Kalka

Á Háaleiti var varða sem er fyrst getið um í gömlu landamerkjabréfi frá 1270 en þar segir: „En lyngrifamörk skilur gata sú, er liggur fyrir innan Torfmýrar og upp á Háfaleiti til vörðu þeirrar, er stendur á leitinu þar, sem hæst er milli Kirkjuvogs, Njarðvíkur og Djúpavogs. En rekamörk millum Djúpavogs, Starness og Hvalsness skilur gróf sú, er verður fyrir innan klettana til hægri handar, er riðið er frá Kirkjuvogi.“

Kalka

Kalka.

Í örnefnaskrá frá Keflavík segir um vörðuna á Háaleiti: „Það voru til ýmis örnefni hérna í heiðinni, nálægt þar sem Flugturninn er, þar var kallað Háaleiti og Ameríkanarnir þýddu þetta á sitt tungumál og kölluðu það High Lady, en þar var varða í gamla daga, sem kölluð var Kalka, hún var hvít á litinn. Hennar er getið í þjóðsögum, því þar voru peningar grafnir, m.a., og þar sáu menn loga og loga, þar sem peningarnir voru. Þegar að var komið, þá var allt slokknað.“ Tvær frásagnir eru að minnsta kosti til um fjársjóð og draug á Háaleiti og hefur önnur þeirra verið birt í Rauðskinnu en hin í Lesbók Morgunblaðsins.

Í blaðinu Faxa segir eftirfarandi um vörðuna Kölku: „Þetta hérað [Keflavíkurflugvöllur] nær yfir 9200 ha. — sem var áður algjörlega óræktað heiðarland — sem ríkið tók með lögnámi af landi 5 hreppa: Hafnahreppi, Miðneshreppi, Gerðahreppi, Njarðvíkurhreppi og Keflavík, — og úr landi ca. 30 jarða. Endamörk þessara hreppa námu við Háaleyti og Kölku og hafi nokkrar landamæraerjur verið á þessum háheiðum — 167 fet hæst yfir sjávarmál — þá eru þær nú úr sögunni að eilífu, þar eð enginn veit nú hyrningarsteina þessa lengur.“

Keflavíkurflugvöllur

Keflavíkurflugvöllur – flugturninn er þar sem Kalka var.

Í umfjöllun Hallgríms Th. Björnssonar í Faxa 1950 er að finna styttri umfjöllun og Kölkuvísur eftir Ágúst L. Pétursson. Þar segir: „Kalka er heiti á landamerkjavörðu sem stóð uppi á Háaleiti, þar nú er Keflavíkurflugvöllur og braggahverfi honum tilheyrandi. Einnig er þess getið til, að hún hafi verið notuð sem innsiglingarmerki á dögum Selstöðukaupmanna í Suðurnesjum. Varðan er sögð verið hvít kölkuð, svo að hún sæist langt að, og hefir hún dregið nafn þar af. Var þessi ævagamla varða við líði, þar til nú á stríðsárunum, að setuliðið jafnaði hana við jörðu. Rekur varðan raunir sínar í eintali því, sem hér fer á eftir. Kölkuvísur eru 15 erindi en hér á eftir eru aðeins birtur hluti þeirra.

Úr Kölkuvísum:
Eitt sinn var ég ung og fríð,
átti farfan hvíta.
Ýmsir þráðu alla tíð
upp til mín að líta.
Oft mér sendi sólin fríð,
signuð ástarskeyti.
Óðal mitt var alla tíð
upp á Háaleiti.
[…]
Villtum mönnum vegum á
vildi ég forða grandi.
Björgun veitti brögnum þá,
bæði á sjó og landi.
[…]
Stórveldis kom hingað her,
hertur fítons anda.
Ólmir vildu meina mér
á minni jörð að standa.

Hermenn þustu hingað, en
helgri ró ei skeyttu.
Óli Thórs og Bjarni Ben
björg mér enga veittu.

Hersins vakti harða geð
hrygð, en enga kæti,
sínum vítisvélum með
veltu mér úr sæti.

Byggð var reist við bústað minn,
bæði daga og nætur.
Missa þarna meydóm sinn
margar landsins dætur. […]

Varða þessi, sem nú er horfin, hefur verið landamerki jarða allt frá miðöldum, hreppamörk síðar meir, innsiglisvarða og áberandi kennileiti á háheiðinni á Háaleiti.

Heimildir:
-Brynjúlfur Jónsson, Rannsókn í Gullbringusýslu og Árnessýslu. Árbók Hins íslenzka fornleifafélags, 18. árg. 1903, bls. 41.
-Örnefnaskrá Keflavík. Viðtal um Keflavík 1.
-Lesbók Morgunblaðsins, 12. júní 1949, bls. 290, og Jón Thorarensen, Rauðskinna, bls. 42-46.
-Jón Tómasson. „Keflavíkurflugvöllur og Keflavík“, Faxi, 12. árg. 1952, 5. tbl, bls. 70.
-Hallgrímur Th. Björnsson, Faxi, 10. árg. 1950, 1. tbl. bls. 8.
-Faxi, 10. árg. 1950, 1. tbl., bls. 8.

Kalka

Njarðvík – Kalka efst. Teikning Áka Grenz.

Keflavíkurflugvöllur

Í Morgunblaðinu 8. des. 1996, fjallar Friðþór Eydal um “Samgöngubyltingu á Háaleiti”. Um haustið voru liðin rétt fímmtíu ár frá því Íslendingar fengu afhentan Keflavíkurflugvöll til umráða. Með tímanum varð þessi flugvöllur einn mikilvægasti tengiliður landsmanna við umheiminn og raunar hefur mikilvægi hans í samgöngum farið vaxandi með árunum. Friðþór Eydal rekur hér sögu þessa flugvallar sem smám saman hefur breyst úr hemaðarmannvirki fyrst og fremst í alþjóðlegan flugvöll.

Kaldaðarnes

Í seinni heimsstyrjöldinni byggði breski flugherinn (RAF) flugvöll í Kaldaðarnesi og rak þar flugstöð allt þar til Ölfusá flæddi yfir bakka sína 6. mars 1943 og olli miklum skemmdum á flugvellinum. Árið 1999 var reistur minnisvarði við Selfossflugvöll um veru breska flughersins í Kaldaðarnesi.

“Föstudaginn 25. október, fyrir réttum fimmtíu árum, var bjartur dagur í sögu íslenskra flugmála. Þann dag tók Ólafur Thors forsætis- og utanríkisráðherra við Keflavíkurflugvelli fyrir Íslands hönd, en flugvöllurinn var lagður af Bandaríkjaher í síðari heimsstyrjöldinni.
Við hernám Íslands vorið 1940 var enga flugvelli að finna í landinu. Stjórn breska hernámsliðsins lá á að koma á fót eftirliti úr lofti til vamar hugsanlegri innrás Þjóðverja. Breski flotinn sendi brátt sveit lítilla sjóflugvéla af Whalrus-gerð til landsins í þessu skyni og ráðstafanir voru gerðar til að senda landflugvélar flughersins af Fairey Battle-gerð í þeirra stað. Að mati Breta buðu sléttir og harðir bakkar Ölfusár í Kaldaðarnesi upp á nánast eina hentuga flugvöllinn af náttúrunnar hendi í nágrenni Reykjavíkur þar sem hefja mátti flug með litlum tilkostnaði.

Kaldaðarnes

Flugvöllurinn á Kaldaðarnesi. Í seinni heimsstyrjöldinni byggði breski flugherinn (RAF) flugvöll í Kaldaðarnesi og rak þar flugstöð allt þar til Ölfusá flæddi yfir bakka sína 6. mars 1943 og olli miklum skemmdum á flugvellinum. Árið 1999 var reistur minnisvarði við Selfossflugvöll um veru breska flughersins í Kaldaðarnesi.

Hafa ber í huga að flestir herflugvellir til þess tíma voru grasi vaxnar grundir líkt og í Kaldaðarnesi. Sá hængur var þó á að flugvallarstæðið lá austan árinnar sem á það að auki til að flæða er klakastíflur myndast í ánni á vetrum. Bretum var þetta vel ljóst en lá á og gerðu reyndar í fyrstu ekki ráð fyrir að stunda neitt flug á Íslandi að vetri til sökum rysjótts veðurfars, enda hættan af þýskri innrás þá hverfandi afsömu ástæðu.

Síðari hluta ársins 1940 varð ljóst að þýski kafbátaflotinn léti ekki sitja við árásir á skip undan Bretlandsströndum og myndi færa athafnasvæði sitt vestar á Atlantshaf eftir því sem varnirnar styrktust.

Kafbátur

Verkefni breska flughersins á Kaldaðarnesi sem og flughers Bandaríkjamanna sem kom í kjölfar Bretanna var að fylgjast með ferðum þýskra kafbáta í nágrenni Íslands. Hér er einn þeirra, U-570, í fjörunni við Þorlákshöfn 30. ágúst 1941. Áhöfnin hafði siglt honum upp í fjöru þar sem skipverjar óttuðust að hann sykki. Hann var þó lítt skemmdur og var dreginn til Hvalfjarðar þar sem gert var við hann og síðan siglt til Skotlands. Fékk hann þar nafnið HMS Graf og var notaður af breska sjóhernum við háleynilegar aðgerðir.

Flugvélar höfðu þegar sannað gildi sitt við varnir gegn kafbátum og því brýnt að koma upp aðstöðu fyrirstærri og öflugri eftirlitsflugvélar sem víðast, svo veita mætti skipalestum vemd lengra frá landi. Hófu Bretar byggingu Reykjavíkurflugvallar haustið 1940 og var hann tilbúinn til takmarkaðrar notkunar vorið eftir, um það bil er þýskir kafbátar fóru að heija á skipalestir sem beint hafði verið á hafsvæðið suður af landinu, en svo vestarlega höfðu þeir ekki sótt fyrr. Þá var og hafist handa við að stækka flugvöllinn í Kaldaðarnesi. Báðir flugvellirnir voru þó einungis búnir einni flugbraut í fyrstu og voru því sléttaðir lendingarstaðir á nokkrum stöðum er nota mátti í neyð. Einn slíkur neyðarflugvöllur var gerður á Garðskaga og voru það fyrstu flugvallarframkvæmdir á Suðurnesjum.

Rauðhólar

Reykjavíkurflugvöllur á árum síðari heimsstyrjaldar.

Bandaríkjamenn hófu að styrkja herlið Breta hér á landi sumarið 1941 með það fyrir augum að leysa þá síðarnefndu af hólmi. Bandaríkin voru þá ekki orðin þátttakendur í styrjöldinni, en skyldu m.a. annast loftvarnir og eftirlit með skipaleiðum suður af landinu.
Bandaríska herráðið áætlaði byggingu stórs flugvallar fyrir sprengju- og eftirlitsflugvélar sínar á suðvesturhorni landsins í þessu skyni og annan minni fyrir orrustuflugsveit til loftvarna, sem allt of þröngt var um á Reykjavíkurflugvelli með öðrum flugsveitum er þar höfðu aðsetur.

