Færslur

Þingvellir

Það var grenjandi lárétt rigning í bænum þegar lagt var af stað. Þegar komið var á Þingvelli skein sólin á Þingvallahraunið og nálæg fjöll. Frábært veður. Ætlunin var að ganga í Hrauntún og Skógarkot frá þjónustumiðstöðinni að Skógarkoti og rifja upp búsetusögu og mannlíf á svæðinu fyrr á öldum sem og náttúrufarið. Í Skógarkoti eru ríkulegar minjar í fallegu umhverfi. Um tímamóta FERLIRsferð er að ræða því ekki hefur fyrr verið farið svo langt út fyrir kjörlendið. Svo gæti farið að þetta yrði upphafið að “útrás” FERLIRs um aðra merkisstaði utan skagans og þar með formleg “útskrift” af æfingasvæðinu.

Hrauntún

Í Hrauntúni.

Í tilefni af ferðinni var sett inn ný krækja á vefsíðuna, www.thingvellir.is. Á honum er bæði kort og ýmiss fróðleikur um Þingvelli, einn helgasta stað þjóðarinnar frá árinu 930.

Þingvallahraun er 9000 ára um þessar mundir, en Sandey út í Þingvallavatni er einungis um 2000 ára gömul svo ýmislegt hefur gengið þarna á um langan tíma. Fyrir um 9000 árum, þegar hraunin runnu frá Skjalbreið og gígunum ofan við Hrafnabjörg er mynduðu Þingvallahraunið hefur svæðið verið nokkurn veginn sléttlent með hraunhólum og –hæðum. Síðan hefur landið sigið að hluta á misgengissprungu, sem liggur um landið frá SV til NA. Mið-Atlantshafshryggurinn liggur um Þingvallasvæðið og Þingvallasigdældin er líkust því sem sjá má á Atlantshafshryggnum neðansjávar. Landið hefur gliðnað í sigdældinni, en reikna má með að um hálf milljón ár séu liðin frá því að Almannagjá að vestanverðu og Hrafnagjá að austanverðu lágu hlið við hlið. Þegar litið er glögglega á umhverfið má vel sjá þau frumöfl, sem skópu Ísland í upphafi, þ.e. sprungukerfið, jarðeldarnir og jökulrofið. Áhrif ísaldarjökulsins má t.d. sjá á Henglinum, Hrafnabjörgum, Ármannsfelli og Súlunum.

Hrauntún

Hrauntúnsgatan.

Götur, vegir og slóðar liggja svo til um allt hraunið, bæði þvert yfir það og á milli bæja og vatnsins. Þarna er kirkjugata, veiðigata og konungsvegur. Orðið stígur á “Þingvallamáli” er einungis ruðningur eða brú yfir gjá. Skógarkotsgatan og Gjábakkavegur annars vegar voru fyrstu akvegirnir í gegnu hraunið til austurs og Nýja Hrauntúnsgatan og Réttargata hins vegar voru leiðin noður á land um Uxahryggi. Þannig lágu “allir vegir um Skógarkot” hér á landi líkt og allir vegir lágu til Rómar enn fyrrum.

Hrauntún

Í Hrauntúni.

Þingvellir hétu áður Bláskógar. Sennilega hafa þeir dregið nafn sitt af blágresinu, sem enn er víða áberandi innan um kjarr og lyng í hrauninu. Þingvallavatn hét þá Ölfusvatn (Ölfisvatn), sbr. Ölfusá, en eftir að þinghald varð á Völlunum breyttist nafnið og nú eru þau gömlu að mestu gleymd, líkt og flest gömlu örnefnin á svæðinu. Reyndar eru til miklar örnefnalýsingar, en fáir vita nú hvar þau örnefni eru. Örnefnin höfðu annan tilgang hér áður fyrr en fólk ímyndar sér nú á dögum. En samt er hann ekki svo frábrugðin þegar grannt er skoðað. Maður, sem talar við annan í farsíma, getur þurft að staðsetja sig til að gefa til kynna hvar hann er staddur. Á sama hátt þurfti bóndinn t.d. að geta staðsett kýr eða kindur við eða nálægt tilteknum stað þegar á þurfi að halda, öðrum til glöggvunar.
Utan þingstaðarins forna tengjast þær flestar gömlu eyðibýlunum, Hrauntúni, Skógarkoti og Vatnskoti þar sem enn má sjá ummerki mannvistar fyrir tíma vélvæðingar.

Konungsvegur

Konungsvegur að Skógarkoti um Þingvallahraun.

Byrjað var á því að ganga frá þjónustumiðstöðinni (sem nú er ekki nema tóftirnar) að Leiragötu (1.5 km) um Leiragjá. Gjáin er bæði breið og falleg á kafla, en annars er hún eins og aðrar gjár á Þingvöllum, djúpar. Leiragata liggur frá Leirum sunnan við miðstöðina og liðast í gegnum hraunið. Smjörgras var áberandi við götuna. Hún er vel greinileg og hefur verið gerð greinilegri á síðustu árum eftir að byrjað var á því að greina aftur gömlu göturnar og vegina í hrauninu. Sumar göturnar eru ekki varðaðar, enda einungis farnar í ákveðnum tilgangi, s.s. með fé eða til að sækja vatn. Aðrar eru greinilegri og hafa jafnvel verið lagfærðar. Þær eru varðaðar, enda oft um þjóðleiðir að ræða. Þannig var Prestastígur með austanverðu og ofanverðu hrauninu notaður þegar Skálholtssbiskupar voru á leið vestur á land og Skógarkotsgata og Gjábakkavegur voru sýsluvegir, sem notaðir voru til að greiða t.d. götu vermanna á leið þeirra yfir hraunið.

Skógarkot

Í Skógarkoti.

Gengið var í gegnum Þrívarðaskóg og yfir á Nýju Hrauntúnsgötu, sem hefur verið endurgerð sem reiðvegur. Hún liggur bæði til norðurs og til suðurs vestan við Skógarkot. Frá gatnamótunum er stutt eftir að Hrauntúni. Þegar stutt er eftir að bænum sést fallega hlaðin varða á hraunhól á vinstri hönd, Litlavarða. Einfaldir háir garðar umlykja túnin. Blæs vel í gegnum þá sumsstaðar. Hrauntún er sunnan Sleðaáss. Halldór Jónsson reisti þar bú 1830 á rústum kots, sem talið er hafa farið í eyði í fyrri plágunni. Þarna bjuggu þrjár kynslóðir til 1934. Óglöggt sést til rústa Litla-Hrauntúns austur af Víðivöllum og Stóragili í Ármannsfelli.

Skógarkot

Skógarkot 1913.

Sagt er að Halldór bóndi í Hrauntúni, sem hlóð garðana, hafi verið ættaður norðan af landi og taki hleðslulagið mið af því, sem hann var vanur og þekkti. Hann er m.a. þekktur fyrir að hafa varðað hinn gamla Kjalveg. Garðarnir umhverfis Skógarkotið eru hins vegar mun breiðari og taka mið af lagi sveitarinnar. Hrauntúnsgata liggur þarna sunnan garða. Réttargatan er norðan við bæinn. Fallega hlaðin heimtröðin liggur að henni frá bæjarstæðinu. Austan bæjarins eru tóftir útihúsa. Sunnan bæjarins er hlaðin hlaða og brunnurinn er greinilegur í kvos vestan hennar. Ofan og norðan við hann er flórað gólf undan timburhúsi. Fallegri fjallasýn frá bæ er vandfundin, nema ef vera skyldi frá Skógarkoti.

Hrauntún

Hrauntún – loftmynd.                               

Þá bættist Páll Kolka í hópinn. Hann er starfsmaður Þjóðgarðsins, en garðurinn gengst fyrir gönguferðum með leiðsögn um Þingvallasvæðið á laugardögum í sumar. Ætlunin er m.a. að fara síðar í slíka ferð að Þórhallsstöðum skv. auglýstri dagskrá.

Hrauntún

Í Hrauntúni.

Gengið var áleiðis í Skógarkot um Sandhólaveg og Sandhólastíg yfir Sandhólagjá. Ljósberi var áberandi við götuna. Sandhólavegur er ekki varðaður og er líkt farið með honum og Leiragötu. Á leiðinni upplýsti Páll að árið 1789 hafi hækkað í vatninu og Vatnskot, á norðurbaka Þingvallavatns, hafi þá að hluta farið undir vatn, en enn má sjá garð í vatninu á um 2 metra dýpi. Vatnskot stóð utan við Vellankötlu á vatnsbakkanum í landþrengslum. Ábúendur lifðu aðallega af veiði í vatninu. Símon D. Pétursson, smiður, og Jónína Sveinsdóttir settust þar að 1912 og bjuggu lengst allra í þjóðgarðinu, til 1966. Símon þótt mikill hagleiksmaður.
Árið 1930 hafi Þingvellir verið gerðir að þjóðgarði og þar með hafi búskapur og flestir bæir skömmu síðar þar lagst af. Bóndinn í Skógarkoti hafi reyndar flutt sig niður að Hallsvík, reist þar hús og ætlað að lifa af vatnabúskap, en það hafi orðið skammlíft. Reyndar hafi Þingvallavatn lítið verið nýtt á öldum áður. þrátt fyrir nægan fisk.
Blágresi var víða með götunni. Páll sagði að túnin við bæina hefðu verið ræktuð með því að mokað var út úr útihúsum og skítnum dreift um mosavaxna hraunhóla og –lægðir. Þannig hefðu þau verið stækkuð smám saman. Reyndar væru þau hvergi mjög stór, en skógurinn hefði bætt upp beitina. Þarna hafi jafnan verið snjólétt og féð geta gengið í skóginn. Fjármargt hafi verið í kotunum. Um 1703 hafi t.d. verið um150 ær í Skógarkoti, en undir það síðasta hefur fjöldinn eflaust verið mun meiri, líkt og á öðrum bæjum í Þingvallasveit. Í Skógarkoti hafi verið strjál búseta og oft á tíðum hafi það verið sel frá Þingavallabænum.
Þegar komið var í Krókhóla var staðnæmst og Páll útskýrði örnefnið; krókóttir hraunhólar að ofanverðu. Lyng og kjarr var í hraunhólunum á móti suðri, en við norðrinu gapti mosinn.
Beygt var til hægri þegar komið var inn á Nýju Hrauntúnsgötu og síðan austur Skógarkotsveg. Af honum var gengið inn á heimtröðina í Skógarkoti. Veggirnir voru veglegir og hafa staðið nokkuð vel því þeir hafa ekki verið endurhlaðnir eftir að búskap lauk þar. Heimtröðin liggur í beygju upp að bæjarhólnum. Margt er líkt með heimtröðinni að Skógarkoti og Stóra-Gerði í Staðarhverfi í Grindavík, báðar tilkomumiklar og fallega formaðar.

Hrauntún

Garður í Hrauntúni.

Í Skógarkoti eru greinilegar rústir þessa býlis, undir Sjónarhóli. Vatn þraut oft í brunninum í túninu. Þarna var búið til 1936.
Páll dró upp teikningu af útliti bæjarins, eins og hann leit út undir það síðasta, og sýndi þátttakendum. Með því var auðveldara að glöggva sig á hvernig umhorfs hafi verið í Skógarkoti á þeim tíma miðað við aðstæður. Blágrsi hafði náð að “fótfesta” sig í túninu við heimtröðina. Suðvestan við heimtröðina að Skógarkoti liggur Vatnskotsgata og Veiðistígur til suðurs, að vatninu, annars vegar að Vatnskoti og hins vegar að Öfugsnáða, en þaðan náði veiðiréttur Skógarkots að Hallvík í austri.
Bæjarhúsin hafa staðið uppi á grónum hól. Suðvestan við þau sést enn verklega hlaðin hlaða. Tóftir útihúss eru ofar. Vel hlaðnir garðar eru allt í kringum heimatúnin. Austan við túngarðana eru Þórhallastaðir við Ölkofrahól og enn ofar í norðraustur er Hellishæð. Þar er fjárhellir.
Áhrifamikil saga tengist einum ábúandanum á Þórhallsstöðum og brugggerð hans. Á Þórhallastöðum eru rústir bæjar eru undir Ölkofrahóli. Þar er brunnur og smátún. Ölkofradalur er djúp hraunkvos vestan hólsins. Þar er vatnsstæði, sem þornar í þurrkum. Ölkofri, sem seldi þingheimi bjór á sínum tíma og brenndi Goðaskóg, bjó þar. Talið er, að stóraplága hafi lagt Þórhallastaði í eyði og Skógarkot hafi byggst eftir hana. Að sögn Páls hafa margar minjar á þessu svæði verið upgötvaðar á liðnum árum, en eflaust eru margar enn ófundnar, sem þar kunna að leynast…

Þingvellir

Fjallfífill.

Gengið var til baka um Skógarkotsstíg, greiðfæra götu, enda einu sinni fyrsti bílvegur þá leiðina yfir hraunið, og að Flosagjá. Þar var staðnæmst við brú yfir gjána. Skammt sunnan hennar má sjá enn eldri brú fyrir fótgangandi. Páll sagði að Flosagjá hafi einnig verið nefnd Peningagjá. Á því væru tvær skýringar. Annars vegar sú að í henni hafi verið komið fyrir sjóði falsaðra peninga, en hinsvegar að konungur Dana, sem hafi átt leið um “Konungsveginn” hafi fyrstur staðnæmst þar og kastað í hana pening honum og öðrum til heilla.

Götunni var fylgt upp að gatamótum Langastígs og Þingmannastígs við Vallagjá. Langistígur liggur upp um haft, sem sprengt var niður í Stekkjargjá og mun m.a. vera gömul póstleið. Þingmannastígur liggur norður með Fögrubrekkum, en það var leið Norðlendinga af þingi fyrr á öldum. Þeirri götu var fylgt áleiðis að þjónustumiðstöðinni þar sem gangan endaði. Við götuna mátti bæði berja augum brönugras og fjalldalafífil.
Til frekari upplýsinga má geta þess að Arnarfell var hjáleiga frá Þingvöllum, sem hafði afnot af fellinu og spildu norðan þess við vatnið og var góð veiðijörð. Enn þá sést móta fyrir grjótgarði, sem var hlaðinn til að girða fellið af. Líklega hefur Fornasel verið sel frá Þingvallabænum. Hjáleigan var ekki stöðugt í ábúð. Árið 1934 fékk Matthías Einarsson, læknir, erfðafestuábúð þar og flutti til sín hreindýr frá Austurlandi en þau drápust öll.
Hér á eftir eru tiltekin prestssetur á Þingvöllum með því sem þeim fylgir, með framsettum fyrirvara, sem þjóðkirkjan hefur ekki afsalað sér eða ekki hafa verið seld með lögmætum hætti: Þingvöllur með hjáleigunum í umsjá f.r.: Svartagili, Vatnskoti og Arnarfelli. Hjáleigurnar Skógarkot og Hrauntún hafa verið lögð til Þingvalla.
Frábært veður – bjart og hlýtt. Gangan tók 5 klst og 5 mín.
Sjá vefsjá Þingvalla  HÉR.

Skógarkot - loftmynd

Skógarkot-loftmynd.

Þingvellir

Lagt var af stað frá Hakinu þar sem horft var yfir Þingvelli og Almannagjá. Leiðin lá niður gjána með viðkomu að Lögbergi, tóftum þingmannabúða, Drekkingarhyl, Öxarárfossi og Langastíg.

Þingvellir

Þingvallabærinn.

Ætlunin var að nota tækifærið í góða veðrinu og rifja upp umhverfislýsingar frá fyrri tíð á þessum helgasta stað íslensku þjóðarinnar. Saga Íslands og íslensku þjóðarinnar kemur hvergi betur fram á einum stað en á Þingvöllum. Þar var Alþingi stofnað um árið 930 sem kom saman á Þingvöllum allt fram til ársins 1798. Meginviðburðir Íslandssögunnar hafa gerst þar og því skipa Þingvellir sérstakan sess í hugum allra Íslendinga.

Þjóðgarðurinn á Þingvöllum var stofnaður með lögum árið 1930. Í lögunum segir að Þingvellir við Öxará skuli vera friðlýstur helgistaður allra Íslendinga, hið friðlýsta land skuli ævinlega vera eign íslensku þjóðarinnar undir vernd Alþingis og landið megi aldrei selja eða veðsetja.

Þingvellir

Þingvellir.

Hér á landi var bent á að mikilvægt væri að vernda einstaka náttúru- og sögustaði svo að komandi kynslóðir gætu notið þeirra óraskaðra. Fljótlega beindist umræðan að Þingvöllum sérstaklega og þeirri hugmynd að þar yrði stofnaður þjóðgarður. Þessi fyrrum krafa hljómar nú um heim allan. Hvarvetna er umræða um mikilvægi náttúru- og söguminja og eru þær taldar ein helstu verðmæti framtíðarinnar. Mikið er t.d. rætt um það meðal ráðherra Evrópusambandsins um þessar mundir að mörkuð verði heilstæð stefna í þessum málum og er eftirlit og gæsla þessara mikilvægu minja hvers lands hluti af þeirri umræðu. Mýmörg og sorgleg dæmi eru um glataðar fornminjar í gegnum aldir er hefðu getað upplýst um sögu og þróun lífs á Jörðinni. Upplýst samfélag vitiborinna manna telur að nú sé nóg komið af eyðileggingunni.

Þingvellir

Almannagjá.

Víkingaöld er talinn hefjast um árið 800 og ljúka um 1050. Einkennandi fyrir þennan tíma er að þá tók norrænt fólk sér bólfestu allt frá Volgubökkum til austurstranda Norður-Ameríku og frá Miðjarðarhafi til Norður-Íshafs.-
Landnám Íslands var einn þáttur í þessum miklu og víðtæku þjóðflutningum. Landþrengsli og innanlandsátök í Noregi voru þættir sem leiddu til að margir tóku sig upp og lögðu út á hafið til Íslands. Í Íslendingabók Ara fróða segir að Ingólfur Arnarson hafi fyrstur numið land í Reykjavík sem mun hafa verið um árið 870. Hið rétta er að Ingólfur nam hér land á þeim tíma, en án efa hafa aðrir landnemar verið hér fyrir þótt minna hafi farið fyrir þeim og heimildir um þá ekki verið skráðar sérstaklega.

Þingvellir

Þingvellir – Almannagjá.

Margir fylgdu hins vegar í kjölfar Ingólfs og sáu þeir Ísland fyrir sér sem land nýrra tækifæra. Íbúum fjölgaði jafnt og þétt og að sama skapi jókst þörf á lögum og þar með einhverjum tilteknum stað þar sem menn gætu komið saman, sett niður deilur og sammælst um tilteknar reglur sem hafa bæri í heiðri. Nokkru eftir landnám voru tvö héraðsþing stofnuð á Íslandi, annað kennt við Þórsnes við Stykkishólm, hitt við Kjalarnes. Seinna voru fleiri héraðsþing stofnuð víðsvegar um landið.

Þingvellir

Frá Þingvöllum fyrrum.

Skömmu eftir árið 900 var farið að huga að þeim möguleika að stofna eitt allsherjarþing – Alþingi – á Íslandi. Nokkru fyrir árið 930 komu höfðingjar sér saman um að senda mann, Úlfljót að nafni, til Noregs. Erindi hans var að kynna sér lög og venjur sem hafa mætti að fyrirmynd í hinu nýja þjóðfélagi. Hann sneri aftur til Íslands og við hann eru kennd fyrstu lögin sem sögð voru upp á Alþingi – Úlfljótslög. Fóstbróðir Úlfljóts, Grímur geitskör, fór um Ísland til að afla fylgis við stofnun Alþingis sem og að finna hentugan þingstað. Niðurstaðan varð sú að þingið yrði í Bláskógum og sumarið 930 komu menn saman, þar sem nú heita Þingvellir, til að taka þátt í fyrsta Alþingi Íslendinga sem markar upphaf þjóðríkis á Íslandi. Nokkrar ástæður eru taldar líklegastar fyrir vali þingstaðarins á Þingvöllum.

Þingvellir

Frá Þingvöllum.

Í landnámi Ingólfs Arnarsonar hafði verið stofnað þing á Kjalarnesi. Ættingjar hans voru valdamiklir og talið er að áhrifa þeirra hafi gætt við staðarval Alþingis. Á þjóðveldisöld lágu Þingvellir vel við helstu leiðum og þéttbýlustu svæðum á Íslandi og því auðvelt fyrir flesta að sækja þingið.
Aðstæður á Þingvöllum þóttu einnig heppilegar fyrir þing; góðir hagar, eldiviður og vatn. Þá þótti staðurinn henta vel fyrir sjálft þinghaldið sem slíkt þar sem brekka og sléttur völlur lágu upp að hamravegg. Einnig er nefnd frásögn í Íslendingabók Ara fróða af Þóri kroppinskegg sem átti land í Bláskógum. Hann myrti þræl sinn en í refsingarskyni var allt land hans gert að allsherjareign til afnota fyrir þingið.

Þingvellir

Þingvallabærinn 1900.

Alþingi á Þingvelli fór með æðsta löggjafar- og dómsvald á Íslandi frá stofnun þess um 930 til 1262-64. Þjóðveldisöld nær frá árinu 930 fram til áranna 1262-64. Þá var Lögberg miðdepill þinghaldsins. Á Lögbergi hafði lögsögumaður sitt rými en hann sagði upp gildandi lög þjóðveldisins í heyranda hljóði. Hann geymdi lögin í minni sér og hafði þrjú ár til að segja upp öll lögin en á hverju sumri sagði hann upp þingsköp.
Lögsögumaðurinn var kosinn af Lögréttu til þriggja ára og var eini launaði starfsmaður þjóðveldisins. Á Alþingi var lögsögumaðurinn valdamesti maður landsins en þess á milli var hann formlega valdalaus en naut að sjálfsögðu virðingar samferðamanna sinna til samræmis við mikilvægt hlutverk sitt.

Þingvellir

Frá Þingvöllum.

Á Lögbergi máttu allir stíga fram, þar voru fluttar ræður er vörðuðu mikilvæg mál og fréttir sagðar af markverðum atburðum. Þinghelgun og þinglausnir fóru fram á Lögbergi og þar voru úrskurðir Lögréttu tilkynntir, tímatal rétt, stefnur birtar og þau tíðindi önnur sett fram er vörðuðu þjóðina alla. Lögberg var opið öllum þingheimi, þar gat hver maður flutt mál sitt í mikilvægum málum. Atburðir á Lögbergi verða lifandi í lýsingum í mörgum Íslendingasögum. Aðdraganda kristnitökunnar er vel lýst í Njáls sögu en þar segir:
“Um daginn eftir gengu hvorirtveggju til Lögbergs og nefndu hvorir votta, kristnir menn og heiðnir, og sögðust hvorir úr lögum annarra og varð þá svo mikið óhljóð að Lögbergi að engi nam annars mál. “

Þingvellir

Þingvellir – Lögberg (sjá má Arnarklett á brún Almanngjár v.m. við miðju.

Hlutverk Lögbergs hvarf snemma úr sögu Alþingis er Íslendingar gengu Noregskonungi á hönd á árunum 1262-64 með Gamla sáttmála. Af þeim sökum hefur nákvæm staðsetning Lögbergs gefið tilefni til umræðna en rök hafa verið færð fyrir tveimur staðsetningum. Annars vegar að Lögberg hafi verið á flötum bergstalli efst á Hallinum norðan Hamraskarðs þar sem fánastöngin er nú og hins vegar að Lögberg hafi verið inni í Almannagjá uppi við hamravegginn. Einungis fornleifarannsóknir í framtíðarinni geta gefið vísbendingar um staðsetningu Lögbergs en líklega verður nákvæm staðsetning Lögbergs aldrei ákveðin með óyggjandi hætti.

Þingvellir

Þingvellir – Öxarárfoss.

Lögrétta var æðsta stofnun Alþingis á þjóðveldisöld og fór með löggjafarvald. Starfsvið Lögréttu var margþætt en hún skar úr lagaþrætum, setti ný lög og veitti undanþágur frá lögum. Á þjóðveldisöld var Lögrétta staðsett austan við Öxará.
Lögsögumaður stýrði fundum Lögréttu en í henni sátu 48 goðar á miðpalli.
Hver goði hafði tvo ráðgjafa sem sátu fyrir framan og aftan hann.
Eftir að biskupsstólar á Hólum og í Skálholti voru stofnaðir áttu biskupar einnig sæti í Lögréttu. Fjöldi þeirra sem sátu í Lögréttu var því 146 manns eða 147 ef lögsögumaður var ekki goði. Lögrétta kom saman báða þá sunnudagana sem þingið stóð og þinglausnardag en einnig oftar ef lögsögumaður óskaði. Öllum var frjálst að fylgjast með störfum Lögréttu en enginn mátti standa innan við pallana.

Þingvellir

Frá Þingvöllum.

Eftir því sem leið á 13.öldina jókst ófriður milli höfðingjaætta sem lauk með því að Íslendingar gengust undir yfirráð Noregskonungs árin 1262-1264 með Gamla sáttmála. Við það hvarf hlutverk Lögbergs úr sögunni og Lögrétta varð megin stofnun Alþingis sem varð dómstóll með takmörkuðu löggjafarvaldi.
Árið 1662 samþykktu lögréttumenn, á samkomu í Kópavogi, að viðurkenna einveldi Danakonunga. Við það fór vegur og vald Alþingis minnkandi allt til síðasta þings á Þingvöllum árið 1798. Fram á 16.öld var Lögrétta staðsett austan megin Öxarár. Vegna breytinga á Öxará einangraðist Lögrétta á litlum hólma og var hún því flutt vestur yfir Öxará árið 1594 þar sem byggt var lítið hús fyrir Lögréttu. Í því húsi fór allt starf þingsins fram til ársins 1798.

Þingvellir

Þingvellir – kort.

Um tveggja vikna skeið á sumri hverju reis lítið samfélag á Þingvöllum. Þangað streymdi fólk allsstaðar að, fólk sem vildi taka þátt í samkomu sem átti engan sinn líka á Íslandi. Orðatiltækið “nú er þröng á þingi” má líklega rekja til þingsins þar sem fjölmennt var þegar hæst stóð. Samkvæmt talningu Gissurar biskups Ísleifssonar voru þingfararkaupsbændur um 4000 talsins við lok 11.aldar. Þar sem goði gat krafið níunda hvern bónda þingreiðar voru allt að 500 þingfarakaups-bændur skyldugir að fara með með goða sínum til þings við lok elleftu aldar. Goði átti að styðja þá þingmenn sem sögðu sig í goðorð með honum en á móti studdu þingmenn goða sinn á þingum og í deilum. Goðar áttu að sjá þingmönnum sínum fyrir rými í búð sinni en aðrir sem komu reistu skýli og tjöld til að dvelja í á meðan þingi stóð.

Þingvellir

Þingvellir – Langistígur.

Á þjóðveldisöld voru ekki eingöngu þeir sem áttu lögskipað erindi til Alþingis sem þangað lögðu leið sína. Í hinni fornu lögbók Grágás eru nefndar búðir sútara og sverðskriða og í mörgum Íslendingasögum er getið búða ölbruggara og veitingamanna á Alþingi. Þann tíma sem Alþingi stóð yfir var það miðstöð þjóðlífs og einskonar höfuðstaður landsins þangað sem almenningur sótti. Þangað komu iðnaðarmenn og kaupmenn innlendir sem erlendir, fulltrúar erlendra þjóðhöfðingja, fólk í atvinnuleit og betlarar í leit að ölmusu. Kauphéðnar, sverðskriðar og sútarar buðu fram varning sinn og ölgerðarmenn sáu um að þingheimur gæti vætt kverkarnar. Fréttir voru sagðar úr fjarlægum heimshlutum, kappleikir háðir og veislur haldnar. Æskufólk réð ráðum sínum ekki síður en þjóðskörungar og lögvitringar.
Þeir sem sóttu þing þurftu að leggja á sig erfið ferðalög til að komast til Þingvalla hvert sumar. Sumir áttu einungis um 1-2 daga reið meðan aðrir voru um 14-17 daga á leiðinni yfir fjöll og eyðisanda á hálendi Íslands. Þingvellir lágu vel við fornum leiðum, mitt á milli helstu héraða sunnanlands og vestan, vart nema dagleið ríðandi mönnum. Úr fjölmennustu byggðum norðanlands, Húnaþingi, Skagafirði og Eyjafirði lágu torfærulitlir vegir á þing. Norðlendingar eystri og jafnvel Austfirðingar völdu fjallvegi þvert yfir landið en lengsta þingsókn áttu menn úr sunnanverðu Múlaþingi.
Í dag eru grasivaxnar búðarústir víðsvegar um þinghelgina einu leifarnar eftir tæplega 900 ára sögu þingsins. Almennt er talið að búðir á þjóðveldisöld hafi verið stærri en þær sem voru reistar á síðari öldum Veggir voru gerðir úr torfi og grjóti og yfir búðina var reist trégrind þar sem var tjaldað yfir með vaðmáli eða öðru efni. Búðir voru iðulega reistar á grunni eldri búða og því eru flestar búðarústir sem sjást í þinghelginni frá seinustu tveimur öldum þingsins.
Frábært veður – gangan tók 2 klst og 22 mín.

http://www.thingvellir.is/saga/

Þingvellir

Skötutjörn á Þingvöllum.

Ródólfsstaðir

Gunnar Valdimarsson sendi FERLIR eftirfarandi fróðleik um meinta Ródolfsstaði við Ródolfsstaðahæðir. Upplýsingar Gunnars eru mjög áhugaverðar og gefur FERLIRsfélögum ástæðu til að fara aftur á svæðið og skoða það nánar.

“Sæl FERLIRsfólk.

Ródólfsstaðir

Afstaða rústasvæðanna, 1 eru tóttirnar ykkar, 2 gerðið Hringurinn og gerðið á loftmynd á map.is – Gunnar.

Ég heimsæki vefsíðuna ykkar reglulega og hef mikið gaman af. Ég sá að þið voruð að velta fyrir ykkur staðsetningu Rótólfsstaða eða Bótólfsstaða núna nýverið og hef líka litið á umfjöllun Gunnars Grímssonar í verkefninu um byggðaleifar í Þingvallasveit. Ég get vonandi orðið ykkur að liði varðandi þetta.

Um 500-600 m í nokkurn veginn VSV stefnu frá tóttunum sem þið teljið vera undir Rótólfsstaðahæðum suðaustanverðum er annað rústasvæði. Það er vafalaust staðurinn sem Brynjúlfi Jónssyni var bent á þarna á sínum tíma, þ.e. ferhyrningslaga gerði með tótt í norðvesturhorni.

Ródólfsstaðir

Afstaða mannvirkja – Gunnar.

Veggir eru allskýrir og norðurveggurinn mikill og breiður. Til vesturs frá þessum ferhyrningi er annað gerði sambyggt, afmarkað af hringlaga vegg sem virðist tvöfaldur, eins og sá hluti hafi verið stækkaður (eða minnkaður). Í norðvesturhluta ferhyrningsins er húsatótt sem snýr nokkuð á skjön við gerðið og hefur NV-SA stefnu. Þar virðast vera tvö samsíða innrými frá norðri til suðurs og jafnvel það þriðja í norðurendanum, mögulega með dyrum til norðurs. Tótt þessi er öll mosagróin en sæmilega skýr í formi. Rétt suðaustan við hana er niðurgrafin stía með dyrum úr SV-horni. Það er gleggsta tóttin.

