Færslur

Þingvellir

Skammt frá fyrrum Valhöll á Þingvöllum, fast vestan við brúna yfir Öxará, er skilti þar sem gestir eru boðnir “Velkomnir til Þingvalla “með eftirfarandi boðskap:

Þingvellir

Þingvellir – yfirlit.

“Þingvellir við Öxará er merkasti sögustaður Íslands og hvergi kemur saga lands og þjóðar fram með sterkari hætti. Hér var Alþingi stofnað um árið 930 og kom það hér saman árlega allt til ársins 1798. Margir merkustu atburðir Íslandssögunnar urðu hér, svo sem kristnitakan árið 1000 og stofnun lýðveldisins Íslands árið 1944. Því skipa Þingvellir sérstakan sess í hugum Íslendinga. Árið 1930 voru Þingvellir friðlýstir og þjóðgarður stofnaður en árið 2004 var þessi helgistaður allra Íslendinga samþykktur á heimsminjaskrá Menningarstofnunar Sameinuðu þjóðanna, UNESCO.

Þingvellir

Náttúra Þingvalla er talin einstök.

Náttúra Þingvallasvæðisins er einstök í heiminum. Jarðfræði svæðisins og vistkerfi Þingvallavatns, stærsta náttúrulega stöðuvatns Íslands, mynda dýrmæta heild. Lífríki vatnsins er auðugt en vatnasvið Þingvalavatns sem er um 1300 km2 hefur að geyma gríðarlega auðlind fyrir komandi kynslóðir. Þingvellir eru hluti flekaskila Atlantshafshryggjarins sem hvergi er eins sýnilegur í veröldinni og einmitt hér. Þá má sjá í fjölmörgum sprungum og gjám svæðisins og gliðnun þess sem sífellt á sér stað.

Alþingi stofnað

Þingvellir

Frásagnir eru til um fjölbreytta skemmtan og þjónustu á þingtímanum.

Þú stendur nú á mörkum þinghelginnar þar sem meginstörf hins forna Alþingis fóru fram. Hér sagði lögsögumaður upp lög þjóðveldisins á Lögbergi og goðar landsins sátu ásamt ráðgjöfum sínum í lögréttu. Innan þinghelginnar áttu allir menn að njóta friðar en grasivaxnar rústir búða sem tjaldað var yfir, vitna um þau híbýli sem þingheimur dvaldist í meðan þing stóð.
Fljótlega eftir landnám um 870 fóru landnámsmenn Íslands að velta fyrir sér möguleikum varðandi stjórnskipan og uppbyggingu samfélags á Íslandi. Eftir norrænni fyrirmynd voru héraðsþing stofnuð, það fyrsta í landnámi fyrsta landnámsmannsins, Ingólfs Arnarsonar á Kjalarnesi.

Þingvellir

Þingvellir – Lögberg til forna.

Í Íslendingabók er sagt að maður einn, Úlfljótur að nafni, hafi farið Noregs til að kynna sér lagasetningu og við hann voru kennd fyrstu lögin sem sögð voru upp á Alþingi, Úlfljótslög. Einnig er sagt í Íslendingabók að Grímur geitskör, hafi verið ábyrgur fyrir þeirri ákvörðun að hentugast væri að velja Þingvelli fyrir þing þar sem menn gætu komið saman af landinu öllu.
Heimildir um þinghald landsmanna á þjóðveldistímanum (930-1262/64) bera þjóðskipulagi og réttarvitund germanskra þjóða vitni. Alþingi er einstakt meðal forna germanska þinga sökum þess hve heimildarstaða um þinghaldið er ríkulegt. Þar munar mest um lagasafnið Grágás sem gefur einstaka sýn inn í réttarvitund miðaldamanna. Í grunninn var samfélagsskipanin þó byggð á trúnaðarsambandi milli höfðingja og á sambandi frjálsra bænda.

Hvers vegna Þingvellir?

Þingvellir

Þingvellir – Öxarárfoss.

Líklega voru ástæður þess að Þingvellir voru valdir sem þingstaður landsmanna nokkrar. Vellirnir lágu vel við öllum helstu leiðum sem þá voru notaðar til ferðalaga milli landshluta. Ferðalag til Alþingis gat þó tekið um og yfir tvær vikur fyrir þá sem lengst þurftu að ferðast. leiðin lá oft yfir þvert hálendi landsins þar sem veður gátu verið válynd. Einnig var hér nægur eldiviður, hagar fyrir búfénað og vatn til drykkjar. Í Sturlungu er að nefnt að fornmenn hafi breytt árfarvegi Öxarár þannig að hún félli á vellina til þess a tryggja þingheimi aðgang að rennandi vatni.

Þingvellir í Íslendingasögum
Þingvellir koma víða við sögu í íslenskum miðaldabókmenntum. Þekktustu kappar Íslandssagnanna, Gunnar Hámundarson á Hlíðaenda og Egill Skallagrímsson, eru dæmi um það.

Þingvellir

Horft til norðurs yfir þingstaðinn.

Í Njáls sögu er Gunnar sagður hafa hitt hina skörulegu Hallgerði hér á völlunum: “Það var einn dag er Gunnar gekk frá Lögbergi. Hann gekk fyrir neðan Mosfellingabúð. Þá sa hann konur ganga á móti sér og vour vel búnar. Sú var í fararbroddi konan er best var búin. En er þau fundust kvaddi hún þegar Gunnar. Hann tók vel kveðju hennar og spurði hvað kbenna hún væri. Hún nefndist Hallgerður og kvaðst vera dóttir Höskulds Dala-Kollssonar. Hún mælti til hans djarflega og bað hann segja sér frá ferðum sínum en hann kvaðst ekki varna mundu henni máls. Settust þau þá niður og töluðu. Hún var svo búin að hún var í rauðum kyrtli og var á búningur mikill. Hún hafði yfir sér skarlatsskykkju og var búin hlöðum í skaut niður. Hárið tók ofan á bringu henni og var bæði mikið og fagurt.

Þingvellir

Búð á Þingvöllum.

Gunnar var í tignarklæðum þeim er haraldur konungur Gormsson gaf honum. Hann hafði og hringinn á hendi Hákonarnaut. Þau töluðu lengi hátt. Þar kom er hann spurði hvort hún væri ógefin”.
Og Egils saga segir frá Agli Skallagrímssyni á gamals aldri þegar hann vill ríða til þings: “Ég skal segja þér.” kvað hann, “hvað eg hefi hugsað. Eg ætla að hafa til þings með mér kistur þær tvær, er Aðalsteinn konungur gaf mér, er hvortveggja er full af ensku silfri. Ætla eg að láta bera kisturnar til Lögbergs, þá er þar er fjölmennast, síðan ætla eg að sá silfrinu, og þykir mér undarlegt, ef allir skipta vel sín á milli; ætla eg, að þar myndi vera þá hrundingar, eða pústrar”.

Samkomustaður landsmanna

Þingvellir

Hestaat var stundað til forna.

Um tveggja vikna skeið í síðari hluta júnímánaðar ár hvert lifnuðu Þingvellir við þegar margmenni streymdi til Alþingis. Frásagnir eru til um fjölbreytta skemmtan og þjónustu við þingheim. Ýmis varningur var boðin til sölu og veislur voru haldnar. Kaupahéðnar, sverðskriðar og sútarar buðu vörur og þjónustu, trúðar léku listir og ölgerðarmenn sáu um að þingheimur gæti vætt kverkarnar.

Þingvellir

Tekist var á í leik og alvöru á Alþingi hinu forna.

Fréttir voru sagðar úr fjarlægum landshlutum og kappleikar háðir. Lausamenn leituðu sér atvinnu og ölmusufólk baðst beininga. Þingvellir voru samkomustaður allra landsmanna, þar var grundvöllur lagður að tungu og bókmenntum sem verið hafa snar þáttur í menningu Íslendinga allar götur síðan.

Þingvellir

Á tíundu öld háðu kappar þjóðveldistímans einvígi í Öxarárhólma, en hólmgöngur voru aflagðar eftir kristnitöku árið 1000.

Eitt er víst að Þingvellir voru með sönnu samkomustaður landsmanna um aldir, frá 930 til 1798, þó að á síðari öldum hafi umsvif þinghaldins dregist saman og störf þess einkum takmarkast við dómsstörf og refsingar. Á síðari hluta 19. aldar og á 20. öld tengdust Þingvellir sterkt sjálfstæðisbaráttu Íslendinga og öðluðust því sess sem sérstakur hátíðarsamkomustaður landsmanna.
Þrátt fyrir marga kosti þess að finna Alþingi stað á Þingvöllum hefur jarðfræði svæðisins haft erfiðleika í för með sér. Landsig Þingvallasigdældarinnar, sem ætla má að hafi verið um 4 metra frá því að Alþingi var stofnað um 930, hefur gert það að verkum að vatn hefyr gengið upp í þinghelgina. Talið er að kirkjan á Þingvöllum hafi verið færð vegna vatnságangs á 16. öld og Lögrétta var einnig færð vegna vatnsflaums árið 1594. Hún var þá við að eingangrast á hólma út í miðri Öxará. Mikið landsig olli frekari vandræðum í jarðskjálfahrinu árið 1789 þegar tún fóru undir vatn og gjár opnuðust. Þá seig land um 2 metra þar sem mest var.

Þingvallakirkja og bær

Þingvellir

Þingvallabærinn, kirkjan og þjóðargrafreiturinn.

Það var Ólafur helgi Noregskonungur sem fyrstur stóð fyrir því að kirkja væri reist á Þingvöllum. Hann sendi við í kirkju og kirkjuklukku til landsins nokkru eftir kristnitöku árið 1000. Núverandi kirkja á Þingvöllum var vígð 1859 en turn hennar var endurbyggður árið 1907. Bak við Þingvallakirkju er þjóðargrafreitur Íslendinga sem var hlaðinn árið 1939. Þar hvíla skáldin Jónas Hallgrímsson og Einar Benediktsson.
Þingvallabærinn var reistur fyrir 1000 ára afmæli Alþingis á Þingvöllum árið 1930, en nú er hann í notkun þjóðgarðsins og forsætisráðherra. Tveimur burstum var bætt við bæinn árið 1974 fyrir þjóðhátíð þar sem Íslendingar minntust ellefuhundruð ára afmælis byggðar á Íslandi.”

Þingvellir

Þingvellir – skiltið við Öxará.

Þingvellir

Á skilti við Þingvallabæinn má lesa eftirfarandi fróðleik: “Þingvallabær er opinber sumardvalur forsætisráðherra. Hann er jafnframt notaður fyrir móttökur á vegum forsætisráðherra.

Þingvellir

Þingvellir – skilti.

Á Þingvöllum hefur líklega staðið skáli að fornu en á 19. öld stóð þar gangabær sem sneri stöfum til suðurs. Sbemma á 10. öld voru Þingvellir teknir til afnota fyrir Alþingi og var þá öllum sem þingið sóttu þar frjáls ummgangur. Þingvellir þóttu góð jörð til úsetu enda skógurinn nýttur til kolagerðar og beita að vetri til. Jörðinni fylgdi silungsveiði í Þingvallavatni og Öxará. Töldust jarðirnar Skógarkot, Hrauntún, Arnarfell, Svartagil og Vatnskot hjáleigur Þingvalla.

Þingvellir

Þigvellir – konungshúsið.

Konungshúsið var reist á völlunum skammt fyrir neðan Öxarárfoss árið 1907 fyrir komu Friðriks VIII. Næstu ár eftir konungsheimsóknina var húsið leigt út til veitingasölu. Fyrir Alþingishátíðina 1930 var húsið flutt á ís suður yfir Öxará að Þingvallavatni og gistu Kristján X og Alexandrína drottning þar yfir Alþingishátíðina 1930. Eftir það dvöldu ráðherrar í Konungshúsinu að sumarlagi, einkum forsætisráðherra. Konungshúsið brann í eldsvoða 10. júlí 1970 og fórust þar þáverandi forsætisráðherra, Bjarni Benediktsson, Sigríður Björnsdóttir eiginkona hans og ungur dóttursonur Benedikt Vilmundarson.

ÞingvellirNúverandi Þingvallbær var byggður árið 1930 eftir teikningu Guðjóns Samúelssonar. Fyrst voru reistar þrjár burstir og voru ær nýttar þjóðgarðsverði til úsetu sem jafframt var prestur Þingvallakirkju. Eftir bruna Konungshússins var ákveðið að byggja tvær burstir við Þingvallabæinn. Hefur forsætisráðherra frá 1974 haft opinberan sumardvalarstað í Þingvallabænum. Þjóðgarðsvörður hætti búsetu í Þingvallabænum 1995 og var þá tveimur burstum bætt undir forsætisráðuneytið. Í nyrstu burstuni er aðstaða fyrir þóðgarðsvörð og prest Þingvallakirkju.

Þingvellir

Þingvellir 1882.

Kirkja hefur verið á Þingvöllum frá því skömmu eftir kristnitöku árið 1000. Í Kristnisögu er þess getið að Ólafur helgi Noregskonungur, sem kom til valda árið 1015, hafi gefið sérvalin kirkjuvið til að reisa kirkju á Þingvöllum. Ekki er vitað með vissu hvar sú kirkja stóð en þ.e. þingmannakirkja og búendakirkja. Rannsóknir haf asýnt fram á að kirkjan hafi verið færð á staðinn, þar sem hún stendur nú, um 1500. Núverandi Þingvallakirkja var byggð árið 1859 og vígð á jóladag sama ár. Turninum var bætt við árið 1907. Þar eru þrjár klukkur, ein forn án ártals, önur gefnin kirkjunni af Jóni Vídalín biskupi árið 1698, og sú þriðja er “Íslandsklukkan” frá 1944.

ÞingvellirTil austurs á bal við kirkjuna er Þjóðargrafreiturinn. Garðurinn var teiknaður af Guðjóni Samúelssyni og hófst gerð hans 1940. Þar hvíla bein skáldanna Jónasar Hallgrímssonar (1807-1845) og Einars Benediktssonar (1864ö1940).

Kirkjugarður hefur verið á Þingvöllum um aldir og er elsta minningarmerkið yfir séra Þórð Þórleifsson (d. 1676). Garðurinn hefur verið fyrir meðlimi sóknarinnar. Hér hvíla sumir fyrrum ábúendur ýmissa býla sem núr eru komin í eyði. Síðasti prestur sem borinn var til moldar hér var sér Heimir Steinsson (d. 2000) sem jafnframt gegndi embætti þjóðgarðsvarðar.

Þingvellir

Þingvellir 2023.

Í tengslum við 150 ára afmæli kirkjunnar árið 2009 var ráðist í að endurhlaða stóran hluta af umgjöð kirkjugarðsins. Um leið var smíðað nýtt sáluhlið sem teiknað var eftir gömlum ljósmyndum frá Þingvöllum. Nemendur í Iðnskólanum í Hafnarfiirði smíðuðu hliðið og spreyttu sig þannig á gömlu handvirki undir stjórm kennara skólans.”

Þingvellir

Þingvellir.

Þingvellir

Alþingi var stofnað á Þingvöllum við Öxará árið 930. Það er elsta stofnun íslensks samfélags. Þingið, þinghaldið og hlutverk Alþingis í samfélaginu hafa tekið miklum breytingum frá upphafi.

Alþingishátíðin var haldin á Þingvöllum á Íslandi árið 1930 til að minnast þess að þúsund ár voru liðin frá stofnun allsherjarþings 930. Hátíðin var formlega sett af Kristjáni 10. 26. júní og var slitið 28. júní. Um 40 þúsund manns sótti hátíðina.

Alþingi

Hátíðarblað Morgunblaðsins 1930.

Í tilefni af eitt þúsund ára afmæli Alþingis árið 1930 gaf Morgunblaðið út sérstakt Hátíðarblað. Þar var m.a. að finna greinar eftir Eggert (Eiríksson) Briem, búfræðingur og bóndi í Viðey, og Einar Arnórsson, ráðherra Íslands 1915–1917 og dóms- og menntamálaráðherra 1942–1944, um sögu þessarar merku stofnunar.

“Á 1000 ára afmæli Alþingis og hins íslenska ríkis, er rjett að horfa yfir farinn veg og íhuga, hvernig þjóðarhögum vorum er nú komið. Í þessu blaði er gerð nokkur tilraun að gefa lesendum útsýn yfir stofnun og þróunarsögu Alþingis og jafnframt yfir nokkra helstu þætti þjóðlífsins — atvinnuvegi og þjóðmenningu.
Er hjer brugðið upp nokkrum myndum frá niðurlægingartímunum, en meiri alúð hefir þó verið lögð við það, að lýsa hinu stutta framfaraskeiði þjóðarinnar, og hvernig umhorfs er í landinu.

Þingvellir

Þingvellir.

Hjer er ekki um nein tímamót að ræða, nema að árum. Þjóðin er í önnum, og alt ber þess vitni, hvert sem litið er. Alt er hjer eins og hálfgert, líkt og um miðjan bjargræðistíma — framfarirnar í miðju kafi eins og hálfsögð saga. En einmitt vegna þess, hefir sú kynslóð, sem nú er uppi, bjargfasta trú á landinu — að hjer sje enn ófundin margskonar auðæfi, að hjer sje nóg orka til þess að vinna þau verk, er hafið geti hina fámennu þjóð til vegs og gengis á komandi öldum.”

Alþingi hið forna – Eggert Briem (1879-1939)

Alþingi“Eins og kunnugt er, er mönnum orðið ljóst, að Alþingi sje framhald og ávöxtur af Kjalarnesþingi, og að Þorstein Ingólfsson beri því að telja þann manninn, er upptök og framkvæmdir átti að því, að Alþingi komst á. Um tilhögun Alþingis í öndverðu eru aftur á móti skiftar skoðanir. Greinir menn á um það, hvort í upphafi hafi aðeins ein stofnun verið á þinginu, lögrjetta, eins og var í Noregi, eftir þeim fornu lögum Noregs, sem til eru, eða skipaður hafi verið jafnframt sjerstakur alþingisdómur. Þetta atriði og aðra skipun Alþingis, sem um er deilt, hefi jeg rannsakað undanfarin ár, og hafa þær rannsóknir leitt til algerlega nýrrar niðurstöðu. Skal hjer í stuttu máli drepið á sumt af því helsta, þótt hjer sje ekki rúm til að rökstyðja það nema að litlu leyti, nje heldur að skýra frá skoðunum annara og gera samanburð á þeim og niðurstöðu rannsókna minna.

Eggert (Eiríksson) Briem

Eggert (Eiríksson) Briem – 1879-1939.

Höfðingjavaldið er það, sem einkennir Alþingi hið forna. Höfðingjar þeir, sem með völdin fóru á þinginu, víðsvegar af landinu, voru upphaflega 36 að tölu. Voru þeir kallaðir landsmenn á sama hátt og höfðingjar fjórðunganna ettir fjórðungaskiftingu voru kallaðir fjórðungsmenn. Þeir 36 landsmenn, sem með völdin fóru á Alþingi, ræddu þar og rjeðu allsherjarmálum þjóðarinnar til lykta. En til þess að dæma einkamál manna, nefndi hver landsmaður einn dómanda meðal þingmanna sinna í sjerstakan alþingisdóm, er dæmdi málin.

Þessi tilhögun er frum-germönsk, eða sú tilhögun er ríkti meðal Germana samkvæmt elstu heimildum. Þar er rit Tacitusar, „Germania”, frumheimildin. En svo sem kunnugt er, hefir frásögn hans í XI. kap. ritsins verið skilin svo, að hann segi þar, að allir frjálsir menn á þingum Germana hafi tekið fullnaðarákvörðun um stórmálin.

Alþingi

Frá Alþingishátíðinni á Þingvöllum 1930.

En jeg hefi komist að raun um, að þetta er misskilningur og hægt er að sanna, að tilhögunin var í þess stað sú, að kynbornir höfðingjar rjeðu þar stórmálum til lykta, en nefndu aftur þingmenn sína í dóm, eins og átti sjer stað á Íslandi.
Þessi tilhögun skoða jeg því að enginn vafi geti leikið á, að einnig hafi ríkt í Noregi fyrir daga Haralds hárfagra, og svo sem jeg hefi leitt nokkur rök að í bók minni um Harald hárfagra, þá er ástæða til að ætla, að í Frostaþingslögum hafi höfðingjavaldið fyrir hans daga bygst á mannaforráðum, eins og á Íslandi.

Þar sem Alþingi er frum-germönsk stofnun, er þekkingin á stjórnarskipun Íslands fyrstu aldirnar ekki aðeins mikilsverð fyrir Íslendinga sjálfa, heldur einnig allar aðrar þjóðir, sem af germönsku bergi eru brotnar, til þess að skilja sem gerst sögu þeirra frá elstu tímum og fram á þennan dag.

Alþingi

Frá Alþingishátíðinni á Þingvöllum 1930.

Frelsi og frjálsræði var aðalundirstaða fjelagslífsins á Íslandi í fornöld. Þeir, sem mannaforráð höfðu, voru fullvalda höfðingjar hver um sig, og allsherjarríkið grundvallaðist á frjálsu bandalagi þeirra, þannig að höfðingjunum var frjálst að segja sig úr lögum hverjir við aðra, eins og fram kom á Alþingi árið 1000, þegar deilt var um trúna. — Undirmönnunum var á sama hátt frjálst að skifta um höfðingja og gerast þegnar þess höfðingja, er þeir kusu helst að þjóna, ef hann vildi við þeim taka. í þessu var hið forn-germanska lýðfrelsi fólgið.

Alþingishátíðin 1930

Alþingishátíðin 1930.

Þessi tilhögun, sem ríkti á Íslandi rúmar þrjár aldir, er að mínu áliti merkilegustu leifar hins forn-germanska fjelagslífs, sem sögur fara af. Mannaforráðin kenndu almenningi, að gera sjer grein fyrir, að það er ekki sama, hvernig stjórnað er, og meta það, hversu mikils virði það er fyrir fjöldann, að vel sje stjórnað. Þeir höfðingjar, er ekki voru hæfir til þess að fara með völd, urðu að þoka fyrir hinum, er sýndu það í verki, að þeir kunnu að stjórna fólki. Afleiðingin varð því sú, að höfðingjaættirnar urðu úrvalsættir að ættgöfgi og stjórnviska var í hávegum höfð.

Alþingishátíðarpeningar 1930

Alþingishátíðarpeningar 1930.

Svo sem kunnugt er, telja menn, að aðalstofnun Alþingis hafi verið lögrjetta, og lögberg hafi einungis verið heiti á auglýsingastað þingsins. En rannsóknir mínar hafa leitt til þess að lögberg hafi jafnframt verið heiti á þingstofnun, er dregið hafi nafn sitt af staðnum, þar sem hún hafði aðsetur. Og niðurstaðan er, að þessi þingstofnun hafi ekki aðeins verið lögbirtingasamkoma þingsins, heldur aðalstofnun Alþingis, þangað sem öllum málum, er fyrir þingið voru lögð, hafi fyrst verið beint, með því að upphaflega hafi allar athafnir þingsins utan lögbergs verið þar ákveðnar og þaðan hafnar.

Alþingishátíðarpeningar 1930

Alþingishátíðarpeningar 1930.

Hjer er ekki rúm til að rökræða þessa athugun mína, um tilhögun hins forna Alþingis, en á hinn bóginn vil jeg verða við þeim tilmælum, að skýra í fám orðum frá niðurstöðu minni um það, hvert hafi verið verksvið þeirra tveggja stofnana, lögbergs og lögrjettu, er jeg skoða að á Alþingi hafi verið, þegar það var í upphafi sett. Lögbergsstofnunin var skipuð þeim 36 landsmönnum, er æðstu völd höfðu í landinu. Lýsingar saka og stefnur voru því aðeins lögmætar, að þær væru sagðar fram „at lögbergi”, sem þýðir: á lögbergsfundi. Til þess að þessir lögbergsfundir væru lögmætir, útheimtist, að meirihluti hinna 36 landsmanna, er lögbergsstofnunina skipuðu, væru á fundi, ásamt lögsögumanni.

Alþingishátíðarpeningar 1930

Alþingishátíðarpeningar 1930.

Sama gilti og um dómnefnuna, er fór fram í Hamraskarði þar á fundarstaðnum út frá lögbergi, sem alþingisdómurinn sat og dæmdi málin, jafnskjótt og höfðingjarnir höfðu tekið fundarályktun um að dómurinn skyldi taka til starfa. Voru málin upphaflega sótt og varin á lögbergsfundum og þar dæmd. Lögsagan fór fram að lögbergi og urðu þá allir landsmenn að vera á fundi. En ef þeir höfðu ekki tóm til þess, urðu þeir að láta báða umráðamenn sína í lögrjettu hlýða á uppsöguna í sinn stað. Þegar lagabreytingum eða nýmælum var hreyft á Alþingi, Voru þau mál fyrst lögð fyrir lögbergsfund, og borin fram af einhverjum landsmanni. Að umræðu lokinni var það borið undir atkvæði landsmanna, hvort máli skyldi vísað til lögrjettunnar, eða ekki. Að lögbergi rjeð afl atkvæða, og var mál fallið á þinginu, ef því var ekki vísað þar til lögrjettunnar.

