Færslur

Brunnastaðir

Skoðaður var nýlega fundinn letursteinn á bæ á Vatnsleysuströnd. Hann fannst nýlega þegar verið var að grafa á hlaðinu fyrir símastreng nálægt bænum.

Brunnastaðasteinninn

Brunnastaðasteinninn – 1779.

Steinninn er sæmilega stór, með áletruninni 1779 á annarri hlið og skrautletruðum stöfum (GL & ED) á hinni. Svo virðist sem steinninn hafi áður haft járnvirki yfir sér því grópað er efst í hann á fjóra vegu. Fyrsta sem heimilisfólki datt í hug eftir fundinn var að hafa samband við FERLIR. Skoðað verður nánar hverjum steinnin kann að hafa tilheyrt og af hvaða tilefni hann kann að hafa verið gerður. Ekki er ólíklegt að hann hafi verið til gjafa að sérstöku tilefni, t.d. brúðkaupi, enda vel til fundið.

Brunnastaðir

Brunnastaðir.

Fólkið á bænum er margfrótt, bæði um sögu og staðhætti. Það er í rauninni ágætt dæmi og þörf ábending um það hversu mikilvægt er að vera í góðu sambandi við fólkið í landinu, sem býr yfir reynslu og vitneskju, og leyfa því góðfúslega að miðla fróðleik til skráningar, eftirkomandi kynslóðum til gangs. Ef ekkert er að gert verður ekkert að gert, að því gengnu. Og þvílík sóun…
Þessu tiltekna fólki datt ekki einu sig í hug að fela einhverri opinberri stofnu steininn til varðveislu, enda “sóun” á góðum grip…

Brunnastaðasteinninn

Letursteinn á Brunnastöðum.

Loftsskúti

Gengið var frá gömlu (malbornu) Reykjanesbrautinni þar sem hún kemur undan nýju brautinni að sunnanverðu vestan Lónakots.

Hvassahraunssel

Hvassahraunssel.

Tekið var mið að vörðu á hól í suðri. Frá henni sést yfir að annarri vörðu á hól í suðri, ekki langt frá. Sunnan undir þeim hól er jarðfall og hlaðið fyrir skúta í því norðanverðu, Loftskútahellir. Þarna geymdu Hvassahraunsmenn m.a. skotnar rjúpur á veiðum sínum. Þarna er skjólgott, en hins vegar gæti verið erfitt að finna skútann í snjóum. Varðan á hólnum gæti bætt úr því.

Hvassahraunssel

Hvassahraunssel – tilgáta.

Þegar komið er að línuveginum sést í vörðu á hól í suðri. Ef þeirri vörðuröð er fylgt til austurs er komið á Hvassahraunsselsstíginn. Hann er vel greinilegur á köflum og liggur að Hvassahraunsseli. Háa vörðu ber við himinn á hól. Vestan við hólinn kúrir selið undir skeifulaga hraunhæð, tvær tóttir og fallegur stekkur í krika undir hraunhól. Selssvæðið er vel gróið. Háa varðan í austri er á fallegum gjábarmi.

Hvassahraunssel

Hvassahraunssel – selsvarða.

Gengið var í norðnorðvestur frá henni. Þegar komið var yfir línuveginn tekur við talsvert kjarr á hæðum og hólum. Á einum þeirra var komið að fallinni refagildru. Skammt frá henni var önnur fallinn. Líklega hefur þarna verið um að ræða refgildrur frá Lónakoti, en vörðurnar upp í Lónakotssel liggja þarna til suðausturs skammt austar. Refagildrur sem þessar hafa sést víða um Reykjanesið, s.s. Á Selatöngum, við Grindavík, á Vatnsleysustrandarheiði, ofan við Hafnir og við Húsfell ofan við Hafnarfjörð. Þá má víða sjá hleðslur, byrgi og önnur merki eftir refaskyttur á skaganum.

Loftskúti

Í Loftskúta.

Stapinn

Lengi hefur verið leitað að Kolbeinsvörðu á Vogastapa. Hún var sögð vera við Innri-Skoru, á landamerkjum Voga og Njarðvíkur. Hið rétta er að við Innri-Skoru, vestanverða, eru landamerkin í sjó. Ofan hennar er Brúnavarðan og í sjónhendingu frá henni er Kolbeinsvarða, en úr Kolbeinsvörðu áttu landamerkin að liggja í Arnarklett sunnan Snorrastaðatjarna.

Vogastapi

Vogastapi – kort.

Eftir vísbendingu Ólafs frá Stóra-Knarrarnesi, sem hafði séð Kolbeinsvörðu er hann var ungur, var haldið inn á gamla Grindavíkurveginn frá nýja Keflavíkurveginum og honum fylgt u.þ.b. 50 metra. Þá var stöðvað og haldið til vesturs í u.þ.b. 100 metra. Þar upp á hól stendur Kolbeinsvarða. Fótur hennar stendur enn og einnig svolítið af vörðunni. Hún hefur greinilega verið sver um sig, u.þ.b. 3 metrar að ummáli og sést neðsti hringurinn nokkuð vel. Fokið hefur yfir hluta vörðunnar að vestanverðu og gróið yfir.

Kolbeinsvarða

Kolbeinsvarða?

Á steini í vörðunni á að vera ártalssteinn (1724). Gera þarf talsvert rask við vörðuna ef finna á steininn (ef hann er þá þarna enn). Frá vörðunni sér í Brúnavörðu í norðri og Arnarklett í austri. Að sögn Ólafs mun hafa verið tekið úr vörðunni, líkt og úr svo mörgum öðrum vörðum og görðum, er verið var að ná í grjót í hafnargarðinn í Vogum. Hann myndi vel eftir því þegar hún stóð þarna, fallega hlaðin upp.

Grindavíkurveginum var fylgt upp Stapann. Víða má sjá fallega handavinnu vegagerðarmanna á veginum, s.s. ræsi og kanthleðslur, einkum þegar stutt er eftir yfir á gamla Keflavíkurveginn.

Grindavíkurvegur

Grindavíkurvegur á Stapanum.

Skammt vestan við veginn áður en komið er að gatnamótunum eru allmikil gróin börð. Ef vel er að gáð má sjá mótaða hleðslu er myndar gerði á milli barðanna. Á einum stað sést vel hvernig gerður hefur verið garður úr mold og grjóti umhverfis gerðið. Innan þess er nokkuð gróðið svæði, hornlaga. Ekki er ósennilegt að þarna hafi vegagerðarmennirnir, er tóku til við að byggja Grindarvíkurveginn árið 1913 á Vogastapa, hafi haft sínar fyrstu búðir. Frá Seltjörn (Selvatni) hafa búðir þeirra eða aðstaða verið með u.þ.b. 500 metra millibili. Sjá má móta fyrir þeim á a.m.k. 12 stöðum við Grindavíkurveginn, en svo mikið hefur verið nýtt af hrauninu við gerð nýja vegarins að telja má fullvíst að margar aðrar hafi þá farið forgörðum.
Mikil landeyðing hefur orðið þarna á heiðinni og því erfitt að greina fleiri mannvirki. Þó á eftir að skoða þetta svæði betur með tilliti til fleiri ummerkja.
Nú væri tilvalið að skella þarna svo sem einu steintrölli til að vekja athygli á minjunum, sem nú eru að verða aldargamlar, en það mun jú vera einn yfirlýstur tilgangur tröllasmíðanna á heiðinni.
Frábært veður.

