Tvö eru þau örnefni í Þingvallahrauni, sem einna erfiðast er að staðsetja af nákvæmni, þ.e. Gapi og Gaphæðaskjól, öðru nafni Hrauntúnsfjárskjól.
Tvennt kemur til; bæði eru Gaphæðir nokkrum öðrum nálægum hæðum líkar og auk þess þarf að standa svo til á barminum á niðurfallinu (jarðfallinu) er nefnt hefur verið Gapi, til að koma auga á það og það þrátt fyrir stærðina. Talið er að hæðirnar dragi nafn af tvennur; annars vegar hinu mikla jarðfalli og hins vegar af því að á þeim hefur skógur aldrei þrifist. Um er að ræða sléttar mosavaxnar helluhraunshæðir. Aðrar slíkar hæðir, keimlíkar, eru skammt suðvestar. Á þeim eru vörður, en engar á Gaphæðum. Þó er varða skammt sunnan þeirra, skammt frá Gaphæðaskjólinu. Framangreint átti allt eftir að koma í ljós við nánari landkönnun á svæðinu, en hún hófst við Klukkuhólsstíg ofan Hrafnagjár.
Gengið var til norðurs ofan Hrafnagjár. Ofar voru Gildrur á Gildruholti, efsta brún Gildruholtsgjáar. Presthóll blasti við framundan. Áður en komið var að efstu brúnum var gengið fram á gat í hraunhól. Innar sást í slétt gólf. Meðfylgjandi ljós fann ekki veggi eða endimörk. Ekki var staðnæmst að þessu inni við þessa uppgötvun heldur mun hún bíða betri tíma. Hinni ókönnuðu rás var gefið nafnið Hrafnagjárhellir.
Stuttu síðar var komið upp að fyrrum þjóðgarðsgirðingarmörkum, austanlægum. Girðingin, sem er sú eldri og innri af tveimur. Hún hafði verið tekin upp fyrir einhverju síðan, en leifar hennar þarna fyrir fótum ferðalanganna – sóðalegt og ótilhlýðilegt að hálfu þjóðgarðsyfirvalda.
Það, sem venjulega er nefnt Þingvallahraun, takmarkast að austan af Hrafnagjá, að norðaustan af Mjóafellshraunum og Ármannsfelli, að norðvestan af Almannagjá og að suðvestan af Þingvallavatni. Þar sem staðið var á hæstu brún Hrafnagjár sást til allra framangreindra kennileita. Að því búnu hallaði götunni til norðurs – í átt að ákvörðunarstað.
Nyrðri Svínhóllinn var þá á vinstri hönd. Auðkenni er há og myndarleg varða efst á kollinum. “Nokkurn spöl suðaustur af Svínhólum eru fyrrnefnd Gildruholt. Þau eru á vesturtakmörkum Hrafnabjargaháls. Hallar frá þeim í allar áttir, nema austur, en eru hærri miklu Svínhólum. Þau eru á austurbarmi Gildruholtsgjár, sem byrjar í Gjábakkahrauni, skammt austur af Hallstíg, og heitir Bæjargjá þangað til vegurinn liggur yfir hana á móts við Gjábakkabæ; svo fær hún hitt heitið norður fyrir Gildruholt. Þar hverfur hún á dálitlum kafla, og heita þar Hlíðarflár. Bilið milli Hrafnagjár og Gildruholtsgjár heitir einu nafni Torfa. Gildruholtsgjá er að því leyti frábrugðin Hrafnagjá og Almannagjá, að vestri barmur hennar hefur sigið rétt niður með þeim eystri án þess að gjáin opnaðist nokkuð að ráði, svo að þar getur fremur kallast berg en gjá. Hlíðarflár eru dálítill blettur vestan í Hrafnabjargahálsi. Norður af þeim opnast gjá mikil, sem heitir Hlíðargjá, sést fyrir henni alla leið inn í Skjaldbreið, og heitir Söðulhólagjá fyrir norðan Prestastíg. Vesturbarmur hennar er að mestu eins og áðurnefndur Hallur, hann er hærri en hraunið að vestanverðu, og heitir Raftahlíð allt að Prestastíg.
Norður af Svínhólum hallar hrauninu talsvert til norðurs og norðvesturs. Þar eru Gapahæðir, syðri og innri; á milli þeirra er skógarlítið svæði. Þar er hóll einn sérstakur, holur að innan, sem hæðirnar bera nafn af; ofan í hann er op stórt og heitir því Gapi.”
Gapi er rétt vestan við “girðingargötuna”. Á göngunni þangað var verið að vega og meta hvort hafði komið á undan; gatan eða girðingin. Líklegra var að girðingin hafi verið lögð með gamalli götu því hún liggur frá norðurtúnmörkum Gjábakka yfir að suðausturhorni Ármannsfells, eðlilegasta leið þeirra er þá lieð hafa þurft að fara.
Gapi er allnokkurt jarðfall. Í jöðrum þess eru góð skjól, einkum að austanverðu. Í því voru fúaspítur. Greinilegt var að gengin hafði verið eina leiðin niður í jarðfallið, að slútandi skjólunum. Gapi er í raun hið ágætasta skjól fyrir öllum veðrum á væntanlega fjölfarinni leið fyrrum.
Skammt sunnar eru grónar brekkur utan í lágum hæðum. Í einni þeirra er grunnt fjárskjól; Hrauntúnsfjárskjólið, öðru nafni Gaphæðaskjólið.
