Þingvellir

Saga Íslands og íslensku þjóðarinnar kemur hvergi betur fram á einum stað en á Þingvöllum við Öxará. Þar var Alþingi stofnað um árið 930 sem kom saman á Þingvöllum allt fram til ársins 1798. Meginviðburðir Íslandssögunnar hafa gerst þar og því skipa Þingvellir sérstakan sess í hugum allra Íslendinga.

Þingvellir

Þingvellir – Langistígur.

Þingvellir eru í dag friðlýstur helgistaður Íslendinga. Í lögum segir að hið friðlýsta land skuli ævinlega vera eign íslensku þjóðarinnar og undir vernd Alþingis.
Á undanförnum áratugum hafa rannsóknir leitt í ljós að Þingvellir eru náttúruundur á heimsvísu þar sem jarðsagan og vistkerfi Þingvallavatns mynda einstaka heild. Það eru gríðarleg verðmæti og náttúruundur að geta fylgst með þróun og myndum nýrra tegunda á einum stað eins og í Þingvallavatni. Þingvallasvæðið er hluti flekaskila Atlantshafshryggjarins sem liggja um Ísland. Þar má sjá afleiðingar gliðnunar jarðskorpunnar í gjám og sprungum svæðisins.
Frá öndverðu hafa ferðamenn lagt leið sína á Þingvöll og ástæðan er líklega augljós. Sagan og hrikaleg náttúran gera Þingvelli nánast að skylduáfangastað þeirra sem um landið fara. Um miðja nítjandu öld komu fram hugmyndir í Bandaríkjunum um að friða svæði vegna fegurðar og mikilfengleika þeirra.

Þingvellir

Þingvellir 1905 – Ásgrímur Jónsson.

Þessar hugmyndir bárust til Íslands í upphafi 20. aldar. Árið 1907 ritaði Matthías Þórðarson grein í Skírni undir yfirskriftinni Verndun fagurra staða og merkra náttúrumenja. Í henni fjallaði hann um nauðsyn þess að hlúa að stöðum sem væru merkilegir og sérstakir sökum fegurðar jafn vel og verndun fornminja og gamlir kirkjumunir voru varðveittir. Hann nefndi ýmsa staði en tiltók Almanngjá og svæðið umhverfis Þingvelli við Öxará sem dæmi um stað sem mætti sinna betur. Raunar tók hann fram að það væri búið að skemma Almannagjá með þeim vegi sem þá var búið að leggja. Hann rak dæmi um friðunaráform erlendis og nefndi meðal annars Yellowstone Park í Bandaríkjunum sem dæmi um stað sem friðaður væri með allsherjarlögum.

Þingvellir

Örn yfir Þingvöllum.

Árið 1913 ritaði Guðmundur Davíðsson þá grein sem átti eftir að ýta umræðunni um stofnun þjóðgarðsins á Þingvöllum úr vör. Greinin nefndist Þingvellir við Öxará og birtist í tímaritinu Eimreiðinni sem ritstýrt var af Valtý Guðmundssyni háskólakennara. Greinin var mjög beinskeytt og Guðmundur dró ekkert undan í lýsingum sínum af illri umgengni og skeytingarleysi landans á þessum sögufrægasta stað landsins, Þingvöllum. Hann ritaði í upphafi greinarinnar:

Þingvellir

Þingvellir – Skötutjörn.

“Fáir Íslendingar munu koma svo í fyrsta sinn á Þingvelli við Öxará, að eigi dáist þeir að náttúrufegurðinni og í hug þeirra vakni, endurminningar um helstu viðburði sem tengdir eru við sögu þessa merkisstaðar. Þetta tvennt, söguviðburðirnir og náttúrufegurðin hlýtur að snerta tilfinningar allra sem staddir eru á þessum fornhelga stað. Þar má segja að saman sé komið flest það sem einkennilegast og fegurst er í íslenskri náttúru og þar hafa einnig gerst margir merkustu viðburðirnir í sögu Íslendinga”
Í greininni rakti Guðmundur dæmi um þjóðgarða í Bandaríkjunum og í framhaldi af því nauðsyn þess að vernda bæri Þingvelli sem þá voru orðnir að vinsælum helgaráningarstað ferðamanna. Ekki var það þó fyrr en á árinu 1930 að brotið var blað í sögu náttúruverndar á Íslandi en þá var fyrsti þjóðgarðurinn á Íslandi stofnaður – Þjóðgarðurinn á Þingvöllum.

