Sigurveig Guðmundsdóttir

Í Lesbók Morgunblaðsins árið 1984 segir Sigurveig Guðmundsdóttir frá “Sumri í Hrauntúni” á Þingvöllum. Lesningin gefur góða mynd af því hvernig umhorfs var á þessum ágæta bæ, fyrrum selstöðu, skömmu eftir aldarmótin 1900.

Hólmfríður Hjaltason

Hólmfríður Hjaltason og Guðmundur eiginmaður hennar ásamt dætrum sínum, þeim Margréti og Sigurveigu.

“Nú sést ekkert eftir af bænum í Hrauntúni í Þingvallasveit nema tóftir. Árið 1919 bjó Jónas hreppstjóri Halldórsson þar enn, og greinarhöfundurinn segir frá því þegar hún dvaldist þar sumarlangt með móður sinni.

Sumarið 1919 var móðir mín, Hólmfríður Hjaltason, ráðin sem ráðskona að Hrauntúni í Þingvallasveit. Faðir minn, Guðmundur Hjaltason, hafði dáið úr spönsku veikinni þá um veturinn. Móðir mín fór eftir auglýsingu í blaði og þekkti því ekkert til væntanlegs verustaðar. Einhver kunnugur bar bænum gott orð og sagði að ekki sæist í hús þar fyrir skógi. Það var mikið tilhlakk fyrir níu ára krakka að eiga að dvelja i slíkri skógarparadís. Ferðin hófst eldsnemma að morgni frá Hafnarfirði og gengum við alla leið til Reykjavíkur. Koffortinu sínu kom móðir mín á hestvagn Guðmundar Magnússonar pósts og gengum við á eftir vagninum. Ansi var nú brekkan erfið upp Öskjuhlíðina og fegin var ég þegar við komumst inn að Tungu, húsi Dýraverndunarfélags Íslands. Þar hittum við Símon bónda í Vatnskoti en hann var búinn að fá sér vörubíl sem flutti bæði fólk og fé. Bíllinn var ekki yfirbyggður og sátu allir á honum undir beru lofti. Fyrir utan okkur mömmu voru tvær danskar stúlkur í bílnum og drengur á mínum aldri.

Tunga

Tunga.

Var nú lagt af stað og ekið inn að Elliðaám. Þá stansaði bíllinn og vildi ekki fara lengra. Símon sagði að hlassið væri of þungt. Lét hann konurnar og strákinn fara úr og gengu þau aftur í bæinn. Ég fékk að sitja í heim í Tungu. Þar biðum við í tvo daga en síðan lagði sama fólkið af stað.
Símon í Vatnskoti var einstaklega kátur og glaður maður, lék við hvern sinn fingur hvað sem á gekk. Við fórum framhjá Geithálsi og þaðan sem leið lá austur Mosfellsheiði.

Hjá Þingvallapresti

Þingvellir

Þingvellir 1905 – Ásgrímur Jónsson.

