Færslur

Hrafnabjörg

Ofan við Þingvallaskóga er getið um tvö býli; Litla-Hrauntún og Hrafnabjörg. Litlar sögur fara af býlum þessum er þó er hið síðarnefnda talið miklu mun eldra eða allt frá fyrstu tíð. Ætlunin var að leita að og skoða hið gamla bæjarstæði Litla-Hrauntúns og fornbýlistóftir Hrafnabjarga undir samnefndu fjalli norðaustan Þingvalla. Tóftunum var síðast lýst skömmu eftir aldamótin 1900. Hafa sumir talið að þar hafi hinir sagnakenndu Grímastaðir verið. Aðrir að þær hafi verið undir Grímarsgili mun vestar. Prestastígur liggur yfir hraunið, flestum gleymdur.

Kort Þingvallavefsins af göngusvæðinu

Búið var að miða bæjarstæðin út frá gömlum kortum. Svæðið gaf von um ægifagurt útsýn; Ármannsfell, Skjaldbreið og Hrafnabjörg.
Heimildir segja: “Í hraunjaðrinum við Hrafnabjörg er þó á einum stað brunnur af náttúrunni, þ.e. hraunhola með vatni, sem sjaldan þrýtur. Og hjá henni er forn bæjarrúst. Önnur forn bæjarrúst er í hrauninu langt suðvestur frá Kluftum. Þar heitir Litla-Hrauntún. Eigi sér þar vatnsból og eigi er þar heldur túnstæði. Það kæmi nú heim við hinn fyrtalda stað í Harðarsögu (k. 5) að Grímsstaðir, þar sem Grímur litli bjó, hafi verið á öðrum hvorum þessum stað, og þá helzt á bænum við Hrafnabjörg. Og á því máli er Sigurður Vigfússon í Árb. 1880-1, bls. 43.”
Lagt var af stað frá Ármannsfelli skammt neðan undir Stóragili. Ljóst var strax í upphafi að svæðið er gríðarlega víðfeðmt og erfitt til leitar að mjög fornum óljósum minjum.
Einar á vettvangi Litla-Hrauntúns? Vörðuleifar nærFERLIR hafði áður leitað upplýsinga um staðsetningar á stöðum þessum hjá viðkomandi staðaryfirvöldum þjóðgarðsins og fengust greið svör frá Einari Á.E.Sæmundsen: “

Hnitin á Litla Hrauntúni sem ég er með hér er: 20° 59´43,139” W-64° 17´44,196” N. Þetta er merkt inn af eldri manni Pétri Jóhannessyni úr Skógarkoti sem setti á loftmynd um 650 örnefni. Þau voru hnituð inn af loftmyndum hans ofan á okkar hnitsetta grunn. Þegar rýnt er í myndina þá er erfitt að greina nokkuð sem gæti bent til fornra rústa. Það eru eitt annað örnefni sem gæti hjálpað ykkur….. Hesthústóft-tjörn (20°57´59,908” W-64°16´54,939”N). Það bendir til einhverrar mannvistar. Í skránni er Hrafnabjörg “eyðibýli”, en búið að fínkemba aftur kortin lögð yfir loftmyndirnar okkar og ég finn það ekki. Það er einsog það hafi gleymst að setja það inn. Mig grunar að þetta örnefni 

Einar við

Hesthústóft geti leitt ykkur áfram en það er næsta í röðinni í skránni. Hann hefur gert þetta eftir minni og kannski munað þau saman ef þau væru nálægt hvort öðru. Hnitin eru í isnet 1993 lambert… Mér finnst þetta sem þið eruð að gera mjög spennandi og lít stundum við á heimasíðuna ykkar. Þetta er vinna sem nýtist okkur mjög vel í framtíðar fornleifaskráningu.”
Ef tekin voru mið af gömlum kortum út frá þekktum kennileitum átti ekki að vera mjög erfitt að staðsetja bæjaleifarnar. Ekki er um langa vegarlengd að ræða frá Ármannsfelli að Hrafnabjörgum, en hafa ber í huga að hraunin þar á millum eru bæði illviljug og höll undir að hylja það sem er þeirra. Og þegar hnitin voru slegin inn á hin ýmsu opinberu landakort, s.s. 1:100.000 og 1:50.000, fengust hinar mismunandi staðsetningar.
Nefndur Pétur merkti örnefnin eftir glöggum loftmyndum, þ.e. númeraði þau inn á myndirnar, en Einar færði þau síðan inn á loftmyndir af svæðinu. Skv. því átti Litla-Hrauntún að vera spölkorn Hesthústóft nálægt Hrafnabjörgumsunnan við sauðfjárveikigirðingu er umlykur Þingvöll. Þegar gengið var á hnitið kom ýmislegt athyglisvert í ljós. Þegar komið var á vettvang var efitt að sjá að þarna gæti hafa verið bæjarstæði, sem þó hefði þá verið það á mjög  ákjósanlegum stað. Tóftir, mjög gamlar, virtust vera sunnan undir lágum aflöngum klapparhól. Efst á honum var fallin varða, mosavaxin. Grjótið var þá augljóst. Undir hólnum virtist vera grasi gróin geil inn að honum. Mótaði fyrir veggjum beggja vegna, þó ekki hleðslum. Stafn hefur verið mót suðri. Gata lá framan við. Til beggja hliða virtust vera leifar minja, gerði til vesturs og hús til austurs. Þar virtust geta hafa verið tvískipt tóft. Gaflar sneru mót suðri. Stór varða var neðar í hrauninu, skammt austan við Hrauntúnsbæinn. Vel sást yfir að Þingvallavatni. Hafa ber í huga að landið hefur breyst mikið á umliðnum öldum. Varða var á klapparhól skammt suðvestar. Milli hans og “bæjarstæðisins” voru grónir hraunbollar, sem vatn gæti hafa safnast saman í. Skammt austar var opin djúp (botnlaus) gjá, en í hana hefði hugsanlega verið hægt að sækja vatn. Allt um kring voru grasbollar og skjól, hin ákjósanlegasta fjárbeit.
Ferðinni var haldið áfram – áleiðis að Hrafnabjörgum.
Varða, önnur af tveimur, ofan við hesthúsatóftinaFornminjar á Þingvöllum voru friðlýstar árið 1927, og þá sennilega að gefnum tilefnum. Að því tilefni sagði m.a.: “Friðlýsingar fornminjar: Þingvellir. 1. Þingbúðarústir allar og allar aðrar fornleifar og gömul mannvirki á hinum forna alþingisstað, beggja vegna Öxarár. 2. Rústir allar þar sem verið hafa forðum býlin Grímsstaðir, Bárukot, Múlakot, Litla-Hrauntún, Ölkofrastaðir og enn eitt, norðvestan undir Hrafnabjörgum.” Þingbúðarrústirnar hafa verið merktar, en engar hinna síðarnefndu. Þar á Þingvallanefndin þakklátt starf fyrir höndum.
Á megingjánni millum bæjanna, hlutdeild misgengis meginlandsflekanna, var brú. Vestan hennar voru þrjú forvitnileg prestaörnefni; Prestastígur. Presthóll og Prestahraun. Þar myndi verða ástæða til að staldra við um stund. Í Hlíðargjá mótaði fyrir gamalli götu er lá framhjá áberandi háum og sprungnum klapparhól. Þar gæti verið um að ræða nefndan Presthól, enda átti hann að verða neðan við gjána á þessum slóðum. Prestahraunið er augljóst. Það er nýrra en Þingvallahraunið, sem hefur komið úr Eldborgunum ofan við Hrafnabjörg. Prestahraunið hefur hins vegar komið ofan úr Þjófadölum og er mun yngra. Það myndar rana þarna millum Ármannsfells og Hrafnabjarga og líklega hefur stígurinn legið að hluta yfir ranann á leið sinni í átt að Mjóufellunum þar sem Goðaskarð skilur þau að.
Komið var inn á Bjargarvelli, grasflöt suðvestan við Hrafnabjörg. Þar virtist móta fyrir tóftum. Haft var hins vegar sem mið eftirfarandi:
Í Árbók HIF árið 1904 fjallar Brynjúlfur Jónsson frá Minna-Núpi um Grímsstaði í Þingallasveit undir yfirskriftinni “Rannsókn í Árnesþingi sumarið 1904”.
“Svo segir í Harðarsögu, 5. k.: -Grímur keypti þá land suðr af Kluftum, er hann kallaði Grímsstaðiok bjó þar síðan-. en í 19. k. segir svo: -Hann (Indriði) fór Jórukleif ok svá til Grímsstaða ok þaðan Botnsheiði ok svá í Botn-. Ef það eru sömu Grímsstaðir, sem talað er um í báðum þessum stöðum, þá er annarhvor staðurinn ónákvæmlega orðaður.
Vatnsstæðið við hesthústóftinaKluftir (sandkluftir) er milli Ármannsfells og Mjóufjalla. Suður frá Kluftum er skógi vaxin hraun til Hrafnabjarga. en það hraun er vatnslaust og því eigi byggilegt. Í hraunjaðrinum við Hrafnabjörg er þó á einum stað brunnur af náttúrunni, þ.e. hraunhola með vatni, sem sjaldan þrýtur. Og hjá henni er forn bæjarrúst. Hún er að vísu nokkuð óglögg; þó má sjá, að í henni eru 2 miðgaflar, er skifta henni í 3 herbergi, sem hvert um sig er nál. 3 fðm. langt. Hún liggur nál. frá austri til vesturs og hefir vestasta herbergið dyr á vesturenda, en hin sýnast að hafa dyr á suðausturhliðinni. Breiddin á tóftunum er nál. 3 fðm. Við norðurhliðina vottar fyrir annarri tóft, en einnig hefir dyr á vesturenda. Norðanmegin við þær er lítil tóft með dyr mót norðri. Svo sem 20-30 fðm. norðar er sérstök tóft, talsvert minni. Hún er tvískift, og er það glögt, að miðgaflinn er dyralaus. Hefir austurherbergið dyr á suðausturhlið, en hitt á vesturenda. Lengd hvors um sig er nál. 2 1/2 fðm., breiddin um 2 fðm. Þetta gæti vel verið heimahof. Stekkur gæti hún raunar líka verið, en er þó of lítil til þess á þessum stað; því hér verður að gera ráð fyrir mörgu sauðfé; tún hefir ekki verið og þá ekki heldur kýr.