Alþingishátíðarpeningar 1930

Alþingishátíðarpeningur 1930 – framhlið.

Linun eða eftirgjöf á refsingum og aðrar undanþágur, er veittar voru á Alþingi, hjetu einu nafni lof eða alþingislof í fornöld. Hjet það ýmist sýknulof eða sýknuleyfi, er sekum manni var gefin upp sekt hans. Sáttaleyfi var það kallað, er Alþingi veitti mönnum leyfi til að sættast, en slíkt leyfi var nauðsynlegt, er um víg var að ræða eða áverka veittan á þingi, og fleiri sakamál, er þungar refsingar lágu við, því að öðrum kosti var sáttin ólögleg.
Öll alþingislof ætla jeg að upphaflega hafi verið veitt að lögbergi og oltið þar á því, hvort meiri hluti fjekst fyrir því, að lof skyldi veitt eða ekki. Lögrjettu skipuðu eins og lögberg hinir 36 landsmenn, en jafnframt höfðu þeir þar hver um sig tvo umráðamenn, eða einskonar ráðgjafa, eða ráðuneyti, til þess að vera þar í ráðum með sjer um það mál, er fyrir lá.

Alþingishátíðarpeningar 1930

Alþingishátíðarpeningur 1930 – framhlið.

Þar fór fram síðari umræða um löggjafarmálin, en gagnstætt því, sem átti sjer stað að lögbergi, að þar rjeð afl atkvæða, þá ultu úrslitin í lögrjettu á því, að samkvæði væri goldið við lagabreytingu, eða nýmæli. Fengist samkvæði, var frumvarpið þar með samþykkt, en ef einn eða fleiri stóðu á móti, var málið aftur á móti fallið. Þetta stafaði af því, að bandalagið um allsherjarlögin bygðist á frjálsum grundvelli. Það var ósamboðið hverjum höfðingja að lúta öðrum lögum en þeim, er hann af frjálsum vilja vildi samþykkja fyrir sína hönd og sinna undirmanna. Þetta, að samþykkja lög eða fella, var hið eina starf, er lögrjettustofnunin hafði með höndum upphaflega, en ástæðan til þess að lögberg gat ekki innt þetta starf af höndum, var sú, að þar rjeð afl atkvæða.

Kristján X

Kristján X.

Í sambandi við hina fyrri umræðu máls að lögbergi var tilhögunin að hafa umráðamenn í lögrjettu mjög hentug. Þótt höfðingjarnir gagnrýndu málin að lögbergi og greiddu þar atkvæði gegn því að þau gengju fram, gátu þeir, ef málið virtist hafa almenningsfylgi, þegar til lögrjettunnar kom, snúið við blaðinu og samþykt nýmælið að ráði umráðamanna sinna, án þess að þeim væri legið á hálsi fyrir það.
Er nýmæli hafði verið samþykkt, var það sagt upp sem lög þrjú sumur í röð að lögbergi. Hið fjórða sumar, er full reynsla var fengin um nýmælið í framkvæmd, var loks tekin ákvörðun um það á lögbergsfundi, hvort nýmælið skyldi sagt upp eða ekki. Fjell það úr gildi, ef meiri hluti fjekst ekki fyrir því, að það skyldi sagt upp; annars gilti það sem lög þaðan í frá.

Alþingi hafði sjerstakan ríkissjóð og má ætla, að hann hafi upphaflega heitið alsherjarfje. Um fastar tekjur ríkisins er ókunnugt, en á hinn bóginn eru til heimildir fyrir því, að þegar um sjerstök útgjöld var að ræða, var lagður nefskattur á þingbændur.

Alþingi

Lögrétta – tilgáta.

Að lögum var lögð ákveðin fjárhæð til höfuðs hverjum sakamanni. Til höfuðs þeim, er unnið höfðu skemmdarvíg, Voru lagðar 3 merkur silfurs, og var það fje goldið á Alþingi af goðum landsins, er síðan jöfnuðu því niður á þingmenn sína. Allur kostnaður við alþingishaldið er eðlilegast að hugsa sjer, að upphaflega hafi verið greiddur af allsherjarfje, og þar á meðal kaup lögsögumanns, sem var 200 álnir.

Allsherjargoðinn, er helgaði þingið, mun hafa undirbúið þinghaldið, sjeð um, að sæti væru sett upp á þingstaðnum og alt væri þar í lagi, er þingið hófst. Ennfremur gekst hann fyrir og stýrði lögsögumannskosningu. Hefir hann óefað haft sjerstaka þóknun fyrir starf sitt. Lögsögumaður var annars sá, sem stjórnaði störfum þingsins. Átti hann sitt sjerstaka ákveðna rúm, bæði á lögbergi og í lögrjettu.

Þingvellir

Þingvellir – Almannagjá.

Lögsögumaður var kosinn til þriggja ára í senn. Á lögbergsfundi var gert út um það, hver vera skyldi lögsögumaður, og var útnefningin síðan staðfest á lögrjettufundi, þar sem lögboðið var, að allir skyldu gjalda samkvæði við kosningunni, eða, með öðrum orðum, staðfesta niðurstöðu lögbergsfundarins. Eftir þrjú ár var lögsögumaður laus, ef hann vildi, en að öðrum kosti hjelt hann embættinu áfram, ef meirihluti lögbergs var honum fylgjandi, og fór þá ekki fram nein kosning. En vildi meiri hluti höfðingja ekki hafa hann áfram, eða hann sjálfur vildi vera laus, eða lögsögumaður hafði fallið frá, fór fram lögsögumannskosning.

Þingvellir

Þingvellir – Almannagjá.

Einnig gat lögbergsfundur með afli atkvæða, vikið lögsögumanni frá, ef hann vanrækti embættisskyldu sína, var t. d. ekki kominn til þings á föstudagsmorgun, er landsmenn gengu til lögbergs, og hafði ekki lögleg forföll fyrir sig að bera. Lögsögumaður skipaði lögberg, og var það í því fólgið, að þeim mönnum, er mæla þurftu málum sínum á lögbergsfundi, vísaði hann til sætis á lögbergi meðan þeir biðu þess, að röðin kæmi að þeim til þess að segja fram mál sitt.

Þingvellir

Uppdráttur af Þingvöllum frá 18. öld.

Lögrjettusamþykktir birti hann þingheimi á lögbergsfundi. Jafnframt hafði hann skyldu til að segja upp hver þau lög, er lögberg óskaði. Entist honum ekki fróðleikur til þess, gat hann kvatt fimm eða fleiri lögfróða menn á fund með sjer til þess að komast að niðurstöðu um, hvað lög væri. Jafnframt var lögsögumaður skyldur til þess að gefa upplýsingar um það á þinginu, ef þess var óskað, hvað lögmál væri, bæði á Alþingi og heima í hjeraði. Nú gat það komið fyrir, að fleiri eða færri höfðingjar hjeldu því fram, að lögsögumaður hefði rangt fyrir sjer um eitt eða annað, er hann kvað lög vera. Var slík þræta kölluð lögmálsþræta og var úrskurður um hana að minni ætlan upphaflega feldur að lögbergi með atkvæðagreiðslu um það, hvorir hefðu rjettara fyrir sjer, lögsögumaður eða hinir, er í móti mæltu.

Nýmæli Þórðar gellis

Þingvellir 1720

Þingvellir 1720.

Þegar Alþingi hafði starfað um nokkur ár, kom það í ljós, að það var erfitt að fá málsúrslit með dómi á þinginu vegna þess, að dómur var því aðeins gildur, að hann væri ekki vjefengdur og allir dómendur gyldi samkvæði við honum. Afleiðingin var því, að óbilgjarnir höfðingjar, sem verja vildu rangan málstað, gátu nefnt þann mann í dóm, sem þeir fyrir fram höfðu tryggt sjer, að dæmdi sjer í vil, en ekki að lögum. En á þessu rjeð Þórður gellir bót með tillögu sinni um að skifta landinu í fjórðunga, og skipun fjórðungsdóma. Hefir mikið verið ritað um þennan þátt alþingissögunnar, en rannsóknir mínar hafa leitt til þess, að það muni alt miður rjett, og niðurstaðan orðið ný lausn á þessu vandamáli. Er hún í stuttu máli þessu: Alþingisdóminum var skift í fernt, og níu dómendur skipaðir í hvern fjórðungsdóm, á þeim grundvelli, að enginn höfðingi nefndi mann í dóm til þess að dæma um sök á hendur sjer eða sinna samfjórðungsmanna.
ÞingnesVar þessu takmarki náð með þeim hætti, að sett voru á stofn þrjú vorþing í hverjum fjórðungi, með þrem höfðingjum hvert. Var síðan, að því er jeg ætla, hvert hinna þriggja vorþinga í hverjum landsfjórðungi látið skipa einn mann í hvern fjórðungsdóm, fyrir hina aðra þrjá fjórðunga landsins, en ekki skipa neinn mann í sinn eigin fjórðungsdóm. En um það var, að mínu áliti, varpað hlutkesti, í hvern hinna þriggja fjórðungsdóma hver einstakur hinna þriggja höfðingja vorþings skyldi nefna sinn þriðjungsmann, eins og komist er að orði í Grágás. Hvað löggjafinn á hjer við eða meint er með orðinu þriðjungsmaður, er óráðin gáta. Lausnin hjá mjer er, að orðið þriðjungsmenn hafi verið haft til þess að tákna þá íbúa innan hvers vorþings, er heyrðu undir hvert einstakt goðorð hvers hinna þriggja goða í hverju vorþingi.

Kjalarnesþing

Þingin voru haldin undir berum himni.

Tilgangurinn með ákvæði Grágásar um, að goði skuli nefna sinn þriðjungsmann í dóm, skoða jeg því að verið hafi sá, að einskorða dómnefnuna úr hverju vorþingi við íbúa vorþingsins, svo að það ætti sjer ekki stað, að goði gæti nefnt þingmann í dóm, er hann kunni að eiga búsettan í þeim sama fjórðungi, sem hann nefndi í dóm fyrir.

Áður en vorþingaskipulagið komst á, skiftist landið í sveitir, með ákveðnum mörkum og var sveitarstjórnin í höndum sveitarhöfðingja, er jafnframt háðu dómþing, samhliða þeim dómþingum, er landsmenn höfðu stofnað með ráði sveitarhöfðingja hver á sínum stað. Af þessu stafar það, að til eru í landinu nöfn á þingstöðum miklu víðar en vorþing voru háð. Með vorþingaskipulaginu breyttist þetta þannig, að eftirleiðis skyldu ekki aðrir nefna í dóm á þingum, eða stýra sakferlum, heldur en alþingishöfðingjarnir, en ferill sakar var að mínu áliti það, að höfðingjarnir háðu féránsdóm og sáu um, að eigur sekra manna væru gerðar upptækar.

Þingvellir

Frá Þingvöllum fyrrum.

Afleiðingin af samkvæðinu, sem krafist var í lögrjettu, til þess að nýmæli gæti orðið að lögum, var sú, að fleiri eða færri höfðingjar höfðu oft ýmis áhugamál, er ekki varð framgengt. Á 10. öld var kristniboð rekið af miklu kappi í Norðurálfunni, og alls staðar þar, sem kristni komst á, var hún lögboðin og allir urðu að láta skírast. Þessi siður, að lögbjóða trú, skoða jeg að verið hafi óþekktur meðal Ásatrúarmanna, eins og eðlilegt var, þar sem guðirnir voru margir, og einn var vinur Þórs, annar blótaði Frey o.s.frv. Til þess að standa á móti kristninni og tryggja það, að Ásatrúin gæti haldist óáreitt í landinu, mun það hafa verið áhugamál margra manna, að Ásatrúin væri lögboðin á sama hátt og átti sjer stað um kristnina. Þegar Þórður gellir kom fram með tillögu sína um skipun fjórðungsdóma, þótti öllum það hin mesta nauðsyn.

Þingvellir

Frá Þingvöllum.

Munu þeir, sem lögfesta vildu Ásatrúna, þá hafa notað tækifærið, og sett það sem skilyrði fyrir samkvæði sínu um fjórðungsdómana, að trúin yrði jafnframt lögfest. Og það varð með þeim hætti, að þrjú höfuðhof skyldu vera í hverri vorþingssókn. — Skyldu allir gjalda hoftoll, en Alþingishöfðingjarnir, er til þess tíma höfðu verið kallaðir landsmenn, varðveittu hofin, og var því eftir það farið að kalla þá goða og hofgoða og þeirra tign og umdæmi, er áður hafði heitið mannaforráð, goðorð.

Þegar vorþingin voru sett í lögum, áttu goðarnir í hverju vorþingi að tilkynna á næsta Alþingi vorþingsstaðinn og nafn þingsins. En þegar til framkvæmdanna kom, varð sá þröskuldur á vegi, að Norðlendingar gátu með engu móti komið þessu skipulagi á hjá sjer, því að þeir, sem voru fyrir vestan Skagafjörð, vildu ekki þangað sækja vorþing, og þeir, sem voru fyrir norðan Eyjafjörð, vildu ekki þangað sækja þing. — Norðlendingar fóru því fram á það að hafa vorþingin fjögur, og var það samþykkt, og goðum fjölgað þar um þrjá á þeim grundvelli, að hin tólf goðorð Norðlendinga skyldu vera fjórðungi skerð að Alþingisnefnu.
AlþingiGet jeg til, að þetta hafi verið framkvæmt á þann hátt, að vorþingin í Norðlendingafjórðungi hafi skiftst á að taka þátt í dómnefnunni, þannig að eitt vorþing hafi árlega setið hjá, eftir röð, er upphaflega hafi verið ákveðin með hlutkesti. Er þessir þrír goðar, sem bætt var við í Norðlendingafjórðungi, fóru að taka þátt í þingstörfum, gerðu þeir kröfu til þess, að sitja í lögrjettu, svo að þeir þyrftu ekki að lúta lögum, er samþykt kynnu að vera að öðrum kosti gegn þeirra vilja. Var sú nauðsyn samþykkt með þeim hætti, að lögrjettuskipan skyldi jöfn úr öllum fjórðungum. Fyrir hvert forráðsgoðorð innan hvers vorþings í hinum fjórðungum landsins sat því eftirleiðis einn maður í lögrjettu til viðbótar hinum þremur goðum vorþingsins. Forráðsgoðorð get jeg til að kallað hafi verið á hverjum tíma það goðorð, er forráðin hafði um að skipa þennan viðbótarmann í lögrjettuna. Ennfremur, að goðarnir í hverju vorþingi hafi skiftst á að hafa þessi forráð eftir röð, er upphaflega hafi verið ákveðin með hlutkesti.

Þingvellir

Þingvellir.

Hinir 12 nýju lögrjettumenn fengu jafnframt völd á lögbergsfundum um allsherjarmálin, því að skerðingin á þátttöku goðanna úr Norðlendingafjórðungi í þinghaldinu var aðeins bundin við dómnefnuna, og þau mál, er stóðu í beinu sambandi við hana, eða lýsingar saka og stefnur að lögbergi. Er þessar breytingar voru komnar á, voru svo fjórðungsþing sett, eitt fyrir hvern fjórðung, með þeirri undantekning, að í Vestfirðingafjórðungi virðast takmörk Þórsnessþings ekki hafa fylgt fjórðungamörkum, eða ekki hafa náð lengra en að Hvítá í Borgarfirði. Má ætla, að þetta hafi stafað af fjandskap þeirra Tungu-Odds og Þórðar gellis, og Tungu-Oddur hafi ráðið því, að Borgfirðingar sæktu ekki Þórsnessþing, og hafi það haldist síðan. — Í sambandi við það, að vald sveitarhöfðingja til að heyja dómþing var afnumið með lögum Þórðar gellis, er ekki ólíklegt, að sveitarstjórnartilhögunin í heild sinni hafi komið til umræðu, og upp af því hafi sprottið hreppaskipunin í landinu.

Kristnitakan

Þingvellir

Frá Þingvöllum – Stekkjargjá.

Næsta stórbreyting á lögum landsins varð með kristnitökunni.
Þrátt fyrir lögfestingu Ásatrúar varð ekki spornað við kristniboðinu, og hafa að sjálfsögðu þeir, er ljetu skírast, neitað að gjalda hoftoll og ekki tekið þátt í blótum. Þetta ástand, að Ásatrúarlögunum var ekki hlýtt, hefir leitt til virðingarleysis fyrir lögum almennt, og mun þar meðal annars vera að leita orsakanna til þess, að ættardeilurnar og vígaferlin í landinu höfðu náð hámarki sínu í byrjun 11. aldar.

Um trúarbrögð í landinu var svo komið, að höfðingjamir og landslýðurinn skiftist í tvo flokka, þegar þeir Gissur hvíti og Hjalti Skeggjason komu frá Noregi sumarið 1000 í trúboðserindum Ólafs konungs Tryggvasonar.

Þingvellir

Þingvellir – Snókagjá.

— Neyttu þá hvorir tveggja, kristnir menn og heiðnir, heimildarinnar til þess að segja sig úr lögum hvorir við aðra, eins og áður er vikið að. Tóku kristnir menn Hall af Síðu til þess að segja upp lög fyrir sig, en Hallur fjekk Þorgeir Ljósvetningagoða, sem þá var lögsögumaður, og Ásatrúar, til þess að ráða fram úr málinu. Þorgeir leysti þennan vanda með því að sýna mönnum fram á, að friðinum væri slitið, og stofnað væri til styrjaldar í landinu, sem enginn gæti sjeð út yfir, ef allir hefðu ekki ein lög. Lausnin var merkileg. Í fyrsta lagi fjekk hann trúbræður sína til þess að viðurkenna kristnina sem opinbera trú í landinu, sem var óumflýjanlegt, sakir ofstækis kristinna manna um trúarbrögðin og sambandsins við útlönd. Í öðru lagi fjekk Þorgeir kristna menn til þess að vera því samþykka, að leynilega eða í heimahúsum mættu menn blóta og dýrka þá guði, er þeir vildu. Afleiðingin var því sú, að þótt landið væri kristið út á við, þá var inn á við fullkomið trúarbragðafrelsi og fjárframlög til trúarbragðaiðkana afnumin í lögum.

Þingvellir

Búð á Þingvöllum.

Kristnitökulög Þorgeirs sýna þannig ekki aðeins, að hann hefir sjeð, hversu óhollt það væri þjóðinni, að hafa lög, er riðu í bág við það, er fjöldi manna í landinu taldi rjett vera, heldur einnig, að honum hefir verið það vel ljóst, að það væri skylda hans sem löggjafa, að finna ráð til þess að lögin um trúarbrögðin gætu ekki haldið áfram að ala upp í mönnum óhlýðni við allsherjarlög, eða með öðrum orðum endurvekja það ástand, að þess væri vandlega gætt, að setja ekki önnur lög en þau, er allir yrðu að viðurkenna að væru rjettmæt og allir vildu því hlýða.

Þorgeir Ljósvetningagoði undirbjó þannig jarðveginn fyrir eftirmann sinn, Skafta Þóroddsson, um að koma á friði í landinu og kenna mönnum að virða lög og rjett. Þorgeir er því einn af þeim afburðalöggjöfum þessa lands, sem sjerstök ástæða er til að minnast á þessu endnrminningaári þjóðarinnar.

Fimmtardómur

Þingvellir

Þingvellir – búðir.

Af virðingarleysinu fyrir lögum almennt, sem áður er að vikið, hlaust það, að umbætur Þórðar gellis urðu ónógar til þess að tryggja málsúrslit, þar til fimmtardómur komst á.
Um stofnun hans vitum vjer ekki annað en það, sem stendur í 97. kap. Njáls sögu. Er hugmyndin þar eignuð Njáli og talið, að hann hafi borið hana fram í þeim tilgangi að útvega Höskuldi fóstursyni sínum goðorð. Er ekkert því til fyrirstöðu, að það geti verið rjett, því að eins og kunnugt er, er það svo nú á dögum, að ýmsar stofnanir eru settar á fót til þess að geta skipað ákveðna menn í embætti. Sama er og að segja um aðferðina, sem söguritarinn segir, að Njáll hafi beitt við stofnun fimmtardómsins: að ala á óánægju manna með ástandið í landinu, að það er hið sama bragð sem einstakir menn og flokkar beita enn í dag, til þess að hafa sitt fram.

Þingvellir

Þingvellir – búðartóft.

Hvatir Njáls voru persónulegar, eftir því sem sagan hermir. En hann hefði vitanlega engu getað um þokað um þetta mál, ef hann hefði ekki notið styrks höfðingja til þess að koma því fram. Eins og kunnugt er, hafði Skafti Þóroddsson þá nýlega tekið lögsögu, en um hans daga, segir Ari fróði, urðu margir ríkismenn sekir og landflótta, af ríkis sökum hans og landstjórn. Jafnframt segir Ari, að Skafti hafi sett fimmtardómslög, eins og líka höfundur Njálu segir að hann hafi gert, enda þótt hann eigni Njáli hugmyndina. Það er ljóst af frásögn Ara fróða, að Skafti hefir sett sjer það mark að ljetta ættardeilunum og vígaferlunum af þjóðinni og koma lögum yfir landið. Til þess að framkvæma það, hefir hann orðið að skapa sjer þá aðstöðu, að hann gæti ráðið lögum og lofum landinu.

Þingvellir

Þingvellir – búð við Lögberg.

En eins og títt er um mikilhæfa og ráðríka menn, má gera ráð fyrir því, að hann hafi átt ýmsa harðsnúna mótstöðumenn meðal höfðingja Jeg geng að því vísu, að hvatir hans til þess að fylgja fram fimmtardómslögunum, hafi verið pólitískar, og ekki aðeins miðað að því að tryggja málsúrslit fyrir dómi, heldur jafnframt völd hans sjálfs í landinu. Þykir mjer sýnt, að það hafi verið fyrir fram ráðið, hverjir hinir nýju goðar skyldu vera, sem skipaðir voru, og um þann eina, sem vjer þekkjum af þeim, Höskuld Hvítanesgoða, tekur Njálssaga af öll tvímæli um það, að svo var. En um Höskuld er það eftirtektarvert, að sagan getur ekki um, að hann hafi dregið sjer þingmenn undan öðrum goðorðsmönnum í Rangárþingi en þeim feðgum Valgarði og Merði.

Þingvellir

Þingvellir – minjakort.

—Í sambandi við það, að ganga má að því vísu, að hinir nýju goðar hafi átt Skafta upphefð sína að þakka og verið hans menn, bendir þetta til þess, að þeir hafi verið ráðnir í þeim ákveðna tilgangi, að veikja völd og virðingar mótstöðumanna Skafta með því að draga þingmenn frá þeim. — Mætti geta þess til, að það hafi jafnframt verið undirmál, að þeir tæki ekki við þingmönnum þeirra höfðingja, er fylgdu Skafta að málum. — Lof öll og úrskurðir lögmálsþrætu hafði verið í höndum lögbergs, þar sem rjeði afl atkvæða. En nú notaði Skafti tækifærið til þess að gera breytingu á því. Um leið og Njáll, sem sjá má að þá var lögrjettumaður fyrir forráðsgoðorð úr Rangárþingi, bar fram fimmtardómslögin, ljet Skafti hann einn ig gera tillögu um það, að leggja sýknuleyfi og sáttaleyfi til lögrjettunnar til þess með því að gera örðugra fyrir en áður að fá þessi lof veitt. Ennfremur að leggja úrskurð lögmálsþrætu til lögrjettunnar með þeim skildaga, að hvorir tveggja skyldu vinna vjefangseið að sínu máli og gera grein fyrir þvi á hverju þeir bygðu álit sitt um það, hvað væri lög. Eins og fimmtardómujrinn miðuðu þessar breytingar að því að tryggja rjettarfarið, og gera ljettara fyrir að koma lögum yfir landið.

Þingvellir

Þingvellir – búð.

Þessar tillögur allar, sem Skafti ljet Njál bera fram á þinginu, voru þess eðlis, að allir sáu nauðsyn þeirra umbóta, sem þær fóru fram á, og með því að láta Njál, sem ekki var höfðingi, bera þessar umbótatillögur fram, kom Skafti í veg fyrir, að þetta vekti tortryggni, og að mótstöðumenn hans meðal höfðingjanna fengi grun um, að annað og meira lægi á bak við en aðeins umbæturnar á rjettarfarinu í landinu. Frásögn Njálu um breytingamar á lögrjettunni er ekki í samræmi við lagaákvæði Grágásar, og sama er einnig að segja um frásögn hennar um fimmtardóminn. Stafar þetta af því, að höfundur Njálu hefir sýnilega verið ólögfróður, enda þótt hann hafi haft ánægju af að segja frá málaferlum og málarekstri. En þetta kemur að mínu áliti ekki að sök, því að jeg skoða, að ákvæði Grágásar í þessum efnum hafi að geyma þær tillögur, er Skafti ljet Njál bera fram og samþyktar voru á þinginu.

