Þingvellir

Alþingi var stofnað á Þingvöllum við Öxará árið 930. Það er elsta stofnun íslensks samfélags. Þingið, þinghaldið og hlutverk Alþingis í samfélaginu hafa tekið miklum breytingum frá upphafi.

Alþingishátíðin var haldin á Þingvöllum á Íslandi árið 1930 til að minnast þess að þúsund ár voru liðin frá stofnun allsherjarþings 930. Hátíðin var formlega sett af Kristjáni 10. 26. júní og var slitið 28. júní. Um 40 þúsund manns sótti hátíðina.

Alþingi

Hátíðarblað Morgunblaðsins 1930.

Í tilefni af eitt þúsund ára afmæli Alþingis árið 1930 gaf Morgunblaðið út sérstakt Hátíðarblað. Þar var m.a. að finna greinar eftir Eggert (Eiríksson) Briem, búfræðingur og bóndi í Viðey, og Einar Arnórsson, ráðherra Íslands 1915–1917 og dóms- og menntamálaráðherra 1942–1944, um sögu þessarar merku stofnunar.

“Á 1000 ára afmæli Alþingis og hins íslenska ríkis, er rjett að horfa yfir farinn veg og íhuga, hvernig þjóðarhögum vorum er nú komið. Í þessu blaði er gerð nokkur tilraun að gefa lesendum útsýn yfir stofnun og þróunarsögu Alþingis og jafnframt yfir nokkra helstu þætti þjóðlífsins — atvinnuvegi og þjóðmenningu.
Er hjer brugðið upp nokkrum myndum frá niðurlægingartímunum, en meiri alúð hefir þó verið lögð við það, að lýsa hinu stutta framfaraskeiði þjóðarinnar, og hvernig umhorfs er í landinu.

Þingvellir

Þingvellir.

Hjer er ekki um nein tímamót að ræða, nema að árum. Þjóðin er í önnum, og alt ber þess vitni, hvert sem litið er. Alt er hjer eins og hálfgert, líkt og um miðjan bjargræðistíma — framfarirnar í miðju kafi eins og hálfsögð saga. En einmitt vegna þess, hefir sú kynslóð, sem nú er uppi, bjargfasta trú á landinu — að hjer sje enn ófundin margskonar auðæfi, að hjer sje nóg orka til þess að vinna þau verk, er hafið geti hina fámennu þjóð til vegs og gengis á komandi öldum.”

Alþingi hið forna – Eggert Briem (1879-1939)

Alþingi“Eins og kunnugt er, er mönnum orðið ljóst, að Alþingi sje framhald og ávöxtur af Kjalarnesþingi, og að Þorstein Ingólfsson beri því að telja þann manninn, er upptök og framkvæmdir átti að því, að Alþingi komst á. Um tilhögun Alþingis í öndverðu eru aftur á móti skiftar skoðanir. Greinir menn á um það, hvort í upphafi hafi aðeins ein stofnun verið á þinginu, lögrjetta, eins og var í Noregi, eftir þeim fornu lögum Noregs, sem til eru, eða skipaður hafi verið jafnframt sjerstakur alþingisdómur. Þetta atriði og aðra skipun Alþingis, sem um er deilt, hefi jeg rannsakað undanfarin ár, og hafa þær rannsóknir leitt til algerlega nýrrar niðurstöðu. Skal hjer í stuttu máli drepið á sumt af því helsta, þótt hjer sje ekki rúm til að rökstyðja það nema að litlu leyti, nje heldur að skýra frá skoðunum annara og gera samanburð á þeim og niðurstöðu rannsókna minna.

Eggert (Eiríksson) Briem

Eggert (Eiríksson) Briem – 1879-1939.

Höfðingjavaldið er það, sem einkennir Alþingi hið forna. Höfðingjar þeir, sem með völdin fóru á þinginu, víðsvegar af landinu, voru upphaflega 36 að tölu. Voru þeir kallaðir landsmenn á sama hátt og höfðingjar fjórðunganna ettir fjórðungaskiftingu voru kallaðir fjórðungsmenn. Þeir 36 landsmenn, sem með völdin fóru á Alþingi, ræddu þar og rjeðu allsherjarmálum þjóðarinnar til lykta. En til þess að dæma einkamál manna, nefndi hver landsmaður einn dómanda meðal þingmanna sinna í sjerstakan alþingisdóm, er dæmdi málin.

Þessi tilhögun er frum-germönsk, eða sú tilhögun er ríkti meðal Germana samkvæmt elstu heimildum. Þar er rit Tacitusar, „Germania”, frumheimildin. En svo sem kunnugt er, hefir frásögn hans í XI. kap. ritsins verið skilin svo, að hann segi þar, að allir frjálsir menn á þingum Germana hafi tekið fullnaðarákvörðun um stórmálin.

Alþingi

Frá Alþingishátíðinni á Þingvöllum 1930.

En jeg hefi komist að raun um, að þetta er misskilningur og hægt er að sanna, að tilhögunin var í þess stað sú, að kynbornir höfðingjar rjeðu þar stórmálum til lykta, en nefndu aftur þingmenn sína í dóm, eins og átti sjer stað á Íslandi.
Þessi tilhögun skoða jeg því að enginn vafi geti leikið á, að einnig hafi ríkt í Noregi fyrir daga Haralds hárfagra, og svo sem jeg hefi leitt nokkur rök að í bók minni um Harald hárfagra, þá er ástæða til að ætla, að í Frostaþingslögum hafi höfðingjavaldið fyrir hans daga bygst á mannaforráðum, eins og á Íslandi.

Þar sem Alþingi er frum-germönsk stofnun, er þekkingin á stjórnarskipun Íslands fyrstu aldirnar ekki aðeins mikilsverð fyrir Íslendinga sjálfa, heldur einnig allar aðrar þjóðir, sem af germönsku bergi eru brotnar, til þess að skilja sem gerst sögu þeirra frá elstu tímum og fram á þennan dag.

Alþingi

Frá Alþingishátíðinni á Þingvöllum 1930.

Frelsi og frjálsræði var aðalundirstaða fjelagslífsins á Íslandi í fornöld. Þeir, sem mannaforráð höfðu, voru fullvalda höfðingjar hver um sig, og allsherjarríkið grundvallaðist á frjálsu bandalagi þeirra, þannig að höfðingjunum var frjálst að segja sig úr lögum hverjir við aðra, eins og fram kom á Alþingi árið 1000, þegar deilt var um trúna. — Undirmönnunum var á sama hátt frjálst að skifta um höfðingja og gerast þegnar þess höfðingja, er þeir kusu helst að þjóna, ef hann vildi við þeim taka. í þessu var hið forn-germanska lýðfrelsi fólgið.

Alþingishátíðin 1930

Alþingishátíðin 1930.

Þessi tilhögun, sem ríkti á Íslandi rúmar þrjár aldir, er að mínu áliti merkilegustu leifar hins forn-germanska fjelagslífs, sem sögur fara af. Mannaforráðin kenndu almenningi, að gera sjer grein fyrir, að það er ekki sama, hvernig stjórnað er, og meta það, hversu mikils virði það er fyrir fjöldann, að vel sje stjórnað. Þeir höfðingjar, er ekki voru hæfir til þess að fara með völd, urðu að þoka fyrir hinum, er sýndu það í verki, að þeir kunnu að stjórna fólki. Afleiðingin varð því sú, að höfðingjaættirnar urðu úrvalsættir að ættgöfgi og stjórnviska var í hávegum höfð.

Alþingishátíðarpeningar 1930

Alþingishátíðarpeningar 1930.

Svo sem kunnugt er, telja menn, að aðalstofnun Alþingis hafi verið lögrjetta, og lögberg hafi einungis verið heiti á auglýsingastað þingsins. En rannsóknir mínar hafa leitt til þess að lögberg hafi jafnframt verið heiti á þingstofnun, er dregið hafi nafn sitt af staðnum, þar sem hún hafði aðsetur. Og niðurstaðan er, að þessi þingstofnun hafi ekki aðeins verið lögbirtingasamkoma þingsins, heldur aðalstofnun Alþingis, þangað sem öllum málum, er fyrir þingið voru lögð, hafi fyrst verið beint, með því að upphaflega hafi allar athafnir þingsins utan lögbergs verið þar ákveðnar og þaðan hafnar.

Alþingishátíðarpeningar 1930

Alþingishátíðarpeningar 1930.

Hjer er ekki rúm til að rökræða þessa athugun mína, um tilhögun hins forna Alþingis, en á hinn bóginn vil jeg verða við þeim tilmælum, að skýra í fám orðum frá niðurstöðu minni um það, hvert hafi verið verksvið þeirra tveggja stofnana, lögbergs og lögrjettu, er jeg skoða að á Alþingi hafi verið, þegar það var í upphafi sett. Lögbergsstofnunin var skipuð þeim 36 landsmönnum, er æðstu völd höfðu í landinu. Lýsingar saka og stefnur voru því aðeins lögmætar, að þær væru sagðar fram „at lögbergi”, sem þýðir: á lögbergsfundi. Til þess að þessir lögbergsfundir væru lögmætir, útheimtist, að meirihluti hinna 36 landsmanna, er lögbergsstofnunina skipuðu, væru á fundi, ásamt lögsögumanni.

Alþingishátíðarpeningar 1930

Alþingishátíðarpeningar 1930.

Sama gilti og um dómnefnuna, er fór fram í Hamraskarði þar á fundarstaðnum út frá lögbergi, sem alþingisdómurinn sat og dæmdi málin, jafnskjótt og höfðingjarnir höfðu tekið fundarályktun um að dómurinn skyldi taka til starfa. Voru málin upphaflega sótt og varin á lögbergsfundum og þar dæmd. Lögsagan fór fram að lögbergi og urðu þá allir landsmenn að vera á fundi. En ef þeir höfðu ekki tóm til þess, urðu þeir að láta báða umráðamenn sína í lögrjettu hlýða á uppsöguna í sinn stað. Þegar lagabreytingum eða nýmælum var hreyft á Alþingi, Voru þau mál fyrst lögð fyrir lögbergsfund, og borin fram af einhverjum landsmanni. Að umræðu lokinni var það borið undir atkvæði landsmanna, hvort máli skyldi vísað til lögrjettunnar, eða ekki. Að lögbergi rjeð afl atkvæða, og var mál fallið á þinginu, ef því var ekki vísað þar til lögrjettunnar.