Presthóll?

Önnur forn bæjarrúst er í hrauninu langt suðvestur frá Kluftum. Þar heitir Litla-Hrauntún. Eigi sér þar vatnsból og eigi er þar heldur túnstæði. Það kæmi nú heim við hinn fyrtalda stað í Harðarsögu (k. 5) að Grímsstaðir, þar sem Grímur litli bjó, hafi verið á öðrum hvorum þessum stað, og þá helzt á bænum við Hrafnabjörg. Og á því máli er Sigurður Vigfússon í Árb. 1880-1, bls. 43.
En svo er annað fornbýli, kallað Grímastaðir, milli Brúsastaða og Svartagils. Hjá henni er gil sem heitir Grímagil. Um þetta getur S.V. í sömu Árb., bls. 98, og ætlar þá, að hér hafi Grímsstaðir raunar verið, því það kemur vel heim við síðartalda staðinn í Harðarsögu (k. 19.). Botnsheiði, sem þar er nefnd, hlýtur að vera sú leið, sem nú er kölluð Leggjabrjótur. Þá er á hana er lagt úr Þingvallasveit, liggur mjög svo beint við að fara hjá Grímagili. Rúst Grímastaða er vestanmegin lækjarins (-austanmegin- er víst prentvilla í Árb. 1880-1, bls. 98). Hún er svo niður sokkin, að mestu gætni þarf til að sjá hana, og hún virðist hafa verið mjög lítil. Hún liggur austur og vestur, hefir dyr á suðurhlið og miðgafl vestan við þær með dyrum við útidyrnar. Vestur-herbergið er 3 fðm. langt, hott aðeins 1 1/2 fðm. Breiddin er 2 fðm. Þó má vera að austurherbergið hafi verið lengra, því endinn er óglöggur, og litlu austar sér á hleðslusteina í flagrotu. Þar skamt frá sér aðra, óglöggva tóft, mjög litla. Önnur forn mannvirki sjást þar ekki.

Skjalbreiður

Nú er spurnsmál hvort meira gildir; að þessi rúst er svo nálægt Botnsheiðar- (nú Leggjarbrjóts-) veginum, eða  Hrafnabjargarrústin…..”
Hér virðist vera um tvennst konar misskráningu að ræða. Líklega hefur skráningaraðilinn ekki farið að hugsanlegum tóftum Litla-Hrauntúns. Í öðru lagi virtist, við fyrstu skoðun, ekki vera um að ræða tófti á eða við hraunbrúnina tilnefndu. Að vísu má gera sér í hugarlund “tóftir” undir hraunbrúninni á einum stað, en það hugmyndarflug virðist fjarrænt. Hafa ber þó í huga að margt hefur breyst þarna á einni öld. Norðvestan við Hrafnabjörg eru uppblásnar grassléttur í hrauninu, sem áhuagverðar eru til enn frekari skoðunar. Þá má telja líklegt að bær á þessum slóðum hafi verið mun neðar og suðvestar í hraunbrúninni er ætlað hefur verið. Hafa ber í huga að í Þingvallahrauni, allt upp undir Skjaldbreið, hafa verið sagnir um bæjarleifar frá fornri tíð og að svæðið hafi verið ” í miðri sveit”.

Hrafnabjörg

Hrafnabjörg sem slík er merkilegt náttúrufyrirbæri. Ekki er vitað hvort skrifað hafi verið um fjallið, sem ekki er ólíkt Herðubreið; drottningu fjallanna. Hrafnabjörg hafa orðið til við eldgos undir jökli, líklega á síðtíma jökulskeiðsins fyrir u.þ.b. 12.000 árum. Af ummerkjum að dæma virðist fyrst hafa gosið lóðrétt, en eftir því sem leið á gosið hefur hraun náð að renna til hliðanna eftst undir jökulhettunni. Áður en gosinu lauk náði það að bræða efsta lag jökulsins og hraun komst upp á yfirborðið. Eina gosrás út frá meginrásinni má t.d. sjá ofarlega í miðju fjallinu.
Undir vestanverðum Hrafnabjörgum er mikil kyrrð og ró, þrátt fyrir angurværan fuglasögninn. Þrastar-, lóu- og hrossagauks voru hvarvetna á gönguleiðinni.  Fýll verpir og í bjargbrúnunum og hrafninn virðist enn halda tryggð við nafngiftina.
Svæðið er langt í frá fullkannað. Gengnir voru 16 km að þessu sinni og eflaust á eftir að ganga þá miklu mun fleiri áður en leyndardómur Hrafnabjargabæjarins verður afhjúpaður.
Frábært veður. Gangan tók 6 klst og 6 mín.

Heimild:
-Brynjúlfur Jónsson, Grímsstaðir í Þingvallasveit, Árbók hins íslenska forleifafélags 1905, bls. 44-47.
Árb. 1880-1881: 22, 98. Skjal undirritað af MÞ 05.05.1927. Þinglýst 07.09.1927.
-Sbr. Árb 1921-1922: 1-107.
-Einar Á.E. Sæmundsen, upplýsingafulltrúi Þingvöllum.

Blóðberg í Þingvallahrauni

Sigurveig Guðmundsdóttir

Í Lesbók Morgunblaðsins árið 1984 segir Sigurveig Guðmundsdóttir frá “Sumri í Hrauntúni” á Þingvöllum. Lesningin gefur góða mynd af því hvernig umhorfs var á þessum ágæta bæ, fyrrum selstöðu, skömmu eftir aldarmótin 1900.

Hólmfríður Hjaltason

Hólmfríður Hjaltason og Guðmundur eiginmaður hennar ásamt dætrum sínum, þeim Margréti og Sigurveigu.

“Nú sést ekkert eftir af bænum í Hrauntúni í Þingvallasveit nema tóftir. Árið 1919 bjó Jónas hreppstjóri Halldórsson þar enn, og greinarhöfundurinn segir frá því þegar hún dvaldist þar sumarlangt með móður sinni.

Sumarið 1919 var móðir mín, Hólmfríður Hjaltason, ráðin sem ráðskona að Hrauntúni í Þingvallasveit. Faðir minn, Guðmundur Hjaltason, hafði dáið úr spönsku veikinni þá um veturinn. Móðir mín fór eftir auglýsingu í blaði og þekkti því ekkert til væntanlegs verustaðar. Einhver kunnugur bar bænum gott orð og sagði að ekki sæist í hús þar fyrir skógi. Það var mikið tilhlakk fyrir níu ára krakka að eiga að dvelja i slíkri skógarparadís. Ferðin hófst eldsnemma að morgni frá Hafnarfirði og gengum við alla leið til Reykjavíkur. Koffortinu sínu kom móðir mín á hestvagn Guðmundar Magnússonar pósts og gengum við á eftir vagninum. Ansi var nú brekkan erfið upp Öskjuhlíðina og fegin var ég þegar við komumst inn að Tungu, húsi Dýraverndunarfélags Íslands. Þar hittum við Símon bónda í Vatnskoti en hann var búinn að fá sér vörubíl sem flutti bæði fólk og fé. Bíllinn var ekki yfirbyggður og sátu allir á honum undir beru lofti. Fyrir utan okkur mömmu voru tvær danskar stúlkur í bílnum og drengur á mínum aldri.

Tunga

Tunga.

Var nú lagt af stað og ekið inn að Elliðaám. Þá stansaði bíllinn og vildi ekki fara lengra. Símon sagði að hlassið væri of þungt. Lét hann konurnar og strákinn fara úr og gengu þau aftur í bæinn. Ég fékk að sitja í heim í Tungu. Þar biðum við í tvo daga en síðan lagði sama fólkið af stað.
Símon í Vatnskoti var einstaklega kátur og glaður maður, lék við hvern sinn fingur hvað sem á gekk. Við fórum framhjá Geithálsi og þaðan sem leið lá austur Mosfellsheiði.

Hjá Þingvallapresti

Þingvellir

Þingvellir 1905 – Ásgrímur Jónsson.

