Breiðagerðisskjólgarður – Breiðagerðisborg (Höfðaborg) – Þyrluvarða
Í „Aðalskráningu fornleifa í Sveitarfélaginu Vogum – Áfangaskýrsla II“ er fjallað um Breiðagerðisskjólgarð, sem er 710 metra norðvestan Reykjanesbrautar neðar í Breiðagerðisslakka:
„Þar var í Heiðinni Breiðagerðisskjólgarður,“ segir í örnefnaskrá. Í bókinni Örnefni og gönguleiðir segir: „Austur af Nyrðri-Geldingahól er langur klapparhryggur og á honum eru leifar af krossgarði (skjólgarði) fyrir fé. Garðurinn heitir Breiðagerðisskjólgarður og sést hann nokkuð vel af Reykjanesbraut sem löng grjótþúst á holti.“ Skjólgarðurinn er um 1,7 km suðaustan við bæ.
Skjólgarðurinn er á háum hól sunnarlega á holti í hraunklapparmóa. Fremur lítill gróður er á þessum slóðum. Landið lækkar til suðurs niður af holtinu og sést vel af því að Reykjanesbraut.
Grjóthlaðinn skjólgarðurinn er um 11×11 m að stærð. Hleðslan er hrunin og er mesta veggjabreidd um 2 m og mesta hæð um 0,5 m. Mest sjást 2 umför hleðslu. Hleðslan myndar kross og snýr annar armur hans norður-suður en hinn austur-vestur. Lítilfjörleg varða er um 20 m austan við skjólgarðinn en hún virðist vera mjög nýleg og er því ekki skráð.“
Nefnd „óskráð“ varða er við Breiðagerðisselsstíginn sem liggur þarna á ská upp klapparhrygginn norðanverðan. Stígurinn sést mjög vel á þessum kafla, auk þess sem sjá má hann nokkuð glögglega liggja upp sléttlendið ofanvert aflíðandi áleiðis upp í selstöðuna. Hann sást vel vegna þess hversu lágfallinn snjórinn huldi slóðina austan vatnsstæðisins en sólin hafði brætt umhverfið.
Í „Örnefni og gönguleiðir í Vatnsleysustrandarhreppi“ segir um Breiðagerðisskjólgarð:
„Austur af Nyrðri-Geldingahól er langur klapparhryggur og á honum eru leifar af krossgarði (skjólgarði) fyrir fé. Garðurinn heitir Breiðagerðisskjólgarður og sést hann nokkuð vel af Reykjanesbraut sem löng grjótþúst á holti. Skjólgarðurinn er nefndur í landamerkjabréfum Breiðagerðis og Auðna. Við vesturenda hryggjarins er hóll sem heitir Vatnshóll en vestur af honum er smá vatnsstæði í leirflagi.
Austur og upp af Breiðagerðisskjólgarði eru Skrokkar eða Skrokkhólar en það er langur hólaldasi sem liggur svo til þvert á Reykjanesbrautina. Við fyrstu gerð brautarinnar var hún sprengd í gegnum Skrokka en við nýjustu framkvæmdir, þ.e. breikkunina, var efsti hluti hólanna alfarið sprengdur í burtu.
Auðnaklofningar eiga að vera á þessu svæði, þeirra er getið í landamerkjalýsingum Landakots og Auðna, og einnig Breiðagerðis og Auðna. Engar nýrri heimildir eru til um örnefnið og því erfitt að staðsetja það en líklega eru það sömu hólar og Skrokkar. Klofningsörnefnin eru fjögur í hreppnum og tengjast áberandi sprungnum klapparhólum.“
Skammt austan fyrrnefndrar vörðu er önnur austast á klapparholtinu. Neðan við hana að sunnanverðu eru leifar fjárborgar, hér nefnd „Breiðagerðisborg“ (Höfðaborg). Borgin er á landamerkjum. Hleðslur sjást vel, en svo virðist sem borgin sé allgömul. Ekki er ólíklegt að hluti af grjótinu í veggjum hennar hafi verið notað við hleðslu krossskjólgarðsins þarna skammt vestar. Fjárborgarinnar er ekki getið í fornleifaskráningu af svæðinu.
Þyrluvarða
Í „Aðalskráning fornleifa í Sveitarfélaginu Vogum – Áfangaskýrsla I“ segir um Þyrluvörðuna.