Garðaskagaflugvöllur

Breski herinn hernam Ísland þann 10. maí 1940 til að koma í veg fyrir mögulega innrás Þjóðverja. Herinn var að flestu leyti vanbúinn og efnalítill og þurfti að koma sér upp aðstöðu og þjónustu með litlum fyrirvara og sem minnstum tilkostnaði. Bretar hófu strax leit að heppilegu flugvallarstæðum víða um landið. Fengu þeir snemma augastað á Garðskaga og ef til vill fleiri stöðum. Fáir staðir voru jafn ákjósanlegir fyrir bráðabirgðaflugvöll og Garðskaginn. Þarna var slétt og ræktað land, fyrrum kornakrar um aldir.
Jarðvegur á Garðskagaflötum er harður, þéttur og sendinn þannig að vatn sest sjaldan lengi á sléttlendið. Bretar sömdu við bændur á þeim fimm bæjum sem höfðu notað þetta svæði sem tún og beitiland en það voru Hafurbjarnarstaðir, Kolbeinsstaðir, Ásgarður, Hólabrekka og Útskálar.
Flugvallargerð á Garðskaga var ákveðin og var hafist handa snemma um sumarið 1940, og flugvöllurinn tekinn í notkun sumarið 1941. Þetta var fyrsti flugvöllur á Reykjanesskaganum og líklega einn fyrsti flugvöllur sem Bretar gátu nýtt sér hér á landi.
Túnum bænda á Garðskaga var með auðveldum hætti breytt í 1050 m langa flugbraut sem var 90 m breið og lá frá Garðskagavegi suður undir Hafurbjarnarstaði. Flötin var sléttuð og tyrfð að nýju eftir því sem þurfti og sáu heimamenn um verkið. Þetta var fyrsta reynsla þeirra af Bretavinnu og áttu margir þeirra eftir að helga setuliðinu störf sín næstu áratugina. Notaðir voru þeir vörubílar sem Garðmenn og Sandgerðingar áttu á þeim tíma auk hestvagna.
Verkamennirnir sjálfir lögðu til handverkfæri s.s. skóflur, haka og sleggjur. Þegar flugvallarstæðið hafði verið sléttað voru ræmur ristar í torfið svo skeljasandurinn kæmi vel í ljós við báða enda brautarinnar og með langhliðunum. Þannig var flugvöllurinn vel sýnilegur úr lofti. (Skráning stríðsminja á Suðurnesjum
Eiríkur Hermannsson og Ragnheiður Traustadóttir 2019)

Beindust augu Bandaríkjamanna strax að Suðurnesjum, enda Bretar þegar með vísi að flugvelli á Garðskaga og utanverður Reykjanesskaginn nánast hindrunarlaus til flugs.
Árás Japana á herstöðvar Bandaríkjanna á Hawaieyjum þann 6. desember breytti gangi styrjaldarinnar og áætlunum Bandaríkjamanna. Stóru sprengju- og eftirlitsflugvélarnar er hingað var ætlað að koma vora sendar til Kyrrahafsins. Þörfín á stórum flugvelli af þessu tagi var þó enn fyrir hendi þótt á annan veg væri. Ljóst var að flytja þyrfti mikinn fjölda flugvéla frá Bandaríkjunum til Bretlands til þátttöku í styrjöldinni í Evrópu. Bretar höfðu fest kaup á fjölda flugvéla í Bandaríkjunum og Kanada og flogið mörgum þeirra yfir hafið með viðkomu á Reykjavíkurflugvelli. Flugvöllum Bandaríkjahers var valinn staður þar sem heitir Háaleiti skammt suðvestan Keflavíkur og inn af Njarðvíkurfitjum.
Bretar höfðu gert tillögur að stækkun flugvallarins á Garðskaga, en þær mæltust ekki vel fyrirsökum skorts á landrými fyrir það risa mannvirki er nú voru á teikniborðinu. Úrslitum um staðarvalið réð Háaleitið sjálft sem hafði að geyma heppileg jarðefni til fyllingar undir flugbrautirnar sem byggja varð upp, og ekki þótti hagkvæmt að flytja langan veg. Samdist svo með íslenskum og bandarískum stjórnvöldum að íslenska ríkið skyldi útvega landrými fyrir flugvelli og tengda starfsemi og yrði því skilað ríkinu með öllum mannvirkjum til eignar að styrjöldinni lokinni.
Framkvæmdir hófust með byggingu herskálahverfis byggingarsveitar flughersins, Camp Nikel, milli Ytri-Njarðvíkur og Keflavíkur í byrjun febrúar 1942. Síðar í sama mánuði hófst lagning flugvallarins upp af Fitjum. Verkið var unnið af byggingarsveit flughersins ásamt u.þ.b. 100 íslenskum verkamönnum og vörubílstjórum. Íslensku starfsmennirnir hurfu á braut í júníbyrjun sökum nýrra reglna um hernaðaröryggi er þá tóku gildi og bönnuðu alla umferð Íslendinga innan flugvallarsvæðisins.

Meeks

Meeksflugvöllur var nefndur eftir lautinant George Everett Meeks sem fórst í flugslysi á Reykjavíkurflugvelli 27 ára að aldri, fyrstur rúmlega 200 Bandaríkjamanna sem létust á Íslandi á stríðsárunum. Meeks stundaði nám við háskóla Bandaríkjaflota í tvö ár en gekk síðan í bandaríska flugherinn og lauk flugþjálfun árið 1940. Hann kom til landsins með 33. orrustuflugsveitinni 6. ágúst 1941. Það gerðist fyrir hádegi 19. ágúst 1941 að George Meeks var að koma á orrustuflugvél sinni inn til lendingar á Reykjavíkurflugvelli, frá norðri. Hermaður mun hafa hjólað út á flugbrautina og flugmaðurinn þá fengið merki um að taka upp aftur. Hann var í lágflugi. Í stað þess að halda áfram í beinni stefnu eftir brautinni þá beygði hann til vinstri með þeim afleiðingum að hann flaug á loftnetsvírstreng, sem var strengdur á milli tveggja mastra. Annað mastrið brotnaði og hluti af öðrum væng vélarinnar. Vírdræsa vafðist um skrúfu vélarinnar og hún steyptist stjórnlaus í Skerjafjörðinn við Nauthólsvík. Flugmaðurinn mun hafa látist samstundis.

Skömmu áður hóf bandarískt verktakafyrirtæki framkvæmdir fyrir Bandaríkjaher hér á landi og tóku starfsmenn þess við af heimamönnum sem fengin voru verkefni annars staðar. Illa gekk þó að fá hæfa bandaríska verkamenn til starfa á Íslandi á þessum tíma og var horfið að því ráði að senda byggingarsveit flotans til landsins, starfsbræðrum sínum í flughernum til fulltingis. Lauk þætti verktakafyrirtækisins í framkvæmdunum í september. Flugvöllurinn ofan við Fitjar sem nefndur var Patterson var tilbúinn til takmarkaðrar umferðar strax sumarið 1942, er flugvélum 8. flughersins bandaríska var flogið til Bretlands með viðkomu á Grænlandi og Íslandi. Byggingarsveit flotans hóf lagningu flugvallarins á Háaleiti um sumarið og lauk verkinu árið eftir, en vinna við Patterson lagðist niður um veturinn. Bandaríkjamenn nefndu flugvöllinn á Háaleiti Meeks eftir ungum bandarískum orrustuflugmanni er fórst í flugslysi á Reykjavíkurflugvelli 19. ágúst 1941 skömmu eftir komuna til landsins. Hét Patterson flugvöllur eftir öðrum ungum flugmanni er einnig lét lífið hér á landi nokkru síðar.
Meeks flugvöllur, er við nú þekkjum sem Keflavíkurflugvöll, var tekinn í notkun í apríl 1943 og lauk byggingu beggja flugvallanna og tilheyrandi mannvirkja þá um haustið.
Alls risu 49 herskálahverfi á víð og dreif um flugvallarsvæðið og annars staðar á Suðurnesjum í tengslum við flugvellina og varnir þeirra. Voru þar eldsneytistankar, hermannaskálar, verkstæði, vörugeymslur, nýjar skiptastöðvar, vopnageymslur, loftvarnarbyssur og ratsjárstöðvar. Á Vogastapa reis spítali með 250 sjúkrarúmum og skammt þar frá fjarskiptastöðin Broadstreet er annaðist samskipti við flugvélar á flugleiðinni milli Evrópu og Bandaríkjanna. Má þar enn sjá veggi byggingar er reyndar reis eftir stríð í sama tilgangi.

KeflavíkurflugvöllurFlugumferð var að mestu aðskilin á flugvöllunum við Keflavík. Um Meeks fóru eingöngu ferju- og áætlunarvélar auk B-24 Liberator kafbátaleitarflugvéla breska flughersins, er aðsetur höfðu á Reykjavíkurflugvelli sem var of lítill til að slíkar flugvélar gætu athafnað sig þar full hlaðnar. Höfðu Bretar þann háttinn á að fljúga vélum sínum tómum til Keflavíkur og hlaða þær þar eldsneyti og djúpsprengjum áður en lagt var upp í leiðangur til varnar skipalestum. Slíkar ferðir gátu tekið 14 klukkustundir. Að flugi loknu var lent í Reykjavík.

Keflavíkurflugvöllur

Camp Turner á Keflavíkurflugvallasvæðinu – enn af 49 slíkum.

Bretar höfðu aðsetur í Camp Geck herstöð sunnan austur-vestur-flugbrautarinnar gegnt flugstöð Leifs Eiríkssonar og var þar eina starfsemi þeirra á Keflavíkurflugvelli. Fluttu þeir flugskýli sitt þangað frá Kaldaðarnesflugvelli sumarið 1943, en flugvöllurinn þar hafði eyðilagst í flóðum þá um veturinn. Þess má geta að kafbátaleitarflugvélar Bandaríkjaflota er störfuðu hér á landi til ársloka 1943 höfðu aðsetur á Reykjavíkurflugvelli.

Patterson

Bandaríkjamenn byggðu Patterson árið 1942 og var lokað þremur árum síðar. Hann var aðallega notaður til að sinna orrustuflugvélum hersins er önnuðust loftvarnir á Suðvesturlandinu.

Í stríðslok lagðist starfsemin á Pattersonflugvelli af er orrustuflugsveitin sem þar hafði aðsetur var leyst upp. Hefur sá flugvöllur ekki verið notaður síðan, en almennt millilandaflug hófst um Meeks.
Keflavíkursamningurinn, er undirritaður var haustið 1946, kvað á um brottför Bandaríkjahers, sem þá taldi einungis um 1.000 menn er önnuðust reksturflugvallarins. Flugvellirnir og önnur mannvirki urðu eign Íslendinga eins og til stóð og samið var um rekstur Meeks-flugvallar við bandarískt verktakafyrirtæki fyrir hönd Íslands og Bandaríkjanna sem áttu enn mikilla hernaðarlegra hagsmuna að gæta. Nefndist hann upp frá þessu Keflavíkurflugvöllur.

KeflavíkurflugvöllurSíðustu bandarísku hermennirnir héldu af landi brott 8. apríl 1947 og tóku bandarískir borgarar þá við rekstri vallarins. Reksturinn var að flestu leyti sambærilegur við það sem verið hafði á stríðsárunum, nema að nú var umferðin að miklu leyti áætlunarflug evrópskra og bandarískra flugfélaga, auk flugs Bandaríkjahers vegna herliðsins í Evrópu.
Keflavíkursamningurinn kvað á um að Íslendingar skyldu þjálfaðir í sem flestum störfum á Keflavíkurflugvelli og var fljótlega ráðið í störf verka- og iðnaðarmanna og þjónustustörf af ýmsu tagi.
KeflavíkurflugvöllurÞað var þó ekki fyrr en seint á árinu 1949 að Íslendingar hófu að vinna sérhæfð tæknistörf, t.d. við flugumferðarstjórn.
Sumarið 1948 tók bandaríska fyrirtækið Lockheed Overseas Aircraft Service við rekstri flugvallarins og annaðist hann til ársins 1951. Talsverðar endurbætur voru gerðar á flugvellinum og byggt yfir starfsemina á þessu tímabili. Eitt af þeim verkefnum var bygging flugstöðvar, sem jafnframt hýsti hótel, og tekin var í notkun vorið 1949.

KeflavíkurflugvöllurVið stofnun varnarliðsins vorið 1951 tók flutningadeild bandaríska flughersins við rekstri vallarins og hótelsins, en flugmálastjórnin á Keflavíkurflugvelli annaðist afgreiðslu farþegaflugvéla sem leið áttu um flugvöllinn og aðra almenna flugþjónustu. Þar eð uppbygging mannvirkja varnarliðsins varð að mestu á svæðinu umhverfis flugstöðina, sem byggð var á þeim tíma er Keflavíkurflugvöllur var ekki herstöð, komu strax fram hugmyndir um byggingu nýrrar flugstöðvar svo koma mætti á aðskilnaði borgaralegs flugs og hernaðarstarfseminnar, báðum aðilum til hagsbóta og aukins öryggis. Ekkert varð þó af framkvæmdum fyrr en á öndverðum níunda áratugnum.

Keflavíkurflugvöllur

Ríkisstjórnir Íslands og Bandaríkjanna undirrituðu samning haustið 1946 sem kvað á um um brottför Bandaríkjahers, sem þá taldi einungis um 1.000 menn sem störfuðu við rekstur Keflavíkurflugvallar. Samningnum sem jafnan er nefndur Keflavíkursamningurinn veitti Bandaríkjastjórn heimild til þess að nota flugvöllinn til millilendingar herflugvéla á leiðinni til og frá Evrópu í tengslum við hersetuna í Þýskalandi. Flugvellirnir og önnur mannvirki urðu eign Íslendinga eins og til stóð en Bandaríkjastjórn stóð áfram straum af rekstrarkostnaði flugvallarins sem hlaut nafnið Keflavíkurflugvöllur.

Hermenn önnuðust í fyrstu stjórn herflugvéla, en íslensku flugumferðarstjórarnir stjómuðu annarri umferð um völlinn. Var svo uns gerður var samningur við varnarliðið í júní 1955 sem meðal annars kvað á um að íslensk flugmálayfirvöld skyldu annast stjórn allra loftfara er leið ættu um Keflavíkurflugvöll. Flugfélagið Loftleiðir flutti flugstarfsemi sína til Keflavíkurflugvallar árið 1962 og tveimur árum síðar tók það við rekstri flugafgreiðslunnar og þjónustu við almenna flugumferð um Keflavíkurflugvöll fyrir hönd íslenskra stjórnvalda undir yfirumsjón flugvallarstjórans á Keflavíkurflugvelli.

