Tag Archive for: Vogar

Keilir

Í „Aðalskráningu fornleifa í Sveitarfélaginu Vogum – Áfangaskýrsla II“ er fjallað um Breiðagerðisskjólgarð, sem er 710 metra norðvestan Reykjanesbrautar neðar í Breiðagerðisslakka:

Breiðagerðisskjólgarður

Breiðagerðisskjólgarður.

„Þar var í Heiðinni Breiðagerðisskjólgarður,“ segir í örnefnaskrá. Í bókinni Örnefni og gönguleiðir segir: „Austur af Nyrðri-Geldingahól er langur klapparhryggur og á honum eru leifar af krossgarði (skjólgarði) fyrir fé. Garðurinn heitir Breiðagerðisskjólgarður og sést hann nokkuð vel af Reykjanesbraut sem löng grjótþúst á holti.“ Skjólgarðurinn er um 1,7 km suðaustan við bæ.

Breiðagerðisskjólgarður

Breiðagerðisskjólgarður.

Skjólgarðurinn er á háum hól sunnarlega á holti í hraunklapparmóa. Fremur lítill gróður er á þessum slóðum. Landið lækkar til suðurs niður af holtinu og sést vel af því að Reykjanesbraut.
Grjóthlaðinn skjólgarðurinn er um 11×11 m að stærð. Hleðslan er hrunin og er mesta veggjabreidd um 2 m og mesta hæð um 0,5 m. Mest sjást 2 umför hleðslu. Hleðslan myndar kross og snýr annar armur hans norður-suður en hinn austur-vestur. Lítilfjörleg varða er um 20 m austan við skjólgarðinn en hún virðist vera mjög nýleg og er því ekki skráð.“

Breiðagerðisskjólgarður

„Óskráð“ varðan við Breiðagerðisselsstíg.

Nefnd „óskráð“ varða er við Breiðagerðisselsstíginn sem liggur þarna á ská upp klapparhrygginn norðanverðan. Stígurinn sést mjög vel á þessum kafla, auk þess sem sjá má hann nokkuð glögglega liggja upp sléttlendið ofanvert aflíðandi áleiðis upp í selstöðuna. Hann sást vel vegna þess hversu lágfallinn snjórinn huldi slóðina austan vatnsstæðisins en sólin hafði brætt umhverfið.

Í „Örnefni og gönguleiðir í Vatnsleysustrandarhreppi“ segir um Breiðagerðisskjólgarð:

Breiðagerðisskjólgarður

Breiðagerðisskjólgarður.

„Austur af Nyrðri-Geldingahól er langur klapparhryggur og á honum eru leifar af krossgarði (skjólgarði) fyrir fé. Garðurinn heitir Breiðagerðisskjólgarður og sést hann nokkuð vel af Reykjanesbraut sem löng grjótþúst á holti. Skjólgarðurinn er nefndur í landamerkjabréfum Breiðagerðis og Auðna. Við vesturenda hryggjarins er hóll sem heitir Vatnshóll en vestur af honum er smá vatnsstæði í leirflagi.
Austur og upp af Breiðagerðisskjólgarði eru Skrokkar eða Skrokkhólar en það er langur hólaldasi sem liggur svo til þvert á Reykjanesbrautina. Við fyrstu gerð brautarinnar var hún sprengd í gegnum Skrokka en við nýjustu framkvæmdir, þ.e. breikkunina, var efsti hluti hólanna alfarið sprengdur í burtu.

Breiðagerðisborg

Varða ofan við Breiðagerðisborg.

Auðnaklofningar eiga að vera á þessu svæði, þeirra er getið í landamerkjalýsingum Landakots og Auðna, og einnig Breiðagerðis og Auðna. Engar nýrri heimildir eru til um örnefnið og því erfitt að staðsetja það en líklega eru það sömu hólar og Skrokkar. Klofningsörnefnin eru fjögur í hreppnum og tengjast áberandi sprungnum klapparhólum.“

Skammt austan fyrrnefndrar vörðu er önnur austast á klapparholtinu. Neðan við hana að sunnanverðu eru leifar fjárborgar, hér nefnd „Breiðagerðisborg“ (Höfðaborg). Borgin er á landamerkjum. Hleðslur sjást vel, en svo virðist sem borgin sé allgömul. Ekki er ólíklegt að hluti af grjótinu í veggjum hennar hafi verið notað við hleðslu krossskjólgarðsins þarna skammt vestar. Fjárborgarinnar er ekki getið í fornleifaskráningu af svæðinu.

Þyrluvarða
Í „Aðalskráning fornleifa í Sveitarfélaginu Vogum – Áfangaskýrsla I“ segir um Þyrluvörðuna.

Breiðagerðisborg

Breiðagerðisborg.

„Úr Þúfuhól þessum liggja mörkin beint eftir Vörðum upp Heiðina, milli Auðnaklofsins og Breiðagerðisskjólgarðs, spölkorn fyrir neðan Syðri-Keilisbróðir (Litla-Hrút), alla leið að landi Krýsuvíkur í Grundavíkurhreppi,“ segir í örnefnaskrá. Í Örnefni og gönguleiðir í Vatnsleysustrandarhreppi leiðir höfundur að því líkum að Auðnaklofningar séu það sama og Skrokkar. Sökum skorts á betri rökum var staðsetning hinna horfnu landamerkjavarða tekin á Skrokkum. Skrokkar er langur hólaklasi sem liggur norður-suður. Reykjanesbrautin gengur í gengum klasann um 900 m austan við Þyrluvörðu. Á þessum stað eru hæðir/hraunhryggir sem eru grýttir en vaxnir mosa og grasi um 100 m norðan við Reykjanesbraut.

Breiðagerðisborg

Breiðagerðisborg.

Hraunhryggurinn er mosagróinn mosa. Norðan Reykjanesbrautar eru nokkrir grónir toppar en engin greinileg merki um vörður sjást. Sunnan brautarinnar er á sama hrygg varða eða samtíningur úr grjóti sem sýnist nýlegur.“

Auðnaselstígur „liggur fyrir Klofgjá og blasir við Klifgjárbarmur og rétt þar fyrir ofan er Auðnasel og Höfðasel og Breiðagerðissel [þessi sel hafa væntanlega öll verið á sama stað, skráð sem Auðnasel. Til selja þessara lá aðeins einn stígur Auðnaselsstígur,“ segir í örnefnaskrá. Auðnaselsstígur lá skáhallt frá Auðnum til selsins og hefur þá vísast legið um Reykjanesbraut 400-500 m austan við Þyrluvörðu (reist þar sem þyrla fórst 1965) og um 2 km vestan við þar sem Marteinsskáli sést frá Reykjanesbrautinni. Á þessu svæði er gróið hraun en skrásetjari kom ekki auga á greinilegan stíg í námunda við Reykjanesbrautina.“

Þyrluvarða

Þyrluvarðan 2008.

Í „Örnefni og gönguleiðir í Vatnsleysustrandarhreppi“ segir um Þyrluvörðuna og nágrenni: „Næst höldum við í suðvestur frá Skrokkum, förum meðfram Reykjanesbrautinni að neðanverðu, yfir lægðina sem þarna er og að Þyrluvörðunni svokölluðu. Í maí árið 1965 hrapaði Sikorsky björgunarþyrla frá Varnarliðinu niður í lægðina en hún var að koma frá Hvalfirði á leið til Keflavíkurflugvallar. Þarna fórust fimm menn, þeirra á meðal yfirmaður flotastöðvar Varnarliðsins, og var varðan reist í minningu þeirra. Slakkinn þarna er í einni heimild nefndur Breiðagerðisslakkar en í annarri eru slakkarnir sagðir langt ofan brautarinnar. Ég tel að örnefnið nái yfir alla lægðina sem nær frá Geldingahólunum og allt upp undir selin og efri gjár í heiðinni.
Vestan og neðan við Þyrluvörðuna eru svo Djúpudalir, djúpir grasbollar sem ganga inn í klapparholt eða hóla. Í Djúpudali var farið með kýrnar frá Stóra-Knarrarnesi í tíð Ólafs Pétursonar bónda þar.

Þyrluvarða

Þyrluvarða – brak á slysstað.

Rétt fyrir neðan og vestan Djúpudali er Knarrarnesholt en þess er getið í landamerkjabréfum Knarrarness og Ásláksstaða. Holtið er lágt en formfallegt séð frá brautinni og á því er kubbsleg, lágreist en þó áberandi varða, u.þ.b. 1,5 m á hlið.
Suðvestur af Knarrarnesholti og Djúpudölum eru svo Ásláksstaðaklofningar eða Klofningar en það er hólaþyrping rétt neðan Reykjanesbrautar og utan við beitarhólfið sem þarna er enn.“

Nefnd „Þyrluvarða“ er fast upp við neðanverða Reykjanesbraut. Slysstaðurinn var hins vegar mun fjær; sunnan klapparholtanna fyrrnefndu, þar sem líta má augum Breiðagerðisskjólgarðinn sem og Breiðagerðisfjárborgina. Því til vitnis mátti t.d. sjá leifar úr þyrlunni stinga sér upp úr snjósólbráðinni hingað og þangað á göngunni að holtinu.

Sjá meira um þyrluslysið HÉR.

Frábært veður. Gangan tók 57 mínútur og 7 sekúndur.

Heimildir:
-Aðalskráning fornleifa í Sveitarfélaginu Vogum – Áfangaskýrsla II, Fornleifastofnun Íslands, Reykjavík 2014.
-Aðalskráning fornleifa í Sveitarfélaginu Vogum – Áfangaskýrsla I, Fornleifastofnun Íslands, Reykjavík 2011.
-Örnefni og gönguleiðir í Vatnsleysustrandarhreppi (ofan Gamla-Keflavíkurvegarins), Sesselja G. Guðmundsdóttir, 2007.

Þyrluvarða

Þyrluvarðan 2025.

Hestaslóðin

Í „Aðalskráningu fornleifa í Sveitarfélaginu Vogum – Áfangaskýrsla I“ segir m.a. um fjárskýli á Vatnsleysuströnd:

Gvendarstekkur

Gvendarstekkur.

„Alls voru skráð sjö fjárskýli á svæðinu, auk þess sem Gvendarstekkur var einnig notaður sem fjárskýli. Á öllum stöðunum nema einum voru sýnilegar minjar. Ekki tókst að staðsetja Byrgishól en mögulega dregur hann nafn sitt af smalabyrgi eða skotbyrgi. Þekktasta og stæðilegasta fjárborgin sem skráð var er án efa Staðarborg í landi Kálfatjarnar. Hún er hringlaga og hleðslur hennar standa enn. Pétursborg í landi Stóru-Voga er önnur heilleg borg. Hún er sporöskjulaga og eru hleðslur hennar hrundar að hluta. Skammt frá Pétursborg eru tvær tóftir sem eru skráðar með borginni.

Þórustaðaborg

Þórustaðaborg.

Þórustaðaborg er nokkuð hringlaga tóft en eins og áður segir hefur stekkur verið hlaðinn inn í hana. Með Þórustaðaborg var skráð fornleg, tvískipt tóft, garðlag, vatnsstæði og vörðubrot. Auðnaborg er ekki dæmigerð fjárborg en þar voru skráðar fjórar tóftir, þar af mögulega einn stekkur, renna og rétt. Gíslaborg er ekki heldur dæmigerð fjárborg. Innan hennar má greina 6 aðskilin hólf en vera má að þau hafi verið hlaðin eftir að hætt var að nýta hana sem fjárskýli. Enn er ónefnt fjárskýli í Kálffelli þar sem fjárskýli eru í tveimur hellisskútum og vörslugarður er í gíg fellsins. Þetta fjárskýli er heila 7 km frá bæ. Það var notað um aldamótin 1900 og er sennilega til marks um þverrandi beitarland þar sem sífellt þurfti að fara lengra frá bæ til að finna haglendi. Önnur fjárskýli sem hægt var að staðsetja eru 1-2,9 km frá bæjum.“

Skógarnef

Skógarnefsskúti.

Í „Aðalskráningu fornleifa í Sveitarfélaginu Vogum – Áfangaskýrsla III“ segir um fjárskýlin:
„Engin beitarhús voru skráð á skráningarsvæðinu en þar voru skráð 12 fjárskýli. Flest þeirra, eða níu fjárskýli, voru skráð í landi Hvassahrauns. Í landi Hvassahrauns er mikið um hellisskúta sem nýttir hafa verið sem fjárskýli. Hefur Hvassahraun ákveðna sérstöðu í sveitarfélaginu hvað þetta varðar. Öll fjárskýlin í landi Hvassahrauns eru í skútum eða jarðföllum og sjást hleðslur við sex þeirra. Áður hefur komið fram að hringlaga tóft sem skráð er með Stekk í landi Hvassahrauns er að líkindum fjárskýli. Ekki tókst að staðsetja fjárskýli í Skógarnefsskúta og óvíst er að Sauðhólsskúti sé rétt staðsettur. Þar sáust engar hleðslur. Þrjú fjárskýli voru skráð í landi Brunnastaða. Þar eru fjárskýlin hlaðnar fjárborgir. Lúsaborg er nánast horfin en grjót úr henni hefur verið notað í vegagerð.

Hringurinn

Hringurinn – fjárborg.

Hringurinn er grjóthlaðin tóft sem er reyndar ekki hringmynduð eins og nafnið gefur til kynna. Henni kann að hafa verið breytt í ferkantað mannvirki á síðari tímum. Á Grænhóli er gróin þúst sem líkur eru til að sé leifar af fjárborg. Það er hinsvegar óstaðfest. Þrjú fjárskýli í landi Hvassahrauns skera sig úr í þessari töflu. Það er annars vegar Skógarnefsskúti sem er líklega nærri 5 km frá bæ. Hins vegar eru tvö fjárskýli, Hjallhólaskýli og nafnlaust fjárskýli í jarðfalli sem eru um 200 m frá bæ. Önnur fjárskýli sem skráð voru á svæðinu eru 1-2 km frá bæ. Það er athyglisvert að engin beitarhús hafi verið skráð á svæðinu. Greinilega hafa fjárskýli frekar verið notuð en beitarhús fyrir fé að skýla sér í á úthagabeit um vetur. Eins hefur fjörubeit verið mikil á þessu svæði á veturna og því minni þörf á beitarhúsum í úthögum en í sveitum inn til landsins.“

 Í fornleifaskráningunni er getið um horfið fjárskýli (fjárborg), Lúsaborg. Þar segir: „Syðst við Slysabeygju að ofanverðu er hóll sem heitir Lúsaborg. Heimild er til um Lúsaborgarvörðu en engar hleðslur eru sjáanlegar þarna og engar sagnir til um borg á þessum stað,“ segir í Örnefnum og gönguleiðum.
Ógreinileg tóft af fjárskýli er á sunnanverðum hól um 20 m SSA við beygju á malbikaða Strandarveginum þar sem Strandavegur/Gamlivegur liggur á hann. Tóftin er um 1,4 km sunnan við Efri-Brunnastaði.
Hóllinn sem tóftin er á er í hraunmóa og er hann gróinn en ekki hár eða mikill um sig. Netagirðing liggur yfir suðaustanverða tóftina.
Tóftin sést mjög illa vegna þess að búið er að taka megnið af grjótinu úr henni. Það hefur sennilega verið notað í vegagerð. Hún er um 10×12 m að stærð og snýr norðaustur-suðvestur. Rof er komið í veggina þar sem grjótið var tekið en þar sem hún er gróin sést enn stöku steinn upp úr sverði. Innanmál tóftarinnar er um 6×3 m en hún hefur aflagast mikið og má ætla að hún hafi verið því sem næst hringlaga eins og algengt er með fjárborgir. Mesta hæð veggja er um 0,5 m en víðast eru þeir 0,2-0,3 m á hæð. Ekki sést hvar op hefur verið á tóftinni.“

Lúsaborg

Lúsaborg.

Í „Örnefni og gönguleiðir í Vatnsleysustrandarhreppi (ofan Gamla-Keflavíkurvegarins)“ segir um Lúsaborg: „Næst flytjum við okkur um set og höldum suður að vegamótum Gamlavegar og Strandarvegar, þar er kröpp beygja á Strandarveginum sem kölluð var Slysabeygja og er hún u.þ.b. miðja vegu milli Brunnastaðahverfis og Voga. Þegar Gamli-Keflavíkurvegurinn var aðalsamgönguæð Suðurnesjabúa ultu bílar oft í þessari hættulegu beygju og af því dregur hún nafnið.

Lúsaborg

Lúsaborg.

Syðst við Slysabeygju að ofanverðu er hóll sem heitir Lúsaborg. Heimild er til um Lúsaborgarvörðu en engar hleðslur eru sjáanlegar þarna og engar sagnir til um borg á þessum stað. Það má ekki gleyma því að vegagerðarmenn rifu hiklaust vörður og ónýtt mannvirki og endurnotuðu grjótið í vegina. Örnefnið er sérkennilegt og óvíst af hverju það er dregið. Nafnorðið lúsa (kv.), lúsur (ft.) er til og merkir smátt, þétt þýfi. Lúsalyng er orð yfir krækilyng og lúsamulningur er nafn á óþroskuðum berjum, bæði sortu- og krækilyngsberjum.
Upp og norðaustur af Lúsaborg er Þúfuhóll en af sumum kallaður Lambskinnshóll. Annar Lambskinnshóll er einnig sagður fast neðan Gamlavegar.“

Hestaslóðin

Hestaslóðin ofan Breiðagerðis.

Þegar nefndur hóll, grasi gróinn, er skoðaður má sjá augljós ummerki eftir fjárborgina. Í slíkum hlöðnum mannvirkjum voru stærstu steinarnir jafnan neðst. Vegagerðarmennirnir við Gamlaveg, sem er bæði púkkaður og kanthlaðinn langleiðina, hafa greinilega hirt allt meðfærilegt grjót úr nálægri borginni, en látið það neðsta eiga sig. Annað dæmi þar sem grjót var fjarlægt úr nálægum fjárborgum má nefna þrjár slíkar skammt suðvestan við Staðarborg. Grjótið úr þeim hefur væntanlega verið forfært yfir í þá tilteknu fjárborg, enda hefur hleðsla hennar krafist gnæðs grjóts á sínum tíma. Í stæðum hinna þriggja fyrrum borga má glögglega enn sjá neðstu steinaröðina.

Gamlivegur

Gamlivegur.

Eftir að hafa skoðað Lúsaborgina var haldið eftir Gamlavegi að „Hestaslóðinni“ ofan Breiðagerðis skammt ofan Vatnsleysustrandarvegar. Um er að ræða u.þ.b. eitt hundrað metra langan vegbút, púkkaðan á kafla. Greinilega hefur þarna verið unnið í atvinnubótavinnu eitthvert sumarið um og eftir aldamótin nítján hundruð. Ekki er ólíklegt að búturinn hafi átt að vera hluti „Eiríksvegar“, púkkaðan vagnveg, sem en má sjá ofan Vatnsleysu og Flekkuvíkur. Vagnvegurinn sá var liður í úrbótum á Almenningsveginum frá Kúagerði áleiðis að Arnarvörðu. Slíkan „bútasaum“ má víða sjá á og við hinu fornu götur á Reykjanesskaganum. Svo er að sjá að lagt hafi verið í upphafi með stórtæk markmið í úrbótum í vegagerðarmálum fyrir gangandi og ríðandi, en bæði vegna breytts breytanda í atvinnumálum og samgöngum, virðast þau einfaldlega hafa gufað upp og önnur markmið verið sett í forgang. Vegakaflarnir í heiðinni ofan Vatnsleysubæjanna eru ágætt dæmi um framangreint. Þeir teljast til fornleifa, en einhverra hluta vegna er þeirra ekki gerð skil í fornleifaskráningu af svæðinu.

Hestaslóðin

Hestaslóðin ofan Breiðagerðis.

Í „Örnefni og gönguleiðir“ segir: „Austur af Auðnaborg og beint upp af Skálholti (séð frá bænum Höfða) eru hólar sem heita Vatnshólar, við þá safnast vatn í rigningartíð. Á þessu svæði eru örnefni sem ekki var hægt að staðsetja vegna óljósra heimilda, s.s. Hrúthóll og Breiðagerðislatur eða Latur og eins geta þau verið fyrir ofan Reykjanesbraut sem neðan.
Rétt fyrir ofan syðstu sumarbústaðina í Breiðagerði er nokkuð áberandi varða og fast neðan hennar komum við á Hestaslóðina sem svo var nefnd. Þetta er nokkuð breiður vegur, flórlagður á köflum og hefur verið lagður með hestvagnanotkun í huga. Almenningsvegurinn er að mestu horfinn á þessu svæði vegna nýrri tíma framkvæmda.“
Ljóst er að vegstubburinn hefur átt að verða samgöngubót um sveitina ofanverða, að öllum líkindum væntanlegt framhald Eiríksvegar (Almenningsvegar) til Voga. Vestan Voga, áleiðis upp á Vogastapa og áfram á kafla til Njarðvíkur má sjá slíkar vegabætur. Við nútímaframkvæmdir, því miður, eru þetta fyrstu fornleifarnar sem eru látnar lönd og leið.

Heimildir:
-Aðalskráning fornleifa í Sveitarfélaginu Vogum – Áfangaskýrsla I, Fornleifastofnun Íslands, Reykjavík 2011.
-Aðalskráning fornleifa í Sveitarfélaginu Vogum – Áfangaskýrsla III, Fornleifastofnun Íslands, Reykjavík 2016.
-Örnefni og gönguleiðir í Vatnsleysustrandarhreppi (ofan Gamla-Keflavíkurvegarins), Sesselja G. Guðmundsdóttir, 2007.

Hestaslóðin

Hestaslóðin ofan Breiðagerðis.

Auðnaborg

Í „Örnefni og gönguleiðir í Vatnsleysustrandarhreppi (ofan Gamla-Keflavíkurvegarins)„, segir m.a. um Auðnaborg og nágrenni í heiðinni milli Vatnsleystrandarvegar og Reykjanesbrautar: „Upp og suður af Skálholti er Auðnaborg í grasmóa sunnan í hól. Þar er nokkuð heilleg fjárrétt með stórum almenningi og tveimur dilkum en uppi á hólnum við réttina eru rústir af tveimur kofum. Lítill stekkur er rétt neðan og vestan við borgina en engar heimildir eru til um nafn hans.

