Færslur

Stapagata

Gengið var upp Reiðskarð austast á Vogastapa með útsýni yfir Hólmabúð, Brekku, Stapabúð og Vogavík. Rifjuð var upp sagan af huldukonunni með kúna er hvarf sjónum vegfaranda efst í þokukenndu skarðinu.

Stapagata

Gengin Stapagatan um Reiðskarð.

Stapagötunni var fylgt að Grímshól, en þar segir þjóðsagan að vermaður hafi gengið í hólinn og róið með hólsbónda, huldumanni. Gamla Grindavíkurveginum var fylgt til suðurs niður Selbrekkur að Selvatni (Seltjörn), kíkt á Njarðavíkursel og þaðan gengið til norðausturs með Háabjalla.

Ævagömul leið liggur um Reiðskarð yfir Vogastapa og Grímshól, Stapagatan. Neðan við skarðið er hlaðið undir nýjasta vegstæðið, en gamla leiðin, eða öllu heldur gömlu leiðirnar, lágu í hlykkjum efst í því. Í þeirri nýrri hafa myndast háir ruðningar beggja vegna.

Reiðskarð

Reiðskarð.

Eftirfarandi saga segir af Jóni Jónssyni frá Landakoti á Vatnsleysuströnd og Þorbjörgu Ásbjarnardóttur úr Innri-Njarðvík er þau voru að draga sig saman. Fóru þau oft fundaferðir hvort til annars. Eitt sinn, í síðari hluta ágústmánaðar, skrapp Þorbjörg að Landkoti. Tekið var að bregða birtu þegar hún kom að Vogastapa á heimleið. Þar er farið upp Stapann um svokallað Reiðskarð. Var það alltaf farið, áður en akvegurinn var lagður nokkru austar í Stapanum. Skarðið var mjög bratt og sendið, og teymdu vegfarendur oft reiðhesta sína upp úr því og niður úr.
Þegar Þorbjörg var að leggja á skarðið, verður henni það fyrir að óska sér, að hún hefði nú samfylgd yfir Stapann. Það er rösk fimm kílómetra leið og þótti óhreint í skuggsýnu, og nú var farið að skyggja.

Stapagata

Stapagata ofan Reiðskarðs.

Þegar upp úr skarðinu kom, gerðist gatan mjög niðurgrafin, svo að götubrúnirnar tóku meðalmanni í öxl. Þar var og mikil bugða á henni. Ekkert sá Þorbjörg til konunnar, þegar hún kom upp á skarðsbrúnina. Gerir hún sér þá í hugarlund, að hún sé niðri í götuskorningnum hinum megin við bugðuna, því henni datt ekki enn í hug, að þetta væri allt með felldu.

Stapagata

Stapagata.

Hún steig nú á bak hestinum og hyggst ná konunni handan við bugðuna. En þegar þangað er komið, sér hún enga lifandi veru. Dettur henni þá í hug að konan hafi vikið út af götunni og haldið niður að bæ, sem hét Brekka og stóð norðvestan undir Stapanum. Snýr Þorbjörg hestinum á leið þangað og að stíg, sem lá niður að Brekku og kallaður var Kvennagönguskarð. En þar var ekkert kvikt að sjá. Þá fyrst rann það upp fyrir henni, að þessar verur gátu ekki verið af okkar heimi, enda lá það nú í augum uppi, að ef konan hefði verið mennsk, myndi hún hafa gengið götuna, sem lá undir Stapanum heim að Brekku, því það er venjuleg leið, í stað þess að taka á sig krók upp í Stapann og klöngrast þaðan ógreiðari veg niður að bænum.
Setti beyg að Þorbjörgu, sló hún í hestinn og reið í einum spretti heim í Innri Njarðvík.

Stapi

Brekka undir Stapa.

Gengið var yfir að Brekkuskarði og litið yfir bæjarstæðið undir Stapanum sem og Hólmabúðir. Sjá má móta fyrir minjum í hólmanum. Austan við hann hvílir gamall innrásarprammi, sem siglt hefur verið þar í strand. Lágsjávað var svo leirurnar í Vogavíkinni iðuðu af fugli.
Vogastapi (80m) hét fyrrum Kvíguvogabjarg og Kvíguvogastapi og er stundum kallaður Stapi. Hann er á milli Voga og Njarðvíkur og þverhníptur í sjó fram. Uppi á Grímshóli, hæsta stað Stapans, er útsýnisskífa og útsýni gott á góðum degi.

Grindavíkurvegur

Grindavíkurvegur á Stapanum.

Reykjanesbraut liggur um undirhlíðar Stapans og enn þá verður næmt fólk, sem þar er á ferðinni, vart við eitthvað óhreint. Fyrrum fóru sumir ferðamenn sér að voða á leiðinni og gengu jafnvel fyrir björg. Eftir að bílvegurinn var lagður hafa sprottið upp alls konar draugasögur, s.s. að farþegi hafi skyndilega verið kominn í aftursætið eða gangandi vegfarandi hafi verið tekinn með á Stapanum og hann skyndilega horfið úr bílunum. Margir telja sig hafa séð þar mann á ferðinni með höfuðið undir hendinni. (Atburðir á Stapa eftir Jón Dan).
Fiskislóðin Gullskista er undir Stapanum. Nafn hennar varð til vegna mikillar og góðrar veiði á þessum miðum. Til er þjóðsaga, sem segir frá göngum undir Reykjanes frá Gullkistu til Grindavíkur, þar sem fiskur gekk greitt á milli.

Hólmur

Hólmurinn undir Stapa.

Nokkrar verstöðvar voru undir stapanum á dögum árabátaútgerðarinnar en ummerki þeirra eru óðum að hverfa. Meðal þessara verstöðva var Hólmabúðin, sem kennd var við hólmann skammt undan landi. Haraldur Böðvarsson hafði aðstöðu í þessum hólma, þegar hann byrjaði úrgerð sína á Suðurnesjum. Síðar flutti hann starfsemina til Sandgerðis og endanlega til Akranes, þar sem fyrirtækið er enn í dag.

Grímshóll

Á Grímshól.

Stapagötunni var fylgt áfram upp á Grímshól og fjallamið tekin af útsýnisskífunni. Á hólnum hefur einhvern tímann verið tóft og mótar enn fyrir henni. Gerði hefur og verið við götuna sunnan í hólnum, en búið er að fjarlægja mesta af grjótinu. Sennilega hefur hluti þess verið notað utan um bragga, sem staðið hefur suðvestan við hólinn. Hleðslan sést enn.

Þess er og getið um Norðlinga að þá er þeir fóru suður í verið gerði byl á þá nálægt Grímshóli á Stapanum. Einn þeirra var heldur hjárænulegur og dróst hann aftur úr hjá hólnum og hvarf félögum sínum. En er hann var einn orðinn kom maður að honum og bað hann róa hjá sér.

Kerlingarbúðir

Kerlingarbúðir undir Stapa.

Norðlingurinn varð feginn boðinu og fór með hinum ókunna manni og reri hjá honum um vertíðina. En um lokin þegar Norðlendingar fóru heim fundu þeir hann í sama stað á leið sinni og þeir skildu áður við hann. Var hann þar þá með færur sínar og hafði ekki leyst þær upp því ekki hafði hann lagt sér neitt til um vertíðina. Landar hans gjörðu nú heldur en ekki gys að honum að hann skyldi hafa setið þarna alla vertíðina og spurðu hvar hann hefði verið. Hann sagðist hafa róið eins og þeir og ef til vill ei hafa aflað minna. Tekur hann þá upp hjá sér sjóvettling einn fullan af peningum og segir að þarna sé hluturinn sinn. Blæddi þeim þá mjög í augum er þeir sjá það og sýndist aflinn ei alllítill. Fóru þeir síðan allir saman norður. Maðurinn reri suður margar vertíðir eftir þetta, og fór æ á sömu leið og fyrsta skipti. En aldrei sagði hann neitt greinilega hvar hann var og vissu menn það eitt um hann að hann reri einhvers staðar þar sem hann aflaði vel.

Stapinn

Stapinn – flugmynd.

Gengið var suður Njarðvíkurheiði, yfir gamla Keflavíkurveginn. Bandaríski herinn byggði fullkomið sjúkrahús í suðurhlíðum Stapans í síðari heimsstyrjöldinni en hann brann skömmu síðar. Herinn byggði og rak líka mikilvæga fjarskiptastöð á Stapanum og tóttir þess húss standa enn þá. Sjá má þær í suðvestri. Uppi á efstu brúnum Stapans byggðu þeir vígi, þar sem þeir gátu fylgzt vel með umferð á Faxaflóa sunnanverðum.

Á heiðinni mátti m.a. sjá hlaðið byrgi og skjól. Neðar eru trölllistaverk ofan við Reykjanesbæjarskiltið.

Grindavíkurvegur

Grindavíkurvegur fyrrum – uppdráttur ÓSÁ.

Skammt vestan þess liggur gamli (elsti) Grindavíkurvegurinn niður heiðina, hér nefndur Grindavíkurgata, því hann hefur verið lítið annað en hestagata. Liggur hún svo til þráðbein til suðurs, liðast niður Selbrekkur (Sólbrekkur) og vel má sjá stefnu hans í beina línu í beygjuna þar sem nýi og gamli Grindavíkurvegurinn komu saman norðaustan við Seltjörn (Selvatn). Suðaustan við vatnið, undir hraunbrúninni, eru tóftir Njarðvíkursels (Innri) og stekkur og gerði nær vatninu.
Gengið var norðaustur að Bjalla og þar undir Háabjalla. Bjallinn er skýrt dæmi um misgengi á vestanverðu rekasprungubeltinu, sem gengur NA og SV um Ísland. Skammt norðar, norðan núverandi Reykjanesbrautar, sést vel hvar gömul reiðgata, greinilega mikið farin, liggur upp á Stapann og fer undir gamla Keflavíkurveginn skammt ofar. Svipuð ásýnd vegar og efst í Reiðskarðinu.
Veður var frábært – sól og stilla. Gangan tók 3 klst og 33 mín.