Símon í Vatnskoti skilaði okkur mömmu heim á prestssetrið, sagði að þar myndi hún fá leiðbeiningu um hvert hún ætti að fara. Þá voru á Þingvöllum þrjú hús fyrir utan prestssetrið, Konungshúsið sem reist var handa Friðriki áttunda, veitingahúsið Valhöll, á allt öðrum stað en nú er, og í Fögrubrekku sumarbústaður Péturs Hjaltested kaupmanhs. Bærinn prestsins var nokkuð stór í mínum augum. Mamma barði að dyrum og gerði boð fyrir prest. Hann kom fljótt til dyra og bauð til stofu. Síra Jón Thorsteinsson var lágur vexti og grannur. Hann var í svörtum jakkafötum og víður jakkinn, mjög svo prestslegur. Hann bauð okkur skyr að borða og kaffi á eftir í fallegum postulínsbollum með rauðri rós. Séra Jón var einstakt ljúfmenni, þýður og einlægur í viðmóti. Mamma hafði verið kvíðin að fara í vist hjá ókunnugum, komin um fimmtugt með barn í eftirdragi. Hún hafði átt góða daga sem húsmóðir á sínu heimili svo að viðbrigðin voru mikil. Síra Jón hlustaði á hana af hluttekningu, fór því næst að fræða hana um væntanlegan húsbónda.Jónas Halldórsson
Jónas Halldórsson hreppstjóri í Hrauntúni var fæddur árið 1853. Halldór faðir Jónasar hafði komið með einum Þingvallapresta vestan af Snæfellsnesi. Prestur leyfði Halldóri að byggja sér bæ á rústum gamalla seltófta norður í Þingvallahrauni, og gerði hann þar sæmilega bújörð.
Jónas tók við búi föður síns 18 ára gamall og þótti það vel gert af svo ungum manni. Síðar kvæntist hann Hólmfríði Jónsdóttur frá Hæðarenda í Grímsnesi. Þau eignuðust sjö börn en þau sem upp komust voru Halldór, fornbókasali og fjallamaður, Ásgeir, skipstjóri hjá Eimskip, Jónína, fór til Vesturheims, og Elísabet, bjó í Reykjavík, gáfuð kona og skörungur. Son er Jónas hét átti bóndi í elli sinni með ráðskonu.
Jónas tók fljótt við ýmsum trúnaðarstörfum fyrir sveit sína og varð hreppstjóri um langa æfi. Hann þótti einrænn í lund og ekki við allra skap. Mikill gáfumaður að upplagi og áreiðanlega ekki á réttri hillu. Hann var með afbrigðum bókhneigður og lét hvern eyri sem hann átti aflögu ganga til bókakaupa. Enda átti hann að lokum stórmerkilegt og vandað bókasafn sem vakti furðu margra því að slíkur munaður stakk mjög í stúf við fátæklegan búnað torfbæjarins. Sumir virðast hafa lagt Jónasi þessi bókakaup til lasts, þótt slíkt óþarfi mikill. En þá svaraði Jónas: — Ef ég hefði lagt þessa peninga í brennivín, þá hefðuð þið ekki sagt neitt.

Kona Jónasar var mikil búkona og er sú saga sögð að einu sinni hafi bóndi farið með koffortahest til Reykjavíkur að kaupa mat til vetrarins. En þegar komið var heim í Hrauntún, var ekkert nema bækur í koffortunum. Þá mun húsfreyju hafa þótt nóg um bókakaup húsbóndans. Jónas í Hrauntúni mun hafa verið bókasafnari af ástríðu. Af lestri sínum varð hann ágætlega sjálfmenntaður, vel ritfær og glöggur reikningsmaður.

Þingvallakirkja

Þingvallakirkja. Innimynd. Kirkjur Íslands, 4. bindi: 227: Þingvallakirkja að innan í lok 19. aldar. Ekki verður annað séð af þessari mynd en að veggir kirkjunnar að innan hafi verið ómálaðir fram undir 1900, þótt vísitasía 1860 segi annað. Kvistir eru mjög greinilegir í veggklæðningu. Hugsanlega hefur málningin aðeins verið þunn þekja og kvistirnir því sýnilegir. Aftur er greinilegt að innanstokksmunir eru málaðir. Altaristafla Ófeigs Jónssonar frá 1834-35 er enn yfir altarinu en hún var seld til Englands sumarið 1899. […] Ljósmyndari Sophus Tromholt.

Síra Jón bauð mömmu að skoða kirkjuna og fórum við þangað. Ekki man ég eftir öðru þar nema predikunarstólnum og þá vegna þess að síra Jón gekk að honum, klappaði á hann og sagði: Þetta er nú stóllinn minn. — Um leið brosti hann eins og barn. Hann fylgdi okkur út fyrir tún. Þar benti hann mömmu á götuna sem hún átti að fara og sagði henni að leita til sín ef hún þyrfti einhvers með. Kvöddum við síðan þennan góða prest með virktum.