Um svipað leyti var rekstri flugvallarhótelsins hætt, en hann hafði þá lengst af verið að mestu í þágu varnarliðsins og herflugsins. Loftleiðir, og síðar Flugleiðir, ráku áfram þjónustu í flugstöðinni uns starfsemin flutti í flugstöð Leifs Eiríkssonar vorið 1987. Með tilkomu nýrrar flugstöðvar og viðhaldsdeildar Flugleiða, auk annarrar almennrar flugstarfsemi við flugvöllinn norðanverðan, varð loks sá aðskilnaður frá athafnasvæði varnarliðsins sem báðir aðilar höfðu stefnt að frá stofnun þess.” – Höfundur er upplýsingafulltrúi varnarliðsins í Keflavík.

Heimild:
-Morgunblaðið 8. des. 1996, Samgöngubylting á Háaleiti, Friðþór Eydal, bls. 26-27.
Keflavíkurflugvöllur

Patterson

Í “Húsakönnun Patterson” árið 1019, skráða af Helga Biering, þjóðfræðingi, kemur eftirfarandi fram um hernaðarmannvirkið Pattersonflugvöllinn ofan Fitja í Njarðvíkum:

Patterson

Patterson 1942.

“Þann 11. júní 1941 komu átta yfirmenn Bandaríska hersins til Íslands og viku síðar, eða þann 18. júní, greindu þeir frá því að frá sjónarhóli verkfræðinganna hefði Ísland lítið upp á að bjóða. „Án trjáa var engan innlendan við að hafa og í raun þyrfti að flytja allt inn sem á þarf að halda. Hafnir eru litlar og ráða ekki við skip sem eru stærri en 470 fet og rista ekki dýpra en 21 fet. Veðurfarið biði upp á vetrarhita sem væri að meðaltali -1°C (30°F) og sumarhita með meðalhita um 11°C (52°F), rigningu með um 127 Sentímetra meðal ársúrkomu og vetrarvinda sem vætu um 36m/sek. Einungis hraungrjót, möl og sandur væri nóg af á hinni hráslagalegu eyju“.

Patterson

Flugbraut lögð “Bretajárni” (Marston-mats).

Einnig sögðu þeir að hér væru tveir nothæfir flugvellir sem byggðir höfðu verið af Bretum en þeir þyrftu breytinga við til að fullnægja stöðlum og til að bera aukna umferð þyngri flugvéla. Fyrir utan flugvöllinn í Reykjavík og á Kaldaðarnesi við Selfoss voru nokkrar lélegar flugbrautir, svo sem á Garðskaga, og nýttu eingöngu til nauðlendinga.
Flugbrautirnar á Melgerðismelum utan við Akureyri og Höfn í Hornafirði voru of langt frá til að falla að hugmyndum bandarískra hernaðaryfirvalda.

Patterson

Patterson 1958.

Í upphafi veru Bandaríkjahers var ætlunin með flugvelli við Keflavík og Njarðvík að hafa einungis einn flugvöll. Hann skyldi staðsettur á svokölluðum Sviðningum ofan við Njarðvíkurfitjar. Skyldi sá flugvöllur klæddur svokölluðum „Marston-mats“. En mottur þær voru gataðar járnplötur sem kræktust saman og mynduðu þannig heilu flugvellina og gátu borið uppi flugvélar á jarðvegi sem annars hefði ekki verið hægt að lenda á. Þessi járn gengu undir nafninu „Bretajárn“ hjá Íslendingum sem fundu mikil og fjölbreytt not fyrir þau eftir stríðið.
Sviðningarnir urðu fyrir valinu eftir að flugherinn hafði kannað nokkra staði svo sem Garðskaga og Sandskeið.

Patterson

Patterson-flugvöllur.

Það kom svo í hlut byggingarsveitar flughersins að byggja flugvöllinn og skyldi hafist handa með hraði. Skyldi flugvöllurinn vera með tvær 1600 metra langar flugbrautir og skálahverfi fyrir flugsveitina. Eins átti byggingarsveit flughersins ráða til verksins íslenska verkamenn. Fyrstu liðsmenn 21. Byggingarsveitar hersins komu til landsins haustið 1941 en framkvæmdir við flugvallargerðina hófust 1942. Þegar verkfræðideildin kom til landsins fóru að berast sérhæfð verkfæri til flugvallagerðar ásamt öðrum búnaði.

Varnarsvæði

Varnarsvæðið á Miðnesheiði – herforingjaráðskort. Pattersonflugvöllur neðst t.h.

Til að byrja með fékk fjöldi Íslendinga vinnu við flugvallargerðina á Reykjanesi. Nokkur fjöldi Íslendinga fékk vinnu við flugvallagerðina. Fengu sumir þeirra þjálfun í meðferð þungavinnuvéla sem áttu enga sína líka hér á landi, má þar nefna jarðýtur, krana, grjótmulningsvélar og malbikunarvélar. En með setningu öryggisreglna á svæðinu sumarið 1942 var öllum Íslendingunum sagt upp störfum og eftir það luku um 4500 Bandaríkjamenn verkinu. Hér var í raun um að ræða tvo samtengda flugvelli með sex löngum steinsteyptum og malbikuðum flugbrautum; annars vegar aðalflugvöllurinn á Háaleiti, Meeks-flugvöllur sem síðar varð Keflavíkurflugvöllur, og hins vegar Pattersonflugvöllur á Njarðvíkurheiði en hann var ekki notaður eftir stríð.

Patterson

Patterson 12. maí 1944 – Douglasvél í ferjuflugi.

Pattersonflugvöllur var minni og einungis notaður fyrir orrustuflugvélar til varnar flugvöllunum báðum. Flugvellirnir voru teknir í notkun árin 1942 og 1943 og þar með gátu Bandaríkjamenn flutt sig frá Reykjavíkurflugvelli með meginhluta starfsemi sinnar. Fyrir utan flugvallagerð á Sviðningunum og Miðnesheiði stóð herinn fyrir vegabótum frá Reykjavík og hafnarbótum í Keflavík vegna aðflutninga.

Patterson

Patterson; geymsla og varðskýli.

Reiknað hefur verið út að heildarkostnaður við gerð flugvallanna tveggja og aðrar tilheyrandi framkvæmdir hafi jafngilt 9% vergrar landsframleiðslu Íslendinga árið 1943.
Pattersonflugvöllur var gerður af Bandaríkjaher í síðari heimsstyrjöld og var tekinn í notkunn 1942. Hann var mikilvægur áningarstaður herflugvéla á leið yfir Norður-Atlantshaf í styrjöldinni og var færður Íslendingum til eignar árið 1946 ásamt Meeks flugvelli. Vorið 1951 gerðu Ísland og Bandaríkin með sér varnarsamning og hafði bandaríska varnarliðið flugbækistöð á Keflavíkurflugvelli til ársins 2006.

Patterson

Húsakönnun.

Við hernám Íslands vorið 1940 var enga flugvelli að finna í landinu. Breska hernámsliðinu lá á að koma á fót eftirliti úr lofti til varnar hugsanlegri innrás Þjóðverja og sendi breski flotinn strax sveit lítilla sjóflugvéla til landsins sem starfaði þar um sumarið. Sléttir og harðir bakkar Ölfusár í Kaldaðarnesi buðu upp á nánast eina hentuga flugvöllinn af náttúrunnar hendi í nágrenni Reykjavíkur en flestir herflugvellir til þess tíma voru grasi vaxnar grundir líkt og í Kaldaðarnesi. Sá hængur var þó á að flugvallarstæðið lá austan árinnar sem á það til að flæða þegar klakastíflur myndast í ánni á vetrum. Bretum var þetta vel ljóst en lá á og gerðu reyndar í fyrstu alls ekki ráð fyrir að stunda neitt flug á Íslandi yfir vetrarmánuðina.

Patterson

Bandaríkjamenn byggðu árið 1942 og var lokað þremur árum síðar. Hann var aðallega notaður til að sinna orrustuflugvélum hersins sem sinntu loftvörnum á suðvesturlandinu.

Flugstarfsemi hófst í Kaldaðarnesi um haustið en jafnframt var hafist handa við flugvallargerð í Reykjavík.
Síðari hluta ársins 1940 varð ljóst að þýski kafbátaflotinn léti ekki sitja við árásir á skip undan Bretlandsströndum og myndi færa athafnasvæði sitt vestar á Atlantshaf eftir því sem varnirnar styrktust. Flugvélar höfðu þegar sannað gildi sitt við varnir gegn kafbátum og því brýnt að koma upp aðstöðu fyrir stærri og öflugri eftirlitsflugvélar sem víðast svo veita mætti skipalestum vernd lengra frá landi.
Reykjavíkurflugvöllur var tilbúinn til notkunar sumarið 1941 um það bil er þýskir kafbátar fóru að herja á skipalestir suður af landinu. Þá var hafist handa við að stækka flugvöllinn í Kaldaðarnesi. Báðir flugvellirnir voru þó einungis búnir einni flugbraut í fyrstu og voru því sléttaðir lendingarstaðir á nokkrum stöðum sem nota mátti í neyð. Einn slíkur neyðarflugvöllur var gerður á Garðskaga og voru það fyrstu flugvallarframkvæmdir á Suðurnesjum.

Patterson

Ein af mörgum sprengigeymslunum við Pattersonflugvöll.

Bandaríkin hófu að styrkja herlið Breta hér á landi sumarið 1941 samkvæmt samningi við íslensk stjórnvöld með það fyrir augum að leysa breska herinn af hólmi. Bandaríkin voru ekki orðin þátttakendur í styrjöldinni en skyldu m.a. annast loftvarnir með orrustuflugvélum á Reykjavíkurflugvelli. Bandaríska herráðið ráðgerði að byggja stóran flugvöll fyrir sprengju- og eftirlitsflugvélar á suðvesturhorni landsins. Og þar sem allt of þröngt var um orrustuflugsveitna á Reykjavíkurflugvelli með öðrum flugsveitum sem þar voru var einnig byggður annar minni fyrir hana á Njarðvíkurheiði.

Patterson

Húsaköunnin.

Bandaríkjamenn sáu strax að Suðurnesin væru vel til þess fallin að byggja slíka flugvelli, enda Bretar þegar með vísi að flugvelli á Garðskaga og utanverður Reykjanesskaginn nánast hindrunarlaus til flugs.
Árás Japana á herstöðvar Bandaríkjanna á Hawaiieyjum 6. desember 1941 breytti gangi styrjaldarinnar og áætlunum Bandaríkjamanna. Stóru sprengju- og eftirlitsflugvélarnar sem áætlað var að senda til Íslands voru sendar til bækistöðva við Kyrrahaf. Þörfin á stórum flugvelli af þessu tagi var þó enn fyrir hendi þótt á annan veg væri. Ljóst var að flytja þyrfti mikinn fjölda flugvéla frá Bandaríkjunum til Bretlands til þátttöku í styrjöldinni í Evrópu en Bretar höfðu fest kaup á fjölda flugvéla í Bandaríkjunum og Kanada og flogið mörgum þeirra yfir hafið með viðkomu á Reykjavíkurflugvelli.

Patterson

Patterson – sprengigeymslur.

Flugvöllum Bandaríkjahers var valinn staður upp af Njarðvíkurfitjum og á Háaleiti ofan Keflavíkur. Bretar höfðu gert drög að stækkun varaflugvallarins á Garðskaga en þær mæltust ekki vel fyrir sökum skorts á landrými fyrir það risa mannvirki sem Bandaríkjaher hafði á teikniborðinu. Úrslitum um staðarvalið réð jökulgarðurinn á Háaleiti sem hafði að geyma heppileg jarðefni til fyllingar undir flugbrautirnar og ekki þótti hagkvæmt að flytja langan veg. Samdist svo um að íslenska ríkið útvegaði landrými fyrir flugvelli og tengda starfsemi sem skilað yrði aftur með öllum mannvirkjum til íslensku þjóðarinnar til eignar að styrjöldinni lokinni.

Patterson

Patterson – sprengigeymslur.

Framkvæmdir hófust við lagningu flugvallarins upp af Fitjum í febrúar 1942 og var verkið unnið af byggingarsveit flughersins ásamt u.þ.b. 100 íslenskum verkamönnum og vörubílstjórum.
Íslensku starfsmennirnir hurfu á braut í júníbyrjun þegar nýjar reglur um hernaðaröryggi tóku gildi og bönnuðu alla umferð annarra en hermanna innan flugvallarsvæðisins. Skömmu áður hóf bandarískt verktakafyrirtæki framkvæmdir fyrir Bandaríkjaher hér á landi og tóku starfsmenn þess við af heimamönnum sem fengin voru verkefni á vegum hersins annars staðar.

