Færslur

Bergsstaðir

Bergskot, einnig nefnt Auðnakot, á Vatnsleysuströnd getur í dag varla talist minnugt mörgum. Í “Aðalskráningu fornleifa í Sveitarfélaginu Vogum – Áfangaskýrsla I” árið 2011 er m.a. fjallað um kotið.

Bergskot

Bergskot – túnakort 1919.

“Bærinn var hlaðinn út torfi og grjóti og kringum hann voru grjótgarðar,” segir í örnefnaskrá. Bergskot er um 200 m suðaustan við bæjarhól Auðna. Í bókinni Mannlíf og mannvirki segir að Þórarinn Einarsson og Guðrún Þorvaldsdóttir hafi búið í Bergskoti til 1925 en þau eignuðust líka Höfða og sameinuðu jarðirnar. Líklega hefur verið hætt að búa í bænum 1925. Tengdasonur Þórarins byggði nýtt íbúðarhús um 30 m suðvestan við gamla bæinn og kallaði það Bergsstaði. Gamla Bergskotsjörðin fylgdi þó ekki húsinu.

Bergskot

Bergskot – tóttir. Bergsstaðir fjær.

Tóft bæjarins er í grösugu og tiltölulega flatlendu túni. Bergsstaðir, íbúðarhús, er fast vestan við bæjarhólinn. Ekki er að sjá greinilegan bæjarhól en umtalsverðar byggingar eru á bæjarstæðinu. Stór og greinileg bæjartóft sést á hólnum (Bergkotshól). Tóftin er um 14×14 m að stærð og skiptist í 3 hólf. Hún er grjóthlaðin og gróin.

Bergskot

Bergkotsbrunnur.

Bergkotsbrunnur var austan við bæinn. Brunnur þessi var hlaðinn innan, og var hann tæp mannhæð á dýpt. Vatn úr honum var notað handa skepnum og einnig til þvotta, en óhæft til drykkjar, svo sækja var neyzluvatn á næsta bæ, Landakot,” segir í örnefnaskrá.

“Bærinn var hlaðinn út torfi og grjóti og kringum hann voru grjótgarðar. … Túnið fyrir sunnan bæinn var nefnt Suðurtún. Það nær að Höfðatúni. Grjótgarðar skýldu túninu að, en grjótgarðslögin sjást enn að mestu leyti og skilja túnið frá óræktuðum móum og klöppum,” segir í örnefnaskrá. Túngarðurinn sést enn á stuttum kafla.

Bergskot

Bergskot.

Gísli Sigurðsson skráði örnefni í Auðnahverfi. Þar segir m.a.: “Innströnd byrjar við syðri landamerki Breiðagerðis. Auðnahverfi liggur þar innar. Þar eru bæirnir Auðnir, Höfði og Bergskot sem fyrrum nefndist Auðnakot og svo er eitt tómthús, Hóll.
Vestast í fjörunni er Bergskotsvör eða Bergskotslending. Milli fjöru og túna Auðnahverfis er Auðnakampur og þar á er sjávargarðurinn. Liggur hann allt inn að mörkum milli Auðnahverfis og Landakots. Við Bláklett taka við Bergskotsfjörur og þá taka við Höfðafjörur og þar er Höfðavör.
Bergskot stóð á Bergskotshól í Bergskotstúni en neðan hólsins.

Bergskot

Bergskot – útihús.

Ari Gíslason skráði örnefni fyrir Auðnar og Höfða. Þar segir: “Upp af Höfðatúni er gamalt býli sem heitir Bergskot og upp af því er Bergskotshóll með steinum eftir endilöngu og grasigrónum sprungum. Efri-Sundvarðan hefur verið nefnd fyrr og stendur hún á Þúfuhól sem er skammt austan tómthúsið Hól. Þá er talið að allt sé búið fyrir neðan veg.

Í ritinu “Mannlíf og mannvirku á Vatnsleysuströnd” frá árinu 1987 segir Guðmundur Björgvin Jónsson m.a. eftirfarandi um Bergskot: “Bergskot var einnig nefnt Borghús. Um 1900 voru í Bergskoti Árni Sæmundsson, f. 1862 og kona hans, Sigrún Ólafsdóttir, f. 1872.

Jón Guðbrandsson

Jón Guðbrandsson.

Árið 1902 flutti fjölskyldan burt úr hreppnum til Reykjavíkur en þá komu að Bergskoti Árni Þorláksson og kona hans, Helga.
Bergskot var í upphafi tómthús og áttu búendur þar ekki annarra kosta völ en að vinna hjá öðrum fyrir öllum nausynjum og var því oft stuttur stans á þessum kotum, enda var Árni Þorláksson ekki lengi í Bergskoti.
Næst komu í Bergskot Þórarinn Einarsson, 24 ára, með foreldra sína, Einar Einarsson og konu hans, Margréti Hjartardóttur. Þórarinn giftist Guðrúnu Þorvaldsdóttur frá Álftártungukoti í Álftaneshreppi. Þau voru þar til 1925. Þá voru þau búin að eignast jörðina sem þá var orðin grasbýli. Þegar Þórarinn keypti Höfða þá sameinuðust jarðirnar og er svo enn.
Þegar Jón Guðbrandsson, tengdasonur Þórarins, byggði upp Bergskot og kallaði nýja húsið Bergsstaði, þá fylgdi gamla Bergkotsjörðin ekki með”. sem fyrr sagði.

Heimildir:
-Aðalskráning fornleifa í Sveitarfélaginu Vogum – Áfangaskýrsla I, 2011.
-Mannlíf og mannvirku á Vatnsleysuströnd, Guðmundur Björgvin Jónsson, 1987.
-Örnefnalýsing Ara Gíslasonar.
-Örnefnalýsing Gísla Sigurðssonar.

Bergskot

Bergskot – túnakortið frá 1919 lagt ofan á loftmynd frá 2022.

Breiðagerði

Breiðagerði var bær á Vatnsleysutrönd. FERLIR knúði dyra á Breiðagerði 17., bústað Hólmgríms Rósenbergssonar, f: 1956 í Ormalóni á Sléttu. Gengið var í framhaldinu um bæjarstæði Breiðagerðis, en minjum á svæðinu hefur mikið verið raskað á tiltölulega skömmum tíma. T.d. hirtu starfsmenn Voga gamla bátaspilið ofan Breiðagerðisvarar og fleira í tiltekt fyrir nokkrum árum. Afraksturinn var sendur í eyðingu til Hringrásar. Hólmgrímur sagðist ekki eiga ættartengsl við staðinn, en hefði búið þarna um áratuga skeið.

Breiðagerði

Breiðagerði – Hólmgrímur Rósenbergsson við Breiðagerðisbrunninn.

Bæjarhóllinn í Breiðagerði sést enn vel. Hóllinn er allur mjög grasgefinn og vex mikið af þistlum á honum.

Í riti Guðmundar Björgvins Jónssonar (1987) um “Mannlíf og mannvirki í Vatnsleysustrandarhreppi” segir hann m.a. frá Breiðagerði: “Þríbýli var á jörðinni um aldamótin 1900 og að síðustu ábúendur fluttu af jörðinni um 1926.”
Bæjarhóllinn í Breiðagerði sést enn vel. Hann er litlu sunnan við sjávarkampinn, umkringdur nýbýlum og sumarbústöðum sem risið hafa á jörðinni á síðustu áratugum. Hóllinn er í litlu túni sem komið er í órækt. Íbúðarhús er litlu suðvestan við hann og fleiri hús eru nálægt honum til suðurs og suðausturs.
Bæjarhóllinn er um 54×30 m að stærð, snýr norðvestur-suðaustur. Hann er breiðastur í suðvesturenda. Norðausturhluti bæjarhólsins virðist vera náttúrulegur hóll en þó kunna að leynast í honum mannvistarleifar. Fast suðvestan við þann hól er steyptur húsgrunnur sem er um 5×8 m að stærð og snýr norðaustur-suðvestur. Önnur mannvirki er ekki að sjá á hólnum.

Breiðagerði

Brunnurinn í Breiðagerði.

Hóllinn er víðast um 2 m á hæð en hæstur í norðausturenda.
Hólmgrímur sagði að ætlunin hafði verið að reisa sumarhús á bæjarhólnum fyrir ca. 50 árum, þar var steyptur nefndur húsgrunnur, en ekkert meira varð úr framkvæmdunum.