Símon í Vatnskoti skilaði okkur mömmu heim á prestssetrið, sagði að þar myndi hún fá leiðbeiningu um hvert hún ætti að fara. Þá voru á Þingvöllum þrjú hús fyrir utan prestssetrið, Konungshúsið sem reist var handa Friðriki áttunda, veitingahúsið Valhöll, á allt öðrum stað en nú er, og í Fögrubrekku sumarbústaður Péturs Hjaltested kaupmanhs. Bærinn prestsins var nokkuð stór í mínum augum. Mamma barði að dyrum og gerði boð fyrir prest. Hann kom fljótt til dyra og bauð til stofu. Síra Jón Thorsteinsson var lágur vexti og grannur. Hann var í svörtum jakkafötum og víður jakkinn, mjög svo prestslegur. Hann bauð okkur skyr að borða og kaffi á eftir í fallegum postulínsbollum með rauðri rós. Séra Jón var einstakt ljúfmenni, þýður og einlægur í viðmóti. Mamma hafði verið kvíðin að fara í vist hjá ókunnugum, komin um fimmtugt með barn í eftirdragi. Hún hafði átt góða daga sem húsmóðir á sínu heimili svo að viðbrigðin voru mikil. Síra Jón hlustaði á hana af hluttekningu, fór því næst að fræða hana um væntanlegan húsbónda.Jónas Halldórsson
Jónas Halldórsson hreppstjóri í Hrauntúni var fæddur árið 1853. Halldór faðir Jónasar hafði komið með einum Þingvallapresta vestan af Snæfellsnesi. Prestur leyfði Halldóri að byggja sér bæ á rústum gamalla seltófta norður í Þingvallahrauni, og gerði hann þar sæmilega bújörð.
Jónas tók við búi föður síns 18 ára gamall og þótti það vel gert af svo ungum manni. Síðar kvæntist hann Hólmfríði Jónsdóttur frá Hæðarenda í Grímsnesi. Þau eignuðust sjö börn en þau sem upp komust voru Halldór, fornbókasali og fjallamaður, Ásgeir, skipstjóri hjá Eimskip, Jónína, fór til Vesturheims, og Elísabet, bjó í Reykjavík, gáfuð kona og skörungur. Son er Jónas hét átti bóndi í elli sinni með ráðskonu.
Jónas tók fljótt við ýmsum trúnaðarstörfum fyrir sveit sína og varð hreppstjóri um langa æfi. Hann þótti einrænn í lund og ekki við allra skap. Mikill gáfumaður að upplagi og áreiðanlega ekki á réttri hillu. Hann var með afbrigðum bókhneigður og lét hvern eyri sem hann átti aflögu ganga til bókakaupa. Enda átti hann að lokum stórmerkilegt og vandað bókasafn sem vakti furðu margra því að slíkur munaður stakk mjög í stúf við fátæklegan búnað torfbæjarins. Sumir virðast hafa lagt Jónasi þessi bókakaup til lasts, þótt slíkt óþarfi mikill. En þá svaraði Jónas: — Ef ég hefði lagt þessa peninga í brennivín, þá hefðuð þið ekki sagt neitt.

Kona Jónasar var mikil búkona og er sú saga sögð að einu sinni hafi bóndi farið með koffortahest til Reykjavíkur að kaupa mat til vetrarins. En þegar komið var heim í Hrauntún, var ekkert nema bækur í koffortunum. Þá mun húsfreyju hafa þótt nóg um bókakaup húsbóndans. Jónas í Hrauntúni mun hafa verið bókasafnari af ástríðu. Af lestri sínum varð hann ágætlega sjálfmenntaður, vel ritfær og glöggur reikningsmaður.

Þingvallakirkja

Þingvallakirkja. Innimynd. Kirkjur Íslands, 4. bindi: 227: Þingvallakirkja að innan í lok 19. aldar. Ekki verður annað séð af þessari mynd en að veggir kirkjunnar að innan hafi verið ómálaðir fram undir 1900, þótt vísitasía 1860 segi annað. Kvistir eru mjög greinilegir í veggklæðningu. Hugsanlega hefur málningin aðeins verið þunn þekja og kvistirnir því sýnilegir. Aftur er greinilegt að innanstokksmunir eru málaðir. Altaristafla Ófeigs Jónssonar frá 1834-35 er enn yfir altarinu en hún var seld til Englands sumarið 1899. […] Ljósmyndari Sophus Tromholt.

Síra Jón bauð mömmu að skoða kirkjuna og fórum við þangað. Ekki man ég eftir öðru þar nema predikunarstólnum og þá vegna þess að síra Jón gekk að honum, klappaði á hann og sagði: Þetta er nú stóllinn minn. — Um leið brosti hann eins og barn. Hann fylgdi okkur út fyrir tún. Þar benti hann mömmu á götuna sem hún átti að fara og sagði henni að leita til sín ef hún þyrfti einhvers með. Kvöddum við síðan þennan góða prest með virktum.

Gengið um Hrauntúnsgötuna

Hrauntún

Hrauntúnsgatan.

Gengum við nú sem leið lá inn í Leirur, þar sem söluskálinn er nú. Þar kom á móti okkur hár maður roskinn, grannvaxinn með alskegg, derhúfu á höfði klæddur mórauðum vaðmálsjakka og stuttbuxum með leðurskó á fótum. Hann steig létt til jarðar þó stór væri, höfðinglegur, errilegur.
Hér var þá kominn Jónas Halldórsson hreppstjóri í Hrauntúni. Hann hafði rauðan hest í taumi, og með honum rann hundur af hreinu íslensku kyni, svart- og gráflekkóttur. Bóndi tók móður mína tali. Hann var fáorður, talaði í stuttum snöggum setningum og hálfhreytti út úr sér orðunum. Samt var hann vingjarnlegur. Hann sagði okkur að halda áfram götuna því að eftir að hann hefði sótt föggur mömmu á prestssetrið ætlaði hann að hitta Guðrúnu greiðasölukonu í Konungshúsinu.

Konungshúsið

Frá konungskomunni 1921. Konungsfjölskyldan og frú Charlotte Schestel á tröppunum við Konungshúsið á Þingvöllum.

Við mæðgurnar eigruðum nú áfram götuna inn í hraunið. Lágt kjarr óx víða en ekki man ég til að nein hrísla á þeim vegi væri hærri en ég sjálf. En gamburmosinn þakti stórar breiður. — Hvenær kemur skógurinn, þetta var ekkert líkt skógarmyndunum frá útlöndum í myndabókunum, bærinn átti ekki að sjást fyrir skógi.
Eftir alllangan tíma sáum við steingarð rísa á bakvið hraunhól. Þessi garður var mikið hærri en ég, einföld hleðsla svo jöfn og haganleg að hver steinn virtist tilhöggvinn. Ofurlítið skarð var í þennan mikla garð og stungið í það birkilurk. Við gægðumst í gegnum skarðið.

Hrauntúnsbærinn

Hrauntún

Hrauntúnsbærinn. Uppdráttur eftir mynni Sigurveigar; teiknaður af Gísla Sigurðssyni, ritstjóra Lesbókarinnar. Ármannsfell í bakgrunni.

Það var orðið kvöldsett, bjart yfir fjöllum og bláleit sumarmóða brá undursamlegri mýkt yfir umhverfið. Túnið fyrir innan garðinn var allt í mjúkum öldum þar sem hraunhólarnir lágu undir grassverðinum. Mitt í þessu fagra ilmandi grængresi reis bærinn Hrauntún, hlýr og vinalegur eins og torfbæir einir gátu orðið. Tvær burstir sneru til suðurs fram á hlaðið og bæjargöngin á milli. Baðstofan var með einum sexrúðu glugga á stafni og tveggjarúðu glugga til vesturs. Stofan var með þrísettum glugga og klædd bárujárni. Baðstofan með eldhúsið og fjósið afturaf var allt klætt torfi. Vandlega hlaðin stétt úr hraunhellum var fyrir framan bæinn.

Hrauntún

Hrauntún – loftmynd.

Hlaða, fjárhús og skemma með þvottahjalli lágu við heimtraðirnar sem lágu í norður í átt að Ármannsfelli. Þrennir fjárhúskofar voru dreifðir um túnið. Austur af túninu var afgirt gerði sem notast var við sem kúahaga. Brunnhola var vestan undir baðstofuveggnum. Var þar sæmilegt drykkjarvatn þó að vatnsmagnið væri lítið. Þegar þvottar voru þvegnir í Hrauntúni varð að fara niður á Leirur og þvo við lækinn sem þar rennur enn. Þar voru hlóðir og þar við soðinn þvotturinn.
Framan við bæinn var kálgarður með grónum vallargarði í kring. Allt var þarna með hinum mesta snyrtibrag, hver hlutur á sínum rétta stað. Upp við bæjarvegginn reis sleggja gerð úr blágrýtishnullungi með gati sem stungið var í vænum birkilurk. Þetta var fisksleggja. Mamma barði að dyrum og út kom dökkhærður maður lágvaxinn með yfirskegg, léttur í hreyfingum og alúðlegur. Þetta var Halldór sonur Jónasar bónda sem bjó hjá föður sínum. Þeir voru menn ekki líkir.

Hrauntún

Hrauntún – nú eyðibýli. Hrafnabjörg fjær.

Halldór fylgdi okkur inn göngin. Hurð lá inn í stofuna til hægri og önnur hurð inn í geymslukompu þar innar af. Gengið var upp tvö þrep inn í baðstofu til vinstri en í eldhús og fjós fyrir enda ganganna. Í baðstofu voru fjögur rúm. Jónas bóndi svaf næst glugga og var borð undir glugganum. Lítil bókahilla, full af rímnakverum og riddarasögum, var yfir fótagafli á þili.
Okkur mæðgum var vísað á rúmið gegnt rúmi bónda. Aftur af okkar rúmi svaf Bjarni Gíslason vinnumaður og Halldór gegnt honum. Ofurlítil kabyssa og tvær hillur fyrir bollapör og diska voru í hinum enda baðstofu.

Konu-Bjarni

Hrauntún

Hrauntún 1929 – Jóhannes Kjarval.