Ródolfsstaðir

Afstaða mannvirkja, hús, vatnsból og X, sem gætu verið mannvirkjaleifar við suðurinnvegg ef bjartsýnin er látin ráða – Gunnar.

Í norðausturhorni ferhyrningsins er áberandi trjárunni. Hugsanlega eru einhverjar leifar með norður-suðurstefnu meðfram runnanum að vestan en harla ólíklegt. Eins gætu verið ummerki tveggja stía innan á suðurvegg ferhyrningsins nærri SA-innhorni en óvíst. Það eru mosahaugar og sá vestari líklegri til að hylja eitthvað.

Til suðurs frá ferhyrningnum eru klettar með hellisskútum sem snúa hvor móti öðrum og þar á milli er hlaðinn veggur að sunnanverðu. Vel má vera að þar sé gamalt vatnsból. Í vestari hellinum eru haugar af kindabeinum, ekki mjög gömlum.

Ródolfsstaðir

Séð í vestur eftir ferhyrningnum nær og hringnum fjær. Norðurveggur ferhyrnings til hægri – Gunnar.

Nærri suðvesturhorni ferhyrningsins gæti vel verið tótt sem liggur N-S, annaðhvort tvö samsíða rými eða þá einföld stía byggð saman við túngarð, sem væri þá væntanlega innanverður vesturveggur gerðisins.

Í norðvestur frá ferhyrningnum er mosavaxin slétta eða flötur og þar virðist vera rúst með stefnu austur-vestur og líklegast dyr í austur. Það er grjóthleðsla. Fleiri tóttir gætu leynst á svæðinu en það er erfitt að glíma við þetta umhverfi og ekkert víst í þeim efnum.

Ródolfsstaðir

Hús A og norðurveggur í ferhyrningnum til hægri, horft í vestur – Gunnar.

Ef miðað er við kortið sem fylgir sóknarlýsingunni frá 1840, þá gæti maður ætlað út frá afstöðu að hér sé það sem menn á þeim tíma kölluðu “Bæjarstæði í Hrauni” og tóttirnar ykkar upp við hæðirnar þá Rótólfsstaðir. Þar virðist reyndar vera greinileg tótt með norður-suðurstefnu. En miðað við hve stutt er milli þessara tveggja rústasvæða er líka freistandi að telja þær samstæðar, þ.e. hluta af sömu heild eða býli. Engin augljós íveruhús eru á svæðinu en verið gæti að þau séu uppi á rústasvæðinu ykkar.

Ródólfsstaðir

Hús B til norðurs – Gunnar.

Varðandi þetta má benda á að nokkurn veginn miðja vegu milli þessara tveggja rústasvæða er glompa eða hvilft sem gæti verið vatnsból, virkar svolítið eins og að því sé veggur vestanmegin og gangvegur niður í holuna. Það kann að vera misskilningur en er þó þess virði að á það sé bent.

Þá eru hér nokkrar gagnlegar upplýsingar:

Ferhyrnda gerðið er um 50 m A-V og um 40 m N-S, virðist örlítið breikka til austurs. Veggir eru 2-3 m á þykkt. Hnit á norðurvegg (X).

Ródólfsstaðir

Hús A til suðurs, tóttin í gerðinu (Brynjúlfstótt) – Gunnar.

Tóttin í norðvesturhorni, Brynjúlfstóttin, er um 9 x 7 m. Köllum hana hús A. Krærnar, eða rýmin, gætu hafa verið 120 cm breiðar, sem er eðlilegt miðað við fjárhús og um 5-6 m langar. Veggir um 180-200 cm breiðir nema að norðan, þar sem veggur er 150 cm. Grjót sést á stöku stað í millivegg. Hnit (X).

Niðurgrafna stían, hús B, liggur A-V á lengdina og er þar um 2 m löng og um 1,5 m á breidd. Dyr, 40 cm breiðar, eru út úr SV-horni meðfram V-innvegg og mögulega stuttur leiðigarður vestan með þeim. Dýpt stíunnar er um 60 cm og veggjaþykkt 80-100 cm. Hnit (X).

Ródólfsstaðir

Hús C til vesturs, mögulega tótt en ekki öruggt – Gunnar.

Möguleg tótt við SV-horn ferhyrnings, hús C, er um 5,5 m langt og 2 m breitt. Gætu verið tvö samsíða rými með N-S stefnu en austara rýmið er óvíst.Dyr eru líklega til suðurs og þá um 40 cm breiðar. Grjót er sýnilegt innan í veggjum í innrými hér og þar. Hnit (X).

Tóttin NV við ferhyrninginn uppi í mosanum, hús D, er eitthvað um 6 m löng og 2 m breið. Vesturveggur er um 120 cm þykkur. Fleiri veggjabrot kunna að vera sunnan við suðurvegg.

Ródólfsstaðir

Hringurinn, vesturveggur til S, vatnsból efst á mynd – Gunnar.

Vatnsból og hleðsla sunnan við ferhyrninginn. Klettarnir sjást langt að.

Hringlaga veggur er um 60 m A-V í þvermál í ytri hringnum en um 40 m í þeim innri. Virðist skarast við ferhyrninginn að vestan og er því ekki víst að hringurinn og ferhyrningurinn séu byggðir á sama tíma. Hnit á vesturvegginn er (X).

Mögulegt vatnsból er milli rústasvæðanna.

Mælingar eru grófar ágiskanir og ekki heilagar. Fremur til gamans.

Ródolfsstaðir

Hús D til vesturs, endilöng tótt, austurendaveggur næst á mynd – Gunnar.

Um myndirnar er það að segja að þær eru teknar í tveimur ferðum á þessu ári, annarri 21. maí og hinni 16. ágúst. Í hinni fyrri varð heldur hvasst fyrri smádróna áður en góður árangur náðist og ekki hægt að ná nægri hæð. Í hinni síðari varð ég fyrir því óláni að missa spaða af drónanum í miðjum klíðum sem leiddi til flugslyss (þó án verulegs tjóns). Því eru yfirlitsmyndir fjærri því að vera eins góðar og ég hefði viljað og þarf að fá þær betri. Þær ættu þó að gefa einhverja hugmynd. Almennt er erfitt að mynda tóttirnar svo vel sé enda svæðið erfitt viðureignar og litir, gróðurfar og yfirbragð tóttanna oftast í engu frábrugðið umhverfinu.

Ródolfsstaðir

Hús D til vesturs, endilöng tótt, austurendaveggur næst á mynd – Gunnar.

Ég er ekki menntaður fræðimaður. Þið kynnuð því að spyrja hvers vegna ég hafi þetta undir höndum. Ástæðan er sú að ég litaðist um eftir Rótólfsstöðum fyrir allmörgum árum en fann ekkert. Löngu síðar sá ég á síðunni ykkar aðleit stæði yfir og þá ákvað ég að að reyna aftur, mest til gamans og til að fá útivist og hreyfingu. Þá hafði ég eignast dróna og var því vel útbúinn. Eftir að hafa rýnt í loftmyndir þótti mér eins og eitthvað einkennilegt væri á þessum tiltekna stað og svo reyndist líka vera. Auðvitað getur verið að þið hafið vitað af þessu og ef svo er, þá hendið þið bara þessum pósti. Ef þið viljið meira, þá á ég fleiri myndir og upplýsingar. “

FERLIR fékk góðfúslegt leyfi Gunnars til að birta framangreindan texta.

Ródólfsstaðir

Hús C til vesturs, mögulega tótt en ekki öruggt – Gunnar.

Sigurveig Guðmundsdóttir

Í Lesbók Morgunblaðsins árið 1984 segir Sigurveig Guðmundsdóttir frá “Sumri í Hrauntúni” á Þingvöllum. Lesningin gefur góða mynd af því hvernig umhorfs var á þessum ágæta bæ, fyrrum selstöðu, skömmu eftir aldarmótin 1900.

Hólmfríður Hjaltason

Hólmfríður Hjaltason og Guðmundur eiginmaður hennar ásamt dætrum sínum, þeim Margréti og Sigurveigu.

“Nú sést ekkert eftir af bænum í Hrauntúni í Þingvallasveit nema tóftir. Árið 1919 bjó Jónas hreppstjóri Halldórsson þar enn, og greinarhöfundurinn segir frá því þegar hún dvaldist þar sumarlangt með móður sinni.

Sumarið 1919 var móðir mín, Hólmfríður Hjaltason, ráðin sem ráðskona að Hrauntúni í Þingvallasveit. Faðir minn, Guðmundur Hjaltason, hafði dáið úr spönsku veikinni þá um veturinn. Móðir mín fór eftir auglýsingu í blaði og þekkti því ekkert til væntanlegs verustaðar. Einhver kunnugur bar bænum gott orð og sagði að ekki sæist í hús þar fyrir skógi. Það var mikið tilhlakk fyrir níu ára krakka að eiga að dvelja i slíkri skógarparadís. Ferðin hófst eldsnemma að morgni frá Hafnarfirði og gengum við alla leið til Reykjavíkur. Koffortinu sínu kom móðir mín á hestvagn Guðmundar Magnússonar pósts og gengum við á eftir vagninum. Ansi var nú brekkan erfið upp Öskjuhlíðina og fegin var ég þegar við komumst inn að Tungu, húsi Dýraverndunarfélags Íslands. Þar hittum við Símon bónda í Vatnskoti en hann var búinn að fá sér vörubíl sem flutti bæði fólk og fé. Bíllinn var ekki yfirbyggður og sátu allir á honum undir beru lofti. Fyrir utan okkur mömmu voru tvær danskar stúlkur í bílnum og drengur á mínum aldri.

Tunga

Tunga.

Var nú lagt af stað og ekið inn að Elliðaám. Þá stansaði bíllinn og vildi ekki fara lengra. Símon sagði að hlassið væri of þungt. Lét hann konurnar og strákinn fara úr og gengu þau aftur í bæinn. Ég fékk að sitja í heim í Tungu. Þar biðum við í tvo daga en síðan lagði sama fólkið af stað.
Símon í Vatnskoti var einstaklega kátur og glaður maður, lék við hvern sinn fingur hvað sem á gekk. Við fórum framhjá Geithálsi og þaðan sem leið lá austur Mosfellsheiði.

Hjá Þingvallapresti

Þingvellir

Þingvellir 1905 – Ásgrímur Jónsson.

Símon í Vatnskoti skilaði okkur mömmu heim á prestssetrið, sagði að þar myndi hún fá leiðbeiningu um hvert hún ætti að fara. Þá voru á Þingvöllum þrjú hús fyrir utan prestssetrið, Konungshúsið sem reist var handa Friðriki áttunda, veitingahúsið Valhöll, á allt öðrum stað en nú er, og í Fögrubrekku sumarbústaður Péturs Hjaltested kaupmanhs. Bærinn prestsins var nokkuð stór í mínum augum. Mamma barði að dyrum og gerði boð fyrir prest. Hann kom fljótt til dyra og bauð til stofu. Síra Jón Thorsteinsson var lágur vexti og grannur. Hann var í svörtum jakkafötum og víður jakkinn, mjög svo prestslegur. Hann bauð okkur skyr að borða og kaffi á eftir í fallegum postulínsbollum með rauðri rós. Séra Jón var einstakt ljúfmenni, þýður og einlægur í viðmóti. Mamma hafði verið kvíðin að fara í vist hjá ókunnugum, komin um fimmtugt með barn í eftirdragi. Hún hafði átt góða daga sem húsmóðir á sínu heimili svo að viðbrigðin voru mikil. Síra Jón hlustaði á hana af hluttekningu, fór því næst að fræða hana um væntanlegan húsbónda.Jónas Halldórsson
Jónas Halldórsson hreppstjóri í Hrauntúni var fæddur árið 1853. Halldór faðir Jónasar hafði komið með einum Þingvallapresta vestan af Snæfellsnesi. Prestur leyfði Halldóri að byggja sér bæ á rústum gamalla seltófta norður í Þingvallahrauni, og gerði hann þar sæmilega bújörð.
Jónas tók við búi föður síns 18 ára gamall og þótti það vel gert af svo ungum manni. Síðar kvæntist hann Hólmfríði Jónsdóttur frá Hæðarenda í Grímsnesi. Þau eignuðust sjö börn en þau sem upp komust voru Halldór, fornbókasali og fjallamaður, Ásgeir, skipstjóri hjá Eimskip, Jónína, fór til Vesturheims, og Elísabet, bjó í Reykjavík, gáfuð kona og skörungur. Son er Jónas hét átti bóndi í elli sinni með ráðskonu.
Jónas tók fljótt við ýmsum trúnaðarstörfum fyrir sveit sína og varð hreppstjóri um langa æfi. Hann þótti einrænn í lund og ekki við allra skap. Mikill gáfumaður að upplagi og áreiðanlega ekki á réttri hillu. Hann var með afbrigðum bókhneigður og lét hvern eyri sem hann átti aflögu ganga til bókakaupa. Enda átti hann að lokum stórmerkilegt og vandað bókasafn sem vakti furðu margra því að slíkur munaður stakk mjög í stúf við fátæklegan búnað torfbæjarins. Sumir virðast hafa lagt Jónasi þessi bókakaup til lasts, þótt slíkt óþarfi mikill. En þá svaraði Jónas: — Ef ég hefði lagt þessa peninga í brennivín, þá hefðuð þið ekki sagt neitt.

Kona Jónasar var mikil búkona og er sú saga sögð að einu sinni hafi bóndi farið með koffortahest til Reykjavíkur að kaupa mat til vetrarins. En þegar komið var heim í Hrauntún, var ekkert nema bækur í koffortunum. Þá mun húsfreyju hafa þótt nóg um bókakaup húsbóndans. Jónas í Hrauntúni mun hafa verið bókasafnari af ástríðu. Af lestri sínum varð hann ágætlega sjálfmenntaður, vel ritfær og glöggur reikningsmaður.

Þingvallakirkja

Þingvallakirkja. Innimynd. Kirkjur Íslands, 4. bindi: 227: Þingvallakirkja að innan í lok 19. aldar. Ekki verður annað séð af þessari mynd en að veggir kirkjunnar að innan hafi verið ómálaðir fram undir 1900, þótt vísitasía 1860 segi annað. Kvistir eru mjög greinilegir í veggklæðningu. Hugsanlega hefur málningin aðeins verið þunn þekja og kvistirnir því sýnilegir. Aftur er greinilegt að innanstokksmunir eru málaðir. Altaristafla Ófeigs Jónssonar frá 1834-35 er enn yfir altarinu en hún var seld til Englands sumarið 1899. […] Ljósmyndari Sophus Tromholt.

Síra Jón bauð mömmu að skoða kirkjuna og fórum við þangað. Ekki man ég eftir öðru þar nema predikunarstólnum og þá vegna þess að síra Jón gekk að honum, klappaði á hann og sagði: Þetta er nú stóllinn minn. — Um leið brosti hann eins og barn. Hann fylgdi okkur út fyrir tún. Þar benti hann mömmu á götuna sem hún átti að fara og sagði henni að leita til sín ef hún þyrfti einhvers með. Kvöddum við síðan þennan góða prest með virktum.

Gengið um Hrauntúnsgötuna

Hrauntún

Hrauntúnsgatan.

Gengum við nú sem leið lá inn í Leirur, þar sem söluskálinn er nú. Þar kom á móti okkur hár maður roskinn, grannvaxinn með alskegg, derhúfu á höfði klæddur mórauðum vaðmálsjakka og stuttbuxum með leðurskó á fótum. Hann steig létt til jarðar þó stór væri, höfðinglegur, errilegur.
Hér var þá kominn Jónas Halldórsson hreppstjóri í Hrauntúni. Hann hafði rauðan hest í taumi, og með honum rann hundur af hreinu íslensku kyni, svart- og gráflekkóttur. Bóndi tók móður mína tali. Hann var fáorður, talaði í stuttum snöggum setningum og hálfhreytti út úr sér orðunum. Samt var hann vingjarnlegur. Hann sagði okkur að halda áfram götuna því að eftir að hann hefði sótt föggur mömmu á prestssetrið ætlaði hann að hitta Guðrúnu greiðasölukonu í Konungshúsinu.

Konungshúsið

Frá konungskomunni 1921. Konungsfjölskyldan og frú Charlotte Schestel á tröppunum við Konungshúsið á Þingvöllum.

Við mæðgurnar eigruðum nú áfram götuna inn í hraunið. Lágt kjarr óx víða en ekki man ég til að nein hrísla á þeim vegi væri hærri en ég sjálf. En gamburmosinn þakti stórar breiður. — Hvenær kemur skógurinn, þetta var ekkert líkt skógarmyndunum frá útlöndum í myndabókunum, bærinn átti ekki að sjást fyrir skógi.
Eftir alllangan tíma sáum við steingarð rísa á bakvið hraunhól. Þessi garður var mikið hærri en ég, einföld hleðsla svo jöfn og haganleg að hver steinn virtist tilhöggvinn. Ofurlítið skarð var í þennan mikla garð og stungið í það birkilurk. Við gægðumst í gegnum skarðið.

Hrauntúnsbærinn

Hrauntún

Hrauntúnsbærinn. Uppdráttur eftir mynni Sigurveigar; teiknaður af Gísla Sigurðssyni, ritstjóra Lesbókarinnar. Ármannsfell í bakgrunni.

Það var orðið kvöldsett, bjart yfir fjöllum og bláleit sumarmóða brá undursamlegri mýkt yfir umhverfið. Túnið fyrir innan garðinn var allt í mjúkum öldum þar sem hraunhólarnir lágu undir grassverðinum. Mitt í þessu fagra ilmandi grængresi reis bærinn Hrauntún, hlýr og vinalegur eins og torfbæir einir gátu orðið. Tvær burstir sneru til suðurs fram á hlaðið og bæjargöngin á milli. Baðstofan var með einum sexrúðu glugga á stafni og tveggjarúðu glugga til vesturs. Stofan var með þrísettum glugga og klædd bárujárni. Baðstofan með eldhúsið og fjósið afturaf var allt klætt torfi. Vandlega hlaðin stétt úr hraunhellum var fyrir framan bæinn.

Hrauntún

Hrauntún – loftmynd.

Hlaða, fjárhús og skemma með þvottahjalli lágu við heimtraðirnar sem lágu í norður í átt að Ármannsfelli. Þrennir fjárhúskofar voru dreifðir um túnið. Austur af túninu var afgirt gerði sem notast var við sem kúahaga. Brunnhola var vestan undir baðstofuveggnum. Var þar sæmilegt drykkjarvatn þó að vatnsmagnið væri lítið. Þegar þvottar voru þvegnir í Hrauntúni varð að fara niður á Leirur og þvo við lækinn sem þar rennur enn. Þar voru hlóðir og þar við soðinn þvotturinn.
Framan við bæinn var kálgarður með grónum vallargarði í kring. Allt var þarna með hinum mesta snyrtibrag, hver hlutur á sínum rétta stað. Upp við bæjarvegginn reis sleggja gerð úr blágrýtishnullungi með gati sem stungið var í vænum birkilurk. Þetta var fisksleggja. Mamma barði að dyrum og út kom dökkhærður maður lágvaxinn með yfirskegg, léttur í hreyfingum og alúðlegur. Þetta var Halldór sonur Jónasar bónda sem bjó hjá föður sínum. Þeir voru menn ekki líkir.

Hrauntún

Hrauntún – nú eyðibýli. Hrafnabjörg fjær.

Halldór fylgdi okkur inn göngin. Hurð lá inn í stofuna til hægri og önnur hurð inn í geymslukompu þar innar af. Gengið var upp tvö þrep inn í baðstofu til vinstri en í eldhús og fjós fyrir enda ganganna. Í baðstofu voru fjögur rúm. Jónas bóndi svaf næst glugga og var borð undir glugganum. Lítil bókahilla, full af rímnakverum og riddarasögum, var yfir fótagafli á þili.
Okkur mæðgum var vísað á rúmið gegnt rúmi bónda. Aftur af okkar rúmi svaf Bjarni Gíslason vinnumaður og Halldór gegnt honum. Ofurlítil kabyssa og tvær hillur fyrir bollapör og diska voru í hinum enda baðstofu.

Konu-Bjarni

Hrauntún

Hrauntún 1929 – Jóhannes Kjarval.

Bjarni Gíslason vinnumaður var vel meðalmaður á hæð, rauðbirkinn með yfirskegg, vel farinn í andliti, reistur í fasi, prúðmannlegur, greindur og skáldmæltur. Ekki veit ég uppruna hans, held þó að hann hafi verið af Norðurlandi vestra. Hann hafði víða verið, kennt börnum á vetrum en í kaupavinnu á sumrum. Hann hafði haft kvenhylli svo mikla að bændur höfðu rekið hann á miðjum vistráðningartíma og þóst heppnir að konur þeirra hlupu ekki að heiman á eftir Bjarna. Vegna þessa hæfileika síns var hann manna á meðal nefndur Konu-Bjarni. Hann var talinn mjög vel hagorður en ekki veit ég með vissu um neina vísu eftir hann, það eru til svo margir Bjarnar Gíslasynir hagyrðingar frá þessum tíma. Bjarni var fremur hlýr við krakka en þó fáskiptinn.

Innanbæjarlíf

Hrauntún

Hrauntún – hellulagða stéttin framan við bæinn.

Að verkalokum og á helgidögum ræddu feðgarnir og Bjarni af kappi um stjórnmál og bókmenntir. Þeir voru ekki alltaf sammála. Halldór og Bjarni voru oft saman á móti Jónasi bónda. Mömmu líkaði ekki alltaf viðmót þeirra við húsbónda heimilisins og þá sjaldan að hún lagði orð í belg hélt hún alltaf Jónasar taum. Gamla manninum þótti áreiðanlega vænt um þessa liðveislu. Mest gekk á þegar blöðin voru nýkomin. Þá sagði Jónas oft upp úr blaðalestrinum og hafði á miklar áherslur: Mikil lifandis ósköp er fólkið vitlaust. — Annars voru rökræður í Hrauntúni með virðulegu yfirbragði. Menn voru prúðir og létu engan hleypa sér upp þó þungt gæti verið undirniðri.

Tóbaksleysi

Hrauntún

Hrauntún – túngarður.

Allir tóku þeir Hrauntúnsmenn í nefið daglega og gött þótti þeim tárið en allt í hinu mesta hófi, ég vissi þá smakka vín í eitt skipti um sumarið og svo í réttunum. Minna gat það varla verið. En tóbaksleysi þoldu þeir ekki. Þar kom að enginn þeirra átti til korn í nös. Þá varð nú ansi hvasst í Hrauntúnsbaðstofu. Þeir urðu ekki sammála um neitt og loks snerist umræðan um kvenfólk, hvað það væri miklir gallagripir, heimskt og svikult. Einkum var það Halldór sem var þungorður í garð kvenna, enda lá orð á að stúlka hefði brugðið heiti við hann.

Söngvar förumannsins

Söngvar förumannsins.

Mamma hafði reynt að vera sem mest frammi í bænum meðan hríð þessi stóð en nú kom hún inn og heyrði stóryrði Halldórs um kvenfólkið. Þá mælti hún: “Hafið þér móður yðar með í þessum vitnisburði sem þér gefið öllum konum?” Þá steinþagnaði Halldór og þeir allir nokkra stund. Síðan tóku þeir upp annað tal. En ekki batnaði tóbaksleysið. Bjarni Gíslason bjóst til Reykjavíkur og kom brátt aftur með nóg tóbak og eitthvað á pelann. Það var lyfting yfir Bjarna þar sem hann stóð gleiður á baðstofugólfinu, klæddur bláum jakka sem fór vel við koparrautt hárið, hattinn aftur á hnakka, í reiðbuxum og háum stígvélum. Hann hélt á ofurlitlu ljóðakveri sem hann hafði keypt í Reykjavík, Söngvum förumannsins. Bjarni las hátt og með miklum áherslum og rykkti til höfðinu undir lestrinum;
Þú ert enn að greiða gjöldin
gamla skáldið hefur völdin
flytur rímlaus kvæði á kvöldin
kvæðin eru um lífið fróð
eiga draumsins geislaglóð
gæfu þína og hjartablóð.
Þögnin geymir þessi ljóð.
Þú ert skáld á bak við tjöldin.
Þá var nú glatt í Hrauntúnsbaðstofu.

Stofan og bækurnar

Dýravinurinn

Dýravinurinn.

Virðulegasti staður Hrauntúnsbæjar var stofan. Hún var svo virðuleg að fyrstu dagana þorði ég ekki að líta þar inn. Við veggi hinnar blámáluðu stofu stóðu bókaskápar frá gólfi til lofts, bækur á borði, bækur á kistum, allt fullt af bókum, margar í skínandi nýju skinnbandi, gamlar bækur, sögubækur, fræðibækur, tímarit, guðsorð, nýtt og gamalt. En langfallegustu bókina, að því að mér fannst, hafði Jónas bóndi lagt handa mér á borðið. Stór þykk bók í gljáandi skinni gyllt á kili, meira að segja myndir innaní. Þessi bók var tímaritið Dýravinurinn með sögum eftir Þorstein Erlingsson, Þorgils Gjallanda, Guðmund Friðjónsson og marga aðra ágæta dýravini. — Hvar skyldi þessi bók vera núna? —
Fáir kunnu á þeim tíma betur að velja bók í hendur barni heldur en þessi þyrrkingslegi bókasafnari. Svipað mátti segja um þá Halldór og Bjarna. Þeir bönnuðu þær bækur sem ekki þóttu barna meðfæri en bentu á aðrar heppilegri.
En freistarinn lá í leyni og ég stalst til að lesa hina bönnuðu bók, Makt myrkranna um þann rúmenska greifa Drakúla. Afskaplega fannst mér það skemmtileg bók. Ekki get ég fundið að hún hafi skaðað, enda glottu þeir Hrauntúnsmenn þegar upp komst um boðorðabrotið. Jónas hélt að mér ævintýrum og riddarasögum sem var til mikillar skemmtunar. Hafi bændur almennt á þeim tíma látið sér svo annt um lesefni aðkomubarna, þá er ekki að furða þótt íslenskri sveitamenningu sé viðbrugðið.

Gestagangur

Guðmundur Finnbogason

Guðmundur Finnbogason 1934.

Oft komu gestir að Hrauntúni, bæði ferðamenn af Kaldadal og úr Borgarfjarðardölum, Grímsnesingar og fólk úr Reykjavík. Jónas vildi að allir fengju góðgerðir, annaðhvort kaffi eða mat. Nógur matur var lagður til en eldamennska var örðug því að allt varð að elda við kalvið á hlóðum.
Einu sinni kom hópur af fólki að Hrauntúni. Þar voru bæði karlmenn og fínar dömur í för. Fyrir hópnum var Guðmundur Finnbogason prófessor og Laufey Vilhjálmsdóttir kona hans. Öllum var boðið til stofu og hófst nú hinn venjulegi pónnukókubakstur við kalviðareldinn.
Prófessorinn fór í eldhúsið og spjallaði við mömmu á meðan hinir gestirnir sátu á tali við bónda. Bestu góðgerðirnar þóttu hveitibrauðið heimabakaða með kæfu úr skinnbelg sem hékk í rjáfrinu í eldhúsreyknum.

Laufey Vilhjálmsdóttir

Laufey Vilhjálmsdóttir.

Eitt kvöld þegar allir voru háttaðir heyrðist spóinn vella ærið grunsamlega. — Það er gestahljóð í honum, sagði Jónas. Stuttu seinna rauk hundurinn upp. Hófadynur heyrðist í tröðum og hringl í beislum. Bóndi snaraðist í föt og gekk til dyra. Hann kom inn aftur að vörmu spori og á hæla honum afarhár maður höfðinglegur með afbrigðum, snar í augum og glettinn á svip. Þetta var Ólafur bóndi í Kalmanstungu, sá sem sagt var um að hefði verið glæsilegastur bænda í konungsveislunni á Þingvöllum þegar Friðrik kóngur 8. kom 1908. Nú kom hann af fjallvegum á leið suður.

Krækiber og bláber
Ekki var mikið af berjum kringum Hrauntún þetta sumar. Helst var nokkuð um krækiber en sáralítið um önnur ber. En í Lágafelli við Hofmannaflöt voru bæði bláber og aðalbláber. Sagt var að aðalbláber væru í Mjóafellinu en þangað kom ég aldrei. Eina engjarós fann ég nálægt Stórkonugili en annars var allt bitið og nagað af sauðfénu.

Eingöngu brennt kalviði

Gapi

Gapi.

Jónas Halldórsson lét sér mjög annt um skóginn. Hann taldi að nauðsynlegt væri að hirða sem mest af kalviði í skóginum til þess að rýma fyrir nýjum viði. Í hlóðaeldhúsinu var eingöngu notaður kalviður. Hann logaði vel en var mjög ódrjúgt eldsneyti. Hrísrif var þó óhjákvæmilegt en Jónas mun ekki hafa fellt lifandi skóg meir en nauðsyn þótti. En stór var hrískösturinn sem dreginn var heim um haustið. Hann var hærri en bæjarhúsin. Jónas fór oft með kalviðarbagga á Rauð gamla til Guðrúnar í Konungshúsinu.

Hrafnagjá

Hrafnagjá á Þingvöllum – mynd frá um miðja síðustu öld.

Mestur var skógurinn austur og suður frá bænum. Einu sinni fékk ég fylgja Jónasi í eina af hinum mörgu skógargöngum hans. Við stefndum í áttina að Hrafnabjörgum og gengum lengi þangað til kom að grasigrónu rjóðri eins og dálitlu túni. Þar sást í opið á víðum helli. Jónas hafði þagað alla leiðina en nú sagði hann: Sauðahellir Gapi. Hæðirnar þar austur af heita Gaphæðir og í þeim sagðist Jónas vilja hafa sinn legstað þegar hann dæi. Ekki varð af því og mun Jónas hafa verið grafinn annaðhvort í Þingvallakirkjugarði, sem hann sagði að væri of blautur legstaður, eða þá í Reykjavík þar sem hann dó 1922.

Þingvallarétt

Þingvallarétt – Bolabás-/Sleðaásrétt.

Við komum að Hrafnagjá. Jónas sagði að niðurhrunið gerði þessa gjá ljótari en Almannagjá sem væri með grónari botn. Hann minntist á jarðskjálftana 1896, hvað gjárnar hefðu breyst og miklu meira niðurhrun í þeim síðan. Hann benti mér á eyðibýlið Litla-Hrauntún sem væri komið úr byggð fyrir langalöngu.
Á þessum tíma fyrir 65 árum var svo sem enginn skógur kringum Hrauntún nema jarðlægar kræklur. Núna er sett skilti við leiðina að Hrauntúni upp frá Bolabás undir Ármannsfelli. Þar er rústin af fjárrétt sveitarinnar og leifar af kerruvegi sem kom seinna en hér er frá sagt.
Á öllu þessu svæði var sáralítið um skóg, sem væri það hár að 9 ára barn gæti ekki séð yfir hann. Við túngarðinn í Hrauntúni sást ekki hrísla en nú er þar víða svo mikill skógur að túngarðurinn er í kafi. Þá hefur skógurinn leitað inn á túnið, bæði birki og víðir. Í staðinn fyrir túngrösin hefir komið mosi og lyng sumstaðar. Hitt er allt í sinuflóka. Þegar farið er Gjábakkaveginn má finna troðninginn heim að Hrauntúni. Þá götu var farið í átt til Þingvalla. Við þann stíg var aðeins lágt skriðult kjarr og sumstaðar aðeins gamburmosi.