„Úr Þúfuhól þessum liggja mörkin beint eftir Vörðum upp Heiðina, milli Auðnaklofsins og Breiðagerðisskjólgarðs, spölkorn fyrir neðan Syðri-Keilisbróðir (Litla-Hrút), alla leið að landi Krýsuvíkur í Grundavíkurhreppi,“ segir í örnefnaskrá. Í Örnefni og gönguleiðir í Vatnsleysustrandarhreppi leiðir höfundur að því líkum að Auðnaklofningar séu það sama og Skrokkar. Sökum skorts á betri rökum var staðsetning hinna horfnu landamerkjavarða tekin á Skrokkum. Skrokkar er langur hólaklasi sem liggur norður-suður. Reykjanesbrautin gengur í gengum klasann um 900 m austan við Þyrluvörðu. Á þessum stað eru hæðir/hraunhryggir sem eru grýttir en vaxnir mosa og grasi um 100 m norðan við Reykjanesbraut.
Hraunhryggurinn er mosagróinn mosa. Norðan Reykjanesbrautar eru nokkrir grónir toppar en engin greinileg merki um vörður sjást. Sunnan brautarinnar er á sama hrygg varða eða samtíningur úr grjóti sem sýnist nýlegur.“
Auðnaselstígur „liggur fyrir Klofgjá og blasir við Klifgjárbarmur og rétt þar fyrir ofan er Auðnasel og Höfðasel og Breiðagerðissel [þessi sel hafa væntanlega öll verið á sama stað, skráð sem Auðnasel. Til selja þessara lá aðeins einn stígur Auðnaselsstígur,“ segir í örnefnaskrá. Auðnaselsstígur lá skáhallt frá Auðnum til selsins og hefur þá vísast legið um Reykjanesbraut 400-500 m austan við Þyrluvörðu (reist þar sem þyrla fórst 1965) og um 2 km vestan við þar sem Marteinsskáli sést frá Reykjanesbrautinni. Á þessu svæði er gróið hraun en skrásetjari kom ekki auga á greinilegan stíg í námunda við Reykjanesbrautina.“
Í „Örnefni og gönguleiðir í Vatnsleysustrandarhreppi“ segir um Þyrluvörðuna og nágrenni: „Næst höldum við í suðvestur frá Skrokkum, förum meðfram Reykjanesbrautinni að neðanverðu, yfir lægðina sem þarna er og að Þyrluvörðunni svokölluðu. Í maí árið 1965 hrapaði Sikorsky björgunarþyrla frá Varnarliðinu niður í lægðina en hún var að koma frá Hvalfirði á leið til Keflavíkurflugvallar. Þarna fórust fimm menn, þeirra á meðal yfirmaður flotastöðvar Varnarliðsins, og var varðan reist í minningu þeirra. Slakkinn þarna er í einni heimild nefndur Breiðagerðisslakkar en í annarri eru slakkarnir sagðir langt ofan brautarinnar. Ég tel að örnefnið nái yfir alla lægðina sem nær frá Geldingahólunum og allt upp undir selin og efri gjár í heiðinni.
Vestan og neðan við Þyrluvörðuna eru svo Djúpudalir, djúpir grasbollar sem ganga inn í klapparholt eða hóla. Í Djúpudali var farið með kýrnar frá Stóra-Knarrarnesi í tíð Ólafs Pétursonar bónda þar.
Rétt fyrir neðan og vestan Djúpudali er Knarrarnesholt en þess er getið í landamerkjabréfum Knarrarness og Ásláksstaða. Holtið er lágt en formfallegt séð frá brautinni og á því er kubbsleg, lágreist en þó áberandi varða, u.þ.b. 1,5 m á hlið.
Suðvestur af Knarrarnesholti og Djúpudölum eru svo Ásláksstaðaklofningar eða Klofningar en það er hólaþyrping rétt neðan Reykjanesbrautar og utan við beitarhólfið sem þarna er enn.“
Nefnd „Þyrluvarða“ er fast upp við neðanverða Reykjanesbraut. Slysstaðurinn var hins vegar mun fjær; sunnan klapparholtanna fyrrnefndu, þar sem líta má augum Breiðagerðisskjólgarðinn sem og Breiðagerðisfjárborgina. Því til vitnis mátti t.d. sjá leifar úr þyrlunni stinga sér upp úr snjósólbráðinni hingað og þangað á göngunni að holtinu.
Sjá meira um þyrluslysið HÉR.
Frábært veður. Gangan tók 57 mínútur og 7 sekúndur.
Heimildir:
-Aðalskráning fornleifa í Sveitarfélaginu Vogum – Áfangaskýrsla II, Fornleifastofnun Íslands, Reykjavík 2014.
-Aðalskráning fornleifa í Sveitarfélaginu Vogum – Áfangaskýrsla I, Fornleifastofnun Íslands, Reykjavík 2011.
-Örnefni og gönguleiðir í Vatnsleysustrandarhreppi (ofan Gamla-Keflavíkurvegarins), Sesselja G. Guðmundsdóttir, 2007.