Gengið um Hrauntúnsgötuna

Hrauntún

Hrauntúnsgatan.

Gengum við nú sem leið lá inn í Leirur, þar sem söluskálinn er nú. Þar kom á móti okkur hár maður roskinn, grannvaxinn með alskegg, derhúfu á höfði klæddur mórauðum vaðmálsjakka og stuttbuxum með leðurskó á fótum. Hann steig létt til jarðar þó stór væri, höfðinglegur, errilegur.
Hér var þá kominn Jónas Halldórsson hreppstjóri í Hrauntúni. Hann hafði rauðan hest í taumi, og með honum rann hundur af hreinu íslensku kyni, svart- og gráflekkóttur. Bóndi tók móður mína tali. Hann var fáorður, talaði í stuttum snöggum setningum og hálfhreytti út úr sér orðunum. Samt var hann vingjarnlegur. Hann sagði okkur að halda áfram götuna því að eftir að hann hefði sótt föggur mömmu á prestssetrið ætlaði hann að hitta Guðrúnu greiðasölukonu í Konungshúsinu.

Konungshúsið

Frá konungskomunni 1921. Konungsfjölskyldan og frú Charlotte Schestel á tröppunum við Konungshúsið á Þingvöllum.

Við mæðgurnar eigruðum nú áfram götuna inn í hraunið. Lágt kjarr óx víða en ekki man ég til að nein hrísla á þeim vegi væri hærri en ég sjálf. En gamburmosinn þakti stórar breiður. — Hvenær kemur skógurinn, þetta var ekkert líkt skógarmyndunum frá útlöndum í myndabókunum, bærinn átti ekki að sjást fyrir skógi.
Eftir alllangan tíma sáum við steingarð rísa á bakvið hraunhól. Þessi garður var mikið hærri en ég, einföld hleðsla svo jöfn og haganleg að hver steinn virtist tilhöggvinn. Ofurlítið skarð var í þennan mikla garð og stungið í það birkilurk. Við gægðumst í gegnum skarðið.

Hrauntúnsbærinn

Hrauntún

Hrauntúnsbærinn. Uppdráttur eftir mynni Sigurveigar; teiknaður af Gísla Sigurðssyni, ritstjóra Lesbókarinnar. Ármannsfell í bakgrunni.

Það var orðið kvöldsett, bjart yfir fjöllum og bláleit sumarmóða brá undursamlegri mýkt yfir umhverfið. Túnið fyrir innan garðinn var allt í mjúkum öldum þar sem hraunhólarnir lágu undir grassverðinum. Mitt í þessu fagra ilmandi grængresi reis bærinn Hrauntún, hlýr og vinalegur eins og torfbæir einir gátu orðið. Tvær burstir sneru til suðurs fram á hlaðið og bæjargöngin á milli. Baðstofan var með einum sexrúðu glugga á stafni og tveggjarúðu glugga til vesturs. Stofan var með þrísettum glugga og klædd bárujárni. Baðstofan með eldhúsið og fjósið afturaf var allt klætt torfi. Vandlega hlaðin stétt úr hraunhellum var fyrir framan bæinn.

Hrauntún

Hrauntún – loftmynd.

Hlaða, fjárhús og skemma með þvottahjalli lágu við heimtraðirnar sem lágu í norður í átt að Ármannsfelli. Þrennir fjárhúskofar voru dreifðir um túnið. Austur af túninu var afgirt gerði sem notast var við sem kúahaga. Brunnhola var vestan undir baðstofuveggnum. Var þar sæmilegt drykkjarvatn þó að vatnsmagnið væri lítið. Þegar þvottar voru þvegnir í Hrauntúni varð að fara niður á Leirur og þvo við lækinn sem þar rennur enn. Þar voru hlóðir og þar við soðinn þvotturinn.
Framan við bæinn var kálgarður með grónum vallargarði í kring. Allt var þarna með hinum mesta snyrtibrag, hver hlutur á sínum rétta stað. Upp við bæjarvegginn reis sleggja gerð úr blágrýtishnullungi með gati sem stungið var í vænum birkilurk. Þetta var fisksleggja. Mamma barði að dyrum og út kom dökkhærður maður lágvaxinn með yfirskegg, léttur í hreyfingum og alúðlegur. Þetta var Halldór sonur Jónasar bónda sem bjó hjá föður sínum. Þeir voru menn ekki líkir.