Heimildir:
-nat.is
-Reiðskarð: (Ritað eftir frásögn Ásbjörns Ó. Jónssonar 1961)
-Grímshóll: (Íslenskar þjóðsögur og ævintýri I: 14)

Stapi

Stapi – uppdráttur ÓSÁ.

Ásláksstaðir

Gengið var frá Strandarvegi á Vatnsleysuströnd áleiðis að Gerðistangavita á Atlagerðistanga. Lagt var af stað frá gamla samkomuhúsinu Kirkjuhvoli.

Gerðistangaviti

Gerðistangaviti.

Við veginn að norðanverðu er gróinn hóll. Við hann er hlaðið umhverfis ferkantaðan lítinn túnvöll eins og svo víða þarna norðan af. Sjá má hvernig grjótið hefur verið borið til í litlar hrúgur og þúfurnar sléttaðar. Síðan hefur frostið verið að hjálpa grjótinu að ganga upp úr sverðinum. Handan við hólinn er annar völlur og aðrir utan við hlaðin heimatúngarð við gamla tvískipta tóft. Sunnan hennar er heillega hlaðinn veggur. Norðvestan við hana er einnig hlaðinn veggur, nær kominnn í kaf í jarðveginn. Sjórinn gengur inn á hann í háflæði. Svo er að sjá að landið hafi lækkað þarna nokkuð frá því sem var því víða eru túnbleðlar undir sjó.

Halldórsstaðir

Halldórsstaðir.

Halldórsstaðir og Narfakot eru vestar, en austar eru Ytri-Ásláksstaðir. Aðrir bæir á Ásláksstaðatorfunni eru (voru) Sjónarhóll, Innri-Ásláksstaðir, Hallandinn, Miðbæjarbúð, Móakot og Knarrarnes.
Úti á Altagerðistanga er vitinn. Við hann er tóft sem sjórinn er smám saman að brjóta niður, ágætt dæmi um ágang sjávar þarna við ströndina og breytingarnar sem hafa orðið á tiltölulega skömmum tíma. Vitinn stendur á tanga, en sunnan og vestan við hann eru smáar víkur og vogar. Austar er samfelld strönd utan við Brunnastaðahverfið.
Mikið fuglalíf er við ströndina.
Þetta svæði er kjörið til kvöldgöngu eða styttri gönguferða.
Veður var frábært – sól og lygna. Gangan tók 43 mín.

Atlagerðistangaviti

Atlagerðistangaviti og Atlagerði.

Landakot

Landakot er jörð í Vatnsleysustrandarhreppi. Á jörðinni leynast í dag tóftir tveggja annarra býla; Landa og Götu.

LandakotÍ “Aðalskráningu fornleifa í Sveitarfélaginu Vogum – Áfangaskýrslu I” frá árinu 2011 segir m.a. um Landakot:
“1584: Landskuld jarðarinnar til Viðeyjarklausturs 3 vættir fiska. Árni Óla: Strönd og Vogar, 26. Guðmundur [Björgvin] Jónsson segir þetta býli hafa verið
höfuðból Vatnsleysustrandarhrepps á árunum 1830-1930.
Gata var tómthús milli Landakots og Þórustaða í Landakotslandi.
Niður við sjó var býlið Lönd. Ö-Landakot GS, 2.
1793: Hálflenda, jarðadýrleiki óviss 1703, konungseign. JÁM III, 139-140. “Túnin fordjarfast stórum af sandi og sjáfargángi allareiðu til þriðjúngs. Engjar eru öngvar.” JÁM III, 140.
1919: Tún 4,7 teigar, garðar 1620m2.

LandakotÍ bókinni Mannlíf og mannvirki eftir Guðmund Jónsson segir: “Einnig byggði hann [Guðmundur Brandsson bóndi í Landakoti] nýtt íbúðarhús í Landakoti um 1883-4 á líkum tíma og aðrir hér í hreppi byggðu úr James-Town strandinu í Höfnum.” “Núverandi íbúðarhús var byggt 1925-27 norðan við grunn eldra húss, sem rifið var. Standa nú tröppur þess húss einar eftir, og mótar fyrir grunnir,” segir í örnefnaskrá. Heimildum ber ekki saman um byggingarár núverandi íbúðarhúss; í bók Guðmundar Jónssonar, Mannlíf og mannvirki, segir að steinhúsið hafi verið byggð um 1921-22. Húsið sem byggt var á árunum 1883-4 er það hús sem sýnt er á túnakorti frá 1919 en samtengt því var annað hús sem stóð fast austan við það og er mynd af báðum húsum í bókinni Mannlíf og mannvirki. Bærinn er í miðju túni sem nýtt er til beitar. Í túninu eru klappir sem eru að mestu grónir hólar.

Landakot

Landakot 2022.

Ekki er eiginlegur bæjarhóll sýnilegur í Landakoti. Núverandi íbúðarhús og áfast fjós eru fast austan við húsið sem byggt var 1883-4 og hafa líklega raskað bæjarhólnum en óvíst er hversu umfangsmikill hann var ef hann hefur náð að myndast. Kjallari, um 1 m djúpur, er undir húsinu. Enn sjást leifar af húsgrunni gamla hússins frá 1883-4 en hann er um 4×8 m að stærð, þar hann sem sést, og er múr eða sementslím í hleðslum sem eru um 0,5 m á hæð. Steyptar tröppur eru upp á grunninn á vesturhlið en grunnurinn snýr norður-suður. Í framhaldi af húsgrunninum til suðurs eru hleðslur úr kálgarði sem sýndur er á túnakorti frá 1919.

Landakot

Gata.

“Neðan við Landakotsbæinn eru tættur eftir býlið Götu og niður við sjó var býlið Lönd,” segir í örnefnaskrá GS. “Í austur hallaði Bakkanum í aflíðandi brekku á áttina að tóftum býlisins Götu. Milli Götu og Þórustaðagirðingar var túnið þýft og grýtt,” segir í örnefnaskrá. Í bók Guðmundar Jónssonar, Mannlíf og mannvirki, segir: “Gata var tómthús milli Landakots og Þórustaða í Landakotslandi […] mun bærinn hafa aflagst nokkru eftir aldamót.” Gata er um 115 m norðaustan við bæ. Býlið er í hæðóttu túni. Tvískipt tóft og kálgarður tilheyra býlinu.

Landakot

Gata.

Í Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalín frá 1703 segir: “Lönd, eyðihjáleiga, hefur í eyði legið í fjegur ár. … Grasnautnina brúkar nú heimabóndinn og þykist ei missa mega að skaðlausu.” “Neðan við Landakotsbæinn eru tættur eftir býlið Götu og niður við sjó var býlið Lönd,” segir í örnefnaskrá GS. ” Óvíst er hvar býli þetta hefur verið en það kann að hafa verið í horni því sem keypt var úr landi Auðna, í norðvesturhorni jarðarinnar, um 115 m norðvestan við bæ. Ekki er ljóst hvenær sú landspilda var keypt úr landi Auðna en það hefur verið áður en landamerkjalýsing var gerð fyrir jarðirnar 1886. Líklegast hefur býlið Lönd verið í túni í norðvesturhorni jarðarinnar niður við sjó. Ekki sjást önnur ummerki um býlið Lönd á þessum stað. Mögulega eru minjarnar sem skráðar eru þar reistar á rústum býlisins en ekki er hægt að slá neinu föstu um það nema með ítarlegri rannsókn.

Landakot

Gata.

Íbúðarhúsið í Landakoti stendur í Landakotstúni sunnanverðu, nær Auðnum og Bergskoti en Þórustöðum. Núverandi íbúðarhús var byggt 1925-27 norðan við grunn eldra húss, sem rifið var. Standa nú tröppur þess húss einar eftir, og mótar fyrir grunni. Þetta hús, sem nú er búið í, byggðu Sveinn og Geir Pálssynir. Bjó Sveinn þá í Landakoti, en fluttist síðar að Hábæ í Vogum og rak þar verzlun. Árið 1927 fluttist að Landakoti Guðni Einarsson. Hann kom frá Haga í Holtum í Rangárvallasýslu og hafði haft nokkurra mánaða búsetu í Reykjavík, áður en hann fluttist að Landakoti. Árið 1928 kvæntist hann Guðríði Andrésdóttur, er alin var upp á Þórustöðum á Vatnsleysuströnd og hafði aldrei þaðan farið. Þau bjuggu allan sinn búskap í Landakoti. Síðan 1958 hafa búið í Landakoti tveir synir Guðna, fyrst Eyjólfur, síðan Jón, sem enn hefur ábúð á jörðinni, þegar þetta er ritað (1977).

Landakot

Landakot með yfirlögðu túnakorti frá 1919.