Þingvellir

Þingvellir – Þingvallakirkja.

Árið 1930 var Guðmundur Davíðsson ráðinn fyrsti þjóðgarðsvörðurinn á Þingvöllum og bjó hann þar þangað til 1940 er hann lét af störfum vegna heilsubrests. Hann fluttist þá til Reykjavíkur og gerðist starfsmaður Alþingis til ársins 1948.
Þingvellir eru í dag einn af fjölsóttustu ferðamannastöðum landsins þar sem hundruðir þúsunda gesta koma árlega til að kynnast betur einum mesta sögustað og náttúruperlu Íslands.
Víkingaöld er talinn hefjast um árið 800 og ljúka um 1050. Einkennandi fyrir þennan tíma er að þá tók norrænt fólk sér bólfestu allt frá Volgubökkum til austurstranda Norður-Ameríku og frá Miðjarðarhafi til Norður-Íshafs.-

Þingvellir

Þingvellir – Almannagjá.

Landnám Íslands var einn þáttur í þessum miklu og víðtæku þjóðflutningum. Landþrengsli og innanlandsátök í Noregi voru þættir sem leiddu til að margir tóku sig upp og lögðu út á hafið til Íslands. Í Íslendingabók Ara fróða segir að Ingólfur Arnarson hafi fyrstur numið land í Reykjavík sem mun hafa verið um árið 870.
Margir fylgdu í kjölfar Ingólfs og sáu þeir Ísland fyrir sér sem land nýrra tækifæra. Íbúum fjölgaði jafnt og þétt og að sama skapi jókst þörf á lögum og þar með einhverjum tilteknum stað þar sem menn gætu komið saman, sett niður deilur og sammælst um tilteknar reglur sem hafa bæri í heiðri. Nokkru eftir landnám voru tvö héraðsþing stofnuð á Íslandi, annað kennt við Þórsnes við Stykkishólm, hitt við Kjalarnes. Seinna voru fleiri héraðsþing stofnuð víðsvegar um landið.

Þingvellir

Þingvellir – Almannagjá.

Skömmu eftir árið 900 var farið að huga að þeim möguleika að stofna eitt allsherjarþing – Alþingi – áÍslandi. Nokkru fyrir árið 930 komu höfðingjar sér saman um að senda mann, Úlfljót að nafni, til Noregs. Erindi hans var að kynna sér lög og venjur sem hafa mætti að fyrirmynd í hinu nýja þjóðfélagi. Hann sneri aftur til Íslands og við hann eru kennd fyrstu lögin sem sögð voru upp á Alþingi – Úlfljótslög. Fóstbróðir Úlfljóts, Grímur geitskör, fór um Ísland til að afla fylgis við stofnun Alþingis sem og að finna hentugan þingstað. Niðurstaðan varð sú að þingið yrði í Bláskógum og sumarið 930 komu menn saman, þar sem nú heita Þingvellir, til að taka þátt í fyrsta Alþingi Íslendinga sem markar upphaf þjóðríkis á Íslandi.

Þingvellir

Þingvellir – Öxarárfoss.

Nokkrar ástæður eru taldar líklegastar fyrir vali þingstaðarins á Þingvöllum. Í landnámi Ingólfs Arnarsonar hafði verið stofnað þing á Kjalarnesi. Ættingjar hans voru valdamiklir og talið er að áhrifa þeirra hafi gætt við staðarval Alþingis. Á þjóðveldisöld lágu Þingvellir vel við helstu leiðum og þéttbýlustu svæðum á Íslandi og því auðvelt fyrir flesta að sækja þingið.
Aðstæður á Þingvöllum þóttu einnig heppilegar fyrir þing; góðir hagar, eldiviður og vatn. Þá þótti staðurinn henta vel fyrir sjálft þinghaldið sem slíkt þar sem brekka og sléttur völlur lágu upp að hamravegg.

