Færslur

Rjúpa

Dagurinn var jafnframt “Göngudagur fjölskyldunnar”.

Sýrholt

Sýrholt – tóftir.

FERLIR fóra að leita Fornuselja undir Sýrholti, jafnframt því sem ferðin var nýtt til berja.
Sýrholt er á milli Auðnasels og Flekkuvíkursels, svo til í beina stefnu. Mikill uppblástur og jarðvegseyðing er á svæðinu svo einungis gróðurtorfur eru þar á stangli.

Ferðin var ágætt dæmi um leit á svæði þar sem svo til engin vísbending er um mögulegar minjar og ef þær væru þarna einhvers staðar, þá hugsanlega hvar.
Hver hæðin tók við af annarri og auðvelt að ganga framhjá því sem leitað var að. Ef gengið er vinstra megin við hæð gætu tóftir auðveldlega leynst hægra megin – og öfugt.
Reynt var að nota áunna reynslu og þau skynfæri, sem duga oft best við þessar aðstæður; sjónina og sjötta skilningarvitið. Heyrn, lykt, tilfinning og málið koma yfirleitt að litlum notum við leit að minjum.

Sýrholt

Fornusel í Sýrholti.

Gengið var norðvestur fyrir Sýrholtið og gengið að því til suðausturs. Selin á Reykjanesskaganum eru yfirleitt í skjóli fyrir þeirri átt; rigningaráttinni, einkum þau elstu. Þegar farið var að nálgast svæðið var leitað að kenniletum, grasi og gróðurbollum. Það tók að þéttast mám saman. Þá var skyggnst eftir hugsanlegum hleðslum eða öðrum mannanna verkum. Fljótlega kom vörðubrot í ljós á litlum hraunhól.

Sýrholt

Sýrholt – hleðslur í gjá.

Óljós gata sást liggja framhjá því, með stefnu að öðru vörðubroti. Stefnan var á hæðina vestanverða. Þar utan í henni, á grasbala, komu tóftirnar í ljós, þrjár talsins. Erfitt er að koma auga á þær, en þær eru þó vel greinilegar þegar betur er að gáð.
Skammt norðvestar var önnur tóft á litlum grasbala. Mjög erfitt er að finna hana. Skammt norðar er hlaðinn stekkur í gróinni gjá.
Ekki er vitað hvaða bæ á Vatnsleysuströnd þessi selstaða tilheyrði, enda greinilega mjög gömul.
Frábært veður í haustlitunum. Gangan tók 1 klst og 11 mín.

Fornusel - Sýrholti

Fornusel í Sýrholti – uppdráttur ÓSÁ.

Staðarborg

Gengið var frá Prestvörðunni ofan við Kálfatjörn, yfir Almenningsveginn og áfram til austurs með stefnu austur fyrir Staðarborg. Þar er Staðarstekkur í klofnum hraunhól. Hlaðið hefur verið í miðja rásina og hleðslur eru einnig við austurenda hans.

Staðarborg

Staðarborg.

Það er stutt yfir í borgina. Hún hefur verið endurhlaðinn að hluta. Dyrasteinn, sem verið hefur fyrir ofan opið, liggur nú við innvegg borgarinnar gegnt dyrum. Sagt er að hann hafi þurft að fjarlægja eftir að kálfur komst inn í borgina, en ekki út aftur fyrr en steinninn hafði verið fjarlægður. Næst var stefnan tekin á Þórustaðaborg. Hún er á milli hraunhóla í um 15 mínútna fjarlægð til vestnorðvesturs. Borgin er mikið gróin, en þó sjást vel hleðslur í miðju hennar. Greinilegt er að borginni hefur á einhverju skeiði verið að hluta til breytt í stekk. Vatnshólar sjást vel í vestri. Vestan í þeim, í um 15 mínútna fjarlægð, eru miklar hleðslur. Þarna var Auðnaborg, en henni hefur síðar verið breytt í rétt utan í hólnum. Á hólnum sjálfum, sem er allgróin, eru tvær tóttir.

Auðnaborg

Auðnaborg.

Áfram er gengið í vestur. Framundan sést vel gróinn hóll í um 10 mínútna fjarlægð. Á honum er Borg, greinilega gömul fjárborg. Rétt norðvestan við hana á hólnum er gróin stekkur, Litlistekkur. Í nokkurra mínútna fjarlægð frá honum til vesturs er gamall stekkur á hól. Það mun vera Rauðstekkur. Í um 10 mínútna fjarlægð til vesturs, þó aðeins til hægri, er komið að brekkum. Fara þarf áður yfir girðingu.

Fornistekkur

Fornistekkur.

Framundan er vel gróið sléttlendi. Suðaustan í brekkunum er Fornistekkur.
Þá er haldið til suðurs. Þar ofan við Arnarbæli er Kúadalur. Syðst í honum, undir holti, er fallega hlaðinn stekkur. Frá honum var haldið spölkorn til baka til austurs, sunnan Arnarbælis.