Brunnurinn, sem notaður var, er út undan tjörninni, rétt norðan sjávargötunnar. Sá brunnur er a. m. k. 50 ára, byrgður, og vatn leitt úr honum í íbúðarhúsið um 80-100 m veg. Vitum við ekki, hvort þar kann að hafa verið eldri brunnur endurbyggður, þegar vatn var leitt í bæinn.
Útræði hefur alltaf verið gott frá Landakoti. Þrjár varir hafa verið þar, Suðurvör, Miðvör og Norðurvör, og er Miðvörin enn notuð. Lendingarskilyrði eru þarna góð frá náttúrunnar hendi og gott smábátalægi á sundinu fyrir utan varirnar. Þar má leggja stærri trillum. Innsigling er þægileg. Tvö sundmerki eru, sundvarða á sjávargarðinum norðan til og önnur á hól í heiðinni, skammt frá þjóðveginum eldri. Á báðar að bera saman og í miðjan Keili, þegar inn er siglt. Á sjávarkambinum ofan við varirnar voru þau mannvirki, sem þurfti til árabátaútgerðar fyrri tíma. Þar var naust, skiparétt, hjallur og söltunarhús. Hjallurinn var áfastur við söltunarhúsið og sneri dyrum til sjávar. Á lofti yfir báðum var veiðarfærageymsla.
Handsnúið spil var norðan við hjallinn og bátar settir á hvalbeinum eins hátt upp í uppsátrið og þurfa þótti til að verja þá sjógangi. Milli Miðvarar og Norðurvarar var lág klöpp, kölluð Hausaklöpp. Þar var gert að og hertir þorskhausar. Slorfor var gryfja lítið eitt ofan við uppsátrið. Þangað fór slorið á vertíðinni, en síðan í áburð á túnið. Fé var beitt í fjöru. Flæðihætta er, og var rekið upp úr fjörunni fyrir aðfallið.

Landakot

Landakot – túngarður.

Gísli Sigurðsson skráði örnefni í Landakoti: “Landakot stóð í Landakotstúni, og var það umgirt görðum þeim, sem nefndir verða í sambandi við landamerki milli Landakots og jarðanna Auðna að sunnan og Þórukots að innan. Ekki mun hafa verið tvíbýli í Landakoti, en vitað er um tvö býli eða þurrabúðir í túninu. Neðan við Landakotsbæinn eru tætur eftir býlið Götu og niður við sjó var býlið Lönd”.

Í “Mannlífi og mannvirki á Vatnsleysuströnd” eftir Guðmund Björgvin Jónsson árið 1987 segir um landakot:
“Landakot var eitt af höfuðbólum Vatnsleysustrandarhrepps í heila öld, allt frá 1830 til 1930. Þar bjó Guðmundur Brandsson, f. í Kirkjuvogi í Höfnum 21. okt 1814, sonur Brands Guðmundssonar hreppsstjóra þar. Kona Guðmundar Brandssonar var Margrét Egilsdóttir frá Móakoti.
Guðmudur GuðmundssonGuðmundur, sonur Guðmundar í Landakoti, var sómi sinnar sveitar og hjá honum sat ráðdeild og hagsýni í fyrirrúmi. Hann rak útgerð, þótt lírið færi hann sjálfur á sjó. Landakotsbóndi var söngmaður mikill og fyrsti organisti í Kálfatjarnarkirkju eftir að þar kom orgel árið 1876, og hafði Guðmundur það starf í um 40 ár. Hann sá um smíði þeirrar kirkju er nú stendur að Kálfatjörn. Einnig byggði hann nýtt íbúðarhús í Landakoti um 1883-4 á líkum tíma og aðrir hér í hreppi byggðu úr James-Town strandinu í Höfnum.

Guðmundur lést árið 1920 og var Landakot selt árið 1921 Sveini Pálssyni og konu hans, Önnu Guðmundsdóttur. Hann byrjaði á því að rífa Landakotshúsið og byggja nýtt steinhús, það sem stendur í dag. Smiður var Geir, bróðir Sveins, byggingameistari í Reykjavík. Sveinn hafði aðeins kúabúskap. Hvað sem því réði, þá seldi Sveinn hús og jörð og flutti aftur til Reykjavíkur árið 1927. Þá voru “kreppuárin” farin að gera vart við sig og þrengja að bændum og hefur Sveinn ekki þótt fýsilegt að halda áfram búskap.

LandakotKaupandi af Sveini var Guðni Einarsson og kona hans, Guðfinna Loftsdóttir. Þegar Guðni kom að Landakoti hafði Guðfinna látist. Hann tók fljótlega viðs tjórn kirkjukórs Kálfatjarnarkirkju og var oranisti þar uns sonur hans, Jón, tók við. Guðni lést 1970.
Við Landakoti tók Jón, sonur Guðna, og kona hans Jóhanna Bára Jóhannesdóttir.

Gata var tómthús milli Landakots og Þórustaða í landakotslandi. Um 1882 bjuggu í Götu hjónin Jón Teitsson og kona hans, Vilborg. Eftir veru Jóns og Vilborgar í Götu, komu þangað Sigurður Þorláksson, f. 1849, og kona hans, Þuríður Þorbergsdóttir, f. 1855. Ekki er mér kunnugt um fleira fólk í Götu og mun bærinn hafa aflagst nokkru eftir aldamótin.”

Heimildir:
-Aðalskráning fornleifa í Sveitarfélaginu Vogum – Áfangaskýrsla I, 2011.
-Mannlíf og mannvirki á Vatnsleysuströnd, Guðmundur Björgvin Jónsson 1987.
-Margrét Guðnadóttir Eyjólfur Guðnason, Rofabæ 29, Reykjavík.

Landakot

Landakot – tóftir Götu.

Auðnar

Í “Mannlífi og mannvirki í Vatnsleysustrandarhreppi“, riti Guðmundar Björgvins Jónssonar frá árinu 1987, er m.a. fjallað um “Vindmylluhúsið” við Auðna.

Stefán Sigurfinsson.

Stefán Sigurfinsson.

“Stefán Sigurfinnsson á Auðnum, stofnaði ásamt fleirum, samtök meðal hreppsbúa sem byggðu rammgerða vindmyllu 1918-19. Skyldi hún mala þurrkuð bein úr sjávarafurðum til skepnufóðurs. Stendur þetta sérkennilega hús enn, þ.e. steyptir veggirnir sem ég tel að Stefán hafi byggt. Ég þykist þekkja handbrögðin og byggingarefnið af öðru sem ég hef skoðað frá þessum tíma. Myndi þessi bygging sóma sér vel se, vendaður minjagripur og efa ég að annarsstaðar á landinu hafi verið reist beinamylla, þó hér í landi hafi verið kornmyllur fyrr á árum. Beinamylla stót stutt ig var aflögð 1920-21. Tvennt kom þar til, fyrst það að hún malaði of gróft og annað hitt að bilun var alltíð og því dýrt vioðhald. Þórarinn í Höfða var starfsmaður við myllunar er þess þurfti með og vindar blésu mátulega.
Stefán var maður hugsóna og athafna, varð fljótt í miklu áliti hjá hreppsbúum og frammármaður í mörgum héraðsmálum. Hann hóf fyrstu manna trillubátaútgerð hér í hreppi og átti tvo í senn, var sjálfur með annan en Þórarinn í Höfða með hinn.”

Heimild:
-Mannlíf og mannvirki í Vatnsleysustrandarhreppi. Guðmundur Björgvin Jónsson, 1987.

Auðnir

Vindmylluhúsið voð Auðnar 2023.

Guðmundur Björgvin Jónsson

Í bók Guðmundar Björgvins Jónssonar frá Brekku, “Mannlíf og Mannvirki í Vatnsleysustrandarhreppi“, útg. 1987, segir bæði frá hreppamörkunum sem og misskiptu mannlífinu fyrrum:

Skógfellastígur

Merkin við “gömlu götuna” millum Voga og Grindavíkur. Skv. landamerkjalýsingunni voru mörkin miklu mun norðaustar en nú er sýnt á kortum.

“Hreppurinn nær frá miðjum Vogastapa og byggðin með sjávarströndinni að jafnaði hvergi fjær sjá en 1 km þar til hún endar við Hvassahraun, en hreppamörk eru hin sömu og fyrrnefnd sýslumörk við Markaklett. Austan Hvassahrauns er Hvassahraunsbót og eystra nesið heitir Hraunsnes, en það vestara Stekkjarnes. Við Hraunsnes er Markaklettur.
Eins og áður segir eru sýslur beggja vegna línunnar frá Markakletti að Markhelluhól. Þar um er framhald sýslumarka til vinstri en hreppamörk til hægri og stefna þau vestan við Trölladyngju. Er þá Grindavíkurland vinstra megin og Vatnsleysustrandarland hægra megin, en við Trölladyngju og austurkant Höskuldarvalla eru óviss mörk. Á þessu svæði beygir línan beint vestur að Lilta-Keili, síðan lítið eitt til vinstri í Hagafell, þaðan aftur til hægri í Kálffell og enn til vinstri að Litla-Skógfelli í stóran klett, sem stendur við gamla götuslóð þar er sést vel enn. Þessar bugðóttu línur hreppamarkanna eru umdeildar.

Arnarklettur

Arnarklettur.

Frá Litla-Skógfelli er farið í norður beina línu í Arnarklett, sem stendur nálægt hraunjarðrinum austur af Seltjörn. Við klettinn mætast þrír hreppar. Síðasti áfanginn er frá Arnarkletti í sjó fram að vesturþúfu við Innri-Skor í Voga-Stapa. Þarna eru einni umdeild mörk, ein landlýsingin segir í miðja Skor, sem er mjög ónákvæmt.
Þar með er lokið landleiðinni um hreppamörkin en sjávarmegin lemja bárur Stakksfjarðar landið allt, að markakletti austan Hvassahrauns.
Þegar um er að ræða býli og búendur allt fram á annan og þriðja tug þessarar aldar [þeirrar síðustu], kemur í ljós að stéttarskipting var sérstaklega áberandi, sér í lagi þegar illa áraði og veiðivon í sjó og veðurfar í landi brást þeim er byggði afkomu sína á sávarafla og landbúnaði. Þá urðu þeir er minna máttu sín, að gera sér að góðu að heyra í og horfa á þá ríku. Vil ég hér nefna flokka:

Steinsholt

Steinsholt í Vansleysustrandarhreppi – dæmi um kotbýli.