Þingvellir

Þingvellir – Lögberg og lögrétta.

Þegar frá leið, voru ýmis fleiri lof smám saman lögð til lögrjettu, og vitum vjer um sum þeirra, að fyrir þau varð að gjalda ákveðið gjald til lögrjettu. Má vel vera, að það hafi verið algild regla að greiða ákveðin gjöld fyrir öll alþingislof, og hafi afleiðingin af því að sýknuleyfi og sáttaleyfi voru flutt yfir í lögrjettu, orðið sú, að önnur fjármál ríkisins hafi þá einnig verið lögð til hennar og allsherjarfjeð gert að lögrjettufjár, svo að fjármál ríkisins gætu öll orðið tekin fyrir í einu lagi.

Til fimmtardóms var aðeins stefnt ákveðnum málum, og eru þau talin upp í Grágás. En nú var rofin sú meginregla löggjafarinnar, að krefjast samkvæðis um alla dóma, því að í fimmtardómi skyldi meiri hluti dómenda ráða, og ef jafnmargir voru með og móti, þá átti að dæma áfall eða dómfella þann, er sóttur var, nema um vjefangsmál úr fjórðungsdómi væri að ræða. Þá skyldi dómurinn, sem upp var kveðinn, velta á hlutkesti.

Þingvellir

Frá Þingvöllum – búðir.

Föst niðurstaða er enn ekki fengin um, hvernig skilja beri þær meginreglur, er annars giltu um það, hvernig dæma skyldi vjefangsmál í fimmtardómi. Eru það aðeins tveir menn, sem reynt hafa að skýra það, þeir Björn M. Ólsen og Vilhjálmur Finsen. Var skýring B. M. Ó. í því fólgin að breyta texta Grágásar. En V. F. benti þá á, hvílík fjarstæða það væri, að ætla sjer að skýra Grágás með textabreytingum og sýndi fram á, að hugmynd B. M. Ó. leiddi þess utan út í ógöngur frá lagalegu sjónarmiði. Setti V. F. jafnframt fram tilgátu þá, er síðan hefir verið búið við, um það, hversu hugsa megi sjer, að þessi ákvæði Grágásar kunni að eiga að skiljast. En tilgáta V. F. hefir þann galla, að fyrir henni skortir heimild í Grágás. Jeg hefi því leitað nýrrar lausnar á þessu máli og er niðurstaðan, að þennan stað í Grágás sje svo að skilja, að ef fjórðungsdómendur voru allir jafnmargir í öllum stöðum, er þeir höfðu vjefengt, og hvorir tveggja höfðu farið rjett að vjefangi, þá hafi fimmtardómur átt að rjúfa þeirra dóm, er síður höfðu að lögum dæmt; ef aftur á móti aðrir höfðu í fjórðungsdómi farið rjett að vjefangi, en aðrir rangt, þá átti þeirra dómur að standast, er rjett höfðu farið að vjefangi, þótt hinir hefðu málaefni betri í upphafi; en ef hvorugir höfðu í fjórðungsdómi farið rjett að vjefangi, þá átti að standast dómur þeirra, er nær höfðu farið að vjefangi, því sem lög voru, og sömuleiðis sá dómur, er fimmtardómendum þótti nær lögum dæmdur.”


Saga Alþingis – Einar Arnórsson
(1880-1955)

AlþingiAlþingi 1271-1874
Í eftirfarandi grein gefur Einar prófessor Amórsson yfirlit yfir sögu Alþingis frá því er Íslendingar gengu Hákoni gamla Noregskonungi á hönd og fram að þjóðhátíðarárinu 1874, er Kristján IX. gaf Íslandi stjórnarskrá. — Er Einar prófessor Arnórsson sá maður, sem vjer vitum fróðastan í þeim efnum, enda munu fáir eða engir hafa kynt sjer, svo sem hann hefir gert, löggjöf Íslendinga og stjómarfar frá öndverðu.

“Árangurinn af þessum breytingum og landstjórn Skafta Þóroddssonar var, að ættardeilunum og vígaferlunum ljetti, og þegar hann fjell frá 1030, hafði hann komið þeim friði á í landinu, er helst á aðra öld, og er það tímabil í sögu landsins, sem kallað hefir verið friðaröldin. Skafti varð einnig fyrstur Íslendinga til þess, svo sögur fari af, að tryggja rjett landsins út á við og afla Íslendingum fríðinda meðal erlendra þjóða, með samningnum við Ólaf helga.
Í ár eru liðin 900 ár síðan Skafti fjell frá, og ætti það því vel við, að hans væri sjerstaklega minnst að einhverju í sambandi við Alþingishátíðina.”

Lagabreyting á Íslandi

Einar Arnórsson

Einar Arnórsson – 1880-1955.

Íslendingar höfðu, sem kunnugt er gengið Hákoni konungi gamla Hákonarsyni á hönd til fulls árin 1262—1264. Þótt eigi verði sannað, að breyting hafi orðið á skipun Alþingis árin 1264 til 1271, þá er þó ljóst, að svo hlaut bráðlega að verða. Margt í hinni eldri löggjöf og stjórnarskipan mátti varla lengi haldast eftir að konungsvald var komið á landið. Í Noregi hafð sonur og eftirmaður Hákonar gamla, sem andaðist 1263, Magnús konungur lagabætir, komið á sameiginlegri og endurbættri löggjöf í öllum hinum gömlu þingdæmum (Gulaþing, Frostaþing og Heiðsifaþing), og hafa þau lög verið nefnd hin yngri landslög. Magnús konungur hugði líka snemma á lagabreytingar á Íslandi. Hann ljet því gera frumvarp að nýrri lögbók, er hann sendi út hingað vorið 1271. Var lögbók þessi, er nefnd hefir verið Járnsíða, mjög sniðin eftir norskum lögum, en miður eftir þörfum Íslands.

Grágás

Grágás.

Árið 1271 var þingfararbálkur hennar lögtekinn hjer. Var þar með hin gamla skipun á Alþingi og vorþingum á Íslandi fallin um koll. Einnig voru goðorðin þá úr sögunni. Fjórðungsdómar á Alþingi fjellu niður og fimmtardómur einnig. Lögberg týndist brátt, því að engar þinglýsingar eða önnur þingstörf fóru þar lengur fram. Og lögsögumannsdæmið var einnig lagt niður. Lögrjettan ein stóð eftir, en mjög í breyttri mynd, eins og sýnt verður. Landinu var skift í 12 þing og sýslumenn komu í stað goðanna fornu. Járnsíða var úr lögum numin með Jónsbók 1281, en engin meginbreyting varð þá á Alþingi. Snemma var einn maður settur yfir alt land, og var hann nefndur hirðstjóri til forna, en síðar höfuðsmaður. Hann var yfirmaður sýslumanna og annara embættismanna á landinu. Sú skipun á æðstu stjórninni innan lands stóð óbreytt þangað til 1683. Þá var skipaður stiftbefalingsmaður svo nefndur, er hafa skyldi æðsta vald hjerlendis, landfógeti, er hafa skyldi yfirumsjón með gjaldheimtu sýslumanna, og amtmaður, sem líta átti eftir löggæslu og kirkjumálum. Síðar (1770) var landinu skift í ömt. Urðu nú amtmenn tveir í upphafi: Annar í Suður- og Vesturamti, og varð hann jafnframt æðsti embættismaður hjerlendur, og hjet stiftamtmaður, en hinn í Norður- og Austuramti. Síðar var Vesturamtið greint frá Suðuramti í stað stiftamtmanns kom landshöfðingjadæmið, er stofnað var 1872, sem kunnugt er. Stóð það til 1904, er æðsta stjórn svo nefndra íslenskra sjermála var flutt hingað inn í landið, eftir að hún hafði verið í höndum erlendra manna, erlendis búsettra, síðan á 13 öld, eða í nærfellt hálft sjö hundruð ára landinu til hins mesta tjóns og niðurdreps.

Skipun Alþingis 1271—1800

Jónsbók

Blaðsíða úr Jónsbók í myndprentaðri útgáfu Skarðsbókar frá 1981.

Norsku þingin, sem svara áttu til Alþingis, eins og það varð eftir Járnsíðu og Jónsbók, hjetu lögþing. Þessu nafni átti víst líka að koma á íslenska allsherjarþingið, enda er það mjög oft nefnt því nafni bæði í lögbókunum og annarsstaðar. Jafnhliða heldur þingið þó forna nafninu, Alþingi. En auk þessara heita er það oft nefnt öðrum nöfnum, svo sem Öxarárþing, almennilegt Öxarárþing, síðar Öxarár landsþing o.s.frv. Þingstaðurinn var hinn sami áfram; Þingvöllur við Öxará.
Á 16. öld (1574) stóð þó til að breyta um þingstað og flytja þingið í Kópavog. Þar þótti höfuðsmanni þingið vera nær sjer og því hægara til að sækja. En landsmenn virðast hafa virt þessa ráðstöfun algerlega vettugi, því að aldrei var Alþingi til Kópavogs flutt. Á 18. öld, milli 1780 og 1790, vildi stiftamtmaður flytja þingið til Reykjavíkur og Norðlendingar vildu fá lögþing handa sjer og Austurfirðingum fyrir Norðurland. En af hvorugu varð, og var Alþingi hið forna háð á Þingvelli við Öxará alla tíð, nema 2 síðustu árin, 1799 og 1800. Þá var það háð í Reykjavík.

Járnsíða

Járnsíða.

Þingtími. Eftir lögbókunum, Járnsíðu og og Jónsbók, átti Alþingi að hefjast 29. júní ár hvert, á Pjetursmessu og Páls, eða, ef hana bar á helgan dag, þá næsta virkan dag á eftir. Áttu þingmenn að vera komnir á Þingvöll kvöldið fyrir þingsetningardag, en oft vildi út af því bregða. Árið 1700 hófst „nýi stíll“ svo nefndur, og færðist þingsetningardagur þá til 8. júlí (Seljumannamessu). Með konungsbr. 25. jan. 1754 var aftur breytt til, og skyldi Alþingi nú hefjast 3 júlí. Eigi reyndist þó auðvelt að fá menn til að sækja þingið svo snemma, einkum um og eftir 1780, og var því aftur breytt til með konungsbrjefi 28. apríl 1784, og þingsetning ákveðin að nýju 8. júlí. Og hjelst það uns þingið var lagt niður.

Þingvellir

Þingvellir – Njálsbúð.

Lögmennirnir settu þingið, að undangenginni guðsþjónustu í Þingvallarkirkju. Lýstu lögmenn griðum og friði manna á meðal, meðan þing stæði og uns þeir væru aftur heim komnir. Eftir þingbókunum skyldi þingið standa svo lengi sem lögmaður vildi og lögrjettumenn. Fram á 17. öld virðist þing hafa staðið venjulega 3—4 daga, enda þótt boðið væri í konungsbrjefi einu frá 9. maí 1593, að það ætti að standa 8 daga að minnsta kosti. En eftir miðja 17. öld fer þingið að standa lengur. Menn komu seinna til þings en skyldi, og þess vegna varð því eigi lokið fyr en eftir 8 daga, og stundum stóð það miklu lengur, stundum um 3 vikur, og var þá margur lögrjettumaður orðinn heimfús. Með konungsbrjefi 28. apríl 1784 var loks svo fyrir mælt, að þingið skyldi óslitið standa frá 8. —22. júlí, og mátti enginn málsaðilja fá neitt bókað í Alþingisbókina eftir þann tíma. En lúka mátti sakamálum og dómum í einkamálum til loka júlímánaðar. Lögmaður sagði Alþingi upp og var þá þingstörfum lokið, og þingmenn máttu hverfa heim til sín.

Þingvellir

Þingvellir – búðir.

Á Þingvelli áttu flestir eða allir höfðingjar í fornöld búðir, er þeir, og þinglið þeirra, höfðust við í um þingtímann. Margar þeirra búða hafa sennilega staðið, þegar hin nýja þingskipun komst á. En fátt segir af viðhaldi þeirra og notkun á miðöldum. En þó virðist svo, sem Skálholtsstóll hafi átt búð á Þingvelli fram um siðaskifti, og sjálfsagt ýmsir fleiri. En fallnar munu þær vera á síðara hluta 16. aldar, nema sú búð, er umboðsmaður konungsvaldsins kann að hafa notað.

Þingvellir

Þingvellir – búðir.

Á síðara hluta 16. aldar og alla 17. öld munu þingheyjendur hafa hafst við í tjöldum um þingtímann, en um og eftir 1700 tóku ýmsir að gera sjer búðir á Þingvelli af nýju, og þótti Þingvallarklerki jarðrask hljótast af. Var veraldarhöfðingjum þá (1786) leyft að gera sjer búðir vestan Öxarár, og munu margir þeirra hafa haldið þeim við fram eftir öldinni. En Skálholtsbiskup og klerkar höfðust við í tjöldum austan Öxarár. Vistir urðu menn mjög að flytja með sjer til Alþingis, eins og í fornöld. —

Þingvellir

Þingvellir til forna.

Ríkismenn, eins og höfuðsmaður, Skálholtsbiskup og eflaust Hólabiskup líka fram eftir öldum, og meiriháttar sýslumenn, hafa haft með sjer matgerðartæki og matgerðarmenn til Alþingis, eins og í fomöld, enda voru þar einatt veislur haldnar. Þar voru og, einnig eftir að hin forna skipun lagðist af, drykkjur miklar og mannfagnaður. Á 17. öld, og einkum á 18. öld, var mikið drukkið á Íslandi, og voru þingheyjendur sumir þar engir eftirbátar. Sjerstaklega var skaðræðisdrykkjuskapur á Alþingi fyrstu 2 eða 3 tugi 18. aldar, þegar Oddur Sigurðsson lögmaður óð mest uppi.

Þingvellir

Hrossaat á Alþingishátíðinni 1930.

Hrossum sínum hafa þingmenn sjálfsagt komið til geymslu um Þingvallasveit og úti á mýrunum norðanvert við Mosfellsheiði, þegar þingreið var mjög mikil. En eftir að þingheyjendum tók að fækka, einkum eftir 1700, þá hafa þeir haft hesta sína í heimahögum á Þingvöllum. Kvartar Þingvallarprestur mjög undan átroðningi af hestum þingmanna eftir 1730. En bótalaust varð klerkur að þola þann átroðning, því að þinghaldið væri gömul kvöð á landinu. Fram eftir öldum var Alþingi en allfjölmennt. Höfðingjar og ríkismenn höfðu enn langt fram á 16. öld liðskost mikinn til þings, svo sem Torfi í Klofa, biskuparnir Ögmundur og Jón Arason, Magnús prúði Jónsson í Ögri sýslumaður og margir fleiri.

Þingvellir

Frá Alþingishátíðinni 1930.

Og enn fóru margir til Alþingis sjer til skemmtunar, eins og í fornöld, og til þess að hitta fyrirmenn landsins og kynnast þeim. Ýmsir fóru þangað til að kæra yfif órjetti, sem þeir eða venslamenn þeirra töldust hafa orðið fyrir, til þess að hreinsa sig með eiði af ámælum, til að flytja mál sín o.s.frv. En þegar líða tekur fram á 18. öld, þá minkar mjög þingsókn. Þá hætta nálega aðrir að sækja þing en þeir, sem lögskylt var þangað að koma — og var þó með torveldleikum þingsókn þeirra — og þeir, sem beinlínis áttu þar málum að gegna.

Lögrjetta

Þingvellir

Konungur og frá á Alþingishátíðinni 1930.

Hún mun hafa verið háð á völlunum austan við Öxará, eins og í fornöld, fram um 1500. Þá er hún í hólma í Öxará. Eftir það virðist hún hafa verið vestan ár. Til 1690 var logrjettan haldin undir beru lofti. Var hún þá girt með strengjum, er festir voru á stengur. Voru strengir þeir nefndir vjebönd. Innan vjebanda var að fornu fari helgistaður mikill og griða. Lágu þungar refsingar við, ef menn glöptu þingmenn, er þeir voru að dómum innan vjebanda, eða rufu dómhelg þeirra. 1690 gekkst landfógeti fyrir því, að reist var hús yfir lögrjettu; var hún að veggjum úr torfi og grjóti, en viðu lagði landfógeti til og sýslumenn vaðmál til þess að tjalda lögrjettu með og þekja. Síðar var reist timburhús yfir lögrjettu og höfðust lögmenn og lögrjettumenn við í því á hverju þingi til 1798. Viðhald á húsinu var lengstum mjög bágborið, enda flýðu menn úr því 1798 og komu eigi í það síðan til þinghalds.

Þingvellir

Frá Þingvöllum 1930.

Lögmenn, sem jafnan voru tveir stýrðu lögrjettu. Þeir áttu að hringja til lögrjettufunda „hinni miklu klukku“, eins og í Jónsbók, þingfb. 3. kap., segir. Hefir lögrjetta haft klukku til afnota sinna. 1593 eða 1594 kom ný klukka til þingsins, en ónýt er hún orðin milli 1720 og 1730, og varð þá að fá að láni kirkjuklukku hjá Þingvallarklerki. Konungsvaldinu bar auðvitað að sjá um, að öll tæki til þinghalds væru í lagi, en umboðsmenn þess vanræktu það, eins og flest annað, sem landinu mátti til hagnaðar vera. Nærri má geta, að óþægilegt hefir oft verið að sitja að dómstörfum og öðrum þingstörfum undir beru lofti. En menn höfðu nú verið vanir þessu frá ómunatíð, bæði hjer á landi og annarsstaðar.

Þingvellir

Frá Þingvöllum 1930.

Og meðan ekkert var skrásett af því, sem gerðist á þingi, nýttist betur af útivistinni. En eftir að tekið var að skrásetja það, er gerðist, þá var þess eigi kostur úti, nema sjerstaklega lygnt og blítt veður væri. Vjer vitum nú eigi, hvenær menn hafa almennt farið að skrá dóma og aðra gjörninga á Alþingi. Líklega verður það eigi fyr en á 16. öld. Lögmenn hafa látið skrá það, er þeim sýndist, og biskupar ef til vill, en engar eiginlegar Alþingisbækur eru haldnar fyr en 1630. Þá er Alþingisskrifari skipaður, og hjelst það embætti síðan, þar til þingið var lagt niður. Eru enn til óslitnar Alþingisbækur frá 1631 til 1800.

Þingvellir

Frá Alþingishátíðinni 1930.

Eftir Járnsíðu áttu sýslumenn að nefna í hverju þingi, fyrir páska, bændur (nefndarmenn) til þingfarar, alls 140. Sá, er einu sinni var nefndur, skyldi sækja Alþingi síðan árlega, meðan hann var til þess fær. Eftir Jónsbók var nefndarmannatalan færð niður í 84. 1305 átti, að því er virðist, að fækka nefndarmönnum niður í 42, en sú skipun komst aldrei í framkvæmd. Var Jónsbók jafnan fylgt um kvaðningu nefndarmanna til 1732. Og var krafist þingreiðar af þeim öllum þangað til. En eftir það urðu þeir aðeins þingvottar, og var nú eigi heimtuð þingreið af nema 10 að norðan og vestan, og eitthvað nálægt því úr hinu lögdæminu. Með tilskipun 16. nóv. 1764 var lögrjettumönnum fækkað í 20. Þar af voru 10 úr Árnesþingi, 8 úr Gullbringusýslu og 2 úr Kjósarsýslu. Skyldu aðeins 10 sækja þangað árlega.

Alþingi

Frá Alþingishátíðinni 1930.

Síðar (1770) var ákveðið, að einungis 5 lögrjettumenn skyldu þing sækja og 1796 urðu þessir menn aðeins 4. Nefndarmenn fengu ákveðið kaup fyrir þingförina, er mun svara hjer um bil til 9—10 króna á dag, miðað við kaupmagn peninga nú á dögum. Lengstum áttu sýslumenn að greiða gjald þetta af þingfararkaupum, sem þeir heimtu árlega af skattbændum. Sýslumenn áttu og að fæða nefndarmenn á þingi, en bændur áttu að hýsa þá og fæða á þing og af þingi. Eftir 1764 var tekið að greiða lögrjettu mönnum þingfararkaup í peningum, 24 skildinga á dag, eða ekki langt frá 16 krónum, eftir kaupmagni peninga nú. Af nefndarmönnum áttu lögmenn að nefna 3 úr hverju þingi til setu í lögrjettu innan vjebanda, eða alls 36, og urðu þá 18 úr hvoru lögdæmi. Af þessum 36 lögrjettumönnum nefndu lögmenn svo í dóma 6, 12 eða stundum 24. Lögmenn dæmdu framan af hvor með sínum lögrjettumönnum mál úr sínu lögdæmi, en á 17. öld dæmdu þeir alltaf, eða nær því, báðir saman, úr hvoru lögdæminu sem málin voru.

Þingvellir

Frá Alþingishátðinni 1930.

Eftir 1720 er farið að fara hjer eftir Norsku lögum, sem kennd eru við Kristján fimmta, og lögleidd voru í Noregi 15. apríl 1687. Dæmdu nú lögmenn einir, svo að lögrjettumenn urðu aðeins þingvottar, enda var þeim nú fækkað, eins og áður segir. Helstu störfin, sem fram fóru í lögrjettu, voru þessi: 1. Dómstörf. Lögrjetta var yfirdómstóll yfir sýslumönnum, og auk þess dæmdi hún mál, sem lægsti dómstóll. Lögmenn samþykktu venjulega dóma lögrjettumanna. Þeim varð áfrýjað til konungs og ríkisráðs, upphaflega hins norska, en síðan danska. En 1593 var yfirrjettur stofnsettur á Þingvelli, og mátti til hans skjóta dómum lögrjettu og lögmanna.
Alþingi2. Löggjafarstörf. Framan af voru frumvörp, er konungsvaldið vildi gera hjer að lögum, borin upp á Alþingi,- eins og Jónsbók 1281. Og lengi fram eftir var það svo. En venjulega hafði konungsvaldið sitt fram, að Alþingi samþykkti eða tók við lögum þeim, sem send voru hingað. Og á 17. öld er farið að birta konungsboð hjer á landi án þess að sjá megi, að Alþingi sje spurt að, hvort það vilji samþykkja þau. Sjálft gerði Alþingi samþyktir um ýms efni, er lög mæltu eigi um, og jafnvel um sum, sem lögákveðin voru, alt fram um 1700. En þá hættir Alþingi þessari starfsemi, enda var einveldið þá algerlega komið hjer á. Á 18. öld hefir Alþingi engin afskifti af lagasetningu.

Alþingi

Ráðherrar Íslands 1930.

3. í lögrjettu voru birtar skipanir konungs og annara stjórnarvalda, lesnar lýsingar veðs, landsmála, vogreks, óskilafjár o. s. frv. Síðar voru birt þar afsalsbrjef og makaskifta, og skjöl um allskonar efni, sem of langt yrði upp að telja.

Fram eftir öldum var sakamönnum refsað á Alþingi (galdramenn brenndir, þjófar hengdir, sifjaspellsmenn höggnir, konum drekkt, þjófar brennimerktir o.s.frv.). En af er slíkt lagt á 18. öld. Þá taka menn út refsingar í hjeraði eða í fangelsum erlendis eða í tugthúsi í Reykjavík. Á 18. öld er lögrjetta aðeins dómstóll og þinglýsingastaður. Vegur hennar fór sífellt þverrandi eftir því sem vald hennar minkaði og þingið varð fásóttara. Þangað komu þá lögnjennirnir, 2, 4 eða 5 lögrjettumenn milli 10 og 20 sýslumenn, landfógeti og amtmenn, og þó varla alltaf, og svo þeir, er málum áttu að gegna. Var það fámenni á móts við það, er þangað komu 70—80 lögrjettumenn og margt annara manna.

Yfirrjettur

Alþingi

Frá Alþingishátíðinni 1930.

Hann var stofnaður með tilskipun 6. desember 1593. Skyldi höfuðsmaður vera forseti hans, og með sjer átti hann að taka 24 dómendur úr tölu sýslumanna og annara embættismanna (klausturhaldara og jarðaljensmanna og lögrjettumanna). Þegar höfuðsmannsdæmið var lagt niður, þá gerðist amtmaður, og eftir 1770 stiftamtmaður, forseti dóms þessa. Eftir konungsbrjefi 17. maí 1735 þurftu meðdómendur í yfirdómi ekki að vera fleiri en 12, en máttu þó vera 24, og loks var þeim fækkað í 6 með konungsbr. 30. apríl 1777. Stóð svo þangað til yfirrjetturinn var lagður niður árið 1800. Dómstóll þessi naut aldrei sjerstakrar virðingar eða trausts landsmanna. Og fór hvorugt vaxandi, enda komu fá mál til hans venjulega. Sum árin þurfti eigi að heyja dóminn, af því að eigi lágu fyrir mál til að dæma. Yfirrjetturinn var alltaf háður á Þingvelli oft, að minsta kosti, í lögrjettuhúsinu á 18. öld. Árin 1799 og 1800 var hann háður í Reykjavík. Dómendur fengu eftir 1770 10 ríkisdali fyrir dómstörf sín í yfirrjetti. Málum frá yfirrjetti mátti skjóta til hæstarjettar Danmerkur í Kaupmannahöfn.