Lynghólsborg

Lynghólsborg.

Á hægri hönd, uppi í heiðinni, er þá áberandi hóll, vel gróinn. Það er Lynghóll. Þegar komið var að greinilega fornum, lítt áberandi stekk á holti, hér nefndur “Arnarbælisstekkur”, var stefnan tekin á hólinn.

Hringurinn

Hringurinn – fjárborg.

Þar, norðan við Lynghól, er enn ein fjárborgin. Hún er greinilega gömul, enda gróin, en hleðslur sjást enn vel í henni miðri svo og leiðigarður suður úr henni.
Ofan Lynghólsborgar er fjárborgin Hringurinn, augljós.

Frá Lynghólsborginni er stefnan tekin til suðvesturs, upp í holtin. Fara þarf yfir girðingu á leiðinni. Þegar komið er upp á hraunhólana sést Hringurinn, á milli hóla. Borgin stendur í lægð, en sést þó vel. Hún hefur greinilega verið voldug á sínum tíma, en er nú að mestu fallin inn. Þó má enn sjá heillega hluta í henni.

Gíslaborg

Gíslaborg.

Stefnan er tekin til vesturs, í áttina að stóru verksmiðjuhúsi austan Voga. Gíslaborgin er þar á hól og ber í gaflinn á húsinu. Áður en gengið er upp á hólinn má sjá sérkennilega hlaðinn, nokkuð stóran, ferning neðan hans. Óvíst er hvað þetta gæti hafa átt að verða því mannvirkið er hlaðið á torfið, ótrausta undirstöðu.

Gvendarstekkur

Gvendarstekkur.

Eftir að hafa skoðað Gíslaborgina var stefnan loks tekin á Gvendarstekk, undir hraunhól skammt vestan Vogavegar. Þetta er gömul fjárborg.
Á leiðinni til baka var Vatnsleysustrandarvegurinn genginn að Gamlavegi og síðan eftir honum aftur yfir á Vatnsleysustrandarveg. Gamlivegur er svo til beinn upphlaðinn malarvegur, en hann hefur líklega þótt of beinn og of fjarri strandbæjunum og því verið aflagður þegar nýr hlykkjóttur vegur var lagður nær ströndinni. Við veginn voru nokkur lóu- og spóahreiður, sem gaman var að skoða.
Gangan tók um tvær og hálfa klst. í frábæru veðri.

Staðarborg

Staðarborg.

Kálfatjörn

Eftirfarandi er frásögn Magnúsar Jónssonar, fyrrverandi minjavarðar Byggðasafns Hafnarfjarðar, af ferð suður í Voga á Vatnsleysutrönd:
“Einu sinni vissi ég til þess, að ung hjón sem að segja mátti að væru á götunni, fóru suður í Voga í Vatnsleysustrandarhreppi til þess að líta á laust húsnæði sem þau töldu sig hafa séð auglýst í blaðaauglýsingu. Þetta var algjör misskilningur, því að átt var við húsnæði í Vogahverfinu í Reykjavík.

Lónakot

Lónakotsbærinn.

En í blöðunum sá ég að auglýst var eftir kennara við Stóru-Voga-skóla og svo alveg sömu villuna að hnýtt var aftan við . . . á Vatnsleysuströnd. En þetta byggðarlag, Vogarnir, er bara alls ekki á neinu, hvorki á Vatnsleysuströnd né annars staðar, en auðvitað er staðreynd að þeir eru í Vatnsleysustrandarhreppi. Og í þessum hreppi eru tvenn afmörkuð byggðarlög, Vogar og Vatnsleysuströnd og svo veit ég ekki . . . en nánast ætti þá að telja þriðja bæjarhverfið, þarna “innbæina”, og verður síðar komið að því.

Ekki er einasta það, að Vogarnir og Vatnsleysuströndin séu afmörkuð byggðarlög, heldur eru þau að mörgu leyti andstæður.

Vatnsleysuströnd

Vatnsleysuströnd – kort.

Úr Vogunum er tiltölulega stutt og auðvelt að sækja vinnu til Keflavíkur eða í Njarðvíkurnar, nú eða þá á Völlinn, ef svo vill verkast. Þarna í Vogunum fjölgar því heldur íbúunum og hús eru byggð. Á Ströndinni er þetta öfugt, þar fækkar fólki og býli leggjast í eyði.
En auk þess að reyna að kveða niður þetta með Voga á Vatnsleysuströnd þá er nokkuð á reiki hvenær og hvar sé komið á hina eiginlegu Vatnsleysuströnd. Sumir telja sig komna þangað strax þegar er komið í álverið eða a.m.k. rétt framhjá því. En það er mikill misskilningur.