Alþingishátíðarpeningar 1930

Alþingishátíðarpeningur 1930 – framhlið.

Linun eða eftirgjöf á refsingum og aðrar undanþágur, er veittar voru á Alþingi, hjetu einu nafni lof eða alþingislof í fornöld. Hjet það ýmist sýknulof eða sýknuleyfi, er sekum manni var gefin upp sekt hans. Sáttaleyfi var það kallað, er Alþingi veitti mönnum leyfi til að sættast, en slíkt leyfi var nauðsynlegt, er um víg var að ræða eða áverka veittan á þingi, og fleiri sakamál, er þungar refsingar lágu við, því að öðrum kosti var sáttin ólögleg.
Öll alþingislof ætla jeg að upphaflega hafi verið veitt að lögbergi og oltið þar á því, hvort meiri hluti fjekst fyrir því, að lof skyldi veitt eða ekki. Lögrjettu skipuðu eins og lögberg hinir 36 landsmenn, en jafnframt höfðu þeir þar hver um sig tvo umráðamenn, eða einskonar ráðgjafa, eða ráðuneyti, til þess að vera þar í ráðum með sjer um það mál, er fyrir lá.

Alþingishátíðarpeningar 1930

Alþingishátíðarpeningur 1930 – framhlið.

Þar fór fram síðari umræða um löggjafarmálin, en gagnstætt því, sem átti sjer stað að lögbergi, að þar rjeð afl atkvæða, þá ultu úrslitin í lögrjettu á því, að samkvæði væri goldið við lagabreytingu, eða nýmæli. Fengist samkvæði, var frumvarpið þar með samþykkt, en ef einn eða fleiri stóðu á móti, var málið aftur á móti fallið. Þetta stafaði af því, að bandalagið um allsherjarlögin bygðist á frjálsum grundvelli. Það var ósamboðið hverjum höfðingja að lúta öðrum lögum en þeim, er hann af frjálsum vilja vildi samþykkja fyrir sína hönd og sinna undirmanna. Þetta, að samþykkja lög eða fella, var hið eina starf, er lögrjettustofnunin hafði með höndum upphaflega, en ástæðan til þess að lögberg gat ekki innt þetta starf af höndum, var sú, að þar rjeð afl atkvæða.

Kristján X

Kristján X.

Í sambandi við hina fyrri umræðu máls að lögbergi var tilhögunin að hafa umráðamenn í lögrjettu mjög hentug. Þótt höfðingjarnir gagnrýndu málin að lögbergi og greiddu þar atkvæði gegn því að þau gengju fram, gátu þeir, ef málið virtist hafa almenningsfylgi, þegar til lögrjettunnar kom, snúið við blaðinu og samþykt nýmælið að ráði umráðamanna sinna, án þess að þeim væri legið á hálsi fyrir það.
Er nýmæli hafði verið samþykkt, var það sagt upp sem lög þrjú sumur í röð að lögbergi. Hið fjórða sumar, er full reynsla var fengin um nýmælið í framkvæmd, var loks tekin ákvörðun um það á lögbergsfundi, hvort nýmælið skyldi sagt upp eða ekki. Fjell það úr gildi, ef meiri hluti fjekst ekki fyrir því, að það skyldi sagt upp; annars gilti það sem lög þaðan í frá.

Alþingi hafði sjerstakan ríkissjóð og má ætla, að hann hafi upphaflega heitið alsherjarfje. Um fastar tekjur ríkisins er ókunnugt, en á hinn bóginn eru til heimildir fyrir því, að þegar um sjerstök útgjöld var að ræða, var lagður nefskattur á þingbændur.

Alþingi

Lögrétta – tilgáta.

Að lögum var lögð ákveðin fjárhæð til höfuðs hverjum sakamanni. Til höfuðs þeim, er unnið höfðu skemmdarvíg, Voru lagðar 3 merkur silfurs, og var það fje goldið á Alþingi af goðum landsins, er síðan jöfnuðu því niður á þingmenn sína. Allur kostnaður við alþingishaldið er eðlilegast að hugsa sjer, að upphaflega hafi verið greiddur af allsherjarfje, og þar á meðal kaup lögsögumanns, sem var 200 álnir.

Allsherjargoðinn, er helgaði þingið, mun hafa undirbúið þinghaldið, sjeð um, að sæti væru sett upp á þingstaðnum og alt væri þar í lagi, er þingið hófst. Ennfremur gekst hann fyrir og stýrði lögsögumannskosningu. Hefir hann óefað haft sjerstaka þóknun fyrir starf sitt. Lögsögumaður var annars sá, sem stjórnaði störfum þingsins. Átti hann sitt sjerstaka ákveðna rúm, bæði á lögbergi og í lögrjettu.

Þingvellir

Þingvellir – Almannagjá.

Lögsögumaður var kosinn til þriggja ára í senn. Á lögbergsfundi var gert út um það, hver vera skyldi lögsögumaður, og var útnefningin síðan staðfest á lögrjettufundi, þar sem lögboðið var, að allir skyldu gjalda samkvæði við kosningunni, eða, með öðrum orðum, staðfesta niðurstöðu lögbergsfundarins. Eftir þrjú ár var lögsögumaður laus, ef hann vildi, en að öðrum kosti hjelt hann embættinu áfram, ef meirihluti lögbergs var honum fylgjandi, og fór þá ekki fram nein kosning. En vildi meiri hluti höfðingja ekki hafa hann áfram, eða hann sjálfur vildi vera laus, eða lögsögumaður hafði fallið frá, fór fram lögsögumannskosning.

Þingvellir

Þingvellir – Almannagjá.

Einnig gat lögbergsfundur með afli atkvæða, vikið lögsögumanni frá, ef hann vanrækti embættisskyldu sína, var t. d. ekki kominn til þings á föstudagsmorgun, er landsmenn gengu til lögbergs, og hafði ekki lögleg forföll fyrir sig að bera. Lögsögumaður skipaði lögberg, og var það í því fólgið, að þeim mönnum, er mæla þurftu málum sínum á lögbergsfundi, vísaði hann til sætis á lögbergi meðan þeir biðu þess, að röðin kæmi að þeim til þess að segja fram mál sitt.

Þingvellir

Uppdráttur af Þingvöllum frá 18. öld.

Lögrjettusamþykktir birti hann þingheimi á lögbergsfundi. Jafnframt hafði hann skyldu til að segja upp hver þau lög, er lögberg óskaði. Entist honum ekki fróðleikur til þess, gat hann kvatt fimm eða fleiri lögfróða menn á fund með sjer til þess að komast að niðurstöðu um, hvað lög væri. Jafnframt var lögsögumaður skyldur til þess að gefa upplýsingar um það á þinginu, ef þess var óskað, hvað lögmál væri, bæði á Alþingi og heima í hjeraði. Nú gat það komið fyrir, að fleiri eða færri höfðingjar hjeldu því fram, að lögsögumaður hefði rangt fyrir sjer um eitt eða annað, er hann kvað lög vera. Var slík þræta kölluð lögmálsþræta og var úrskurður um hana að minni ætlan upphaflega feldur að lögbergi með atkvæðagreiðslu um það, hvorir hefðu rjettara fyrir sjer, lögsögumaður eða hinir, er í móti mæltu.

Nýmæli Þórðar gellis

Þingvellir 1720

Þingvellir 1720.

Þegar Alþingi hafði starfað um nokkur ár, kom það í ljós, að það var erfitt að fá málsúrslit með dómi á þinginu vegna þess, að dómur var því aðeins gildur, að hann væri ekki vjefengdur og allir dómendur gyldi samkvæði við honum. Afleiðingin var því, að óbilgjarnir höfðingjar, sem verja vildu rangan málstað, gátu nefnt þann mann í dóm, sem þeir fyrir fram höfðu tryggt sjer, að dæmdi sjer í vil, en ekki að lögum. En á þessu rjeð Þórður gellir bót með tillögu sinni um að skifta landinu í fjórðunga, og skipun fjórðungsdóma. Hefir mikið verið ritað um þennan þátt alþingissögunnar, en rannsóknir mínar hafa leitt til þess, að það muni alt miður rjett, og niðurstaðan orðið ný lausn á þessu vandamáli. Er hún í stuttu máli þessu: Alþingisdóminum var skift í fernt, og níu dómendur skipaðir í hvern fjórðungsdóm, á þeim grundvelli, að enginn höfðingi nefndi mann í dóm til þess að dæma um sök á hendur sjer eða sinna samfjórðungsmanna.
ÞingnesVar þessu takmarki náð með þeim hætti, að sett voru á stofn þrjú vorþing í hverjum fjórðungi, með þrem höfðingjum hvert. Var síðan, að því er jeg ætla, hvert hinna þriggja vorþinga í hverjum landsfjórðungi látið skipa einn mann í hvern fjórðungsdóm, fyrir hina aðra þrjá fjórðunga landsins, en ekki skipa neinn mann í sinn eigin fjórðungsdóm. En um það var, að mínu áliti, varpað hlutkesti, í hvern hinna þriggja fjórðungsdóma hver einstakur hinna þriggja höfðingja vorþings skyldi nefna sinn þriðjungsmann, eins og komist er að orði í Grágás. Hvað löggjafinn á hjer við eða meint er með orðinu þriðjungsmaður, er óráðin gáta. Lausnin hjá mjer er, að orðið þriðjungsmenn hafi verið haft til þess að tákna þá íbúa innan hvers vorþings, er heyrðu undir hvert einstakt goðorð hvers hinna þriggja goða í hverju vorþingi.

Kjalarnesþing

Þingin voru haldin undir berum himni.

Tilgangurinn með ákvæði Grágásar um, að goði skuli nefna sinn þriðjungsmann í dóm, skoða jeg því að verið hafi sá, að einskorða dómnefnuna úr hverju vorþingi við íbúa vorþingsins, svo að það ætti sjer ekki stað, að goði gæti nefnt þingmann í dóm, er hann kunni að eiga búsettan í þeim sama fjórðungi, sem hann nefndi í dóm fyrir.

