Færslur

Auðnasel

Ætlunin var að ganga upp í Breiðagerðissel (Auðnasel) og huga að götum upp frá því og síðan áleiðis niður á Vatnsleysuströnd.
BreiðagerðisstígurTil hliðsjónar var hafður þjóðleiðauppdráttur Björns Gunnlaugssonar frá árinu 1831, en hann var lengi notaður sem helsta leiðsögn ferðalanga um Landnám Ingólfs. Leiða má af því líkum að þær götur, sem þar eru sýndar, hafi verið fjölfarnari en aðrar minna þekktar. Uppdrátturinn sýnir t.a.m. götu upp frá Breiðagerði á Vatnsleysuströnd, að vestanverðum Keili og áfram upp á Vigdísarvelli. Einn megintilgangur ferðarinnar nú var að reyna að rekja þessa götu upp frá Breiðagerðisseli og áfram áleiðis að Keili, en hún hafði áður verið þrædd frá Moshól við Selsvelli og áleiðis niður heiðina frá Keili.
Í selinu, sem er í gróningum undir aflangri hraunhæð, munu hafa verið selstöður frá a.m.k. þremur bæjum; Auðnum, Breiðagerði og Höfða. Fjöldi stekkja gefa jafnan til kynna fjölda stöðva í hverju seli, en þarna eru a.m.k. þrír slíkir.

Breiðagerðissel

Breiðagerðissel – stekkur.

Í Jarðabókinni 1703 (bls. 136) segir m.a. að “Breida Gierde brúkaði selstöðu þar sem kallað er Knarrarnessel, eru þar hagar mjög litlir og vatnsbrestur til stórmeina”. Einnig að Auðnar brúkaði “selstöðu þar sem kallað er Auðnasel, þar eru hagar nýtandi, en vatnsskortur til stórmeina margoft”. Um Knarrarnessel segir: “Selstaða þar sem heitir Knarrarnes sel; eru hagar litlir mjög, en vatnsskortur til stórmeina, so að selstöðuna hafa menn næsta því forlátið, og kaupir bóndinn nokkrum sinnum selstöðu í fjarlægð”. Höfða er ekki getið í Jarðabókinni 1703. Hér kemur fram að Breiðagerði haft selstöðu í Knarrarnesseli, sem er næsta sel vestan við Auðnasel.
Í bók Sesselju Guðmundsdóttur, Örnefni og gönguleiðir í Vatnsleysustrandarhreppi 2007 segir á bls. 92 um Auðnasel:Vatnsstæði við Breiðagerðisstíg “Margar tóftir eru sjáanlegar, mismikið grónar, en þarna var haft í seli frá bæjum í Auðnahverfinu, s.s. Auðnum, Höfða og Breiðagerði”. Hér er Breiðagerðisselið komið í Auðnasel, en skv. Jarðabókinni átti það að hafa verið í Knarrarnesseli.
Tilvist götunnar á uppdrætti Björns gat sagt nokkuð til um hvar selstaðan frá Breiðagerði var í raun.
Sesselja getur m.a. um kort Björns Gunnlaugssonar; “Á uppdrættinum frá árinu 1831 eftir Björn Gunnlaugsson er merkt gata frá Breiðagerði og upp heiðina. Sú gata er sett inn á kortið sunnan Keilis að Driffelli og áfram sömu leið og Þórustaðastígur. Í fyrstu taldi ég að Björn hefði merkt Þórustaðastíginn rangt inn á kortið (þ.e. sett hann sunnan við Keili) en nú hefur komið í ljós nokkuð glögg vörðubrot, en óljós gata, þarna niður heiðina sunnan og vestan Keilis í átt að Knarrarnesseli. Leiðin er sérkennilega vörðuð með “lykilvörðum” á áberandi stöðum með löngu millibili en milli þeirra litlar “þrísteinavörður”.

Breiðagerðisstígur

Breiðagerðisstígur.

Sumstaðar þar sem “lykilvörðurnar” eru sjást eins konar hlið á götunni, þ.e. lítil varða andspænis þeirri stóru og nokkrir metrar á millum. Gatan endar að því er virðist við Knarrarnessel þannig að þeir sem notuðu götuna hafa svo haldið áfram sesltíginn en sá er óvarðaður að mestu. Á síðsutu öld fóru bændur úr Brunnastaða-, Ásláksstaða- og Knarrarneshverfi með hrossastóð til beitar í Fjallið þessa leið en þeir sem innar bjuggu á Ströndinni notuðu Þórustaðastíg. Þessi gata sem og Þórustaðastígur hafa ólíklega verið þjóðleiðir fyrrum heldur eingöngu noraðar af hreppsfólki.”
Fyrrnefndar vörðumyndir má m.a. sjá á tveimur stöðum. Svo virðist sem um misgamlar vörður hafi verið að ræða á hverjum stað. Ein er jafnan nýjust og heillegust. Hvað um það…
Varða við BreiðagerðisstígReynt var í fyrstu að rekja götu upp frá Auðnaseli (Breiðagerðisseli). Hún liggur upp með syðsta stekknum í selinu, uppi á grónum ílöngum klapparhólnum. Ofar er varða. Síðan tekur hver varðan við af annarri með reglulegu millibili. Sumar eru reyndar fallnar. Af þeirri ástæðu sem og þeirri að á köflum í heiðinni hefur orðið veruleg jarðvegseyðing á síðustu ármisserum var auðvelt að villast út af götunni. Þegar komið var upp undir háheiðarbrúnina, að þeim stað sem fyrri ferðin hafði endað, var gatan augljós. Ekki fór á milli mála að þar var um hestagötu að ræða. Miðja vegu þaðan og að Keili eru gatnamót – líklega mót götu er liggur í boga niður að Knarrarnesseli og áður var minnst á.
Nú var gatan auðveldlega rakin niður aflíðandi heiðina. Hún var víðast hvar mjög greinileg, en á stuttum köflum hafði mosi vaxið í hana eftir að hafa náð að hefta uppblástur. Gatan lá nokkuð bein og þræddi með aflíðandi hólum og hæðum. Miðja vegu að selinu var tilbúið vatnsstæði. Hlaðið var í kanta til að afmarka vatnsstöðuna.

Breiðagerðissel

Í Breiðagerðisseli.

Auðvelt var að fylgja götunni að Auðnaseli, en lega hennar virtist styrkja þá trú að þar hefði Breiðagerðissel verið til húsa fyrrum. Hún var og í nákvæmu samræmi við uppdrátt Björns frá árinu 1831. Hafa ber í huga að selstöðurnar í heiðinni voru flestar aflagðar um árið 1870, en fyrir þann tíma hefur selstöðugróskan verið mikil á þessum slóðum. Ekki er þó loku fyrir það skotið að selstöður einstakra bæja hafi færst til frá einum tíma til annars, eftir því sem ábúendur bæjanna voru og tengsl þeirra innbyrðis. Þannig má telja líklegt að einfaldur kvonhagur hafi getað fært aumlega tímabundna selstöðu úr stað millum selja, en dæmi eru um slíkt á landssvæðinu frá fyrri tíð. Stólpabóndi keypti eða eignaðist með öðrum hætti og annan bæ í sveitinni og sameinaði þá selstöður sínar á einum stað – líklega tímabundið. Þá gat kastast í kekki millum nágranna er gerði það úr verkum að einhverjar selstöður urðu óvirkar um tíma. Svona mætti lengi telja, sem ástæðulaust er að rekja frekar hér.
Fyrrum gatnakerfi í landnámi Ingólfs er smám saman að taka á sig heillegri mynd.
Frábært veður. Sólstafir léku við sjónarrönd. Gangan tók 3 klst og 3 mín.
Varða við Auðnasel

Skýjaop

Ætlunin var að fylgja götu, sem sjá má á upppdrætti Björns Gunnlaugssonar frá árinu 1831, en á honum eru dregnar upp helstu þjóðleiðir í landnámi Ingólfs. Á uppdrættinum liggur Sandakravegurinn t.a.m. milli Innri-Njarðvíkur og Ísólfsskálavegar, en ekki úr Vogum, eins sýnt hefur verið á kortum í seinni tíð. Þá er Skógfellavegur ekki á uppdrættinum.
Kort af svæðinu - rautt er leiðin á uppdrættinumFyrrnefnd gata liggur frá Núpshlíðarhálsi (Vestari Móhálsi), líklega frá Hraunsseli eða Selsvöllum og norður að austanverðu Driffelli. Þaðan liggur gatan skv. uppdrættinum norður fyrir Driffell, en beygir síðan til norðvesturs vestan Keilis þar sem hún liggur áfram niður Strandarheiði og heim að Breiðagerði á Vatnsleysuströnd.
Byrjað var á því að huga að öðrum mögulegum leiðum norðan Oddafells og beggja vegna Driffells. Nokkrir stígar liggja þar yfir úfið apalhraun, en hvergi greiðfærir. Þarna virðist hafa verið um fjárgötur að ræða, sem einstaka ferðalangur hefur eflaust villst inn á í gegnum tíðina. Líklega hafa þessar götur orðið til þegar tiltölulega greiðfært vera yfir hraunið á þykkum hraungambranum, en þegar hann var farinn að láta verulega á sjá og jafnvel eyðast hefur umferð um hverja og eina þeirra lagst af – og aðrar orðið til.
Einu reiðgöturnar frá Núpshlíðarhálsi liggja yfir helluhraun gegnt Hraunsseli, Selsvallaseljunum og síðan frá Moshól norðvestast á Selsvöllum og að Driffelli, með því til norðurs að austanverðu, niður á helluhraunssléttu norðvestan þess og þar niður fyrir hraunröndina. Þessari leið verður lýst síðar.

Þórustaðastígur

Þórustaðastígur við Selsvelli. Moshóll t.v.