Grindavíkurvegur

Varða sunnan við Stapa.

Staðarborg

Fjárborg á Strandarheiði, 2-3 km frá Kálfatjörn, í stefnu þaðan og á Dyngju. Hún er hringlaga, hlaðin eingöngu úr grjóti og er hverjum steini hagrætt í hleðslunni af hinni mestu snilld. Vegghæðin er um 2 m og þvermál að innan um 8 m. Ummál hringsins að utanverðu er um 35 m. Gólfið inni í borginni er grasi gróið og rennislétt.

Stadarborg

Staðarborg.

Ekki er vitað hvenær borgin var hlaðin en menn telja hana nokkurra alda gamla. Munnmæli herma, að maður að nafni Guðmundur hafi hlaðið borgina fyrir Kálfatjarnarprest. Guðmundur vandaði vel til verka, safnaði grjóti saman úr nágrenninu, bar það saman í raðir og gat þannig valið þá hleðslusteina sem saman áttu. Ætlun hans var að hlaða borgina í topp. En er hann var nýbyrjaður að draga veggina saman að ofanverðu, kom húsbóndi hans í heimsókn. Sá hann þá strax í hendi sér að fullhlaðin yrði borgin hærri en kirkjuturninn á Kálfatjarnarkirkju og tilkomumeiri í alla staði. Reiddist hann Guðmundi og lagði brátt bann við fyrirætlan hans. En þá fauk í Guðmund svo hann hljóp frá verkinu eins og það var og hefur ekki verið hreyft við borginni síðan. Staðarborg var friðlýst sem forminjar árið 1951.

Stadarborg-2

Staðarborg í kvöldsólinni.

Hafnarfjörður

Hér er 55 atriða listi yfir nokkra áhugaverða staði í nálægð við Reykjanesbrautina milli Hafnarfjarðar og flugstöðvarinnar í Sandgerðishreppi, sem gaman er að virða fyrir sér eða ganga að og skoða. Ef farið er frá flugstöðinni þarf ekki annað en að byrja á hæsta númerinu og feta sig upp listann. Áhugasamir geta skoðað heimildarlistann hér á síðunni og fræðst meira og betur um hvern stað en hér er hægt að koma að í stuttum texta.

Reykjanesbrautin frá Hafnarfirði:

Hafnarfjörður

Reykjanesbraut í Hafnarfirði.

1. Kapellan – Kristján skrifari – Kristján Eldjárn rannsakaði hana á sjötta áratugnum. Kapelluhraunið er frá 12. öld, þ.e. frá sögulegum tíma.

Straumur

Straumur.

2. Útfall Kaldár í Straumsvík. Kemur upp við föruborðið.
3. Fagurgerði (vinstri hönd – garðhleðslur) og minjasvæði.
4. Straumur (teiknað af Guðjóni Samúelssyni). Nú listamiðstöð Hafnarfjarðar. Svæðið neðan Straums er bæði fagurt og áhugavert (Jónsbúð, Þýskabúð, Óttarstaðir).
4. Straumsselsstígur (þvert á veginn – greinilegur vinstra megin) liggur upp í Straumssel, u.þ.b. 30 mín göngu upp hraunin.

Þorbjarnastaðir

Þorbjarnastaðir – tilgáta ÓSÁ.

5. Þorbjarnastaðir (fallegt bæjarstæði, torftbær, fór í eyði á 20. öld, rétt o.fl.). Skammt norðaustan við tjarnirnar er Gerði, gamalt bæjarstæði. Í tjörninni má sjá hleðslur þar sem þvottur var þveginn. Ferkst vatn kemur þar undan hrauninu.
6. Alfararleið – gamla gatnan frá Innesjum á Útnes, sunnan Þorbjarnastaða, framhjá Miðaftanshæð, vel greinileg, Gvendarbrunnur við götuna skammt vestar. Einn af a.m.k. fjórum á Suðvesturhorninu.

Brunntjörn

Urtartjörn / Brunntjörn.

7. Urtartjörnin / Brunntjörn (gætir flóðs og fjöru, ferskt vatn ofan á, sérstakur gróður). Norðaustan hennar er Straumsréttin og norðan hennar eru þurrkbyrgi.
8. Óttarstaðaselstígur (liggur þvert á veginn – vörður). Liggur upp í Óttarstaðasel, framhjá Óttarstaðarborg (Kristrúnarborg). Gatan upp í selið hefur stundumverið nefnd Skógargata og Rauðamelsstígur. U.þ.b. 30 mín gangur er upp í selið. Umhverfis það eru fjárskjól, nátthagi og fleiri mannvirki.
9. Fornasel, Gjásel, Straumsel, Óttarstaðasel og Lónakotssel eru örfá af um 140 sýnilegum seljum á Reykjanesskaganum. Stígur liggur á milli þeirra (um 20 mín gangur milli selja – Gjásel og Fornasel eru nyrst og styst á milli þeirra).

Lónakot

Lónakotsbærinn.

10. Lónakot (lónin, mjög fallegt svæði. Hraunsnesið vestar – minjar). Vestan við Lónakot eru minjar selsstöðu og fjárskjól.
11. Lónakotsselstígur (vinstra megin). Fjárskjól skammt frá veginum hægra megin. Stígurinn liggur upp í selið, u.þ.b. 30 mín gangur.
12. Kristrúnarborg (Óttarstaðaborg). Fallega hlaðin fjárborg, en af 76 á Reykjanesskaganum).
13. Virkishólar (Virkið, notað til hleypinga áður fyrr).
14. Loftskútahellir (fallega hlaðið skjól vinstra megin, m.a. nota til að geyma rjúpur við veiðar).

Hvassahraun

Hvassahraun – rétt.

15. Gömul hlaðin rétt (norðan undir hól hægra megin við gamla veginn áður en komið er að nýrri timburréttinni við Hvassahraun (gegnt bragganum)
16. Hjallhólsskúti (hægra megin – svolitlar hleðslur fyrir skúta, nota m.a. til að geyma fisk).
17. Hvassahraun (hægra megin, gömul byggð og ný). Margar minjar ef vel er skoðað.
18. Hvassahraunsselsstígur (vinstra megin, ógreinilegur fyrst, en sést betur er ofar kemur). Hvassahraunssel í u.þ.b. 20 – 30 mínútna fjarlægð frá veginum eins og mörg seljanna á þessu svæði. Mannvirki.
19. Vatnsgjárnar (fast við veginn vinstra megin, notaðar til þvotta).