Hvassahraun

Hvassahraun – brugghellir.

Komið hefur fyrir að ég sé leiðsögumaður þegar farið er þarna suðurum. Ekki er það traustvekjandi þegar ég byrja míkrófónsmalið með því að segja að ég viti ekki hvað hann heiti fyrsti hraunflákinn sem leiðin liggur um. Annað hvort hafi hann ekkert heiti og að gerð hraunsins sé það sem nefnt er helluhraun, nú, eða þá að hér sé ákveðin nafngift, með stórum staf og þetta heiti Hellnahraun.
En fljótlega erum við komin í Kapelluhraunið, sem er gjörólíkt hinu, miklu úfnara og aðeins með mosagróðri, og því auðvitað ekki nærri eins gamalt og hitt. Um kapelluna, sem hraunið er kennt við, mætti margt segja, en hér verður aðeins minnst á eitt. Það er, að 1950 fannst þarna í tóttinni líkneski af kaþólskum dýrling, heilagri Barböru. Hún var einkum ákölluð við jarðskjálfta, eldsvoða og þessháttar ófyrirséða stórhættu. Hinum megin við veginn eru kerskálar álversins, taldir lengstu hús landsins en getur þá kapellan talist styzta húsið? Nú hefur verið látið töluvert stærra líkneski í tóftina.

Kapella

Kapella í Kapelluhrauni.

Þegar Kapelluhrauninu sleppir komum við að þeirri hraunbreiðu sem á þessari leið er stærst, gróðursælust, elzt og mestri tilbreytni er gædd, af þeim hraunflákum sem leiðin liggur um. Hér má til að minnast á byggðarlagið Hraunin eða í Hraununum. Í samtali við elzta innfædda Hafnfirðinginn, kveðst hann muna eftir tólf bæjum þarna, og finnst mér það ótrúlega mikið. Aldrei voru þarna neinar stórjarðir, en helzt mætti þá nefna Óttarstaði, þar sem oftast var fleirbýli. En ein bygging þarna hefur fengið “andlitslyftingu” og er þar átt við húsakynnin í Straumi.

Straumur

Straumur.

Straumur er aðsetur listamanna. Íbúðarhúsið er í sama stíl og elztu byggingar á Laugarvatni, enda var víst á báðum stöðum þetta sett í samband við Bjarna Bjarnason, skólastjóra í Hafnarfirði og síðan á Laugarvatni, en hann var með landbúnaðarrómantík, svona í og með. Til Hraunabæjanna taldist líka Lónakotið, þótt það sé nokkru fjær vegi en hinir bæirnir. Það var í byggð fram á miðja þessa öld, sem nú senn kveður.
Ýmsir muna þrjár eða fjórar vísur eftir sr. Árna Helgason stiptprófast í Görðum. Ein er þessi:
Komin er sólin Keili á og kotið Lóna,
Hraunamennirnir gapa’ og góna
er Garðhverfinga sjá þeir róna.
Erum við nú ekki komin á Vatnsleysuströndina? Nei, hreint ekki, Hraunbyggðin taldist löngum vera í Garðahreppi, en nú er þetta víst allt saman Hafnarfjarðarland, og svo er það að við komum í hreppinn með langa nafninu, þegar við förum úr Lónakotslandi.

Keflavíkurvegur

Hleðslur við gamla Suðurnesjaveginn gegnt Gerði ofan Péturskots..

“Fyrst” er þá þar eyðibýlið Hvassahraun. Við höfum næstum lokið leiðinni um Almenninginn og sjáum nú mjög greinilega hvernig miklu yngra hraun, Afstapahraunið, hefur steypst niðuryfir hitt. Hér höfum við því sem sagt bæði örnefnin Hvassahraun og Afstapahraun. Sumir halda að Afstapahraunið sjálft hafi fyrst heitið Hvassahraun, en þetta er upplagt vangaveltuefni fyrir grúskara. Afstapahraunið er jafnvel enn úfnara og ójafnara en Kapelluhraunið. Þegar við höfum næstum lagt allt þetta hraunhröngl að baki, komum við í Kúagerði svokallað, þ.e. smávegis gróðurteygingar, en vegurinn er svo breiður að hann hefur næstum kæft það. En þarna hafa orðið svo mörg umferðarslys, að komin er þar vandlega hlaðin varða, með krossi efst. Hér er um tvo vegi að velja, og er ekkert áhorfsmál að við veljum þann eldri og mjórri, og auðvitað rómantískari. Brátt höfum við hægra megin næstum heila húsþyrpingu, en það er býlið Stóra- Vatnsleysa.

Minni-Vatnsleysa

Minni-Vatnsleysa – flugmynd.