Gengið var eftir Þórustaðastíg frá Moshól í átt að Driffelli. Þarna er gatan á kafla djúpt mörkuð í slétta hraunhelluna. Hálfhendis að Driffelli eru gatnamót; annars vegar gatan sem liggur að Driffelli til norðvesturs og áfram til norðurs með því austanverðu, og hins vegar gata, sem liggur að sunnanverðu Driffellinu. Þeirri götu var fylgt yfir að hraunröndinni. Þá var komið inn á jaðurgróninga fellsins. Gatan liggur þar með öxlinni vestur fyrir fellið. Sérkennilegur móbergsveðrungur í karlslíki liggur þar réttsælis við götuna.
Þegar komið var vestur fyrir Driffell mátti sjá kindagötur yfir úfið apalhraunið. Einni þeirra var fylgt yfir hraunið. Inni í því miðju greinist gatan; annars vegar til suðvesturs og hins vegar til norðvesturs – að Keili.
Uppdrátturinn frá 1830Þegar þeirri síðarnefndu var fylgt út úr hrauninu mátti handan þess glögglega sjá að samansafn fjárgatna að handan sameinuðust þarna við hraunröndina.
Þá var stefnan tekin á sunnanverðan Keili. Keilisbræður þeir er sjá mátti á fyrrnefndum uppdrætti voru augljósir á sjá úr norðaustri; þrír klettastandar á hraunbrún. Svolítið norðvestar sjást til Litla-Keilis.
Þegar Keilir rann nær mátti glögglega sjá móbergskjarnan í fjallinu, umlukinn grágrýtisbrotabergsmynduninni. Gata lá þar til vesturs og austurs. Varða er við hana á suðvesturrót fjallsins. Reynt var að fylgja henni líklega leið áleiðis niður heiðina, en hún virtist ávallt taka enda. Þá var ákveðið að halda að vörðu nyrst á háheiðarbrúninni. Það reyndist rétt ákvörðun.
Gatnamótin austan sandhóls austan KeilisVið mosavaxna vörðuna lá gömul gata. Henni var fylgt um gróninga til norðvesturs, að annarri vörðu. Þar lá gatan á ská niður á við í gróninga og síðan yfir þá að enn einni vörðunni. Frá henni virtist gatan augljós áleiðis niður heiðina. Sólin lék við Kálfatjarnarkirkju neðanvert á Ströndinni og nálæga bæi. Augljóst var hvert gatan stefndi. Ákveðið var að fylgja götunni til baka upp að suðvesturhorni Keilis, en fara síðan aðra ferð þangað uppeftir og í gegnum Breiðagerðissel að.
Varða við götuna vestan KeilisÞegar gatan var rakin upp eftir reyndist hún augljós. Vörður staðfestu og legu hennar. Við eina þeirra var brúnleitt glerbrot, greinilega úr handunninni flösku með þykkum veggjum og djúpum botni. Þarna hafa einhverjir fyrirmennirnir losað sig við hluta af farangrinum á ferð þeirra til eða frá Keili. Reyndar er þessi aðkoma að Keili einna álitlegust. Þarna liggur hann fyrir fótum ferðalanga og er hvorutveggja hið ákjósanlegasta myndefni og áþreifanlegasta rannsóknarefni.
Gatan var rakin til austurs með sunnanverðum Keili. Frá honum að norðanverðu Driffelli reyndist vera um tvær leiðir að velja; annars vegar að fylgja stígnum áfram með fjallinu og síaðn áfram eftir stíg austan þess, eða fara út af stígnum suðaustan við fjallið. Sá stigur liggur sunnan ílangs sandhóls og síðan með honum til norðausturs austan hans. Þar er greinilega fjölfarin gatnamót. Þegar staðið var upp á sandhólnum fékkst hin ákjósanlegasta yfirsýn yfir láglendið.
Varða við götuna vestan KeilisGatnamótin fyrrnefndu virðast við fyrstu sýn hafa verið Þórustaðastígur annars vegar og “Breiðagerðisstígur” hins vegar. Við nánari athugun reyndust vera gatnamót suðvestan gatnamótanna, líklega styttingur inn á Þórustaðastíginn norðvestan Driffells. Þegar “Þórustaðastígnum” var fylgt áleiðis að hraunraöndinni var að sjá sem stígurinn hlyti að hafa legið lengra til norðurs uns hann sveigði til norðvesturs – enda reyndist sú raunin.
Þá var götunni loks fylgt sléttu helluhrauni að norðanverðu Driffelli og áfram til suðausturs austan þess – uns komið var á stíginn, sem lýst er hér að framan og lá frá Moshól.

Breiðagerðisstígur

Götur norðan Keilis.

Af framangreindu má sjá að eina gatan, sem liggur um bréfsefni uppdráttarins er sú er kemur frá Moshól, eftir svonefndum helluhraunslögðum Þórustaðastíg, með austanverðu Driffelli til norðurs, niður helluhraun norðan þess og yfir hraunröndina. Hraun þetta, þótt víðfeðmt er, virðist ekki hafa nefnu, ekki frekar en margt annað á þessum slóðum. Hún greinist frá aðalleiðinni norðaustan sandhólsins og liggur þá niður með honum og síðan til vesturs með sunnanverðum Keili. Sú gata hefur hér verið nefnd “Breiðagerðisstígur”. Nánari eftirfylgni á eftir að leiða í ljós nákvæmari legu hennar (sjá Breiðagerðisstígur neðanverður).

Breiðagerðisstígur

Vörðukort norðan Keilis (ÁH).

Á fyrrnefndu korti af Reykjanesskaganum eftir Björn Gunnlaugsson frá árinu 1831 eru sýndar gamlar þjóðleiðir á svæðinu. Auk þess eru sýnd ýmiss örnefni, sem virðast annað hvort hafa gleymst er verið færð úr stað. Gata er, sem fyrr sagði, sýnd frá Breiðagerði á Vatnsleysuströnd, upp í Breiðagerðissel, og áfram upp heiðina áleiðis að suðvesturhorni Keilis. Þar liggur gatan sunnan við Keili og í Driffell og áfram heim að Vigdísarvöllum.
Þegar FERLIR var í seljaferð í Voga- og Strandaheiði fyrir nokkrum árum var m.a. komið inn á götu með svipaða stefnu og Breiðagerðisstígnum er lýst á kortinu. Þar gæti þó verið um svonefna leið um “Brúnir” að ræða. Ætlunin er að huga að henni síðar.

Keilir

Keilir.

Og þá svolítið um Keili vegna þess hve nándin var mikil að þessu sinni: “Keilir er einkennisfjall Reykjaness og stolt Vogamanna. Nafnið fær fjallið af fallegri lögun sinni sem sannarlega er keila. Keilir er móbergsfjall sem rís 379 metra yfir sjávarmáli. Keilir er til orðinn við gos undir jökli á ísöld. Hann er þekktur vegna sérkennilegrar strýtumyndaðrar lögunar sinnar sem er til komin vegna gígtappa eða bergstands á fjallinu miðju er ver það gegn veðrun.”
Hér hefur verið minnst á Oddafell. Á vef Örnefnastofnunar má sjá eftirfarandi um það viðfangsefni: “Nokkur dæmi eru þess að talan einn sé sett á eftir því sem hún á við.
Fjallið eina er nefnt á þremur stöðum á Suðvesturlandi og var valið örnefni mánaðarins á heimasíðu Örnefnastofnunar í júlí 2004. Eitt þeirra er lágt hrygglaga fjall með klettaborg á suðurenda, skammt vestan við Krýsuvíkurveg, norður af Sveifluhálsi. Eftir mynd að dæma er þetta réttnefni, fjallið stendur eitt og sér á flatneskju (Ólafur Þorvaldsson 1999:27).

Keilir sjálfur - svona í lokin

Annað er austan undir Bláfjöllum, við svonefnda Ólafsskarðsleið, og er eftir lýsingu og korti í Árbók FÍ 2003 (82, 84) stakt í umhverfinu, rétt eins og hitt. Þriðja fjallið, sem nefnt hefur verið svo, heitir öðru nafni Oddafell og er við vesturjaðar Höskuldarvalla, en þeir eru við vesturrætur Trölladyngju á Reykjanesskaga. Þorvaldur Thoroddsen kallaði Oddafell Fjallið eina, en líklegt að hér sé um nafnarugling að ræða, Þorvaldur hafi flutt nafnið á fjallinu sem nefnt var hér áður yfir á þetta, því að engar heimildir séu aðrar um þetta nafn. Í örnefnaskrá Stóru- og Minni-Vatnsleysu segir að upp með Oddafellinu að austan sé gamall leirhver sem heitir Hverinn eini og í annarri skrá er talað um hann sem mikinn gufuhver sem sé nú lítilvirkur orðinn. Má vera að samband sé milli nafnsins á hvernum og fjallinu.

Breiðagerðisstígur

Breiðagerðisstígur.

Til frekari fróðleiks má geta þess að Minni Vatnsleysa hafði “selstöðu þar sem heitir Oddafell og er þangað bæði langt og erfitt að sækja. Eru þar hjálplegir hagar og vatns nægjanlegt.” Stóra Vatnsleysa hafði hins vegar “selstöðu þar sem heitir Rauðhólssel. Eru þar hagar sæmilegir, en stórt mein af vatnsleysi.”
Þegar gatan, sem sýnd er á uppdrætti Björns Gunnlaugssonar var rakin, virtist hún miklu mun greinilegri en Þórustaðastígurinn, er liggur norðan Keilis. Af því að dæma virðist gatan hafa verið mun fjölfarnari í seinni tíð, eða allt þar til að ferðalög á hestum lögðust af millum Vatnsleysustrandar og Hálsanna.
Frábært veður. Gangan tók 4 klst og 4 mín.

Oddafell

Grænhóll

 Ætlunin var að leita að svonefndu Grænhólsskjóli á mörkum Lónakots og Hvassahrauns. FERLIR hafði áður reynt að finna skjólið, en tókst það ekki í það sinnið. Í þeirri lýsingu sagði m.a.:

Grænhóll

Grænhóll – merki Landmælinga Íslands.

“Þá var haldið yfir að Grænhól, eða Stóra-Grænhól. Þrátt fyrir leit sunnan við hólinn fannst svonefndur Grænhólsskúti ekki. Reyndar er ekki getið um Grænhólsskúta sem fjárskjól svo hann gæti verið einn af nokkrum tiltölulega litlum skútum sunnan við hólinn. Sá skúti gæti hafa fengið nafn vegna einhvers atburðar er þar á að hafa gerst, s.s. að maður hafi leitað þar skjóls undan veðri eða ö.þ.h.”