1) Bændur á lögbýlum, er stunduðu bæði landbúnað og sjávarútveg, höfðu kaupafólk, vermenn og leiguliða þar sem landrými var umtalsvert.
2) Grasbýlingar, sem bjuggu í hjáleigum eða húsum á lögbýlisjörð, höfðu gransnyt án beitilandsréttar.
3) Tómthúsmenn, er höfðu efni á málnytu þ.e. ekkert grasland til að fæða kind eða kú og urðu því að vinna fyrir öllum nauðþurftum hjá öðrum og greiða leigu til landleiganda þess er hús þeirra stóðu á. Í mesta lagi gátu tómthúsmenn (kotungar) útbúð kálgarð, en þó aðeins með leyfi landeiganda.

Stapi

Brekka undir Stapa – dæmi um dugmikla Grasbýlinga.

4) Vinnufólk, húsfólk eða húshjón, bæði konur og karlar, sem var kaupafólk, ýmist árstíðarbudnið eða ársráðið. Þeir sem þóttu duglegir og voru eftirsóttir gátu unnið sig upp og orðið sjálfstæðir eignamenn.
5) Þeir aumustu sem ekki gátu uppfyllt kröfur þær sem til þeirra voru gerðar og áttu oft ekki annan kost en að verða þurfamenn eða niðursetningar”.

Af framangreindri lýsingu Guðmundar Björgvins á aðbúnaði fólks á síðari hluta 19. aldar og í byrjun þeirrar 20. virðist lítið hafa breyst – ef horft er til nútíðar…

Heimild:
-Mannlíf og mannvirki í Vatnsleysustrandarhreppi, Guðmundur Björgvin Jónsson, 1987.

Stapi

Stapi – uppdráttur ÓSÁ.

Þórusel

Í “Aðalskráningu fornleifa í Sveitarfélaginu Vogum – Áfangaskýrsla I” árið 2011 er getið um Steinsholt, kot milli Vogastapa og Voga. Kot þetta var ekki langlíft, einungis í ábúð um fimm ára skeið. Eftirstandandi minjarnar segja þó sögu:

Steinsholt

Steinsholt.

“Hóll er á Kristjánstanga sem heitir Guðnýjarhóll þar eru skemmtanir stundum haldnar. Norðan við Kristjánstangann heitir Síki, þetta er rás úr tjörn sem er þar fyrir ofan. Þar upp af tanganum er svo upp undir vegi holt með rústum á, þarna var býli sem hét Steinsholt, svo er þar hóll með rústum sem heitir Sandhóll”, segir í örnefnaskrá (AG).
“Innan Kristjánstanga er Síkið og liggja úr því Síkisrennan og Síkisrásin norðar, sem einnig nefnast Rennan og Rásin, [svo] Þá er Steinsholt og Steinsholtstún sem verið hefur heldur smátt í sniðum.” segir í örnefnaskrá (GS). Steinsholt var byggt 1874 sem tómthús en hefur verið í eyði frá 1879. Sex tóftir og eitt gerði eru á svæðinu. Gerðið og tóftirnar eru í þýfðu graslendi 10-20 m vestan við Gamla-Keflavíkurveg. Síkistjörn er norðan við, á milli og uppi á Steinsholti, tveimur 1,5-2 m háum hæðum grónum grasi og mosa.

Steinsholt

Steinsholt – bæjarstæðið.

Getið um minjastaðinn í bók Guðmundar Björgvins Jónssonar um “Mannlíf og mannvirki í hreppnum“. Þar segir: “Guðmundur Magnússon, koparsmiður, f. um 1834, og kona hans, Ástríður Guðmundsdóttir […] byggðu sér tómthús um 1874 er þau nefndu Steinsholt. Var það á milli Vogabyggðar og Vogastapa í landi Stóru-Voga. Landið fyrir neðan Steinsholt, eða sjávarmegin, heitir Kristjánstangi og var þar útgerð, enda landtaka góð. Á miðri nítjándu öld lagðist sá útgerðarstaður niður. […] Eins og áður segir byggðu þau í Steinsholti, þar sem enn má sjá klapparskoru, sem Guðmundur refti yfir og notaði fyrir eldsmiðju. Þrátt fyrir haga hönd voru hjónin bláfáttæk og bjuggu við lélegan húsakost. Í Steinsholti lést Guðmundur 29. mars árið 1879.”

Steinsholt

Steinsholt – útihús.

Á þessum stað eru 6 tóftir; torf- og grjóthlaðið gerði, tóft í SV horni gerðisins, tóft fast NNA við NNA-enda gerðisins, tóft um 45 m SA, tóft fast SV við Gamla-Keflavíkurveg (samkvæmt Guðrúnu L. Magnúsdóttur var þarna íbúðarhúsið í Steinsholti) og tóft vestan í Steinsholti og var hún smiðjan í Steinsholti samkvæmt “Mannlíf og Mannvirki í Vatnsleysustrandarhreppi”.

Steinsholt

Steinsholt – smiðja.

Í bókinni “Mannlíf og mannvirki í Vatnsleysustrandarhreppi”, skrifuð af Guðmundi Björgvin Jónssyni og útgefin 1987 segir:
“Guðmundur Magnússon koparsmiður, f: um 1834, og kona hans, Ástríður Guðmundsdóttir, f. 17. júlí 1836 í Reykjavík, byggðu sér tómthús um 1874 er þau nefndu Steinsholt. Guðmundur var frá Reynivöllum í KJósarsýslu og bjó um 1856 í Garðhúsum í Vogum er var í eigu Stóru-Voga. Hann hafði í fyrstu ráðskonu er hann svo kvæntist. Árið 1958 voru þau húshjón í Stóru-Vogum og árið 1859 voru þau komin í Hólmabúðir. Árið 1870 fóru þau aftur að Stóru-Vogum uns þau fluttu að Steinsholti 1874. Enn má sjá þar klapparskoru, sem Guðmundur refti yfir og notaði sem eldsmiðju.

Steinsholt

Steinsholt – matjurtargarður.

Þrátt fyrir haga hönd voru hjónin sögð bláfátæk og bjuggu við lélegan húsakost. Í Steinsholti lést Guðmundur 29. mars 1879, og þar með lagðist sá bær í eyði.
Fyrir norðan og neðan Steinsholts, í sandfjörunni, sést í skipsstefni upp úr sandinum. Þar var skipsskaði í sept. 1904, er seglskip slitnaði upp á Vogavík og rak upp í fjöru án manntjóns. Skipið var Mandal í Noregi og var með timburfarm, er fara átti til Jóhannesar Reykdals í Hafnarfirði. Hét skip þetta Fjallkonan. Mörg hús í hreppnum voru byggð úr þessu strandgóssi.

Þórusel

Þórusel.

Í “Aðalskráning fornleifa í Sveitarfélaginu Vogum” 2011 er getið um “Vogasel” millum Gamla-Keflavíkurvegarins og Reykjanesbrautar, heldur þó nær brautinni. Ekki er getið hver heimild um “Vogasel” er á þessum stað. Vogasel; Gömlu-Vogasel og Nýju-Vogasel, eru hins vegar uppi í Vogaheiði, sunnan Brunnastaðasels. Hins vegar er í heimildum getið um “Þórusel” þar sem “Vogasel” er sagt vera.

Þórusel

Þórusel.

Lýsing á Þóruseli, sem var heimasel þar sem einu mannvirkin voru stekkur og hlaðið skjól, passar við lýsinguna: “Þá liggur þjóðvegurinn yfir Síkistjörn þar fyrir sunnan hækkar landið nokkuð og eru þar þrír hólar með hundaþúfum á heita Víkurhólar og Víkurhólaþúfur. Austan og ofan þessa svæðis er svo Leirdalur og syðst í honum Vogasel í Selhólum sem eru hér og lægð þar í milli. Sézt þetta vel af Reykjanesbraut,” segir í örnefnaskrá.
Í heimaseli hélt smali fé sínu til haga, en selsmatsseljan kom í selið að morgni og fór heim að kveldi, enda skamma leið að fara. Svæðið í kringum Þórusel er vel grasi gróið, sem bendir til selstöðu. Stekkurinn gefur til kynna að í selinu hafi verið u.þ.b. 20 ær. Slík fjölg hefur þótt góð í seli fyrrum. Ofan við stekkinn er hlaðið skjól, líklega smalaskjól.
Þórusel er að öllum líkindum heimanfærð selstaða eftir að aldagamlar selstöður í heiðinni lögðust af um 1870. Að þeim gegnum færðust fráfærur nær bæjum vegna mannfæðar og breyttra búskaparhátta. Yngstu minjar selsbúskapsins má finna í stekkjum heimatúnanna, jafnan í jaðri túngarðsins.

Þórusel

Þórusel – uppdráttur.

Leirdalur heitir sunnan við syðstu hús í Vogum. Sunnan hans er gróin hraunbreiða og margir sprungnir hraunhólar með hundaþúfum. Á einum þessara hóla, um 100 m neðan Reykjanesbrautar og um 1,4 km SA af Stóru-Vogum, eru umtalsverðar hleðslur og gætu verið rústir Vogasels. Hraunhóllinn er krosssprunginn og gróinn, og talsvert af birkihríslum í sprungunni sjálfri. Umhverfis hann er gróið hraun. Hleðslurnar eru á hólnum, í krosssprungunni sem er nokkuð breið. Hleðslurnar eru úr grjóti, nokkuð signar og víða grónar í svörð. Hæð þeirra er þó mest um 1,2 m og þrjú umför nyrst á hólnum, en þar er að hluta hlaðið ofan á sprungu- eða gjárvegginn. Annarstaðar eru hleðslur mun lægri. Rústirnar eru á svæði sem er um 30×25 m.”

