Tag Archive for: Oddafellssel

Knarrarnessel

Í „Aðalskráningu fornleifa í Sveitarfélaginu Vogum – Áfangaskýrsla II“ er fjallað um sel og selstöður bæja á Vatnsleysuströnd. Þar segir m.a.:

Sogasel

Sogasel – uppdráttur ÓSÁ.

„Alls voru skráð átta sel á skráningarsvæðinu. Af þeim reyndust fimm í landi Stóru-Vatnsleysu. Ummerki um sel fundust á öllum stöðunum nema tveimur. Örnefnið Seltó er um 5 km frá bæ á Stóru-Vatnsleysu en engar minjar um sel hafa fundist þar. Líklegt er að nafnið sé til komið af því að fé úr t.d. Rauðhólaseli hafi verið rekið á beit á þessu svæði. Sagnir eru um að sel hafi verið við Ásláksstaðaholt en þar fundust ekki leifar um sel. Mögulegt er að það hafi orðið uppblæstri að bráð. Fjöldi selja í Stóru-Vatnsleysu skýrist m.a. af því að allar minjar í úthaga Stóru- og Minni-Vatnsleysu eru skráðar með fyrrnefndu jörðinni en Oddafellssel var sel frá Minni-Vatnsleysu. Þar er þröngt selstæði á milli Oddafells og úfins afstapahrauns. Þar eru greinilegar hleðslur annars vegar og mjög signar og fornlegar minjar hins vegar.

Flekkuvíkursel

Flekkuvíkursel.

Í landi Stóru-Vatnsleysu er fornlegt sel sem er við merki móti Flekkuvík og er skammt frá Flekkuvíkurseli. Ekki er útilokað að það sel hafi einnig tilheyrt Flekkuvík. Þar voru skráðar tvær tóftir, þúst, vatnsstæði og varða. Í Rauðhólsseli er ein þúst og ein tóft. Minjarnar eru nokkuð fornlegar. Kolhólasel virðist vera nokkuð gamalt en þar voru skráðar þrjár tóftir. Ekki er útilokað að hjáleigur Vatnsleysubæjanna hafi átt sel í heiðinni en einnig er líklegt að selstæði hafi færst til vegna vatnsleysis og hagaleysis. Gamla-Hlöðunessel er fornlegt en þar sjást tvær signar og grónar tóftir auk einnar vörðu. Selstæðið er illa farið af uppblæstri.

Knarrarnessel

Knarrarnessel.

Knarrarnessel er skráð undir Breiðagerði vegna þess að megnið af minjunum í selinu er innan merkja Breiðagerðis og er þeirri meginreglu haldið hér að fylgja þeim landamerkjum sem sveitarfélagið Vogar hefur látið skráningarmönnum í té. Hins vegar er sá háttur hafður á að minjar í úthaga eru skráðar undir heimajörð á hverjum stað, líkt og gert er í Stóru-Vatnsleysu, Ásláksstöðum stærri og Stóra-Knarrarnesi. Seljaþyrpingin er afar stór og greinilegt að á svæðinu hafa verið a.m.k. þrjú sel. Þar eru bæði fremur ungar tóftir og signar og fornar tóftir. Samkvæmt örnefnaskrá áttu Knarrarnesbæirnir tveir og Ásláksstaðir stærri selstöðu á þessum stað.

Auðnasel

Auðnasel – stekkur.

Þau sel sem skráð voru fyrri ár og fjallað er um í áfangaskýrslu I mátti gróflega flokka í þrennt eftir gerð: Flokkur 1= Fáar, signar og fornlegar tóftir; Flokkur 2= Þrjár eða fleiri tóftir, greinilegar; Flokkur 3= hleðslur í krosssprungum hólum og tóftir. Á skráningarsvæði eru engar seltóftir sem falla í flokk 3. Skipting selja á skráningarsvæðinu í flokka er ekki klippt og skorin.
Í flokk 1 fellur Gamla-Hlöðunessel og Rauðhólasel (þótt það virðist ekki vera jafn gamalt og Gamla-Hlöðunessel). Önnur sel fara í flokk 2, þótt greinilegt sé að eldra byggingarstig sé að finna innan um unglegar tóftir í Knarrarnesseli og Oddafellsseli.“

Hlöðunessel

Hlöðunessel

Hlöðunessel – teikning.

„Í Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalín frá 1703 segir: „Selstöðu á jörðin þar sem heitir Hlöðunesskinn, og eru þar hagir bjarglegar en vatnsból í lakasta máta, so orðið hefur fyrir vatnsskort að flytja heim úr selinu,“ „… þaðan beina línu sunnan til við Ásláksstaðaholt upp í Hrafnhóla og þaðan beina línu sunnan til við Hlöðunessel Gamla, til Fjalls …,“ segir í örnefnaskrá um sama stað. „Undir Hlöðuneskinn í lægð mót austri stóð Gamla-Hlöðunessel eða Hlöðunessel, þar sjáum við tvær mjög gamlar tóftir en túnið er svo til horfið vegna uppblásturs sem hefur verið mikill þarna,“ segir í Örnefnum og gönguleiðum. Selið er um 7,1 km suðaustan við bæ.
Selið er langt uppi í heiði þar sem uppblástur er nokkuð mikill. Selið er í brekku móti austri og hefur verið ágætt seltún austan við það í skjóli hlíða til suðurs og suðausturs. Nánast allt seltúnið er horfið vegna uppblásturs en enn sést grænn graskragi í brekkurótum til suðurs og suðausturs. Uppblásturinn er kominn mjög nærri tóftunum sem enn sjást á svæðinu og stafar þeim mikil hætta af honum.

Hlöðunessel

Hlöðunessel – uppdráttur ÓSÁ.

Minjar í selinu eru á svæði sem er um 90×10 m að stærð og snýr norður-suður. Á svæðinu fundust tvær tóftir og varða og fær hvert mannvirki fær bókstafi í lýsingu til aðgreiningar. Í norðurenda svæðisins eru tvær fornlegar og grónar tóftir. Tóft A er nyrst. Hún er um 5×4,5 m að stærð og snýr nálega austur-vestur. Tóftin er einföld og hefur líklega verið grjóthlaðin því það finnst fyrir grjóti undir þykku lagi af mosa og lyngi sem hylur tóftina. Dyr eru nærri miðjum suðurvegg. Mesta hleðsluhæð tóftar er um 0,3 m en hvergi sést í hleðslur. Tóft B er um 1 m sunnan við tóft A. Hún er tvískipt og grjóthlaðin en tóftin er mjög gróin. Tóftin er um 7×4,5 m að stærð og snýr nálega austur-vestur. Í vesturenda tóftarinnar er óljóst hólf I sem er um 2,5×1 m að innanmáli og snýr norður-suður. Ekki sést op á hólfinu. Hólf II er í austurenda tóftarinnar og er það um 2×1,5 m að innanmáli og snýr austur-vestur. Það mjókkar til austurs. Ekki sést skýrt op á hólfinu.

Hlöðunessel

Hlöðunessel.

Sunnan við tóftirnar virðist vera náttúruleg brún og þar er tóft B greinilegust og veggir hennar hæstir, eða 0,5 m á hæð. Í vesturenda tóftarinnar sjást 3 umför hleðslu en annars eru allar hleðslur hrundar. Syðst á minjasvæðinu er varða C. Hún er á klöpp efst á mosavaxinni en uppblásinni hraunhæð. Varðan er gróin og sigin. Hún er um 0,5 m í þvermál og 0,5 m á hæð. Í henni sjást aðeins 2 umför.“

Knarrarnessel

Knarrarnessel

Knarrarnessel – teikning.

“ Í Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalín frá 1703 segir: „Selstaða þar sem heitir Knararness sel; eru hagar litlir mjög, en vatnsskortur til stórmeina, so að selstöðuna hafa menn næsta því forlátið, og kaupir bóndinn nokkrum sinnumselstöðu í fjarlægð.“ „Þarna voru í eina tíð, og sjást rústir enn, þrjú sel. Fyrst Stóra-Knarrarnessel, Litla-Knarrarnessel og Ásláksstaðasel,“ segir í örnefnaskrá. Í Knararnesseli áttu þrjú lögbýli sel og enn sjást greinilega þrjú selstæði. Selið er um 5,2 km suðaustan við Knararnes stærra og um 5 km suðaustan við Breiðagerði. Samkvæmt landamerkjum frá Sveitarfélaginu Vogum er meirihluti tóftanna í selinu í landi Breiðagerðis og því er það skráð undir Breiðagerði þó að sá bær hafi ekki átt selstöðu í selinu svo vitað sé.
Selið er hátt uppi í heiðinni í grónu hrauni. Lágir hólar aðskilja selstæðin sem eru þrjú sýnileg. Grösugt er á selstæðinu og virðist rof ekki ógna því. Stórþýft er á svæðinu.