Bjarni Gíslason vinnumaður var vel meðalmaður á hæð, rauðbirkinn með yfirskegg, vel farinn í andliti, reistur í fasi, prúðmannlegur, greindur og skáldmæltur. Ekki veit ég uppruna hans, held þó að hann hafi verið af Norðurlandi vestra. Hann hafði víða verið, kennt börnum á vetrum en í kaupavinnu á sumrum. Hann hafði haft kvenhylli svo mikla að bændur höfðu rekið hann á miðjum vistráðningartíma og þóst heppnir að konur þeirra hlupu ekki að heiman á eftir Bjarna. Vegna þessa hæfileika síns var hann manna á meðal nefndur Konu-Bjarni. Hann var talinn mjög vel hagorður en ekki veit ég með vissu um neina vísu eftir hann, það eru til svo margir Bjarnar Gíslasynir hagyrðingar frá þessum tíma. Bjarni var fremur hlýr við krakka en þó fáskiptinn.

Innanbæjarlíf

Hrauntún

Hrauntún – hellulagða stéttin framan við bæinn.

Að verkalokum og á helgidögum ræddu feðgarnir og Bjarni af kappi um stjórnmál og bókmenntir. Þeir voru ekki alltaf sammála. Halldór og Bjarni voru oft saman á móti Jónasi bónda. Mömmu líkaði ekki alltaf viðmót þeirra við húsbónda heimilisins og þá sjaldan að hún lagði orð í belg hélt hún alltaf Jónasar taum. Gamla manninum þótti áreiðanlega vænt um þessa liðveislu. Mest gekk á þegar blöðin voru nýkomin. Þá sagði Jónas oft upp úr blaðalestrinum og hafði á miklar áherslur: Mikil lifandis ósköp er fólkið vitlaust. — Annars voru rökræður í Hrauntúni með virðulegu yfirbragði. Menn voru prúðir og létu engan hleypa sér upp þó þungt gæti verið undirniðri.

Tóbaksleysi

Hrauntún

Hrauntún – túngarður.

Allir tóku þeir Hrauntúnsmenn í nefið daglega og gött þótti þeim tárið en allt í hinu mesta hófi, ég vissi þá smakka vín í eitt skipti um sumarið og svo í réttunum. Minna gat það varla verið. En tóbaksleysi þoldu þeir ekki. Þar kom að enginn þeirra átti til korn í nös. Þá varð nú ansi hvasst í Hrauntúnsbaðstofu. Þeir urðu ekki sammála um neitt og loks snerist umræðan um kvenfólk, hvað það væri miklir gallagripir, heimskt og svikult. Einkum var það Halldór sem var þungorður í garð kvenna, enda lá orð á að stúlka hefði brugðið heiti við hann.

Söngvar förumannsins

Söngvar förumannsins.

Mamma hafði reynt að vera sem mest frammi í bænum meðan hríð þessi stóð en nú kom hún inn og heyrði stóryrði Halldórs um kvenfólkið. Þá mælti hún: “Hafið þér móður yðar með í þessum vitnisburði sem þér gefið öllum konum?” Þá steinþagnaði Halldór og þeir allir nokkra stund. Síðan tóku þeir upp annað tal. En ekki batnaði tóbaksleysið. Bjarni Gíslason bjóst til Reykjavíkur og kom brátt aftur með nóg tóbak og eitthvað á pelann. Það var lyfting yfir Bjarna þar sem hann stóð gleiður á baðstofugólfinu, klæddur bláum jakka sem fór vel við koparrautt hárið, hattinn aftur á hnakka, í reiðbuxum og háum stígvélum. Hann hélt á ofurlitlu ljóðakveri sem hann hafði keypt í Reykjavík, Söngvum förumannsins. Bjarni las hátt og með miklum áherslum og rykkti til höfðinu undir lestrinum;
Þú ert enn að greiða gjöldin
gamla skáldið hefur völdin
flytur rímlaus kvæði á kvöldin
kvæðin eru um lífið fróð
eiga draumsins geislaglóð
gæfu þína og hjartablóð.
Þögnin geymir þessi ljóð.
Þú ert skáld á bak við tjöldin.
Þá var nú glatt í Hrauntúnsbaðstofu.

Stofan og bækurnar

Dýravinurinn

Dýravinurinn.

Virðulegasti staður Hrauntúnsbæjar var stofan. Hún var svo virðuleg að fyrstu dagana þorði ég ekki að líta þar inn. Við veggi hinnar blámáluðu stofu stóðu bókaskápar frá gólfi til lofts, bækur á borði, bækur á kistum, allt fullt af bókum, margar í skínandi nýju skinnbandi, gamlar bækur, sögubækur, fræðibækur, tímarit, guðsorð, nýtt og gamalt. En langfallegustu bókina, að því að mér fannst, hafði Jónas bóndi lagt handa mér á borðið. Stór þykk bók í gljáandi skinni gyllt á kili, meira að segja myndir innaní. Þessi bók var tímaritið Dýravinurinn með sögum eftir Þorstein Erlingsson, Þorgils Gjallanda, Guðmund Friðjónsson og marga aðra ágæta dýravini. — Hvar skyldi þessi bók vera núna? —
Fáir kunnu á þeim tíma betur að velja bók í hendur barni heldur en þessi þyrrkingslegi bókasafnari. Svipað mátti segja um þá Halldór og Bjarna. Þeir bönnuðu þær bækur sem ekki þóttu barna meðfæri en bentu á aðrar heppilegri.
En freistarinn lá í leyni og ég stalst til að lesa hina bönnuðu bók, Makt myrkranna um þann rúmenska greifa Drakúla. Afskaplega fannst mér það skemmtileg bók. Ekki get ég fundið að hún hafi skaðað, enda glottu þeir Hrauntúnsmenn þegar upp komst um boðorðabrotið. Jónas hélt að mér ævintýrum og riddarasögum sem var til mikillar skemmtunar. Hafi bændur almennt á þeim tíma látið sér svo annt um lesefni aðkomubarna, þá er ekki að furða þótt íslenskri sveitamenningu sé viðbrugðið.

Gestagangur

Guðmundur Finnbogason

Guðmundur Finnbogason 1934.

Oft komu gestir að Hrauntúni, bæði ferðamenn af Kaldadal og úr Borgarfjarðardölum, Grímsnesingar og fólk úr Reykjavík. Jónas vildi að allir fengju góðgerðir, annaðhvort kaffi eða mat. Nógur matur var lagður til en eldamennska var örðug því að allt varð að elda við kalvið á hlóðum.
Einu sinni kom hópur af fólki að Hrauntúni. Þar voru bæði karlmenn og fínar dömur í för. Fyrir hópnum var Guðmundur Finnbogason prófessor og Laufey Vilhjálmsdóttir kona hans. Öllum var boðið til stofu og hófst nú hinn venjulegi pónnukókubakstur við kalviðareldinn.
Prófessorinn fór í eldhúsið og spjallaði við mömmu á meðan hinir gestirnir sátu á tali við bónda. Bestu góðgerðirnar þóttu hveitibrauðið heimabakaða með kæfu úr skinnbelg sem hékk í rjáfrinu í eldhúsreyknum.

Laufey Vilhjálmsdóttir

Laufey Vilhjálmsdóttir.

Eitt kvöld þegar allir voru háttaðir heyrðist spóinn vella ærið grunsamlega. — Það er gestahljóð í honum, sagði Jónas. Stuttu seinna rauk hundurinn upp. Hófadynur heyrðist í tröðum og hringl í beislum. Bóndi snaraðist í föt og gekk til dyra. Hann kom inn aftur að vörmu spori og á hæla honum afarhár maður höfðinglegur með afbrigðum, snar í augum og glettinn á svip. Þetta var Ólafur bóndi í Kalmanstungu, sá sem sagt var um að hefði verið glæsilegastur bænda í konungsveislunni á Þingvöllum þegar Friðrik kóngur 8. kom 1908. Nú kom hann af fjallvegum á leið suður.

Krækiber og bláber
Ekki var mikið af berjum kringum Hrauntún þetta sumar. Helst var nokkuð um krækiber en sáralítið um önnur ber. En í Lágafelli við Hofmannaflöt voru bæði bláber og aðalbláber. Sagt var að aðalbláber væru í Mjóafellinu en þangað kom ég aldrei. Eina engjarós fann ég nálægt Stórkonugili en annars var allt bitið og nagað af sauðfénu.

Eingöngu brennt kalviði

Gapi

Gapi.

Jónas Halldórsson lét sér mjög annt um skóginn. Hann taldi að nauðsynlegt væri að hirða sem mest af kalviði í skóginum til þess að rýma fyrir nýjum viði. Í hlóðaeldhúsinu var eingöngu notaður kalviður. Hann logaði vel en var mjög ódrjúgt eldsneyti. Hrísrif var þó óhjákvæmilegt en Jónas mun ekki hafa fellt lifandi skóg meir en nauðsyn þótti. En stór var hrískösturinn sem dreginn var heim um haustið. Hann var hærri en bæjarhúsin. Jónas fór oft með kalviðarbagga á Rauð gamla til Guðrúnar í Konungshúsinu.

Hrafnagjá

Hrafnagjá á Þingvöllum – mynd frá um miðja síðustu öld.