Eins og þekkt er orðið er FERLIR ekki á því að gefast upp þótt fara þurfi stundum nokkrar ferðir til að leita nafnkenndum mannvistarleifum.
Örnefnalýsing fyrir Hvassahraun segir m.a.: “Þá tekur við stórt svæði, klettar og berg niður með sjó og við sjó. Þetta heitir einu nafni Hvalbása, þar rak hval. Upp af því er svo nafnlaus hraunfláki alla leið upp að Skyggni, nema Selningaklöpp er smáköpp niður og austur frá Skyggni. Grýlholt er brunabelti þar austur frá og Grænhólsskúti er suðaustur af Grænhól og þar upp af Grýlhólum upp að vegi er hraunhólabelti sem heitir Krapphólar.”

Grænhólsskúti

Í örnefnalýsingu fyrir fyrir Lónakot segir auk þess (Ari Gíslason): “Vestast í landi jarðarinnar er jaðarinn á Hraunsnesi, en það er tangi, sem gengur frá hrauninu fram í sjó og er á hreppamerkjum. Þar nokkuð ofar er í hrauninu hæð, sem heitir Skógarhóll, og enn ofar er Grænhóll. Er þá komið með merkin upp að vegi.”
Gísli Sigurðsson bætti um betur: “Af Markakletti lá landamerkjalínan milli Lónakots og Hvassahrauns upp í Skógarhól, þaðan í Stóra-Grænhól. Suður frá Grænhól var svo Grænhólsker, hættulegt fé. En í austur frá hólnum var Grænhólsskjól.”
Í framangreindum lýsingum á Grænhólsskúti að vera suðaustur eða austur af Grænhól. Þar hafði verið leitað áður svo ákveðið var að leita á svæði innan tiltekins radíus frá Grænhól. Við þá leit fannst skjólið; innan við eitthundrað metra suðaustur af hólnum – í skjóli fyrir austanáttinni, Lónakotsmeginn við markagirðinguna. Skjólið er austast í grunnu grónu ílöngu jarðfalli. Hlaðið hefur verið skútann til hálfs og dyr að vestanverðu. Grjót hefur fallið í dyrnar. Inni er sæmilega slétt gólf, þakið tófugrasi.
Frábært veður. Leitin tók 22 mín.
Útsýni frá Grænhólsskúta að Grænhól

Alfaraleið

Ætlunin var að ganga til baka og fram eftir Alfaraleiðinni, hinni gömlu þjóðleið milli Innnesja (Hafnarfjarðar) og Útnesja (Voga, Njarðvíkna, Hafna, Keflavíkur, Garðs og Sandgerðis). Vestari hluti leiðarinnar, milli Hvassahrauns og Voga, hefur jafnan verið nefnd Almenningsleið (Menningsleið), en kaflinn frá Hvassahrauni til Hvaleyrar Alfaraleið.
Alfaraleiðin í HvassahraunslandiGangan hófst við nýlegt bílastæði sunnan undirgangna Reykjanesbrautar innan (austan) við Hvassahraun. Þegar Reykjanesbrautin var breikkuð var tekinn hluti af Alfaraleiðinni á þessum kafla. Áður sást hún sunnan brautarinnar, liggja undir hana og síðan spölkorn af henni norðan brautarinnar, ofan við gömlu réttina.
Gengið var beint inn á Alfaraleiðina, gegnt gatnamótunum, þar sem hún byrjar núna. Framundan er nokkuð hæðótt og gróið hraun þar sem vörður sjást á stangli við götuna, þ.a. ein mjög myndarleg er stendur hátt á hraunhól hægra megin hennar. Þegar innar dregur liggur hún um nokkuð slétta, vörðulausa hraunfláka sem nefnast Sprengilendi. Í fyrstu er leiðin óljós en þegar komið er hálfa leið yfir „sléttuna“ skýrist hún verulega og hófför fara að sjást í klöppunum. Í götunni fannst m.a. skeifubrot frá löngu liðnum tíma. Gatan liggur ofarlega á þessu svæði en þó aldrei meira en 3-400 m frá Reykjanesbrautinni. Myndarleg varða við götuna sést á hæðarhrygg framundan.

Alfaraleið

Alfaraleiðin við gatnamót Lónakotsselsstígs.

Innan við Sprengilendið liggur slóðinn ofan við mjög klofinn og sérkennilegan hraunhól en ofan götunnar og hólsins er hæð sem heitir Taglhæð og á henni er merktur jarðsímastrengur. Þarna sveigir Almenningsvegurinn til austurs, hækkar dálítið og fjarlægist Reykjanesbrautina til muna. Næst er haldið yfir kennileitalítið svæði um nokkurn veg. Framundan til hægri við götuna og aðeins ofar er mjög sérkennilegur, stakur klettahóll sem er eins og hetta í laginu. Þessi hóll er mjög áberandi séður frá Reykjanesbrautinni þó hann sé ekki stór. Hér sjást lítil og fá vörðubrot við götuna. Við hólinn liggur Lónakotsselsstígur áleiðis upp í Lónakotssel. Nú fer útsýnið að víkka til muna og fljótlega sést í stóra sprungna klapparhæð í austurátt sem nefnist Smalaskálahæð og klapparhól í framhaldi af henni til suðurs. Stefna götunnar er fast hægra megin við hólinn í stefnu sem næst á Vífilfellið. Þarna liggur Óttarsstaðaselsstígur þvert á Alfaraleiðina. Gatnamótin eru nokkuð glögg. Neðar sést í Kristrúnarborg, fallega heillega fjárborg frá Óttarsstöðum sem sögð er hlaðin um 1870 af Kristrúnu Sveinsdóttur húsfreyju á Óttarsstöðum og vinnumanni hennar. Handan borgarinnar er svo Smalaskálhæðin með fallegum jarðföllum sem gaman er að skoða. Listaverkið Slunkaríki var þar til skamms tíma, en hefur nú verið fjarlægt.

Skeifubrot í Alfaraleiðinni

Þá er gengið um Draugakróka. Gvendarbrunnshæð heitir næsta hæð en sveigt er upp fyrir hana og farið um Löngubrekkur sem liggja utan í hæðinni ofanverðri. Nú sést í fjárskjól, Gvendarbrunnshæðarskjól, með hleðslum við op og er hellirinn í hæðinni við götuna. Fast austan við fjárskjólið er svo Gvendarbrunnurinn, gott vatnsból í klöpp en um brunninn þveran liggur gömul fjárgirðing, landamerki Straums og Óttarsstaða.
Austar er komið að hárri og uppmjórri vörðu en hún er önnur af þremur fallegum vörðum sem standa við götuna frá Gvendarbrunnshæð að Miðmundarhæð. Nú taka Þrengslin við en þar liggur hún þröngt á milli hárra hraunhóla. Næsta kennileiti er hár og brattur klapparhóll með rismikilli vörðu sem sést víða að. Neðan við hann er gatan mjög greinileg en frá hólnum og ofan eyðibýlisins Þorbjarnarstaða er hún óljós og hverfur loks undir háan hraunkantinn spöl fyrir ofan Gerði (starfsmannahúss á vegum álversins). Þar sem gatan lá upp á hraunið hét Brunaskarð syðra. Mótar enn fyrir því í hraunkantinum þar sem gatan liðast upp á hraunbrúnina.
Varða við Alfaraleiðina HvassahraunsmeginFramundan eru svo brunaruðningarnir á móts við álverið og að sjálfsögðu sést engin gata þar fyrr en komið er að Kapellunni sem stendur á hraunhól í miðju umrótinu rétt ofan við Reykjanesbrautina beint á móti álverinu. Gatan sést þar á um 10 m kafla. Kapellan, sem var endurhlaðin klúðurslega á sjöunda áratug 20. aldar, er friðlýst lítið grjótbyrgi úr hraunhellum og snúa dyrnar í suðvestur en veggirnir eru tæplega mannhæðar háir. Kapellan er tileinkuð heilagri Barböru, dýrðlingi úr kaþólskum sið. Fyrir innan Kapelluna tekur við rutt svæði, en göngustígur liggur um það áleiðis til Hafnarfjarðar. Þegar komið er inn á hraunið á ný sjást vörðubrot. Þeim er fylgt til norðurs uns gatan beygir undir Reykjanesbrautina þar sem hún fylgir hraunlægðum í áttina að hárri vörðu, sem nú er á golfvellinum. Héðan í frá sést ekki móta lengur fyrir gömlu Alfaraleiðinni milli Hvaleyrar og Hafnarfjarðar.
AlfaraleiðinÍ ljós hafði komið að leiðin er vel greinileg svo til alla leiðina, vel mörkuð í landið á körflum og því tiltölulega auðvelt að fylgja henni þar sem hún liggur framhjá Þorbjarnastöðum í Hraunum (fór í eyði um 1930), sunnan Reykjanesbrautar, og áfram vestur úr. Í rauninni er hægt að fylgja gömlu leiðinni frá Hvaleyri og áleiðis að Hvassahrauni þar sem hún kemur niður að Reykjanesbrautinni ofan við hin nýju mislægu gatnamót, sem þar eru.
Fyrsta varðan á leiðinni er nú inni á miðjum golfvellinum á Hvaleyri. Önnur varða, eða vörðubrot, er skammt sunnar. Þriðja varðan er sunnan Reykjanesbrautar. Síðan tekur við svæði Kapelluhrauns þar sem búið er að fjarlægja yfirborðslagið og þar með götuna. Gatan kemur síðan aftur í ljós við kapelluna á u.þ.b. 10 metra kafla og loks þar sem hún kemur niður Brunann ofan við tjarnirnar við Gerði. Efst á Brunanum við götuna er varða. Þá liðast hún með tjörnunum að austan- og síðan sunnanverðu í áttina að Miðmundarhæð. Hún er augsýnileg þar sem Miðmundarvarða stendur uppi á hæðinni.

Gerði

Gerði og Gerðistjörn.