Örnefni og gönguleiðir

Sesselja G. Guðmundsdóttir, Örnefni og gönguleiðir á Vatnsleysuströnd…

Í bókinni Örnefni og gönguleiðir segir: „Knarrarnessel er framundan en það liggur nokkurn spöl ofan Klifgjár og þar er flatlendast miðað við önnur selstæði í heiðinni. Selstígurinn er ekki augljós frá Klifgjánni en frá jarðbrúnni yfir hana sveigjum við aðeins til hægri og komum að Leirflagsvatnsstæðinu en í það safnast vatn í rigningartíð. […] Selstæðið er stórt með mörgum tóftum enda höfðu líklega flestir bæir í Knarrarnesshverfi selstöðu þarna og í heimildum er getið um Litla Knarrarnessel og Ásláksstaðasel á þessum stað.“
Á heimasíðu Ferlirs segir: „Selstæðið er stórt með mörgum tóftum. Þar má finna átta slíkar, misjafnlega stórar og margflóknar. Þrjá hlaðna stekki er að sjá í selstöðunni. Fjöldi stekkja benda jafnan til fjölda selja á viðkomandi svæði. Hins vegar má geta þess að stekkir virðast ekki alltaf augljósir. Þannig má ætla að enn einn stekkurinn hafi fylgt austustu tóftunum þremur. Þær eru í grónum krika ofan við hinar tóftirnar. Sjá má móta fyrir hleðslu milli tveggja húsa, en alls eru rýmin í þeim fimm að tölu. Tvær tóftanna eru nokkuð heillegar og jafnvel sjá hversu stór rýmin hafa verið.
Í nyrstu tóftinni mældust innanrýmin 140×280. Það er svipað hlutfall og í öðrum rýmum annarra tófta, ekki einungis í þessu seli heldur og fleirum.

Knarrarnessel

Knarrarnessel – uppdráttur ÓSÁ.

Ein tóftin, sú syðsta í vestanverðri selstöðunni, er greinilega stærst umfangs. Hún hefur verið með fleiri rýmum en hinar, líklega einum fjórum, en það er óalgengt í seljum á Reykjanesskaganum, sem jafnan hefur þrjú slík, þ.e. eldhúsið með sérinngangi og búr og svefnaðstöðu með sameiginlegum inngangi. Því, sem hér er lýst, er einungis ályktun út frá því sem sést á yfirborðinu, en ef grafið yrði í rústirnar gæti ýmislegt annað komið í ljós, s.s. tengsl einstakra rýma innbyrðis. Stekkirnir eru svipaðir að gerð, tvö hólf. Þó má sjá móta fyrir bogadreginni hleðslu við endann á vestasta stekknum. Hlaðin kví er skammt norðan við selstæðið. Líklega höfðu flestir bæir í Knarrarnesshverfi selstöðu þarna og í heimildum er getið um Litla-Knarrarnessel og Ásláksstaðasel á þessum stað.“ Selið nær yfir svæði sem er um 115×100 m að stærð og snýr norður-suður. Það skiptist í þrjú svæði og verður hverju þeirra lýst fyrir sig. Svæði 1 er vestast og á því eru fjórar tóftir.

Knarrarnessel

Knarrarnessel – stekkur.

Tóft A er stærsta tóftin í öllu selinu. Hún er um 16x14m að stærð og snýr norðvestur-suðaustur. Hún skiptist í sjö hólf. Í greinilegri hluta tóftarinnar til norðvesturs eru fimm hólf. Inngangur inn í þennan hluta tóftarinnar er úr norðaustri. Um 4 m löng göng eru frá inngangi til suðvesturs í innsta hólfið, hólf I. Það er um 2,5 x1 m að innanmáli, snýr norðvestur-suðaustur. Framan við það til austurs er hólf III sem er um 2,5×1 m að innanmáli, op er 138 á því til norðvesturs. Beint á móti því til norðvesturs er hólf II sem er um 1,5×1 m að innanmáli, snýr suðvestur-norðaustur. Op er á því til suðausturs. Norðaustan við hólf III er hólf IV sem er um 2×0,5 m að innanmáli og snýr norðaustur-suðvestur. Op er á því til norðvesturs. Norðaustan við það er hólf V sem er um 1,5×1 m að innanmáli, snýr norðvestur-suðaustur. Op er á því til norðausturs út úr tóftinni, en ekki er gengt úr því í önnur hólf tóftarinnar. Í suðausturenda tóftarinnar eru 2 ógreinileg hólf. Í austurhorni er hólf VI sem er um 2×2 m að innanmáli. Op er á því til suðvesturs.

Knarranessel

Knarrarnessel.

Suðvestan við það er hólf VII sem er um 2×2,5 m að innanmáli og snýr norðvestur-suðaustur. Op virðist vera á því til suðvesturs og suðausturs. Mesta hæð tóftar er um 1,5 m. Hún er gróin en grjót sést á nokkrum stöðum í innanverðum hleðslum. Ekki er þó hægt að greina fjölda umfara. Tóft B er um 6 m ANA við tóft A, fast suðvestan við hólrana. Hún er gróin og einföld. Op er á henni til NNV. Hún er um 4×5 m að stærð, snýr NNV-SSA. Mesta hæð er um 1 m. Tóft C, stekkur, er um 20 m norðvestan við tóft A. Hún er grjóthlaðin og tvískipt. Hún er um 5,5×3 m að stærð, snýr SSA-NNV. Hólf I er í SSA-enda tóftar og er um 2×1,5 m að stærð, snýr NNV-SSA. Hólf II er ógreinilegt og veggir mjög signir. Það er um 1,5×2 m og snýr eins og tóft. Ekki sjást skýr op á hólfunum. Mesta hæð er um 0,4 m og mest sjást 2 umför af hleðslu.

Knarrarnessel

Knarrarnessel – stekkur.

Tóft D, stekkur, er um 16 m sunnan við tóft A. Hún er grjóthlaðin og tvískipt. Hún er um 5×3 m að stærð og snýr VNV-ASA. Hólf I er um 1,5×1,5 að innanmáli, op er á því til NNA. Hólf II er ógreinilegra, er um 2,5×1 m að innanmáli, op er á því til NNA. Mesta hæð er um 0,7 m og sjást 3 umför hleðslu. Ógreinilegt hólf er mögulega SSV við hólf I sem er um 0,5 x1 m að innanmáli, snýr eins og tóft VNV-ASA.
Ætla má að þessu seli hafi aðeins tilheyrt einn stekkur en ekki er augljóst hvaða stekkur tilheyrði hvaða seli. Svæði 2 er um 30 m norðaustan við svæði 1. Þar eru fimm mannvirki. Tóft F er í norðausturhorni þessa svæðis. Hún er þrískipt, er um 8×7 m að stærð, snýr norður-suður. Hólf I er í suðvesturhorni tóftarinnar. Það er greinilegast og er um 2×1 m að innanmáli, op er á því til austurs. Fast austan (suðaustan) við það er hólf III. Það er um 2×1,5 m að innanmáli og snýr ANA-VSV. Veggir þess eru lágir og grónir og ekki sést greinilegt op inn í það.

Knarrarnessel

Knarrarnessel – uppdráttur ÓSÁ.

Hólf II er fast norðan við hólf I. Það er um 1,5×1 m að innanmáli, snýr norður-suður. Op er á því til norðurs. Veggir þess eru fremur lágir. Aðeins sést í grjóthleðslur í hólfi I og eru hæstu veggir um 1 m, ekki sést fjöldi umfara í hleðslum. Um 2 m vestan við tóft F er tóft E. Hún stendur nokkuð hátt á lágum hól sem kann að vera náttúrulegur að einhverju leyti. Tóftin er tvískipt, er um 6,5×6,5 m að stærð. Hólf I er í austurhluta tóftar sem er L laga. Hólfið er um 3×1 m að innanmáli og snýr norður-suður. Inngangur er úr vestri.

Knarrarnessel

Knarrarnessel.

Hólf II er fast suðvestan við hólf I, er um 1,5×1 m að innanmáli, snýr norður-suður. Op er á því til norðurs. Mesta hæð veggja er um 1 m og sjást 2 umför hleðslu. Tóftin er grjóthlaðin en nokkuð gróin. Á hólnum vestan við tóftina er mjög þýft og grýtt undir sverði en ekki er hægt að sjá skýrar útlínur mannvirkja. Líklegt er þó að fleiri mannvirki séu á þessum stað. Tóft G er um 15 m sunnan við tóft E. Hún er orðin nokkuð sigin og stendur lágt. Hún er um 5×6 m að stærð, snýr norður-suður. Tóftin skiptist í 3 hólf að því er virðist.

Knarranessel

Knarrarnessel.