Hvassahraun

Hraunketill á Strokkamel.

20. Sérkennileg hraundrýli á Strokkamelum (vinstra megin, einhver verið skemmd, einstakt náttúrufyrirbæri, gasuppstreymi).
21. Brugghellir (vinstra megin, getur verið erfitt að finna, þarf að síga ofan í, hleðslur).
22. Hleðslur (hægra megin, vestan við Fögruvík, líklega rétt eða hluti að borg, að mestu skemmd).
23. Afstapahraun (eitt af 2-15 hraunum á Reykjanesi, sem rann á sögulegum tíma. Í þeim eru Tóurnar svonefndu, en neðst í þeim eru gamlar fyrirhleðslur, sem námur hafa gengið mjög nærri). Í efstu tóunni, Hrístóu, eru greni og refabyrgi. Upp úr þvíliggur stígur áleiðis upp í Búðarvatnsstæðið.
24. Kúagerði (forn áningastaður. Sumir segja að þar undir hrauninu hafi bærinn Akurgerði verið, en farið undir hraun. Þarna er a.m.k. gamall kúahagi).

Alemmningsvegur

Almenningavegur.

25. Almenningsleiðin (hægra megin, framhald af Alfararleiðinni). Stundum nefnd Menningsleið eftir að misritun varð í ritun prests á Kálfatjörn og forskeytið datt út. Liggur áleiðisút á Vtnsleysuströnd og síðan ofan byggðar út í Voga
26. Vatnaborgin (vinstra megin). Hleðslur og fornt vatnsstæði. Nú alveg við veginn.
27. Hafnhólar (tveir, annar með mastri). Taldir tengjast verslunarhöfn þýskra á Stóru Vatnsleysu. Á túnin á Stóru Vatnsleysu er einn af mörgum letursteinum á Reykjanesskaganum.
28. Bræður (vörður vinstra megin, við Flekkuvíkurselstíginn, refabyrgi o.fl).

Flekkuvíkursel

Flekkuvíkursel.

29. Flekkavíkursel (Lagðist af í lok 19. aldar). Hleðslur og mannvirki.
30. Staðarborg (Hægra megin, sést vel – endurgerð fjárborg ofan Kálfatjarnar).
31. Þórustaðastígur (liggur frá Þórustöðum, austan við Keili, um austanverða Selsvelli og upp á Vigdísarvelli). Neðan Reykjanesbrautar er m.a. Þórustaðaborgin, sem stígurinn liggur framhjá.
32. Þyrluvarðan (hæga megin við veginn. Minnisvarði um fimm látna menn í þyrluslysi 1965.

Hringurinn

Fjárborgin Hringurinn.

33. Hringurinn (hægra megin, sést á einum stað, hlaðinn fjárborg, ein af a.m.k. 6 fjárborgum hægra megin við veginn á Vatnsleysustöndinni).
34. Hlaðin refagildra (vinstra megin). Ein af 23 hlöðnum refagildrum á Reykjanesi.
35. Breiðagerðisslakki (vinstra megin). Brak úr þýskri orrustuflugvél, sem skotin var niður í síðari heimstyrjöldinni. Fyrsti fanginn, sem ameríkar náðu í styrjöldinni, að talið er.
36. Knarrarnessel og Breiðagerðissel (vinstra megin). Gróðurflettir uppi í heiðinni eru yfirleitt gömul sel. Sprungur og gjár og varhugavert að fara um um vetur.
37. Fornasel eða Litlasel (vinstra megin). Gróinn hóll, Gamalt sel stutt frá veginum. Mörg sel eru uppi í heiðinni, s.s. Vogasel, Brunnastaðasel, Gjásel, Knarrarnessel og Auðnasel.

Hrafnagjá

Hrafnagjá.

38. Hrafnagjá (vinstra megin). Falleg gjá sem nær frá Stóru Vatnsleysu langleiðina að Snorrastaðatjörnum sunnan Háabjalla, trjáræktunarsvæði Vogafólks.
39. Við Snorrastaðatjarnir er Snorrastaðasel og Nýjasel.
40. Pétursborg á Huldugjá (vinstra megin, sést í góðu veðri). Gjárnar (misgengin) mynda stalla í heiðinni, s.s. Aragjá og Stóra Aragjá. Undir veggjunum eru gömul sel. Sum enn ofar, s.s. Dalsel í Fagradal við norðausturhorn Fagradalsfjalls. Þarna sést líka Kálffell. Í því er Oddshellir og mannvirki þar í kring.
41. Skógfellavegur (merktur vinstra megin). Gömul leið milli Voga og Grindavíkur, u.þ.b. 16 k, löng. Klappaður í bergið milli Skógfellanna.
42. Arnarklettur (vestan tjarnarinnar). Landamerki Grindavíkur, Voga og Njarðvíkur.

Stapinn

Stapinn – flugmynd.

43. Stapinn (hægra megin). Reiðskarðið á gömlu götunni og Stapagata til Njarðvíkur. Undir Stapanum er tóftri Brekku, Stapabúðir, Hólmabúð og Kerlingabúð (með elstu minjum á Reykjanesi).
44. Gamli Hreppskartöflugarðurinn (hleðslur hægra megin).
45. Gamli Grindarvíkurvegurinn (byrjað að gera 1913 á Stapanum og var lokið 1918). Mörg mannvirki vegagerðarmanna má sjá við Grindavíkurveginn.
46. Gömul varða skammt norðan við gamla veginn, á hærgi hönd (sennilega landamerkjavarða).
47. Tyrkjavörður (merkilegt smávörðukaðrak hægra megin á holti).
48. Grímshóll (hægra megin, við Stapagötu). Hæsti punktur á Stapanum. Þjóðsaga.

Stúlknavarða

Stúlknavarðan.

49. Stúlknavarðan (vinstra megin). Varða skammt frá veginum. Ártal hoggið í undirstöðuna. Saga tengist vörðunni.
50. Skipsstígur. Gömul þjóðleið milli Njarðvíkur og Grindavíkur. Falleg leið. 18 km. Greinist í Árnastíg við Rauðamel eftir 6 km göngu.

Stóri-Krossgarður

Stóri-Krossgarður.