Auðnaborg

Auðnaborg.

Austur af Auðnaborg og beint upp af Skálholti (séð frá bænum Höfða) eru hólar sem heita Vatnshólar, við þá safnast vatn í rigningartíð. Á þessu svæði eru örnefni sem ekki var hægt að staðsetja vegna óljósra heimilda, s.s. Hrúthóll og Breiðagerðislatur eða Latur og eins geta þau verið fyrir ofan Reykjanesbraut sem neðan.

Hestaslóðin

Hestaslóðin flóraða ofan Breiðagerðis.

Rétt fyrir ofan syðstu sumarbústaðina í Breiðagerði er nokkuð áberandi varða og fast neðan hennar komum við á Hestaslóðina sem svo var nefnd. Þetta er nokkuð breiður vegur, flórlagður á köflum og hefur verið lagður með hestvagnanotkun í huga. Almenningsvegurinn er að mestu horfinn á þessu svæði vegna nýrri tíma framkvæmda.
Hér í krappri beygju Strandarvegar erum við komin að Gamlavegi en hann liggur frá Breiðagerði svo til beint yfir heiðina og mætir bílveginum aftur nokkuð fyrir sunnan Brunnastaðahverfi.

Gamlivegur

Gamlivegur.

Víða er um kílómeters leið frá bæjum að Gamlavegi sem þótti langt enda um klappir og holt að fara, oft með þungar byrðar. Bændur höfðu þar hver sitt hlið og brúsapall og á einstaka stað má enn sjá merki um hlið og götu frá veginum í átt til bæja. Strandarbændur undu ekki vegarstæðinu og börðust hart fyrir vegi nær byggðinni. Árið 1930 var, eins og fyrr segir, nýr vegur gerður og Gamlivegur lagður af með lítilli eftirsjá búenda í Ásláksstaða-, Hlöðunes- og Brunnastaðahverfi. Nú er Gamlivegur notaður sem reiðvegur.“

Auðnaborg

Auðnaborg.

Hestaslóðin flóraða sést á u.þ.b. 100 metra löngum kafla ofan Breiðagerðis. Svo virðist sem kaflinn hafi átt að verða hluti af Eiríksveginum svonefnda ofan Vatnsleysu og Flekkuvíkur, mjög líklega unninn í atvinnubótavinnu á sínum tíma.

Á framangreindu svæði eru u.þ.b. 10 fjárborgir, s.s. Staðarborg, þrjár borgir sunnan og suðaustan hennar, Þórustaðaborg, Borgin ofan Breiðagerðis, Lynghólsborg, Hringurinn og Gíslaborg.

Sauðholt

Sauðholt – beitarhús.

Í heiðinni, milli Auðnaborgar og Lynghólsborgar, ofan Knarrarness, eru þrjár samliggjandi beitarhúsatóftir á grónum klapparhrygg, svonefndum Sauðholt. Getið er um Sauðholt í örnefnalýsingu Kristjáns Eiríkssonar fyrir Knarrarnes, sbr. „Upp af Vorkvíum er Krummhóll og var vörðubrot á honum. – Grasigróinn hóll, þýfður og svolítið toppmyndaður, er rétt suðaustan Krummhóls. Hann heitir Borg – Svolítil lægð er milli Borgar og Krummhóls. Lynghóll er vestur af Krummhól. Flatir eru ofan við Borgina og ofan þeirra Sauðholt (ft)“. Fjallað verður um tóftirnar í Sauðholtum síðar.

Auðnaborg

Auðnaborg.

Í „Aðalskráningu fornleifa í Sveitarfélaginu Vogum„, Áfangaskýrslu I, er Auðnaborginni lýst: „“Hrúthóll heitir klapparhóll og Vatnshólar og svo er Auðnaborg fjárborg,“ segir í örnefnaskrá. Minjarnar eru um 1 km suðaustan við bæ. Þær eru á og við grösugan hól í hraunmóa með moldarflögum.
Minjarnar eru á svæði sem er um 36×28 m að stærð og snýr norðvestur-suðaustur. Vestast á svæðinu er tóft A. Hún er einföld og er um 6×4 m að stærð. Hún snýr norðaustur suðvestur. Inngangur er inn í hana úr suðvestri. Mögulegt er að tóftin hafi verið tvískipt en hún er ógreinileg í suðvesturenda. Mesta hleðsluhæð er um 0,5 m. Tóftin er gróin og ekki sést grjót í veggjum.

Auðnaborg

Auðnaborg – teikning.

Tóft B er fast norðvestan við tóft A og er hún uppi á hæsta hólnum. Hún er um 3×3 m að stærð og er einföld. Inngangur er í suðvesturenda. Mesta hleðsluhæð er um 0,4 m en tóftin er gróin og ekki sést í grjót í veggjum. Fast norðan tóft B er afar ógreinileg tóft C. Hún er einföld, er um 3×2 m að stærð, snýr norðvestur-suðaustur. Mesta hleðsluhæð um 0,3 m. Ekki sést í grjót í veggjum. Tóftin er opin til suðvesturs. Um 2 m norðan við C er tóft D, líklega stekkurinn sem talað er um í Örnefni og gönguleiðir. Hann er einfaldur og er um 3×4 m að stærð, snýr suðvestur-norðaustur. Inngangur er í norðurhorni. Mesta hleðsluhæð tóftar D er um 0,5 m. Hún er algróin og nokkuð hlaupin í þúfur. Gróður er hvað dekkstur á henni sem bendir líklega til þess að styst sé síðan hún var í notkun og að hún sé líkega yngri en aðrar tóftir á svæðinu. Neðan við hólinn sem tóftir B og C eru á, til norðausturs, er lítil renna E sem kann að vera manngerð. Hún er um 3×1 m að innanmáli og snýr suðaustur-norðvestur. Suðvestan við tóftirnar er stór og grjóthlaðin rétt F sem skiptist í 4 hólf. Réttin er um 36×20 m að stærð og snýr norðvestur-suðaustur. Mesta hleðsluhæð réttar er um 1,2 m og sjást 6 umför. Víðast eru þó hleðslur lægri.“

Alfaraleið

Alfaraleiðin um Draugadali.

Um Alfaraleiðina segir: „Um jörðina [Hvassahraun] hafa frá alda öðli legið ferðamannaleiðir til Suðurnesja. Má enn sjá þrjár brautir: Alfaraleið, troðninga hestalestanna, þjóðveginn, leið hestvagna og bifreiða, og nú síðast liggur um jörðina, Reykjanesbrautin,“ segir í örnefnaskrá. „Almenningavegurinn er elsta sjáanlega samgönguleiðin um hreppinn og liggur hún víðast hvar tiltölulega stutt frá byggð, þó yfirleitt ofan við Gamla-Keflavíkurveginn [heitir líka Strandarvegur] og innarlega í Hvassahraunslandi einnig fyrir ofan Reykjanesbrautina. […]

Almenningsvegur (Eiríksvegur) um Vatnsleysuströnd.

Almenningsvegur ofan Vatnsleysu.

Nafnið Almenningsvegur, yfir gömlu þjóðleiðina, virðist helst hafa verið notað af Voga- og Vatnsleysustrandarbúum og trúlega líka búendum utar á skaganum því þar sem vegurinn liggur um Hvassahraunsland og innar var hann frekar kallaður Alfaraleiðin,“ segir í Örnefnum og gönguleiðum. „Önnur gömul þjóðleið, eða sú sem liggur með sjónum milli Voga og Brunnastaðahverfis, var einnig kölluð Alfaraleið en ekki Almenningsvegur,“ segir í örnefnalýsingu Straums. „Þá liggur hér vestur um hraunið Alfaraleiðin í miklum djúpum lægðum, sem nefnast Draugadalir,“ segir í örnefnalýsingu Hvassahrauns. Draugadalir eru að mestu í landi Hvassahrauns. Dalirnir eru norðan Reykjanesbrautar, þar sem vegurinn sem er samsíða Reykjanesbraut norðan hennar sameinast brautinni, austarlega í landi Hvassahrauns. Ekki er greinilegur slóði á þessum stað en Alfaraleiðin er vel merkjanleg víða í hrauninu, t.d. nálægt skógarreit í landi Þorbjarnarstaða. Gatan liggur um hraun.

Alemmningsvegur

Almenningsvegur – Arnarhóll.

Almenningsvegurinn var einnig nefndur Alfaraleið og lá frá Vogum og inn í Hafnarfjörð. Leiðin var vörðuð og enn má sjá nokkur vörðubrot á fyrsta hluta leiðarinnar frá Vogum auk þess sem einstaka vörður standa enn við leiðina.
Gatan sjálf er víða greinileg sem dæld í gróið hraunið og kemur breikkun Reykjanesbrautar víða til með að eyða meira af götunni en þegar er skemmt. Við aðalskráningu Kálfatjarnarhverfis og Flekkuvíkur árið 2008 var leiðin skoðuð í landi Flekkuvíkur þar sem leiðin liggur um hraunið og krækir fyrir hól sem Arnarvarða stendur á. Þar er gatan mjög mjó en breikkar þar sem hún heldur áfram til norðausturs.“

Hvorki er minnst á kafla „Hestaslóðarinnar“ fyrrnefndu né beitarhús á Sauðholtum í fornleifaskráningunni.

Heimildir:
-Örnefni og gönguleiðir í Vatnsleysustrandarhreppi (ofan Gamla-Keflavíkurvegarins), Sesselja G. Guðmundsdóttir, 2. útgáfa 2007.
-Aðalskráning fornleifa í Sveitarfélaginu Vogum – Áfangaskýrsla I, Fornleifastofnun Íslands, Reykjavík 2011.
-Örnefnalýsing Kristjáns Eiríkssonar fyrir Knarrarnes.

Vatnsleysuströnd

Almenningsvegur – Eiríksvegur ofan Vatnsleysu.

Ólafur Erlendsson

Gengið var frá Auðnum um Þórustaði og kotin í kringum Kálfatjörn skoðuð.

KálfatjörnTil hliðsjónar á göngunni var höfð bók Jóns Thorarensens frá Kotvogi, Litla skinnið. Í henni er ljóslifandi frásögn og lýsing Kristleifs Þorsteinssonar árið 1938 frá verinu, sjávarútvegi á Vatnsleysuströnd um 1880 og mannlífinu þar á þeim tíma. Hann lýsir auk þess bæjunum og fólkinu, sem þar bjó. Þá nafngreinir Kristleifur kotin, sem nú standa eftir sem tóftir einar. FERLIR gekk síðar um svæðið í fylgd Ólafs Erlendssonar frá Kálfatjörn þar sem hann lýsti staðsetningu þessara sömu kota. Af því tilefni var gerður uppdráttur af svæðinu eftir lýsingu Ólafs.

Kálfatjörn

Kálfatjörn – uppdráttur ÓSÁ.

Kristleifur skrifaði um sjávarútveg og vermenn við sunnanverðan Faxaflóa á síðari helmingi 19. aldar í Héraðssögu Borgarfjarðar. Þar minnist hann á eitt og annað, sem viðkom sjómennsku og sjósókn í gömlum stíl. Í frásögn sinni í Litla skinninu bætir hann um betur og byggir hann hana að mestu á eigin sjón og raun. Hann reri sex vetrarvertíðir frá Auðnum um og eftir 1880. Um heimilislífið að Auðnum ritaði Kristleifur m.a. sagnaþátt, sem enn er til. Hann ritaði einnig um ferð sína í verið 1881, þar sem að sumu leyti varð fyrsti þáttur hans í vermennskunni, þar sem lýst er hvernig aðstaða manna var við að komast til sjávar í vetrarharðindum.
Kristleifur var í vist hjá Guðmundi bónda Guðmundssyni. Sá var þá fertugur, með skeggkraga um kjálka. Mætti það vel enn vera einkennismerki Vatnsleysustrandarbúa, enda yrði eftir því tekið. Kona hans hét Anna Pálsdóttir, þrekvaxin með glóbjart hár. Þannig eru líka alvöru Vatnsleysustrandarkonur enn þann dag í dag. Sagt var að þau hjónin hafi ekki borið hag annarra mikið fyrir brjósti, enda urðu menn að duga eða drepast, eða það sögu a.m.k. þeir er betur máttu sín á þeim tíma – og gera kannski ennþá.

AuðnarÍbúðarhúsið að Auðnum var úr timbri. Keypti Guðmundur allt timbrið í húsið á uppboði, sem haldið var í Höfnum eftir að skip eitt (Jamestown) rak þar og fór í strand, hlaðið Ameríkutimbri. Ólafur Ketilsson, fræðimaður, ritaði um það fræga strand. Tekið var til þess hver ósköp af úrvals timbri kom með skipi þessu, og nutu margir bændur við sjávarsíðuna þar góðs af.

Sagt var að Auðnahús hafi allt verið klætt að utan með breiðum og löngum plönkum, sem voru þrír þumlungar á þykkt, en kostuðu aðeins eina krónu hver planki, að meðaltali. Ekki var hús þetta járnvarið, enda var timbrið svo hart, að vatn gekk naumast í það.

Norðurkot

Norðurkot – brunnur.

Gamlir íhaldssamir bændur, sem bjuggu þá í lágreistum torfbæjum, kölluðu hús þetta stórskrínu og byggðu það nafn á lögun þess og fór það ekki fjarri sanni. Stórskrínur voru þá alþekktar við sjóinn, voru langir og mjóir kassar, nokkuð hærri á aðra hlið. Báru menn eitt og annað sjófang í skrínum þessum.
Stígur lá frá íbúðarhúsinu til sjávar, sjávargata. Við þann stíg stóð hið óæðra sjómannaskýli, sjálf verbúðin. Í henni voru 20 sjómenn. Verbúð þessi var öll af torfi, löng og mjó, lágreist og hrörleg, en ekki mjög köld. Rúmfleti voru meðfram báðum miðveggjum og tveir menn í hvoru rúmi, og lágu þeir andfætis, voru það vanalegast hlutalagsmenn.
Þanghlaði mikill tyrftur og hlaðinn upp sem hey, stóð þar ekki langt frá verbúðinni. Var það mest notað til eldsneytis, en sjómenn máttu leysa sér nokkra visk úr þessum þanghlöðum og bera í fleti sín og breiða það á rúmbálkinn, og skyldi koma í stað undirsængur.

Kálfatjörn

Steinbrú á kirkjustígnum að Kálfatjörn.

Skinnklæði, fatnaður og verskrína var nefnt færur, einu nafni. Færurnar þurftu í síðasta lagi að vera komnar jafnsnemma sjómönnum á heimili útvegsbónda, þess er hjá var róið, annars stóðu menn uppi ráðalausir.
Sjóklæðin þurftu að vera þar sem hægt var að ganga að þeim, hvenær sem til þeirra átti að taka, eins þótt dimmt væri. Allir sem gerðu sig út sjálfir, átu samkvæmt fornum og föstum reglum að sjá sér farborða bæði á sjó og landi, með fæði og klæði, að öðru leyti en því, að útvegsbóndinn lagði vermönnum til kaffi og vökvun. Þá urði vermenn að leggja til eitt net. Netasteinar voru tíndir úr fjörugrjóti og aðeins höggvin laut um miðjan steininn, svo hann tylldi betur í steinalykkjunum.

KálfatjarnarhverfiNorðan við lendingarstaðinn voru “bólverk” til fiskverkunar. Var þar hlaðinn garður úr stórgrýti til varnar sjávargangi. Að þeim garði unnu sjómenn í landlegum, endurgjaldslaust. Á hann voru bornir þorskhausar, rifnir upp og raðað á grúfu. Þar voru þeir í nokkra daga til að harðna. Þegar búið var að höggva hausana upp, var þeim hlaðið í garða.
Þegar róðrar hófust og alla vertíðina, var risið árla úr rekkju, ekki seinna en klukka að ganga fjögur. Settu formenn upp sjóhatta sína, buðu góðan daginn, en höfðu ekki fleiri orð um það. Hatturinn gaf til kynna, hvað fyrir lá. Ekki voru menn hlutgengir, sem ekki gátu farið í brókina standandi og án stuðnings, en flestir munu þó hafa stuðst við hús, skip eða garð er þeir bundu á sig sjóskóna. Þegar formaður sá alla sína háseta standa skinnklædda umhverfis skipið, hvern við sitt rúm, signdi hann yfir skutinn og mælti: “Setjum nú fram, í Jesú nafni.” Hlunnar voru settir niður og skipinu ýtt fram.

Kálfatjörn

Goðhóll.

Allan fisk, sem á skip kom, urðu hásetar að bera upp fyrir flæðamál áður en skiptvar. Þegar skiptu var lokið var tekið kappsamlega til við aðgerð og skipt verkum. Þegar aðgerð var lokið var hvaðeina á sínum stað, hausarnir á grjótgarðinum, fiskurinn saltaður í stafla, lifrin í köggum, gotan í tunnum og slorið, sem síðast var borið í sína ljótu for. Sundmaginn var skafinn vel og vandlega og hann breiddur á grjótgarða og látinn þorna þar, en síðan dreginn upp á snæri í langar seilar.
Ekki var róið á helgidögum og kirkja jafnan sótt að Kálfatjörn, svo vel að fólk þyrptist þangað flesta messudaga, þegar veður leyfðu.

KálfatjörnFöst venja var að sjómenn gæfu þjónustufisk á sumardaginn fyrsta. Sumar konur höfðu allt að 16 karlmenn í þjónustu um vertíðina og höfðu þær ærinn starfa þessutan, því alla daga unnu þær, auk inniverka, að fiskaðgerð og á þeim lenti venjulega að bera slor og hausa á sinn stað.
Landbúnaður að Auðnum bjó mjög á hakanum, a.m.k. um vertíðina. Hugurinn var alveg óskiptur við þau efni. Hross og sauðfé varð að eiga sig að mestu. Tíðarfarið réð alveg úrslitum um það. Hrundi fé því niður í harðindum, en það var sama sagan hjá öllum er ætluðu skepnum útigang.

Kálfatjörn

Kálfatjörn – sjóbúð.

Hverfin voru Auðanhverfi og Kálfatjarnarhverfi. Heimilsfeðurnir voru 23 og sýnir vel hversu fólkið var nægjusamt og gerði litlar kröfur til lífsins, því að af landsnyt var þafna ekki mikið að hafa.
Breiðagerði var tvíbýlt. Höfði átti enga fleytu og reri fyrir sínum hlut á skipu Auðnamanna. Höfði átti sexmannafar og var formaðurinn sjóslarkari og gapi að sigla, að með fádæmum þótti. Landakot var miðstöð andlegrar menningar. Bergskot, öðru nafni Borghús, var búið af Þorkeli Jónssyni frá Flekkuvíkm dugnaðarmanni. Hellukot var þurrabúð. Væmdi flesta við koti þessu, mest fyrir hrossaketið, sem flestir hötuðu og liðu fremur sáran sult heldur en að leggja sér til munns. Gata hét þurrabúð milli Þórustaða og Landakots.

KálfatjörnÁður en fór að fiskast á vertíðinni lifði fólkið þar eingöngu á þurrum rúgkökum, vatnsgraut og svörtu kaffi. Áttu það ekki sjö dagana sæla. Þórustaðir var næst miðja vegu milli Auðna og Kálfatjarnar. Þar var þá tvíbýli. Heimslánið sýndist brosa hjá fólkinu, en fljótt skýjaði hjá því, börnin dóu. Norðurkot var þurrabúð, norðanmegin við Þórustaði. Bóndinn var meðhjálpari í Kálfatjarnarkirkju. Tíðargerði var þurrabúð rétt hjá Norðurkoti. Goðhóll var þar við sjóinn niður frá Tíðargerði.

Kálfatjörn

Kálfatjörn – túnakort 1919.

Harðangur var þurrabúð rétt hjá Tíðargerði. Hlið var þurrabúð rétt utan við Kálfatjarnartúnið. Þar var með konu sinni Halldór Egilsson. Kálfatjörn, kirkjustaðurinn og prestsetrið, bar þá mjög af byggðinni í kring, sem ekkert var annað en torfbæir og þeir flestir hrörlegir og lágreistir, að þeir líktust meir hesthúskofum, eins og þeir voru þá í sveitum, heldur en bæjum. Á Kálfatjörn var þá timburkirkja og íveruhús úr timbri. Hátún, Fjósakot, Naustakot og Móakot eru talin í jarðamati 1850 hjáleigur frá Kálfatjörn. Bakki stóð við sjóinn, lítið innar en Kálfatjörn. Litlibær var þurrabúð litlu sunnar en Bakki. Bjarg var þurrabúð skammt frá Litlabæ. Þá eru enn ótalin tvö þurrabúðarkot rétt hjá Auðnum: Hóll og Ólafsbúð, sem var sunnanmegin við Auðna. Gárungar kölluðu Hól stundum Trafhóla vegna þess að þar blöktu stundum hvít línklæði á snúrum, en í þá daga var slíkt fátítt hjá þurrabúðarfólki og jafnvel stórbændum var slíkt í smáum stíl.

Kálfatjörn

Kálfatjörn um 1960.

Hlandforðir voru við bæi og hús. Voru þær hlaðnar að innan úr grjóti og náðu barmar þeirra lítið sem ekkert hærra en yfirborð jarðar umhverfis þær. Voru slíkar forir á sumum stöðum háskalegar bæði mönnum og skepnum.
Þegar dagur lengdist, veður hlýnuðu og vorið gekk í garð, hýrnaði yfir sjómönnunum, verbúðirnar urðu hlýrri og hrakreisur á sjónum færri. Lokadagurinn 11. maí var sá stóri dagur, sem bæði var blandinn von og söknuði. Erfitt var að skilja við félagana, sem tengst höfðu tryggðarböndum við erfiðar aðstæður og lifað þær af, auk þess sem hausana af hlutnum ásamt trosfiski urðu sjómennirnir að taka með sér með einhverju lagi.

Kálfatjörn

Sjóhús við Kálfatjarnarvör.

