Á fjórum upplýsingaskiltum við “Seltún í Krýsuvík” má lesa eftirfarandi fróðleik:
Reykjanesskaginn – myndun og mótun – jarðfræði
Kort af eldstöðvakerfum á Reykjanesskaga, háhitasvæðum og rekbelti á upplýsingaskilti við Seltún.
Reykjanesskagi hefur verið í sífelldri myndun og mótun síðustu 6 milljónir ára, allt frá að rekbelti Atlantshafshryggjarins fluttist af Snæfellsnesgosbeltinu og Reykjanes-Langjökulsgosbeltið tók að myndast.
Á Reykjanesi má sjá hvernig rekbelti (flekaskil) Atlantshafshryggjarins gengur á land og fer þvert yfir landið til norðausturs. Það markar virk gosbelti landsins ásamt heita reitnum sem liggur undir miðju landsins. Á gosbeltið raðast virk eldstöðvakerfi ásamt háhitasvæðum landsins.
Fyrir sex til sjö milljónum ára lá rekbeltið um Snæfellsnes og fór eftir það að flytjast til austurs og við það myndaðist Reykjanes-Langjökulsgosbeltið. Síðan þá hefur Reykjanesskagi verið í sífelldri myndun og mótun með eldgosum neðansjávar, undir jöklum ísaldar og á þurru landi, auk þess sem landið hefur mótast af rofi sjávar, vatns og vinda.
Grindavík – eldgos við Sundhnúk 2024.
Á Reykjanesskaga eru fimm eldstöðvakerfi: Reykjanes, Svartsengi, Krýsuvík, Brennisteinsfjöll og Hengill. Í hverju kerfi eru sprungusveimar með stefnu norðaustur-suðvestur og háhitasvæði sem raða sér eftir flekaskilum Atlantshafshryggjarins. Að Hengli undanskildum eiga kerfi það sameiginlegt að eingöngu kemur upp basaltkvika í eldgosum.
Goshrinur á Reykjanesskaga virðast að jafnaði verða á um 1000 ára fresti og geta þær staðið yfir í nokkur hundruð ár. Í goshrinum einkennist eldbvirkni af sprungugosum en í goshléum eru jarðskjálftar algengir í eldstöðvakerfunum. Eftir að ísöld lauk, eða síðustu 10.000 ár, hafa hátt í 200 gossprungur myndast á Reykjanesskaga og eru gjall- og klepragígaraðir algengastar. Auk þess hafa myndast níu dyngjur eftir ísöld en talið er líklegt að flest dyngjugosin hafi byrjað sem sprungugos.
Eldstöðvakerfið Krýsuvík
Jarðfræði Reykjaness.
Krýsuvíkurkerfið er um 8 km á breidd og um 50 km á lengd. Innan þess eru tvö gos- og sprungukerfi sem eru kennd við Trölladyngju og krýsuvík. Jarðfræði svæðisins einkennist af lágum móbergshryggjum, gígum og gígaröðum, hraunflákum og jarðhita.
Móbergshryggirnir Sveifluháls og Vesturháls mynduðust við eldvirkni undir jökli á ísöld og sýna glöggt ríkjandi sprungustefnu eldstöðvakerfisins norðaustur-suðuvestur. Á hryggjunum má greina sprungur, misgengi og sigdali.
Móhálsadalur.
Síðast gaus í Krýsuvíkurkerfinu á 12. öld og er sú goshrina nefnd Krýsuvíkureldar. Í goshrinunni opnuðust gossprungur frá syðsta hluta Núpshlíðarháls [Vesturháls], eftir endilöngum Móhálsadal og norðausturenda Undirhlíða. Gossprungurnar eru ekki samfelldar og sums staðar tvöfaldar, en fjarlægðin frá upphafi til enda þeirra er um 25 km. Í þessum eldum árið 1151 runnu Kapelluhraun og Ögmundarhraun. Kapelluhraun rann úr gosgígum í nyrsta hluta sprungunnar við Undirhlíðar og þaðan til sjávar á norðanverðum Reykjanesskaga. Ögmundarhraun kom upp í syðsta hluta gossprungunnar, fyllti Móhálsadal af hraunum og rann til sjávar á sunnanverðum Reykjanesskaga þar sem það fór yfir hina fornu Krýsuvík.
Upplýsingaskilti við Seltún.