51. Stóri Krossgarður (vinstra megin, nálægt veginum). Miklar hleðslur í kross.
52. Rósasel (hægra megin) við Rósaselsvötn. Tóft nálægt veginum.
53. Gamla gatan (norðan við Hringtorgið) milli Sandgerðis og Keflavíkur. Sést vel. Skammt frá eru tvær fjárborgir.
54. Melabergsgata (Hvalsnesgata) liggur hægra megin vegarins áleiðisút að flugstöð. Sést vel liðast um móana áleiðis niður að Melabergi.
55. Hleðslur (vinstra megin) frá stríðstímum. Vallarsvæðið ekki skoðað að fullu. Innan þess eru þó mannvirki, sem hafa varðveist.

Óttarsstaðaborg

Kristrúnarborg / Óttarsstaðaborg.

FERLIR stendur fyrir Ferðahópur rannsóknardeildar lögreglunnar í Reykjavík. Markmiðið er að gefa áhugasömu fólki kost á að hreyfa sig í fallegu og krefjandi umhverfi. Einnig að kynna sér nágrennið, afla upplýsinga um minjar og merkilega staði, sem skrifað hefur verið um eða getið er um, leita að þeim, skrá og jafnvel mynda og/eða teikna upp minjasvæði. Höfum fundið flest það sem við leituðum að. Við byrjuðum fyrir nokkrum árum að ganga um Reykjanesskagann vestan Suðurlandsvegar og síðan höfum við farið um 700 ferðir í þessum tilgangi. Hver ferð er skráð og þess helst getið hvað er skoðað hverju sinni.

Kapelluhraun

Kapelluhraun – hrauntröð.

Hingað til hefur hópurinn haldið sig við Reykjanesskagann. Eigum önnur svæði til góða. Í ljós kom við aukna þekkingu hvað maður vissi í rauninni lítið. Og því meira sem maður kynnti sér svæðið því betur kom í ljós hin miklu verðmæti sem svæðið hefur upp á að bjóða. Auk þess að um er að ræða einn yngsta hluta landsins (12-15 hraun hafa runnið á skaganum á sögulegum tíma) þá eru þar einstaklega falleg útivistarsvæði og merkileg minjasvæði er segja fólki fjölmargt um líf, búskapar- og atvinnusögu þjóðarinnar frá upphafi.

Leiðarendi

Leiðarendi.

Skoðaðir hafa verið um 600 hella og hraunskjól, sum með mannvistarleifum, 400 gömul sel, tæplega 90 letursteina, suma mjög gamla, tæplega 90 fjárborgir, 140 brunna og vantsstæði, 140 gamlar þjóðleiðir, vörður með sögu, fjölda tófta, sæluhúsa, nausta, vara o.s.frv. o.s.frv. Reykjanesið er það fjölbreytilegt og margbrotið að enn höfum við ekki skoðað allt sem það hefur upp á að bjóða. Auk þess er þetta allt það nálægt að óþarfi hefur reynst að leita annað. Við göngum jafnt um sumar sem vetur. Hver árstíð býr yfir sínum sjarma og litbrigðum, sem sífellt breyta umhverfinu.

Gíghæð

Vegavinnubúðir á Gíghæð.

Í dag sér fólk síst það sem er næst því. Allt of margir leita langt fyrir skammt. Reykjanesið hefur upp á allt að bjóða, sem þarf til hreyfings og útivistar. Hins vegar vantar fólk upplýsingar og hvatningu til að nýta sér það. Um 200.000 manns búa á eða við svæðið. Þú mætir fleirum á göngu upp á hálendinu en á því, hvort sem um er að ræða sumar eða vetur. Það er í sjálfu sér ágætt að fólk nýti sér aðra landshluta, en það er líka óþarfi að gleyma að líta sér nær þar sem aðstæðurnar eru fyrir hendi. Það er sagt í ferðabók árið 1797 að ekkert merkilegt væri að sjá á Reykjanesi. Það væri ömurlegt á að líta. Þeir sem kynnst hafa svæðinu líta á það öðrum augum. Þar er fegurðin og sagan við hvert fótmál.

Hvassahraunssel

Hvassahraunssel.

Það er alltaf einhverju fórnað þegar vegur er lagður. Margar óafturkræfar minjar og mörg falleg svæði hafa verið eyðilögð við slíkar framkvæmdir í gegnum tíðina. Grindavíkurvegurinn er gott dæmi um hirðuleysi gagnvart minjum. Hann var lagður á þeim tíma er nánast ekkert tillit var tekið til minja. Þó má, ef vel er að gáð, sjá merki vegagerðarmanna er lögðu fyrsta veginn í byrjun 20. aldar á a.m.k. 12 stöðum við veginn, sum allvegleg.
En á seinn árum hefur skilningur manna breyst í þeim efnum, sem betur fer.

Skipsstígur

Skipsstígur.

Fulltrúar Vegagerðarinnar eru t.d. mjög meðvitaðir um mikilvægi þess að raska eins litlu og mögulegt er við vegalagninu án þess að draga úr öryggi. Þess hefur greinilega verið gætt að skemma eins lítið og nokkur var kostur þegar nýrri hluti Reykjanesbrautarinnar var lagður. Að vísu er gengið nærri stöðum, s.s. hraunkötlunum við Hvassahraun og Afstapahrauni. Gömlu selstígarnir og gamla þjóðleiðin hefur verið skemmt að hluta, s.s. í Hvassahrauni, en umferðin krefst fórna líkt og virkjanir eða önnur mannanna verk. Hjá því verður seint komist. Góður skilningur og athafnir þeirra sem ráða, skiptir því miklu máli þegar vegaframkvæmdir eru annars vegar. Ástæða er þó að hafai áhyggjur af svonefndum Suðurstrandarvegi, en honum er ætlað að liggja um stórbrotna náttúru og mörg minjasvæði.

Gvendarbrunnur

Gvendarbrunnur.

Reynt hefur verið að vekja athygli á mikilvægi þess að skrá og merkja minjar og minjastaði. Bæði til að vernda minjarnar og gera þær aðgengilegar almenningi. Fólk þarf að vita hvar á að leita og hvað það er að skoða á hverjum stað. Minjar eru ígildi skrifaðra handrita. Hver og ein segir sitt. Margar saman segja heilstæða sögu. Letursteinn á Stóra-Hólmi segir söguna af smalanum, sem veginn var og dysjaður. Dysjar Herdísar og Krýsu er vitnisburður um þjóðsöguna. Sama á við um dysjar Ögmundar í Öghmundarhrauni, Þórkötlu og Járngerði í Grindavík. Ræningjastígur í Hælsvík segir af ferðum Tyrkjanna í Krýsuvík. Hlínarvegur frá Ísólfsskála til Krýsuvíkur segir frá vegagerð. Selstígarnir gömlu þvert á Reykjanesbrautina eru til vitnis um gamla búskaparhætti. Gömlu þjóðleiðirnar segja til um ferðir fólks fyrr á öldum. Margar sögur eru tengdar þeim ferðalögum, hvort sem farið var á milli byggðalaga eða í verið. Svona mætti lengi telja.

