Þingvellir

Björn H. Bjarnason fjallar í hugi.is um gamlar götur og komu Friðriks VIII Danakonungs hingað til lands árið 1907:

Inngangur

Konungsvegur

Friðrik VIII.

“Í byrjun ágúst árið 1907 hefði verið vandalaust að feta sig slóð Friðriks 8. og 200 manna fylgdarliðs hans. Fyrst var riðið á Þingvöll, svo austur að Laugarvatni, að Geysi og Gullfossi, yfir Hvítá á nýrri brú við Brúarhlöð. Síðan niður Hreppa hjá Álfaskeiði, yfir Stóru- Laxá og að Þjórsárbrú. Þaðan um Ölfusárbrú í Arnarbæli í Ölfusi, upp Kambana, yfir Hellisheiði á Kolviðarhól, niður hjá Lækjarbotnum og til Reykjavíkur aftur. Vandlætingafólk þess tíma taldi að fikra mætti sig Kóngsveginn svonefnda eftir tómum kampavínsflöskum.
Víst er um það að ríkisþingmenn fengu fyrir brottför silfurslegna svipu að gjöf frá Alþingi og ferðabikar í ól til að smeygja um öxl sér. En að þetta hafi verið einhver fyllirístúr er af og frá, menn kannski fengið sér í annan fótinn en ekki mikið meira, flestir. Sérstök gullplata var á svipu konungs og hafði Árni Gíslason grafið á hana “Ísland 1907.”
Konungskoma
Áhugavert er að skoða ljósmyndir teknar þessa sumardaga, pípuhattar í öllum áttum og harðkúluhattar, barðastórir kvenhattar, upphlutur og skotthúfur, skautbúningur og möttull. Í bakgrunninum voru derhúfur en á húfum lúðurþeytara voru sérstakir borðar. Allir báru höfuðföt sem er hyggilegt enda fer að sögn veðursérfræðinga 75% af hitatapi líkamans um höfuðið.
Svo voru það skínandi einkennisbúningarnir. Myndir frá þessum tíma eru allar í svart/hvítu og þess vegna heldur maður kannski að í gamla daga hafi allt verið svo leiðinlegt. Svo var þó ekki ef marka má allar sögurnar og eitt er víst að þarna var ekki litlaus hópur á ferð, öðru nær.
Tildur segjum við í dag á stíllausri öld, en gleymum því ekki að á bak við stífa framkomu þessa fólks leyndist oft hörkudugnaðar. Það er meira en að segja það að fara í 7 daga hestaferð á Íslandi að viðbættum íþyngjandi ræðuhöldum, ofáti og skjalli hvers konar sem sterk bein þarf til að þola. Auk þess var mikil pólitísk spenna í loftinu vegna sjálfstæðisbaráttu þjóðarinnar.

Frá Reykjavík á Þingvöll
Konungsvegur
Ferðin hófst 1. ágúst og var lagt af stað frá Latínuskólanum í Reykjavík. Konungur reið gráum hesti og var í búningi sjóliðsforingja með derhúfu að hætti aðmiráls og í uppháum leðurstígvélum. Hannes Hafstein Íslandsráðherra var á léttvígum, rauðskjóttum gæðingi Glæsir að nafni, kallaður Ráðherra-Skjóni. Seinna í ferðinni reið hann brúnum hesti en konungur hélt sig við gráa litinn enda hafði honum verið ætlaðir fjórir í þeim lit í ferðina. Þegar til kom líkaði honum aðeins við tvo þeirra. Mér skilst að Eggert Benediktsson bóndi í Laugardælum, stórbýli rétt fyrir austan Selfoss, hafi skaffað þessa gráu hesta.
Haraldur prins var í húsarabúningi. Þarna voru líka Axel Tulinius sýslumaður Suður-Múlasýslu, aðalskipuleggjari ferðarinnar, Rendtorff yfirhestasveinn konungs í rauðum búningi, J.C. Christensen forsætisráðherra og Rosenstand leyndaretatsráð svo að einhverjir séu nefndir. Leiðsögumenn voru m.a. þeir Guðmundur Björnsson landlæknir og Jón Magnússon skrifstofustjóri, síðar forsætisráðherra. Jón var hæglætismaður og frekar orðfár, en hvar sem hann sýndi sig fóru hjólin að snúast. Þannig var það einnig við undirbúning þessarar ferðar.

Konungsvegur

Konungur og föruneyti á leið til Þingvalla.