Hrauntún

Hrauntúnsgatan.

Nú er þarna allt í kafi af birkiskógi. Lítið var um beinvaxnar hríslur í skóginum 1919. Helst var það austan undir Gaphæðunum. Götuslóði lá milli Skógarkots og Hrauntúns, mjög ógreinilegur enda sjaldfarinn. Við þennan slóða stóð fallegasta hríslan sem ég man þarna eftir. Hún var að minnsta kosti meira en mannhæð, þráðbein með fagra krónu. Hvítur stofninn sást langt að því að hríslan var einstök. Árið 1934 kom ég að þessari sömu hríslu. Hún var þá skemmd af kali og á henni ellimörk. Hin langa friðun hefir bersýnilega aukið skóginn að miklum mun. Þó eru gamburmosabreiðurnar býsna svipaðar að ummáli og áður var, að minnsta kosti þegar horft er af útsýnisskífunni á barmi Almannagjár.

Hofmannaflöt

Hofmannaflöt

Hofmannaflöt undir Meyjarsæti framundan.

Heyskapurinn í Hrauntúni var aðeins á heimatúni og Hofmannaflöt. Halldór faðir Jónasar hafði heyjað á blettum hér og hvar um skóginn en nú var sá siður aflagður. Á Hofmannaflöt heyjuðu þeir Halldór og Bjarni. Þeir voru við slátt allan daginn en var færður matur.
Þegar þokan læddist á loðnum skóm um hraun og hlíðar fengu hólar, klettar og runnar á sig undarlegar myndir og oft ógurlegar. Enginn staður við engjaveginn var eins ógnum þrunginn og Stórkonugil sem skerst inn í Ármannsfellið. Þokuslæðurnar huldu hamrana að mestu en innst inni glytti í svarta vota steina sem stundum glömruðu við, rétt eins og einhver væri þarna í þann veginn að stíga fram úr gilinu þungum skrefum. Þá var gott að eiga von á þeim Halldóri og Bjarna bak við næsta leiti þar sem þeir stóðu blautir við sláttinn fegnir hálfvolgri kaffiflösku í sokkbol. Þeir sögðu alltaf það sama: Farðu ekki út af götunni því þá villistu í hrauninu. — Það var heldur ekki fýsilegt því að þarna úti í hraunhólunum voru fornar rústir, enginn vissi hve gamlar. Þar gat verið reimt og hollast að halda sig sem lengst frá slíkum stöðum.

Meyjarsæti

Meyjarsæti.

Á meðan sláttumenn drukku kaffið var gaman að príla upp í Meyjasæti þar sem fornkonur höfðu setið í dómarasæti yfir íþróttamönnum sem þreyttu kappi á Hofmannaflöt. Norðar var Biskupsflöt þar sem Skálholtsbiskupar tjölduðu fyrrum með sveinum sínum og sátu á tali við tröllkonur um nætur. — Bóndalegt tjald, bóndlegur maður, — sagði ein stórkonan við Brynjólf biskup Sveinsson. En langt norður í hrauninu við rætur Skjaldbreiðar var ungur maður á ferð og lét hestinn lötra en rakki hljóp snuðrandi á eftir. Heiðarbúar, glöðum gesti greiðið för um eyðifjöll einn eg treð með hundi og hesti hraun og týnd er lestin öll. Jónas Hallgrímsson var uppáhaldsskáld móður minnar og hún söng Skjaldbreiðarkvæði hans frá upphafi til enda þegar við vorum einar heima.

Fuglar og ferfætlingar

Rjúpa

Rjúpa.

Þeir Hrauntúnsmenn voru dýravinir. Aldrei var rjúpa skotin heima við bæ en Halldór fór til fjalls á haustin og skaut þar. Rjúpurnar voru líkastar tömdum hænsnum þegar þær komu inn á túnið á kvöldin. Fyrst settust rjúpukarrarnir í garðinn til þess að gá að ferðum kattarins. Síðan komu rjúpurnar með ungahópa sína inn á túnið og jafnvel á stéttina fyrir framan bæjardyrnar hópum saman og Jónas talaði við þær tæpitungu eins og gæludýr. En kisa lá á kettlingum og dró rækilega í bú sitt. Ekki virtust rjúpurnar styggjast verulega við það.
Í fjósinu var bæli kisu og þar var um tíma tófuyrðlingur bundinn á bás. Hann varð gæfur eins og hvolpur og vildi leika sér við mann. En býsna hvassar voru tennurnar í greyinu.
Kýrin var ein á bænum og henni hefir víst leiðst. Hún tók svo miklu ástfóstri við móður mína að hún elti hana hvar sem hún gat og þegar við fórum út í hraun að tína litunarmosa færði kýrin sig meðfram garðinum til þess að vera alltaf sem næst mjaltakonunni. Þessari kú hafði verið strítt af krökkum og hljóp í alla krakka sem hún sá. Hún var stórhyrnd og ekki árennileg. Hundurinn Skrámur var auðvitað sá besti félagi sem hugsast gat, ágæt vörn við mannýgri kú.
Rauður var aðalbrúkunarhrossið en hinir yngri menn áttu reiðhesta. Féð var um allan skóg og mikið treyst á útigöngu á vetrum.

Haustar að í Hrauntúni

Hrauntún

Himininn ofan Hrauntúns.

Senn fór að líða á sumarið og haustaði að með svölum vindum norðan af Kaldadal. Ármannsfell varð grátt í rót. Vistartíminn í Hrauntúni var á enda. Halldór flutti föggur okkar á Rauð gamla til Þingvalla. Við gengum út túnið og kýrin elti móður mína eins langt og hún komst.
Hundurinn Skrámur barðist við tilfinningar sínar. Hann langaði að elta sumarleikfélagann sinn en húsbóndahollustan sigraði. Með lafandi skotti og vesældarsvip sneri hann heim á hæla Jónasi bónda sem gekk sínum löngu léttu skrefum til fjalls, einmana og þögull að vanda.”

Heimild:
-Lesbók Morgunblaðsins, 34. tbl. 22.12.1984, Sumar í Hrauntúni – Sigurveig Guðmundsdóttir, bls. 39-41.

Hrauntún

Hrauntún – garður; minnismerki mannvistar.

Þingvallarétt

Fjárréttir í Þingvallasveit fyrrum voru nokkrar. Í dag eru flestar þeirra fallnar í gleymskunnar dá. Eftir standa þó minjarnar um það sem var.
Skammt austan við Brúsastaði (vestan við Bárukot) er mikil hlaðin rétt. Ekki er að sjá að hennar hafi sérstaklega verið getið í örnefnalýsingum eða öðrum heimildum. Ekki heldur annarri rétt, mun minni og eldri, skammt vestar. Ragnar, bóndi á Brúastaöðum, sagði þessa rétt hafa verið hlaðna árið 1908. Hún hefði þjónað bæjunum í vestanverðri sveitinni. Þegar réttin í Skógarhólum hafi verið hlaðin eftir 1930 hafi þessi rétt lagst af að mestu.

Bakkarétt

Þingvallarétt – Bakkarétt. Uppdráttur ÓSÁ.

Skógarhólsréttin hefði leyst af Þingvallaréttina (Hrauntúnsréttina) undir Sleðaási ofan við Bolaklif. Þangað hefðu Borgfirðingar o.fl. sótt fé sitt, en þegar þjóðgarðurinn á Þingvöllum var stofnaður árið 1930 hefði þjóðgarðssvæðið verið girt af og réttin þá lagst af. Hún væri mun eldri en aðrar réttir í Þingvallasveit.
Nafnlausa Sleðaásréttin (Bakkarétt) undir suðvesturjaðri Biskupsbrekkuhrauns er stór og nokkuð heilleg. Hún var hlaðin á sléttri hraunhellu og hefur undirstaðan því verið góð. Stórt gerði er vestan réttarinnar. Sjálf telur réttin 10 dilka með úrdráttarhólfi í miðjunni.

Skógarhólarétt

Þingvallarétt – Skógarhólarétt. Uppdráttur ÓSÁ.

Fornminjar á Þingvöllum voru friðlýstar árið 1927, og þá sennilega að gefnum tilefnum. Að því tilefni einu sagði m.a.: “Friðlýsingar fornminja: Þingvellir. 1. Þingbúðarústir allar og allar aðrar fornleifar og gömul mannvirki á hinum forna alþingisstað, beggja vegna Öxarár. Sbr. Árb 1921-1922: 1-107. 2. Rústir allar þar sem verið hafa forðum býlin Grímsstaðir, Bárukot, Múlakot, Litla-Hrauntún, Ölkofrastaðir og enn eitt, norðvestanundir Hrafnabjörgum. Sbr. Árb. 1880-1881: 22, 98. Skjal undirritað af MÞ 05.05.1927. Þinglýst 07.09.1927.”

Þingvellir

Þingvellir – Þingvallakirkja.

FERLIR hefur áður getið þess að mikilvægt væri að staðsetja og merkja merkilegar minjar í og við þjóðgarðinn á Þingvöllum. Ef þær yrðu gerðar aðgengilegar og um leið eftirsóknarverðar myndi lifna svo um munar yfir áhuga fólks á svæðinu. Hingað til hefur þjóðgarðsnefndin allt að því sofið þyrnarrósarsvefni í þessum efnum. Gestum þjóðgarðsins er reyndar vísað á bílastæði, salerni og hvar beri að greiða gjald fyrir hvorutveggja. Upplýsandi fróðleik, umfram hinn almenna, á áhugaverðum stöðum, er ekki að finna á Þingvöllum.
Þjóðgarðurinn á Þingvöllum var stofnaður með lögum árið 1930. Í lögunum segir að Þingvellir við Öxará skuli vera friðlýstur helgistaður allra Íslendinga, hið friðlýsta land skuli ævinlega vera eign íslensku þjóðarinnar undir vernd Alþingis og landið megi aldrei selja eða veðsetja.
Friðun Þingvalla átti sér aðdraganda. Í upphafi 20. aldar tóku að berast til Íslands fregnir um stofnun þjóðgarða í Bandaríkjunum. Þar voru augljósar þær hraðfara breytingar sem urðu á náttúrunni þegar Evrópubúar lögðu landið undir sig. Í þjóðgörðunum voru stór, óbyggð svæði tekin frá og friðuð og fólki hvorki leyft að nema þar land né nýta náttúruna á annan hátt en að ferðast um landið og njóta þess.
Bent hafði verið á að mikilvægt væri að vernda einstaka náttúru- og sögustaði svo að komandi kynslóðir gætu notið þeirra óraskaðra. Fljótlega beindist umræðan að Þingvöllum sérstaklega og þeirri hugmynd að þar yrði stofnaður þjóðgarður, sem fyrr segir.

Hér á eftir verður fléttað inn a.m.k. þremur annars áhugaverðum stöðum innan þjóðgarðsins á Þingvöllum. Auk þess verður rifjuð upp ein skondin frásögn af makalausri málaþrætu fyrri tíma þar sem misvitrir menn takast á um nánast ekkert, sem máli skiptir – ef ekki hefði verið fyrir annað en eitt hreindýr.

Í Frjálsri þjóð árið 1958 er m.a. sagt frá “Hreindýrsslagnum í Þingvallarétt haustuð 1854“:

Þingvallarétt

Þingvallarétt – Bolabásrétt/Sleðaásrétt. Uppdráttur ÓSÁ.

Á nítjándu öld var margt bænda í Þingvallasveit, og voru sumir þeirra miklir fyrir sér og vildu ógjarnan láta sinn hlut. Þeir áttu jafnvel til að bjóða yfirvöldunum byrginn og fara sínu fram, hvað sem tautaði og raulaði. Á fyrri hluta aldarinnar voru þar bændur, sem áttu fjölda barna með vinnukonum, sem þeir héldu á heimilum sínum í trássi við yfirvöldin, og höfðu í lengstu lög að engu umvandanir, hótanir og stefnur andlegra og veraldlegra yfirboðara. En þar kom að síðustu, að sjálfur hreppstjóri sveitarinnar var dæmdur til hýðingar fyrir brot sín og mótþróa, og hafði hann þó á seinni árum skýlt sumum þvílíkum syndum sínum undir skikkjulafi annarra.

Nesjavellir

Nesjavellir.

Einn þeirra bænda, sem yfirvöldin áttu í miklum útistöðum við fyrir slíkar sakir, var Grímur Þorleifsson, er þá bjó að vísu að Nesjavöllum í Grafningi. Hafði hann átt þrjú börn með Hallgerði Þórhalladóttur frá Hækingsdal í Kjós, en kom þó að lokum svo ár sinni fyrir borð, að hann fékk konungsleyfi til þess að kvænast henni.
Áður hafði hann búið að Brúsastöðum í Þingvallasveit, átt þrjú börn fram hjá konu sinni, Katrínu Gísladóttur frá Úlfljótsvatni, með annarri vinnukonu, Sesselju Runólfsdóttur frá Hrísakoti í Brynjudal. —

Fyrsta barnið átti Grímur að Nesjavöllum og hafði fyrir skömmu fengið því framgengt, að hann mætti eiga Hallgerði Þórhalladóttur. Grímur yngri var aftur á móti orðinn vinnumaður austur í Grímsnesi, þetta ár að Syðri-Brú.

Þingvellir

Þingvellir 1866.

Nú víkur sögunni fram til ársins 1854. Grímur Þorleifsson var þá fyrir löngu fluttur að Nesjavöllum og hafði fyrir skömmu fengið því framgengt, að hann mætti eiga Hallgerði Þórhalladóttur. Grímur yngri var aftur á móti orðinn vinnumaður austur í Grímsnesi, þetta ár að Syðri-Brú.
Í Þingvallasveitinni voru mestir fyrirmenn Árni Björnsson, hreppstjóri á Fellsenda, og séra Símon Bech á Þingvöllum, er þar gegndi prestsembætti í nær fjörutíu ár. Árni var sonur séra Björns Pálssonar á Þingvöllum og Þórunnar Björnsdóttur prests í Hítardal.
Var það mikið prestakyn í báðar ættir. Árni átti að konu Salvöru Kristjánsdóttur frá Skógarkoti, systur Jóns bónda þar, efnamanns og mesta framfaramanns sveitarinnar um þetta leyti. Fellsenda hafði Árni reist úr auðn, og á þessum sömu áratugum hafði Halldór Jónsson tekið upp byggð í Hrauntúni og Sigurður Þorkelsson í Selkoti og gerðust báðir sæmilega efnaðir bændur. Enn höfðu verið reist nýbýli í Arnarfelli og Móakoti, en á þeim stöðum báðum var hokrað við fátækt.

Þingvallarétt

Þingvallarétt.

Í Grímsnesi voru sauðbændur miklir, og leitaði geldfé Grímsnesinga mjög á afrétt Þingvallasveitar. Voru menn úr Grímsnesinu sendir í haustleitir með Þingvallasveitarmönnum. Haustið 1854 var Grímur Grímsson einn Grímsnesinga, er í leitirnar fóru. Bar nú svo til, að hann fann á afréttinum hreindýr, sem þar var á beit með hrútum. Tókst honum eftir nokkrun eltingaleik að koma hreindýrinu, ásamt hrútunum, saman við safnið, og var það síðan rekið til réttar í Bolabás undir Ármannsfelli, þar sem vakað var yfir safninu um nóttina, en réttað daginn eftir.

Í Þingvallasveitinni voru mestir fyrirmenn Árni Björnsson, hreppstjóri á Fellsenda, og séra Símon Bech á Þingvöllum, er þar gegndi prestsembætti í nær fjörutíu ár. Árni var sonur séra Björns Pálssonar á Þingvóllum og Þórunnar Björnsdóttur prests í Hítardal.
Var það mikið prestakyn í báðar ættir. Árni átti að konu Salvöru Kristjánsdóttur frá Skógarkoti, systur Jóns bónda þar, efnamanns og mesta framfaramanns sveitarinnar um þetta leyti. Fellsenda hafði Árni reist úr auðn, og á þessum sömu áratugum hafði Halldór Jónsson tekið upp byggð í Hrauntúni og Sigurður Þorkelsson í Selkoti og gerðust báðir sæmilega efnaðir bændur. Enn höfðu verið reist nýbýli í Arnarfelli og Móakoti, en á þeim stöðum báðum var hokrað við fátækt.

Hreindýr

Hreindýr.

Í Grímsnesi voru sauðbændur miklir, og leitaði geldfé Grímsnesinga mjög á afrétt Þingvallasveitar. Voru menn úr Grímsnesinu sendir í haustleitir með Þingvallasveitarmönnum. Haustið 1854 var Grímur Grímsson einn Grímsnesinga, er í leitirnar fóru. Bar nú svo til, að hann fann á afréttinum hreindýr, sem þar var ða beit með hrútum. Tókts honum eftir nokkurn eltingaleik að kom ahreindýrinu, ásamt hrútunum, saman við safnið, og var það síðan rekið til réttar í Bolabás undir Ármannsfelli, þar sem vakað var yfir safninu um nóttina.
Árni hreppstjóri á Fellsenda kom til réttarinnar að morgni réttardagsins, og færðist brátt veiðihugur í hann, er hann frétti af hreindýrinu. Tókst að reka það í réttina í fyrsta innrekstri, og lét Árni handsama það og skipaði síðan menn til þess að halda því, unz sundurdrætti væri lokið. Kom nú upp ágreiningur um það, hver dýrið ætti, og sýndist sitt hverjum.
Árni og aðrir fyrirmenn sveitarinnar héldu fast fram eignarrétti sveitarsjóðs, sem átti allan óskilafénað. Sumir hölluðust að því, að hrútarnir hefðu
helgað eiganda sínum dýrið, en það var galli á hrútakenningunni, að enginn vissi, hver þá átti. Loks gerði Grímur Grímsson, sem dýrið fann, kröfu til þess. Sló þarna í hina hörðustu brýnu og gerðust menn háværir og kappsfullir eins og títt er, þegar ágreiningur verður í réttum. En Árni fór sínu fram og seldi dýrið eins og hann hafði ætlað sér. Skildu menn með engri blíðu.
Þeir Árni á Fellsenda og Grímur skutu báðir máli sínu undir úrskurð Þórðar Guðmundssonar sýslumanns, og varð Grímur fyrri til þess að skrifa honum. Skýrði hann stuttlega frá málavöxtum og baðst úrlausnar um það, hvort honum bæri „ei dýrið með öllum rétti og máske nokkuð í þóknun þeim, sem mér hjálpuðu með það.”
Bréf Árna var svolátandi: „Sökum hjáliðinna tilfella orsakast ég til að bera fram fyrir yðar velborinheit til úrlausnar eftirfylgjandi spurningar: Þegar leitað var til Þingvallaréttar þann 17. fyrra mánaðar, fundust á einum stað í leitinni tveir fullorðnir hrútar, sem reyndar er ekki í frásögur færandi. En með hrútum þessum fannst veturgamalt hreindýr, sem hélt sig með þeim. Dýrið hafði verið ærið kviklátt, þegar það varð mannsins vart, en gaf sig þó alltaf til hrútanna, svo þeir voru orsökin til þess, að bað varð rekið til rétta og geymt með safninu um nóttina án minnstu fyrirhafnar. Við fyrsta innrekstur var dýrið handsamað. En nú urðu margs kyns meiningarnar, hvers dýrið skyldi vera. Sumir vildu, að sá, sem fann, það og hrútana, ætti dýrið. Sumir eignuðu þeim, sem hrútana átti, dýrið líka, en leitarmenn voru þó ekki svo hirðusamir að vita, hver hrútana átti, en í safninu þekktust þeir ekki.

Þingvallarétt

Þingvallarétt – Sleðaás-/Bolabásrétt.

Sumir héldu (og þeirrar meiningar var ég), að dýrið eins og óskilakind, sem komin var til rétta, væri sveitarfé.
Af þessum margskiptu meiningum og heldur ósamþykki tók ég það ráð að selja dýrið strax við opinbert uppboð og hafði áður boðið að láta sýslumanninn skera úr, hver verðið ætti.
Nú vil ég því spyrja yðar velborinheit — hverjum tilheyrir verðið? Hvort þeim, sem fann það, þó honum væri að mestu ósjálfráð handsömun dýrsins, því enginn rekur villt hreindýr til rétta, ef það ekki heldur sig að annars kyns skepnum — eður sveitinni? (Úr þriðju útgáfunni held ég ekkert verði gert). Eður bæði fundarmanni og sveitinni og hve mikið hverjum?”
Úrskurður sá, sem sýslumaður felldi nokkru síðar, var þó á þá leið, að Grími bæri allt verð hreindýrsins.

Fellsendi

Ferðamenn á Fellsenda 9132.

Árni á Fellsenda var málafylgjumaður, mikill kappsamur og einarður, og bar ekki nema hóflegu lotningu fyrir yfirvaldi sínu, ef eitthvað bar á milli, frekar en sumir aðrir hinna gömlu Þingvallasveitarbænda. Hann ætlaði ekki að láta sveitarsjóð verða af þessum óvænta gróða, enda þótt sýslumaður hefði þegar úrskurðað Grími andvirði hreindýrsins.
Hann settist því niður og skrifaði annað bréf og sleppti að því sinni öllum virðingartitlum og lotningarfullum kveðjuorðum, svo að sýslumaðir mætti finna, að napurt gustaði úr Þingvallasveitinni að þessu sinni. Þessu lét hann fylgja dylgjur um það, að hann myndi halda málinu til streitu. Á hinn bcgirm var hann nógu hygginn til þess að reifa málið með þeim hætti, að sýslumaður hefði átyllu til þess að breyta úrskurði sínum, án þess að glata virðingu sinni. Er þetta bréf merkileg heimild úm Árna, vitsmuni hans og kapp og málafylgju fyrir hönd sveitar sinnar, enda þótt það bæri ekki þann árangur, er hann ætlaðist til:
„Úrskurður yðar frá 14. i m. áhrærandi, hvað gera skyldi við verð hreindýrsins, sem fellt var í Þingvallarétt þann 18. september næstliðinn, og fleira, hefur mér í hendur borizt. En ekki finnst mér úrskurður sá alls kostar eðlilegur, er ánafnar Grími Grímssyni frá Syðri-Brú allt verð hreindýrsins, og ímynda ég mér, að slíkt hafi helzt komið af því, að fyrirspurn mín hafi ekki verið svo greinileg eða upplýsandi sem þurfti, og vil ég því, áður er mál þetta fer lengra, reyna til að skýra málefni þetta nokkuð ger, ef ske mætti það fengi fyrir skýrslur þær nokkuð aðra stefnu.

Fekksendi

Gæsaveiði á Fellsenda 1951.

Sá nefndi Grímur Grímsson renndi fyrstur manna auga á hér um talað hreindýr, en að öllu leyti vár honum, og hverjum, sem var, ósjálfráð handsömun þess (það er að segja að koma því til rétta). Honum var ekki annað hægt en láta það vera með kindunum, nema hann hefði gert það beinlínis af hrekk að trylla dýrið með því að siga hundunum á það.
Grímur og hans förunautar ráku dýrið með safninu á vöktunarstaðinn og skiptu sér svo ekkert af því framar. Þegar nú dýrið var komið á vöktunarstaðinn, hafði nefndur Grímur ekkert lagt til handsömunar þess annað en það að renna fyrstur manna augum á það, og það er eflaust fullvissa, að menn renna hér augum á margt lifandi hreindýrið (og margsinnis á sama), sem ekki liggur í lófum manna að nota sem eign sína, en að kalla það eign sína — það geta allir. En það eignarnafn ímynda ég mér missi gildi sitt, þegar aðrir eru búnir að handsama það. Ég ímynda mér, þó einhver hefði skotið dýrið þarna á vökustaðnum, því enn var það óveitt, að enginn hefði getað uppáklagað, þó sá hefði notað sér það sem sína eign, því lagastafurinn segir: „Hreina má veiða og elta, hvar sem vill”, og veiði dýrsins, en ekki sjónin ein, er að minni meiningu skilyrði fyrir eigninni.
Þegar ég kom til réttarinnar, var mér. sem viðkomandi hreppstjóra falin á hendur öll umönnum og ráðstöfun dýrsins, án þess Grímur eður neinn annar mælti þar orð á móti.

Hreindýr

Hreindýr.

Eftir minni fyrirsögn var dýrið handsamað, og af mér var krafizt að útvega til skipta tvo eflda menn til að halda dýrinu, meðan réttað var.
Grímur kom ekki að neinu þessu, og sannað verður, að annar en Grímur lagði fyrstur hönd á dýrið — það var ekki Gríms meðfæri, — og að sá hafði nóg ráðrúm til þess að veita dýrinu banasár, áður en aðrir lögðu hönd á það, hefði hann viljað. Nú fyrst var dýrið veitt, ekki af Grími, heldur af mér og þeim, sem ég tilsetti að höndla það. Þegar var búið að handsama dýrið og halda því fram yfir allt réttarhald, þá fór oftnefndur Grímur fyrst (í mín eyru) að veita tilkall til þess. Þá fyrst spannst ágreiningurinn um, hvað gera ætti við dýrið, því í sannleika hélt ég, sóknarprestur minn og fleiri hinir hyggnari menn, sem við réttina voru, að þetta væri fátækrafé eður sameiginlegt sveitarhapp.
Í úrskurðinum hafið þér tilfært sem ástæðu móti þessu, að lýsing dýrsins sé óþenkjanleg, það sé ótamið, ómarkað og svo framvegis. Ómerkingum, sem mæður ekki helga sér, verður heldur ekki lýst með því marki, sem eigandi gæti leitt sig að. Þó eru þeir af amtinu úrskurðaðir til viðkomandi fátækrasjóðs. Mér er nú óskiljanlegt, að Grímur Grímsson geti einum borið allt verð téðs hreindýrs fyrir sjón á dýrinu, en ekkert þeim, sem fyrstur hafði hönd á því, né þeim, sem héldu því, meðan réttað var, ef það annars ekki getur allt tilheyrt viðkomandi fátækrasjóði.
Ég ætla nú enn að bíða við, vita, hvort yður finnst ekki ástæða til að breyta þessum úrskurði yðar, að yfirveguðum þessum upplýsingum. Geti það ekki orðið, er mér næst geði að hætta við úrskurðaveginn, en reyna lagaveginn með því að halda dýrsverðinu til sveitarinnar og láta oftnefndan Grím lögsækja hana eftir verðinu, hvar með honum gefst færi á að sanna veiðihelgi sína á dýrinu.”

(Helztu heimildir: Bréfabók Árnessýslu, bréfasafn Árnessýslu, prestsþjónustubók og sóknarmanntal Þingvalla, hreppsbók Þingvallahrepps, þingabók Árnessýslu.)

Heimildir:
-Frjáls þjóð, 38. tbl. 20.09.1958 – Hreindýrsslagurinn í Þingvallarétt haustuð 1854, bls. 4.
-Örn H. Bjarnason.
-Þingvellir.is
-Örnefnalýsing fyrir Brúsastaði.
-Kjalnesingasaga.

Þingvellir

Þingvellir – Almannagjá.

Landnám

Í Lesbók Morgunblaðsins 1969 fjallar Árni Óla um Kjalarnesþing og Alþingi hið forna:

“Fundur landsins og landnám eru vitanlega að því leyti merkustu viðburðir í sögu landsins sem þeir eru nauðsynlegur undanfari alls þess, sem hér hefir síðar gerzt. Og vafalaust hafa margir landnámsmenn vorir unnið afreksverk um byggingu landsins. En landnámin eru þó eigi svo margþætt né svo mikil vitraun sem setning Alþingis var, stofnun allsherjarríkis og setning laga handa landsmönnum öllum. Það er hið ágætasta verk og hafa margir góðir menn að því unnið, enda þótt Úlfljótur hafi mest í því átt. Það hefir kostað mikinn tíma og fyrirhöfn, og hefir útheimt margar skýringar og fortölur. Hafa höfðingjar þeir, sem Úlfljótur ráðfærði sig við áður en hann sigldi, sennilega unnið nokkuð fyrir málið, og svo Grímur geitskör, er hann fór um landið. — Svo sagði Einar prófessor Arnórsson, (Skírnir 1930).

Árni Óla

Ingólfur hét maður norrænn, er sannlega er sagt, að færi fyrstur þaðan til Íslands, þá er Haraldur hinn hárfagri var sextán vetra gamall, en í annað sinn fám vetrum síðar. Hann byggði suður í Reykjarvík. —
Svo segir Ari ífróði í Íslendingabók. En í Hauksbók Landnámu segir svo: Ingólfur tók sér bústað, þar sem öndvegissúlur hans höfðu á land komið. Hann bjó í Reykjarvík. Þar eru enn öndvegissúlur þær í eldhúsi. En Ingólfur nam land milli Ölfusár og Hvalfjarðar og öll nes út. Hann var frægastur allra landnámsmanna, því að hann kom hér að auðu landi og byggði fyrst landið, og gerðu það aðrir landnámsmenn eftir hans dæmum síðan. Ingólfur átti Hallveigu Fróðadóttur, systur Lofts hins gamla. Þeirra son var Þorsteinn, er þing lét setja á Kjalarnesi, áður alþingi væri sett.
Ingólfur var frægastur allra landnámsmanna vegna þess að hann nam hér fyrstur land. En ekki ætti hann síður að vera frægur fyrir hitt, að afkomendur hans og venslamenn stjórnuðu landinu fram að kristnitöku, eins og enn mun sagt verða.
Dr. Guðbrandur Vigfússon leit svo á, að þótt talið væri að Ísland hefði byggzt úr Noregi, þá hefði komið hingað á landnámsöld álíka margt fólk af keltnesku kyni eins og norsku. En norska kynið var „herraþjóðin” í landinu, eins og glöggt má sjá af fornsögunum, og þær sýna líka að norsk menning og norskur hugsunarháttur hefir verið hér yfirgnæfandi. Í Noregi var byggð hagað öðruvísi en í öðrum germönskum nágrannalöndum. Í Svíþjóð, Danmörku og Þýzkalandi bjuggu menn í þorpum, en í Noregi voru sérstök bændabýli, og sama varð reglan hér á landi.

Landnám

Ingólfur og öndvegissúlurnar í Reykjavík.