Flosagjá

Þingvellir – Flosagjá.

Einnig er nefnd frásögn í Íslendingabók Ara fróða af Þóri kroppinskegg sem átti land í Bláskógum. Hann myrti þræl sinn en í refsingarskyni var allt land hans gert að allsherjareign til afnota fyrir þingið.Um tveggja vikna skeið á sumri hverju reis lítið samfélag á Þingvöllum. Þangað streymdi fólk allsstaðar að, fólk sem vildi taka þátt í samkomu sem átti engan sinn líka á Íslandi. Orðatiltækið “nú er þröng á þingi” má líklega rekja til þingsins þar sem fjölmennt var þegar hæst stóð. Samkvæmt talningu Gissurar biskups Ísleifssonar voru þingfararkaupsbændur um 4000 talsins við lok 11.aldar. Þar sem goði gat krafið níunda hvern bónda þingreiðar voru allt að 500 þingfarakaups-bændur skyldugir að fara með með goða sínum til þings við lok elleftu aldar. Goði átti að styðja þá þingmenn sem sögðu sig í goðorð með honum en á móti studdu þingmenn goða sinn á þingum og í deilum. Goðar áttu að sjá þingmönnum sínum fyrir rými í búð sinni en aðrir sem komu reistu skýli og tjöld til að dvelja í á meðan þingi stóð.

Þingvellir

Þingvellir – Snókagjá.

Á þjóðveldisöld voru ekki eingöngu þeir sem áttu lögskipað erindi til Alþingis sem þangað lögðu leið sína. Í hinni fornu lögbók Grágás eru nefndar búðir sútara og sverðskriða og í mörgum Íslendingasögum er getið búða ölbruggara og veitingamanna á Alþingi. Þann tíma sem Alþingi stóð yfir var það miðstöð þjóðlífs og einskonar höfuðstaður landsins þangað sem almenningur sótti. Þangað komu iðnaðarmenn og kaupmenn innlendir sem erlendir, fulltrúar erlendra þjóðhöfðingja, fólk í atvinnuleit og betlarar í leit að ölmusu. Kauphéðnar, sverðskriðar og sútarar buðu fram varning sinn og ölgerðarmenn sáu um að þingheimur gæti vætt kverkarnar. Fréttir voru sagðar úr fjarlægum heimshlutum, kappleikir háðir og veislur haldnar. Æskufólk réð ráðum sínum ekki síður en þjóðskörungar og lögvitringar.

Þingvellir

Þingvellir.

Þeir sem sóttu þing þurftu að leggja á sig erfið ferðalög til að komast til Þingvalla hvert sumar. Sumir áttu einungis um 1-2 daga reið meðan aðrir voru um 14-17 daga á leiðinni yfir fjöll og eyðisanda á hálendi Íslands. Þingvellir lágu vel við fornum leiðum, mitt á milli helstu héraða sunnanlands og vestan, vart nema dagleið ríðandi mönnum. Úr fjölmennustu byggðum norðanlands, Húnaþingi, Skagafirði og Eyjafirði lágu torfærulitlir vegir á þing. Norðlendingar eystri og jafnvel Austfirðingar völdu fjallvegi þvert yfir landið en lengsta þingsókn áttu menn úr sunnanverðu Múlaþingi.
Í dag eru grasivaxnar búðarústir víðsvegar um þinghelgina einu leifarnar eftir tæplega 900 ára sögu þingsins. Almennt er talið að búðir á þjóðveldisöld hafi verið stærri en þær sem voru reistar á síðari öldum Veggir voru gerðir úr torfi og grjóti og yfir búðina var reist trégrind þar sem var tjaldað yfir með vaðmáli eða öðru efni. Búðir voru iðulega reistar á grunni eldri búða og því eru flestar búðarústir sem sjást í þinghelginni frá seinustu tveimur öldum þingsins.

Skógarkot

Skógarkot.