Það þurfti töluverða skipulagshæfileika til að henda reiður á öllu því hafurstaski sem fylgdi þessu liði, kerrur með tjöld og matföng og trússhestar, klyfsöðlar, hnakkar, beisli, lyfjaskrín, hattaöskjur og ferðakoffort. Þetta líktist meira innrásinni í Rússland eða herleiðingu eins og sagt er frá í Gamla testamentinu hjá Móse frá Egyptalandi eða Esekiel til Babylon, erillinn var svo mikill. Að morgni fyrsta dags voru allir að ganga af göflunum og þá var notalegt að hafa Jón Magnússon með sína góðu nærveru.
Hófaskellirnir á götum Reykjavíkur þennan dag komu öllum í ferðaham og góðhestarnir sem bændur sunnanlands og norðan höfðu lánað af þessu tilefni voru ekki af verri endanum. Flestar sýslur landsins lögðu til 18 hesta hver landssjóði að kostnaðarlausu, en einnig voru fjöldinn allur af leiguhestum.

Konungsvegur

Konungur og föruneyti á Þingvöllum.

Af lista yfir íslenska alþingismenn sem varðveist hefur er svo að sjá, að flestir þeirra hafi fengið tvo hesta til afnota. Númer 13 á listanum er Hannes Hafstein, 1. Þingmaður Eyfirðinga, Tjarnargötu. Hann fékk bara einn hest enda lagði hann sjálfur til Ráðherra-Skjóna. Björn M. Olsen, 3. Konungskjörinn þingmaður, Lækjargötu 8, fékk 3 hesta. Tryggvi Gunnarsson 1. Þingmaður Reykvíkinga fékk 2 hesta og sömuleiðis Þórhallur Bjarnarson þingmaður Borgfirðinga síðar biskup yfir Íslandi. Guðmundur Björnsson 2. Þingmaður Reykvíkinga, Amtmannsstíg 1, fékk engan hest enda hefur hann sjálfsagt verið með sína eigin hesta í ferðinni.
Konungsvegur
Í bréfi dagsettu 7. febrúar 1907 býður Daniel Daníelsson hinni háttvirtu Heimboðsnefnd vagnhesta til kaups á kr. 160 stykkið. Hann segir í bréfinu, að hann treysti sér ekki til að fara neðar þar sem hann telji að verð á hestum á sumri komandi verði mjög hátt. Þetta var svo sannarlega uppgripstími fyrir hestaspekúlanta.
Þar sem riðið var upp Hverfisgötu blakti danski fáninn við hún. Farið var upp hjá Rauðavatni og Geithálsi og síðan Hafravatnsveg í Djúpadal á Mosfellsheiði, en þar byrjar hinn eiginlegi gamli Þingvallavegur. Svipusmellir fylltu loftið og öllum mátti vera ljóst að þetta var enginn venjulegur reiðtúr. Á leiðinni bættust í hópinn bændur sem höfðu hlaupið frá búum sínum til að skoða kónginn. Þegar til kom gátu þeir ekki stillt sig um að slást í för á Þingvöll. Sumir voru ekki einir á ferð heldur með allt sitt hyski, konu og krakka.

Mosfellsheiði

Gamli Þingvallavegurinn.

Í Djúpadal var framreiddur hádegisverður. Eins og allir vita þá eru Danir fyrst í essinu sínu þegar matur er annars vegar. Þeir borða ekki eingöngu til að lafa á fótunum. Matargerð er í þeirra augum listgrein og að skeggræða um mat umræðuefni sem stendur jafnfætis heimspekitali á gangstéttarkaffihúsum stórborganna. Virkilega siðaður Dani getur rifjað upp matseðla áratugi aftur í tímann af jafn mikilli nákvæmni og veðurglöggur Íslendingur lýsir skýjafari. Danir eru heimsmenn.

Djúpidalur

Djúpidalur.