Frábær lýsing og fróðlegt að bera hana við þær aðstæður, sem fyrir eru við Auðna og Kálfatjörn. Tóftir þurrabúðanna, kotanna og bæjanna eru enn sýnilegar, sjávargötur má enn merkja og minjar við varirnar og lendingarnar eru enn á sínum stað. Spurningin er bara sú hvort nútímafólkið kunni enn að lesa það land, sem lýst var þarna fyrir einungis 125 árum síðan.
Frábært veður. Gangan tók 2 klst og 2 mín.

Heimild m.a.:
-Litla skinnið – Jón Thorarensen frá Kotvogi – 1982 – Í verinu, lýsing Kristleifs Þorsteinssonar 1938 á sjávarútvegi á Vatnsleysuströnd um 1880.

Kálfatjörn

Kálfatjörn – uppdráttur ÓSÁ.

Borg

Í bók Sesselju Guðmundsdóttur, „Örnefni og gönguleiðir í Vatnsleysustrandarhreppi (ofan Gamla-Keflavíkurvegarins)„, segir m.a. um fjárborg, fjárhús og stekk ofan Breiðagerðis og Höfða:

Borg

Borg ofan Breiðagerðis.

„Rétt sunnan og ofan við vegamót Gamlavegar og Strandarvegar í Breiðagerði er Krummhóll með uppmjórri vörðu á og í framhaldi og upp af honum kemur svo Borg en það er langt holt nokkuð gróið og þar gæti hafa verið fjárborg fyrrum. Ofarlega í holtinu eru rústir af beitarhúsum, tvær tóftir hlið við hlið og ein þvert á þær. Aðeins neðar er greinilega nýrri fjárhústóft. Rétt ofan og austan við efri rústirnar finnum við lítið vatnsstæði í klöpp, vel falið í viki norðan undir lágum hólum.
Fyrir ofan og austan Borg er stekkur sem heitir Litlistekkur en það örnefni segja heimildir að sé í Breiðagerðislandi.

Breiðagerðisskjólgarður

Breiðagerðisskjólgarður.

Drjúgan veg ofan Borgar eða rúmlega miðja vegu að Reykjanesbraut eru tveir Geldingahólar með um 300 m bili. Nyrðri-Geldingahóll eða Eystri-Geldingahóll og Syðri-Geldingahóll eða Vestri-Geldingahóll en um þann nyrðri eru landamerki Knarrarness og Breiðagerðis og er sá stærri og grónari en syðri hóllinn. Hólarnir eru nokkuð áberandi í heiðinni og þó sérstaklega séðir frá Reykjanesbraut.
Austur af Nyrðri-Geldingahól er langur klapparhryggur og á honum eru leifar af krossgarði (skjólgarði) fyrir fé. Garðurinn heitir Breiðagerðisskjólgarður og sést hann nokkuð vel af Reykjanesbraut sem löng grjótþúst á holti. Skjólgarðurinn er nefndur í landamerkjabréfum Breiðagerðis og Auðna.“

Borg

Borg ofan Breiðagerðis.

Í „Aðalskráningu fornleifa í Sveitarfélaginu Vogum, Áfangaskýrslu II„, segir um Borgina: „Upp af Vorkvíum er Krummahóll og var vörðubrot á honum. – Grasigróinn hóll, þýfður og svolítið toppmyndaður, er rétt suðaustan Krummahóls. Hann heitir Borg. Svolítil lægð er milli Borgar og Krummhóls,“ segir í örnefnaskrá.
Heimildum kemur ekki saman um örnefnið Borg. Niðurstöður vettvangskönnunar eru að örnefnið Borg eigi við um fjárborg sem hefur verið breytt í stekk á einhverjum tímapunkti. Minjarnar eru sunnarlega á löngu og háu holti sem snýr norður-suður. Holtið er í nokkuð gróinni hraunheiði, í hraunklapparmóa.

Litlistekkur

Litlistekkur.

Lögun tóftarinnar og örnefnið Borg bendir til þess að þarna hafi áður verið fjárborg. Annað dæmi um fjárborg sem virðist hafa verið breytt í stekk er t.d. Þórustaðaborg og Vatnabergsstekkur/Vatnaborg. Tóftin myndar dálítinn hól og er orðin óskýr.“

Í sömu skráningur segir m.a. um Litlastekk: „Stekkurinn er norðaustan undir allháum, grónum hraunhól, ofarlega í heiðinni. Dálítill grösugur kragi er umhverfis stekkinn og hólinn. Svo virðist sem tvö byggingarstig séu í Litlastekk. Tvískipt grjóthlaðin stekkjartóft, virðist vera hlaðin inn í eldri gróna tóft, sem er um 9×6 m að stærð og snýr SSA-NNV. Í SSA-enda eldri tóftarinnar er eitt nokkuð skýrt en gróið hólf sem er um 1×1,5 m að innanmáli og snýr norðaustur-suðvestur.“

Beitarhús

Beitarhús ofan Höfða.

Í „Aðalskráningu fornleifa í Sveitarfélaginu Vogum, Áfangaskýrslu I“ segir um beitarhús á grónum hól skammt austan við Borg: „Um 300 m vestur af Skálholti og stuttu ofan við Strandarveginn er fjárhústóft á grónum hól. Fjárhústóft er á hólnum, sem er í hraunmóa með moldarflögum. Næst tóftinni er grasi vaxið og þýft.
Tóftin skiptist í fjögur hólf og er líklega torf og grjóthlaðin. Hún er um 13×9 m að stærð, snýr austur-vestur. Vestast er hólf I og er gengið inn í tóftina um það hólf í vesturenda. Það er um 2×3,5 m að innanmáli og snýr austur-vestur.

Beitarhús

Beitarhús ofan Höfða.

Mikið grjóthrun er inni í hólfinu. Næst austan við það er lítið hólf II sem er um 2×1 m að innanmáli og snýr austur-vestur. Ekki sjást op á því. Hólf III er í austurenda og er það um 4×4 m að innanmáli. Veggir þess eru víðast mjög signir. Óljós inngangur er í austurenda hólfsins. Hólf IV er fast sunnan við hólf I. Það er í brekku og er um 2×3 m að stærð. Það snýr norðvestur-suðaustur og er óljós inngangur í norðausturenda. Mesta hleðsluhæð tóftar er um 0,6 m.“
Búið er að planta grenitrjám við tóftirnar.

Breiðagerðisskjólgarður

Breiðagerðisskjólgarður – uppdráttur.

Í sömu skráningu segir um Breiðagerðisskjólgarð: „Þar var í Heiðinni Litlistekkur og Breiðagerðisskjólgarður,“ segir í örnefnaskrá. Skjólgarðurinn er um 1,7 km suðaustan við bæ. Skjólgarðurinn er á háum hól sunnarlega á holti í hraunklapparmóa. Fremur lítill gróður er á þessum slóðum.
Landið lækkar til suðurs niður af holtinu og sést vel af því að Reykjanesbraut.
Grjóthlaðinn skjólgarðurinn er um 11×11 m að stærð. Hleðslan er hrunin og er mesta veggjabreidd um 2 m og mesta hæð um 0,5 m. Mest sjást 2 umför hleðslu. Hleðslan myndar kross og snýr annar armur hans norður-suður en hinn austur-vestur. „

Neðarlega í heiðinni var gengið fram á leifar af þremur hlöðnum refagildrum í misjöfnu ástandi. Í fyrstu virtist vera um fallnar vörður að ræða, en við nánari skoðun, m.a. af umfangi og lögun, virðist augljóst að um refagildrur var ræða. Þær voru í lægðum á milli klapparhæða.

Gangan tók 1 klst og 11. mín. Frábært veður.

Heimildir:
-Örnefni og gönguleiðir í Vatnsleysustrandarhreppi (ofan Gamla-Keflavíkurvegarins), Sesselja G. Guðmundsdóttir,
2. útgáfa 2007.
-Aðalskráning fornleifa í Sveitarfélaginu Vogum – Áfangaskýrsla I, Fornleifastofnun Íslands, Reykjavík 2011.
-Aðalskráning fornleifa í Sveitarfélaginu Vogum – Áfangaskýrsla II, Fornleifastofnun Íslands, Reykjavík 2014.

Refagildra

Refagildra ofan Höfða.

Kálfatjörn

Hér verður fjallað um hverfin í „Vatnsleysustrandarhreppi„.  Sögulegt efnið er fengið úr skýrslu Óbyggðanefndar frá árinu 2004 eftir úrskurð nefndarinnar um eignarhald á jörðum í hreppnum. Taka ber það þó með hæfilegum fyrirvara.

Landakot

Landakot

Landakot.

Samkvæmt fógetareikningum frá 1547 – 1548 var Landakot í eigu Viðeyjarklausturs.
Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalíns segir um Landakot árið 1703: „Landakot hálflenda so kölluð, því hún hefur ekki fyrirsvar, nema til helmíngs á móts við lögbýlisjarðir“.
Árið 1755 voru jarðir í Vatnsleysustrandarhreppi metnar. Í skýrslunni um Landakot kom m.a. fram að: „Selstade fölger Jorden som Aarlig Forbruges, Men Græsgang Gandske lidet andet end som haves udi berörte Selstade, Hvoraf flyder Huusse og Höe Torve Mangel“ …
Í ritinu Jarðatal á Íslandi, eftir J. Johnsen, kemur fram að konungsjörðin Landakot hafi verið seld þann 13. júní 1838.
Í Jarðamati 1849 – 1850 stendur m.a. um jörðina Landakot: „… Hagbeit sumar og vetur sæmileg í óskiptu landi utangarða“. …

Landakot

Landakot – loftmynd.

Landamerkjabréf Landakots var undirritað 12. júní 1886 og þinglesið þremur dögum síðar:
Landakoti á Vatnsleysuströnd tilheyrir land allt með gögnum og gæðum milli Þórustaða að norðanverðu og Auðnahverfis-jarðanna Auðna, Höfða og Bergskots að sunnanverðu. – Landamerkin eru þessi:
1. Milli Þórustaða að norðanverðu og Landakots að sunnanverðu eru þessi landamerki: Sundsker, sem tilheyrir báðum jörðunum að helmingi hvorri; þaðan um hinar svonefndu Markaflúðir, sem liggja á sandinum, beina stefnu í brunninn Djúpugröf; þaðan eptir eptir markasteinum og gömlu garðarlagi, sem aðskilur tún jarðanna, allt upp að túngarði; þaðan beina stefnu eptir vörðum upp eptir heiðinni sunnanvert í rætur Keilisalla leið að landi Krýsivíkur í Grindavíkurhreppi.
Landakot
2. Að sunnanverðu milli Landakots og Auðnahverfis (nefnil. Auðna, Höfða og Bergskots) eru landamerkin: fyrir neðan flæðarmál: „Markaós, sem er austasti ósinn; er gengur inn úr aðalós þeim, sem liggur í milli Landakotstanga og Sílalónsskers. Fyrir ofan flæðarmál eru mörkin við suðurenda stakkstæðis, sem Landakoti tilheyrir, og um krók eða hlykk þann, er sjávargarðar Landakots og Auðna mynda, þar sem þeir mætast; þaðan eptir járnþráðargirðingu í syðsta horn á sjávarkálgarði Landakots; þaðan um Brunnhóla sunnanverða eptir grjótgarði, sem þar er hlaðinn; þaðan eptir gömlu torfgarðlagi og járnþráðargirðingu um sunnanverðan Landakotshól; þaðan út að túngarði eptir gömlu grjótgarðlagi og járnþráðargirðingu, þaðan um Skálholt sunnanvert og um sunnanverða Auðnaklofninga yfir Stórhæð; þaðan í Klofa og eptir þeirri stefnu spölkorn fyrir sunnan Keilir, allt að landi Krýsivíkur í Grindavíkurhreppi“. Þetta landamerkjabréf var samþykkt af eigendum Auðnahverfis og eiganda hálfra Þórustaða.
Í kaflanum um Landakot í fasteignamati 1916 – 1918 er greint frá landamerkjum jarðarinnar: „að sunnan ræður landamerki Auðnalands. Að norðan í 2 flúðir í fjöru sem nefnast markaflúðir, þaðan uppeftir grjótgarði milli Þórustaða og Landakots, þaðan sjónhending eftir vörðum upp heiðina alt til fjalls.“
Á öðrum stað í sama riti kemur fram að bærinn Tíðagerði, sem er í eigu eiganda Landakots, deili heiðarlandi og hagbeit með þeirri jörð.

Þórustaðir

Þórustaðir

Þórustaðir – loftmynd. Kálfatjörn fjær.

Samkvæmt fógetareikningum frá 1547 – 1548 voru Þórustaðir í eigu Viðeyjarklausturs.
Samkvæmt Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalíns áttu Þórustaðir selstöðu á Fornuselshæðum í landi Kálfatjarnar: „Selstöðu á jörðin þar sem kallaðar eru Fornuselshæðir, þar eru hagar næsta að þrotum komnir, en vatnsból so lakt, að fyrir þann skort er selstaðan aflögð orðin, og hefur því bóndinn selstöðu að annara láni með miklum óhægðum og lángt í burtu“.
Þórustöðum fylgdu hjáleigurnar; Norðurhjáleiga og Suðurhjáleiga.

Þórustaðaborg

Þórustaðaborg.

Árið 1755 voru jarðir í Vatnsleysustrandarhreppi metnar. Í matsgerðinni um Þórustaði stendur m.a.: „Selstade Fölger Jorden som Aarligen Forbruges, men anden Græsgang er meget liden“…
Þann 19. apríl 1837 hvarf jörðin Þórustaðir úr eigu konungs.
Í Jarðamati 1849 – 1850 stendur m.a. um jörðina Þórustaði: „… Hagbeit sumar og vetur sæmileg í óskiptu landi utangarða“.

Landamerkjabréf Þórustaða var undirritað 27. maí 1886. Bréfið var þinglesið 15. júní 1886. Samkvæmt því eru landamerki jarðarinnar eftirfarandi: Þórustöðum tilheyrir land allt með gögnum og gæðum til lands og sjávar milli Kálfatjarnar – kirkjueignar að norðanverðu og Landakots að sunnanverðu.

Þórustaðir

Þórustaðafjara.

Landamerkin eru þessi:
1. Milli Kálfatjarnar að norðanverðu og Þórustaða að sunnanverðu: Markklettur, sem er hátt sker fyrir landi, er tilheyrir báðum jörðunum, að helmingi hvorri; þaðan eptir svonefndum Merkjagarði, er liggur sunnanvert við tún kirkjuhjáleigunnar Goðhóla, en norðanvert við móa þann, sem kallaður er Vatnagarður og tilheyrir Þórustöðum; þaðan í hólinn Þórustaðaborg, sem er hæsti hóllinn af hólum þeim, er standa norðanvert við gamalt stekkjartún, sem nefnt er Þórustaðaborg eptir hólnum. Þaðan í hólinn Stóra – Lynghól miðjan; þaðan í Sýrholt; þaðan í Hrafnafell, sem er lítið fell fyrir norðan Keilir; þaðan beina stefnu alla leið að landi Krísivíkur í Grindavíkurhreppi, eptir sjónhendingu úr Hrafnafelli í hæsta hnjúkinn á Grænavatnsengjum.
2. Milli Landakots að sunnanverðu og Þórustaða að norðanverðu eru landamerki þessi: Sundsker, sem tilheyrir báðum jörðunum, nefnilega að helmingi hvorri; þaðan um svonefndar Markaflúðir beina stefnu í brunninn Djúpugröf; (þaðan eptir marksteinum og gömlu garðlagi, sem aðskilur tún jarðanna, allt upp að túngarði; þaðan beina stefnu eptir vörðum upp eptir heiðinni sunnarvert við rætur Keilis alla leið að landi Krísivíkur í Grindavíkurhreppi.

Þórustaðir

Þórustaðir – loftmynd.

Landamerkjabréfið er samþykkt af eiganda Landakots sem líka var eigandi hálfra Þórustaða. Einnig er skrifað uppá landamerkjabréfið af sóknarpresti fyrir hönd Kálfatjarnarkirkju. Prestur tekur fram að hann samþykki landamerkjabréfið að því leyti sem það er samhljóða landamerkjalýsingu Kálfatjarnarkirkju sem var þinglesin 1885.
Í kaflanum um Þórustaði í Fasteignamati 1916 – 1918 kemur fram að jörðin sé að hálfu í eigu eiganda Landakots. Í sama riti kemur einnig fram að jörðin Hellukot deili heiðarlandi og hagbeit við Þórustaði.
Í fasteignamati því sem staðfest var árið 1932 er að finna jarðalýsingu ábúenda á eftirfarandi jörðum í Þórustaðahverfi: Norðurkot, Þórustaðir, Hellukot. Að sögn ábúanda í Norðurkoti er landamerkjalýsing sé ekki til. Í skýrslunni er einnig minnst á býlið Tíðagerði.
Samkvæmt ábúanda á Þórustöðum er beitiland víðlent.
Í svörum ábúanda á Hellukoti kemur fram að beitilandið sé líkt og það sem Þórustaðir hafa. Hann greinir einnig frá því að landamerki jarðarinnar sé þau sömu og Þórustaða.
Þann 21. maí 1999 var land Þórustaða ofan Vatnsleysustrandarvegar selt Hitaveitu Suðurnesja 21. maí 1999. Jörðin er að öðru leyti í einkaeign.

Kálfatjörn
Kálfatjörn
Í kirknaskrá frá því um 1200 kemur fram að kirkja er á Kálfatjörn.
Í máldaga Péturskirkju á Kálfatjörn frá 1379 er að finna upplýsingar um eignir kirkjunnar. Í honum stendur m.a. að: „Petvr[s] kirkia aa kaalfatiornn. hvnn aa heima land alltt med gognvm ok gædvm. hvn aa backa ok fleckv vik. hvnn aa allann reka j millvm Hravnnes ok ranga giogvrs ok firr nefnd fleckv[v]ik aa allann þridivng j vatzleysv jord. j rekvm. skogi ok hagabeit. fra nýia gordvm ok in at gardi þeim er geingvr ofan vr Hravne fram at sia firir innann akvrgerdi.“ …

Kálfatjörn 1920

Kálfatjörn 1920.

Árið 1397 lét Vilchin Skálholtsbiskup útbúa máldaga fyrir Péturskirkju á Kálfatjörn. Þar stendur m.a.: „Pieturskirkia ad Galmatiorn a Heimaland allt oc Backa oc Fleckuvijk“ ….
Í tíð Brynjólfs Sveinssonar Skálholtsbiskups, nánar tiltekið árið 1642, var Kálfatjörn vísiteruð: „Peturskyrckia ad Kalfatiórn a heimaland allt mz gógnum og giædum, epter þeim mäldaga sem vænst er ad sie ä dömkyrckiunni og Bessastodum Hun ä Backaland og fleckiuvÿk. … vænist bpinn M. Brynjolfur Ss suornum landamerkium i millum Kalfatiarnar og Skalholltsstadar dömkyrckiu sem vitni umm bera og afhenda vilia enn nu i dag mz suornum eidum, uppä hinar fyrri, og lógfestir Bp allt ad fyrr suordum takmarkum, lysandi öheimilld ä þvÿ aullu sem þadan mä flutt verid hafa og hann mä sauk [a] gefa h. Skalhollts kkiu vegna. … fyrrnefnd fleckuvÿk ä allann þridjung i Vatsleysu jórd (epter brefinu ohandskrifudu sem liggur a kyrckunni og visitatiubok h. Gÿsla J.s.) i rekum skögi og hagabeit, frä Nyagardum og Inn ad gardi þeim, er geingur ofan vr hrauninu og framm ad sjö, fyrer Innan Akurgierdi, … Seigir fyrrnefnd visitatiu bök, Fleckuvÿk eigi allann þridjung i Vatsleisu Jordu, er liggur i Kalfatiarnarkkiu sókn, i rekum skögi hagabeit frä Nyagardum og Inn ad gardi þeim er geingur ofan ür hrauninu og framm ad siö fyrer Innan Akurgierdi…. Actum Kalfatiórn Anno 1642 Die ut supra“. (Undir þetta rita Ámundi Ormsson, Sumarliði Jónsson, Pétur Gissursson og Einar Oddsson).
Kálfatjörn
Þrjátíu og sex árum síðar stóð Þórður Þorláksson biskup í Skálholti fyrir vísitasíu á Kálfatjörn. Í vísitasiunni, sem fór fram 20. ágúst 1678, kom eftirfarandi fram: „visiterud Peturs kyrkia ad Kalfatiorn hun a efter maldaga heimaland allt med gognum og giædum Backa land og fleckuvÿk … firr nefnd fleckuvÿk a allann þridiung i Vatnzleisu jórdu i rekum skogie og hagabeit fra nÿugórdum og inn ad gardi þeim er geingur ofann ur hrauninu og framm ad siö fyrir innann Akurgierdj, Borgar Kot nu leigt fyrer iiij vættir er ei innfært i firri maldaga enn þo kyrkiunnar eign efter undirrietting Sr. Sigurdar Eyolfssonar“. (Undir þetta rita Sigurður Eyjólfsson, Einar Einarsson, Árni Gíslason, Bjarni Jónsson og Bjarni Sigurðsson).
Móakot
Kálfatjörn var tekin til mats árið 1703 skv. Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalíns. Henni fylgdu hjáleigurnar; Naustakot, Móakot, Flóakot, Hólakot, Hátún, Árnahús og Borgarkot.
Í Jarðabókinni er eftirtektarverð umsögn um selstöður Kálfatjarnar: „Selstöðu á staðurinn þar sem kallað er Sogasel, og er í Stóru-Vatnsleysu landi; áður hefur hann og brúkað selstöðu þar sem staður á sjálfur land, þar sem heitir Fornuselshæði, þar er mein stórt að vatnsbresti og hagar naumir, en í Sogaseli skortir hvorki vatn nje gras, þó er þángað lángt og erfitt að sækja“.
Sömuleiðis segir um kirkjujörðina Bakka, sem síðar varð tómthús frá Kálfatjörn: „Selstöðu brúkar jörðin ásamt staðarhaldaranum í Sogaseli í Stóru-Vatnsleysu landi“.
Á tíma Jóns Vídalíns Skálholtsbiskups var Kálfatjörn vísiteruð þann 10. ágúst 1703. Skýrslan sem unnin var í þessari eftirlitsferð er mjög svipuð þeirri sem var samin í kjölfar vísitasíunar 1678: „hun ä heimaland allt med gögnum og gïædum Backaland, og Fleckuvïk, allann reka mille Hraunsnefz og Rängagiógurs / afast vid Krisevïkur reka, reka mïllum Markskletts og nïugarda, kirkian ä efter mäldögum allann þridiung i Watnsleisu Jördu – i rekum sköge og haga, beit frä nÿugördum og inn ad garde þeim Er geingur ofann ür hrauninu og framm ad siö fÿrer innann Akurgerde, Borgarkot nu leigt fÿrer iiij vætter ä kirkian“. (Undir þetta rita Ólafur Pétursson, Benedikt Einarsson, Oddur Árnason, Jón Halldórsson og Árni Gíslason).
Kálfatjörn
Jón Árnason Skálholtsbiskup vísiteraði Kálfatjörn þann 7. maí 1724. Fyrsti hluti greinargerðarinnar sem samin var í þessari vísitasíu þar sem eru þau atriði sem skipta helst máli hvað varðar þjóðlendumál, er nánast samhljóða skýrslunni sem útbúin var ír vísitasíunni árið 1703. Hér verður því vísað í hana.
Ólafur Gíslason biskup í Skálholti vísiteraði á Kálfatjörn 17. júní árið 1751. Skýrslan sem samin var vegna vísitasíunnar er svipuð þeirri sem gerð var árið 1703 nema eftirfarandi texti: „Borgar kot sem adur hefur vered leigt fyrer 4 vætter, er nu i eide og hefur leinge leiged, sókum siäfar ägangs, sosem Þyng vitned i kyrkiubókena innfært, liösast hermer“. (Undir þetta rita Ólafur Gíslason, S. Jónsson, Sigurður Ólafsson, S. Sigurðsson).