Í “Aðalskráningu fornleifa í Sveitarfélaginu Vogum, Áfangaskýrsla II” frá árinu 2014 segir um sögu Breiðagerðis:
“Jarðadýrleiki er óviss, konungseign. JÁM III, 137.
9. september 1447: Bréf um jarðaskipti Einar Þorleifssonar og Steinmóðar ábóta í Viðey. Einar lét klaustrið í Viðey hafa jarðirnar, Voga (20 hdr), Hlöðunes (20 hdr), tvenna Ásláksstaði (40 hdr, Knarrarnes tvö ( 30 hdr), Breiðagerði fyrir (10 hdr). DI IV 707-708.

Breiðagerði

Breiðagerði – túnakort 1919.

13.9.1500: segir einnig að jörðin Breiðagerði á Strönd er í Kálfatjarnarkirkjusókn. DI VII, 513, 561.
30.5.1501: Viðeyjarklaustur kaupir Breiðagerði á Strönd fyrir 10 hdr. DI VII, 561.
1547-48 er jarðarinnar getið í fógetareikningum. DI XII, 115.
1584: Landskuld jarðarinnar til Viðeyjarklausturs 4 vættir fiska. Árni Óla: Strönd og vogar, 26.
1703: “Túnin spillast af sjáfarágángi og tjörn þeirri, sem innan garðs er. Engjar eru öngvar. Útihagar í lakasta máta og nær öngvir um vetur nema fjaran.” JÁM III, 137. 1919: Tún alls 2,4 teigar, garðar 1100m2.

Breiðagerði

Breiðagerði – uppfært túnakort.

Breiðagerðisbærinn stóð í Breiðagerðistúni innarlega og var túnið að mestu sunnan (vestan) bæjarins,” segir í örnefnaskrá [GS]. Í bókinni Mannlíf og mannvirki segir að þríbýli hafi verið á jörðinni um aldamótin 1900 og að síðustu ábúendur hafi flutt af jörðinni um 1926. Bæjarhóllinn í Breiðagerði sést enn vel. Hann er litlu sunnan við sjávarkampinn, umkringdur nýbýlum og sumarbústöðum sem risið hafa á jörðinni á síðustu áratugum.
Bæjarhóllinn er í litlu túni sem komið er í órækt. Íbúðarhús er litlu suðvestan við hann og fleiri hús eru nálægt honum til suðurs og suðausturs.

Breiðagerði

Breiðagerði – túnakortið frá 1919 sett ofan á nútíma loftmynd ásamt skráðum fornleifum.

Bæjarhóllinn er um 54×30 m að stærð, snýr norðvestur-suðaustur. Hann er breiðastur í suðvesturenda. Norðausturhluti bæjarhólsins virðist vera náttúrulegur hóll en þó kunna að leynast í honum mannvistarleifar. Fast suðvestan við þann hól er steyptur húsgrunnur sem er um 5×8 m að stærð og snýr norðaustur-suðvestur. Önnur mannvirki er ekki að sjá á hólnum. Hóllinn er allur mjög grasgefinn og vex mikið af þistlum á honum. Hann er víðast um 2 m á hæð en hæstur í norðausturenda.”

Ari Gíslason skráði örnefnalýsingu fyrir Auðna og Höfða:

Breiðagerði

Breiðagerði – útihús.

“Jarðir á Vatnsleysuströnd næstar við Knarrarnes. Upplýsingar gaf Þórarinn Einarsson á Höfða. Þess er þá fyrst að geta að 1703 og bæði fyr og síðar var jörð sem Breiðagerði hét næst við Knarrarnes og eftir landskuld að dæma hefur það verið með stærri býlum hér á þessum slóðum. Breiðagerði hafði þá sín sérstöku merki, þar var þríbýli og eins mikið land eða meira en Höfðinn og Auðnir til samans. Víkin sem hér er á milli, heitir enn Breiðagerðisvík.”

Gísli Sigurðson skráði örnefnu Breiðagerðis og nágrennis:

Breiðagerði

Breiðagerðisvör – bryggja ofan vararinnar.

“Breiðagerðisbærinn stóð í Breiðagerðistúni, innarlega, og var túnið að mestu sunnan (vestan) bæjarins. Breiðagerðisbrunnur var sunnan bæjar. Heiman frá bæ lá sjávarstígurinn niður á kampinn. Breiðagerðisgata lá frá bæ upp á þjóðveginn. Á kampinum stóð Sundvarða, Neðri-). Á mörkunum milli Breiðagerðis og Auðnahverfis var Þúfuhóllinn og litlu ofar Sundvarðan, Efri-). Að sunnan lá landamerkjalínan um Geldingahólinn, Nyrðri-.

Litlistekkur

Litlistekkur.

Þar var í heiðinni Litlistekkur og Breiðagerðisskjólgarður, þar var einnig klettur nefndur Latur eða Breiðagerðislatur. Að innan lá landamerkjalínan upp frá Þúfuhól um Markavörður upp heiðina í Auðnaklofninga. Tók þá við Hrafnagjá sem lítið bar á er þarna var komið. Lína lá svo áfram upp yfir Klifgjá um Gjárnar. Þarna er að finna Breiðagerðissel. Síðan eru í landi Breiðagerðis Keilisbróðir, Nyrðri- og Litli-Hrútur og eru því Brúnir og Fjallið að einhverju leyti í landinu.”

Breiðagerðissel - Auðnasel

Auðnasel og Breiðagerðissel – uppdráttur ÓSÁ.

Í skýrslu um “Deiliskráningu vegna áforma um byggingu frístundabyggðar í landi Breiðagerðis á Vatnsleysuströnd” árið 2022 segir m.a.:
1703: Jarðadýrleiki er óviss, konungseign. JÁM III, bls. 137.
09.09.1447: Bréf um jarðaskipti Einar Þorleifssonar og Steinmóðar ábóta í Viðey. Einar lét klaustrið í Viðey hafa jarðirnar, Voga (20 hdr), Hlöðunes (20 hdr), tvenna Ásláksstaði (40 hdr, Knarrarnes tvö ( 30 hdr), Breiðagerði fyrir (10 hdr). DI IV, bls. 707-708.
13.9.1500: segir einnig að jörðin Breiðagerði á Strönd er í Kálfatjarnarkirkjusókn. DI VII, bls. 513, 561.
30.5.1501: Viðeyjarklaustur kaupir Breiðagerði á Strönd fyrir 10 hdr. DI VII, bls. 561.
1547-48 er jarðarinnar getið í fógetareikningum. DI XII, bls. 115.
1584: Landskuld jarðarinnar til Viðeyjarklausturs 4 vættir fiska. Árni Óla, bls. 26.

Breiðagerði

Breiðagerðisvör.

Jörðin hefur verið í eyði frá 1926 og liggur undir Auðnum. Þar var þríbýli um aldamótin 1900.
Neðan Vatnsleysustrandarvegar í landi Breiðagerðis er húsaþyrping þar sem aðallega eru sumarbústaðir en einnig íbúðarhúsnæði.
1919: Tún alls 2,4 teigar, garðar 1100 m2.
1703: „Túnin spillast af sjáfarágángi og tjörn þeirri, sem innan garðs er. Engjar eru öngvar. Útihagar í lakasta máta og nær öngvir um vetur nema fjaran.“ JÁM III, bls. 137.

Breiðagerði

Breiðagerði 2022 – loftmynd.

Í “Mannlífi og mannvirki í Vatnsleysustrandarhreppi eftir Guðmund Björgvin Jónsson (1987) segir um Breiðagerði:
“Nú er komið yfir landamerki á milli Knarrarnesbæjan og Auðnahverfis. verður þá fyrst fyrir jörðin Breiðagerði og láta mun nærri að þar hafi verið þríbýli um aldamótin. Í Breiðagerði bjuggu hjónin Sveinn Sæmundsson, bóndi, f: 1861 og kona hans Elín Sæmundsdóttir, f: 1860. þau voru síðustu búendur í Breiðagerði og fluttu til hafnarfjarðar um 1926 og bjuggu þar til æviloka. Þau áttu tvö börn, Guðrúnu, sem bjó í Sandgerði og Sesselju. Man ég þau hjón vel og þáði oft góðgerðir hjá þeim, enda nokkur gestanauð á heimilinu, því öllum þurfti aað gefa kaffisopa er þangað áttu erindi, sér í lagi þeim sem langt voru að komnir. Eitt lítið minningarbrot læt ég fylgja hér með. Þannig var að Sveinn átti “þarfanaut” og þegar bændur úr sveitinni fóru með gripi sína að Breiðagerði, þá þurfti að “reka á eftir” og höfðu ég og mínir jafnaldrar það embætti og uppskárum rúgköku með bræðingi ofaná hjá Elínu.

