Nessel

Fyrst var skoðuð Breiðagerðisborg á hól norðan þjóðvegarins skammt austan Breiðagerðis. Þá var gengið upp með Búrfelli vestan Hlíðarenda og Ólafsskarðsvegi (eins og hann er í dag) fylgt áleiðis að Geitafelli. Gamli Ólafskarðsvegurinn (ómerktur) lá upp frá Litlalandi og kom að norðausturhorni Geitafells þar sem hann liggur áfram upp heiðina.

Nessel

Nessel – uppdráttur ÓSÁ.

Þegar farin hafði verið ca. 2/3 af leiðinni (u.þ.b. ½ klst) birtist Hlíðarendaselið á milli hóla þar sem leiðin ber efst í brúnina. Um er að ræða tvær tóttir sitt hvoru megin og síðan er hlaðinn stekkur norðan þeirra. Á bak við selið að au er skúti, sem líklega hefur verið notaður sem geymslustaður.

Litlalandssel

Litlalandssel – uppdráttur ÓSÁ.

Haldið var til austurs yfir heiðina og síðan hallað aðeins til suðurs. Eftir u.þ.b. 25 mín gang var komið að Liltalandsseli. Það er utan í hól þar sem heiðina tekur að halla verulega til suðurs. Tóttin er norðvestan í hólnum og við hlið hennar er stekkur. Hóllinn sjálfur er holur innan og er hægt að ganga í gegnum hann. Hann hefur líkast til verið hluti af selbúskapnum. Selið sker sig nokkuð úr umhverfinu því meira gróið er í kringum hólinn er annars staðar á svæðinu. Það sést þó betur þegar komið er neðan frá Litlalandi. Ætlunin var að leita einnig að Breiðagerðisseli, sem er þarna undir klettavegg nokkru austar, en ákveðið var að láta það bíða og reyna fremur að nálgast það frá Hlíðardalsskóla við tækifæri.
Komið var við í Nesseli og stöðvað við Impólaréttina. Réttin, sem greinilega er mjög gömul er í Imphólum neðan Hellisþúfu. Þjóðvegurinn liggur nú í gegnum hólana og eru meginummerkin eftir réttina sunnan vegar.
Frábært veður.

Hlíðarendasel

Hlíðarendasel – uppdráttur ÓSÁ.

Dalssel

Á Vísindavefnum er spurt: „Hvað er vitað um örnefnin Fagridalur og Fagradalsfjall á Reykjanesskaga?“
Birna Lárusdóttir, fornleifafræðingur og sérfræðingur hjá Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum, svaraði eftirfarandi:

Fagradalsfjall

Fagradalsfjall – herforingjakort frá 1910. Fagridalur efst t.v.

„Fagradalsörnefni hafa verið mikið í umræðunni undanfarið í kjölfar eldgoss í Geldingadölum, en lítið hefur þó farið fyrir sjálfum Fagradal sem er norðan undir Fagradalsfjalli. Honum hefur verið lýst sem uppblásnu landi eða aurmelum, en svæðið hefur í seinni tíð einfaldlega verið kallað Aurar af heimamönnum ef marka má örnefnalýsingar, þótt Fagradalsnafnið lifi góðu lífi á ýmsum kortum.

Fagradalsfjall

Fagridalur – Nauthólar og Dalssel.

Örnefnið Fagridalur á sér langa sögu. Þess er getið í gömlu skjali sem var skrifað upp eftir afgömlum og rotnum blöðum úr bréfabók Gísla Jónssonar sem líklegast er frá því um 1500 — en nafnið gæti hæglega verið eldra. Í skjalinu er fjallað um landamerki milli Voga og Grindavíkur og talið að Vogar eigi land neðan frá að Kálfsfelli og upp að Vatnskötlum fyrir innan Fagradal. Markalínan milli hreppanna tveggja hefur annars löngum verið umdeild og Fagridalur komið þar við sögu. Í upphafi 18. aldar var til að mynda uppi ágreiningur um selstöðu í dalnum og vildu hvorir tveggja, Stóru-Vogamenn og Járngerðarstaðamenn, eigna sér hana fyrir búpening sinn. Það gæti bent til að þar hafi enn verið einhverjar gróðurtorfur og þótt vænlegt til sumarbeitar, en mörg örnefni með forliðnum Fagri-/Fagra- vísa einmitt til grænku og góðra nytja — ekki síst ef samanburðurinn er kolsvört hraun eða örfoka svæði. Tóftir selsins sem rifist var um, Dalssels, eru enn sýnilegar. Í heimildum frá árinu 1840 er dalurinn sagður stórgrýttur af skriðum og graslítill, þó er tekið fram að hann hafi fyrrum verið fagur.

Dalssel

Dalssel – uppdráttur ÓSÁ.

Þótt Fagridalur sé ekki í alfaraleið, og formlega séð hafi nafnið verið fallið úr notkun staðkunnugra um miðja 20. öld, hefur hann sett ótvírætt mark á önnur örnefni í kring. Fagradalsfjall er kennt við dalinn og sömuleiðis hefur nafni hans verið skeytt framan við nöfn tveggja fella sem eru kölluð Fagradals-Vatnsfell og Fagradals-Hagafell — til aðgreiningar frá öðrum samnefndum fellum sem eru austar og kennd við Hraunssel. Þetta eitt og sér bendir til að Fagridalur hafi verið vel þekktur og miðlægur í vitund þeirra sem þekktu til landslags á svæðinu, kannski ekki síst vegna landamerkjadeilna, selstöðunnar og götu sem tengdi byggðir á norðan- og sunnanverðum Reykjanesskaga og lá um dalinn.
Nýlega hefur enn eitt örnefni bæst í afsprengjahóp Fagradals, Fagradalshraun, sem dregur þó nafn sitt ekki beint af dalnum (enda rennur það ekki um hann) heldur fremur af Fagradalsfjalli og eldstöðvarkerfinu, Fagradalsfjallskerfinu.“

Fagridalur

Í Fagridal.

Þess má geta í Örnefnalýsingu Lofts Jónssonar fyrir Hraun er þess getið að selið í Fagradal [Dalssel] sé í landi Þórkötlustaða, en ekki Járngerðarstaða, sbr:
„Austast á Nauthólaflötum er hóll sem heitir Nauthóll. Vestan flatanna er uppblásið land, nú aurmelar, kallað Aurar en hét áður fyrr Fagridalur og er svo nefnt á korti. Nyrsti hluti Fagradalsfjalls heitir Fagradalsvatnsfell og er í landi Þórkötlustaða. Þar norður af er Fagradalshagafell, lítt áberandi að norðanverðu. Vatnskatlar uppi á Fagradalshagafelli eru landamerki á milli Hrauns og Þórkötlustaða. Eitthvað af nefndum örnefnum vestan Fagradalsfjalls að innanverðu gætu verið í landi Þórkötlustaða.“
Við þetta má bæta að Aurar og Fagridalur eru sitthvað. Fagridalur var gróinn og er það enn að hluta, líkt og nafnið bendir til, en Aurarnir eru norðvestan dalsins, suðaustan við Kálffell (sem er þó annað er sýnt er á kortinu. Það Kálffell er efst í Vogaheiðinni og hýsir m.a. Oddshelli og fjárskjólin honum tengdum). Aurar eru afurð lækjar er rann niður um norðanverðan Fagradal og myndaði þá neðan dalsins. Dalsselið frá Þórkötlustöðum var á bakka lækjarins, sem nú hefur þornað upp.

Sjá meira um Fagradal og „Fagradalshraun“ HÉR.

Heimildir:
Diplomatarium Islandicum/Íslenzkt fornbréfasafn, 7. bindi, Reykjavík 1902-1907.
„Fagradalshraun og Fagrahraun urðu fyrir valinu.“
Gullbringu- og Kjósarsýsla. Sýslu- og sóknalýsingar Hins íslenska bókmenntafélags 1839-1855. Guðlaugur R. Guðmundsson og Svavar Sigmundsson sáu um útgáfuna. Sögufélag 2007.
Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalíns, 3. bindi. Kaupmannahöfn 1923-24.
Sesselja G. Guðmundsdóttir. Örnefni og gönguleiðir í Vatnsleysustrandarhreppi (ofan Gamla Keflavíkurvegarins). 2. útg. aukin og endurskoðuð. Lionsklúbburinn Keilir 2007.
Örnefnalýsing Hrauns í Grindavíkurhreppi e. Ara Gíslason. Örnefnasafn Stofnunar Árna Magnússonar í íslenskum fræðum.
Örnefnalýsing Hrauns í Grindavíkurhreppi e. Loft Jónsson. Örnefnasafn Stofnunar Árna Magnússonar í íslenskum fræðum.
-https://www.visindavefur.is/svar.php?id=81912

Fagradalsfjall

Fagradalsfjall – Fagridalur efst til vinstri.

Kapelluhraun

Jónatan Garðason skrifaði grein í Morgunblaðið 1995 undir fyrirsögninni „Lýst er eftir hrauni – Finnandi vinsamlegast skili því til Hafnarfjarðar“:

Auðvinnanlegasta efnið er skafið ofan af, segir Jónatan Garðarsson, og landið skilið eftir í sárum.

Jónatan garðarson„Umhverfismál eru í brennidepli, landeyðing hér á landi er með því mesta sem þekkist í heiminum og stöðvun gróðureyðingar er afar brýnt verkefni. Þjóðin er að vakna til vitundar um ástandið, það sýnir áhugi almennings á hverskyns ræktun og uppgræðslu.
Mörg fyrirtæki hafa lagt lóð á vogarskálarnar, sala áburðarpökum gerir sitt gagn og ekki má gleyma fjölda félagasamtaka sem vinna þrotlaust starf á þessu sviði. í okkar harðbýla landi þarf lítið að fara úrskeiðis til að röskun verði á lögmálum náttúrunnar. Um aldir gekk þjóðin ótæpilega á gæði landsins eins og óþrjótandi nægtarbrunn. Það var því mikið gæfuspor þegar Skógrækt ríkisins var stofnuð samkvæmt lögum árið 1907. Hlutverk hennar er m.a. að vernda, friða og rækta skóga og skógarleifar, græða upp skóga þar sem henta þykir og leiðbeina um meðferð skóga og kjarrs svo nokkuð sé nefnt. Starfsemi skógræktarfólks hefur leitt til mikilla framfara í ræktunar- og uppgræðslumálum þjóðarinnar og víða hefur útliti landsins verið breytt úr auðn í græna reiti. Það skýtur því skökku við að í landi Skógræktar ríkisins í Kapelluhrauni á sér nú stað gríðarleg landeyðing. Fyrir nokkrum áratugum fékk skógræktin um 2.000 ha lands úr Kapelluhrauni að gjöf til ræktunar. Svæðið telst hluti af Almenningi og utan skipulags. Þar hefur ræktunarstarf skapað myndarlega lundi á fallegum reit sem á eftir að gleðja komandi kynslóðir. Í hluta gamallar hraunnámu á sömu slóðum var rallykross-braut komið fyrir uppúr 1990, með leyfi skógræktarinnar og bæjaryfirvalda í Hafnarfirði.
Náman átti að vera aflögð, en 6. febrúar 1992 gerði Skógrækt ríkisins samning við Borgartak og seldi fyrirtækinu 1.000.000 m3 (eina milljón rúmmetra) af hraunfyllingu í Kapelluhrauni. Vinnslusvæðið er í miðju hrauninu, sem er mosagróið apalhraun með stökum birkihríslum, burknum, lyngi og öðrum hraungróðri á stangli í skjólgóðum gjótum. Hraunið rann á sögulegum tíma, árið 1151, úr eldstöð í Undirhlíðum, yfir eldra hraun og er því stundum nefnt Nýjahraun. Þarna má lesa jarð- og gróðursögu á mjög glöggan og skýran máta.