Minni-Vatnsleysa, með svínabúinu stóra, er svo lengra út með sjónum. (Eða er þar kannske ekkert svínabú lengur?) Svo er þarna eitt útvegsbóndabýlið ennþá, með húsum en engum íbúum, en það er Flekkuvík. Ég hætti nú brátt þessum skriftum, en a.m.k. er eftir svarið við því hvenær við erum komin á Ströndina. Það er þegar komið er á samfelldu túnin, og er það þá víst fyrst Litlabæjartúnið. Margir halda að túnin á Ströndinni séu aðeins einhverjir skæklar eða útnárar, en það er nú rétt einn misskilningurinn enn. Tún kirkjustaðarins, Kálfatjarnar, eru enginn smáskiki. Sem sagt, Vatnsleysuströndin er sá hluti hreppsins þar sem hvert túnið tekur við af öðru. Sízt er þó hægt að tala um ræktað tún í nánd við eyðibýlið Breiðagerði, en við “sjáum í gegnum fingur” í því máli og teljum þetta allt vera samfellt og enda á túnunum umhverfis Halakot. Svo eru það sviplítil svæði sem um er að ræða unz komið er í Vogana.

Kálfatjarnarkirkja

Kálfatjarnarkirkja.

Hér var aðeins ætlunin að spyrna við fótum þegar sézt eða heyrist talað um Voga á Vatnsleysuströnd, og hvar hin eiginlega Vatnsleysuströnd sé. Smávegis sönn frásögn úr þessu byggðarlagi að lokum: Kálfatjörn var prestsetur til 1919 en árið eftir fluttust þangað ung hjón, bæði fædd í þessum margumtalaða hreppi, en það voru þau Erlendur Magnússon og Kristín Gunnarsdóttir, systir Ingvars kennara og umsjónarmanns Hellisgerðis í Hafnarfirði.
Erlendur var með afbrigðum vandaður maður til orðs og æðis. Hann hélt þeim fagra sið að lesa húslestur að morgni þá sunnudaga sem ekki var messað í kirkjunni. Var það aðeins nefnt að lesa en lögð virðing og allt að því lotning í það orð í þessu sambandi.
Kálfatjörn
Hjón úr Hafnarfirði voru þar í kaupavinnu sumrin 1929, ’30 og ’31. Sagt er, að í vætutíð komi helzt þurrviðrisstund um helgar, er svo sé þegar þurrviðri er, þá geri oft skúr um helgar. Sumarið 1930 var fremur votviðrasamt. En svo nánast um mánaðamótin ág./sept. á sunnudagsmorgni, stendur allt heimilisfólkið á Kálfatjörn úti á hlaði undir skafheiðríkum himni í norðangolu. Svo mikið hafði rignt undanfarið að segja mátti að bæði tún og hey lægi undir skemmdum. Kaupakonan víkur þá snarlega að Erlendi og segir: “Jæja, á ekki að fara að breiða!?” Erlendur hikar lítið eitt, þar til hann segir: “Ja, við skulum nú koma inn fyrst. Ég ætla að lesa.”
Þannig hugsaði kirkjubóndinn á Kálfatjörn þá. Guðdómurinn skyldi ganga fyrir og fá sitt fyrst.”

-Magnús Jónsson, fv. minjavörður, Hafnarfirði.

Flekkuvík

Brunnur í Flekkuvík.

Gíslaborg

Gengið var að Gíslaborg í Vogaheiði, Hringnum, Lyngólsborg og Auðnaborg í Strandarheiði.

Auðnaborg

Auðnaborg.

Gíslaborg er rústir gamallar fjárborgar á grónum hól. Norðaustan hans eru Gíslholtslágar. Í þeim er ferhyrnd hleðsla, nokkur stór. Ekki liggur í augum uppi hvaða tilgangi þetta mannvirki gegndi, en einn heimamanna, sem var með í för sagðist hafa heyrt að þarna hafi í heiðni verið blótstaður og gæti þetta því verið altari frá þeim tíma. Hann gat þess sérstaklega að þetta væri einungis ágiskun hlutaðeigandi.

Hringurinn

Hringurinn.

Norðaustar er Brunnastaðalangholt. Suðaustan undir því, í svokölluðum Langholtsdal, er falleg hálfhrunin fjárborg, sem heitir Hringurinn eða Langholtsbyrgið. Þótt borgin standi í nokkurri lægð rís hún þó hæst á smáhæð í lægðinni. Best er að nálgast hana úr suðri.
Skammt ofan við Hringinn er klapparhryggur, sem heitir Smalaskáli. Á eystri enda hans er Smalaskálavarða.
Norðaustan hringsins er Hlöðuneslangholt og Lynghóll norðaustan þess. Á sléttlendi neðan hólsins eru rústir gamallar fjárborgar, sem nú er orðin allgróin. Erfitt er að koma auga á borgina svo vel hafa þær samlagast umhverfi sínu. Norðvestan við Lyngholt er Arnarbæli og Kúadalur skammt suðvestar.
Austar eru Geldingahólar með Vatnshólinn í miðið. Gengið var vestan við Nyrðri-Geldingahólinn að löngu grónu holti, nefnt Borg.