“Gerði reisti Guðjón Jónsson frá Setbergi um aldamótin 1900. Alfaraleiðin út á Útnes lá svo að segja um túnblettinn. Hann lá yfir Kapelluhraunið, eða Brunann, eins og það var stundum nefnt, síðan lá leiðin áfram, þar til komið er í Brunaskarð vestra. Við hvort skarð eru vörður, er nefnast Stóravarðan eystri og Stóravarðan vestri. Sagnir voru um, að einn sveina Kristjáns skrifara, sem drepinn var á Kirkjubóli á Miðnesi, hafi verið dysjaður við Kapelluna. Var því þarna stundum kölluð Dysin eða Kapelludys. Úr skarðinu liggur alfaraleiðin vestur um Hraunin ofan eða sunnan garðs á Þorbjarnarstöðum. Þegar hér er komið, verður fyrir stígur, er liggur frá Gerðinu, nefnist Gerðisstígur. Lá stígur þessi suður með vesturbrún Brunans.”

Kapella

Alfaraleiðin við kapelluna.

Gengið var eftir Alfaraleiðinni gömlu frá Gerði þar sem hún kemur niður úr Brunanum sunnan við Hraunshornið, norðan Gerðis, og henni fylgt yfir að brunninum í Brunntjörninni. Flóruð brú liggur út að brunninum, sem er í tjörninni. Þarna var og þvottur þveginn og skammt austar var þvegin ull.
Gengið er framhjá túngörðum Þorbjarnastaða. Að þessu sinni var tækifærið notað og kíkt á tóftirnar sem og Gránuskúta. Þvottastæðið er neðan við Þvottastíginn þar sem er hlaðinn bakki út í tjörnina sunnanverða. Vel má sjá hleðslur gamla brunnsins í tjörninni. Ofan við götuna er Þorbjarnarstaðaréttin undir breiðum klapparhól. Hún er ekki ósvipuð Óttarstaðaréttinni, með tvo dilka, lambakró og fallega hlöðnum veggjum. Réttin var fyrrum nefnt Stekkurinn, en eftir að hann var færður út og réttargerði hlaðið norðan við stekkinn, var hann jafnan nefndur Réttin eða Þorbjarnarstaðarétt.
GvendarbrunnurAlfaraleiðin liggur áfram framhjá Miðmundarholti (-hól/-hæð), yfir Straumsselsstíg. Gatan er vörðuð meira og minna, ýmist með heilum vörðum eða endurupphlöðum. Við Miðmundarhæðina eru gatnamót götu heim að Þorbjarnarstöðum. Önnur gatnamót eru skammt austar. Mun þar vera um að ræða Skógargötuna frá Straumi er lá upp með vestanverðum túngarði Þorbjarnarstaða. Gránuskúti er þarna skammt sunnar, lítið en einstaklega fallegt fjárskjól frá Þorbjarnarstöðum.
Ekki er minnst á Alfaraleiðina í örnefnaslýsingu fyrir Þorbjarnastaði, sem verður að þykja sérstakt því leiðin liggur um land jarðarinnar og hefur án efa haft mikil áhrif á líf fólksins þar. Í örnefnalýsingu (GS) fyrir Straum er hins vegar getið um Alfaraleið. “Þá liggur hér vestur um hraunið Alfaraleiðin í miklum djúpum lægðum, sem nefnast Draugadalir. Hér mun og vera staður, sem nefnist Himnaríki. Tilefnið er það, að bóndi nokkur í Hraunum ætlaði að fara á Rauð sínum til himnaríkis – eftir viku drykkju. Hann lagði upp undir rökkur með nesti og nýja skó (en kvaðst ekki þurfa sokka, því að nóg væri af þeim í himnaríki). Hesturinn skilaði sér fljótt heim, og sjálfur kom bóndi undir vökulok. Í skrá G.S. segir, að hnakkurinn og beizlið hafi fundizt vestarlega í Draugadölum, en heimildarmenn sr. Bjarna segja, að þetta hafi legið í Stekkatúninu. Síðan er þarna kallað Himnaríki.

Varða við Alfaraleiðina

Þegar kemur vestur úr þessum þrengslum eða skorningum, má finna götu, sem liggur upp á klappir norðan við þær, og liggur gatan austur áleiðis að Þorbjarnarstöðum. Gata þessi nefnist Vetrarleið. Snjóþungt var í Alfaraleið, en snjóléttara hér og því var hún farin á vetrum.
Sunnan í klettahrauni því, sem hér er, vestan Miðmundahæðar (sjá Þorbjarnarstaði), liggur rani fram úr. Á þessum rana er vel hlaðið Skotbyrgi, sem stendur enn. Fjárgata liggur upp úr rétt hjá byrginu. Í skrá G.S. segir, að hér liggi fram úr hrauni þessu Mosastígurinn og Skógarstígurinn frá Þorbjarnarstöðum, en þennan Mosastíg kannast sr. Bjarni og heimildarmenn hans ekki við (sjá Þorbjarnarstaði).” Skotbyrgið sést enn, við vestari Straumsselsstíginn, en er ekki í sjónlínu frá Alfaraleið.
Sunnan við Þorbjarnastaði er Stekkurinn eða Réttin undir háum hraunhól. Hún er vel hlaðin. Í henni er lambakró. Þar er Stekkatún.”

Alfaraleið

Varða við Alfaraleiðina á golfvellinum.

Gengið er þvert yfir vestari Straumsselsstíg að Hæðunum. Þá var komið að Gvendarbrunni, litið á fjárskjólið nálægt honum og síðan haldið áfram suður götuna. Brunnurinn er hola í miðjum grasbala á lítilli klapparhæð við götuna. Sagan segir að Guðmundur góði Hólabiskup hafi blessað hann á sínum tíma.
Annars eru Gvendarbrunnarnir a.m.k. fjórir á Reykjanesi, þ.e. þessi við Alfaraleiðina, Gvendarbrunnur í Vogum, Gvendarbrunnar í Heiðmörk og Gvendarhola í Arnarneshæð. Það er líkt með Gvendarbrunnum og Grettistökum að Gvendur og Grettir hafa að öllum líkindum aldrei litið hvorutveggja augum. En það er nú önnur saga. Sá átrúnaður fylgdi svonefndum Gvendarbrunnum (sem talið var að Guðmundur biskup hinn góði hefði blessað) að vatnið í þeim læknaði mein. Þannig var t.d. talið gott að bera það á augu eða á sár svo þau myndu gróa. Nokkrar heilar og fallega hlaðnar vörður eru á þessum kafla leiðarinnar. Skammt vestan Gvendarbrunns má sjá leifar af tveimur stórum vörðum, sem verið hafa beggja vegna götunnar.
Varða í DraugadölumÞegar komið er framhjá Óttarstaðaborginni (Kristrúnarborginni) liggur Óttarstaðaselsstíg (Skógargötuna) yfir hana. Líklega er hér um misskilning að ræða. Skógargötunnar er getið í lýsingu upp frá Straumi. Þar liggur hún til suðurs vestan túngarðs Þorbjarnarstaða með stefnu upp í Draugahraun. Neðan þess eru gatnamót götu er liggur síðan þvert á Óttarsstaðaselsstíg og áfram upp í Skógarnef. Þessi leið er auðfarin, en ógreinileg vegna gróninga, með föllnum vörðubrotum í fyrstu, en vestan Óttarstaðaselsstígs hafa vörðurnar verið endurreistar og því auðveldara um vik. Líklega er hér um hina eiginlegu Skógargötu að ræða.

Alfaraleiðin

Alfaraleiðin um Hafnarfjörð.

Smalaskálahæðir eru á hægri hönd. Skammt vestar liggur Lónakostsselsstígur yfir götuna og upp í hæðir. Varðan ofan við selið sést vel. Nú verður gatan óljósari, en ef farið er hægt og rólega og tekin mið af kennileitum og vörðubrotum má sjá hvar gatan hallar til vesturs og líður svo í bugðum áleiðis að Hvassahrauni. Skammt sunnan Reykjanesbrautar, áður en komið er á móts við Hvassahraun, hverfur hún svo til alveg, en Reykjanesbrautin hefur verið lögð yfir götuna á þessum kafla.
Alfaraleiðin er skemmtileg gönguleið um fallegt hraun. Á leiðinni ber margt fyrir augu, sem áhugavert er að staldra við og skoða nánar.
Leiðin milli Hvassahrauns og Þorbjarnarstaða er 6 km. Að ganga þennan kafla leiðarinnar tekur u.þ.b. 1 og 1/2 klst.
Frábært veður.

Heimild m.a.:
-Örnefni og gönguleiðir á Vatnsleysuströnd – Sesselja G. Guðmundsdóttir.
-Örnefnalýsing fyrir Straum.
-Gísli Sigurðsson.

Alfaraleiðin

Alfaraleiðin (gul lína).

Fagridalur

Á landakorti LÍ frá árinu 1977 sést dregin gata er fylgir Skógfellavegi frá Grindavík að Stóra-Skógfelli. Í stað þess að halda áfram að Litla-Skógfelli og síðan áleiðis í Voga, eins og þekkt er, er gatan dregin til norðausturs frá Stóra-Skógfellshorni og upp að Nauthólaflötum í Fagradal og áfram í Dalssel (sjá meira um Dalssel). Þessi gata er merkt sem “vörðuð leið”. Annað hvort er um misskilning að ræða eða þarna hafi fyrrum legið gata frá Skógfellavegi og upp í Dalssel, selstígur Þórkötlunga á meðan þeir nýttu Dalsselið.
Leiðbeiningum fylgtÍ von um að enn gætu vörðubrot sést þarna er gæfu leiðina til kynna var haldið inn á svæðið frá 
Arnarsetri, austur með norðanverðu Stóra-Skógfelli og áfram inn á Skógfellahraunið. Þar var stefnan tekin til norðausturs, áleiðis að Fagradal.
Þrátt fyrir erfið gönguskilyrði í byrjun (snjór þakti jörð) lék veðrið við þátttakendur – logn og blíða í fjallasal. Snjóhlífar og -þrúgur auðvelduðu sumum gönguna til muna.
Í Arnarsetri hefur verið gerð bragarbót. Í stað mikils magns efnis, sem tekið var á sínum tíma við endurbætur á Grindavíkurveginum, hefur nú verið ekið þangað efni af framkvæmdarsvæði Bláa lónsins, bæði með það fyrir augum að nota svæðið sem efnistipp og um leið að endurheimta fyrri ásýnd þess. Ef haldið verður skipulega áfram með verkið má vænta þess að gígsvæðið sjálft hafi nánast fengið fyrri mynd eftir u.þ.b. tvær aldir. Hafa ber í huga að verðmæti Arnarseturssvæðisins á eftir að margfaldast á næstu áratugum og hundruðum.