Kapelluhraun

Kapelluhraun – námusvæðið.

Samningurinn við Borgartak færði skógræktinni 12.000.000,- krónur í nettó tekjur eða kr. 12 án vsk. á rúmmetra. Borgartak selur síðan hvern m3 af unnu efni á 104 krónur án vsk. í ársbyrjun 1995 komu fram upplýsingar um að búið væri að vinna 1/4 efnisins eða 250.000 m3, en í maílok, aðeins 5 mánuðum síðar, kemur í ljós að Borgartak hefur nú þegar unnið helming umsamins efnis, 500.000 rúmmetra. Verktakinn hefur líkast til fjórfaldað kaupverðið og hagnast um tugi milljóna, enda gerði hann einkar hagstæðan samning við skógræktina. Ef eingöngu hefði verið unnið frekara efni úr gömlu námunni, hún t.d. dýpkuð og jarðefni unnin nokkra metra niður í hraunæðina hefði mátt réttlæta vinnsluna. En verktakinn er fyrst og fremst að yfirborðsvinna mosagróið hraun upp á eina milljón fermetra. Það er unnið hörðum höndum við að ryðja burt gróðurþekjunni á sem skjótastan hátt. Efsta laginu af grónu landi er rutt burt, en samkvæmt stefnumörkun bæjaryfirvalda í Hafnarfirði er alfarið lagst gegn slíkri yfirborðsvinnslu á óröskuðu hrauni. Þessu mikla jarðraski virðist ætlað að tryggja frekari námavinnslu þarna í framtíðinni. Aðeins er farið einn til tvo metra niður þar sem dýpst er unnið ofan í hraunæðina, auðvinnanlegasta efnið skafið ofan af og landið skilið eftir í sárum.

Kapelluhraun

Kapelluhraun – námusvæðið sunnan Hafnarfjarðar.

Það kom íbúum Hafnarfjarðar í opna skjöldu að verið væri að aka tugþúsundum tonna úr. Kapelluhrauni á sama tíma og Umhverfisnefnd og bæjarverkfræðingur voru að móta stefnu um efnistökumál í bæjarlandinu. Samningurinn virðist hafa verið gerður án vitundar bæjaryfirvalda og komst málið nýverið í hámæli. Náttúruverndarráði Íslands var heldur ekki tilkynnt um þessar fyrirætlanir skógræktarinnar. Nú hefur ráðið blandað sér í málið og reynir að leita samninga, en tíminn vinnur með verktakanum. Á meðan heldur gegndarlaus efnistaka áfram af fullum krafti. Flest bendir til að reynt hafi verið að láta samningsgerðina fara hljótt.
Almennt var álitið að landspjöll vegna yfirborðsvinnslu hrauns heyrðu sögunni til. Í greinargerð sem Þóroddur F. Þóroddson jarðfræðingur vann fyrir bæjaryfirvöld 27. október 1986 um „Hagnýt jarðefni í landi Hafnarfjarðar“ mælir hann eindregið gegn slíkri vinnslu í Kapelluhrauni og víðar: „Efnistaka úr apalhrauni er yfirleitt til mikilla lýta í landinu,“ segir í greinargerðinni. Þá segir Þóroddur einnig: „Efnistaka eins og tíðkast hefur t.d. meðfram Krýsuvíkurvegi og Bláfjallavegi er óverjandi frá sjónarmiði umhverfisverndar. Mikið efni má fá af svæðum sem „búið“ er að vinna með því að hirða upp hrúgöld og ganga betur frá námusvæðum.“ Hraunvinnslu í bæjarlandinu var að mestu hætt þegar skýrslan kom fram, en um langt árabil hafði Landgræðslusjóður leyft umfangsmikla vinnslu í landi sínu sunnan Straumsvíkur og haft um 50 milljónir á núvirði í tekjur af efnissölunni. Hraunvinnsla á vegum Hafnarfjarðarbæjar var einnig að mestu aflögð á þessum tíma, en sú vinnsla var þó margfalt minni í sniðum en í landi Landgræðslusjóðs. Á þessum tíma var einhugur að skapast um að opna ekki nýjar námur til vinnslu, heldur nýta betur „gamlar námur“ að undangenginni skipulegri úttekt á efnisgæðum námanna.

Kaspelluhraun

Kapelluhraun – gróðurvin í hrauninu.

Það hefur verið merkilegt að fylgjast með viðbrögðum Jóns Loftssonar skógræktarstjóra við málinu. í frétt sem birtist í DV 22. apríl sl. vegna mótmæla skotveiðimanna á malarnáminu í Kapelluhrauni er haft eftir Jóni: „Ég átta mig ekki á því hvað mennirnir eru að fara. Þarna var náma sem ekki var nógu vel gengið frá. Þá er gert ráð fyrir samkvæmt skipulagi að þarna rísi iðnaðarbyggð. Þess vegna var gengið til þessara samninga og gerðar strangar kröfur um frágang. Þegar þetta verður búið verða tilbúnar þarna lóðir og þá geta Hafnfirðingar tekið til við að byggja þarna einhverjar ljótar verksmiðjur.“ Skógræktarstjóri heldur í það haldreipi að svæðið sé skipulagt fyrir iðnað og því þarft að ryðja það. Þetta er alrangt. Hið sanna í málinu er að árið 1990 var lögð fram tillaga að aðalskipulagi Hafnarfjarðar 1988-2008. Þar var m.a. sýnt iðnaðarsvæði sem gæti komið til álita eftir 40-50 ár. Tillögunni var hafnað hjá skipulagsstjórn ríkisins og fór aldrei í kynningu og auglýsingu í samræmi við skipulagslög. Hún hefur því ekkert lagalegt gildi. Samkvæmt gildandi aðalskipulagi Hafnarfjarðar 1980-2000 er gert ráð fyrir framtíðariðnaðarbyggð einum kílómetra suður af núverandi iðnaðarsvæði eða um tvo kílómetra frá umræddu hrauntökusvæði. Það er því ljóst að ætlunin var alls ekki að hreyfa neitt við hrauninu í landi skógræktarinnar.
Í ársbyrjun 1992 sótti Skógrækt ríkisins til bæjaryfirvalda um leyfi til að skipuleggja iðnaðarbyggð á þessu svæði, en málið var ekki samþykkt. Þrátt fyrir það fór stórfelld jarðvinnsla í gang. Stærð vinnslusvæðisins sem skógræktin seldi er milljón rúmmetrar og jafnast það á við 150-200 fótboltavelli á stærð við Laugardalsvöllinn. Ef mið er tekið af íbúðarbyggð má reisa 15 einbýlishús á ha, en svæðið er 100 ha og gætu 1.500 einbýlishús rúmast á því. Samkvæmt núgildandi staðli búa 3,5 íbúar í hverju einbýlishúsi sem þýðir 5.200 íbúa byggð og mun það teljast eitt og hálft skólahverfi. Námaréttindi á þessu svæði seldi skógræktin fyrir 12 milljónir króna, sem er u.þ.b. verðgildi eins einbýlishúss.

Kapelluhraun

Kapelluhraun.

Skógræktin og Landgræðslusjóður hafa unnið mikið gagn við erfiðar aðstæður þrátt fyrir rýra sjóði. Það réttlætir samt ekki allar gerðir þeirra. Þeim hafa einfaldlega verið mislagðar hendur hin síðari ár í þessum efnissölumálum. Sjónarmiðin voru vissulega önnur á árum áður, þegar augu fólks voru lokuð fyrir málefninu. En svona vinnubrögð eiga ekki að tíðkast í dag.
Það er ekki óraunhæf krafa, að stjórnendur Skógræktar ríkisins og Landgræðslusjóðs ígrundi málin vel og leiti utanaðkomandi álitsgerða áður en ákvarðanir af þessu tagi eru teknar. Að sjálfsögðu verða þeim á mistök eins og öðrum, það er mannlegt. En tímarnir breytast stöðugt og kröfurnar með og þess vegna er nauðsynlegt að líta öðru hvoru yfir farinn veg og leiðrétta mistök sem kunna að hafa verið gerð. Þetta á jafnt við um menn og málefni, stofnanir og stjórnvöld.
Nú er Náttúruverndarár Evrópu og megináhersla er lögð á náttúruvernd utan friðlýstra svæða. „Tilgangur Náttúrverndarársins er að opna augu almennings, landeigenda, landnotenda, skipulagsyfirvalda og bæjar- og sveitarstjórna fyrir því að það er ekki nóg að vernda náttúruna á ákveðnum friðlýstum svæðum, svo sem þjóðgörðum, friðlöndum eða fólkvöngum. Eigi náttúruvernd að vera virk og árangursrík er jafnframt nauðsynlegt að hlúa að náttúrunni utan slíkra svæða,“ segir Sigurðar Á. Þráinssonar, starfsmaður umhverfisráðuneytis, í grein sem birtist í Morgunblaðinu 20. apríl s.l. Í ljósi þessa er óskiljanlegt að skógræktarstjóri skuli reyna að verja gerð samningsins við Borgartak. Hann yrði maður að meiri ef hann viðurkenndi einfaldlega að um mistök hafi veriðað ræða, rifti samningnum og stöðvaði efnistökuna áður en meiri spjöll verða unnin á svæðinu. Hraunið tilheyrir fornum Almenningi Álftneshrepps, sem nú er með réttu í lögsögu Hafnarfjarðar, og ég leyfi mér að efast um rétt skógræktarinnar eða annarra aðila, til að selja, gefa eða ráðstafa þessu landi með einum eða öðrum hætti.
Skógræktarstjóri hefur slæman málstað að verja og framganga hans í málinu hingað til hefur aðeins grafið undan því trausti sem fólk hefur borið til Skógræktar ríkisins um áratugaskeið. Skógræktinni ber að bæta land, ekki eyða því eins og nú er verið að gera í Kapelluhrauni.“

Heimild:
-Morgunblaðið, 146. tbl. 01.07.1995, Lýst er eftir hrauni – Finnandi vinsamlegast skili því til Hafnarfjarðar, Jónatan Garðarsson, bls. 34.

Kapelluhraun

Kapelluhraun – Helgafell fjær.

Selalda

Eftirfarandi fréttir tveggja dagblaða um væntanlegan urðunarstað sorps í Selöldu í Krýsuvík er ágætt dæmi um fávitahátt þeirra er hlut áttu að máli – og hversu stutt er á milli glapræðis og skynsemi. Selalda er eitt af djásnum Reykjanesskagans, bæði hvað jarð- og menningarminjar varðar.

Í Dagblaðiðinu Vísi árið 1987 segir eftirfarandi um fyrirhugaða sorpurðunarstað í Selöldu:

Nýir sorphaugar í Selöldu við Krýsuvík?

Selalda - sorp„Ruslið af höfuðborgarsvæðinu á Íslandi er heimsmet. Um 110.000 tonn falla til af því á ári. Eftir þrjú ár verður sorpstæðið við Gufunes yfirfullt. Líklegast er, eftir miklar athuganir, að flytja verði höfuðborgarruslið til urðunar í Selöldu, út við sjó sunnan Krísuvíkur. Það er 40 kílómetra leið í staðinn fyrir þá fjóra kílómetra sem nú þarf að aka frá Elliðaárbrúnum.