Hringurinn

Hringurinn.

Ofarlega í holtinu eru rústir af beitarhúsum, tvær tóftir hlið við hlið og ein þvert á þær. Aðeins neðar í holtinu er greinilega nýrri fjárhústóft. Rétt ofan og austan við efri rústirnar er lítið vatnsstæði í klöpp, vel falið í viki norðan undir lágum hólnum.
Auðnaborgin er skammt norðaustar í grasmóa sunnan í grónum hól. Hún er nú nokkuð heilleg fjárrétt með stórum almenningi og tveimur dilkum, en uppi á hólnum við réttina eru rústir af a.m.k. tveimur kofum. Lítill stekkur er rétt neðan og vestan við borgina, en engar heimildir eru til um nafn hans.
Gengið var norður um Fögrulág með Skálholt á vinstri hönd og niður á Þórustaðastíg þar sem hann liggur upp í heiðina ofan Strandarvegar.
Auk fyrrnefndra fjárborga eru fleiri slíkar í heiðunum milli Reykjanesbrautar og Strandavegar. Nokkru austan við Auðnaborg er t.a.m. Þórustaðaborgin og austan hennar Staðarborgin. Skammt vestan Vogavegar er einnig Gvendarborg. Þær eru því a.m.k. sjö talsins. Ekki tekur nema u.þ.b. tvær klukkustundir að ganga svæðið frá Gvendarborg í vestri að Staðarborg í austri.

Heimildir:
-Örnefni og gönguleiðir í Vatnsleysustrandarhreppi – Sesselja G. Guðmundsdóttir – 1995.

Þórustaðaborg

Þórustaðaborg.

Kvarnarsteinar hafa verið notaðir hér á landi frá fyrstu tíð, jafnvel fyrir norrænt landnám ef marka má frásögn Bjarna F. Einarssonar, fornleifafræðings v/landnámsskálann í Vogi, Höfnum – sjá umfjöllun í Víkurfréttum 19. mars 2010.
KvarnarsteinnKvarnarsteinn er úr kvörn, sem korn var malað í. Skiptir þá ekki máli hvort kornið, sem malað var með honum, var innflutt eða ekki. Kvarnarsteinar voru tveir, hvor ofan á öðrum, og var smíðaður um þá trékassi. Kornið var látið í gatið í miðjunni og efri steininum snúið. Þá malaðist kornið milli steinanna og sáldraðist ofan í kassann.
Á Efri-hellu ofan við bæinn Hraun í Grindavík, sunnan Húsafells, má enn sjá hraunhellusvæði þar sem kvarnarsteinar Grindvíkinga voru unnir fyrrum (mynd að ofan). Þótt mikið hafi verið fjarlægt af hraunhellum þarna síðari árin í garða og “sólarvé” má þó enn sjá leifar handverksins á staðnum. Í raun ætti að friða staðinn m.t.t. þessa.

Knararnes

Minna-Knarrarnes – letursteinn; kvarnasteinn.

 

Snorrastaðatjarnir

Gengið var að Nýjaseli eftir að hafa skoðað Snorrastaðasel við Snorrastaðatjarnir. Tvær tóttir kúra þar undir Nýjaselsbjalla, misgengi, skammt austan við Snorrastaðatjarnir. Frá brún bjallans sést vel upp í Pétursborg á brún Huldugjár. Þangað er um 10 mínútna ganga. Borgin er nokkuð heilleg að hluta, þ.e. vestari hluti hennar. Austan við borgina eru tvær tóftir og ein norðan hennar. Þær munu hafa verið fyrrum fjárhús.

Nýjasel

Nýjasel.

Þá var haldið upp á brún Litlu-Aragjár og sést þá vel upp að Stóru-Aragjá í suðaustri. Rétt austan við hæstu brún hennar eru Arasel eða Arahnúkasel. Þetta eru 5 tóftir undir gjárveggnum. Skammt vestan þeirra er fallegur, heillegur, stekkur, fast við vegginn. Svæðið undir gjánni er vel gróið, en annars er heiðin víða mjög blásin upp á þessu svæði. Þaðan var haldið að Vogaseljum. Á leiðinni sést vel að Brunnaselstorfunni í suðaustri, en austan undir Vogaholti, sem er beint framundan, eru Vogasel eldri. Þau eru greinilega mjög gömul og liggja neðst í grasi vaxinni brekku norðan utan í holtinu.

Vogasel

Vogasel yngri.