Hrauntún

Hrauntún – nú eyðibýli. Hrafnabjörg fjær.

Halldór fylgdi okkur inn göngin. Hurð lá inn í stofuna til hægri og önnur hurð inn í geymslukompu þar innar af. Gengið var upp tvö þrep inn í baðstofu til vinstri en í eldhús og fjós fyrir enda ganganna. Í baðstofu voru fjögur rúm. Jónas bóndi svaf næst glugga og var borð undir glugganum. Lítil bókahilla, full af rímnakverum og riddarasögum, var yfir fótagafli á þili.
Okkur mæðgum var vísað á rúmið gegnt rúmi bónda. Aftur af okkar rúmi svaf Bjarni Gíslason vinnumaður og Halldór gegnt honum. Ofurlítil kabyssa og tvær hillur fyrir bollapör og diska voru í hinum enda baðstofu.

Konu-Bjarni

Hrauntún

Hrauntún 1929 – Jóhannes Kjarval.

Bjarni Gíslason vinnumaður var vel meðalmaður á hæð, rauðbirkinn með yfirskegg, vel farinn í andliti, reistur í fasi, prúðmannlegur, greindur og skáldmæltur. Ekki veit ég uppruna hans, held þó að hann hafi verið af Norðurlandi vestra. Hann hafði víða verið, kennt börnum á vetrum en í kaupavinnu á sumrum. Hann hafði haft kvenhylli svo mikla að bændur höfðu rekið hann á miðjum vistráðningartíma og þóst heppnir að konur þeirra hlupu ekki að heiman á eftir Bjarna. Vegna þessa hæfileika síns var hann manna á meðal nefndur Konu-Bjarni. Hann var talinn mjög vel hagorður en ekki veit ég með vissu um neina vísu eftir hann, það eru til svo margir Bjarnar Gíslasynir hagyrðingar frá þessum tíma. Bjarni var fremur hlýr við krakka en þó fáskiptinn.

Innanbæjarlíf

Hrauntún

Hrauntún – hellulagða stéttin framan við bæinn.

Að verkalokum og á helgidögum ræddu feðgarnir og Bjarni af kappi um stjórnmál og bókmenntir. Þeir voru ekki alltaf sammála. Halldór og Bjarni voru oft saman á móti Jónasi bónda. Mömmu líkaði ekki alltaf viðmót þeirra við húsbónda heimilisins og þá sjaldan að hún lagði orð í belg hélt hún alltaf Jónasar taum. Gamla manninum þótti áreiðanlega vænt um þessa liðveislu. Mest gekk á þegar blöðin voru nýkomin. Þá sagði Jónas oft upp úr blaðalestrinum og hafði á miklar áherslur: Mikil lifandis ósköp er fólkið vitlaust. — Annars voru rökræður í Hrauntúni með virðulegu yfirbragði. Menn voru prúðir og létu engan hleypa sér upp þó þungt gæti verið undirniðri.

Tóbaksleysi

Hrauntún

Hrauntún – túngarður.

Allir tóku þeir Hrauntúnsmenn í nefið daglega og gött þótti þeim tárið en allt í hinu mesta hófi, ég vissi þá smakka vín í eitt skipti um sumarið og svo í réttunum. Minna gat það varla verið. En tóbaksleysi þoldu þeir ekki. Þar kom að enginn þeirra átti til korn í nös. Þá varð nú ansi hvasst í Hrauntúnsbaðstofu. Þeir urðu ekki sammála um neitt og loks snerist umræðan um kvenfólk, hvað það væri miklir gallagripir, heimskt og svikult. Einkum var það Halldór sem var þungorður í garð kvenna, enda lá orð á að stúlka hefði brugðið heiti við hann.