Hólf I er greinilegast. Það er í vesturhluta tóftar og er um 1,5×1 m að innanmáli, snýr norður-suður. Op er á því til vesturs. Hólf II er í suðausturhorni tóftarinnar. Það er ógreinilegt, er um 0,5 m í þvermál að innanmáli. Op er á því til austurs. Mögulega hefur verið gengt á milli þess og hólfs III en það er óljóst. Hólf III er fast norðan við hólf II og er einnig um 0,5 m í þvermál að innanmáli. Ekki sést skýrt op inn í það. Dálítill sléttaður blettur er fast norðaustan við tóftina. Hann er um 3×3 m að stærð. Tóft H er um 15 m suðaustan við tóft G. Hún er uppi á hólrana. Hún er grjóthlaðin og skiptist í þrjú hólf; tvö skýr hólf og eitt óskýrt. Alls er tóftin um 7,5×6 m að stærð og snýr suðvestur-norðaustur. Hólf I er um 2,5×4 m að innanmáli og snýr norðvestur-suðaustur. op er á því til suðausturs.
Hólf II er í norðurhorni tóftar. Svo virðist sem gengt hafi verið á milli hólfa I og II. Hólf II er um 2×1,5 m að innanmáli, snýr suðvestur-norðaustur.
Hólf III er í suðurhorni tóftarinnar. Það hefur gróna veggi og ekki sést í neitt grjót í þeim. Það er um 1,5×1 m að innanmáli, snýr norðvestur-suðaustur. Ekki sést op á þessu hólfi. Mesta hleðsluhæð er um 0,5 m og mest sjást 3 umför. Um 5 m suðvestan við tóft H er hringlaga dæld I sem er um 6 m í þvermál og 0,2-0,5 m djúp. Mikið þýfi er í dældinni. Hlutverk hennar er óljóst.

Knarrarnessel

Knarrarnessel – vatnsstæðið neðan selsstöðunnar.

Tóft J er um 50 m austan við tóft F. Hún er á sléttri klöpp í jaðri selstæðisins, einföld og grjóthlaðin. Tóftin er um 4×3 m að stærð, snýr austur-vestur. Nokkuð skýrt op er í suðvesturhorni en óljóst op er í norðausturhorni, líklega rof. Mesta hleðsluhæð er um 0,4 m og sjást 2 umför. Tóft G á svæði 2 er greinilega mun eldri en önnur mannvirki á svæðinu, a.m.k. tóftir E og F. Ef til vill hefur selið verið endurbyggt á nýjum stað innan sama seltúns. Hlutverk tóftar J er óljóst. Ekki er ólíklegt að hlutverk hennar hafi verið stekkur og sem var ef til vill hlaðinn þegar selið var endurbyggt. Hún er hins vegar einföld ólíkt hinum stekkjunum á svæðinu.

Knarrarnessel

Knarrarnessel – uppdráttur ÓSÁ.

Á svæði 3 eru þrjár tóftir og ein varða. Varða K er í VSV-enda svæðisins. Hún er um 1×0,5 m að grunnfleti og um 0,5 m á hæð. Hún snýr austur-vestur. Í henni sjást fjögur umför hleðslu. Tóft L er í ANA-enda svæðisins. Hún er á lágum hól í nokkuð stóru og flatlendu seltúni. Tóftin er grjóthlaðin en gróin og skiptist í tvö hólf. Hún er L laga, er um 6×5 m að stærð og snýr VSV-ANA. Hólf I er um 3×1 m að innanmáli, snýr NNV-SSA. Op er á því til ANA.

Hólf II er um 2×1 m að innanmáli og snýr ANA-VSV. Op er á því til NNV. Mesta hleðsluhæð tóftar er um 1m og sjást 3 umför hleðslu í innanverðum veggjum. Um 4 m VSV við tóft L er tóft M. Hún er reyndar tvær tóftir en á milli þeirra er grjóthleðsla sem tengir þær saman og því eru þær skráðar saman. Alls eru tóftirnar á svæði sem er um 10×10 m að stærð.

Knarrarnessel

Knarrarnessel – nálægt selsvatnsstæðið.

Austast á svæðinu er tóft sem er 5×5 m að stærð og skiptist í tvö hólf. Tóftin er gróin en þó sést í einn stein við inngang í hana sem er úr norðri. Hólf I er í suðurenda tóftarinnar. Það er um 1,5×0,5 m að innanmáli, snýr austur-vestur. Op er á því til norðurs. Hólf II er afar óljóst, er um 1×0,5 m að innanmáli, snýr austur-vestur. Op er á því til austurs. Fast vestan við tóftina er dálítil þúst sem er um 3×3 m að stærð og um 0,2 m á hæð. Mögulega eru mannvistarleifar þar undir sverði. Frá norðvesturhorni þessarar tóftar liggur um 4 m löng grjóthleðsla að annarri tóft sem er um 4×4,5 m að stærð og snýr NNV-SSA. Hún er einföld og op er á henni til ANA. Aðeins sést glitta í grjót á einum stað í tóftinni en annars er hún gróin. Mesta veggjahæð í tóftinni er um 1 m. Að lokum er ógreinileg tóft N um 2 m sunnan við tóft M, norðaustan undir lítilli brekku. Tóftin er gróin og einföld. Hún er um 3×2 m að stærð, snýr ANA-VSV. Inngangur í tóftina úr ANA er skýr en mjór. Mesta hæð hennar er um 0,5 m. Tóftir M og N eru mun fornlegri en tóft L og svo virðist sem selið hafi verið endurbyggt á nýjum stað innan sama selstæðis. Ekki er skráður stekkur innan þessa svæðis en líklegast er að stekkir D eða H hafi tilheyrt þessu seli. Ekki hafa fundist heimildir um það hvaða bær átti hvaða selstæði.“

Oddafellssel

Oddafellssel

Oddafellssel – teikning.

„Í Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalín frá 1703 segir: „Selstöðu segja menn jörðin eigi þar sem heitir Oddafell, og er þángað bæði lángt og erfitt að sækja, eru þar hjálplegir hagar og vatn nægilegt.“ „Gamall götuslóði eða stígur liggur frá Oddafelli, og fer hann út á hraunið spölkorn vestur með fellinu, frá norðurenda þess vestur yfir hraunið í átt að Keili, og er nefnt Höskuldarvallastígur. Örskammt með fellinu að vestan við hraunbrúnina eru gamlar vegghleðslur. Þar var haft í seli frá Minni-Vatnsleysu,“ segir í örnefnaskrá. Selið er um 9,3 km suðaustan við bæ. Minjarnar eru á mörkum úfins mosagróins hrauns og grösugra hlíða Oddafells sem þó eru uppblásnar á köflum.
Í bókinni Örnefni og gönguleiðir segir: „Næst skoðum við tóftirnar af Oddafellsseli sem var frá Minni-Vatnsleysu en það liggur í vesturrótum fellsins skammt fyrir sunnan Höskuldarvallastíginn (sjá síðar) þar sem hann beygir út í apalhraunið til vesturs. Þar sjást tvær-þrjár tóftir og einnig kvíahleðslur í hraunjaðrinum rétt sunnan við selið.“

Tóftir sem tilheyrt hafa selinu eru á svæði sem er um 170×10 m að stærð og snýr norðaustur-suðvestur. Í lýsingunni sem fylgir hér á eftir er hverju mannvirki gefinn bókstafur til aðgreiningar.

Oddafellsel

Oddafellssel I – teikning.

Annars vegar eru tóftir A-F suðvestast á svæðinu og hins vegar eru tóftir G-H norðaustast á svæðinu. Lýsingin hefst suðvestast á minjasvæðinu. Þar er þúst F sem er um 7×3 m að stærð og snýr norðaustur-suðvestur. Hún er grasi gróin en það finnst fyrir grjóti undir sverði. Hún er um 0,3 m á hæð. Þústin skiptist óljóst í tvo hluta. Í norðausturenda er hluti I um 3×2 m að stærð, snýr nálega norður-suður. Í suðvesturenda er hluti II sem er um 3×4 m að stærð og snýr norðaustur-suðvestur. Tóft E er um 11 m norðaustan við þúst F. Hún er tvískipt, er um 8×5 m að stærð, snýr norðaustur-suðvestur. Tóftin er grjóthlaðin og í norðvesturhluta hennar er hólf I hlaðið fast við hraunvegginn sem myndar að hluta innri veggi þess. Hólfið er um 4×2 m að innanmáli, snýr norðaustur-suðvestur. Op er úr því til suðurs. Hólf II er um 7×2 m að innanmáli, snýr norðaustur-suðvestur, op til suðvesturs. Mesta hleðsluhæð tóftar er um 1 m en víðast eru hleðslur fallnar og eru 0,2-0,5 m á hæð. Mest sjást 4 umför hleðslu. Frá norðurhorni tóftar liggur hleðsla til norðausturs og beygir svo til norðurs. Er um 4 m á lengd, 0,5 m á hæð og 0,3 m á Oddafellssel. 3 umför sjást í hleðslunni.

Oddafellssel

Oddafellssel.