Í Krýsuvíkurkerfinu er háhitasvæði með gufuhverum og ummyndun á yfirborði. Ummerki jarðhita eru mest og samfelldust við Seltún í Krýsuvík. Jarðhitasvæðið við Austurengjar markar austurhluta háhitasvæðisins og teygir jarðhitasvæðið sig norður í Kleifarvatn.
Trölladyngja og Sogaselsgígur nær.
Jarðhitasvæðið við Trölladyngju nær frá Djúpavatni að Oddafelli og markar vesturhluta háhitasvæðisins. Við Sandfell eru smávægileg jarðhitaummerki á yfirborði.
Hverasvæðin eru síbreytileg og sjá má kaldar jarðhitaskellur á yfirborði sem bendir til þess að þar hafi áður verið virk hverasvæði. Hveravirkni svæðisins hefur oft breyst í kjölfar jarðskjálfta á svæðinu.
Nálægt hverasvæðunum má víða sjá sprengigíga.
[Á upplýsingaskiltið vantar kort af svæðinu með hlutaðeigandi nöfnum svo lesandinn geti áttað sig á umhverfinu, staðháttum og því sem um er fjallað.]
Háhitasvæði – almennt
Háhitasvæðið við Seltún.
Háhitasvæði eru oft staðsett í miðju eldstöðvakerfi þar sem eldvirkni er mest. Þau verða til vegna heitra innskota djúpt í jörðu sem geta verið allt að 1000-1200 °C heit í upphafi. Innskotin hita upp nálægt grunnvatn sem verður eðlisléttara og stígur upp til yfirborðsins sem djúpvatn eða gufa.
Sogin – hátitasvæði.
Hluti grunnvatnsins kólnar á leið sinni upp og leita þá aftur niður. Við þetta myndast hringrásakerfi sem er eitt af einkennum háhitasvæða.
Kvikugös sem losna úr heitu innskotinu, eins og til dæmis brennisteinsveti (H25) sem veldur hverafýlu, brennisteinstvíoxíð (SO2) og koltvísýringur (CO2), blandast við grunnvatnið og berast með því til yfirborðs. Hitinn og súr efnasambönd valda því að berg grotnar, ummyndast og útfellingar myndast. Þetta kallast efnaveðrun. Háhitasvæði einkennast af fjölbreytilegum jarðhitafyrirbærum og mikilli litadýrð á yfirborði, sérstaklega þar sem berggrunnurinn er úr móbergi en þar er ummyndun meiri og hraðari en t.d. í hraunum.
Jarðhiti við Seltún og Baðstofu.
Leirhver við Seltún. Leirhverir myndast þar sem gufa streymir upp gegnum grunnvatn og súr vökvinn leysir upp berg og myndar leir sem oft sýður og vellur.
Jarðhitinn í Krýsuvík dreifist að langmestu leyti á aflangt svæði sem erum um 1500 m langt og um 500 m breitt með stefnu u.þ.b. ANA-VSV. Í austurhlíðum Sveifluháls, við Seltún og Baðstofu (Hveragil), er mest um jarðhita á yfirborði og ummyndanir.
Baðstofa – hverasvæði í Krýsuvík.
Gufa er ríkjandi á svæðinu en hún hitar upp yfirborðsvatn þannig að bæði leirhverir og gufuhverir eru algengir. Einnig finnast gufuaugu, brennisteinsþúfur og soðpönnur.
Í Krýsuvík er ummyndun mikil og litskrúðug sem sést best á fjölda leirhvera og mislitum leirflögum sem eru rauð, bleik, dökkgrá, blágrá, gulbrún, gul og hvít á lit. Algengustu útfellingar eru hverasölt, brennisteinn [mynd] og gifs. Dálítið hefur fundist af hverajárni.
Seltún – borhola.
Eggert Ólafsson náttúrufræðingur og Bjarni Pálsson landlæknir voru fyrstir til að bora í jarðhitasvæði á Íslandi og líkast til í heiminum öllum. Handsnúinn jarðbor var fenginn að láni hjá Konungslega danska vísindafélaginu. Tilgangur borunar var að leita að brennisteini í jarðlögum á hverasvæðum, en brennisteinn var verðmæt útflutningsvara á ófriðartímum í Evrópu. Fyrst var borað við Laugarnesið haustið 1755 og sumarið 1756 í Krýsuvík. Í Krýsuvík voru boraðar tvær holur og náði sú dýpri 10 metrum. Borholan gaus og var þá bortilraunum hætt.