Nema hvað í Djúpadal hafði Franz Håkansson, bakari og conditori, Austurstræti 17 látið senda 150 rúnstykki, 7 rúgbrauð og 12 franskbrauð. Pagh veitingastjóri var staðráðinn í því, að hvað sem öðru liði þá myndi Friðrik 8. Danakonungur ekki verða hungurmorða í ferðinni og þyrstur yrði hann ekki, enda sést í skjölum að Thomsens Magasin lét senda 4000 flöskur vestur að Rauðamel. Þar var tappað ölkelduvatni á flöskurnar. Þetta ölkelduvatn var haft til hressingar í heimsókn konungs. Að loknum málsverði þumlungaðist hersingin áfram fyrir norðan Borgarhóla í áttina að Þrívörðum og sunnan við Vilborgarkeldu á Mosfellsheiði, sem er forn áningarstaður. Þaðan var ekki langt í Ferðamannahorn, en það heitir svo vegna þess að þar sést fyrst til langferðamanna að koma á Þingvöll. Svo lá leiðin um Kárastaðastíg og niður í Almannagjá. Þegar konungur reið niður gjána hrópaði fólkið sem hafði raðað sér þar upp nífalt húrra, ég endurtek nífalt, minna mátti ekki gagn gera.
Konungskoman
En hver var þessi konungur sem verið var að hrópa húrra fyrir? Friðrik 8. var fæddur árið 1843 og dó árið 1912. Hann ríkti frá árinu 1906 til 1912. Faðir hans var Kristján 9. Þann stutta tíma sem Friðrik var við völd ferðaðist hann mikið um ríki sitt og komst í nána snertingu við þjóð sína. Hann beitti sér m.a. fyrir bættum samskiptum við Íslendinga. Árið 1869 gekk hann að eiga sænska prinsessu Louise að nafni.
Og þjóðin sem hann var að heimsækja hvernig var hún? Af því að maður er svolítið blindur á sitt eigið fólk þá gerði ég það að gamni mínu að fletta upp í Nordisk Konversasions Leksikon, 5. bindi, bls. 183. Þar stendur: “Íslendingar tilheyra hinum hvíta kynstofni, flestir eru háir, ljósir yfirlitum og langhöfðar. Þeir eru með blá augu og grannvaxnir.” Þetta fannst mér áhugaverð lesning, en meira hafði ég samt gaman af að koma út af bókasafninu og labba eftir Austurstræti og sjá margbreytileikann í útliti fólks enda er þjóðin örugglega ekki svona einslit eins og stendur í alfræðiritinu. Rannsóknir á blóðflokkum Íslendinga sýna raunar að þjóðin er af margvíslegum uppruna.

Þjóðhátíð á Þingvöllum

Konungskoman

Fólk í tjöldum á Þingvöllum 1907, m.a. danskir sjóliðar.

Næsta dag 2. ágúst var haldin þjóðhátíð á Þingvöllum. Drifhvítar tjaldborgir höfðu risið þar og byggður hafði verið konungsskáli í hallanum upp að Almannagjá ekki langt frá Öxarárfossi en í Hestagjá voru höfð hross sem þurftu að vera til taks. Ekki létu fréttamennirnir sig vanta en Guðmundur Finnbogason var fulltrúi Blaðamannafélagsins. Þegar á ferðina leið reyndust fréttamennirnir hvað dugmestir. Það er ótrúlegt hvað forvitnin er mikið hreyfiafl.

Valhöll

Í Valhöll var snæddur hádegisverður, en kl. 1 hófst Lögbergsgangan og tóku nær 6000 manns þátt í henni. Það var regnkápuveður þennan dag og margar ræður voru fluttar og mikið sungið. Hannes Hafstein flutti konungsminni. Ýmsir aðrir tóku til máls. Tulinius sýslumaður stjórnaði glímukeppni og sigraði Hallgrímur Benediktsson í þessari keppni en þriðji varð Jóhannes Jósefsson sem síðar var kenndur við Hótel Borg en hann hafði lagt sig eftir grísk rómverskum fangbrögðum og var talinn öflugur glímumaður. Sem sigurmerki fékk Hallgrímur birkigrein og síðan var hann borinn af sviðinu í gullstól.
Björn M. Olsen prófessor fræddi fólkið um Úlfljótslög, Grágás, Járnsíðu og Jónsbók. Eins sagði hann frá því hvernig Gissur Þovaldsson sendi árið 1238 Hjalta biskupsson upp á þing með stóran flokk manna til að hleypa þinginu upp. Svo var það bardaginn á Alþingi eftir Njálsbrennu og hvernig dómi var hleypt upp árið 999 er dæma skyldi í máli á hendur Hjalta Skeggjasyni um goðgá. Það var síður í frásögur færandi að oftast fór þingið fram með hinni mestu friðsemd og spekt.

Þingvellir

Gálgaklettur á Þingvöllum. Árni Björnsson lýsir aðstæðum.