Gangan hófst að þessu sinni ofan við Stekkjargjá norðan við Öxarárfoss. Milli hennar og Snókagjáar liggur flóraður stígur niður í gjána, Langistígur. Gagnheiðarvegur úr Borgarfirði og gamla gatan frá Norðlingavaði að vestan sameinast skammt ofan við þar sem stígurinn fer niður í gjána. Á leiðinni niður er fallega hlaðin brú. Einstaklega fallegt útsýni er í Stekkjargjánni þar sem stígurinn kemur niður í hana. Á barminum hægra megin hvílir tvíhöfða þurs er horfir annars vegar yfir gjána og hins vegar til himins.

Skógarkot

Í Skógarkoti.

Gengið um Efrivelli um Vallarstíg, á hlaðinni brú yfir Valagjá og áfram austur Skógarkotsveg áleiðis að Skógarkoti. Þessi kafli er um 1.8 km langur og er gamli bílvegurinn (sá fyrsti), sem lagður var norður á land um Þingvelli og Kaldadal. Enn þann dag í dag má fylgja honum frá Selvatni ofan við Reykjavík svo til alla leiðina í Borgarfjörð í gegnum vellina. Útsýni á þessari leið er stórbrotið, ekki síst fjalla- og vatnasýnin við Þingvelli. Skógarhólar voru á vinstri hönd skömmu áður en komið var að Skógakoti. Fallega hlaðin heimtröðin tekur á móti ferðalöngum og leiðir þá heim að bæjarstæðinu.

Skógarkot

Tóft í Skógarkoti.

Þar er bæjarhóll, hlaðinn kjallari hlöðu, brunnur, gerði og tóftir austar í túniu. Allt umhverfis er hlaðinn túngarður. Skógarkot er svo til miðsvæðis á Þingvöllum og því fallegt að horfa þaðan til allra átta; Botnssúlurnar, Ármannsfellið, Skjalbreið, Tindaskagi og Hrafnabjörg. Handan vatnsins er Arnarfell og Hengillinn. Háimelur sést í fjarska í vestri sem og Borgarklettarnir. Björn Th. Björnsson hefur m.a. ritað sögulega skáldsögu um lífið og fólkið í Skógarkoti.

Ölkofri

Ölkofri.

Ákveðið var að fylgja Veiðigötunni frá Skógarkoti, áleiðis að Þingvallavatni. Eftir spölkorn var komið að Hellishól og Hallshelli, hægra megin við stíginn. Hleðslur eru inni í hellinum og er honum að meginefni til haldið uppi af stórri náttúrulegri steinsúlu. Ekki er vitað hvort mannvistarleifar þessar hafi verið skoðaðar sérstaklega, en stutt er síðan hellirinn endurfannst.

Ölkofri

Ölkofri – Gamlistekkur.

Veiðigötunni var fylgt til baka inn á Gjábakkaveg. Honum var fylgt niður að Tjörnum norðan Vallavegar (þjóðvegurinn norðan Þingvallavatns. Á móts við Tjarnirnar liggur nær ósýnilegur stígur upp í landið, að Nýja Þingvalahelli, fjárhelli, sem þar er. Skammt suðvestan við hann er skúti. Gjábakkavegi var fylgt áfram að Böðvarshól ofan við norðausturhorn Þingvallavatns. Þar fyrir ofan hólinn er Þingvallahellir, einnig fjárhellir. Mjög er gróið fyrir opið og nær ómögulegt að finna það nema hafa kunnugan með í för.

Þingvellir

Á Þingvöllum.

Gjábakka vegi var fylgt til baka að Tjörnunum, en þar var strikið tekið yfir lyng og móa, milli trjáþyrpinga, upp á svonefndan Klukkustíg. Þeim stíg var fylgt til vesturs að Þórhallsstöðum. Bærinn kúrir suðaustan undir Ölkofrahól. Sennilega er bær þessi frægastur fyrir bruggtilraunir fyrr á öldum.
Klukkustíg var fylgt áfram til vesturs að Skógarkoti og Sandhólastíg síðan fylgt upp á Leirarnar sunnan við Þjónustumiðstöðina með viðkomu í Krókhólum.
Veður var frábært – sól og lygna. Gangan tók 2 klst og 22 mín.

Heimildir m.a.:
http://www.thingvellir.is

Ölkofra

Ölkofra – Þórhallsstaðir – loftmynd.