Brennisteinsnám var í Krýsuvík á árunum 1754-1763 og síðan 1858-1880, en eftir það var lítil eða engin námuvinnsla í Krýsuvík. Samvæmt samtímaheimildum voru flutt út 72,5 tonn af brennisteini frá Krýsuvík á 18. öld.
Brennisteinsvinnslan í Seltúni 1882.
Ekki var reynt að bora aftur á svæðinu fyrr en 1941 þegar tilraunaboranir hófust í því skyni að nýta jarðhitann í Krýsuvík til húshitunar og raforkuframleiðslu.
Drengir í Vinnuskólanum við Seltún. Drottningarholan í bakgrunni – HH.
Árið 1947 lét Rafveita Hafnarfjarðar bora svokallaða Drottningarholu í Seltúni Þegar komið var niður á um 230 metra dýpi gaus holan og var þá borun hætt, holunni lokað, en henni leyft að blása vegna mikils gufuþrýstings. Í október 1999 hætti Drottningarholan að blása en nokkru seinn varð sprenging á borholusvæðinu og myndaðist gígur sem mældist 43 metrar í þvermál. Grjót og grá leirdrulla dreifðist í allt að 700 metra fjarlægð til norðurs frá gígnum. Talið er að Drottningarholan hafi stíflast eða hrunið saman sem olli því að sprenging varð.
Nálægt hverasvæðunum má víða sjá sprengigíga og eru Grænavatn, Gestsstaðavatn og Augun við Krýsuvík gott dæmi um slíka gíga.
Grænavatn (t.h.) og Stampar.
Sprengigígar (stærri en 50 metrar í þvermál) myndast viðs nögga suðyr grunnvatns, oft í tengslum við eldgos eða kvikuhreyfingar. Minni sprengigígar eru algengir á háhitasvæðum og myndast við að vatn hvellsýður á litlu dýpi, venjulega í tengslum við jarðskjálfta. Nær engin hraun myndast í sprengigosum en dálítið getur komið upp af gjalli og kleprum. Oftast er þó eingöngu að finna grjót og bergmylsnu úr gígveggnum sem getur dreifst hundruð metra frá gígnum.
Grænavatn.
Í Krýsuvík hófust rannsóknarboranir að nýju fyrir nokkrum árum og hefur komið í ljós að mestur jarðhiti er á um 300 m dýpi. Nú er til skoðunar að nýta háhita á fjórum svæðum í Krýsuvík en það er á Austurengjum, Sveifluhálsi, Trölladyngju og Sandfelli.
[Á upplýsingaskiltið vantar kort af svæðinu þar sem m.a. má sjá hvar Drottningarholan var, nálægir sprengugígar sem og brennusteinsvinnslusvæðin.]
[Brennisteinn myndast við oxun á brennisteinsvetni (H25) þar sem vatn er ekki til staðar. Hann er gulgrænn á litinn.]
Almennt um gróður
Gróðureyðing á Krýsuvíkurheiði.
Gróðurfar í Krýsuvík og nágrenni er mótað af langvarandi beit. Afleiðingar gróðureyðingar og jarðvegsrofs sjást víða sem lítið grónir melar, moldarflög og rofabörð. Þar má þó finna allmikið votlendi, grasgefna velli og algróin hraun.
Krýsuvík – dyngja við Nýjaland.
Suðvestan Kleifarvatns er mikið votlendi í sléttum dalbotninum og hallamýrar í hlíðum. Á Reykjanesskaga er lítið um stór og samfelld votlendissvæði og því hefur þetta svæði mikið gildi. Vestan Sveifluháls eru grösugir vellir sem eru sérstæðir á landsvísu. Hraun sem hafa runnið yfir vellina á sögulegum tíma eru nú vaxin gamburmosa. Í hraungjótum má finna burknategundir sem hafa takmarkaða útbreiðslu hér á landi.
Krýsuvík – Austurengjalækur.
Jarðhiti mótar sérstæðar vistgerðir á afmörkuðum svæðum við hveri og laugar. Austan Sveifluháls er jarðvatnsstaða víða há, þar spretta fram heitir lækir og uppsprettur og finna má mýrahveravist. Laugasef vex víða í rakanum, ásamt öðrum tegundum af sefi og störum, og mosinn laugaslyðra vex í breiðum við hveri. Í þurrara landi má finna móahveravist þar sem mosar eru jafnan ríkjandi. Þar sem jarðhiti hefur ummyndað jarðveg og berg má finna ljósleitt eða rauðleitt yfirborð hveraleirsvistar.