Þórusel

Þórusel.

Í bók Sesselju G. Guðmundsdóttur, “Örnefni og gönguleiðir í Vatnsleysustrandarhreppi“, útg. 2007 segir m.a. um Þórusel:
“Heimildir úr Brunnastaðahverfi segja Þórusel vera á sléttlendinu suður og upp af Gíslaborg og innan við Vogaafleggjarann en ólíklegt hefur verið sel þar. Heimildir frá Vogamönnum segja Þórusel hafa verið ofan við Reykjanesbraut en eðan Hrafnagjár og þær verða látnar gilda hér þó svo að einnig sé ósennilegt að þar hafi verið selstaða”.

Vogasel

Nýju-Vogasel – uppdráttur ÓSÁ.

Annars staðar segir: “Nokkurn spöl vestan við Viðaukahólana fyrrnefndu sjáum við nokkuð stórt slétt svæði sem áður fyrr hefur verið grasi vaxið ofan við vegamótin í Voga og gæti heitið Þórusel. Nafnið Þórusel kannast flestir eldri menn við en erfitt er að staðsetja það eftir heimildum. Vogamenn segja umrætt svæði líklega heita Þórusel en Strandarmenn segja svæðið neðan Reykjanesbrautar og rétt austan við Vigaafleggjara heita Þórusel eins og fyrr er getið. Víst er að Þóru nafnið er ur Vogum því gamlar sagnir eru til um Þórusker við Voga en á því átti að standa höfuðból og þar “átján hurðir á hjörum”. Engar rústir eru sjáanlegar á fyrrnefndu svæði þó grannt sé leitað en við tökum gildar heimildir úr Vogum um Þórusel á þessum stað þó svo að ólíklega hafi verið selstaða svo nærri byggð”.

Vogasel

Vogasel eldri.

Í bók Sesselju segir um Vogasel: “Utan í Vogaholti að norðaustanverðu er Gamla-Vogasel eða Gömlu-Vogasel.
Þar sjáum við þrjár gamalgrónar tóftir og eina nýlegri rétt fyrir ofan uppblásna kvos sem heitir Vogaselsdalur. Í Jarðabókinni 1703 segir að þarna hafi Stóru- og Minni-Vogar í seli”.
Í “Strönd og Vogar segir Árni Óla um “selstöður í heiðinni”: “Gamla-Vogasel er austast í svonefndu Vogaholti. Þar eru greinilegar seltóftir og nokkuð stórt seltún, en vatn mun þar ekki vera”.
Seltóftir “Nýja-Vogasels” hafa enn ekki verið skráðar – sjá Ferlir.is; – Nýjasel – Pétursborg – Oddshellir – Vogasel – Ferlir

Heimildir:
-Aðalskráning fornleifa í Sveitarfélaginu Vogum – Áfangaskýrsla I, 2011.
-Mannlíf og mannvirki í Vatnsleysustrandarhreppi, Guðmundur Björgvin Jónsson 1987.
-Örnefnaskrá fyrir Voga – Gísli Sigurðsson.
-Örnefnaskrá fyrir Voga – Ari Gíslason.
-Örnefni og gönguleiðir í Vatnsleysustrandarhreppi, Sesselja G. Guðmundsdóttir, 2007.
-Strönd og Vogar, Árni Óla, 1961.

Vogasel

Vogasel yngri.

Bergsstaðir

Bergskot, einnig nefnt Auðnakot, á Vatnsleysuströnd getur í dag varla talist minnugt mörgum. Í “Aðalskráningu fornleifa í Sveitarfélaginu Vogum – Áfangaskýrsla I” árið 2011 er m.a. fjallað um kotið.

Bergskot

Bergskot – túnakort 1919.

“Bærinn var hlaðinn út torfi og grjóti og kringum hann voru grjótgarðar,” segir í örnefnaskrá. Bergskot er um 200 m suðaustan við bæjarhól Auðna. Í bókinni Mannlíf og mannvirki segir að Þórarinn Einarsson og Guðrún Þorvaldsdóttir hafi búið í Bergskoti til 1925 en þau eignuðust líka Höfða og sameinuðu jarðirnar. Líklega hefur verið hætt að búa í bænum 1925. Tengdasonur Þórarins byggði nýtt íbúðarhús um 30 m suðvestan við gamla bæinn og kallaði það Bergsstaði. Gamla Bergskotsjörðin fylgdi þó ekki húsinu.

Bergskot

Bergskot – tóttir. Bergsstaðir fjær.

Tóft bæjarins er í grösugu og tiltölulega flatlendu túni. Bergsstaðir, íbúðarhús, er fast vestan við bæjarhólinn. Ekki er að sjá greinilegan bæjarhól en umtalsverðar byggingar eru á bæjarstæðinu. Stór og greinileg bæjartóft sést á hólnum (Bergkotshól). Tóftin er um 14×14 m að stærð og skiptist í 3 hólf. Hún er grjóthlaðin og gróin.

Bergskot

Bergkotsbrunnur.

Bergkotsbrunnur var austan við bæinn. Brunnur þessi var hlaðinn innan, og var hann tæp mannhæð á dýpt. Vatn úr honum var notað handa skepnum og einnig til þvotta, en óhæft til drykkjar, svo sækja var neyzluvatn á næsta bæ, Landakot,” segir í örnefnaskrá.

“Bærinn var hlaðinn út torfi og grjóti og kringum hann voru grjótgarðar. … Túnið fyrir sunnan bæinn var nefnt Suðurtún. Það nær að Höfðatúni. Grjótgarðar skýldu túninu að, en grjótgarðslögin sjást enn að mestu leyti og skilja túnið frá óræktuðum móum og klöppum,” segir í örnefnaskrá. Túngarðurinn sést enn á stuttum kafla.

Bergskot

Bergskot.

Gísli Sigurðsson skráði örnefni í Auðnahverfi. Þar segir m.a.: “Innströnd byrjar við syðri landamerki Breiðagerðis. Auðnahverfi liggur þar innar. Þar eru bæirnir Auðnir, Höfði og Bergskot sem fyrrum nefndist Auðnakot og svo er eitt tómthús, Hóll.
Vestast í fjörunni er Bergskotsvör eða Bergskotslending. Milli fjöru og túna Auðnahverfis er Auðnakampur og þar á er sjávargarðurinn. Liggur hann allt inn að mörkum milli Auðnahverfis og Landakots. Við Bláklett taka við Bergskotsfjörur og þá taka við Höfðafjörur og þar er Höfðavör.
Bergskot stóð á Bergskotshól í Bergskotstúni en neðan hólsins.

Bergskot

Bergskot – útihús.

Ari Gíslason skráði örnefni fyrir Auðnar og Höfða. Þar segir: “Upp af Höfðatúni er gamalt býli sem heitir Bergskot og upp af því er Bergskotshóll með steinum eftir endilöngu og grasigrónum sprungum. Efri-Sundvarðan hefur verið nefnd fyrr og stendur hún á Þúfuhól sem er skammt austan tómthúsið Hól. Þá er talið að allt sé búið fyrir neðan veg.

Í ritinu “Mannlíf og mannvirku á Vatnsleysuströnd” frá árinu 1987 segir Guðmundur Björgvin Jónsson m.a. eftirfarandi um Bergskot: “Bergskot var einnig nefnt Borghús. Um 1900 voru í Bergskoti Árni Sæmundsson, f. 1862 og kona hans, Sigrún Ólafsdóttir, f. 1872.

Jón Guðbrandsson

Jón Guðbrandsson.

Árið 1902 flutti fjölskyldan burt úr hreppnum til Reykjavíkur en þá komu að Bergskoti Árni Þorláksson og kona hans, Helga.
Bergskot var í upphafi tómthús og áttu búendur þar ekki annarra kosta völ en að vinna hjá öðrum fyrir öllum nausynjum og var því oft stuttur stans á þessum kotum, enda var Árni Þorláksson ekki lengi í Bergskoti.
Næst komu í Bergskot Þórarinn Einarsson, 24 ára, með foreldra sína, Einar Einarsson og konu hans, Margréti Hjartardóttur. Þórarinn giftist Guðrúnu Þorvaldsdóttur frá Álftártungukoti í Álftaneshreppi. Þau voru þar til 1925. Þá voru þau búin að eignast jörðina sem þá var orðin grasbýli. Þegar Þórarinn keypti Höfða þá sameinuðust jarðirnar og er svo enn.
Þegar Jón Guðbrandsson, tengdasonur Þórarins, byggði upp Bergskot og kallaði nýja húsið Bergsstaði, þá fylgdi gamla Bergkotsjörðin ekki með”. sem fyrr sagði.

Heimildir:
-Aðalskráning fornleifa í Sveitarfélaginu Vogum – Áfangaskýrsla I, 2011.
-Mannlíf og mannvirku á Vatnsleysuströnd, Guðmundur Björgvin Jónsson, 1987.
-Örnefnalýsing Ara Gíslasonar.
-Örnefnalýsing Gísla Sigurðssonar.

Bergskot

Bergskot – túnakortið frá 1919 lagt ofan á loftmynd frá 2022.

Breiðagerði

Breiðagerði var bær á Vatnsleysutrönd. FERLIR knúði dyra á Breiðagerði 17., bústað Hólmgríms Rósenbergssonar, f: 1956 í Ormalóni á Sléttu. Gengið var í framhaldinu um bæjarstæði Breiðagerðis, en minjum á svæðinu hefur mikið verið raskað á tiltölulega skömmum tíma. T.d. hirtu starfsmenn Voga gamla bátaspilið ofan Breiðagerðisvarar og fleira í tiltekt fyrir nokkrum árum. Afraksturinn var sendur í eyðingu til Hringrásar. Hólmgrímur sagðist ekki eiga ættartengsl við staðinn, en hefði búið þarna um áratuga skeið.