Sorpvinnsla óarðbær
Þetta er niðurstaða nefndar frá átta sveitarfélögum á þessu svæði. Hún lét kanna eina fimm möguleika á vinnslu sorpsins til orkuframleiðslu og síðan leita uppi hugsanlega urðunarsteði. Á tímabili leit ekki illa út að vinna sorpið í köggla til varmaframleiðslu í verksmiðjum, til dæmis fiskimjölsverksmiðjum. Þetta féll um sjálft sig þegar olían snarlækkaði í verði.
Aðrir orkuvinnslukostir reyndust of dýrir eða að ekki fannst markaður fyrir orkuna. Þá var urðunarleiðin eftir. Augu nefndarmanna beindust að 74 hektera, fjögurra metra djúpri mýri á Álfsnesi í Kjalarneshreppi og 120 hektara, tveggja metra djúpri mýri í Saltvík í sama hreppi. En hreppsnefndin og hreppsbúar hafa lagst gegn þessari notkun jarðanna og þar við situr að svo komnu.
Til þessara jarða eru 15-20 kílómetrar frá Elliðaárbrúnum. Enginn sérstakur stofnkostnaður er áætlaður vegna urðunar á þessum svæðum. Rekstrarkostnaður vegna sorpflutninga og -urðunar í Saltvík er metinn um 115 milljónir króna á ári eða 1145 krónur á sorptonnið.

Selalda líklegust

Selalda

Minjar við Selöldu; Krýsuvíkursel og bærinn Eyri.

Næsti kostur til urðunar, að mati nefndarinnar, er eldstöðin Selalda í landi Krýsuvíkur, nær sjónum. Þar er móberg í yfirborðinu. Þangað eru 40 kílómetrar og rekstrarkostnaður vegna sorpflutninga þangað og urðunar er áætlaður 137 milljónir króna á ári eða 1.365 krónur á tonnið. Þar að auki þarf að endurbæta Krýsuvíkurveginn eða leggja nýjan veg fyrir 75-125 milljónir króna. Veginn þarf raunar að bæte hvort sem er.
Ókannað er að hve miklu leyti þessi kostnaður félli á sveitarfélögin annars vegar og ríkið hins vegar. Landið er í eigu Hafnarfjarðar.
Um leið og urðun á sorpi af höfuðborgarsvæðinu færist fjær því telur nefndin að koma verði fyrir móttöku á jarðvegsefni, svo sem úr húsgrunnum, í hverju sveitarfélagi. Eins verði að koma á móttókuhusum í byggðinni þar sem sorpinu verði safnað dags daglega og það pressað til flutnings á sérstökum farartækjum á urðunarstaðinn. Aðalmóttökustöð myndi kosta um 50 milljónir króna en útibú frá henni 10-20 milljónir.

Sorphlutafélag
Sorpnefndin leggur loks til að aukarusl frá heimilum og minni fyrirtækjum eigi griðastaði í gámum sem nú þegar er farið að koma fyrir hingað og þangað. Hún fjallar um gjaldtöku vegna sorpeyðingarinnar og undirstrikar mikilvægi þess að hún verði í sem mestu samræmi milli sveitarfélaganna.
Upp úr þessu nefndarstarfi á nú að stofna hlutafélag, Sorpeyðingu höfuðborgarsvæðisins hf. Það er næsta skrefið í málinu. Fyrsta verkefni þess verður að velja sorpeyðingarúrræði, líklegast urðun í Selöldu með öllu tilheyrandi.“ – HERB

Í Þjóðviljanum árið 1988 segir um sama efni:

Sorpið stefnir í Selöldu

Selalda - sorp„Gufunes tekur við í tvö ár enn. Tvœr móttökustöðvar reistar. Ingi U. Magnússon; Óvíst hvað verður gert við bílhrœ og annað brotajárn í framtíðinni.
Allt bentir nú til þess að að sorp frá höfuðborgarsvæðinu verði í framtíðinni urðað í Selöldu við Krýsuvík. En sá staður er einn af þremur sem stjórn byggðarsamlagsins Sorpeyðing höfuðborgarsvæðisins hafði í huga sem framtíðar sorphauga þegar hætt yrði að taka móti sorpi í Gufunesi.
– Sorphaugarnir í Gufunesi taka ekki við nema í tvö ár í viðbót svo það er mjög þarft að fara að huga að þessum málum. Fari svo að Selalda verið valin sem framtíðar sorphaugar, eftir að Kjalnesingar höfnuðu beiðni félagsins um að fá að urða sorp í Álfsnesi, verður að koma upp móttökustöðum þar sem sorpið verður bögglað og flutt þannig í Selöldu, sagði Ingi Ú. Magnússon en hann á sæti í stjórn félagsins.
Ingi sagði að ljóst væri að hér þyrfti að koma upp aðstöðu til að pressa bílhræ og annað brotajárn, þannig að hægt verið að senda það úr landi til endurvinnslu. – Við leituðum eftir samstarfi við fyrirtækið Sindra sem fengist hefur við svona lagað áður, við vorum jafnvel tilbúnir að borga með þessum rekstri. Þeir gerðu okkur ákveðið tilboð sem við höfnuðum. Íslenska stálfélagið hefur líka verið inni í myndinni, sagði Ingi, en bætti við að engar ákvarðanir hefðu verið teknar um hvað ætti að gera við brotajárnið.
Fari svo að Selalda verði valin verða þeir sorphaugar ekki opnir almenningi eins og nú er heldur verða reistar tvær móttökustöðvar, önnur væntanlega á lóð gömlu sorpeyðingarstöðvarinnar í Ártúnshöfða. Þar verður sorpið pressað og síðan ekið með það út í Selöldu við Krýsuvík.“ -sg

Sem betur fer varð framangreind tillaga ekki að veruleika – landinu og afkomendum þess til heilla.

Heimildir:
-Dagblaðið Vísir-DV, 108. tbl. 15.05.1987, Nýir sorphaugar í Selöldu við Krýsuvík?, bls. 4.
-Þjóðviljinn, 147. tbl. 01.07.1988, Sorpið stefni í Selöldu, bls. 2.

Selalda

Selalda – berggangar.

Árbæjarsafn

Eftirfarandi ábending barst FERLIR um tiltekna steinhellu við kirkjuna í Árbæjarsafni:

Árbæjarsafn - steinhella

Árbæjarsafn – steinhella.

„Við kirkjuna í Árbæjarsafni er leturhella. Hún fannst á Túngötu 4 og var þar yfir þró. Gæti mögulega hafa verið við landnámsbæinn fyrrum. Síðan var hún flutt í Árbæjarsafn og hefur legið þar óbætt hjá garði.
Getið þið frætt mig meira um helluna þá arna, t.d. hvað stendur á henni og hvaðan hún er upprunnin?“

Fyrirspurn var send Árbæjarsafninu.  Anna Lísa Guðmundsdóttir, fornleifafræðingur svaraði bæði fljótt og vel:
„Þetta er ekki leturhella svo ég viti. Hún fannst upphaflega við Tjarngötu 4. Í Sapur.is er m.a. getið um steinhelluna“; „Steinhella við kirkjugarðsvegginn, sunnan við kirkjuna á Árbæjarsafni. Þegar grafinn var grunnur fyrir húsinu Tjarnagötu 4, Steindórsprent árið 1944, var við uppgröftinn komið niður á fornleifar, þar á meðal þessa stóru hellu. Hellan lá yfir þró eða ræsi, hellan var fjarlægð og flutt að húsi Steindórs, Suðurgötu 8 B. Síðan árið 1966 á Árbæjarsafn. Þorkell Grímsson, fornleifafræðingur, rannsakað helluna, og taldi að líkindum væri um stéttarhellu eða gólfhellu að ræða úr fornaldarhúsi því, sem leifar fundust af, þegar grafið var fyrir grunni Steindórsprents vorið 1944. Bjarni F. Einarsson telur helluna ekki vera gangahellu.“

SteinhellanÍ Tímanum 1963 er fyrirsögn yfir frétt um „Helluna, sem kom af tilviljun í leitirnar eftir 19 ár„:
„Nýlega komst upp um tilvist fornaldarhellu, sem legið hefur að húsabaki að Suðurgötu 86 í ein nítján ár. Bílstjóri nokkur, sem keyrt hafði helluna að Suðurgötunni fyrir nítján árum, minntist á hana nýlegia af tilviljun við Helga Hjörvar, og varð það til þess að farið var að rannska, hvernig á henni stæði.
Þorkell Grímsson, fornleifafræðingur, sem rannsakað hefur helluna, sagði blaðinu í dag, að hér væri að líkindum um stéttarhellu eða gólfhellu að ræða úr fornaldarhúsi því, sem leifar fundust af, þegar grafið var fyrir grunni Steindórsprents vorið 1944. Þá fengu náttúrufræðingar að fylgjast með greftrinum og kanna þær fornminjar, sem upp komu. Matthías Þórðarson, sem þá var þjóðminjavörður, skrifaði um þann fund, og taldi hann sterkar líkur á, að þetta væru leifar frá því í fornöld. Ýmsir hafa jafnvel haldið því fram, að þarna væri um bæ Ingólfs Arnarsonar að ræða Nú fyrir nokkrum dögum vildi svo til, að Ólafur Einarsson, bílstjóri, sagði Helga Hjörvar frá því, að hann hefði keyrt stóra hellu úr grunninum að húsi Steindórs við Suðurgötu þetta sama ár.
Við nánari eftirgrennslan kom í ljós, að hellan hafði fundizt innan um aðrar fornar byggingarleifar mjög djúpt sunnarlega í grunninum, skammt frá eldstó, sem þar var. Ólafur hafði ekið henni heim á Lóð Steindórs fyrir hann og kom ið henni fyrir á bak við hús, þar sem húh hefur legið síðan, án þess að vitað væri um hana Hellan er mjög stór, 1,77 m á lengd og talsvert breið, vel flöt, með grastó á röndinni. Sagðist Þorkell búast við, að hellan mundi hafna í Þjóðminjasafninu, og hún yrði rannsökuð nánar. en ekki bjóst hann við, að rannsóknin mundi leiða frekara í ljós en þegar hefur komið fram.“

Í Morgunblaðiðinu  11. febr. 1964 er grein með fyrirsögninni „Hlóðahella eða gangnahella“ eftir Helgi Hjörvar:

Er fundin dyrahellan úr fyrsta vetrarskála Ingólfs í Reykjavík?

Tjarnargata 4„Helgi Hjörvar flutti erindi í útvarpið s.l. sunnudag um það sem hann kallar „Hlóðahella Hallveigar“, í erindinu faerði hann eftirtektarverð rök að þvi, að þessi stóra hella, sem menn héldu að væri týnd, en kom í leitirnar s.l. sumar, mundi vera gangahella, innan þröskulds, úr ævafornum skála, sem allt bendi til að hafi verið fyrsti vetrarskáli Ingólfs Arnarsonar í Reykjavík.
Það er kunnugt aí fyrri skrifum Helga um þetta mál, að afstaða hellunnar og dýpt hennar í jörðu er áður kunn, því að rétt við helluna fundust fornar hlóðir eða „seyðir“, en mælingamaður ákvarðaði legu hlóðanna; botn þeirra 2,30 metra undir Tjarnargötu á þéttri og hreinni sjávarmöl. Stóra hellan mun hafa verið svo sem þverhönd hærra.
Helgi Hjörvar hefur kannað vandlega þær heimildir, sem um þetta er að hafa, þar með einkum merkilegan vitnisburð verkstjórans við kjallaragröftinn fyrir Steindórsprenti, Jóns Jónssonar á Meistaravöllum.
Helgi hafði skrifað um það í Morgunblaðinu 1961 með mikilli hneykslan, að slíkum fornmenjum sem hellan er og einkum hlóðin hefði verið tortímt í óðagoti. Nú bar svo til í júní s.l. vor, að Ólafur Einarsson, gamalkunnur Reykvíkingur og bílstjóri, veik sér að Helga á Hverfisgötunni og sagði við hann, að það hefði dregizt fyrir sér að tala við hann um „helluna hans Ingólfs“. „Hún var ekki brotin“, sagði hann, „og það var ég sem ók henni burt er grunnurinn var grafinn fyrir Steindór. Ég ók henni fyrir Steindór upp úr grunninum og upp á lóðina bak við húsið hans í Suðurgötu 8A. Ég held að hún sé þar enn.“
Og svo reyndist.
„Stóra hellan var þar og er þar enn, óbrotin,“ sagði Helgi er blaðið ræddi við hann í gær.
„Það hefur verið mikið tekið eftir erindi minu í gær, það leynir sér ekki. En ég var búinn að skrifa um þetta og segja meira en að hálfu leyti frá þessu í útvarpi, en það er eins og enginn hafi lesið þetta eða heyrt það, allra sízt viljað skilja það fyrr en nú. Vera má, að einhverjir vakni nú, sem vildu mega sofa.
Kjarni þessa máls er nú svo einfaldur sem verða má. Alþingi er enn háð í túni Þorsteins Ingólfssonar, sem stofnaði þetta þing og grundvallaði þjóðfélag á Íslandi fyrir meira en 1030 árum; þinghúsið sjálft stendur rúma húslengd frá bæjartóftum Ingólfs og Þorsteins. En nú hefur verið sagt harla berum orðum á Alþingi sjálfu, að tveir þingmenn (fleiri gáfu sig ekki fram) muni mælast til þess við elskulega þingbræður sína, að þeir vildu nú hagræða þessu fornfálega Alþingi upp á kviktré og lyfta hræi þess út í forarmýri, burt af þessu gróna og gamla túni. Efni málsins er það eitt, hversu margir af útvöldum fulltrúum íslenzkrar þjóðar vilji nú lostugir lána eiðsvarnar hendur sínar undir svo skörnuga og blóðuga börukjálka.“