Áður en vorþingaskipulagið komst á, skiftist landið í sveitir, með ákveðnum mörkum og var sveitarstjórnin í höndum sveitarhöfðingja, er jafnframt háðu dómþing, samhliða þeim dómþingum, er landsmenn höfðu stofnað með ráði sveitarhöfðingja hver á sínum stað. Af þessu stafar það, að til eru í landinu nöfn á þingstöðum miklu víðar en vorþing voru háð. Með vorþingaskipulaginu breyttist þetta þannig, að eftirleiðis skyldu ekki aðrir nefna í dóm á þingum, eða stýra sakferlum, heldur en alþingishöfðingjarnir, en ferill sakar var að mínu áliti það, að höfðingjarnir háðu féránsdóm og sáu um, að eigur sekra manna væru gerðar upptækar.

Þingvellir

Frá Þingvöllum fyrrum.

Afleiðingin af samkvæðinu, sem krafist var í lögrjettu, til þess að nýmæli gæti orðið að lögum, var sú, að fleiri eða færri höfðingjar höfðu oft ýmis áhugamál, er ekki varð framgengt. Á 10. öld var kristniboð rekið af miklu kappi í Norðurálfunni, og alls staðar þar, sem kristni komst á, var hún lögboðin og allir urðu að láta skírast. Þessi siður, að lögbjóða trú, skoða jeg að verið hafi óþekktur meðal Ásatrúarmanna, eins og eðlilegt var, þar sem guðirnir voru margir, og einn var vinur Þórs, annar blótaði Frey o.s.frv. Til þess að standa á móti kristninni og tryggja það, að Ásatrúin gæti haldist óáreitt í landinu, mun það hafa verið áhugamál margra manna, að Ásatrúin væri lögboðin á sama hátt og átti sjer stað um kristnina. Þegar Þórður gellir kom fram með tillögu sína um skipun fjórðungsdóma, þótti öllum það hin mesta nauðsyn.

Þingvellir

Frá Þingvöllum.

Munu þeir, sem lögfesta vildu Ásatrúna, þá hafa notað tækifærið, og sett það sem skilyrði fyrir samkvæði sínu um fjórðungsdómana, að trúin yrði jafnframt lögfest. Og það varð með þeim hætti, að þrjú höfuðhof skyldu vera í hverri vorþingssókn. — Skyldu allir gjalda hoftoll, en Alþingishöfðingjarnir, er til þess tíma höfðu verið kallaðir landsmenn, varðveittu hofin, og var því eftir það farið að kalla þá goða og hofgoða og þeirra tign og umdæmi, er áður hafði heitið mannaforráð, goðorð.

Þegar vorþingin voru sett í lögum, áttu goðarnir í hverju vorþingi að tilkynna á næsta Alþingi vorþingsstaðinn og nafn þingsins. En þegar til framkvæmdanna kom, varð sá þröskuldur á vegi, að Norðlendingar gátu með engu móti komið þessu skipulagi á hjá sjer, því að þeir, sem voru fyrir vestan Skagafjörð, vildu ekki þangað sækja vorþing, og þeir, sem voru fyrir norðan Eyjafjörð, vildu ekki þangað sækja þing. — Norðlendingar fóru því fram á það að hafa vorþingin fjögur, og var það samþykkt, og goðum fjölgað þar um þrjá á þeim grundvelli, að hin tólf goðorð Norðlendinga skyldu vera fjórðungi skerð að Alþingisnefnu.
AlþingiGet jeg til, að þetta hafi verið framkvæmt á þann hátt, að vorþingin í Norðlendingafjórðungi hafi skiftst á að taka þátt í dómnefnunni, þannig að eitt vorþing hafi árlega setið hjá, eftir röð, er upphaflega hafi verið ákveðin með hlutkesti. Er þessir þrír goðar, sem bætt var við í Norðlendingafjórðungi, fóru að taka þátt í þingstörfum, gerðu þeir kröfu til þess, að sitja í lögrjettu, svo að þeir þyrftu ekki að lúta lögum, er samþykt kynnu að vera að öðrum kosti gegn þeirra vilja. Var sú nauðsyn samþykkt með þeim hætti, að lögrjettuskipan skyldi jöfn úr öllum fjórðungum. Fyrir hvert forráðsgoðorð innan hvers vorþings í hinum fjórðungum landsins sat því eftirleiðis einn maður í lögrjettu til viðbótar hinum þremur goðum vorþingsins. Forráðsgoðorð get jeg til að kallað hafi verið á hverjum tíma það goðorð, er forráðin hafði um að skipa þennan viðbótarmann í lögrjettuna. Ennfremur, að goðarnir í hverju vorþingi hafi skiftst á að hafa þessi forráð eftir röð, er upphaflega hafi verið ákveðin með hlutkesti.

Þingvellir

Þingvellir.

Hinir 12 nýju lögrjettumenn fengu jafnframt völd á lögbergsfundum um allsherjarmálin, því að skerðingin á þátttöku goðanna úr Norðlendingafjórðungi í þinghaldinu var aðeins bundin við dómnefnuna, og þau mál, er stóðu í beinu sambandi við hana, eða lýsingar saka og stefnur að lögbergi. Er þessar breytingar voru komnar á, voru svo fjórðungsþing sett, eitt fyrir hvern fjórðung, með þeirri undantekning, að í Vestfirðingafjórðungi virðast takmörk Þórsnessþings ekki hafa fylgt fjórðungamörkum, eða ekki hafa náð lengra en að Hvítá í Borgarfirði. Má ætla, að þetta hafi stafað af fjandskap þeirra Tungu-Odds og Þórðar gellis, og Tungu-Oddur hafi ráðið því, að Borgfirðingar sæktu ekki Þórsnessþing, og hafi það haldist síðan. — Í sambandi við það, að vald sveitarhöfðingja til að heyja dómþing var afnumið með lögum Þórðar gellis, er ekki ólíklegt, að sveitarstjórnartilhögunin í heild sinni hafi komið til umræðu, og upp af því hafi sprottið hreppaskipunin í landinu.

Kristnitakan

Þingvellir

Frá Þingvöllum – Stekkjargjá.

Næsta stórbreyting á lögum landsins varð með kristnitökunni.
Þrátt fyrir lögfestingu Ásatrúar varð ekki spornað við kristniboðinu, og hafa að sjálfsögðu þeir, er ljetu skírast, neitað að gjalda hoftoll og ekki tekið þátt í blótum. Þetta ástand, að Ásatrúarlögunum var ekki hlýtt, hefir leitt til virðingarleysis fyrir lögum almennt, og mun þar meðal annars vera að leita orsakanna til þess, að ættardeilurnar og vígaferlin í landinu höfðu náð hámarki sínu í byrjun 11. aldar.

Um trúarbrögð í landinu var svo komið, að höfðingjamir og landslýðurinn skiftist í tvo flokka, þegar þeir Gissur hvíti og Hjalti Skeggjason komu frá Noregi sumarið 1000 í trúboðserindum Ólafs konungs Tryggvasonar.

Þingvellir

Þingvellir – Snókagjá.

— Neyttu þá hvorir tveggja, kristnir menn og heiðnir, heimildarinnar til þess að segja sig úr lögum hvorir við aðra, eins og áður er vikið að. Tóku kristnir menn Hall af Síðu til þess að segja upp lög fyrir sig, en Hallur fjekk Þorgeir Ljósvetningagoða, sem þá var lögsögumaður, og Ásatrúar, til þess að ráða fram úr málinu. Þorgeir leysti þennan vanda með því að sýna mönnum fram á, að friðinum væri slitið, og stofnað væri til styrjaldar í landinu, sem enginn gæti sjeð út yfir, ef allir hefðu ekki ein lög. Lausnin var merkileg. Í fyrsta lagi fjekk hann trúbræður sína til þess að viðurkenna kristnina sem opinbera trú í landinu, sem var óumflýjanlegt, sakir ofstækis kristinna manna um trúarbrögðin og sambandsins við útlönd. Í öðru lagi fjekk Þorgeir kristna menn til þess að vera því samþykka, að leynilega eða í heimahúsum mættu menn blóta og dýrka þá guði, er þeir vildu. Afleiðingin var því sú, að þótt landið væri kristið út á við, þá var inn á við fullkomið trúarbragðafrelsi og fjárframlög til trúarbragðaiðkana afnumin í lögum.

Þingvellir

Búð á Þingvöllum.

Kristnitökulög Þorgeirs sýna þannig ekki aðeins, að hann hefir sjeð, hversu óhollt það væri þjóðinni, að hafa lög, er riðu í bág við það, er fjöldi manna í landinu taldi rjett vera, heldur einnig, að honum hefir verið það vel ljóst, að það væri skylda hans sem löggjafa, að finna ráð til þess að lögin um trúarbrögðin gætu ekki haldið áfram að ala upp í mönnum óhlýðni við allsherjarlög, eða með öðrum orðum endurvekja það ástand, að þess væri vandlega gætt, að setja ekki önnur lög en þau, er allir yrðu að viðurkenna að væru rjettmæt og allir vildu því hlýða.

Þorgeir Ljósvetningagoði undirbjó þannig jarðveginn fyrir eftirmann sinn, Skafta Þóroddsson, um að koma á friði í landinu og kenna mönnum að virða lög og rjett. Þorgeir er því einn af þeim afburðalöggjöfum þessa lands, sem sjerstök ástæða er til að minnast á þessu endnrminningaári þjóðarinnar.

Fimmtardómur

Þingvellir

Þingvellir – búðir.

Af virðingarleysinu fyrir lögum almennt, sem áður er að vikið, hlaust það, að umbætur Þórðar gellis urðu ónógar til þess að tryggja málsúrslit, þar til fimmtardómur komst á.
Um stofnun hans vitum vjer ekki annað en það, sem stendur í 97. kap. Njáls sögu. Er hugmyndin þar eignuð Njáli og talið, að hann hafi borið hana fram í þeim tilgangi að útvega Höskuldi fóstursyni sínum goðorð. Er ekkert því til fyrirstöðu, að það geti verið rjett, því að eins og kunnugt er, er það svo nú á dögum, að ýmsar stofnanir eru settar á fót til þess að geta skipað ákveðna menn í embætti. Sama er og að segja um aðferðina, sem söguritarinn segir, að Njáll hafi beitt við stofnun fimmtardómsins: að ala á óánægju manna með ástandið í landinu, að það er hið sama bragð sem einstakir menn og flokkar beita enn í dag, til þess að hafa sitt fram.

Þingvellir

Þingvellir – búðartóft.