Þeir, sem fyrstir komu, námu mjög víð lönd, en byggðu þau svo skipverjum sínum og öðrum er seinna komu. Með þessu móti höfðu þeir nokkurn liðsstyrk, ef á þá yrði ráðizt og jafnframt voru þeir þá höfðingjar, hver í sínu landnámi. Vegna þessa stefndi allt að því, að hér risi upp smáríki, eins og var í Noregi áður en Haraldur hárfagri lagði land allt undir sig.
Þessir fyrstu héraðshöfðingjar stjórnuðu svo landinu um hríð, án þess að nokkur sameiginleg lög væru hér gildandi. Að vísu komu þeir með nokkrar norskar venjur viðvíkjandi eignarhaldi einstaklinga, kaupskap, hjúskap, um erfðir, hefndir fyrir víg o.s.frv. En þetta gat orðið breytilegt eftir héruðum er fram í sótti og sáu framsýnir menn hver voði var búinn innanlandsfriði ef framvindan yrði slík. Nauðsyn væri að stofna hér þjóðfélag áður en í óefni væri komið. Þá var það, að Þorsteinn Ingólfsson stofnaði Kjalarnesþing og „höfðingjar þeir, er að því hurfu”, eins og Ari fróði kemst að orði. Tveir aðrir af stofnendum þingsins eru nefndir Helgi bjóla, tengdasonur Ingólfs og Örlygur gamli á Esjubergi, og voru þeir báðir kristnir. En svo hafa aðrir höfðingjar bætzt í hópinn og þeir hafa átt heima í Borgarfirði og Árnessýslu. Þetta þing skyldi setja lög er giltu á yfirráðasvæði þess og dæma um mál manna.

Hvenær var Kjalarnesþing stofnað?
Það skiptir nokkru máli ef unnt er að ákveða hvenær þing þetta var stofnað, því að með hverju ári fjölgaði mikið fólki í landinu og þá um leið ýfingum og ófriði milli manna. Meðan engar reglur voru til að fara eftir í viðskiptum manna, var óhægt um vik að setja niður deilur.
Leiðvöllur
Kjalarnessþings er getið í Íslendingabók, Landnámu Grettis sögu, Harðarsögu og Kjalnesingasögu, en hvergi er þess getið hvenær það var stofnað. Í Grettissögu segir, að skömmu eftir útkomu Önundar tréfótar, sem bjó í Kaldbaksvík á Ströndum, „hófust deilur þeirra Ófeigs grettis og Þorbjarnar jarlakappa og lauk svo, að Ófeigur féll fyrir Þorbirni í Grettisgeil hjá Hæli. Þar varð mikill liðsdráttur að eftirmáli með sonum Ófeigs. Var sent eftir Önundi tréfæti og reið hann suður um vorið”. Önundur var tengdasonur Ófeigs grettis. Á leiðinni suður gisti hann í Hvammi hjá Auði djúpúðgu. Hún bað að Ólafur feilan sonarsonur sinn mætti ríða með honum suður til að biðja Alfdísar hinnar barreysku, og að hann styddi það mál. Tók Önundur því vel. Þegar hann hitti svo vini sína og mága, var talað um vígamálin, „og voru þau lögð til Kjalarnessþings, því að þá var enn eigi sett alþingi. Síðan voru málin lögð í gerð, og komu miklar fébætur fyrir vígin, en Þorbjörn jarlakappi var sekur gerr. . . .Þetta haust fékk Ólafur feilan Alfdísar hinnar barreysku. Þá andaðist Auður hin djúpúðga, sem segir í sögu Laxdæla”.

Heiðni

Heiðnir víkingar og kristnir keltar virðast hafa lifað í sátt í upphafi landnámsins.

Í Tímatalsritgerð sinni telur dr. Guðbrandur Vigfússon, að Auður djúpúðga muni hafa andast á árunum 908—910. Nokkru fyrir þann tíma hlýtur Kjalarnesþing því að hafa verið stofnað. Af frásögn Ara fróða í Íslendingabók mætti ráða, að Kjalarnesþing hefði upphaflega aðeins verið fyrir landnám Ingólfs Arnarsonar, því að þar segir, að Þorsteinn Ingólfsson hafi haft þetta þing, „og höfðingjar þeir, er að því hurfu”. Er þar með gefið í skyn, að smám saman hafi honum bætzt samþingsmenn, og gat það vel tekið nokkur ár að þingháin næði alla leið austur að Þjórsá.
Hér verður því að álykta svo sem Kjalarnesþing hafi verið stofnað rétt upp úr aldamótum 900. Nú telur og dr. Guðbrandur Vigfússon að Ingólfur Arnarson muni hafa dáið um 900 og getur þess að menn ætli að þingið hafi verið stofnað eftir hans dag. Bendir það til þess, að þingstofnunin hafi verið fyrsta verk Þorsteins Ingólfssonar eftir að hann tók við mannafonnráðum í héraði. Þing þetta mun hafa verið stofnað að fyrirmynd norsku fylkjaþinganna á Frosta, Gula og Eiðsvelli, og það mun hafa verið orðið aldarfjórðungs gamalt þegar alþingi var stofnað.

Hvar var þingið háð?
Aðeins á einum stað er þess getið, hvar Kjalarnesþnig var háð. Nú þekkist þetta örnefni ekki lengur.
Landnám Ingólfs
Vegna nafns þingsins héldu menn lengi vel, að það hefði verið háð á Kjalarnesi. Jónas Hallgrímsson tók sér fyrir hendur sumarið 1841 að finna þingstaðinn og leitaði upplýsinga víða. Honum var bent á Leiðvöll, sem er skammt frá Móum á Kjalarnesi. Fór Jónas þangað, en sannfærðist fljótt um, að þar hefði aldrei verið háð þing, heldur hefði þar aðeins verið leið. Svo fékk hann fregnir af því að í Þingnesi í Elliðarvatni væru margar og glöggvar búðatóftir, og þangað fór hann við áttunda mann til þess að rannsaka staðinn. Þar fann hann rúmlega 20 búðatóftir. Hann byrjaði á því að grafa upp stærstu tóftina, og segir hann að það hafi verið sú stærsta búðartóft, sem hann hafi séð á Íslandi, um 100 ferálnir að innanmáli. Veggir höfðu verið hlaðnir úr völdu grjóti og taldi hann að þeir mundu hafa verið um sex feta háir.
Því næst rannsakaði hann grjótdyngju nokkra utan við búðirnar, því að honum sýndist sem mannvirki mundi vera, en fann þar ekki annað en stóra steina og vissi ekki hvað þetta var. Þá réðist hann á merkasta staðinn, sjálfan dómhringinn. Þar var hringhlaðinn grjótgarður og taldi Jónas að hann mundi upphaflega hafa verið um tveggja álna þykkur neðst og álíka hár. Þvermál hringsins var 43 fet. Í miðjum hringnum var grjóthrúga og gat grjótið ekki verið komið úr hringgarðinum, og hélt hann því að þar mundu dómendur hafa setið.
Þingnes
Ekki var Jónas í nokkrum vafa um, að hér hefði hann fundið hinn gamla þingstað Þorsteins Ingólfssonar. Skammt þaðan voru einnig aðrar rústir, sem Jónas skoðaði ekki. Handan vatnsins, gegnt Þingnesi, undir holtinu sem Bugða rann fram með og heitir Norlingaholt, voru fram á þessa öld miklar búðatóftir og voru þær nefndar Norlingabúðir. Þarna hafa Borgfirðingar þeir, er þingið sóttu haft búðir sínar og bendir nafnið til þess, því að um aldir voru Borgfirðingar kallaðir Norlingar hér um nesin.
Þingnes heldur enn nafni sínu enda þótt það sé nú orðið að ey í vatninu, síðan vatnsborð Elliðavatns var hækkað vegna rafmagnsstöðvarinnar hjá ánum. Nesið gekk út í vatnið að sunnan, hér um bil miðja vegu milli bæjanna Elliðavatns og Vatnsenda. Var fyrrum aðeins mjótt sund milli þess og engjanna fyrir norðan.
Þarna er einn af sagnmerkustu stöðum Íslands, en þó hefir verið farið illa með hann. Laust eftir seinustu aldamót, þegar ræktunaráhugi vaknaði meðal manna hér á landi, var ráðizt á Þingnes með plógum og öðruum jarðræktarverkfærum, öllum búðatóftum byllt um og eins dómhringnum, svo að þar var ekkert að sjá nama moldarflag. Norðlingabúðir vonu seinna kaffærðar, þegar afrennsli vatnsins var stíflað og yfirborð þess hækkað. Og þar með voru þurrkaðar út seinustu sýnilegu minjarnar um Kjalarnesþing.

Kristið þing
Heimildir fornsagnanna herma, að Örlygur gamli og Helgi bjóla hafi verið aðalhvatamenn að stofnun þingsins með Þorsteini. Þeir voru báðir kristnir og trúræknir vel. Örlygur hafði verið sendur hingað af Patreki biskupi á Iona með trúboðserindum. „Biskup lét hann hafa með sér kirkjuvið og járnklukku og plenaríum og mold vígða, er hann skyldi leggja undir hornstafina” (Landn). Örlygur bjó á Esjubergi og reisti þar þegar kirkju hina fyrstu er sögur fara af hér á landi.

Esjuberg

Esjuberg á Kjalarnesi.

Helgi bjóla átti Þórnýju dóttur Ingólfs Arnarsonar og var því mágur Þorsteins. Einn af sonum þeirra Þórnýjar var nefndur Kollsveinn og mun það bafa verið auknefni, því að svo voru kallaðir sveinar þeir er fareldrar færðu guði nýfædda.
Þeir Helgi hjóla og Örlygur eru taldir meðal göfugustu landnámsmanna í Sunnlendingafjórðungi. Er því líklegt að þeir hafi ráðið miklu við stofnun þingsins og hvernig það var helgað. Er þá líklegt að þeir hafi látið helga það með tákni krossins og þar af sé komið nafnið Krossnes á þingstaðnum. Og þá er eigi ólíklegt, að grjótdyngjan sem Jónas Hallgrímsson fann þar í nesinu og vissi ekki hvennig á stóð, hafi verið leifar af stöpli, sem hlaðinn hefir verið undir krossmerkið. En er þing lagðist niður á þessum stað, hafi Kristnesnafnið horfið úr mæltu máli, og nesið síðan verið kallað Þingnes, eins og það heitir enn í dag.
Um þær mundir er Kjalarnesþing var stofnað voru engar trúarbragðadeilur hér á landi. Kristnir menn og heiðnir höfðu dreifzt um land allt og bjuggu þar í nábýli og fyrst í stað bar þeim ekki á milli í trúmálum. Og hafi nú verið — sem allar líkur benda til — að kristnir mennn hafi ráðið miklu á fyrsta Kjalarnesþingi, þá er eðlilegt að þeir réðu því hvernig þingið var helgað. En um þinghelgun með krossi má lesa í Kristnisögu, þar sem sagt er frá krossunum á alþingi árið 1000.

Lagasetning og dómnefna
Ætla má að hlutverk þingsins hafi að upphafi verið tvíþætt: lagasetning og dómnefna.
Um lagasetningu hefir verið farið eftir þeim réttarfarsvenjum, en mennn hafa alizt upp við í Noregi, og þó með þeim breytingum, er hæfðu breyttum aðstæðum. Hafa svo ný lög verið sett smám saman, eftir því sem hentaði og reynslan kenndi mönnum að nauðsynlegt var. En engin lög þessa þings gátu gilt annars staðar en í þinghánni.
Þingnes
Um dómaskipan verður ekkert sagt með vissu. Líklegt er að dómendur hafi verið kosnir af þingheimi hverju sinni og menn valdir eftir metorðum og mannviti. Dómhringurinn í Þingnesi sýnir, að dómar hafa farið þar út, enda vitum vér um tvo dóma, sem þar voru kveðnir upp. Fyrri dómurinn vax í vígsmáli Ófeigs grettis og hefir þegar verið sagt frá honum, en því má við bæta, að þeim dómi hefur verið fullnægt. Þorbjörn jarlakappi varð að fara utan og mun ekki hafa komið til Íslands aftur, og ekki heldur Sölmundur sonur hans. En Kári sonur Sölmundar kom til Íslands og segir frá því í Njáls sögu.
Frá hinum dómnum segir Ari fróði í Íslendingabók: „Maður hafði orðið sekurr um þrælsmorð eða leysings, sá er land átti í Bláskógum. Hann er nefndur Þórir kroppinskeggi, en dóttursonur hans er nefndur Þorvaldur kroppinskeggi, sá er fór síðan í Austfjörðu og brenndi þar inni Gunnar bróður sinn. Svo sagði Hallur Órækjusonur. En sá hét Kolur er myrður var. Við hann er kennd gjá sú, er þar er kölluð síðan Kolsgjá, sem hræin fundust. Land það varð síðan allsherjarfé, en það lögðu landsmenn till alþingisneyslu. Af því er þar almenning að viða til allþingis í skógum og á heiðum hagi til hrossahafnar. Svo sagði Úlfheðinn oss”.
(Bláskógar kallast nú Þingvallasveit. Hallur Órækjuson var systursonur Kolskeggs hins fróða, sem margt sagði fyrir um landnám á Austurlandi.
Úlfljótsvatn
Nafnið Kolsgjá er nú týnt, en menn halda að gjáin sé uppi á Leirunum. Ulfheðinn mun vera Úlfhéðinn Gunnarsson lögsögumaður). Þessi dómur hefir verið kveðinn upp áður en það væri afráðið hvar alþingi skyldi háð, og því aðeins var hægt að leggja landið til allþingisneyzlu að það var áður orðið almenningseign. Þórir hefir verið dæmdur sekur á Kjalarnesþingi en landi hans ekki ráðstafað á annan hátt en þann, að það skyldi vera almenningur.
Nauðsynlegt hefir verið á Kjalarnesþingi, eins og á alþingi síðar, að velja mann til að segja upp lög þau er samþykkt höfðu verið, og sjá um að dómum væri fullnægt. Engar sagnir höfum vér um, hver sá lögsögumaður hafi verið, en eflaust hefir hann átt heima í landnámi Ingólfs Arnarssonar. Og engin goðgá er þótt gizkað sé á, að það hafi verið Úlfljótur, hinn sami og seinna samdi allsheriarlög fyrir Ísland.
Konrad Maurer hefir það eftir séra Símoni Beck á Þingvöllum, að þar í sveitinni lifi þau munnmæli, að Úlfjótur lögsögumaður hafi upphaflega átt heima á Úlfljótsvatni í Grafningi.
Í Landnámu og fornsögum er aðeins getið um tvo menn, er hétu þessu nafni. Annar er talinn landnámsmaður norður í Skagafirði, og ekkert fleira um hann sagt, en hinn er Úlfljótur lögsögumaður, en ekkert getið um bústað hans fyrr en hann keypti Bæ í Lóni af Þórði skeggja, eftir að Þórður fluttist hingað suður í Mosfellssveit.

Kjalarnesþing

Þingin voru fyrst fornfáleg – haldin undir berum himni.

Nafnið Úlfljótsvatn er gamalt, því að það kemur fyrir í Harðarsögu, og enginn vafi er á, að það hefir verið kennt við einhvern mann, sem ÚlfLjótur hét. Þessi bær var í landnámi Ingólfs.
Ulfljótur var kynborinn, sonur Þóru, dóttur Hörða-Kára, sem talinn var ágætur maður, og segir Snorri, að á dögum Ólafs konungs Tryggvasonar hafi ættbogi hans verið mestur og göfgastur á Hörðalandi. Hjörleifur fóstbróðir Ingólfs var einnig komimin af Hörða-Kára, og er því líklegt, að vinátta hafi verið með Úlfljóti og þeim feðgum Ingólfi og Þorsteini.
Forn munnmæli, sem engar öfgar fylgja skyldu menn ekki sniðganga. Ritaðar heimildir bera heldur ekki á móti því, að Úlfljótur hafi fyrst í stað átt heima á Úlfjótsvatni. Þeim ber aftur á móti saman um, að hann hafi keypt Lónslönd af Þórði skeggja þegar hann fluttist suður í Mosfellssveit, en Þórður hafi búið þar alt að 15 ár áður en hann fór hingað og þess vegna líklega ekki komið að Skeggjastöðum fyrr en eftir 900, eða í þann mund er Kjalarnesþing var stofnað. Þá hefði Úlfljótur enn átt að vera búandi á Úlfljótsvatni, og verið einn af þeim „vitru mönnum”, er stofnuðu þingið með Þorsteini Ingólfssyni.
Það getur varla talizt getgáta, að hugmyndin um stofnun allsherjarríkis á Íslandi og alþingis hafi verið frá Þorsteini runnin, því að engum manni er betur trúandi tii þess en honum að hugsa svo stórmannlega. Hugmyndina mun hann þá fyrst hafa borið fram er honum þótti Kjalarnesþing orðið nógu öflugt til þess að vera bakhjall hennar, og allir helztu höfðingjar frá Hvítá í Borgarfirði austur á Rangárvelli höfðu heitið stuðningi sínum. Hið fyrsta, sem þurfti að gera, var að finna hentugan stað fyrir allsherjarþingið. Þetta var nauðsynlegt til þess að ekki yrði reipdráttur um það um allt land, að hver höfðingi vildi hafa hann hjá sér. Það gat hæglega spillt því, að málið næði fram að ganga.

Almannagjá

Almannagjá 1862 – málað af Bayard Taylor, 1862.

Misskilningur er það að Grímur geitskör hafi valið þingstaðinn. Það hafa höfðingjar á Kjalarnesþingi gert. Og hafi Úifljótur verið lögsögumaður þingsins, þá virðast fyrstu ráðin um undirbúning að stofnun alþingis vera frá honum komin. Hann mun hafa ráðið því, þá er Þórir kroppinskeggi var gerður sekur og útlægur, að landið í Bláskógum væri ekki dæmt sektarfé handa einstökum mönnum (t.d. dómendum), heldur gert að almenningi. Það er skammt á milli Úlfljótsvatns og Þingvalla og hefir Últfljótur eflaust verið kunnugur staðháttum á Þingvöllum, og þess vegna lagt til að alþingi skyldi háð þar. Er líklegt að hann hafi dregið fram kosti landsins líkt og gert er í Íslendingabók og haft eftir Úlfhéðni Gunnarssyni lögsögumanni, að þar mættu allir „viða til alþingis í skógum, og á heiðum hagi til hrossahafnar”. Aðrir þingmenn fallast á þetta og svo er ákveðið að þingstaðurinn skuli vera þarna. Margt fleira hefir staðnum að vísu veriðfundið til ágætis, og þá ekki sízt það að hann var þegar orðinn almenningseign.
Úlfljótur hefir gert meira. Hann hefir fengið því framgengt að Grímur geitskör, fóstbróðir hans, væri sendur um land allt til þess að hafa tal af höfðingjum og fá þá til aðfallast á hugmyndina um stofnun allsherjarríkis á Íslandi og alþing í Bláskógum. Var nauðsynlegt að vita hug höfðingja tiL þessa máls áður en fullnaðaðarákvörðun um ríkisstofnun væri tekin. Sagt er að Grímur hafi verið þrjú ár í þessu ferðalagi um landið og kæmi hann aftur erindi feginn, því að flestir eða allir höfðingjar hefðu verið málinu fylgjandi.
Og nú var komið að því, sem vandasamast var, að semja stjórnarskrá fyrir hið tilvonandi ríki. Og þá er Úlfljóti falið þetta vandaverk. Enginn aðili annar en Kjalarnesþing, var fær um að fela honum það. Þetta þing hafði tekið að sér forustu um stofnun allsherjarríkis og unnið að undirbúningi þess máls og þingmenn sjálfsagt komið sér saman um hvernig stjórnarskráin ætti að vera í höfuðdráttum. Það hafði ekki öðrum á að skipa að svo komnu máli, heldur en einhverjum af þingmönnum sínum. Og hver var þá líklegri til þess að verða fyrir vailnu, heldur en sjálfur lögsögumaðurinn — Úlfljótur. Hér virðast allar líkur benda í eina átt að Úllfljótur hafi átt heima á Úlfljótsvatni, eins og munnmælin herma; að hann hafi verið einn af þingmönnum Þorsteins Ingólfssonar; og verið kjörinn lögsögumaður Kjalarnessþings. Þetta gæti einnig stuðst við þessa frásögn Íslendingabókar: „Því nær tók Hrafn lögsögu Hæings sonur landnámamanns, næstur Úlfljóti”, því að Úlfljótur var aldrei lögsögumaður alþingis og væri hér bent til þess að hann hefði verið lögsögumaður Kjalarnessþings. Samkvæmt lögsögumannatali Ara fróða í Ísendingabók, hefir fyrsta alþingi 930 kosið Hrafn lögsögumann þegar er þingstörf gátu hafizt.

Þingvellir

Kjalarnesþing fól Úlfljóti að semja stjórnarskrána, en enda þótt höfðingjarnir þar hefðu komið sér saman um hvernig hún ætti að vera í aðalatriðum, hefir þeim þótt réttara að hafa hliðsjón af norskri löggjöf. Þess vegna fór Úlfljótur utan og er þrjá vetur í Noregi, kemur svo út með allsherjarlögin 929 og voru þau fyrst kölluð Úlfljótslög „en þau voru flest sett að því, sem þá voru Gulaþingslög eða ráð Þorleifs spaka Hörða-Káraasonar voru til, hvar við skyldi auka eða af nema eða annan veg setja”. — Svo sagði Teitur Ísleifsson biskups (Ísl. bók).
Næsta sumar var „alþingi sett að ráði Úljóts og allra landsmanna, þar sem nú er, en áður var þing á Kjaiarnesi” (Ísl. bók). Á þessu orðalagi má sjá, að Kjalarnesþing hefir verið talið upphaf, eða fyrirrennari alþingis og samband þessara þinga svo náið, að rétt var að segja að Hrafn Hængsson tæki lögsögu næstur Úlfljóti, því að lögsögu Úlfljóts var lokið með stofnun alþingis. Hann var þá 63 ára að aldri og mun hafa dregið sig í hlé eftir þetta afrek og farið austur í Lón.
Þingnes
Reykvíkingar fá æðstu völd Á þessu fyrsta allsherjarþingi var skipuð fyrsta embættismannastétt landsins. Þá var landinu skipt í 36 goðorð og goðarnir voru héraðsstjórar hver í sínu umdæmi; þeir voru einnig þingmenn og dómarar á alþingi. Eitt goðorðið var framar öllum hinum og kallað allsherjargoðorð. Það var goðorð Reykvíkinga og fylgdi því það heiðursstarf að helga alþingi.
Þorsteinn Ingólfsson mun hafa helgað þetta fyrsta alþing og hefir þótt sjálfkjörinn til þess sem stofnandi Kjalarnessþings og frumkvöðull að stofnun alþingis. Sést hér enn sambandið milli þessara tveggja þinga. Síðan fylgdi helgun alþingis goðorði Reykvíkinga og hefir það verið sérstakur virðingarvottur við minningu fyrsta landnámsmannsins og til heiðurs Þorsteini syni hans fyrir að vera stofnandi fyrsta þings á Íslandi og driffjöðrin í stofnun alþingis.
Með nýju allsherjarlögunum varð lögsögumaðurinn forseti alþingis og helzti embættismaður hins nýja ríkis, því að framkvæmdavaldið var í höndum hans, eins og sést á því, er Ari fróði segir um Skafta Þóroddsson lögsögumann: „Á hans dögum urðu margir höfðingjar og ríkismenn sekir eða landlótta of víg eða barsmíðar af ríkis sökum hans og landstjórn”.

Ingólfur

Ingólfur Arnarsson – minnismerki á Arnarhóli í Reykjavík.

Fyrsti lögsögumaður alþingis varð Hrafn Hængsson og hefir það ef til vill verið af því að faðir hans og bræður hafi stutt drengilega stofnum alþingis.
Jón Sigursson telur að Hrafn muni hafa verið fæddur 879 og „ef til vill fyrsti maður, sem fæddur er á Íslandi” (Safn til sögu Íslands I). Hafi svo verið, gat það nokkru ráðið um lögsögumannskjör hans, að mönnum hafi þótt vel við eiga að fyrsti innborni Íslendingurinn skipaði æðsta embætti á hinu nýja alþingi, þar sem hann var líka göfugur höfðingi og ættstór. Hrafn gegndi embættinu um 20 ár, eða fram til 950, en eftir það ráða Reykvíkingar lögsögumannskjöri allt fram að kristniöku og hafa því verið valdamestu menn landsins á þeim tíma.
Árið 950 tekur Þórarinn Raga bróðir við lögsögu, en hann var mægður Reykvíkingum, því að Ragi bróðir hans mun hafa verið kvæntur systur Þorsteins Ingólfssonar og búið í Laugarnesi. Þórarinn gegndi embættinu í 20 ár, fram til 970, en þá tekur við Þorkell máni sonur Þorsteins Ingólfssonar og gegnir því um 15 ára skeið. Þá tekur við Þorgeir Ljósvetningagoði, en þeir Þorkell máni voru að öðrum og þriðja og er sú ættfærsla þannig: Þorkell máni var sonur Þóru dóttur Hrólfs rauðskeggs á Fossi á Rangárvöllum, en móðir Þorgeirs Ljósvetningagoða var Þórunn dóttir Ásu Hrólfsdóttur rauðskeggs. Þorgeir andaðist tveimur árum eftir kristnitöku og þá gekk lögsögumannsstarfið úr ættum Reykvíkinga, en goðorði þeirra fylgdi enn lengi helgun alþingis.”

Heimild:
-Lesbók Morgunblaðsins, 25. tbl. 06.07.1969, Kjalarnesþing og Alþingi hið forna, Árni Óla, bls. 6-7.
Þingnes

Þingvallahraun

FERLIR fór um ofanverða Þingvelli, austanvert land Brúsastaða (land Þingvallabæjarins náði einungs að Öxará. Brúsastaðir áttu landið norðan hennar; þar með alla þinghelgina á Þingvöllum. Sögur herma að bóndinn á Brúsastöðum hafi t.d. gert sér stekk úr Snorrabúð í miðri fyrrum þinghelginni, ekki síst í þeim tilgangi að fullvissa Þingvallabóndann um hvað væri hvers. Þetta þótti reyndar algengur siður bænda í gegnum fyrstu aldir Íslandsbygðar, þ.e. að staðsetja mannvirki sín, s.s. sel og fjárskjól, yst á landamerkjum). Ætlunin var að berja Bakkaréttina, minjar Grímukots og Bárukots augum.

Í Sunnudagsblaði Vísis 1937 er fjallað um “Eyðibýli í Þingvallasveit 1840“:

Þingvellir

Ofanverðir Þingvellir – Grímgilslækur.

“Lýsing Þingvallaprestakalls 1840, eftir Björn Pálsson, Þingvallaprest, hefir nú verið birt í binu merka ritsafni „Landnám Ingólfs”. — Kveðst síra Björn hafa verið vanheill um það leyti, er lýsingin var af honum heimtuð, og fyrir því hafi hann orðið að fara eftir sögusögnum annara um margt, og ekki getað glöggvað sig sjálfur á ýmsu því, „sem langt frá liggur í mínum víðlendu sóknum. Þó hefi eg spurt þá eina, sem eg vissi hér kunnugasta”.
Eins og að líkindum lætur, nefnir síra Björn öll bygð ból prestakallsins og lýsir þeim að nokkuru. — Í Þingvallasveit voru bygð býli hin sömu og nú, nálega hundrað árum síðar, að undanskildu Arnarfelli og Fellsenda.
Lýsing klerks á Þingvallajörðum er heldur ófullkomin, og má vera, að lasleika hans sé um að kenna. Jörðin Svartagil (hjáleiga frá Þingvöllum) segir hann að heitið hafi að fornu Vegghamrar. Það er fagurt heiti og réttnefni.. En týnt mun það nú af tungu Þingvellinga. Selkot, hjáleiga frá Stíflisdal, er í Norðurárdal. Þar höfðu Stíflisdalsbændur selför. Norðurárdalur í Þingvallasveit mun nú sjaldan nefndur. Þingvellingar segja „út í dal” og er þá átt við báða dalina: Norðurárdal og Stíflisdal.

Þingvallahraun

Þingvallahraun – smyrill.

Síra Björn lætur og getið allra þeirra eyðibýla, sem honum eru kunn í Þingvallasveit, eða hefir heyrt nefnd. Er þó ekki ósennilegt, að eitthvað kunni að vanta í þá upptalningu. Þar vantar t.d. Móakot, sem getið er um einhversstaðar að brunnið hafi um miðja síðustu öld og ekki verið bygt af nýju, en hefir ef til vill verið í ábúð 1840, þó að síra Björn telji það ekki meðal bygðra býla. — Móakot var yst í svo nefndum Bæjardal, norðan ársprænu þeirrar, er þar verður, og kallast Móakotsá.
Síra Björn skýrir frá eyðibýlum í Þingvallasveit og Þingvallahrauni, sem hér segir:
„Svarið verður hér óglögt, nefndar heyri eg þessar: Fíflavelli fyrir norðan Skjaldbreið. Litla-Hrauntún suður af Mjóafelli. — Hrafnabjörg vestur af Hrafnabjörgum. — Bótólfsstaði og Bæjarstæði i Miðfellshrauni. — Arnarfell, útsunnan undir Arnarfelli, bygðist fyrir stuttu um fáein ár með lítilli heppni. — Bárukot og Grímsstaðir (hvar Grímur hinn litli bjó, sem getið er í Hólmverja sögu) milli Brúsastaða og Svartagils; Múlakot fyrir austan Svartagil, undir Ármannsfelli; Hólkot í Stíflisdal; Kárastaðakot í túninu á Kárastöðum; Þórhalla- eða Ölkofrastaðir fyrir austan Skógarkot, er nú stekkur þaðan.” — Ekki kveðst síra Björn vita neitt um það, hvenær jarðir þessar hafi farið í eyði.
Hann segir ennfremur:

Þingvellir

Straumendur á Grímgilslæk.

„Seinna hefi eg getað glöggvað upp miklu fleiri eyðibýli… .
Við bætast þá” (í Þingvallasveit): Ólafsvellir í Klukkuskarði, milli Skjaldbreiðar og Tindaskaga. — Álftabakki í Stíflisdal, fyrir sunnan Kjálkárós. Vindheimar norðan undir Stóra-Sauðafelli.” Jörðin Fellsendi er hvergi nefnd, hvorki sem bygt ból né eyðibýli. Mun því bygð þar yngri en hundrað ára.
Talið er, segir síra Björn, að kirkjur hafi verið að Gjábakka og í Stíflisdal, auk Þingvalla. Ennfremur að munnmæli hermi, „að kirkja hafi verið á Ólafsvöllum” (í Klukkuskarði), „en auðsjáanlegt segja menn, að kirkja hafi verið á Hrafnabjörgum, ekki alllítil.”

Í Lögréttu 1919 er fjallað um “Þingvelli við Öxará“. Þar segir m.a.:
“Jarðabók Árna Magnússonar telur 30 jarðir í Þingvallasveit árið 1711; af þeim voru 14 í eyði. Ennfremur hafði Á.M. það eftir munnmælum, að 50 bæir hefðu verið i sveitinni fyrir pláguna miklu (Svartadauða) 1402, og að Hrafnabjargir hafi staðið í miðri sveit. Sá bær stóð langt norð-austur í hrauninu niður undan Hrafnarbjargarklettum. Umhverfis þann stað er nú gróðurlaust og berblásið hraun að kalla má.
Bygðabýli í Þingvallasveit eru nú 16 að tölu og eyðibýlin 15, sem menn vita fyrir víst að voru í ábúð fyr á tímum. Flestöll eru þau nefnd í jarðabók Á. M. Og eru þau þessi:

Bárukot

Bárukot – uppdráttur ÓSÁ.