Mestur var skógurinn austur og suður frá bænum. Einu sinni fékk ég fylgja Jónasi í eina af hinum mörgu skógargöngum hans. Við stefndum í áttina að Hrafnabjörgum og gengum lengi þangað til kom að grasigrónu rjóðri eins og dálitlu túni. Þar sást í opið á víðum helli. Jónas hafði þagað alla leiðina en nú sagði hann: Sauðahellir Gapi. Hæðirnar þar austur af heita Gaphæðir og í þeim sagðist Jónas vilja hafa sinn legstað þegar hann dæi. Ekki varð af því og mun Jónas hafa verið grafinn annaðhvort í Þingvallakirkjugarði, sem hann sagði að væri of blautur legstaður, eða þá í Reykjavík þar sem hann dó 1922.

Þingvallarétt

Þingvallarétt – Bolabás-/Sleðaásrétt.

Við komum að Hrafnagjá. Jónas sagði að niðurhrunið gerði þessa gjá ljótari en Almannagjá sem væri með grónari botn. Hann minntist á jarðskjálftana 1896, hvað gjárnar hefðu breyst og miklu meira niðurhrun í þeim síðan. Hann benti mér á eyðibýlið Litla-Hrauntún sem væri komið úr byggð fyrir langalöngu.
Á þessum tíma fyrir 65 árum var svo sem enginn skógur kringum Hrauntún nema jarðlægar kræklur. Núna er sett skilti við leiðina að Hrauntúni upp frá Bolabás undir Ármannsfelli. Þar er rústin af fjárrétt sveitarinnar og leifar af kerruvegi sem kom seinna en hér er frá sagt.
Á öllu þessu svæði var sáralítið um skóg, sem væri það hár að 9 ára barn gæti ekki séð yfir hann. Við túngarðinn í Hrauntúni sást ekki hrísla en nú er þar víða svo mikill skógur að túngarðurinn er í kafi. Þá hefur skógurinn leitað inn á túnið, bæði birki og víðir. Í staðinn fyrir túngrösin hefir komið mosi og lyng sumstaðar. Hitt er allt í sinuflóka. Þegar farið er Gjábakkaveginn má finna troðninginn heim að Hrauntúni. Þá götu var farið í átt til Þingvalla. Við þann stíg var aðeins lágt skriðult kjarr og sumstaðar aðeins gamburmosi.

Hrauntún

Hrauntúnsgatan.

Nú er þarna allt í kafi af birkiskógi. Lítið var um beinvaxnar hríslur í skóginum 1919. Helst var það austan undir Gaphæðunum. Götuslóði lá milli Skógarkots og Hrauntúns, mjög ógreinilegur enda sjaldfarinn. Við þennan slóða stóð fallegasta hríslan sem ég man þarna eftir. Hún var að minnsta kosti meira en mannhæð, þráðbein með fagra krónu. Hvítur stofninn sást langt að því að hríslan var einstök. Árið 1934 kom ég að þessari sömu hríslu. Hún var þá skemmd af kali og á henni ellimörk. Hin langa friðun hefir bersýnilega aukið skóginn að miklum mun. Þó eru gamburmosabreiðurnar býsna svipaðar að ummáli og áður var, að minnsta kosti þegar horft er af útsýnisskífunni á barmi Almannagjár.

Hofmannaflöt

Hofmannaflöt

Hofmannaflöt undir Meyjarsæti framundan.

Heyskapurinn í Hrauntúni var aðeins á heimatúni og Hofmannaflöt. Halldór faðir Jónasar hafði heyjað á blettum hér og hvar um skóginn en nú var sá siður aflagður. Á Hofmannaflöt heyjuðu þeir Halldór og Bjarni. Þeir voru við slátt allan daginn en var færður matur.
Þegar þokan læddist á loðnum skóm um hraun og hlíðar fengu hólar, klettar og runnar á sig undarlegar myndir og oft ógurlegar. Enginn staður við engjaveginn var eins ógnum þrunginn og Stórkonugil sem skerst inn í Ármannsfellið. Þokuslæðurnar huldu hamrana að mestu en innst inni glytti í svarta vota steina sem stundum glömruðu við, rétt eins og einhver væri þarna í þann veginn að stíga fram úr gilinu þungum skrefum. Þá var gott að eiga von á þeim Halldóri og Bjarna bak við næsta leiti þar sem þeir stóðu blautir við sláttinn fegnir hálfvolgri kaffiflösku í sokkbol. Þeir sögðu alltaf það sama: Farðu ekki út af götunni því þá villistu í hrauninu. — Það var heldur ekki fýsilegt því að þarna úti í hraunhólunum voru fornar rústir, enginn vissi hve gamlar. Þar gat verið reimt og hollast að halda sig sem lengst frá slíkum stöðum.

Meyjarsæti

Meyjarsæti.

Á meðan sláttumenn drukku kaffið var gaman að príla upp í Meyjasæti þar sem fornkonur höfðu setið í dómarasæti yfir íþróttamönnum sem þreyttu kappi á Hofmannaflöt. Norðar var Biskupsflöt þar sem Skálholtsbiskupar tjölduðu fyrrum með sveinum sínum og sátu á tali við tröllkonur um nætur. — Bóndalegt tjald, bóndlegur maður, — sagði ein stórkonan við Brynjólf biskup Sveinsson. En langt norður í hrauninu við rætur Skjaldbreiðar var ungur maður á ferð og lét hestinn lötra en rakki hljóp snuðrandi á eftir. Heiðarbúar, glöðum gesti greiðið för um eyðifjöll einn eg treð með hundi og hesti hraun og týnd er lestin öll. Jónas Hallgrímsson var uppáhaldsskáld móður minnar og hún söng Skjaldbreiðarkvæði hans frá upphafi til enda þegar við vorum einar heima.

Fuglar og ferfætlingar

Rjúpa

Rjúpa.

Þeir Hrauntúnsmenn voru dýravinir. Aldrei var rjúpa skotin heima við bæ en Halldór fór til fjalls á haustin og skaut þar. Rjúpurnar voru líkastar tömdum hænsnum þegar þær komu inn á túnið á kvöldin. Fyrst settust rjúpukarrarnir í garðinn til þess að gá að ferðum kattarins. Síðan komu rjúpurnar með ungahópa sína inn á túnið og jafnvel á stéttina fyrir framan bæjardyrnar hópum saman og Jónas talaði við þær tæpitungu eins og gæludýr. En kisa lá á kettlingum og dró rækilega í bú sitt. Ekki virtust rjúpurnar styggjast verulega við það.
Í fjósinu var bæli kisu og þar var um tíma tófuyrðlingur bundinn á bás. Hann varð gæfur eins og hvolpur og vildi leika sér við mann. En býsna hvassar voru tennurnar í greyinu.
Kýrin var ein á bænum og henni hefir víst leiðst. Hún tók svo miklu ástfóstri við móður mína að hún elti hana hvar sem hún gat og þegar við fórum út í hraun að tína litunarmosa færði kýrin sig meðfram garðinum til þess að vera alltaf sem næst mjaltakonunni. Þessari kú hafði verið strítt af krökkum og hljóp í alla krakka sem hún sá. Hún var stórhyrnd og ekki árennileg. Hundurinn Skrámur var auðvitað sá besti félagi sem hugsast gat, ágæt vörn við mannýgri kú.
Rauður var aðalbrúkunarhrossið en hinir yngri menn áttu reiðhesta. Féð var um allan skóg og mikið treyst á útigöngu á vetrum.

Haustar að í Hrauntúni

Hrauntún

Himininn ofan Hrauntúns.

Senn fór að líða á sumarið og haustaði að með svölum vindum norðan af Kaldadal. Ármannsfell varð grátt í rót. Vistartíminn í Hrauntúni var á enda. Halldór flutti föggur okkar á Rauð gamla til Þingvalla. Við gengum út túnið og kýrin elti móður mína eins langt og hún komst.
Hundurinn Skrámur barðist við tilfinningar sínar. Hann langaði að elta sumarleikfélagann sinn en húsbóndahollustan sigraði. Með lafandi skotti og vesældarsvip sneri hann heim á hæla Jónasi bónda sem gekk sínum löngu léttu skrefum til fjalls, einmana og þögull að vanda.”

Heimild:
-Lesbók Morgunblaðsins, 34. tbl. 22.12.1984, Sumar í Hrauntúni – Sigurveig Guðmundsdóttir, bls. 39-41.

Hrauntún

Hrauntún – garður; minnismerki mannvistar.

Hrafnabjörg

Hér á eftir verður fjallað um meint bæjarstaði Hrafnabjarga og Litla-Hrauntúns í Þingvallahrauni. Ýmsar fræðilegar skýringar hafa komið fram á hvorutveggja í gegnum tíðina, bæði frá sjálfskipuðum lærðum með skírskotun til “fræðigreina” sem og bara forvitnum um landsins hagi í gegnum tíðina.

Sleðaás

Þingvallaréttin við Sleðaás.

Að þessu sinni lögðu FERLIRsfélagar land undir fót frá Sleðaási, skoðuðu selsminjar Litla-Hrauntúns sem og Hrafnabjarga í Þingvallahrauni, tóftir beggja bæjanna og nálægar fornar leiðir um hraunið. Hitinn var um 25 °C og nánast logn. Flugan var til óþæginda, en takmarkaði hins vegar ekki áhugan á efninu.