Gestarjettur

Alþingi

Frá Alþingishátíðinni 1930.

Með konungsbrjefi 24. jan. 1738 var stofnaður gestarjettur svo nefndur á Þingvelli. Sýslumaðurinn í Árnessýslu átti að skipa þenna dóm. Það hafði áður tíðkast, að lögrjetta dæmdi sem lægsti dómur mál út af illmælum og barsmíðum og öðru slíku milli manna, er gerst höfðu á Þingvelli, milli þingsóknarmanna, um þingtímann. En þessi mál þóttu tefja störf lögrjettu of mikið, og því var gestarjetturinn stofnaður. Fara ekki margar nje miklar sögur af gestarjetti þessum. Hann hverfur og vitanlega úr sögunni, þegar Alþingi var lagt niður.

Prestastefnur – Synodalrjettur
Eftir Járnsíðu áttu biskupar að nefna 12 skynsama, lærða menn til þingreiðar. En eigi er kunnugt, hvaða hlutverk þeir áttu að vinna á Alþingi. Eigi segir Járnsíða, að biskupar hafi sjálfir verið þingreiðarskyldir.
AlþingiJónsbók segir ekkert um þingreið biskupa eða klerka. Og eigi segir heldur neitt um það efni í kirkjurjetti. Það er þó alkunnugt, að biskupar sóttu venjulega þing, bæði Skálholtsbiskup og Hólabiskup líka. Og á Alþingi stóðu stundum höfuðrimmur milli klerka og leikmanna í katólskum sið, t. d. milli Staða-Árna og Hrafns Oddssonar, Ólafs biskups Rögnvaldssonar og Hrafns Brandssonar, og jafnvel eftir siðaskifti (Guðbrandur biskup Þorláksson og Jón lögmaður Jónsson). Hólabiskupar höfðu ekki slík erindi til Alþingis sem Skálholtsbiskupar, því að nyrðra voru prestastefnur haldnar í Skagafirði, á Flugumýri oftast, eða annarsstaðar þar í biskupsdæminu. En Skálholtsbiskupar hafa lengi haldið prestastefnur fyrir sitt biskupsdæmi á Þingvelli um þingtímann. Þetta hafði þó ekki verið ákveðið eitt skifti fyrir öll fyr en 1639. Þá fjekk Brynjólfur biskup Sveinsson það samþykkt á prestastefnu, að aðalprestastefnu (Synodus generalis) Skálholtsbiskupsdæmis skyldi heyja á Þingvelli við Öxará á sama tima sem Alþingi.

Þingvellir

Bagall er fannst við uppgröft á Þingvöllum.

Þetta var biskupi hentugt, því að þar gat hann jafnframt hitt alla innlenda forráðamenn landsins. Síðan var prestastefna Skálholtsbiskupsdæmis háð á Þingvelli til 1789, enda var það beint lögákveðið í erindisbrjefi biskupa 1. júlí 1746, að þar skyldi prestasefna Skálholtsbiskupsdæmis vera. Sóttu synodus milli 10 og 20 prófastar og prestar úr nærsýslunum eftir kvaðningu biskups. Hjelt biskup þeim kost í tíð Brynjólfs, Þórðar Þorlákssonar og Jóns Vídalíns, að því er virðist. Fram undir lok 17. aldar mun biskup einn hafa haft forsæti prestastefnu sinnar, en eftir að amtmannsembættið er á stofn sett, fer amtmaður að taka þátt í dómstörfum prestastefnunnar (synodalrjetti). Gerist hann þá jafnframt biskupi forseti synodalrjettar, og stiftamtmaður síðan. Síðar miklu reis deila um forsæti synodalrjettar milli Levetzows stiftamtmanns og Hannesar biskups Finnssonar, því að stiftamtmaður taldist einn eiga að hafa forsæti í dóminum, en biskup kvað þá báða eiga að hafa það, er og var rjett. Fjelst og Kancelli á skoðun biskups.
Synodalrjetturinn dæmdi svonefnd „andleg mál“, þar sem prestar voru annar aðili, enda snertu málin kenningar þeirra og hegðun, hjónabandsmál, mál um kirkjuaga og gildi kirkjulegra athafna, svo sem skírnar, aflausnar o.s.frv. Synodalrjetturinn fluttist af Þingvelli um leið og lögrjetta og yfirrjettur.

Niðurlagning Alþingis hins forna

Alþingi

Oddur Sigurgeirsson sterki af Skaganum og Kristján X. Danakonungur á Alþingishátíðinni 1930. Oddur var mætur maður en stakk aðeins í stúf, m.a. vegna slyss sem hann lenti í sem barn og veikinda síðar á lífsleiðinni sem háðu honum mjög. Hann átti viðburðarríka ævi en Alþingishátíðin hefur verið honum ógleymanleg og kærkomið mótvægi við stríðni og skilningsleysi sem hann fékk vænan skerf af.

Það var nokkurn veginn auðráðið, að Alþingi við Öxará mundi eigi verða flutt þangað aftur, úr því að það var einu sinni komið til Reykjavíkur. Á Þingvelli hefði þurft að reisa nýtt lögrjettuhús, og þá lá nær, að reisa það í Reykjavík eða kaupa þar hús til þinghalds, sem einnig komst til tals. En svo kom annað til. Dómaskipun landsins var mjög óhentug. Alþingi var háð einu sinni á ári. Þetta skipulag olli feikna drætti á málum. Dómstigin voru fjögur, þrjú innlend (hjeraðsdómur sýslumanna, lögmannsdómur eða lögþings, yfirrjettur) og eitt erlent (hæstirjettur í Danmörku). Hlaut því afskaplega langur tími að líða frá því er mál var höfðað og þar til er það hafði gengið gegnum æðsta dómstólinn. Magnús Ólafsson Stefánssonar stiftamtmanns — þeir frændur höfðu þá að heldri manna sið danskað nafn sitt og nefnt sig Stephensen — var þá lögmaður.

Tíu aurar

Tíu aura peningur frá 1940 – með marki Kristján X., konungs Íslands.

Hann var, sem alkunnugt er, að mörgu leyti maður stórvel gefinn, gáfaður og lærður vel að þeirra tíma hætti, starfsmaður í besta lagi, metorðagjarn, fylginn sjer og óvæginn, ef því var að skifta. Hann var, ásamt Vibe landfógeta, Stefáni amtmanni Þórarinssyni — sem líka hafði danskbeyglað föðurnafn sitt í „Thorarensen“ — og Grími Thorkclin, skipaður haustið 1799 í nefnd til að íhuga skólamál landsins og dómsmál. Lagði nefndin til, að Alþingi, bæði ,,lögþingið“ (lögrjetta) og yfirrjettur, yrði algerlega lagt niður, en í staðinn yrði settur á stofn landsyfirrjettur, á borð við stiftsyfirrjettina norsku, sem þá höfðu verið stofnaðir fyrir skömmu. Fara þeir nefndarmenn, og þó aðallega Magnús lögmaður, heldur kuldalegum orðum um þinghaldið á Þingvelli og þingstaðinn, og einkum fær yfirrjetturinn, sem Ólafur gamli stiftamtmaður, faðir Magnúsar, veitti forstöðu, mjög illa útreið hjá honum. Kancellí fjelst á tillögur nefndarinnar um niðurlagningu Alþingis við Öxará og stofnun landsyfirrjettar í Reykjavík í staðinn. Og fór það fram, að þingið var alveg lagt niður árið 1800, eins og kunnugt er.

Alþingi 1845—1874

Þingvellir

Frá Alþingishátíðinni 1930.

Með tilskipun 28. maí 1831 og 15. maí 1834 var sett svonefnd ráðgjafarþing á stofn í Danmörku. Voru þau tvö, annað á Jótlandi og hitt í Hróarskeldu. Þing þessi áttu ráðgjafaratkvæði um ýms löggjafarmál. Á Hróarskelduþingi átti Ísland og Færeyjar að hafa 3 fulltrúa. Var með Ísland farið eins og það væri amt í Danmörku, að öðru en því, að landsmenn kusu eigi þessa fulltrúa sína, heldur gerði konungsvaldið það. Íslandi var þá, og hafði lengi verið, stjórnað í Kaupmannahöfn, og fóru stjórnarskrifstofurnar tvær, Kancelli og Rentukammer, með íslensku málin. Íslenskir menn hugðu margir, sem von var, að landinu mundi lítið gagn standa af afskiftum dansks ráðgjafarþings af íslenskum málum. Áhugaleysi þeirra og þekkingarleysi mundi girða fyrir alla nytsemd af meðferð íslenskra mála á dönsku þingi. Baldvin Einarsson skrifaði þegar 1831 ritling um ráðgjafarþingin dönsku og um ráðgjafarþing á Íslandi.

Þingvellir

Frá Alþingishátíðinni 1930.

En þó fyr en 1837. Þá gengust ýmsir merkir menn fyrir því, að gerðar voru bænarskrár til konungs um ráðgjafarþing hjer á landi. Komust þær sumar til Kancellis. En róðurinn var þungur, því að Kancelli taldi það ósæmilegt, að Íslendingar skyldu þá biðja um sérstakt ráðgjafarþing, með því að Friðrik 6., sem þá sat á konungsstóli í Danmörku, hafði lýst yfir því, að hann mundi eigi gera breytingu á ráðgjafarþingunum. Hinsvegar var með konungsúrskurði 22. ág. 1838 efnt til samkomu embættismanna nokkurra hjer undir forsæti stiftamtmanns. — Embættismannanefnd þessi hjelt tvisvar fundi, 1839 og 1841, en var svo lögð niður. Friðrik 6. ljetst 8. des. 1839. Var það happ mikið, bæði Íslandi og Danmörku.

Kristján XIII

Kristján XIII.

Til ríkis kom nú Kristján konungur 8., gáfaður maður og frjálslyndur, miðað við konungmenn þeirra tíma. Hann gaf út konungsúrskurð 29. maí 1840, þar sem gerðar voru ráðstafanir til þess, að embættismannanefndin íslenska yrði spurð að því, hvort eigi myndi Íslandi heppilegast að fá ráðgjafarþing á Íslandi, hvort það ætti eigi að heita Alþingi og hvort það skyldi eiga að heyja á Þingvelli við Öxará. Nefndin lagði auðvitað til, að Ísland fengi sjerstakt ráðgjafarþing er Alþingi hjeti. Meirihluti nefndarinnar lagði ennfremur til, að þingið yrði háð í Reykjavík, en minnihlutinn vildi hafa það á Þingvelli við Öxará. Deildu menn mjög um þingstaðinn, sem kunnugt er. En svo fór að lokum, að Reykjavík var kjörinn þingstaður Það varð mönnum og mikið ágreiningsefni, hvernig haga skyldi ákvæðum um kosningarrjett og kjörgengi til þingsins o. fl. En svo fór, að tillögur embættismannanefndarinnar gengu í flestu fram. Með konungsúrskurði 8. mars 1843 var loks ákveðið að stofna ráðgjafarþing á Íslandi, og átti þingið að heita Alþingi. Með tilskipun s.d. voru settar reglur um kjörgengi og kosningarrjett og þinghaldið alt. Upphaflega átti þingið að koma saman sumarið 1844, en þess varð eigi kostur, því að stjórnarvöldin í Kaupmannahöfn höfðu að venju dregið nauðsynlegar framkvæmdir til undirbúnings þinghaldinu. Fyrsta ráðgjafarþingið varð því ekki háð fyrr en í júlí 1845.

Skipun Alþingis 1805—1874

Þingvelllir

Frá Aþingishátíðinni 1930.

Landinu var þá skift í 19 sýslur eða lögsagnarumdæmi og Reykjavíkurkaupstaður að auki. Var hver sýsla og Reykjavík kjördæmi sjer og skyldi kjósa einn alþingismann, og einn til vara, í hverju þessara kjördæma. Voru þjóðkjörnir þingmenn á ráðgjafarþingunum því 20, þar til 1857, að Skaftafellssýslur urðu 2 kjördæmi. Urðu þá kjördæmi og þjóðkjömir þingmenn 21. Og var svo síðan til 1874. Auk þessa kjöri konungsvaldið alt að því 6 þingmenn, sem nefndir vóru konungkjömir. Alls áttu því sæti 26 og síðar 27 þingmenn á Alþingi. Þess er þó getanda, að í Vestmannaeyjum varð eigi kosinn þingmaður, meðan kosningarrjettarskilyrði Alþingistilskipunarinnar 8. mars 1843 stóðu, því að enginn hafði þar kosningarrjett. Stóð svo til 1857. Kjörtímabil þingmanna var 6 ár. Alþingi starfaði alltaf í einni málstofu þetta tímabil. Það kom jafnan saman annað hvert ár, stöku árin, nema 1851. Þá var þjóðfundurinn haldinn, en Alþingi eigi, sem vitað er. Aukaþing var ekkert haldið á þessu tímabili, en einu sinni var þing rofið, 1869, og efnt þá til nýrra kosninga, vegna stjórnardeilunnar milli Danmerkur og Íslands. Á þessu tímabili voru 14 þing háð, og þjóðfundurinn að auki, allt regluleg þing. Aukaþing þekktust ekki eftir Alþ.tilsk. 8. mars 1843.

Þingvellir

Þingvellir – kort.

Upphaflega áttu þeir einir karlmenn kosningarrjett, er áttu fasteign að minsta kosti 10 hndr. að mati, eða höfðu lífstíðarábúð á þjóðjörð eða kirkjujörð, er væri að minnsta kosti 20 hndr. að mati, eða ættu húseign, að minsta kosti 1000 rbdl. virði, í Reykjavík eða einhverjum verslunarstaðanna, sem þá voru. Þessi skilyrði þóttu alltof ófrjálsleg, sem von var. Ákvæðin Alþtilsk. um kosningarrjett og kjörgengi voru sniðin eftir samsvarandi fyrirmælum í tilsk. um dönsku ráðgjafarþingin. — Auk þessara skilyrða skyldi kjósandi enn fremur vera 25 ára gamall, hafa óflekkað mannorð, og hafa forræði á fje sínu. Kjörgengis-skilyrðin voru hin sömu sem kosningarrjettar-skilyrðin, að því viðbættu, að þingmaður skyldi vera 80 ára, hafa haft fasteignaráðin í 2 ár — Hann var aðeins kjörgengur í því amti, þar sem fasteign hans var — að hann skyldi vera kristinnar trúar, þegn Danakonungs, og hafa átt heima í 5 síðustu árin í löndum Danakonungs í Norðurálfu.

Þingvellir

Þingvellir – kort.

Með tilsk. 6. janúar 1857 voru skilyrði kosningarrjettar og kjörgengis mjög rýmkuð. Nú var eignarhald á fasteign eða ábúð á jörð eigi lengur skilyrði. — Nú fengu kosningarrjett bændur, sem höfðu grasnyt og guldu gjald til allra stjetta, embættismenn og þeir, sem tekið höfðu lærdómspróf við Kaupmannahafnarháskóla eða Prestaskólann, enda væru þeir eigi hjú, svo og kaupstaðaborgarar og loks þurrabúðarmenn, ef þeir greiddu 6 rbdl. til sveitar sinnar. Auk þess áttu kjósendur vitanlega að fullnægja skilyrðunum um aldur, mannorð, fjárforræði og eigi máttu þeir heldur standa í skuld fyrir þeginn sveitarstyrk. Loks átti kjósandi að hafa haft heimili í kjördæmi síðasta árið fyrir kosningu. Kjörgengisskilyrðin urðu nú hin sömu sem kosningarrjettarskilyrðin, nema þingmannsefni átti að vera 30 ára að aldri, þegn Danakonungs, kristinnar trúar, og hafa verið 5 ár búsettur í löndum Danákonungs í Norðurálfu, en eigi þurfti hann að hafa átt heimili í kjördæminu. Alþingiskosningar voru þá opinberar, og þurftu eigi að fara fram sama dag um land allt, eins og nú. Kjörstaður var þá einn í hverju kjördæmi, enda voru kosningar oft mjög báglega sóttar, í samanburði við það, sem nú er. Á þessu tímabili buðu menn sig eigi fram til þingsetu, eins og nú, og mátti því verða, að sá maður yrði fyrir kjöri, sem alls eigi vildi taka við kosningu. Alþingi úrskurðaði um kjörgengi og lögmæti kosninga, eins og nú. Ef aðalþingmanns missti við, eða hann forfallaðist, þá tók vara-þingmaður sæti.

Þingvellir

Þingvellir – Þingvallakirkja.

Alþingi kom saman 1. júlí, eða næsta virkan dag þar á eftir, ef 1. júlí bar á sunnudag, og skyldi standa 4 vikur. Þingtíminn var þó lengdur, ef á þurfti að halda. Konungsfulltrúi setti þingið og sleit því. Þingmálið var íslenska, en þó mátti konungsfulltrúi tala á dönsku, en þýða átti þá jafnharðan ræðu hans. Eftir 1849 — þá varð Páll amtmaður Melsted konungsfulltrúi — hjeldu konungsfulltrúar ræður sínar á íslensku. Fyrstu 2 þingin voru háð fyrir lokuðum dyrum, þrátt fyrir kröfur þingmanna um þinghald í heyranda hljóði, en 1849 og síðan var þing haldið fyrir opnum dyrum. Þingið kjöri forseta sinn og varaforseta og svo skrifara. Þingið var háð í salnum í Latínuskólanum öll þessi ár, því að þinghús var eigi reist þá, og eigi annað hús jafn hentugt þá eða veglegt til þinghalds.

Þingvellir

Þingvellir 1866.

Lagafrumvörp af hendi konungsvaldsins, er snertu mannrjettindi manna, eignir, skatta og álögur í almennings þarfir, átti að leggja fyrir þingið. Það hafði rjett og skyldu til ráðgjafar um þessi efni, en samþyktarvald um löggjöf hafði þingið ekki þá, eins og síðan 1874. Einstakir þingmenn gátu og borið löggjafarmál undir þingið. Um stjórnarfrumvörp voru hafðar tvær umræður. Hjet hin fyrri undirbúningsumræða, en hin síðari ályktunarumræða. Um frumvörp einstakra manna eða málefni, er þeir báru upp, voru hafðar þrjár umræður, inngangsumræða og síðan hinar tvær áðurnefndu.

Þingvellir

Þingvellir 1882.

Ef Alþingi vildi koma máli fram í einhverri mynd, þá var venja, að forseti og skrifari sendi um það bænarskrá til konungs, þar sem fram var tekið, hvers efnis þingið vildi hafa væntanleg lög um málið. En það var auðvitað oft óvíst, hvort tillögur þingsins fyndu náð fyrir augum stjórnarskrifstofanna eða ráðherranna Kaupmannahöfn. Um þeirra hendur fóru málin áður en þau komu til konungs, og þeirra ráðum mun hann nær altaf hafa hlítt. Á þessu tímabili hafði Alþingi með höndum öll þau mál, sem þá kvað mest að og mestu vörðuðu landið. Þegar á fyrsta þinginu (1845) kom verslunarmálið til meðferðar. 1787 hafði verslunin að vísu verið leyst úr versta einokunarlæðingnum, en Danir einir mátti versla hjer leyfislaust og afarkostalaust. Og tiltölulega fáar hafnir voru hjer löggiltar.

Alþingishúsið

Alþingishúsið, byggt 1881 – merki Kristjáns IX (1818-1906) er færði Íslendingum stjórnarskrána 1874.

— Flestir bestu menn landsins vildu fá íslenska verslun við útlönd gefna frjálsa öllum þjóðum og jafnrjetti þeirra á meðal. Stóð í þessu þófi nær áratug, uns verslunarfrelsi fjekst nokkurnveginn með lögum 15. apríl 1854, er ríkisþing Dana og konungur setti. Meðal annara stórmála, er ráðgjafarþingin fóru með, má nefna skólamálin, fjárkláðamálið á þingunum 1857—1869, fjárhagsmálið svo nefnt, um skuldaskifti Íslands og Danmerkur 1865 og síðast en eigi síst stjórnarbótarmálið (sambandsmál Íslands og Danmerkur) 1867, 1869 og 1871 og frumvörp bæði í sambandi við það og sjer í lagi (1878) um stjórnarskrá landsins.

Jón Sigurðsson

Jón Sigurðsson (1811-1879).

Þau mál tókst Alþingi eigi að leysa. Stöðulög 2. jan. 1871 og stjórnarskrá 5. jan. 1874 voru sett án þess að þau væru lögð fyrir Alþingi og að sumu leyti þvert ofan í vilja þess, eins og kunnugt er.

Á þessu tímabili sátu margir kunnustu og ágætustu menn landsins á þingi. Fyrstan má þar nefna Jón Sigurðsson forseta. Hann var kjörinn þingmaður allt þetta tímabil, en sat þó ekki á þingunum 1861—1863. Þá má nefna menn eins og Þórð Sveinbjörnsson yfirdómsforseta, sem var líka lærður maður og mikilhæfur, Pjetur biskup Pjetursson, Jón Guðmundsson ritstjóra, prófastana Hannes Stephensen og Halldór Jónsson, Benedikt Sveinsson, Arnljót Ólafsson, Jón Sigurðsson á Gautlöndum o.m.fl. þjóðkunna menn.”

Heimildir:
-https://timarit.is/page/1219644#page/n0/mode/2up
-Morgunblaðið – Hátíðarblað 26. júní 1930, Eggert Briem, Alþingi hið forna, bls. 4-7.
-Morgunblaðið – Hátíðarblað 26. júní 1930, Einar Arnórsson, Saga Alþingis, bls. 7-10.

Alþingi

Frá Alþingishátíðinni á Þingvöllum 1930.

Þingvellir

Saga Íslands og íslensku þjóðarinnar kemur hvergi betur fram á einum stað en á Þingvöllum við Öxará. Þar var Alþingi stofnað um árið 930 sem kom saman á Þingvöllum allt fram til ársins 1798. Meginviðburðir Íslandssögunnar hafa gerst þar og því skipa Þingvellir sérstakan sess í hugum allra Íslendinga.

Þingvellir

Þingvellir – Langistígur.

Þingvellir eru í dag friðlýstur helgistaður Íslendinga. Í lögum segir að hið friðlýsta land skuli ævinlega vera eign íslensku þjóðarinnar og undir vernd Alþingis.
Á undanförnum áratugum hafa rannsóknir leitt í ljós að Þingvellir eru náttúruundur á heimsvísu þar sem jarðsagan og vistkerfi Þingvallavatns mynda einstaka heild. Það eru gríðarleg verðmæti og náttúruundur að geta fylgst með þróun og myndum nýrra tegunda á einum stað eins og í Þingvallavatni. Þingvallasvæðið er hluti flekaskila Atlantshafshryggjarins sem liggja um Ísland. Þar má sjá afleiðingar gliðnunar jarðskorpunnar í gjám og sprungum svæðisins.
Frá öndverðu hafa ferðamenn lagt leið sína á Þingvöll og ástæðan er líklega augljós. Sagan og hrikaleg náttúran gera Þingvelli nánast að skylduáfangastað þeirra sem um landið fara. Um miðja nítjandu öld komu fram hugmyndir í Bandaríkjunum um að friða svæði vegna fegurðar og mikilfengleika þeirra.

Þingvellir

Þingvellir 1905 – Ásgrímur Jónsson.

Þessar hugmyndir bárust til Íslands í upphafi 20. aldar. Árið 1907 ritaði Matthías Þórðarson grein í Skírni undir yfirskriftinni Verndun fagurra staða og merkra náttúrumenja. Í henni fjallaði hann um nauðsyn þess að hlúa að stöðum sem væru merkilegir og sérstakir sökum fegurðar jafn vel og verndun fornminja og gamlir kirkjumunir voru varðveittir. Hann nefndi ýmsa staði en tiltók Almanngjá og svæðið umhverfis Þingvelli við Öxará sem dæmi um stað sem mætti sinna betur. Raunar tók hann fram að það væri búið að skemma Almannagjá með þeim vegi sem þá var búið að leggja. Hann rak dæmi um friðunaráform erlendis og nefndi meðal annars Yellowstone Park í Bandaríkjunum sem dæmi um stað sem friðaður væri með allsherjarlögum.

Þingvellir

Örn yfir Þingvöllum.

Árið 1913 ritaði Guðmundur Davíðsson þá grein sem átti eftir að ýta umræðunni um stofnun þjóðgarðsins á Þingvöllum úr vör. Greinin nefndist Þingvellir við Öxará og birtist í tímaritinu Eimreiðinni sem ritstýrt var af Valtý Guðmundssyni háskólakennara. Greinin var mjög beinskeytt og Guðmundur dró ekkert undan í lýsingum sínum af illri umgengni og skeytingarleysi landans á þessum sögufrægasta stað landsins, Þingvöllum. Hann ritaði í upphafi greinarinnar:

Þingvellir

Þingvellir – Skötutjörn.