PattersonIlla gekk þó að fá hæfa bandaríska verkamenn til starfa á Íslandi og var gripið til þess ráðs að senda nýstofnaða byggingarsveit flotans til landsins sem tók við mannvirkjagerðinni ásamt byggingarsveitum hersins. Flugvöllurinn sem hlaut nafnið Patterson Field var tilbúinn Flugvellir Bandaríkjahers við Keflavík við verklok síðla árs 1943. Stærri völlurinn Meeks Field síðar Keflavíkurflugvöllur þjónaði millilandaflugi og þar gat fjöldi flugvéla haft viðdvöl í einu. Flugvöllurinn hefur verið stækkaður verulega. Minni flugvöllurinn, Patterson Field var aðsetur orrustuflugvéla sem önnuðust loftvarnir.

Varnarsvæði

Varnarsvæðið á Miðnesheiði – einstök hverfi (campar).

Á flugvallarsvæðinu risu alls 43 herskálahverfi sem hýst gátu 10.000 manns auk flugskýla, eldsneytistanka og annarra mannvirkja sem tengdust starfseminni. Alls störfuðu um 3.000 manns við gerð þessara tveggja flugvalla þegar mest var og lauk verkinu árið eftir en vinna við Patterson lá niðri um veturinn. Bandaríkjamenn nefndu flugvöllinn á Háaleiti Meeks-Field eftir ungum bandarískum orrustuflugmanni sem fórst í flugslysi á Reykjavíkurflugvelli 19. ágúst 1941 skömmu eftir komuna til landsins. Patterson-flugvöllur var að sama skapi nefndur eftir öðrum ungum flugmanni sem einnig lét lífið hér á landi nokkru síðar.
Meeks-flugvöllur sem nú nefnist Keflavíkurflugvöllur var tekinn í notkun í apríl 1943 en smíði beggja flugvallanna og tilheyrandi mannvirkja var lokið þá um haustið. Alls risu 49 herskálahverfi á víð og dreif um flugvallarsvæðið og annars staðar á Suðurnesjum í tengslum við flugvellina og varnarviðbúnað sem fylgdi starfseminni.

KeflavíkurflugvöllurFlugumferð var að mestu aðskilin á flugvöllunum við Keflavík. Um Meeks-flugvöll fóru eingöngu ferju- og áætlunarvélar en auk þess fengu kafbátaleitarflugvélar breska flughersins af gerðinni B-24 Liberator sem aðsetur höfðu á Reykjavíkurflugvelli þar aðstöðu. Starfrækslu Patterson-flugvallar var hætt í stríðslok en almennt millilandaflug hófst þá um Meeks-flugvöll.

PattersonRíkisstjórnir Íslands og Bandaríkjanna undirrituðu samning haustið 1946 sem kvað á um um brottför Bandaríkjahers, sem þá taldi einungis um 1.000 menn sem störfuðu við rekstur Keflavíkurflugvallar. Samningurinn sem jafnan er nefndur Keflavíkursamningurinn veitti Bandaríkjastjórn heimild til þess að nota flugvöllinn til millilendingar herflugvéla á leiðinni til og frá Evrópu í tengslum við hersetuna í Þýskalandi. Flugvellirnir og önnur mannvirki urðu eign Íslendinga eins og til stóð en Bandaríkjastjórn stóð áfram straum af rekstrarkostnaði flugvallarins sem hlaut nafnið Keflavíkurflugvöllur.
Síðustu bandarísku hermennirnir héldu af landi brott 8. apríl 1947 og tók flugfélagið American Overseas Airlines við flugvallarrekstrinum og réð bandaríska og íslenska starfsmenn til verksins. Starfsemin var að flestu leyti sambærileg við það sem verið hafði á stríðsárunum, nema að nú var umferðin að miklu leyti evrópskar og bandarískar farþegaflugvélar sem millilentu ásamt bandarískum herflugvélum.

Varnarsvæði

Varnarsvæði Keflavíkurflugvallar – fylgir Tilkynningu frá ríkisstjórninni 21. maí 1942.

Keflavíkursamningurinn kvað á um að Íslendingar skyldu þjálfaðir í sem flestum störfum við flugvallarreksturinn og var fljótlega ráðið í störf verka- og iðnaðarmanna og þjónustustörf af ýmsu tagi. Það var þó ekki fyrr en seint á árinu 1949 að Íslendingar hófu að vinna sérhæfð tæknistörf, t.d. við flugumferðarstjórn.
Við stofnun varnarliðsins vorið 1951 tók flutningadeild bandaríska flughersins við rekstri Keflavíkurflugvallar og hótelsins, en Flugmálastjórn Keflavíkurflugvallar annaðist afgreiðslu farþegaflugvéla sem leið áttu um flugvöllinn og aðra almenna flugþjónustu. En Patterson flugvöllur fékk það hlutverk að vera geymslusvæði fyrir tækjabúnað og sprengiefni þar til að herinn fór aftur árið 2006.

 Allt frá fyrstu dögum veru Bandaríkjahers á Suðurnesjum var þörf á að reisa húsnæði fyrir starfsemina. Ýmist geymslubragga, flugskýli og hvað eina sem þurfti til að veita skjól þarfnaðist skjóls fyrir veðri og vindum.

Braggar

Braggi á stríðsárunum.

Braggar og önnur fljótt byggð bráðabirgðahúsnæði voru í upphafi það sem reist var. Síðar komu svo hús sem voru ætluð til að standa allt að 25 ár ásamt byggingum sem reistar voru til langs tíma.

Í upphafi var nánast eingöngu reist bráðabirgðahúsnæði og síðar einnig töluvert mikið af stálgrindarhúsum. Eftir að herinn kom aftur hóf hann að reisa sprengjugeymslur sem enn standa víðs vegar um flugvallasvæði Patterson svæðisins.
Þau mannvirki sem eftir standa eru þöglir minnisvarðar liðinna áratuga, ára seinni heimstyrjaldarinnar og kalda stríðsins á Íslandi. Hönnuðir þeirra húsa sem Húsakönnunin nær yfir er verkfræðideild Bandaríska hersins.

Flugslys

Patterson

Vogshóll 27. des. 1942 – Catalina flugbátur.

Eitthvað var um flugslys á og í kringum Patterson flugvöllinn og ætla ég að minnast á þau sem þar urðu. Hugsanlegt er að eitthvað sé af hlutum á Vogshól þar sem tvær af þessum flugvélum komu niður á nánast sama blettinn.

27. desember 1942 fórst Catalina flugbátur á Vogshól sem er við austurenda Patterson, vélin var á leiðinni í kafbátaleit þegar hún lenti í hvössum éljabakka og fórst um fimmtán mínútum eftir að hún fór á loft. Allir níu áhafnarmeðlimirnir fórust Njarðvíkurheiði.
11. janúar 1943 magalenti P-40 Warhawk á Patterson flugvellinum. Flugmaðurinn slapp og flugvélin skemmdist minniháttar og var löguð.

Patterson25. janúar 1944 brotlenti UC-45E Expeditor stuttu eftir flugtak frá Patterson. Brotlendingarstaðurinn er ekki staðfestur. Flugmaður og farþegar lifðu slysið af.
22. apríl 1944 brotlenti Stinson Vigilant á Patterson. Flugvélin skemmdist mikið og var afskrifuð. Flugmaðurinn lifði af slysið.
12. maí 1944 hlekktist tveggja hreyfla Douglas Boston á Patterson flugvelli. Eldur kom upp í henni og hún eyðilagðist í eldinum.

Patterson

Vogshóll 11. júní 1944 – P-47 Thunderbolt.

Allir þrír áhafnarmeðlimirnir komust ómeiddir frá þessu.
11. júní 1944 magalenti P-47 Thunderbolt á Patterson vegna tæknilegra vandamála. Vélin skemmdist töluvert en flugmaðurinn slapp ómeiddur.

8. júlí 1944 hrapaði svo P-47 Thunderbolt í Vogshól skömmu eftir flugtak en flugmaðurinn slapp út í fallhlíf. Sami flugmaður var í sömu stöðu rétt um mánuði fyrr þegar önnur P-47 hrapaði við Húsatóftir hjá Grindavík.”

Heimildir:
-Húsakönnun Patterson, Helgi Biering þjóðfræðingur, 2019.
-Morgunblaðið 8. des. 1996, Samgöngubylting á Háaleiti, bls. 26-27.

Patterson

Sprengigeymsla við Pattersonflugvöll.

Selatangar

“Beinteinn var maður nefndur suður í Krýsuvík, bjó hann að Arnarfelli.

Selatangar

Selatangar – sjóbúð.

Eitthvert sinn var hann að smíða skip við sjó frammi, þar sem heitir á Selatöngum. Hafðist hann þar við í verskála. Þar hafði hann alltaf hjá sér hlaðna byssu. Hannn lét einatt loga ljós í skálanum þegar kveldaði.

Eitt kvöld, er hann hefur kveikt í skálanum, heyrir hann allt í einu mjög mikinn brest og skarkala í skáladyrum. Lítur hann þangað og sér þá að ógurlegt skrímsli treður sér inn úr dyrunum; það hafði brotið tréð úr þeim, hafði dyraumbúninginn á herðunum og tróð sér svo áfram. En þröngt varð um það á milli grjótveggjanna.
Það var eins og maður neðan en mjög ófreskjulegt eða dýrslegt ofan. Beinteinn var harðfær maður og alleinbeittur. Hann þrífur því byssu sína, lætur sér ekki bilt við verða og hleypir af á ófreskjuna. Henni bregður hvergi og treður sér því meir áfram. Beinteinn hleður aftur byssuna og hleypir af. Þá stansar þetta en ekkert sér á því. Enda var það allt að sjá hulið skeljarögg utan.

Selatangar

Á Selatöngum.

Beinteinn var í silfurhnepptri millifatapeysu. Hann man nú allt í einu að hann hefir heyrt sagt að þótt engin kúla vinni á skeljastakk skrímsla þá geri þó silfurhnappar það. Slítur hann því hnappana af peysunni sinni, hleður byssuna og hefur á fyrir högl eða kúlu og skýtur enn á skrímslið. Þá tók það snarpt viðbragð, reif sig út
og hvarf til sævar. En Beinteinn hljóp út. Þá fyrst greip hann hræðsla. Tók hann til fóta og hægði eigi á sprettinum fyrr en heima við bæ, óður af hræðslu og nærri sprunginn af mæði og sagði söguna. Að morgni sáust aðgerðir skrímslisins en sjálft var það með öllu horfið.”

SIGFÚS IV 39

Selatangar

Á Selatöngum.

Hafnarfjörður

Á vefnum “Íslandskort.is” má lesa eftirfarandi fróðleik um Björn Gunnlaugsson og Íslandskortagerð hans á árunum 1831-1843. Hér verður lögð áhersla á vinnu hans við kortlagninu Reykjanesskagans.

Björn Gunnlaugsson

Björn Gunnlaugsson – myndin er unnin af Sigurði Guðmundssyni málara.

Björn Gunnlaugsson (28. september 1788 – 17. mars 1876) var landmælingamaður og höfundur stjörnufræðirita. Hann starfaði þó mestan hluta ævinnar sem kennari, fyrst við Bessastaðaskóla, en fluttist með skólanum til Reykjavíkur og varð síðar yfirkennari.
Björn Gunnlaugsson er þekktastur fyrir uppdrátt sinn af Íslandi en hann ferðaðist um landið til mælinga sumurin 1831–1843, að frátöldu sumrinu 1836. Mælingar Björns urðu undirstaðan að Íslandskorti sem Hið íslenska bókmenntafélag gaf út árin 1844 og 1849. Mælingar Björns lögðu einnig grunninn að öðrum Íslandskortum næstu áratugina fram til þess að dönsk herforingjaráðskort tóku við á fyrstu árum tuttugustu aldar.

Gullbringa- og Kjósarsýsla med nokkrum parti af Árnesssýslu

Björn Gunnlaugsson

Uppdráttur Björns Gunnlaugssonar af Reykjanesskaga 1831, fyrsta útgáfa.

Þegar Björn Gunnlaugsson hóf landmælingar sínar á Íslandi var ákveðið að fjárveiting hans yrði aðeins til eins árs til að byrja með og bundin því skilyrði að hann byrjaði á Gullbringu- og Kjósarsýslu. Um áframhald verksins átti svo að fara eftir árangri fyrsta sumarsins.
Björn hófst strax handa um leið og hann fékk mælingatækin í hendurnar og tókst að ljúka mælingu Gullbringu- og Kjósarsýslu um sumarið 1831 þrátt fyrir ýmsa byrjunarörðugleika. Eftir að kortið var tilbúið sendi Björn það til Kaupmannahafnar.

Björn Gunnlaugsson

Uppdráttur Björns Gunnlaugssonar af Reykjanesskaga 1831, önnur útgáfa.

Stjórn Bókmenntafélagsins leist vel á það og ákveðið var að styrkja Björn áfram. Við áframhald verksins þurfti Björn að fá kortið af Gullbringu- og Kjósarsýslu aftur vegna tengingar þess við síðari kort. Í stað þess að fá sent frumkortið fékk hann hins vegar í hendur handdregnar eftirmyndir þess. Ekki er vitað til annars en að kortin séu nákvæm eftirgerð af korti Björns. Ef litið er nánar á þau sést vel hvernig Björn hefur lagt sig fram um draga upp sem flest fjöll inn til landsins en þau höfðu strandmælingamenn alveg skilið eftir.