Hvatir Njáls voru persónulegar, eftir því sem sagan hermir. En hann hefði vitanlega engu getað um þokað um þetta mál, ef hann hefði ekki notið styrks höfðingja til þess að koma því fram. Eins og kunnugt er, hafði Skafti Þóroddsson þá nýlega tekið lögsögu, en um hans daga, segir Ari fróði, urðu margir ríkismenn sekir og landflótta, af ríkis sökum hans og landstjórn. Jafnframt segir Ari, að Skafti hafi sett fimmtardómslög, eins og líka höfundur Njálu segir að hann hafi gert, enda þótt hann eigni Njáli hugmyndina. Það er ljóst af frásögn Ara fróða, að Skafti hefir sett sjer það mark að ljetta ættardeilunum og vígaferlunum af þjóðinni og koma lögum yfir landið. Til þess að framkvæma það, hefir hann orðið að skapa sjer þá aðstöðu, að hann gæti ráðið lögum og lofum landinu.

Þingvellir

Þingvellir – búð við Lögberg.

En eins og títt er um mikilhæfa og ráðríka menn, má gera ráð fyrir því, að hann hafi átt ýmsa harðsnúna mótstöðumenn meðal höfðingja Jeg geng að því vísu, að hvatir hans til þess að fylgja fram fimmtardómslögunum, hafi verið pólitískar, og ekki aðeins miðað að því að tryggja málsúrslit fyrir dómi, heldur jafnframt völd hans sjálfs í landinu. Þykir mjer sýnt, að það hafi verið fyrir fram ráðið, hverjir hinir nýju goðar skyldu vera, sem skipaðir voru, og um þann eina, sem vjer þekkjum af þeim, Höskuld Hvítanesgoða, tekur Njálssaga af öll tvímæli um það, að svo var. En um Höskuld er það eftirtektarvert, að sagan getur ekki um, að hann hafi dregið sjer þingmenn undan öðrum goðorðsmönnum í Rangárþingi en þeim feðgum Valgarði og Merði.

Þingvellir

Þingvellir – minjakort.

—Í sambandi við það, að ganga má að því vísu, að hinir nýju goðar hafi átt Skafta upphefð sína að þakka og verið hans menn, bendir þetta til þess, að þeir hafi verið ráðnir í þeim ákveðna tilgangi, að veikja völd og virðingar mótstöðumanna Skafta með því að draga þingmenn frá þeim. — Mætti geta þess til, að það hafi jafnframt verið undirmál, að þeir tæki ekki við þingmönnum þeirra höfðingja, er fylgdu Skafta að málum. — Lof öll og úrskurðir lögmálsþrætu hafði verið í höndum lögbergs, þar sem rjeði afl atkvæða. En nú notaði Skafti tækifærið til þess að gera breytingu á því. Um leið og Njáll, sem sjá má að þá var lögrjettumaður fyrir forráðsgoðorð úr Rangárþingi, bar fram fimmtardómslögin, ljet Skafti hann einn ig gera tillögu um það, að leggja sýknuleyfi og sáttaleyfi til lögrjettunnar til þess með því að gera örðugra fyrir en áður að fá þessi lof veitt. Ennfremur að leggja úrskurð lögmálsþrætu til lögrjettunnar með þeim skildaga, að hvorir tveggja skyldu vinna vjefangseið að sínu máli og gera grein fyrir þvi á hverju þeir bygðu álit sitt um það, hvað væri lög. Eins og fimmtardómujrinn miðuðu þessar breytingar að því að tryggja rjettarfarið, og gera ljettara fyrir að koma lögum yfir landið.

Þingvellir

Þingvellir – búð.

Þessar tillögur allar, sem Skafti ljet Njál bera fram á þinginu, voru þess eðlis, að allir sáu nauðsyn þeirra umbóta, sem þær fóru fram á, og með því að láta Njál, sem ekki var höfðingi, bera þessar umbótatillögur fram, kom Skafti í veg fyrir, að þetta vekti tortryggni, og að mótstöðumenn hans meðal höfðingjanna fengi grun um, að annað og meira lægi á bak við en aðeins umbæturnar á rjettarfarinu í landinu. Frásögn Njálu um breytingamar á lögrjettunni er ekki í samræmi við lagaákvæði Grágásar, og sama er einnig að segja um frásögn hennar um fimmtardóminn. Stafar þetta af því, að höfundur Njálu hefir sýnilega verið ólögfróður, enda þótt hann hafi haft ánægju af að segja frá málaferlum og málarekstri. En þetta kemur að mínu áliti ekki að sök, því að jeg skoða, að ákvæði Grágásar í þessum efnum hafi að geyma þær tillögur, er Skafti ljet Njál bera fram og samþyktar voru á þinginu.

Þingvellir

Þingvellir – Lögberg og lögrétta.

Þegar frá leið, voru ýmis fleiri lof smám saman lögð til lögrjettu, og vitum vjer um sum þeirra, að fyrir þau varð að gjalda ákveðið gjald til lögrjettu. Má vel vera, að það hafi verið algild regla að greiða ákveðin gjöld fyrir öll alþingislof, og hafi afleiðingin af því að sýknuleyfi og sáttaleyfi voru flutt yfir í lögrjettu, orðið sú, að önnur fjármál ríkisins hafi þá einnig verið lögð til hennar og allsherjarfjeð gert að lögrjettufjár, svo að fjármál ríkisins gætu öll orðið tekin fyrir í einu lagi.

Til fimmtardóms var aðeins stefnt ákveðnum málum, og eru þau talin upp í Grágás. En nú var rofin sú meginregla löggjafarinnar, að krefjast samkvæðis um alla dóma, því að í fimmtardómi skyldi meiri hluti dómenda ráða, og ef jafnmargir voru með og móti, þá átti að dæma áfall eða dómfella þann, er sóttur var, nema um vjefangsmál úr fjórðungsdómi væri að ræða. Þá skyldi dómurinn, sem upp var kveðinn, velta á hlutkesti.

Þingvellir

Frá Þingvöllum – búðir.

Föst niðurstaða er enn ekki fengin um, hvernig skilja beri þær meginreglur, er annars giltu um það, hvernig dæma skyldi vjefangsmál í fimmtardómi. Eru það aðeins tveir menn, sem reynt hafa að skýra það, þeir Björn M. Ólsen og Vilhjálmur Finsen. Var skýring B. M. Ó. í því fólgin að breyta texta Grágásar. En V. F. benti þá á, hvílík fjarstæða það væri, að ætla sjer að skýra Grágás með textabreytingum og sýndi fram á, að hugmynd B. M. Ó. leiddi þess utan út í ógöngur frá lagalegu sjónarmiði. Setti V. F. jafnframt fram tilgátu þá, er síðan hefir verið búið við, um það, hversu hugsa megi sjer, að þessi ákvæði Grágásar kunni að eiga að skiljast. En tilgáta V. F. hefir þann galla, að fyrir henni skortir heimild í Grágás. Jeg hefi því leitað nýrrar lausnar á þessu máli og er niðurstaðan, að þennan stað í Grágás sje svo að skilja, að ef fjórðungsdómendur voru allir jafnmargir í öllum stöðum, er þeir höfðu vjefengt, og hvorir tveggja höfðu farið rjett að vjefangi, þá hafi fimmtardómur átt að rjúfa þeirra dóm, er síður höfðu að lögum dæmt; ef aftur á móti aðrir höfðu í fjórðungsdómi farið rjett að vjefangi, en aðrir rangt, þá átti þeirra dómur að standast, er rjett höfðu farið að vjefangi, þótt hinir hefðu málaefni betri í upphafi; en ef hvorugir höfðu í fjórðungsdómi farið rjett að vjefangi, þá átti að standast dómur þeirra, er nær höfðu farið að vjefangi, því sem lög voru, og sömuleiðis sá dómur, er fimmtardómendum þótti nær lögum dæmdur.”


Saga Alþingis – Einar Arnórsson
(1880-1955)

AlþingiAlþingi 1271-1874
Í eftirfarandi grein gefur Einar prófessor Amórsson yfirlit yfir sögu Alþingis frá því er Íslendingar gengu Hákoni gamla Noregskonungi á hönd og fram að þjóðhátíðarárinu 1874, er Kristján IX. gaf Íslandi stjórnarskrá. — Er Einar prófessor Arnórsson sá maður, sem vjer vitum fróðastan í þeim efnum, enda munu fáir eða engir hafa kynt sjer, svo sem hann hefir gert, löggjöf Íslendinga og stjómarfar frá öndverðu.

“Árangurinn af þessum breytingum og landstjórn Skafta Þóroddssonar var, að ættardeilunum og vígaferlunum ljetti, og þegar hann fjell frá 1030, hafði hann komið þeim friði á í landinu, er helst á aðra öld, og er það tímabil í sögu landsins, sem kallað hefir verið friðaröldin. Skafti varð einnig fyrstur Íslendinga til þess, svo sögur fari af, að tryggja rjett landsins út á við og afla Íslendingum fríðinda meðal erlendra þjóða, með samningnum við Ólaf helga.
Í ár eru liðin 900 ár síðan Skafti fjell frá, og ætti það því vel við, að hans væri sjerstaklega minnst að einhverju í sambandi við Alþingishátíðina.”

Lagabreyting á Íslandi

Einar Arnórsson

Einar Arnórsson – 1880-1955.

Íslendingar höfðu, sem kunnugt er gengið Hákoni konungi gamla Hákonarsyni á hönd til fulls árin 1262—1264. Þótt eigi verði sannað, að breyting hafi orðið á skipun Alþingis árin 1264 til 1271, þá er þó ljóst, að svo hlaut bráðlega að verða. Margt í hinni eldri löggjöf og stjórnarskipan mátti varla lengi haldast eftir að konungsvald var komið á landið. Í Noregi hafð sonur og eftirmaður Hákonar gamla, sem andaðist 1263, Magnús konungur lagabætir, komið á sameiginlegri og endurbættri löggjöf í öllum hinum gömlu þingdæmum (Gulaþing, Frostaþing og Heiðsifaþing), og hafa þau lög verið nefnd hin yngri landslög. Magnús konungur hugði líka snemma á lagabreytingar á Íslandi. Hann ljet því gera frumvarp að nýrri lögbók, er hann sendi út hingað vorið 1271. Var lögbók þessi, er nefnd hefir verið Járnsíða, mjög sniðin eftir norskum lögum, en miður eftir þörfum Íslands.

Grágás

Grágás.