1. Bárukot fyrir ofan Almannagjá, en norðan Öxarár. Var af sumum mönnum bær þessi kallaður Þverspyrna eða Fótakefli. Kotið var fyrst bygt árið 1684, og var í ábúð að eins 8 ár og lagðist svo í eyði.

Grímastaðir

Grímastaðir (Grímakot).

2. Grímastaðir eða Grímakot var skamt fyrir norðan Bárukot. Árið 1711 sást þar votta fyrir garðhleðslu og mun að líkindum sjást fyrir henni enn. Bær þessi mun áður hafa heitið Grímsstaðir og kendur við Grím hinn litla, sem getið er um í Harðarsögu og Hólmverja, og bygði hann þar fyrstur og hafði stórt bú.
3. Múlakot, af sumum nefnt Mosastaðir, var sunnan undir Sleðási norður við Ármannsfell. Um 1680 var sá bær bygður upp úr fjárhúsum frá Svartagili. Ekki hafði það verið í ábúð nema eitt eða tvö ár.
4. Litla-Hrauntún stóð langt norðri á Þingvallahrauni hjer um bil miðja vegu milli Ármannsfells og Hlíðargjár. Liggur sú gjá norður af Hrafnagjá.
5. Hrafnabjörg. Sá bær stóð fyrir ofan Hlíðargjá upp undan svokölluðum Prestastíg. Er sögn manna, að þar hafi verið hálfkirkja til forna. Þar sjest enn fyrir mannvirkjum.
6. Bövarsholi er örnetni í skoginum skamt frá Veltankötlu. Býli þetta er komið í eyði löngu íyrir 1700. — Sagt er að býlið hafi tekið nafn af Ívari nokkrum, sem kvað hafa bygt það fyrstur. Um 1680 er sagt, að maður nokkur að nafni Sæmundur hafi búið þar rúmlega hálft ár eða svo, og hafi þar dáið.

Grímastaðir

Grímastaðir.

7. Ölkofra var bær norðaustur í hrauninu frá Þingvöllum. Fyrir austan Skógarkot er enn þá örnefni, sem heitir Ölkofrastaðir og Ölhóll. Mun sá bær hafa dregið nafn af Þórhali Ölkofra, sem Ölkofraþáttur er af. Gerði Ölkofra öl á alþingi til tekna sjer. Hann kveikti í Goðaskógi í Þingvallahrauni. Þá var bær hans kallaður Þórhallastaðir í Bláskógum. Bær þessi var í ábúð um 1700, en þar áður ýmist bygður eða í eyði.
8. Þórhallastaðir. Sá bær lagðist í eyði í Svartadauða, en löngu seinna er sagt, að bærinn hafi verið bygður upp aftur þar sem Skógarkot er nú, og að þar hafi þeir staðið áður. Hjer virðist eitthvað blandað málum með eyðibýlin. Að líkindum hafa Þórhallastaðir og Ölkofra verið sami bærinn, og ýmist verið kenndur við Þórhall eða Ölkofra, og færður þangað, sem Skógarkot er nú. Þó ei ekki loku fyrir það skotið, að hjer geti verið um tvo bæi að ræða.
9. Eiríksstaðir eru sagðir að hafa staðið fyrir norðan Mjóafell, milli þess og Skjaldbreiðar. Bæjar þessa er getið í Bárðarsögu Snæfellsáss og Ármannssögu. Eiríkur frá Eiríksstöðum var einn þeirra manna sem glímdu á Hofmannafleti.
10. Fíflavellir áttu að hafa verið landsuður frá Skjaldbreið. Getið er um þenna bæ í Ármannssögu.
11. Rótólfsstaðir voru norðan undir Miðfellsfjalli.

Kárastaðir

Kárastaðir.

12. Kárastaðakot var bygt úr Kárastaðalandi um 1685. Þar var búið í 6 ár, svo lagðist það í eyði.
13. Neðridalur var bær í dalnum norður af Stíflisdal. Hann lagðist í eyði í Svartadauða. Um 1700 sást þar votta fyrir girðingum og tóftum.
14. Hólkot var í landsuður frá Síflisdal. Þar var bygð fyrir Svartadauða. Sagt er, að þar hafi sjest fyrir tóftum og garðhleðslu.
15. Móakot var bygt á 19. öld, tiiilli Skálabrekku og Heiðabæjar. Það var í ábúð að eins sárfáár.
Hvort nokkuð er hæft í því, að 50 bæir hafi verið í Þingvallasveit á 13. og 14. öld og þar áður, og að Hrafnabjargir, sem áður eru nefndar, hafi staðið í miðri sveit, er ekki hægt að fullyrða; hefur það ekki verið rannsakað. En ekki er ósennilegt að svo hafi verið, því að Skógarsveitir voru yfirleitt mjög þjettbýlar til forna. Til þess að ganga úr skugga með það, þarf að rannsaka alt það svæði, sem líkindi eru til að bygðin hafi náð yfir í Bláskógum. Sagt er, að enn sjáist leifar af tóftum norður undir Skjaldbreið. En hvort það eru fornar bæjarrústir, vita menn ekki. Svo gæti víðar fundist, ef vel væri leitað.
Hafi bygð verið áður í Þingvallahrauni, á skóglendi, þar sem nú er algerlega berblásin jörð, hafa bæirnir lagst í eyði af öðrum orsökum en þeim, að menn fengjust ekki til að búa á jörðunum, ef það hefði verið nokkur leið. Jarðirnar lögðust í eyði sökum þess, að skógurinn var rifinn og upprættur með öllu, en landið bljes upp og varð óbyggilegt.
Að líkindum hefur alt svæðið fyrir norðan og austan Þingvallavatn heitið Bláskógar til forna.”…

Grímagilslækur rennur nú neðan tófta Bárukots. Augljóst er að hann hefur áður runnið ofan kotsins, a.m.k. að hluta, eða verið veitt þá leið um tíma. Neðar rennur í dag Hrútagilslækur.

Bárukot

Bárukot – tóftir.

Tófir Bárukots eru augljósar, en tóftir Grímukots eru öllu torræðnari. Túnstæðin eru aðskilin. Tóftin í Grímarskoti virðist miklu mun eldri, nánast jarðlæg, en tóftir Bárukots eru augljósar, sem fyrr sagði. Skammt vestan þeirra er grjóthlaðinn stekkur.

Gunnar Grímsson segir frá “Kortlagningu eyðibyggðarinnar á Þingvöllum…,- http://hdl.handle.net/1946/35509

Bárukot

Bárukot

Bárukot – tóftir.

Öðrum tveimur og hálfum kílómetrum norðaustan Brúsastaða eru Grímsstaðir (eða Grímastaðir) sem nánar verður fjallað um á blaðsíðu 41. Rúmum kílómetra sunnan Grímsstaða eru rústir Bárukots (mynd 15), sem var byggt í um átta ár milli 1684–1692. Þá þóttu landkostir á Grímsstöðum lakari til búsetu. Bárukot fékk fljótlega viðurnefnin Þverspyrna og Fótakefli (JÁM II, bls. 367) líkt og ferðalangar hafi gjarnan hrasað um tóftirnar á leið sinni þar um. Matthías Þórðarson þjóðminjavörður mælir um 1250 metra milli Grímsstaða og Bárukots og lýsir kotinu sem „ferhyrndri hvirfingu, 9×11 m að stærð, og girðing vestan við, líklega fyrir fé. Dálítið suðvestar er hraungrýtistóft niðurfallin; hefur þar verið smákofi fyrir skepnur“ (Matthías Þórðarson, 1945, bls. 86).

Grímsstaðir
Í Jarðabókinni 1711 eru Grímsstaðir, þá ritaðir sem Grímastaðir, sagðir hafa farið í eyði í plágunni miklu. Þar hafi svo aldrei verið byggð síðan og þar sjáist til garðaleifa og rústa sem og af túngarði og veggjaleifum (JÁM II, bls. 367). Grímsstaðir eru merktir mitt á milli Brúsastaða og Svartagils á korti sem fylgir sóknarlýsingu Þingvalla 1840 (Björn Pálsson, 1979, bls. 186). Bærinn er yfirleitt kallaður Grímastaðir í daglegu tali. Nafnið tengist sagnapersónunni Grími „litla“ úr Harðar sögu og Hólmverja en í sögunni keypti Grímur land „suður frá Kluptum, er hann kallaði á Grímsstöðum“ (Íslenzk fornrit XIII, bls. 14–15).
Sigurður Vigfússon fornfræðingur telur lýsingar Harðar sögu benda til að Grímsstaðir hafi verið einhvers staðar sunnan Sandklufta, sem er örnefni í austurhlíðum Ármannsfells. Stingur hann upp á þeirri hugmynd í Árbók hins íslenzka fornleifafélags 1880–1881 að bærinn undir Hrafnabjörgum (bls. 54) hafi verið hinir eiginlegu Grímsstaðir (Sigurður Vigfússon, 1881, bls. 43). Sigurður segir þó í aftanmálsgrein í sömu árbók að hann hafi síðar ákvarðað staðsetningu Grímsstaða og væru þeir við Grímsgil (eða Grímagil) milli Brúsastaða og Svartagils: Að austanverðu við gilið, eða þeim megin, sem snýr að Ármannsfelli, eru gamlar bæjatóttir vallgrónar, sem kallaðar eru Grímastaðir; þar eru valllendisflatir í kring, sem verið hefir tún; þar er nú orðið vaxið með víði. (Sigurður Vigfússon, 1881, bls. 98).
Brynjúlfur Jónsson fornfræðingur fer að Grímsgili sumarið 1904, teiknar upp tóftirnar, sem þar eru og lýsir þeim svo: Rúst Grímastaða er vestanmegin lækjarins […]. Hún er svo niður sokkin, að mestu gætni þarf til að sjá hana, og hún virðist hafa verið mjög lítil. Hún liggur austur og vestur, hefir dyr á suðurhlið og miðgafl vestan við þær með dyrum við útidyrnar. Vestur-herbergið er 3 fðm. langt, hitt aðeins 1 1/2 fðm. Breiddin eru 2 fðm. Þó má vera að austurherbergið hafi verið lengra, því endinn er óglöggur, og litlu austar sér á hleðslusteina í flagrotu. Þar skamt frá sér aðra, óglöggva tóft, mjög litla.
Önnur forn mannvirki sjást þar ekki. (Brynjúlfur Jónsson, 1905, bls. 46).

Bakkarétt

Bakkarétt.

Matthías Þórðarson þjóðminjavörður segir Grímsstaði um 1250 metra norðan Bárukots (1945, bls. 86) og lýsir rústum Grímsstaða á sambærilegan hátt og Brynjúlfur: Tóttir þær, er nú sjást á Grímsstöðum, eru litlar og óljósar. Helzt er þar bæjartóft, sem skiptist í þrennt, og skammt austur frá henni sér aðra tóft, mjög litla, og enn hina þriðju 40 skref frá (um 7 x 5 m. að stærð). (Matthías Þórðarson, 1945, bls. 85–86).
Í örnefnalýsingu Svartagils eru rústirnar nefndar Grímakot og eru sagðar vera meðfram brekkunum, „við lækinn, fyrir austan Sandhólinn“ („Svartagil“, e.d., bls. 1). Töluvert suðaustan Grímsgils, nálægt þjónustumiðstöð Þingvalla, er einnig vörðubrot sem nefnist Litla-Grímsvarða (Ásgeir Jónasson, 1939, bls. 155). Í Árbók Ferðafélags Íslands 2003 er sagt að ummerki húsarústa Grímsstaða finnist ekki (Þór Vigfússon, 2003, bls. 178). Félagið Ferlir skoðaði svæðið undir Grímsgili 2007 og þar virtist á einum stað mega, með góðum vilja, sjá móta fyrir skálatóft nálægt Grímsgilslæk (eða Grímagilslæk) sem og mögulegum garðlögum (Ómar Smári Ármannsson, 2007).
Ritaðar heimildir benda sterklega á að rústir Grímsstaða séu við Grímsgil. Til að taka af allan vafa voru 0,7 ferkílómetrar kortlagðir við Grímsgilslæk, í tveimur ferðum í apríl og maí 2018, til að athuga hvort rústir lægju á fleiri stöðum þar um kring (mynd 19). Svo virðist ekki vera en þetta landsvæði er afar illa farið af mikilli umferð seinustu alda. Helstu leiðir á þessu svæði liggja í átt að leiðinni um Leggjabrjót, sem hefst vestan malarnámu. Við Grímsgil mátti greina óljósar upphækkanir á yfirborðslíkani og voru þær taldar hugsanlegar fornleifar. Borkjarnarannsókn 18. september 2019 staðfesti að upphækkanirnar eru í raun rústir af fornum mannvirkjum. Útlit rústanna kemur vel heim við uppdrátt Brynjúlfs Jónssonar af Grímsstöðum.
Á Grímsstöðum eru greinilegar rústir á þremur stöðum og er fyrst að nefna rústina sem Brynjúlfur Jónsson og Matthías Þórðarson kalla bæjarrúst. Hún er um 13,5×6 metrar að stærð og veggir hennar rísa um 40 sm upp af yfirborðinu. Rústin virðist tvískipt eða þrískipt.”

Þingvellir

Þingvellir – stífla.

Engar upplýsingar virðast liggja fyrir um hina formfögru Bakkarétt. Svo virðist sem listrænn ráðunautur hafi verið fenginn til að hanna réttina úr frá fagurfræðilegum forsendum. Líklega hefur hún leyst af réttina í Sleðabrekkum. Síðar, að loknu réttarhaldi í Bakkarétt hefur réttarhaldið færst yfir í Þingvallaréttina í Skógarkoti.

Engar upplýsingar virðast liggja fyrir um samspil Grímgilslækjar og Hrútagilslækjar ofan við hina manngerðu stíflu. Ofan stíflunnar er fráveita þar sem samlækjunum er hleypt niður að Leirum. Handan hennar hefur spengingum verið beytt til að koma affalli lækjanna í gegnum öflugt hraunhaft. Augljóst er af verksummekjum að þarna hafa farið fram talsverða framkvæmdir. Affallið rennur niður í Þingvallahraunið og hverfur niður í það ofan þjóðvegarins.

Lækjunum er að hluta hleypt úr stíflunni um steypt affall niður að Leirum (Þjónustumiðstöðinni). Mjög líklega hefur stíflugerðin verið gerð til þess að þjóna vatnsþörf þjónustumiðstöðvarinnar á Leirum og/eða til að takmarka vatnsrennslið þangað til að minnka líkur að flæður mynduðust umhverfis hana.

Í Náttúrufræðingnum 2020 fjalla Árni Hjartarson og Snorri Zóphóníasson um Öxará. Þar segir m.a. um Grímagils- og Hrútagilslæk (Leiralæk):

Þingvellir

Þingvellir – örnefni ofan við Leirur.

“Norðan við Öxará koma saman lækir í giljum frá Botnssúlum og Ármannsfelli og mynda einn læk eða smáá sem Leiralækur nefnist. Á fyrri tíð féll hann óheftur niður á Leira, flatlendið þar sem söluskálinn og tjaldsvæðið eru nú. Þeir eru myndaðir af framburði lækjarins. (Sumir tala um Leirur og nefna lækinn Leirulæk). Leiralækur á efstu upptök sín í Svartagili og Sláttugili vestan við eyðibýlið Svartagil og í Hrútagili, sem er nokkru vestar. Aurkeilur liggja frá giljunum og út á hraunið þar sem giljalækirnir sameinast. Eftir það nefnist lækurinn Hrútagilslækur. Neðar bætist Grímagilslækur við og eykur rennslið í Hrútagilslæk að mun. Nokkru neðan lækjamótanna hafa verið gerðar stíflur á hrauninu og hafa þær áhrif á lækjarrennslið. Rétt norðan við þjóðgarðsmörkin þar sem þjóðvegurinn liggur yfir Tæpastíg steypist lækurinn ofan í efstu misgengissprunguna í dálitlum fossi eða flúð. Þar skiptir hann um nafn og heitir Leiralækur eftir það. Efst rennur hann góðan spöl norðuraustur eftir þröngri sprungunni þar sem hann hverfur öðru hverju í hraunið en birtist svo á ný. Syðst í Hvannagjá tekur hann krappa beygju og snýr nánast viðá ferð sinni uns hann streymir frjáls niður brekkurnar ofan við Leirana. Þar smýgur hann undir akveginn og hverfur loks í Leiragjá, sem hann hefur að mestu fyllt með möl og sandi. Leirarnir eru grónar flatir sem myndast hafa af framburði Leiralækjar en ekki er hægt að sjá að Öxará hafi nokkru sinni flætt þar um.
Í þurrkatíð er Leiralækur jafnan þurr og raunar getur Hrútagilslækur einnig horfið gersamlega. Þurrir farvegir sýna að fyrrum hefur Hrútagilslækur runnið til Öxarár og hefur þá aukið vatnsmagn hennar allnokkuð.”

Brúsastaðir áttu landið utan Öxarár og þar með Þinghelgina. Í Vilkinsmáldaga frá 1397 eru Brúsastaðir þó skráðir eign kirkjunnar. DI IV, 94. Árið 1695 eru Brúsastaðir skráðir eign Þingvallakirkju og jarðardýrleiki 13 hdr. BL, 116.

Heimildir:
-Vísir Sunnudagsblað, 29. tbl. 25.07.1937, Eyðibýli í Þingvallasveit 1840, bls. 2-3.
-Lögrétta, 19. tbl. 07.05.1919, Þingvellir við Öxará, bls. 1.
-Kortlagning eyðibyggðarinnar á Þingvöllum…, Gunnar Grímsson – http://hdl.handle.net/1946/35509
-Náttúrufræðingurinn, 1. tbl. 2020, Öxará, Árni Hjartarson og Snorri Zóphóníasson, bls. 7.

Þingvellir

Þingvellir – rudd hefur verið upp stífla og sprengt í gegnum hraunhaft með tilheyrandi affalli….

Sigurðarsel

Árbók Hins íslenska fornleifafélags, 01.01.1973, Örnefni í Þingvallahrauni, bls. 147-160.

Örnefni í Þingvallahrauni
Fyrsti kafli
“Það, sem venjulega er nefnt Þingvallahraun, takmarkast að austan af Hrafnagjá, að norðaustan af Mjóafellshraunum og Ármannsfelli, að norðvestan af Almannagjá og að suðvestan
af Þingvallavatni.

Hrafnagjá

Hrafnagjá á Þingvöllum – mynd frá um miðja síðustu öld.

Hallstígur er syðst á Hrafnagjá, skammt fyrir norðan Arnarfellsenda. Þaðan og inn í Hallvík nær vatnið alveg að hallanum á vestari gjárbarminum, og er sá kafli nefndur Hallur, og eiginlega alla leið inn að Klukkustíg, meðan gjábarmarnir eru hærri en hraunið.
Frá Gjábakkastíg sunnan vegarins að Vellankötlu (eða Vatnsviki), er að mestu flatt hraun, sem heitir Gjáendar; það er allt sundur tætt af gjám, fullum af vatni.
Frá Gjábakkastíg vestur að Tjörnum hækkar hraunið norður eftir, norður fyrir Þingvallahelli; er svo að mestu leyti flatt norður af Sigurðarseli og Hellishæð og vestur að Hábrún, en hallar þaðan vestur að Mosalág og Lágbrún. Þetta heitir einu nafni Brún. Þetta var þrautastaður, að því er sauðbeit snerti á vetrum, bæði fyrir hraunbúa og aðra; jafnvel var fje rekið þangað til beitar austan úr Laugardal.

Fornasel

Fornasel – uppdráttur ÓSÁ.

Upp af Hallviki er Veiðistígur á Hrafnagjá. Veiðin undir Halli frá Fornaseli (sem er grashvammur stór við vatnið, norðan við Arnarfellsenda) tilheyrði Þingvöllum, og heitir pláss það Ólafsdráttur. Það var að mestu ljeð Gjábakkabónda, og galt hann fyrir það veturgamla gimbur á vori hverju, og voru það víst góð skifti fyrir hann.
Eftir Gjábakkastíg liggur alfaravegur frá Biskupstungum og Laugardal, og hann var einnig mikið notaður af Grímsnesingum, áður en brú var sett á Sogið. Vegurinn lá þjett við Vellankötlu, þaðan (Kenndur við Ólaf konung helga; kirkjan á Þingvöllum var helguð honum. M.Þ.) norður hraunið að túngarði í Skógarkoti og þaðan vestur eða út á Þingvelli. Skammt austur frá Vellankötlu er stór grjóthóll, sem heitir Böðvarshóll. Þar hjá er fjárhústóft, sem Þorleifur Ólafsson í Vatnskoti hlóð, en varð aldrei notuð. Norðaustur af honum er Þingvallahellir. Var hann um langt skeið notaður til fjárgeymslu á vetrum frá Þingvöllum; var hann þó að öllu leyti illur til þeirrar notkunar, eins og f lestir hraunhellar eru, einkum ef þeir eru lágir, því að fjeð reitir ullina af hryggnum í berginu, og blautir verða þeir, þegar gólfið er orðið þjett af áburðinum; og alltaf er í þeim bergleki. Sunnan í hallanum upp af Vellankötlu heita Fjárhúsbrekkur, en þar sem brúnin er fullhækkuð við Litlugjá, er hóll einn, sem heitir Litlugjáarhóll.

Nýi-Þingvallahellir

Nýi-Þingvallahellir.

Skammt fyrir vestan Vellankötlu, vestan-við gamla veginn, en norðan-við hinn nýja, eru Tjarnir. Norðaustan við þær eru Ámundahólar, að mestu grasi og skógi vaxnir. Austur af þeim er Nýi-stekkur; hvaðan hann hefir verið notaður, er mjer ókunnugt um, en líklega hefir það verið frá Skógarkoti. Þar norðaustur af er Nýi-Þingvallahellir; fann Pjetur Jónsson, smali á Þingvöllum, hann skömmu fyrir aldamót 1900; var hlaðinn fram af honum forskáli, eins og venja var til, og hann var tekinn í notkun í stað hins gamla, sem áður var getið, en hann var síðan lítið eitt notaður frá Arnarfelli. Suður frá honum er brekka með vörðubroti; heitir Skúti. Þar norður frá, vestan í hallanum, eru Klukkuhólar; þeir eru tveir stórir grjóthólar með lautum og skógi; standa þeir andspænis hvor öðrum, með slakka á milli. Norður frá þeim, einnig vestan í hallanum, er Viðarklettsskógur, með kletti þeim, er skógurinn ber nafn af, norðast og austast sunnan undir svonefndum Höfðum; nær skógur þessi austur á fulla hæð Brúnar og niður að Eyðum, sem eru skógarlausar mosaflesjur. Austur frá Klukkuhólum, uppi á Brúninni, þar sem hún er hæst, er Hábrúnarklettur; er það einnig grjóthóll og ekki stór. Sunnan og vestan í Brún er skógur þjettur og hraunið grösugt, svo að þar sjest valla á stein eða flag, nema þar, sem einstakir stórir grjóthólar eru, þrátt fyrir, að þar var allt af mest áníðslan með fjárbeit og skógarhöggi. Frá Hábrúnarkletti liggur gjá, sem víða er að eins smáholur, suður hjá Litlugjáarhól og niður að Vellankötlu; heitir hún Litlagjá og var hinn mesti háski fjenaði á vetrum, er snjóar voru, og unglömbum á vorin.

Þingvallahellir

Í Þingvallahelli.

Eins og áður er sagt, heitir Klukkustígur þar, sem hverfur hallinn á vestri barmi Hrafnagjár. Alla leið þangað frá Hallstíg er gjáin djúp, breið og að öllu hin hrikalegasta. Þar fyrir norðan verður austurbarmurinn hár á dálitlum kafla, en vesturbarmurinn nær því jafn hrauninu, enda hækkar það þar á ný og hallar mót suðvestri; heitir sá halli Sigurðarsel. Sunnan í því er stór og falleg brekka, sem heitir Sigurðarselsbrekka; suður frá henni, vestur af Klukkustíg, er stór hóll, sem heitir Klukkustígshóll. Á gjánni, þar sem barmar hennar eru orðnir jafnir, er Selstígur; þar norður frá eru fornar tóftir, sem má ske hafa verið hið virkilega Sigurðarsel. Skógur var um 1900 stærstur og sverastur í Sigurðarseli, en þar fyllist fljótt að snjó, sjerstaklega í norðaustan hríðum. Við norðvesturhorn Sigurðarsels er Hellishæð. Það er há hæð, sem snýr h. u. b. í austur og vestur, með skógivaxna grasbrekku að sunnanverðu. Uppi á henni er hellir, ei all-lítill, sem notaður var frá Skógarkoti til fjárgeymslu. Hann var mörgum hellum betri að því leyti, að hann var talsvert hár, en blautur var hann þar, sem gólfið var lægst. Lægð lítil er við vesturenda Hellishæðar; fyrir vestan hana er Litla-Hellishæð, dálítill hóll með vörðubroti; sunnan undir henni, niður á Brún, er klettahóll, sem heitir Þorkelsklettur. Norðvestur frá Litlu-Hellishæð er stór, sundurtættur klappahóll, sem heitir Ketilhöfðaklettur.

Þingvellir

Þingvellir – örnefni.

Frá Litlu-Hellishæð hallar suðvestur að Viðarklettsskógi og vestur að Höfðum, sem eru skógi og grasi vaxnar hæðir og lautir, og ná þær norður að Mosalág, norður að Ketilhöfða.
Vestan í hallanum, niður að Mosalág, heita Sláttubrekkur. Mosalág er laut stór eða dalur norðan-undir Höfðum, vestan undir Sláttubrekkum. Norðan við hana heitir Magnúsarklettsskógur. Vestan við hana er Mosalágarhæð, stór grjótbali, sem snýr h.u.b. í norður og suður.
Austan-frá Sláttubrekkum, norður af Hellishæð, er Flekkuhóll; er hann stór um sig, með smáhólum og lautum, allt skógi og grasi vaxið. Norður af honum og Sláttubrekkum er Bruni; var þar eyða mikil í skóginn, sem stafaði af því, að kviknað hafði í reiðingi á hesti og eldurinn komizt í skóginn. Það mun hafa skeð um 1859 (eða ’60). Var sá blettur þraut-beittur á vetrum; voru þar oft hagar, þótt litlir væru annars staðar, og færð betri, því að þar reif snjó meira, vegna skógleysis. Þrátt fyrir beitina óx þar aftur skógur smátt og smátt; um aldamót voru komnir runnar um allan blettinn, en sást þó mjög greinilega fyrir honum. Um 1930 sást hann tæplega eða alls ekki.

Þingvellir

Þingvellir – örnefni.

Norðaustur-af Bruna eru Selhólar tveir, annar með vörðubroti. Þeir eru rjett norður frá Flekkhól. Norðaustur af þeim er Syðri-Gapahæð; snýr hún í suðaustur og norðvestur; er hún skógi vaxin að suðaustan, en skógarlítill að norðaustan. Vestan í henni er sjerstakur klapparhóll; hann heitir Grenhóll.
Austur af Flekkuhól, norður frá Selstíg, eru tveir stórir, sjerstakir hólar með litlu millibili. Þeir heita Svínhólar. Þar er Þingvallahraun hæst og hallar þaðan í allar áttir, nema austur. Er þaðan víðsýni mikið. Suðaustur af Svínhólum, norðaustur af Hrafnagjárenda, er allstór hóll, sem Rauðhóll heitir. Fyrir norðan Svínhóla kemur Hrafnagjá aftur í ljós, þó miklu sje hún minni en að sunnanverðu, og heitir nú Gaphæðagjá, og í Innri-Gapahæð hverfur hún alveg.

Þingvellir

Skógarkot – örnefni.

Nokkurn spöl suðaustur af Svínhólum eru Gildruholt. Þau eru á vesturtakmörkum Hrafnabjargaháls. Hallar frá þeim í allar áttir, nema austur, en eru hærri miklu Svínhólum. Þau eru á austurbarmi Gildruholtsgjár, sem byrjar í Gjábakkahrauni, skammt austur af Hallstíg, og heitir Bæjargjá þangað til vegurinn liggur yfir hana á móts við Gjábakkabæ; svo fær hún hitt heitið norður fyrir Gildruholt. Þar hverfur hún á dálitlum kafla, og heita þar Hlíðarflár. Bilið milli Hrafnagjár og Gildruholtsgjár heitir einu nafni Torfa. Gildruholtsgjá er að því leyti frábrugðin Hrafnagjá og Almannagjá, að vestri barmur hennar hefur sigið rjett niður með þeim eystri án þess að gjáin opnaðist nokkuð að ráði, svo að þar ketur fremur kallazt berg en gjá. Hlíðarflár eru dálítill blettur vestan í Hrafnabjargahálsi. Norður-af þeim opnast gjá mikil, sem heitir Hlíðargjá, sjest fyrir henni alla leið inn í Skjaldbreið, og heitir Söðulhólagjá fyrir norðan Prestastíg. Vesturbarmur hennar er að mestu eins og áðurnefndur Hallur, hann er hærri en hraunið að vestanverðu, og heitir Raftahlíð allt að Prestastíg.

Skógarkot

Skógarkot – heimtröðin.

Norður af Svínhólum hallar hrauninu talsvert til norðurs og norðvesturs. Þar eru Gapahæðir, syðri og innri; á milli þeirra er skógarlítið svæði. Þar er hóll einn sjerstakur, holur að innan, sem hæðirnar bera nafn af; ofan-í hann er op stórt og heitir því Gapi. Rjett hjá honum er annar hellir í flötum bala, sem hafður var til fjárgeymslu frá Hrauntúni, þó illur væri. Innri-Gapahæð snýr meira til norðurs og suðurs en sú syðri og er skógarlítil. Að vestan og norðan við Gapahæðir eru flatir hellubalar, mosavaxnir, með lautum og slökkum, og skógarrunnum og hríslum í brúnunum, nema á litlu svæði norður-með Raftahlíð eða Hlíðargjá, sem getur fremur heitið heiði eða móar allt norður að Prestahrauni. Það er nokkuð stór brunahraunsblettur með skörpum brúnum. Vestur af Prestastíg, sem er á h.u.b. miðri Hlíðargjá, er Hlíðarstígur. Norður af Gapahæðum, fyrir norðan áðurnefnda mosabala, eru lítið áberandi hæðir, sem snúa h. u. b. í austur og vestur. Þær heita Einiberjahæðir. Þar fyrir norðan, og vestan Prestahraun, heitir Höfðaskógur; hallar honum lítið eitt mót suðri. Takmarkast hann að norðan af stórum grjótbala, sem snýr austur og vestur; hann heitir Brúnkolluhöfði, og eru þar takmörk þess virkilega Þingvallahrauns. Þaðan heita Mjóafellshraun alla leið að Skjaldbreið, frá Söðulhólagjá að Mjóufjöllum (-fellum).
Sunnan-á Mjóafellshrauni eru auðsjáanleg tóftarbrot og grasblettur. Það heitir Litla-Hrauntún, og hefur þar líklega bær verið. Vestur frá Brúnkolluhöfða og vestur að Hrauntúnsbæ heita einu nafni Skygnirnar, eru það hæðir, lautir og hólar, grasi og skógi vaxið. Þar, sem hæst er, heita Háskygnirahólar. Góðan kipp þar norður frá er Mjóafellsvarða á grjóthól einum. Þar norður frá er skógi vaxið hraun allt að Ármannsfelli og upp að Syðra-Mjóafelli. Austur úr Ármannsfelli gengur lág öxl með grasbrekku sunnan í, sem heitir Sláttubrekka og er þjett við veginn inn á Hofmannaflöt. Litlu fyrir sunnan Sláttubrekku eru sandflatir, sem ganga niður í hraunið, dálítið vaxnar skógi og eru auðsjáanlega myndaðar af vatnsrensli úr fjallinu. Þær heita Víðivellir. Þar er fyrst getið um, að Glámur sálugi hafi sjest; var þar að reiða hrís á einum hesti, eftir því sem Grettissaga segir.”