Ofar í brekkunni, undir hraunkletti, eru Vogasel yngri. Þar eru þrjár tóftir, ein undir klettinum efst, önnur framar og enn önnur, sú stærsta, utan í grasbakka enn neðar. Austan við tóttirnar er stór stekkur á bersvæði. Frá seljunum var haldið á brattan til suðurs. Frá brúninni sést vel yfir að Kálffelli í suðri, berggangana ofar í hrauninu og Fagradalsfjöllin enn ofar.

Haldið var áleiðis suður fyrir fellið og er þá komið að Kálfafellsfjárhellunum suðaustan í því. Hleðslur eru fyrir opum hellanna.

Pétursborg

Pétursborg.

Gengið var til vesturs sunnanverðu fellinu og kíkt inn í gíg þess í leiðinni. Í honum eru garðhleðslur sunnanvert, en norðanvert í gígnum eru hleðslur í hraunrás. Sunnan til, utan í fellinu, eru tveir hraunhólar. Efri hóllinn er holur að innan og á honum tvö göt. Þetta er Oddshellir, sá sem Oddur frá Grænuborg hélt til í um aldramótin 1900. Enn má sjá bæði bein og hleðslur í hellinum, sem er rúmbetri en í fyrstu má ætla. Gangan upp að Kálffelli með viðkomu framangreindum seljum tók um tvær klst.
Nú var gengið svo til í beina stefnu á skátaskálann við Snorrastaðatjarnir, niður Dalina og áfram til norðurs með vestanverðum Brúnunum. Sú leið er mun greiðfærari en að fara yfir holtin og hæðirnar austar. Útsýni var gott yfir Mosana og Grindavíkurgjána.

Brandsgjá

Vörður við Brandsgjá.

Gengið var yfir Brúnagötuna og komið var við í Brandsgjá og Brandsvörðu, en í gjána missti Brandur á Ísólfsskála hesta sína snemma á 20. öldinni. Skógfellavegurinn liggur þarna yfir gjána.
Stefnunni var haldið að Snorrastaðatjörnum. Þegar komið var að þeim var haldið vestur fyrir þær og síðan gengið að Snorrastaðaseli norðan þeirra. Selið er lítið og liggur undir hraunbakkanum fast við nyrsta vatnið, gegnt skátaskálanum (sem nú er horfinn).

Heimild m.a.:
Örnefni og gönguleiðir í Vatnsleysustrandarhreppi – SG – 1995.

Pétursborg

Pétursborg – uppdráttur ÓSÁ.

Vatnsleysuströnd

Þetta var fyrirsögn á frétt á mbl.is þann 8. desember 2004 kl 15:06. Fréttin fjallar um að þrjú hross hafi á undanförnum dögum drepist úr miltisbrandi á bænum Sjónarhóli á Vatnsleysuströnd. Fyrsta hrossið drapst sl. fimmtudag, tvö á sunnudag og fjórða hrossinu á bænum hefur verið lógað. Hross í nágrenni Sjónarhóls hafa verið sett í aðhald og fylgst verður með heilsufari þeirra.

Miltisbrandur

Á nágrannabæ eru einnig fáeinar sauðkindur og hefur héraðsdýralæknir gefið fyrirmæli um að þær verði hýstar. Að sögn embættis yfirdýralæknis og sóttvarnarlæknis hefur rannsókn á blóðsýni úr hrossunum á Tilraunastöðinni að Keldum leitt í ljós að um miltisbrand er að ræða.

Bóndinn á Minna-Knarrarnesi, Birgir Þórarinsson, og eigandi hrossanna telur landbrot í landi Sjónarhóls síðastliðinn vetur líklegustu skýringuna á því hvernig miltisbrandur barst í hrossin. Að sögn Birgis er hugsanlegt að þegar land náði lengra fram hafi sýktar skepnur verið urðaðar á þessum stað en miltisbrandsgró geta lifað áratugum, jafnvel öldum saman í jarðvegi.
“Það eina sem menn vita er að sjórinn braut bakkann neðan bæjarins síðastliðinn vetur í landi Sjónarhóls og að ekkert annað jarðrask hefur verið þarna.”

Vatnsleysuströnd

Vatnsleysuströnd – kort.

Landbúnaðarráðuneytið hefur að tillögu yfirdýralæknis fyrirskipað bann við flutningi búfjár til og frá bænum, brennslu á hræunum á staðnum, auk hreinsunar og sótthreinsunar á svæðinu. Umferð fólks og dýra um svæðið er einnig takmörkuð um sinn.
Miltisbrandur er bráður og oftast banvænn bakteríusjúkdómur sem öll dýr með heitt blóð geta tekið. Hann er algengastur í grasbítum. Hann greindist síðast á Íslandi árið 1965.
Sjúkdómnum veldur, Bacillus anthracis, sem er grómyndandi baktería. Gróin geta lifað í áratugi eða jafnvel aldir í jarðvegi. Oftast kemur sjúkdómurinn upp í tengslum við jarðrask og því er sjúkdómurinn staðbundinn.