Í Jarðabókinni 1703 fjalla Árni Magnússon og Páll Vídalín um bæina Hrafnabjörg og Litla-Hrauntún í Þingvallasveit í Árnessýslu: “Á Hrafnabjörgum hefur verið kallað norðan undir sjálfum Hrafnabjörgum c: Hrafnabjargarfjalli, eru ummæli að þar hafi verið hálfkirkja eður þriðjúngakirkja.
Sagt er að fyrir pláguna stóru hafi í allri Þingvallasveit verið 50 býli, og að Hrafnabjörg hafi þá staðið í miðri sveit (fyrst ritað Fífilvellir, en breytt af Árna í Fíflavellir).”

Grímastaðir

Grímastaðir – uppdráttur BJ.

“Vestur frá Hrafnabjörg sést votta fyrir gömlum bœjarrústum; þar vottar og fyrir því, að tún hafi þar getað verið, og þar er gjóta eða hola, sem litr út fyrir að hafa verið brunnr. Í Ármanns sögu er talað um bœ undir Hrafnabjörgum. Það er kemur til ákvæðis sögunnar „suðr frá Klyftum”, þá ætti það jafnvel betur við, að þetta væri hinir fornu Grímsstaðir, enn þetta verður ekki ákveðið. ” (Árbók Hins íslenska Fornleifafélag 1880, Um Þingvöll og Þingvallasveit, Sigurður Vigfússon, bls. 43.)

“Kluftir (sandkluftir) eru milli Ármannsfells og Mjóufjalla, Suður frá Kluftum er skógi vaxið hraun til Hrafnabjarga. En það hraun er vatnslaust og því eigi byggilégt.
Í Hraunjaðrinum við Hrafnabjörg er þó á einum stað brunnur af náttúrunni, þ.e. hraunhola með vatni, sem sjaldan þrýtur. Og hjá henni er forn bæjarrúst. Hún er að vísu nokkuð óglögg; þó má sjá, að í henni eru 2 miðgaflar, er skipta henni í 3 herbergi, sem hvert um sig er nál. 3 fðm. langt. Hin liggur nál. frá austri til vesturs og hefir vestasta herbergið dyr á vesturenda, en hin sýnast að hafa dyr á suðausturhliðinni. Breiddin á tóftunum er nál. 3 fðm. Við norðurhliðina vottar fyrir annari tóft, er einnig hefir dyr á vesturenda. Norðanmegin við þær er lítil tóft með dyr mót norðri. Svo sem 20—30 fðm. norðar er sérstök tóft, talsvert minni. Hún er tvískift, og er það glögt, að miðgaflinn er dyvalaus. Hefir austurherbergið dyr á suðausturhlið, en hitt á vesturenda. Lengd hvors um sig er nál. 2x 1/2 fðm., breiddin um 2 fðm. Þetta gæti vel verið heimahof. Stekkur gæti hún raunar líka verið, en er þó of lítil til þess á þessum stað; því hér verður að gera ráð fyrir mörgu sauðfé; tún hefir ekkert verið og þá ekki heldur kýr.
Önnur forn bæjarrúst er í hrauninu langt suðvestur frá Kluftum. Þar heitir Litla-Hrauntún. Eigi sér þar vatnsból og eigi er þar heldur túnstæði. Það kæmi nú heim við hinn fyrtalda stað í Harðarsögu (k. 5.) að Grímsstaðir, Þav sem Grímur litli bjó, hafi verið á öðrum hvorum þessum stað, og þá helzt á bænum við Hrafnabjörg. Og á því máli er Sigurður Vigfússon í Árb. 1880—1, bls. 43. (Árbók Hins íslenska fornleifafélags, Rannsókn í Árnesþingi sumarið 1904, Brynjúlfur Jónsson, bls. 44-45.)

Hrafnabjörg

Hrafnabjörg – uppdráttur BJ.

Hrauntún hefur verið kallað örnefni eitt í skóginum, sem munnmæli eru að bygt hafi verið fyrir pláguna, meinast síðan í plágunni í eyði lagts hafa og allajafna síðan í aun verið. Hefur hjer í þessu takmarki selstaða verið frá Þingvöllum svo lángt fram sem menn til muna og er enn nú, og vita menn ekkert hjer um að undirrjetta.
Anað Hrauntún hefur verið kallað verið í skóginum í norðaustur frá þessu og skamt eitt þr frá, og sjer til girðinga svo sem af túngarði. Meinast þetta hrauntún eins bygt verið hafa fyrir pláguna sem hið fyrra, en hver bæði Hrauntúnin hafi undir eins bygð verið, eður hafi bærinn verið fluttur verið og bíhaldið svo nafninu, það hafa menn ekki heyrt, og meinast þetta Hrauntúnið með sama móti eyðst hafa í plágunni sem hið fyrra. Hjer um vita menn ekki heldur framar að segja.” (Árbók Hins íslenska Fornleifafélag 1880, Um Þingvöll og Þingvallasveit, Sigurður Vigfússon, bls. 45.)

Í BA-ritgerð Gunnars Grímssonar í fornleifafræði; “Kortlagning eyðibyggðarinnar á Þingvöllum”, árið 2020 má m.a. lesa eftirfarandi: “Þingvellir eru einn merkasti sögustaður Íslands. Þar var alþingi háð frá um 930 til 1798 eða í hartnær átta aldir. Fyrsti þjóðgarður landsins var stofnaður á Þingvöllum. Voru lögin um þjóðgarðsstofnun samþykkt 1928 og tóku þau gildi 1930 þegar haldið var upp á þúsund ára afmæli alþingis. Íslenska lýðveldið var formlega stofnsett á Þingvöllum 17. júní 1944 (Björn
Þorsteinsson, 1986). Þingvellir voru samþykktir á heimsminjaskrá UNESCO árið 2004 vegna sögu og fornleifa staðarins auk gildis þeirra sem „helgistaðar þjóðarinnar“ (UNESCO, 2004).
Þingvellir
Þrátt fyrir langa sögu og miklar minjar hafa fornleifarannsóknir innan þjóðgarðsins á Þingvöllum verið færri en ætla mætti. Fjölmargar minjar hafa verið skráðar innan þinghelginnar (Sigurður Guðmundsson, 1878; Matthías Þórðarson, 1922, 1945; Guðmundur Ólafsson, 1986; Margrét H. Hallmundsdóttir, óútgefið) en lítið hefur verið um eiginlega fornleifauppgrefti, sem hafa flestir verið tiltölulega smáir í sniðum (Sigurður Vigfússon, 1881; Matthías Þórðarson, 1922, 1945; Adolf Friðriksson o.fl., 2006; Orri Vésteinsson, 2004; Margrét H. Hallmundsdóttir og Hansen, 2012). Rannsóknirnar hafa þá mestmegnis beinst að minjum innan þinghelginnar en ekki hefur verið fjallað eins mikið um minjar utan hennar, sem eru leifar eyðibyggðarinnar á Þingvöllum. Eyðibyggðarinnar er helst getið sem eins konar viðauka við umfjöllun um alþingisstaðinn (Sigurður Vigfússon, 1881; Matthías Þórðarson, 1945) en hún er sjaldan í aðalhlutverki (Brynjúlfur Jónsson, 1905) og heildstæða samantekt vantar. Aðeins hefur verið grafið á einum stað í þjóðgarðinum utan þinghelginnar, svo vitað sé (Brynjúlfur Jónsson, 1895). Hugmyndir um eðli og umfang eyðibyggðarinnar á Þingvöllum eru því langt frá því að vera fullmótaðar.

Helstu ritheimildir sem stuðst er við eru Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalíns um Árnessýslu (2. bindi, JÁM II), sóknarlýsing Þingvalla árið 1840 (Björn Pálsson, 1979), rannsóknarferð Brynjúlfs Jónssonar fornfræðings um Árnessýslu árið 1904 (Brynjúlfur Jónsson, 1905) og Þingvöllur – Alþingisstaðurinn forni eftir Matthías Þórðarson þjóðminjavörð frá 1945 (Matthías Þórðarson, 1945).
Örnefni eru einnig afar mikilvægar heimildir í þessari ritgerð en helstu heimildarmenn í þeim efnum eru Ásgeir Jónasson frá Hrauntúni (1932, 1939) og Pétur Júlíus Jóhannsson frá Skógarkoti (1983). Pétur merkti á sjöunda hundrað örnefna inn á loftmyndir á 9. áratug seinustu aldar ásamt því að skrifa ritgerðina Þingvallaþankar (Pétur J. Jóhannsson, e.d.). Framlag Péturs er ómetanleg heimild um sögu Þingvallasveitar. Einar Á. E. Sæmundsen þjóðgarðsvörður hefur tekið saman örnefnaskrár Péturs, Ásgeirs auk fleiri heimildarmanna í sérstaka örnefnaskrá þjóðgarðsins og afhent Landmælingum Íslands, sem hefur gert þau aðgengileg.

Prestatígur

Prestatígur um Þingvallahraun – ÓSÁ.