“Fáir Íslendingar munu koma svo í fyrsta sinn á Þingvelli við Öxará, að eigi dáist þeir að náttúrufegurðinni og í hug þeirra vakni, endurminningar um helstu viðburði sem tengdir eru við sögu þessa merkisstaðar. Þetta tvennt, söguviðburðirnir og náttúrufegurðin hlýtur að snerta tilfinningar allra sem staddir eru á þessum fornhelga stað. Þar má segja að saman sé komið flest það sem einkennilegast og fegurst er í íslenskri náttúru og þar hafa einnig gerst margir merkustu viðburðirnir í sögu Íslendinga”
Í greininni rakti Guðmundur dæmi um þjóðgarða í Bandaríkjunum og í framhaldi af því nauðsyn þess að vernda bæri Þingvelli sem þá voru orðnir að vinsælum helgaráningarstað ferðamanna. Ekki var það þó fyrr en á árinu 1930 að brotið var blað í sögu náttúruverndar á Íslandi en þá var fyrsti þjóðgarðurinn á Íslandi stofnaður – Þjóðgarðurinn á Þingvöllum.

Þingvellir

Þingvellir – Þingvallakirkja.

Árið 1930 var Guðmundur Davíðsson ráðinn fyrsti þjóðgarðsvörðurinn á Þingvöllum og bjó hann þar þangað til 1940 er hann lét af störfum vegna heilsubrests. Hann fluttist þá til Reykjavíkur og gerðist starfsmaður Alþingis til ársins 1948.
Þingvellir eru í dag einn af fjölsóttustu ferðamannastöðum landsins þar sem hundruðir þúsunda gesta koma árlega til að kynnast betur einum mesta sögustað og náttúruperlu Íslands.
Víkingaöld er talinn hefjast um árið 800 og ljúka um 1050. Einkennandi fyrir þennan tíma er að þá tók norrænt fólk sér bólfestu allt frá Volgubökkum til austurstranda Norður-Ameríku og frá Miðjarðarhafi til Norður-Íshafs.-

Þingvellir

Þingvellir – Almannagjá.

Landnám Íslands var einn þáttur í þessum miklu og víðtæku þjóðflutningum. Landþrengsli og innanlandsátök í Noregi voru þættir sem leiddu til að margir tóku sig upp og lögðu út á hafið til Íslands. Í Íslendingabók Ara fróða segir að Ingólfur Arnarson hafi fyrstur numið land í Reykjavík sem mun hafa verið um árið 870.
Margir fylgdu í kjölfar Ingólfs og sáu þeir Ísland fyrir sér sem land nýrra tækifæra. Íbúum fjölgaði jafnt og þétt og að sama skapi jókst þörf á lögum og þar með einhverjum tilteknum stað þar sem menn gætu komið saman, sett niður deilur og sammælst um tilteknar reglur sem hafa bæri í heiðri. Nokkru eftir landnám voru tvö héraðsþing stofnuð á Íslandi, annað kennt við Þórsnes við Stykkishólm, hitt við Kjalarnes. Seinna voru fleiri héraðsþing stofnuð víðsvegar um landið.

Þingvellir

Þingvellir – Almannagjá.

Skömmu eftir árið 900 var farið að huga að þeim möguleika að stofna eitt allsherjarþing – Alþingi – áÍslandi. Nokkru fyrir árið 930 komu höfðingjar sér saman um að senda mann, Úlfljót að nafni, til Noregs. Erindi hans var að kynna sér lög og venjur sem hafa mætti að fyrirmynd í hinu nýja þjóðfélagi. Hann sneri aftur til Íslands og við hann eru kennd fyrstu lögin sem sögð voru upp á Alþingi – Úlfljótslög. Fóstbróðir Úlfljóts, Grímur geitskör, fór um Ísland til að afla fylgis við stofnun Alþingis sem og að finna hentugan þingstað. Niðurstaðan varð sú að þingið yrði í Bláskógum og sumarið 930 komu menn saman, þar sem nú heita Þingvellir, til að taka þátt í fyrsta Alþingi Íslendinga sem markar upphaf þjóðríkis á Íslandi.

Þingvellir

Þingvellir – Öxarárfoss.

Nokkrar ástæður eru taldar líklegastar fyrir vali þingstaðarins á Þingvöllum. Í landnámi Ingólfs Arnarsonar hafði verið stofnað þing á Kjalarnesi. Ættingjar hans voru valdamiklir og talið er að áhrifa þeirra hafi gætt við staðarval Alþingis. Á þjóðveldisöld lágu Þingvellir vel við helstu leiðum og þéttbýlustu svæðum á Íslandi og því auðvelt fyrir flesta að sækja þingið.
Aðstæður á Þingvöllum þóttu einnig heppilegar fyrir þing; góðir hagar, eldiviður og vatn. Þá þótti staðurinn henta vel fyrir sjálft þinghaldið sem slíkt þar sem brekka og sléttur völlur lágu upp að hamravegg.

Flosagjá

Þingvellir – Flosagjá.

Einnig er nefnd frásögn í Íslendingabók Ara fróða af Þóri kroppinskegg sem átti land í Bláskógum. Hann myrti þræl sinn en í refsingarskyni var allt land hans gert að allsherjareign til afnota fyrir þingið.Um tveggja vikna skeið á sumri hverju reis lítið samfélag á Þingvöllum. Þangað streymdi fólk allsstaðar að, fólk sem vildi taka þátt í samkomu sem átti engan sinn líka á Íslandi. Orðatiltækið “nú er þröng á þingi” má líklega rekja til þingsins þar sem fjölmennt var þegar hæst stóð. Samkvæmt talningu Gissurar biskups Ísleifssonar voru þingfararkaupsbændur um 4000 talsins við lok 11.aldar. Þar sem goði gat krafið níunda hvern bónda þingreiðar voru allt að 500 þingfarakaups-bændur skyldugir að fara með með goða sínum til þings við lok elleftu aldar. Goði átti að styðja þá þingmenn sem sögðu sig í goðorð með honum en á móti studdu þingmenn goða sinn á þingum og í deilum. Goðar áttu að sjá þingmönnum sínum fyrir rými í búð sinni en aðrir sem komu reistu skýli og tjöld til að dvelja í á meðan þingi stóð.

Þingvellir

Þingvellir – Snókagjá.

Á þjóðveldisöld voru ekki eingöngu þeir sem áttu lögskipað erindi til Alþingis sem þangað lögðu leið sína. Í hinni fornu lögbók Grágás eru nefndar búðir sútara og sverðskriða og í mörgum Íslendingasögum er getið búða ölbruggara og veitingamanna á Alþingi. Þann tíma sem Alþingi stóð yfir var það miðstöð þjóðlífs og einskonar höfuðstaður landsins þangað sem almenningur sótti. Þangað komu iðnaðarmenn og kaupmenn innlendir sem erlendir, fulltrúar erlendra þjóðhöfðingja, fólk í atvinnuleit og betlarar í leit að ölmusu. Kauphéðnar, sverðskriðar og sútarar buðu fram varning sinn og ölgerðarmenn sáu um að þingheimur gæti vætt kverkarnar. Fréttir voru sagðar úr fjarlægum heimshlutum, kappleikir háðir og veislur haldnar. Æskufólk réð ráðum sínum ekki síður en þjóðskörungar og lögvitringar.

Þingvellir

Þingvellir.

Þeir sem sóttu þing þurftu að leggja á sig erfið ferðalög til að komast til Þingvalla hvert sumar. Sumir áttu einungis um 1-2 daga reið meðan aðrir voru um 14-17 daga á leiðinni yfir fjöll og eyðisanda á hálendi Íslands. Þingvellir lágu vel við fornum leiðum, mitt á milli helstu héraða sunnanlands og vestan, vart nema dagleið ríðandi mönnum. Úr fjölmennustu byggðum norðanlands, Húnaþingi, Skagafirði og Eyjafirði lágu torfærulitlir vegir á þing. Norðlendingar eystri og jafnvel Austfirðingar völdu fjallvegi þvert yfir landið en lengsta þingsókn áttu menn úr sunnanverðu Múlaþingi.
Í dag eru grasivaxnar búðarústir víðsvegar um þinghelgina einu leifarnar eftir tæplega 900 ára sögu þingsins. Almennt er talið að búðir á þjóðveldisöld hafi verið stærri en þær sem voru reistar á síðari öldum Veggir voru gerðir úr torfi og grjóti og yfir búðina var reist trégrind þar sem var tjaldað yfir með vaðmáli eða öðru efni. Búðir voru iðulega reistar á grunni eldri búða og því eru flestar búðarústir sem sjást í þinghelginni frá seinustu tveimur öldum þingsins.

Skógarkot

Skógarkot.

Gangan hófst að þessu sinni ofan við Stekkjargjá norðan við Öxarárfoss. Milli hennar og Snókagjáar liggur flóraður stígur niður í gjána, Langistígur. Gagnheiðarvegur úr Borgarfirði og gamla gatan frá Norðlingavaði að vestan sameinast skammt ofan við þar sem stígurinn fer niður í gjána. Á leiðinni niður er fallega hlaðin brú. Einstaklega fallegt útsýni er í Stekkjargjánni þar sem stígurinn kemur niður í hana. Á barminum hægra megin hvílir tvíhöfða þurs er horfir annars vegar yfir gjána og hins vegar til himins.

Skógarkot

Í Skógarkoti.

Gengið um Efrivelli um Vallarstíg, á hlaðinni brú yfir Valagjá og áfram austur Skógarkotsveg áleiðis að Skógarkoti. Þessi kafli er um 1.8 km langur og er gamli bílvegurinn (sá fyrsti), sem lagður var norður á land um Þingvelli og Kaldadal. Enn þann dag í dag má fylgja honum frá Selvatni ofan við Reykjavík svo til alla leiðina í Borgarfjörð í gegnum vellina. Útsýni á þessari leið er stórbrotið, ekki síst fjalla- og vatnasýnin við Þingvelli. Skógarhólar voru á vinstri hönd skömmu áður en komið var að Skógakoti. Fallega hlaðin heimtröðin tekur á móti ferðalöngum og leiðir þá heim að bæjarstæðinu.

Skógarkot

Tóft í Skógarkoti.

Þar er bæjarhóll, hlaðinn kjallari hlöðu, brunnur, gerði og tóftir austar í túniu. Allt umhverfis er hlaðinn túngarður. Skógarkot er svo til miðsvæðis á Þingvöllum og því fallegt að horfa þaðan til allra átta; Botnssúlurnar, Ármannsfellið, Skjalbreið, Tindaskagi og Hrafnabjörg. Handan vatnsins er Arnarfell og Hengillinn. Háimelur sést í fjarska í vestri sem og Borgarklettarnir. Björn Th. Björnsson hefur m.a. ritað sögulega skáldsögu um lífið og fólkið í Skógarkoti.

Ölkofri

Ölkofri.

Ákveðið var að fylgja Veiðigötunni frá Skógarkoti, áleiðis að Þingvallavatni. Eftir spölkorn var komið að Hellishól og Hallshelli, hægra megin við stíginn. Hleðslur eru inni í hellinum og er honum að meginefni til haldið uppi af stórri náttúrulegri steinsúlu. Ekki er vitað hvort mannvistarleifar þessar hafi verið skoðaðar sérstaklega, en stutt er síðan hellirinn endurfannst.

Ölkofri

Ölkofri – Gamlistekkur.

Veiðigötunni var fylgt til baka inn á Gjábakkaveg. Honum var fylgt niður að Tjörnum norðan Vallavegar (þjóðvegurinn norðan Þingvallavatns. Á móts við Tjarnirnar liggur nær ósýnilegur stígur upp í landið, að Nýja Þingvalahelli, fjárhelli, sem þar er. Skammt suðvestan við hann er skúti. Gjábakkavegi var fylgt áfram að Böðvarshól ofan við norðausturhorn Þingvallavatns. Þar fyrir ofan hólinn er Þingvallahellir, einnig fjárhellir. Mjög er gróið fyrir opið og nær ómögulegt að finna það nema hafa kunnugan með í för.

Þingvellir

Á Þingvöllum.

Gjábakka vegi var fylgt til baka að Tjörnunum, en þar var strikið tekið yfir lyng og móa, milli trjáþyrpinga, upp á svonefndan Klukkustíg. Þeim stíg var fylgt til vesturs að Þórhallsstöðum. Bærinn kúrir suðaustan undir Ölkofrahól. Sennilega er bær þessi frægastur fyrir bruggtilraunir fyrr á öldum.
Klukkustíg var fylgt áfram til vesturs að Skógarkoti og Sandhólastíg síðan fylgt upp á Leirarnar sunnan við Þjónustumiðstöðina með viðkomu í Krókhólum.
Veður var frábært – sól og lygna. Gangan tók 2 klst og 22 mín.

Heimildir m.a.:
http://www.thingvellir.is

Ölkofra

Ölkofra – Þórhallsstaðir – loftmynd.

Þingvellir

Það var grenjandi lárétt rigning í bænum þegar lagt var af stað. Þegar komið var á Þingvelli skein sólin á Þingvallahraunið og nálæg fjöll. Frábært veður. Ætlunin var að ganga í Hrauntún og Skógarkot frá þjónustumiðstöðinni að Skógarkoti og rifja upp búsetusögu og mannlíf á svæðinu fyrr á öldum sem og náttúrufarið. Í Skógarkoti eru ríkulegar minjar í fallegu umhverfi. Um tímamóta FERLIRsferð er að ræða því ekki hefur fyrr verið farið svo langt út fyrir kjörlendið. Svo gæti farið að þetta yrði upphafið að “útrás” FERLIRs um aðra merkisstaði utan skagans og þar með formleg “útskrift” af æfingasvæðinu.

Hrauntún

Í Hrauntúni.

Í tilefni af ferðinni var sett inn ný krækja á vefsíðuna, www.thingvellir.is. Á honum er bæði kort og ýmiss fróðleikur um Þingvelli, einn helgasta stað þjóðarinnar frá árinu 930.

Þingvallahraun er 9000 ára um þessar mundir, en Sandey út í Þingvallavatni er einungis um 2000 ára gömul svo ýmislegt hefur gengið þarna á um langan tíma. Fyrir um 9000 árum, þegar hraunin runnu frá Skjalbreið og gígunum ofan við Hrafnabjörg er mynduðu Þingvallahraunið hefur svæðið verið nokkurn veginn sléttlent með hraunhólum og –hæðum. Síðan hefur landið sigið að hluta á misgengissprungu, sem liggur um landið frá SV til NA. Mið-Atlantshafshryggurinn liggur um Þingvallasvæðið og Þingvallasigdældin er líkust því sem sjá má á Atlantshafshryggnum neðansjávar. Landið hefur gliðnað í sigdældinni, en reikna má með að um hálf milljón ár séu liðin frá því að Almannagjá að vestanverðu og Hrafnagjá að austanverðu lágu hlið við hlið. Þegar litið er glögglega á umhverfið má vel sjá þau frumöfl, sem skópu Ísland í upphafi, þ.e. sprungukerfið, jarðeldarnir og jökulrofið. Áhrif ísaldarjökulsins má t.d. sjá á Henglinum, Hrafnabjörgum, Ármannsfelli og Súlunum.

Hrauntún

Hrauntúnsgatan.

Götur, vegir og slóðar liggja svo til um allt hraunið, bæði þvert yfir það og á milli bæja og vatnsins. Þarna er kirkjugata, veiðigata og konungsvegur. Orðið stígur á “Þingvallamáli” er einungis ruðningur eða brú yfir gjá. Skógarkotsgatan og Gjábakkavegur annars vegar voru fyrstu akvegirnir í gegnu hraunið til austurs og Nýja Hrauntúnsgatan og Réttargata hins vegar voru leiðin noður á land um Uxahryggi. Þannig lágu “allir vegir um Skógarkot” hér á landi líkt og allir vegir lágu til Rómar enn fyrrum.

Hrauntún

Í Hrauntúni.

Þingvellir hétu áður Bláskógar. Sennilega hafa þeir dregið nafn sitt af blágresinu, sem enn er víða áberandi innan um kjarr og lyng í hrauninu. Þingvallavatn hét þá Ölfusvatn (Ölfisvatn), sbr. Ölfusá, en eftir að þinghald varð á Völlunum breyttist nafnið og nú eru þau gömlu að mestu gleymd, líkt og flest gömlu örnefnin á svæðinu. Reyndar eru til miklar örnefnalýsingar, en fáir vita nú hvar þau örnefni eru. Örnefnin höfðu annan tilgang hér áður fyrr en fólk ímyndar sér nú á dögum. En samt er hann ekki svo frábrugðin þegar grannt er skoðað. Maður, sem talar við annan í farsíma, getur þurft að staðsetja sig til að gefa til kynna hvar hann er staddur. Á sama hátt þurfti bóndinn t.d. að geta staðsett kýr eða kindur við eða nálægt tilteknum stað þegar á þurfi að halda, öðrum til glöggvunar.
Utan þingstaðarins forna tengjast þær flestar gömlu eyðibýlunum, Hrauntúni, Skógarkoti og Vatnskoti þar sem enn má sjá ummerki mannvistar fyrir tíma vélvæðingar.

Konungsvegur

Konungsvegur að Skógarkoti um Þingvallahraun.

Byrjað var á því að ganga frá þjónustumiðstöðinni (sem nú er ekki nema tóftirnar) að Leiragötu (1.5 km) um Leiragjá. Gjáin er bæði breið og falleg á kafla, en annars er hún eins og aðrar gjár á Þingvöllum, djúpar. Leiragata liggur frá Leirum sunnan við miðstöðina og liðast í gegnum hraunið. Smjörgras var áberandi við götuna. Hún er vel greinileg og hefur verið gerð greinilegri á síðustu árum eftir að byrjað var á því að greina aftur gömlu göturnar og vegina í hrauninu. Sumar göturnar eru ekki varðaðar, enda einungis farnar í ákveðnum tilgangi, s.s. með fé eða til að sækja vatn. Aðrar eru greinilegri og hafa jafnvel verið lagfærðar. Þær eru varðaðar, enda oft um þjóðleiðir að ræða. Þannig var Prestastígur með austanverðu og ofanverðu hrauninu notaður þegar Skálholtssbiskupar voru á leið vestur á land og Skógarkotsgata og Gjábakkavegur voru sýsluvegir, sem notaðir voru til að greiða t.d. götu vermanna á leið þeirra yfir hraunið.

Skógarkot

Í Skógarkoti.

Gengið var í gegnum Þrívarðaskóg og yfir á Nýju Hrauntúnsgötu, sem hefur verið endurgerð sem reiðvegur. Hún liggur bæði til norðurs og til suðurs vestan við Skógarkot. Frá gatnamótunum er stutt eftir að Hrauntúni. Þegar stutt er eftir að bænum sést fallega hlaðin varða á hraunhól á vinstri hönd, Litlavarða. Einfaldir háir garðar umlykja túnin. Blæs vel í gegnum þá sumsstaðar. Hrauntún er sunnan Sleðaáss. Halldór Jónsson reisti þar bú 1830 á rústum kots, sem talið er hafa farið í eyði í fyrri plágunni. Þarna bjuggu þrjár kynslóðir til 1934. Óglöggt sést til rústa Litla-Hrauntúns austur af Víðivöllum og Stóragili í Ármannsfelli.

Skógarkot

Skógarkot 1913.

Sagt er að Halldór bóndi í Hrauntúni, sem hlóð garðana, hafi verið ættaður norðan af landi og taki hleðslulagið mið af því, sem hann var vanur og þekkti. Hann er m.a. þekktur fyrir að hafa varðað hinn gamla Kjalveg. Garðarnir umhverfis Skógarkotið eru hins vegar mun breiðari og taka mið af lagi sveitarinnar. Hrauntúnsgata liggur þarna sunnan garða. Réttargatan er norðan við bæinn. Fallega hlaðin heimtröðin liggur að henni frá bæjarstæðinu. Austan bæjarins eru tóftir útihúsa. Sunnan bæjarins er hlaðin hlaða og brunnurinn er greinilegur í kvos vestan hennar. Ofan og norðan við hann er flórað gólf undan timburhúsi. Fallegri fjallasýn frá bæ er vandfundin, nema ef vera skyldi frá Skógarkoti.

Hrauntún

Hrauntún – loftmynd.                               

Þá bættist Páll Kolka í hópinn. Hann er starfsmaður Þjóðgarðsins, en garðurinn gengst fyrir gönguferðum með leiðsögn um Þingvallasvæðið á laugardögum í sumar. Ætlunin er m.a. að fara síðar í slíka ferð að Þórhallsstöðum skv. auglýstri dagskrá.

Hrauntún

Í Hrauntúni.

Gengið var áleiðis í Skógarkot um Sandhólaveg og Sandhólastíg yfir Sandhólagjá. Ljósberi var áberandi við götuna. Sandhólavegur er ekki varðaður og er líkt farið með honum og Leiragötu. Á leiðinni upplýsti Páll að árið 1789 hafi hækkað í vatninu og Vatnskot, á norðurbaka Þingvallavatns, hafi þá að hluta farið undir vatn, en enn má sjá garð í vatninu á um 2 metra dýpi. Vatnskot stóð utan við Vellankötlu á vatnsbakkanum í landþrengslum. Ábúendur lifðu aðallega af veiði í vatninu. Símon D. Pétursson, smiður, og Jónína Sveinsdóttir settust þar að 1912 og bjuggu lengst allra í þjóðgarðinu, til 1966. Símon þótt mikill hagleiksmaður.
Árið 1930 hafi Þingvellir verið gerðir að þjóðgarði og þar með hafi búskapur og flestir bæir skömmu síðar þar lagst af. Bóndinn í Skógarkoti hafi reyndar flutt sig niður að Hallsvík, reist þar hús og ætlað að lifa af vatnabúskap, en það hafi orðið skammlíft. Reyndar hafi Þingvallavatn lítið verið nýtt á öldum áður. þrátt fyrir nægan fisk.
Blágresi var víða með götunni. Páll sagði að túnin við bæina hefðu verið ræktuð með því að mokað var út úr útihúsum og skítnum dreift um mosavaxna hraunhóla og –lægðir. Þannig hefðu þau verið stækkuð smám saman. Reyndar væru þau hvergi mjög stór, en skógurinn hefði bætt upp beitina. Þarna hafi jafnan verið snjólétt og féð geta gengið í skóginn. Fjármargt hafi verið í kotunum. Um 1703 hafi t.d. verið um150 ær í Skógarkoti, en undir það síðasta hefur fjöldinn eflaust verið mun meiri, líkt og á öðrum bæjum í Þingvallasveit. Í Skógarkoti hafi verið strjál búseta og oft á tíðum hafi það verið sel frá Þingavallabænum.
Þegar komið var í Krókhóla var staðnæmst og Páll útskýrði örnefnið; krókóttir hraunhólar að ofanverðu. Lyng og kjarr var í hraunhólunum á móti suðri, en við norðrinu gapti mosinn.
Beygt var til hægri þegar komið var inn á Nýju Hrauntúnsgötu og síðan austur Skógarkotsveg. Af honum var gengið inn á heimtröðina í Skógarkoti. Veggirnir voru veglegir og hafa staðið nokkuð vel því þeir hafa ekki verið endurhlaðnir eftir að búskap lauk þar. Heimtröðin liggur í beygju upp að bæjarhólnum. Margt er líkt með heimtröðinni að Skógarkoti og Stóra-Gerði í Staðarhverfi í Grindavík, báðar tilkomumiklar og fallega formaðar.

Hrauntún

Garður í Hrauntúni.

Í Skógarkoti eru greinilegar rústir þessa býlis, undir Sjónarhóli. Vatn þraut oft í brunninum í túninu. Þarna var búið til 1936.
Páll dró upp teikningu af útliti bæjarins, eins og hann leit út undir það síðasta, og sýndi þátttakendum. Með því var auðveldara að glöggva sig á hvernig umhorfs hafi verið í Skógarkoti á þeim tíma miðað við aðstæður. Blágrsi hafði náð að “fótfesta” sig í túninu við heimtröðina. Suðvestan við heimtröðina að Skógarkoti liggur Vatnskotsgata og Veiðistígur til suðurs, að vatninu, annars vegar að Vatnskoti og hins vegar að Öfugsnáða, en þaðan náði veiðiréttur Skógarkots að Hallvík í austri.
Bæjarhúsin hafa staðið uppi á grónum hól. Suðvestan við þau sést enn verklega hlaðin hlaða. Tóftir útihúss eru ofar. Vel hlaðnir garðar eru allt í kringum heimatúnin. Austan við túngarðana eru Þórhallastaðir við Ölkofrahól og enn ofar í norðraustur er Hellishæð. Þar er fjárhellir.
Áhrifamikil saga tengist einum ábúandanum á Þórhallsstöðum og brugggerð hans. Á Þórhallastöðum eru rústir bæjar eru undir Ölkofrahóli. Þar er brunnur og smátún. Ölkofradalur er djúp hraunkvos vestan hólsins. Þar er vatnsstæði, sem þornar í þurrkum. Ölkofri, sem seldi þingheimi bjór á sínum tíma og brenndi Goðaskóg, bjó þar. Talið er, að stóraplága hafi lagt Þórhallastaði í eyði og Skógarkot hafi byggst eftir hana. Að sögn Páls hafa margar minjar á þessu svæði verið upgötvaðar á liðnum árum, en eflaust eru margar enn ófundnar, sem þar kunna að leynast…

Þingvellir

Fjallfífill.