Skepnur smitast við að drekka mengað vatn, bíta mengað gras eða við að éta mengað kjöt- og beinamjöl.
Meðgöngutími sjúkdómsins er 1–3 sólarhringar, sauðfé og nautgripir drepast oft skyndilega án þess að hafa sýnt einkenni um sjúkdóm, hross drepast oftast 2- 3 dögum eftir að fyrstu einkenni sjást.
Sjúkdómurinn smitar ekki manna á milli. Þeir sem meðhöndla sýkt dýr eða afurðir sýktra dýra eru í mestri hættu á smiti og því er langalgengast að fólk smitist eftir snertingu við sýkt dýr.
Einkenni miltisbrands í fólki ráðast að nokkru af því hvernig smitið berst. Sýkillinn berst á þrjá vegu inn í líkamann: gegnum rofna húð með sýkingu í húð, gegnum meltingarveg með sýktri fæðu sem leiðir til meltingarfærasýkinga og um öndunarfæri sem veldur sýkingu í lungum. Bakterían berst í eitilvef og þaðan út í blóð. Lungnasýkingin er alvarlegasta sjúkdómsmyndin. Húðsýkingin er langalgengast sjúkdómsmyndin meðal manna en hún er jafnframt mildasta formið og leiðir til dauða í 10-20% tilvika ef hún er ekki meðhöndluð.

Ásláksstaðir

Ásláksstaðir og Móakot fjær.

Í tilkynningu frá lanbúnaðarráðuneytinu segir að afar ólíklegt sé að smit verði í mönnum nema bein snerting við sýkt dýr hafi orðið. Engin hætta sé á smiti hjá einstaklingum sem átt hafa leið hjá svæðinu.
Sjórinn er smám saman að brjóta af ströndum Reykjanesskagans og draga hann til sín. Víða má sjá í gamlar hleðslur, bein og annað undan bökkum þegar ströndin er gengin.
Miltisbrandur er ein þeirra vá, sem fornleifafræðingar þurfa jafnan að gæta varfærni við þegar grafið er í fornar dysjar, kuml eða svonefnda “álagbletti” því þar er líklegt að grafið hafi verið sýkt dýr, en síðan saga verið búin til um staðinn varnaðarins vegna.

Vatnsleysuströnd

Ásláksstaðir á Vatnsleysuströnd.

Hrafnagjá

Gengið var um Háabjalla, Snorrastaðasel og upp að Pétursborg á Huldugjárbarmi.

Snorrastaðatjarnir

Snorrastaðasel við Snorrastaðatjarnir.

Ein heimild kveður á um að tóftirnar norðan stærstu tjarnarinnar hafi verið Snorrastaðasel og þá frá bæjum í Vogum. Í elstu heimildum eru þrjár aðaltjarnir Snorrastaðatjarna nefndar Snorrastaða-Vatnagjár eða einungis Vatnagjár. Munu þær oftlega hafa gengið undir því samheiti.
Svæðið er stórbrotið dæmi um misgengi og gliðnun jarðskorpunnar á sprungurein og því einstaklega áhugavert jarðfræðifyrirbæri. Þar sem þátttakendur áðu í borginni sáu þeir hvar þrír yrðlingar léku sér neðan Huldugjárinnar, sem hún stendur upp á eins og kastali líkust. Fjárhústóftir eru sunnan hennar.

Pétursborg

Pétursborg.

Pétursborg var fyrrum sauðabyrgi frá Tumakoti í Vogum, nefnt eftir Pétri Andréssyni, bónda þar (1839-1904) og er hann sagður hafa hlaðið borgina. Hæðin er um 180 cm og snúa dyr mót suðri. Þrjár tóftir eru við borgina.
Þá var Hólsselið skoðað sem og Ólafsgjá. Í bakaleiðinni var komið við í Hrafnagjá – lengstri gjáa á Reykjanesi. Hrafnagjá er misgengissprunga með fjölbreyttum gróðri. Þar sem veggurinn er hæstur ofan við Voga er hann u.þ.b. 30 metra hár. Hrafnagjá er mjög djúp á köflum. Fjölskrúðugur gróður, s.s. burkni, blágresi og brönugrös er í og við gjána og þar verpir hrafn ár eftir ár í hæsta bergveggnum.
Veður var með eindæmum gott – sól og 18° hiti. Gangan tók 2 og 1/2 klst.

Heimild m.a.:
-Örnefni og gönguleiðir á Vatnsleysuströnd – Sesselja G. Guðmundsdóttir.

Pétursborg

Pétursborg og nágrenni – uppdráttur ÓSÁ.

Vatnsleysa

Gengið var um Keilisnesið og skoðuð refagildra, sem þar er, ein af nokkrum.