Alfaraleið

Alfaraleiðin.

Gaman er að velta fyrir sér þróun gatna og vegagerðar á þessari leið. Til fróðleiks fyrir fólk mætti gera Alfarar- og Almenningsleiðina skýrari, a.m.k. að hluta, og hlífa kafla af gamla Keflavíkurveginum, t.d. þar sem fyrir eru fallegar kanthleðslur. Gott dæmi um fyrstu endurbætur á gömlu þjóðleiðinum er á Skipsstíg í Illahrauni ofan við Grindavík. Hlínarvegur frá Ísólfsskála um Mjöltunnuklif er annað dæmi. Slíkir bútar eru ómetanlegir.
Þegar fólki er sýnd Alfaraleiðin eða Almenningsleiðin á milli Innesja og Útnesja finnst því yfirleitt mikið til koma. Gatan er klöppuð í bergið undan hófum, klaufum og fótum liðinna kynslóða. Slík merki ber okkur að virða.

Hvaleyri

Hvaleyri – Flókavarða (minnismerki) fremst.

Sogaselsgígur

Á uppstigningardag gekk FERLIR um Trölladyngjusvæðið, eitt fallegasta útivistarsvæði landsins.

Sogin

Í Sogum.

Gengið var til suðurs austan Höskuldarvalla og upp í Sogagíg sunnan í Trölladyngju. Þar eru fyrir tóttir þriggja selja, m.a. frá Kálfatjörn, ein í miðjum gígnum, önnur með austanverðum gígnum og þriðja með honum norðanverðum. Hin síðarnefndu hafa verið nokkuð stór, a.m.k. telur norðurselið sex tóttir og stekk á bak við þær. Stekkur er einnig sunnan í gígnum og annar stór (gæti verið lítil rétt) í honum vestanverðum. Gengið var upp með Sogalæk og yfir hann skammt sunnar. Lækurinn, sem virtist ekki stór, hefur í gegnum tíðina flutt milljónir rúmmetra af mold og leir úr hlíðunum niður á Höskuldarvelli þar sem nú eru sléttir grasvellir.

Sogasel

Sel í Sogaselsgíg.

Undir bakka sunnan læksins er mjög gömul tótt er gæti hafa verið gamalt sel. Allt í kring eru grösugar brekkur sem og á milli Trölladyngju og Grænudyngju. Einnig inn með og ofan við þá síðarnefndu. Í hlíðunum eru djúpir gýgar og ofar í þeim heitir hverir. Haldið var á brattann og komið upp fyrir Spákonuvatn, sem er í stórum gýg utan í vestanverðum Núpshlíðarhálsinum. Frá því blasir Oddafellið og Keilir við í norðri og Litlihrútur, Hraunsels-Vatnsfell og Fagradalsfjall í vestri. Innar á háslinum taka við Grænavatnseggjar, fallega klettamyndanir og tröllabollar.

Grænavatn

Grænavatn.

Handan þeirra, í dalverpi, er Grænavatn, nokkuð stórt vatn í fallegu umhverfi. Suðvestan þess eru grasigrónir bakkar. Norðan vatnsins gnæfir formfagurt fjall, sem gefur ágætt tilefni til myndasmíða. Löstur á umhverfinu eru áberandi hjólför í hlíðum þess eftir jeppa fótafúinna.
Frá sunnanverðu Grænavatni var gengið upp á fjallseggina (Grænavatnseggjar) austan þess og eftir henni mjórri til norðurs.

 

Áð var undir háum kletti er slútti vel fram fyrir sig efst í hlíðinni. Blasti Djúpavatn við niður undan því að austanverðu sem og Sveifluhálsinn allur.

GrænavatnseggjarSást vel yfir Móhálsadalinn, Ketilstíginn og Arnarnípuna í austri og Bleikingsvelli og Krýsuvíkur-Mælifell í suðri.Vestan fjalleggjarinnar skammt norðar sást vel yfir litadýrð Soganna með Dyngjurnar í bakgrunni. Gengið var austan og ofan við litrík Sogin að Fíflavallafjalli og áfram ofan við Hörðuvallaklofa. Þaðan var haldið upp og norður eftir graslægð, er blasir við framundan, í austanverðri Grænudyngju. Þetta er mjög falleg gönguleið með fjallið á vinstri hönd og fallega, háa og slétta, kletta á þá hægri.

Djúpavatn

Djúpavatn.

Þegar upp er komið blasa við hraunin og handan þeirra höfðuborgarsvæðið.
Haldið var niður dalinn á milli Trölladyngju og Grænudyngju, áfram norður yfir mosabreiðurnar og að Lambafelli. Norðan fellsins opnast Lambafellsklofinn, há og mjó gjá, upp í gegnum fjallið. Gengið var í gegnum gjána, upp á Lambafell og áfram suður af því með Eldborg að upphafsreit.
Gangan tók 4 klst. Um er að ræða stórbrotna, en jafnframt mjög fallega, gönguleið.
Frábært veður.

Spákonuvatn

Spákonuvatn – Keilir fjær.

Stapaþúfa

Gengið var að Ólafsgjá þar sem Ólafur Þorleifsson frá Hlöðuneshverfi féll niður í þann 21. desember árið 1900 og fannst ekki fyrr en um 30 árum síðar (sjá nánar Frásagnir). Við gjána er myndarleg varða. Nefnd gjá er spölkorn ofan við Stóru-Aragjá, um 2.5 km austan núverandi Reykjanesbrautar. Neðar er Litla-Aragjá. Skammt vestan hennar eru gatnamót, annars vegar götu upp í heiðina frá Vogum og hins vegar stígs upp í Brunnastaðasel. Auðveldast er að finna Ólafsgjá með því að taka er mið af stærstu vörðunni á barmi Hrafnagjár og halda í beina stefnu á Kastið í Fagradalsfjalli. Um miðja vegu birtist Ólafsvarðan á gjárbarminum og vísar leiðina á staðinn.

Ólafsvarða við Ólafsgjá

Ólafsvarða við Ólafsgjá.

Frá Ólafsvörðu var haldið að Stapaþúfu og greni skoðuð í Stóru-Aragjá beint neðan þúfunnar. Haldið var til norðurs í Gjásel, 7 keðjuhúsa sel, eitt hið fallegasta á Reykjanesi. Það hvílir undir gjárveggnum. Vestan við það eru tveir hlaðnir stekkir. Tekin var krókur til suðausturs að hinu gamla Hlöðunesseli, en það kúrir í brekku ofan við mikið landrof. Gengið var til suðurs frá því að Brunnastaðaseli. Í því eru tóttir stórra húsa á þremur stöðum. Fallega hlaðin kví er í gjánni aftan við selið. Talsvert ofan við selið er hinn sögufrægi Hemphóll. Á honum er varða.