Uppdráttur Íslands

Björn Gunnlaugsson

Uppdráttur Íslands, 1. útg. eftir Björn Gunnlaugsson.

Þó að strandmælingarnar hefðu verið merkur áfangi var enn langt í land að komið væri viðunandi kort af landinu í heild, byggðum þess og óbyggðum. Strandkortin nægðu farmönnum en fyrir landsmenn komu þau að litlu gagni hvort sem litið var til almennrar þekkingar á landinu sjálfu eða til annarra nota. Eftir að strandmælingunum lauk varð ekki vart neinna tilburða til þess að hrinda verkinu lengra áleiðis.
Nú vildi svo vel til að til var Íslendingur er lokið hafði háskólaprófi í stærðfræði við mjög góðan orðstír og unnið um skeið að landmælingum erlendis. Hann hét Björn Gunnlaugsson, kennari við latínuskólann á Bessastöðum.

Björn Gunnlaugsson

Uppdráttur Íslands eftir Björn Gunnlaugsson á árunum 1849-1850.

Árið 1829 ritaði Björn stiftsyfirvöldum og mæltist til að Danir létu Íslendingum eftir landmælingaáhöld þau er notuð voru við strandmælingarnar. Í bréfinu segist hann oft vera beðinn um að mæla ýmislegt og þægilegt væri að hafa áhöldin við höndina. Þessari ósk Björns var ekki sinnt. Hið íslenska bókmenntafélag skarst þá í leikinn og ákvað eftir nokkuð hik árið 1831 að verja ákveðinni upphæð til mælinga á landinu öllu. Stiftamtmaður var beðinn um að hlutast til um það að mælingatækin og eftirmyndir strandkortanna yrðu látin af hendi og varð hann við því. Birni Gunnlaugssyni var falið verkið en fjárveitingin var aðeins til eins árs til að byrja með og bundin því skilyrði að mælingin hæfist í Gullbringu- og Kjósarsýslu. Um áframhald verksins skyldi svo fara eftir árangri fyrsta sumarsins.

Björn Gunnlaugsson

Uppdráttur Íslands – 1. hluti.

Björn hófst strax handa um leið og hann fékk mælingatækin í hendurnar og tókst að ljúka mælingu Gullbringu- og Kjósarsýslu um sumarið 1831 þrátt fyrir ýmsa byrjunarörðugleika. Eftir að kortið var tilbúið sendi Björn það til Kaupmannahafnar til þess að hægt yrði að gera myndamót af því. Stjórn Bókmenntafélagsins leist vel á kortið og ákveðið var að halda mælingunum áfram. Björn vann að verkinu árin 1831-1843 að sumrinu 1836 undanskildu. Hann mun hafa ferðast rúma 700 daga í mælingaleiðöngrum sínum. Árið 1836 rættist úr fjárhagsáhyggjum þeirra er stóðu að mælingunum er rentukammerið ákvað að veita Birni árlegan styrk.

Björn Gunnlaugsson

Uppdráttur Íslands, 2. hluti.

Í upphafi hafði áætlunin verið sú að mæla hverja sýslu fyrir sig og búa til sérkort af þeim en vegna mikils kostnaðar var hætt við það og ákveðið að búa til heildarkort af landinu á fjórum blöðum. Forstöðumanni landmælingadeildar herforingjaráðsins, Olaf Nikolas Olsen, var falið að sjá um útgáfu kortsins í Danmörku. Í hans hlut kom að taka við svæðakortum frá Birni, tengja þau saman og minnka þau síðan í rétta stærð. Vegna minnkunarinnar varð að fella niður fjölda örnefna sem Björn hafði tekið til, velja úr þeim og bæta inn nýjum nöfnum ef ástæða þótti til. Á kortinu stendur að það sé gefið út 1844 en það varð líklega ekki tilbúið fyrr en fjórum árum síðar.

Björn Gunnlaugsson

Uppdráttur Íslands, 3. hluti.

Kortið er gert í keiluofanvarpi, mælikvarðinn er 1:480.000 og lengdarbaugar miðaðir við Kaupmannahöfn. Nafnið stendur á suðausturkortinu en á titilblaði sem fylgir er það nokkuð stytt. Þar eru einnig skýringar á merkjum, stutt greinargerð um útgáfuna og frönsk þýðing.
Þegar Olsen fór að sjá fyrir endan á vinnunni við fjögurra blaða kortið byrjaði hann á öðru og handhægara Íslandskorti í helmingi minni mælikvarða. Kortið kom sennilega ekki út fyrr en 1850 þó á því standi útgáfuárið 1849. Mælikvarði er 1:960.000 og ofanvarp hið sama og á stærra kortinu. Uppdrátturinn er aðeins minnkuð eftirmynd stærra kortsins með færri nöfnum.

Björn Gunnlaugsson

Uppdráttur Íslands, 4. hluti.

Þó að sami maður hafi séð um eirstunguna á báðum kortunum er hinn minni lakar gerður. Þar veldur mestu um að Olsen hefur leitast við að taka upp það marga landslagsþætti frumgerðarinnar að öllu hættir til að renna saman. Nöfn eru líka oft með það smáu letri að erfitt er að lesa þau. En kortið kostaði hins vegar aðeins þriðjung af verði stóra kortsins. Útgáfa kortanna var mjög dýr, kostnaðurinn mun hafa numið tífaldri þeirri upphæð sem Bókmenntafélagið greiddi Birni Gunnlaugssyni í beinan ferðakostnað á tólf árum.

Björn Gunnlaugsson

Björn Gunnlaugsson – Reykjanesskagi.

Mæling og kortagerð Björns Gunnlaugssonar var mikið vísindalegt afrek. Í fyrsta skipti var fenginn sæmilegur uppdráttur af landinu öllu. Þó að eldri heildaruppdrættir, byggðir að nokkru leyti á mælingum, væru til voru þeir oft fjarska handahófskenndir og ónákvæmir. Björn studdist við strandkortin eins langt og þau náðu. Hann fór um allar byggðir landsins í mælingaleiðöngrum sínum en ferðaðist hins vegar lítið um óbyggðir. Um sum svæði varð hann að treysta frásögnum kunnugra. Miðhálendið hefur mætt afgangi en útlit þess er þó mikil framför frá fyrri kortum. Kortið var hið fyrsta sem menn gátu notað til þess að gera sér sæmilega grein fyrir staðsetningu byggða og útbreiðslu jökla, hrauna og fjallþyrpinga. Meiri háttar fljót voru rakin til upptaka og stöðuvötn mörkuð af meira raunsæi en áður.

Björn Gunnlaugsson

Uppdráttur Björns Gunnlaugssonar af miðlendi Skagans.

Kort Björns Gunnlaugssonar er ekki laust við villur en við öðru var ekki að búast miðað við að hann fór ekki um allt landið og vann verkið einn og aðstoðarlítið með frumstæðum tækjum. Við bágar aðstæður lagði Björn undirstöðu sem aðrir byggðu á uns skipulegar mælingar hófust upp úr aldamótum og þá í miklu stærra sniði.

Í Ísafold, föstudaginn 24. mars 1876, er fjallað um lát Björns Gunnlaugssonar og eftirmæli skrifuð:
“Björn bjó að Sviðholti meðan hann kenndi við Bessastaðaskóla og vann að “Uppdrætti Íslands“. Á því starfi byrjaði hann árið 1831, eptir tilmælum bókmenntafjelagsins, fyrst eingöngu á þess kostnað, en síðan styrkti stjórnin. Verkið var mikið og vandasamt, en launin lítil, og óhætt að fullyrða, að engin nema Björn hefði ekizt það á hendur fyrir svo lítið.

Hafnarfjörður

Hafnarfjörður – herforingjaráðsuppdráttur 1903.

Haun ferðaðist á sumrin, tók fyrir stærri eða minni kafla landsins, mældi þá í krók og kring og gjörði uppdrætti yfir, þegar hann var kominn heim og hafði tómstundir til, og hjelt því starfi fram þangað til sumarið 1843, að hann hafði yfirfarið landið, eins og hann segir í brjefi til bókmenntafjelagsdeildarinnar í Kaupmannahöfn, dagsettu f Sviðholti 10. febr. 1844: «Nú er eg þá loksins búinn að yfir fara allt landið, eins og kostur er á, þó sumstaðar sje ekki svo vel skoðað sem skyldi,; en það mundi kosta óþolandi tímalengd og peninga útlát fyrir fjelagið, að láta skoða hvert einstakt fjall, þar sem þau standa mjög þjett saman, álíkt og hús í stórum og þjettbyggðum borgum».
Landsuppdrættir þessir voru síðan steinprentaðir eins og kunnugt er, og hafa þeir flutt frægðarorð Bjarnar út um allan hinn menntaða heim. Í summar sem leið fjekk bókmenntafjelagið heiðurspening frá París fyrir þenna landsuppdrátt.”

Nágrenni Reykjavíkur og Hafnarfjarðar

Hafnarfjörður

Herforingjaráðskort; Hafnarfjörður og Álftannes 1903.

Á síðasta áratug 19. aldar varð dönskum yfirvöldum ljóst að þau kort sem til voru af Íslandi stæðust ekki þær kröfur sem gera þyrfti í samfélagi þess tíma. Bestu kort af Íslandi sem buðust voru í stórum dráttum byggð á strandmælingum danska sjóhersins sem fram fóru á árunum 1801-1818 annars vegar og hins vegar á kortum Björns Gunnlaugssonar sem byggð voru á fyrrnefndum strandmælingum og eigin mælingum Björns á árunum 1831-1843.
Á fjárlögum 1899 voru veittar 5000 krónur og skyldi hefja nýjar þríhyrninga- og strandmælingar á Reykjanesi.

Bessastaðir

Herfirngjaráðsuppdráttur 1908; Bessastaðir og Lambhús.

Árið 1900 var gefin út í Danmörku tilskipun um að sendur skyldi leiðangur til Íslands til að mæla hér grunnlínu og hnattstöðu. Síðan var ætlunin að mæla þríhyrninganet út frá nýju grunnlínunni. Hingað voru sendir danskir liðsforingjar og sumarið 1900 var unnin ýmis undirbúningsvinna. Árið 1902 höfðu fjárveitingar verið auknar svo að rétt þótti að hefjast handa. Byrjað var á Hornafirði og mælt vestur ströndina og um lágsveitir Suðurlands en uppsveitum og hálendi frestað.

Ás

Herforingjaráðsuppdráttur; Ás ofan Hafnarfjarðar.

Verkinu var svo haldið áfram tvö næstu árin en féll niður 1905 vegna fjárskorts og annarra anna hjá Landmælingadeild danska herforingjaráðsins (Generalstabens topografiske Afdeling) er tókst verkið á hendur. Eftir eins árs bið var þráðurinn tekinn upp að nýju enda bættist nú við fjárstyrkur úr ríkissjóði Dana. Á árunum 1906-1914 var unnið öll sumur, nema 1909, þegar ekkert var aðhafst. Var þá lokið byggðamælingum sunnanlands og mælt um Vesturland, norður og austur um Húnaflóa. Árangurinn var 117 kortblöð af þriðjungi landsins, suður- og vesturhluta, í mælikvarða 1:50.000 (auk nokkurra sérkorta af afmörkuðum svæðum). Þau eru gjarnan nefnd herforingjaráðskortin í höfuðið á þeim sem stóðu fyrir gerð þeirra.

Heimildir:
-https://is.wikipedia.org/wiki/Bj%C3%B6rn_Gunnlaugsson
-https://islandskort.is/map/126#?c=0&m=0&s=0&cv=0&r=0&xywh=32%2C710%2C15103%2C8277
-https://islandskort.is/map/599#?c=0&m=0&s=0&cv=1&r=0&xywh=780%2C3052%2C7177%2C3933
-https://islandskort.is/map/1135#?c=0&m=0&s=0&cv=0&r=0&xywh=1012%2C4663%2C3138%2C1327
-Íslandskort.is – sótt 27.04.2023.
-https://timarit.is/files/9289295
-Ísafold, föstudaginn 24. mars 1976, Björn Gunnlaugsson, bls. 1-2.

Herforingjaráðskort

Reykjanesskagi – samsett herforingjaráðskort.

Selatangar

“Tómas hét maður, er eitt sinn kom að Krýsuvík og baðst þar gistingar en honum var úthýst.

Arnarfell

Bærinn Arnarfell undir Arnarfelli í Krýsuvík.