Lítillega sagði prófessorinn frá því hvernig þjófar höfðu verið hengdir við Gálgaklett og konur sem höfðu borið út börn sín eða deytt á annan hátt drekkt í Drekkingarhyl. Þetta gerði stóra lukku.
Um kvöldið var haldin hátíðarveisla. Þar flutti Sveistrup þjóðþingsmaður ræðu fyrir minni íslenska hestsins, en konungur mælti fyrir minni kvenna. Aðeins ein kona Ragnheiður Hafstein eiginkona Íslandsráðherra var í veislunni, sem mönnum þótti alveg kappnóg. Konungur beindi orðum sínum til hennar frekar en að tala út í buskann til allra þeirra kvenna sem voru annars staðar. Dansað var á palli fram á nótt og tók konungur þátt í dansinum.
Verst var að hesturinn sem Sveistrup lofaði hvað mest í fjörugri ræðu sinni fældist nokkrum dögum seinna fyrir vagni hans uppi á Hellisheiði. Sveistrup hlaut nokkrar skrámur á enni og mikil mildi að ekki hlaust verra af.

Frá Þingvöllum að Geysi
Konungsvegur
Næsta dag þann 3. ágúst var svo riðið hjá Skógarkoti Skógarkotsveg og í Vatnsvíkina hjá Vellankötlu um Gjábakkastíg og Barmaskarð á Laugarvatnsvelli. Þangað var komið um hádegisbil og beið þar stórt veitingatjald. Franz Håkansson, bakari og conditori, Austurstræti 17 hafði sent þangað 160 rúnstykki, 8 rúgbrauð og 12 franskbrauð.
Ýmsir ferðahópar ríða um landið í dag maulandi kramdar samlokur úr vasa sér og drekka volgt djús. Þarna í veitingatjaldinu voru ekki kramdar samlokur og kræsingunum var skolað niður með kampavíni. Hákon Noregskonungur átti afmæli þennan dag og það var hrópað húrra fyrir honum. Á eftir lágu menn rjóðir og mettir á meltunni í grængresinu þangað til lúðurþeytarar blésu í horn sín og allir stigu á bak aftur, en Pagh veitingastjóri og hans fólk átti eftir að vaska upp.

Konungsvegur

Konungsvegur í Þingvallahrauni við Skógarkot.

Eins og að ofan greinir var farið um Gjábakkastíg og má láta þess getið að Hallmundur Eiríksson á Gjábakka lánaði 3 hesta í konungsreiðina í 7 daga og fékk fyrir það 84 kr., en auk þess fékk hann 4 kr. fyrir að koma hestunum til Þingvalla. Þetta má sjá í bókhaldsgögnum vegna konungskomunnar sem geymd eru í þremur pappaöskjum í Þjóðskjalasafninu við Laugaveg.
Áfram var haldið um Laugardal og hjá Laugardalshólum og Efstadal og austur með Hlíðum ofan við túnið á Úthlíð í Biskupstungum, neðan við Múla, upp undir Helludal og þaðan austur að Geysi í Haukadal. Brú yfir Brúará hafði verið byggð árið 1901 þar sem steinboginn hafði áður verið. Ekki ætla ég að rifja hér upp lánleysi biskupsfrúarinnar sem lét brjóta þennan steinboga niður árið 1602 svo að soltið fólk kæmist ekki í birgðaskemmurnar í Skálholti, en brytinn sem hjálpaði henni við þetta verk drukknaði seinna í Brúará.

Brúará

Ýmsir fleiri hafa drukknað í Brúará. Árið 1958 var skoskur maður hér á ferð með hóp breskra skáta. Hann hét Stuart A. Mcintosh og reið út í ánna ofan við Brúarfoss. Áin hremmdi Stuart og drukknaði hann. Þetta er háskafljót.
Það var ekki soltið fólk sem stóð upp frá borðum á Geysi þetta kvöld. Á matseðlinum var súpa, lax í forrétt, svo nautasteik og að lokum ávaxtaábætir. Þessu var skolað niður með kampavíni. Ekki minnkaði aðdáun gestanna á skipulagi ferðarinnar við þetta.

Geysir-Gullfoss-Geysir

Konungsvegur

Minningarsteinn við Geysi í tilefni komu Friðriks VIII.