Árið 1271 var þingfararbálkur hennar lögtekinn hjer. Var þar með hin gamla skipun á Alþingi og vorþingum á Íslandi fallin um koll. Einnig voru goðorðin þá úr sögunni. Fjórðungsdómar á Alþingi fjellu niður og fimmtardómur einnig. Lögberg týndist brátt, því að engar þinglýsingar eða önnur þingstörf fóru þar lengur fram. Og lögsögumannsdæmið var einnig lagt niður. Lögrjettan ein stóð eftir, en mjög í breyttri mynd, eins og sýnt verður. Landinu var skift í 12 þing og sýslumenn komu í stað goðanna fornu. Járnsíða var úr lögum numin með Jónsbók 1281, en engin meginbreyting varð þá á Alþingi. Snemma var einn maður settur yfir alt land, og var hann nefndur hirðstjóri til forna, en síðar höfuðsmaður. Hann var yfirmaður sýslumanna og annara embættismanna á landinu. Sú skipun á æðstu stjórninni innan lands stóð óbreytt þangað til 1683. Þá var skipaður stiftbefalingsmaður svo nefndur, er hafa skyldi æðsta vald hjerlendis, landfógeti, er hafa skyldi yfirumsjón með gjaldheimtu sýslumanna, og amtmaður, sem líta átti eftir löggæslu og kirkjumálum. Síðar (1770) var landinu skift í ömt. Urðu nú amtmenn tveir í upphafi: Annar í Suður- og Vesturamti, og varð hann jafnframt æðsti embættismaður hjerlendur, og hjet stiftamtmaður, en hinn í Norður- og Austuramti. Síðar var Vesturamtið greint frá Suðuramti í stað stiftamtmanns kom landshöfðingjadæmið, er stofnað var 1872, sem kunnugt er. Stóð það til 1904, er æðsta stjórn svo nefndra íslenskra sjermála var flutt hingað inn í landið, eftir að hún hafði verið í höndum erlendra manna, erlendis búsettra, síðan á 13 öld, eða í nærfellt hálft sjö hundruð ára landinu til hins mesta tjóns og niðurdreps.

Skipun Alþingis 1271—1800

Jónsbók

Blaðsíða úr Jónsbók í myndprentaðri útgáfu Skarðsbókar frá 1981.

Norsku þingin, sem svara áttu til Alþingis, eins og það varð eftir Járnsíðu og Jónsbók, hjetu lögþing. Þessu nafni átti víst líka að koma á íslenska allsherjarþingið, enda er það mjög oft nefnt því nafni bæði í lögbókunum og annarsstaðar. Jafnhliða heldur þingið þó forna nafninu, Alþingi. En auk þessara heita er það oft nefnt öðrum nöfnum, svo sem Öxarárþing, almennilegt Öxarárþing, síðar Öxarár landsþing o.s.frv. Þingstaðurinn var hinn sami áfram; Þingvöllur við Öxará.
Á 16. öld (1574) stóð þó til að breyta um þingstað og flytja þingið í Kópavog. Þar þótti höfuðsmanni þingið vera nær sjer og því hægara til að sækja. En landsmenn virðast hafa virt þessa ráðstöfun algerlega vettugi, því að aldrei var Alþingi til Kópavogs flutt. Á 18. öld, milli 1780 og 1790, vildi stiftamtmaður flytja þingið til Reykjavíkur og Norðlendingar vildu fá lögþing handa sjer og Austurfirðingum fyrir Norðurland. En af hvorugu varð, og var Alþingi hið forna háð á Þingvelli við Öxará alla tíð, nema 2 síðustu árin, 1799 og 1800. Þá var það háð í Reykjavík.

Járnsíða

Járnsíða.

Þingtími. Eftir lögbókunum, Járnsíðu og og Jónsbók, átti Alþingi að hefjast 29. júní ár hvert, á Pjetursmessu og Páls, eða, ef hana bar á helgan dag, þá næsta virkan dag á eftir. Áttu þingmenn að vera komnir á Þingvöll kvöldið fyrir þingsetningardag, en oft vildi út af því bregða. Árið 1700 hófst „nýi stíll“ svo nefndur, og færðist þingsetningardagur þá til 8. júlí (Seljumannamessu). Með konungsbr. 25. jan. 1754 var aftur breytt til, og skyldi Alþingi nú hefjast 3 júlí. Eigi reyndist þó auðvelt að fá menn til að sækja þingið svo snemma, einkum um og eftir 1780, og var því aftur breytt til með konungsbrjefi 28. apríl 1784, og þingsetning ákveðin að nýju 8. júlí. Og hjelst það uns þingið var lagt niður.

Þingvellir

Þingvellir – Njálsbúð.

Lögmennirnir settu þingið, að undangenginni guðsþjónustu í Þingvallarkirkju. Lýstu lögmenn griðum og friði manna á meðal, meðan þing stæði og uns þeir væru aftur heim komnir. Eftir þingbókunum skyldi þingið standa svo lengi sem lögmaður vildi og lögrjettumenn. Fram á 17. öld virðist þing hafa staðið venjulega 3—4 daga, enda þótt boðið væri í konungsbrjefi einu frá 9. maí 1593, að það ætti að standa 8 daga að minnsta kosti. En eftir miðja 17. öld fer þingið að standa lengur. Menn komu seinna til þings en skyldi, og þess vegna varð því eigi lokið fyr en eftir 8 daga, og stundum stóð það miklu lengur, stundum um 3 vikur, og var þá margur lögrjettumaður orðinn heimfús. Með konungsbrjefi 28. apríl 1784 var loks svo fyrir mælt, að þingið skyldi óslitið standa frá 8. —22. júlí, og mátti enginn málsaðilja fá neitt bókað í Alþingisbókina eftir þann tíma. En lúka mátti sakamálum og dómum í einkamálum til loka júlímánaðar. Lögmaður sagði Alþingi upp og var þá þingstörfum lokið, og þingmenn máttu hverfa heim til sín.

Þingvellir

Þingvellir – búðir.

Á Þingvelli áttu flestir eða allir höfðingjar í fornöld búðir, er þeir, og þinglið þeirra, höfðust við í um þingtímann. Margar þeirra búða hafa sennilega staðið, þegar hin nýja þingskipun komst á. En fátt segir af viðhaldi þeirra og notkun á miðöldum. En þó virðist svo, sem Skálholtsstóll hafi átt búð á Þingvelli fram um siðaskifti, og sjálfsagt ýmsir fleiri. En fallnar munu þær vera á síðara hluta 16. aldar, nema sú búð, er umboðsmaður konungsvaldsins kann að hafa notað.

Þingvellir

Þingvellir – búðir.

Á síðara hluta 16. aldar og alla 17. öld munu þingheyjendur hafa hafst við í tjöldum um þingtímann, en um og eftir 1700 tóku ýmsir að gera sjer búðir á Þingvelli af nýju, og þótti Þingvallarklerki jarðrask hljótast af. Var veraldarhöfðingjum þá (1786) leyft að gera sjer búðir vestan Öxarár, og munu margir þeirra hafa haldið þeim við fram eftir öldinni. En Skálholtsbiskup og klerkar höfðust við í tjöldum austan Öxarár. Vistir urðu menn mjög að flytja með sjer til Alþingis, eins og í fornöld. —

Þingvellir

Þingvellir til forna.

Ríkismenn, eins og höfuðsmaður, Skálholtsbiskup og eflaust Hólabiskup líka fram eftir öldum, og meiriháttar sýslumenn, hafa haft með sjer matgerðartæki og matgerðarmenn til Alþingis, eins og í fomöld, enda voru þar einatt veislur haldnar. Þar voru og, einnig eftir að hin forna skipun lagðist af, drykkjur miklar og mannfagnaður. Á 17. öld, og einkum á 18. öld, var mikið drukkið á Íslandi, og voru þingheyjendur sumir þar engir eftirbátar. Sjerstaklega var skaðræðisdrykkjuskapur á Alþingi fyrstu 2 eða 3 tugi 18. aldar, þegar Oddur Sigurðsson lögmaður óð mest uppi.

Þingvellir

Hrossaat á Alþingishátíðinni 1930.

Hrossum sínum hafa þingmenn sjálfsagt komið til geymslu um Þingvallasveit og úti á mýrunum norðanvert við Mosfellsheiði, þegar þingreið var mjög mikil. En eftir að þingheyjendum tók að fækka, einkum eftir 1700, þá hafa þeir haft hesta sína í heimahögum á Þingvöllum. Kvartar Þingvallarprestur mjög undan átroðningi af hestum þingmanna eftir 1730. En bótalaust varð klerkur að þola þann átroðning, því að þinghaldið væri gömul kvöð á landinu. Fram eftir öldum var Alþingi en allfjölmennt. Höfðingjar og ríkismenn höfðu enn langt fram á 16. öld liðskost mikinn til þings, svo sem Torfi í Klofa, biskuparnir Ögmundur og Jón Arason, Magnús prúði Jónsson í Ögri sýslumaður og margir fleiri.

Þingvellir

Frá Alþingishátíðinni 1930.

Og enn fóru margir til Alþingis sjer til skemmtunar, eins og í fornöld, og til þess að hitta fyrirmenn landsins og kynnast þeim. Ýmsir fóru þangað til að kæra yfif órjetti, sem þeir eða venslamenn þeirra töldust hafa orðið fyrir, til þess að hreinsa sig með eiði af ámælum, til að flytja mál sín o.s.frv. En þegar líða tekur fram á 18. öld, þá minkar mjög þingsókn. Þá hætta nálega aðrir að sækja þing en þeir, sem lögskylt var þangað að koma — og var þó með torveldleikum þingsókn þeirra — og þeir, sem beinlínis áttu þar málum að gegna.

Lögrjetta

Þingvellir

Konungur og frá á Alþingishátíðinni 1930.

Hún mun hafa verið háð á völlunum austan við Öxará, eins og í fornöld, fram um 1500. Þá er hún í hólma í Öxará. Eftir það virðist hún hafa verið vestan ár. Til 1690 var logrjettan haldin undir beru lofti. Var hún þá girt með strengjum, er festir voru á stengur. Voru strengir þeir nefndir vjebönd. Innan vjebanda var að fornu fari helgistaður mikill og griða. Lágu þungar refsingar við, ef menn glöptu þingmenn, er þeir voru að dómum innan vjebanda, eða rufu dómhelg þeirra. 1690 gekkst landfógeti fyrir því, að reist var hús yfir lögrjettu; var hún að veggjum úr torfi og grjóti, en viðu lagði landfógeti til og sýslumenn vaðmál til þess að tjalda lögrjettu með og þekja. Síðar var reist timburhús yfir lögrjettu og höfðust lögmenn og lögrjettumenn við í því á hverju þingi til 1798. Viðhald á húsinu var lengstum mjög bágborið, enda flýðu menn úr því 1798 og komu eigi í það síðan til þinghalds.