Fór Tómas þá þaðan, en varð úti á Selatanga. Tómas gekk aftur og var draugurinn jafnan nefndur Tanga-Tómas. Margir urðu fyrir aðsókn hans en einkum Beinteinn úr Hraunum suður, enda var hann oft við selaskot á tanganum.
Stundum skaut Beinteinn silfurhnöppum á drauginn en það hreif ekkert. Aftur fældist hann í svipinn, þá er skotið var á hann lambaspörðum. Oft fylgdi draugurinn Beinteini heim og varð honum helzt til friðar að láta konu sína sofa fyrir framan sig, því að þá komst draugurinn ekki að honum. Einhverju sinni var draugurinn kominn inn í bæinn á undan Beinteini. Hann krossaði fyrir dyrnar, eins og þá var siður til, til þess að varna draugnum að komast inn, en þetta varð til þess í þetta skipti að draugurinn komst ekki út. Hann var með gustmesta móti um nóttina og var stundum bjart í baðstofunni af eldglæringum.”

ÓLAFUR DAVÍÐSSON I 315

Selatangar

Selatangar – sjóbúð.

Varnarsvæði

Í Þjóðviljanum 1982 eru “Fróðleiksmolar um varnarsvæðin“:

Varnarsvæði

Varnarsvæði Keflavíkurflugvallar – fylgir Tilkynningu frá ríkisstjórninni 21. maí 1942.

“Í umræðu manna undanfarnar vikur hafa “varnarsvæðin” svokölluðu verið ofarlega á baugi, og menn hafa spurt sig hversu víðáttumikil þessi svæði væru og hvaða reglur gildu um þau.

Við fórum því á stúfana og kynntum okkur málin og hér kemur árangurinn.

„Varnarsvæði”, sem einnig eru nefnd „samningssvæði” eru nú á 4 stöðum á landinu. Þetta eru svæði, sem á sínum tíma voru tekin eignarnámi af ríkinu og síðan afhent Varnarmáladeild utanríkisráðuneytisins til ráðstöfunar. Auk umræddra samningssvæða, sem varnarmáladeild hefur látið bandariska hernum í té, hefur hún að sögn Hannesar Guðmundssonar, ráðstöfunarrétt yfir umtalsverðu landi á Suðurnesjum, sem hún getur að sögn Hannesar ráðstafað til bandaríska hersins eða íslenskra aðila.

Varnarsvæði

Varnarsvæði ofan Grindavíkur – fylgir “Auglýsingu um landfræðileg mörk öryggis- og varnarsvæða” nr. 964 27. ágúst 2021.

Að flatarmáli skiptast „samningssvæðin” sem hér segir: Miðnesheiði (í landi Miðneshrepps, Gerðahrepps, Keflavíkurkaupstaðar og Njarðvíkurhrepps) 8.854,0 ha. Grindavík: 420 ha. Hvalfjörður: 47,0 ha. Straumnes (á leigu úr landi Horns): 113,7 ha. Allt þetta land var á sínum tíma tekið eignarnámi nema Straumneslandið, sem var tekið leigunámi úr landi jarðarinnar Horn. NATO er auk þess eigandi að bryggjunni i Hvalfirði og Loran-stöðinni á Sandi á Snæfellsnesi, en sú stöð er rekin af pósti og síma. Samtals eru því „samningssvæðin” um það bil 9.450,0 hektarar, sem mun vera álíka mikið land og allt land Reykjavíkurborgar.

Auk þessa telur Varnarmáladeild utanríkisráðuneytisins sig hafa ráðstöfunarrétt yfir landsvæðum þeim, sem á kortinu eru merkt með ljósari rasta. Það er land, sem ríkið hefur keypt eða tekið eignarnámi.

Varnarsvæði

Varnarsvæði – Kort Zópaníasar Pálssonar skipulagsstjóra ríkisins af flugvallarsvæðinu við Keflavík frá 1971.

Spilda, sem merkt er nr. 1 á kortinu er úr landi Leiru, 277 ha. að stærð stærð og var keypt 1958. Spilda nr. 2 er úr landi Hafna, 1526 ha. og var keypt 1955. Spilda nr. 3 er jörðin Húsatóftir, sem ríkið keypti árið 1956, ca 2.500 ha. Á Húsatóftum hefur Varnarmáladeild leigt íslenskum aðilum aðstöðu til fiskiræktar. Spilda nr. 4 er úr landi Grindavíkur og Njarðvíkur. Þaðan hefur Varnarmáladeild leigt malarnám til hersins og annarra aðila. Spilda nr. 5 gengur undir nafninu „Broadstreet”, þar var eitt sitt útvarpsloftnet og skotæfingarsvæði. Spilda nr. 6 er úr landi Hóps við Grindavík og spilda nr. 7 er lóð, sem eitt sinn var undir einhvers konar fjarskiptastöð, en er ekki lengur „samningssvæði”. Svæði nr. 8 er jarðstöðin i Rockville og svæði nr. 9 er útvarps- og hlustunarstöðin við Hvalsnes í landi Sandgerðis, nr. 10 er meginsvæði vallarins og nr. 11 er 416 ha. svæði við Grindavík þar sem herinn hefur hlustunar- og fjarskiptabúnað.

Keflavíkurflugvöllur

Herstöðin á Miðnesheiði.

Lögsaga á „samningssvæðum” fer eftir lögum nr. 33 frá 1954, þar sem segir að ráðherra, sá, sem fari með varnarmál skuli skipa lögreglustjóra á Keflavikurflugvelli er hafi á hendi dómarastörf, lögreglustjórn, innheimtu á sköttum og tollum til ríkissjóðs, og skal umdæmi hans miðast við samningssvæði þau á Reykjanesi, sem varnarsamningurinn frá 1951 tekur til og eru i eigu ríkisins.

Nú munu hátt í 1000 Íslendingar vinna fyrir herinn. Flestir þeirra búa i Keflavík eða Njarðvikum. Þó eru innan vallarsvæðisins a.m.k. þrjár íbúðarblokkir þar sem Íslendingar búa. Þeir greiða sveitastjórnargjöld til Njarðvikurhrepps. Mörkin á milli „samningssvæðanna” og sveitarfélaganna í kring jafngilda þannig ekki mörkum á milli sveitarfélaga enda þótt lögsaga sé önnur innan þeirra en utan.

Varnarsvæði

Varnarsvæðið á Miðnesheiði – herforingjaráðskort.

Hannes Guðmundsson hjá varnarmáladeild tjáði okkur að enda þótt völlurinn væri ekki sjálfstætt sveitarfélag, þá hefði hann samstarf við nágrannasveitarfélögin, um ýmis málefni, og væri það þá Captain Smith, sem er „commander” á vellinum, sem kæmi fram fyrir hönd hersins. Sem dæmi um slíka samvinnu má nefna sorpeyðingarstöðina á Suðurnesjum. Auk þeirra Íslendinga sem starfa eða búa á vellinum munu vera þar um 3.800 Bandaríkjamenn.

Varnarsvæði

Varnarsvæðið (dökki liturinn) ofan Grindavíkur. Líkt og sjá má takmarkar svæðið mjög möguleika á vöxt bæjarins.

Eins og sjá má á kortinu þrengja „varnarsvæðin” allmikið að byggð, sérstaklega í Keflavík, Njarðvíkum og Grindavík. Þannig var orðið svo þrengt að Keflavík, að bærinn fékk úthlutað land við Helguvík og á Hólmsbergi til framtíðarbyggðar, en það land hafði áður tilheyrt Gerðahreppi og verið „samningssvæði”.

Í skýrslu um eignir bandaríska sjóhersins á Íslandi frá 1979 kemur fram að herinn metur land það sem hann hefur til afnota á Íslandi til 172.900 dollara og greiðir 21.000 dollara í leigu af landi. Í sömu skýrslu kemur fram, að herinn metur eignir sínar á vellinum til 232.660.381 dollara á þessum tíma.

Varnarsvæði

Varnarsvæðið á Miðnesheiði – einstök hverfi (campar).

Herinn á Keflavíkurflugvelli kaupir nú heitt vatn frá Hitaveitu Suðurnesja. Fer um rúmur helmingur af heitavatnsframleiðslunni þar inn á völlinn eða um 50 megawött. Rafmagn fær herinn einnig frá Rafmagnsveitum ríkisins.

Skolpfrárennsli vallarins rennur í einni leiðslu til sjávar í Njarðvíkum. Sorpeyðingarstöð Suðurnesja er rekin af sveitarfélögunum í sameiningu, og brennur hún jafnframt sorpi frá vellinum gegn endurgreiðslu. Þannig tengjast „samningssvæðin” nágrannasveitarfélögunum með ýmsum hætti, og er augljóst að skipulagsmál á svæðinu snerta marga hagsmunaaðila.

Árið 1971 gaf skipulagsstjóri ríkisins út skýrslu um Aðalskipulag Keflavíkur, Njarðvíkur og Keflavíkurflugvallar fyrir 1967-’87. Samkvæmt skipulagstillögu þessari er gert ráð fyrir að framtíðarbyggð í Keflavík þokist til Helguvíkur og Hólmsbjargs. Í sama skipulagi er framtíðarhöfn fyrir svæði ætlaður staður í Njarðvíkum og er það að tillögu Hafnarmálastofnunarinnar.

Varnarsvæði

Varnarsvæði.

Í greinargerð með skipulaginu er einnig fjallað um hættu á mengun vatnsbóla af völdum olíu og segir að nauðsynlegt sé að „tekið verði tillit til hættu varðandi geymslu á olíu á skipulagssvæðinu. Enn fremur er æskilegt að til séu fleiri en eitt vatnsból, sem gripa mætti til ef óhapp verður á einu brunnsvæði”.

Í greinargerð þessari er einnig getið um að „hinar sérstæðu jökulrispuðu klappir við bjargbrún Hólmsbergs” skuli friðaðar sem náttúruvætti.

Lýkur hér samantekt sundurlausra fróðleiksmola um
„varnarsvæðin” á Suðurnesjum.” -ólg.

VarnarsvæðiÍ Reglugerð nr. 293/2002 um umferð og dvöl manna á varnarsvæðum koma fram skilgreiningar á hugtökum innan varnarsvæðisins, sbr.:
“Í reglugerð þessari hafa eftirfarandi orð og hugtök merkingu sem hér segir:

Varnarsamningurinn: Varnarsamningur milli lýðveldisins Íslands og Bandaríkja Ameríku á grundvelli Norður-Atlantshafssamningsins frá 5. maí 1951 og viðbætir við hann um réttarstöðu liðs Bandaríkjanna og eignir þeirra frá 8. maí 1951 sem veitt var lagagildi með lögum nr. 110/1951.

Herstöð

Sendistöðin ofan Grindavíkur.

Varnarsvæði: Landsvæði það sem íslensk stjórnvöld hafa lagt til varna landsins og lýst hefur verið samningssvæði samkvæmt ákvæðum varnarsamningsins og utanríkisráðherra fer með yfirstjórn á, sbr. ákvæði laga nr. 106/1954 um yfirstjórn mála á varnarsvæðunum o.fl. og ákvæði 10. tölul. 14. gr. auglýsingar um staðfestingu forseta Íslands á reglugerð um Stjórnarráð Íslands, nr. 96/1969.

Varnarstöð: Varnarstöð Atlantshafsbandalagsins á Keflavíkurflugvelli, þ.e. svæði Flotastöðvar Bandaríkjanna innan öryggisgirðingar Atlantshafsbandalagsins auk þess hluta flugstöðvar sem er utan girðingar, samanber fylgiskjal með reglugerð þessari.

Herstöð

Herstöðin ofan Hrauns um 1960. Aflögð herstöð.

Varnarliðið: Liðsmenn í varnarstöð Atlantshafsbandalagsins á Keflavíkurflugvelli úr herliði Bandaríkjanna og starfslið sem herliðinu fylgir og er í þjónustu þess, enda hafi menn þessir hvorki ríkisfang né fasta búsetu á Íslandi, heldur dveljist þar vegna framkvæmdar varnarsamningsins, og skyldulið þeirra. Til varnarliðsins teljast einnig liðsmenn herafla annarra aðildarríkja Norður-Atlantshafssamningsins sem uppfylla sömu skilyrði.”

Broadstreet

Broadstreet 2023. Aflögð herstöð.

Í “Auglýsingu um landfræðileg mörk öryggis- og varnarsvæða” nr. 964 27. ágúst 2021 segir m.a. um um landfræðileg mörk öryggis- og varnarsvæða:
Samkvæmt 2. mgr. 12. gr. varnarmálalaga nr. 34/2008 ber ráðherra að auglýsa landfræðileg mörk öryggis- og varnarsvæða.
Samkvæmt 1. mgr. 1. gr. laga nr. 176/2006 ber ráðherra að auglýsa ytri mörk og skiptingu öryggis- og varnarsvæðisins á Keflavíkurflugvelli í flugvallarsvæði og öryggissvæði.
Öryggissvæði eru á Keflavíkurflugvelli, Miðnesheiði, Bolafjalli, Gunnólfsvíkurfjalli, Stokknesi og í Helguvík. Varnarsvæði er í Grindavík. “

Heimildir:
-Þjóðviljinn, helgin 27.-28. mars 1982, Fróðleiksmolar um “varnarsvæðin”, bls. 12.
-Reglugerð 293/2002 um umferð og dvöl manna á varnarsvæðum.
-Nr. 964 27. ágúst 2021, Auglýsing um landfræðileg mörk öryggis- og varnarsvæða.