Breiðagerði

Breiðagerði – sundvarðan Neðri.

Þurrabúð 1. Þar bjuggu Hafliði Hallsson, f: 1862 og kona hans, Guðríður Torfadóttir, f: 1867.
Þurrabúð 2. Þar bjuggu Sumarliði Matthíasson, f: 1841 og kona hans, Þorbjörg Ólafsdóttir, f. 1847. Breiðagerði tiheyrir nú Auðnalandi og meirihluti af Breiðagerðislandi hefur nú verið látinn undir sumarbústaði.”

A sögn Hólmgríms var hlaðinn brunnur skammt norðar. Brunnurinn var grjóthlaðinn í lægð í túninu. Hann hefði byrgt brunninn fyrir um 40 árum með bárujárni og er það enn á sínum stað til að koma í veg fyrir slys. Áður var hlaðinn aflíðandi gangur niður að brunninum og hann hlaðinn niður, en nú sést ekki ofan í brunninn. Enn sést móta fyrir brunnganginum.

Breiðagerði

Breiðagerði – Sundvarðan Efri.

“Breiðagerðisnaust var upp frá fjörunni var allt eins kenndur við bæinn, Breiðagerðiskampur. Á honum var innarlega Breiðagerðisnaust og Breiðagerðisbúð og fram undan var svo Breiðagerðisvör, sem allt eins var nefnd Breiðagerðislending …,” segir í örnefnaskrá.
Naustið var að líkindum þar sem merking er á túnakorti frá 1919 að mannvirki hafi verið á varnargarði/túngarði, um 120 m norðaustan við bæ. Við deiliskráningu árið 2016, sem unnin var vegna fyrirhugaðra sjóvarna í Breiðagerðisvík, fundust leifar af varnargarðinum á tveimur stöðum til viðbótar.
Breiðagerðisnaust var í lítilli vík á milli klappar á merkjum móti Auðnum og lítillar klappar til vesturs. Fjaran þar á milli er grýtt klapparfjara. Á sjávarkampinum er gróið en grýtt.

Heimildir:
-Aðalskráning fornleifa í Sveitarfélaginu Vogum, Áfangaskýrsla II – 2014.
-Breiðagerði á Vatnsleysuströnd, Deiliskráning vegna áforma um byggingu frístundabyggðar – 2022.
-Mannlíf og mannvirki í Vatnsleysustrandarhreppi. Guðmundur Björgvin Jónsson, 1987.

Breiðagerði

Breiðagerði – gamli vagnvegurinn (Almenningsvegurinn) að Knarrarnesi. Í fornleifaskráningu frá 2022 er vegagerðin skráð sem “garður”!?

Hringurinn

Gengið var í meginminjarnar á Strandarhæð milli Þórustaðaborgar og Hringsins (fjárborg).

Prestsvarða

Prestsvarða.

Haldið var upp frá Prestvörðunni ofan við Kálfatjörn með stefnu á Skálholt. Skálholt er flatt og breitt holt ofan við Landakot skamt ofan Strandarvegar. Á holtinu er leifar að þremur vörðum og leifar að litlu grjótbygri með vörðu í. Skammt vestur af Skálholti (ofan við veginn) er fjárhústóft á grónum hól. Skammt ofan við Skálholt er beinhlaðin hleðsla, skjól fyrir refaskyttu. Neðan hennar liggur símastrengurinn til vesturs og austurs. Víða í heiðinni má sjá hlaðið yfir strenginn.

Upp og suður af Skálholti er Auðnaborg í grasmóa sunnan í grösugum hól. Þetta er nokkuð heillegt rétt með stórum almenningi efst og tveimur dilkum, en uppi á hólnum við réttina eru tvær rústir. Einnig mótar fyrir litlum stekk neðan og vestan við borgina, en engar heimildir eru um nafn hans. Leiðigarður er í borgina úr norðvestri. Erfitt er að mynda alla réttina vegna þess hversu “flatlend” hún er. Gömul gata virðist ligga upp með réttinni að vestanverðu.

Auðnaborg

Auðnaborg.

Þá var stefnan tekin á grösugan hól nokkru suðvestar. Holtið þar nefnist Borg. Á holtinu eru rústir af beitarhúsum, tvær tóftir hlið við hlið. Litlu neðar í holtinu er greinilega nýrri fjárhústóft. Vatnsstæði í klöpp, sem vera á ofan og austan við efri rústina var þurrt að þessu sinni.
Í fjarska vestur af blasir við hár aflangur hóll, Arnarbæli. Í suðri er annar reglulegur grsahóll, Lynghóll. Stefnan var tekin á hann. Norðan við hólinn er nokkuð sléttlent. Á sléttunni er gömul fjárborg (hér nefnd Lynghólsborg) með leiðigarði til suðurs. Borgin er upp á litlum hrygg og er sýnilegust úr vestri.

Kúadalur

Stekkur (rétt) í Kúadal.

Ofan sléttlendisins austan af Lynghól er stór hlaðinn grjóthringur uppi á klapparhól og er hann um átta metra í þvermál. Innan í honum er sléttur bali. Vegghæðin er mjög lítil og svo virðist sem þarna hafi átt að byggja fjárborg á stærð við Staðarborgina, en hætt hafi verið við verkið af einhverjum ástæðum.
Stefnan var tekin til norðvesturs með vestanverðu Arnarbæli. Þar, austan girðingar, hvílir Kúadalur, gösug dalkvos. Í henni er heillegur og fallega hlaðinn stekkur, tvíhólfa. Þarna er líklega um að ræða stekk frá Ásláksstöðum. Ofar í holtinu, að norðanverðu, mótar fyrir gömlum stekk eða öðrum mannvirki.

Fornistekkur

Fornistekkur.

Gengið var norður og austurmeð Arnarbæli, áleiðis að brekkum mót norðvestri þar nokkru austar. Þar uppi á holtinu er enn einn stekkurinn, Fornistekkur. Utan í brekkunni má sjá móta fyrir gömlum hleðslum, sennilega enn eldri stekk – í skjóli fyrir suðaustanáttinni.
Gengið var niður á Gamlaveg. Hann liggur frá Breiðagerði og svo til beint yfir heiðina og mætir Strandarvegi aftur nokkuð fyrir sunnan Brunnastaðahverfið. Víða er um kílómetra leið frá bæjum að veginum, sem þótti langt enda um klappir ogholt að fara, oft með þungar byrðar. Bændur hfðu þar hver sitthlið og brúsapall og á einstal astað má enn sjá merki um hlið og götu frá veginum í átt til bæja.

Almenningsvegur

Gengið um Almenningsveg.

Strandarbændur undu ekki vegarstæðinu og börðust hart fyrir vegi nær byggðinni. Árið 1930 var nýr vegur gerður og Gamlivegur lagður af með lítilli eftirsjá bænda í Ásláksstaða-, Hlöðunes, og Brunnastaðahverfi.
Á gömlum kortum er Strandarheiði eyðimörk. Það var ekki fyrr en Sesselja Guðmundsdóttir lagði það á sig að ganga heiðina og safna markvisst örnefndum og minjastöðum á henni að heiðin varð “opinberuð” fáfróðum. Áður fyrr, líkt og á svo mörgum stöðum öðrum, veit einstaka maður um merka staði og forn mannvirki á afmörkuðum svæðum, en að honum gegnum hverfur (því miður) öll sú dýrmæta vitneskja. En það er fyrir áeggjan, ósérhlífni og dugnað fárra, sem örnefnunum og vitneskju, sem enn er fyrir hendi, hefur þó verið haldið við. Hlutur þeirra hefur jafnan verið vanmetin, en verður seint ofmetin.
Í bakaleiðinni lék sólin við hafflötinn.
Veður var frábært – stilla og hiti. Gangan tók 2 klst og 22 mín.

Heimild: Örnefni og gönguleiðir í Vatnsleysustrandarhreppi, Sesselja G. Guðmundsdóttir, 1995, bls. 29 –39.

Lynghólsborg

Lynghólsborg.

Sogin

Gengið var um Lambafellsklofa og Trölladyngju.

Lambafellsklofi

Lambafellsklofi.