Á milli þústar F og tóftar E er grjóthleðsla í hraunbrúninni sem er um 3 m á lengd og um 0,5 m á hæð og breidd. Snýr norðaustur-suðvestur. Mest sjást 3-4 umför en ekki er um stæðilega hleðslu að ræða. Fast norðaustan við tóft E er þúst D. Hún er um 10×4 m að stærð, snýr norðaustur-suðvestur. Þústin er útflött og hlaupin í þúfur, er um 0,2 m á hæð. Undir sverði finnst fyrir grjóti. Fast norðaustan við þústina er hellisskúti C. Mikið hefur hrunið ofan í hann af grjóti. Líklega hafa verið hleðslur fyrir munna skútans en þær eru grónar og hrundar. Munni skútans er um 3 m á breidd og 1 m á hæð. Hellisskútinn er um 2 m á breidd og 5 m á lengd innanmáls. Mesta lofthæð er um 2 m. Um 2 m norðaustan við hellisskúta C er tóft B sem er mjög sigin og gróin, er um 7×3 m að stærð. Grjót sést í veggjum tóftar sem eru hæstir um 0,3 m á hæð í suðvesturenda. Tóftin er einföld, um 1×5 m að innanmáli. Ekki sést inngangur í tóftina. Tóft A er fast norðaustan við tóft B. Tóftin er um 15×4 m að stærð, snýr norður-suður. Hún er hlaðin úr grjóti upp við apalhraunið og skiptist í fjögur hólf.

Oddafellssel

Oddafellssel norðanverð.

Syðst í tóftinni er hólf I sem er um 4×3 m að stærð og snýr norðvestur-suðaustur. Op er á því í norðurhorni. Þetta hólf sker sig aðeins frá öðrum hlutum tóftarinnar að því leyti að það snýr ekki norður-suður eins og hin hólfin og hún er einnig mosagrónari en þau. Veggir þess eru um 0,4 m á hæð og sjást 2 umför hleðslu í því. Fast norðan við hólf I er hólf II sem er um 2×1,5 m að innanmáli, snýr norður-suður. Mögulegt op er í suðurenda þess, samanfallið. Norðurveggur þess stendur vel, er um 1,2 m á hæð innanmáls og eru 6 umför sýnileg. Hólf III er um 1,5×1 m að innanmáli, snýr Oddafellssel 073, tóftir G og H austur-vestur. Óljóst op er í norðausturhorni. Hólf IV er um 1×3 m að innanmáli. Hleðslur eru signar og grónar.

Oddafellssel

Oddafellssel – tóft.

Mögulega var op í norðausturhorni hólfsins en það er óljóst. Um 110 m norðaustan við tóft A er tóft G fast suðaustan við Höskuldarvallastíg, á milli grasi gróinnar brekku Oddafells og mosagróins hrauns. Hér er mun opnara svæði en þar sem tóftir A-F eru og hlíðar Oddafells ekki eins brattar. Tóft G er grjóthlaðin en mjög sigin og gróin. Hún er einföld, snýr ASA-VNV. Mesta hæð veggja er um 0,3 m. NNA-veggur er ógreinilegur og ytri mörk hans sjást illa. Tóft H er um 3 m norðan við tóft G. Hún er óljós en í henni má greina tvö hólf. Tóftin er um 6×3 m að stærð og snýr NA-SV. Hún er útflött og er aðeins 0,1-0,2 m á hæð, líklega torf- og grjóthlaðin. Tóftin er hlaðin upp við lága hraunbrún. Hólf I er um 1,5 m í þvermál innanmáls og ógreinilegt op úr því til suðausturs. Hólf II er í suðvesturenda og er um 1,5×0,5 m að innanmáli, snýr suðaustur-norðvestur. Óljóst op er úr því til suðvesturs. Hólf II er um 0,3 m á dýpt en hólf I er litlu grynnra. Þessar tvær tóftir tilheyra að líkindum selinu þó að þær séu spöl frá tóftum A-F. Ljóst er að minjarnar eru frá fleiru en einu tímabili og eru þústir F og D allfornlegar en tóft A virðist mun yngri. Frekari rannsókn myndi varpa ljósi á aldur minjanna og breytingar á notkun selsins í gegnum tíðina.“

Rauðhólssel

Rauðhólssel

Rauðhólssel – teikning.

„Í Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalín frá 1703 segir: „Selstöðu á jörðin þar sem heitir Rauðhólasel, eru þar hagar viðsæmandi, en stórt mein á vatnsskorti.“ „Grasi gróinn halli eða lægt er vestan undir Rauðhól. Þar eru gamlar rústir eftir kofa og fjárrétt. Þar var haft í seli frá Stóru-Vatnsleysu, og heitir þar Rauðhólssel,“ segir í örnefnaskrá. Minjarnar eru um 6,5 km suðaustan við bæ.
Tóftirnar eru á litlu mosavöxnu seltúni vestan við Rauðhól. „Selið er í litlum Hvammi milli brunahóla. Seltún er þarna lítið. Tættur eftir byggingar eru hér líka. Aðalselið hefur verið undir Rauðhól- Nyrðri en fyrir botni er Stóri-Rauðhóll og norðan undir honum eru Kvíarnar og Réttin. Kvíarnar eru hringbyggðar eins og Borg, en Réttin er aflöng, sporöskjulöguð. Þarna var haft í seli fram um sextándu helgi [svo]. Þá gerðist svo magnaður draugagangur, að ekki varð við vært. Við austurenda Stóra-Rauðhóls hefur hraunið runnið niður brekku og þar hefur það myndað Sjálfkvíar eða djúpa laut, sem var hin ágætasta kví,“ segir í örnefnaskrá.

Rauðhólssel

Rauðhólssel.

Á heimasíðu Ferlirs segir: „Ofarlega í heiðinni eru nokkrir grónir rauðamelshólar. Rauðhólar standa við vesturjarðar Afstapahrauns, en í kring um þá að hluta hefur hraunið runnið. Þetta eru fjórir hólar eða hæðir og tveir sem standa fjærst hrauninu heita Stóri-Rauðhóll eða Rauðhóll og Litli-Rauðhóll, sem stendur neðan hans. Undir þessum hólum að Rauðhólasel. Það var frá Stóru-Vatnsleysu. Sagt var fyrrum að ekki hefði verið hægt að hafast við í selinu eftir að sextán vikur voru af sumri vegna draugagangs. Við selið finnst ekkert vatnsból [svo].
Aðalbláberjalyng er mjög sjaldgæf [svo] jurt í hreppslandinu, en við hólana má sjá það teygja sig upp úr þröngum gjám.“

Rauðhólssel

Rauðhólssel – uppdráttur ÓSÁ.

Ein tóft og ein þúst sjást í seltúninu á svæði sem er um 35×15 m að stærð og snýr norðvestur-suðaustur. Tóft A er norðvestast á svæðinu. Hún er um 10×8 m að stærð og snýr norður-suður. Hún er þrískipt, torf- og grjóthlaðin. Hólf I stærst og er í suðurenda tóftarinnar. Það er um 3,5×2 m að innanmáli og snýr norður-suður. Op er inn í það á austurhlið. Úr hólfi I er gengið inn í hólf II til norður sem það hólf er mjög samansigið og óskýrt, sem og opið milli hólfanna. Hólf II er um 1 m í þvermál innanmáls. Hólf III er í norðausturhluta tóftarinnar. Það er um 3,5×0,5 m að innanmáli og snýr norður-suður. Op inn í það er á suðurgafli. Mesta hleðsluhæð tóftarinnar er um 0,6 m. Ekki sést fjöldi umfara í hleðslum. Þúst B er um 4,5×8 m að stærð og snýr norðvestur-suðaustur. Þústin er gróin en hefur líklega verið torf- og grjóthlaðin. Hvorki sést móta fyrir hólfum í þústinni né opi. Þústin er við jaðar seltúnsins og lækkar landið norðaustan við hana. Mesta hæð hennar er 0,3 m.“

Flekkuvíkursel II

Flekkavíkursel

Flekkuvíkusel II – teikning.

“ Lítið sel er um 185 m norðaustan við Flekkuvíkursel og 3 km SSA við bæ 001. Heimildumber ekki saman um hvað ásarnir heita í kringum Flekkuvíkursel en það skiptir miklu máli í þessu tilviki því landamerki Flekkuvíkur á móti Kálfatjörn annarsvegar og Vatnsleysu hins vegar liggja um ása sitt hvorum megin við selið. Í bókinni Örnefni og gönguleiðir er aðeins talað um Vestari- og Nyrðri-Flekkuvíkurselás eins og gert er í landamerkjalýsingu. Í lýsingum af staðsetningu selsins í sömu heimild er talað um að Selásvarða sé á Vesturásnum. Í örnefnaskrá Flekkuvíkur er hins vegar talað um Selásinn vestari, Selásinn eystri og Mið-Selás. Og samkvæmt sömu heimild er Selásvarðan á Mið-Selás.