Kálfatjörn

Kálfatjörn – Bakki og Litlibær fjær.

Þann 4. júní 1758 var Kálfatjörn vísiteruð af Finni Jónssyni Skálholtsbiskupi.. Greinargerðin sem útbúin var um þennan atburð er sambærileg þeirri frá 1751.
Þann 28. maí 1790 skrifaði presturinn á Kálfatjörn undir svohljóðandi lögfestu fyrir staðinn: „Ég, Guðmundur Magnússon prestur til Kálfatjarnar, lögfesti hér með sama staðar kirkjuland til lands og vatns, nefnilega reka allan frá Markkletti og inntil Nýjugarða, þaðan og í Arnarvörðu, þaðan og í Flekkuvíkursel, svo og frá áðurnefndum Nýjugörðum þriðjung allan í Vatnsleysu jörðu í rekum, skógum og hagabeit, inn að garði þeim sem gengur inn úr hrauninu og fram að sjó fyrir innan Akurgerði. En á aðra síðu frá Markklett og upp eftir Vatnagarði milli Kálfatjarnar og Þórisstaða, í Þórisstaðaborg, þaðan og í Sýruholt.
Sömuleiðis lögfesti ég Kálfatjarnar selstöðu sunnanvert í Dyngjunni með öllum nærliggjandi Sogum að vestan og austan og ýtrustu högum sem greindu Sogaseli að undanförnu fylgt hafa, item reka allan millum Hraunsnefs og Rangagjögurs áfast við Krísivíkurreka.
Kálfatjörn

Kálfatjörn – uppdráttur ÓSÁ.

Þetta allt undir sömu skilmálum með réttum lögum fyrirbýð ég einum og sérhverjum að fráteknum kirkjujarðanna Bakka og Flekkuvíkur ábúendum og heimajarðarinnar Kálfatjarnar hjáleigumönnum áðurnefnt Kálfatjarnarkirkju land, hollt og haga, lóð og allar landsnytjar, lyngnám og torfskurð að yrkja, vinna eður sér í nyt færa utan mitt leyfi.
Einnin fyrirbýð ég þessum sem öðrum áðursagðan kirkjunnar reka, hvort heldur í heima- eður Vatnsleysulandi uppdrífa kann, sér að nýta eður skipta án minnar vitundar og leyfis“. … Lögfestan var lesin upp í Kálfatjarnarkirkju á trinitatishátíð [þrenningarhátíð, fyrsti sunnudagur eftir hvítasunnu] sama ár.
Árið 1800, en þá var Geir Vídalín biskup, var Kálfatjörn vísiteruð. Í vísitasíubókinni stendur eftirfarandi: „Anno 1800 þann 6tta Julii, visiteradi Biskupinn Geir Vidalin ad endadri heilagri þiónustugiörd, Kirkiuna ad Kálfatiörn; hún á heimaland allt med gögnum og giædum, Backaland og Fleckuvík; … hun á og eftir gömlum Máldögum, þridiung í Vatnsleysu jördu, í Rekum Skógi og haga, beit frá Níugördum og inn ad Gardi þeim, sem gengur innann ur Hrauninu og framm ad sió fyrir innann Akurgerdi – it(em) Borgarkot, sem nú er eydilagt af Siáfargángi; – allt þetta enn í dag óátalid“. … (Undir skrifa: Geir Vidalin, G. Magnússon, Olafur Gudmundson, Magnus Gudmundsson, T. Jonsson).

Kálfatjörn

Kálfatjörn – örnefni.

Í þeim hluta jarðamatsins frá árinu 1804 sem fjallar um jörðina Kálfatjörn kemur fram að henni fylgja hjáleigurnar: Naustakot, Móakot. Hátún og Fjósakot. Í lýsingu gæða Kálfatjarnar segir m.a.: „Her have Sætter Jorden tilhörende“.
Lagt var mat á Kálfatjarnarprestakall árið 1839: „Jtök eru: allur Reki fyrir heima- og Kirkiujardanna landi; … Reka fyrir mestahluta lands beggia Vatnsleysanna, einninn þridiúngur beitar í sömu landegn, og líka Skógs, sem laungu sídann, er öldúngis eydilagdur; Selstada uppundir Fiöllum í svokölludu Sogaseli“.
Í kaflanum um Kálfatjörn og hjáleigur hennar, Naustakot, Móakot, Hátún og Fjósakot í Jarðamati 1849 – 1850 stendur m.a.: „Landrymi mikið. … Kyrkjan á þriðjúng alls reka á Stóru og Minni–Vatnsleysu fjörum, einnig hagbeit fyrir geldinga í landi þessara jarða“. …

Soagsel

Sogasel í Sogaselsgíg. Trölladyngja fjær.

Árið 1855 var Kálfatjarnarprestakall metið. Í skýrslunni stendur eftirfarandi: Skýrsla um tekjur og útgjöld Kálfatjarnar prestakalls í Gullbrýngusýslu eptir 3 ára medaltali 1851-1853: „… Utheyisslæur eru eingar. Fjöru beit er opt gód fyrir fénad á vetrum, en heidarbeit ordin lakari ad sínu leyti, nema svo lángt í burtu ad ei verdur til nád. …
Kálfatjörn á selstödu í svonefndu Sogaseli og hefur hún í margt ár ekki verid notud, því vegur er þangad svo langur og ógreidur ad ekki væri til vinnandi, nema fyrir svo mikin fénad, sem jördin ber ekki, nema hún fengi því meiri endurbætur. Selstodur eru ad sönnu nedar í heidini en þar fæst ekkert vatn handa fénadinum, þegar þerrar ganga á sumrum“. …

Oddafellsel

Oddafellsel – sel frá Kálfatjörn.

Enn var Kálfatjarnarprestakall metið árið 1867. Hluti skýrslunnar sem saminn var við þetta tækifæri fer hér á eftir: „Skýrsla um tekjur og útgjöld Kálfatjarnar prestakalls í Gullbringu og Kjósar prófastsdæmi eptir 5 ára meðaltali, frá fardogum 1862 til fardaga 1867. … Selstada fylgir jördinni í svo nefndu Sogaseli, en er vart notandi sakir fjarlægðar og óvegs þangað. … Kirkjujarðir … Eydijördin Bakki … En med því land allt utan túns var óskipt milli þessarar jardar og prestssetursins, hlýtur þad nú ad teljast með landi þess.
2. Tekjur af ískyldum, ítökum og hlynnindum, sem fylgja prestakallinu eptir máldögum eda ödrum skjölum:
a. Brúkuð af prestinum sjálfum.“
Fjósakot
Samkvæmt máldagabók Gísla biskups Jónssonar á kirkjujördin „Flekkuvík þridjung í Vatnsleysujördu í rekum, skógi, hagbeit“. En þetta hefur ávallt Beneficiarius notad, sem tilheyrandi prestakallinu, … Skógur er nú enginn til í landi kirkjunnar eda Vatnsleysanna, og hagbeit í Vatnsleysulandi er ardlaus, (því þó kind og kind hafi slangrad þangad þá eru hagar heimajardarinnar full nógir og jafnvel betri en Vatnsleysanna). … Athugasemdir … Þessa hjáleigu [Naustakot] lagdi eg undir heimajördina árið 1861; því sjórinn hafdi þá brotid svo land að kotinu ad áhætta var að hafa þar menn lengur, enda var ekki unnt að fá ábúanda ad býlinu sem afl hafdi á að bæta árlegar skemmdir sem hjáleigan beið af sjó; svo var og komið svo mikið undir sjó af túninu að þad var vart fyrir kú. Sídan hefi ég þó ekki getað varið túnið svo að þad hafi ekki horfið í sjó ad mun. …
Landamerkjabréf Kálfatjarnarkirkjueignar var undirritað 9. júní 1884 og þinglesið 15. júní 1885. Samkvæmt því eru landamerki jarðarinnar eftirfarandi: „Kirkjan á heimaland allt með gögnum gæðum til lands og sjávar, Bakkaland, Borgarkotsland (hvorttveggja nú eyðijarðir) og Flekkuvík sömuleiðis með öllum gögnum og gæðum til lands og sjávar. En landamerki eru þessi:
Goðhóll
1. milli Þórustaða og Norðurkots að sunnanverðu og Kálfatjarnar hins vegar: Markklettur, sem er hátt sker fyrir landi, þaðan eftir svo nefndum merkjagarði er liggur fyrir túni Kálfatjarnarhjáleigunnar Goðhóla og hinsvegar fyrir túni Norðurkots, þaðan í Þórustaðaborg, þaðan í Lynghól, þaðan að landi Krýsivíkur í Grindavíkurhreppi beina stefnu um Sýrholt.
2. Milli Minni – Vatnsleysu og Stóru – Vatnsleysu og hinsvegar Kálfatjarnar: Klettur út við sjó, hjer um bil miðja vega milli Flekkuvíkur og Minni – Vatnsleysu, sá er Klukka er nefndur, þaðan í Hádegishóla, þaðan í Eystri – Hafnhól, þaðan um nyrðri Flekkuvíkurás, þaðan í Einiberjahól, þaðan um Kolhól beina stefnu að Krýsivíkurlandi. Reka allan á kirkjan frá miðjum Markkletti og í Klukku áður nefnda. Hún á og þriðjung í Vatnsleysujörðu í rekum, skógi og haga, beit frá Klukku og inn að garði þeim er gengur innan úr hrauninu og fram að sjó fyrir innan Akurgerði.
Kirkjan á ennfremur „allan reka milli Hraunnefs og Rangagjögurs.” … Loksins á og kirkjan selstöðu í Sogaseli.Landamerkjabréfið var samþykkt af eigendum Stóru – Vatnsleysu, eiganda Minni – Vatnsleysu og eiganda suðurhelmings Þórustaða. Eigandi norðurhelmings Þórustaða og eigandi Ísólfsskála settu einnig nöfn sín undir landamerkjabréfið. Báðir aðilar skýrðu sínar undirskriftir. Sá fyrrnefndi samþykkti landamerkin milli Norðurkots og Kálfatjarnar en hinn samþykkti rekamörk gagnvart Ísólfsskála“.
Móakot
Í fasteignamati 1916 – 1918 er lýsing á landamerkjum og ítökum Kálfatjarnar: „Landamerki: að sunnan Markklettur í sjó, þaðan í Þórustaðaborg, þaðan beina línu í Línghól, þaðan að landi Krísivíkur, að norðan Keilisnes við sjó, þaðan beina línu í eystri Hafnhól, þaðan í Flekkuvíkurás, Einiberhóll, Kolhóll, þaðan beina stefnu að Krísuvikurlandi. Ennfremur 1/3 hluti í reka, skógi og haga í Vatnsleysujörðum, beit frá Klukku innfyrir Akurgerði. Reki milli Hraunsnefs og Dagón á Ísólfsskálalandi. Selstaða í Sogaseli í Krísivíkurlandi. Rekinn hefur verið leigður fyrir mest Kr. 10,00, en hinar aðrar ínytjar hafa ekki komið jörðinni að neinu gagni“. Í sama riti kemur fram að Kálfatjörn er kirkjujörð og henni fylgja þrjár hjáleigur; Goðhól, Fjósakot og Hátún og tvær erfðafestulóðir; Litlibær og Bakki.
Landamerkjabréf Kálfatjarnar var undirritað 30. desember 1921 og samþykkt af hverfiseigendum Flekkuvíkur og Norðurkots og tveggja erfðafestulóða. Bréfið var þinglesið 14. júní 1922: „Kálfatjarnartorfunni tilheyrir alt það land er landamerkjalýsing frá 1884 tiltekur, að undanskildu landi Flekkuvíkur er selt hefur verið undan eigninni; jarðir þær og býli, sem tilheyra eignini eru því nú: „Hlið”, „Litlibær”,, „Bakki”, „Goðhóll”, „Bjarg”, „Hátún”, „Fjósakot”, „Kálfatjörn” og „Móakot“.“

Bakki

Bakki.

Land Kálfatjarnartorfunnar takmarkast því nú á milli Flekkuvíkur að innan – og svo sem landamerkjalýsing frá 1884 tiltekur –, að Norðurkoti að sunnan. Á milli Flekkuvíkur annarsvegar og Kálfatjarnar hinsvegar eru þessi landamerki: „Keilisnes” (neskletturinn) en það er klettur sá sem næstur er sjó, nokkuð stór um sig og liggur sunnan undir honum næstum kringlótt kyr fullt af sjó (lón). Þaðan eru mörkin tekin í „Hermannsvörðu” sem er vörðubrot á hól spölkorn uppá Keilisnesi, sem ber austantil í Fagradalsfjall af Nesklettinum sjeð; þaðan beygjast mörkin nokkuð inn á við og í „Arnarvörðu”, þá í Flekkuvíkurselásinn vestri og í „Einiberjahól” en þar tekur við markalína sú á milli Kálfatjarnar og Vatnsleysu sem lýst er í landamerkjalýsingu 1884.
1. Hlið, er þurrabýli, sem á lóð að Norðurkotslandi annarsvegar og Goðhóls, á tvo vegu hinnsvegar, ein hlið lóðarinnar er heiðargarður, öll er lóðin afgyrt með grjótgörðum. …
2. Litlibær …
3. Bakki …

Litlibær

Litlibær – brunnur.

4. Goðhóll, á tún að heiðargarði þeim sem er áframhald af heiðargarði Hliðs og Kálfatjarnar og alt til sjáfar og liggur tún Goðhóls því á milli Kálfatjarnartúns að norðan og austan og Norðurkotsvatnagarðs að sunnan og vestan. …
5. Bjarg …
6. Hátún, tún þess liggur til heiðar á tvo vegu og takmarkast tún þess af grjótgörðum er til heiðar snýr að austan og sunnan en að vestan af traðargarði er liggur heim að Kálfatjörn; úr traðargarðinum liggur vírgirðing í norður að túnamörkum Hátúns og Fjósakots og tilheyrir Hátúni og sömuleiðis er vír á milli Hátúns- og Fjósakotstúns. …
7. Fjósakot …

Kálfatjörn

Kálfatjörn, Bakki og Litlibær – loftynd 1954.

8. Kálfatjörn, heimajörðin, hún á tún alt milli heiðargarðs og að sjáfargarði; að austan eru traðir er liggja út að heiðargarði undan suðurhorni grafreitsins, tilheyra þær einsog verið hefur Kálfatjörn einni og eru í mörkum á milli Hátúns að svo mikluleyti, sem það nær með tröðunum, að vestan er garður er liggur frá heiðargarði og alla leið að sjáfargarði hann er merkjagarður milli Goðhóls og Kálfatjarnar, þó bugðóttur sje. Að norðan og norðaustan liggur garður, bugðóttur mjög, alla leið frá sjáfargarði og að Fjósakotstúni, garður sá er í mörkum milli Kálfatjarnar og Móakots. Kálfatjörn á og girðingar þær er garður sá afmarkar er gengur frá þvergarði þeim í girðingunum er afmarkar Móakotspart af girðingunum; en garður sá er áframhald eða því sem næst af norðurtúngarði Móakots og stefnir í suðaustur út að ytri garði girðinganna. Kálfatjörn tilheyrir það sem fyrir norðan þennan garð er. Kálfatjörn tilheyrir einnig innangarðs alt hið forna Bakkaland að svo miklu leyti sem það hefur ekki verið selt á leigu og erfðafestu handa Bakka (nýja) Bjargi og Litlabæ. …
Staðfest af hreppstjóra [sem þá var orðinn umráðamaður Kálfatjarnar vegna Kirkjujarðasjóðs] og eigendum Flekkuvíkur, Norðurkots, Litlabæjar og Bakka. Í fasteignamati 1932 er að finna jarðalýsingu ábúenda eftirfarandi jarða í Kálfatjarnarhverfi: Bakki, Litlibær, Kálfatjörn, Móakot, Fjósakot, Hátún og Goðhóll. Að sögn ábúanda á Bakka er beitarland jarðarinnar víðlent. Það er girt að hluta með vír. Í skýrslunni kemur einnig fram að landamerki jarðarinnar séu ekki skýr sem stendur.

Kálfatjörn

Kálfatjörn – loftmynd 1954.

9. Móakot. Í svörum ábúanda á Litlabæ kemur fram að býlið sé erfðafesta úr Kálfatjörn. Samkvæmt ábúanda á Kálfatjörn er beitiland jarðarinnar nokkuð víðlent. Hann segir einnig að sauðfjárbeit sé til heiðar. Einnig nefnir hann að tún, og nokkuð af beitarlandi sé girt með grjótgörðum og vír. Í skýrslunni kemur einnig fram að jörðin á 1/3 í reka, skógi og beit í Vatnsleysujörðum. Þessi hlunnindi hafa lítið verið notuð að undanförnu að sögn ábúandans. Hann minnist einnig á að ekki alls fyrir löngu hafi reki á Selatöngum verið tekinn undan jörðinni. Ábúandi á Goðhóli nefnir að landamerki jarðarinnar séu þinglesin.
Vatnsleysustrandarhreppur keypti Kálfatjörn af jarðadeild landbúnaðarráðuneytisins 27. ágúst 2001 með því skilyrði að niðurstaða óbyggðanefndar og/eða dómstóla varðandi landamerki og mörk gagnvart þjóðlendum yrði á ábyrgð kaupanda.
Landið ofan Vatnsleysustrandarvegar var selt Hitaveitu Suðurnesja af Vatnleysustrandarhreppi 28. desember 2001. Það land takmarkast að norðan af merkjum Flekkuvíkur að Einiberjahóli, en síðan Vatnsleysu, að austan af merkjum Krýsuvíkur (suðausturátt), að sunnanverðu af mörkum Þórustaða, að vestanverðu af gamla Vatnsleysustrandarveginum.

Flekkuvík

Flekkuvík

Flekkuvík – túnakort 1919.

Í máldaga Péturskirkju á Kálfatjörn frá 1379 er að finna upplýsingar um eignir kirkjunnar. Í honum stendur m.a. að: „Petvr[s] kirkia aa kaalfatiornn. hvnn aa heima land alltt med gognvm ok gædvm. hvn aa backa ok fleckv vik“. …
Árið 1397 lét Vilchin Skálholtsbiskup útbúa máldaga fyrir Péturskirkju á Kálfatjörn. Þar stendur m.a.: „Pieturskirkia ad Galmatiorn a Heimaland allt oc Backa oc Fleckuvijk“ ….

Flekkavíkursel

Flekkavíkursel.

Í Gíslamáldögum frá 1570 og síðar segir um Kálfatjarnarkirkju: „hun ä Fleckuvijk. … fijrrnefnd Fleckuvijk ä allann thridiung i Vatzleijsu Jordu er liggur i Kälfatiarnar kirkiusokn. i rekum. sköge. Hagabeit. frä nijagørdum. og Jnn ad garde theim er geingur ofann [eitt handrit segir: innan] vr hraunenu og fram ad siö fijrer Jnnan Akurgierde“.
Flekkuvík er ávallt talin meðal eigna Kálfatjarnarkirkju í visitasíum biskupa.

Borgarkot

Borgarkot – uppdráttur.

Í Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalíns segir varðandi selstöðu Flekkuvíkur: „Selstöðu á jörðin og brúkar þar sem heitir Flekkuvíkursel, eru þar hagar viðsæmandi, en stórt mein að vatnsleysi, og báglegt eldiviðartak“.
Ráðherra Íslands seldi Flekkuvík í tvennu lagi 31. ágúst 1909. Í virðingargerð frá 21. maí s.á. segir m.a.: „Utan túns land er talið að fylgi allri jörðinni frá landamerkjunum í milli Flekkuvíkur og Minni-Vatnsleysu að austan, vestur í hinn svo nefnda Keilisnesklett“.

Flekkuvík

Flekkuvík – loftmynd 1954.

Hins vegar er landamerkjunum lýst þannig í matsgerð austurhlutans sama dag sem er í sérstöku skjali: „Landamerki Flekkuvíkur eru frá MinniVatnsleysu landi að austanverðu, alt vestur í hinn svo nefnda Keilisnessklett, þaða upp Neshólana um Arnarvörðu, um sunnanvert Flekkuvíkursel, beina stefnu til fjalls, alla leið að Krýsivíkurlandi., og tilhyeyra austurhelmingnum afnotin af nefndu utantúnslandi að hálfu í móti vesturhálflendunni“.

Flekkuvík

Flekkuvík.