Lambafellsklofi er stundum nefndur Lambagjá í Lambafelli. Um er að ræða sprungu, sem myndast hefur eftir misgengi um mitt fellið. Gjáin er nokkuð há og gaman að ganga um hana. Gengið er inn í gjána að norðanverðu og síðan liggur leiðin upp á við í suðurendanum. Ofar má sjá misgengið liggja áfram í gegnum fellið til suðurs. Hraun hafa runnið allt umhverfis. Tófugras vex á gjárbörmunum. Skemmtilegast er að fara um gjána er líða fer á sumarið, en þá er hún jafnan þakin fiðrildum, sem safnast þar saman í skjólinu. Þar sem fyrir liggur lýsing um þetta svæði fer hér á eftir lýsing á því er finna má á vef Hitaveitu Suðurnesja; Fréttaveitunni:
Eftir að áhugi jókst á Trölladyngjusvæðinu, og ekki sízt eftir að tilraunaboranir hófust, hefur nokkuð borið á, að menn færi til og teygi örnefni á svæðinu, svo sem Sog, sem sumir eru búnir að færa allt niður á núverandi borsvæði. Þetta er í sjálfu sér ekki ný bóla. Má t.d. benda á, að eftir að Suðurnesjavegur var skírður Reykjanesbraut og Reykjaneskjördæmi varð jafnframt til, heitir Reykjanesskaginn Reykjanes, Reyknesingar búa allt upp í Hvalfjörð og austur í Ölfus, og orkuver Hitaveitu Suðurnesja er sagt í Svartsengi, enda þott það hafi risið í Illahrauni, sem er í nágrenni Svartsengis.

Keilir

Keilir – handan hraunsins.

Vatnsleysuströndin hefur ekki af mörgum fjöllum að státa, en þau eru þeim mun merkilegri. Þar er Keilir og þar er Vesturháls eða Trölladyngjur, einhverjar merkustu eldstöðvar hér á landi.
Guðmundur G. Bárðarson jarðfræðingur, sem manna mest hefur rannsakað Reykjanesskaga, taldi að hann mundi vera yngsti skag á Íslanda og skapaður af eldgosum. Hann telur skagann því mjög girnilegan til fróðleiks fyrir eldfjallafræðinga. Hér sé svo að segja allar gerðir eldfjalla, gíga og yngri eldmyndana, sem finnist á Íslandi. Móbergsfjöllin hafi jafnvel myndazt við eldgos.

Lambafellsgjá

Lambafellsgjá.

Og Þorvaldur Thoroddsen sagði um eldgígana hjá vestanverðum Núpshlíðarhálsi, að þær gosstöðvar væri mjög merkilegar, því að þær sýni augljóslega hvernig eldgos verða, og hvergi sjáist neitt þessu líkt á Íslandi, og þótt víðar væri leitað.
Það eru tveir brattir og langir hálsar, sem liggja samhliða um miðjan Reykjanesskaga, og eru einu nafnir nefndir Móhálsar. En til aðgreiningar voru þeir kallaðir Austurháls og Vesturháls. Nú er Austurhálsinn alltaf kallaður Sveifluháls, og sunnan að honum er Kleifarvatn og Krýsuvík.
Vesturhálsinn er eins og ey í ólgandi hraunhafi, en hefir það til síns ágætis, að hann er grösugur og víða eru þar tjarnir og lækir, en slíkt er mjög fátítt á Reykjanesskaga. Hann mun upprunalega hafa verið kallaður einu nafni Trölladyngjur, en nú heitir hann ýmsum nöfnum. Nyrzt á honum eru tvö mikil fjöll, Trölladyngja (375 m) og Grænadyngja (393 m).

Sog

Trölladyngja og Grænadyngja (t.h.) – Sogin nær.

Trölladyngja er hvass tindur og blasir við í suðri frá Reykjavík. Í kyrru veðri má þar oft sjá reyki mikla, enda er þar mikill jarðhiti, hverir margir og gufur upp úr hrauninu. Grænadyngja er aftur á móti kollótt og auðvelt að ganga á hana. Þaðan er mjög vítt útsýni. Sér vestur á Eldey og austur til Kálfstinda, en Reykjanesskaginn blasir allur við og má glögglega greina upptök hinna ýmsu hraunelfa og hvernig þær hafa ruðzt hver ofan á aðra. Fyrir sunnan Dyngjurnar er skarð í hálsinn og heitir Sog, og er þar 400-500 feta djúpt gil. Þar fyrir sunnan hækkar svo hálsinn aftur og kallast þar Grænavatnseggjar, hvass fjallshryggur. Þar fyrir sunnan heitir svo Selsvallafjall og Núpshlíðarháls og nær hann vestur í Ögmundarhraun.

Ögmundarhraun

Ögmundarhraun – loftmynd.

Flest hraunin á Reykjanesskaga hafa runnið fyrir landnámstíð. Þó geta annálar þess nokkrum sinnum, að eldur hafi verið uppi í Trölladyngjum, svo sem 1151, 1188, 1340, 1360, 1389-90 og 1510. Um gosið 1340 segir Gísli biskup Oddsson, að þá „spjó Trölladyngja úr sér allt til hafs við sjávarsveit þá, er kölluð er Selvogur”. Margir hafa dregið í efa, að þetta geti verið rétt, því að hraun úr Trölladyngju hafi ekki getað runnið niður í Selvog, þar sem há fjöll sé á milli. Þessir menn hafa rígbundið sig við örnefnin Trölladyngju og Selvog, eins og þau eru nú notuð, en gá ekki að því, að þau voru yfirgripsmeiri forðum. Þá var allur Vesturháls nefndur Trölladyngja, en „í Selvogi” mun hafa verið kölluð ströndin þaðan og vestur að Selatöngum.

Einihlíðar

Tröll í Einihlíðum norðan Lambafells.

Margir staðir hér á landi eru kenndir við tröll, og svo var einnig í Noregi. Má því vera að sum nöfnin hafi landnámsmenn flutt með sér hingað. Um uppruna nafnsins Tröllaödyngja vita menn ekkert, má vera að mönum hafi þótt „dyngjan” svo ferleg, að hún hæfði tröllum einum. Vera má og, að menn, sem aldrei höfðu séð eldgos fyrr en þeir komu hingað, hafi haldið að á eldstöðvunum byggi einhverjar vættir og fest trú á hin reykspúandi fjöll.
Landnáma getur þess um Hafurbjörn Molda-Gnúpsson (þeir námu Grindavík), að hann dreymdi að bergbúi kæmi að honum og byði að gera félag við hann, og þá Björn það.

Valahnúkar

Valahnúkar – tröll.

Bergbúar geta verið með ýmsum hætti. Sumir bergbúar voru landvættir. Það er dálítið einkennilegt, að Landnáma getur hvergi landvætta nema á Reykjanesskaga, og segir: „Það sá ófresk kona, að landvættir fylgdu Hafurbirni þá er hann fór til þings, en Þorsteini og Þórði bræðrum hans til veiða og fiski.” Því má vera, að Hafurbjörn hafi talið, að bergbúi sá, er hann gerði félag við, hafi verið landvættur og átt heima í Trölladyngju.

Snorri Sturluson segir frá því í Heimskringlu, að Haraldur Gormsson Danakonungur þóttist þurfa að hefna sín á Íslendingum vegna þess að þeir höfðu orkt um hann níðvísu á nef hvert.

Víkarskeið

Víkarskeið – gleymt örnefni við Ölfusárósa.

Sendi kóngur til Íslands fjölkunnugan mann í hvalslíki til njósna. En hann komst hvergi á land fyrir landvættum. Þegar hann ætlaði seinast að ganga á land á Víkarsskeiði, þá „kom í mót honum bergrisi og hafði járnstaf í hendi, og bar höfuðið hærra en fjöllin, og margir aðrir jötnar með honum”. Þetta voru landvættir. Bergbúinn mikli, sem fyrir þeim var, skyldi þó aldrei vera sá, sem Trölladyngja er við kennd, Hafurbjörn bónda dreymdi, og nú er í skjaldarmerki Íslands?

Keilir

Vegur að Höskuldarvöllum. Keilir fjær.

Vatnsleysubændur hafa nýlega gert akfæran veg að Trölladyngju og er hann um 10 km. Er þá fyrst komið á Höskuldarvelli, en það er einhver stærsti óbrennishólminn á Reykjanesskaga. Er þar vítt graslendi, sem nær frá Trölladyngju langt út í Afstapahraun, eða er þó öllu heldur tunga milli þess og Dyngjuhrauns.