Patterson

Sprengjuefnageymslur á Pattersonflugvelli.

Broadstreet

Ofan við Vogastapa í Njarðvíkurheiði eru yfirgefin hús, fyrrum loftskeytastöð Bandaríkjahers á eftirstríðsárunum. Í “Húsakönnun Patterson 2019” eftir Helga Biering, þjóðfræðing, er m.a. fjallað um Broadstreet:

Broadstreet

Broadstreet – Það sem eftir stendur af steinsteyptu byggingunni við Broadstreet 2023. Þessi byggin var byggð 1948 og notuð frá 1949 til 1955.

“Við gamla Grindavíkurveginn, rétt norðan við Seltjörn, reisti flugfjarskiptadeild Bandaríkjahers (Army Airways Communications System) þyrpingu nokkurra húsa sem nefndur var Camp Broadstreet. Í Broadstreet var loftkseytastöð sem sá um langdræg fjarskipti við flugvélar í millilandaflugi og einnig við flugstjórnarmiðstöðvar. Campurinn opnaði í mars 1942.

Broadstreet

Broadstreet 2023.

Stöðin var stundum kölluð útvarpsstöðin vegna tilgangs hennar í fjarskiptum, en aftur á móti kom hún ekkert nálægt útsendingum talaðs máls og tónlistar. Broadsteet var eins og aðrar slíkar stöðvar með eigin vatnsveitu og stórar rafstöðvar. Kampurinn var samsettur af 36 íbúðum og skálum, auk þess voru sex lítil steinhlaðin hús sem hýstu loftskeytasendana við stærstu loftnetin.

Broadstreet

Broadstreet og nágrenni.

Stöðin sendi sjálfkrafa út skeyti sem bárust þangað um símakapla frá ýmsum fjarskiptamiðstöðvum á flugvallarsvæðinu. Að auki flutti stöðin á Broadstreet ýmis veður- og flugtengd boð á milli stöðva beggja vegna Atlatnshafsins.

Broadstreet

Broadstreet 1958 – loftmynd.

Hús þetta var reist 1948 af bandarísku verktakafyrirtæki sem rak stöðina eftir stríð. Þar var hýst loftskeytasendistöð loftflutningadeildar Bandaríkjahers á árunum 1949 – 1955.”

Broadstreet

Broadstreet – loftmynd 2022.

Í útdrætti úr kaflanum “Fjarskipti varnarliðsins” í óbirtu handriti um sögu bandaríska varnarliðsins á Íslandi 1951–2006 eftir Friðþór Eydal segir eftirfarandi um Broadstreet og tengsl þess við önnur fjarskipti Bandaríkjahers:

Bandaríski flugherinn byggði á upphafsárum varnarliðsins fjarskipti sín á margskiptu kerfi Bandaríkjahers sem komið hafði verið upp á stríðsárunum og náði vítt um heiminn. Fjarskiptastöðin Broadstreed við Vogastapa á Reykjanesi var ein slíkra stöðva og þjónaði m.a. flugupplýsingakerfi og öðrum langdrægum fjarskiptum varnarliðsins ásamt móttökustöð í Camp Garrity skammt norðan við vesturenda austur-vesturflugbrautar Keflavíkurflugvallar.

Broadstreet

Broadstreet 2023.

Uppbygging langdræga sprengjuflugflotans (SAC) og tuga nýrra bækistöðva hans víða um heim krafðist þess að komið yrði upp nýju, sjálfstæðu fjarskiptakerfi og hófst uppsetning þess árið 1951. Hlaut það heitið U.S. Air Force Global Communications System – GLOBECOM – og byggði á neti öflugra fjarskiptastöðva um heim allan með fjölrásatengingum á helstu tíðnisviðum, þ. á m. langbylgju með háum loftnetsmöstrum sem hentuðu þó illa í námunda við flugvelli. Var nýrri GLOBECOM-sendistöð því valinn staður við rætur Þorbjarnarfells ofan við Grindavík.

Broadstreet

Broadstreet 2023.

Smíði stöðvarinnar hófst árið 1953 og var hún tekin í notkun árið eftir. Stöðin samanstóð af sendistöðvarbyggingu, rafstöð og íbúðar- og skrifstofuskála ásamt stuttbylgjuloftnetum af ýmsum gerðum og tveimur, 183 m (600 feta) og 244 m (800 feta) háum, langbylgjumöstrum sem gnæfðu yfir stöðinni og sáust víða að. Jafnframt var tekin í notkun ný fjarskiptamiðstöð og símstöð á Keflavíkurflugvelli.

Keflavíkurflugvöllur

Herstöðin á Miðnesheiði.

Var sendistöðinni í Broadstreet breytt í móttökustöð fyrir GLOBECOM-kerfið árið 1955 (USAF Strategic Receiver Station). Við þetta kerfi bættist síðan langdrægt talstöðvarsamband við flugvélar.”

Heimildir:
-Húsakönnun Patterson 2019, Helgi Biering, þjóðfræðingur.
-Útdráttur úr kaflanum Fjarskipti varnarliðsins í óbirtu handriti um sögu bandaríska varnarliðsins á Íslandi 1951–2006 eftir Friðþór Eydal.

Broadstreet

Broadstreet 2023.

Herstöð

Bandaríkjaher rak á árunum 1953-1968 herstöð (sendistöð) í dalverpi milli Fiskidalsfjalls og Húsafjalla ofan Hrauns í Grindavík. Herstöðinni tilheyrðu tvö hús; sendistöðin, sem og íverustaður starfsmanna og birgðageymsla, auk mannvirkis milli fjallanna skammt ofar. Allnokkur járnmöstur (29) voru umleikis stöðina, en þau sem og byggingarnar eru nú horfnar. Einungis grunnar húsanna og steinstöplafestingar eru til vitnis um tilvist herstöðvarinnar.

Herstöð

Herstöðin ofan Hrauns um 1960. FE

Í Morgunblaðið 28. des. 1995 er grein eftir Skarphéðinn Hinrik Einarsson undir fyrirsögninni “Ekki sem ég vil, heldur sem þú vilt”. Þar lýsir hann viðskilnaði Bandaríkjahers við fyrrum aðstöðu hans á Suðurnesjum og nágrenni, þ.á.m. í herstöðinni ofan Hrauns: “Umhverfismál hafa aldrei verið ofarlega á blaði hér á landi þegar Bandaríkjamenn hafa átt hlut að máli.
Það þarf að athuga mál í herstöðinni í Grindavík. Bandaríkjaher rak herstöð skammt frá Grindavík, austan Grindavíkur, í landi Hrauns. Þar hefur ekki verið hreinsað, og liggja þar ýmsir hlutir sem minna á þá stöð. Það eina sem hefur verið fjarlægt em möstur. Annað liggur þar.

Herstöð

Svæði herstöðvarinnar 2022. Leifar húsanna sjást efst á myndinni.

Landeigendurnir hafa verið friðaðir með peningum. Samningur hefur verið gerður við þá fram yfir aldamót, til ársins 2002 hef ég heyrt, og þeir fá fulla leigu fyrir það land, þó svo að starfrækslu mastranna hafí verið hætt 1968. Herinn og íslenska ríkisstjómin einfaldlega vilja ekki hreinsa það svæði af ótta við að þar gæti komi fram kröfur um háar bætur sökum hugsanlegrar mengunar, því að hvar sem Bandaríkjaher hefur verið í heiminum virðist hann hafa skilið eftir sig mengun.”…

Friðþór Eydal

Friðþór Eydal.

Eftirfarandi útdráttur er úr kaflanum “Fjarskipti varnarliðsins” í óbirtu handriti um sögu bandaríska varnarliðsins á Íslandi 1951–2006 eftir Friðþór Eydal:

Bandaríski flugherinn byggði á upphafsárum varnarliðsins fjarskipti sín á margskiptu kerfi Bandaríkjahers sem komið hafði verið upp á stríðsárunum og náði vítt um heiminn.
Fjarskiptastöðin Broadstreed við Vogastapa á Reykjanesi var ein slíkra stöðva og þjónaði m.a. flugupplýsingakerfi og öðrum langdrægum fjarskiptum varnarliðsins ásamt móttökustöð
í Camp Garrity skammt norðan við vesturenda austur-vesturflugbrautar Keflavíkurflugvallar.

Herstöð

Leifar húsanna 2023.

Uppbygging langdræga sprengjuflugflotans (SAC) og tuga nýrra bækistöðva hans víða um heim krafðist þess að komið yrði upp nýju, sjálfstæðu fjarskiptakerfi og hófst uppsetning þess árið 1951. Hlaut það heitið U.S. Air Force Global Communications System – GLOBECOM – og byggði á neti öflugra fjarskiptastöðva um heim allan með fjölrásatengingum á helstu tíðnisviðum, þ. á m. langbylgju með háum loftnetsmöstrum sem hentuðu þó illa í námunda við flugvelli.

Grindavík

Grindavík – loftskeytastöðin.

Var nýrri GLOBECOM-sendistöð því valinn staður við rætur Þorbjarnarfells ofan við Grindavík. Smíði stöðvarinnar hófst árið 1953 og var hún tekin í notkun árið eftir. Stöðin samanstóð af sendistöðvarbyggingu, rafstöð og íbúðar- og skrifstofuskála ásamt stuttbylgjuloftnetum af ýmsum gerðum og tveimur, 183 m (600 feta) og 244 m (800 feta) háum, langbylgjumöstrum sem gnæfðu yfir stöðinni og sáust víða að. Jafnframt var tekin í notkun ný fjarskiptamiðstöð og símstöð á Keflavíkurflugvelli. Var sendistöðinni í Broadstreet breytt í móttökustöð fyrir GLOBECOM-kerfið árið 1955 (USAF Strategic Receiver Station). Við þetta kerfi bættist síðan langdrægt talstöðvarsamband við flugvélar.

Herstöð

Herstöðin ofan Hrauns – loftmynd 1957.

Bandaríkjamenn unnu um þessar mundir að þróun loftskeytakerfa sem byggðu á svonefndri háloftabylgjuspeglun (e. inonospheric forward scatter) og veðrahvolfsbylgjuspeglun (e.
tropospheric scatter) sem annars vegar nýttu stefnuvirkt endurvarp af frjálsum rafeindum í 70–90 km hæð í jónahvolfinu, og hins vegar hita- eða rakaskilum í 2–5 km hæð í
veðrahvolfinu. Þótti ljóst að beiting háloftabylgjuspeglunar á VHF-tíðni hentaði vel til stuðnings við önnur tíðnisvið á norðurslóðum, t.d. milli herstöðva á Grænlandi, Íslandi og Bretlandseyjum, þar sem truflanir á stuttbylgjusendingum voru algengar.

Fjarskiptatæki

Fjarskiptatæki hersins.

Tæknin byggði á sendingu mjórra geisla sem tvístruðust við árekstur við frjálsar rafeindir í jónahvolfinu og spegluðust m.a. í litlum mæli til jarðar í sömu stefnu og hittu fyrir móttökuloftnet. Var slíkri sendistöð valinn staður við rætur Húsafells og Fiskidalsfjalls við Hraunsvík austan Grindavíkur undir heitinu Grindavik Extension, og móttökustöð skammt sunnan flugbrautanna á Keflavíkurflugvelli sem hlaut nafnið Picnic.
Tækjabúnaður samanstóð af 30 kW sendi og rafstöð ásamt tveimur stórum hornlaga netspeglum (e. corner reflector) sem héngu á níu stálmöstrum í þremur misháum röðum.

Herstöð

Leifar stöðvarinnar ofan Hrauns.

Skammt frá stóðu lítil vélarhús og íbúðarhús stöðvarinnar og hátt mastur með örbylgjuloftneti til samskipta við fjarskiptamiðstöðina á Keflavíkurflugvelli. Mun það hafa verið fyrsta örbylgjusambandið sem komið var á hérlendis. Tæknimenn bjuggu í stöðinni og önnuðust viðhald og stillingu tækjabúnaðarins en samskonar búnaður var í móttökustöðinni á Keflavíkurflugvelli.
Í árslok 1955 var háloftabylgjuspeglunarsambandi einnig komið á við flugbækistöðina BW-8 í Syðra-Straumfirði á Grænlandi og frá stöðinni austan við Grindavík til Bretlands.

Herstöð

Jarðstrengur við herstöðina.