Annar kafli

Þingvellir

Þingvellir – Vellankatla.

“Vestan Vellankötlu ganga tangar nokkrir út í vatnið; lengst skaga þar fram Grunnhólar. Fyrir austan þá eru Nautatangar. Grunnhólar eru talsvert hærri en hraunið þar í kring, sem er að mestu lágt og flatt. Upp undan Nautatöngum er Jórunnarvarða; þar varð úti 1884 kona frá Skálabrekku, er Jórunn hjet. Nokkru þar fyrir vestan gengur langur og krókóttur tangi út í vatnið; heitir hann Öfugsnáði, og veit jeg ekkert hvernig á nafninu stendur. Var hann oft notaður til aðrekstrar á vorin frá Skógarkoti. Vestan við hann er löng og hringbogin vík, sem oft er notuð til lendingarstaðar, þegar veiðin er bezt þar framundan. Hún heitir Öfugsnáðavík. Þar úti í vatninu er hólmi, sem heitir Langitangi; verpa þar bæði andir og kríur. Litlu vestar er Vatnskot. Þar voru víst fyrst hús fyrir ær og lömb frá Þingvöllum og síðar var þar það, sem kallað er þurabúðar- eða húsfólk. Það er, að það hafði ekki kýr eða bjó ekki við málnytu; þó mun það hafa haft einhvern sauðfjenað. Þess voru dæmi, að þar bjuggu tvær fjölskyldur.
Vestan við öfugsnáða er Vörðuvík, og vestan við hana Dagmálavík; er hún austan við Vatnskotstún. Þá er sker, sem heitir Murtutangi. Stutt fyrir ofan Vatnskot heita Hryggir; er það hólaröð, sem snýr austur og vestur. Austan-við þá er Þuríðarvarða; stendur hún á smáhól upp af Vörðuvík. Skammt austar og norðar er Fuglstapaþúfa. Þar austur frá, allt að Mel, eru mosaflesjur skóglausar, sem heita Eyður, upp að svonefndum Sauðasteinum, sem eru háir hellubalar með grasbrekkum að sunnan; snúa þeir austur og vestur. Austan við þá og Hellisvörðu var götuslóði frá Skógarkoti að Öfugsnáða, kallaður Veiðigata.

Þórhallsstaðir

Fjárhústóft í Ölkofra – Þórhallsstöðum.

Upp af Grunnhólum, vestan-við Tjarnir, eru stórir hólar með djúpum lautum á milli, sem heita Klifhólar. Skammt norður frá Tjörnum liggur vegurinn yfir bratta klapparhæð; heitir hún Melur. Þaðan gengur lægð til norðausturs, vestan undir Brúnarhallanum. Það heitir Lágbrún; nær hún allt að stórum grjóthól, sem lokar fyrir norðurenda hennar. Á hól þessum er varða, sem heitir Stórastekkjarvarða, og er hún beint niður frá áðurnefndum Nyrðri-Klukkuhól. Þaðan eru óreglulegir hólar og balar til norðvesturs heim undir Gamla-stekk; heita þeir Stekkjarvörðubalar.
Að norðvestan við Lágbrún er ávalur jafn halli að henni, sljettur að ofan, sem heitir Leiti; nær það frá Stekkjarvörðubölum með Lágbrún að Hrútabrekkum, sem eru vestan í löngum grjóthól frá norðri til suðurs, austan vegarins. Leiti nær einnig alla leið heim að Gamla-stekk; hann er norðvestast á Leitinu og var notaður frá Skógarkoti. Stekkurinn er þar, sem líkur eru fyrir, að ölkofrastaðir hafi verið. Þar bjó Ölkofri eða Þórhallur sá, er ölið bruggaði fyrir alþingisgesti og brenndi Goðaskóg. Þar var haldið við litlum túnbletti fram undir 1900, og þar var brunnur fram yfr þann tíma, sem var þrauta-vatnsból frá Skógarkoti; hann þraut ekki, nema þegar þurkar og frost hjeldust vikum samam Ölkofrastaðir eða Gamli-Stekkur eru suðaustan undir hárri hæð, sem heitir nú Stekkjarhæð, og er þar skjól talsvert í norðanveðrum. Vestan í hæðinni er mjög djúpur dalur með bröttum brekkum og klapparbrúnum, sem einnig er kenndur við ölkofra, og vestan við dalinn er Ölkofrahóll.

Hallshellir

Í Hallshelli.

Vestur að Hrútabrekkum, að Sauðasteinum, heitir Hrútabrekkuskógur. Skammt fyrir ofan Sauðasteina, vestan-við Veiðigötu, þar sem fyrst sjezt heim að Skógarkoti, þegar gatan er farin, er lítill hóll með smá vörðubroti; hún heitir Hellisvarða. Þar undir er hinn frægi Hallshellir, sem um nokkur ár dró að sjer athygli fjölda fólks, og skal nú skýrt frá, hvernig hann fjekk frægð sína.
Sumarið 1902 var sá, er þetta ritar, vinnumaður í Skógarkoti hjá Hannesi bónda Guðmundssyni. Þá var þar einnig drengur, sem heitir Kristján Schram og nú hefur í mörg ár verið starfsmaður hjá Gasstöðinni í Reykjavík. Eitt sinn, er við komum úr veiðiför neðan af vatni, hvíldum við okkur í laut þeirri, sem er norðan við hólinn; fundum við þar litla holu, sem var að mestu lokuð af jarðvegi og lyngi. Þegar við rifum þar til, komum við niður í helli, auðvitað „fullan af myrkri”. Síðar fórum við þangað með ljós og sáum, að hellirinn var talsvert stór, og garður hlaðinn um hann þveran; fyrir innan garðinn er hann svo lágur, að skríða verður á fjórum fótum.
Næsta sumar, 1903, var á ferð á Þingvöllum enski rithöfundurinn Hall Caine. Hann hafði heyrt talað um helli þennan, skoðar hann og þykist finna eitthvað merkilegt við hann, sem hvorki hann sjálfur eða aðrir vissu hvað var. (Dr. Björn M. Ólsen og dr. Jón Stefánsson rannsökuðu hellinn með
Hall Caine í september 1903, og dr. B.M.Ó. skírði hann. Sjá grein eftir dr. J. St. í Ísafold, XXX., bls. 239. M.Þ.). Svo var hellinum gefið nafn hans, og hann kallaður Hallshellir, og verður nú frægur mjög. Þyrpist þangað múgur og margmenni, sem allt verður vonsvikið á merkilegheitunum, sem von var, en gaf bóndanum í Skógarkoti góðan skilding, því að allir þurftu á fylgd að halda, og kostaði hún krónu í hvert skipti. Dýrð þessi mun hafa staðið eitt eða tvö sumur; svo fjaraði þessi heimska út, eins og fleiri, og er Hallshellir nú fyrir löngu fallinn í þá fyrri gleymsku.
Rjett fyrir ofan Hrútabrekkur er brött klöpp í veginum, sem heitir Pelahella. Vestur af henni, austan Veiðigötu, eru smáhólar, sem heita Gráuklettar. Traðirnar í túninu liggja til suðvesturs; fram af þeim er stór, sljettur hellubali, sem heitir Vaðmálsbali; munu þar hafa verið breidd vaðmál til þerris; þar var einnig þurkuð ull, meðan það var í tízku. Yfir Vaðmálsbala liggur vegurinn við túngarðinn og frá honum, einnig Vatnskotsgata og Veiðigata.

Skógarkot

Í Skógarkoti.

Jón Kristjánsson, er bjó í Skógarkoti 1840—84, stækkaði þar túnið talsvert til suðurs; sú stækkun er kölluð Gerði; þar voru kvíaær bældar á nóttum, þegar búið var að hirða af því heyið. Þangað voru einnig kvíarnar fluttar; var ánum hleypt út eftir kvöldmjaltir, og lágu þær hreyf ingarlausar, þar til birta tók. Í túninu suðaustur af bænum er djúp laut, er Möngudalur heitir. Beint austur-af bænum er bali dálítill, sem heitir Harðhaus. Þar var ætíð hafður hrísköstur, sem notaður var til eldsneytis á vetrum. Bærinn stendur sunnan í hæð, sem nefndur var Balinn; uppi á honum voru fjárhús og heyhlöður. Þar, sem hann er hæstur, er sundurklofinn hóll, sem heitir Rjettarhóll. Austan við hann, norðan-við túngarðinn, var fjárrjett, og austanvið túnið tvö lambhús; nú er allt þetta óþarft orðið. Austast í túninu var brunnhola, sem fljótt þraut vatn í; var þá eins og í gamla daga leitað til gamla Ölkofra með drykk, og ef hann þraut, sem sjaldan var, meðan brunnurinn var hirtur og haldið við, varð að sækja vatn á hestum niður í Tjarnir, h.u.b. hálfrar stundar ferð.
Milli túnsins í Skógarkoti, norðan við götu, sem liggur að Ölkofra, er dálítill klapparbali, sem heitir Þverhóll. Austan við túngarðinn eru litlir klapparhólar; þeir heita Brunnklettar. Austur af lambhúsum, fyrir austan túnið, er stór hóll sundurklofinn; sem heitir Skygnir; er þaðan gott til yfirsýnar austur í Brúnarhallann og yfir hraunið þar á milli. Hjeðan hallar hrauninu lítið eitt austur að Höfðum og Mosalágarhæð; er á þessu svæði skógarlítið, og þar eru Eyður þær, sem áður voru nefndar.

Skógarkot

Skógarkot – rétt.

Góðan kipp austur frá Skygni er hæð lítil, sem snýr frá norðri til suðurs, með brekku vestan í, sem heitir Sand-„Gíslahæð”. Í brekkunni er lítið gildrag með sandflagi, og gæti hugsazt, að hæðin hefði nafn af gilinu og rjetta nafnið væri Sandgilshæð; stutt fyrir austan hana eru strýtumyndaðir smáhólar, sem heita Strýtuhólar. Þar fyrir austan tekur við áðurnefndur Magnúsarklettsskógur með Mangúsarkletti h.u.b. í miðju; er það nokkuð hár, sjerstakur hraunklettur; nær skógur þessi í austur að smáhólum, sem heita Músarhólar; eru þeir rjett fyrir norðan .áður-nefndan neðri eða vesturenda á Bruna; norður frá þeim ganga lágir og sljettir mosabalar með gras- og skógarlautum, allt austur að Syðri-Gapahæð.
Rjett fyrir norðvestan túnið í Skógarkoti er brekkumynd vestan í hæð, sem heitir Rjettarhæð; skammt norðvestur þaðan eru vörðubrot á þremur smáhólum; þær heita Jafningjar. Austan við þær liggur hin nýja gata upp að Hrauntúni, sem rudd var um 1910 til 1912; áður var gatan upp svonefndar Brúnir.
Austur frá Jafningjum, skammt norðaustur frá túninu, heita Djúpudalir; eru þeir tveir. Þar austan við er hin gamla Hrauntúnsgata; á milli Djúpudala og Skygnis er hóll með vörðubroti, sem heitir Gráa-varða. Þaðan frá Djúpudölum, hækkar hraunið norður eftir, og er það kallað einu nafni Brúnir. Er fyrst Neðsta-brún; austast á henni er Smalavarða; er það dálítil grjóthrúga, norður og upp frá Strýtuhólum; brúnin er einnig kölluð Smalavörðubrún. Vestur frá henni, norður frá Djúpudölum, eru hólar nokkrir, er heita Hrútaklettar. Dálítið ofar en Neðsta-brún er Mið-brún, þá Efsta-brún.

Þingvellir

Hrauntún – örnefni.

Þar sjezt fyrst heim að Hrauntúni, þegar þessi gamla gata er farin. Austur af Miðbrún eru Stórhólar tveir, þar sem hækkar hraunið til norðausturs frá Mosalág, þar til nokkuð fyrir norðan Músarhóla og upp undir Tvívörður. Þær eru í stórum bala, bar sem hraunið hættir að hækka, og heita þær nú Þorsteinsvarða. Því að rjett fyrir 1900 var vinnumaður í Skógarkoti, sem Þorsteinn hjet Þorbergsson, og hlóð hann eina vörðu úr tveimur. Frá Efstu brún er mishæðalítið, gras- og skógarlautir með smáhólum, heim að Hrauntúni. Stutt vestur af Efstubrún er vörðubrot lítið, sem heitir Markavarða. Í Þingvallalandi var engum afnotum skipt milli hjáleignanna, nema skógarhöggi.
Norður af Jafningjum er stór hæð, og norður af henni Miðhólar, smáhólar nokkrir; á milli þeirra og Markavörðu er alleinkennilegur hóll, klofinn mjög og grasi gróinn að neðan; hann heitir Eyvindarhóll. Hjá honum liggur hin nýja gata milli Hrauntúns og Skógarkots.

Hrauntún

Garður í Hrauntúni.

Frá Markavörðu, fyrir norðan Eyvindarhól, gengur lægð talsverð til vesturs; sunnan við lægðina er óglögg skógarrönd niður að Miðhólum, en norðan-við hana eru hæðir, vaxnar þjettum skógi og grasi, svo að varla sjezt á stein; þær heita Kolgrafarhólshæðir; hæst á þeim er vörðubrot, sem heitir Litla-Grímsvarða (Manni kemur til hugar hvort hún kunni að vera kennd við Grím litla eða hlaðin í öndverðu af honum. Hann mun hafa búið á Grím(s)stöðum (nú Grímastöðum); sbr. Árb. 1905, bls. 44—46. M.Þ.), sem nú hefir lengi verið kölluð í daglegu tali Grímsvarða.
Við vesturenda hæða þessara er Kolgrafarhóll. Þaðan gengur lægð til norðausturs alla leið að Stóruvörðu. Hallinn austan við lægðina heitir Þrívarðnaskógur, sem hefur nafn af þremur vörðum á austurbarmi Þrívarðnagjár, norðan við götu þá, sem er frá Hrauntúni út á Leira. Gjáin er að mestu gjárholur á hraunbrúninni, þar sem lægðin byrjar að myndast frá Kolgrafarhæðum norður-fyrir Þrívörður. Vestanvið slakkann hækkar hraunið á dálitlum kafla vestur að Leiragjá (Hún mun vera Kolsgjá sú, er Ari fróði getur um í Íslendingabók; sjá Árb. Fornlf. 1880—81, bls. 38, nrn, M.Þ.),.. Í miðjum slakkanum er Birkihóll, talsvert stór um sig, klofinn mjög og skógi vaxinn.
Frá Þrívörðum austur að Hrauntúni er hraunið fremur sljett, grösugt og skógi vaxið. Ejett fyrir vestan túnið er Litlavarða og þjett við túngarðinn að vestan Hellishóll. Hrauntún var fyrst sel frá Þingvöllum, en 1830 byggði Halldór Jónsson þar, og bjó þar í mörg ár. Árið 1935 var það lagt algjört í eyði, eins og aðrar jarðir í Þingvallahrauni. Stutt fyrir austan túnið er Skygnisvarða; þar byrja Skygnirnar þeir, er fyr voru nefndir. Að sunnan við þá gengur slakki austur að Klofhól, sem er suður af Háskygnirahólum.

Hrauntún

Í Hrauntúni.

Stutt austur af Skygnisvörðu er Hálfavarða, og er hún sízt meira en hálf. Á móti henni, sunnan við slakkann, eru litlir grjóthólar, sem heita Gráuklettar, norðan við Gaphæðaslóða, sem að mestu voru fjárslóðar og lágu austur að Gapa; góðan kipp þar suður af er áðurnefnd Þorsteinsvarða. Dálítið austur af Hálfuvörðu er Gamli-stekkur; í djúpum hólkrók sjest þar glöggt til tófta. Nokkuð í hásuður þaðan er Þorsteinshóll og suður af honum Kolgerðir, mishæðótt svæði í skóginum.
Norðaustur frá Hrauntúnsbæ gengur annar slakki norðan Skygnira, norðaustur að Brúnavörðu. Eftir slakka þessum liggur Víðivallagata, sem notuð var til heyflutninga af Hofmannaflöt í mörg ár. Norður af Gamla-stekk, sunnan götunnar, eru Stórhólar tveir; vestan hennar er Lamabgjárhraun alla leið frá Hrauntúni að Ármannsfelli, austur að Víðivöllum og vestur að Sandskeiðum. Austast í því, norður af Stórhólum, er Jarpmerarhóll. Þaðan norð-aústur frá eru Brúnir með samnefndri vörðu á hæsta hólnum austan götu; er hún góðan kipp suður frá Víðivöllum og suðvestur frá Mjóafellsvörðu, sem áður hefur verið getið. Norðausturaf Brúnavörðu er laut, sem oft stendur í vatn; þar heitir Grýlupollur.

Sleðaás

Réttin undir Sleðaási.

Frá Sláttubrekku eru ekki örnefni í sjálfu Ármannsfelli á þessu svæði, en Stóragil er upp af Lambagjárhrauni og Litlagil upp af Sandskeiðum, og Kriki þar, sem Sleðaás gengur fram úr fjallinu.
Rjett fyrir norðan túnið í Hrauntúni er hóll, stór og djúpt klofinn, og hefur verið notaður til að geyma í kindur yfir stuttan tíma, með því að hlaða fyrir sprunguna, og er hún grasi vaxin í botninn. Hóllinn heitir Lambagjá. Stutt þar norður frá ber hæst á litlum, skörpum hól, sem heitir Nibba). Norður þaðan er Kerjavarða; ber hún nafn af kerjum nokkrum, sem þar eru. En ker eru hellar, sem þakið hefur fallið niður í og engin útgangur er úr, nema beint upp. Þau voru oft hættuleg fje, sem hljóp þar niður, en komst ekki upp aftur. Þau eru venjulegast í sljettum bölum. Efst í Lambagjárhrauní, niðurundan Stóragili, er stekkur, sem notaður var frá Hrauntúni, þar til, að ekki þurfti meir á að halda.
Í norðvestur frá Hrauntúni gengur smáhólaröð með skógar og graslautum. Þar er Gráavarða stutt frá túninu; lengra þaðan vestur er Stóra-varða; hún stendur á stórum bala, sem lokar áðurnefndum slakka að norðaustan. Stutt austur frá Stóruvörðu er djúp laut, sem snýr frá austri til vesturs og heitir Langalág. Þar norður af byrja Sandskeið, sem eru sandflög, runnin niður úr Ármannsfelli í leysingum.
Vestan Krika gengur Sleðaás suðvestur úr fjallinu. Kriki er allur þjettum skógi vaxinn og er einn með fegurstu blettum í Ármannsfelli. Við suðurenda Sleðaáss eru gamlar fjárrjettir, hlaðnar úr hraungrjóti 1876. Þær var hætt að nota 1910. Frá þeim liggur Rjettargata heim að Hrauntúni, og kemur vegurinn frá Ármannsfelli saman við hana neðst á Sandskeiðum, liggur þaðan austan Löngu-lágar og vestan Lambagjár heim í traðir í Hrauntúni.”

Þriðji kafli – (Þessi kafli er að miklu leyti saminn eftir upplýsingum frá Símoni Pjeturssyni í Vatnskoti.)
“Við Vatnskotsbæ er vík ein, sem heitir Grýla; er í henni uppsprettuvatn og er hún notuð sem vatnsból frá Vatnskoti. Þá er Naustavík. Þá Vatnsvík, og þar suður af Vatnskotshólmar. Skammt vestur af Vatnsvík er Breiðitangi, og samnefnd vík er inn með honum að vestan. Þá er Grjótnes, með Grjótnesvík að vestan. Þá Garðsendavík, og er þá komið að Lambhaga, en svo heitir tangi, sem skagar langt fram í vatnið suðaustur frá Þingvöllum. Fyrir sunnan Garðsendavík er Olnbogi; Litlu sunnar er Tvítóla eystri; þar suður af er Prestshólmi og vestur af honum er Tvítóla vestri. Þar skammt suður af er Lambhagatá. Nokkru norðar að vestan er allstór vík, sem heitir Óhemja. Tanginn, sem skagar lengst í vestur, heitir Leirutá. Vatnið þar fyrir innan til Þingvalla er kallað Leira. Örnefni eru engin í Lambhaga, nema hólabelti, sem liggur þvert yfir hann þar, sem tanginn byrjar, og heita þeir Lambhagahólar, og á þeim er grjótgarður gamall.

Vatnskot

Vatnskot – minjar.

Vestur frá Vatnskoti liggur götuslóði til Þingvalla, sem kallaður var Vatnskotsvegur; lagðist hann af að mestu 1907, er hinn nýi vegur var lagður litlu ofar. Með gamla veginum vestur frá Vatnskoti eru óreglulegir balar, sem nefnast Hrossbeinar. Litlu vestar er Katthóll, einstakur hóll með hundaþúfu. Þá nokkru vestar er Kolgrafarhóll. Þar upp af er Kolgrafarhólshæð, og ber hana hæst milli Vatnskots og Þingvalla. Þar liggja gjásprungur til norðausturs og heita Kolgrafarhólsgjár. Þaðan skammt vestur er Hellugjá. Þá er Háagjá. Þar suðvesturaf er Silfruhæð, allstór bali frammi við vatnið; vestan undir henni er Silfra, gjá, sem svo heitir, sennilega vegna hins silfurtæra vants, sem í henni er, og liggur hún að Fjósaklifi þar, sem gamli vegurinn liggur heim að Þingvöllum. Vestan við Silfru er allstór klapparhóll, mjög sundurrifinn, sem heitir Silfruhóll. Rjett fyrir norðan hann er annar hóll, allmikið sundurtættur, sem heitir Dagmálahóll, og norðan undir honum dalur samnefndur. Norðaustur af hól þessum heitir Stöðull; er það hvammur, nokkuð sljettur; þar var fjárrjett og kvíastæði frá Þingvöllum. Vestan við Dagmálahól er Fjósagjá, full af vatni; er nú komin brú á hana á nýja veginum. Vestan við hana er hóll í Þingvallatúni, sem heitir Svelghóll. Suður af honum er Fjóshóll. Norðvestur af honum er dæld, sem Skeggi heitir; hana fyllti sjera Guðmundur Einarsson upp með grjóti. Þar vestur af er Miðmundatún. Norðast á því er Danski-dalur. Þá eru Biskupshólar, norðan við Þingvallabæ, vestan traðanna; austan þeirra er Klukkuhóll (247). Þar austur af er Kirkjutún að Kattargjá, sem liggur um Skötutjörn. Þar fyrir austan eru Seiglur; um þær liggja Seiglugjár. Norðan við Þingvallatún rennur lind ein úr gjáarsprungu, sem klakhús var byggt yfir um 1880 af sjera Jens Pálssyni; var það eitthvað notað stuttan tíma frá Þingvöllum.

Vatnskot

Vatnskot – minjar.

Skammt fyrir austan Þingvallastöðul er Háagjá; yfir hana liggur Gönguvegurinn frá Skógarkoti á svonefndum Steinboga. Litlu suðvestar er stígur, sem heitir Brúnstígur. Þar fyrir austan Háugjá er Hellugjá og Hellugjárbalar, fyrir sunnan Gönguveg. Skammt austur af þeim liggur Gönguvegur um allstóran, lágan bala; hann heitir Svuntubali.
Nokkuð austur-af honum heitir Nónhæð. Suðaustur af henni eru þrír hólar, sera heita Nónhólar, og mun það vera nónsmerki frá Skógarkoti. Nokkru sunnar er varða á hól, sem Digravarða heitir, rjett vestan-við götu, er liggur frá Skógarkoti að Vatnskoti. Suður af Svuntubala er hóll einn með þúfu upp á, sem heitir Nautaþúfa. Suður af henni er allstór bali; þar, sem byrjar að halla suður af honum, er vörðubrot, er Biskupsvarða, heitir, og svæðið umhverfis hana Biskupsvörðuskógur; takmarkast hann að vestan af Kolgrafarhólsgjá, en að austan af Fjárhúshólshrygg; er það klapparbali, sem snýr norður og suður rjett niður að hinum nýja vegi. Suður af honum er allstór hóll, nokkuð sprunginn, sem heitir Fjárhúshóll, og er hann aðalsjónarhæð frá Vatnskoti.
Frá áðurnefndum hryggjum fyrir ofan Vatnskot er örnefnalaust að Vatnsdalshæð. Hjá henni er Vatnsdalur, austan Vatnskotsgötu. Þar norður frá er lítill, klofinn hóll, sem heitir Gjáhóll. Í suðvestur af túninu í Skógarkoti, stutt sunnan við veginn, gengur sljettur klapparbali, og djúp laut í kring að sunnan og vestan. Hann heitir Helluhholt. Þar skammt vestur af er Lýtingsvarða; stendur hún á bala með alldjúpum lautum; heita þeir Lýtingsvörðubalar. Suður af Helluholti er áðurnefndur Gjáhóll. Gönguvegur liggur yfir Helluholt hjá Lýtingsvörðu.

Þingvellir

Skötutjörn á Þingvöllum.

Skammt fyrir vestan Skógarkot er dálítil hólaþyrping; eru hólarnir vaxnir þjettum skógi og grasi, og hallar bæði suður og vestur af þeim. Þeir heita Skógarhólar. Sunnan við þá er lægð, sem hækkar aftur suður að Nónhólum; er þar skógarlítið pláss, allt vestur að Þingvöllum. Góðan kipp norðaustur frá Skógarhólum eru Krókhólar; einn þeirra, sá norðasti, er alveg sjerstakur, en allir eru þeir stórir og með djúpum lautum. Mitt á milli þeirra og Eyvindarhóls eru Miðhólar norðan í skógarröndinni. Frá Krókhólum að Kolgrafarhól, og vestur að Sandhólum og Leiragjá, eru að mestu skógarlausir mosabalar. Sunnan í Skógarhólum liggur vegurinn út á Þingvelli; skammt vestur frá þeim er Háagjá; hún stefnir eins og allar aðrar gjár í nánd við Þingvelli í norðaustur og suðvestur; er á henni stígur, sem vegurinn liggur yfir. Næsta gjá þar stutt fyrir vestan er Vallagjá, sem vegurinn liggur einnig yfir. Vallagjá er framhald af Flosagjá og Nikulásargjá. Vallastígur heitir þar, sem vegurinn liggur yfir Vallagjá, og er þá komið á Þingvöll. Kippkorn norður frá Vallastíg eru tveir nokkuð stórir hraunhólar, sem Skyrklifshólar heita; þar norður frá eru Sandhólar, sunnan og suðaustan við Leira; þeir eru víst að mestu til orðnir úr foksandi af Leirum. Þeir eru nokkuð vaxnir skógi og víði. Í gegnum þá liggur Háagjá, sem þá heitir Sandhólagjá, að Sandhólastíg, sem er við suðausturhorn á Leirum. Þá heitir hún Leiragjá, að Jónsstíg, sem er stutt vestur frá Stóruvörðu. Leirustígur er á henni norðarlega, við Leira; um hann liggur Leiragata heim að Hrauntúni. Á milli Leirastígs og Jónsstígs hefur hún klofið stóra hæð vestur af Birkihól; hæð sú var nefnd Köst („á Köstunum”). Frá Jónsstíg heitir hún Sleðássgjá og hverfur loks undir Sleðaás.
Norður frá Þingvöllum heitir hallinn á eystra barmi Almannagjár Fagrarbekka allt að Leirum; þar kemur lækur í gegnum gjána, og hefur hann flutt efnið í Leira eins og Öxará í Þingvelli.
Norður frá Leirum, milli gjánna, upp að Bolabás, heitir Sleðáshraun. Það er talsvert stór blettur, dálítið skógi vaxinn, sunnan í móti, eins og með gjánum beggja vegna, en að mestu grjót og mosi. Bolabás er hvammur stór í Ármannsfelli, á milli Sleðaáss að austan og Fjárhússmúla að vestan.
Frá Langa-stíg, sem er upp frá norðurenda Vallanna efri, er dýpsti kafli Almannagjár, við Fögrubrekku, og heitir hún þar Snóka; þar verpir á vorin alls konar illþýði: hrafnar, smyrlar og jafnvel fálkar. 1 botni hennar var stundum heyjað frá Þingvöllum. Fyrir norðan Sóknu rennur Leiralækur; litlu norðar er Tæpistígur á Almannagjá; fyrir norðan hann heitir gjáin Hvannagjá; á henni er Leynistígur, þar, sem vegurinn liggur yfir hana; svo hverfur hún undir Ármannsfell vestast í Bolabás.” – Ásgeir Jónasson.

Heimild:
-Árbók Hins íslenska fornleifafélags, 01.01.1973, Örnefni í Þingvallahrauni, bls. 147-160.

Sigurðarsel - Þingvöllum

Sigurðarsel – uppdráttur ÓSÁ.

Hrafnabjörg

Hér á eftir verður fjallað um meint bæjarstaði Hrafnabjarga og Litla-Hrauntúns í Þingvallahrauni. Ýmsar fræðilegar skýringar hafa komið fram á hvorutveggja í gegnum tíðina, bæði frá sjálfskipuðum lærðum með skírskotun til “fræðigreina” sem og bara forvitnum um landsins hagi í gegnum tíðina.

Sleðaás

Þingvallaréttin við Sleðaás.

Að þessu sinni lögðu FERLIRsfélagar land undir fót frá Sleðaási, skoðuðu selsminjar Litla-Hrauntúns sem og Hrafnabjarga í Þingvallahrauni, tóftir beggja bæjanna og nálægar fornar leiðir um hraunið. Hitinn var um 25 °C og nánast logn. Flugan var til óþæginda, en takmarkaði hins vegar ekki áhugan á efninu.

Í Jarðabókinni 1703 fjalla Árni Magnússon og Páll Vídalín um bæina Hrafnabjörg og Litla-Hrauntún í Þingvallasveit í Árnessýslu: “Á Hrafnabjörgum hefur verið kallað norðan undir sjálfum Hrafnabjörgum c: Hrafnabjargarfjalli, eru ummæli að þar hafi verið hálfkirkja eður þriðjúngakirkja.
Sagt er að fyrir pláguna stóru hafi í allri Þingvallasveit verið 50 býli, og að Hrafnabjörg hafi þá staðið í miðri sveit (fyrst ritað Fífilvellir, en breytt af Árna í Fíflavellir).”