Norður úr Trölladyngju gengur rani og úr honum hafa mestu gosin komið. Vestan í honum er röð af stórkostlegum gígum og eru tveir þeir syðstu langstærstir. Minni gígarnir eru sumir eins og glerjaðir innan og með ávölum brúnum. Aðrir eru eins og steyptir geymar eða stórkeröld úr járni. Menn ætti að fara mjög varlega hjá gígum þessum og ganga ekki tæpt út á brúnir þeirra, því limlestingar eða bani er búið hverjum þeim, sem í þá fellur.

Eldborg

Eldborg.

Norðan við Trölladyngju er stór, gamall og rauður eldgígur, sem nefnist Eldborg. Hann er um 70 fet á hæð [Eldborgin, sem á mínum skátaárum var nefnd Jónsbrenna, er nú ekki orðin svipur hjá sjón, því vegurinn, sem fyrr er getið, var einmitt lagður til að ná í hraungjall úr hlíðum hennar. (Ath.semd ritstj.)]. Milli hans og fjallsins er mikill jarðhiti og koma vatnsgufur þar víða upp, allt inn að Höskuldarvöllum og út að Sogi. Fara má norðan við fjöllin og austur fyrir þau. Blasir þá við fell skammt norðaustur í hrauninu. Kallast það Mávahlíðar. Þar eru einnig stórkostlegar gosstöðvar. Rétt fyrir neðan efsta toppinn á þeim (237 m) er stór gígur, allur sundur tættur af eldsumbrotum. Héðan hafa runnið mikil hraun, og sum eftir landnámstíð.

Fengið að láni úr bók Árna Óla, „STRÖND OG VOGAR – ÚR SÖGU EINNAR SVEITAR Í LANDNÁMI INGÓLFS ARNARSONAR”, sem Bókaútgáfa Menningarsjóðs gaf út árið 1961.

http://hs.is/frettaveitan/greinar.asp?grein=360

Eldborg

Eldborg undir Dyngju.

Knarrarnessel

Birgir Þórarinsson slóst með í för eftir að hinn litskrúðugi heimahani á Minna-Knarrarnesi hafði tekið á móti þátttakendum á hlaðinu. Hvita-Táta skokkaði um hlaðið og dillaði skottinu. Hún vissi greinilega hvað stóð til.

Knarrarneskirkja

Minna-Knarrarnes.

Hellirigning hafði verið á svæðinu, en við komu FERLIRs stytti upp. Geislar sólarinnar böðuðu tún og móa. Kríuungi kúrði undir girðingu og reyndi að láta fara lítið fyrir sér. Mamman heimtaði alla athyglina.
Fyrst benti Birgir á leturstein í formi myllusteins. Hann hafði hreinsað mosann af steininum og í ljós hafði komið ártalið 1823. Þá benti hann á svonefnt Brandsleiði á túninu suðaustan við íbúðarhúsið, aftan við garðinn er nú umlykur nýju kirkjuna. Það er lítill hóll sem lítur út fyrir að vera forn dys. Birgir sagði að ekki mætti slá hólinn því sú væri trú manna að hann væri álagablettur. Benjamín Eiríksson, sem alist hafði upp á Minna-Knarrranesi, hafði haft orð á því að þarna væri líklegast fornmaður grafinn. “Dysin” er ofarlega í túnkantinum, svo til beint fyrir ofan innsiglinguna í vörina, líkt og Flekkuleiði í Flekkuvík. Þar lét Flekka gamla dysja sig er hún hafði útsýn að innsiglingunni. Gæti verið eitthvað hliðstætt.

Árnastekkur

Árnastekkur.

Gengið var frá Hellum handan Strandarvegar og litið á Árnastekk skammt suður af bænum. Um er að ræða nokkuð stórt hlaðið gerði. Birgir sagði að grjót hafi sennilega verið tekið úr gerðinu og notað í höfnina í Vogum á sínum tíma. Þó mátti vel sjá neðsta lagið, sem var orðið nokkuð jarðlægt. Inni í gerðinu er tóft. Stekkurinn sjálfur er í og utan í gerðinu að norðanverðu. Sést vel móta fyrir honum við girðingu vestan við klapparhól, sem þar er. Ekki er vitað hvaða Árna stekkurinn eða gerðið er nefnt eftir. Sumir telja að þar eigi að standa Arnarstekkur, en úr þeirri missvísun verður sennilega seint ráðið. Minjarnar standa fyrir sínu samt sem áður.
Haldið var upp á línuveginn ofan Reykjanesbrautar eftir að kíkt hafði verið á hlaðna refagildru í vörðu á leiðinni skammt norðan við Hrafnagjá. Staðnæmst var við vörðu við Knarrarnesselsstíginn.

Knarrarnessel

Knarrarnessel – Leirflagsvatnsstæðið.

Stígnum var fylgt áleiðis í selið. Hann er greinilegur svo til alla leiðina ofan Hrafnagjár. Bæði eru vörður eða vörðubrot við hann og þá er hann einkar áberandi þar sem farið er yfir gjárnar á leiðinni. Þar sem farið er yfir Klifgjá eru t.d. vörður beggja vegna gjárinnar. Á einum stað, á klapparholti, er selsstígurinn markaður í klöppina. Skammt vestan við brúna yfir gjána er lítil varða við svonefnt Knarranesselsgreni. Ofan við gjána er Leirflagsvatnsstæðið. Norðvestan þess eru leifar tveggja skotbyrgja refaskyttna, en þriðja byrgið og það fallegasta er sunnan við vatnsstæðið. Vatnsstæðið sjálft var alveg þurrt þegar komið var að því, þrátt fyrir allnokkra rigningu fyrr um daginn.

Knarrarnessel

Varða ofan Knarrarnessels.

Þegar komið er að Knarrarnesseli sjást tvær vörður. Norðan þeirra er vatnsstæðið. Allnokkurt vatn var í því að þessu sinni, enda er þetta vatnsstæði talið hafa verið með þeim stærri í heiðinni. Selið sjálft er á nokkuð sléttri hraunhæð og í því eru margar tóftir. Sjá má a.m.k. tóftir á fjórum stöðum. Hverri þyrpingu fylgir stekkur. Fyrst var fyrir fyrir selsstaða með eldhúsi og þremur öðrum rýmum. Stekkur var norðan hússins. Vestan við það sást móta fyrir miklu mun elda seli með tveimur tóftum. Þær eru greinilega með öðru lagi en eldri seltóftirnar. Stekkur þess virðist vera leifar jarðlægs stekks svolítið vestar. Forvitnilegt væri að grafa þessar minjar upp, svona til að athuga hvernig lag þeirra er.

Knarrarnessel

Knarrarnessel.

Sunnar er stærstu tóftirnar. Í þeim er eldhús og tvö rými (hefðbundið sel á Reykjanesi). Suðvestan þess er tvískiptur stekkur. Handan við holtið að suðaustanverðu eru tóftir enn annars sels. Í því er eldhús og viðverurými. Vestan þess eru tvær aðrar tóftir með hleðslum á milli.Â
Talið er að flestir bæir í Knarraneshverfi hafi haft þarna selstöðu. Getið erum Litla-Knarrarnessel og Ásláksstaðasel á þessum stað. Rétt fyrir ofan selið er stór gjá. Gjáselsgjá er framhald hennar til vesturs. Gjáselið sást vel þegar gengið var áleiðis uppí Knarrarnesselið.

Knarrarnesssel

Stekkur í Knarrarnesseli.

Ofan við Knarrarnessel, með stefnu í Keili, er Vandarholt. Nafnið er talið vera vegna þess að vandasamt hafi verið að reka fé niður svæðið og yfir gjána.
Norðaustan frá selinu er Breiðagerðisslakki. Í apríl 1943 hrapaði þýsk Junkers könnunarflugvél niður í þennan slakka. þrír fórust, en loftskeytmaðurinn komst lífs af í fallhlíf, lítið meiddur. hann var fyrst þýski flugliðinn sem bjargaðist úr flugvél sem skotin var niður yfir Íslandi og jafnframt sá fyrsti sem Bandaríkjamenn tóku höndum í Seinni heimstyrjöldinni. Lík þeirra sem fórust voru grafin í upphafi við Brautarholt á Kjalarnesi, en eftir stríðið voru þau flutt í Fossvogskirkjugarðinn. Enn sést nokkuð af brotum úr vélinni.

Eldborgir

Eldborgir.