Jarðtegundir og aðrar sjaldgæfar tegundir
Njaðurtunga.
Laugadepla (Veronica anagallis-aquatica) vex einungis á örfáum jarðhitasvæðum hér á landi. Hún þrífst aðeins við laugar og í vogum lækjum. Plantan getur myndað þéttar breiður, stönglarnir eru uppréttir eða fljóta á vatni, laufblöðin fagurgræn og gagnstæð en blómin smá og ljósfjólublá. Laugadepla hefur takmarkað vaxtasvæði og á válista flokkast hún sem tegund í nokkurri hættu.
Naðurtunga (Ophioglossum azoricum) er sjaldgæf jurt sem vex einungs við jarðhita. Hún þrífst í þurrum, mosavöxnum hraunum en líka rökum, mosagefnum hveramýrum. Plantan er lágvaxin með lanfan og mjóan stöngul sem vex upp af einu til þremur fagurgrænum blöðum.
Soppmosar.
Heiti plöntunnar, naðurtunga, vísar til einhliða gróax sem líkist tungu efst á plöntunni. Á válista flokkast tegundin í nokkurri hættu þar sem vaxtarsvæði hennar er takmarkað. Hún finnst þó á mörgum jarðhitasvæðum landsins.
Laugaslyðra (Gymnocolia inflata) er mosategund sem má finna víða á jarðhitasvæðum hér á landi, líkt og aðra soppmosa. Mosinn getur myndað þéttar breiður. Hann er breytilegur að lit, jafnan brúnn eða brúnleitur, stundum grænn eða gulleitur og getur jafnvel verið svartleitur eða rauðbrúnn. Hann vex í leirflögum við hveri og laugar en einnig í rökum jarðvegi við tjarnir og læki eða á kafi í vatni.
Vatnalaukur (Isoetes lacustris) er sjaldgæf vatnajurt að mestu bundin við Suðvesturland. Plantan hefur dökkgræn, upprétt og striklaga blöð. Hún er ekki tengd jarðhita og lætur lítið yfir sér þar sem hún vex á botni stöðuvatna og djúpra tjarna. Hún finnst við Krýsuvík og telst sem tegund í yfirvofandi hættu.
Lifandi náttúra
Austurengjahver.
Kyngikraftur náttúrunnar blasir við augum í Krýsuvík. Höfuðskepnurnar eldur, vatn, loft og jörð hafa mótað umhverfið í aldanna rás.
Austurengjahver (Stórihver) í Krýsuvík.
Gufustrókar stíga til himins, sjóðandi leirhverir leika taktfasta sinfóníu, hverahvammar skarta grænum, gulum og rauðleitum litum sem skipta um svipmót eftir veðrinu. Náttúröflin eira engu í glímunni við gróðurinn, vatnsrof leikur stórt hlutverk þegar það rignir og ísa leysir. Vindurinn flettir þekjunni í burtu og feykir jarðvegi á haf út þar sem öldur ólmast við klettaströnd og mola strandbergið hvíldarlaust. Þetta er náttúran í öllu sínu veldi.
Krýs og Herdís deila um landamerki
Dysjar Herdísar og Krýsu í Kerlingardal.
Þjóðsagan hermir að Krýsuvík sé nefnd eftir krýs sem bjó í Krýsuvík. Hún átti í deilum um landamerki við grannkonu sína, Herdísi í herdísarvík. Báðar töldu sig órétti beittar og ákváðu að skera úr deilumáli sínu í eitt skipti fyrir öll.
Dysjar Krýsu, Herdísar og smalans neðst.
Sammæltust þær um að leggja af stað frá bæjum sínum við sólarupprás og ákveða mörk landa sinna þar sem þær mættust. Þegar þær hittast á Deildarhálsi taldi Krýs að Herdís hefði lagt fyrr af stað en um var samið. Tóku þær að biðja hvor annarri óbæna ásamt jörðum þeirra. Herdís lagði það á Krýsuvík að allur silungur í Kleifarvatni skyldi verða að loðsilungi en Krýs mælti svo fyrir um að ein eða fleiri skipshafnir skyldu drukkna í Herdísarvíkurtjörn. Sagan um þessa landaþrætu kerlinganna hefur lifað meðal Krýsvíkinga í ýmsum myndum og sýnir kyngimagn Krýsuvíkur.