Gengið var til baka um Skógarkotsstíg, greiðfæra götu, enda einu sinni fyrsti bílvegur þá leiðina yfir hraunið, og að Flosagjá. Þar var staðnæmst við brú yfir gjána. Skammt sunnan hennar má sjá enn eldri brú fyrir fótgangandi. Páll sagði að Flosagjá hafi einnig verið nefnd Peningagjá. Á því væru tvær skýringar. Annars vegar sú að í henni hafi verið komið fyrir sjóði falsaðra peninga, en hinsvegar að konungur Dana, sem hafi átt leið um “Konungsveginn” hafi fyrstur staðnæmst þar og kastað í hana pening honum og öðrum til heilla.

Götunni var fylgt upp að gatamótum Langastígs og Þingmannastígs við Vallagjá. Langistígur liggur upp um haft, sem sprengt var niður í Stekkjargjá og mun m.a. vera gömul póstleið. Þingmannastígur liggur norður með Fögrubrekkum, en það var leið Norðlendinga af þingi fyrr á öldum. Þeirri götu var fylgt áleiðis að þjónustumiðstöðinni þar sem gangan endaði. Við götuna mátti bæði berja augum brönugras og fjalldalafífil.
Til frekari upplýsinga má geta þess að Arnarfell var hjáleiga frá Þingvöllum, sem hafði afnot af fellinu og spildu norðan þess við vatnið og var góð veiðijörð. Enn þá sést móta fyrir grjótgarði, sem var hlaðinn til að girða fellið af. Líklega hefur Fornasel verið sel frá Þingvallabænum. Hjáleigan var ekki stöðugt í ábúð. Árið 1934 fékk Matthías Einarsson, læknir, erfðafestuábúð þar og flutti til sín hreindýr frá Austurlandi en þau drápust öll.
Hér á eftir eru tiltekin prestssetur á Þingvöllum með því sem þeim fylgir, með framsettum fyrirvara, sem þjóðkirkjan hefur ekki afsalað sér eða ekki hafa verið seld með lögmætum hætti: Þingvöllur með hjáleigunum í umsjá f.r.: Svartagili, Vatnskoti og Arnarfelli. Hjáleigurnar Skógarkot og Hrauntún hafa verið lögð til Þingvalla.
Frábært veður – bjart og hlýtt. Gangan tók 5 klst og 5 mín.
Sjá vefsjá Þingvalla  HÉR.

Skógarkot - loftmynd

Skógarkot-loftmynd.

Þingvellir

Lagt var af stað frá Hakinu þar sem horft var yfir Þingvelli og Almannagjá. Leiðin lá niður gjána með viðkomu að Lögbergi, tóftum þingmannabúða, Drekkingarhyl, Öxarárfossi og Langastíg.

Þingvellir

Þingvallabærinn.

Ætlunin var að nota tækifærið í góða veðrinu og rifja upp umhverfislýsingar frá fyrri tíð á þessum helgasta stað íslensku þjóðarinnar. Saga Íslands og íslensku þjóðarinnar kemur hvergi betur fram á einum stað en á Þingvöllum. Þar var Alþingi stofnað um árið 930 sem kom saman á Þingvöllum allt fram til ársins 1798. Meginviðburðir Íslandssögunnar hafa gerst þar og því skipa Þingvellir sérstakan sess í hugum allra Íslendinga.

Þjóðgarðurinn á Þingvöllum var stofnaður með lögum árið 1930. Í lögunum segir að Þingvellir við Öxará skuli vera friðlýstur helgistaður allra Íslendinga, hið friðlýsta land skuli ævinlega vera eign íslensku þjóðarinnar undir vernd Alþingis og landið megi aldrei selja eða veðsetja.

Þingvellir

Þingvellir.

Hér á landi var bent á að mikilvægt væri að vernda einstaka náttúru- og sögustaði svo að komandi kynslóðir gætu notið þeirra óraskaðra. Fljótlega beindist umræðan að Þingvöllum sérstaklega og þeirri hugmynd að þar yrði stofnaður þjóðgarður. Þessi fyrrum krafa hljómar nú um heim allan. Hvarvetna er umræða um mikilvægi náttúru- og söguminja og eru þær taldar ein helstu verðmæti framtíðarinnar. Mikið er t.d. rætt um það meðal ráðherra Evrópusambandsins um þessar mundir að mörkuð verði heilstæð stefna í þessum málum og er eftirlit og gæsla þessara mikilvægu minja hvers lands hluti af þeirri umræðu. Mýmörg og sorgleg dæmi eru um glataðar fornminjar í gegnum aldir er hefðu getað upplýst um sögu og þróun lífs á Jörðinni. Upplýst samfélag vitiborinna manna telur að nú sé nóg komið af eyðileggingunni.

Þingvellir

Almannagjá.

Víkingaöld er talinn hefjast um árið 800 og ljúka um 1050. Einkennandi fyrir þennan tíma er að þá tók norrænt fólk sér bólfestu allt frá Volgubökkum til austurstranda Norður-Ameríku og frá Miðjarðarhafi til Norður-Íshafs.-
Landnám Íslands var einn þáttur í þessum miklu og víðtæku þjóðflutningum. Landþrengsli og innanlandsátök í Noregi voru þættir sem leiddu til að margir tóku sig upp og lögðu út á hafið til Íslands. Í Íslendingabók Ara fróða segir að Ingólfur Arnarson hafi fyrstur numið land í Reykjavík sem mun hafa verið um árið 870. Hið rétta er að Ingólfur nam hér land á þeim tíma, en án efa hafa aðrir landnemar verið hér fyrir þótt minna hafi farið fyrir þeim og heimildir um þá ekki verið skráðar sérstaklega.

Þingvellir

Þingvellir – Almannagjá.

Margir fylgdu hins vegar í kjölfar Ingólfs og sáu þeir Ísland fyrir sér sem land nýrra tækifæra. Íbúum fjölgaði jafnt og þétt og að sama skapi jókst þörf á lögum og þar með einhverjum tilteknum stað þar sem menn gætu komið saman, sett niður deilur og sammælst um tilteknar reglur sem hafa bæri í heiðri. Nokkru eftir landnám voru tvö héraðsþing stofnuð á Íslandi, annað kennt við Þórsnes við Stykkishólm, hitt við Kjalarnes. Seinna voru fleiri héraðsþing stofnuð víðsvegar um landið.

Þingvellir

Frá Þingvöllum fyrrum.

Skömmu eftir árið 900 var farið að huga að þeim möguleika að stofna eitt allsherjarþing – Alþingi – á Íslandi. Nokkru fyrir árið 930 komu höfðingjar sér saman um að senda mann, Úlfljót að nafni, til Noregs. Erindi hans var að kynna sér lög og venjur sem hafa mætti að fyrirmynd í hinu nýja þjóðfélagi. Hann sneri aftur til Íslands og við hann eru kennd fyrstu lögin sem sögð voru upp á Alþingi – Úlfljótslög. Fóstbróðir Úlfljóts, Grímur geitskör, fór um Ísland til að afla fylgis við stofnun Alþingis sem og að finna hentugan þingstað. Niðurstaðan varð sú að þingið yrði í Bláskógum og sumarið 930 komu menn saman, þar sem nú heita Þingvellir, til að taka þátt í fyrsta Alþingi Íslendinga sem markar upphaf þjóðríkis á Íslandi. Nokkrar ástæður eru taldar líklegastar fyrir vali þingstaðarins á Þingvöllum.

Þingvellir

Frá Þingvöllum.

Í landnámi Ingólfs Arnarsonar hafði verið stofnað þing á Kjalarnesi. Ættingjar hans voru valdamiklir og talið er að áhrifa þeirra hafi gætt við staðarval Alþingis. Á þjóðveldisöld lágu Þingvellir vel við helstu leiðum og þéttbýlustu svæðum á Íslandi og því auðvelt fyrir flesta að sækja þingið.
Aðstæður á Þingvöllum þóttu einnig heppilegar fyrir þing; góðir hagar, eldiviður og vatn. Þá þótti staðurinn henta vel fyrir sjálft þinghaldið sem slíkt þar sem brekka og sléttur völlur lágu upp að hamravegg. Einnig er nefnd frásögn í Íslendingabók Ara fróða af Þóri kroppinskegg sem átti land í Bláskógum. Hann myrti þræl sinn en í refsingarskyni var allt land hans gert að allsherjareign til afnota fyrir þingið.

Þingvellir

Þingvallabærinn 1900.

Alþingi á Þingvelli fór með æðsta löggjafar- og dómsvald á Íslandi frá stofnun þess um 930 til 1262-64. Þjóðveldisöld nær frá árinu 930 fram til áranna 1262-64. Þá var Lögberg miðdepill þinghaldsins. Á Lögbergi hafði lögsögumaður sitt rými en hann sagði upp gildandi lög þjóðveldisins í heyranda hljóði. Hann geymdi lögin í minni sér og hafði þrjú ár til að segja upp öll lögin en á hverju sumri sagði hann upp þingsköp.
Lögsögumaðurinn var kosinn af Lögréttu til þriggja ára og var eini launaði starfsmaður þjóðveldisins. Á Alþingi var lögsögumaðurinn valdamesti maður landsins en þess á milli var hann formlega valdalaus en naut að sjálfsögðu virðingar samferðamanna sinna til samræmis við mikilvægt hlutverk sitt.

Þingvellir

Frá Þingvöllum.

Á Lögbergi máttu allir stíga fram, þar voru fluttar ræður er vörðuðu mikilvæg mál og fréttir sagðar af markverðum atburðum. Þinghelgun og þinglausnir fóru fram á Lögbergi og þar voru úrskurðir Lögréttu tilkynntir, tímatal rétt, stefnur birtar og þau tíðindi önnur sett fram er vörðuðu þjóðina alla. Lögberg var opið öllum þingheimi, þar gat hver maður flutt mál sitt í mikilvægum málum. Atburðir á Lögbergi verða lifandi í lýsingum í mörgum Íslendingasögum. Aðdraganda kristnitökunnar er vel lýst í Njáls sögu en þar segir:
“Um daginn eftir gengu hvorirtveggju til Lögbergs og nefndu hvorir votta, kristnir menn og heiðnir, og sögðust hvorir úr lögum annarra og varð þá svo mikið óhljóð að Lögbergi að engi nam annars mál. “

Þingvellir

Þingvellir – Lögberg (sjá má Arnarklett á brún Almanngjár v.m. við miðju.

Hlutverk Lögbergs hvarf snemma úr sögu Alþingis er Íslendingar gengu Noregskonungi á hönd á árunum 1262-64 með Gamla sáttmála. Af þeim sökum hefur nákvæm staðsetning Lögbergs gefið tilefni til umræðna en rök hafa verið færð fyrir tveimur staðsetningum. Annars vegar að Lögberg hafi verið á flötum bergstalli efst á Hallinum norðan Hamraskarðs þar sem fánastöngin er nú og hins vegar að Lögberg hafi verið inni í Almannagjá uppi við hamravegginn. Einungis fornleifarannsóknir í framtíðarinni geta gefið vísbendingar um staðsetningu Lögbergs en líklega verður nákvæm staðsetning Lögbergs aldrei ákveðin með óyggjandi hætti.

Þingvellir

Þingvellir – Öxarárfoss.

Lögrétta var æðsta stofnun Alþingis á þjóðveldisöld og fór með löggjafarvald. Starfsvið Lögréttu var margþætt en hún skar úr lagaþrætum, setti ný lög og veitti undanþágur frá lögum. Á þjóðveldisöld var Lögrétta staðsett austan við Öxará.
Lögsögumaður stýrði fundum Lögréttu en í henni sátu 48 goðar á miðpalli.
Hver goði hafði tvo ráðgjafa sem sátu fyrir framan og aftan hann.
Eftir að biskupsstólar á Hólum og í Skálholti voru stofnaðir áttu biskupar einnig sæti í Lögréttu. Fjöldi þeirra sem sátu í Lögréttu var því 146 manns eða 147 ef lögsögumaður var ekki goði. Lögrétta kom saman báða þá sunnudagana sem þingið stóð og þinglausnardag en einnig oftar ef lögsögumaður óskaði. Öllum var frjálst að fylgjast með störfum Lögréttu en enginn mátti standa innan við pallana.

Þingvellir

Frá Þingvöllum.

Eftir því sem leið á 13.öldina jókst ófriður milli höfðingjaætta sem lauk með því að Íslendingar gengust undir yfirráð Noregskonungs árin 1262-1264 með Gamla sáttmála. Við það hvarf hlutverk Lögbergs úr sögunni og Lögrétta varð megin stofnun Alþingis sem varð dómstóll með takmörkuðu löggjafarvaldi.
Árið 1662 samþykktu lögréttumenn, á samkomu í Kópavogi, að viðurkenna einveldi Danakonunga. Við það fór vegur og vald Alþingis minnkandi allt til síðasta þings á Þingvöllum árið 1798. Fram á 16.öld var Lögrétta staðsett austan megin Öxarár. Vegna breytinga á Öxará einangraðist Lögrétta á litlum hólma og var hún því flutt vestur yfir Öxará árið 1594 þar sem byggt var lítið hús fyrir Lögréttu. Í því húsi fór allt starf þingsins fram til ársins 1798.

Þingvellir

Þingvellir – kort.

Um tveggja vikna skeið á sumri hverju reis lítið samfélag á Þingvöllum. Þangað streymdi fólk allsstaðar að, fólk sem vildi taka þátt í samkomu sem átti engan sinn líka á Íslandi. Orðatiltækið “nú er þröng á þingi” má líklega rekja til þingsins þar sem fjölmennt var þegar hæst stóð. Samkvæmt talningu Gissurar biskups Ísleifssonar voru þingfararkaupsbændur um 4000 talsins við lok 11.aldar. Þar sem goði gat krafið níunda hvern bónda þingreiðar voru allt að 500 þingfarakaups-bændur skyldugir að fara með með goða sínum til þings við lok elleftu aldar. Goði átti að styðja þá þingmenn sem sögðu sig í goðorð með honum en á móti studdu þingmenn goða sinn á þingum og í deilum. Goðar áttu að sjá þingmönnum sínum fyrir rými í búð sinni en aðrir sem komu reistu skýli og tjöld til að dvelja í á meðan þingi stóð.

Þingvellir

Þingvellir – Langistígur.

Á þjóðveldisöld voru ekki eingöngu þeir sem áttu lögskipað erindi til Alþingis sem þangað lögðu leið sína. Í hinni fornu lögbók Grágás eru nefndar búðir sútara og sverðskriða og í mörgum Íslendingasögum er getið búða ölbruggara og veitingamanna á Alþingi. Þann tíma sem Alþingi stóð yfir var það miðstöð þjóðlífs og einskonar höfuðstaður landsins þangað sem almenningur sótti. Þangað komu iðnaðarmenn og kaupmenn innlendir sem erlendir, fulltrúar erlendra þjóðhöfðingja, fólk í atvinnuleit og betlarar í leit að ölmusu. Kauphéðnar, sverðskriðar og sútarar buðu fram varning sinn og ölgerðarmenn sáu um að þingheimur gæti vætt kverkarnar. Fréttir voru sagðar úr fjarlægum heimshlutum, kappleikir háðir og veislur haldnar. Æskufólk réð ráðum sínum ekki síður en þjóðskörungar og lögvitringar.
Þeir sem sóttu þing þurftu að leggja á sig erfið ferðalög til að komast til Þingvalla hvert sumar. Sumir áttu einungis um 1-2 daga reið meðan aðrir voru um 14-17 daga á leiðinni yfir fjöll og eyðisanda á hálendi Íslands. Þingvellir lágu vel við fornum leiðum, mitt á milli helstu héraða sunnanlands og vestan, vart nema dagleið ríðandi mönnum. Úr fjölmennustu byggðum norðanlands, Húnaþingi, Skagafirði og Eyjafirði lágu torfærulitlir vegir á þing. Norðlendingar eystri og jafnvel Austfirðingar völdu fjallvegi þvert yfir landið en lengsta þingsókn áttu menn úr sunnanverðu Múlaþingi.
Í dag eru grasivaxnar búðarústir víðsvegar um þinghelgina einu leifarnar eftir tæplega 900 ára sögu þingsins. Almennt er talið að búðir á þjóðveldisöld hafi verið stærri en þær sem voru reistar á síðari öldum Veggir voru gerðir úr torfi og grjóti og yfir búðina var reist trégrind þar sem var tjaldað yfir með vaðmáli eða öðru efni. Búðir voru iðulega reistar á grunni eldri búða og því eru flestar búðarústir sem sjást í þinghelginni frá seinustu tveimur öldum þingsins.
Frábært veður – gangan tók 2 klst og 22 mín.

http://www.thingvellir.is/saga/

Þingvellir

Skötutjörn á Þingvöllum.

Þingvellir

“Um aldamótin 1700 var hörmungatíð hér á landi. Þjóðin var orðin mergsogin af alls konar álögum og langvarandi kúgun einokunarverslunarinnar. Hún mátti því ekki við neinu. En verstu árin voru tugtímabilið 1693-1703.

Þingvellir

Þingvellir – Öxarárfoss.

Hekla byrjaði að gjósa. Jarðskjálftar fylgdu í kjölfarið. Fiskur brást algjörlega. Kom því mikið los á fólk, og voru rán og stuldir í öllum sveitum, en þó mest sunnanlands. Hafís rak að landinu. Voru þá hafþök svo að segja hringinn í kringum landið. Í Faxaflóa lá ísinn fram yfir vertíðarlok. Fjárfellir var víða um land og útigangshross hrundu niður. Fólk féll úr hungri. Árið 1703 létust 30 á Suðurnesjum. Allt var etið sem tönn á festi. Fólkið við sjóinn lifði á fjörugrösum og þangi, en í sveitum við fjallagrös, rætur og söl. Sumir átu hesta, skinn og skóbætur steiktar. Fundust og þeir, sem átu hesta, hunda og hrafna.
Var þá þjófaöld mikil, stuldir og rán, svo að menn gátu trautt haldið sínu. Veturinn 1701 voru til dæmis hýddir og markaðir nær 20 þjófar í Árnessýslu. Fóru þá þjófar að leggjast út víða um land. Er getið um tvo útileguþjófa á Suðurnesjum; annar var hengdur, en hinn slapp.

Hverinn eini

Hverinn eini vestan Trölladyngju.

Þannig var þá ástandið á Íslandi þegar sagan hefst af útileguþjófunum á Reykjanesi. Maður er nefndur Jón Þórðarson frá Eystri-Hrepp. 1701 tók hann sig upp og fór á vergang. Fyrst slóst í för með honum unglingspiltur, Gísli Odsson og síðan landshornamaður, Jón Þorláksson og var úr Landeyjum. Fóru þeir alla leið suður á Vatnsleysuströnd. Þar stálu þeir síðast frá Jóni Árnasyni í Flekkuvík, en áður höfðu þeir stolið á 14 bæjum á leið sinni.Â
Í Flekkuvík náðu þeir í 8 hákarlslykkjur, þrjá fiska, eina duggarasokka, kýrlær og hálstrefil.

Með þennan feng og það sem þeim hafði áður áskotnast fóru þeir upp um heiði og allt suður um Selsvöllu og voru ákveðnir í því að leggjast út og lifa á stuldum. Var nú komið fram á vor og tíðarfar gott, svo að allt var á gróanda og fé þar um allan afréttinn. Munu þeir hafa búist við því að geta náð í nóg sauðakjöt til matar sér.

Ögmundarhraun

Ögmundarhraun – loftmynd.

Skammt sunnan Selsvöllu fundu þeir skúta nokkurn og hreiðruðu þar um sig. Er nú ekki gott að segja, hvort þeir hafa verið staðháttum þarna kunnugir, en heldur var óvarlegt að setjast þarna að, því að staðurinn var á alfaraleið á þeim dögum. Má þó vera, að þeir hafi valdið hann af ásettu ráði til þess að eiga hægara með að sitja fyrir ferðamönnum, eins og síðar kom fram.
Ekki höfðu þeir hafst lengi við þarna, er Hallur Sigmundsson bóndi á Ísólfsskála varð þeirra var. Þótti honum þetta illir gestir og ekki tilhlökkunarefni að hafa þá í nábýli við sig. Ekki tók hann þó það ráð að segja til þeirra, heldur fór á fund þeirra og átaldi þá fyrir að hafa sest þarna að. Kallaði hann það hið mesta óráð fyrir þá, því að byggðarmenn mundu brátt verða þeirra varir og veita þeim aðgöngu. En þar sem hann var einn, en þeir þrír, mun honum ekki hafa litist ráðlegt að hafa í hótunum við þá. Skildi með þeim óhappalaust.

Selsvellir

Selsvellir.

Þeim útilegumönnum mun nú ekki hafa litist á að vera þarna lengur, því að vel gat svo farið, að Hallur vísaði á felustað þeirra. Tóku þeir sig því upp og fluttu sig lengra norður með fjallinu og settust að í helli, sem var skammt frá Hvernum eina, en hann er í hrauninu milli Selsvalla og Höskuldarvalla, eða vestur af Trölladyngju. Var hellir þessi betri en hinn fyrri, en skammt frá alfaravegi sem hinn. Vatn er þarna ekkert, og hafa þeir því annaðhvort orðið að sækja það norður í Sog eða þá suður á Selsvöllu. Lítið hefur verið þarna um eldsneyti, varla annað en mosi, en vera má, aðþeir hafi soðið mat sinn við hverahita, því að ýmsir hverir eru á þessum slóðum.

Selsvellir

Gata í hrauninu við Selsvelli.

Einn góðan veðurdag, skömmu eftir að þeir höfðu sest þarna að, fór þar um veginn ferðamaður austan úr Flóa í Árnessýslu, er Bárður hét Gunnarsson. Átti hann sér einskis ills von og vissi ekki fyrri til en þrír stigamenn settust að honum. Rændu þeir af honum tveimur ljáum, hettu, vetrungsskinni, buxum, sjóskóm, fernum skæðum og einhverju felira. Komst Bárður svo frá þeim slyppur og snauður.
Þrjár vikur voru útilegumenninir þarna og rændu auk þess á þeim tíma þremur sauðum til matar sér.
Sjálfsagt hefir Bárður ekki sagt sínar farir sléttar, er hann kom til mannabyggða, því að brátt fréttist það, hverjir óaldarmenn væru komnir þar í sveit. Jón í Flekkuvík, sem fyrstur hafði orðið fyrir barðinu á þeim, tók sér þá fyrir hendur að safna liði og veita þeim aðför. Urðu þeir tólf saman og höfðu tvær byssur og eitthvað fleira vopna.

Húshellir

Í Húshelli.

Var þetta viku fyrir Alþingi. Fór nú þessi hópur til fjalla og kom að hellinum svo að útilegumenn voru þar allir inni. Jón skoraði á þá til útgöngu og að gefast upp, en þeir svöruðu engu. Þá greip Jón til byssu sinnar og kallaði hátt, að allir skyldu skjóta inn í hellinn. Gerði hann það til þess að hræða þá og láta þá halda að allir væru þeir vopnaðir byssum, þótt byssunar væru ekki nema tvær. Skaup svo Jón inn í hellinn og hæfði hettuna á höfði Jóns Þorlákssonar, svo að hún fauk af honum, en maninn sakaði ekki. Þá guggnuðu þeir útilegumenn, er þeir sáu hver alvara var hér á ferðum, og gáfust upp. Voru þeir því næst fluttir til Bessastaða.

Selsvellir

Selsvellir – Uppdráttur ÓSÁ.

Jón Eyjólfsson vicelögmaður í Nesi var þá sýslumaður í Gullbringusýslu, og kom það í hans hlut að rannsaka má útilegumannanna. Þingaði hann í málum þeirra í Kópavogi, en dómsmálabækur Jóns frá þeim árum eru nú glataðar, og er því ekki hægt að vita, hvað fleira hefir komið þar fram en hermt er í annálum og Alþingisbókum. En séra Eyjólfur á Völlum, sonur Jóns vicelögmanns, hefir sagt allskilmerkilega frá þessu, og mátti hann manna best um það vita, því að hann átti þá heima í Nesi við Seltjörn hjá föður sínum.
Degi áður en Jón kvæði upp dóm yfir þeim félögum, braust Jón Þorláksson úr járnum á Bessastöðum. Náðist hann aftur, en með hverjum hætti það hefir verið er ekki vitað. Dómur var kveðinn upp yfir þeim hinn 6. júlí, og síðan voru þeir fluttir til Alþingis. Höfðu þeir þá ekki verið nema 3 daga í haldi á Bessastöðum.