Þann 4. ágúst reið hópurinn að Gullfossi og til baka aftur. Konungsfylgdin tyllti sér á ystu nöf og var skálað fyrir framtíð lands og þjóðar. Um kvöldið var enn ein veislan. Þar tóku margir til máls m.a. Þorvaldur Thoroddsen. Hann fjallaði um jarðfræði og heitu hverina og eldfjöll. Hann sagði sögu af því að eitt sinn hefði hraungrýti úr Heklu steinrotað mann sem stóð á hlaðinu í Skálholti. Þarna er yfir Ytri-Rangá, Þjórsá og Hvítá að fara. Þetta fannst veislugestum áhugavert. Þorvaldur sagði frá fleiru skemmtilegu. Á eftir stóð konungur upp og kvað Þorvald vera vísindamann á heimsmælikvarða. Sá kunni lagið á því.

Frá Geysi að Þjórsárbrú

Konungsvegur

Konungur á Þjórsárbökkum 1907.

Daginn eftir þann 5. ágúst var riðið um nýju brúna yfir Hvítá hjá Brúarhlöðum og niður með Hvítá að austanverðu hjá Skipholti og að Álfaskeiði. Farið var yfir Langholtsós og Stóru-Laxá á Langholtsvaði skammt frá Syðra-Langholti. Þaðan svo sem leið lá að Þjórsárbrú. Vaðið á Laxá er nokkuð breitt þarna og þéttskipuð fylkingin var lengi að ösla í vatni en það náði hestunum stundum í kvið.
Þegar neðar dró sást yfir Hvítá heim að Bræðratungu þar sem Snæfríður Íslandssól bjó með júnkærnum Magnúsi Sigurðssyni eins og sagt er frá í Íslandsklukkunni eftir Halldór Laxness. Þegar Magnús slæmdist í lekabytturnar hjá faktornum niðri á Eyrarbakka fór hann um Hvítárholtsferjuna þangað og heim aftur, en hjá Bræðratungu lágu þjóðgötur. Þar eru m.a. Flosatraðir.
Um ráðahag hennar og Magnúsar sagði Snæfríður eitt sinn: “Frekar þann versta en þann næst besta.” Snæfríður hafði ung fellt ástarhug til Árna Magnússonar handritasafnara, en hann vildi frekar giftast ríkri, danskri konu svo að hann gæti haldið áfram að safna handritum. Þegar sérviskan og ástin togast á í hausnum á karlmönnum þá hefur sérviskan ætíð betur. Snæfríður hins vegar taldi sig hafa kynnst ágætum manni þar sem Árni var og fannst þess vegna góður maður eftir það blátt áfram hlægilegur, ekki síst vonbiðill hennar Sigurður dómkirkjuprestur í Skálholti.
Konungsvegur
En áfram með ferðalagið. Hjá Skipholti hafði hádegisverður verið framreiddur en við Álfaskeið var boðið upp á mjólk, öl, sódavatn og kampavín. Þarna voru söngvarar, hljóðfæraleikarar, tónskáld, steikarar og þjónar, íslenskir þingmenn, danskir þingmenn, þýsk kerling frú Rosa Bruhn að skrifa fréttir, kóngur og Haraldur prins í húsarabúningi og Hannes Hafstein á hátindi síns ferils. Í hópi þingmanna voru margir úr bændastétt. Þeir söknuðu þess að sjá hvergi rakstrarvélar og herfi eða plóga á leið sinni, fannst hrífan óþarflega seinvirk. Bændur í Hreppunum og þeirra fólk var úti á túni þegar hersingin fór hjá og konungur ræddi við fullorðna fólkið og börnin líka, blessaða sakleysingjana.
Á fylgiskjali í Þjóðskjalasafninu sést að Ágúst Helgason í Birtingarholti lét senda 60 lítra af nýmjólk að Álfaskeiði. Hann seldi hvern lítra á 18 aura. Heimboðsnefnd Alþingis gerði hann einnig reikning fyrir tveimur glösum sem höfðu brotnað samtals 70 aurar.
Vagnar og ýmislegt dót varð eftir á Álfaskeiði. Þetta dót tók Ágúst til handargagns heim í Birtingarholt. Hann langaði mikið í einn vagninn og í því efni bar hann sig upp við séra Þórhall Bjarnarson, hvort ekki væri hægt að hafa uppboð á þessu dóti um það leyti sem búnaðarþingi lyki, en Þórhallur var formaður Búnaðarfélags Íslands. Ekki veit ég hvort Ágúst eignaðist þennan vagn.
En þetta dót á Álfaskeiði var ekki eini lausi endinn að lokinni þessari hestaferð. H. (Halldór) Einarsson á Kárastöðum í Þingvallasveit sendir eftirfarandi reikning til Heimboðsnefndarinnar.
Lán á hesti í 7 daga kr. 21.
Fyrir 2 hnakka og 4 beisli í 7 daga kr. 7.
Fyrir beisli er tapaðist kr. 10.
Fyrir að gera ferð til Reykjavíkur að sækja hnakkana og beislin og leita að hestinum sem var týndur 3 dagar á 9 kr. samtals kr. 27.
Konungsvegur
En við vorum stödd hjá Langholtsvaði. Þaðan reið konungsfylgdin á Þjórsárbakkana og eftir þeim endilöngum. Ekki var riðið á seinagangi og inn á milli með slætti. Í gamla daga riðu menn mikið á einhvers konar skeiðjagi eða kerlingargangi sem kallaður var eða valhoppi. Töltið eins og við þekkjum það í dag kom ekki inn í íslenska hestamennsku fyrr en seinna. Þó brugðu menn fyrir sig hýruspori ef mjúkt var undir fót og einn og einn kappkostaði að halda hesti sínum til t.d. Daniel Danielsson í Stjórnarráðinu og Ólafur Magnússon ljósmyndari. Ágætar ljósmyndir eru til af þessum mönnum og hestum þeirra.
Hjá Þjórsárbrú tók Sigurður Eggerz á móti fólkinu en hann hafði verið settur sýslumaður í Rangárvallasýslu frá 1. maí 1907 og tók við af Einari Benediktssyni. Mikill mannfjöldi var þarna samankominn sem heilsaði hestafólkinu með dynjandi fagnaðarlátum. Undirbúin hafði verið vegleg búfjársýning sem hefjast átti daginn eftir.
Skrá frá Landssímanum yfir útsend símskeyti frá Þjórsárbrú þann 5. ágúst sýnir, að umheimurinn hafði mikinn áhuga á því sem þar var að gerast. Þessir aðilar sendu skeyti þaðan: Dannebro, Ritzau, National tidende, Politiken og Berlinske tidende. Þessa skrá er að finna í einni af öskjunum þremur í Þjóðskjalasafninu.
Á búfjársýningunni næsta dag voru sýndar kýr, kindur og hestar. Margir Danir söknuðu svína og alifugla svo sem anda og gæsa. Þess má geta að árið 1900 voru 50.000 hross í landinu og voru 3095 hestar fluttir út það ár. Álitið var að þrefalda mætti þessa tölu þ.e. koma hestunum upp í 150.000 og töldu ýmsir að útflutningur hrossa gæti orðið hrossarækt í landinu lyftistöng. Verst er að Íslendingar hafa aldrei getað selt nokkurn skapaðan hlut annað en fisk, en fiskur selur sig sjálfur. Í þessu efni gætum við lært mikið af Dönum, framleiða minna og selja dýrara. Líflegar samræður fóru fram um smjörframleiðslu og bar öllum saman um að íslenska smjörið væri einkar aðlaðandi.