Grímastaðir

Grímastaðir – uppdráttur BJ.

“Vestur frá Hrafnabjörg sést votta fyrir gömlum bœjarrústum; þar vottar og fyrir því, að tún hafi þar getað verið, og þar er gjóta eða hola, sem litr út fyrir að hafa verið brunnr. Í Ármanns sögu er talað um bœ undir Hrafnabjörgum. Það er kemur til ákvæðis sögunnar „suðr frá Klyftum”, þá ætti það jafnvel betur við, að þetta væri hinir fornu Grímsstaðir, enn þetta verður ekki ákveðið. ” (Árbók Hins íslenska Fornleifafélag 1880, Um Þingvöll og Þingvallasveit, Sigurður Vigfússon, bls. 43.)

“Kluftir (sandkluftir) eru milli Ármannsfells og Mjóufjalla, Suður frá Kluftum er skógi vaxið hraun til Hrafnabjarga. En það hraun er vatnslaust og því eigi byggilégt.
Í Hraunjaðrinum við Hrafnabjörg er þó á einum stað brunnur af náttúrunni, þ.e. hraunhola með vatni, sem sjaldan þrýtur. Og hjá henni er forn bæjarrúst. Hún er að vísu nokkuð óglögg; þó má sjá, að í henni eru 2 miðgaflar, er skipta henni í 3 herbergi, sem hvert um sig er nál. 3 fðm. langt. Hin liggur nál. frá austri til vesturs og hefir vestasta herbergið dyr á vesturenda, en hin sýnast að hafa dyr á suðausturhliðinni. Breiddin á tóftunum er nál. 3 fðm. Við norðurhliðina vottar fyrir annari tóft, er einnig hefir dyr á vesturenda. Norðanmegin við þær er lítil tóft með dyr mót norðri. Svo sem 20—30 fðm. norðar er sérstök tóft, talsvert minni. Hún er tvískift, og er það glögt, að miðgaflinn er dyvalaus. Hefir austurherbergið dyr á suðausturhlið, en hitt á vesturenda. Lengd hvors um sig er nál. 2x 1/2 fðm., breiddin um 2 fðm. Þetta gæti vel verið heimahof. Stekkur gæti hún raunar líka verið, en er þó of lítil til þess á þessum stað; því hér verður að gera ráð fyrir mörgu sauðfé; tún hefir ekkert verið og þá ekki heldur kýr.
Önnur forn bæjarrúst er í hrauninu langt suðvestur frá Kluftum. Þar heitir Litla-Hrauntún. Eigi sér þar vatnsból og eigi er þar heldur túnstæði. Það kæmi nú heim við hinn fyrtalda stað í Harðarsögu (k. 5.) að Grímsstaðir, Þav sem Grímur litli bjó, hafi verið á öðrum hvorum þessum stað, og þá helzt á bænum við Hrafnabjörg. Og á því máli er Sigurður Vigfússon í Árb. 1880—1, bls. 43. (Árbók Hins íslenska fornleifafélags, Rannsókn í Árnesþingi sumarið 1904, Brynjúlfur Jónsson, bls. 44-45.)

Hrafnabjörg

Hrafnabjörg – uppdráttur BJ.

Hrauntún hefur verið kallað örnefni eitt í skóginum, sem munnmæli eru að bygt hafi verið fyrir pláguna, meinast síðan í plágunni í eyði lagts hafa og allajafna síðan í aun verið. Hefur hjer í þessu takmarki selstaða verið frá Þingvöllum svo lángt fram sem menn til muna og er enn nú, og vita menn ekkert hjer um að undirrjetta.
Anað Hrauntún hefur verið kallað verið í skóginum í norðaustur frá þessu og skamt eitt þr frá, og sjer til girðinga svo sem af túngarði. Meinast þetta hrauntún eins bygt verið hafa fyrir pláguna sem hið fyrra, en hver bæði Hrauntúnin hafi undir eins bygð verið, eður hafi bærinn verið fluttur verið og bíhaldið svo nafninu, það hafa menn ekki heyrt, og meinast þetta Hrauntúnið með sama móti eyðst hafa í plágunni sem hið fyrra. Hjer um vita menn ekki heldur framar að segja.” (Árbók Hins íslenska Fornleifafélag 1880, Um Þingvöll og Þingvallasveit, Sigurður Vigfússon, bls. 45.)

Í BA-ritgerð Gunnars Grímssonar í fornleifafræði; “Kortlagning eyðibyggðarinnar á Þingvöllum”, árið 2020 má m.a. lesa eftirfarandi: “Þingvellir eru einn merkasti sögustaður Íslands. Þar var alþingi háð frá um 930 til 1798 eða í hartnær átta aldir. Fyrsti þjóðgarður landsins var stofnaður á Þingvöllum. Voru lögin um þjóðgarðsstofnun samþykkt 1928 og tóku þau gildi 1930 þegar haldið var upp á þúsund ára afmæli alþingis. Íslenska lýðveldið var formlega stofnsett á Þingvöllum 17. júní 1944 (Björn
Þorsteinsson, 1986). Þingvellir voru samþykktir á heimsminjaskrá UNESCO árið 2004 vegna sögu og fornleifa staðarins auk gildis þeirra sem „helgistaðar þjóðarinnar“ (UNESCO, 2004).
Þingvellir
Þrátt fyrir langa sögu og miklar minjar hafa fornleifarannsóknir innan þjóðgarðsins á Þingvöllum verið færri en ætla mætti. Fjölmargar minjar hafa verið skráðar innan þinghelginnar (Sigurður Guðmundsson, 1878; Matthías Þórðarson, 1922, 1945; Guðmundur Ólafsson, 1986; Margrét H. Hallmundsdóttir, óútgefið) en lítið hefur verið um eiginlega fornleifauppgrefti, sem hafa flestir verið tiltölulega smáir í sniðum (Sigurður Vigfússon, 1881; Matthías Þórðarson, 1922, 1945; Adolf Friðriksson o.fl., 2006; Orri Vésteinsson, 2004; Margrét H. Hallmundsdóttir og Hansen, 2012). Rannsóknirnar hafa þá mestmegnis beinst að minjum innan þinghelginnar en ekki hefur verið fjallað eins mikið um minjar utan hennar, sem eru leifar eyðibyggðarinnar á Þingvöllum. Eyðibyggðarinnar er helst getið sem eins konar viðauka við umfjöllun um alþingisstaðinn (Sigurður Vigfússon, 1881; Matthías Þórðarson, 1945) en hún er sjaldan í aðalhlutverki (Brynjúlfur Jónsson, 1905) og heildstæða samantekt vantar. Aðeins hefur verið grafið á einum stað í þjóðgarðinum utan þinghelginnar, svo vitað sé (Brynjúlfur Jónsson, 1895). Hugmyndir um eðli og umfang eyðibyggðarinnar á Þingvöllum eru því langt frá því að vera fullmótaðar.

Helstu ritheimildir sem stuðst er við eru Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalíns um Árnessýslu (2. bindi, JÁM II), sóknarlýsing Þingvalla árið 1840 (Björn Pálsson, 1979), rannsóknarferð Brynjúlfs Jónssonar fornfræðings um Árnessýslu árið 1904 (Brynjúlfur Jónsson, 1905) og Þingvöllur – Alþingisstaðurinn forni eftir Matthías Þórðarson þjóðminjavörð frá 1945 (Matthías Þórðarson, 1945).
Örnefni eru einnig afar mikilvægar heimildir í þessari ritgerð en helstu heimildarmenn í þeim efnum eru Ásgeir Jónasson frá Hrauntúni (1932, 1939) og Pétur Júlíus Jóhannsson frá Skógarkoti (1983). Pétur merkti á sjöunda hundrað örnefna inn á loftmyndir á 9. áratug seinustu aldar ásamt því að skrifa ritgerðina Þingvallaþankar (Pétur J. Jóhannsson, e.d.). Framlag Péturs er ómetanleg heimild um sögu Þingvallasveitar. Einar Á. E. Sæmundsen þjóðgarðsvörður hefur tekið saman örnefnaskrár Péturs, Ásgeirs auk fleiri heimildarmanna í sérstaka örnefnaskrá þjóðgarðsins og afhent Landmælingum Íslands, sem hefur gert þau aðgengileg.

Prestatígur

Prestatígur um Þingvallahraun – ÓSÁ.

Í Jarðabókinni er skrifað um tvö Hrauntún í Þingvallasigdældinni. Í sóknarlýsingu Þingvalla 1840 er Hrauntúnið síðarnefnda sagt „suður af Mjóafelli“ og kallað Litla-Hrauntún, til aðgreiningar frá hinu fyrrnefnda (Björn Pálsson, 1979, bls. 183) sem var þá komið í byggð á nýjan leik. Litla-Hrauntún á sér enga sögu og féll því í skuggann af Grímsstöðum og Hrafnabjörgum hjá fornfræðingum. Sigurður Vigfússon (1881) minnist þannig ekki einu orði á eyðibýlið. Brynjúlfur Jónsson tileinkar Litla-Hrauntúni fjórar setningar í lok umfjöllunar sinnar um Hrafnabjörg en þar er honum mest umhugað um staðsetningu hinna fornu Grímsstaða.
Á 20. öld er Litla-Hrauntún merkt inn á mismunandi stöðum á kortum en aldrei sérlega nákvæmlega. Guðmundur Davíðsson, sem síðar varð fyrsti umsjónarmaður þjóðgarðsins á Þingvöllum, hefur á orði í dagblaðsgrein hvað honum þyki „óviðfelldið“ hve mikið finnst af röngum örnefnum á korti dönsku herforingjastjórnarinnar; bæði séu nöfnin „afbökuð og færð úr stað“ að hans mati (Guðmundur Davíðsson, 1921, bls. 1). Guðmundur segir Litla-Hrauntún vera „[…] langt norður á Þingvallahrauni, u.þ.b. mitt á milli Ármannsfells og Hlíðargjár“ (1919, bls. 67).

Litla-Hrauntún

Litla-Hrauntún; selstaða – uppdráttur ÓSÁ.

Í annarri dagblaðsgrein bætir Guðmundur við að Litla-Hrauntún sé í útjaðri skógarins og þar eru tóftir tveggja fornra bæjarstæða, sem heita hvort tveggja Litla-Hrauntún (1934, bls. 54). Ásgeir Jónasson frá Hrauntúni segir Litla-Hrauntún sunnan á Mjóafellshrauni og þar sjáist „auðsjáanleg tóftarbrot og grasblettur“ (Ásgeir Jónasson, 1939, bls. 151). Pétur J. Jóhannsson frá Skógarkoti segir Litla-Hrauntún skammt austan Víðivalla, sem eru við rætur Ármannsfells. Samkvæmt Pétri liggur leið fram hjá bæjarrústunum yfir Prestastíg (Gunnar Þórisson og Pétur J. Jóhannsson, 1983, bls. 182) en almenn málvenja á Þingvöllum er að kalla stíg aðeins þann hluta leiðar sem liggur yfir gjá. Því er ekki útilokað að fleiri en ein leið liggi yfir sama svokallaða Prestastíg, sem fer yfir Hlíðargjá. Í ritgerð sinni Þingvallaþönkum segir Pétur ennfremur að Litla-Hrauntún sé á milli gömlu og nýju sauðfjárveikigirðinganna (Pétur J. Jóhannsson, e.d., bls. 14). Nákvæmasta lýsingin af rústum Litla-Hrauntúns kemur frá Matthíasi Þórðarsyni þjóðminjaverði en hann lýsir þeim svo árið 1945: “Nyrzt er Hrauntún, nefnt Litla-Hrauntún. Sér þar fornar tóftir á 3 stöðum, og kemur það nokkurn veginn heim við frásögn Árna Magnússonar í jarðabók hans […] Sjá má greinilega hvort-tveggja bæjarstæðið, sem átt er við, og eru á hinu fyrra nýlegri tóftir, enda seltóftir frá síðari öldum, um 100 m. eru í milli. Á eystri staðnum er ein fornleg bæjartóft, sem skipt er í þrennt. – Um 40 m. fyrir norðan vestari tóftirnar eru hinar þriðju; aflöng, ferhyrnd tóft, mjög fornleg, skiptist í tvennt, og 6 m. fyrir vestan hana hringmynduð tóft. Sennilega hefur hér verið sel. – Það er lítt hugsanlegt, að hér hafi verið 2 byggð býli samtímis, en séu hér raunar 2 bæjarstæði, mun síðari bærinn hafa verið byggður einhvern tíma eftir að hinn fyrsti hafði farið í eyði. (Matthías Þórðarson, 1945, bls. 81–82).

Litla-Hrauntún

Litla-Hrauntún – bæjarstæðið.

Hér er líklegt að nafngiftir Hrauntúns og Litla-Hrauntúns hafi haft áhrif á lýsingar”.
Guðmundur Davíðsson og Matthías Þórðarson gætu hafa túlkað texta Jarðabókarinnar sem svo að verið sé að lýsa tveimur Hrauntúnum á einum stað og túlka því Litla-Hrauntún sem tvíbýli. Einnig er óvíst hvort það sem Kolbeinn Guðmundsson (1952) kallar Gamla-Hrauntún eigi við um Litla-Hrauntún eða hitt Hrauntúnið, sem aftur byggðist upp á 19. öld (sjá bls. 27).
Auk þess segist séra Guðmundur Einarsson, sem var prestur á Þingvöllum árin 1923–1928, hafa séð skálabyggingu fornmanna „[…] norðaustur í hrauninu frá Hrauntúni að sjá“, sem hann telur „víst að sé innan girðingarinnar“ (Guðmundur Einarsson, 1938). Ef meint skálarúst Guðmundar er innan gömlu girðingarinnar (sem nú hefur verið breytt í reiðgötu) gæti hún ef til vill verið af hinu svokallaða Gamla-Hrauntúni, eða verið allt annað, óþekkt bæjarstæði.

Litla-Hrauntún

Litla-Hrauntún; bæjarstæðið.

Einnig gæti Guðmundur hafa átt við rústir Gamla-Stekks, sem er sagður skammt austan Hrauntúns (Ásgeir Jónasson, 1939, bls. 156). Ef skálarúst Guðmundar er ekki innan gömlu girðingarinnar (og er í raun skálarúst) eru líkur til þess að hún sé í Litla-Hrauntúni.
Hópurinn Ferlir leitaði að Litla-Hrauntúni og staðsetti árið 2011 meintar rústir norðan yngri girðingarinnar, við leið sem liggur yfir Hlíðargjá og er líklega svonefndur Prestavegur eða Hrafnabjargavegur (Ómar Smári Ármannsson, 2011a). Hekla Þöll Stefánsdóttir, þá landvörður á Þingvöllum, gekk skipulega um landsvæðið austan Víðivalla og norðan yngri girðingarinnar 2013 án þess að koma auga á neitt (Einar Á. E. Sæmundsen, munnleg heimild, mars 2017). Sá sem þetta skrifar gekk í landvörsluvinnu sjálfur skipulega um landsvæðið sunnan girðingarinnar í apríl 2017 í leit að Litla-Hrauntúni, án árangurs.
Nokkur óvissa ríkti um staðsetningu Litla-Hrauntúns: rústirnar eru jafnt sagðar norðan þjóðgarðsgirðingarinnar og sunnan hennar og einnig við leið sem liggur yfir Hlíðargjá um Prestastíg. Svæðið þar sem Ómar Smári Ármannsson merkir Litla-Hrauntún var kortlagt með flygildi í júlí 2017 en þar var ekki hægt að koma auga á rústir á loftkorti og yfirborðslíkani.

Litla-Hrauntún

Litla-Hrauntún; bærinn.

Til að taka af allan vafa um staðsetningu Litla-Hrauntúns voru um 3,2 ferkílómetrar lands kortlagðir báðum megin yngri girðingarinnar sem og sunnan undir Mjóafelli snemma sumars 2018. Miðað var við lýsingu Matthíasar Þórðarsonar (1945, bls. 81–82) að mannvirkin væru á þremur stöðum, þar sem 100 metrar væru milli fyrsta og annars staðarins og sá þriðji 40 metrum norðan hins fyrsta. Slíkt bar góðan árangur, því við einn grasblettinn í hrauninu sunnan girðingarinnar mátti greina daufa ferhyrnda upphækkun sem líktist mannvirki og út frá henni var hægt að staðsetja allar rústir Litla-Hrauntúns.

Litla-Hraunntún

Litla-Hrauntún; seltóft.

Rústin sem sást fyrst er sú, sem Matthías Þórðarson kallar „seltóftir frá síðari öldum“ en segir þær „bera nú með sér, að þar hafi ekki verið sel æði-lengi“ (Matthías Þórðarson, 1945, bls. 81). Rústin situr ofan á lágri hæð og um 20 metrum suðvestar er grasblettur, sem Ásgeir Jónasson (1939) hefur eflaust átt við. Mögulega gæti þetta stutt túlkun Matthíasar Þórðarsonar að þarna sé sel. Fleiri minjar gætu leynst í nærumhverfi „seltóftanna“. Um 115 metrum austan „seltóftanna“ er rústin, sem Matthías Þórðarson kallar „fornlega tóft“ og segir skiptast í þrennt (mynd 24, miðdálkur). Ekki er auðvelt að færa rök með eða á móti Matthíasi þar sem rústin er mjög gróin og norðurhluti hennar virðist vera kominn undir birkirunna. Trjágróðurinn gerir það einnig að verkum að erfitt er að átta sig nákvæmlega á stærð rústarinnar en hitamyndavélin gat greint hitaójöfnur í gegnum laufskrúða
trjánna. Þriðji minjastaðurinn er um 40 metra norðan „seltóftanna“ og þar eru a.m.k. tvær rústir. Sú stærri er aflöng og tvískipt, snýr SA–NV og er kölluð „mjög fornleg tóft“ af Matthíasi Þórðarsyni.

Hrafnabjörg

Hrafnabjörg; bærinn.

Bærinn undir Hrafnabjörgum, sem er jafnan einfaldlega kallaður Hrafnabjörg líkt og fjallið sjálft, varð síðar að yrkisefni í Ármanns sögu yngri, sem er samin á seinni hluta 18. aldar upp úr Ármanns rímum. Þar sem Hrafnabjörg eru ekki nefnd í rímunum er vel hugsanlegt að höfundur Ármanns sögu hafi tekið sér skáldaleyfi með bæinn, sem er þá kominn vestur undir Skjaldbreið. Þar er Hallketill nokkur, leysingi Ketilbjarnar gamla, sagður búa en hann flutti þangað eftir að honum þótti of þéttbyggt í Laugardal (Íslendinga sögur XII, bls. 423).
Í sóknarlýsingu Þingvalla 1840 er bærinn sagður vestan Hrafnabjargafjallsins og þá höfðu munnmæli Jarðabókarinnar um hálf- eða þriðjungakirkju þróast upp í stæðilega kirkju, sem þótti „ekki all-lítil“ (Björn Pálsson, 1979, bls. 186, 192).

Þingvallahraun

Vörður á Klettaborg í Þingvallahrauni.

Matthías Þórðarson lætur sér fátt um finnast um kirkjumunnmæli í kringum tvískiptu tóftina, sem honum finnst „allsendis ósennileg“ en hann lýsir Hrafnabjörgum svo: “Þá er bæjarstæði fornt skammt í útnorður undan Hrafnabjörgum. […] Aðalbæjartóftin skiptist í þrennt. Við norðurhlið hennar vottar fyrir annarri tóft, og hinni þriðju norðan við hana. Um 50 m. norðar er enn tvískipt tóft. (Matthías Þórðarson, 1945, bls. 82).
Líkt og með Litla-Hrauntún hefur bærinn undir Hrafnabjörgum verið staðsettur á margvíslegum stöðum á kortum. Brynjúlfur Jónsson segir Prestaveg (sem hann kallar Prestastíg) liggja norður fram hjá bæjarrústinni (1905, bls. 47). Guðmundur Davíðsson, umsjónarmaður þjóðgarðsins á Þingvöllum, getur þess árið 1934 að einstaka birkirunnar vaxa í grennd við bæinn en annars er landsvæðið að hans sögn „ömurlegt og óbyggilegt“ (1934,
bls. 53).

Prestastígur

Prestastígur.

Í Árbók Ferðafélags Íslands 1961 heitir bæjarrústin Hranavellir og er sögð „vestur af norðurenda Hrafnabjarga“ (Haraldur Matthíasson, 1961, bls. 132). Kristján Jóhannsson frá Skógarkoti getur þess í örnefnaskrá Grímsnessafréttar að bæjarrústir Hrafnabjarga (sem hann kallar Hrafnabjargavelli) séu í litlu dalverpi fyrir framan örnefnið Kræklubrún („Grímsnesafréttur“, e.d., bls. 3). Bróðir hans, Pétur J. Jóhannsson (1983, bls. 182–183), segir rústirnar skammt norðan hesthústóftar Grímsnesinga, sem er við núverandi sauðfjárveikigirðingu suðaustan Prestastígs. Þess má geta að það er vatnsból við hesthústóftina, sem helst fram eftir sumri. Meintar bæjarrústir Hrafnabjarga voru staðsettar í ferð Ferlis árið 2011 (Ómar Smári Ármannsson, 2011). Voru þar skrásett möguleg mannvirki á tveimur stöðum við hraunkrika, sem virðast hafa að mestu farið á kaf undir malarjarðveg úr
leysingarfarvegi (Ómar Smári Ármannsson, munnleg heimild, 4. október 2019).

Presthóll

Tóft við Presthól við Prestastíg.

Út frá ritheimildum átti eyðibýlið að liggja við Prestaveg upp við örnefnið Kræklubrún. Bæjarrústin átti að vera 15–17 metrar að lengd, með gjótu austan hennar og tvískiptu mannvirki 30–40 metrum norður af bænum. Hrafnabjörg hafa þó verið merkt á margvíslegum stöðum og því ríkti mikil óvissa um hvaða heimildir væru áreiðanlegar.”
Ennfremur: “Á Hrafnabjörgum er fyrst að nefna bæjarrúst, sem snýr hér um bil austur–vestur og er um 16×6,5 metrar að stærð. Á norðurhliðinni er lítil viðbygging, um 4×3 metrar að stærð og trjárunni vex í henni miðri. Útveggir rústarinnar eru augljóslega bogadregnir og af útliti hennar að dæma er hér líklega um að ræða dæmigerða skálabyggingu.
Ekki er þó öll sagan sögð en einnig sést móta fyrir annarri, smærri byggingu innan hennar, u.þ.b. 13×4,5 metrar að stærð og skiptist í þrjú hólf. Hugsanlega eru þetta leifar selstöðu sem hefur verið reist ofan á skálarústinni seinna meir, rétt eins og túlkað hefur verið á Grímsstöðum. Það virðist sem Brynjúlfur hafi teiknað rústirnar upp líkt og þær séu eitt og sama mannvirkið. Ekkert vatnsból sást við rústirnar en lítil gjóta um 20 metrum suðaustan þeirra gæti hafa verið brunnurinn, sem Brynjúlfur Jónsson og Sigurður Vigfússon áttu við. Ekkert vatn var þó í gjótunni og hún var hulin trjágróðri að stórum hluta.
Norðan skála- og seljarústanna svokölluðu er lág brekka og þar var hægt að staðsetja þrjár aðrar rústir á vettvangi. Um 30 metrum norðan bæjarrústanna er tvískipta tóftin, sem munnmæli um hálfkirkju eða þriðjungakirkju í Jarðabókinni eiga við og Brynjúlfur Jónsson stingur upp á að væri annaðhvort heimahof eða stekkur. Ekki er minnst á hinar tvær smátóftirnar í lýsingum Brynjúlfs Jónssonar og Matthíasar Þórðarsonar. Báðar þeirra virðast hringlaga eða ferkantaðar og 3–4 metrar í þvermál. Sú eystri er greinilegri, með inngang til suðurs og frá henni liggur lítill slóði í átt að bæjarrústunum.
Gróft kolalag var í innanrými rústarinnar á um 35 sm dýpi. Sú vestari virðist einnig hafa inngang til suðurs og í innanrými hennar var torfhrun blandað gjóskulögum sem hafa ekki verið greind. Birkirunnar vaxa í veggjum rústanna en ekki í innanrýmum þeirra. Frekari rannsókna er þörf til að meta heildarumfang og hlutverk þessara rústa en trjágróðurinn gæti mögulega hulið fleiri verksummerki.

Í Litla-Hrauntúni eru a.m.k. fjögur mannvirki á þremur stöðum. Á einum staðnum er mannvirki sem skiptist í tvö hólf. Hugsanlega eru þetta seljarústir. Á öðrum staðnum er aflangt, tvískipt mannvirki, sem er mögulega með bogadregna útveggi. Rúmlega hundrað metrum austar er annað aflangt mannvirki.

Á Hrafnabjörgum eru leifar mannvirkis sem hefur einkenni dæmigerðrar skálabyggingar með viðbyggingu á norðurhlið. Innan veggja þess vottar fyrir útlínum annars mannvirkis. Gæti það verið sel, sem hafi verið reist ofan á skálarústunum svokölluðu.”

Hrafnabjörg

Hrafnabjörg – sel.

FERLIRsfélagar hafa skoðað framangreinda minjastaði í Þingvallahrauni. Sunnan girðingar er umlykur Þingvallasvæðið eru selsminjar, í svonefndu Litla-Hrauntúni. Þar má greina þrjár tóftir og eru um 115 metrar á milli þeirra. Norðan girðingarinnar, við Prestastíg, eru fornar hústóftir og garðar; líklega hið forna bæjarstæði Litla-Hrauntúns. Milli selsins og bæjarins er klettaborg með tveimur vörðum, sem ekki virðast hafa verið fornleifaskráðar. Vörðurnar eru ágætar vísbendingar á milli minjastaðinna fyrrum.

Þingvellir

Þingvellir – kort.

Framangreind staðsetning á Hrafnabjörgum er augljós selstaða; þrískiptar tóftir og stekkur. Hliðstandandi lýsingar eru af vatnsstæðinu þar sem nú eru rústir leitarmannakofa frá síðustu öld. Umleikis þær eru einu vísbendingarnar um fornfæri;  tvær mosavaxnar vörður.
Bærin á Hrafnabjörgum var mjög líklega við lækjarfarveg ofan úr fjallinu. Þar sér fyrir tóftum og görðum, sem nú eru að mestu komnar undir sandaura lækjarins. FERLIR teiknaði þær upp fyrir u.þ.b. tuttugu árum, en nú virðast þær nánast horfnar af yfirborði jarðar.

Frábært veður. Gangan tók 8 klst og 8. mín.

Heimildir:
-Jarðabókin 1703, Árni Magnússon og Páll Vídalín, Árnessýsla, bls. 363.
-(Árbók Hins íslenska Fornleifafélag 1880, Um Þingvöll og Þingvallasveit, Sigurður Vigfússon, bls. 43.)
-Árbók Hins íslenska fornleifafélags, Rannsókn í Árnesþingi sumarið 1904, Brynjúlfur Jónsson, bls. 44-45.
-Matthías Þórðarson. (1922). Fornleifar á Þingvelli. Árbók hins íslenzka fornleifafélags 1921–1922, 1–107.
-Háskóli Íslands, Fornleifafræði; Kortlagning eyðibyggðarinnar á Þingvöllum með flygildum og hitamyndavél. Ritgerð til B.A.–prófs í fornleifafræði –
Gunnar Grímsson, maí 2020 – https://skemman.is/bitstream/1946/35509/1/Kortlagning_eydibyggdarinnar_a_thingvollum.pdf

Hrafnabjörg

Hrafnabjörg undir Hrafnabjörgum.

Þingvellir

Björn H. Bjarnason fjallar í hugi.is um gamlar götur og komu Friðriks VIII Danakonungs hingað til lands árið 1907:

Inngangur

Konungsvegur

Friðrik VIII.

“Í byrjun ágúst árið 1907 hefði verið vandalaust að feta sig slóð Friðriks 8. og 200 manna fylgdarliðs hans. Fyrst var riðið á Þingvöll, svo austur að Laugarvatni, að Geysi og Gullfossi, yfir Hvítá á nýrri brú við Brúarhlöð. Síðan niður Hreppa hjá Álfaskeiði, yfir Stóru- Laxá og að Þjórsárbrú. Þaðan um Ölfusárbrú í Arnarbæli í Ölfusi, upp Kambana, yfir Hellisheiði á Kolviðarhól, niður hjá Lækjarbotnum og til Reykjavíkur aftur. Vandlætingafólk þess tíma taldi að fikra mætti sig Kóngsveginn svonefnda eftir tómum kampavínsflöskum.
Víst er um það að ríkisþingmenn fengu fyrir brottför silfurslegna svipu að gjöf frá Alþingi og ferðabikar í ól til að smeygja um öxl sér. En að þetta hafi verið einhver fyllirístúr er af og frá, menn kannski fengið sér í annan fótinn en ekki mikið meira, flestir. Sérstök gullplata var á svipu konungs og hafði Árni Gíslason grafið á hana “Ísland 1907.”
Konungskoma
Áhugavert er að skoða ljósmyndir teknar þessa sumardaga, pípuhattar í öllum áttum og harðkúluhattar, barðastórir kvenhattar, upphlutur og skotthúfur, skautbúningur og möttull. Í bakgrunninum voru derhúfur en á húfum lúðurþeytara voru sérstakir borðar. Allir báru höfuðföt sem er hyggilegt enda fer að sögn veðursérfræðinga 75% af hitatapi líkamans um höfuðið.
Svo voru það skínandi einkennisbúningarnir. Myndir frá þessum tíma eru allar í svart/hvítu og þess vegna heldur maður kannski að í gamla daga hafi allt verið svo leiðinlegt. Svo var þó ekki ef marka má allar sögurnar og eitt er víst að þarna var ekki litlaus hópur á ferð, öðru nær.
Tildur segjum við í dag á stíllausri öld, en gleymum því ekki að á bak við stífa framkomu þessa fólks leyndist oft hörkudugnaðar. Það er meira en að segja það að fara í 7 daga hestaferð á Íslandi að viðbættum íþyngjandi ræðuhöldum, ofáti og skjalli hvers konar sem sterk bein þarf til að þola. Auk þess var mikil pólitísk spenna í loftinu vegna sjálfstæðisbaráttu þjóðarinnar.