Skógfellastígur

Skógfellastígur.

Eftir að hafa fetað snævi þakið hraunssvæðið varlega, yfir hugsanlegar sprungur og gjár, þurfti að komast upp með Stóra-Skógfelli, sem hafði dregið að sér fannfergið. Við vörðu á norðausturhorni fellsins, við Skógfellastíginn, var áð og lagt á ráðin.
Meint gata af Skógfellavegi suðaustan við Stóra-Skógfell með stefnu í Fagradal gat auðveldlega legið þar inn í “dal” þann er Sandakravegurinn liggur um millum Sandhóls og Skógfellavegs. Dalur þessi er mosavaxin hraunslétta (helluhraun), sem runnið hefur eftir að Skógfellahraunið rann. Það hraun hefur fyllt upp í sprungur, misfellur og jafnvel inn í eldri gíga á svæðinu. Dalurinn heitir Mosdalur. Ofan hans er fyrrnefndur Fagirdalur. H
raunið hefur það verið nefnt Dalaraun og þaðekki af ástæðulausu. Í  ljósi þessa er enn áhugaverðara að skoða ummerki hinna fornu gatna yfir hraunið – því víða eru þær djúpt markaðar í hraunhelluna. Það eitt gefur til kynna hina miklu umferð um þær á u.þ.b. 600 ára tímabili, eða allt til 1910 er ferðir fólks um þær voru að leggjast af.
Á áningarstaðnum var tilvalið að rifað upp ferðalýsingu um Skógfellastíginn er birtist í Lesbók Mbl árið 2000: “Þ
essi grein um Skógfellaveg birtist í Lesbók Mbl í septembermánuði árið 2000: “Á Suðvesturlandi eru margar áhugaverðar þjóðleiðir og hafa nokkrar þeirra öðlast fastan sess í huga útivistarfólks sem skemmtigönguleiðir svi sem Leggjabrjótur milli Þingvalla og Hvalfjarðar, Selvogsgata milli Hafnarfjarðar og Selvogs og Síldarmannagötur er nýlega voru varðaðar. Á Reykjanesskaga eru þjóðleiðir sem ekki eru eins nafnkunnar og áðurnefndar leiðir, en munu þó örugglega draga til sín göngufólk í vaxandi mæli.
Stóra-SkógfellNokkrar þeirra liggja til Grindavíkur og skal hér kynnt ein þeirra, en það er Skógfellavegur, gömul leið úr Vogum sem jafnframt er framhald þjóðleiðarinnar frá Hafnarfirði er nefnist Almenningsvegur.
Skógfellavegurinn er kenndur við tvö fell sem eru við leiðina og heita Litla- og Stóra-Skógfell er bendir til þess að svæðið hafi verið skógi vaxið fyrrum, en í nágrenni Litla-Skógfells er þó kjarrgróður með birkihríslum og víði. Grindvíkingar hafa líklega notað Skógfellaveginn sem alfararleið um stuttan tíma, en hann lagðist af um 1920 þegar akvegur var lagður milli Vogastapa og Grindavíkur. Af leiðinni liggur Sandakravegur neðan Stóra-Skógfells að Fagradalsfjalli og síðan austur á bóginn, en nafnið hefur upprunalega verið notað um alla leiðina frá Stapa.
Hér er greint frá Útivistargöngu um hluta þessarar leiðar s.l. sunnudag 3. september… frá Vogum. Landið sýnist ekki svipmikið á þessum slóðum, en þó leynist þarna margt og ekki síst þegar lengra dregur. Snorrastaðatjarnir eru suðvestan og vestan við leiðina og grilltum við aðeins í þær og einnig skátaskála sem reistur var nærri tjörnunum fyrir nokkrum árum. Ofan við tjarnirnar er Háibjalli, en hann og hæsta umhverfi er á náttúruminjaskrá og þar er nokkur skógrækt, en allt þetta blasti betur við ofan af Litla-Skógfelli sem gengið var um síðar.

Varða á leiðinni

Fyrsta spölinn mótar af og til fyrir gömlum götum, en vörður eru fáar og strjálar, en það átti eftir að breytast þegar lengra kom, en það sem einkennir leiðina eru gjár. Gjárnar eru ekki farartálmi og auðvelt að komast um þær, en sú fyrsta sem varð á vegi okkar nefnist Huldugjá, en austur með henni blasti við okkur fjárborg, sem heitir Pétursborg, en ekki var hún skoðuð nánar í þetta sinn. Skammt var að Litlu-Aragjá og gerðum við þar stuttan stans við stóra vörðu á gjárbarmi, en kaffistopp höfðum við hjá næstu gjá, Stóru-Aragjá sem á þessum slóðum nefnist Brandsgjá. Hún heitir eftir Brandi Guðmundssyni bónda á Ísólfsskála er var þarna á ferð á jólaföstu árið 1911, en lenti í ófærð og missti hestana ofan í gjána og þurfti að aflífa þá á staðnum. Brand kól á fótum og var á Keflavíkurspítala einhverja mánuðu eftir slysið. Við litum á gjárnar þarna og víðar og reyndust þær mjög djúpar þó vel sæist til botns svo ekki er að undra þó illa geti farið ef lent er utan leiðar að vetrarlagi og snjór gefur sig yfir gjánum.

Gígur við leiðina

Eftir góða áningu við Stóru-Aragjá var haldið áfram, enda auðvelt og vel vörðuð leið eftir helluhrauni, en þar og víðar eru hófaför vel mörkuð í klöppina. Litla-Skógefll er ekki hátt, aðeins 85 m.y.s. en það freistaði uppgöngu og hélt allur hópurinn upp norðvesturhornið og niður af því sunnanmegin. Af fellinu blasir við mestur hluti leiðarinnar, utan þess sem Stóra-Skógfell skyggir á í suðri, en á milli fellana er þétt röð varða.
Stóra-Skógfell er um 100 m hærra en Litla-Skógfell, en þó freistaði það ekki til uppgöngu í þetta sinn, utan eins þátttakaanda sem raunar gekk á öll fell sem urðu á vegi okkar og dásamaði hann mjög útsýnið.
SléttlendiðÞegar suður fyrir Stóra-Skógfell kom blasti við Sundhnúkagígaröðin sem mun vera um 8 km löng en frá henni rann hraunið hjá Grindavík fyrir um 2000 árum. Athygli okkar vakti sérkennileg hraunpípa utan í einum gígnum og vantaði lítið upp á að skríða mætti þar í gegn, en ekki hefði það farið vel með fatnað. Á þessums lóðum var okkar göngu um Skógfellaveg lokið þar sem áætlaður lokaáfangi göngunnar var Bláa lónið. Leið okkar lá inn á stikaða leið er tilheyrir Reykjaveginum, um Svartsengi norðan Svartsengisfells. Þar við gamlan steyptan pall, líklega undirstöðu danspalls. Rifjuðu nokkrir úr hópnum upp minningar frá útisamkomum er þar voru haldnar um skeið á vegum Grindvíkinga. Eftir tæpra 6 klukkustunda göngu vorum við loks komin að Bláa lóninu nýja sem fellur ótrúlega vel inn í hraunið, en bað í því er kærkominn endapunktur á goðri gönguferð.”

Sandhóll-innri

Þá var stefnan tekinn upp í “dalinn” og honum fylgt til norðausturs. Varða sást á hraunnibbu áður en komið var inn á Sandakraveginn. Í rauninni var ekkert eðlilegra en framhalda göngunni eftir sléttu helluhrauninu áleiðis í Fagradal. Til að gera langa göngusögu stutta má segja að þessi leið er svo greiðfær að hægt væri að aka eftir henni á óbreyttum jeppa. Úfið hraun birtist framundan, en vestan þess lá slétt hraunlæna inn að Aurum vestan Nauthólaflata. Frá hraunjaðrinum var leiðin greið inn í Fagradal og að Dalsseli.

Sandakravegur

Sandakravegur – varða.

Á stöku stað var að sjá hellu ofan á hellu, en verksummerkin gætu þess vegna hafa verið eftir refaskyttur, er sóttu inn í hraunið. Ekki var að sjá að þeim hafi tekist að útrýma skolla á svæðinu því fótspor eftir hann sáust víða á leiðinni, ekki síst við Stóra-Skógfell. Augljóst má vera að víða leynast greni á þessu svæði, enda lágrennanlegar hraunrásir margar.
Þótt ekki hafi verið hægt að sjá augljóslega varðaða leið frá Stóra-Skógfelli áleiðis í Fagradal verður að telja víst að hún hefur verið farin, enda bæði stysta og greiðfærasta leiðin milli Járngerðarstaða og Dalssels. Til stendur að fara inn á svæðið þegar snjóa leysir og gaumgæfa það betur með hliðsjón af framangreindu.
Eitt stendur þó upp úr – umhverfið og útsýnið er stórbrotið.
Frábært veður. Gangan tók 5 klst og 5 mín.

Heimild m.a.:
-Kort frá Landmælingum Íslands 1977.
-Lesbók Mbl 16. sept. 2000 – Kristján M. Baldursson.

Fagradalsfjall frá Skógfellastíg

Auðnasel

Gengið var upp frá Breiðagerði á Vatnsleysuströnd, svona til að skoða nánar niðurlendið með hliðsjón af mögulegri götu frá bænum upp að Auðnaseli í Strandarheiði. Farið var að halla af degi.

Í Fornaselskvöldvetrarsólinni

Til að gera tveggja klukkustunda sögu stutta er skilmerkilegast að geta þess að þegar, ofan bæjar, var komið inn á götuna. Hún er greinileg í móanum þar sem hún liðast upp upplandið. Gatan var rakin í rólegheitum upp með Auðnaborg og síðan áfram með aflíðandi ílöngum hraunhólum efra. Vörður voru við götuna á a.m.k. þremur stöðum á leiðinni, svipaðar þeim og sjá má á götunni ofan Auðnasels áleiðis upp að Keili. Þegar komið var upp fyrir Reykjanesbrautina tók gatan stefnu á Fornasel, beygði af vestan þess og stefndi á vörðu nokkru ofar. Frá henni sást heim að Auðnaseli (Breiðagerðisseli). Hér var látið staðar numið að þessu sinni og vent af.