Frá Þjórsárbrú að Arnarbæli í Ölfusi
Konungsvegur
Að loknum hádegisverði var haldið yfir hengibrúna á Þjórsá. Konungur og Hannes Hafstein riðu í fararbroddi og fór hersingin eftir eggsléttum þjóðveginum í vestur. Stansað var við Ölfusárbrú en þar hjá var gamli sveitabærinn Selfoss. Nielsen faktor á Eyrarbakka stóð fyrir móttökum en hann var rómaður um land allt fyrir gestrisni. Konungur þakkaði viðurgjörninginn og óskaði Eyrarbakka velfarnaðar.
Í bókhaldsgögnum kemur fram á fylgiskjali 139 að séra Þórhallur Bjarnarson hefur fengið 20 flöskur af öli í Tryggvaskála á 35 aura stk. með gleri samtals kr. 7. Svo er að sjá að hann hafi fengið þessar 20 flöskur sendar í Hraungerði. Á fylgiskjali 143 sést að séra Þórhallur hefur ásamt 7 ríkisdagsmönnum, 10 ökusveinum og tveimur öðrum gist hjá séra Ólafi Sæmundssyni í Hraungerði aðfaranótt 6. ágúst.
Séra Ólafur fékkst ekki með nokkru móti til að setja upp ákveðið verð fyrir gistinguna, en lét séra Þórhall um að ákveða endurgjaldið sjálfur. Honum fannst hæfileg þóknun fyrir þetta vera kr. 50, en inni í þessu var mjólk, kaffi og dálítið skyr, eins vöktun á 30 hestum. Varla getur talist að séra Þórhallur hafi ástundað glannalegt líferni úr því að ölflöskurnar frá Tryggvaskála voru ekki nema 20 handa 7 ríkisdagsmönnum, 10 ökusveinum og tveimur öðrum.
Kolviðarhóll
Frá Ölfusárbrú var haldið hjá Ingólfsfjalli að Kögunarhól en þar var áð. Síðan var riðið að Arnarbæli. Þar beið gestanna reisuleg tjaldborg en kóngur og Haraldur prins gistu inni á prestssetrinu. Prestur í Arnarbæli var séra Ólafur Magnússon. Hann þótti ágætur söngmaður og tónaði manna best.
Dönunum fannst mikið til um mýrarnar þarna allt í kring og töldu að með framræslu mætti rækta upp mikið land í Ölfusinu. Þarna heita Forir og heyjaði séra Kjartan Kjartansson þar seinna. Hann notaði hesta við heyskapinn en undir þá setti hann þrúgur svo að hestarnir sykkju ekki á bólakaf.
Öldum saman bölvaði þjóðin mýrunum. Þær voru mikill farartálmi og menn urðu blautir í fæturna að ösla í þeim. Svo voru mýrarnar þurrkaðar upp en það spillti fuglalífi. Nú eru menn til sveita ekki lengur blautir í fæturna en þeir sakna fuglatístsins. Til þess að kalla fram fuglatístið verður aftur að búa til mýrar, en þá verða menn blautir í fæturna þegar þeir fara að sækja hestana sína út í haga. Lífið er ekki auðvelt.