Breiðagerði

Breiðagerði – Hólmgrímur Rósenbergsson við Breiðagerðisbrunninn.

Bæjarhóllinn í Breiðagerði sést enn vel. Hóllinn er allur mjög grasgefinn og vex mikið af þistlum á honum.

Í riti Guðmundar Björgvins Jónssonar (1987) um “Mannlíf og mannvirki í Vatnsleysustrandarhreppi” segir hann m.a. frá Breiðagerði: “Þríbýli var á jörðinni um aldamótin 1900 og að síðustu ábúendur fluttu af jörðinni um 1926.”
Bæjarhóllinn í Breiðagerði sést enn vel. Hann er litlu sunnan við sjávarkampinn, umkringdur nýbýlum og sumarbústöðum sem risið hafa á jörðinni á síðustu áratugum. Hóllinn er í litlu túni sem komið er í órækt. Íbúðarhús er litlu suðvestan við hann og fleiri hús eru nálægt honum til suðurs og suðausturs.
Bæjarhóllinn er um 54×30 m að stærð, snýr norðvestur-suðaustur. Hann er breiðastur í suðvesturenda. Norðausturhluti bæjarhólsins virðist vera náttúrulegur hóll en þó kunna að leynast í honum mannvistarleifar. Fast suðvestan við þann hól er steyptur húsgrunnur sem er um 5×8 m að stærð og snýr norðaustur-suðvestur. Önnur mannvirki er ekki að sjá á hólnum.

Breiðagerði

Brunnurinn í Breiðagerði.

Hóllinn er víðast um 2 m á hæð en hæstur í norðausturenda.
Hólmgrímur sagði að ætlunin hafði verið að reisa sumarhús á bæjarhólnum fyrir ca. 50 árum, þar var steyptur nefndur húsgrunnur, en ekkert meira varð úr framkvæmdunum.

Í “Aðalskráningu fornleifa í Sveitarfélaginu Vogum, Áfangaskýrsla II” frá árinu 2014 segir um sögu Breiðagerðis:
“Jarðadýrleiki er óviss, konungseign. JÁM III, 137.
9. september 1447: Bréf um jarðaskipti Einar Þorleifssonar og Steinmóðar ábóta í Viðey. Einar lét klaustrið í Viðey hafa jarðirnar, Voga (20 hdr), Hlöðunes (20 hdr), tvenna Ásláksstaði (40 hdr, Knarrarnes tvö ( 30 hdr), Breiðagerði fyrir (10 hdr). DI IV 707-708.

Breiðagerði

Breiðagerði – túnakort 1919.

13.9.1500: segir einnig að jörðin Breiðagerði á Strönd er í Kálfatjarnarkirkjusókn. DI VII, 513, 561.
30.5.1501: Viðeyjarklaustur kaupir Breiðagerði á Strönd fyrir 10 hdr. DI VII, 561.
1547-48 er jarðarinnar getið í fógetareikningum. DI XII, 115.
1584: Landskuld jarðarinnar til Viðeyjarklausturs 4 vættir fiska. Árni Óla: Strönd og vogar, 26.
1703: “Túnin spillast af sjáfarágángi og tjörn þeirri, sem innan garðs er. Engjar eru öngvar. Útihagar í lakasta máta og nær öngvir um vetur nema fjaran.” JÁM III, 137. 1919: Tún alls 2,4 teigar, garðar 1100m2.

Breiðagerði

Breiðagerði – uppfært túnakort.

Breiðagerðisbærinn stóð í Breiðagerðistúni innarlega og var túnið að mestu sunnan (vestan) bæjarins,” segir í örnefnaskrá [GS]. Í bókinni Mannlíf og mannvirki segir að þríbýli hafi verið á jörðinni um aldamótin 1900 og að síðustu ábúendur hafi flutt af jörðinni um 1926. Bæjarhóllinn í Breiðagerði sést enn vel. Hann er litlu sunnan við sjávarkampinn, umkringdur nýbýlum og sumarbústöðum sem risið hafa á jörðinni á síðustu áratugum.
Bæjarhóllinn er í litlu túni sem komið er í órækt. Íbúðarhús er litlu suðvestan við hann og fleiri hús eru nálægt honum til suðurs og suðausturs.

Breiðagerði

Breiðagerði – túnakortið frá 1919 sett ofan á nútíma loftmynd ásamt skráðum fornleifum.

Bæjarhóllinn er um 54×30 m að stærð, snýr norðvestur-suðaustur. Hann er breiðastur í suðvesturenda. Norðausturhluti bæjarhólsins virðist vera náttúrulegur hóll en þó kunna að leynast í honum mannvistarleifar. Fast suðvestan við þann hól er steyptur húsgrunnur sem er um 5×8 m að stærð og snýr norðaustur-suðvestur. Önnur mannvirki er ekki að sjá á hólnum. Hóllinn er allur mjög grasgefinn og vex mikið af þistlum á honum. Hann er víðast um 2 m á hæð en hæstur í norðausturenda.”

Ari Gíslason skráði örnefnalýsingu fyrir Auðna og Höfða:

Breiðagerði

Breiðagerði – útihús.

“Jarðir á Vatnsleysuströnd næstar við Knarrarnes. Upplýsingar gaf Þórarinn Einarsson á Höfða. Þess er þá fyrst að geta að 1703 og bæði fyr og síðar var jörð sem Breiðagerði hét næst við Knarrarnes og eftir landskuld að dæma hefur það verið með stærri býlum hér á þessum slóðum. Breiðagerði hafði þá sín sérstöku merki, þar var þríbýli og eins mikið land eða meira en Höfðinn og Auðnir til samans. Víkin sem hér er á milli, heitir enn Breiðagerðisvík.”

Gísli Sigurðson skráði örnefnu Breiðagerðis og nágrennis:

Breiðagerði

Breiðagerðisvör – bryggja ofan vararinnar.

“Breiðagerðisbærinn stóð í Breiðagerðistúni, innarlega, og var túnið að mestu sunnan (vestan) bæjarins. Breiðagerðisbrunnur var sunnan bæjar. Heiman frá bæ lá sjávarstígurinn niður á kampinn. Breiðagerðisgata lá frá bæ upp á þjóðveginn. Á kampinum stóð Sundvarða, Neðri-). Á mörkunum milli Breiðagerðis og Auðnahverfis var Þúfuhóllinn og litlu ofar Sundvarðan, Efri-). Að sunnan lá landamerkjalínan um Geldingahólinn, Nyrðri-.

Litlistekkur

Litlistekkur.

Þar var í heiðinni Litlistekkur og Breiðagerðisskjólgarður, þar var einnig klettur nefndur Latur eða Breiðagerðislatur. Að innan lá landamerkjalínan upp frá Þúfuhól um Markavörður upp heiðina í Auðnaklofninga. Tók þá við Hrafnagjá sem lítið bar á er þarna var komið. Lína lá svo áfram upp yfir Klifgjá um Gjárnar. Þarna er að finna Breiðagerðissel. Síðan eru í landi Breiðagerðis Keilisbróðir, Nyrðri- og Litli-Hrútur og eru því Brúnir og Fjallið að einhverju leyti í landinu.”

Breiðagerðissel - Auðnasel

Auðnasel og Breiðagerðissel – uppdráttur ÓSÁ.

Í skýrslu um “Deiliskráningu vegna áforma um byggingu frístundabyggðar í landi Breiðagerðis á Vatnsleysuströnd” árið 2022 segir m.a.:
1703: Jarðadýrleiki er óviss, konungseign. JÁM III, bls. 137.
09.09.1447: Bréf um jarðaskipti Einar Þorleifssonar og Steinmóðar ábóta í Viðey. Einar lét klaustrið í Viðey hafa jarðirnar, Voga (20 hdr), Hlöðunes (20 hdr), tvenna Ásláksstaði (40 hdr, Knarrarnes tvö ( 30 hdr), Breiðagerði fyrir (10 hdr). DI IV, bls. 707-708.
13.9.1500: segir einnig að jörðin Breiðagerði á Strönd er í Kálfatjarnarkirkjusókn. DI VII, bls. 513, 561.
30.5.1501: Viðeyjarklaustur kaupir Breiðagerði á Strönd fyrir 10 hdr. DI VII, bls. 561.
1547-48 er jarðarinnar getið í fógetareikningum. DI XII, bls. 115.
1584: Landskuld jarðarinnar til Viðeyjarklausturs 4 vættir fiska. Árni Óla, bls. 26.

Breiðagerði

Breiðagerðisvör.

Jörðin hefur verið í eyði frá 1926 og liggur undir Auðnum. Þar var þríbýli um aldamótin 1900.
Neðan Vatnsleysustrandarvegar í landi Breiðagerðis er húsaþyrping þar sem aðallega eru sumarbústaðir en einnig íbúðarhúsnæði.
1919: Tún alls 2,4 teigar, garðar 1100 m2.
1703: „Túnin spillast af sjáfarágángi og tjörn þeirri, sem innan garðs er. Engjar eru öngvar. Útihagar í lakasta máta og nær öngvir um vetur nema fjaran.“ JÁM III, bls. 137.

Breiðagerði

Breiðagerði 2022 – loftmynd.