Langbylgju- og stuttbylgjusendarnir í Globecom-fjarskiptastöðinni í Grindavík voru þá nærri fullbúnir til notkunar en langbylgjustöðin sendi út með 50 þúsund watta styrk.
Fjarskiptakerfi flughersins var tekið til endurskoðunar á árunum 1956–1957. Tæknibreytingar með tilkomu stefnuvirkrar háloftabylgjuspeglunar gerðu það að verkum að minni þörf var á langbylgjusendingum, t.d. fyrir skeytasendingar loftvarnakerfisins. Var móttökustöðin Broadstreet á Vogastapa lögð niður og móttökustöðinni í Camp Garrity á Keflavíkurflugvelli breytt með litlum tilkostnaði til þess að geta einnig þjónað hlutverki hennar. Sendistöð fyrir fjarskipti við flugvélar og milli landa var áfram í stöðvunum við Grindavík og Hraunsvík og móttökustöðvunum Garrity og Picnic á flugvallarsvæðinu.

Stafnes

Ratsjárskermar utan við Stafnes. Tóftir bæjarins á Básendum t.h.

Þegar ráðist var í uppsetningu öflugs trópó-kerfis um Grænland til Íslands, sem fjármagnað var af Bandaríkjunum, og þaðan um Færeyjar til Bretlandseyja. Stóð NATO straum af kostnaði við þann hluta leiðarinnar og nefndi North Atlantic Radio System (NARS). Risu tvær fjarskiptastöðvar með gríðarstórum íhvolfum loftnetsskermum ásamt stöðvarhúsum skammt neðan við Gálgaklett nærri Básendum á Reykjanesi og í ratsjárstöðinni á Stokksnesi. Skermarnir risu veturinn 1961–1962 og var stöðin á Reykjanesi tekin í notkun í júní 1962.

Herstöð

Undistöður eldsneytistanks við herstöðina.

Rekstur fjarskiptakerfis varnarliðsins var á hendi 1971th Airways and Air Communications Service Squadron (1971 AACS) bandaríska flughersins til ársins 1961. Árið 1961 tók Bandaríkjafloti við rekstrinum undir heitinu U.S. Naval Communication Station, Iceland (NAVCOMMSTA Iceland). Verkefni liðsveita varnarliðsins voru þá nokkuð breytt og aukin áhersla á stuðning við vaxandi starfsemi flotans í stað sprengjuflugvéla flughersins. Þjónustan sem flotinn tók við fól í sér rekstur almennra og sértækra fjarskiptaviðskipta og viðhald tækja á fjölbreyttu sviði vegna flugumferðar.

Broadstreet

Broadstreet 2023.

Háloftabylgjukerfinu var lokað fljótlega eftir að trópó-kerfinu var komið á og starfsemi Grindavik Extension lögð niður. Voru loftnetin tekin niður árið 1966 og landinu skilað tveimur árum síðar.”
Sjá meira um herstöðvar við Grindavík HÉR.

Heimildir:
-Morgunblaðið 28. des. 1995, bls. 43, “Ekki sem ég vil, heldur sem þú vilt”, Skarphéðinn Hinrik Einarsson.
-Útdráttur er úr kaflanum “Fjarskipti varnarliðsins” í óbirtu handriti um sögu bandaríska varnarliðsins á Íslandi 1951–2006 eftir Friðþór Eydal.

Herstöð

Leifar herstöðvarinnar ofan Hrauns 2023.

NRTF-varnarstöðin

Naval Radio Transmitter Facility Grindavik” er sendistöð bandaríska sjóhersins í Grindavík, sem N62 deildin er sögð halda utan um. Hún er virk á stuttbylgju og langbylgju undir kallmerkinu TFK á 37,5 kHz.

Grindavík

Grindavík – loftskeytastöðin.

NRTF Grindavík átti upphaflega við um tvo turna fyrir langbylgjuþjónustuna – vesturturninn sem var 243,8 metrar á hæð og austurturninn 182,9 metrar á hæð. Þeir voru þá hæstu manngerðu turnhlutar á Íslandi. Árið 1983 var austurturninum skipt út fyrir nýjan turn af sömu hæð. Í stað vesturturnsins kom nýtt 304,8 metra (1.000 fet) mastur, sem þá varð hæsta mannvirkið á Íslandi.

Áður en framangreindar endurbætur voru gerðar, um 1976, var stöðinni falið að reka 600 feta (180 m) loftnet sitt á mjög lágri tíðni, nokkurri lægri tíðni sem það hafði nokkru sinni áður verið starfrækt á. Það voru nokkrar áhyggjur af því að keyra styttra loftnet á svo lágri tíðni, en 800 feta (240 m) loftnetinu var þegar falið verkefni með hærri forgang. Þegar 600 feta (180 m) loftnetið og sendistöð þess voru stillt á æskilega tíðni og aflgjafa sendisins var aukið í tilskilið stig, bognaði stærsti spólinn í sendistöðinni og eyðilagðist.

Herstöð

Sendistöðin ofan Grindavíkur.

Takmarkaður fjöldi varaspóla var fáanlegur í veitukerfinu og var einni þeirra komið fyrir að nýju. Vandamálið var að lág tíðni og samsvarandi hátt viðbragð sem þarf til að enduróma loftnetið leiddi til óeðlilega hárrar spennu við úttak sendistöðvarinnar sem olli því að síðasti og stærsti póllinn bognaði innvortis og eyðilagðist. Lausnin á vandamálinu var að hanna og setja upp annan lokaspólu í sendistöðinni með innleiðni og línulegri lögun sem þurftitil að veita nauðsynlega viðbragð án myndunar ljósboga. HQ hófu nauðsynlegar aðgerðir til að útvega slíka spólu. Capt. Ralph L Spaulding, útskrifaður frá Naval Post Graduate School í fjarskiptaverkfræði, hannaði bráðabirgðaspólu með viðeigandi eiginleikum og áhöfnin í Grindavík smíðaði hana. Fullbúna spólan var um 6 fet á lengd og 2 fet í þvermál, með þurrum valhnetuviði sem notað var til að búa um spóluna. Fullbúinni spólu var komið fyrir á viðarstól í spóluhúsinu, tengda við upprunalegu spólukeðjuna og úttakstengi sendistöðvarinnar. Þetta fyrirkomulag virkaði vel.

Grindavík

Grindavík – loftskeytastöðin 1958.

NRTF Grindavík var 1999 sigurvegari Defence Information Systems Agency (DISA) Outstanding Transmission Facility Award (Category II), og var í öðru sæti í sama flokki árið 1997. Nýja hærra loftnetið og sendistöðin voru hannað af Donald W. Anderson, PE sem stjórnaði auk þess hönnunar- og byggingaráætlunum á meðan hann starfaði hjá Naval Facilities Engineering Command (NAVFAC), Atlantic. Lokahönnun stöðvarinnar fól í sér marga nýja og endurbætta hluti sem kröfðust samþættingar rafrænnar- og byggingarhönnunar, þar á meðal sendistöð með koparhlífðarhönnun og nýrri uppsetningaraðferð. Allur árangur í hönnuninni bætti til muna fyrri hönnun og hafði að hluta til áhrif á áðurnefnd verðlaun.

Grindavík

Grindavík – loftmynd 1954.

N62 deildinni er skipt í þrjár undirdeildir: N62A, Loftnetsviðhald; N62B, langbylgjubúnaður og ISABPS viðhald; og N62C, stuttbylgjubúnað og viðhald á aukabúnaði.

Í nóvember 2019 var formlega skipaður framkvæmdastjóri til að stýra stöðinni, sem fékk nafngiftina U.S. Naval Computer and Telecommunications Area Masters Station Atlantic Detachment Grindavík, Iceland (NCTAMS LANT DET GRINDAVIK IC).

Grindavík

Grindavík – loftmynd 1922.

Loftskeytastöðin sunnan Lágafells ofan Grindavíkur var sett á stofn skömmu eftir að Bandaríkjaher kom hingað til lands árið 1941. Aðstaðan hefur síðan gefið af sér arð til Félags Jángerðarstaðabænda, en svæðið verið undir stjórn bandaríska flotans. Óljóst er um fasteignaskattgreiðslur til Grindavíkurbæjar þau ár, sem stöðin hefur starfað.
Eflaust hafa verið skiptar skoðanir um staðsetningu stöðvarinnar á sínum tíma. Nú, u.þ.b. 80 árum síðar, er líklegt að deilur um tilvist hennar verði fyrirferðameiri en áður hefur verið því stöðin er á mikilvægu framtíðaríbúðauppbyggingarsvæði bæjarins. Um tíma stóðu grindvísk verkalðsfélög vörslu um stöðina er hún varð að tímabundnu bitbeini.

Grindavík

Grindavík – herforningjakortið 1903.

Eftir að Varnarmálastofnun Íslands tók til starfa árið 2008 varð eitt af meginhlutverkum hennar að sinna eftirliti með lofthelgi og flugumsjónarsvæði Íslands. Það gerir Varnarmálastofnun með rekstri ratsjárstöðvanna fjögurra í kringum landið sem Bandaríkin ráku áður, en íslenskir sérfræðingar hafa nú tekið við. Samhliða því hefur íslenska lofteftirlitskerfið nú verið tengt inn í ratsjárkerfi Evrópuhluta NATO. Þannig hefur Ísland færst nær meginlandi Evrópu í öryggismálum og er stefnt að því að Evrópukerfi NATO muni einnig tengjast loftvarnarkerfi Bandaríkjanna og Kanada.

Helghóll

Helghóll við Skipsstíg innan varnarsvæðisins.

Kögun hf. gerði samning um rekstur fjarskiptastöðvar Bandaríska flotans í Grindavík árið 2006. Fjarskiptastöð bandarískra flotans í Grindavík hefur verið rekin af flotanum frá því á sjöunda áratug síðustu aldar og verið mönnuð bandarískum hermönnum að langmestum hluta. Það varð hinsvegar ljóst fyrr í sumar að þessi stöð yrði rekin áfram hér á landi og var því reksturinn boðinn út. Fjarskiptastöðin í Grindavík er hluti af víðfeðmu neti samskonar stöðva sem saman mynda fjarskiptanet flotans og annast m.a. lágtíðnisamskipti við skip og kafbáta á hafi úti – allt suður til Azoreyja.

Skipsstígur

Skipsstígur ofan Grindavíkur liggur um athafnasvæði sendistöðvarinnar.

Kögun hf. hefur annast rekstur og viðhald íslenska loftvarnarkerfisins allt frá árinu 1997 þegar kerfið var formlega tekið í notkun. Fyrir þann tíma höfðu starfsmenn Kögunar unnið í Bandaríkjunum og á Íslandi við þróun og smíði kerfisins allt frá árinu 1989.
Loftskeytasvæðið er afgirt með hárri girðingu og vel fylgst með að óviðkomandi villist ekki inn fyrir hana. Viðvörunarmerki eru á girðingunni þessa efnis. Svæðið er ekki girt af að ástæðulausu því hættulegt er fyrir ókunnuga að fara um það vegna rafmagnsstrauma nálægt fjarskiptamöstrunum.

NRFT-varnarstöðin

NRTF-varnarstöðin ofan Grindavíkur – möstrin tvö.

Strangar umgengisreglur gilda þarna innvortis. FERLIRsfélagi fékk þó aðgang að svæðinu með það að markmiði að hnitsetja Skipsstíginn, sem liggur þvert um svæðið, auk þess að reyna að staðsetja Kirkjuhólinn, þjóðsagnakenndan álfhól innan þess. Sækja þurfti um leyfi með góðum fyrirvara, fá heimild og mæta hjá framangreindum jakkaklæddum hæstráðanda.

Sá varð reyndar bæði áhugasamur um verkefnið sem og félagsskapinn. Sýndi hann FERLIRsfélaganum upphaflegu “blueprint-inn” af stöðinni, sem þar eru varðveitt, auk þess þeim hinum sama var leyft að fara frjálsum um svæðið með ákveðnum fyrirvörum umleikis áhættusvæðin nálægt möstrunum.
Landssvæðið, sem loftskeytastöðin er á, var fyrrum nefnt “Eldvörp” og það ekki af ástæðulausu. Fjölmörg eldvörp voru þarna ofan Járngerðarstaða, en þau voru nánast öll jöfnuð við jörðu með tilkomu athafnarýmis loftskeytastöðvarinnar. Svo virðist um sem um gervigíga hafa verið að ræða.

Hafa ber í huga að fyrrihlutinn að þessum texta er “transleitaður” af engelsku yfir á íslensku. Þar gæti einhverju “skipað að sköpluðu”.
Sjá meira um loftskeytastöðvar við Grindavík HÉR.

Heimildir:
-https://en.wikipedia.org/wiki/Naval_Radio_Transmitter_Facility_Grindavik
-Wikimedia Commons has media related to Grindavík transmission towers. References Donald W. Anderson, PE
-https://www.secnav.navy.mil/doni/Directives/05000%20General%20Management%20Security%20and%20Safety%20Services/05-400%20Organization%20and%20Functional%20Support%20Services/5400.2305.pdf[bare URL PDF]
-http://www.globalsecurity.org/military/facility/grindavik.htm
-https://ferlir.is/skipsstigur-um-loftskeytastodina-ofan-grindavikur/

Skipsstígur

Skipsstígur innan svæðis loftskeytastöðvarinnar.