Suðsuðaustur af Knarranesseli eru Eldborgir, níu gígar í röð er mynda m 900 metra langan hrygg. Austast í Eldborgum er skotbyrgi við greni. Vestast eru Eldborgargren, s.s. Hólsgrenið, Skútagrenið, Hellisgrenið, Brúnagrenið og Sléttugrenin. Við þau eru a.m.k. þrjú hlaðin skotbyrgi. Eitt af þeim er sýnu stærst. Ekki var að sjá að refur væri í grenjunum núna, því ef svo væri færi það varla á milli mála.

Eldborgargren

Skjól refaskyttu í Eldborgargrenjum – fyrrum landamerkjavarða?

Gíslhóll er stuttu ofan við eystri hluta Eldborganna og á honum er varða. Spölkorn sunnan hólsins er Eldborgarvatnsstæðið eða Gíslhólsvatnsstæðið í gróinni lægð og situr vatn þar langt fram, eftir sumri.
Norðnorðvestan við Eldborgargrenin var gengið fram á enn eitt skotbyrgið í heiðinni. Sunnan þess er greni. Austan þess er mjög gömul hlaðin refagildra yfir grenjaopi. Svo er að sjá sem þarna séu minjar enn eldri veiðiaðferða en síðar tíðkaðust með skotvopnum. Líklegt er að maðurinn hafi löngum reynt að vinna þarna á skolla, enda mörgum grenjum fyrir að fara á tiltölulega litlu svæði.

Eldborgargren

Eldborgargren.

Landamerki Minna-Knarrarness eru sögð liggja í beina línu upp í Eldborgargrenin. Ofan þeirra er “bjartur” áberandi hraunhóll. Neðar, á breiðu “hvalbaksklapparholti” eru merki eftir gamla vörðu. Tvær minni hafa verið hlaðnar úr henni, en eru nú einungis brot. Fótur þeirra gömlu stendur enn. Í beina línu frá Eldborgargrenjunum í gegnum þessa vörðu er enn annað gróið vörðubrot á klapparhól. Af honum sést íbúðarhúsið í Minna-Knarrarnesi. Á milli er áberandi stór varða á klapparhól skammt norðan línuvegarins. Þessar vörður mynda beina línu frá Minna-Knarrarnesi í ljósan hraunhól skammt ofan við vestasta gígin í Eldborgum, þ.e. örskammt vestar og ofar en þar sem flest Eldborgargrenin eru.
Frábært veður – sól og stilla – og hiti. Gangan tók 3 klst og 43 mín.

Heimildir m.a.:
-Örnefni og gönguleiðir á Vatnsleysuströnd eftir Sesselju G. Guðmundsdóttur.

Knarrarnessel

Knarrarnessel – uppdráttur ÓSÁ.

Staðarborg
Gengið var að Staðarborg á Strandarheiði. Lagt var upp frá Prestsvörðu sunnan Strandarvegar skammt austan afleggjarans að Kálfatjörn.
Staðarborg

Staðarborg.

Ofar eru svonefndar Klifflatir. Vörður eru á leiðinni svo auðvelt er að nálgast borgina. Staðarstekkur er í lágum hól skammt norðan við hana.
Staðarborg er hringlaga fjárborg, hlaðin eingöngu úr grjóti og er hverjum steini hagrætt í hleðslunni af hinni mestu snilld. Vegghæðin er um 2 m og þvermál að innan um 8 m. Ummál hringsins að utanverðu er um 35 m. Gólfið inni í borginni er bæði slétt og gróið.
Ekki er vitað hvenær borgin var hlaðin upphaflega, en menn telja hana nokkur hundruð ára gamla. Fjárborgir voru víða hlaðnar í heiðinni. Sumar eru horfnar í svörðinn. Sérstök hús yfir fé voru ekki byggð fyrr en í byrjun 20. aldar. Þangað til var það vistað í fjárskjólum (hellum og hraunskútum) nærri bæjum. Tilgangur borganna var að veita fé, sem var á útigangi, skjól í vondum veðrum.

Staðarborg

Staðarborg.

Munnmæli herma að maður að nafni Guðmundur hafi hlaðið borgina fyrir Kálfatjarnarprest. Guðmundur vandaði vel til verka, safnaði grjóti saman úr nágrenninu, bar það saman í raðir og gat einnig valið þá hleðslusteina sem saman áttu. Ætlun hans var að hlaða borgina í topp. En er hann var nýbyrjaður að draga veggina saman að ofanverðu kom húsbóndi hans í heimsókn. Sá hann þá strax í hendi sér að fullhlaðin yrði borgin hærri en kirkjuturninn á Kálfatjarnarkirkju og tilkomumeiri í alla staði. Reiddist hann Guðmundi og lagði brátt bann við fyrirætlan hans. En þá fauk í Guðmund svo hann hljóp frá verkinu eins og það var og hefur ekki verið hreyft við borginni síðan. Staðarborg var friðlýst sem forminjar árið 1951.

Staðarborg

Staðarborg.

Borgin er í þægilegu göngufæri frá Strandarvegi, u.þ.b. miðja vegu á milli hans og Reykjanesbrautar. Vestar eru nokkrar gamlar fjárborgir, sem áhugavert er að skoða, s.s. Þórustaðaborg, Auðnaborg, Lynghólsborg, Hringurinn og Gíslaborg.

Sagan segir að fyrrum hafi þversteinn verið efst í inngangi borgarinnar. Kálfur hafi komst inn í hana og hafi honum ekki verið komið út aftur án þess að fjarlægja hafi þurft steininn fyrst. Hann liggur nú undir veggnum gegnt dyrunum. Leitað var að hugsanlegum ártalssteini í borginni, en enginn fannst að þessu sinni.

Staðarborg

Staðarborg og nágrenni.

Að sögn Sæmundar á Stóru-Vatnsleysu var borgin ávallt nefnd Prestborg fyrrum.
Af ummerkjum að dæma í nágrenni borgarinnar virðist sem þunn hraunskorpan hafi verið brotin skipulega niður og grjótið notað í hleðsluna. Hleðslan sjálf virðist einnig staðfesta það.

Þórustaðaborg

Þórustaðaborg.

Gengið var til vesturs að Þórustaðaborg. Hún er í hvarfi við hraunhól í ca. 10 mín fjarlægð frá Staðarborg. Falleg fuglaþúfa er á hólnum. Borginni hefur einhvern tímann verið breytt í stekk, en suðaustan í honum er gróin tóft. Þá er stök tóft, greinilega gömul, norðvestan undir klapparhólnum, í skjóli fyrir suðaustanáttinni. Vel gróið er í kringum borgina. Þórustaðastígurinn liggur þarna upp með borginni og sést hann vel þar sem hann liggur til suðausturs ofan hennar, áleiðis að Keili. Stígurinn liggur upp á Vigdísarvelli.
Krækiberjalyngið er farið að reskjast. Sólstafir kitluðu Vogana. Krían átti í erfiðleikum með að fljúga gegn hreyfanlegu logninu. En þrátt fyrir það var veður með ágætum – bjart og hlýtt.

Heimild: http://www.nat.is/travelguide/ahugav_st_stadarborg.htm

Staðarborg

Staðarborg
Knarrarnes

Gengið var frá letursteininum við garðhliðið að Stóra-Knarrarnesi, um fjöruna og litið á hlaðna garða og sjávarhús á bakkanum neðan við Minna-Knarrarnes.

Knarrarneskirkja

Minna-Knarrarnes.

Birgir Þórarinsson, prestur í Vogum og ábúandi á Minna-Knarrarnesi, fræddi þátttakendur um örnefni, fyrrum bæjarstæði, álagabletti, dysjar, brunna og leturstein. Gamli bærinn að Knarranesi stóð þar sem útihúsin eru núna suðvestan við núverandi hús. Útihúsin eru að hluta til (einn veggur um mið húsin) er hlaðinn úr grjóti er hrökk til afgangs úr byggingu Alþingishússins við Austurvöll (líkt og Breiðabólstaður á Álftanesi). Sjá má í enda vegghleðslunnar á miðjum framgaflinum. Ofar á túninu er svonefnt Brandsleiði, álagablettur, sem ekki hefur mátt hreyfa við.

Knarrararnes

Knarrarnesbrunnur.