Söngvar förumannsins

Söngvar förumannsins.

Mamma hafði reynt að vera sem mest frammi í bænum meðan hríð þessi stóð en nú kom hún inn og heyrði stóryrði Halldórs um kvenfólkið. Þá mælti hún: “Hafið þér móður yðar með í þessum vitnisburði sem þér gefið öllum konum?” Þá steinþagnaði Halldór og þeir allir nokkra stund. Síðan tóku þeir upp annað tal. En ekki batnaði tóbaksleysið. Bjarni Gíslason bjóst til Reykjavíkur og kom brátt aftur með nóg tóbak og eitthvað á pelann. Það var lyfting yfir Bjarna þar sem hann stóð gleiður á baðstofugólfinu, klæddur bláum jakka sem fór vel við koparrautt hárið, hattinn aftur á hnakka, í reiðbuxum og háum stígvélum. Hann hélt á ofurlitlu ljóðakveri sem hann hafði keypt í Reykjavík, Söngvum förumannsins. Bjarni las hátt og með miklum áherslum og rykkti til höfðinu undir lestrinum;
Þú ert enn að greiða gjöldin
gamla skáldið hefur völdin
flytur rímlaus kvæði á kvöldin
kvæðin eru um lífið fróð
eiga draumsins geislaglóð
gæfu þína og hjartablóð.
Þögnin geymir þessi ljóð.
Þú ert skáld á bak við tjöldin.
Þá var nú glatt í Hrauntúnsbaðstofu.

Stofan og bækurnar

Dýravinurinn

Dýravinurinn.

Virðulegasti staður Hrauntúnsbæjar var stofan. Hún var svo virðuleg að fyrstu dagana þorði ég ekki að líta þar inn. Við veggi hinnar blámáluðu stofu stóðu bókaskápar frá gólfi til lofts, bækur á borði, bækur á kistum, allt fullt af bókum, margar í skínandi nýju skinnbandi, gamlar bækur, sögubækur, fræðibækur, tímarit, guðsorð, nýtt og gamalt. En langfallegustu bókina, að því að mér fannst, hafði Jónas bóndi lagt handa mér á borðið. Stór þykk bók í gljáandi skinni gyllt á kili, meira að segja myndir innaní. Þessi bók var tímaritið Dýravinurinn með sögum eftir Þorstein Erlingsson, Þorgils Gjallanda, Guðmund Friðjónsson og marga aðra ágæta dýravini. — Hvar skyldi þessi bók vera núna? —
Fáir kunnu á þeim tíma betur að velja bók í hendur barni heldur en þessi þyrrkingslegi bókasafnari. Svipað mátti segja um þá Halldór og Bjarna. Þeir bönnuðu þær bækur sem ekki þóttu barna meðfæri en bentu á aðrar heppilegri.
En freistarinn lá í leyni og ég stalst til að lesa hina bönnuðu bók, Makt myrkranna um þann rúmenska greifa Drakúla. Afskaplega fannst mér það skemmtileg bók. Ekki get ég fundið að hún hafi skaðað, enda glottu þeir Hrauntúnsmenn þegar upp komst um boðorðabrotið. Jónas hélt að mér ævintýrum og riddarasögum sem var til mikillar skemmtunar. Hafi bændur almennt á þeim tíma látið sér svo annt um lesefni aðkomubarna, þá er ekki að furða þótt íslenskri sveitamenningu sé viðbrugðið.

Gestagangur

Guðmundur Finnbogason

Guðmundur Finnbogason 1934.