[Hér gleymist að geta um hvernig samskiptum kvennanna lauk, en þær slógust og barst leikurinn til austurs niður í Kerlingardal þar sem þær drápu hvora aðra. Með í för voru smalar hvorrar um sig og laug viðureigninni með því að smali Krýsu drap smala Herdísar og dysjaði bæði þær og hann við gömlu þjóðleiðina milli bæjanna. Þar má enn sjá dysjarnar.]
Fornminjar
Tóftir Gestsstaða.
Í landi Krýsuvíkur eru víða merkar fornleifar og búsetuminjar. Elstar eru Gestsstaðarústirnar, senilega frá fyrri hluta miðalda. Mestar eru fornleifarnar í Krýsuvíkurhverfi undir Bæjarfelli þar sem höfuðbólið og flestar hjáleigurnar voru. Nútímavæðing hefur lítið komið við sögu og jörðin haldist nánast óbreytt frá fyrri tíð, en snemma á sjöunda áratugnum varð sögulegt slys á bæjarhólnum. Krýsuvíkurbærinn, sem stóð vestan kirkjunnar, var þá kominn að falli og voru stórvirkar vinnuvélar notaðar til að ryðja hólinn og slétta út minjar um þennan merka bæ. Neðan hólsins og allt í kringum hann eru gömlu túnin með túngörðum sínum ósnertum að mestu, tóftir gömlu kotanna og fleiri merkar fornminjar.
[Hér vantar nauðsynlega kort af staðsetningu þess, sem um er rætt.]
Dulúð regnsins
Austurengjar.
Það getur verið mjög votviðrasamt í Krýsuvík því þar gætir fyrst áhrifa frá lægðum sem nálgast landið úr suðvestri. Umhleypingar eru algengir með tilheyrandi úrkomu en í norð-austlægum áttum má gera ráð fyrir þurrviðri í Krýsuvík. Þá skartar staðurinn sínu fegursta, en einnig getur dulúðin sem fylgir þokulofti og skýjuðu veðurfari búið yfir ólýsanlegri fegurð.
Einföld bændakirkja
Krýsuvíkurkirkja endurgerð.
Krýsuvíkurkirkju er fysrt getið í kirkjuskrá Páls Jónssonar Skálholtsbiskups um 1200. Margt bendir til að kirkja hafi risið í Krýsuvík á fyrstu áratugum kristni, en [tré]kirkjuna byggði Beinteinn Stefánsson á Arnarfelli 1875. Þetta var lítið guðshús einfaldrar gerðar, án turns. kirkjan var aflögð sem helgidómur og rúin öllum verðmætum 1929. Eftir það notaði einbúinn Magnús Ólafsson, síðasti íbúi Krýsuvíkur, hana sem íbúðarhús til 1945. Endurbygging kirkjunnar hófst 1957 og var hún endurvígð 1964 og færð Þjóðminjasafninu til eignar.
Krýsuvík og Krýsuvíkurkirkja 1950.
Árið 1997 var Sveinn Björnsson listmálari [og lögreglumaður] jarðsettur í kirkjugarðinum en þá voru liðin 80 ár frá síðsutu greftrun þar. Á vorin var haldin messa í kirkjunni og altaristafla eftir Svein hengd upp, en tekin niður við messu á haustin og færð til vetrarvistar í Hafnarfjarðarkirkju.
Krýsuvíkurkirkja brann til kaldra kola aðfaranótt 2. janúar 2020.
[Kennarar og nemendur Iðnskólan í Hafnarfirði, nú Tækniskólans, hafa lokið endurbyggingu Krýsuvíkurkirkju, eins og hún leit út í upphafi (1875). Hún er væntanleg á upprunanlegan stað fljótlega.] Ný kirkja var flutt á grunn hinnar gömlu tíu árum síðar.
Land í mótun
Hveraútfellingar við Seltún.
Virka gosbeltið sem liggur eftir Reykjanesskaga er á milli landsreksflekanna sem kendnir eru við Evrópu og Ameríku. Elsti hlutinn eru Lönguhlíðarfjöll norðaustan Kleifarvatns sem sýna merki tveggja kuldaskeiða og tveggja hlýskeiða, Sveifluháls er móbergshryggur sem myndast hefur við gos undir íshellu á kuldaskeiði.