Landamerkjabréf Kálfatjarnar var undirritað 30. desember 1921 og samþykkt af hverfiseigendum Flekkuvíkur og Norðurkots og tveggja erfðafestulóða. Bréfið var þinglesið 14. júní 1922. Í því segir m.a. eftirfarandi: „Á milli Flekkuvíkur annarsvegar og Kálfatjarnar hinsvegar eru þessi landamerki: „Keilisnes” (neskletturinn) en það er klettur sá sem næstur er sjó, nokkuð stór um sig og liggur sunnan undir honum næstum kringlótt kyr fullt af sjó (lón). Þaðan eru mörkin tekin í „Hermannsvörðu” sem er vörðubrot á hól spölkorn uppá Keilisnesi, sem ber austantil í Fagradalsfjall af Nesklettinum sjeð; þaðan beygjast mörkin nokkuð inn á við og í „Arnarvörðu”, þá í Flekkuvíkurselásinn vestri og í „Einiberjahól” en þar tekur við markalína sú á milli Kálfatjarnar og Vatnsleysu sem lýst er í landamerkjalýsingu 1884“.
Staðfest af hreppstjóra og eigendum Flekkuvíkur, Norðurkots, Litlabæjar og Bakka.
Í þinglýsingarvottorðum sem gefin voru út 2. júní 2004 kemur fram að jörðin Flekkuvík sé komin í eigu Fjársýslu ríkisins.

Stóra – og Minni – Vatnsleysa

Vatnsleysa

Vatnsleysa – loftmynd 1954.

Í máldaga Vatnsleysukirkju á Vatnsleysuströnd frá 1269 stendur eftirfarandi: „Allra heilagra kirkia a vatnslavsv a fimtan hvndrad j heima lande…
Í máldaga Péturskirkju á Kálfatjörn frá 1379 er að finna upplýsingar um eignir kirkjunnar. Í honum stendur m.a. að: „Petvr[s] kirkia aa kaalfatiornn. … hvn aa backa ok fleckv vik. … firr nefnd fleckv[v]ik aa allann þridivng j vatzleysv jord. j rekvm. skogi ok hagabeit. fra nýia gordvm ok in at gardi þeim er geingvr ofan vr Hravne fram at sia firir innann akvrgerdi“. …
Þann 28. apríl 1479 vottuðu tveir aðilar skriflega að þeir, ásamt öðrum, hefðu heyrt eiginkonu fyrrum eiganda jarðarinnar Vatnsleysu lýsa því yfir að: „… kirkian kryssvvik ætti þar j xc“ …
Árið 1525 ákvað Ögmundur Pálsson, biskup í Skálholti, að Krýsuvíkurkirkja skyldi selja eignarhlut sinn í Vatnsleysulandi til Viðeyjarklausturs.

Vatnsleysa

Stóra-Vatnsleysa. Tóftir kirkju og kotbýlis.

Samkvæmt fógetareikningum frá 1547 – 1548 voru Stóra– og Minni–Vatnsleysa í eigu Viðeyjarklausturs.
Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalíns árið 1703 nefnir Sogasel í landi Stóru-Vatnsleysu, sem notað sé frá Kálfatjörn og kirkjujörðinni Bakka. Sömuleiðis lögfestir Guðmundur Magnússon Sogasel árið 1790, sbr. lögfestu Kálfatjarnarkirkju hér að framan varðandi Kálfatjörn: „Sömuleiðis lögfesti ég Kálfatjarnar selstöðu sunnanvert í Dyngjunni með öllum nærliggjandi Sogum að vestan og austan og ýtrustu högum sem greindu Sogaseli að undanförnu fylgt hafa,“ … Hins vegar áttu Vatnsleysurnar, Minni og Stóra, hvor sína selstöðuna samkvæmt Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalíns árið 1703: Minni-Vatnsleysa: „Selstöðu segja menn jörðin eigi þar sem heitir Oddafell, og er þángað bæði lángt og erfitt að sækja, eru þar hjálplegir hagar og vatn nægilegt“.

Rauðhólssel

Rauðhólssel.

Stóra-Vatnsleysa: „Selstöðu á jörðin þar sem heitir Rauðhólssel, eru þar hagar viðsæmandi, en stórt mein á vatnsskorti“.
Í Jarðabókinni kemur fram að Stóra Vatnsleysu fylgi hjáleigurnar Vatnsleysukot, Akurgerði og þrjár ónefndar hjáleigur.
J. Johnsen minnist á það í bók sinni, Jarðatal á Íslandi, að konungsjarðirnar Stóra–og Minni Vatnsleysa hafi verið seldar þann 13. júní 1838.

Minni-Vatnsleysa

Minni-Vatnsleysa.

Nokkur munur er á gæðum Stóru–og Minni–Vatnsleysu samkvæmt Jarðamati 1849 – 1850. Í kaflanum um Stóru–Vatnsleysu í Fasteignamati árins 1849 stendur m.a. að landrými sé talsvert. Í þeim hluta Jarðamats 1849 sem fjallar um Litlu–Vatnsleysu stendur hinsvegar að landrými sé nokkurt.
Í landamerkjabréfi Kálfatjarnar frá 9. júní 1884, sem eigendur Vatnsleysannasamþykktu er mörkum milli Kálfatjarnartorfu og Vatnsleysanna lýst þannig.

Oddafellssel

Oddafellssel.

Milli Minni – Vatnsleysu og Stóru – Vatnsleysu og hinsvegar Kálfatjarnar: „Klettur út við sjó, hjer um bil miðja vega milli Flekkuvíkur og Minni–Vatnsleysu, sá er Klukka er nefndur, þaðan í Hádegishóla, þaðan í Eystri–Hafnhól, þaðan um nyrðri Flekkuvíkurás, þaðan í Einiberjahól, þaðan um Kolhól beina stefnu að Krýsivíkurlandi. Reka allan á kirkjan frá miðjum Markkletti og í Klukku áður nefnda. Hún á og þriðjung í Vatnsleysujörðu í rekum, skógi og haga, beit frá Klukku og inn að „garði þeim er gengur innan úr hrauninu og fram að sjó fyrir innan Akurgerði.”
Kirkjan á ennfremur „allan reka milli Hraunnefs og Rangagjögurs. … Loksins á og kirkjan selstöðu í Sogaseli“.

Snókafell

Snókafell.

Landamerkjabréf varðandi landamerki milli Hvassahrauns og sameignarjarðanna Stóru – Vatnsleysu og Minni – Vatnsleysu var undirritað 15. júní 1889 og samþykkt af búendum Hvassahrauns. Bréfið var þinglesið 17. júní 1889: „Úr Innra hraunshorninu í Fögruvík, og þaðan í afstapaþúfu, og þaðan beina stefnu í Snókafell, og úr Snókafelli beina stefnu í Krýsuvíkurland“.
Samkvæmt fasteignamati 1916 – 1918 er þrjár jarðir á Vatnsleysulandi; Stóra – og Minni – Vatnsleysa og grasbýlið Miðengi. Jarðirnar deila með sér heiðarlandi og hagbeit. Í kaflanum um Stóru – Vatnsleysu er greint frá landamerkjum: „Landamerki eru milli Flekkuvíkur og Vatnsleysu úr Klukku við sjó, þaðan beint í litla Hafnhól um Vatnsleysuselás, þaðan í stóra Kolhól, þaðan í Hrafnafell, þaðan að Krýsuvíkurlandi, þá norður með Krýsuvíkurlandi. – Milli Hvassahrauns og Vatnsleysu er Klettur innan til við Fögruvík, þaðan í Afstapaþúfu þaðan í Snókafell, það<an> að Krýsuvíkurl<andi>“.

Afstapavarða

Afstapavarða.

Í fasteignamati 1932 er að finna lýsingu ábúenda á jörðinni Stóru–og Minni Vatnsleysu. Í skýrslu ábúendanna á Stóru – Vatnsleysu kemur m.a. fram að beitarlandið sé mikið og gott alla leið frá bænum og upp að Krýsuvíkurlandi. Þar kemur líka fram að túnið sé allt girt og að jörðin eigi rétt til upprekstrar í afrétt sem sé sveitareign. Einnig segir að landamerki sé skýr og þinglesin. Ábúendur jarðarinnar halda að á henni séu hverir.
Í greinargerð þeirra sem búa á Minni–Vatnsleysu stendur m.a. að beitarlandið sé víðlent. Þar kemur einnig fram að tún jarðarinnar sé girt með grjóti og vír og að jörðin eigi rétt til upprekstrar í afrétt sem sé sveitareign. Í skýrslunni stendur einnig að jörðin eigi hveri með Stóru – Vatnsleysu og að landamerki séu þinglesin og ágreiningslaus.

Eigandi Stóru-Vatnsleysu, Sæmundur Á. Þórðarson, skrifaði landbúnaðarráðuneytinu bréf 18. september 1996 þar sem hann gerði þá kröfu vegna Vatnsleysujarðanna að mörkum móti Krýsuvík yrði breytt. Vildi hann að merkin „verði miðuð við línu dregna af Grænavatnseggjum beina stefnu í Markhellu, háan Bréfinu fylgdi „Greinargerð um Krýsuvíkurbréfið”, sem Sæmundur skrifaði 17. september 1996. Þar bar hann Krýsuvíkurbréfið saman við önnur landamerkjabréfi og fleiri heimildir og taldi hann Árna Gíslason í Krýsuvík hafa leikið á þá sem undirrituðu bréfin athugasemdalaust.
Áður var minnst á bréf sem Sæmundur Þórðarson á Stóru – Vatnsleysu skrifaði landbúnaðarráðuneytinu þann 18. september 1996 varðandi landamerki Vatnsleysujarðanna og Krýsuvíkur.

Stóra-Vatnsleysa

Stóra-Vatnsleysa.

Sæmundur virðist hafa síðar skipt um skoðun því að í ódagsettri greinargerð um framkvæmdir á Stóru – Vatnsleysu [mun hafa verið skrifuð árið 2004] kemur Sæmundur með aðra ábendingu varðandi mörk Krýsuvíkur og Vatnsleysustrandarjarða: Í landamerkjabréfi Krýsuvíkur standi: „að vestan: sjónhending úr Dagon (= Raufarkletti), sem er klettur við flæðarmál á Selatöngum í Trölladyngjufjallsrætur að vestan sem er útbrunnið eldfjall …” Ef þarna stæði „í vesturrætur Grænudyngju” yrðu mörkin hárrétt, en Trölladyngja og Grænadyngja séu þarna hlið við hlið. E.t.v. hafi Krýsuvíkureigandi skrifað rangt örnefni sem öðrum hafi yfirsést að leiðrétta. Einnig segir Sæmundur varðandi merkjalýsingu Ísólfsskála þar sem nefnd er „sama sjónhending austur Selsvallafjall að landamerkjum Krýsuvíkur”, að það sanni að línan liggi upp á Selsvallafjall enda eru gamlar heimildir um að hornmark strandajarða að suð-vestan hafi verið um Framfell, öðru nafni Vesturfell sem er inn á miðju Selsvallarfjalli þar sem það er breiðast, vestur af Vigdísarvöllum.

Keilir

Vegur að Höskuldarvöllum. Keilir fjær.

Samkvæmt þessari greinargerð Sæmundar hóf Stóru-Vatnsleysubóndi vegagerð til Höskuldarvalla og Eldborgar (gjallgígs NA af Trölladyngju) árið 1947. Á sama tíma voru Höskuldarvellir girtir af og var ræktað innan girðingar um 100 ha tún, en stórt bú var á Stóru-Vatnsleysu. Laxeldisstöð var byggð á Stóru-Vatnsleysu á árunum 1987-1990 og stóð til að virkja háhitasvæðið við Höskuldarvelli, Eldborg og Sogin. Orkustofnun var fengin til þess að gera umfangsmiklar rannsóknir á Trölladyngjusvæðinu auk rannsókna á magni og gæðum grunnvatns í landi Vatnsleysujarða. Rannsóknirnar hafi að mestu verið greiddar af eigendum Vatnsleysujarða, en þeir hafi jafnframt átt 49% í laxeldisstöðinni sem greiddi nokkurn hluta rannsóknarkostnaðarins. Sæmundur nefnir nokkra aðila, sem tekið hafi jarðefni í landi Stóru-Vatnsleysu, en segir ekki hvar. Raunar segir hann að allt frá því vegagerðin að Höskuldarvöllum hófst árið 1947 hafi verið tekið efni úr Eldborg ásamt bólstrabergi úr Rauðhólsfellunum.

Hvassahraun

Hvassahraun

Hvassahraun – loftmynd 2019.

Í máldagaskrá um eignir kirkju og staðar í Viðey sem ársett hefur verið til um 1234 segir: „Magnvs biskvp gaf til staðar hinn siavnda lvt hvalreka ov viðreka j Hvassarauns landi“.
Samkvæmt fógetareikningum frá 1547 – 1548 var hálft Hvassahraun í eigu Viðeyjarklausturs.
Í jarðaskiptagjörningi sem Páll Stígsson hirðstjóri, fyrir hönd konungs, átti við Gísla biskup Jónsson, fyrir hönd Skálholtsstól, og fram fór að Bessastöðum 27. september 1563 eignaðist konungur hinn helming jarðarinnar sem sögð var 10 hundruð að dýrleika.

Hvassahraunssel

Hvassahraunssel.

Í Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalíns segir m.a. um hlunnindi jarðarinnar árið 1703: „Selstöðu á jörðin þar sem heitir Hvassahraunssel; hagar eru þar sæmilegir en vatnsból brestur til stórmeina. Rifhrís til kolgjörðar á jörðin í heimalandi, og líður hún á því hrísrifi stóran ágáng af Stærri og Minni Vatnsleysum, ábúendum og hjáleigumönnum. Annars brúkar jörðin þetta hrís til að fæða kvikfjenað í heyskorti“. Hvassahrauni fylgja þá þrjár hjáleigur. Ein kallast Þoroddskot en hinar bera ekki nöfn.
Í jarðamati árið 1804 kemur fram að hjáleigan Hvassahraunskot tilheyrir jörðinni Hvassahrauni.
Jörðin Hvassahraun hvarf úr konungseigu þann 19. apríl 1837.

Hvassahraun

Hvassahraun – uppdráttur ÓSÁ.

Í Jarðamati 1849 – 1850 er kafli um Hvassahraun með Hvassahraunskoti og Sónghól. Í honum stendur m.a.: „Landrými mikið. Talsverður skógur“.
Landamerkjabréf milli Hvassahrauns og Lónakots var undirritað 7. júní 1890. Bréfið var þinglesið 16. júní 1890. Samkvæmt því eru landamerki jarðarinnar eftirfarandi: „Merkin byrja í svonefndum markakletti við sjóinn, austanvert við Hraunsnes, úr markakletti í Skógarhól, úr Skógarhól í Stóragrænhól, úr Stóragrænhól í hólbrunnsvörðu, úr hólbrunnsvörðu í Skorásvörðu, úr Skorásvörðu í Miðkrossstapa, sem er hornmark á Lónakotslandi“.

Hvassahraun

Hvassahraun.

Nokkrum dögum síðar eða 13. júní 1890 var landamerkjabréf milli Hvassahrauns, Lónakots og Óttarsstaða undirritað. Það var samþykkt af fulltrúum Óttarsstaða og Lónakots. Bréfið var þinglesið 16. júní 1890: „Merkin byrja í svonefndum markaklett við sjóinn austanvert við Hraunsnes úr markaklett í Skógarhól, úr Skógarhól í Stóragrænhól úr Stóragrænhól í Hólbrunnsvörðu úr hólbrunnsvörðu í Skorásvörðu úr Skorásvörðu í Miðkrossstapa, sem er hornmark á Lónakotslandi, svo heldur áfram sömu stefnu millum Hvassahrauns og Óttarstaða úr Miðkrossstapa í Klofningsklett með vörðu hjá sunnanvert við Einirhól, úr Klofningsklett í búðarvatnsstæði úr búðarvatnsstæði í Markhelluhól, sem er hornmark frá Hvassahrauni, Óttarstöðum og Krýsuvík með áklöppuðum stöfunum Hvass., Óttas. og Kr.vík“.

Skorásvarða

Skorásvarða, landamerki Hvassahrauns og Lónakots.

Í kaflanum um Hvassahraun (austurbær) í fasteignamati 1916 – 1918 er greint frá landamerkjum jarðarinnar: „Landamerki að sunnan: sjá landamerki Vatnsleysu [Milli Hvassahrauns og Vatnsleysu er klettur innan til við Fögruvík, þaðan í Afstapaþúfu þaðan í Snókafell, það<an> að Krýsuvíkurl<andi>.] Að norðan, Hraunsnesvarða við sjó, þaðan í marka vörðu, þaðan í vörðu á Krossstapa, þaðan sömu stefnu til Krýsuvíkurland<s>“. Í sama riti kemur fram að Hvassahraunsbýlin, austur – og vesturbær, deila heiðalandi og hagbeit.
Í þeim hluta fasteignamats 1932 sem fjallar um lýsingu ábúenda á jörðinni Hvassahrauni kemur fram að beitiland jarðarinnar sé víðlent og skjólgott. Þar kemur líka fram að jörðin þurfi ekkert upprekstrarland því hún hafi það sjálf.

Sjá meira um hverfin á Vatnsleysuströnd HÉR.

Heimild:
Úrskurður Óbyggðanefndar 2004 – Grindavík og Vatnsleysuströnd.

Krossstapar

Mið-Krossstapar.

Auðnaborg

Hér verður fjallað um hverfin í „Vatnsleysustrandarhreppi„.  Sögulegt efnið er fengið úr skýrslu Óbyggðanefndar frá árinu 2004 eftir úrskurð nefndarinnar um eignarhald á jörðum í hreppnum. Taka þarf það þó með hæfilegum fyrirvara.

Brunnastaðahverfi

Efri-Brunnastaðir

Brunnastaðir.

Í skrá um kvikfé og leigumála á jörðum Viðeyjarklausturs frá árinu 1395 kemur fram að klaustrið á jörð sem kallast Brunnastaðir.
Samkvæmt fógetareikningum frá 1547 – 1548 voru Brunnastaðir í eigu Viðeyjarklausturs.
Samkvæmt Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalíns árið 1703 fylgdu Brunnastöðum hjáleigurnar Halakot, Brunnastaðakot, Stöðlakot, Tangabúð, Skjaldarkot, Traðarkot (Fjósahjáleiga), Vesturhús (Stephanarkot), Naustakot, Austurhús og Suðurhús. Fimm síðustu hjáleigurnar voru í eyði þegar Árni og Páll sömdu skýrslu sína. Í greinargerð þeirra stendur eftirfarandi: „Selstöðu hefur jörðin við fjallgarð, eru þar hagar litlir, en vatnsskortur að miklu meini, þegar þerrar gánga. … Skóg til kolgjörðar brúkar jörðin í almenningum. … Lýngrif og hríssrif lítið lángt til að sækja hefur jörðin, og þó ekki fyrir utan stóran ágreining við Vogamenn“.

Brunnastaðahverfi
Árið 1755 létu opinberir aðilar meta jarðir í Vatnsleysustrandarhreppi. Í skýrslu þeirri sem var unnin um Brunnastaði stóð meðal annars.: „… Jorden fölger Selstade til Malke Qvæget, som Aarligen kand forbruges, mens underrettes at dend er Bleven meget slet, udeen Vand og neppelig Værd med Umage at forbruges. Anden Græsgang eller Fædrift fölger Jorden noget liden, Nemlig i mellem Brynnestad og Woge hvor Torvskiæren haver været hidintil forbrugt,“ …. (Með Brunnastöðum eru þá taldar hjáleigurnar Brunnastaðakot, Naustakot, Skjaldakot, Austurkot, Tangabúð og Halakot og 2 – 3 hjáleigur í eyði).
Þann 17. maí 1786 hvarf jörðin Brunnastaðir úr eigu konungs.

Efri-Brunnastaðir

Í kaflanum um Brunnastaði í jarðamati 1804 kemur fram að fylgja hjáleigurnar Halakot, Suðurkot, Austurkot, Naustakot og Skjaldarkot.
Í kaflanum um Brunnastaði og hjáleigurnar: Halakot, Suðurkot, Austurkot, Naustakot, Skjaldarkot og Traðarkot í Jarðamati 1849 – 1850 kemur fram að landrými jarðarinnar sé talsvert.
Landamerkjabréf Brunnastaðahverfis gagnvart Hlöðunesi og Vogum var undirritað 22. maí 1890. Bréfið var þinglesið 16. júní 1890: Landamerki milli Hlöðunes og Brunnastaðahverfisins eru úr Markakletti sem stendur ofarlega í fjöru fyrir innan Skjaldakot, uppá uppmjóa þúfu sem stendur á klöpp að innanverðu við túngarðinn í Skjaldakoti, þaðan beina línu í aðra þúfu líka hinni í laginu sem stendur nokkru ofar, þaðan beina línu norðanhallt við Brunnastaðasel og svo þaðan beina línu til fjalls, svo langt sem Vatnsleysustrandarhrepps er talið. Landamerki milli Brunnastaðahverfisins, Norður- og Suðurvoganna eru: Úr dýpsta ós sem til sjáfar fellur í djúpavogi, uppí vörðu sem stendur fyrir sunnan presthóla, þaðan beina línu í vörðu sem stendur á Hrafnagjá og kölluð er leifur Þórður, þaðan í markhól og þaðan beina línu uppí fjall, svo langt sem Vatnsleysustrandarhreppsland er talið. Undir landamerkjabréfið skrifa Teitur Þórðarson og Björn Einarsson fyrir Hlöðuneshverfi og Klemens Egilsson og Guðm. J. Waage fyrir Norður og Suður–Voga.

Brunnastaðir

Brunnastaðir.

Í köflum þeim sem fjalla um Brunnastaðahverfið124 í fasteignamati 1916–1918 stendur að tún og garðar séu úrskift, en að heiðarland og hagbeit séu í sameign Brunnastaðahverfisjarðanna.
Annað landamerkjabréf er samið fyrir Brunnastaðahverfi árið 1921. Það er undirritað 20. desember það ár og fært í landamerkjabók 7. mars 1922. Þetta landamerkjabréf er aðeins um landið næst bæjunum en ekki heiðarlandið sem er í óskiptri sameign. Í því kemur fram að: „enginn ágreiningur á milli jarða, hvorki með tún- nje fjörumörk. En landamerkji milli „hverfa” vísast til sýslubókanna frá 16. júní 1890; þá gjörð landamerkji milli Voga, Brunnastaða- og Hlöðuneshverfis, eftir samkomulagi þáverandi hlutaðeigenda“.