Þráinsskjöldur

Þráinsskjöldur – einn gíganna.

Lagt var upp frá henni á Þráinsskjöld og ekki staðnæmst fyrr en í grasivöxnum aðalgígnum. Um er að ræða fallega lægð efst á hraunbungunni. Ekki er auðvelt að finna hann, en staðkunnugur heimamaður úr Vogunum var með í för og gerði það leitina auðveldari. Þráinsskjöldur er geysistór hraundyngja, sennilega um 16 þúsund ára gömul, og frá henni hefur komið geysilegt hraunflæmi. Frá miðju hans er langt til allra átta. Frá gígnum blasir Keilir við í norðaustri, Litli-Keilir, Trölladyngja, Núpshlíðarháls. Litli-Hrútur, Hraunsels-Vatnsfell – Stóri-Hrútur, Fagradalsfjall, Mælifell og loks Fagradals-Vatnsfell í norðvestri. Í fjarska sést Snæfellsjökull vel. Aðrar megindyngjur á Reykjanesi eru Sandfellshæðin og Hrútargjádyngja.

Breiðagerðisslakki

Brak á Slysstað ofan Breiðagerðisslakka.

Þegar haldið var niður dyngjuna var gengið yfir greinilega götu er virtist liggja áfram vestan við Keili. Líklega sameinast hún götunni yfir hraunið norðan Driffells er síðan kemur inn á Selsvallastíginn norðan vallanna. Skoðuð voru greni vestast í Eldborgum, auk þriggja refabyrgja, sem þar hafa verið hlaðin. Þá var haldið í Knarrarnessel, en í því eru tóttir þriggja selja. Knarrarnessel er frábrugðið öðrum seljum á Reykjanesi að því leiti að það er ekki í skjóli við gjá eða hæð heldur stendur það á hól. Við það eru bæði hlaðnar kvíar og stekkir. Loks var flak þýskrar njósnaflugvélar skoðað í Breiðagerðisslakka, en hún var skotin niður af bandamönnum í seinni heimstyrjöldinni. Áhafnameðlimurinn var fyrsti fanginn sem Bandaríkjamenn handtóku í stríðinu (sjá meira undir Fróðleikur og Lýsingar).
Gangan tók 5 klst og 3 mín. Veður var stórfínt, sól og gola.

Gjásel

Gjásel – uppdráttur ÓSÁ.

 

 

Eldborg

Gengið var frá Trölladyngju á Núpshlíðarhálsi um Eldborg og Einihlíðar með stefnu á Mávahlíðar og Mávahlíðarhnúk. Þaðan var haldið yfir að Fjallsgjá norðan við Fjallið eina norðan Hrútargjárdyngju og endað á Krýsuvíkurvegi.

Dóruhellir

Dóruhellir.

Trölladyngjan er 375 m.y.s. Hún er formfagurt móbergsfjall. Í dyngjunni eru miklar eldstöðvar, bæði að sunnan- og norðanverðu. Hraun hafa runnið þaðan bæði í norður og suður, meðal annars Afstapahraun. Þar er og mikill jarðhiti á ýmsum stöðum, t.d. í Sogunum. Um þau rennur Sogalækur.
Höskuldarvellir er grasslétta yfir hrauninu vestur af Trölladyngju. Þangað liggur farvegur frá Sogalæk. Rennur hann niður á vellina í leysingum og hefur myndað það mikla landflæmi og gróðurbreiðu með framburði sínum. Höskuldarvellir munu vera ein stærsta samfellda graslendi í Gullbringusýslu eða um 100 ha.

Eldborg

Eldborgin í dag.

Eldborgin norðan Trölladyngju hefur verið afmynduð með efnistöku. Sennilega hefur hún einhvern tímann verið eitt af djásnum Reykjanesskagans. Ef væntumþykjan og virðingin fyrir umhverfi og náttúru hefðu orðið efnishyggjunni yfirsterkari þegar ákvörðun um eyðilegginguna var tekin, væri Eldborgin nú margfalt verðmætari en krónurnar, sem fengust fyrir kápuna af henni á sínum tíma. En skaðinn verður ekki bættur, úr því sem komið er. Nú stendur Eldborgin þarna sem minnisvarði og þörf áminning um hvað ber að varast í umgengi við náttúruna. Ekki meira um það að sinni.

Mávahlíðar

Mávahlíðar.

Fallegir eldgígar eru utan í Dyngjuhálsi, eða Dyngjura

na eins og hann er stundum nefndur. Lambafellið sást vel á vinstri hönd, en framundan sást einnig vel til Einihlíða. Fallegt er að sjá hvernig hraunstraumurinn hefur runnið niður hlíðarnar og elfan storknað í hlíðunum. Ofan við þær er nokkuð úfið hraun, en vönum greiðfært. Suðaustar blasa Mávahlíðar við. Nýrra hraunið er norðvestan við hlíðarnar, mikið jarðfall og hár hraunbakki við þær norðanverðar. Eldra hraun og grónara er ofan (sunnan) við Mávahlíðar. Gígarnir, sem það hefur komið úr, eru litlir og mynda röð samhliða sprungureininni. Frá Mávahlíðum sést vel upp í Hrúthólma, gróin skjöld í hrauninnu. Sunnar er Hrútfellið.

Mávahlíð

Mávahlíð – stígur.

Gengið var yfir að Mávahlíðahnúki austan Mávahlíða og síðan strikið tekið frá vatnsstæði við gamla götu eftir tiltölulega sléttu, en eyðilegu, helluhrauni með úfnum hraunkanti á hægri hönd. Þegar honum sleppti tók við gróið hraun með fallegum hraunæðum. Í einni þeirra var beinagrind. Leggur af dýrinu var tekin með. Við greiningu á Keldum kom í ljós að um var að ræða hrossabógslegg. Óvíst var um aldur. Beinagrindin var ekki langt frá Stórhöfðastígnum frá Stórhöfða áleiðis upp á Ketilsstíg, ofan við Mávahlíðar og Hrútafell. Annað hvort hefur hrossið orðið til þarna við gömlu leiðina, eða refaveiðimenn hafa borið þar út hræ af hrossi til að egna fyrir ref.

Hálsar

Hraunin milli Hálsa – loftmynd.

Skammt austar er falleg og tilkomumikil gjá, hér nefnd Konugjá, einu kvenveru hópsins að þessu sinni til heiðurs. Í gjánni er stór skúti, sem opnast hefur þegar jörðinn klofnaði og gjáin myndaðist, líkt og Hundraðmetrahellirinn ofan við Helgadal. Hann var nefndur Dóruhellir. Skútinn, sem er hinn skjólsælasti, verður að teljast álitlegur til samkomuhalds. Ofar í hæðinni eru nokkrir hellar. Að þessu sinni var gengið niður með hæðinni til austurs, að fallegum gervigíg, sem var líkt og hásæti í laginu – tilvalinn hópmyndastaður.