Böðlar

Aftökur fyrrum mætti vel skoða nánar í sögulegu samhengi.

Auk þeirra þjófnaða, sem að framan getur, sannaðist á þá, að þeir hefðu stolið 65 sauðum og eigi minna en 7 fjórðungum af smjöri auk “aðskiljanlegra hluta ætra og óætra”.

Jónarnir báðir voru hengdir, en Gísla Oddsyni vægðu þeir, vegna þess hve ungur hann var og hann hafði aldrei verið dæmdur fyrr. Þarna mátti því sjá á sólkskinsdegi tvo útilegumenn af Reykjanesi, hangandi í gálgum á Alþingi, einum helgasta stað þjóðarinnar til merkis um þá óstjórn, sem hafði komið Íslandi á kaldan klaka.“

-Árni Óla – Frásagnir – þjóðlífsmyndir frá ýmsum tímum – 1955.

Þingvellir

Gálgi á Þingvöllum.

Ródólfsstaðir

Gunnar Valdimarsson sendi FERLIR eftirfarandi fróðleik um meinta Ródolfsstaði við Ródolfsstaðahæðir. Upplýsingar Gunnars eru mjög áhugaverðar og gefur FERLIRsfélögum ástæðu til að fara aftur á svæðið og skoða það nánar.

“Sæl FERLIRsfólk.

Ródólfsstaðir

Afstaða rústasvæðanna, 1 eru tóttirnar ykkar, 2 gerðið Hringurinn og gerðið á loftmynd á map.is – Gunnar.

Ég heimsæki vefsíðuna ykkar reglulega og hef mikið gaman af. Ég sá að þið voruð að velta fyrir ykkur staðsetningu Rótólfsstaða eða Bótólfsstaða núna nýverið og hef líka litið á umfjöllun Gunnars Grímssonar í verkefninu um byggðaleifar í Þingvallasveit. Ég get vonandi orðið ykkur að liði varðandi þetta.

Um 500-600 m í nokkurn veginn VSV stefnu frá tóttunum sem þið teljið vera undir Rótólfsstaðahæðum suðaustanverðum er annað rústasvæði. Það er vafalaust staðurinn sem Brynjúlfi Jónssyni var bent á þarna á sínum tíma, þ.e. ferhyrningslaga gerði með tótt í norðvesturhorni.

Ródólfsstaðir

Afstaða mannvirkja – Gunnar.

Veggir eru allskýrir og norðurveggurinn mikill og breiður. Til vesturs frá þessum ferhyrningi er annað gerði sambyggt, afmarkað af hringlaga vegg sem virðist tvöfaldur, eins og sá hluti hafi verið stækkaður (eða minnkaður). Í norðvesturhluta ferhyrningsins er húsatótt sem snýr nokkuð á skjön við gerðið og hefur NV-SA stefnu. Þar virðast vera tvö samsíða innrými frá norðri til suðurs og jafnvel það þriðja í norðurendanum, mögulega með dyrum til norðurs. Tótt þessi er öll mosagróin en sæmilega skýr í formi. Rétt suðaustan við hana er niðurgrafin stía með dyrum úr SV-horni. Það er gleggsta tóttin.

Ródolfsstaðir

Afstaða mannvirkja, hús, vatnsból og X, sem gætu verið mannvirkjaleifar við suðurinnvegg ef bjartsýnin er látin ráða – Gunnar.

Í norðausturhorni ferhyrningsins er áberandi trjárunni. Hugsanlega eru einhverjar leifar með norður-suðurstefnu meðfram runnanum að vestan en harla ólíklegt. Eins gætu verið ummerki tveggja stía innan á suðurvegg ferhyrningsins nærri SA-innhorni en óvíst. Það eru mosahaugar og sá vestari líklegri til að hylja eitthvað.

Til suðurs frá ferhyrningnum eru klettar með hellisskútum sem snúa hvor móti öðrum og þar á milli er hlaðinn veggur að sunnanverðu. Vel má vera að þar sé gamalt vatnsból. Í vestari hellinum eru haugar af kindabeinum, ekki mjög gömlum.

Ródolfsstaðir

Séð í vestur eftir ferhyrningnum nær og hringnum fjær. Norðurveggur ferhyrnings til hægri – Gunnar.

Nærri suðvesturhorni ferhyrningsins gæti vel verið tótt sem liggur N-S, annaðhvort tvö samsíða rými eða þá einföld stía byggð saman við túngarð, sem væri þá væntanlega innanverður vesturveggur gerðisins.

Í norðvestur frá ferhyrningnum er mosavaxin slétta eða flötur og þar virðist vera rúst með stefnu austur-vestur og líklegast dyr í austur. Það er grjóthleðsla. Fleiri tóttir gætu leynst á svæðinu en það er erfitt að glíma við þetta umhverfi og ekkert víst í þeim efnum.

Ródolfsstaðir

Hús A og norðurveggur í ferhyrningnum til hægri, horft í vestur – Gunnar.

Ef miðað er við kortið sem fylgir sóknarlýsingunni frá 1840, þá gæti maður ætlað út frá afstöðu að hér sé það sem menn á þeim tíma kölluðu “Bæjarstæði í Hrauni” og tóttirnar ykkar upp við hæðirnar þá Rótólfsstaðir. Þar virðist reyndar vera greinileg tótt með norður-suðurstefnu. En miðað við hve stutt er milli þessara tveggja rústasvæða er líka freistandi að telja þær samstæðar, þ.e. hluta af sömu heild eða býli. Engin augljós íveruhús eru á svæðinu en verið gæti að þau séu uppi á rústasvæðinu ykkar.

Ródólfsstaðir

Hús B til norðurs – Gunnar.

Varðandi þetta má benda á að nokkurn veginn miðja vegu milli þessara tveggja rústasvæða er glompa eða hvilft sem gæti verið vatnsból, virkar svolítið eins og að því sé veggur vestanmegin og gangvegur niður í holuna. Það kann að vera misskilningur en er þó þess virði að á það sé bent.

Þá eru hér nokkrar gagnlegar upplýsingar:

Ferhyrnda gerðið er um 50 m A-V og um 40 m N-S, virðist örlítið breikka til austurs. Veggir eru 2-3 m á þykkt. Hnit á norðurvegg (X).

Ródólfsstaðir

Hús A til suðurs, tóttin í gerðinu (Brynjúlfstótt) – Gunnar.

Tóttin í norðvesturhorni, Brynjúlfstóttin, er um 9 x 7 m. Köllum hana hús A. Krærnar, eða rýmin, gætu hafa verið 120 cm breiðar, sem er eðlilegt miðað við fjárhús og um 5-6 m langar. Veggir um 180-200 cm breiðir nema að norðan, þar sem veggur er 150 cm. Grjót sést á stöku stað í millivegg. Hnit (X).

Niðurgrafna stían, hús B, liggur A-V á lengdina og er þar um 2 m löng og um 1,5 m á breidd. Dyr, 40 cm breiðar, eru út úr SV-horni meðfram V-innvegg og mögulega stuttur leiðigarður vestan með þeim. Dýpt stíunnar er um 60 cm og veggjaþykkt 80-100 cm. Hnit (X).

Ródólfsstaðir

Hús C til vesturs, mögulega tótt en ekki öruggt – Gunnar.

Möguleg tótt við SV-horn ferhyrnings, hús C, er um 5,5 m langt og 2 m breitt. Gætu verið tvö samsíða rými með N-S stefnu en austara rýmið er óvíst.Dyr eru líklega til suðurs og þá um 40 cm breiðar. Grjót er sýnilegt innan í veggjum í innrými hér og þar. Hnit (X).

Tóttin NV við ferhyrninginn uppi í mosanum, hús D, er eitthvað um 6 m löng og 2 m breið. Vesturveggur er um 120 cm þykkur. Fleiri veggjabrot kunna að vera sunnan við suðurvegg.

Ródólfsstaðir

Hringurinn, vesturveggur til S, vatnsból efst á mynd – Gunnar.

Vatnsból og hleðsla sunnan við ferhyrninginn. Klettarnir sjást langt að.

Hringlaga veggur er um 60 m A-V í þvermál í ytri hringnum en um 40 m í þeim innri. Virðist skarast við ferhyrninginn að vestan og er því ekki víst að hringurinn og ferhyrningurinn séu byggðir á sama tíma. Hnit á vesturvegginn er (X).

Mögulegt vatnsból er milli rústasvæðanna.

Mælingar eru grófar ágiskanir og ekki heilagar. Fremur til gamans.

Ródolfsstaðir

Hús D til vesturs, endilöng tótt, austurendaveggur næst á mynd – Gunnar.

Um myndirnar er það að segja að þær eru teknar í tveimur ferðum á þessu ári, annarri 21. maí og hinni 16. ágúst. Í hinni fyrri varð heldur hvasst fyrri smádróna áður en góður árangur náðist og ekki hægt að ná nægri hæð. Í hinni síðari varð ég fyrir því óláni að missa spaða af drónanum í miðjum klíðum sem leiddi til flugslyss (þó án verulegs tjóns). Því eru yfirlitsmyndir fjærri því að vera eins góðar og ég hefði viljað og þarf að fá þær betri. Þær ættu þó að gefa einhverja hugmynd. Almennt er erfitt að mynda tóttirnar svo vel sé enda svæðið erfitt viðureignar og litir, gróðurfar og yfirbragð tóttanna oftast í engu frábrugðið umhverfinu.

Ródolfsstaðir

Hús D til vesturs, endilöng tótt, austurendaveggur næst á mynd – Gunnar.

Ég er ekki menntaður fræðimaður. Þið kynnuð því að spyrja hvers vegna ég hafi þetta undir höndum. Ástæðan er sú að ég litaðist um eftir Rótólfsstöðum fyrir allmörgum árum en fann ekkert. Löngu síðar sá ég á síðunni ykkar aðleit stæði yfir og þá ákvað ég að að reyna aftur, mest til gamans og til að fá útivist og hreyfingu. Þá hafði ég eignast dróna og var því vel útbúinn. Eftir að hafa rýnt í loftmyndir þótti mér eins og eitthvað einkennilegt væri á þessum tiltekna stað og svo reyndist líka vera. Auðvitað getur verið að þið hafið vitað af þessu og ef svo er, þá hendið þið bara þessum pósti. Ef þið viljið meira, þá á ég fleiri myndir og upplýsingar. “

FERLIR fékk góðfúslegt leyfi Gunnars til að birta framangreindan texta.

Ródólfsstaðir

Hús C til vesturs, mögulega tótt en ekki öruggt – Gunnar.

Glymur

Gengið var um Leggjarbrjót frá Þingvöllum yfir í Botnsdal í Hvalfirði. Þetta er forn þjóðleið milli Botnsdals og Þingvalla en einnig milli Brynjudals og Þingvalla.

Leggjabrjótur

Leggjabrjótur – skilti.

Þegar farið er frá Þingvöllum er haldið upp vestan við túnin í Svartagili, en þar er nú engan bæ að sjá enda lagðist búskapur þar niður fyrir allmörgum árum. Farið er vestan við gil er nefnist Hrútagil upp á lágan ás. Þegar þangað er komið blasir við grösugur dalur, Botnssúlur gnæfa við himin í norðri og lengra til norðausturs sér inn í Svartagil, sem virðist bera nafn, sem því hæfir. Af gili þessu dregur bærinn nafn sitt. Á vinstri hönd gnæfir Búrfell, 783 metrar að hæð, formfagurt og hlýlegt. Gott er að líta í kringum sig og skoða útsýnið af Orrustuhól, sem er rétt austan við götuna. Ekki er vitað hvernig þetta örnefni er til komið. Gagnheiði er til landnorðurs, það er forn þjóðleið.

Leggjabrjótur

Leggjarbrjótur-Fossar í Hvalsskarðsá.

Framundan er svo Öxarárdalur og von bráðar kemur gatan að árgili, þar sem Súlnalækur rennur og hafnar að lokum í Öxará, sem sveigir örlítið til vesturs á þeim slóðum og kemur niður af hálendinu allmiklu vestar, þ.e.a.s. fyrir ofan Brúsastaði. Leiðin hefur verið vel vörðuð fyrrum. Sumar eru fallnar, en aðrar hafa verið endurhlaðnar. Með því að fylgja þeim er  auðvelt að rata um hálsana.

Öxarárdalur er grösugur dalur og fagur með Súlur á hægri hönd en Búrfell á þá vinstri. Leiðin er öll vel vörðuð og engin hætta á að villast af leið í björtu veðri. Þó ber að varast að fara langt frá slóðinni vegna mýrarfenja, sem sums staðar eru á leiðinni. Dalurinn hækkar skyndilega er komið er yfir Súlá (Súlnaá), sem rennur úr Súlnadal norðan við Systusúlu (1090 m á hæð). Súlnadalur er stuttur dalur hátt uppi í fjöllunum. Þar er Bratti, skáli Íslenska Alpaklúbbsins.

Glymur

Glymur.

Súlá getur verið allvatnsmikil. Hún rennur í Öxará á þeim slóðum, er vegurinn hættir að fylgja Öxará en fylgir Súlá um skeið. Verður leiðin nú grýtt mjög og seinfarin um skeið en þéttar vörður varða leiðina. Hér er komið að sjálfum Leggjarbrjóti, sem er nokkur hundruð metra langur kafli. Hér eru sýslumörkin. Efst í Leggjarbrjóti má vel sjá hvar erfiðasti hlutinn hefur verið lagaður til. M.a. hefur verið hlaðið í kanta götunnar. Norðar hefur stærsta grjótinu verið kastað úr henni.
Þegar halla tekur undan norður af blasir Biskupskelda við á hægri hönd fram undan og lækur, sem í hana rennur úr vestri. Yfir læk þennan er sérkennileg steinbrú. Það er vel þess virði að líta vel í kringum sig því að útsýni er hér hvað fegurst á þessari leið. Vísu um Leggjabrjót orti séra Jón Þorláksson. Hún er svona:

Tunnan valt og úr henni allt,
ofan í djúpa keldu.
Skulfu lönd og brustu bönd,
en botngjarðirnar héldu.

Leggjabrjótur

Leggjabrjótur – Biskupskelda.

Keldan sem hér er átt við er Biskupskelda en þar hefst hinn eiginlegri Leggjabrjótur.
Súlur byggja að vísu útsýn til austurs og norðurs en í suðri sér í norðurenda Þingvallavatns. Búrfell blasir við í vestri. Sé gengið upp á höfðann vestan við Biskupskeldu og raunar lítið eitt lengra vestur, sér í Myrkavatn, en þar eru upptök Öxarár. Í norðaustri skammt frá Biskupskeldu er Sandvatn, þar sem Brynjudalsá á upptök sín og ofan við vatnið er Sandvatnshlíðar.

Leggjabrjótur

Leggjabrjótur – varða.

Þegar farið er áfram til norðurs er haldið sem leið liggur og vörðurnar varða fram hjá Biskupskeldu. Sandvatn er fagurt fjallavatn og lætur ekki mikið yfir sér en skyndilega breytir um svip í landslaginu, þegar komið er norður fyrir vatnið. Vestur af Sandvatni að norðanverðu eru Djúpadalsborgir eða Djúpadalshæðir og neðan þeirra er Djúpidalur. Þegar horft er niður dalinn blasa við þrengsli mikil, er Gljúfur nefnast. Í þeim eru þrír fossar, sem heita einu nafni Gljúfurfossar. Hér er hrikaleg náttúrufegurð.
Af Djúpadalsborgum er gott útsýni yfir innsta hluta Brynjudalsins. Syðst er Djúpidalur sem fyrr segir, vestan hans tekur við Lokhamragil og utan þess er Hestgil. Fjallið upp af giljunum er Bollafell sunnan til 510 m að hæð, en Suðurfjall stefnir til útnorðurs.

Leggjabrjótur

Leggjabrjótur – gata.

Vegarslóðin liggur beint norður af Sandvatni austanverðu og brátt er komið að Sandhrygg, þaðan sem gott er að skoða útsýnið yfir Brynjudal, sem blasir héðan við í allri sinni dýrð. Innst í dalnum norðaustanverðum er eyðibýlið Hrísakot, þá Ingunnarstaðir. Utar sér í Þrándarstaði og yst Skorhaga. Þá sést vel út á Brynjudalsvog og Hvalfjörð og utar sér í Hvammsvíkurbæina.
Af Sandhrygg breiðir Múlafjallið úr sér til útnorðurs og nú sést niður í Botnsdal, þangað sem ferðinni er heitið. Hins vegar er hér beint niður undan hin forna leið niður í Brynjudal, leiðin um Brennigil, og er það auðfarin leið gegnum kjarrið. Önnur leið er litlu norðar, það er leiðin upp með Laugalæk, sem dregur nafn sitt af heitri (33 gráður) laug ofarlega í hlíðinni. Þar má sjá verksummerki eftir framkvæmdir hugvitsmannsins Lúthers Lárussonar, sem bjó á Ingunnarstöðum fyrr á þessari öld.

Leggjabrjótur

Leggjabrjótur – varða Botnsdalsmegin.

Þessar tvær leiðir voru auðveldustu leiðirnar, þegar farið var yfir Hrísháls niður í Botnsdal, yfir Leggjarbrjót til Þingvalla eða yfir Hvalskarð suður með suðurströnd Hvalvatns og áfram til austurs. Hvalskarð er norðan við Sandhrygg, það er milli Hvalfells (852 m) að norðan og Háusúlu (1023 m) að sunnan.
Í Hvalskarði rennur Hvalskarðsá, fyrst í vestur en síðan meira til norðvesturs uns hún sameinast Botnsá rétt innan við Stórabotn.
Norðan við Hvalfell rennur hins vegar Botnsá úr Hvalvatni. Hún er á sýslumörkum milli Kjósarsýslu og Borgarfjarðarsýslu og jafnframt skilur hún milli Hvalfjarðarstrandarhrepps og Kjósarhrepps. Mörkin liggja síðan um mitt Hvalvatn og síðan um Háusúlu og rétt norðan við Biskupskeldu og um Myrkavatn yfir Kjöl og í Sýsluhólma í Laxá í Kjós. Í Hvalvatni endar þjóðsagan um Rauðhöfða, en þangað á hann að hafa synt í hvalslíki um Faxaflóa og úr Hvalfirði.

Leggjabrjótur

Leggjabrjótur – gata í Botnsdal.

Vegarslóðin liggur nú þvert yfir Hvalskarð gegnum sauðfjárveikivarnagirðinguna og niður allgóðan veg niður í Botnsdal gegnum kjarr og skóg. Brátt sést Botnsá, þar sem hún kemur úr Stóragili en efst í því er hæsti foss landsins, Glymur. Í Botnsdal er skógrækt mikil, sem síðar verður vikið nánar að og sést hér vel, hve áhrifamikil friðunin hefur verið. Innst í dalnum er Stóribotn, nú í eyði; þaðan er forkunnarfagurt útsýni. Auðvelt er að komast yfir Botnsá, t.d. á stálbrú beint suður af Stórabotni.
Gangan tók 5 klst og 05 mín. Frábært veður.

Heimild:
-Eftirfarandi er byggt á lýsingu eftir séra Gunnar Kristjánsson sóknarprest á Reynivöllum og birtist hún sem sérprent með Árbók Ferðafélags Íslands árið 1985.Leggjarbrjotur

Sigurveig Guðmundsdóttir

Í Lesbók Morgunblaðsins árið 1984 segir Sigurveig Guðmundsdóttir frá “Sumri í Hrauntúni” á Þingvöllum. Lesningin gefur góða mynd af því hvernig umhorfs var á þessum ágæta bæ, fyrrum selstöðu, skömmu eftir aldarmótin 1900.

Hólmfríður Hjaltason

Hólmfríður Hjaltason og Guðmundur eiginmaður hennar ásamt dætrum sínum, þeim Margréti og Sigurveigu.

“Nú sést ekkert eftir af bænum í Hrauntúni í Þingvallasveit nema tóftir. Árið 1919 bjó Jónas hreppstjóri Halldórsson þar enn, og greinarhöfundurinn segir frá því þegar hún dvaldist þar sumarlangt með móður sinni.

Sumarið 1919 var móðir mín, Hólmfríður Hjaltason, ráðin sem ráðskona að Hrauntúni í Þingvallasveit. Faðir minn, Guðmundur Hjaltason, hafði dáið úr spönsku veikinni þá um veturinn. Móðir mín fór eftir auglýsingu í blaði og þekkti því ekkert til væntanlegs verustaðar. Einhver kunnugur bar bænum gott orð og sagði að ekki sæist í hús þar fyrir skógi. Það var mikið tilhlakk fyrir níu ára krakka að eiga að dvelja i slíkri skógarparadís. Ferðin hófst eldsnemma að morgni frá Hafnarfirði og gengum við alla leið til Reykjavíkur. Koffortinu sínu kom móðir mín á hestvagn Guðmundar Magnússonar pósts og gengum við á eftir vagninum. Ansi var nú brekkan erfið upp Öskjuhlíðina og fegin var ég þegar við komumst inn að Tungu, húsi Dýraverndunarfélags Íslands. Þar hittum við Símon bónda í Vatnskoti en hann var búinn að fá sér vörubíl sem flutti bæði fólk og fé. Bíllinn var ekki yfirbyggður og sátu allir á honum undir beru lofti. Fyrir utan okkur mömmu voru tvær danskar stúlkur í bílnum og drengur á mínum aldri.

Tunga

Tunga.

Var nú lagt af stað og ekið inn að Elliðaám. Þá stansaði bíllinn og vildi ekki fara lengra. Símon sagði að hlassið væri of þungt. Lét hann konurnar og strákinn fara úr og gengu þau aftur í bæinn. Ég fékk að sitja í heim í Tungu. Þar biðum við í tvo daga en síðan lagði sama fólkið af stað.
Símon í Vatnskoti var einstaklega kátur og glaður maður, lék við hvern sinn fingur hvað sem á gekk. Við fórum framhjá Geithálsi og þaðan sem leið lá austur Mosfellsheiði.

Hjá Þingvallapresti

Þingvellir

Þingvellir 1905 – Ásgrímur Jónsson.

Símon í Vatnskoti skilaði okkur mömmu heim á prestssetrið, sagði að þar myndi hún fá leiðbeiningu um hvert hún ætti að fara. Þá voru á Þingvöllum þrjú hús fyrir utan prestssetrið, Konungshúsið sem reist var handa Friðriki áttunda, veitingahúsið Valhöll, á allt öðrum stað en nú er, og í Fögrubrekku sumarbústaður Péturs Hjaltested kaupmanhs. Bærinn prestsins var nokkuð stór í mínum augum. Mamma barði að dyrum og gerði boð fyrir prest. Hann kom fljótt til dyra og bauð til stofu. Síra Jón Thorsteinsson var lágur vexti og grannur. Hann var í svörtum jakkafötum og víður jakkinn, mjög svo prestslegur. Hann bauð okkur skyr að borða og kaffi á eftir í fallegum postulínsbollum með rauðri rós. Séra Jón var einstakt ljúfmenni, þýður og einlægur í viðmóti. Mamma hafði verið kvíðin að fara í vist hjá ókunnugum, komin um fimmtugt með barn í eftirdragi. Hún hafði átt góða daga sem húsmóðir á sínu heimili svo að viðbrigðin voru mikil. Síra Jón hlustaði á hana af hluttekningu, fór því næst að fræða hana um væntanlegan húsbónda.Jónas Halldórsson
Jónas Halldórsson hreppstjóri í Hrauntúni var fæddur árið 1853. Halldór faðir Jónasar hafði komið með einum Þingvallapresta vestan af Snæfellsnesi. Prestur leyfði Halldóri að byggja sér bæ á rústum gamalla seltófta norður í Þingvallahrauni, og gerði hann þar sæmilega bújörð.
Jónas tók við búi föður síns 18 ára gamall og þótti það vel gert af svo ungum manni. Síðar kvæntist hann Hólmfríði Jónsdóttur frá Hæðarenda í Grímsnesi. Þau eignuðust sjö börn en þau sem upp komust voru Halldór, fornbókasali og fjallamaður, Ásgeir, skipstjóri hjá Eimskip, Jónína, fór til Vesturheims, og Elísabet, bjó í Reykjavík, gáfuð kona og skörungur. Son er Jónas hét átti bóndi í elli sinni með ráðskonu.
Jónas tók fljótt við ýmsum trúnaðarstörfum fyrir sveit sína og varð hreppstjóri um langa æfi. Hann þótti einrænn í lund og ekki við allra skap. Mikill gáfumaður að upplagi og áreiðanlega ekki á réttri hillu. Hann var með afbrigðum bókhneigður og lét hvern eyri sem hann átti aflögu ganga til bókakaupa. Enda átti hann að lokum stórmerkilegt og vandað bókasafn sem vakti furðu margra því að slíkur munaður stakk mjög í stúf við fátæklegan búnað torfbæjarins. Sumir virðast hafa lagt Jónasi þessi bókakaup til lasts, þótt slíkt óþarfi mikill. En þá svaraði Jónas: — Ef ég hefði lagt þessa peninga í brennivín, þá hefðuð þið ekki sagt neitt.