Frá Reykjavík á Þingvöll
Konungsvegur
Ferðin hófst 1. ágúst og var lagt af stað frá Latínuskólanum í Reykjavík. Konungur reið gráum hesti og var í búningi sjóliðsforingja með derhúfu að hætti aðmiráls og í uppháum leðurstígvélum. Hannes Hafstein Íslandsráðherra var á léttvígum, rauðskjóttum gæðingi Glæsir að nafni, kallaður Ráðherra-Skjóni. Seinna í ferðinni reið hann brúnum hesti en konungur hélt sig við gráa litinn enda hafði honum verið ætlaðir fjórir í þeim lit í ferðina. Þegar til kom líkaði honum aðeins við tvo þeirra. Mér skilst að Eggert Benediktsson bóndi í Laugardælum, stórbýli rétt fyrir austan Selfoss, hafi skaffað þessa gráu hesta.
Haraldur prins var í húsarabúningi. Þarna voru líka Axel Tulinius sýslumaður Suður-Múlasýslu, aðalskipuleggjari ferðarinnar, Rendtorff yfirhestasveinn konungs í rauðum búningi, J.C. Christensen forsætisráðherra og Rosenstand leyndaretatsráð svo að einhverjir séu nefndir. Leiðsögumenn voru m.a. þeir Guðmundur Björnsson landlæknir og Jón Magnússon skrifstofustjóri, síðar forsætisráðherra. Jón var hæglætismaður og frekar orðfár, en hvar sem hann sýndi sig fóru hjólin að snúast. Þannig var það einnig við undirbúning þessarar ferðar.

Konungsvegur

Konungur og föruneyti á leið til Þingvalla.

Það þurfti töluverða skipulagshæfileika til að henda reiður á öllu því hafurstaski sem fylgdi þessu liði, kerrur með tjöld og matföng og trússhestar, klyfsöðlar, hnakkar, beisli, lyfjaskrín, hattaöskjur og ferðakoffort. Þetta líktist meira innrásinni í Rússland eða herleiðingu eins og sagt er frá í Gamla testamentinu hjá Móse frá Egyptalandi eða Esekiel til Babylon, erillinn var svo mikill. Að morgni fyrsta dags voru allir að ganga af göflunum og þá var notalegt að hafa Jón Magnússon með sína góðu nærveru.
Hófaskellirnir á götum Reykjavíkur þennan dag komu öllum í ferðaham og góðhestarnir sem bændur sunnanlands og norðan höfðu lánað af þessu tilefni voru ekki af verri endanum. Flestar sýslur landsins lögðu til 18 hesta hver landssjóði að kostnaðarlausu, en einnig voru fjöldinn allur af leiguhestum.

Konungsvegur

Konungur og föruneyti á Þingvöllum.

Af lista yfir íslenska alþingismenn sem varðveist hefur er svo að sjá, að flestir þeirra hafi fengið tvo hesta til afnota. Númer 13 á listanum er Hannes Hafstein, 1. Þingmaður Eyfirðinga, Tjarnargötu. Hann fékk bara einn hest enda lagði hann sjálfur til Ráðherra-Skjóna. Björn M. Olsen, 3. Konungskjörinn þingmaður, Lækjargötu 8, fékk 3 hesta. Tryggvi Gunnarsson 1. Þingmaður Reykvíkinga fékk 2 hesta og sömuleiðis Þórhallur Bjarnarson þingmaður Borgfirðinga síðar biskup yfir Íslandi. Guðmundur Björnsson 2. Þingmaður Reykvíkinga, Amtmannsstíg 1, fékk engan hest enda hefur hann sjálfsagt verið með sína eigin hesta í ferðinni.
Konungsvegur
Í bréfi dagsettu 7. febrúar 1907 býður Daniel Daníelsson hinni háttvirtu Heimboðsnefnd vagnhesta til kaups á kr. 160 stykkið. Hann segir í bréfinu, að hann treysti sér ekki til að fara neðar þar sem hann telji að verð á hestum á sumri komandi verði mjög hátt. Þetta var svo sannarlega uppgripstími fyrir hestaspekúlanta.
Þar sem riðið var upp Hverfisgötu blakti danski fáninn við hún. Farið var upp hjá Rauðavatni og Geithálsi og síðan Hafravatnsveg í Djúpadal á Mosfellsheiði, en þar byrjar hinn eiginlegi gamli Þingvallavegur. Svipusmellir fylltu loftið og öllum mátti vera ljóst að þetta var enginn venjulegur reiðtúr. Á leiðinni bættust í hópinn bændur sem höfðu hlaupið frá búum sínum til að skoða kónginn. Þegar til kom gátu þeir ekki stillt sig um að slást í för á Þingvöll. Sumir voru ekki einir á ferð heldur með allt sitt hyski, konu og krakka.

Mosfellsheiði

Gamli Þingvallavegurinn.

Í Djúpadal var framreiddur hádegisverður. Eins og allir vita þá eru Danir fyrst í essinu sínu þegar matur er annars vegar. Þeir borða ekki eingöngu til að lafa á fótunum. Matargerð er í þeirra augum listgrein og að skeggræða um mat umræðuefni sem stendur jafnfætis heimspekitali á gangstéttarkaffihúsum stórborganna. Virkilega siðaður Dani getur rifjað upp matseðla áratugi aftur í tímann af jafn mikilli nákvæmni og veðurglöggur Íslendingur lýsir skýjafari. Danir eru heimsmenn.
Nema hvað í Djúpadal hafði Franz Håkansson, bakari og conditori, Austurstræti 17 látið senda 150 rúnstykki, 7 rúgbrauð og 12 franskbrauð. Pagh veitingastjóri var staðráðinn í því, að hvað sem öðru liði þá myndi Friðrik 8. Danakonungur ekki verða hungurmorða í ferðinni og þyrstur yrði hann ekki, enda sést í skjölum að Thomsens Magasin lét senda 4000 flöskur vestur að Rauðamel. Þar var tappað ölkelduvatni á flöskurnar. Þetta ölkelduvatn var haft til hressingar í heimsókn konungs. Að loknum málsverði þumlungaðist hersingin áfram fyrir norðan Borgarhóla í áttina að Þrívörðum og sunnan við Vilborgarkeldu á Mosfellsheiði, sem er forn áningarstaður. Þaðan var ekki langt í Ferðamannahorn, en það heitir svo vegna þess að þar sést fyrst til langferðamanna að koma á Þingvöll. Svo lá leiðin um Kárastaðastíg og niður í Almannagjá. Þegar konungur reið niður gjána hrópaði fólkið sem hafði raðað sér þar upp nífalt húrra, ég endurtek nífalt, minna mátti ekki gagn gera.
Konungskoman
En hver var þessi konungur sem verið var að hrópa húrra fyrir? Friðrik 8. var fæddur árið 1843 og dó árið 1912. Hann ríkti frá árinu 1906 til 1912. Faðir hans var Kristján 9. Þann stutta tíma sem Friðrik var við völd ferðaðist hann mikið um ríki sitt og komst í nána snertingu við þjóð sína. Hann beitti sér m.a. fyrir bættum samskiptum við Íslendinga. Árið 1869 gekk hann að eiga sænska prinsessu Louise að nafni.
Og þjóðin sem hann var að heimsækja hvernig var hún? Af því að maður er svolítið blindur á sitt eigið fólk þá gerði ég það að gamni mínu að fletta upp í Nordisk Konversasions Leksikon, 5. bindi, bls. 183. Þar stendur: “Íslendingar tilheyra hinum hvíta kynstofni, flestir eru háir, ljósir yfirlitum og langhöfðar. Þeir eru með blá augu og grannvaxnir.” Þetta fannst mér áhugaverð lesning, en meira hafði ég samt gaman af að koma út af bókasafninu og labba eftir Austurstræti og sjá margbreytileikann í útliti fólks enda er þjóðin örugglega ekki svona einslit eins og stendur í alfræðiritinu. Rannsóknir á blóðflokkum Íslendinga sýna raunar að þjóðin er af margvíslegum uppruna.

Þjóðhátíð á Þingvöllum

Konungskoman

Fólk í tjöldum á Þingvöllum 1907, m.a. danskir sjóliðar.

Næsta dag 2. ágúst var haldin þjóðhátíð á Þingvöllum. Drifhvítar tjaldborgir höfðu risið þar og byggður hafði verið konungsskáli í hallanum upp að Almannagjá ekki langt frá Öxarárfossi en í Hestagjá voru höfð hross sem þurftu að vera til taks. Ekki létu fréttamennirnir sig vanta en Guðmundur Finnbogason var fulltrúi Blaðamannafélagsins. Þegar á ferðina leið reyndust fréttamennirnir hvað dugmestir. Það er ótrúlegt hvað forvitnin er mikið hreyfiafl.

Valhöll

Í Valhöll var snæddur hádegisverður, en kl. 1 hófst Lögbergsgangan og tóku nær 6000 manns þátt í henni. Það var regnkápuveður þennan dag og margar ræður voru fluttar og mikið sungið. Hannes Hafstein flutti konungsminni. Ýmsir aðrir tóku til máls. Tulinius sýslumaður stjórnaði glímukeppni og sigraði Hallgrímur Benediktsson í þessari keppni en þriðji varð Jóhannes Jósefsson sem síðar var kenndur við Hótel Borg en hann hafði lagt sig eftir grísk rómverskum fangbrögðum og var talinn öflugur glímumaður. Sem sigurmerki fékk Hallgrímur birkigrein og síðan var hann borinn af sviðinu í gullstól.
Björn M. Olsen prófessor fræddi fólkið um Úlfljótslög, Grágás, Járnsíðu og Jónsbók. Eins sagði hann frá því hvernig Gissur Þovaldsson sendi árið 1238 Hjalta biskupsson upp á þing með stóran flokk manna til að hleypa þinginu upp. Svo var það bardaginn á Alþingi eftir Njálsbrennu og hvernig dómi var hleypt upp árið 999 er dæma skyldi í máli á hendur Hjalta Skeggjasyni um goðgá. Það var síður í frásögur færandi að oftast fór þingið fram með hinni mestu friðsemd og spekt.

Þingvellir

Gálgaklettur á Þingvöllum. Árni Björnsson lýsir aðstæðum.

Lítillega sagði prófessorinn frá því hvernig þjófar höfðu verið hengdir við Gálgaklett og konur sem höfðu borið út börn sín eða deytt á annan hátt drekkt í Drekkingarhyl. Þetta gerði stóra lukku.
Um kvöldið var haldin hátíðarveisla. Þar flutti Sveistrup þjóðþingsmaður ræðu fyrir minni íslenska hestsins, en konungur mælti fyrir minni kvenna. Aðeins ein kona Ragnheiður Hafstein eiginkona Íslandsráðherra var í veislunni, sem mönnum þótti alveg kappnóg. Konungur beindi orðum sínum til hennar frekar en að tala út í buskann til allra þeirra kvenna sem voru annars staðar. Dansað var á palli fram á nótt og tók konungur þátt í dansinum.
Verst var að hesturinn sem Sveistrup lofaði hvað mest í fjörugri ræðu sinni fældist nokkrum dögum seinna fyrir vagni hans uppi á Hellisheiði. Sveistrup hlaut nokkrar skrámur á enni og mikil mildi að ekki hlaust verra af.

Frá Þingvöllum að Geysi
Konungsvegur
Næsta dag þann 3. ágúst var svo riðið hjá Skógarkoti Skógarkotsveg og í Vatnsvíkina hjá Vellankötlu um Gjábakkastíg og Barmaskarð á Laugarvatnsvelli. Þangað var komið um hádegisbil og beið þar stórt veitingatjald. Franz Håkansson, bakari og conditori, Austurstræti 17 hafði sent þangað 160 rúnstykki, 8 rúgbrauð og 12 franskbrauð.
Ýmsir ferðahópar ríða um landið í dag maulandi kramdar samlokur úr vasa sér og drekka volgt djús. Þarna í veitingatjaldinu voru ekki kramdar samlokur og kræsingunum var skolað niður með kampavíni. Hákon Noregskonungur átti afmæli þennan dag og það var hrópað húrra fyrir honum. Á eftir lágu menn rjóðir og mettir á meltunni í grængresinu þangað til lúðurþeytarar blésu í horn sín og allir stigu á bak aftur, en Pagh veitingastjóri og hans fólk átti eftir að vaska upp.

Konungsvegur

Konungsvegur í Þingvallahrauni við Skógarkot.

Eins og að ofan greinir var farið um Gjábakkastíg og má láta þess getið að Hallmundur Eiríksson á Gjábakka lánaði 3 hesta í konungsreiðina í 7 daga og fékk fyrir það 84 kr., en auk þess fékk hann 4 kr. fyrir að koma hestunum til Þingvalla. Þetta má sjá í bókhaldsgögnum vegna konungskomunnar sem geymd eru í þremur pappaöskjum í Þjóðskjalasafninu við Laugaveg.
Áfram var haldið um Laugardal og hjá Laugardalshólum og Efstadal og austur með Hlíðum ofan við túnið á Úthlíð í Biskupstungum, neðan við Múla, upp undir Helludal og þaðan austur að Geysi í Haukadal. Brú yfir Brúará hafði verið byggð árið 1901 þar sem steinboginn hafði áður verið. Ekki ætla ég að rifja hér upp lánleysi biskupsfrúarinnar sem lét brjóta þennan steinboga niður árið 1602 svo að soltið fólk kæmist ekki í birgðaskemmurnar í Skálholti, en brytinn sem hjálpaði henni við þetta verk drukknaði seinna í Brúará.

Brúará

Ýmsir fleiri hafa drukknað í Brúará. Árið 1958 var skoskur maður hér á ferð með hóp breskra skáta. Hann hét Stuart A. Mcintosh og reið út í ánna ofan við Brúarfoss. Áin hremmdi Stuart og drukknaði hann. Þetta er háskafljót.
Það var ekki soltið fólk sem stóð upp frá borðum á Geysi þetta kvöld. Á matseðlinum var súpa, lax í forrétt, svo nautasteik og að lokum ávaxtaábætir. Þessu var skolað niður með kampavíni. Ekki minnkaði aðdáun gestanna á skipulagi ferðarinnar við þetta.

Geysir-Gullfoss-Geysir

Konungsvegur

Minningarsteinn við Geysi í tilefni komu Friðriks VIII.

Þann 4. ágúst reið hópurinn að Gullfossi og til baka aftur. Konungsfylgdin tyllti sér á ystu nöf og var skálað fyrir framtíð lands og þjóðar. Um kvöldið var enn ein veislan. Þar tóku margir til máls m.a. Þorvaldur Thoroddsen. Hann fjallaði um jarðfræði og heitu hverina og eldfjöll. Hann sagði sögu af því að eitt sinn hefði hraungrýti úr Heklu steinrotað mann sem stóð á hlaðinu í Skálholti. Þarna er yfir Ytri-Rangá, Þjórsá og Hvítá að fara. Þetta fannst veislugestum áhugavert. Þorvaldur sagði frá fleiru skemmtilegu. Á eftir stóð konungur upp og kvað Þorvald vera vísindamann á heimsmælikvarða. Sá kunni lagið á því.

Frá Geysi að Þjórsárbrú

Konungsvegur

Konungur á Þjórsárbökkum 1907.

Daginn eftir þann 5. ágúst var riðið um nýju brúna yfir Hvítá hjá Brúarhlöðum og niður með Hvítá að austanverðu hjá Skipholti og að Álfaskeiði. Farið var yfir Langholtsós og Stóru-Laxá á Langholtsvaði skammt frá Syðra-Langholti. Þaðan svo sem leið lá að Þjórsárbrú. Vaðið á Laxá er nokkuð breitt þarna og þéttskipuð fylkingin var lengi að ösla í vatni en það náði hestunum stundum í kvið.
Þegar neðar dró sást yfir Hvítá heim að Bræðratungu þar sem Snæfríður Íslandssól bjó með júnkærnum Magnúsi Sigurðssyni eins og sagt er frá í Íslandsklukkunni eftir Halldór Laxness. Þegar Magnús slæmdist í lekabytturnar hjá faktornum niðri á Eyrarbakka fór hann um Hvítárholtsferjuna þangað og heim aftur, en hjá Bræðratungu lágu þjóðgötur. Þar eru m.a. Flosatraðir.
Um ráðahag hennar og Magnúsar sagði Snæfríður eitt sinn: “Frekar þann versta en þann næst besta.” Snæfríður hafði ung fellt ástarhug til Árna Magnússonar handritasafnara, en hann vildi frekar giftast ríkri, danskri konu svo að hann gæti haldið áfram að safna handritum. Þegar sérviskan og ástin togast á í hausnum á karlmönnum þá hefur sérviskan ætíð betur. Snæfríður hins vegar taldi sig hafa kynnst ágætum manni þar sem Árni var og fannst þess vegna góður maður eftir það blátt áfram hlægilegur, ekki síst vonbiðill hennar Sigurður dómkirkjuprestur í Skálholti.
Konungsvegur
En áfram með ferðalagið. Hjá Skipholti hafði hádegisverður verið framreiddur en við Álfaskeið var boðið upp á mjólk, öl, sódavatn og kampavín. Þarna voru söngvarar, hljóðfæraleikarar, tónskáld, steikarar og þjónar, íslenskir þingmenn, danskir þingmenn, þýsk kerling frú Rosa Bruhn að skrifa fréttir, kóngur og Haraldur prins í húsarabúningi og Hannes Hafstein á hátindi síns ferils. Í hópi þingmanna voru margir úr bændastétt. Þeir söknuðu þess að sjá hvergi rakstrarvélar og herfi eða plóga á leið sinni, fannst hrífan óþarflega seinvirk. Bændur í Hreppunum og þeirra fólk var úti á túni þegar hersingin fór hjá og konungur ræddi við fullorðna fólkið og börnin líka, blessaða sakleysingjana.
Á fylgiskjali í Þjóðskjalasafninu sést að Ágúst Helgason í Birtingarholti lét senda 60 lítra af nýmjólk að Álfaskeiði. Hann seldi hvern lítra á 18 aura. Heimboðsnefnd Alþingis gerði hann einnig reikning fyrir tveimur glösum sem höfðu brotnað samtals 70 aurar.
Vagnar og ýmislegt dót varð eftir á Álfaskeiði. Þetta dót tók Ágúst til handargagns heim í Birtingarholt. Hann langaði mikið í einn vagninn og í því efni bar hann sig upp við séra Þórhall Bjarnarson, hvort ekki væri hægt að hafa uppboð á þessu dóti um það leyti sem búnaðarþingi lyki, en Þórhallur var formaður Búnaðarfélags Íslands. Ekki veit ég hvort Ágúst eignaðist þennan vagn.
En þetta dót á Álfaskeiði var ekki eini lausi endinn að lokinni þessari hestaferð. H. (Halldór) Einarsson á Kárastöðum í Þingvallasveit sendir eftirfarandi reikning til Heimboðsnefndarinnar.
Lán á hesti í 7 daga kr. 21.
Fyrir 2 hnakka og 4 beisli í 7 daga kr. 7.
Fyrir beisli er tapaðist kr. 10.
Fyrir að gera ferð til Reykjavíkur að sækja hnakkana og beislin og leita að hestinum sem var týndur 3 dagar á 9 kr. samtals kr. 27.
Konungsvegur
En við vorum stödd hjá Langholtsvaði. Þaðan reið konungsfylgdin á Þjórsárbakkana og eftir þeim endilöngum. Ekki var riðið á seinagangi og inn á milli með slætti. Í gamla daga riðu menn mikið á einhvers konar skeiðjagi eða kerlingargangi sem kallaður var eða valhoppi. Töltið eins og við þekkjum það í dag kom ekki inn í íslenska hestamennsku fyrr en seinna. Þó brugðu menn fyrir sig hýruspori ef mjúkt var undir fót og einn og einn kappkostaði að halda hesti sínum til t.d. Daniel Danielsson í Stjórnarráðinu og Ólafur Magnússon ljósmyndari. Ágætar ljósmyndir eru til af þessum mönnum og hestum þeirra.
Hjá Þjórsárbrú tók Sigurður Eggerz á móti fólkinu en hann hafði verið settur sýslumaður í Rangárvallasýslu frá 1. maí 1907 og tók við af Einari Benediktssyni. Mikill mannfjöldi var þarna samankominn sem heilsaði hestafólkinu með dynjandi fagnaðarlátum. Undirbúin hafði verið vegleg búfjársýning sem hefjast átti daginn eftir.
Skrá frá Landssímanum yfir útsend símskeyti frá Þjórsárbrú þann 5. ágúst sýnir, að umheimurinn hafði mikinn áhuga á því sem þar var að gerast. Þessir aðilar sendu skeyti þaðan: Dannebro, Ritzau, National tidende, Politiken og Berlinske tidende. Þessa skrá er að finna í einni af öskjunum þremur í Þjóðskjalasafninu.
Á búfjársýningunni næsta dag voru sýndar kýr, kindur og hestar. Margir Danir söknuðu svína og alifugla svo sem anda og gæsa. Þess má geta að árið 1900 voru 50.000 hross í landinu og voru 3095 hestar fluttir út það ár. Álitið var að þrefalda mætti þessa tölu þ.e. koma hestunum upp í 150.000 og töldu ýmsir að útflutningur hrossa gæti orðið hrossarækt í landinu lyftistöng. Verst er að Íslendingar hafa aldrei getað selt nokkurn skapaðan hlut annað en fisk, en fiskur selur sig sjálfur. Í þessu efni gætum við lært mikið af Dönum, framleiða minna og selja dýrara. Líflegar samræður fóru fram um smjörframleiðslu og bar öllum saman um að íslenska smjörið væri einkar aðlaðandi.

Frá Þjórsárbrú að Arnarbæli í Ölfusi
Konungsvegur
Að loknum hádegisverði var haldið yfir hengibrúna á Þjórsá. Konungur og Hannes Hafstein riðu í fararbroddi og fór hersingin eftir eggsléttum þjóðveginum í vestur. Stansað var við Ölfusárbrú en þar hjá var gamli sveitabærinn Selfoss. Nielsen faktor á Eyrarbakka stóð fyrir móttökum en hann var rómaður um land allt fyrir gestrisni. Konungur þakkaði viðurgjörninginn og óskaði Eyrarbakka velfarnaðar.
Í bókhaldsgögnum kemur fram á fylgiskjali 139 að séra Þórhallur Bjarnarson hefur fengið 20 flöskur af öli í Tryggvaskála á 35 aura stk. með gleri samtals kr. 7. Svo er að sjá að hann hafi fengið þessar 20 flöskur sendar í Hraungerði. Á fylgiskjali 143 sést að séra Þórhallur hefur ásamt 7 ríkisdagsmönnum, 10 ökusveinum og tveimur öðrum gist hjá séra Ólafi Sæmundssyni í Hraungerði aðfaranótt 6. ágúst.
Séra Ólafur fékkst ekki með nokkru móti til að setja upp ákveðið verð fyrir gistinguna, en lét séra Þórhall um að ákveða endurgjaldið sjálfur. Honum fannst hæfileg þóknun fyrir þetta vera kr. 50, en inni í þessu var mjólk, kaffi og dálítið skyr, eins vöktun á 30 hestum. Varla getur talist að séra Þórhallur hafi ástundað glannalegt líferni úr því að ölflöskurnar frá Tryggvaskála voru ekki nema 20 handa 7 ríkisdagsmönnum, 10 ökusveinum og tveimur öðrum.
Kolviðarhóll
Frá Ölfusárbrú var haldið hjá Ingólfsfjalli að Kögunarhól en þar var áð. Síðan var riðið að Arnarbæli. Þar beið gestanna reisuleg tjaldborg en kóngur og Haraldur prins gistu inni á prestssetrinu. Prestur í Arnarbæli var séra Ólafur Magnússon. Hann þótti ágætur söngmaður og tónaði manna best.
Dönunum fannst mikið til um mýrarnar þarna allt í kring og töldu að með framræslu mætti rækta upp mikið land í Ölfusinu. Þarna heita Forir og heyjaði séra Kjartan Kjartansson þar seinna. Hann notaði hesta við heyskapinn en undir þá setti hann þrúgur svo að hestarnir sykkju ekki á bólakaf.
Öldum saman bölvaði þjóðin mýrunum. Þær voru mikill farartálmi og menn urðu blautir í fæturna að ösla í þeim. Svo voru mýrarnar þurrkaðar upp en það spillti fuglalífi. Nú eru menn til sveita ekki lengur blautir í fæturna en þeir sakna fuglatístsins. Til þess að kalla fram fuglatístið verður aftur að búa til mýrar, en þá verða menn blautir í fæturna þegar þeir fara að sækja hestana sína út í haga. Lífið er ekki auðvelt.

Frá Arnarbæli til Reykjavíkur

Arnarbæli

Arnarbæli – konungskoman 1907.

Síðasta daginn 7. ágúst var farið upp Kamba en þeir hafa verið taldir vegaminjasafn þjóðarinnar enda þar götur og troðningar frá fyrstu dögum Íslandsbyggðar. Þaðan var riðið um Hellisheiði hjá Hveradölum, Kolviðarhóli, í Lækjarbotna, hjá Geithálsi, Rauðavatni og fyrir norðan Árbæ. Aftur var komið til Reykjavíkur.
Upp Kambana riðu þeir samsíða á fetgangi Hannes Hafstein og Friðrik 8. Hannes reið brúnum hesti en konungur var áfram á gráum hesti. Hann innti Hannes eftir því hvernig hann teldi fólkinu hafi líkað ræðurnar hans. Þessa sömu spurningu hafði hann lagt fyrir séra Matthías Jochumsson er hann hitti hinn aldna prest í Almannagjá fyrr í ferðinni. Honum virtist mjög umhugað um að sér væri vel tekið. Hann var mun frjálslyndari en Kristján 9. faðir hans og menntaður maður í besta skilningi þess orðs bæði bókhneigður og mannblendinn, í senn hlédrægur og opinskár.

Kolviðarhóll

Kolviðarhóll 1907.

Snætt var í stóru tjaldi á Kolviðarhóli og hélt konungur þar þakkarræðu. Sterkt útiloftið og samneytið við íslenska hesta hafði gert hann ögn óvarkáran og léttan í höfðinu. Í ræðu sinni sagði hann m.a.: “Látum oss verða samferða og trúa og treysta hverir öðrum. Látum þessa ferð tengja fast band milli íslensku og dönsku þjóðarinnar og mín, sem ekki hef annað markmið en sannleik og réttlæti báðum ríkjum mínum til handa.” Þetta orðalag “báðum ríkjum,” fór mjög fyrir brjóstið á Christensen forsætisráðherra. Það var of mikill sjálfstæðiskeimur yfir þessu.
Er konungur hafði lokið máli sínu mælti Rambusch undirofursti fyrir minni framreiðslustúlkna m.a. þeirra sem höfðu vaskað upp á Laugarvatnsvöllum og gengið um beina. Hann ræddi um þolgæðisbros þessara erilsömu matvæladreifara. Sem hermaður vissi hann að án kokksins vinnst ekkert stríð og lítið fer fyrir matnum ef enginn nennir að bera hann á borð. Og ekki brást Franz Håkansson, bakari og conditori. Á Kolviðarhól hafði hann látið senda 175 rúnstykki, 8 rúgbrauð og 12 franskbrauð. Hann átti hrós skilið.
Hraðboðar komu á móti konungsfylgdinni upp að Lækjarbotnum en þeystu síðan til baka að segja frá komu konungs svo að fólkið í Reykjavík gæti verið til taks að hrópa húrra. Þessa hraðboðun hafði Gísli J. Ólafsson tekið að sér sem verktaki fyrir kr. 400. Á sundurliðuðum reikningi frá honum stendur: “Til móttökunefndarinnar. Fyrir að senda hraðboð milli Reykjavíkur og Þingvalla, Reykjavíkur og Geysis, Reykjavíkur og Þjórsárbrúar og Reykjavíkur og Selfoss bera mér samkvæmt samningi kr. 400.-“

Niðurlag

Konungsvegur

Konungsvegur – áningarstaður á Laugarvatnsvöllum 1907.

Hestaferð þessi var í alla staði talin hafa heppnast með ágætum og bar öllum saman um að Friðrik 8. væri vænsti maður á margan hátt. Rómverjar til forna höfðu þann sið þegar sigursæll herforingi hélt inn í Rómaborg, að hafður var hjá honum þræll í stríðsvagninum. Á meðan lýðurinn hyllti herforingjann var það hlutverk þrælsins að endurtaka í sífellu: “Þú ert bara maður, þú ert bara maður.”
Hvern skyldi Friðrik 8. hafa haft við hlið sér í Ísalandsför sinni? Hann var svo alþýðlegur að enginn sem kynntist honum efaðist um að ef hann hefði verið beðinn um það hefði hann brett upp skyrtuermarnar og undið sér í uppvaskið. En hann var ekki beðinn um það. Hann var beðinn um að sitja í hásætinu. Það hásæti sem honum var ætlað hér á landi var í fornum stíl og smíðað af Stefáni Eiríkssyni. Það kostaði kr. 600.- Á sama tíma járnaði Jón Sigurðsson hest fyrir Axel Tulinius sýslumann og tók fyrir það kr. 1.75 með skeifum. Ef járnað var á gamalt kostaði það 25 aura á löpp. Þarna er dæmi fyrir Hagstofu Íslands að umreikna til verðlagsins í dag.
Af því að verið er að tala um verðlag má geta þess að Jónatan Guðmundsson fékk greiddar kr. 4 fyrir að spila á harmoniku á Þingvöllum. Vinna við að gera akfæran veg frá Skipholti að Brúarhlöðum 51 dagsverk kostaði kr. 204.- En brú á Langholtsós kr. 35.- Þetta sést á reikningi frá Ágústi Helgasyni í Birtingarholti. Í bréfi sem hann lét fylgja með kvað Ágúst vaðið á ósnum hafa spillst mjög. Upphæð þessi kr. 35.- var hins vegar dregin frá reikningnum til heimboðsnefndarinnar þar sem brúargerð á Langholtsós var talin utan við umsamda vegaframkvæmd.

Konungsvegur

Friðrik 8. var eins og milli steins og sleggju. Evrópa var að breyta um ásjónu og nýir tímar fóru í hönd. Aðeins 7 árum síðar braust fyrri heimsstyrjöldin út og álfan logaði öll. Þá var Friðrik 8. látinn en í skotgröfunum við Somne eða Verdun var ekki boðið upp á lax í forrétt og nautakjöt í aðalrétt og ávaxtaábæti á eftir.
Hannes Hafstein var líka milli steins og sleggju. Hann vildi sjálfstæði að því marki að eftir sem áður væri hægt að slá Dani um peninga fyrir verklegum framkvæmdum. Draumur hans var að hefja stórfelda ræktun í frjósömustu héruðum sunnanlands m.a. í Flóanum og austur á Skeiðum. Svo langaði hann að leggja járnbraut um Þrengslin austur fyrir fjall. Það er seinlegt að hossast á hestbaki, en það var glaður hópur sem skilaði sér aftur til Reykjavíkur eftir þessa hestaferð um Kóngsveginn í byrjun ágúst árið 1907.
Það er ekki fyrir leikmann að fara nánar út í þann stjórnmálalega undirtón, sem bjó að baki þessarar heimsóknar Danakonungs, en svona var hestaferðin. Friðrik 8. var þá 64 ára gamall. Það er svo sem ekki hár aldur miðað við að öldruð kona í Neðri-Fáki við Bústaðaveg byrjaði í hestamennsku 76 ára gömul. Hún er nú komin vel yfir áttrætt og búin að taka mestu kitlurnar úr vindótta klárnum sem hún keypti sér.”

Heimild:
-https://www.hugi.is/saga/greinar/130222/gamlar-gotur-konungskoman-1907/ – Örn H. Bjarnason.

Kolviðarhóll

Kolviðarhóll 1914.