Suðaustar blasti Fjallið eina við í allri sinni reisn, en norðar opnaðist Fjallgjáin.

Fjallið eina

Fjallið eina.

Hún er ein af nokkrum gjám á svæðinu, en sú stærsta og lengsta. Víða er hún mjög djúp og sumsstaðar mjög breið, ekki ólík Almannagjá á köflum.
Gangan endaði á Krýsuvíkurvegi, sem fyrr sagði.
Frábært veður. Gangan tók 4 klst og 4 mín.

Heimildir m.a.:
-www.reykjanes.is

Trölladyngja

Mávahlíðar og Trölladyngja fjær.

Kálfatjörn
Gengið var um Flekkuvík, Keilisnes, Borgarkot og Kálfatjörn.
Í Flekkuvík er Flekkuleiðið, gróin þúst yst (syðst) í heimatúninu. Segir sagan að Flekka gamla, sem samnefnd vík heitir eftir, hafi mælt svo fyrir um að hún skyldi dysjuð á þessum stað þar sem hún sæi yfir að Flekkuvörinni. Rúnarsteinn er á leiði Flekku, en sérfræðingar segja hann geta verið frá 17. öld.

Flekkuleiði

Flekkuleiði.

Fallega hlaðnir brunnar eru við bæinn og mikið af hlöðnum görðum og tóftum.
Gengið var um Keilisnesið og yfir að Borgarkoti. Landamerkjagirðing liggur þar niður að sjó við Hermannavörðuna. Innan við hana eru tóftir Borgarkots, hlaðinn krossgarður, gamlir garðar o.fl. Gömul stórgripagirðing liggur á mörkunum áleiðis upp heiðina, en beygir síðan til vesturs, áleiðis að Kálfatjörn. Steinarnir í girðingunni eru með u.þ.b. 20 metra millibili. Í hvern þeirra eru klappaðar tvær holur og í þær reknir trétappar. Á þessa tappa hafa síðan verið strengd bönd. Tilgangurinn var að halda stórgripum, s.s. kúm á beit innan afmarkaðs svæðis. Borgarkot heyrði um tíma undir Viðey og mun klaustrið m.a. hafa haft þar kálfa á beit. Þar hafa, eins og svo víða, kýr getað mælt mannamál á nýársnótt, sumir segja á þrettándanum skv. þjóðtrúnni. Um þjóðtrú tengda þrettándanum gildir flest hið sama og um nýjársnótt, meðal annars að selir fari úr hömum sínum, kirkjugarðar rísa, álfar flytjast búferlum og kýr tala mannamál. Hættulegt gat verið að hlusta á tal kúnna því þær reyndu að æra þá sem það gerðu.

Flekkuleiði

Flekkuleiðið.

Í Þjóðsögum Jóns Árnasonar er meðal annars þessa sögn að finna: Á nýjársnótt verða margir hlutir undarlegir. Það er eitt að kýr mæla þá mannamál og tala saman. Einu sinni lá maður úti í fjósi og á nýjársnótt til þess að heyra hvað kýrnar töluðu. Hann heyrir þá að ein kýrin segir: „Mál er að mæla (aðrir: mæra).“ Þá segir önnur: „Maður er í fjósi.“ „Hann skulum vér æra,“ segir þriðja kýrin. „Áður en kemur ljósið,“ segir hin fjórða. Frá þessu gat maðurinn sagt morguninn eftir, en ekki fleiru því kýrnar höfðu ært hann.
Gengið var um Réttartanga, framhjá Litlabæ og Bakka, gömlu eyðibýlin austan Kálfatjarnar, s.s. Bjarg og Móakot. Móakotsbrunnurinn var m.a. barinn augum.
Kálfatjörn er lýst í annarri FERLIRslýsingu. Norðan bæjarins er Kálfatjörnin. Í henni áttu sækýr að búa. Árið 1892 gerðist eftirfarandi saga á Kálfatjörn. “Þegar ein heimasætan var fermd, fékk hún peysuföt eins og þá tíðkaðist. Yngri systirin hafði safnað saman nokkrum flauelspjötlum og náði sér í viðbót í það, er féll frá peysufötum systurinnar. Með þessu ætlaði hún að skreyta skautföt brúðu sinnar. Hún hafði þetta allt í litlum lokuðum kistli og hafði alltaf lykilinn í bandi um hálsinn því að enginn mátti komast í kistilinn.

Borgarkot

Borgarkot – stórgripagirðing.

Rétt eftir ferminguna dreymir litlu stúlkuna að hún sé stödd suður á túninu á Kálfatjörn. Sá hún þá hinum megin við túngarðinn á Hliðstúninu grannleita konu, frekar fátæklega búna vera að reka kú. Hún hljóp til hennar og ætlaði að hjálpa henni að reka kúna en spyr hana um leið hvar hún eigi heima.
Þá svarar konan: “Ég er huldukona og á heima í þessari klöpp”, og bendir á klöpp sem fólk var vant að ganga yfir þegar það fór að heiman suður á Ströndina.
Þá þykist stúlkan segja við hana: “En hvað ég er glöð að hitta huldukonu. Þiggðu nú af mér hringinn hennar ömmu sem ég er með á hendinni, því að mig hefur alltaf langað svo til þess að hitta huldukonu og gleðja hana”.
Þá mælti konan: “Ekki skaltu gera það, góða mín, því að þú færð illt fyrir það að glata honum. En þú getur gert mér annan greiða. Lánaðu mér flauelspjötlurnar þínar. Það á líka að ferma hjá mér dóttur mína, en ég er svo fátæk að ég get ekki keypt flauel á treyjuna hennar. Ég skal skila þeim öllum jafnóðum aftur, þegar ég hef notað þær”.
Stúlkan lofaði þessu með ánægju og segir: “Vertu nú sæl”. Þá segir hún ósköp hrygg: “Segðu ekki sæl við mig, við erum ekki sæl, en ég get ekki launað þér með öðru en því að ég skal sjá til þess að þú verðir lánsmanneskja”. Var svo draumurinn ekki lengri.

Borgarkot

Borgarkot – trétappi í stórgripagirðingunni.