Oft komu gestir að Hrauntúni, bæði ferðamenn af Kaldadal og úr Borgarfjarðardölum, Grímsnesingar og fólk úr Reykjavík. Jónas vildi að allir fengju góðgerðir, annaðhvort kaffi eða mat. Nógur matur var lagður til en eldamennska var örðug því að allt varð að elda við kalvið á hlóðum.
Einu sinni kom hópur af fólki að Hrauntúni. Þar voru bæði karlmenn og fínar dömur í för. Fyrir hópnum var Guðmundur Finnbogason prófessor og Laufey Vilhjálmsdóttir kona hans. Öllum var boðið til stofu og hófst nú hinn venjulegi pónnukókubakstur við kalviðareldinn.
Prófessorinn fór í eldhúsið og spjallaði við mömmu á meðan hinir gestirnir sátu á tali við bónda. Bestu góðgerðirnar þóttu hveitibrauðið heimabakaða með kæfu úr skinnbelg sem hékk í rjáfrinu í eldhúsreyknum.

Laufey Vilhjálmsdóttir

Laufey Vilhjálmsdóttir.

Eitt kvöld þegar allir voru háttaðir heyrðist spóinn vella ærið grunsamlega. — Það er gestahljóð í honum, sagði Jónas. Stuttu seinna rauk hundurinn upp. Hófadynur heyrðist í tröðum og hringl í beislum. Bóndi snaraðist í föt og gekk til dyra. Hann kom inn aftur að vörmu spori og á hæla honum afarhár maður höfðinglegur með afbrigðum, snar í augum og glettinn á svip. Þetta var Ólafur bóndi í Kalmanstungu, sá sem sagt var um að hefði verið glæsilegastur bænda í konungsveislunni á Þingvöllum þegar Friðrik kóngur 8. kom 1908. Nú kom hann af fjallvegum á leið suður.

Krækiber og bláber
Ekki var mikið af berjum kringum Hrauntún þetta sumar. Helst var nokkuð um krækiber en sáralítið um önnur ber. En í Lágafelli við Hofmannaflöt voru bæði bláber og aðalbláber. Sagt var að aðalbláber væru í Mjóafellinu en þangað kom ég aldrei. Eina engjarós fann ég nálægt Stórkonugili en annars var allt bitið og nagað af sauðfénu.

Eingöngu brennt kalviði

Gapi

Gapi.

Jónas Halldórsson lét sér mjög annt um skóginn. Hann taldi að nauðsynlegt væri að hirða sem mest af kalviði í skóginum til þess að rýma fyrir nýjum viði. Í hlóðaeldhúsinu var eingöngu notaður kalviður. Hann logaði vel en var mjög ódrjúgt eldsneyti. Hrísrif var þó óhjákvæmilegt en Jónas mun ekki hafa fellt lifandi skóg meir en nauðsyn þótti. En stór var hrískösturinn sem dreginn var heim um haustið. Hann var hærri en bæjarhúsin. Jónas fór oft með kalviðarbagga á Rauð gamla til Guðrúnar í Konungshúsinu.

Hrafnagjá

Hrafnagjá á Þingvöllum – mynd frá um miðja síðustu öld.

Mestur var skógurinn austur og suður frá bænum. Einu sinni fékk ég fylgja Jónasi í eina af hinum mörgu skógargöngum hans. Við stefndum í áttina að Hrafnabjörgum og gengum lengi þangað til kom að grasigrónu rjóðri eins og dálitlu túni. Þar sást í opið á víðum helli. Jónas hafði þagað alla leiðina en nú sagði hann: Sauðahellir Gapi. Hæðirnar þar austur af heita Gaphæðir og í þeim sagðist Jónas vilja hafa sinn legstað þegar hann dæi. Ekki varð af því og mun Jónas hafa verið grafinn annaðhvort í Þingvallakirkjugarði, sem hann sagði að væri of blautur legstaður, eða þá í Reykjavík þar sem hann dó 1922.