Í Jarðabókinni er skrifað um tvö Hrauntún í Þingvallasigdældinni. Í sóknarlýsingu Þingvalla 1840 er Hrauntúnið síðarnefnda sagt „suður af Mjóafelli“ og kallað Litla-Hrauntún, til aðgreiningar frá hinu fyrrnefnda (Björn Pálsson, 1979, bls. 183) sem var þá komið í byggð á nýjan leik. Litla-Hrauntún á sér enga sögu og féll því í skuggann af Grímsstöðum og Hrafnabjörgum hjá fornfræðingum. Sigurður Vigfússon (1881) minnist þannig ekki einu orði á eyðibýlið. Brynjúlfur Jónsson tileinkar Litla-Hrauntúni fjórar setningar í lok umfjöllunar sinnar um Hrafnabjörg en þar er honum mest umhugað um staðsetningu hinna fornu Grímsstaða.
Á 20. öld er Litla-Hrauntún merkt inn á mismunandi stöðum á kortum en aldrei sérlega nákvæmlega. Guðmundur Davíðsson, sem síðar varð fyrsti umsjónarmaður þjóðgarðsins á Þingvöllum, hefur á orði í dagblaðsgrein hvað honum þyki „óviðfelldið“ hve mikið finnst af röngum örnefnum á korti dönsku herforingjastjórnarinnar; bæði séu nöfnin „afbökuð og færð úr stað“ að hans mati (Guðmundur Davíðsson, 1921, bls. 1). Guðmundur segir Litla-Hrauntún vera „[…] langt norður á Þingvallahrauni, u.þ.b. mitt á milli Ármannsfells og Hlíðargjár“ (1919, bls. 67).

Litla-Hrauntún

Litla-Hrauntún; selstaða – uppdráttur ÓSÁ.

Í annarri dagblaðsgrein bætir Guðmundur við að Litla-Hrauntún sé í útjaðri skógarins og þar eru tóftir tveggja fornra bæjarstæða, sem heita hvort tveggja Litla-Hrauntún (1934, bls. 54). Ásgeir Jónasson frá Hrauntúni segir Litla-Hrauntún sunnan á Mjóafellshrauni og þar sjáist „auðsjáanleg tóftarbrot og grasblettur“ (Ásgeir Jónasson, 1939, bls. 151). Pétur J. Jóhannsson frá Skógarkoti segir Litla-Hrauntún skammt austan Víðivalla, sem eru við rætur Ármannsfells. Samkvæmt Pétri liggur leið fram hjá bæjarrústunum yfir Prestastíg (Gunnar Þórisson og Pétur J. Jóhannsson, 1983, bls. 182) en almenn málvenja á Þingvöllum er að kalla stíg aðeins þann hluta leiðar sem liggur yfir gjá. Því er ekki útilokað að fleiri en ein leið liggi yfir sama svokallaða Prestastíg, sem fer yfir Hlíðargjá. Í ritgerð sinni Þingvallaþönkum segir Pétur ennfremur að Litla-Hrauntún sé á milli gömlu og nýju sauðfjárveikigirðinganna (Pétur J. Jóhannsson, e.d., bls. 14). Nákvæmasta lýsingin af rústum Litla-Hrauntúns kemur frá Matthíasi Þórðarsyni þjóðminjaverði en hann lýsir þeim svo árið 1945: “Nyrzt er Hrauntún, nefnt Litla-Hrauntún. Sér þar fornar tóftir á 3 stöðum, og kemur það nokkurn veginn heim við frásögn Árna Magnússonar í jarðabók hans […] Sjá má greinilega hvort-tveggja bæjarstæðið, sem átt er við, og eru á hinu fyrra nýlegri tóftir, enda seltóftir frá síðari öldum, um 100 m. eru í milli. Á eystri staðnum er ein fornleg bæjartóft, sem skipt er í þrennt. – Um 40 m. fyrir norðan vestari tóftirnar eru hinar þriðju; aflöng, ferhyrnd tóft, mjög fornleg, skiptist í tvennt, og 6 m. fyrir vestan hana hringmynduð tóft. Sennilega hefur hér verið sel. – Það er lítt hugsanlegt, að hér hafi verið 2 byggð býli samtímis, en séu hér raunar 2 bæjarstæði, mun síðari bærinn hafa verið byggður einhvern tíma eftir að hinn fyrsti hafði farið í eyði. (Matthías Þórðarson, 1945, bls. 81–82).

Litla-Hrauntún

Litla-Hrauntún – bæjarstæðið.

Hér er líklegt að nafngiftir Hrauntúns og Litla-Hrauntúns hafi haft áhrif á lýsingar”.
Guðmundur Davíðsson og Matthías Þórðarson gætu hafa túlkað texta Jarðabókarinnar sem svo að verið sé að lýsa tveimur Hrauntúnum á einum stað og túlka því Litla-Hrauntún sem tvíbýli. Einnig er óvíst hvort það sem Kolbeinn Guðmundsson (1952) kallar Gamla-Hrauntún eigi við um Litla-Hrauntún eða hitt Hrauntúnið, sem aftur byggðist upp á 19. öld (sjá bls. 27).
Auk þess segist séra Guðmundur Einarsson, sem var prestur á Þingvöllum árin 1923–1928, hafa séð skálabyggingu fornmanna „[…] norðaustur í hrauninu frá Hrauntúni að sjá“, sem hann telur „víst að sé innan girðingarinnar“ (Guðmundur Einarsson, 1938). Ef meint skálarúst Guðmundar er innan gömlu girðingarinnar (sem nú hefur verið breytt í reiðgötu) gæti hún ef til vill verið af hinu svokallaða Gamla-Hrauntúni, eða verið allt annað, óþekkt bæjarstæði.

Litla-Hrauntún

Litla-Hrauntún; bæjarstæðið.

Einnig gæti Guðmundur hafa átt við rústir Gamla-Stekks, sem er sagður skammt austan Hrauntúns (Ásgeir Jónasson, 1939, bls. 156). Ef skálarúst Guðmundar er ekki innan gömlu girðingarinnar (og er í raun skálarúst) eru líkur til þess að hún sé í Litla-Hrauntúni.
Hópurinn Ferlir leitaði að Litla-Hrauntúni og staðsetti árið 2011 meintar rústir norðan yngri girðingarinnar, við leið sem liggur yfir Hlíðargjá og er líklega svonefndur Prestavegur eða Hrafnabjargavegur (Ómar Smári Ármannsson, 2011a). Hekla Þöll Stefánsdóttir, þá landvörður á Þingvöllum, gekk skipulega um landsvæðið austan Víðivalla og norðan yngri girðingarinnar 2013 án þess að koma auga á neitt (Einar Á. E. Sæmundsen, munnleg heimild, mars 2017). Sá sem þetta skrifar gekk í landvörsluvinnu sjálfur skipulega um landsvæðið sunnan girðingarinnar í apríl 2017 í leit að Litla-Hrauntúni, án árangurs.
Nokkur óvissa ríkti um staðsetningu Litla-Hrauntúns: rústirnar eru jafnt sagðar norðan þjóðgarðsgirðingarinnar og sunnan hennar og einnig við leið sem liggur yfir Hlíðargjá um Prestastíg. Svæðið þar sem Ómar Smári Ármannsson merkir Litla-Hrauntún var kortlagt með flygildi í júlí 2017 en þar var ekki hægt að koma auga á rústir á loftkorti og yfirborðslíkani.

Litla-Hrauntún

Litla-Hrauntún; bærinn.

Til að taka af allan vafa um staðsetningu Litla-Hrauntúns voru um 3,2 ferkílómetrar lands kortlagðir báðum megin yngri girðingarinnar sem og sunnan undir Mjóafelli snemma sumars 2018. Miðað var við lýsingu Matthíasar Þórðarsonar (1945, bls. 81–82) að mannvirkin væru á þremur stöðum, þar sem 100 metrar væru milli fyrsta og annars staðarins og sá þriðji 40 metrum norðan hins fyrsta. Slíkt bar góðan árangur, því við einn grasblettinn í hrauninu sunnan girðingarinnar mátti greina daufa ferhyrnda upphækkun sem líktist mannvirki og út frá henni var hægt að staðsetja allar rústir Litla-Hrauntúns.

Litla-Hraunntún

Litla-Hrauntún; seltóft.

Rústin sem sást fyrst er sú, sem Matthías Þórðarson kallar „seltóftir frá síðari öldum“ en segir þær „bera nú með sér, að þar hafi ekki verið sel æði-lengi“ (Matthías Þórðarson, 1945, bls. 81). Rústin situr ofan á lágri hæð og um 20 metrum suðvestar er grasblettur, sem Ásgeir Jónasson (1939) hefur eflaust átt við. Mögulega gæti þetta stutt túlkun Matthíasar Þórðarsonar að þarna sé sel. Fleiri minjar gætu leynst í nærumhverfi „seltóftanna“. Um 115 metrum austan „seltóftanna“ er rústin, sem Matthías Þórðarson kallar „fornlega tóft“ og segir skiptast í þrennt (mynd 24, miðdálkur). Ekki er auðvelt að færa rök með eða á móti Matthíasi þar sem rústin er mjög gróin og norðurhluti hennar virðist vera kominn undir birkirunna. Trjágróðurinn gerir það einnig að verkum að erfitt er að átta sig nákvæmlega á stærð rústarinnar en hitamyndavélin gat greint hitaójöfnur í gegnum laufskrúða
trjánna. Þriðji minjastaðurinn er um 40 metra norðan „seltóftanna“ og þar eru a.m.k. tvær rústir. Sú stærri er aflöng og tvískipt, snýr SA–NV og er kölluð „mjög fornleg tóft“ af Matthíasi Þórðarsyni.

Hrafnabjörg

Hrafnabjörg; bærinn.