Eftir nokkurn tíma ætlar stúlkan að fara að sauma á brúðuna sína. Hún lýkur upp kistlinum en bregður heldur en ekki, því að allar flauelspjötlurnar eru horfnar. Man hún þá ekkert eftir draumnum. Fór hún nú að grennslast eftir því, hvort nokkur hafi komist í kistilinn og sannfærðist um að enginn hafði farið í hann. Þá man hún allt í einu eftir draumnum og segir mömmu sinni frá honum.
Þá mælti hún: “Góða mín, vertu ekki að leita úr því að þetta er svona, álfkonan skilar þeim aftur”. Líður svo tíminn fram á haust. Einn dag er það, er stúlkan opnar kistilinn sinn að allar pjötlurnar liggja þar eins og hún skildi við þær um vorið.”
Þegar golfvöllurinn var gerður á Kálfatjörn var sléttað yfir klöppina svo hún sést ekki lengur.
Frábært veður. Gangan tók 2 klst og 22 mín.

Heimildir m.a.:
-http://visindavefur.hi.is/svar.asp?id=2435
-Jón Árnason. Íslenskar þjóðsögur og ævintýri I, 609.
-http://bokasafn.rnb.is/default.asp?cat_id=150
-Rauðskinna II 301.

Borgarkot

Borgarkot – uppdráttur ÓSÁ.

Sogaselsgígur

Gengið var um Trölladyngjusvæðið, austur fyrir fjallið um Hörðuvallaklof, sunnan Grænudyngju niður í Sogasel, upp Sogin og að Spákonuvatni, um Grænavatnseggjar, niður á Selsvelli og til baka með Oddafelli.

Trölladyngja

Trölladynga og Grænadyngja.

Trölladyngja er fallega formað fjall, um 375 m.y.s. Vestari hnúkurinn heitir því nafni, en sá eystri (402 m.y.s.) heitir Grænadyngja. Í Trölladyngju hefur m.a. fundist silfurberg.. Milli dyngnanna er skarð, auðvelt uppgöngu, sem mun heita Söðull. Heyrst hefur og nafnið Folaldadalir eða Folaldadalur um skarðið sjálft, en það örnefndi mun einnig vera til á Austurhálsinum. Þegar komið er upp úr skarðinu tekur við grösug skál. Hún er grasi gróin. Líklega er þarna um að ræða gíginn sjálfan.

Núpshlíðarháls

A Núpshlíðarhálsi.

Gengið var austur með norðanverðum Dygnahálsi (eða Dyngjurana sem stundum er nefndur). Utan í honum eru margir gígar, sem hraunstraumar þeir hafa komið úr er liggja þarna langt niður í Almenning. Gamall stígur liggur við enda Dyngahálsins. Honum var fylgt yfir að Hörðuvöllum. Fallegur gígur er við enda Fíflvallafjalls, en að þessu sinni var gengið inn Hörðuvallaklofa milli Grænudyngju og Fíflvallafjalls. Um er að ræða fallegan dal, en gróðursnauðan. Uppgangan úr honum vestanverðum er tiltölulega auðveld. Þegar upp var komið blasti varða við á brúninni. Frá henni var ágætt útsýni yfir Djúpavatn. Haldið var niður með vestanverðri Grænudyngu með viðkomu í dyngjunni. Síðan var haldið niður með vestanverði Trölladyngju og niður í Sogagíg.

Grænavatnseggjar

FERLIRsfélagar í Grænavatnseggjum.

Sogagígur er vel gróinn og skjólsæll staður. Í honum er Sogasel, eða öllu heldur Sogselin, því tóftir selja má sjá á a.m.k. þremur stöðum sem og tvo stekki. Enn ein tóftin er utan við gíginn, uppi í Sogadal. Þarna var sel frá Kálfatjarnarhverfi og einnig áður frá Krýsuvík.
Gengið var upp Sogin. Þau eru 150-200 m djúpt leirgil sem mikill jarðhiti hefur verið í fyrrum og enn eimir af. Þarna má sjá merkilegt jarðfræðifyrirbæri. Svo til allur leir og mold, sem dalurinn hafði áður að geyma, hefur Sogalækur flutt smám saman á löngum tíma niður á sléttlendið og myndað Höskuldarvelli og Sóleyjarkrika, sléttar graselndur í hrauninu.

Sogalækur

Sogalækur.

Lækurinn er enn að og færir jarðveg úr Sogunum jafnt og þétt áfram áleiðis niður Afstapahraunið. Varla mun líða langur tími uns hann hefur hlaðið undir sig nægum jarðvegi til að ná niður í Seltóu, en þaðan mun leiðin greið niður í Hrístóur og áfram áleiðis niður í Kúagerði. Væntanlega mun síðasti áfanginn, í gegnum Tóu eitt, verða honum tímafrekastur.

Haldið var upp vestanverða hlíð Sogadals og upp að Spákonuvatni. Vatnið er í misgengi. Í því eru í rauninni tvö vötn. Sumir nefna þau Stóra-Spákonuvatn og Litla-Spákonuvatn, en aðrir nefna stærra vatnið einungis Spákonuvatn en hitt Sesseljutjörn eða Sesseljuvatn.

Sogin

Sogin.

Gengið var eftir Grænavatnseggjum til suðurs. Austan þeirra er Grænavatn í Krýsuvíkurlandi. Haldið var áfram suður á brún Selsvallafjalls (338 m.y.s.). Fjallið greinist frá Grænavatnseggjunum af smá dalverpi eða gili en um það liggur Þórustaðastígurinn upp á fjallið. Neðan undir vestanverðu fjallinu er eitt fallegasta gróðursvæðið á Reykjanesi, Selsvellirnir.
Á Selsvöllum var selstaða frá bæjum í Grindavík. Í sóknarlýsingu þaðan frá árinu 1840 er sagt að allir bæir í sókninni nema Hraun hafi þar í seli. Vogamenn hafa jafnan viljað halda því fram að Selsvellirnir hafi tilheyrt þeim, líkt og Dalsselið, en sá misskilningur hefur jafnan dáið út með gaumgæfninni.

Selsvellir

Horft að Selsvöllum frá Trölladyngju.

Seltóftir eru bæði á austanverðum Selsvöllum, undir Selsvallafjalli, og á þeim norðvestanverðum. Moshóll setur merkilegan og tignarlegan blæ á svæðið í bland við Keili.
Gengið var til norðurs með vestanverðum Selsvöllum, að Oddafelli. Þorvaldur Thoroddsen kallar það Fjallið eina. Þá er getið um útilegumenn nálægt Hvernum eina. Málið er að Fjallið eina er norðan undir Hrútargjárdyngju og þar er hellir, Húshellir, með mannvistarleifum í.
Oddafellið er lágt (210 m.y.s.) og um 3ja km langt. Tóftir Oddafellssels frá Minni-Vatnsleysu eru undir vesturrótum fellsins.
Frábært veður. Gangan tók 5 klst og 5 mín.

Heimildir m.a.:
-Örnefni og gönguleiðir í Vatnsleysustrandarhreppi – Sesselja G. Guðmundsdóttir.

Spákonuvatn

Spákonuvatn og Keilir.