Í “Mannlífi og mannvirki í Vatnsleysustrandarhreppi eftir Guðmund Björgvin Jónsson (1987) segir um Breiðagerði:
“Nú er komið yfir landamerki á milli Knarrarnesbæjan og Auðnahverfis. verður þá fyrst fyrir jörðin Breiðagerði og láta mun nærri að þar hafi verið þríbýli um aldamótin. Í Breiðagerði bjuggu hjónin Sveinn Sæmundsson, bóndi, f: 1861 og kona hans Elín Sæmundsdóttir, f: 1860. þau voru síðustu búendur í Breiðagerði og fluttu til hafnarfjarðar um 1926 og bjuggu þar til æviloka. Þau áttu tvö börn, Guðrúnu, sem bjó í Sandgerði og Sesselju. Man ég þau hjón vel og þáði oft góðgerðir hjá þeim, enda nokkur gestanauð á heimilinu, því öllum þurfti aað gefa kaffisopa er þangað áttu erindi, sér í lagi þeim sem langt voru að komnir. Eitt lítið minningarbrot læt ég fylgja hér með. Þannig var að Sveinn átti “þarfanaut” og þegar bændur úr sveitinni fóru með gripi sína að Breiðagerði, þá þurfti að “reka á eftir” og höfðu ég og mínir jafnaldrar það embætti og uppskárum rúgköku með bræðingi ofaná hjá Elínu.

Breiðagerði

Breiðagerði – sundvarðan Neðri.

Þurrabúð 1. Þar bjuggu Hafliði Hallsson, f: 1862 og kona hans, Guðríður Torfadóttir, f: 1867.
Þurrabúð 2. Þar bjuggu Sumarliði Matthíasson, f: 1841 og kona hans, Þorbjörg Ólafsdóttir, f. 1847. Breiðagerði tiheyrir nú Auðnalandi og meirihluti af Breiðagerðislandi hefur nú verið látinn undir sumarbústaði.”

A sögn Hólmgríms var hlaðinn brunnur skammt norðar. Brunnurinn var grjóthlaðinn í lægð í túninu. Hann hefði byrgt brunninn fyrir um 40 árum með bárujárni og er það enn á sínum stað til að koma í veg fyrir slys. Áður var hlaðinn aflíðandi gangur niður að brunninum og hann hlaðinn niður, en nú sést ekki ofan í brunninn. Enn sést móta fyrir brunnganginum.

Breiðagerði

Breiðagerði – Sundvarðan Efri.

“Breiðagerðisnaust var upp frá fjörunni var allt eins kenndur við bæinn, Breiðagerðiskampur. Á honum var innarlega Breiðagerðisnaust og Breiðagerðisbúð og fram undan var svo Breiðagerðisvör, sem allt eins var nefnd Breiðagerðislending …,” segir í örnefnaskrá.
Naustið var að líkindum þar sem merking er á túnakorti frá 1919 að mannvirki hafi verið á varnargarði/túngarði, um 120 m norðaustan við bæ. Við deiliskráningu árið 2016, sem unnin var vegna fyrirhugaðra sjóvarna í Breiðagerðisvík, fundust leifar af varnargarðinum á tveimur stöðum til viðbótar.
Breiðagerðisnaust var í lítilli vík á milli klappar á merkjum móti Auðnum og lítillar klappar til vesturs. Fjaran þar á milli er grýtt klapparfjara. Á sjávarkampinum er gróið en grýtt.

Heimildir:
-Aðalskráning fornleifa í Sveitarfélaginu Vogum, Áfangaskýrsla II – 2014.
-Breiðagerði á Vatnsleysuströnd, Deiliskráning vegna áforma um byggingu frístundabyggðar – 2022.
-Mannlíf og mannvirki í Vatnsleysustrandarhreppi. Guðmundur Björgvin Jónsson, 1987.

Breiðagerði

Breiðagerði – gamli vagnvegurinn (Almenningsvegurinn) að Knarrarnesi. Í fornleifaskráningu frá 2022 er vegagerðin skráð sem “garður”!?

Hringurinn

Gengið var í meginminjarnar á Strandarhæð milli Þórustaðaborgar og Hringsins (fjárborg).

Prestsvarða

Prestsvarða.

Haldið var upp frá Prestvörðunni ofan við Kálfatjörn með stefnu á Skálholt. Skálholt er flatt og breitt holt ofan við Landakot skamt ofan Strandarvegar. Á holtinu er leifar að þremur vörðum og leifar að litlu grjótbygri með vörðu í. Skammt vestur af Skálholti (ofan við veginn) er fjárhústóft á grónum hól. Skammt ofan við Skálholt er beinhlaðin hleðsla, skjól fyrir refaskyttu. Neðan hennar liggur símastrengurinn til vesturs og austurs. Víða í heiðinni má sjá hlaðið yfir strenginn.

Upp og suður af Skálholti er Auðnaborg í grasmóa sunnan í grösugum hól. Þetta er nokkuð heillegt rétt með stórum almenningi efst og tveimur dilkum, en uppi á hólnum við réttina eru tvær rústir. Einnig mótar fyrir litlum stekk neðan og vestan við borgina, en engar heimildir eru um nafn hans. Leiðigarður er í borgina úr norðvestri. Erfitt er að mynda alla réttina vegna þess hversu “flatlend” hún er. Gömul gata virðist ligga upp með réttinni að vestanverðu.

Auðnaborg

Auðnaborg.

Þá var stefnan tekin á grösugan hól nokkru suðvestar. Holtið þar nefnist Borg. Á holtinu eru rústir af beitarhúsum, tvær tóftir hlið við hlið. Litlu neðar í holtinu er greinilega nýrri fjárhústóft. Vatnsstæði í klöpp, sem vera á ofan og austan við efri rústina var þurrt að þessu sinni.
Í fjarska vestur af blasir við hár aflangur hóll, Arnarbæli. Í suðri er annar reglulegur grsahóll, Lynghóll. Stefnan var tekin á hann. Norðan við hólinn er nokkuð sléttlent. Á sléttunni er gömul fjárborg (hér nefnd Lynghólsborg) með leiðigarði til suðurs. Borgin er upp á litlum hrygg og er sýnilegust úr vestri.

Kúadalur

Stekkur (rétt) í Kúadal.

Ofan sléttlendisins austan af Lynghól er stór hlaðinn grjóthringur uppi á klapparhól og er hann um átta metra í þvermál. Innan í honum er sléttur bali. Vegghæðin er mjög lítil og svo virðist sem þarna hafi átt að byggja fjárborg á stærð við Staðarborgina, en hætt hafi verið við verkið af einhverjum ástæðum.
Stefnan var tekin til norðvesturs með vestanverðu Arnarbæli. Þar, austan girðingar, hvílir Kúadalur, gösug dalkvos. Í henni er heillegur og fallega hlaðinn stekkur, tvíhólfa. Þarna er líklega um að ræða stekk frá Ásláksstöðum. Ofar í holtinu, að norðanverðu, mótar fyrir gömlum stekk eða öðrum mannvirki.

Fornistekkur

Fornistekkur.

Gengið var norður og austurmeð Arnarbæli, áleiðis að brekkum mót norðvestri þar nokkru austar. Þar uppi á holtinu er enn einn stekkurinn, Fornistekkur. Utan í brekkunni má sjá móta fyrir gömlum hleðslum, sennilega enn eldri stekk – í skjóli fyrir suðaustanáttinni.
Gengið var niður á Gamlaveg. Hann liggur frá Breiðagerði og svo til beint yfir heiðina og mætir Strandarvegi aftur nokkuð fyrir sunnan Brunnastaðahverfið. Víða er um kílómetra leið frá bæjum að veginum, sem þótti langt enda um klappir ogholt að fara, oft með þungar byrðar. Bændur hfðu þar hver sitthlið og brúsapall og á einstal astað má enn sjá merki um hlið og götu frá veginum í átt til bæja.

Almenningsvegur

Gengið um Almenningsveg.

Strandarbændur undu ekki vegarstæðinu og börðust hart fyrir vegi nær byggðinni. Árið 1930 var nýr vegur gerður og Gamlivegur lagður af með lítilli eftirsjá bænda í Ásláksstaða-, Hlöðunes, og Brunnastaðahverfi.
Á gömlum kortum er Strandarheiði eyðimörk. Það var ekki fyrr en Sesselja Guðmundsdóttir lagði það á sig að ganga heiðina og safna markvisst örnefndum og minjastöðum á henni að heiðin varð “opinberuð” fáfróðum. Áður fyrr, líkt og á svo mörgum stöðum öðrum, veit einstaka maður um merka staði og forn mannvirki á afmörkuðum svæðum, en að honum gegnum hverfur (því miður) öll sú dýrmæta vitneskja. En það er fyrir áeggjan, ósérhlífni og dugnað fárra, sem örnefnunum og vitneskju, sem enn er fyrir hendi, hefur þó verið haldið við. Hlutur þeirra hefur jafnan verið vanmetin, en verður seint ofmetin.
Í bakaleiðinni lék sólin við hafflötinn.
Veður var frábært – stilla og hiti. Gangan tók 2 klst og 22 mín.

Heimild: Örnefni og gönguleiðir í Vatnsleysustrandarhreppi, Sesselja G. Guðmundsdóttir, 1995, bls. 29 –39.

Lynghólsborg

Lynghólsborg.

Sogin

Gengið var um Lambafellsklofa og Trölladyngju.

Lambafellsklofi

Lambafellsklofi.