Bærinn undir Hrafnabjörgum, sem er jafnan einfaldlega kallaður Hrafnabjörg líkt og fjallið sjálft, varð síðar að yrkisefni í Ármanns sögu yngri, sem er samin á seinni hluta 18. aldar upp úr Ármanns rímum. Þar sem Hrafnabjörg eru ekki nefnd í rímunum er vel hugsanlegt að höfundur Ármanns sögu hafi tekið sér skáldaleyfi með bæinn, sem er þá kominn vestur undir Skjaldbreið. Þar er Hallketill nokkur, leysingi Ketilbjarnar gamla, sagður búa en hann flutti þangað eftir að honum þótti of þéttbyggt í Laugardal (Íslendinga sögur XII, bls. 423).
Í sóknarlýsingu Þingvalla 1840 er bærinn sagður vestan Hrafnabjargafjallsins og þá höfðu munnmæli Jarðabókarinnar um hálf- eða þriðjungakirkju þróast upp í stæðilega kirkju, sem þótti „ekki all-lítil“ (Björn Pálsson, 1979, bls. 186, 192).

Þingvallahraun

Vörður á Klettaborg í Þingvallahrauni.

Matthías Þórðarson lætur sér fátt um finnast um kirkjumunnmæli í kringum tvískiptu tóftina, sem honum finnst „allsendis ósennileg“ en hann lýsir Hrafnabjörgum svo: “Þá er bæjarstæði fornt skammt í útnorður undan Hrafnabjörgum. […] Aðalbæjartóftin skiptist í þrennt. Við norðurhlið hennar vottar fyrir annarri tóft, og hinni þriðju norðan við hana. Um 50 m. norðar er enn tvískipt tóft. (Matthías Þórðarson, 1945, bls. 82).
Líkt og með Litla-Hrauntún hefur bærinn undir Hrafnabjörgum verið staðsettur á margvíslegum stöðum á kortum. Brynjúlfur Jónsson segir Prestaveg (sem hann kallar Prestastíg) liggja norður fram hjá bæjarrústinni (1905, bls. 47). Guðmundur Davíðsson, umsjónarmaður þjóðgarðsins á Þingvöllum, getur þess árið 1934 að einstaka birkirunnar vaxa í grennd við bæinn en annars er landsvæðið að hans sögn „ömurlegt og óbyggilegt“ (1934,
bls. 53).

Prestastígur

Prestastígur.

Í Árbók Ferðafélags Íslands 1961 heitir bæjarrústin Hranavellir og er sögð „vestur af norðurenda Hrafnabjarga“ (Haraldur Matthíasson, 1961, bls. 132). Kristján Jóhannsson frá Skógarkoti getur þess í örnefnaskrá Grímsnessafréttar að bæjarrústir Hrafnabjarga (sem hann kallar Hrafnabjargavelli) séu í litlu dalverpi fyrir framan örnefnið Kræklubrún („Grímsnesafréttur“, e.d., bls. 3). Bróðir hans, Pétur J. Jóhannsson (1983, bls. 182–183), segir rústirnar skammt norðan hesthústóftar Grímsnesinga, sem er við núverandi sauðfjárveikigirðingu suðaustan Prestastígs. Þess má geta að það er vatnsból við hesthústóftina, sem helst fram eftir sumri. Meintar bæjarrústir Hrafnabjarga voru staðsettar í ferð Ferlis árið 2011 (Ómar Smári Ármannsson, 2011). Voru þar skrásett möguleg mannvirki á tveimur stöðum við hraunkrika, sem virðast hafa að mestu farið á kaf undir malarjarðveg úr
leysingarfarvegi (Ómar Smári Ármannsson, munnleg heimild, 4. október 2019).

Presthóll

Tóft við Presthól við Prestastíg.

Út frá ritheimildum átti eyðibýlið að liggja við Prestaveg upp við örnefnið Kræklubrún. Bæjarrústin átti að vera 15–17 metrar að lengd, með gjótu austan hennar og tvískiptu mannvirki 30–40 metrum norður af bænum. Hrafnabjörg hafa þó verið merkt á margvíslegum stöðum og því ríkti mikil óvissa um hvaða heimildir væru áreiðanlegar.”
Ennfremur: “Á Hrafnabjörgum er fyrst að nefna bæjarrúst, sem snýr hér um bil austur–vestur og er um 16×6,5 metrar að stærð. Á norðurhliðinni er lítil viðbygging, um 4×3 metrar að stærð og trjárunni vex í henni miðri. Útveggir rústarinnar eru augljóslega bogadregnir og af útliti hennar að dæma er hér líklega um að ræða dæmigerða skálabyggingu.
Ekki er þó öll sagan sögð en einnig sést móta fyrir annarri, smærri byggingu innan hennar, u.þ.b. 13×4,5 metrar að stærð og skiptist í þrjú hólf. Hugsanlega eru þetta leifar selstöðu sem hefur verið reist ofan á skálarústinni seinna meir, rétt eins og túlkað hefur verið á Grímsstöðum. Það virðist sem Brynjúlfur hafi teiknað rústirnar upp líkt og þær séu eitt og sama mannvirkið. Ekkert vatnsból sást við rústirnar en lítil gjóta um 20 metrum suðaustan þeirra gæti hafa verið brunnurinn, sem Brynjúlfur Jónsson og Sigurður Vigfússon áttu við. Ekkert vatn var þó í gjótunni og hún var hulin trjágróðri að stórum hluta.
Norðan skála- og seljarústanna svokölluðu er lág brekka og þar var hægt að staðsetja þrjár aðrar rústir á vettvangi. Um 30 metrum norðan bæjarrústanna er tvískipta tóftin, sem munnmæli um hálfkirkju eða þriðjungakirkju í Jarðabókinni eiga við og Brynjúlfur Jónsson stingur upp á að væri annaðhvort heimahof eða stekkur. Ekki er minnst á hinar tvær smátóftirnar í lýsingum Brynjúlfs Jónssonar og Matthíasar Þórðarsonar. Báðar þeirra virðast hringlaga eða ferkantaðar og 3–4 metrar í þvermál. Sú eystri er greinilegri, með inngang til suðurs og frá henni liggur lítill slóði í átt að bæjarrústunum.
Gróft kolalag var í innanrými rústarinnar á um 35 sm dýpi. Sú vestari virðist einnig hafa inngang til suðurs og í innanrými hennar var torfhrun blandað gjóskulögum sem hafa ekki verið greind. Birkirunnar vaxa í veggjum rústanna en ekki í innanrýmum þeirra. Frekari rannsókna er þörf til að meta heildarumfang og hlutverk þessara rústa en trjágróðurinn gæti mögulega hulið fleiri verksummerki.

Í Litla-Hrauntúni eru a.m.k. fjögur mannvirki á þremur stöðum. Á einum staðnum er mannvirki sem skiptist í tvö hólf. Hugsanlega eru þetta seljarústir. Á öðrum staðnum er aflangt, tvískipt mannvirki, sem er mögulega með bogadregna útveggi. Rúmlega hundrað metrum austar er annað aflangt mannvirki.

Á Hrafnabjörgum eru leifar mannvirkis sem hefur einkenni dæmigerðrar skálabyggingar með viðbyggingu á norðurhlið. Innan veggja þess vottar fyrir útlínum annars mannvirkis. Gæti það verið sel, sem hafi verið reist ofan á skálarústunum svokölluðu.”

Hrafnabjörg

Hrafnabjörg – sel.

FERLIRsfélagar hafa skoðað framangreinda minjastaði í Þingvallahrauni. Sunnan girðingar er umlykur Þingvallasvæðið eru selsminjar, í svonefndu Litla-Hrauntúni. Þar má greina þrjár tóftir og eru um 115 metrar á milli þeirra. Norðan girðingarinnar, við Prestastíg, eru fornar hústóftir og garðar; líklega hið forna bæjarstæði Litla-Hrauntúns. Milli selsins og bæjarins er klettaborg með tveimur vörðum, sem ekki virðast hafa verið fornleifaskráðar. Vörðurnar eru ágætar vísbendingar á milli minjastaðinna fyrrum.

Þingvellir

Þingvellir – kort.

Framangreind staðsetning á Hrafnabjörgum er augljós selstaða; þrískiptar tóftir og stekkur. Hliðstandandi lýsingar eru af vatnsstæðinu þar sem nú eru rústir leitarmannakofa frá síðustu öld. Umleikis þær eru einu vísbendingarnar um fornfæri;  tvær mosavaxnar vörður.
Bærin á Hrafnabjörgum var mjög líklega við lækjarfarveg ofan úr fjallinu. Þar sér fyrir tóftum og görðum, sem nú eru að mestu komnar undir sandaura lækjarins. FERLIR teiknaði þær upp fyrir u.þ.b. tuttugu árum, en nú virðast þær nánast horfnar af yfirborði jarðar.

Frábært veður. Gangan tók 8 klst og 8. mín.

Heimildir:
-Jarðabókin 1703, Árni Magnússon og Páll Vídalín, Árnessýsla, bls. 363.
-(Árbók Hins íslenska Fornleifafélag 1880, Um Þingvöll og Þingvallasveit, Sigurður Vigfússon, bls. 43.)
-Árbók Hins íslenska fornleifafélags, Rannsókn í Árnesþingi sumarið 1904, Brynjúlfur Jónsson, bls. 44-45.
-Matthías Þórðarson. (1922). Fornleifar á Þingvelli. Árbók hins íslenzka fornleifafélags 1921–1922, 1–107.
-Háskóli Íslands, Fornleifafræði; Kortlagning eyðibyggðarinnar á Þingvöllum með flygildum og hitamyndavél. Ritgerð til B.A.–prófs í fornleifafræði –
Gunnar Grímsson, maí 2020 – https://skemman.is/bitstream/1946/35509/1/Kortlagning_eydibyggdarinnar_a_thingvollum.pdf

Hrafnabjörg

Hrafnabjörg undir Hrafnabjörgum.