Auðnasel

Auðnasel.

Upp að Auðnaseli, frá þeim stað er frá var horfið, er um 15 mínútna ganga. Í eldri FERLIRslýsingu af heimsókn í Fornael og síðan Auðnasel segir m.a.: “Aðaltóttin er vestan í hólnum. Sunnan við hana er stekkur. Aftan við hólinn er lítil tótt og hjá henni vatnsstæði, sem hlaðið hefur verið í kringum. Skammt sunnan þess er önnur tótt, sennilega frá eldra seli. Þótt Fornasel geti varla talist til stærri selja hefur það allt er prýtt getur fallegt sel.
BreiðagerðisselsstígurAuðnasel sést vel frá línuveginum í suðsuðaustri. Þangað er um 15 mín. rölt. Selstígurinn sést einungis glögglega á stuttum kafla, en þarna hefur orðið talsverð jarðvegseyðing á síðustu áratugum. Vestan við selið er varða. Sunnan undir henni er bæði lítil tótt og önnur stærri. Utan í hæðinni austan við þær er stærsta tóttin. Norðan við hana, í lægð, er greinilegur brunnur. Hlaðinn stekkur er skammt norðar og annar uppi á hæðinni austan við selið. Norðan hennar er kví undir bakka. Í kvínni er fallegur mjaltastúlkusteinn. Í austri ber háa vörðu við himinn, líklega landamerkjavarða því hún virðist ekki í samhengi við aðrar vörðuraðir á svæðinu, hvorki upp frá selinu né af þeirri götu áleiðis niður í Flekkuvíkurselið (Þórustaðastíginn). Í norðaustri sjást hluti tótta Fornuselja í Sýrholti utan í því. Skammt norðan þeirra er önnur tótt í sléttum grasbala ofan slakka og skammt þar norðan við er hlaðinn stekkur í sprungu.”
Frábært veður. Gangan tók 2 klst og 2 mín.

Auðnasel

Auðnasel – uppdráttur ÓSÁ.

 

Kálffell

Í riti Orkustofnunar “Jarðfræðikort af Reykjanesskaga” ritar Jón Jónsson, jarðfræðingur, skýringar við efnið. Hér fjallar hann um Kálffellshraun ofan Voga.

Kálffell

Kálffell – loftmynd.

“Þessari eldstöð lýsti Guðmundur G. Bárðarson (192)) fyrstur manna. Það er gígaröð neðst í hlíðum Þráinsskjaldar í suðaustur frá Litla-Skógfelli. Gígaröð þessi er í fjórum köflum, en mest hraunrennsli sýnist hafa verið úr allstórum hraungíg í næstaustasta kafla gígaraðarinnar.

Kálffell

Kálffell og nágrenni – loftmynd.

Vestustu gígirnir eru fast við röndina á Sundhnúkahrauni, en tangi úr því hefur runnið norður á við austan við Litla-Skógfell. Meginstraumur Kálffellshrauns hefur svo runnið norður á við og sennilega upp að Litla-Skógfelli, en þar er það hulið af áður nefndum tanga úr Sundhnúkhrauni. Þetta hraun er allfornlegt og brotið af misgengissprungum á mörgum stöðum. Er það bæði um að ræða gapandi gjár með litlu eða engu misgengi og sprungur með margra metra misgengi. þetta bendir til þess að hraunið sé tiltölulega gamalt, því ekki sjást sprungur í Sundhnúkahrauni né heldur í Arnarsetushrauni, en þau hraun takmarka Kálffellshraun að vestan. Bergið í hrauninu einkennist af allstórum plagoklasdílum á strjálingi og ólinvíndílum með smáum spinell kristöllum innan í.”
Í sunnanverðu Kálffelli er Oddshellir (hraunbóla) og fjárhellar með fyrirhleðslum; tengdir veru Odds frá Grænuborg þar um aldarmótin 1900 – sjá HÉR.

Heimild:
-Orkustofnun, Jarðfræðikort af Reykjanesskaga – skýringar við jarðfræðikort, Jón Jónsson, 1978, bls. 146-147.

Kálffell

Kálffell.

Kálfatjörn

Kálfatjarnarkirkja var vígð 11. júní 1893. Forsmiður var Guðmundur Jakobsson, húsasmíðameistari (1860-1933), en um útskurð og tréverk sá Þorkell Jónsson, bóndi í Móakoti.

Kálfatjarnarkirkja

Kálfatjarnarkirkja.

Málun kirkjunnar þótti sérstök, en hana annaðist Nikolaj Sófus Bertelsen (1855-1915). Sá málaði m.a. Iðnó, Dómkirkjuna og fleiri merkar byggingar að innan. Málaraverk Nikolaj er hins vegar víðast hvar horfið, en í Kálfatjarnarkirkju má enn sjá að hluta þessa framlags hans til byggingarinnar. Steinsmiður var Magnús Árnason.
Viðgerð á kirkjunni var lokið á hundrað ára afmæli hennar. Hún er reisuleg timburkirkja af tvíloftagerð. Hún er friðuð. Þegar kirkjan var reist á sínum tíma var hún stærsta sveitakirkja landsins og rúmaði öll sóknarbörnin í einu. Þá stóð sjávarútvegur með miklum blóma á Vatnsleysuströndinni og margir vel efnum búnir útvegsbændur bjuggu þar.

Kálfatjarnarkirkja

Kálfatjarnarkirkja – altaristafla.

Altaristaflan er eftirgerð af töflu Dómkirkjunnar og málaði Sigurður Guðmundsson (1833-1874) hana árið 1866. Hún sýnir upprisuna.
Kirkja hefur líklega verið á Kálfatjörn allt frá upphafi. Hún kemur fyrir í kirknatali Páls biskups frá 1200 og var hún Péturskirkja í kaþólskri tíð.

Umhverfi kirkjunnar á sér merka sögu og á hlaðinu við kirkjuna stendur meðal annars hlaðan Skjaldbreið sem hlaðin var snemma á 19. öld.

Kálfatjarnarkirkja er í Tjarnaprestakalli í Kjalarnesprófastsdæmi. Hún var byggð á árunum 1892-93 og vígð 11. júní 1893, sem fyrr segir, af biskupi, herra Hallgrími Sveinssyni.

Bygging kirkjunnar gekk afar hratt, hófst smíði hennar þegar eftir að gamla kirkjan hafði verið rifin, sú kirkja náði aðeins 29 ára aldri, byggð 1864.

Nýtt þjónustuhús við kirkjuna var vígt 15. apríl 2001.

Kálfatjarnarkirkja

Kálfatjarnarkirkja.

Njarðvíkursel

Ætlunin er að reyna að gefa innsýn í 10 alda sögu seljanna ofan við Kálfatjörn og Ströndina, þ.e. Strandarheiði og Vogaheiði, á innan við 10 mínútum. Stikklað verður því á stóru.

Herdísarvík

Ómar Smári Ármannsson.

Byggðin hér á Vatnsleysuströnd var frá upphafi svo til öll með sjávarsíðunni. Útvegsbændurnir höfðu fjárbúskap samhliða útvegum. Fá býlin höfðu kýr og þá yfirleitt fáar. A.m.k. einn hlaðinn kúastekkur sést þó enn hér fyrir ofan – í Kúadal. Annars höfðu bændur stærri og landmeiri bæja fé sitt yfirleitt í seli yfir sumarið, venjulega frá 6. – 16. viku sumars, en í þá tíð var árdagatalið miðað við meginárstíðarnar, sumar og vetur. Vegna ótíðar gat seljatíðin færst til um viku eða svo. Selin voru yfirleitt í jaðri jarðanna til að nýta mætti landið sem best, þ.e. hlífa heimatúnum, sem yfirleitt voru lítil, og heimahögum, en beittu úthagann. Lífið á Ströndinni hér áður fyrr, eins og svo víða annars staðar á Reykjanesskaganum, snerist um fisk og fé. Fólkið hélt lífinu í fénu og féð hélt lífinu í fólkinu.

Arasel

Ara(hnúka)sel – stekkur.

Á Norðurlandi voru selin oft minni bæir, sem bændur fluttu með mest allt sitt fólk í yfir sumarið og gerðu út þaðan. Á Reykjanesi, sem telur í dag um 140 sýnilegar selstöður, þ.e. á milli Suðurlandsvegar og Stampa yst á Reykjanesi, voru selin annars eðlis. Þau voru tímabundar nytjaútstöðvar bæjanna er byggðu afkomu sína engu minna á útgerð. Dæmi eru þó um einstaka kolasel, þ.e. þau hafa verið notuð til kolagerðar í heiðinni.
Selin eða selstöðurnar í heiðinni, þ.e. í Vatnsleysustrandarbæjalandi milli Hvassahrauns og Seltjarnar, en Innri-Njarðvíkur tilheyrðu þeim þangað til á 20. öld, eru um 34-40, eftir því hvernig talið er.

Hvassahraunssel

Hvassahraunssel.

Hvassahraunssel er austast, en Njarðvíkursel vestast, við Seltjörn eða Selvatn, eins og það þá hét. Deilt hefur verið um hvort Dalselið undir Fagradalsfjalli hafi tilheyrt Grindavíkingum eða Strandarmönnum. Þá var Sogasel í Trölladyngju í fyrstu sel frá Krýsuvík, en síðan Kálfatjörn. Þessi sel hafa áreiðanlega ekki öll verið notuð á sama tíma, sum eru greinilega eldri en önnur, þó gera megi ráð fyrir að þau hafi jafnan verið gerð upp eftir því sem not voru fyrir þau. Þá benda einkum gerðir seljahúsanna til þess að þau séu frá mismunandi tímum.

Flekkuvíkursel

Flekkuvíkursel.

Áhersla á landbúnað var meiri á fyrstu öldum Íslandsbyggðar, en þá voru bæirnir líka færri. Þegar líða fór á miðaldir og síðar urðu fiksveiðar ríkari þáttur útvegsbændanna, en landbúnaður óverulegur. Líklegt er að þá hafi seljunum fækkað. Samkvæmt jarðabókinni 1703 voru þá a.m.k. 18 sel og selstöður í notkun frá Vatnsleysustrandarbæjunum. Það hefur því oft verið talsvert líf í heiðinni, eða um 40-60 manns að staðaldri yfir sumarmánuðina.