Krýsuvíkurberg – Skriða.
Sunnan Krýsuvíkurhverfis milli Geitahlíðar og Sveifluháls eru nokkur lög af grágrýtsihraunum, sum þakin jökulbergi, en efst ner mest á mó- og mýrlendi. Jarðlögin sjást vel í Krýsuvíkurbergi. Rauðskriða á Krýsuvíkurheiði og Trygghólar eru leifar gamalla eldgíga sem hraun hefur runnið frá. Krýsuvíkurhraun og Ögmundarhraun (eiga) eiga upptök sín í Brennisteinsfjöllum, gígum við Eldborgir sunna Geitahlíðar og í gossprungum í Móhálsadal.
[Hér vantar loftmynd af svæðinu þar sem sjá má m.a. hraunflæðin.]
Sprengigígar kallast á
Grænavatn og Stampar – sprengugígar í Krýsuvík.
Landslag í Krýsuvík er mótað af umbrotum og jarðeldum. Grænavatn, Gestsstaðavatn og Augun eru sprengigígar sem myndast hafa við sprengigos á ýsmum tímum.
Krýsuvík – eitt Augað af þremur. Bæjarfell fjær.
Grænavatn er stærst um 46 m djúpt. Vatnið fær lit sinn af hveraþörungum og kristöllum sem draga grænan lit frá sólu í sig. Gestsstaðavatn heitir eftir fornu býli sem fór í eyði á miðöldum.
[Stamparnir; Stóri-Stampur og Litli-Stampur eru vatnslausir sprengigígar sunnan Grænavatns væru vel umfjöllunarinnar virði – að ekki sé talað um minjar Gömlu-Krýsuvíkur í Húshólma.]
Fuglalíf og eggjataka
Krýsuvíkurberg (Heiðnaberg).
Um 57.000 sjófuglapör verpa í krýsuvíkurbergi, aðallega rita og svartfugl, sem skiptist í álkur, langvíur og stuttnefjur. Einnig verpir þar nokkuð af fýl, toppskarfi og silfurmáfi.
Krýsuvíkurberg – Eystri-lækur og fossinn á góðum degi.
Fyrrum var ekkjataka mikil og máttu kotamenn taka tiltekið magn af fugli og eggjum úr berginu. Svo mikið fékkst af svartfuglseggjum á vorin að þau voru flutt á mörgum hestum heim til bæjanna. Sömu sögu var að segja af bergfuglinum sem gaf af sér kjöt og fiður. Á Krýsuvíkurheiði og nágrenni Bæjarfells verpir mófugl, spói, heiðlóma, snjótittlingur og fleiri tegundir. Arnarfell og Arnarfellstjörn eru kunn kennileiti á Krýsuvíkurheiði og á miðjum Sveifluhálsi eru Arnarvatn og Arnarnípa. Þessi nöfn vísa til þess að ernir hafi orpið á þessum stöðum í eina tíð.
[Enn og aftur; á skiltið vantar kort af svæðinu þar sen nefndra örnefna er getið.]
Mannrækt við Krýsuvíkurskóla
Krýsuvík.
Um miðjan áttunda áratuginn hófust miklar byggingaframkvæmdir á mel sunnan Gestsstaðavatns, en þar var ætluninn að reisa skóla fyrir unglinga sem þurftu á sérúrræðum að halda.
Krýsuvík – skólinn.
Áður en byggingunni var lokið var fallið frá hugmyndinni og stóð húsið autt um margra ára skeið þar til Krýsuvíkursamtökin fengu það til afnota. Var þar rekið meðferðarheimili fyrir fíkniefnaneytendur um langt skeið.
[Hér er nálægra sýnilegra mannvirkja ógetið, s.s. fjóssins, starfsmannahússins, ráðsmannshússins, gróðurhúsanna o.fl., en við þau voru bundnar miklar framtíðarvæntingar við uppbyggingu Krýsuvíkursvæðisins. Þá var Vinnuskólinn í Krýsuvík sérstaklega merkileg viðeytni í lok sjötta og byrjun sjöunda áratuga síðustu aldar og er vel þess virði að vera getið á upplýsingaskilti þar sem fjallað er um Krýsuvík.]
-ÓSÁ dró saman.
Seltún – hverasvæði.