Í Þjóðviljanum 2. júlí 1966 er grein um „Hlóðastein og hestastein úr Lækjargötu„:

Hlóðarsteinninn úr Tjarnargötu í Árbæ

Tjarnargata 4„Árbæjarsafnið hefur nú verið opnað almenningi og veitingar hafnar í Dillonshúsi og er þetta tíunda sumarið sem safnið er opið. Safnið var opnað 21. júní og nú um helgina verður fyrsta glímusýningin en ætlunin er að sýna um helgar glímu og þjóðdansa á palli utanhúss þegar veður leyfir, eins og verið hefur undanfarin sumur.
Unnið hefur yerið að byggingu smíðahúss og, geymsluskála fyrir safnið og er þess vænzt að þá skapist viðunandi vinnuskilyrði fyrir endursmíði þeirra gamalla húsa, sem nú bíða þess að verða reist á safnsvæðinu, en fluttir uppeftir, fyrst og fremst gamla apótekið, þar sem áætlað er að hafa rúmgóðan sýningarsal.
Komið hefur til tals að byggja fornaldarskála á safnsvæðinu, sem áreiðanlega myndi hafa mikið aðdráttarafl fyrir ferðamenn. Má enda segja að hafðir hafi verið nokkrir aðdrættir í þessu efni þar sem hagnýta má í þessu skyni. Safnið eignaðist fyrir nokkru, og nú fyrir skemmstu er hlóðarsteinninn mikli, sem fannst 1944 í bæjarstæðinu við Tjarnargötu, kominn til safnsins.“

Í Vikunni 1944, segir um „Fundnar fornleifar í Reykjavík“ í frásögn Matthíasar Þórðasonar:

Fundnar fornleifar í Reykjavík – Matthías Þórðason

Árbæjarsafn

Árbæjarsafn.

„Það varð sögulegra en flesta Reykvíkinga mun hafa grunað, þegar Steindór Gunnarsson prentsmiðjueigandi lét fara að grafa í grunninn undir og hjá gamla husinu Tjarnargötu nr. 4 í Reykjavík fyrir nýju stórhýsi, sem hann ætlar að fara að reisa þar fyrir prentsmiju sína. Staðurinn var að sönnu merkisstaður, og húsið, sem nú var rifið, var orðið um 110 ára gamalt. Þar hafði Stefán Gunnlögsson búið 1834—37, þegar hann var sýslumaður, þar dó Einar snikkari Helgason fyrir réttum 100 árum, og hafði þá átt húsið og búið í því í 3 ár; þar ólzt Helgi, sonur hans, upp, sem varð hér síðar barnaskólastjóri og þjóðkunnur maður, og bjó móðir hans, madama Margrét, í húsinu til dauðadags, 1856. Þá var það kallað Helgesenshús. Er þetta eftir frásögn Jóns byskups Helgasonar í riti hans um Reykjavík 14 vetra. Enn síðar bjuggu í þessu húsi ýmsir aðrir merkir menn og konur, skamman tíma hver. Þótti húsið lengi snotur bústaður, enda var þá vel um það gengið jafnan. Hér eru nú ekki við höndina húsvitjanabækur prestanna, nema frá tímabilinu 1868—89, um 20 ár. Á árunum 1869—76 bjó þar frú Anna Tærgesen, ekkja P. R. Tærgesens kaupmanns, með börnum þeirra, og 1877—78 frk. Christiane Thomsen, er lengi hafði verið hjá þeim. Árin 1879—80 bjó þar Edv. Siemsen, fyrrv. kaupmaður, og næsta ár ekkja hans, frú Sigríður Siemsen, cn 1882 tengdasonur hennar, Sveinn kaupmaður Guðmundsson frá Búðum, með fjölskyldu sinni. Árið 1884 bió frú Ragnheiður Christjánsson, – ekkja Kristjáns amtmanns, í þessu húsi, og 1886 séra Stcfán Thorarensen, en 1887 —88 frú Kristíana Jónassen, ekkja Jónasar E. Jónassens verzlunarstióra. Og árið 1889 bjó þar ekkjan Solveig Guðlaugsdóttir, og voru hjá henni móðir hennar, háöldruð, og fósturdóttir, Stefanía Guðmundsdóttir, þá 13 ára.
En staðurinn átti sér langa sögu áður en þetta litla timburhús var reist, því að á þessum sama stað hafði þegar skömmu eftir miðja 18. öld verið reist eitt af húsum iðnaðarstofnananna, sem Skúli landfógeti Magnússon gekkst fyrir, að komið yrði á fót hér, og jörðin Reykjavík hafði verið gefin í ársbyrjun 1752. Það hús var reist handa beyki stofnananna, var hlaðið úr torfi, og grjóti, svo sem flest hús þeirra, dálítill torfbær, og var þar bústaður og vinnustofa beykisins. Þegar hús stofnananna voru seld, keypti dönsk kona, madama Christine Bruun, ekkja Sigvardts Bruuns fangavarðar, bæinn, árið 1791. Nokkru eftir aldamótin varð hann aftur aðsetursstaður beykis; bjó þar, þá sænskur beykir, er hét Peter Malmquist, og kona hans sem var hér ljósmóðir. Þegar Jörgen Jörgensen kom hingað í fyrra skiptið, í ársbyrjun 1809, sem túlkur James Savignacs verzlunarstjóra, fengu þeir inni hjá Malmquist, og átti Jörgen Jörgensen þar heima, unz hann fór utan aftur í marz sama ár. Kom Malmquist mikið við stjórnarbylting Jörgensens, er hann stóð fyrir, þegar hann kom hingað aftur um sumarið, svo sem kunnugt er af sögu hans. Malmquist fór utan 1812 og kom ekki aftur, en Brúnsbær mun hafa staðið um 20 ár eftir það, og þó varla án mikilla endurbóta, eða jafnvel endurbygginga að einhverju leyti.

— Við grunngröftinn nú kom fram mikið að hleðslusteinum, sem sennilega eru úr honum, grjóti ofan úr holtum og neðan úr fjöru, en ekki sýndu neinar veggjaleifar eða annað, að verið hefði á síðari tímum neitt hús nákvæmlega á þessum sama stað, sem Brúnsbær mun hafa staðið á, en í vesturhorninu í grunninum komu fram allmiklar grjóthleðslur 1—2 m. í jörðu.
Hleðslugrjótið, sem ætla má, að verið hafi úr Brúnsbæ, var að sönnu einnig um 1—l l/2 m. í jörðu nú, en það kom í ljós við gröftinn, að þykkt lag af mold, ösku o. fl. hafði hlaðizt ofan á óhreifða jörð á öllu svæðinu, ofaná lag það af fremur smágerðri sjávarmöl, er grafið var niður á og nokkuð niður í. Mun það malarleg vera um allan miðbæinn, milli hafnarinnar og Tjarnarinnar.

Árbæjarsafn

Árbæjarsafn – hestasteinn fremst.

Nokkrir fremur gamlir gripir fundust við uppgröftinn ofarlega í jörðu, sennilega frá síðustu öld, brot af eldtöng, fiskhnífur, sjálfskeiðungur og brot af 2 glerstaupum. Miklu neðar, um l-l/2—2 m. í jörðu, fundust eldri munir úr steini, vaðsteinn, draglóð af skellihurð, að því er virðist, kola, telgd til úr smágerðu móbergi eða sandsteini og lítil hein með gröfnu hnappmóti á öðrum enda, en ekki eydd af brýnslu.
Nokkru neðar fannst bollsteinn norðarlega í grunninum; hafði bollinn verið gerður fyrir ljósmeti, en að öðru leyti var steinninn alveg óunninn af mannahöndum. Annar bollasteinn fannst á nær sama stað, en allmiklu neðar í jörðu; hann er lábarin, þykk hella, um 30 cm. að þverm., með víðri og grunnri skál annars vegar, og munu báðir þessir bollasteinar hafa verið lýsisteinar, eins konar ljósáhöld (lampar).
Enn dýpra, alveg niður við malarlagið, og suðaustarlega í grunninum miðjum, fannst lítill, flatkúlumyndaður lýsisteinn með gróp kringum bollann og járnblað af páli eða grefi með fornri gerð, sams konar og 2 önnur, sem fundizt hafa áður hér á landi, annað við rannsóknina á Bólstað, bæjarrústum Arnkels goða. Ámóta neðarlega fannst vaðsteinn, hnöttóttur og nokkuð ílangur. Nálægt suðurhorninu í grunninum var allmikið af hleðslugrjóti djúpt í jörðu, og virðist þar hafa verið hlaðinn veggur, nær því niðri við malarlagið. Þar fundust, mismunandi djúpt í jörðu, nokkrir munir úr steini, 3 vaðsteinar, brýni, fornlegur lýsisteinn, sem er mjög lítill og flatkúlumyndaður, og snældusnúður úr steini, allstór, um 9 cm. að þverm., og neðst kom í ljós eldstó, grafin ofan í malarlagið. Hefir hún sennilega verið gerð af því að þar hefir þá verið hús, sem eldstæði hefir verið í, líklega seyðir með fornri gerð. Hafa samskonar eldstór og þessi fundizt í fornum bæjarrústum hér áður, bæði í Þjórsárdal og víðar. Munu þær hafa verið, gerðar og notaðar til að fela í þeim eld, einkum að næturlagi.  Bæjarverkfræðingurinn, Bolli Thoroddsen, lét mæla, hve djúpt í jörðu þessi eldstó var, og reyndist hún, botn hennar, að vera 111 cm. neðar en t. a. m. Austurstræti milli gangstétta, en það er í sömu hæð og yfirborðsjávar í höfninni um stórstraumsflóð. Bendir þetta á, að mikið landsig hafi orðið hér síðan þessi eldstó var gerð, en hún virðist munu vera frá landnámstíð eða söguöld vorri. Enda er fleira hér á Seltjarnarnesi og umhverfis það, sem einnig bendir á allmikið landsig hér um slóðir, svo sem sýnt hefir verið fram á áður.
Norðan við stóna varð vart við gólfskán og nokkrar flatar hellur, er að líkindum hafa verið gólfhellur.
1 vesturbarminum varð fyrir mjög stór hella neðst. Er hún var tekin upp, kom í ljós undir henni allmikil þró eða gryfja, sem gerð hafði verið þar ofan í malarlagið. Varð vart við skolpræsi í mölinni að þrónni, og virtist það hafa verið út frá húsinu, sem eldstóin hefir verið í.
Í norðurhorninu var malarlagið djúpt í jörðu, um 2% m. frá yfirborði, svæðinu, sem þar var milli húsa. Hafði jarðvegur hækkað þar mest af sorpi og ösku. Um 4m. ofan við malarlagið var þar á allmiklu svæði um 1/4 m. þykkt, mjög dökkleitt, fornt sorplag. Var mikið í því af matbeinum og slíku; fundust þar kjálkar af gelti með miklum vígtönnum og yfirleitt eldra svip en er á þeirri tegund svína, sem er nú hér og í nálægum löndum. Hafa slíkar vígtennur úr göltum fundizt hér áður, m. a. undir Hánni á Heimaey í Vestmannaeyjum. Nokkur bein úr geirfugli fundust einnig í þessu sorplagi, enda hefir geirfugl vafalaust verið veiddur mjög til matar fyrr á tímum, er hann var hér að líkindum víða, en hann varð, að því er menn vita bezt og alkunnugt er, aldauður fyrir 100 árum. — Sorplag þetta er svo djúpt í jörðu, niðri við óhreifða jörð, að því er virðist; að ætla má, að það stafi frá fornöld. Hinn gamli Reykjavíkurbær stóð 30—40 m. norðar, vestan við Aðalstræti. Er ekki ólíklegt, að um nokkurn tíma hafi sorpi frá bænum verið fleygt á þessar slóðir.“