Flekkuvíkursel

Flekkuvíkursel.

Síðast var haft í seli frá Flekkuvík um og í kringum 1870 og mun það hafa verið síðasta selið í notkun frá Vatnsleysustrandarbæ. Gunnar og Ólafur Erlendssynir nefna Flekkuvíkursel í örnefnaskrá árið 1976 og segja: “Herdís Jónsdóttir frá Flekkuvík, f: 1858, kom í selið sem barn og voru þar þá bæði smali og selráðskona. Í selinu voru þá einnig eingöngu hafðar kindur”.
Síðasta selið á Reykjanesi var Hraunselið undir Núpshlíðarhálsi, en það var í notkun til 1914.

Flekkuvíkursel

Flekkuvíkursel – uppdráttur ÓSÁ.

Oftast bera selin nöfn þeirra bæja, sem gerðu þau út. Flekkuvíkursel var frá Flekkuvík, Hvassahraunssel var frá Hvassahrauni, Óttarstaðasel frá Óttarstöðum o.s.frv.

Sogasel

Sogasel.

Þó eru dæmi um að selin hafi dregið nöfn sín af staðháttum, s.s. Sogasel í Sogagíg, Selsvallasel af Selsvöllum og Gvendarsel undir Gvendarselshæð af Krýsuvíkur-Gvendi o.s.frv. Flestra seljanna er getið í gömlum heimildum og örnefnalýsingum. Nokkur þeirra, a.m.k. þeirra stærstu, má sjá á gömlu kortum, s.s. dönsku herforingjakortunum svonefndu, en annað það er gefur vísbendingu um að sel hafi verið að ræða á tilteknum stöðum eru nafngiftir tengdar þeim, s.s. Selháls, Selshæð, Selsvallafjall, Selsvellir, Selsfjall, Seljahlíð, Selalda, Selstígur og Selshóll.

Brunnastaðasel

Brunnastaðasel.

Selstígurinn lá upp frá bænum að selinu. Hann var venjulega u.þ.b. klukkustundar langur – stundum styttri – stundum lengri. Stígurinn var varðaður og varða var á hól ofan við selstöðuna. Hér á Reykjanesi var selið oftast í skjóli fyrir rigningaráttinni, að norðaustan, þ.e. í skjóli við hól, hæð eða gjábakka mót suðvestri. Selið sjálft var venjulega þrjú rými. Einn inngangur var í tvö þeirra, þ.e. svefnaðstöðu og búr, og annar í eldhúsrýmið. Í sumum seljunum voru fleiri en ein selstaða, þ.e. frá fleiri bæjum. Skammt frá var vatnsstæði eða brunnur. Þó eru allnokkr dæmi um að notað hafi verið yfirborðsvatn í bollum og lautum, sem oft vildi þrjóta þegar leið á sumarið. Þá varð að yfirgefa sum selin, s.s. áður en eiginleg selstíð var á enda. Í selinu var tvískiptur stekkur, venjulega hlaðinn úr grjóti. Hann var notaður til að færa frá. Einnig var þar kví, notuð til mjalta. Fráfærur voru í upphafi stekkstíðar og er í rauninni sérstakur kafli seljabúskaparins.

Kálffell

Kálffell – fjárskjól.

Fjárskjól, hlaðið fyrir hellisop eða skúta, eru við eða nálægt sumum seljanna á Reykjanesi, en fá hér í heiðinni. Þó má sjá slíkt í Kálffelli, en þar er sagt að Oddur á Grænuborg hafi setið yfir sauðum og í Öskjuholti. Einnig við Smalaskála. Sauðaútgerðin er enn annar kafli, sem ekki verður fjallað um hér.
Fjárborgir, hlaðin hringlaga gerði, eru nokkur í heiðinni. Má þar frægasta nefna Staðarborgina hér ofan við Kálfatjörn, Gvendarborg, enn ofar, Pétursborg á Huldugjárbarmi, Þórustaðaborgina, Auðnaborg, Hringinn, Grænuborg og Gvendarstekk ofan við Voga. Sumar tengjast seljabúskapnum, en þeim var þó yfirleitt ætlað að veita fé skjól í vondum veðrum. Fé var ekki tekið í hús, eða sérstök hús byggt yfir fé, á Reykjanesi fyrr en komið var fram á 20. öldina.

Arasel

Ara(hnúka)sel – tilgáta.

Nátthagar voru ekki fjarri seljunum, yfirleitt í stórum grónum lægðum eða hraunkrókum.
Yfirleitt var tvennt í hverju seli, þ.e. selmatsseljan, eða selráðskona, og smalinn. Stundum var unglingur hafður með til aðstoðar. Dæmi er um að kona í seli hafi haft með sér erfiðan ungling til verka og fékk að launum fisk frá foreldrunum á Ströndinni. Dugði hann til viðurværis út árið. Verkaskiptingin var skýr. Hún mjólkaði og vann úr mjólkinni, en hann gætti fjárins og skilaði því í selið á tilskildum tíma. Gerði hann það ekki gat hann átt von að þurfa að éta skömmina, eins og það var nefnt. Þessi verk gátu oft verið erfið og slítandi. Samt voru þetta eftirminnilegustu verk þeirra, sem þau unnu, er litið var síðar yfir liðna tíð.

Gjásel

Gjásel – tilgáta ÓSÁ.

Sögur tengdar seljafólkinu eru nokkrar til, þá aðallega tengdar barnshafnandi seljamatsseljum eftir að huldumenn eða útilegumenn komust í tæri við þær. Þá gleymdist oft að bóndinn á bænum fór reglulega upp í selið á tveggja eða þriggja daga fresti til að sækja afurðirnar og færa þangað matarkyns, talsverður samgangur var á milli seljanna og auk þess var nokkur umferð fólks um heiðina yfir sumartímann, á leið hingað og þangað umm Innnesin og Útnesin því ekki fóru allir Almenningsleiðina.

Brunnastaðasel

Brunnastaðasel – uppdráttur ÓSÁ.

Selsbúskapurinn átti erfitt uppdráttar þegar tók að líða á 19. öldina, bæði vegna mannfæðar á bæjum og sumir sögðu vegna leti bændanna. A.m.k. þurfti konungstilskipun til að gera bændum skylt að gera selin út, en þeim fækkaði þó smám saman uns þau lögðust af er líða fór að aldamótunum 1900.

Gjásel

Gjásel – uppdráttur ÓSÁ.

Selsbúskapurinn leggst af á ofanverðri 19. öld. Ástæðan er ekki ein heldur nokkrar; fólki tók að fækka á einstökum bæjum, aukin áhersla var lögð á útveg, kýr voru nyjaðar í auknum mæli líkt og féð áður, þ.e. unnir ostar, smér og aðrar afurðir, og breytingar urðu á samfélagsmyndinni. Féð var nýtt heima við framan af sumri, en síðan rekið á afrétt til sumarbeitar, en smalað að hausti.

Selsvallaselsstígur

Selsvallaselsstígur.

Ekki hefur verið skrifað mikið um sel hér á landi, en Guðrún Gísladóttir hefur þó ritað um Grindavíkurselin, bæði á Baðsvöllum og á Selsvöllum undir Núpshlíðarhálsi, sem Vogamenn hafa stundum viljað hafa átt, og Sesselja Guðmundsdóttir, heimamaður hér á Ströndinni, hefur getið allra seljanna í heiðinni og nefnir þau í bók sinni Örnefni og gönguleiðir á Vatnsleysuströnd, sem Lionsklúbburinn gaf út á sínum tíma. Þar getið þið lesið ykkur meira til um þetta efni. Brunnaselstöðunni er t.d. lýst svo:”….Selstöðu hefur jörðin við fjallgarð, er þar hagar litlir, en vatnsskortur að miklu meini, þegar þerrar gánga”. Þessi heimild segir okkur margt um erfiða búskaparhætti og ástand gróðursins í heiðinni. í Brunnastaðaseli hafa þá verið 30-40 kindur og er það hreint ekki lítið.

Í heimildum um sel segir m.a. á einum stað: “Í seljum þessum störfuðu venjulega 2-3 menn; selsmalinn og selráðskonan og oft einn unglingur þeim til aðstoðar, ýmist piltur eða stúlka. Áður fyrr voru þar gerðir úr mjólkinni, ostar, skyr, smjör og sýra…. Sótt var í selið tvisvar í viku; skyr, mysa og smjör og flutt heim á hestum”.

Snorrastaðatjarnir

Snorrastaðasel við Snorrastaðatjarnir.

Heiðin lítur öðruvísi út í dag en hún gerði þegar selsbúskapurinn var í sem mestum blóma. Telja má víst að landsnámsmenn hafi komið með selsbúskaparhættina með sér frá Noregi og haldið þeim þegar hingað var komið að teknu tilliti til aðstæðna hér. Þau munu skv. því hafa verið við lýði hér í um 1000 ára skeið. Selsbúskapurinn hefur því verið stór þáttur í búskaparháttum þessa landsvæðis, en er nú að mestu gleymdur. Hins vegar eru minjar seljanna enn vel sýnilegar í heiðinni og standa þar sem minnismerki þess liðna – fortíðinni – sem við þurfum að geta borið virðingu fyrir. Þau tala máli fólksins, forfeðra okkar og mæðra, sem hér bjó, stritaði og dó, en skyldu eftir sig dýrmæta arfleið – okkur.
Selin í heiðinni bíða heimsóknar ykkar – hvenær sem þið hafið áhuga á, getu eða nennu og tíma til.

Úr erindi ÓSÁ er flutt var í Kálfatjarnarkirkju á Menningardegi í kirkjum á Suðurnesjum 24. okt. 2004.

Selsvellir

Selin á Selsvöllum – uppdráttur ÓSÁ.

Kálfatjörn

Kálfatjörn er bær, kirkjustaður og fyrrum prestsetur á Vatnsleysuströnd á Suðurnesjum. Kirkjan tilheyrir [nú] Tjarnaprestakalli í Kjalarnesprófastsdæmi.