Frá Arnarbæli til Reykjavíkur

Arnarbæli

Arnarbæli – konungskoman 1907.

Síðasta daginn 7. ágúst var farið upp Kamba en þeir hafa verið taldir vegaminjasafn þjóðarinnar enda þar götur og troðningar frá fyrstu dögum Íslandsbyggðar. Þaðan var riðið um Hellisheiði hjá Hveradölum, Kolviðarhóli, í Lækjarbotna, hjá Geithálsi, Rauðavatni og fyrir norðan Árbæ. Aftur var komið til Reykjavíkur.
Upp Kambana riðu þeir samsíða á fetgangi Hannes Hafstein og Friðrik 8. Hannes reið brúnum hesti en konungur var áfram á gráum hesti. Hann innti Hannes eftir því hvernig hann teldi fólkinu hafi líkað ræðurnar hans. Þessa sömu spurningu hafði hann lagt fyrir séra Matthías Jochumsson er hann hitti hinn aldna prest í Almannagjá fyrr í ferðinni. Honum virtist mjög umhugað um að sér væri vel tekið. Hann var mun frjálslyndari en Kristján 9. faðir hans og menntaður maður í besta skilningi þess orðs bæði bókhneigður og mannblendinn, í senn hlédrægur og opinskár.

Kolviðarhóll

Kolviðarhóll 1907.

Snætt var í stóru tjaldi á Kolviðarhóli og hélt konungur þar þakkarræðu. Sterkt útiloftið og samneytið við íslenska hesta hafði gert hann ögn óvarkáran og léttan í höfðinu. Í ræðu sinni sagði hann m.a.: “Látum oss verða samferða og trúa og treysta hverir öðrum. Látum þessa ferð tengja fast band milli íslensku og dönsku þjóðarinnar og mín, sem ekki hef annað markmið en sannleik og réttlæti báðum ríkjum mínum til handa.” Þetta orðalag “báðum ríkjum,” fór mjög fyrir brjóstið á Christensen forsætisráðherra. Það var of mikill sjálfstæðiskeimur yfir þessu.
Er konungur hafði lokið máli sínu mælti Rambusch undirofursti fyrir minni framreiðslustúlkna m.a. þeirra sem höfðu vaskað upp á Laugarvatnsvöllum og gengið um beina. Hann ræddi um þolgæðisbros þessara erilsömu matvæladreifara. Sem hermaður vissi hann að án kokksins vinnst ekkert stríð og lítið fer fyrir matnum ef enginn nennir að bera hann á borð. Og ekki brást Franz Håkansson, bakari og conditori. Á Kolviðarhól hafði hann látið senda 175 rúnstykki, 8 rúgbrauð og 12 franskbrauð. Hann átti hrós skilið.
Hraðboðar komu á móti konungsfylgdinni upp að Lækjarbotnum en þeystu síðan til baka að segja frá komu konungs svo að fólkið í Reykjavík gæti verið til taks að hrópa húrra. Þessa hraðboðun hafði Gísli J. Ólafsson tekið að sér sem verktaki fyrir kr. 400. Á sundurliðuðum reikningi frá honum stendur: “Til móttökunefndarinnar. Fyrir að senda hraðboð milli Reykjavíkur og Þingvalla, Reykjavíkur og Geysis, Reykjavíkur og Þjórsárbrúar og Reykjavíkur og Selfoss bera mér samkvæmt samningi kr. 400.-“

Niðurlag

Konungsvegur

Konungsvegur – áningarstaður á Laugarvatnsvöllum 1907.