Í Þjóðviljanum 1966 segir og; Hlóðasteinninn úr Tjarnargötu í Árbæ:

Árbæjarsafn - steinhella

Árbæjarsafn – steinhellan.

„Hlóðarsteinninn mikli, sem fannst 1944 í bæjarstæðinu við Tjarnargötu, kominn til safnsins.
Úr því minnzt er á hlóðarsteininn má vel vekja athygli á öðrum merkilegum steinum, sem safnið hefur eignazt: hestasteininum frá smiðju Þorsteins Tómassonar í Lækjargötu, landamerkjasteininum úr Skildinganeshólum áklappaður 1839, mylnusteinn úr myllunni í Bakarabrekku og apótekarasteinn frá 1747 úr Örfirisey.“

Ein spurningin er, þrátt fyrir allt framangreint; hefur verið hugað að mögulegu letri á hellunni þeirri arna?“
Önnur spurningin er, hvers vegna er slíkur forngripur í Árbæjarsafni látinn liggja jarðlægur, án nokkurra vísbendinga gestkomendum til handa?

Heimildir:
-https://sarpur.is/Adfang.aspx?AdfangID=1755833
-Tíminn 19.07.1963 – Tjarnargata 4, bls. 15.
-Morgunblaðið 11. febr. 1964, Hlóðahella eða gangnahella, Helgi Hjörvar, bls. 9.
-Þjóðviljinn 2. júlí 1966, Hlóðasteinn og hestasteinn úr Lækjargötu, bls. 7.
-Þjóðviljinn, 144. tbl. 02.07.1966, Hlóðasteinninn úr Tjarnargötu í Árbæ, bls. 6.
-Vikan nr. 23-24, 1944, Fundnar fornleifar í Reykjavík, Matthías Þórðason, bls. 22 og 28.

Árbæjarsafn

Á Árbæjarsafni.

Stakkavík

Í Árbók Hins íslenska fornleifafélags 1943 fjallar Ólafur Þorvaldsson um „Grindaskarðaveg – Selvogsleiðir“:

Stakkavíkurvegur

Stakkavíkurvegur út frá Grindarskarðavegi t.v.

„Leiðin til Stakkavíkur og Herdísarvíkur liggur frá fyrrnefndum vörðum, suðaustur á slétt hraun, og eru smávörður með fram veginum yfir hraunið. Þegar á mitt hraunið kemur, er úfinn bruni suðvestan vegar, og er farið yfir mjótt haft af honum við suðurtagl Hvalhnjúks. Þegar austur fyrir Hvalhnjúk kemur, taka við Vestur-Ásar.
Fyrst til hægri handar nokkrir gróðurlausir og dökkir hólar, Svörtu Ásar. Nokkru suðaustur af þeim úti við brunann er Urðarás, og er hann auðþekktur af mikilli grágrýtisurð sunnan megin. Neðarlega í Ásunum eru austan vegar grasbrekkur allstórar, og heita þær Dýjabrekkur. Þar sér enn leifar þess, að þar hefur fyrir löngu verið leitað eftir mó, en ekki mun það hafa þótt svara kostnaði. Litlu neðar eru Selbrekkur. Þar hefur, þegar það tíðkaðist almennt, verið haft í seli frá Stakkavík. Úr Selbrekkum er stutt fram á fjallsbrún. Þegar á brún kemur, hýrnar svipur útsýnisins og breytist nokkuð. Það hefur líka hýrnað yfir mörgum vegfaranda þarna, sem kemur úr svartaþoku eða vondu veðri af fjallinu, því að oft er mikill munur veðurfars uppi á fjalli og neðan fjalls. Á brúninni stingum við því við fótum og rennum augum yfir það helzta, sem við blasir. Fyrst skulum við líta niður fyrir fætur okkar, svo að við blátt áfram dettum ekki fram af fjallinu, svo er það snarbratt. Af brúninni blasir við hafið, svo langt sem augað eygir til austurs, suðurs og nokkuð til vesturs, og sjaldan er sjór svo kyrr hér, að ekki kögri hvítu við sanda og hleinar. Héðan sjáum við til Selvogs, og ber þar hæst á vitanum á Selvogstöngum, og kirkjunni á Strönd — Strandarkirkju. Neðan fjallsins er allstórt vatn, Hlíðarvatn. Við austurenda þess, uppi við fjallið, er jörðin Hlíð, bær Þóris haustmyrkurs, þess er nam Selvog.

Stakkavíkursel

Í Stakkavíkurseli eldra.

Fyrir nokkrum árum var Hlíð lögð undir Stakkavík, en nú eru báðar í eyði, sorgleg saga, sem gerist víða nú. Við vesturenda Hlíðarvatns er Stakkavík.

Þar sem hús og tún jarðarinnar var fyrir 70—80 árum, er nú allt í vatni, og sést aðeins smáhólmi, þar sem bærinn stóð.

Nú stendur bærinn í hraunjaðrinum við vatnið og má heita túnlaus. Þess vegna var Hlíðin lögð undir Stakkavíkina, því að allgott tún er í Hlíð, en sami eigandi að báðum jörðunum, sem sé Strandarkirkja.
Úr vatninu rennur ós til sjávar, Vogsósaós. Í Hlíðarvatni er allmikil silungsveiði, og eru það Hlíð og Stakkavík, sem eiga beztu lagnirnar.

Stakkavíkurstígur

Á Stakkavíkurstíg efst í Selsskarði.

Af brúninni sjáum við ekki til Herdísarvíkur, þar eð Stakkavíkurfjall byrgir útsýn þangað. Ef við ætlum okkur heim á annan hvorn víkurbæinn, förum við að feta okkur niður stíginn, sem liggur í mörgum krókum og sveigum niður fjallið og heitir Selstígur. Frá fjallinu er aðeins steinsnar heim að Stakkavík. Vestur að Herdísarvík er um þriggja stundarfjórðunga gangur frá Stakkavík.“

Heimild:
-Árbók Hins íslenska fornleifafélags 01.01.1943, Grindaskarðavegur – Selvogsleiðir, Ólafur Þorvaldsson, bls. 100-102.

Grindaskarðavegur

Stakkavík í og við Hlíðarvatn.

Apótekarasteinn

Sunnan við húsið Þingholtsstræti 9 á safnlóð Árbæjarsafns er grágrýtissteinn ættaður úr Örfirisey, kallaður Apótekarasteinn.
ApótekarasteinnSteinninn lá við sjávarmálið og var á góðri leið með að eyðileggjast þegar hann var fluttur á safnið árið 1963. Steinninn dregur nafn sitt af apótekarakeri sem er dregið utan um ártal, en vafalaust tengist hann verslunarstaðnum í Örfirisey á 18. öld. Þekkt var að danskir verslunarstjórar hjuggu nöfn í steinana á eyjunni.
Lýsing: Steinninn er 1,6 x 1,5 m að stærð og á hann er rist einföld mynd af keri, 60 x 63 cm og á því miðju er fangamarkið HCB og ártalið 1747. Letrið er orðið mjög óljóst.

Apótekarsteinn

Apótekarasteinninn í Árbæjarsafni.

Þórkötlustaðarétt

Í Sjómannadagsblaði Grindavíkur árið 2017 fjallar Ómar Smári m.a. um „Réttir í Grindavík„:

Sjómannadagsblað Grindavíkur 2017.

Sjómannadagsblað Grindavíkur 2017.

„Eftirfarandi upplýsingar um Þórkötlustaðarétt eru fengnar úr minni Sigurðar Gíslasonar frá Hrauni við Grindavík, 84 ára (f: 05. maí 1923). Siggi á Hrauni, eins og hann er jafnan nefndur, þekkir manna best austurumhverfi Grindavíkur. Hann man tímana tvenna og hefur ávallt verið reiðubúinn að miðla öðrum fróðleik um liðna tíð. Siggi fylgdi FERLIRsfélögum að réttinni í Þórkötlustaðahverfi, sem lítið hefur verið vitað um – fram að þessu. (Rétt er að geta þess að Þórkötlustaðahverfið í Grindavík er eitt hið fegursta með því nafni á gjörvöllu landinu, að mati staðfæddra).

Þórkötlustaðarétt

Þórkötlustaðarétt.

“Þórkötlustaðaréttin, sú sem nú er, var komin, óbreytt að stærð og lögun, þegar ég man fyrst eftir mér. Faðir minn sagði að hún hefði verið hlaðin af Grindavíkurbændum um aldamótin 1900. Grjótið var að einhverju leyti úr Vatnsheiðinni og Efra-Leiti, auk þess sem einstaka grjót kom upp úr túnsléttun í hverfinu og áreiðanlega hefur einhver hraunhella verið þarna umhverfis réttina. Hún var síðan endurbætt fyrir nokkrum árum. Efnið í endubótina var fengið í landi eigenda Þórkötlustaða, að þeim forspurðum. Réttin hefur þó ávallt þótt góð til síns brúks.“

Þórkötlustaðarrétt

Gamla Þórkötlustaðarréttin.

Fyrrum var fé Grindvíkinga vel á fjórða þúsund á vetrarfóðrum. Féð af fjalli fyllti safnhólfið sem og alla dilka. Urðu bændur að rýma af og til úr dilkunum svo þeir gætu dregið allt sitt fé. Þegar gerðið kom til, ofan við réttina, greiddist heldur úr þrengslunum. Fjárbóndinn Dagbjartur Einarsson hefur upplýst um heildarfjáreign Grindarvíkurbænda á vetrarfóðrum, en hún mun nú vera 524 um þessar mundir (árið 2007) og er þá allt meðtalið.

Frægt er útvarpsviðtalið við nefndan Dagbjart; „stórbóndann í Grindavík“:
Spyrjandi: „Hvað áttu margt fjár, Dagbjartur?“
Dagbjartur: „Ég á einar fimm..“.
Spyrjandi greip fram í: „Fimmhundruð. Það þykir nú allnokkuð“.
Dagbjartur sagði ekki orð. Hið rétta var að Dagbjartur átti þá einungis fimm ær þá stundina.

Bæjarfellsrétt.

Bæjarfellsrétt í Krýsuvík.