Neðri-Brunnastaðir

Neðri-Brunnastaðir 1928.

Landamerkjabréfið er vottað af: Ágústi Guðmundssyni, Halakoti, Símoni Símonarsyni, Skólanum, Gísla Eiríkssyni, Naustakoti, Helga Jónssyni og Guðjóni Péturssyni, Brunnastöðum Gunnari Gíslasyni, Skjaldarkoti, Kristjáni Hannessyni, Grund, Þórdísi Guðmundsdóttur, Traðarkoti og Bjargmundi Hannessyni, Suðurkoti.
Í fasteignamati 1932 er að finna lýsingar ábúenda eftirfarandi jarða í Brunnastaðahverfi: Skjaldarkot, Traðarkot, Austurkot, Neðri–Brunnastaðir, Efri–Brunnastaðir, Suðurkot I og II, Naustakot og Halakot.

Skjaldarkot

Skjaldarkot.

Í kaflanum um Skjaldarkot segir að landamerkjalýsing sé til og enginn ágreiningur sé um hana.
Samkvæmt skýrslunni um Traðarkot hefur jörðin ekki afréttarland. Hvað landamerki varðar er vísað til þeirrar landamerkjalýsingar sem hefur verið gerð fyrir hverfið í heild sinni.

Brunnastaðir

Brunnastaðir – loftmynd 1954.

Í kaflanum um Austurkot kemur fram að beitiland jarðarinnar sé í meðallagi víðlent. Jörðin á sameiginleg landamerki [með öðrum jörðum Brunnastaðahverfisins] og eru þau ágreiningslaus.
Samkvæmt jarðalýsingu Neðri – Brunnastaða er enginn ágreiningur er um landamerki jarðarinnar.
Efri – Brunnastaðir hafa í meðallagi víðlent beitiland. Enginn ágreiningur er um landamerki jarðarinnar.

Suðurkot

Suðurkot.

Í skýrslunni um Suðurkot kemur fram að jörðin eigi rétt til upprekstar á landi sem sé í eigu jarðanna í Brunnastaðahverfinu. Enginn ágreiningur er um landamerkin.
Að sögn ábúanda á Suðurkoti II er enginn ágreiningur um landamerki jarðarinnar.
Á meðal þess sem kemur fram í kaflanum um Naustakot er að heiðarland sé í sameign við aðrar jarðir í hreppnum og að landamerki séu ágreiningslaus.
Í þinglýsingarvottorðum sem gefin voru út í júní 2004 kemur fram að í Brunnastaðahverfinu séu: Skjaldarkot, Traðarkot, Austurkot, Neðri-Brunnastaðir, Efri-Brunnastaðir, Suðurkot, Naustakot og Halakot.

Hlöðuneshverfi

Hlöðuneshverfi
Þann 9. september 1447 seldi Viðeyjarklaustur fjórar jarðir. Kaupandinn greiddi fyrir þær með fjórum jörðum er voru í hans eigu. Ein þeirra jarða sem klaustrið eignaðist í þessum viðskiptum var Hlöðunes.
Samkvæmt fógetareikningum frá 1547 – 1548 var Hlöðunes í eigu Viðeyjarklausturs.
Í Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalíns árið 1703 segir eftirfarandi um Hlöðunesi: „Selstöðu á jörðin þar sem heitir Hlöðunesskinn, og eru þar hagar bjarglegir en vatnsból í lakasta máta, so orðið hefur fyrir vatnsskort að flytja heim úr selinu“.
Hlöðunesi fylgdi hjáleigan Hlöðuneskot.

Hlöðunes

Hlöðunes 1939.

Árið 1755 fór fram mat á jörðum í Vatnsleysustrandarhreppi. Í greinargerðinni sem var skrifuð um jörðina Hlöðunes stóð m.a.: „Selstade op til Fields fölger með Jorden som Aarligen kand Forbruges, Mens Fæedrivt og Græsgang for Heste og Studer meget lidt, undtagen hvis som kand erholdes udi Bermelte Selstade, og ude een Moe Sydvest fra Tunet“ …
J. Johnsen minnist á það í bók sinni, Jarðatal á Íslandi, að konungsjörðin Hlöðunes hafi verið seld þann 19. apríl 1837.
Eigandi hálfs austurhluta Hlöðuness seldi eign sína þann 17. júní 1839.
Samkvæmt afsalsbréfinu þá var hér um að ræða bæ, útmælt tún og túngarð. Í skjalinu kemur einnig fram að eignir og ítök til lands og vatns, sem eru tún og úthagar til fjalls og fjöru, og veiða- og rekahlunnindi hafi fylgt með í sölunni.

Hlöðunes

Hlöðunes – túnakort 1919.

Í Jarðamati 1849 – 1850 stendur eftirfarandi um jörðina Hlöðunes og býlin Hlöðuneskot og Vesturkot: „Sumar- og vetrarbeit allgóð í óskiptu landi utangarða“.
Þann 25. nóvember 1869 seldi eigandi Hlöðuneskots bóndanum á Minni–Vatnsleysu jörðina. Í afsalsbréfinu kemur fram að jörðin er seld með: „öllum þeim húsum og byggingum, eignum og ítökum, til sjós og lands, er … fylgt hefur og fylgja ber til ystu ummerkja, að afsöluðum öllum óðals og innlausnarrjétti frá minni og erfingja minna hálfu“ … .

Hlöðunes

Hlöðunes.

Landamerkjabréf Hlöðunesshverfis gagnvart Brunnastöðum og Ásláksstöðum var undirritað 22. maí 1890. Bréfið var þinglesið 16. júní 1890: „Milli Hlöðunes og Brunnastaðahverfa: frá svokölluðum markakletti, sem stendur ofarlega í fjöru skammt fyrir innan Skjaldakot beina línu uppí uppmjóa þúfu er stendur á klöpp innan vert við túngarðinn í Skjaldakoti, þaðan beina línu í aðra þúfu líka hinni síðastnefndu í laginu, sem er nokkrum föðmum ofar og þaðan beina línu norðanvert við Brunnastaðasel til fjalls svo langt, sem land Vatnsleysustrandarhrepps nær. Milli Hlöðunes og Ásláksstaðahverfis frá ós þeim sem lengst skerst uppí land innúr svokölluðu Álfasundi, þaðan beina línu í svokallaðan Álfhól, þaðan beina línu í hól sem stendur fyrir sunnan Arnarbæli, þaðan beina línu sunnan til við Ásláksstaðaholt uppí Hrafnshóla og þaðan beina línu sunnan til við gamla Hlöðunes<s>el til fjalls svo langt sem land Vatnsleysustrandarhrepps nær“. Þetta landamerkjabréf var samþykkt af eigendum og ábúendum Brunnastaðahverfis og Ásláksstaðahverfis.

Hlöðunessel

Hlöðunessel.

Í þeim hluta fasteignamats Gullbringu- og Kjósarsýslu 1916 – 1918 sem fjallar um jörðina Hlöðuness er að finna landamerkjalýsingu fyrir hverfið. Hún er samhljóða þeim hluta landamerkjabréfsins frá 22. maí 1890 sem fjallar um landamerki milli Hlöðuness og Brunnastaðahverfa. Í köflunum um Hlöðunes og býlin Halldórsstaði og Narfakot í sama riti kemur fram að tún og matjurtagarðar séu úrskift en heiðarland og hagbeit í félagi.

Narfakot

Narfakot – Altlagerðistangaviti fjær.

Í upphafi þriðja áratugar síðustu aldar var samið annað landamerkjabréf fyrir Hlöðuneshverfi sem nær til túna og fjöru. Það var undirritað 27. desember 1921 og innritað í landamerkjabók 12. janúar 1922. Þar kemur m.a. fram að: Landamerkjalýsing þessi innibindur Hlöðuneshverfi í Vatnsleysustrandarhreppi; Hlöðunes, Halldórsstaði, Narfakot og Miðhús, sem takmarkast af Brunnastaðahverfi að sunnan og Ásláksstaðahverfi að norðan (innan) samkvæmt landamerkjalýsing útgefin og þinglesinni 1890 og athugasemdarlaust undirskrifaðri af öllum hlutaðeigendum, bæði hvað fjöru og heiðarmörk snertir en áðurnefnd merkjalýsing, tekur ekki neitt til um túnmörk innan hverfis, en þau eru sem hjer segir: …Eigendur Halldórsstaða og Miðhúsa auk eiganda Hlöðuness og umboðsmanns eiganda Narfakots skrifuðu undir landamerkjabréfið.
Í Fasteignamati 1932 er að finna lýsingar á jörðum í Hlöðunesshverfi: Halldórsstöðum, Narfakoti og Hlöðunesi. Í skýrslunni um Halldórsstaði segir að heiðarland sé óskipt og að landamerki jarðarinnar séu ágreiningslaus og þinglesin.

Ásláksstaðahverfi

Ásláksstaðahverfi
Þann 9. september 1447 seldi Viðeyjarklaustur fjórar jarðir. Kaupandinn greiddi fyrir þær með fjórum jörðum er voru í hans eigu. Ein þeirra jarða sem klaustrið eignaðist í þessum viðskiptum var Ásláksstaðir.
Samkvæmt fógetareikningum frá 1547 – 1548 voru Stóru– og Minni–Ásláksstaðir í eigu Viðeyjarklausturs.
Ásláksstaðahverfið var metið árið 1703. Í Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalíns kemur fram að Stóru Ásláksstaðir eigi hjáleiguna Atlagerði. Þar stendur einnig eftirfarandi: „Selstöðu á jörðin frí þar sem heita Knararness sel, og eru þar hagar í lakasta máta en vatnsbrestur til stórmeina. … Skóg til kolgjörðar brúkar jörðin i almenningum frí“.
Í greinargerð sem var unnin um jarðir í Vatnsleysustrandarhreppi árið 1755 eru kaflar um bæði Stóru– og Minni–Ásláksstaði. Um Stóru – Ásláksstaði segir m.a.: „… Selstade Fölger Jorden som Aarlig kand forbruges, mens Græsgang og Fædrift til liden nytte, uden hvis som er at faae paa bemelte Selstade“ …

Knarrarnessel

Ásláksstaðasel í Knarrarnesseli. Uppdáttur ÓSÁ.

Í kaflanum um Minni–Ásláksstaði stendur m.a.: „… Selstade til Malke Qvæg fölger Jorden som Aarligen forbruges, Mens Græsgang eller Fædrivt icke meget andet end som paa Berörte Selstade og hvad der kand være i fælles. Fædrivten med Store Axlestade efter foranförte,“ …
Jörðin Ásláksstaðir hvarf úr eigu konungs þann 7. ágúst 1813.
Eitt af því sem sagt er um Innri – Ásláksstaði í Jarðamati 1849-1850 er: „Sumar og vetrarbeit lítil í óskiptu landi“.
Í Fasteignamati árins 1849 segir um Ytri – Ásláksstaði: „Utangarða óskipt lóð“.
Í þeim köflum í fasteignamati 1916 – 1918 sem fjalla um jarðirnar í Ásláksstaðahverfinu, Ytri – og Innri Ásláksstaði og Sjónarhól, kemur fram að tún og matjurtagarðar þeirra séu úrskipt en að heiðarland og hagbeit séu í sameign jarðanna þriggja.

Móakot

Móakot og Móakotsbrunnur.

Landamerkjabréf Ásláksstaðahverfis var undirritað 31. desember 1921. Bréfið var fært í landamerkjabók Gullbringu- og Kjósarsýslu þann 7. mars 1922: Landamerkjalýsing þessi, innibindur Ásláksstaðahverfi en það eru þessar jarðir og býli: Sjónarhóll, Innri – Ásláksstaðir, Hallandi (Nýjibær), Ytri-Ásláksstaðir og Móakot. Ásláksstaðahverfi, tilheyrir land alt, girt og ógirt á milli Hlöðunes-hverfis, að sunnan og Knarraness að innan, svo langt til heiðar eða fjalls, sem land Vatnsleysustrandarhrepps nær. Að sunnan, milli Hlöðuneshverfis annarsvegar og Ásláksstaðahverfis hinsvegar (að innan) eru þessi landamerki: Álfasund frá ós þeim sem lengst skerst uppí land, úr Álfasundi og ræður framhald á þeim ós einnig mörkum á milli hverfanna, alla leið til sjáfar fram um fjöru; í Álfshól beina stefnu í Hól, sem stendur fyrir sunnan Arnarbæli sunnan til við Ásláksstaðaholt í Hrafnshóla sunnan til við gamla Hlöðunes<sel> til fjalls. Að innan, milli (Sjónarhóls) Ásláksstaðahverfis að sunnan og Knarrarness að innan, eru þessi landa- og fjörumerki: úr ós upp eftir fjöru í klöpp er liggur í svonefndum girðingum hjer um bil til miðsvæðis ofan til við flæðarmál, þaðan sunnantil við svo nefnda Digruvörðu fyrir sunnan Hellur (bæinn) beint í Knarranessholt þaðan í Eldborgargreni, þaðan beint í Krýsuvíkurland. Hversu sunnanhöll við markalínuna að Digruvarða og Knarrarnesholt eru sjest þegar bein lína er dregin frá Klöppinni í Eldborgargren. Austast í Ásláksstaðahverfi að Knarranesmörkum innan girðingar og fjöru liggur:

Ásláksstaðir

Sjónarhóll. Ásláksstaðir og Móakot fjær.

1. Sjónarhóll: Tún hans takmarkast af heiðargarði, alla leið frá túni Ytri-Ásláksstaða og austur að garði þeim er liggur í norður, fyrir austurkanti Sjónarhóls-túns á milli þess og girðinga þeirra, er honum tilheyra og eru þar heiðar og sjáfarmegin afgirtar með görðum og gaddavír og ná næstum, þó ekki alveg að mörkum Knarrarrnes og Ásláksstaðahverfis. Austast í girðingum þessum er nýbýlið Garðhús með þurrabúðar útmæling; matjurtagarð á býli þetta fyrir neðan eða sjáfarmegin við girðingarnar og annan fyrir ofan þær, lóð býlis þessa er eign Sjónarhóls ásamt girðingunum. Að norðan liggur tún Sjónarhóls alt að sjó; að vestan takmarkast það af grjótgarði, sem er á milli Hallanda og Sjónarhólstúns og liggur hann að austurhorni á matjurtagarði þeim, sem er eign Ytri – Ásláksstaða, eftir garðsvegg þessum meðan hann nær yfir Traðargötu á milli bæanna eftir vírgirðingu, sem kemur dálítið vestar, en í beinni línu eftir þeim mörkum sem áður er lýst og liggur með dálitlum boga, út að heiðargarði túnanna, í stóran stein merktan M. … … [Framhaldslýsingar eiga eingöngu við heimalönd innan garðs.] …Utangarðs er heyðarland alt óskift og tilheyrir eftir hundraðshlutföllum innanhverfis. Þess skal loks getið að árið 1918 var selt með samningi útgefnum og þinglesnum það ár lóðarspilda undir vitanum og í kringum hann.
Þetta landamerkjabréf er vottað af bændunum á Knarrarnessbæjunum að áður sé lesið milli hverfa.

Ásláksstaðir

Nýibær (Hallandi).

Í fasteignamati 1932 er að finna jarðalýsingar ábúenda Sjónarhóls, Ytri–Ásláksstaða, Nýjabæjar og Móakots.
Í skýrslunni um Sjónarhól kemur fram að beitiland býlisins sé frekar þröngt en skjólgott. Sjónarhóll hefur allt sitt upprekstrarland á heimalandi. Landamerki jarðarinnar eru óumdeild.
Í svörum ábúanda á Ytri–Ásláksstöðum kemur fram að landamerkin séu ekki vafalaus.
Í spurningalistanum sem ábúandi á Nýjabæ fyllti út kemur fram að beitiland Nýjabæjar sé víðlent og að landamerkjalýsing sé til.
Að sögn ábúanda í Móakoti eru landamerki ágreiningslaus.
Í þinglýsingarvottorði frá 26. maí 2004 kemur fram að Sjónarhóll sé í eigu nokkurra aðila..
Þann 14. júní 2004 var gefið út þinglýsingarvottorð fyrir jörðina Ásláksstaði.

Knarrarnes

Stóra-Knarrarnes

Stóra-Knarrarnes.

Þann 9. september 1447 seldi Viðeyjarklaustur fjórar jarðir. Kaupandinn greiddi fyrir þær með fjórum jörðum er voru í hans eigu. Ein þeirra jarða sem klaustrið eignaðist í þessum viðskiptum var Knarrarnes.
Samkvæmt fógetareikningum frá 1547 – 1548 var Stóra– og Minna–Knarrarnes í eigu Viðeyjarklausturs.
Lagt var mat á Knarrarnesjarðirnar árið 1703. Í Jarðabók Árna og Páls stendur eftirfarandi um Litla – Knarrarnes: „Selstöðu á jörðin þar sem heitir Knararness sel, og eru þar hagar í lakasta máta, en vatnsból brestur til stórmeina. … Skóg til kolgjörðar á jörðin frí í almenningum“.

Knarrarnessel

Knarrarnessel – vatnsstæði. Selstaðan ofar.

Í kaflanum um Stóra–Knarrarnes kemur eftirfarandi fram: „Selstaða þar sem heitir Knararness sel; eru hagar litlir mjög, en vatnsskortur til stórmeina, so að selstöðuna hafa menn næsta því forlátið, og kaupir bóndinn nokkrum sinnum selstöðu í fjarlægð. Skóg til kolgjörðar brúkar jörðin í almenningum“.
Eftirfarandi texta er að finna í mati sem unnið var um býlið Stóra–Knarrarnes árið 1755: „Selstade Fölger som Aarlig forbruges, Mens Græsgang og Fædrift til liden nytte undtagen Bemeldte Selstade, Hvor udjnden der er störste mangel paa Huusse og Höe Torv Skiæren uden giærde“…
Í ritinu Jarðatal á Íslandi, eftir J. Johnsen, kemur fram að konungsjörðin Stærra–Knarrarnes hafi verið seld þann 19. apríl 1837.
Þann 13. júní 1838 hvarf jörðin Minna – Knarrarnes úr eigu konungs.
Í umfjölluninni um Stóra – Knarrarnes í Jarðamati 1849 – 1850 kemur m.a. fram að: „Hagbeit sumar og vetur rír í óskiptu landi utangarða“. …

Minna-Knarrarnes

Minna-Knarrarnes.

Í kafla þeim sem helgaður er Litla–Knarrarnesi í Jarðamati 1849 – 1850 stendur m.a. að: „… Sumar og vetrarbeit lítil í óskiptu landi utangarða“. … Landamerkjabréf Knarrarness var undirritað 11. júní 1886 og þinglesið fjórum dögum síðar:
Landamerkjalýsing þessi innibindur jarðirnar Stóra-Knararnes og Minna-Knararnes og eru mörkin þessi:
1. Að austanverðu milli Stóra – Knararness að vestan og Breiðagerðis að austan: Frá Selskeri sem er lítið sker milli skerjanna Söðuls og Þríhyrnings, upp eptir maðkasandinum, í Duggusker, þannig, að tveir þriðjungar þess eru eign Stóra – Knararness; þaðan í neðri enda svo nefnds Merkjagarðs, er liggur fyrir austurenda Stóra–Knararnesstúns, og er garður þessi í mörkum það sem hann nær, upp að túngarði; þaðan í nyrðri (eystri) Geldingahól, þaðan um nyrðri Keilisbróður beint að landi Krýsivíkur.
Einungis frá þeim enda Merkjagarðs, er til heiðar snýr, er heiðin óskipt land, er eigendur Knarrarnesja eiga saman eptir jarðarhundraða tiltölu. En túnmörkeru:
a) milli austurparts og vesturparts Stóra–Knarrarness: Úr ós við Fjöruvatnsgranda austanverðan allt upp í Skeljavík; þaðan í tvær þúfur á Knarranesshöfða er bera skulu hvora í aðra og þá eptir garðlagi og götu milli túnanna heim að bæ og um bæinn, eptir tröðinni út að túngarðahliði.
b) Milli Stóra – Knarrarness og Minna – Knarrarness. Úr syðra parti Vörðuskers (2/3 þess er eign Stóra–Knarrarness) beint eptir fjörunum í Markaklöpp; þaðan í Krosshóla í túni, og eptir garðlagi því, er þaðan liggur suður og upp tún út að túngarði.

Eldborgargren

Eldborgargren.

2. Að vestanverðu milli Knarrarness og Ásláksstaða: Úr ós eptir fjöru í Klöpp, er liggur í svo nefndum girðingum hjer um bil miðsvæðis, ofan til við flæðarmál, þaðan sunnan til við svo nefnda Digruvörðufyrir sunnan Hellur (bæinn) beint í Knarranessholt sunnanhalt, þaðan í Eldborgargren, þaðan beint í Krýsuvíkurland. Hversu sunnanhöll við markalínuna að Digravarða og Knarrarnessholt eru, sjest, þegar bein lína er dregin frá Klöppinni í Eldborgargren. Bréfið var samþykkt af fjórum mönnum, eigendum Breiðagerðis og Innri-Ásláksstaða.
Í lok bréfsins bæta eigendur vesturparts Stóra Knarrarness og ¾ Minna Knarrarness við athugasemd: „Við Sigurður Gíslason og Stefán Jónsson erum samþykkir mörkunum að sunnan, en ekki að innan“.
Í kaflanum um Minna – Knarrarnes í Fasteignamati 1916 – 1918 koma fram upplýsingar um landamerki: „Landamerki milli Áslaksstaða og Knarrarnes eru við sjó er steinn á Klapparhorni við svonefndar girðingar í svokallaðan Markhól þaðan beina línu til heiðar í stóra hrút fyrir norðan Hagafell þaðan norður í Litla-Hrút, þaðan í innri Geldingahól, þaðan niður í merkisgarð, þaðan í svonefndan Selastein í fjöru“.
Í köflunum um Minna – Knarrarnes og hinar tvær jarðirnar í Knarrarneshverfinu, Stóra–Knarrarnes (tvær hálflendur með sama nafni) í sama riti kemur fram að tún og matjurtagarðar séu úrskift en heiðarland og hagbeit séu í félagi jarðanna þriggja.