Þingvellir

Frá Þingvöllum 1930.

Lögmenn, sem jafnan voru tveir stýrðu lögrjettu. Þeir áttu að hringja til lögrjettufunda „hinni miklu klukku“, eins og í Jónsbók, þingfb. 3. kap., segir. Hefir lögrjetta haft klukku til afnota sinna. 1593 eða 1594 kom ný klukka til þingsins, en ónýt er hún orðin milli 1720 og 1730, og varð þá að fá að láni kirkjuklukku hjá Þingvallarklerki. Konungsvaldinu bar auðvitað að sjá um, að öll tæki til þinghalds væru í lagi, en umboðsmenn þess vanræktu það, eins og flest annað, sem landinu mátti til hagnaðar vera. Nærri má geta, að óþægilegt hefir oft verið að sitja að dómstörfum og öðrum þingstörfum undir beru lofti. En menn höfðu nú verið vanir þessu frá ómunatíð, bæði hjer á landi og annarsstaðar.

Þingvellir

Frá Þingvöllum 1930.

Og meðan ekkert var skrásett af því, sem gerðist á þingi, nýttist betur af útivistinni. En eftir að tekið var að skrásetja það, er gerðist, þá var þess eigi kostur úti, nema sjerstaklega lygnt og blítt veður væri. Vjer vitum nú eigi, hvenær menn hafa almennt farið að skrá dóma og aðra gjörninga á Alþingi. Líklega verður það eigi fyr en á 16. öld. Lögmenn hafa látið skrá það, er þeim sýndist, og biskupar ef til vill, en engar eiginlegar Alþingisbækur eru haldnar fyr en 1630. Þá er Alþingisskrifari skipaður, og hjelst það embætti síðan, þar til þingið var lagt niður. Eru enn til óslitnar Alþingisbækur frá 1631 til 1800.

Þingvellir

Frá Alþingishátíðinni 1930.

Eftir Járnsíðu áttu sýslumenn að nefna í hverju þingi, fyrir páska, bændur (nefndarmenn) til þingfarar, alls 140. Sá, er einu sinni var nefndur, skyldi sækja Alþingi síðan árlega, meðan hann var til þess fær. Eftir Jónsbók var nefndarmannatalan færð niður í 84. 1305 átti, að því er virðist, að fækka nefndarmönnum niður í 42, en sú skipun komst aldrei í framkvæmd. Var Jónsbók jafnan fylgt um kvaðningu nefndarmanna til 1732. Og var krafist þingreiðar af þeim öllum þangað til. En eftir það urðu þeir aðeins þingvottar, og var nú eigi heimtuð þingreið af nema 10 að norðan og vestan, og eitthvað nálægt því úr hinu lögdæminu. Með tilskipun 16. nóv. 1764 var lögrjettumönnum fækkað í 20. Þar af voru 10 úr Árnesþingi, 8 úr Gullbringusýslu og 2 úr Kjósarsýslu. Skyldu aðeins 10 sækja þangað árlega.

Alþingi

Frá Alþingishátíðinni 1930.

Síðar (1770) var ákveðið, að einungis 5 lögrjettumenn skyldu þing sækja og 1796 urðu þessir menn aðeins 4. Nefndarmenn fengu ákveðið kaup fyrir þingförina, er mun svara hjer um bil til 9—10 króna á dag, miðað við kaupmagn peninga nú á dögum. Lengstum áttu sýslumenn að greiða gjald þetta af þingfararkaupum, sem þeir heimtu árlega af skattbændum. Sýslumenn áttu og að fæða nefndarmenn á þingi, en bændur áttu að hýsa þá og fæða á þing og af þingi. Eftir 1764 var tekið að greiða lögrjettu mönnum þingfararkaup í peningum, 24 skildinga á dag, eða ekki langt frá 16 krónum, eftir kaupmagni peninga nú. Af nefndarmönnum áttu lögmenn að nefna 3 úr hverju þingi til setu í lögrjettu innan vjebanda, eða alls 36, og urðu þá 18 úr hvoru lögdæmi. Af þessum 36 lögrjettumönnum nefndu lögmenn svo í dóma 6, 12 eða stundum 24. Lögmenn dæmdu framan af hvor með sínum lögrjettumönnum mál úr sínu lögdæmi, en á 17. öld dæmdu þeir alltaf, eða nær því, báðir saman, úr hvoru lögdæminu sem málin voru.

Þingvellir

Frá Alþingishátðinni 1930.

Eftir 1720 er farið að fara hjer eftir Norsku lögum, sem kennd eru við Kristján fimmta, og lögleidd voru í Noregi 15. apríl 1687. Dæmdu nú lögmenn einir, svo að lögrjettumenn urðu aðeins þingvottar, enda var þeim nú fækkað, eins og áður segir. Helstu störfin, sem fram fóru í lögrjettu, voru þessi: 1. Dómstörf. Lögrjetta var yfirdómstóll yfir sýslumönnum, og auk þess dæmdi hún mál, sem lægsti dómstóll. Lögmenn samþykktu venjulega dóma lögrjettumanna. Þeim varð áfrýjað til konungs og ríkisráðs, upphaflega hins norska, en síðan danska. En 1593 var yfirrjettur stofnsettur á Þingvelli, og mátti til hans skjóta dómum lögrjettu og lögmanna.
Alþingi2. Löggjafarstörf. Framan af voru frumvörp, er konungsvaldið vildi gera hjer að lögum, borin upp á Alþingi,- eins og Jónsbók 1281. Og lengi fram eftir var það svo. En venjulega hafði konungsvaldið sitt fram, að Alþingi samþykkti eða tók við lögum þeim, sem send voru hingað. Og á 17. öld er farið að birta konungsboð hjer á landi án þess að sjá megi, að Alþingi sje spurt að, hvort það vilji samþykkja þau. Sjálft gerði Alþingi samþyktir um ýms efni, er lög mæltu eigi um, og jafnvel um sum, sem lögákveðin voru, alt fram um 1700. En þá hættir Alþingi þessari starfsemi, enda var einveldið þá algerlega komið hjer á. Á 18. öld hefir Alþingi engin afskifti af lagasetningu.

Alþingi

Ráðherrar Íslands 1930.

3. í lögrjettu voru birtar skipanir konungs og annara stjórnarvalda, lesnar lýsingar veðs, landsmála, vogreks, óskilafjár o. s. frv. Síðar voru birt þar afsalsbrjef og makaskifta, og skjöl um allskonar efni, sem of langt yrði upp að telja.

Fram eftir öldum var sakamönnum refsað á Alþingi (galdramenn brenndir, þjófar hengdir, sifjaspellsmenn höggnir, konum drekkt, þjófar brennimerktir o.s.frv.). En af er slíkt lagt á 18. öld. Þá taka menn út refsingar í hjeraði eða í fangelsum erlendis eða í tugthúsi í Reykjavík. Á 18. öld er lögrjetta aðeins dómstóll og þinglýsingastaður. Vegur hennar fór sífellt þverrandi eftir því sem vald hennar minkaði og þingið varð fásóttara. Þangað komu þá lögnjennirnir, 2, 4 eða 5 lögrjettumenn milli 10 og 20 sýslumenn, landfógeti og amtmenn, og þó varla alltaf, og svo þeir, er málum áttu að gegna. Var það fámenni á móts við það, er þangað komu 70—80 lögrjettumenn og margt annara manna.

Yfirrjettur

Alþingi

Frá Alþingishátíðinni 1930.

Hann var stofnaður með tilskipun 6. desember 1593. Skyldi höfuðsmaður vera forseti hans, og með sjer átti hann að taka 24 dómendur úr tölu sýslumanna og annara embættismanna (klausturhaldara og jarðaljensmanna og lögrjettumanna). Þegar höfuðsmannsdæmið var lagt niður, þá gerðist amtmaður, og eftir 1770 stiftamtmaður, forseti dóms þessa. Eftir konungsbrjefi 17. maí 1735 þurftu meðdómendur í yfirdómi ekki að vera fleiri en 12, en máttu þó vera 24, og loks var þeim fækkað í 6 með konungsbr. 30. apríl 1777. Stóð svo þangað til yfirrjetturinn var lagður niður árið 1800. Dómstóll þessi naut aldrei sjerstakrar virðingar eða trausts landsmanna. Og fór hvorugt vaxandi, enda komu fá mál til hans venjulega. Sum árin þurfti eigi að heyja dóminn, af því að eigi lágu fyrir mál til að dæma. Yfirrjetturinn var alltaf háður á Þingvelli oft, að minsta kosti, í lögrjettuhúsinu á 18. öld. Árin 1799 og 1800 var hann háður í Reykjavík. Dómendur fengu eftir 1770 10 ríkisdali fyrir dómstörf sín í yfirrjetti. Málum frá yfirrjetti mátti skjóta til hæstarjettar Danmerkur í Kaupmannahöfn.

Gestarjettur

Alþingi

Frá Alþingishátíðinni 1930.

Með konungsbrjefi 24. jan. 1738 var stofnaður gestarjettur svo nefndur á Þingvelli. Sýslumaðurinn í Árnessýslu átti að skipa þenna dóm. Það hafði áður tíðkast, að lögrjetta dæmdi sem lægsti dómur mál út af illmælum og barsmíðum og öðru slíku milli manna, er gerst höfðu á Þingvelli, milli þingsóknarmanna, um þingtímann. En þessi mál þóttu tefja störf lögrjettu of mikið, og því var gestarjetturinn stofnaður. Fara ekki margar nje miklar sögur af gestarjetti þessum. Hann hverfur og vitanlega úr sögunni, þegar Alþingi var lagt niður.