Ofan við þjóðveginn er hlaðinn brunnur. Hann hefur verið fylltur upp til að koma í veg fyrir hugsanleg óhöpp líkt og svo margir brunnar aðrir á Reykjanesi. Brunnhleðslan sést vel. Sagðist Birgir hafa séð vatn efst í brunninum s.l. vetur. Ekki liggur ljóst fyrir hvers vegna brunnstæðið er þarna, en þó er vitað að gamli bærinn stóð þarna skammt fyrir norðan brunninn. Hann gæti því hafa tilheyrt honum á þeim tíma. Digravarða (landamerki) er þarna skammt austar á hól. Úr henni liggja landamerki Minna-Knarrarness í Eldborgir ofan við Knarrarnessel, skammt norðan við gamla Hlöðunesselið.

Knararnes

Minna-Knarrarnes – letursteinn.

Digravarða er ofan við hlaðinn garð vestan og sunnan við Hellur. Talið er að hún hafi verið ein kirkjuvarðanna svonefndu, en þarna neðan við á gatan að Kálfatjarnarkirkju að hafa legið fyrrum.
Skoðaður var letursteinn í garði norðan við íbúðarhúsið að Minna-Knarrarnesi. Um er að ræða brotinn myllustein með áletrun. Hann er mosavaxinn og því erfitt að ráða í áletrunina. Birgir taldi að áletrunin gæti verið 1823. Eitthvert skraut er einnig á steininum. Norðan við garðinn eru Krosshólar og Breiðihóll enn norðar.

Knarrarneshverfi

Knarrarneshverfi.

Knarrarnesbrunnurinn er nálægt íbúðarhúsinu. Á túninu eru ýmsar hleðslur og gömul mannvirki, sem fróðlegt væri að skoða nánar.
Sandlóa hafði verpt öðru sinni á einum hraunhólnum. Krían lét illa, enda að verja afkvæmi sín. Birgir sagði krívarpið hafa stækkað umtalsvert undanfarin ár.
Frábært veður.

Knarrarnes

Áletrun á klöpp við Knarrarnes.

Bakki

Markmið FERLIRsferða hefur verið að leita að, skynja og finna minjar og sögulega eða safaríka staði. Þrátt fyrir það hefur engin ein ferð verið nákvæmlega eins og önnur.

Borgarkot

Skeljafjara við Borgarkot.

Nú átti að gera tilraun til að nýta fyrirliggjandi þekkingu á afmörkuðum sviðum og reyna að finna einstakar blómategundir í móa og á melum og kíkja á það sem fjaran er að ala af sér.
Gengið var til austurs frá Bakka, áleiðis yfir að Borgarkoti. Við fyrsta fet stóð jakobsfífill upp úr lyngi umvafinn smjörvíði. Þetta lofaði góðu. Þarn avar og blóðberg, lyng og tröllasúra innan um gras og lágvaxinn grávíði. Friggjargras, hvítmura, kornsúra, gulmara og lyfjagras, tágamura, geldingahnappur og týsfjóla. Í rauninni var alltaf eitthvað að sjá, hvert sem litið var. Svæðið var greinilega miklu mun fjölbreyttara en reiknað hafði verið með. Þar fyrir utan hýsti það allar hinar algengu blómategundir, s.s. sóleyjar, fífla, fífu, brönugras, gullkoll, umfeðmingsgras og annað það er sést svo til alls staðar á Reykjanesskaganum.

Borgarkot

Borgarkot – refagildra.

Þegar komið var niður í fjöru greip minkur, högni eða læða, alla athyglina. Þetta var brún, þvengmjótt, kvikyndi. Hann kom í humáttina ekki langt frá, staðnæmdist af og til og leit í kringum sig. Þá snéri hann allt í einu við og skellti sér út í þangsjóinn. Þar fyrir utan voru nokkrar kollur með unga. Honum skaut upp af og til, en loks hvarf hann alveg sjónum viðstaddra. Fuglarnir höfðu greinilega orðið hans varir því þeir syntu með unga sína lengra frá landi. Á landklöppunum speglaðist fagurgrænn mosaþarinn í pollunum. Meistaraleg litasamsetning hjá meistaranum.

Borgarkot

Breiðufit – girðingasteinar ofan Borgarkots.

Þang og þari, skeljar, kuðungar, krabbar og annað, sem fjaran geymir var svo til við hvert fótmál. Hangert flotholt úr stórum vikursteini, koddi, fótbolti og hvalbein – höfuðkúpa af háhyrningi. Af nógu var að taka. Í fjörunni þarf greinilega engum að láta sér leiðast – alltaf ber eitthvað nýtt fyrir augu, sama hvert litið er. Sjórinn var ládauður, en sjávarloftið er alltaf jafn svalandi.
Gengið var yfir að tóftum Borgarkots, skoðaður stóri krossgarðurinn, sem minkaveiðimenn hafa nær lagt við jörðu, jarðlægir garðar, hlaðin refagildra og vatnsstæði. Lóan lét vel í sér heyra sem og þrællinn hennar. Tjaldur tipplaði á nálægum hólum og mikið var af sólskríkju á svæðinu. Gengið var vestur með stórgripagirðingunni og einn steinninn í henni skoðaður. Göt höfðu verið höggvin eða boruð í hvern stein og trétappar reknir í þau. Tapparnir stóðu síðan út úr steinunum og á þá var hengdur þráður til að varna því að stórgripir færu út fyrir það svæði, sem þeim var ætlað. Sjá nánari umfjöllun HÉR.
Frábært veður – hiti og bjart. Gangan tók 1 klst og 11 mín.

Kálfatjörn

Kálfatjörn – Bakki og Litlibær fjær.

Flekkuleiði

Tekið var hús á Sæmundi bónda á Stóru-Vatnsleysu. Hann var úti við þegar FERLIR bar að garði, enda hitinn yfir 20°C. Sól skein bæði í heiði og á bæ.

Stóra-Vatnsleysa

Letursteinninn í túninu.

Byrjað var að skoða letursteininn á túninu sunnan við bæinn. Á honum eru klappaðir stafirnir GI og koma þeir saman með krossmarki að ofanverðu. Til hliðar, hægra megin að ofan, er ártalið 1643 eða 1649. FERLIR réð leturgátuna á sínum tíma, en enn hefur ekki verið fundið út hvert tilefni áletrunarinnar var. Sæmundur sagði að þarna hefði verið kirkja (kirkja allrarheilagrarmessu), sem getið er um í annálum árið 1262. Henni hafi verið þjónað frá Kálfatjörn og bar presti að messa þar annan hvern helgidag að minnsta kosti. Sæmundur dró fram gögn máli sínu til stuðnings. Hann sagði bæ hafa verið byggðan á rústum kirkjunnar, en sagan segir að þar hafi fólki ekki orðið vært vegna draugagangs. Kvað svo rammt að honum að hurðir hafi ekki tollað á hjörum. Bærinn var yfirgefinn og hann síðan rifinn. Ekki væri ólíklegt að þarna væri grafreitur og að steinninn voru einu sýnilegu ummerkin eftir hann.

Vatnsleysa

Stórgripagirðing við Minni-Vatnsleysu.

Sæmundur kvaðst muna að þegar grafið var fyrir núverandi húsi hafi verið komið niður á hlaðinn kjallara, u.þ.n. 130 cm háan, en húsið hafi verið byggt nálægt fimm metrum norðar. Það stæði á ísaldarkampinum og þá hafi grafreituninn og kirkjan einnig verið á honum þarna suður af húsinu. Hvað væri undir veginum að bænum vissi enginn, en hann hefði verið lagður ofan á jarðveginn, sem þá var.
Sæmundur var með gömul landamerkjakort. Kort frá 1906 sýndi landamerki Stóru-Vatnsleysu í Markhelluhól, sem er um 900 metrum ofan við Markhelluna við Búðarvatnsstæðið. Á Markhelluhól væru áletranir þriggja jarða, sem þar koma saman, en einhverra hluta hefðu landamerkin verið færð ofar. Sá, sem skráði lýsinguna, virðist þó hafa reiknað með “Markhellunni við Búðavatnsstæðið” (klettur, sem girðingarhornið kemur saman í við Búðarvatnsstæðið) því þannig eru mörkin skráð. Frá Markhelluhól liggja mörkin, skv. kortinu um Hörðuvallaklofa og um Grænavatnseggjar og áfram um Núpshlíðarhálsinn að Selsvallafjalli. Þar mun hafa verið varða, en einhver ýtt henni fram af brúninni. Sjá mætti ummerki eftir hana ef vel væri að gáð. Bað Sæmundur FERLIR um að líta eftir ummerkjunum næst þegar farið væri á Selsvallafjall. Þarna hafi verið gömul leið, sem þeir hafi oft farið fyrrum, eða a.m.k. tvisvar á ári, þ.e. upp með Sogseli, upp með Spákonuvatni og eftir hálsinum. Ofan við Spákonuvatn væri nær tveggja metra hár klettur og væri hann á landamerkjunum. Önnur kort, s.s. frá 1892, kveða á um mörkin í Trölladyngjuöxlinni og þaðan yfir á Selsvallafjall, en einhverra hluta vegna hefði komist inn lýsing einhvers staðar, sennilega frá Kálfatjörn, að mörkin væru í vörðu á Oddafelli og eftir götu á fellinu. Þar væri um misskilning að ræða. Fremrahorn (Fremstahorn) á Selsvalafjalli hafi verið nefnt Vesturhorn frá Vigdísarvöllum, en ofan við það hafi varðan átt að vera.