Þingvallarétt

Þingvallarétt – Bolabás-/Sleðaásrétt.

Við komum að Hrafnagjá. Jónas sagði að niðurhrunið gerði þessa gjá ljótari en Almannagjá sem væri með grónari botn. Hann minntist á jarðskjálftana 1896, hvað gjárnar hefðu breyst og miklu meira niðurhrun í þeim síðan. Hann benti mér á eyðibýlið Litla-Hrauntún sem væri komið úr byggð fyrir langalöngu.
Á þessum tíma fyrir 65 árum var svo sem enginn skógur kringum Hrauntún nema jarðlægar kræklur. Núna er sett skilti við leiðina að Hrauntúni upp frá Bolabás undir Ármannsfelli. Þar er rústin af fjárrétt sveitarinnar og leifar af kerruvegi sem kom seinna en hér er frá sagt.
Á öllu þessu svæði var sáralítið um skóg, sem væri það hár að 9 ára barn gæti ekki séð yfir hann. Við túngarðinn í Hrauntúni sást ekki hrísla en nú er þar víða svo mikill skógur að túngarðurinn er í kafi. Þá hefur skógurinn leitað inn á túnið, bæði birki og víðir. Í staðinn fyrir túngrösin hefir komið mosi og lyng sumstaðar. Hitt er allt í sinuflóka. Þegar farið er Gjábakkaveginn má finna troðninginn heim að Hrauntúni. Þá götu var farið í átt til Þingvalla. Við þann stíg var aðeins lágt skriðult kjarr og sumstaðar aðeins gamburmosi.

Hrauntún

Hrauntúnsgatan.

Nú er þarna allt í kafi af birkiskógi. Lítið var um beinvaxnar hríslur í skóginum 1919. Helst var það austan undir Gaphæðunum. Götuslóði lá milli Skógarkots og Hrauntúns, mjög ógreinilegur enda sjaldfarinn. Við þennan slóða stóð fallegasta hríslan sem ég man þarna eftir. Hún var að minnsta kosti meira en mannhæð, þráðbein með fagra krónu. Hvítur stofninn sást langt að því að hríslan var einstök. Árið 1934 kom ég að þessari sömu hríslu. Hún var þá skemmd af kali og á henni ellimörk. Hin langa friðun hefir bersýnilega aukið skóginn að miklum mun. Þó eru gamburmosabreiðurnar býsna svipaðar að ummáli og áður var, að minnsta kosti þegar horft er af útsýnisskífunni á barmi Almannagjár.

Hofmannaflöt

Hofmannaflöt

Hofmannaflöt undir Meyjarsæti framundan.

Heyskapurinn í Hrauntúni var aðeins á heimatúni og Hofmannaflöt. Halldór faðir Jónasar hafði heyjað á blettum hér og hvar um skóginn en nú var sá siður aflagður. Á Hofmannaflöt heyjuðu þeir Halldór og Bjarni. Þeir voru við slátt allan daginn en var færður matur.
Þegar þokan læddist á loðnum skóm um hraun og hlíðar fengu hólar, klettar og runnar á sig undarlegar myndir og oft ógurlegar. Enginn staður við engjaveginn var eins ógnum þrunginn og Stórkonugil sem skerst inn í Ármannsfellið. Þokuslæðurnar huldu hamrana að mestu en innst inni glytti í svarta vota steina sem stundum glömruðu við, rétt eins og einhver væri þarna í þann veginn að stíga fram úr gilinu þungum skrefum. Þá var gott að eiga von á þeim Halldóri og Bjarna bak við næsta leiti þar sem þeir stóðu blautir við sláttinn fegnir hálfvolgri kaffiflösku í sokkbol. Þeir sögðu alltaf það sama: Farðu ekki út af götunni því þá villistu í hrauninu. — Það var heldur ekki fýsilegt því að þarna úti í hraunhólunum voru fornar rústir, enginn vissi hve gamlar. Þar gat verið reimt og hollast að halda sig sem lengst frá slíkum stöðum.