Flekkuvíkursel

Flekkuvíkursel – tóft.

Á vettvangi og af loftmyndum virðast ásarnir vera þrír og er líklegt að Selásinn eystri í örnefnaskrá sé sami ás og Nyrðri-Flekkuvíkurselás í landamerkjalýsingu en þessi ás er norðaustastur ásanna og því geta bæði nöfnin átt við hann. Mið-Selássins er væntanlega ekki getið í landamerkjaskrám af því að landamerkin liggja ekki um hann. Mið-Selás er suðaustan við Flekkuvíkusel og á honum er stór varða sem að öllum líkindum er Selásvarða en tvær vörður eru á Selásnum vestari sem er vestan við Flekkuvíkursel. Selið sem hér er skráð er á mörkum Vatnsleysu og Flekkuvíkur. Óvíst er hver tengslin eru milli seljanna tveggja en selið í landi Vatnsleysu virðist vera eldra en Flekkuvíkursel og því tilheyra færri sýnilegar rústir. Selið kann að hafa verið frá Vatnsleysu eða eldra sel frá Flekkuvík þó að selstæði Flekkuvíkursels sé mun ákjósanlegra eins og aðstæður eru nú.

Flekkuvíkursel

Flekkuvíkursel – uppdráttur ÓSÁ.

Selið er í allgrónu hrauni norðan undir Nyrðri-Flekkuvíkurselási eða Selás eystri. Þar er lítið gróðurlendi og flagmóar eru nærri tóftunum og ógna þeim.
Á heimasíðu Ferlirs segir: „Ásarnir, sem selið stendur við, heita Vestri-Flekkuvíkurselás og Nyrðri-Flekkuvíkurselás. Á vesturásnum er Selásvarða, önnur varða er á miðhluta hans og sú þriðja á nyrðri endanum. Norðan ássins, rétt neðan við vatnsbólið, eru þrjár gamlar tóftir og há grasivaxin grjóthrúga, líklega mjög gömul húsatóft.“ Í ritgerð Ómars Smára Ármannssonar um Sel á Reykjanesskaga segir: „Í selinu [Flekkuvíkurseli] sjálfu má vel greina 8 tóttir. Líklega hafa selstöðurnar verið a.m.k. tvær. Stekkur er undir holtinu skammt sunnar, en vestan við selið eru hleðslur er gætu verið rétt og eldra gerði. Vel gróið er í kringum selið, Seltúnið. Norðan við selið er klapparhóll. Í kvos norður undir norðurholtinu er hlaðin kví. Norðan þess eru þrjár tóftir er benda til þess að þar hafi verið minna sel. Norðan þess er u.þ.b. metershár hóll með hleðslum. Talsverð landeyðing er í kringum hann, en þarna gæti hafa verið stekkur, lítil borg eða hlaðið hús. Hugsanlega gæti þetta hafa verið sel frá öðrum Flekkuvíkurbæjanna, en Flekkuvík skiptist í Austurbæ og Vesturbæ, auk þess sem bærinn Refshali (Rifshali) var býli þar í túnkróknum (fór í eyði 1920).“

Flekkuvíkursel

Flekkuvíkursel – uppdráttur ÓSÁ.

Minjar um selið eru á svæði sem er um 95×85 m að stærð og snýr VNV-ASA. Á svæðinu eru þrjár tóftir, vatnsstæði og varða. Í lýsingunni sem hér fylgir á eftir er hverju mannvirki gefinn bókstafur til aðgreiningar. Seltóftin A er í lítilli gróinni kvos norðan Nyrðri-Flekkuvíkurseláss. Tóftin er þrískipt og er um 6 x 7 m að stærð, snýr norðaustur-suðvestur. Tóftin liggur í hálfhring og er hólf II í horninu. Það er um 1,5 x 1 m að innanmáli, snýr norðaustur-suðvestur eiins og hólf III sem er norðaustan við það og er jafnstórt. Hólf I er norðvestan við II. Það er um 1 x 0,5 m að innanmáli. Mesta hleðsluhæð er um 0,5 m. Í hólfum I og II sést í grjót í veggjum. Op er inn í hólf II og III úr norðvestri og inn í hólf I úr norðaustri. Um 12 m norðan við tóft A er ógreinileg grjóthlaðin tóft B sem stendur nokkuð hátt. Hún er einföld, um 5 x 6 m að stærð, snýr norðaustur-suðvestur. Hæð tóftar er um 1 m en ekki er ljóst hvort hún er hlaðin að öllu leyti eða hvort hún stendur á lítilli hæð eða klöpp. Í báðum endum tóftarinnar eru veggjabrot úr grjóti og dálítil lægð á milli þeirra, snýr norðvestur-suðaustur. Tóftin er mosa og lyngi vaxin en víða sést í grjót. Í grasi grónum bala eða laut er lítil grjóthlaðin tóft, líklega það sem sum staðar er nefnt kví eða stekkur C upp við hraunhellubrún. Tóftin er um 90 m vestan við A og B. Hún snýr suðvestur-norðaustur og er 9×2 m að stærð. Tóftin skiptist í 5 hólf sem öll eru svipuð að stærð, 1-1,5 x 1-1,5 m. Mesta hleðsluhæð er um 1 m en hleðslur víðast hrundar.

Flekkuvíkursel

Flekkuvíkursel – vatnsstæði.

Á milli selstæðanna tveggja, um 60 m suðvestan við tóft A er vatnsstæði D uppi á gróðurlausu holtinu á klapparhellu. Dálítill bolli er ofan í helluna, um 0,6 x 0,4 m stór, snýr norðaustur-suðvestur og er um 0,2 m á dýpt en mold er í botninum. Norðvestan við bollann er dálítill gróðurblettur með mosa, lyngi og grasi, og þar næst bollanum mótar fyrir grjóthleðslu undir gróðri, liggur meðfram bollanum í sömu átt. Fast suðaustan við bollann er lítið vörðubrot E, gróður er undir henni og hún gróin neðst. Hún er um 1×0,8 m, snýr norðaustur-suðvestur, og er um 0,4 m á hæð. Steinar eru mosa- og skófum vaxnir. Varðan hefur vísað á vatnsstæðið. Margar aðrar vörður eru á holtunum umhverfis selstæðin.“

Kolhólasel

Kolhólasel

Kolhólasel – teikning.

„Í graslendinu fast við hólinn eru fimm greinilega afmarkaðar tóftir eða dældir og er sú stærsta 4×3 m. Ekkert grjót sést í tóftunum. Sagnir eru til um kolagrafir þarna, en hólarnir á þessu svæði heita Kolhólar og grasrindarnir Kolhólalágar. Nú er farið að kalla þessar tóftir Kolhólasel en líklega hefur það heitið Vatnsleysusel fyrrum,“ segir í bókinni Örnefni og gönguleiðir. Í örnefnaskrá segir: „Hér suður í heiðinni Vatnsleysuheiði, var fyrr á tímum sel Vatnsleysusel. Nú munu fáir eða engir vita um þann stað, en nafnið lifir meðal eldri manna.“
Á heimasíðu Ferlirs segir: „Markmiðið með þessari ferð var m.a. að finna svonefnda Kolhóla og hugsanlega fornar minjar, sem þar áttu að vera. Hólarnir eru í heiðinni, en í landi Vatnsleysu. Eftir svolitla leit fundust rústirnar norðaustan undir hól á vel grónu svæði; tóftir af tveimur húsum með tveimur rýmum hvort. Austast var stekkur. Af nafninu að dæma gætu þarna hafa verið unnin kol á meðan enn var hrís í heiðinni. Annar Kolhóll er þarna nokkuð sunnar í heiðinni. Í hann er nokkuð djúp gróin skál. Tóftirnar virðast vera mjög gamlar. Líklegt er að Vatnsleysa hafi haft þarna í seli um tíma, en síðar fært sig ofar, í Rauðhólssel og undir Oddafellið. Forvitnilegt væri að kanna tóftirnar betur. Þessa er hvergi minnst í seinni tíma ritum, s.s. Jarðabókinni 1703 eða í yfirferð Brynjúlfs Jónssonar um Reykjanesskagann á 19. öld.“

Kolhólasel

Kolhólasel – uppdráttur ÓSÁ.