Í örnefnalýsingu fyrir Þingvallahraun segir um þetta: “Rétt hjá honum [Gapa] er annar hellir í flötum bala, sem hafður var til fjárgeymslu frá Hrauntúni, þó illur væri. Innri-Gapahæð snýr meira til norðurs og suðurs en sú syðri og er skógarlítil. Að vestan og norðan við Gapahæðir eru flatir hellubalar, mosavaxnir, með lautum og slökkum, og skógarrunnum og hríslum í brúnunum, nema á litlu svæði norður með Raftahlíð eða Hlíðargjá, sem getur fremur heitið heiði eða móar allt norður að Prestahrauni. Það er nokkuð stór brunahraunsblettur með skörpum brúnum. Vestur af Prestastíg, sem er á h. u. b. miðri Hlíðargjá, er Hlíðarstígur.”
Hlíðargjáin er þarna skammt austar. Þá var stefnan tekin til suðurs, milli Svínhóla að austan og Flekkuhóls að vestan. “Austur af Flekkuhól, norður frá Selstíg, eru tveir stórir, sérstakir hólar með litlu millibili. Þeir heita Svínhólar. Þar er Þingvallahraun hæst og hallar þaðan í allar áttir, nema austur. Er þaðan víðsýni mikið. Suðaustur af Svínhólum, norðaustur af Hrafnagjárenda, er allstór hóll, sem Rauðhóll heitir. Fyrir norðan Svínhóla kemur Hrafnagjá aftur í ljós, þó miklu sé hún minni en að sunnanverðu, og heitir nú Gaphæðagjá, og í Innri-Gapahæð hverfur hún alveg.” Sem sagt; ágætt staðfestingarvegarnesti á bakaleiðinni.
“Norður að Ketilhöfða heita Sláttubrekkur. Mosalág er laut stór eða dalur norðan undir Höfðum, vestan undir Sláttubrekkum. Norðan við hana heitir Magnúsarklettsskógur. Vestan við hana er Mosalágarhæð, stór grjótbali, sem snýr h.u.b. í norður og suður.” Þegar gengið var til baka var einmitt gengið um þessar Sláttubrekkur. Frá þeim liggur greinileg gata til suðvestur, með stefnu á Skógarkot. Þetta getur vel staðist því landamerkjavörðuröð Skógarkots og Hrauntúns eru einmitt norðan brekknanna. Efsta varðan er á Nyrðri Svínhól. Önnur greinileg gata liggur til suðurs. Henni var fylgt niður á Hellishæð.
“Austan frá Sláttubrekkum, norður af Hellishæð, er Flekkuhóll; er hann stór um sig, með smáhólum og lautum, allt skógi og grasi vaxið. Norður af honum og Sláttubrekkum er Bruni; var þar eyða mikil í skóginn, sem stafaði af því, að kviknað hafði í reiðing á hesti og eldurinn komizt í skóginn. Það mun hafa skeð um 1859 (eða ’60). Var sá blettur þrautbeittur á vetrum; voru þar oft hagar, þótt litlir væru annars staðar, og færð betri, því að þar reif snjó meira, vegna skógleysis. Þrátt fyrir beitina óx þar aftur skógur smátt og smátt; um aldamót voru komnir runnar um allan blettinn, en sást þó mjög greinilega fyrir honum. Um 1930 sást hann tæplega eða alls ekki.” Ekki var farið í Hellishæðarhelli (fjárskjól) að þessu sinni.
Víða í Þingvallahrauni má sjá uppistandandi steinsteypt skolprör; stein- og steypufyllt. Efst trjónir koparplata, tvígötótt. Þarna mun vera um að ræða mælingarstanda er gefa áttu til kynna bæði landrek og hæðarstöðu svæðisins, en eins og mörgum er kunnugt eru Þingvellir á sprungurein Atlantshafshrygjarins er gengur svo til á ská í gegnum landið. Hvað hefur svo komið út úr niðurstöðum þessara fyrirhafnasömu rannsókna er ekki vitað. Áhugavert væri – ef einhver tilstandandi gæti gefið einhverjar upplýsingar um rannsóknir þessar – myndi hafa samband við ferlir@ferlir.is.
Rétt áður en komið var að Hellishæð var helsta einkennið sprunginn klapparhóll. Í örnefnalýsingunni segir að “norðvestur frá Litlu-Hellishæð er stór, sundurtættur klappahóll, sem heitir Ketilhöfðaklettur”.
Þegar gengið var að upphafsreit mátti vel sjá Klukkustíginn. “Klukkustígur hverfur í hallinn á vestri barmi Hrafnagjár. Alla leið þangað frá Hallstíg er gjáin djúp, breið og að öllu hin hrikalegasta. Þar fyrir norðan verður austurbarmurinn hár á dálitlum kafla, en vesturbarmurinn nær því jafn hrauninu, enda hækkar það þar á ný og hallar mót suðvestri; heitir sá halli Sigurðarsel. Sunnan í því er stór og falleg brekka, sem heitir Sigurðarselsbrekka; suður frá henni, vestur af Klukkustíg, er stór hóll, sem heitir Klukkustígshóll. Á gjánni, þar sem barmar hennar eru orðnir jafnir, er Selstígur; þar norður frá eru fornar tóftir, sem máske hafa verið hið virkilega Sigurðarsel. Skógur var um 1900 stærstur og sverastur í Sigurðarseli, en þar fyllist fljótt að snjó, sjerstaklega í norðaustan hríðum. Við norðvesturhorn Sigurðarsels er Hellishæð.”
Allt gekk framangreint vel upp m.v. lýsinguna. Af grasgróningunum undir Hrafnagjá má telja víst að þar hafi verið nytjar frá Sigurðarseli, en jafnframt má álykta að selstaðan hafi verið þar sem nú er fjárskjólið við Klukkustígshól.
Frábært veður. Gangan tók 4 klst og 4 mín.