Prestastefnur – Synodalrjettur
Eftir Járnsíðu áttu biskupar að nefna 12 skynsama, lærða menn til þingreiðar. En eigi er kunnugt, hvaða hlutverk þeir áttu að vinna á Alþingi. Eigi segir Járnsíða, að biskupar hafi sjálfir verið þingreiðarskyldir.
AlþingiJónsbók segir ekkert um þingreið biskupa eða klerka. Og eigi segir heldur neitt um það efni í kirkjurjetti. Það er þó alkunnugt, að biskupar sóttu venjulega þing, bæði Skálholtsbiskup og Hólabiskup líka. Og á Alþingi stóðu stundum höfuðrimmur milli klerka og leikmanna í katólskum sið, t. d. milli Staða-Árna og Hrafns Oddssonar, Ólafs biskups Rögnvaldssonar og Hrafns Brandssonar, og jafnvel eftir siðaskifti (Guðbrandur biskup Þorláksson og Jón lögmaður Jónsson). Hólabiskupar höfðu ekki slík erindi til Alþingis sem Skálholtsbiskupar, því að nyrðra voru prestastefnur haldnar í Skagafirði, á Flugumýri oftast, eða annarsstaðar þar í biskupsdæminu. En Skálholtsbiskupar hafa lengi haldið prestastefnur fyrir sitt biskupsdæmi á Þingvelli um þingtímann. Þetta hafði þó ekki verið ákveðið eitt skifti fyrir öll fyr en 1639. Þá fjekk Brynjólfur biskup Sveinsson það samþykkt á prestastefnu, að aðalprestastefnu (Synodus generalis) Skálholtsbiskupsdæmis skyldi heyja á Þingvelli við Öxará á sama tima sem Alþingi.

Þingvellir

Bagall er fannst við uppgröft á Þingvöllum.

Þetta var biskupi hentugt, því að þar gat hann jafnframt hitt alla innlenda forráðamenn landsins. Síðan var prestastefna Skálholtsbiskupsdæmis háð á Þingvelli til 1789, enda var það beint lögákveðið í erindisbrjefi biskupa 1. júlí 1746, að þar skyldi prestasefna Skálholtsbiskupsdæmis vera. Sóttu synodus milli 10 og 20 prófastar og prestar úr nærsýslunum eftir kvaðningu biskups. Hjelt biskup þeim kost í tíð Brynjólfs, Þórðar Þorlákssonar og Jóns Vídalíns, að því er virðist. Fram undir lok 17. aldar mun biskup einn hafa haft forsæti prestastefnu sinnar, en eftir að amtmannsembættið er á stofn sett, fer amtmaður að taka þátt í dómstörfum prestastefnunnar (synodalrjetti). Gerist hann þá jafnframt biskupi forseti synodalrjettar, og stiftamtmaður síðan. Síðar miklu reis deila um forsæti synodalrjettar milli Levetzows stiftamtmanns og Hannesar biskups Finnssonar, því að stiftamtmaður taldist einn eiga að hafa forsæti í dóminum, en biskup kvað þá báða eiga að hafa það, er og var rjett. Fjelst og Kancelli á skoðun biskups.
Synodalrjetturinn dæmdi svonefnd „andleg mál“, þar sem prestar voru annar aðili, enda snertu málin kenningar þeirra og hegðun, hjónabandsmál, mál um kirkjuaga og gildi kirkjulegra athafna, svo sem skírnar, aflausnar o.s.frv. Synodalrjetturinn fluttist af Þingvelli um leið og lögrjetta og yfirrjettur.

Niðurlagning Alþingis hins forna

Alþingi

Oddur Sigurgeirsson sterki af Skaganum og Kristján X. Danakonungur á Alþingishátíðinni 1930. Oddur var mætur maður en stakk aðeins í stúf, m.a. vegna slyss sem hann lenti í sem barn og veikinda síðar á lífsleiðinni sem háðu honum mjög. Hann átti viðburðarríka ævi en Alþingishátíðin hefur verið honum ógleymanleg og kærkomið mótvægi við stríðni og skilningsleysi sem hann fékk vænan skerf af.

Það var nokkurn veginn auðráðið, að Alþingi við Öxará mundi eigi verða flutt þangað aftur, úr því að það var einu sinni komið til Reykjavíkur. Á Þingvelli hefði þurft að reisa nýtt lögrjettuhús, og þá lá nær, að reisa það í Reykjavík eða kaupa þar hús til þinghalds, sem einnig komst til tals. En svo kom annað til. Dómaskipun landsins var mjög óhentug. Alþingi var háð einu sinni á ári. Þetta skipulag olli feikna drætti á málum. Dómstigin voru fjögur, þrjú innlend (hjeraðsdómur sýslumanna, lögmannsdómur eða lögþings, yfirrjettur) og eitt erlent (hæstirjettur í Danmörku). Hlaut því afskaplega langur tími að líða frá því er mál var höfðað og þar til er það hafði gengið gegnum æðsta dómstólinn. Magnús Ólafsson Stefánssonar stiftamtmanns — þeir frændur höfðu þá að heldri manna sið danskað nafn sitt og nefnt sig Stephensen — var þá lögmaður.

Tíu aurar

Tíu aura peningur frá 1940 – með marki Kristján X., konungs Íslands.

Hann var, sem alkunnugt er, að mörgu leyti maður stórvel gefinn, gáfaður og lærður vel að þeirra tíma hætti, starfsmaður í besta lagi, metorðagjarn, fylginn sjer og óvæginn, ef því var að skifta. Hann var, ásamt Vibe landfógeta, Stefáni amtmanni Þórarinssyni — sem líka hafði danskbeyglað föðurnafn sitt í „Thorarensen“ — og Grími Thorkclin, skipaður haustið 1799 í nefnd til að íhuga skólamál landsins og dómsmál. Lagði nefndin til, að Alþingi, bæði ,,lögþingið“ (lögrjetta) og yfirrjettur, yrði algerlega lagt niður, en í staðinn yrði settur á stofn landsyfirrjettur, á borð við stiftsyfirrjettina norsku, sem þá höfðu verið stofnaðir fyrir skömmu. Fara þeir nefndarmenn, og þó aðallega Magnús lögmaður, heldur kuldalegum orðum um þinghaldið á Þingvelli og þingstaðinn, og einkum fær yfirrjetturinn, sem Ólafur gamli stiftamtmaður, faðir Magnúsar, veitti forstöðu, mjög illa útreið hjá honum. Kancellí fjelst á tillögur nefndarinnar um niðurlagningu Alþingis við Öxará og stofnun landsyfirrjettar í Reykjavík í staðinn. Og fór það fram, að þingið var alveg lagt niður árið 1800, eins og kunnugt er.

Alþingi 1845—1874

Þingvellir

Frá Alþingishátíðinni 1930.

Með tilskipun 28. maí 1831 og 15. maí 1834 var sett svonefnd ráðgjafarþing á stofn í Danmörku. Voru þau tvö, annað á Jótlandi og hitt í Hróarskeldu. Þing þessi áttu ráðgjafaratkvæði um ýms löggjafarmál. Á Hróarskelduþingi átti Ísland og Færeyjar að hafa 3 fulltrúa. Var með Ísland farið eins og það væri amt í Danmörku, að öðru en því, að landsmenn kusu eigi þessa fulltrúa sína, heldur gerði konungsvaldið það. Íslandi var þá, og hafði lengi verið, stjórnað í Kaupmannahöfn, og fóru stjórnarskrifstofurnar tvær, Kancelli og Rentukammer, með íslensku málin. Íslenskir menn hugðu margir, sem von var, að landinu mundi lítið gagn standa af afskiftum dansks ráðgjafarþings af íslenskum málum. Áhugaleysi þeirra og þekkingarleysi mundi girða fyrir alla nytsemd af meðferð íslenskra mála á dönsku þingi. Baldvin Einarsson skrifaði þegar 1831 ritling um ráðgjafarþingin dönsku og um ráðgjafarþing á Íslandi.

Þingvellir

Frá Alþingishátíðinni 1930.

En þó fyr en 1837. Þá gengust ýmsir merkir menn fyrir því, að gerðar voru bænarskrár til konungs um ráðgjafarþing hjer á landi. Komust þær sumar til Kancellis. En róðurinn var þungur, því að Kancelli taldi það ósæmilegt, að Íslendingar skyldu þá biðja um sérstakt ráðgjafarþing, með því að Friðrik 6., sem þá sat á konungsstóli í Danmörku, hafði lýst yfir því, að hann mundi eigi gera breytingu á ráðgjafarþingunum. Hinsvegar var með konungsúrskurði 22. ág. 1838 efnt til samkomu embættismanna nokkurra hjer undir forsæti stiftamtmanns. — Embættismannanefnd þessi hjelt tvisvar fundi, 1839 og 1841, en var svo lögð niður. Friðrik 6. ljetst 8. des. 1839. Var það happ mikið, bæði Íslandi og Danmörku.

Kristján XIII

Kristján XIII.

Til ríkis kom nú Kristján konungur 8., gáfaður maður og frjálslyndur, miðað við konungmenn þeirra tíma. Hann gaf út konungsúrskurð 29. maí 1840, þar sem gerðar voru ráðstafanir til þess, að embættismannanefndin íslenska yrði spurð að því, hvort eigi myndi Íslandi heppilegast að fá ráðgjafarþing á Íslandi, hvort það ætti eigi að heita Alþingi og hvort það skyldi eiga að heyja á Þingvelli við Öxará. Nefndin lagði auðvitað til, að Ísland fengi sjerstakt ráðgjafarþing er Alþingi hjeti. Meirihluti nefndarinnar lagði ennfremur til, að þingið yrði háð í Reykjavík, en minnihlutinn vildi hafa það á Þingvelli við Öxará. Deildu menn mjög um þingstaðinn, sem kunnugt er. En svo fór að lokum, að Reykjavík var kjörinn þingstaður Það varð mönnum og mikið ágreiningsefni, hvernig haga skyldi ákvæðum um kosningarrjett og kjörgengi til þingsins o. fl. En svo fór, að tillögur embættismannanefndarinnar gengu í flestu fram. Með konungsúrskurði 8. mars 1843 var loks ákveðið að stofna ráðgjafarþing á Íslandi, og átti þingið að heita Alþingi. Með tilskipun s.d. voru settar reglur um kjörgengi og kosningarrjett og þinghaldið alt. Upphaflega átti þingið að koma saman sumarið 1844, en þess varð eigi kostur, því að stjórnarvöldin í Kaupmannahöfn höfðu að venju dregið nauðsynlegar framkvæmdir til undirbúnings þinghaldinu. Fyrsta ráðgjafarþingið varð því ekki háð fyrr en í júlí 1845.