Seljatóftir eru um 5 km sunnan við bæ og um 1,35 km suðvestan við Gvendarborg. Minjarnar eru í nokkuð flatlendum og grjónum móa innan um hraunhóla sem mynda hring í kringum svæðið, syðst á svæðinu eru minjar undir allháum hól.
Alls eru þrjár tóftir á svæði sem er um 27×18 m að stærð og snýr norðaustur-suðvestur. Í suðvesturenda svæðisins er tóft A. Hún er tvískipt. Tóftin er um 7×4 m að stærð og snýr norðaustur-suðvestur. Hólf I er í norðausturenda. Það er um 1×3 m að innanmáli og snýr norðaustur-suðvestur. Op er á norðvestur-langvegg. Hólf II er upp við brekku og er er suðvesturgafl þess óljós þar sem brekkan myndar vegginn að mestu leyti. Það er um 1×1 m að innanmáli og er op í norðurhorni hólfsins. Mesta hleðsluhæð tóftar er um 0,3 m. Allar tóftirnar eru grónar og hvergi sést í grjót. Líklega eru þær torf- og grjóthlaðnar. Tóft B er um 10 m vestan við tóft A. Hún er tvískipt en mögulega er eitt óljóst hólf sem tilheyrir henni að auki. Alls er tóftin 10×7 m að stærð og snýr norðvestur-suðaustur. Hólf I er fast norðvestan við brekku og sést suðausturveggur þess ekki skýrt af þeim sökum. Hólfið er um 3×2 m að innanmáli og snýr norðaustur-suðvestur. Op er á hólfinu til norðvesturs.

Kolhólasel

Kolhólasel.

Hólf II er um 1×3 m að innanmáli og snýr NNA-SSV. Op er á því í SSV-enda, við opið inn í hólf I. Hólf III er afar óskýrt og kann að vera náttúrumyndun. Það er í halla suðaustan við hólf I og er um 2×1,5 m að innanmáli, snýr norðvestur-suðaustur. Mögulega var gengt á milli hólfs I og III í suðurhorni hólfs I en einnig er op í vesturhorni hólfs III. Mesta hleðsluhæð er um 0,3 m. Tóft C er um 2 m norðaustan við tóft B. Það er einföld tóft sem er um 7×5,5 m á stærð, snýr norðvestur-suðaustur. Op er í norðvesturenda. Suðausturveggur við brekku og er óskýr. Norðvestur-langveggur er 2-3 m á breidd en suðvesturveggur er afar óljós og sést nánast eingöngu innri brún hans. Mesta hleðsluhæð tóftarinnar er 0,5 m.“

Sjá meira undir „Sel á Vatnsleysuströnd III„.

Heimild:
-Aðalskráning fornleifa í Sveitarfélaginu Vogum – Áfangaskýrsla II, Fornleifastofnun Íslands, Reykjavík 2014.

Kolhólasel

Í Kolhólaseli.

Gjásel

Í bók Árna Óla, Strönd og Vogar – Úr sögu einnar sveitar í landnámi Ingólfs, fjallar hann um „Selstöður í heiðinni“ – Vogaheiði.

Árni Óla

Árni Óla.

„Seljarústir segja sína sögu um búskaparháttu fyrr á öldum. Landnámsmenn fluttu með sér frá Noregi þann sið að hafa í seli. Og íslenzka bændastéttin var fastheldin á þetta, því að um þúsund ár hafa selin staðið.

Þegar Vatnsleysuströnd byggðist, munu hafa verið mjög góðir hagar í heiðinni. Hver jörð átti þá sitt sel, og sennilega hefir þá verið vatnsból hjá hverju seli. En er gróður gekk til þurrðar, jarðvegur breyttist og uppblástur hófst, þá hverfur vatnið víða. Í Jarðabók Árna og Páls er getið um 12 selstöður, en viðkvæðið er oftast, að þar sé vatnsskortur til mikils baga, og sum selin sé að leggjast niður þess vegna. Þó er enn haft í seli á flestum eða öllum jörðunum, en sum selin hafa verið færð saman. Selin hafa því upphaflega verið fleiri.
Hér verða nú taldar seljarústirnar í Vogaheiði og Strandarheiði, og er aðallega stuðzt við frásögn Benjamíns Halldórssonar og lýsingar hans á staðháttum.

Selhólar

Selhólar.

1. Selhólar heita skammt fyrir ofan Voga. Þar sést fyrir gömlum seltóftabrotum. Vatnsból þess sels hefir verið í Snorrastaðatjörnum.

Nýjasel

Nýjasel.

2. Nýjasel er við Snorrastaðatjarnir ofanverðar. Þar hafa verið glöggvar seltóftir fram til þessa. (Þegar leitað er Nýjasels verður það ekki auðfundið. Fylgja þarf gjánni  uns komið er að tóftunum, sem eru harla óljósar. Fyrir þá/þau er þekkja til seltófta er þarna þó augljós selstaða, en lítilmátleg hefur hún verið í þá tíð; þrjár litlar tóftir og stekkur – þrátt fyrir allt dæmigerð sem slík á þessu svæði.)

3. Þórusel er skammt austur af Vogum. Er þarna allstórt svæði, sem einu nafni nefndist Þórusel.

Þórusel

Þórusel.

Þar sjást nú engin merki seltófta [sem er reyndar ekki rétt] og ekkert vatnsból er þar nærri. Þjóðsagnir herma, að fyrrum hafi verið stórbýli, þar sem nú heitir Þórusker hjá Vogavík, og hafi þar verið 18 hurðir á járnum.

Þórusel

Þórusel.

Býli þetta var kennt við Þóru þá, er selstaðan dregur nafn af. Þórusker var utan við Vogavíkina og þótti fyrrum vera hafnarbót, enda þótt það kæmi ekki upp fyrr en með hálfföllnum sjó. Alldjúpt sund var milli skersins og lands, en nú er þar kominn hafnargarður, sem tengir skerið við land. Norður af Þóruskeri em 4—5 sker, sem nefnd eru Kotasker, og yfir þau fellur sjór á sama tíma og hann fellur yfir Þórusker. Norðvestur af Þóruskeri eru 2 allstórir boðar, sem nefnast Geldingar. Þar á ábúandi Þóruskers að hafa haft geldinga sína. Geldingarnir koma úr sjó nokkru fyrir stórstraumsfjöru, en í smástraum sjást þeir ekki. Milli þeirra og Þóruskers er fremur stutt sund, sem ekki er bátgengt um stórstraumsfjöru. Á milli Geldinganna er mjótt og djúpt sund og er þar hvítur sandur í botni.

Arahnúkasel

Arahnúkasel.

4. Arahnúkssel er hjá Stóru-Aragjá (Litla-Aragjá er nokkru neðar) og er þangað röskur hálfrar stundar gangur frá Vogum. Í Arahnúksseli eru glöggar seltóftir og allstórt seltún þar umhverfis, en vatn mun þar ekki nærlendis. Túnið var seinast slegið 1917.

Vogasel

Vogasel eldri.

5. Gamla-Vogasel er austast í svonefndu Vogaholti. Þar eru greinilegar seltóftir og nokkuð stórt seltún, en vatn mun þar ekki vera.

Dalssel

Dalssel í Fagradal.

6. Dalsel er í Fagradal við samnefnt fjall. Þar hafa sézt seltóftir til skamms tíma, en Fagridalur er nú uppblásinn fyrir löngu. Dalselið mun hafa verið notað frá Grindavík (Járngerðarstöðum?).

7. Stóruvogasel.

Vogasel

Vogasel yngri.

 Jarðabókinni segir svo um Stóru-Voga: „Selstöðu vissa á jörðin eina nærri, þar sem kallað er Vogaholt, aðra vill hún eigna sér þar sem heitir Fagridalur, en þar um eru misgreiningar, því Járngerðarstaðamenn í Grindavík vilja eigna sér þessa selstöðu, þó segja menn að Fagridalur liggi fyrir norðan og vestan þann fjallahrygg, sem hæst liggur millum Grindavíkur og Vatnsleysustrandar.“

Gjásel

Gjásel.

Sennilega hafa öll þessi sel, sem hér hafa verið talin, verið frá Vogum, færzt til eftir því sem á stóð um vatn og beit. Jarðabókin segir, að Minni-Vogar hafi þá í seli með Stóru-Vogum í Vogaholti. Gera má og ráð fyrir, að hjáleigubændurnir hafi fengið að hafa skepnur sínar þar. Og eftir því sem Jarðabókin telur, hafa þá verið í selinu 21 kýr og 35 ær.

Gjásel

Gjásel.

8. Gjásel er um 3/4 klukkustundar gang frá Brunnastöðum. Þar em glöggar seltóftir, en lítið seltún. Hjá selinu er djúp gjá, nafnlaus. Í gjánni er óþrjótandi vatn, en erfitt að ná því. Benjamín gerir ráð fyrir því, að þar hafi nágrannaselin fengið vatn handa skepnum sínum og til annarra þarfa.

Brunnastaðasel

Brunnastaðasel.

9. Brunnastaðasel er austur af Gamla-Vogaseli. Mitt á milli þessara selja er Markhóll, sem skiptir löndum milli Voga og Brunnastaða. Þarna em margar og allglöggar seltóftir og allstórt seltún, en ekkert vatn. Þangað mun vera um klukkustundar gangur frá Brunnastöðum. Á Brunnastöðum var stórt bú 1703 og hafa þá verið þar í seli 16 kýr og 34 ær. Þarna eru þó taldir litlir hagar og vatnsskortur tilfinnanlegur þegar þurrkar ganga.
10. Hlöðunessel er austur af Brunnastaðaseli. Þar eru litlar og ógreinilegar seltóftir og lítið seltún. Í Jarðabókinni segir að hagar sé þar bjarglegir, en vatnsból lélegt „og hefir orðið að flytja úr selinu fyrir vatnsskort“.