Keflavíkurborg

Keflavíkurborg.

Þá var haldið til Keflavíkur þar sem Sturlaugur Björnsson fylgdi FERLIR um Hjalla. Gerð var leit að Ásrétt innan Vallargirðingar, en mikil spjöll hafa verið unnin þar á varnasvæðinu og erfitt að sjá hvar réttin gæti hafa verið. Þó mátti giska á hvar bærinn Hjallatún hafi verið. Skoðaðar voru tóttir austan Flugstöðvarinnar og er ein þeirra greinilega gömul fjárborg (Keflavíkurborg).
Skoðuð var gömul rétt sunnan við Bergvötn, brunnur vestan við vötnin og hugsanlega gamlar seltóttir þar nálægt. Mjög gróið er í kringum Bergvötn. Sunnan þeirra lá gamla þjóðleiðin milli Keflavíkur og Leiru.

Stapi

Stapi – landamerkjavarða.

Í bakaleiðinni var komið við á landmælingavörðu á Stapa, en í henni er gamall koparskjöldur með merki Landmælinga Íslands þar sem segir m.a. að “Röskun varði refsingu”. Þá var komið við í Hrafnagjá og skoðuð áletrunin ofan við Magnúsarsæti (SJ-1888-ME) og loks var ákveðið að líta betur á letursteininn dularfulla við Stóru-Vatnsleysu. Sæmundur bóndi á Stóru-Vatnsleysu hafði beið FERLIR um að gera sér nú þann greiða að ráða letrið áður en hann færi yfir um. Það hefði alltaf verið leyndardómur á bænum og hann og fleiri hefðu lengi reynt að ráða í hvað stæði á steininum.

Stóra-Vatnsleysa

Letursteinninn við Stóru-Vatnsleysu – á hvolfi.

FERLIRsfarar settu upp húfurnar máttugu og síðan var reynt að ráða gátuna, sem óleyst hefur verið í gegnum aldirnar þrátt fyrir margar tilraunir hinna hæfustu manna. Tvær gamlar sagnir eru til um stein þennan, en aldrei hefur tekist að lesa hvað á honum stendur – þangað til núna. Á steininn er klappað ártalið 1643 og á honum eru stafirnir GI er mætast í keltneskum krossi ofan við I-ið.
Galdurinn við ráðninguna var að lesa steininn “á röngunni”. Hann hefur einhvern tíman oltið um og snýr hann því einkennilega við mönnum þegar reynt er að lesa á hann. En sem sagt – þessi gáta er ráðin. Steinninn er því næst elsti ártalssteininn á Reykjanesi, sem enn er fundinn.

Vatnsleysa

Stóra-Vatnsleysa. Tóftir kirkju og kotbýlis.

Skammt frá, nær íbúðarhúsinu á Vatnsleysu, var áður kirkja. Á rústum hennar var reist hús, en svo mikill draugagangur var þar að hurðir héldust ekki á hjörum. Það var síðan rifið. Ekki er ólíklegt að steinnin hafi verið grafsteinn eða til minningar um einhvern tiltekinn atburð eða ábúanda/fólk á svæðinu.
Frábært veður.

Stóra-Vatnsleysa

Letursteinninn við Stóru-Vatnsleysu.

Sýrholt

Stefnan var tekin á Sýrholt. Norðvestan í horltinu eru gróðurtorfur og tóftir á þeim.

Fornusel

Fornusel í Sýrholti – uppdráttur ÓSÁ.

Um er að ræða a.m.k. tvö sel. Annað er á torfunum norðvestan í Sýrholtinu, tvær tóttir. Í norðnorðvestur frá því er annað sel, tótt í brekku og mjög gamall stekkur á holti. Bæði selin eru greinilega mjög gömul og því ekki að ástæðulausu sem þau eru nefnd Fornusel. Líklega er erfitt að ákvarða frá hvaða bæjum þau hafi verið gerð út. Á milli seljanna er hlaðinn stekkur á hafti í djúpri gjá, grasi gróinni. Svo virðist sem gengið hafi verið talsvert niður í enda gjárinnar og gæti þar vel hafa verið brunnur. Snór gæti hafa verið í henni fram eftir sumri.
Í bakaleiðinni var komið við hjá Tvíburum, tveimur vörðum við Flekkuvíkurselsstíginn. Ágætt veður hlémeginn við vindinn.
Á uppdrættinum hér til vinstri má sjá tóftirnar í holtinu neðst til hægri, stöku tóftina ofan við miðju og síðan stekkinn í gjánni miðsvæðis ofan við miðju. Uppdráttinn má einnig sjá stærri undir Uppdrættir á vefsíðunni.
Gangan tók um klukkustund.

Sýrholt

Sel í Sýrholti (Fornasel).