Kona Jónasar var mikil búkona og er sú saga sögð að einu sinni hafi bóndi farið með koffortahest til Reykjavíkur að kaupa mat til vetrarins. En þegar komið var heim í Hrauntún, var ekkert nema bækur í koffortunum. Þá mun húsfreyju hafa þótt nóg um bókakaup húsbóndans. Jónas í Hrauntúni mun hafa verið bókasafnari af ástríðu. Af lestri sínum varð hann ágætlega sjálfmenntaður, vel ritfær og glöggur reikningsmaður.

Þingvallakirkja

Þingvallakirkja. Innimynd. Kirkjur Íslands, 4. bindi: 227: Þingvallakirkja að innan í lok 19. aldar. Ekki verður annað séð af þessari mynd en að veggir kirkjunnar að innan hafi verið ómálaðir fram undir 1900, þótt vísitasía 1860 segi annað. Kvistir eru mjög greinilegir í veggklæðningu. Hugsanlega hefur málningin aðeins verið þunn þekja og kvistirnir því sýnilegir. Aftur er greinilegt að innanstokksmunir eru málaðir. Altaristafla Ófeigs Jónssonar frá 1834-35 er enn yfir altarinu en hún var seld til Englands sumarið 1899. […] Ljósmyndari Sophus Tromholt.

Síra Jón bauð mömmu að skoða kirkjuna og fórum við þangað. Ekki man ég eftir öðru þar nema predikunarstólnum og þá vegna þess að síra Jón gekk að honum, klappaði á hann og sagði: Þetta er nú stóllinn minn. — Um leið brosti hann eins og barn. Hann fylgdi okkur út fyrir tún. Þar benti hann mömmu á götuna sem hún átti að fara og sagði henni að leita til sín ef hún þyrfti einhvers með. Kvöddum við síðan þennan góða prest með virktum.

Gengið um Hrauntúnsgötuna

Hrauntún

Hrauntúnsgatan.

Gengum við nú sem leið lá inn í Leirur, þar sem söluskálinn er nú. Þar kom á móti okkur hár maður roskinn, grannvaxinn með alskegg, derhúfu á höfði klæddur mórauðum vaðmálsjakka og stuttbuxum með leðurskó á fótum. Hann steig létt til jarðar þó stór væri, höfðinglegur, errilegur.
Hér var þá kominn Jónas Halldórsson hreppstjóri í Hrauntúni. Hann hafði rauðan hest í taumi, og með honum rann hundur af hreinu íslensku kyni, svart- og gráflekkóttur. Bóndi tók móður mína tali. Hann var fáorður, talaði í stuttum snöggum setningum og hálfhreytti út úr sér orðunum. Samt var hann vingjarnlegur. Hann sagði okkur að halda áfram götuna því að eftir að hann hefði sótt föggur mömmu á prestssetrið ætlaði hann að hitta Guðrúnu greiðasölukonu í Konungshúsinu.

Konungshúsið

Frá konungskomunni 1921. Konungsfjölskyldan og frú Charlotte Schestel á tröppunum við Konungshúsið á Þingvöllum.

Við mæðgurnar eigruðum nú áfram götuna inn í hraunið. Lágt kjarr óx víða en ekki man ég til að nein hrísla á þeim vegi væri hærri en ég sjálf. En gamburmosinn þakti stórar breiður. — Hvenær kemur skógurinn, þetta var ekkert líkt skógarmyndunum frá útlöndum í myndabókunum, bærinn átti ekki að sjást fyrir skógi.
Eftir alllangan tíma sáum við steingarð rísa á bakvið hraunhól. Þessi garður var mikið hærri en ég, einföld hleðsla svo jöfn og haganleg að hver steinn virtist tilhöggvinn. Ofurlítið skarð var í þennan mikla garð og stungið í það birkilurk. Við gægðumst í gegnum skarðið.

Hrauntúnsbærinn

Hrauntún

Hrauntúnsbærinn. Uppdráttur eftir mynni Sigurveigar; teiknaður af Gísla Sigurðssyni, ritstjóra Lesbókarinnar. Ármannsfell í bakgrunni.

Það var orðið kvöldsett, bjart yfir fjöllum og bláleit sumarmóða brá undursamlegri mýkt yfir umhverfið. Túnið fyrir innan garðinn var allt í mjúkum öldum þar sem hraunhólarnir lágu undir grassverðinum. Mitt í þessu fagra ilmandi grængresi reis bærinn Hrauntún, hlýr og vinalegur eins og torfbæir einir gátu orðið. Tvær burstir sneru til suðurs fram á hlaðið og bæjargöngin á milli. Baðstofan var með einum sexrúðu glugga á stafni og tveggjarúðu glugga til vesturs. Stofan var með þrísettum glugga og klædd bárujárni. Baðstofan með eldhúsið og fjósið afturaf var allt klætt torfi. Vandlega hlaðin stétt úr hraunhellum var fyrir framan bæinn.

Hrauntún

Hrauntún – loftmynd.

Hlaða, fjárhús og skemma með þvottahjalli lágu við heimtraðirnar sem lágu í norður í átt að Ármannsfelli. Þrennir fjárhúskofar voru dreifðir um túnið. Austur af túninu var afgirt gerði sem notast var við sem kúahaga. Brunnhola var vestan undir baðstofuveggnum. Var þar sæmilegt drykkjarvatn þó að vatnsmagnið væri lítið. Þegar þvottar voru þvegnir í Hrauntúni varð að fara niður á Leirur og þvo við lækinn sem þar rennur enn. Þar voru hlóðir og þar við soðinn þvotturinn.
Framan við bæinn var kálgarður með grónum vallargarði í kring. Allt var þarna með hinum mesta snyrtibrag, hver hlutur á sínum rétta stað. Upp við bæjarvegginn reis sleggja gerð úr blágrýtishnullungi með gati sem stungið var í vænum birkilurk. Þetta var fisksleggja. Mamma barði að dyrum og út kom dökkhærður maður lágvaxinn með yfirskegg, léttur í hreyfingum og alúðlegur. Þetta var Halldór sonur Jónasar bónda sem bjó hjá föður sínum. Þeir voru menn ekki líkir.

Hrauntún

Hrauntún – nú eyðibýli. Hrafnabjörg fjær.

Halldór fylgdi okkur inn göngin. Hurð lá inn í stofuna til hægri og önnur hurð inn í geymslukompu þar innar af. Gengið var upp tvö þrep inn í baðstofu til vinstri en í eldhús og fjós fyrir enda ganganna. Í baðstofu voru fjögur rúm. Jónas bóndi svaf næst glugga og var borð undir glugganum. Lítil bókahilla, full af rímnakverum og riddarasögum, var yfir fótagafli á þili.
Okkur mæðgum var vísað á rúmið gegnt rúmi bónda. Aftur af okkar rúmi svaf Bjarni Gíslason vinnumaður og Halldór gegnt honum. Ofurlítil kabyssa og tvær hillur fyrir bollapör og diska voru í hinum enda baðstofu.

Konu-Bjarni

Hrauntún

Hrauntún 1929 – Jóhannes Kjarval.

Bjarni Gíslason vinnumaður var vel meðalmaður á hæð, rauðbirkinn með yfirskegg, vel farinn í andliti, reistur í fasi, prúðmannlegur, greindur og skáldmæltur. Ekki veit ég uppruna hans, held þó að hann hafi verið af Norðurlandi vestra. Hann hafði víða verið, kennt börnum á vetrum en í kaupavinnu á sumrum. Hann hafði haft kvenhylli svo mikla að bændur höfðu rekið hann á miðjum vistráðningartíma og þóst heppnir að konur þeirra hlupu ekki að heiman á eftir Bjarna. Vegna þessa hæfileika síns var hann manna á meðal nefndur Konu-Bjarni. Hann var talinn mjög vel hagorður en ekki veit ég með vissu um neina vísu eftir hann, það eru til svo margir Bjarnar Gíslasynir hagyrðingar frá þessum tíma. Bjarni var fremur hlýr við krakka en þó fáskiptinn.

Innanbæjarlíf

Hrauntún

Hrauntún – hellulagða stéttin framan við bæinn.

Að verkalokum og á helgidögum ræddu feðgarnir og Bjarni af kappi um stjórnmál og bókmenntir. Þeir voru ekki alltaf sammála. Halldór og Bjarni voru oft saman á móti Jónasi bónda. Mömmu líkaði ekki alltaf viðmót þeirra við húsbónda heimilisins og þá sjaldan að hún lagði orð í belg hélt hún alltaf Jónasar taum. Gamla manninum þótti áreiðanlega vænt um þessa liðveislu. Mest gekk á þegar blöðin voru nýkomin. Þá sagði Jónas oft upp úr blaðalestrinum og hafði á miklar áherslur: Mikil lifandis ósköp er fólkið vitlaust. — Annars voru rökræður í Hrauntúni með virðulegu yfirbragði. Menn voru prúðir og létu engan hleypa sér upp þó þungt gæti verið undirniðri.

Tóbaksleysi

Hrauntún

Hrauntún – túngarður.

Allir tóku þeir Hrauntúnsmenn í nefið daglega og gött þótti þeim tárið en allt í hinu mesta hófi, ég vissi þá smakka vín í eitt skipti um sumarið og svo í réttunum. Minna gat það varla verið. En tóbaksleysi þoldu þeir ekki. Þar kom að enginn þeirra átti til korn í nös. Þá varð nú ansi hvasst í Hrauntúnsbaðstofu. Þeir urðu ekki sammála um neitt og loks snerist umræðan um kvenfólk, hvað það væri miklir gallagripir, heimskt og svikult. Einkum var það Halldór sem var þungorður í garð kvenna, enda lá orð á að stúlka hefði brugðið heiti við hann.

Söngvar förumannsins

Söngvar förumannsins.

Mamma hafði reynt að vera sem mest frammi í bænum meðan hríð þessi stóð en nú kom hún inn og heyrði stóryrði Halldórs um kvenfólkið. Þá mælti hún: “Hafið þér móður yðar með í þessum vitnisburði sem þér gefið öllum konum?” Þá steinþagnaði Halldór og þeir allir nokkra stund. Síðan tóku þeir upp annað tal. En ekki batnaði tóbaksleysið. Bjarni Gíslason bjóst til Reykjavíkur og kom brátt aftur með nóg tóbak og eitthvað á pelann. Það var lyfting yfir Bjarna þar sem hann stóð gleiður á baðstofugólfinu, klæddur bláum jakka sem fór vel við koparrautt hárið, hattinn aftur á hnakka, í reiðbuxum og háum stígvélum. Hann hélt á ofurlitlu ljóðakveri sem hann hafði keypt í Reykjavík, Söngvum förumannsins. Bjarni las hátt og með miklum áherslum og rykkti til höfðinu undir lestrinum;
Þú ert enn að greiða gjöldin
gamla skáldið hefur völdin
flytur rímlaus kvæði á kvöldin
kvæðin eru um lífið fróð
eiga draumsins geislaglóð
gæfu þína og hjartablóð.
Þögnin geymir þessi ljóð.
Þú ert skáld á bak við tjöldin.
Þá var nú glatt í Hrauntúnsbaðstofu.

Stofan og bækurnar

Dýravinurinn

Dýravinurinn.

Virðulegasti staður Hrauntúnsbæjar var stofan. Hún var svo virðuleg að fyrstu dagana þorði ég ekki að líta þar inn. Við veggi hinnar blámáluðu stofu stóðu bókaskápar frá gólfi til lofts, bækur á borði, bækur á kistum, allt fullt af bókum, margar í skínandi nýju skinnbandi, gamlar bækur, sögubækur, fræðibækur, tímarit, guðsorð, nýtt og gamalt. En langfallegustu bókina, að því að mér fannst, hafði Jónas bóndi lagt handa mér á borðið. Stór þykk bók í gljáandi skinni gyllt á kili, meira að segja myndir innaní. Þessi bók var tímaritið Dýravinurinn með sögum eftir Þorstein Erlingsson, Þorgils Gjallanda, Guðmund Friðjónsson og marga aðra ágæta dýravini. — Hvar skyldi þessi bók vera núna? —
Fáir kunnu á þeim tíma betur að velja bók í hendur barni heldur en þessi þyrrkingslegi bókasafnari. Svipað mátti segja um þá Halldór og Bjarna. Þeir bönnuðu þær bækur sem ekki þóttu barna meðfæri en bentu á aðrar heppilegri.
En freistarinn lá í leyni og ég stalst til að lesa hina bönnuðu bók, Makt myrkranna um þann rúmenska greifa Drakúla. Afskaplega fannst mér það skemmtileg bók. Ekki get ég fundið að hún hafi skaðað, enda glottu þeir Hrauntúnsmenn þegar upp komst um boðorðabrotið. Jónas hélt að mér ævintýrum og riddarasögum sem var til mikillar skemmtunar. Hafi bændur almennt á þeim tíma látið sér svo annt um lesefni aðkomubarna, þá er ekki að furða þótt íslenskri sveitamenningu sé viðbrugðið.

Gestagangur

Guðmundur Finnbogason

Guðmundur Finnbogason 1934.

Oft komu gestir að Hrauntúni, bæði ferðamenn af Kaldadal og úr Borgarfjarðardölum, Grímsnesingar og fólk úr Reykjavík. Jónas vildi að allir fengju góðgerðir, annaðhvort kaffi eða mat. Nógur matur var lagður til en eldamennska var örðug því að allt varð að elda við kalvið á hlóðum.
Einu sinni kom hópur af fólki að Hrauntúni. Þar voru bæði karlmenn og fínar dömur í för. Fyrir hópnum var Guðmundur Finnbogason prófessor og Laufey Vilhjálmsdóttir kona hans. Öllum var boðið til stofu og hófst nú hinn venjulegi pónnukókubakstur við kalviðareldinn.
Prófessorinn fór í eldhúsið og spjallaði við mömmu á meðan hinir gestirnir sátu á tali við bónda. Bestu góðgerðirnar þóttu hveitibrauðið heimabakaða með kæfu úr skinnbelg sem hékk í rjáfrinu í eldhúsreyknum.

Laufey Vilhjálmsdóttir

Laufey Vilhjálmsdóttir.

Eitt kvöld þegar allir voru háttaðir heyrðist spóinn vella ærið grunsamlega. — Það er gestahljóð í honum, sagði Jónas. Stuttu seinna rauk hundurinn upp. Hófadynur heyrðist í tröðum og hringl í beislum. Bóndi snaraðist í föt og gekk til dyra. Hann kom inn aftur að vörmu spori og á hæla honum afarhár maður höfðinglegur með afbrigðum, snar í augum og glettinn á svip. Þetta var Ólafur bóndi í Kalmanstungu, sá sem sagt var um að hefði verið glæsilegastur bænda í konungsveislunni á Þingvöllum þegar Friðrik kóngur 8. kom 1908. Nú kom hann af fjallvegum á leið suður.

Krækiber og bláber
Ekki var mikið af berjum kringum Hrauntún þetta sumar. Helst var nokkuð um krækiber en sáralítið um önnur ber. En í Lágafelli við Hofmannaflöt voru bæði bláber og aðalbláber. Sagt var að aðalbláber væru í Mjóafellinu en þangað kom ég aldrei. Eina engjarós fann ég nálægt Stórkonugili en annars var allt bitið og nagað af sauðfénu.

Eingöngu brennt kalviði

Gapi

Gapi.

Jónas Halldórsson lét sér mjög annt um skóginn. Hann taldi að nauðsynlegt væri að hirða sem mest af kalviði í skóginum til þess að rýma fyrir nýjum viði. Í hlóðaeldhúsinu var eingöngu notaður kalviður. Hann logaði vel en var mjög ódrjúgt eldsneyti. Hrísrif var þó óhjákvæmilegt en Jónas mun ekki hafa fellt lifandi skóg meir en nauðsyn þótti. En stór var hrískösturinn sem dreginn var heim um haustið. Hann var hærri en bæjarhúsin. Jónas fór oft með kalviðarbagga á Rauð gamla til Guðrúnar í Konungshúsinu.

Hrafnagjá

Hrafnagjá á Þingvöllum – mynd frá um miðja síðustu öld.

Mestur var skógurinn austur og suður frá bænum. Einu sinni fékk ég fylgja Jónasi í eina af hinum mörgu skógargöngum hans. Við stefndum í áttina að Hrafnabjörgum og gengum lengi þangað til kom að grasigrónu rjóðri eins og dálitlu túni. Þar sást í opið á víðum helli. Jónas hafði þagað alla leiðina en nú sagði hann: Sauðahellir Gapi. Hæðirnar þar austur af heita Gaphæðir og í þeim sagðist Jónas vilja hafa sinn legstað þegar hann dæi. Ekki varð af því og mun Jónas hafa verið grafinn annaðhvort í Þingvallakirkjugarði, sem hann sagði að væri of blautur legstaður, eða þá í Reykjavík þar sem hann dó 1922.

Þingvallarétt

Þingvallarétt – Bolabás-/Sleðaásrétt.

Við komum að Hrafnagjá. Jónas sagði að niðurhrunið gerði þessa gjá ljótari en Almannagjá sem væri með grónari botn. Hann minntist á jarðskjálftana 1896, hvað gjárnar hefðu breyst og miklu meira niðurhrun í þeim síðan. Hann benti mér á eyðibýlið Litla-Hrauntún sem væri komið úr byggð fyrir langalöngu.
Á þessum tíma fyrir 65 árum var svo sem enginn skógur kringum Hrauntún nema jarðlægar kræklur. Núna er sett skilti við leiðina að Hrauntúni upp frá Bolabás undir Ármannsfelli. Þar er rústin af fjárrétt sveitarinnar og leifar af kerruvegi sem kom seinna en hér er frá sagt.
Á öllu þessu svæði var sáralítið um skóg, sem væri það hár að 9 ára barn gæti ekki séð yfir hann. Við túngarðinn í Hrauntúni sást ekki hrísla en nú er þar víða svo mikill skógur að túngarðurinn er í kafi. Þá hefur skógurinn leitað inn á túnið, bæði birki og víðir. Í staðinn fyrir túngrösin hefir komið mosi og lyng sumstaðar. Hitt er allt í sinuflóka. Þegar farið er Gjábakkaveginn má finna troðninginn heim að Hrauntúni. Þá götu var farið í átt til Þingvalla. Við þann stíg var aðeins lágt skriðult kjarr og sumstaðar aðeins gamburmosi.

Hrauntún

Hrauntúnsgatan.

Nú er þarna allt í kafi af birkiskógi. Lítið var um beinvaxnar hríslur í skóginum 1919. Helst var það austan undir Gaphæðunum. Götuslóði lá milli Skógarkots og Hrauntúns, mjög ógreinilegur enda sjaldfarinn. Við þennan slóða stóð fallegasta hríslan sem ég man þarna eftir. Hún var að minnsta kosti meira en mannhæð, þráðbein með fagra krónu. Hvítur stofninn sást langt að því að hríslan var einstök. Árið 1934 kom ég að þessari sömu hríslu. Hún var þá skemmd af kali og á henni ellimörk. Hin langa friðun hefir bersýnilega aukið skóginn að miklum mun. Þó eru gamburmosabreiðurnar býsna svipaðar að ummáli og áður var, að minnsta kosti þegar horft er af útsýnisskífunni á barmi Almannagjár.

Hofmannaflöt

Hofmannaflöt

Hofmannaflöt undir Meyjarsæti framundan.

Heyskapurinn í Hrauntúni var aðeins á heimatúni og Hofmannaflöt. Halldór faðir Jónasar hafði heyjað á blettum hér og hvar um skóginn en nú var sá siður aflagður. Á Hofmannaflöt heyjuðu þeir Halldór og Bjarni. Þeir voru við slátt allan daginn en var færður matur.
Þegar þokan læddist á loðnum skóm um hraun og hlíðar fengu hólar, klettar og runnar á sig undarlegar myndir og oft ógurlegar. Enginn staður við engjaveginn var eins ógnum þrunginn og Stórkonugil sem skerst inn í Ármannsfellið. Þokuslæðurnar huldu hamrana að mestu en innst inni glytti í svarta vota steina sem stundum glömruðu við, rétt eins og einhver væri þarna í þann veginn að stíga fram úr gilinu þungum skrefum. Þá var gott að eiga von á þeim Halldóri og Bjarna bak við næsta leiti þar sem þeir stóðu blautir við sláttinn fegnir hálfvolgri kaffiflösku í sokkbol. Þeir sögðu alltaf það sama: Farðu ekki út af götunni því þá villistu í hrauninu. — Það var heldur ekki fýsilegt því að þarna úti í hraunhólunum voru fornar rústir, enginn vissi hve gamlar. Þar gat verið reimt og hollast að halda sig sem lengst frá slíkum stöðum.

Meyjarsæti

Meyjarsæti.

Á meðan sláttumenn drukku kaffið var gaman að príla upp í Meyjasæti þar sem fornkonur höfðu setið í dómarasæti yfir íþróttamönnum sem þreyttu kappi á Hofmannaflöt. Norðar var Biskupsflöt þar sem Skálholtsbiskupar tjölduðu fyrrum með sveinum sínum og sátu á tali við tröllkonur um nætur. — Bóndalegt tjald, bóndlegur maður, — sagði ein stórkonan við Brynjólf biskup Sveinsson. En langt norður í hrauninu við rætur Skjaldbreiðar var ungur maður á ferð og lét hestinn lötra en rakki hljóp snuðrandi á eftir. Heiðarbúar, glöðum gesti greiðið för um eyðifjöll einn eg treð með hundi og hesti hraun og týnd er lestin öll. Jónas Hallgrímsson var uppáhaldsskáld móður minnar og hún söng Skjaldbreiðarkvæði hans frá upphafi til enda þegar við vorum einar heima.

Fuglar og ferfætlingar

Rjúpa

Rjúpa.

Þeir Hrauntúnsmenn voru dýravinir. Aldrei var rjúpa skotin heima við bæ en Halldór fór til fjalls á haustin og skaut þar. Rjúpurnar voru líkastar tömdum hænsnum þegar þær komu inn á túnið á kvöldin. Fyrst settust rjúpukarrarnir í garðinn til þess að gá að ferðum kattarins. Síðan komu rjúpurnar með ungahópa sína inn á túnið og jafnvel á stéttina fyrir framan bæjardyrnar hópum saman og Jónas talaði við þær tæpitungu eins og gæludýr. En kisa lá á kettlingum og dró rækilega í bú sitt. Ekki virtust rjúpurnar styggjast verulega við það.
Í fjósinu var bæli kisu og þar var um tíma tófuyrðlingur bundinn á bás. Hann varð gæfur eins og hvolpur og vildi leika sér við mann. En býsna hvassar voru tennurnar í greyinu.
Kýrin var ein á bænum og henni hefir víst leiðst. Hún tók svo miklu ástfóstri við móður mína að hún elti hana hvar sem hún gat og þegar við fórum út í hraun að tína litunarmosa færði kýrin sig meðfram garðinum til þess að vera alltaf sem næst mjaltakonunni. Þessari kú hafði verið strítt af krökkum og hljóp í alla krakka sem hún sá. Hún var stórhyrnd og ekki árennileg. Hundurinn Skrámur var auðvitað sá besti félagi sem hugsast gat, ágæt vörn við mannýgri kú.
Rauður var aðalbrúkunarhrossið en hinir yngri menn áttu reiðhesta. Féð var um allan skóg og mikið treyst á útigöngu á vetrum.

Haustar að í Hrauntúni

Hrauntún

Himininn ofan Hrauntúns.

Senn fór að líða á sumarið og haustaði að með svölum vindum norðan af Kaldadal. Ármannsfell varð grátt í rót. Vistartíminn í Hrauntúni var á enda. Halldór flutti föggur okkar á Rauð gamla til Þingvalla. Við gengum út túnið og kýrin elti móður mína eins langt og hún komst.
Hundurinn Skrámur barðist við tilfinningar sínar. Hann langaði að elta sumarleikfélagann sinn en húsbóndahollustan sigraði. Með lafandi skotti og vesældarsvip sneri hann heim á hæla Jónasi bónda sem gekk sínum löngu léttu skrefum til fjalls, einmana og þögull að vanda.”

Heimild:
-Lesbók Morgunblaðsins, 34. tbl. 22.12.1984, Sumar í Hrauntúni – Sigurveig Guðmundsdóttir, bls. 39-41.

Hrauntún

Hrauntún – garður; minnismerki mannvistar.