Knarrarnessel

Knarrarnessel – stekkur.

11. Knarrarnessel er norðaustur af Hlöðunesseli, um stundar gang frá Knarrarnesi. Þar eru margar og allglöggar seltóftir. Þar hefir verið sundurdráttarrétt, hlaðin úr grjóti, og sést vel fyrir henni.

Knarrarnessel

Knarrarnessel.

Þarna er stórt seltún og allmikið vatn í nokkuð stóru leirflagi. í miklum þurrkum hefir vatn þetta þomað, og svo var fyrir 1920, en þá var grafin niður í leirflagið nokkuð djúp hola. Komu menn þar niður á mó, er reyndist góður eldiviður, en mósvæðið takmarkast á alla vegu af hraunklöppum og var mórinn því fljótt upp urinn. Ekki er vitað, að mór hafi fundizt annars staðar í allri Strandarheiði.
Það er sízt að undra, þótt selsrústir sé hér meiri en annars staðar, því að 1703 höfðu hér 5 bæir í seli: Stóru-Ásláksstaðir, Litlu-Ásláksstaðir, Litla-Knarrarnes, Stóra-Knarranes og Breiðagerði. Á þessum bæjum öllum voru þá 22 kýr og 45 ær. Réttin mun hafa verið gerð til þess að aðskilja fé bæjanna.

Auðnasel

Auðnasel.

12. Auðnasel er austur af Knarranesseli. Þar em margar greinilegar seltóftir og allstórt seltún. Vatn er þar dálítið í brunnholu, sem ekki lekur. Brunnholan er svo sem metri að þvermáli og er sunnan við háan og brattan klapparhól.

Breiðagerðissel

Í Auðnaseli.

Af hólnum og klöppunum þar um kring rennur rigningavatn í holuna, svo að í vætutíð hefir verið þar nægjanlegt vatn, en í miklum þurrkum þraut vatnið. Vatnsból þetta er ekki í selinu sjálfu, það er norðvestur af því og nokkurn spöl neðar. Munu nú fáir vita, hvar vatnsból þetta er, og varla munu menn rekast á það nema af tilviljun. Sagt er, að Auðnabóndi hafi haft ítak í Knarranesseli, líklega vegna vatnsins þar. Í Auðnaseli munu hafa verið 11 kýr og 32 ær árið 1703.

Kolgrafarholt

Kolgrafarholt.

13. Kolgrafaholt heitir um hálfrar stundar gang frá Þórustöðum. Sýnir nafnið, að þar hefir fyrrum verið gert til kola, enda má enn sjá kolgrafir, sem sagðar eru frá Þórustöðum. En allur skógur er horfinn þar 1703, því að þá sækir jörðin kolskóg í Almenninga. Hjá Kolgrafaholti sjást engar seltóftir, en þarna var gerð allstór fjárrétt og gætu seltóftirnar þá hafa horfið. Í Jarðabókinni segir: „Selstöðu á jörðin (Þórustaðir) þar sem kallaðar eru Fornuselshæðir, þar eru hagar næsta að þrotum komnir, en vatnsból svo lakt, að fyrir þann skort er selstaðan aflögð orðin, og hefir því búandinn selstöðu að annarra láni með miklum óhægindum og langt í burtu.“

Flekkavíkursel

Flekkavíkursel.

14. Flekkuvíkursel er um 1/2 stundar gang frá Flekkuvík. Þar eru glöggar seltóftir, en ekki margar. Eru þær við berghamar hjá Hrafnagjá, sem sagt er að nái frá Reykjanesi og í sjó fram í túninu á Stóru-Vatnsleysu. Í Flekkuvíkurseli er lítið seltún, en nokkrar grasi grónar flatir austur og vestur frá selinu, með gjárbarminum. Heim að selinu er þröngt einstigi yfir gjárhamarinn. Í Jarðabókinni segir: „Selstöðu á jörðin og brúkar þar sem heitir Flekkuvíkursel, eru þar hagar viðsæmandi, en stórt mein að vatnsleysi og báglegt eldiviðartak.“

Rauðhólssel

Rauðhólssel.

15. Rauðhólssel átti Stóra-Vatnsleysa. Það er við hraunjaðarinn, sem liggur frá Kúagerði, en vestur af Snókafelli, sem er úti í hrauninu. Í Rauðhólsseli eru glöggar seltóftir og allstórt seltún, undir allháum melhóli, sem nefnist Rauðhóll. Vatn er þar ekkert, en nóg vatn í Kúagerði, og þar mun líka einhvern tíma hafa verið sel.

Oddafellssel

Oddafellssel.

16. Oddafell heitir milli Keilis og Trölladyngju. Þar átti Minni-Vatnsleysa selstöðu. Þótti þangað bæði langt og erfitt að sækja, en þar voru bjarglegir hagar og vatn nægilegt.

Sogasel

Sogasel

17. Sogasel. Það er uppi í Vesturhálsi og í landi Stóru-Vatnsleysu, en þar höfðu Kálfatjörn og Bakki selstöðu.

Sogasel

Sel í Sogaselsgíg.

Er þangað um 2 1/2 klukkustundar gangur frá Kálfatjörn. Umhverfis seltóftirnar, sem eru greinilegar, og kargaþýft seltúnið er allhá hringmynduð hamragirðing, en lítið op á henni til suðurs. Þar var inngangur að selinu. Þarna er skjól í flestum áttum. Fyrir sunnan selið eru Sog og eftir þeim rennur lítill lækur, sem þó getur þornað í langvarandi þurrki. Ekki er mjög langt frá selinu að Grænavatni, en þar bregzt aldrei vatn. Í þessu seli hafa sennilega verið 15 kýr og 36 ær árið 1703. [Sogasel var selstaða frá Krýsuvík, enda í þess landi, en var látið Kálfatjörn í tímabundið skiptum fyrir uppsátur.]

Hvassahraunssel

Hvassahraunssel.

18. Hvassahraunssel var vestast í Almenningum. Þar voru góðir hagar, „en vatnsból brestur til stórmeina“.“

Sel

Sel vestan Esju – ÓSÁ.

Í framangreinda umfjöllun vantar reyndar nokkrar fyrrum selstöður í heiðinni, s.s. Snorrastaðasel, Kolholtssel, Hólssel, Fornuselin, Hlöðunessel, Selsvallaselin, Hraunssel o.fl.

Heimild:
Strönd og Vogar, Selstöður í heiðinni, Úr sögu einnar sveitar í landnámi Ingólfs, Árni Óla, Reykjavík 1961, bls. 242-246.

Ströbnd og Vogar

Strönd og Vogar – Árna Óla.

Sogaselsgígur

Gengið var um Trölladyngjusvæðið, austur fyrir fjallið um Hörðuvallaklof, sunnan Grænudyngju niður í Sogasel, upp Sogin og að Spákonuvatni, um Grænavatnseggjar, niður á Selsvelli og til baka með Oddafelli.

Trölladyngja

Trölladynga og Grænadyngja.

Trölladyngja er fallega formað fjall, um 375 m.y.s. Vestari hnúkurinn heitir því nafni, en sá eystri (402 m.y.s.) heitir Grænadyngja. Í Trölladyngju hefur m.a. fundist silfurberg.. Milli dyngnanna er skarð, auðvelt uppgöngu, sem mun heita Söðull. Heyrst hefur og nafnið Folaldadalir eða Folaldadalur um skarðið sjálft, en það örnefndi mun einnig vera til á Austurhálsinum. Þegar komið er upp úr skarðinu tekur við grösug skál. Hún er grasi gróin. Líklega er þarna um að ræða gíginn sjálfan.

Núpshlíðarháls

A Núpshlíðarhálsi.

Gengið var austur með norðanverðum Dygnahálsi (eða Dyngjurana sem stundum er nefndur). Utan í honum eru margir gígar, sem hraunstraumar þeir hafa komið úr er liggja þarna langt niður í Almenning. Gamall stígur liggur við enda Dyngahálsins. Honum var fylgt yfir að Hörðuvöllum. Fallegur gígur er við enda Fíflvallafjalls, en að þessu sinni var gengið inn Hörðuvallaklofa milli Grænudyngju og Fíflvallafjalls. Um er að ræða fallegan dal, en gróðursnauðan. Uppgangan úr honum vestanverðum er tiltölulega auðveld. Þegar upp var komið blasti varða við á brúninni. Frá henni var ágætt útsýni yfir Djúpavatn. Haldið var niður með vestanverðri Grænudyngu með viðkomu í dyngjunni. Síðan var haldið niður með vestanverði Trölladyngju og niður í Sogagíg.