Meyjarsæti

Meyjarsæti.

Á meðan sláttumenn drukku kaffið var gaman að príla upp í Meyjasæti þar sem fornkonur höfðu setið í dómarasæti yfir íþróttamönnum sem þreyttu kappi á Hofmannaflöt. Norðar var Biskupsflöt þar sem Skálholtsbiskupar tjölduðu fyrrum með sveinum sínum og sátu á tali við tröllkonur um nætur. — Bóndalegt tjald, bóndlegur maður, — sagði ein stórkonan við Brynjólf biskup Sveinsson. En langt norður í hrauninu við rætur Skjaldbreiðar var ungur maður á ferð og lét hestinn lötra en rakki hljóp snuðrandi á eftir. Heiðarbúar, glöðum gesti greiðið för um eyðifjöll einn eg treð með hundi og hesti hraun og týnd er lestin öll. Jónas Hallgrímsson var uppáhaldsskáld móður minnar og hún söng Skjaldbreiðarkvæði hans frá upphafi til enda þegar við vorum einar heima.

Fuglar og ferfætlingar

Rjúpa

Rjúpa.

Þeir Hrauntúnsmenn voru dýravinir. Aldrei var rjúpa skotin heima við bæ en Halldór fór til fjalls á haustin og skaut þar. Rjúpurnar voru líkastar tömdum hænsnum þegar þær komu inn á túnið á kvöldin. Fyrst settust rjúpukarrarnir í garðinn til þess að gá að ferðum kattarins. Síðan komu rjúpurnar með ungahópa sína inn á túnið og jafnvel á stéttina fyrir framan bæjardyrnar hópum saman og Jónas talaði við þær tæpitungu eins og gæludýr. En kisa lá á kettlingum og dró rækilega í bú sitt. Ekki virtust rjúpurnar styggjast verulega við það.
Í fjósinu var bæli kisu og þar var um tíma tófuyrðlingur bundinn á bás. Hann varð gæfur eins og hvolpur og vildi leika sér við mann. En býsna hvassar voru tennurnar í greyinu.
Kýrin var ein á bænum og henni hefir víst leiðst. Hún tók svo miklu ástfóstri við móður mína að hún elti hana hvar sem hún gat og þegar við fórum út í hraun að tína litunarmosa færði kýrin sig meðfram garðinum til þess að vera alltaf sem næst mjaltakonunni. Þessari kú hafði verið strítt af krökkum og hljóp í alla krakka sem hún sá. Hún var stórhyrnd og ekki árennileg. Hundurinn Skrámur var auðvitað sá besti félagi sem hugsast gat, ágæt vörn við mannýgri kú.
Rauður var aðalbrúkunarhrossið en hinir yngri menn áttu reiðhesta. Féð var um allan skóg og mikið treyst á útigöngu á vetrum.

Haustar að í Hrauntúni

Hrauntún

Himininn ofan Hrauntúns.

Senn fór að líða á sumarið og haustaði að með svölum vindum norðan af Kaldadal. Ármannsfell varð grátt í rót. Vistartíminn í Hrauntúni var á enda. Halldór flutti föggur okkar á Rauð gamla til Þingvalla. Við gengum út túnið og kýrin elti móður mína eins langt og hún komst.
Hundurinn Skrámur barðist við tilfinningar sínar. Hann langaði að elta sumarleikfélagann sinn en húsbóndahollustan sigraði. Með lafandi skotti og vesældarsvip sneri hann heim á hæla Jónasi bónda sem gekk sínum löngu léttu skrefum til fjalls, einmana og þögull að vanda.”

Heimild:
-Lesbók Morgunblaðsins, 34. tbl. 22.12.1984, Sumar í Hrauntúni – Sigurveig Guðmundsdóttir, bls. 39-41.

Hrauntún

Hrauntún – garður; minnismerki mannvistar.