Hestaferð þessi var í alla staði talin hafa heppnast með ágætum og bar öllum saman um að Friðrik 8. væri vænsti maður á margan hátt. Rómverjar til forna höfðu þann sið þegar sigursæll herforingi hélt inn í Rómaborg, að hafður var hjá honum þræll í stríðsvagninum. Á meðan lýðurinn hyllti herforingjann var það hlutverk þrælsins að endurtaka í sífellu: “Þú ert bara maður, þú ert bara maður.”
Hvern skyldi Friðrik 8. hafa haft við hlið sér í Ísalandsför sinni? Hann var svo alþýðlegur að enginn sem kynntist honum efaðist um að ef hann hefði verið beðinn um það hefði hann brett upp skyrtuermarnar og undið sér í uppvaskið. En hann var ekki beðinn um það. Hann var beðinn um að sitja í hásætinu. Það hásæti sem honum var ætlað hér á landi var í fornum stíl og smíðað af Stefáni Eiríkssyni. Það kostaði kr. 600.- Á sama tíma járnaði Jón Sigurðsson hest fyrir Axel Tulinius sýslumann og tók fyrir það kr. 1.75 með skeifum. Ef járnað var á gamalt kostaði það 25 aura á löpp. Þarna er dæmi fyrir Hagstofu Íslands að umreikna til verðlagsins í dag.
Af því að verið er að tala um verðlag má geta þess að Jónatan Guðmundsson fékk greiddar kr. 4 fyrir að spila á harmoniku á Þingvöllum. Vinna við að gera akfæran veg frá Skipholti að Brúarhlöðum 51 dagsverk kostaði kr. 204.- En brú á Langholtsós kr. 35.- Þetta sést á reikningi frá Ágústi Helgasyni í Birtingarholti. Í bréfi sem hann lét fylgja með kvað Ágúst vaðið á ósnum hafa spillst mjög. Upphæð þessi kr. 35.- var hins vegar dregin frá reikningnum til heimboðsnefndarinnar þar sem brúargerð á Langholtsós var talin utan við umsamda vegaframkvæmd.

Konungsvegur

Friðrik 8. var eins og milli steins og sleggju. Evrópa var að breyta um ásjónu og nýir tímar fóru í hönd. Aðeins 7 árum síðar braust fyrri heimsstyrjöldin út og álfan logaði öll. Þá var Friðrik 8. látinn en í skotgröfunum við Somne eða Verdun var ekki boðið upp á lax í forrétt og nautakjöt í aðalrétt og ávaxtaábæti á eftir.
Hannes Hafstein var líka milli steins og sleggju. Hann vildi sjálfstæði að því marki að eftir sem áður væri hægt að slá Dani um peninga fyrir verklegum framkvæmdum. Draumur hans var að hefja stórfelda ræktun í frjósömustu héruðum sunnanlands m.a. í Flóanum og austur á Skeiðum. Svo langaði hann að leggja járnbraut um Þrengslin austur fyrir fjall. Það er seinlegt að hossast á hestbaki, en það var glaður hópur sem skilaði sér aftur til Reykjavíkur eftir þessa hestaferð um Kóngsveginn í byrjun ágúst árið 1907.
Það er ekki fyrir leikmann að fara nánar út í þann stjórnmálalega undirtón, sem bjó að baki þessarar heimsóknar Danakonungs, en svona var hestaferðin. Friðrik 8. var þá 64 ára gamall. Það er svo sem ekki hár aldur miðað við að öldruð kona í Neðri-Fáki við Bústaðaveg byrjaði í hestamennsku 76 ára gömul. Hún er nú komin vel yfir áttrætt og búin að taka mestu kitlurnar úr vindótta klárnum sem hún keypti sér.”

Heimild:
-https://www.hugi.is/saga/greinar/130222/gamlar-gotur-konungskoman-1907/ – Örn H. Bjarnason.

Kolviðarhóll

Kolviðarhóll 1914.