Eldborg

Eldborg ofan Knarrarnessels.

Í maí 1920 gáfu nokkrir aðilar út yfirlýsingu um afnot á hluta lands Knarrarness: „Vjer undirritaðir eigendur og ábúendur jarðanna: Knarrarnes, Breiðagerði, Auðnar, Landakot, Þórustaðir og Kálfatjörn, allar í Vatnsleysustrandarhreppi í Gullbringusýslu, lýsum því yfir með skjali þessu að vjer í samráði við hreppsnefnd Vatnsleysustrandarhrepps, fyrirbjóðum innbyggendum Grindavíkurhrepps, innan Gullbringusýslu, öll afnot af landi því, er, samkvæmt landamerkjalýsing fyrir Knarranesi, þinglesin á manntalsþingi Vatnsleysustrandar- og Grindavíkurhrepps 1887, sem eru: „Þaðan sunnan til við svonefnda digruvörðu fyrir sunnan Hellur (bæinn) beint í Knarrarnessholt sunnanhalt, þaðan í Eldborgargren, þaðan beint í Krýsuvíkurland. Hversu sunnahöll við markalínuna að Digurvarða og Knarranessholt eru, sjest, þegar bein lína er dregin frá klöppinni (í fjörunni) í Eldborgargren….”“

Stóra-Knarrarnes

Stóra-Knarrarnes.

Allt það land sem fyrir innan þessa línu er, eða er milli hennar og Krýsivíkurlands, teljum vjer eign áðurnefndra jarða sbr. landamerkjalýsingar fyrir öllum áðurnefndum jörðum, þinglesnar á báðum stöðunum 1886 og 1887 og undirskrifaðar af Árna sál. Gíslasyni í Krýsuvík 1891. Undir þessa yfirlýsingu skrifa; Sæmundur Kr. Klemensson fyrir hönd skólanefndarinnar, eigendur Knarrarnesjanna, umboðsmaður alls Breiðagerðisins og viss hluta Auðnahverfis, Þórarinn Einarsson [Bergskoti], Benedikt Þorláksson [Höfða], eigandi nokkurs hluta Þórustaða og hreppsnefndaroddvitinn.

Stóra-Knarrarnes

Tóftir Stóra-Knarrarness.

Þann 31. maí 1920 var haldið manntalsþing í Grindavíkurhreppi. Á því þingi mótmælti Hafliði Magnússon, bóndi á Hrauni, landamerkjalýsingu fyrir Auðnahverfi í Vatnsleysustrandarhreppi, dagsettri 12. júní 1886, og yfirlýsingu um landamerki fyrir jarðirnar Knarrarnes, Breiðagerði, Auðna, Landakot, Þórustaði og Kálfatjörn sem gefin var út í maí 1920, en þessi skjöl voru þinglesin á manntalsþinginu. Hafliði greindi einnig frá því hver hann teldi landamerki Hrauns og Þórkötlustaða þar sem þau liggja að landi Strandahrepps eiga að vera: „Lína tekin úr Sogaselsdal beint vestur í Kálffell og þaðan beina línu í þúfuna á litla Skógfelli“. Fram kom í máli Hafliða að þessum landamerkjum hefði áður verið lýst á manntalsþingi í Grindavík hinn 12. október 1889.
Í fasteignamati 1932 er að finna jarðalýsingu ábúenda á eftirfarandi jörðum í Knarrarneshverfi; Stóra–Knarrarnes I, Stóra–Knarrarnes II (Austurbær) og Minna–Knarrarnes.
Að sögn ábúanda á Stóra–Knarrarnesi er beitilandið víðlent. Hann greinir einnig frá því að jörðin eigi sameiginlegt beitiland við hálflenduna [Stóra–Knarrarnes II] og Minna–Knarrarnes. Einnig nefnir hann að landamerki séu þinglesin og enginn ágreiningur sé um þau.
Samkvæmt upplýsingum ábúanda á Stóra–Knarrarnesi II (Austurbæ) er beitiland býlisins nægilegt. Einnig nefnir hann í skýrslu sinni að jörðin eigi rétt til upprekstrar í afrétt. Landamerki jarðarinnar eru ágreiningslaus.
Í svörum ábúanda á Minna – Knarrarnesi kemur fram að beitilandið sé fremur þröngt.
Af þinglýsingarvottorðum dagsettum 15. og 21. júní 2004 má ráða að í Knarrarnestorfunni séu; Minna–Knarrarnes, Stóra–Knarrarnes I og Stóra–Knarrarnes

Breiðagerði

Breiðagerði

Breiðagerði – túnakort 1919.

Þann 9. september 1447 seldi Viðeyjarklaustur fjórar jarðir. Kaupandinn greiddi fyrir þær með fjórum jörðum er voru í hans eigu. Ein þeirra jarða sem klaustrið eignaðist í þessum viðskiptum var jörðin Breiðagerði.
Þann 13. september árið 1500 áttu sér stað eigendaskipti á jörðinni Breiðagerði. Henni fylgdu öll gögn og gæði.
Viðeyjarklaustur eignaðist jörðina aftur 30. maí 1501.
Samkvæmt fógetareikningum frá 1547 – 1548 var Breiðagerði í eigu Viðeyjarklausturs.
Árið 1703 var jörðin Breiðagerði metin. Í Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalíns segir Selstöðu brúkar jörðin þar sem kallað er Knararness sel, eru þar hagar mjög litlir og vatnsbrestur til stórmeina. … Skóg til kolgjörðar brúkar jörðin frí í almenningum.

Breiðagerði

Tóft við Breiðagerði.

Í opinberri skýrslu sem gerð var um jarðir í Vatnsleysustrandarhreppi árið 1755 stendur eftirfarandi um býlið Breiðagerði: „… Selstade Fölger Jorden som aarlig forbruges, Mens Græsgang og Fædrift undtagen bemelte Selstade icke til nogen betydelig nytte, hvoraf flyder huse og Höe torves Mangel“…
Í Jarðamatinu 1849 – 1850 segir m.a. um jörðina Breiðagerði: „Hagbeit sæmileg sumar og vetur í óskiptu landi utangarða“. …
J. Johnsen minnist á það í bók sinni, Jarðatal á Íslandi, að konungsjörðin Breiðagerði hafi verið seld þann 2. maí 1827.

Breiðagerði

Breiðagerðishverfið.

Landamerkjabréf Breiðagerðis var undirritað 11. júní 1886 og þinglesið fjórum dögum síðar: Landamerkin eru þessi: Breiðagerði tilheyrir land allt með gögnum og gæðum til lands og sjáfar milli Bergskots, Höfða og Auðna að norðanverðu og Stóra–Knarrarness að sunnanverðu. Landamerkin eru þessi:
1. Milli Bergskots, Höfða og Auðna að norðanverðu og Breiðagerðis að sunnanverðu: Lendingarósinn, sem liggur út frá lendingum Bergskots og Breiðagerðis, sunnanvert við Bláklett, sem er hár klettur fyrir norðan og utan Bergskots-lendinguna. Frá flæðarmáli til heiðar liggja mörkin eptir beinni stefnu úr Blákletti, norðanvert við efri Sundvörðuna um Þúfuhól þann, er hún stendur á, skammt fyrir austan tómthúsið Hól; þaðan eptir vörðum upp heiðina, milli Auðna – Klofninga og Breiðagerðis – Skjólgarðs, spölkorn fyrir norðan nyrðri Keilisbróðir, allt að landi Krýsuvíkur í Grindavíkurhreppi.

Ásláksstaðasel

Ásláksstaðasel.

2. Milli Stóra – Knaraness að sunnanverðu og Breiðagerðis að norðanverðu eru þessi landamerki: Selsker, sem er lítið sker milli skerjanna Söðuls og Þríhyrnings; þaðan upp eptir maðkasandinum í sprungu, sem er nokkru norðar en í miðju Dugguskeri, sem er stórt sker á sandinum milli Knaraness og Breiðagerðis: – Stóra–Knararnesi tilheyrir því tveir þriðjungar af Dugguskeri, en Breiðagerði einn þriðjungur. Úr þessari sprungu liggja mörkin beint í litla klöpp, sem er í flæðarmáli við neðri enda merkjagarðsins, er liggur fyrir austurenda Stóra – Knararnesstúnsins frá sjó upp að túngarði, og eptir þessum merkjagarði meðan hann nær til, en frá efri enda hans liggja mörkin í nyrðri Geldingahól; þaðan í nyrðri Keilisbróðir og eptir þeirri stefnu alla leið að landi Krýsivíkur í Grindavíkurhreppi.
Landamerkin eru samþykkt af eigendum Auðnahverfis og umráðamanni Stóra-Knarrarness.

Breiðagerði

Breiðagerði – innsiglingarvarða ofan við vörina.

Í kaflanum um Breiðagerði í fasteignamati 1916 – 1918 stendur að heiðarland og hagbeit séu í félagi við nágrannajarðir.
Í fasteignamati 1932 er að finna lýsingu ábúanda Breiðagerðis á jörðinni. Í henni kemur fram að tún eru girt af með grjótgarði og beitiland með gaddavír. Þar stendur einnig að jörðin eigi óskipt beitiland og að þar sé talsvert af grjóti sem nota megi sem byggingaefni. Landamerki Breiðagerðis eru ágreiningslaus. Jörðin fylgir Auðnum.
Vatnsleysustrandarhreppur seldi Hitaveitu Suðurnesja land ofan Vatnsleysustrandarvegar (gamla þjóðvegarins) sem tilheyrt hafði jörðinni Breiðagerði þann 1. september 2004. Landið afmarkaðist af Knarrarnesi til suðvesturs, Auðnahverfi til norðausturs, en heiðarmörk til suðausturs liggja móti landi Krýsuvíkur.

Auðnahverfi

Vatnsleysubæir
Samkvæmt fógetareikningum frá 1547 – 1548 voru Auðnir í eigu Viðeyjarklausturs.
Auðnir voru metnar árið 1703. Þeim fylgdu hjáleigurnar Auðnahjáleiga, Lönd, Hjáleiga og Hólmsteinshús. Í Jarðabók Árna og Páls stendur eftirfarandi: „Selstöðu á jörðin og brúkar þar sem kallað er Auðnasel, þar eru hagar nýtandi, en vatnsskortur til stórmeina margoft. … Skóg til kolgjörðar brúkar jörðin í almenningum“.
Í Jarðabókinni kemur fram að jörðin Landakot sé hálflenda Auðna og er selstaða ekki nefnd við þá jörð.
Árið 1755 var lagt mat á jörðina Auðna. Í þeirri úttekt kom m.a. fram að: „Jorden Fölger Selstade sem Aarlige Forbruges, mens udmark meget slet hvoraf fölger Torveskiærs Mangel at dæcke med Husse og Höe, hvis Aarssage Torvet er skaaren jnden Gierdes Tunet til Störste Bedervelse“… Í jarðamati árið 1804 kemur fram að Auðnum fylgir hjáleigan Auðnakot.
Jörðin Auðnar hvarf úr eigu konungs þann 19. apríl 1837.

Breiðagerðissel - Auðnasel

Auðnasel – Uppdráttur ÓSÁ.

Í kaflanum um Auðna, með hjáleigunni Bergskoti, í Jarðamati 1849-1850 kemur m.a. eftirfarandi fram: „Nokkur hagbeit sumar og vetur í óskiptu landi utangarða“.
Landamerkjabréf Auðnahverfis var undirritað 12. júní 1886 og þinglesið þremur dögum síðar: Landamerkjalýsing þessi innibindur jarðirnar Auðna (norður- og suður-part heimajarðarinnar), Höfða og Bergskot. Eiga þessar jarðir land allt með gögnum og gæðum til lands og sjávar milli Landakots að norðanverðu og Breiðagerðis að sunnanverðu. Fjörunni er skipt í spildur með hverri jörð fyrir sig; sömuleiðis eru tún jarðanna aðgreind hvert frá öðru, ýmist með grjótgörðum eða járnþráðargirðingum, en heiðarland allt milli Landakots og Breiðagerðis tilheyrir þessum þrem jörðum sameiginlega og ber hverri jörð af því eptir hundraðatölu hennar.

Höfði

Höfði.

1. Að norðanverðu milli Auðnahverfis og Landakots eru landamerki þessi: Fyrir neðan flæðarmál: Markaós, sem er austasti ósinn, er skerst inn úr aðalós þeim, er liggur inn á milli Landakotstanga og Sílalónsskers. Fyrir ofan flæðarmál eru mörkin við suðurenda stakkstæðis, sem Landakoti tilheyrir og um krók þann, er sjávargarðar Landakots og Auðna mynda, þar sem þeir mætast; þaðan eptir járnþráðargirðingu í syðsta horn á sjávarkálgarði Landakots, þaðan um Brunnhóla eptir grjótgarði; þaðan eptir gömlu torf-garðlagi og járnþráðargirðingu um sunnanverðan Landakotshól; þaðan út að túngarði eptir gömlu grjótgarðlagi og járnþráðargirðingu; þaðan um Skálholt sunnanvert og um sunnanverða Auðna – Klofninga yfir Stórhæð; þaðan í Klofa og eptir þeirri stefnu spölkorn fyrir sunnan Keilir allt að landi Krýsivíkur í Grindavíkurhreppi.

Auðnar

Auðnar – túnakort 1919.

2. Að sunnanverðu milli Auðnahverfis og Breiðagerðis eru þessi landamerki: Lendingarósinn sem liggur út frá lendingum Bergskots og Breiðagerðis fyrir sunnan Bláklett. Frá flæðarmáli liggja mörkin eptir beinni stefnu úr Blákletti í Þúfuhól þann, sem efri Sundvarðan stendur á, skammt fyrir austan tómthúsið „Hól”. Úr Þúfuhól þessum liggja mörkin beint eptir vörðum upp heiðina milli Auðna – Klofninga og Breiðagerðis – Skjólgarðs spölkorn fyrir norðan nyrðri Keilisbróðir (Litla hrút) alla leið að landi Krísivíkur í Þetta landamerkjabréf var samþykkt af eiganda Landakots.
Í fasteignamati 1916 – 1918 er greint frá landamerkjum Auðna: Landamerki að sunnan við Auðnahverfi er norðan við Breiðagerði. Lendingarósinn sem liggur út frá lendingu Bergskots og Breiðagerðis, fyrir sunnan Bláklett. Frá flæðarmáli liggja mörkin eftir beinni stefnu úr Blákletti í Þúfuhól, þann sem efri sundvarðan stendur á, skamt fyrir austan tómthúsið Hól. Úr Þúfuhól þessum liggja mörkin beint eftir vörðum upp heiðina milli Auðnaklofninga og Breiðagerðis-skjólgarðs, spölkorn fyrir norðan nyrðri Keilisbróðir, Litla hrút alla leið að landi Krýsivíkur í Grindavíkurhreppi.

Auðnaborg

Auðnaborg.

Að norðanverðu við Auðnahverfi og milli Landakots eru mörkin þessi. Fyrir neðan flæðarmál Markaós, sem er austasti ósinn, skerst innúr aðalós þeim, er liggur á milli Landakotstanga og Sílalónsskers. Fyrir ofan flæðarmál eru mörkin við suðurenda stakkstæðis, sem Landakoti til heyrir og um Krók þann, er sjávargarður Landakots og Auðna mynda, þar sem þeir mætast. Þaðan eftir járnþráðargirðingu í syðsta horn á sjávarkálgarði Landakots; þaðan um Brunnhóla eftir grjótgarði; þaðan eftir gömlu torfgarðlagi og járnþráðargirðingu um sunnanverðan Landakotshól; þaðan út að túngarði eftir gömlu grjótgarðlagi og járnþráðargirðingu. Þaðan um Skálholt sunnanvert og um sunnanverða Auðnaklofninga yfir Stórhæð; þaðan í Klofa og eftir stefnu þeirri, spölkorn fyrir sunnan Keilir, alt að landi Krýsuvíkur í Grindavíkurhreppi.

Auðnasel

Auðnasel.

Í sama riti kemur fram að býlin í Auðnahverfi, Auðnir, Bergskot og Höfði, hafa sameiginlegt heiðarland og hagbeit.
Í kaupsamningi sem gerður var 1. nóvember 2001 var hluti Bergskots og Höfða í óskiptri sameign Auðnahverfis (Auðnir ekki aðilar samnings) seldur Hitaveitu Suðurnesja. Hið óskipta land markast af merkjum Landakots að norðan, Breiðagerðis að sunnan og Krýsuvíkur að austanverðu (suðausturátt). Að vestanverðu af Reykjanesbraut.
Í þinglýsingarvottorði fyrir Auðna, dagsettu 15. júní 2004, kemur fram að úr landi Auðna hafa verið seldar eða leigðar lóðir undir loðdýrabú og sumarbústaði. Jörðin virðist að öðru leyti haldast.

Sjá meira um hverfin á Vatnsleysutrönd HÉR.

Heimild:
Úrskurður Óbyggðanefndar 2004 – Grindavík og Vatnsleysuströnd.

Brunnastaðasel

Brunnastaðasel – uppdráttur ÓSÁ.

 

Jarðfræðikort

Gengið var um svæðið ofan við Voga á Vatnsleysuströnd – ofan Reykjanesbrautar. Ekki var ætlunin að skoða hinar fjölmörgu minjar á svæðinu heldur að skoða þau merkilegu jarðfræðifyrirbæri, sem þar eru; flekaskilin (landrekið/höggunina) og misgengin.

Háibjalli

Háibjalli.

Eins og kunnugt er stendur landið á Reykjaneshryggnum, sem er úthafshryggur, á mótum tveggja jarðskorpufleka, Evrasíuflekans í austri og Ameríkuflekans í vestri. Flekana rekur um 1 cm í hvora átt á ári að meðaltali. Nýlega hefur verið reynt að gefa fólki kost á að kynnast þessu með einföldum hætti þar sem “brúnni á milli heimsálfa” hefur verið komið fyrir yfir eina gjána ofan við Stóru-Sandvík. Brúna hefði einnig mátt setja upp yfir eina gjána á Vogaheiði eða hvar sem er annars staðar á svæðinu.

Háibjalli

Háibjalli – skáli.

Eldvirkni er að mestu bundin við flekaskilin sem liggja þvert yfir landið, frá Reykjanesi í suðvestri að Tjörnesi í norðaustri, en einnig á jaðargosbeltum. Fyrir vikið finnast yngstu jarðmyndanirnar á sömu svæðum og framleiðni gosefna er þar mest, þótt þess sjáist ekki endilega merki í Vogaheiðinni að undanskildum Þráinsskyldi. Merkin eru hins vegar gleggri beggja vegna. Jarðskorpuflekarnir fljóta á deigu möttulefni sem líkja má við það þegar ísjakar fljóta á vatni.
Með „landrekskenningunni“ er venjulega átt við þá kenningu sem þýski jarðeðlisfræðingurinn Alfred Wegener (1870-1930) setti fram í bókinni Myndun meginlanda og úthafa árið 1915. Annað afbrigði kenningarinnar kom fram 1964 og nefnist „botnskriðskenningin“ og loks þriðja afbrigðið 1968, „flekakenningin“.

Flekaskil

Flekaskil Norður-Atlantshafshryggjarins.

Meginmunurinn á upphaflegu kenningunni og hinum síðari er sá, að í bók sinni (1915 og síðar) gerði Wegener ráð fyrir því að meginlöndin fljóti í hafsbotnsskorpunni, sem sé stöðug, en meginlöndin hreyfist (reki) um hana. Samkvæmt síðari kenningunum berast meginlöndin með hafsbotninum, sem er á hreyfingu.
Wegener reyndi að skýra kenningu sína um hreyfingu meginlandsflekanna um hnöttinn. Í fyrsta lagi benti hann á hve vel Suður-Ameríka og Afríka falla saman, líkt og kubbar í púsluspili. Í annan stað sýndi Wegener fram á það að ýmsar jarðmyndanir frá mismunandi tímum falla saman, eða halda áfram, sitt hvoru megin við höfin, til dæmis fornar ísaldarmenjar í Suður-Afríku og á Suðurskautslandinu. Í þriðja lagi mátti skýra útbreiðslu ýmissa dýrategunda, sem nú eru aðskildar af breiðum höfum, með því að löndin hefðu fyrrum legið saman. Og í fjórða lagi gerði hann, ásamt veðurfarsfræðingnum Köppen, tengdaföður sínum, mikla samantekt á útbreiðslu ýmissa loftslagsbundinna jarðmyndana í jarðsögunni.

Snorrastaðasel

Snorrastaðasel við Háabjalla.

En allt kom fyrir ekki, því engum tókst að benda á krafta sem væru nógu öflugir til að flytja meginlöndin. Árið 1960 setti bandaríkjamaðurinn Harry Hess (1906-1968) fram þá tilgátu, studda góðum rökum, að það séu hafsbotnarnir sem hreyfist: Þeir myndist við gliðnun á miðhafshryggjum en eyðist í djúpsjávarrennum. Kraftarnir sem hreyfa meginlöndin eru því iðustreymi í jarðmöttlinum. Meginlandsflekarnir dragast ýmist eða fjarlægjast hvern annan. Dæmi um fleka, sem dragast að hvorum öðrum eru afleiðingar flóðbylgjunnar í Indlandshafi á annan dag jóla 2004. Hér á landi eru flekarnir að fjarlægjast eins áður hefur komið fram.
FlekaskilSvo undarlega vill til að sumarið 1912 ferðaðist Wegener ríðandi frá Akureyri um Dyngjufjöll, Kverkfjöll og Brúarjökul suður í Esjufjöll og til baka aftur — nefnilega þvert yfir íslenska sprungubeltið, sem er talandi dæmi um gliðnun skorpuflekanna. Ekki er ólíklegt að hann hafi og skoðað hinar augljósu ummerki þessa á Reykjanesskaganum og á Þingvöllum.
Reykjanesskaginn er allur mjög sprunginn. Á liðnum öldum hafa miklar jarðskorpuhreyfingar átt sér stað á skaganum. Þessar hreyfingar eiga sér enn stað og munu einnig eiga sér stað í framtíðinni.
Stöðug og hæg hreyfing í jarðskorpunni veldur spennu í bergi. Spennan getur orðið svo mikil að bergið þolir hana ekki lengur og berglögin bresta og þá verða jarðskjálftar. Sprungubarmarnir sem koma fram við hreyfinguna kippast þá yfirleitt til í gagnstæðar áttir og standa mishátt. Sprungur sem myndast á þennan hátt nefnast misgengi. Á Íslandi eru misgengi og gjár með SV-NA stefnu algengastar sunnanlands en hins vegar er S-N stefna ríkjandi norðanlands. Dæmi þess má einnig sjá syðst á Reykjanesskaganum, s.s. í Þorbirni.