Áður var lögréttin í Krýsuvík, suðvestur undan Arnarfelli (Arnarfellsréttin). Hætt var að nota hana um 1950. Þangað til varð að reka úrdrátt frá Þórkötlustöðum upp í Krýsuvík og var afgangsféð selt þar.
Réttin suðaustan við Bæjarfellið var vorrétt. Þá voru rúningsréttir t.d. á Vigdísarvöllum og í Stóra-Hamradal, sem enn sjást leifar af.
Áður en Þórkötlustaðaréttin kom til réttuðu Þórkötlustaðabændur þar sem nú er grjótgarður vestast innan girðingar Efra-Lands, þ.e. þar í norðvesturhorninu, sem nú er. Þar var Gamla réttin. Í henni var enginn dilkur, einungis gerði. Sjá má leifar hennar ef vel er að gáð. Réttin var mun stærri en ætla mætti, en grjót var tekið úr henni og notað í garðana, sem sjá má ofan við Efra-Land.”

Arnarfellsrétt

Arnarfellsrétt í Krýsuvík.

Hafur-Björn Molda-Gnúpsson er sagður, ef marka má þjóðsöguna, hafa átt gnægð fjár, enda “efnaðist hann mjög af fé” eftir draumfarirnar með landvættinum og tilkomu geithafursins í hjörð hans (þess vegna er allt fé Grindvíkinga öðruvísi en annað fé landsmanna), og bræður hans fiskuðu aldrei sem fyrr. Auðguðust þeir bræður bæði af gæðum lands og sjávar.

Þórkötlustaðarétt

Dagbjartur Einarsson í Þórkötlustaðarrétt.

Ekki þarf að leita að fjárrétt Hafur-Björns og bræðra því annað hvort hafa þeir ekki þurft að rétta eða sú rétt gæti löngu verið komin undir hraun því ekki eru ófá hraunin við Grindavík, sem runnið hafa eftir að ætt Molda-Gnúps bjó þar eftir árið 934. Fyrstu heimildir um byggð í Þórkötlustaðahverfi er um miðja 13. öld, en þá höfðu hraunin ofan núverandi byggðar runnið og kólnað að mestu. Við norðvesturhúshornið á núverandi Þórkötlustöðum (Miðbæjar) eru tóftir fornaldarskála að mati Brynjúlfs Jónssonar frá Minna-Núpi (skrifað 1903). Hann skyldi þó aldrei vera eldri, og það jafnvel mun eldri, en yngsta gosið ofan við Grindavík rann árið 1226. Það náði þó ekki niður að Þórkötlustöðum. Minjarnar, ef vel er að gáð og ef tilgáta Brynjúlfs er rétt, gætu þess vegna verið frá upphafi landnáms í Grindavík.“ – Ómar Smári.

Viðbót;
Þórkötludys

Þórkötludys – Sigurður Gíslason á Hrauni við dysina.

„Sigurður Guðjón Gíslason fæddist á Hrauni 5. maí 1923. Hann lést á hjúkrunarheimilinu Víðihlíð 30. júní 2010.

Foreldrar voru Gísli Hafliðason útvegsbóndi, f. á Hrauni 11. maí 1891, d. 21. mars 1956 og Margrét Jónsdóttir húsfreyja, f. á Einlandi 15. nóvember 1891, d. 9. maí 1967. Bróðir Sigurðar var Þorvaldur, f. 3. febrúar 1919, d. 11. maí 1984.

Sigurður kvæntist 18. október 1960 Hrefnu Ragnarsdóttur, f. í Reykjavík 10. maí 1931, dóttur hjónanna Jóns Ragnars Jónassonar, skipasmiðs og Jóhönnu Eiríksdóttur, húsfreyju. Þau eru bæði látin.

Hraun

Hraun í Grindavík.

Sigurður og Hrefna eignuðust þrjú börn. Þau eru: Gísli Grétar, f. 13. desember 1955, sonur hans er Sigurður Guðjón, f. 21. apríl 1982. Unnusta Gísla er Margrét Hinriksdóttir. Hörður, f. 5. febrúar 1967, kvæntur Valgerði Valmundsdóttir, börn þeirra eru Hrefna, f. 14. ágúst 1990 og Hafliði, f. 28. september 2000. Margrét, f. 16. október 1968, synir hennar eru Axel Örn, f. 15. febrúar 1993 og Vignir Þór, f. 1. júní 1996. Fóstursonur var Ragnar Jóhann Alfreðsson, f. 16. nóvember 1953, d. 11. júní 1987, sonur hans er Þorvaldur, f. 17. maí 1981. Barnabarnabörn eru tvö.

Sigurður starfaði lengst af sem sjómaður, útgerðarmaður og bóndi í Grindavík.“

Hraun

Hraun – minja- og örnefnakort af Hrauni; unnið í samráði við Sigurð Gíslason…

Er minnugur orða Sigurðar stuttu fyrir andlátið; „Ómar, ef þú hefðir ekki skráð örnefnin og sögulegar minjarnar á Hrauni hefði ég tekið það nánast allt með mér í gröfina“…

FERLIRsfélagar þakka Sigurði samfylgdina – og virða minningu hans.

Heimild:
-Sjómannadagsblað Grindavíkur 2017, Réttir í Grindavík, Ómar Smári Ármannsson, bls. 67-69.
-Morgunblaðið 9. júlí 2010, minningargrein, Sigurður Guðjón Gíslason.

Þórkötlustaðarétt

Í Þórkötlustaðarétt.

Bakkárholt

Í Andvara árið 1936 er birt „Lýsing Ölveshrepps 1703“ eftir Hálfdán Jónsson undir heitinu „Descriptio Ölveshrepps anno 1703„:
„Aultvus eður Ölveshreppur hefur sitt nafn dregið af Álfi, fyrsta landnámamanni þess héraðs. Hreppur þessi liggur í Sunnlendingafjórðungi og Árnessýslu, fyrir vestan Ölvesá, nálægasta sveit að austanverðu við þann fjallgarð, er aðgreinir Árnessýslu og Kjalarnesþing. Þingstaður héraðsins er að Bakkarholti. Þangað sækja Grímsness og Selvogs innbyggjarar, þá þriggja hreppaþing haldast.“

Ölfus

Ölfus.

Í „Fornleifaskráningu vegna skipulags í Ölfusi“ frá 2009, er getið um Bakkárkot. Einnig er getið um minjar tengdar þingstaðnum, s.s Gálgaklett, Þinglaut og Hestarétt:
„Bakkárholt eða Bakkarholt eins og það var stundum ritað, var eitt af höfuðbólunum í Ölfusi. Jörðin er landstór og árið 1840 var þar sagður reisulegur bær.
BakkárholtBakkárholt var lengi þingstaður þriggja hreppa; Ölfuss-, Selvogs- og Grímsneshrepps. Segja Sunnlenskar byggðir að þing hafi þar verið haldið til ársins 1885, en samkvæmt örnefnaskrá var þingstaður þar til ársins 1881 en þá var skólahús byggt á Kröggólfsstöðum og þingstaðurinn fluttur þangað. Þing er ekki nefnt á jörðinni í Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalíns þar sem jörðinni er lýst árið 1708. Jörðin var við alfaraveg sem lá frá Kotferju ferjustað, en farið var framhjá Kirkjuferju, Bakkarholti, Gljúfraholti, Krossi og á Torfeyri við Varmá. En eins og segir í Örnefnaskrá: ,,Þingstaðurinn valinn þannig, að vel sást til mannaferða, og greinilegt, að þar hefur legið þjóðbraut um garða, traðir í túni og ,,brýr“ yfir mýrasund í nágrenni.“ Á jörðinni eru nokkrar minjar sem minna á þingið.
Um nafn jarðarinnar segir í örnefnaskrá: ,,Nafnið er mjög eðlilegt ,,náttúrunafn“. Áin fellur þar á milli gróinna bakka og hefur að líkindum heitið Bakká. Holtið, sem bærinn stendur á, er við hana kennt, en áin síðar kennd við holtið, Bakkárholtsá.
BakkárholtHestarétt: Sér enn fyrir hleðslum milli Norðurtúns og Aukatúns. Þar hafa þinggestir og þingmenn geymt geymt hestana sína eða rekið inn til að beizla þá.
Gálgaklettar: Klettur hefur klofnað frá bergi holtsins og sigið frá, svo að skora er á milli. Yfir þá skoru hefur gálgatréð verið sett, er hengja þurfti. Heimildarmenn báru Þórð á Tannastöðum fyrir. Klettarnir eru norðaustur af Hestaréttinni. [Síðasta aftakan í Bakkárholti fór fram uppúr 1700].
Þinglaut: Lægð í Hátúni, sporöskjulöguð, lengri austur-vestur. Mótar fyrir sætum. Til vesturs er smáhóll, gömul hústóft, mikil aska í jörðu, sögðu heimildarmenn. ,,Þar hafa þingmenn heitað ölið sitt, þegar kalt næddi um holtið.“ Lautin mældist ca. 12 sinnum 15 metrar.“

BakkárholtÍ „Aðalskráningu fornleifa í Ölfusi; Áfangaskýrslu II“ frá árinu 2017 segir m.a. um þingstaðinn í Bakkárholti:
Þinglaut – tóft – þingstaður; 63°57.741N 21°08.403V. Bakkárholt hefur verið eitt af höfuðbólum í Ölfusi. Í Bakkárholti var um langt skeið þingstaður, ekki aðeins fyrir Ölfushrepp, heldur voru þar haldin þriggja hreppaþing: Ölfuss (ásamt Grafningi), Selvogs og Grímsness (H.J. 1703). Þingstaðurinn valinn þannig, að vel sást til mannaferða, og greinilegt, að þar hefur legið þjóðbraut um garða, traðir í túni og „brýr“ yfir mýrasund í nágrenni. Þingstaður var í Bakkárholti til 1881, að skólahús er byggt á Kröggólfsstöðum og þingstaður fluttur þangað þá. Þinghús stóð á hlaðinu sunnan gamla bæjarins, en rifið þá. […] Þinglaut. Lægð í Hátúni, sporöskjulöguð, lengir austur – vestur. Mótar fyrir sætum. Til vesturs er smáhóll, gömul hústóft, mikil aska í jörðu, sögðu heimildarmenn. „Þar hafa þingmenn heitað ölið sitt, þegar kalt næddi um holtið.“ Lautin mældist ca. 12 sinnum 15 metrar,“ segir í örnefnalýsingu. Í Sunnlenskum byggðum III segir: „Á Bakkárholti var áður þriggja hreppa þing og þingstaður Ölfusinga til 1885.“ Þinglaut er 110 m norðan við bæ 001 og tæpum 80 m suðaustan við hestarétt, uppi á háholtinu. Þetta tún var kallað Norðurtún.
BakkárholtÍ Þinglaut er tóft sem talin er vera lögrétta að sögn Margrétar Gunnarsdóttur, heimildamanns. Raflína er 50 m vestan við tóftina.
Slétt, ræktað tún. Það er slegið sem og Þinglautin framan af. Hún hefur ekki verið slegin í einhver ár núna. Tóftin sést einna best sem óslétt svæði í túninu.
Tóftin er 19,5 x 15 m að stærð og snýr austur-vestur. Þinglautin er „inni“ í tóftinni. Tóftin er einföld og allir veggir signir og útflattir. Það er einna helst lautin sem sýnir umfagið og leguna best. Veggirnir eru 0,1 – 0,3 m á hæð, hæstir að vestan. Þeir eru algrónir enda búið að slétta hér yfir. Tóftin var slegin á dráttarvélum án teljandi vandræða. Nú er einungis austurhlutinn sleginn enda lægstur. Ekkert op sést á yfirborði inni í tóftina. Lautin er slétt að innan og veggirnir aflíðandi þar niður. Þeir eru mun hærri að innan en utan. Suðvesturhluti tóftarinnar er umfangsmeiri en hinir, mögulega eru þar ummerki um fleiri byggingarstig eða túnasléttun var meiri til norðurs. Ekki sér til palla eða annars inni í lautinni. Hún er mögulega niðurgrafin, ytri veggir sjást lítið sem ekkert.“