Rauðhólssel

Rauðhólssel.

Sæmundur sagði Stóru-Vatnsleysu hafa haft í seli í Rauðhól, en Minni-Vatnsleysa hafi haft í seli undir Oddafelli. Þar hefði verið vatn úr Sogalæk, en vatnsskortur hefði háð selsstöðunni við Rauðhól. Aðspurður kvaðst hann ekki hafa orðið var við skúta í Skógarnefi og hefði hann þó gengið nokkrum sinnum um það svæði við leitir. Greni væru hins vegar nokkur þarna í hraununum.
Sæmudnur sagði að Akurgerði hafi verið hjáleiga í Kúagerði frá Stóru-Vatnsleysu. Afstaðahraunið hafi runnið yfir jörðina og bæinn skömmu eftir fyrstu árþúsundamótin. Þarna hlyti að áður að hafa verið sléttlent og talsverður gróður.

Hrafnagjá

Hrafnagjá áletrun við Magnúsarsæti á Stóru-Vatnsleysu.

Skoðuð var áletrun (SJ-1888-ME) í Hrafnagjá. Álterunin er til minningar um Magnús nokkrun frá Stóru-Vatnsleysu er þarna hafði jafnan afdrep við drykkju sína. Segir sagan að þar hafi og barn komið undir, eins og svo víða annar staðar í sveitinni. Hið sérstæða við staðinn er að hann er á innanverðum gjárbakka, en ekki utanverðum.
Hrossagaukur flaug upp af hreiðri sínu þegarverið var að mynda einn hinna hlöðnu garða umhverfis Vatnsleysubæina. Í hreiðrinu voru fjögur egg, snyrtilega raðað upp að venju. Umhverfis voru gleyméreiar og holtasóleyjar.
Vestan við túnið liggja steinar úr stórgripagirðingu áleiðis niður að sjó annars vegar og til vesturs, áleiðis að Flekkuvík, hins vegar. Um er að ræða svipaða girðingu og ofan við Borgarkot , vestan við Flekkuvík. Tveir holur eru í hverjum steini og í hana reknir tappar, ýmist úr tré eða járni.

Flekkuleiði

Flekkuleiðið.

Flekkuvíkurvatnsstæðin voru uppþornuð. Á ströndinni var bláliljan byrjuð að blómstra, kuðungar og skeljar voru innan um beitukóngshreiður, en handan við spegilsléttann hafflötinn reis hvannhvítur Snæfellsjökull upp úr láréttunni. Tignarleg sjón.
Umfeðmingsgras umlukti rústir sjóbúða austan við Flekkuvík. Ofan við þær er hlaðið gerði, en vestan þeirra tekur hlaðinn túngarðurinn við. Neðan við rústirnar, sem á einhverju tímabili hefur verið breytt að hluta í matjurtargarð, mótar greinilega fyrir gamalli vör.

Flekkuvík

Flekkuvík – brunnur.

Brunnar eru bæði vestan og norðan við Flekkuvíkurhúsið. Nyrðri brunnurinn er dýpri og virðist nýrri. Sunnan við húsið, suður undir túngarðinum er Flekkuleiðið. Á því er “rúnasteinn”, sem segir að þar “Hvíli Flekka”. Í raun er um 16. eða 17 aldar leturstein að ræða skv. áliti sérfræðinga. Sagan segir að Flekka, sem áður byggði Flekkuvík, hafi viljað láta hola sér niður í jarðri túnsins þar sem hún hefði útsýni yfir innsiglinguna að bænum. Þar mun hún hvíla, blessunin.
Fagur fuglasöngur fyllti gyllt loftið þessa kvöldstund.
Frábært veður. Gangan tók 1 klst og 58 mín.

Vatnsleysa

Letursteinninn við Stóru-Vatnsleysu.

Oddafellssel

Gengið var frá nyrðri enda Oddafells frá Höskuldarvöllum og suður með vestanverðu fellinu. Gott rými er á milli hlíðarinnar og mosahraunsins.

Oddafellsel

Oddafellsel – sel frá Kálfatjörn.

Eftir stutta göngu var komið að tóftum hluta Oddafellsseljanna. Gengið er yfir eina tóftina, en sjá má móta fyrir öðrum. Stekkur eða kví er utan í hraunkantinum. Skammt sunnar eru fleiri tóftir. Er þá komið framhjá stíg er liggur inn á hraunið, áleiðis að Keili. Sunnan við þær eru hleðslur, stekkur og gerði, utar með hraunkantinum. Minni-Vatnsleysa hafði þarna selstöðu fyrrum. Eldri stígur (Oddafellsselsstígur) liggur inn í hraunið frá hleðslunum og kemur inn á hinn stíginn eftir stutta göngu. Stígnum var síðan fylgt í gegnum hraunið. Hann er tiltölulega greiðfær.

Keilir

Keilir – handan hraunsins.

Nýr, ógreiðfærari, stígur hefur verið lagður yfir hraunið nánast samhliða, líklega fyrir Keilisfara. Þegar út úr hrauninu var komið var stígnum fylgt áfram áleiðis að Keili yfir móa og mela. Á leiðinni mátti sjá annan stíg liggja þvert á hann, Þórustaðastíginn.
Göngustíg var fylgt upp á Keili. Tiltölulega auðvelt er að ganga upp hlíð fjallsins, aflíðandi í fyrstu, en brattara ofar. Áð var um stund á móbergssyllu að 2/3 leiðarinnar genginni og útsýnið dásamað.

Keilir

Gengið á keili.

Rétt áður en komið var upp var komið uppá hraunnef þar sem horft er niður hinum megin. Sumum finnst nóg um, en ástæðulaust er að örvænta. Af toppnum er útsýni til allra átta. Sjórinn í norðvestri, Stór-Hafnarfjarðarsvæðið í norðri, Esjan og tengdafjöll hennar, Vífilssfell, Bláfjöllin, Þríhnúkar, Lönguhlíð, Helgafell, Fjallið eina, Mávahlíðar, Trölladyngja, Núpshlíðarháls, Driffell, Stóri Hrútur, Litli Keilir, Fagradalsfjöllin, Skógfellin, Þorbjarnarfell og Sandfellsfjöllin (Súlur, Þórðarfell og Stapafell, eða það sem eftir er af því) o.fl. o.fl. Keilir er móbergsfjall (379 m.y.s). Hann varð til við gos undir jökli á ísöld. Hann er helst þekktur vegna sérkennilegrar strýtumyndaðrar lögunar sinnar sem er til komin vegna gígtappa eða bergstands á fjallinu miðju. Tapinn ver það gegn veðrun.

Hverinn eini

Hverinn eini.

Gengið var niður Keili um stíg að austanverðu og þaðan yfir á stíg norðan Driffells er liggur upp af heiðinni sunnan Keilis. Sást hann vel á köflum ofan af fjallinu þar sem hann lá á ská niður heiðina til vestnorðvesturs. Honum var fylgt yfir úfið hraunið austan fellsins. Um stutt hraunhaft er að ræða. Handan þess er stutt yfir í Hverinn eina, en mann má muna sinn fífil fegurri, Nú stendur fremur lítill gufustrókur upp úr hveraholunni, en á árum áður sást þessi stóri gufuhver alla leið frá Reykjavík í staðviðri og góðu skyggni. Hitasvæði er umhverfis hverinn og ber umhverfið þess glögg merki.
Oddafellinu var fylgt til norðurs að austanverðu, gengið um Höskuldarvelli og komið að upphafsstað á tilskyldum tíma.
Frábært veður – sól og stilla. Gangan tók 3 klst og 59 mín.

Oddafellssel

Í Oddafellsseli.