki var ætlunin að hreyfa neitt við mjög gömlum hleðslum eða minjum sem eru sérstakar, né heldur að grafa upp fornleifar, heldur að rannsaka og lagfæra hleðslur af algengu tagi sem eru í yngri kantinum og áberandi í landslaginu.
Þegar á vettvang var komið; að löngum gömlum grjóthlöðnum garði utan við Minni-Voga, mátti sjá hvar hann hafði fallið að mestu. Garðurinn hafði fallið út til hliðanna, auk þess sem gróður hafði með tímanum lagst smám saman að honum.
Í lýsingum um garðhleðslur segir m.a.: “
Gamla lagið sem tíðkast hefur gegnum aldirnar. Neðsta steinalag látið standa u.þ.b. 10-15 sm. undir yfirborði jarðvegs. Stærstu steinarnir neðst og fyllt á milli steinalaga með mold og torfi. Mold /torf rækilega þjappað. Í dag ef jafnan skipt um jarðveg undir hleðslum (sett frostfrítt efni) og í fyllingu veggjar er notast við frostfrítt efni. Þannig ættu veggir að standa um ókomna tíð ef rétt er staðið að hleðslu.”
Hér var ekki ætlunin að takast á við torfhleðslur, en um þær segir m.a.: “Torf – Klambra: Tígullaga hnaus hlaðinn í vegg með strengtorfi . Notað í húsahleðslur og aðra veggi. Kvíahnaus: Ferkantaður hnaus notaður í vegghleðslur húsa , túngarða o.fl. Snidda: Notuð í lægri veggi, túngarða, vegkanta og fleira. Strengur: 5-10 sm. þykk torfmotta (einsog túnþaka) 30-40 sm. breið,  lengd 1-3 m. Notuð í vegghleðslur og á milli klömbruhnausa.”
MinjarGuðjón lýsti því hvernig garðurinn hafði verið gerður; lega hans mótuð með röð stórra steina að utanverðu og minni að innanverðu. Hér var garðurinn hlaðinn á klöpp með grunnu moldarlagi á millum (nægilega litlu til þess að frostverkunin hefði ekki áhrif).
Allt grjót var fjarlægt úr veggnum; mosagrónir steinar á ysta lagi lagðir til hliðar því þá átti að nota aftur í ysta lagið. Ýmsar minjar frá ýmsum tímum fundust inni á milli steinanna, t.d. hluti af ári.
Síðan var byrjað að hlaða frá grunni; sérhver steinn metinn og veginn uns hann féll sem flís við rass á réttan stað í veggnum. Smærri steinar fylltu millilagið. Hallinn inn á utanverðum veggnum var lítill, en þess meiri að innanverðu, enda minni steinar notaðir þar. Smám saman tók endurgerður veggurinn á sig mynd fyrirrennara síns. Gæta þurfti og vel að stefnu, breidd og hæð. Að því athuguðu varð til heilstæð veggmynd að nýju.
Eflaust munu íbúar Voga, sem og aðrir, líta á endurgerðan vegginn sem fornleif, enda erfitt að sjá að um endurbyggingu sé að ræða.
Deginum lauk með því að þátttakendur gengu um garða og hleðslur Norðurkots á Vatnsleysuströnd, en þær eru í senn bæði heillegar og vel vandað til þeirra í upphafi.

Heimildir m.a.:
-http://www.mss.is

http://simnet.is/stokkarogsteinar

Grjóthleðsla