Kálfatjörn

Kálfatjarnarkirkja 2023.

Kálfatjarnarkirkja er sóknarkirkja Vogabúa. Núverandi kirkjubygging var vígð þann 13.júní árið 1893 og var ein stærsta sveitakirkja á landinu en hún rúmaði öll sóknarbörnin í einu. Umhverfi hennar á sér merka sögu en hlaðan Skjaldbreið sem hlaðin var snemma á 19.öld stendur á hlaðinu við kirkjuna. Kirkjan þykir mikil völundarsmíð en Guðmundur Jakobsson húsasmíðameistari (1860-1933) var forsmiður og Þorkell Jónsson bóndi í Móakoti sá um tréverk og útskurð. Nikolaj Sófus Bertelsen (1855-1915) sá um að mála kirkjuna en hann málaði einnig Iðnó og Dómkirkjuna. Altaristaflan er eftirmynd af altaristöflu Dómkirkjunnar, en Sigurður Guðmundsson (1833-1874) málaði hana árið 1866. Hún sýnir upprisuna. Talið er að kirkja hafi verið á Kálfatjörn frá upphafi en Kálfatjarnarkirkja er talin upp í kirknatali Páls biskups frá 1200. Kirkjan er friðuð.

Guðmundur Björgvin Jónsson fjallaði um Kálfatjörn í bók sinni “Mannlíf og mannvirki í Vatnsleysustrandarhreppi“:
Kálfatjörn“Um kirkjustaðinn Kálfatjörn hefur mikið og margt verið rætt og ritað og þá gjaman í samhengi, kirkjan og ábúandi kirkjujarðarinnar, enda vandi að skipta ritefninu í tvo flokka, um það andlega og veraldlega, án þess að binda það hvort við annað. Pó mun hér reynt að sneiða hjá því andlega og koma að því síðar.
Síðasti prestur og jafnframt bóndi á Kálfatjörn var séra Árni Þorsteinsson frá Úthlíð í Biskupstungum.
KálfatjörnKona hans var Ingibjörg Valgerður Sigurðardóttir. Tók séra Árni við búinu og embættinu af séra Stefáni Thorarensen og konu hans, Steinunni Járngerði Sigurðardóttur. Árni stundaði útgerð og landnytjar, auk þess að vera prestur og barnakennari í nokkrum tilvikum. Hann var áhugasamur um unglingafræðslu svo sem fyrirrennari hans. Utan þess hafði hann mikinn og virkan áhuga á héraðsmálum. Hann mun hafa verið fyrstur manna hér í hreppi sem sá þörf á því að bændur gerðu með sér samtök um mjólkursölu, þó ekki kæmist það í framkvæmd fyrr en ári eftir andlát hans, eða árið 1920.
KálfatjörnUm séra Árna Þorsteinsson og það heimili segir Erlendsína Helgadóttir, sem þá var unglingur í Litlabæ: „Prestshjónin voru greiðasöm og alþýðleg og vildu öllum gott gera. Séra Árna þótti sjálfsagt, að ef ekki væri skírt í kirkju að, skírn færi fram þar sem móðirin átti heima, þó léleg væru oft húsakynnin. En til vom þeir prestar sem gengu ekki inn í hvers manns kot til slíkra athafna. Séra Árni var á undan sinni samtíð í mörgu. Þá þótti það nýlunda, að séra Árni leyfði leiguliðum sínum að auka við nytjalönd sín (færa út), þeim sjálfum til búbóta, en það höfðu þeir ekki þekkt áður.”

Bakki

Bjarg.

„Á mínu heimili”, segir Erlendsína, „var borðað hestakjöt. Hefur sennilega komið þar tvennt til, annarsvegar oft þröngt í búi og hinsvegar að fólkið var að vaxa upp úr miðaldatrúnni og þorði að fara sínar leiðir. En aldrei var móður minni um þessa fæðu og notaði stundum aðstöðu sína til að læða annarskonar kjötbita í súpuna sem hún ætlaði sjálfri sér. Foreldrar mínir höfðu heyrt að presti þætti ekkert athugavert við að neyta hestakjöts og þó hann hefði aldrei borðað það sjálfur, væri hann til með að smakka á þessari áður forboðnu fæðu.

Bakki

Bakki í Kálfatjarnarhverfi 2023.

Því var það einu sinni, þegar hestakjöt var í pottinum heima, að prestshjónunum var boðið í mat sem þau og þáðu, en ekki voru efnin meiri á mínu heimili, né víða annarsstaðar, að hnífapör voru ekki til, en önnur áhöld þóttu ekki viðeigandi í þetta sinn. Svo móðir mín hvíslaði að maddömunni, hvort ekki mætti senda eftir hnífapörum á prestssetrið og var það auðsótt. Þarna var þá borðað hestakjöt og kjötsúpa með, en þá var venjan að sjóða í súpu. Eftir þetta var hestakjöt oft á borðum á prestsetrinu Kálfatjörn.
KálfatjörnEitt sinn er séra Árni kom í húsvitjun að Bjargi, rétt fyrir jól, spyr hann yngri drenginn þar, Ingvar Helgason, hvort hann muni ekki koma í kirkju um jólin, en móðir hans segir að það geti ekki orðið, því hann hafi ekki þann klæðnað sem hægt sé að láta sjá sig í við kirkju. Segir þá Árni: „Ég spái því nú samt að þú komir þangað á jólunum.” Nokkru seinna, nær jólunum, eru drengnum send ný alföt frá presti og þar með var kirkjuferðinni bjargað.”
Þannig lýsir samtíðarfólkið séra Árna Porsteinssyni, en konu hans, Ingibjörgu, bar minna á, enda nóg að gera á barnmörgu heimili og prestssetri að auki. Börn þeirra hjóna voru: 1) Gróa, 2) Sesselja, f. um 1880, 3) Steinunn Guðrún, f. 1882, 4) Þorsteinn f. 1883, 5) Sigurður f. 1885, 6) Arndís f. 1887, 7) Margrét f. 1889. Einnig ólu þau upp Kristinn Árnason frá Bergskoti, f. 1894.

Kálfatjörn

Kálfatjörn – sjóbúð við Kálfatjarnarvör fyrrum.

Séra Árni var sjúklingur síðustu árin, þó hann þjónaði fram á andlátsárið. Hann lét, með aðstoð hreppsins, flytja Móakotshúsið og setja það austan við prestshúsið og þar dvaldi hann sjálfur, en lét Kálfatjörn eftir handa leiguliða, tímabundið. Sá er þá kom að Kálfatjörn hét Helgi Jónsson, (síðar oft nefndur Helgi Kálfatjamar, eða Helgi frá Tungu) og mun hann hafa verið þar um 1918-1920. Kona Helga var Friðrika Þorláksdóttir. Helgi var síðast með útgerð í Kotvogi í Höfnum og fórst í eldi ásamt barni sínu, sem hann var að reyna að bjarga þegar Kotvogur brann árið 1939. Dóttir hans er m.a. Sveinbjörg, kona séra Garðars Þorsteinssonar, prests á Kálfatjöm (1932-1966).

KálfatjörnÁrið 1920 fluttu að Kálfatjörn Erlendur Magnússon frá Tíðagerði og kona hans, Kristín Gunnarsdóttir frá Skjaldarkoti. Höfðu þau byrjað búskap í Tíðagerði, foreldrahúsum Erlendar, um 1915 og þar fæddust fimm börn þeirra. Meðan þau bjuggu í Tíðagerði fór Erlendur austur á firði á sumrin í atvinnu og fetaði í fótspor margra Strandaringa, auk þess sem hann stundaði vetrarvertíð heima. Ætla ég að Erlendi hafi fallið betur landbúnaður en sjómennska, enda þótt hann hafi rekið eigin útgerð um tíma, en aflagt hana um 1946.

Kálfatjörn

Kálfatjörn um 1960.

Þó miklu og vel væri stjórnað af þeim Kálfatjarnarhjónum, innan og utan veggja heimilisins, þá munu störf Erlendar í héraðsmálum og félagasamtökum lengst verða minnst. Hann var bæði áhugasamur og úrræðagóður hvort sem var í málum kirkjunnar, hreppsins eða bændastéttarinnar. Þá var hann í mörgum málum fulltrúi sveitar sinnar út í frá og kom þá í hlut húsfreyjunnar, Kristínar, að vera bæði bóndi og bústýra á stóru heimili.

Kirkjuathafnir tengdust heimilinu með margskonar þörfum, enda heimilið rómað fyrir gestrisni og góðar úrlausnir til handa öllum er þangað leituðu. Erlendur keypti Norðurkot (sjá Norðurkot) árið 1934 og bjó þar með fjölskylduna meðan hann byggði upp á Kálfatjörn, það hús sem nú stendur [1967], en gamla húsið var rifið samtímis. Smiður var Gestur Gamalíelsson, húsasmíðameistari frá Hafnarfirði.
KálfatjörnBörn Erlendar og Kristínar eru: 1) Ingibjörg, kennari, býr í Reykjavík, 2) Ólafur, brunaliðsmaður, býr í Reykjavík, 3) Herdís, ógift og barnlaus bústýra á Kálfatjöm, 4) Magnús, ókvæntur og barnlaus, starfar í Hafnarfirði, 5) Gunnar, ókvæntur og barnlaus, bóndi á Kálfatjörn síðan árið 1971. Auk þessara bama ólu þau upp tvö böm: Kristín Kaldal, sem er fæddur þar, og Lindu Rós frá 9 ára aldri.
í Kálfatjarnarlandi er mannvirki nokkurt er heitir Staðarborg. Það er um 3 km frá Kálfatjörn, beint til fjalls að sjá frá kirkjustaðnum. Borgin er hringlaga og hlaðin úr grjóti. Er þessi bygging svo einstök að gerð, að hún er friðlýst frá árinu 1951, samkvæmt lögum um verndun fornminja frá 16. nóv. 1907.”

Heimild:
-https://is.wikipedia.org/wiki/K%C3%A1lfatj%C3%B6rn
-Mannlíf og mannvirki í Vatnsleysustrandarhreppi eftir Guðmund Björgvin Jónsson, útgefið af höfundi 1987.

Staðarborg

Staðarborg.