Grænavatnseggjar

FERLIRsfélagar í Grænavatnseggjum.

Sogagígur er vel gróinn og skjólsæll staður. Í honum er Sogasel, eða öllu heldur Sogselin, því tóftir selja má sjá á a.m.k. þremur stöðum sem og tvo stekki. Enn ein tóftin er utan við gíginn, uppi í Sogadal. Þarna var sel frá Kálfatjarnarhverfi og einnig áður frá Krýsuvík.
Gengið var upp Sogin. Þau eru 150-200 m djúpt leirgil sem mikill jarðhiti hefur verið í fyrrum og enn eimir af. Þarna má sjá merkilegt jarðfræðifyrirbæri. Svo til allur leir og mold, sem dalurinn hafði áður að geyma, hefur Sogalækur flutt smám saman á löngum tíma niður á sléttlendið og myndað Höskuldarvelli og Sóleyjarkrika, sléttar graselndur í hrauninu.

Sogalækur

Sogalækur.

Lækurinn er enn að og færir jarðveg úr Sogunum jafnt og þétt áfram áleiðis niður Afstapahraunið. Varla mun líða langur tími uns hann hefur hlaðið undir sig nægum jarðvegi til að ná niður í Seltóu, en þaðan mun leiðin greið niður í Hrístóur og áfram áleiðis niður í Kúagerði. Væntanlega mun síðasti áfanginn, í gegnum Tóu eitt, verða honum tímafrekastur.

Haldið var upp vestanverða hlíð Sogadals og upp að Spákonuvatni. Vatnið er í misgengi. Í því eru í rauninni tvö vötn. Sumir nefna þau Stóra-Spákonuvatn og Litla-Spákonuvatn, en aðrir nefna stærra vatnið einungis Spákonuvatn en hitt Sesseljutjörn eða Sesseljuvatn.

Sogin

Sogin.

Gengið var eftir Grænavatnseggjum til suðurs. Austan þeirra er Grænavatn í Krýsuvíkurlandi. Haldið var áfram suður á brún Selsvallafjalls (338 m.y.s.). Fjallið greinist frá Grænavatnseggjunum af smá dalverpi eða gili en um það liggur Þórustaðastígurinn upp á fjallið. Neðan undir vestanverðu fjallinu er eitt fallegasta gróðursvæðið á Reykjanesi, Selsvellirnir.
Á Selsvöllum var selstaða frá bæjum í Grindavík. Í sóknarlýsingu þaðan frá árinu 1840 er sagt að allir bæir í sókninni nema Hraun hafi þar í seli. Vogamenn hafa jafnan viljað halda því fram að Selsvellirnir hafi tilheyrt þeim, líkt og Dalsselið, en sá misskilningur hefur jafnan dáið út með gaumgæfninni.

Selsvellir

Horft að Selsvöllum frá Trölladyngju.

Seltóftir eru bæði á austanverðum Selsvöllum, undir Selsvallafjalli, og á þeim norðvestanverðum. Moshóll setur merkilegan og tignarlegan blæ á svæðið í bland við Keili.
Gengið var til norðurs með vestanverðum Selsvöllum, að Oddafelli. Þorvaldur Thoroddsen kallar það Fjallið eina. Þá er getið um útilegumenn nálægt Hvernum eina. Málið er að Fjallið eina er norðan undir Hrútargjárdyngju og þar er hellir, Húshellir, með mannvistarleifum í.
Oddafellið er lágt (210 m.y.s.) og um 3ja km langt. Tóftir Oddafellssels frá Minni-Vatnsleysu eru undir vesturrótum fellsins.
Frábært veður. Gangan tók 5 klst og 5 mín.

Heimildir m.a.:
-Örnefni og gönguleiðir í Vatnsleysustrandarhreppi – Sesselja G. Guðmundsdóttir.

Spákonuvatn

Spákonuvatn og Keilir.

Oddafellssel
Gengið var að Oddafellsseli. Stefnan var tekin til vesturs með norðanverðu Oddafellinu, að seljarústunum í austurjaðri Höskuldarvallahrauns. Keilir, 379 m hátt móbergsfjall, setti svip á landslagið í norðvestri. Hann varð til við gos undir jökli á ísöld. Keilir er þekktur vegna sérkennilegrar strýtumyndunar lögunar sinnar sem er til komin vegna gígtappa eða bergstands á fjallinu miðju er ver það gegn veðrun. Útsýni er mikið af Keili yfir Reykjanesskagann og víðar. Nýlegur stígur liggur yfir hraunið, norðan Höskuldarvallastígs, áleiðis að Keili áður en komið er að meginseljarústunum, sem eru á tveimur stöðum undir Oddafellinu.

Oddafellsel

Oddafellsel – stekkur.

Austan við Oddafellið eru Höskuldarvellir. Það eru stórir grasvellir milli fellsins og Trölladyngju, u.þ.b. hálfur kílómetri að breidd, en á lengdina eru þeir rúmlega kílómetri, milli Sogalækjar og nyrsta hluta Sóleyjarkrika.
Við vesturjaðar Höskuldarvalla er Oddafell, sem Þorvaldur Thoroddsen kallar Fjallið eina. Líklega er hann að rugla saman öðru fjalli mun norðaustar, en sunnan við bæði fjöllin eru til frásagnir af útilegumönnum, sem þar áttu að hafa haldið til. Héldu þeir sig í helli sunnan Selsvalla og síðar í helli í Hrútargjárdyngjuhrauni sunnan við Fjallið eina, sem þar er. Í dag má enn sjá minjar eftir veru þeirra í hellunum, sem eru þó meira í ætt við skúta, eins og við þekkjum þá. Oddafellið er lágt (210 m), en um 3ja km langt. Í austurhlíðum Oddadells nokkuð sunnarlega er jarðhiti.

Oddafellssel

Oddafellssel.

Tóftir Oddafelssels eru í vestanverðu fellinu, á tveimur stöðum. Selið var frá Minni-Vatnsleysu. Höskuldarvallastígurinn kemur út úr hrauninu sunnan við hústóftirnar, en sunnan hans eru stekkur og rétt. Fjárskjól er undir hraunröndinni milli mannvirkjanna. Hleðsla er í skútanum og má enn finna fjárlyktina (sumir segja anganina) í honum.
Stígurinn í gegnum hraunið er þar sem hraunhaftið er hvað þynnst. Hann liggur síðan norður með Oddafellinu. Skammt norðar liggur hann yfir tvær tóftir. Vestan þeirra er hlaðinn stekkur og aðhald.
Ekki er gott að segja hvar vatnsbólið er, en þó má telja líklegt að vatn hafi verið sótt í Sogaselslækinn, sem runnið hefur í gegnum Höskuldarvelli, en vellirnir eru einmitt að mestu mótaðir eftir framburð hans úr Sogunum og hlíðunum umhverfis.

Oddafellssel

Oddafellssel – uppdráttur ferlir.is.

Margir ganga á Keili. Flestir ganga þá suður Höskuldarvallastíg, yfir nyrðri tóftir Oddafellssel og beygja síðan til vesturs eftir stíg yfir Höskuldarvallahraun. Fæstir finna fyrir eða veita selstóftunum athygli á göngu sinni með Oddafellinu.

Oddafellssel

Oddafellssel – í selstöðum frá örófi alda hefur gróður haldist allt til þessa dags.

Örfáir ganga svo langt suður með fellinu að þeir sjái hleðslurnar syðst í selinu, hvað þá gamla selsstíginn í gegnum hraunið. Samt er auðveldast að ganga yfir það eftir honum.
Öllum er hollt að staldra við hjá tóftunum, hugsa aftur til þess tíma þegar einhverjir forfeður þeirra og -mæður þurftu að hafa fyrir því að ala önn fyrir fénu um sumarið svo féð gæti alið önn fyrir þeim um veturinn. Ef hlutirnir hefðu ekki gengið þannig fyrir sig er aldrei að vita hvort eða hverjir afkomendurnir kynnu að hafa orðið.

Oddafellsel

Oddafellsel – sel frá Kálfatjörn.

Venjulega var haft í seli frá 6. – 16. viku sumars. Í sumum seljanna ofan við Ströndina var selstaðan skemmri vegna vatnsskorts. Má í því sambandi nefna næsta sel norðan við Oddafellssel; Rauðhólssel frá Stóru-Vatnsleysu. Þar gat verið erfitt að nálgast vatn í þurrkatíð og því sjálfhætt. Stundum var ástæðan þó tilgreind önnur en vatnsskortur, s.s. draugagangur. Draugagangurinn var skiljanlegri afsökun en vatnsskorturinn í þá daga og ástæðulaust að efast þegar hann var annars vegar.
Gangan tók 33 mín. Frábært veður.

Heimildir m.a.:
-Örnefni og gönguleiðir í Vatnsleysustrandarhreppi – Sesselja G. Guðmundsdóttir – 1995.

Oddafellssel

Oddafellssel.