Háibjalli

Háibjalli – skilti.

Á Háabjalla, sem er ákjósanlegt skoðunarsvæði fyrir þá, sem hafa áhuga á að skoða misgengi. Á svæðinu eru misgengisþrep sem liggja hvert upp af öðru. Samtals eru þau 4 eða fimm á Vogasvæðinu, Stapinn þar með talinn. Brúnir mynda nokkrar stórar og dálítið óreglulegar brotalínur. Fyrir austan meginbrotalínuna hefur landið sigið og margbrotnað upp. Hreyfingin er stöðug á þessu svæði og benda mælingar til þess að höggunin nemi að jafnaði um 2.8 millimetrum á ári eða 28 cm á einni öld. Frá Háabjalla má vel sjá hvernig brotabeltið á flekaskilunum hefur færst til beggja átta og sigið. Gjárnar, Hrafnagjá að norðanverðu og Huldugjá, Klifgjá, Aragjár og aðrar slíkar að sunnanverðu gliðna og ekki er óraunhæft að ætla að á þessu svæði geti glóandi hraun hvenær sem er fundið sér leið upp á yfirborðið.
Þátttakendur gengu af einhverjum ástæðum mun hraðar til baka.
Frábært veður. Gangan tók 1 klst og 11 mínútur.

Heimild m.a.:
-http://visindavefur.hi.is/svar.asp?id=749

Jarðfræði

Jarðfræði Reykjanesskagans.

Rauðhólssel

Hér veður fjallað um „Seljabúskap á Suðurnesjum„. Upplýsingarnar eru fengnar úr skýrslu Óbyggðanefndar frá árin 2004 um úrskurði Grindavíkur- og Vatnsleysustrandarlands.

Selsvellir

Selsvellir – tóftir.

Í lýsingu Skúla Magnússonar á Gullbringu- og Kjósarsýslu árið 1781 er í XI. kafla fjallað um hverja kirkjusókn fyrir sig og m.a. fjallað um tölu og ásigkomulag bújarða. Um Krýsuvík segir m.a.: „Bær þessi er tvær mílur frá lendingarstað sínum og telst því fremur sveitajörð en sjávar. Landrými er mikið; … Jörðin er vel fallin til sauðfjárræktar og til mikils sauðfjárbótabús með yfir 1000 sauðfjár.
Um Staðarsókn í Grindavík segir Skúli Magnússon árið 1781: „Þarna eru býlin fast með ströndinni, og liggur ekkert engi eða slægjuland undir þau nema túnin ein, sem er eigi unnt að auka, … En 2 mílur í norðaustur frá byggðarlaginu, inni á milli fjallanna, eru góðir hagar. Hafa menn þar selstöður. En eigi eru þar skilyrði fyrir nýbýli“.

Kirkjuvogssel

Kirkjuvogssel.

Skúli Magnússon tekur fram um Kirkjuvogssókn árið 1781 að selstöður séu 1 1/2 mílu norðaustur frá bæjunum, en engar selstöður séu í Hvalsness- og Útskálasóknum. Hins vegar eru taldar selstöður í Njarðvíkursókn. Um Kálfatjarnarsókn segir Skúli: „Frá flestum bæjum eru selstöður uppi til fjalla. Í sókninni er hvergi hagfelldur staður til nýbýla, en eitthvert hið bezta land til sauðfjárræktar, það er ég hefi séð á Íslandi, á fjögra mílna svæði samhliða bæjunum. Á breiddina nær það svæði 2 mílur frá sjónum upp að háfjöllunum, sem greina Gullbringusýslu frá Árnesssýslu. Þannig tekur svæði þetta yfir 8. fermílur“.
Geir Bachmann, prestur á Stað í Grindavík, samdi sóknalýsingu Staðarsóknar í Grindavík árin 1840-1841. Þar segir hann eftirfarandi um selstöðu Staðar: „Eftir jarðabókinni 1760 á Staður selstöðu á Selsvöllum, þó það nú sýnist orðið almennings selstaða úr allri Grindavík“.

Selsvellir

Selsvellir – tóftir.

Geir fjallar síðar nánar um selstöður í Staðarsókn í svari við 31. spurningu sóknarlýsinganna (selstöðum): „Þess er áður getið, að Staður eigi selstöðu á Selsvöllum. Selsvellir eru héðan í landnorður upp í fellum, og er Keilir, þegar í sel þetta er komið, rétt í útnorður. Stendur selið í Strandarmannalandi eður fyrir norðan Grindavíkur landamerki. Þar er all-grösugt, en bízt fljótt upp, því allir bæir í sókninni nema Hraun hafa þar í seli, og þó að engu goldið Staðarprestinum. Vilja menn hér gjöra þessa selstöðu almenning, og þyrfti þó ei að vera. Litlu vestar en Selsvellir er selstaða frá Hrauni; hér er árlega haft í seli frá bæ þessum, og eru landamerkin milli seljanna í svo kölluðum Þrengslum. Flestir bæir í Grindavík hafa haft í seli einhver staðar til fjalla; er mér sagt, að vatnsleysi olli því, að allar þær eru afræktar og getur vel verið sannleiki. Sú mun og orsök, að allir hafa þyrpzt á Selsvelli, því þar er dálítill rennandi lækur rétt við selið. … 32. Ekkert er hér afréttarland; allt fé ungt og og gamalt, lömb og sauðir er rekið í selið og þar smalað á hverju máli; lömbin eru kefluð. Þó eru réttir í Stóru-Vogum, sóttar af Ströndinni, Rosmhvalaness-, Hafna- og Grindavíkurhreppum“.

Baðsvallasel

Baðsvallasel.

Síðar átti Geir eftir að kvarta undan ágengni nágranna sinna í sellandi eins og kemur fram í grein Guðrúnar Ólafsdóttur Sel og selstöður í Grindavíkurhreppi sem birtist í afmælisrit Ólafs Hanssonar Söguslóðir árið 1979. Þar segir: „Til enn frekari áréttingar um mikilvægi þessara hlunninda [þ.e. selstöðu Grindvíkinga] má tilfæra bréf frá árinu 1844 frá sr. Geir Bachmann til biskups, þar sem hann kvartar yfir því, að allir nágrannar sínir noti selstöðuna á Selsvöllum án þess að greiða honum leigu fyrir, þótt hún sé sannanlega eign prestssetursins samkvæmt jarðabókinni 1760“. Telur hann, að bændurnir hafi komist upp á að nota selstöðuna, þegar fyrirrennarar hans í prestsembættinu hafi verið svo fénaðarfáir, að þeim hafi ekki þótt svara kostnaði og fyrirhöfn, að viðhalda selhúsum og hafa fólk yfir litlum fénaði og þess vegna leyft öðrum afnot af henni gegn leigu, sem síðan hafi fallið niður vegna hirðuleysis. Nú sé svo komið, að fyrir utan hann, sem hafi byrjað að nota selið 1837, þ. e. tveimur árum eftir að hann fékk brauðið, eigi sex búendur þar selhús og hafi þar allan sinn fénað og taki auk þess sumir fénað af öðrum til göngu og hirðingar. Telur hann, að sumarið áður hafi að minnsta kosti 500 fjár, ungt og gamalt, og 30 nautgripir auk inntökupenings gengið á völlunum og geti menn getið sér þess nærri, að þvílíkur urmull af kúm og kindum geri „ærið usla og jarðnag í beitilands þrengslum”. Vegna hagleysis verði að reka allan fénað, sem tíðum sé kominn í selhagana löngu fyrir fráfærur í 7. viku sumars, heim á miðjum selvinnutímanum, …

Njarðvíkursel

Njarðvíkursel.

Pétur Jónsson, prestur á Kálfatjörn, fjallar lítið um selstöður í lýsingu Njarðvíkur- og Kálfatjarnarsóknar árið 1840. Hann nefnir selstöðu frá Innri-Njarðvík, sem verið hafi við veginn frá Vogum að Grindavík, en síðar segir Pétur um Hvassahraun: „Hér hefir verið selstaða fyrrum eins og á öllum Strandarhrepps lögbýlum, en öll af lögð á seinni tímum; þau hafa öll eður flest vatnslaus verið og staðið hér um í miðri heiði, milli fjalls og fjöru“.
Árni Óla blaðamaður samdi bók sem fjallar um Vatnsleysuströnd og Voga, Strönd og Vogar, og kom út árið 1961. Árni víkur þar á tveimur stöðum að seljum á svæðinu en getur ekki heimilda nema hann vitnar í seinna skiptið til frásagnar Benjamíns Halldórssonar: „Um alla heiðina eru rústir af gömlum seljum, … Flekkuvíkursel lagðist ekki niður fyrr en um 1870, en þá höfðu öll hin selin verið lögð niður fyrir löngu“. …
Hér verða nú taldar seljarústirnar í Vogaheiði og Strandarheiði, og er aðallega stuðzt við frásögn Benjamíns Halldórssonar og lýsingar hans á staðháttum.
1. Selhólar heita skammt fyrir ofan. Voga. …
2. Nýjasel er við Snorrastaðatjarnir ofanverðar. …
3. Þórusel er skammt austur af Vogum. …

Arahnúkasel

Arahnúkasel.

4. Arahnúkssel er hjá Stóru-Aragjá … og er þangað röskur hálfrar stundar gangur frá Vogum. Í Arahnúksseli eru glöggar seltóftir og allstórt seltún þar umhverfis, … Túnið var seinast slegið 1917.
5. Gamla-Vogasel er austast í svonefndu Vogaholti. Þar eru greinilegar seltóftir og nokkuð stórt seltún…
6. Dalsel er í Fagradal við samnefnt fjall. Þar hafa sézt seltóftir til skamms tíma, en Fagridalur er nú uppblásinn fyrir löngu. Dalselið mun hafa verið notað frá Grindavík (Járngerðarstöðum). …
7. Gjásel er um 3/4 klukkustundargang frá Brunnastöðum. Þar eru glöggar seltóftir, en lítið seltún. …
8. Brunnastaðasel er austur af Gamla-Vogaseli. Mitt á milli þessara selja er Markhóll, sem skiptir löndum milli Voga og Brunnastaða. Þarna eru margar og allglöggar seltóftir og allstórt seltún, en ekkert vatn. Þangað mun vera um klukkustundar gangur frá Brunnastöðum. …

Hlöðunessel

Hlöðunessel.

9. Hlöðunessel er austur af Brunnastaðaseli. Þar eru litlar og ógreinilegar seltóftir og lítið seltún. …
10. Knarranessel er norðaustur af Hlöðunesseli, um stundar gang frá Knarrarnesi. … Þarna er stórt seltún og allmikið vatn í nokkuð stóru leirflagi. Í miklum þurrkum hefir vatn þetta þornað, og svo var fyrir 1920, en þá var grafin niður í leirflagið nokkuð djúp hola. Komu menn þar niður á mó, er reyndist góður eldiviður, en mósvæðið takmarkast á alla vegu af hraunklöppum og var mórinn því fljótt upp urinn. …
11. Auðnasel er austur af Knarrarnesseli. Þar eru margar greinilegar seltóftir og allstórt seltún. …
12. Kolgrafaholt heitir um hálfrar stundar gang frá Þórustöðum. … [Árni Óla segir engar seltóftir sjást þarna en virðist giska á að þarna sé selstaða Þórustaða, Fornuselshæðir, sem Jarðabók Árna og Páls nefnir].

Flekkavíkursel

Flekkavíkursel.

13. Flekkuvíkursel eru um 1/2 stundar gang frá Flekkuvík. Þar eru glöggar seltóftir, en ekki margar. Eru þær við berghamar hjá Hrafnagjá, … Í Flekkuvíkurseli er lítið seltún, en nokkrar grasi grónar flatir austur og vestur frá selinu, …
14. Rauðhólssel átti Stóra-Vatnsleysa. Það er við hraunjaðarinn, sem liggur frá Kúagerði, en vestur af Snókafelli, sem er úti í hrauninu. Í Rauðhólsseli eru glöggar seltóftir og allstórt seltún, …
15. Oddafell heitir milli Keilis og Trölladyngju. Þar átti Minni-Vatnsleysa selstöðu. …
16. Sogasel. Það er uppi í Vesturhálsi og í landi Stóru Vatnsleysu, en þar höfðu Kálfatjörn og Bakki selstöðu. Er þangað um 2 1/2 klukkustundar gangur frá Kálfatjörn. …

Sogasel

Sogasel.

17. Hvassahraunssel var vestast í Almenningum. …
Í áðurnefndri grein Guðrúnar Ólafsdóttur frá 1979 er gert ráð fyrir að selstöður, sem Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalíns nefnir og jarðir í Grindavíkurhreppi nýttu, hafi verið innan marka hreppsins. Miðar Guðrún við kort Landmælinga Íslands, blað 27, Reykjavík, útgefið 1977, og blað 29, Krýsuvík, gefið út 1969. Stangast það á við umsögn Geirs Bachmanns í sóknalýsingunni 1840-1841, sem segir Selsvelli í Strandamannalandi, og greinargerð Sesselju Guðmundsdóttur, sem oft hefur verið vitnað til hér að framan.
Guðrún telur hugsanlegt að ásókn Grindvíkinga í selstöðuna á Selsvöllum megi að einhverju leyti skýra með því að þeir höfðu ekki lengur haft innhlaup í selstöðurnar í Krýsuvíkurlandi eins og var á 18. öld. Þrjú nýbýli hafi risið í Krýsuvíkurlandi á 19. öld, öll í fyrri seljalöndum. Vigdísarvellir og Bali á Vigdísarvöllum og Fitjar í svonefndri Selöldu [sem er utan kröfusvæðis]. Telur hún ólíklegt að Krýsuvíkurbændur hafi leigt út selstöður eftir að þessi býli byggðust.

Þórkötlustaðasel

Þórkötlustaðasel við Vigdísarvelli – uppdráttur ÓSÁ.

Guðrún Ólafsdóttir reynir að tímasetja hvenær selfarir í Grindavíkurhreppi hafi hætt og vitnar til bókar Gísla Brynjólfssonar, „Mannfólk mikilla sæva – Staðhverfingabók” (útgefinni 1973) og Ferðabókar Þorvalds Thoroddsens (útgefinni 1913), en Þorvaldur kom að Hraunseli, Selsvöllum, Baðsvöllum og Vigdísarvöllum árið 1883. Samkvæmt því hefðu selfarir hætt milli 1850 og 1883. En í þjóðháttasöfnun árið 1976, hefði Magnús Hafliðason frá Hrauni (fæddur 1891) sagt foreldra sína haft í seli í Hraunseli og talið að því hefði verið hætt um 1890.
Svo virðist sem Grindvíkingar hafi enn haft í seli um 1870 ef dæma má af bréfum hreppstjóra Vatnsleysustrandarhrepps 15. og 21. janúar 1870, sem telur mann, sem sýslumaður segir búsettan á Vigdísarvöllum, heimilisfastan á Vatnsleysuströnd, þó að hann flytji sig og fé sitt um sumartímann á Vigdísarvelli, líkt og þegar Grindavíkurmenn hafi í seli á Selsvöllum.

Heimild:
Úrskurður Óbyggðanefndar 2004 – Grindavík og Vatnsleysuströnd.

Knarrarnessel

Knarrarnessel – stekkur.

Tóarstígur

Að þessu sinni var Hrístóarstígurinn skoðaður. Áður hafði Tóarsstígurinn verið genginn.
„Austan og neðan við Gráhellu komum við á Tóasstíg. Tóarstíg eða Tóustíg liggur upp í

Tóur

Tóustígur vestast.

Tórnar eða Tóurnar eins og málvenja er núorðið. Stígurinn var eyðilagður að mestu þegar efni í Reykjanesbrautina var tekið en hluti hans sést þó vel enn þá rétt neðst þar sem hraunið er enn óraskað. Stígurinn kemur svo aftur í ljós fyrir ofan ruðningana þar sem hann kemur niður í neðstu Tóuna.
Tórnar eru nokkrir óbrennishólmar sem ganga í gegnum mitt hraunið til suðsuðausturs. Gróursvæðin hafa líklega heitið Tór, samanber grastó (et.) eða grastór (ft.), en nafnið afbakast í tímans rás. Orðmyndin „Tóin“ verður notuð hér en ekki „Tóan“ en báðar myndirnar koma fyrir í heimildum.
Tórnar eru aðgreindar í Tó eitt, Tó tvö, Tó þrjú, Tó fjögur, Hrístó og Seltó en tvö síðustu nöfnin ná yfir efsta hluta Tónna sem er nokkuð víðáttumikil.
Í Tónnum er fallegur gróður, s.s. brönugrös, blágresi, birkikjarr, víðibrúskar og ýmsar lyngtegundir. Hristoarstigur-3Tó eitt var að mestu eyðilögð þegar Reykjanasbrautin var upphaflega byggð en þó sér hennar enn aðeins stað við norðurenda efnistökusvæðisins. Tó tvö er fallegust nú og í hana göngum við um djúpan og vel markaðan Tóastíg í austurátt þar sem efnistökuruðning-ingnum lýkur. Hlaðnir hraungarðar eru sitt hvorum megin við stíginn þar sem hann liggur niður í tóna og ganga þeir upp í hraunið til beggja átta. Hluti varnargarðsins fór undir ýtutönn við breikkun Reykjanesbrautar. Nú má áhugafólk um söguminjar þakka fyrir að hliðinu sjálfu varð bjargað með snarræði eins náttúrverndarsinnans sem var þarna á vappi þegar jarðýtustjórinn var við það að rústa minjunum – e.t.v. í ógáti.
Mjög líklega hefur töluvert lyng til eldileviðar verið rifið í Tónum og grjótgarðarnir þá verið notaðir til þess að veita „hríshestunum“ aðhald, einnig er mögulegt að þar hafi verið setið yfir fé þó svo að þar sjáist engin smalabyrgi. Í Tó tvö eru þrjú tófugreni.
Nyrst í Tó tvö eru lynglautir umkringdar háum hraunkanti og þar finnum við lítið mosagróið grjótbyrgi sem Vatnsleysubræður hlóðu sé til gamans upp úr 1940. Á byrginu sést glöggt hvað mosinn er fljótur að nema land. Um efsta hluta Tóar tvö liggur línuvegurinn.

Hristoarstigur-4

Tó þrjú er minni en Tó tvö og þar vex meira kjarr í hraunjöðrunum en í neðri tónum. Nyrst í þessari tó er jarðfall sem heitir Tóarker en þar var gott fjárskjól.
Uppi í hrauninu norðaustur af Tó þrjú sjáum við nokkuð háan ílangan og grasi vaxinn hraunhól sem heitir Snókhóll.
Efsta tóin ber í nokkrum heimildum tvö nöfn; neðri hlutinn heitir Hrísató en efri hlutinn Seltó. Í Hrísató er Hrísatóargreni. Líklega dregur tóin nafn af því að þangað hafi verið sóttur eldiviður.
Út úr Hrístó til suðvesturs liggur Hrísatóarstígur. Stígurinn liggur úr tónni og suðvestur yfir hraunið en það er erfitt að koma auga á hann þar þó svo að við upphaf hans sé varða. Það er hægara að finna stíginn af Afstapahraunsjaðrinum vestanverðan og ganga hann síðan til norðausturs.

Þegar ekið er upp Höskuldarvallaveginn er á einum stað, nokkuð ofarlega en þó fyrir neðan Rauðhól, vik inn í hraunkantinn sem nær alveg að veginum og þar er upphaf Hrísatóarstígs mjög greinileg. Menn hafa getið sér til um að líklega hafi búpeningur úr Rauðhólsseli verið rekinn þarna um til beitar í Seltó og af því dragi tóin nafn sitt.

Tóustígur

Vinnuvélar komnar fast af fornum garði í Neðstu-Tóu.

Sú tilgáta er afara ólíkleg því langur og torfær vegur er úr selinu í tóna og lítið gagn af því að hafa í seli ef ekki voru hagar á stanum.
Trúlega hefur stígurinn frekar verið notaður af mönnum með hesta til þess að sækja eldivið í tórnar og þá e.t.v. eldivið til notkunar í Rauðhólsseli. ein gæti verið að menn af Ströndinni hafio komið upp

Þórustaðastíg, farið út af honum norðan Keilis og yfir á Hrístóarstíg til eldiviðartöku í Tóunum. Annar stígur sem hér verður kallaður Seltóarstígur (trúlega eingöngu kindargata) liggur úr Seltó og yir Afstapahraunið austanvert en þar er hraunið mjóst og auðveldast yfirferðar ef ekki er farið með snjó.

Tóur

Tóur vestanverðar – vörslugarður.

Í Seltó er tilraunarborhola sem gerð var á uppbyggingartíma fiskeldir í Stóru-Vatnssleysu [1986] og að henni liggur vegruðningur. Vegurinn að borholunni gengur út úr Höskuldarvallavegi aðeins fyrir ofan Hrístóarstíg en fyrir neðan Rauðhól. Svo til beint austur af borholunni er upphaf Seltóarstígs til austurs úr tónni. Nálægt Seltó eru tvö Seltóargreni. Seltóarhraun er slétt og nokkuð víði vaxin hraunspilda sunnan Seltóar. [Í Seltó hefur verið komið fyrir jarðskjálftamælitækjum.]
Upp af Tónum förum við um fjölbreytilegt en á köflum illfær hraun allt að Snókafelli sem er lágt fell upp undir Sóleyjarkrika og Höskuldarvöllum.“
Ruðningurinn var genginn til baka úr Seltó yfir á Höskuldarvallaveg.
Frábært veður. Gangan tók 1 klst og 1 mín.

Heimild:
-Sesselja Guðmundsdóttir, Örnefni og gönguleiðir í Vatnsleysustrandarhreppi, b.s 104-106.

Hrístóur

Stígur um Hrístóur í Afstapahrauni.