Lambafellsklofi er stundum nefndur Lambagjá í Lambafelli. Um er að ræða sprungu, sem myndast hefur eftir misgengi um mitt fellið. Gjáin er nokkuð há og gaman að ganga um hana. Gengið er inn í gjána að norðanverðu og síðan liggur leiðin upp á við í suðurendanum. Ofar má sjá misgengið liggja áfram í gegnum fellið til suðurs. Hraun hafa runnið allt umhverfis. Tófugras vex á gjárbörmunum. Skemmtilegast er að fara um gjána er líða fer á sumarið, en þá er hún jafnan þakin fiðrildum, sem safnast þar saman í skjólinu. Þar sem fyrir liggur lýsing um þetta svæði fer hér á eftir lýsing á því er finna má á vef Hitaveitu Suðurnesja; Fréttaveitunni:
Eftir að áhugi jókst á Trölladyngjusvæðinu, og ekki sízt eftir að tilraunaboranir hófust, hefur nokkuð borið á, að menn færi til og teygi örnefni á svæðinu, svo sem Sog, sem sumir eru búnir að færa allt niður á núverandi borsvæði. Þetta er í sjálfu sér ekki ný bóla. Má t.d. benda á, að eftir að Suðurnesjavegur var skírður Reykjanesbraut og Reykjaneskjördæmi varð jafnframt til, heitir Reykjanesskaginn Reykjanes, Reyknesingar búa allt upp í Hvalfjörð og austur í Ölfus, og orkuver Hitaveitu Suðurnesja er sagt í Svartsengi, enda þott það hafi risið í Illahrauni, sem er í nágrenni Svartsengis.

Keilir

Keilir – handan hraunsins.

Vatnsleysuströndin hefur ekki af mörgum fjöllum að státa, en þau eru þeim mun merkilegri. Þar er Keilir og þar er Vesturháls eða Trölladyngjur, einhverjar merkustu eldstöðvar hér á landi.
Guðmundur G. Bárðarson jarðfræðingur, sem manna mest hefur rannsakað Reykjanesskaga, taldi að hann mundi vera yngsti skag á Íslanda og skapaður af eldgosum. Hann telur skagann því mjög girnilegan til fróðleiks fyrir eldfjallafræðinga. Hér sé svo að segja allar gerðir eldfjalla, gíga og yngri eldmyndana, sem finnist á Íslandi. Móbergsfjöllin hafi jafnvel myndazt við eldgos.

Lambafellsgjá

Lambafellsgjá.

Og Þorvaldur Thoroddsen sagði um eldgígana hjá vestanverðum Núpshlíðarhálsi, að þær gosstöðvar væri mjög merkilegar, því að þær sýni augljóslega hvernig eldgos verða, og hvergi sjáist neitt þessu líkt á Íslandi, og þótt víðar væri leitað.
Það eru tveir brattir og langir hálsar, sem liggja samhliða um miðjan Reykjanesskaga, og eru einu nafnir nefndir Móhálsar. En til aðgreiningar voru þeir kallaðir Austurháls og Vesturháls. Nú er Austurhálsinn alltaf kallaður Sveifluháls, og sunnan að honum er Kleifarvatn og Krýsuvík.
Vesturhálsinn er eins og ey í ólgandi hraunhafi, en hefir það til síns ágætis, að hann er grösugur og víða eru þar tjarnir og lækir, en slíkt er mjög fátítt á Reykjanesskaga. Hann mun upprunalega hafa verið kallaður einu nafni Trölladyngjur, en nú heitir hann ýmsum nöfnum. Nyrzt á honum eru tvö mikil fjöll, Trölladyngja (375 m) og Grænadyngja (393 m).

Sog

Trölladyngja og Grænadyngja (t.h.) – Sogin nær.

Trölladyngja er hvass tindur og blasir við í suðri frá Reykjavík. Í kyrru veðri má þar oft sjá reyki mikla, enda er þar mikill jarðhiti, hverir margir og gufur upp úr hrauninu. Grænadyngja er aftur á móti kollótt og auðvelt að ganga á hana. Þaðan er mjög vítt útsýni. Sér vestur á Eldey og austur til Kálfstinda, en Reykjanesskaginn blasir allur við og má glögglega greina upptök hinna ýmsu hraunelfa og hvernig þær hafa ruðzt hver ofan á aðra. Fyrir sunnan Dyngjurnar er skarð í hálsinn og heitir Sog, og er þar 400-500 feta djúpt gil. Þar fyrir sunnan hækkar svo hálsinn aftur og kallast þar Grænavatnseggjar, hvass fjallshryggur. Þar fyrir sunnan heitir svo Selsvallafjall og Núpshlíðarháls og nær hann vestur í Ögmundarhraun.

Ögmundarhraun

Ögmundarhraun – loftmynd.

Flest hraunin á Reykjanesskaga hafa runnið fyrir landnámstíð. Þó geta annálar þess nokkrum sinnum, að eldur hafi verið uppi í Trölladyngjum, svo sem 1151, 1188, 1340, 1360, 1389-90 og 1510. Um gosið 1340 segir Gísli biskup Oddsson, að þá „spjó Trölladyngja úr sér allt til hafs við sjávarsveit þá, er kölluð er Selvogur”. Margir hafa dregið í efa, að þetta geti verið rétt, því að hraun úr Trölladyngju hafi ekki getað runnið niður í Selvog, þar sem há fjöll sé á milli. Þessir menn hafa rígbundið sig við örnefnin Trölladyngju og Selvog, eins og þau eru nú notuð, en gá ekki að því, að þau voru yfirgripsmeiri forðum. Þá var allur Vesturháls nefndur Trölladyngja, en „í Selvogi” mun hafa verið kölluð ströndin þaðan og vestur að Selatöngum.

Einihlíðar

Tröll í Einihlíðum norðan Lambafells.

Margir staðir hér á landi eru kenndir við tröll, og svo var einnig í Noregi. Má því vera að sum nöfnin hafi landnámsmenn flutt með sér hingað. Um uppruna nafnsins Tröllaödyngja vita menn ekkert, má vera að mönum hafi þótt „dyngjan” svo ferleg, að hún hæfði tröllum einum. Vera má og, að menn, sem aldrei höfðu séð eldgos fyrr en þeir komu hingað, hafi haldið að á eldstöðvunum byggi einhverjar vættir og fest trú á hin reykspúandi fjöll.
Landnáma getur þess um Hafurbjörn Molda-Gnúpsson (þeir námu Grindavík), að hann dreymdi að bergbúi kæmi að honum og byði að gera félag við hann, og þá Björn það.

Valahnúkar

Valahnúkar – tröll.

Bergbúar geta verið með ýmsum hætti. Sumir bergbúar voru landvættir. Það er dálítið einkennilegt, að Landnáma getur hvergi landvætta nema á Reykjanesskaga, og segir: „Það sá ófresk kona, að landvættir fylgdu Hafurbirni þá er hann fór til þings, en Þorsteini og Þórði bræðrum hans til veiða og fiski.” Því má vera, að Hafurbjörn hafi talið, að bergbúi sá, er hann gerði félag við, hafi verið landvættur og átt heima í Trölladyngju.

Snorri Sturluson segir frá því í Heimskringlu, að Haraldur Gormsson Danakonungur þóttist þurfa að hefna sín á Íslendingum vegna þess að þeir höfðu orkt um hann níðvísu á nef hvert.

Víkarskeið

Víkarskeið – gleymt örnefni við Ölfusárósa.

Sendi kóngur til Íslands fjölkunnugan mann í hvalslíki til njósna. En hann komst hvergi á land fyrir landvættum. Þegar hann ætlaði seinast að ganga á land á Víkarsskeiði, þá „kom í mót honum bergrisi og hafði járnstaf í hendi, og bar höfuðið hærra en fjöllin, og margir aðrir jötnar með honum”. Þetta voru landvættir. Bergbúinn mikli, sem fyrir þeim var, skyldi þó aldrei vera sá, sem Trölladyngja er við kennd, Hafurbjörn bónda dreymdi, og nú er í skjaldarmerki Íslands?

Keilir

Vegur að Höskuldarvöllum. Keilir fjær.

Vatnsleysubændur hafa nýlega gert akfæran veg að Trölladyngju og er hann um 10 km. Er þá fyrst komið á Höskuldarvelli, en það er einhver stærsti óbrennishólminn á Reykjanesskaga. Er þar vítt graslendi, sem nær frá Trölladyngju langt út í Afstapahraun, eða er þó öllu heldur tunga milli þess og Dyngjuhrauns.

Norður úr Trölladyngju gengur rani og úr honum hafa mestu gosin komið. Vestan í honum er röð af stórkostlegum gígum og eru tveir þeir syðstu langstærstir. Minni gígarnir eru sumir eins og glerjaðir innan og með ávölum brúnum. Aðrir eru eins og steyptir geymar eða stórkeröld úr járni. Menn ætti að fara mjög varlega hjá gígum þessum og ganga ekki tæpt út á brúnir þeirra, því limlestingar eða bani er búið hverjum þeim, sem í þá fellur.

Eldborg

Eldborg.

Norðan við Trölladyngju er stór, gamall og rauður eldgígur, sem nefnist Eldborg. Hann er um 70 fet á hæð [Eldborgin, sem á mínum skátaárum var nefnd Jónsbrenna, er nú ekki orðin svipur hjá sjón, því vegurinn, sem fyrr er getið, var einmitt lagður til að ná í hraungjall úr hlíðum hennar. (Ath.semd ritstj.)]. Milli hans og fjallsins er mikill jarðhiti og koma vatnsgufur þar víða upp, allt inn að Höskuldarvöllum og út að Sogi. Fara má norðan við fjöllin og austur fyrir þau. Blasir þá við fell skammt norðaustur í hrauninu. Kallast það Mávahlíðar. Þar eru einnig stórkostlegar gosstöðvar. Rétt fyrir neðan efsta toppinn á þeim (237 m) er stór gígur, allur sundur tættur af eldsumbrotum. Héðan hafa runnið mikil hraun, og sum eftir landnámstíð.

Fengið að láni úr bók Árna Óla, „STRÖND OG VOGAR – ÚR SÖGU EINNAR SVEITAR Í LANDNÁMI INGÓLFS ARNARSONAR”, sem Bókaútgáfa Menningarsjóðs gaf út árið 1961.

http://hs.is/frettaveitan/greinar.asp?grein=360

Eldborg

Eldborg undir Dyngju.