BakkárholtÍ örnefnalýsingu Ögmundar Jóhannsonar fyrir Bakkárholt segir m.a.:
„Bakkárholt hefur verið eitt af höfuðbólum í Ölfusi. Í Bakkárholti var um langt skeið þingstaður, ekki aðeins fyrir Ölfushrepp, heldur voru þar haldin þriggja hreppa þing: Ölfuss (ásamt Grafningi), Selvogs og Grímsness (H. J. 1703). Þar má enn sjá Þinglaut, Hestarétt og Gálgaklett. Þingstaðurinn valinn þannig, að vel sást til mannaferða, og greinilegt, að þar hefur legið þjóðbraut um garða, traðir í túni og „brýr“ yfir mýrasund í nágrenni.
Þingstaður var í Bakkárholti til 1881, að skólahús er byggt á Kröggólfsstöðum og þingstaður fluttur þangað þá. Þinghús stóð á hlaðinu sunnan gamla bæjarins, en rifið þá.“

Í framangreindri „Lýsingu Ölveshrepps frá 1703“ segir auk þess um Ölfus:
„Annar hreppsins endi er áfastur við Selvog og sundurgreinist á austanverðri Selvogsheiði og allt á sjávarbergið, þar Þrívörður heita, er að skiljast Þorlákshafnar og Ness í Selvogi lönd.
Þorlákshöfn hefur sitt nafn af Þorláki biskupi Þórhallssyni hinum helga í Skálholti, er þar meinast fyrst hafi á land gengið eftir sína biskupslega vígslu. Þar heitir og enn nú að framan verðu við bæinn Þorlákvör, Þorlákssker, og Þorlákshóll þar túnið er hæst. Í þessari veiðistöðu ganga árlega um vertíðartímann frá Kyndilmessu og í fjórián vikur þar eftir (hvar um Alþingissamþykkt hljóðar, dateruð 1700) yfir fjörutíu skip, stór og smá. Mörg þeirra heyra til biskupsstólnum í Skálholti. En Árnessýslu innbyggjarar eru eignarmenn flestallra annara þar til sjós gangandi. Utan vertíðar er í þessari veiðistöðu mjög lítill fiskiafli, en á sumum árum alls enginn. Skipastöður með frí fyrir eitt skip hafa þessar jarðir í Þorlákshöfn: Breiðibólstaður fyrir selstöðu, Hjalli fyrir hrossabeit, Arnarbæli fyrir engi.

Ölfus

Ölfus umhverfis Ölfusá.

Landnáma greinir, að Álfur (hvar af eg meina allt héraðið dragi sitt nafn og fyrrum er á vikið) hafi numið land í Ölvesi, kom skipi sínu inn Ölvesár mynni, upp eftir Þorleifslæk, í Álfsós, og bjó að Gnúpum. Ós þessi liggur að austanverðu nær því við Þurrárhraun.

Hellulofinn

Hellukofinn á Hellisheiði – byggður upp úr Biskupsvörðu.

Vestan Varmár liggur almennings vegur yfir fjallgarðinn á Suðurnes og í Kjalarnesþing, fyrst upp á Kamba áðurnefnda, síðan vestur yfir Hellisheiði, hver að austanverðu hefur mikla mosa, með mjög litlu grasi, allt þar til Þrívörður heita og heiðin sjálf meinast mið vera, en hennar vestri partur er víða með sléttum hellum af hraungrjóti, án gatna, nema þær hestanna járn hafa gjört og auðsjáanlegt er þeim athuga. Þessar sléttu hellur ná allt vestur að Biskupsvörðu. Fleiri vörður eru og við veginn hlaðnar til leiðarvísis.

Búasteinn

Búasteinn.

Upp í hnúknum fyrir norðan fyrrnefnt Hellisskarð er sá stóri steinn einstakur, er Búasteinn kallast, við hvern stein varðist Búi Esjufóstri, sem saga hans tilvísar. Sama saga nefnir Hellisskarð Öxnaskarð, og mun þá hafa sittnafn öðlazi af nautarekstrum Ölves innbyggara vestur yfir heiðina. — Á norðanverðum Hvannavöllum, er strax taka til fyrir neðan skarðið, stendur sælhús (ei langt frá veginum) so kallað, hverju allt til þessa tíma Ölvesinnbyggjarar hafa uppi haldið vegfarandi fólki harla nauðsynleg á vetrartímanum til innvistar. Er og lofsvert, að þetta sælhús ei niður falli. Fyrir sunnan Húsmúlann, er liggur í útsuður undan Hengilsfjallinu, en fyrir norðan Hellisskarð, liggja Sleggjubeinsdalir. Þar er náttstaður vesturleitarmanna úr Ölvesi, þá afréttinn á haustin leita.

Draugatjörn

Sæluhúsið undir Húsmúla.

Í vestur og útnorður frá sælhúsi og með Húsmúlanum liggja miklir grasvellir, nefndir Norðurvellir, og strekkja sig út allt suður undir Svínahraun, nær því undir Bolavelli, en endast þó þar Uxabrekkur heita. Inn með Hengilsfjallinu liggur dalur og fyrir norðan Húsmúlann, er Engidalur kallast. Úr honum rennur lítil á vestur eftir Norðurvöllunum, fyrir norðan Bolavelli en austan Lyklafell, og fellur síðan í Fóelluvötn. Ei alllangt frá Engidal eru almennar nautaréttir Ölvesinga og Kjalarnesþingsmanna, er árlega haldast þann þriðja dag Oktobris mánaðar, ef ei er helgur, annars næsta dag fyrir. Þessi fjallgarður brúkast almennilega fyrir nauta og hrossa afrétt. Skammt fyrir sunnan réttirnar, við Engidalsá, standa tveir klettar, sinn hvoru megin árinnar, og nefnist bilið á milli þeirra Þjófahlaup — er þó ei sannferðugt, hvar fyrir so kallast. Í austur frá Engidal, upp á Henglinum, stendur þúfa, er enn nú nefnist Strendurþúfa, þangað eiga Strendurmenn í Selvogi með frí lambarekstra árlega.

Hengill

Í Hengli.

Úr Hengladölum renna margir smálækir, þar til í einn saman koma, og so fram eftir dölunum vestur undir Hellisheiðarhraunið.

Orrustuhóll

Réttin við Orrustuhól.

Fyrir austan Skarðsmýrarfjöllin er kallaður Orustuhóll og þó fyrir vestan ána, er úr Hengladölum fram rennur. Þar undir hrauninu sjást enn í dag glögg merki til fjárrétta, er menn heyrt hafa brúkað hafi í fyrri tíð Ölves innbyggjarar og Suðurnesjamenn þá saman og til afréttarins hvorutveggja rekið höfðu, og hafi á milli þessara óeining komið, hvar af Orustuhóll mun nafn sitt draga.

Ölfus

Inghóll á Ingólfsfjalli.

Þessu næst er að geta Ingólfsfells. Það liggur til norðurs og suðurs í hreppnum, ei alllangt frá því vatnsfalli, er Sog nefnist og fyrir austan fjallið rennur. Þetta fjall hefur hamra og eggjar allt um kring, háfar og miklar að sínum þremur köntum, að vestan, sunnan og austan, en að norðanverðu er það með stórskörðum og giljum. Það er mjög graslítið, svo upp á því, fyrir ofan hamrana, sem neðan. Þar fjallið er hæst, þó nokkuð norðar en á því miðju, er haugur Ingólfs Arnarsonar, fyrsta landnámamanns, mældur við jarðveginn tvö hundruð faðmar í kring, nú graslaus með stórum hellum og mel, sums staðar mosavaxinn. Haugurinn sést á allar síður á fjallinu, nema að norðan. Magister Brynjólfur Sveinsson reið þangað eitt sinn norðan á fjallið að skoða hauginn, hvorn hann lét þá mæla. — Örnefni þessi eru á Ingólfsfelli svo kölluð: Kagi, Kagagil, Leirdalur, Dagmálagil, Hólstaðagil, Tannastaðadalir, Alviðrueggjar, Djúpidalur etc.

Sýslusteinn

Sýslusteinn suðaustan Lyklafells.

Þessi eru haldin sýslumót milli Árnessýslu og Kjalarnesþings, fyrst er Vilborgarkelda, er liggur á Mosfellsheiði, fyrir vestan Heiðarbæ. Þaðan ræður Laufdælingastígur í vestur liggjandi eftir heiðinni allt í nyrðri Lyklafellsenda. Síðan í þann einstaka stein, er stendur við Hellisheiðarveginn á melnum fyrir sunnan Lyklafell, er kallast Sýslusteinn. Þaðan í það stóra bjarg, er liggur við veginn í Ólafsskarði. Síðan sjónhending í Hvítskeggshvamm, fyrir sunnan Geitahlíð, milli Herdísarvíkur og Krýsuvíkur.“

Heimildir:
-Andvari, 1. tbl. 01.01.1936, Lýsing Ölveshrepps 1703, Hálfdán Jónsson, bls. 57-78.
-https://timarit.is/page/4319796?iabr=on#page/n59/mode/2up/search/hengill
-Fornleifaskráning vegna skipulags í Ölfusi, Margrét Hrönn Hallmundsdóttir, Edda Linn Rise, október 2009.
https://skyrslur.minjastofnun.is/Verkefni_1682.pdf
-Aðalskráning fornleifa í Ölfusi: Áfangaskýrsla II, Ragnheiður Gló Gylfadóttir, Orri Vésteinsson og Stefán Ólafsson, Fornleifastofnun Íslands ses, Reykjavík 2017.
-https://www.researchgate.net/profile/Ragnheidur-Gylfadottir/publication/329254548_Adalskraning_fornleifa_i_Olfusi_II/links/5bff1576a6fdcc1b8d49f55e/Adalskraning-fornleifa-i-Oelfusi-II.pdf

Hengill

Í Hengli.

Staðarhverfi

Í Lesbók Morgunblaðsins 1965 er grein séra Gísla Brynjólfssonar undir fyrirsögninni „Úttekt á Stað“:

Gervallt segir fjær og nær:
sjáið sigur lífsins.

Staðarhverfi

Staðarhverfi – uppdráttur ÓSÁ.

Þetta gæti verið bæði lag og texti í söng þessa dags, fyrsta fardags vorsins 1965, —þriðja júní. Vor og sól og siguröfl gróandans hvarvetna að taka völdin á landinu okkar kalda, sem ljómar í gullnum geislum morgunsins, er „glófaxið steypist um haga og tún„. Sjá „Lífið hefur dauðann deytt„.
En þótt undarlegt sé, er það samt svo, þegar maður er staddur hér, á hinu gamla prestssetri, Stað í Grindavík, þennan vormorgun, þá finnst manni það vera dauðinn, sem hafi svo óeðlilega mikil völd mitt í ríki lífsins og ljóssins, því að þessi bær er nú af öllum yfirgefinn nema hinum framliðnu.
Kirkjan er löngu ofan tekin og reist á öðrum stað. Presturinn er fluttur burtu fyrir mörgum áratugum. Bóndinn er dáinn og enginn kominn til að taka við jörð og búi. En kirkjugarðurinn er enn í notkun.
Og þegar dauðinn hefur barið að dyrum á einhverju heimili í söfnuði Grindvíkinga, og hinn látni hefur verið kvaddur í kirkjunni austur í Járngerðarstaðahverfi, þá er kistunni ekið um klungróttan hraunveginn út að Stað, þar sem grafreiturinn bíður og sendin mold Suðurnesja tekur hana í sinn opna faðm.