Skipun Alþingis 1805—1874

Þingvelllir

Frá Aþingishátíðinni 1930.

Landinu var þá skift í 19 sýslur eða lögsagnarumdæmi og Reykjavíkurkaupstaður að auki. Var hver sýsla og Reykjavík kjördæmi sjer og skyldi kjósa einn alþingismann, og einn til vara, í hverju þessara kjördæma. Voru þjóðkjörnir þingmenn á ráðgjafarþingunum því 20, þar til 1857, að Skaftafellssýslur urðu 2 kjördæmi. Urðu þá kjördæmi og þjóðkjömir þingmenn 21. Og var svo síðan til 1874. Auk þessa kjöri konungsvaldið alt að því 6 þingmenn, sem nefndir vóru konungkjömir. Alls áttu því sæti 26 og síðar 27 þingmenn á Alþingi. Þess er þó getanda, að í Vestmannaeyjum varð eigi kosinn þingmaður, meðan kosningarrjettarskilyrði Alþingistilskipunarinnar 8. mars 1843 stóðu, því að enginn hafði þar kosningarrjett. Stóð svo til 1857. Kjörtímabil þingmanna var 6 ár. Alþingi starfaði alltaf í einni málstofu þetta tímabil. Það kom jafnan saman annað hvert ár, stöku árin, nema 1851. Þá var þjóðfundurinn haldinn, en Alþingi eigi, sem vitað er. Aukaþing var ekkert haldið á þessu tímabili, en einu sinni var þing rofið, 1869, og efnt þá til nýrra kosninga, vegna stjórnardeilunnar milli Danmerkur og Íslands. Á þessu tímabili voru 14 þing háð, og þjóðfundurinn að auki, allt regluleg þing. Aukaþing þekktust ekki eftir Alþ.tilsk. 8. mars 1843.

Þingvellir

Þingvellir – kort.

Upphaflega áttu þeir einir karlmenn kosningarrjett, er áttu fasteign að minsta kosti 10 hndr. að mati, eða höfðu lífstíðarábúð á þjóðjörð eða kirkjujörð, er væri að minnsta kosti 20 hndr. að mati, eða ættu húseign, að minsta kosti 1000 rbdl. virði, í Reykjavík eða einhverjum verslunarstaðanna, sem þá voru. Þessi skilyrði þóttu alltof ófrjálsleg, sem von var. Ákvæðin Alþtilsk. um kosningarrjett og kjörgengi voru sniðin eftir samsvarandi fyrirmælum í tilsk. um dönsku ráðgjafarþingin. — Auk þessara skilyrða skyldi kjósandi enn fremur vera 25 ára gamall, hafa óflekkað mannorð, og hafa forræði á fje sínu. Kjörgengis-skilyrðin voru hin sömu sem kosningarrjettar-skilyrðin, að því viðbættu, að þingmaður skyldi vera 80 ára, hafa haft fasteignaráðin í 2 ár — Hann var aðeins kjörgengur í því amti, þar sem fasteign hans var — að hann skyldi vera kristinnar trúar, þegn Danakonungs, og hafa átt heima í 5 síðustu árin í löndum Danakonungs í Norðurálfu.

Þingvellir

Þingvellir – kort.

Með tilsk. 6. janúar 1857 voru skilyrði kosningarrjettar og kjörgengis mjög rýmkuð. Nú var eignarhald á fasteign eða ábúð á jörð eigi lengur skilyrði. — Nú fengu kosningarrjett bændur, sem höfðu grasnyt og guldu gjald til allra stjetta, embættismenn og þeir, sem tekið höfðu lærdómspróf við Kaupmannahafnarháskóla eða Prestaskólann, enda væru þeir eigi hjú, svo og kaupstaðaborgarar og loks þurrabúðarmenn, ef þeir greiddu 6 rbdl. til sveitar sinnar. Auk þess áttu kjósendur vitanlega að fullnægja skilyrðunum um aldur, mannorð, fjárforræði og eigi máttu þeir heldur standa í skuld fyrir þeginn sveitarstyrk. Loks átti kjósandi að hafa haft heimili í kjördæmi síðasta árið fyrir kosningu. Kjörgengisskilyrðin urðu nú hin sömu sem kosningarrjettarskilyrðin, nema þingmannsefni átti að vera 30 ára að aldri, þegn Danakonungs, kristinnar trúar, og hafa verið 5 ár búsettur í löndum Danákonungs í Norðurálfu, en eigi þurfti hann að hafa átt heimili í kjördæminu. Alþingiskosningar voru þá opinberar, og þurftu eigi að fara fram sama dag um land allt, eins og nú. Kjörstaður var þá einn í hverju kjördæmi, enda voru kosningar oft mjög báglega sóttar, í samanburði við það, sem nú er. Á þessu tímabili buðu menn sig eigi fram til þingsetu, eins og nú, og mátti því verða, að sá maður yrði fyrir kjöri, sem alls eigi vildi taka við kosningu. Alþingi úrskurðaði um kjörgengi og lögmæti kosninga, eins og nú. Ef aðalþingmanns missti við, eða hann forfallaðist, þá tók vara-þingmaður sæti.

Þingvellir

Þingvellir – Þingvallakirkja.

Alþingi kom saman 1. júlí, eða næsta virkan dag þar á eftir, ef 1. júlí bar á sunnudag, og skyldi standa 4 vikur. Þingtíminn var þó lengdur, ef á þurfti að halda. Konungsfulltrúi setti þingið og sleit því. Þingmálið var íslenska, en þó mátti konungsfulltrúi tala á dönsku, en þýða átti þá jafnharðan ræðu hans. Eftir 1849 — þá varð Páll amtmaður Melsted konungsfulltrúi — hjeldu konungsfulltrúar ræður sínar á íslensku. Fyrstu 2 þingin voru háð fyrir lokuðum dyrum, þrátt fyrir kröfur þingmanna um þinghald í heyranda hljóði, en 1849 og síðan var þing haldið fyrir opnum dyrum. Þingið kjöri forseta sinn og varaforseta og svo skrifara. Þingið var háð í salnum í Latínuskólanum öll þessi ár, því að þinghús var eigi reist þá, og eigi annað hús jafn hentugt þá eða veglegt til þinghalds.

Þingvellir

Þingvellir 1866.

Lagafrumvörp af hendi konungsvaldsins, er snertu mannrjettindi manna, eignir, skatta og álögur í almennings þarfir, átti að leggja fyrir þingið. Það hafði rjett og skyldu til ráðgjafar um þessi efni, en samþyktarvald um löggjöf hafði þingið ekki þá, eins og síðan 1874. Einstakir þingmenn gátu og borið löggjafarmál undir þingið. Um stjórnarfrumvörp voru hafðar tvær umræður. Hjet hin fyrri undirbúningsumræða, en hin síðari ályktunarumræða. Um frumvörp einstakra manna eða málefni, er þeir báru upp, voru hafðar þrjár umræður, inngangsumræða og síðan hinar tvær áðurnefndu.

Þingvellir

Þingvellir 1882.

Ef Alþingi vildi koma máli fram í einhverri mynd, þá var venja, að forseti og skrifari sendi um það bænarskrá til konungs, þar sem fram var tekið, hvers efnis þingið vildi hafa væntanleg lög um málið. En það var auðvitað oft óvíst, hvort tillögur þingsins fyndu náð fyrir augum stjórnarskrifstofanna eða ráðherranna Kaupmannahöfn. Um þeirra hendur fóru málin áður en þau komu til konungs, og þeirra ráðum mun hann nær altaf hafa hlítt. Á þessu tímabili hafði Alþingi með höndum öll þau mál, sem þá kvað mest að og mestu vörðuðu landið. Þegar á fyrsta þinginu (1845) kom verslunarmálið til meðferðar. 1787 hafði verslunin að vísu verið leyst úr versta einokunarlæðingnum, en Danir einir mátti versla hjer leyfislaust og afarkostalaust. Og tiltölulega fáar hafnir voru hjer löggiltar.

Alþingishúsið

Alþingishúsið, byggt 1881 – merki Kristjáns IX (1818-1906) er færði Íslendingum stjórnarskrána 1874.

— Flestir bestu menn landsins vildu fá íslenska verslun við útlönd gefna frjálsa öllum þjóðum og jafnrjetti þeirra á meðal. Stóð í þessu þófi nær áratug, uns verslunarfrelsi fjekst nokkurnveginn með lögum 15. apríl 1854, er ríkisþing Dana og konungur setti. Meðal annara stórmála, er ráðgjafarþingin fóru með, má nefna skólamálin, fjárkláðamálið á þingunum 1857—1869, fjárhagsmálið svo nefnt, um skuldaskifti Íslands og Danmerkur 1865 og síðast en eigi síst stjórnarbótarmálið (sambandsmál Íslands og Danmerkur) 1867, 1869 og 1871 og frumvörp bæði í sambandi við það og sjer í lagi (1878) um stjórnarskrá landsins.

Jón Sigurðsson

Jón Sigurðsson (1811-1879).

Þau mál tókst Alþingi eigi að leysa. Stöðulög 2. jan. 1871 og stjórnarskrá 5. jan. 1874 voru sett án þess að þau væru lögð fyrir Alþingi og að sumu leyti þvert ofan í vilja þess, eins og kunnugt er.

Á þessu tímabili sátu margir kunnustu og ágætustu menn landsins á þingi. Fyrstan má þar nefna Jón Sigurðsson forseta. Hann var kjörinn þingmaður allt þetta tímabil, en sat þó ekki á þingunum 1861—1863. Þá má nefna menn eins og Þórð Sveinbjörnsson yfirdómsforseta, sem var líka lærður maður og mikilhæfur, Pjetur biskup Pjetursson, Jón Guðmundsson ritstjóra, prófastana Hannes Stephensen og Halldór Jónsson, Benedikt Sveinsson, Arnljót Ólafsson, Jón Sigurðsson á Gautlöndum o.m.fl. þjóðkunna menn.”

Heimildir:
-https://timarit.is/page/1219644#page/n0/mode/2up
-Morgunblaðið – Hátíðarblað 26. júní 1930, Eggert Briem, Alþingi hið forna, bls. 4-7.
-Morgunblaðið – Hátíðarblað 26. júní 1930, Einar Arnórsson, Saga Alþingis, bls. 7-10.

Alþingi

Frá Alþingishátíðinni á Þingvöllum 1930.