Staðarkirkjugarður

Staðarkirkjugarður.

Þetta er fallegur kirkjugarður, vel girtur og vel hirtur svo sem sæmir þessu efnaða myndarplássi — Grindavík. Vestan til í honum miðjum — trúega á þeim stað þar sem kirkjan stóð; hefur verið reistur klukkuturn.
Hann ljómar rauður og hvítur í sól morgunsins. Niður úr honum hangir klukkustrengurinn. — Nei, það er bezt að taka ekki í hann. Það væri synd gegn heilögum anda vorsins og lífsins ao rjúfa kyrrð þessa dags með líkhringingu. Það yrði næsta hjáróma hljómur í þeirri symfoniu gleðinnar og gróskunnar, sem maður finnur að fyllir loftið. En skaðlaust er nú að skoða þessa líkaböng Grindvíkinga. Skyldi þetta vera einhver forngripur? Eða skyldi hún bara vera skipklukka úr einhverju strandinu? Jú, ekki ber á öðru. Klukkan hefur þessa áletrun: — S.S. Anlaby — 1898 — Hull.

Anlaby

Skipsklukka Anlaby í klukknapotrinu á Stað.

Hún er úr brezkum togara, sem strandaði hér við svokallaða Jónsbásarkletta í ársbyrjun 1902. Frá því segir Guðsteinn hreppstjóri Einarsson í bókinni „Frá Suðurnesjum“, á þessa leið: „Þetta strand mátti heita nokkuð sögulegt. Skipið hét Anlaby, og skipstjórinn á því var einn rómaðasti landhelgisbrjótur, sem verið hefir hér við land fyrr og síðar á enskum togurum, og er þá nokkuð mikið sagt. En hann var með togara þann, er rétt um aldamótin varð þremur mönnum að bana vestur á Dýrafirði. Hannes Hafstein, þáverandi sýslumaður, fór um borð í togarann, sem var að veiðum uppi í landsteinum. Var grunur á, að sleppt hefði verið vír úr tolla á togaranum, sem hefði hvolft bátnum. Ekki hafði verið sýnd tilraun frá togaranum að bjarga mönnum þeim, sem voru að hrekjast í sjónum, svo hér hefir verið um verulegan þrjót að ræða. Ekki var hann tekinn þarna, en kæra hafði verið send út af verknaði þessum til hinna dönsku yfirvalda í Kaupmannahöfn. En sennilega hefði það ekki komið að miklu gagni, ef þessi sami skipstjóri hefði ekki svo víða komið við, en hann var tekinn í landhelgi við Jótlandsstrendur ekki „löngu seinna, og fyrir þá tilviljun mun hann hafa fengið dóm fyrir þennan verknað sinn í Dýrafirði. Sagt var, að hann hefði verið dæmdur í tveggja ára fangelsi og verið í sinni fyrstu för hingað til landsins eftir að hafa tekið út sína fangelsisvist.
Skipstjóri þessi hafði heitið Carl Nilson og verið kallaður Sænski Carl. Það voru og sagnir um, að hann hefði verið búinn að heita því að velgja Íslendingum undir uggum, þegar hann kæmi þar á miðin aftur, en hvað sem því líður, var það staðreynd, að þarna í Jónsbásarklettum átti þessi þjarkur sitt síðasta uppgjör við tilveruna.
Svo sem oft vill verða í sambandi við voveifleg slys, varð nokkuð til af draumum og fyrirbærum í sambandi við strand þetta.

Staður

Staður fyrrum.

Merkastur þótti draumur frú Helgu Ketilsdóttur, konu séra Brynjólfs Gunnarssonar, prests á Stað, sem hana hafði dreymt nokkru fyrir hátíðar, áður en strandið varð, og hún sagt hann þá strax. Draumurinn var á þá leið að henni þótti vera knúið dyra og einhver fara fram, sem kallað var, en koma aftur og segja, að hópur manna sé úti, sem vilji fá að tala við hana. Hún fór fram og þarna stóðu, að hún hélt, 9 eða 10 menn. Þeir báru upp erindið, og var það að fá hjá henni gistingu. Eitthvað leizt henni illa á að hýsa svona stóran hóp manna og færðist undan því, en þeir sóttu fast á og sögðu á þá leið, að þeir yrðu að fá gistingu á Stað. Þá þóttist hún segja, að hún vissi ekki, hvernig hún hefði rúm handa þeirn öllum, en þeir þá svarað, að hún þyrfti ekki að hugsa um þau, því hann Einar mundi sjá um það. Ekki var draumur þessi lengri, en þótti passa við strandið, því Einar Jónsson, hreppstjóri á Húsatóftum, sá um alla björgun og einnig um útför mannanna.
Úr skipinu rak tíu lík á rúmri viku. Þá var lítið um húsrými, og voru líkin öll flutt í Staðarkirkju og lögð þar til á bekkjum í kórnum. Um leið og þau voru þvegin, var leitað eftir öllum merkjum, tattoveringu, hringum og öllu, sem sérkenndi og var það gert samkvæmt beiðni. Þegar sjö lík voru rekin og búið að ganga frá þeim, eins og áður er lýst, vildi það til snemma morguns, að maður kom til Einars hreppstjóra. Sá hét Bjarni frá Bergskoti; hann tjáði Einari, að þá nótt hefði sig dreymt sama drauminn aftur og aftur, þannig, að hann hefði vaknað á milli. Draumurinn var þannig, að Bjarna þótti maður koma til sín og biðja sig að fara til Einars hreppstjóra og segja honum, að hann vilji fá aftur það, sem tekið hafi verið frá sér, og að hann sé norðast í kórnum. Bjarni vissi ekkert, hvað um gæti verið að ræða, en setti drauminn þó í samband við hina drukknuðu menn. Einar hreppstjóri tók draum þennan bókstaflega, því einmitt hafði verið tekinn hringur af því líki sem utast var í kórnum að norðanverðu, og var hann látinn á það aftur.
Eftir að jarðarför þeirra tíu, sem rak, hafði farið fram og send höfðu verið merki og lýsingar á líkunum, þótti það sannað, að sá, sem vantaði, væri skipstjórinn; sjálfur, Carl Nilson“.

Staðarhverfi

Klukknaport í Staðarkirkjugarði. Gamla kirkjuportið, „rautt og hvítt“, h.m.

Við látum þessa fróðlegu og skilmerki legu frásögn hins kunnuga manns nægja um hinztu för Sænska Carls á Íslandsmið. Við látum hugsunina um hann ekki tefja okkur frá úttektargerðinni eða draga skugga upp á heiðríkju þessa bjarta dags. Á þessari stund á það ekki við að vera með neinar slíkar umþenkingar. Hinn dauði hefur sinn dóm með sér.

Útihúsin hér á Stað eru mjög fornfáleg og farin að láta á sjá. Hér hafa ekki verið hafðar aðrar skepnur en sauðfé síðustu árin. Það borgar sig bezt, því að hér er féð létt á fóðrum. Snjór liggur hér aldrei á, svo að alltaf næst til jarðar og aldrei bregzt beit í fjörunni þar sem sjálft Atlantshafið fellur á strönd Reykjanesskaga — og ber þarann upp í stórar hrannir. Ærnar eru á beit á grænu túninu og una sér vel með lömbum sínum, sem eru farin að verða bústin, enda þau yngstu nokkurra daga gömul. Við göngum í húsin og lítum inn í hvern kofa. Inni í einum þeirra er hvít ær með lambi sínu. Þegar við komum í dyrnar stappar hún dálítið frekjulega niður öðrum framfæti og segir: Menn! Hvað eruð þið að gera hér? Þið vilduð ekki búa á þessum Stað og skilduð okkur sauðkindurnar einar eftir. Hvaða erindi eigið þið hingað nú? Viljið þið ekki bara gera svo vel að láta okkur í friði.

Þórkötlustaðarétt

Hermann í Stakkavík, bóndi á Stað, og Birgir á Hópi í Þórkötlustaðarréttum.

Við finnum það, að þessi kind hefur mikið til síns máls, svo að við treystum okkur ekki til að taka upp neinar rökræður við hana um rétt okkar til þessa Staðar, sem mennirnir hafa yfirgefið — gengið frá eftir 1000 ára búskap.
Aðrar skepnur en ærnar og lömbin fyrirfinnast hér ekki. Jú annars. Ekki er vert að fullyrða of mikið strax. Nú koma í ljós fram undan kirkjugarðinum tvö följörp hross og veifa svörtum töglum sínum til að verjast flugum loftsins í sólarhitanum. Einhver spyr: Hver á þessi hross? En það veit enginn hver á þau. Hér vekja hestar ekki neina interessu. Þeir eru víst bara til af gömlum vana, því að útreiðarmanían hefur ekki enn haldið innreið sína í Grindavík. Fiskur og fé eru þær lífverur, sem fólkið sinnir, enda eru það þær, sem ásamt fáum kúm hafa haldið lífinu í því frá upphafi byggðar hér.
Já. Fiskurinn og sjórinn — sjórinn og Suðurnes — það eru eins og tvær hliðar á sama hlutnum — líka hér í Staðarhverfinu. Og það var eins og við manninn mælt; þegar hætt var að stunda sjóinn héðan var byggðin vitanlega búin að vera.

Staðarvör

Staðarvör – flóruð.

Frammi á kampinum sjáum við leifar af fornri frægð í útgerð þessa pláss — varirnar, sem eru hálforpnar grjóti, því að nú eru margir áratugir síðan skipi var ráðið þar til hlunns. Hér hefur fyrir eina tíð verið byggð bryggja með skjólgarði sjávarmegin. Auðsjáanlega allgjörvulegt mannvirki á sínum tíma. En ekki þætti þetta beysið bólverk nú fyrir hinn glæsilega fiskiflota Grindvíkinga. Upp að þessari bryggju leggst heldur aldrei nein fleyta, því að héðan er aldrei róið á sjó. Fyrir ofan kampinn hvolfa bátarnir, sem eitt sinn sigldu stoltir á miðin í Grindavíkursjó og færðu hina miklu lífsbjörg í bú fólksins í Staðarhverfi. Undir aflabrögðunum var öll afkoma þess komin. Hér hvolfa þessi gömlu skip og bíða þess eins að fúna niður og forganga.
Svo var úttekt lokið eins og lög gera ráð fyrir.
Og nú eru fardagar löngu liðnir. Vor þessa árs að baki og sumarið, þetta blessaða bjarta sumar, næstum líka á enda runnið. Haustgrá ský hafa hellt þungum regnskúrum síðsumarsins yfir úfin hraunin kringum Grindavík, og punturinn í túninu á Stað hefur tekið á sig fölan lit sinunnar. Það var enginn bóndi á Stað í vor.
Jörðin var leigð ungum Grindvíkingi, sem stundar fjárbúskap með fiskvinnunni og íbúðarhúsið tóku Reykvíkingar á leigu — skrifstofumenn, sem ætla að fara þangað til að fá sér ferskt loft í lungun þegar kontórvinnunni er lokið. Og eins og myndin ber með sér, er þetta myndarlegt hús, með fannhvíta veggi og fagurrautt, nýmálað þak, því að félagarnir í Lions-klúbbnum í Grindavík tóku sig til og máluðu það eitt kvöld í sumar eftir vinnutíma. Það var drengilega gert í virðingarskyni við hinn helga reit og af ræktarsemi við Staðinn, sem var prestssetur Grindavíkur um aldaraðir. – G. Br.

Heimild:
-Lesbók Morgunblaðsins, 33. tbl. 17.10.1965, Úttekt á Stað, séra Gísli Brynjólfsson, bls. 8-9 og 14.

Staður

Staður – nýja klukknaportið. Síðasta íbúðarhúsið „með hvannvíta veggi“ – byggt um 1930.