Ródólfsstaðir

Gunnar Valdimarsson sendi FERLIR eftirfarandi fróðleik um meinta Ródolfsstaði við Ródolfsstaðahæðir. Upplýsingar Gunnars eru mjög áhugaverðar og gefur FERLIRsfélögum ástæðu til að fara aftur á svæðið og skoða það nánar.

“Sæl FERLIRsfólk.

Ródólfsstaðir

Afstaða rústasvæðanna, 1 eru tóttirnar ykkar, 2 gerðið Hringurinn og gerðið á loftmynd á map.is – Gunnar.

Ég heimsæki vefsíðuna ykkar reglulega og hef mikið gaman af. Ég sá að þið voruð að velta fyrir ykkur staðsetningu Rótólfsstaða eða Bótólfsstaða núna nýverið og hef líka litið á umfjöllun Gunnars Grímssonar í verkefninu um byggðaleifar í Þingvallasveit. Ég get vonandi orðið ykkur að liði varðandi þetta.

Um 500-600 m í nokkurn veginn VSV stefnu frá tóttunum sem þið teljið vera undir Rótólfsstaðahæðum suðaustanverðum er annað rústasvæði. Það er vafalaust staðurinn sem Brynjúlfi Jónssyni var bent á þarna á sínum tíma, þ.e. ferhyrningslaga gerði með tótt í norðvesturhorni.

Ródólfsstaðir

Afstaða mannvirkja – Gunnar.

Veggir eru allskýrir og norðurveggurinn mikill og breiður. Til vesturs frá þessum ferhyrningi er annað gerði sambyggt, afmarkað af hringlaga vegg sem virðist tvöfaldur, eins og sá hluti hafi verið stækkaður (eða minnkaður). Í norðvesturhluta ferhyrningsins er húsatótt sem snýr nokkuð á skjön við gerðið og hefur NV-SA stefnu. Þar virðast vera tvö samsíða innrými frá norðri til suðurs og jafnvel það þriðja í norðurendanum, mögulega með dyrum til norðurs. Tótt þessi er öll mosagróin en sæmilega skýr í formi. Rétt suðaustan við hana er niðurgrafin stía með dyrum úr SV-horni. Það er gleggsta tóttin.

Ródolfsstaðir

Afstaða mannvirkja, hús, vatnsból og X, sem gætu verið mannvirkjaleifar við suðurinnvegg ef bjartsýnin er látin ráða – Gunnar.

Í norðausturhorni ferhyrningsins er áberandi trjárunni. Hugsanlega eru einhverjar leifar með norður-suðurstefnu meðfram runnanum að vestan en harla ólíklegt. Eins gætu verið ummerki tveggja stía innan á suðurvegg ferhyrningsins nærri SA-innhorni en óvíst. Það eru mosahaugar og sá vestari líklegri til að hylja eitthvað.

Til suðurs frá ferhyrningnum eru klettar með hellisskútum sem snúa hvor móti öðrum og þar á milli er hlaðinn veggur að sunnanverðu. Vel má vera að þar sé gamalt vatnsból. Í vestari hellinum eru haugar af kindabeinum, ekki mjög gömlum.

Ródolfsstaðir

Séð í vestur eftir ferhyrningnum nær og hringnum fjær. Norðurveggur ferhyrnings til hægri – Gunnar.

Nærri suðvesturhorni ferhyrningsins gæti vel verið tótt sem liggur N-S, annaðhvort tvö samsíða rými eða þá einföld stía byggð saman við túngarð, sem væri þá væntanlega innanverður vesturveggur gerðisins.

Í norðvestur frá ferhyrningnum er mosavaxin slétta eða flötur og þar virðist vera rúst með stefnu austur-vestur og líklegast dyr í austur. Það er grjóthleðsla. Fleiri tóttir gætu leynst á svæðinu en það er erfitt að glíma við þetta umhverfi og ekkert víst í þeim efnum.

Ródolfsstaðir

Hús A og norðurveggur í ferhyrningnum til hægri, horft í vestur – Gunnar.

Ef miðað er við kortið sem fylgir sóknarlýsingunni frá 1840, þá gæti maður ætlað út frá afstöðu að hér sé það sem menn á þeim tíma kölluðu “Bæjarstæði í Hrauni” og tóttirnar ykkar upp við hæðirnar þá Rótólfsstaðir. Þar virðist reyndar vera greinileg tótt með norður-suðurstefnu. En miðað við hve stutt er milli þessara tveggja rústasvæða er líka freistandi að telja þær samstæðar, þ.e. hluta af sömu heild eða býli. Engin augljós íveruhús eru á svæðinu en verið gæti að þau séu uppi á rústasvæðinu ykkar.

Ródólfsstaðir

Hús B til norðurs – Gunnar.

Varðandi þetta má benda á að nokkurn veginn miðja vegu milli þessara tveggja rústasvæða er glompa eða hvilft sem gæti verið vatnsból, virkar svolítið eins og að því sé veggur vestanmegin og gangvegur niður í holuna. Það kann að vera misskilningur en er þó þess virði að á það sé bent.

Þá eru hér nokkrar gagnlegar upplýsingar:

Ferhyrnda gerðið er um 50 m A-V og um 40 m N-S, virðist örlítið breikka til austurs. Veggir eru 2-3 m á þykkt. Hnit á norðurvegg (X).

Ródólfsstaðir

Hús A til suðurs, tóttin í gerðinu (Brynjúlfstótt) – Gunnar.

Tóttin í norðvesturhorni, Brynjúlfstóttin, er um 9 x 7 m. Köllum hana hús A. Krærnar, eða rýmin, gætu hafa verið 120 cm breiðar, sem er eðlilegt miðað við fjárhús og um 5-6 m langar. Veggir um 180-200 cm breiðir nema að norðan, þar sem veggur er 150 cm. Grjót sést á stöku stað í millivegg. Hnit (X).

Niðurgrafna stían, hús B, liggur A-V á lengdina og er þar um 2 m löng og um 1,5 m á breidd. Dyr, 40 cm breiðar, eru út úr SV-horni meðfram V-innvegg og mögulega stuttur leiðigarður vestan með þeim. Dýpt stíunnar er um 60 cm og veggjaþykkt 80-100 cm. Hnit (X).

Ródólfsstaðir

Hús C til vesturs, mögulega tótt en ekki öruggt – Gunnar.

Möguleg tótt við SV-horn ferhyrnings, hús C, er um 5,5 m langt og 2 m breitt. Gætu verið tvö samsíða rými með N-S stefnu en austara rýmið er óvíst.Dyr eru líklega til suðurs og þá um 40 cm breiðar. Grjót er sýnilegt innan í veggjum í innrými hér og þar. Hnit (X).

Tóttin NV við ferhyrninginn uppi í mosanum, hús D, er eitthvað um 6 m löng og 2 m breið. Vesturveggur er um 120 cm þykkur. Fleiri veggjabrot kunna að vera sunnan við suðurvegg.

Ródólfsstaðir

Hringurinn, vesturveggur til S, vatnsból efst á mynd – Gunnar.

Vatnsból og hleðsla sunnan við ferhyrninginn. Klettarnir sjást langt að.

Hringlaga veggur er um 60 m A-V í þvermál í ytri hringnum en um 40 m í þeim innri. Virðist skarast við ferhyrninginn að vestan og er því ekki víst að hringurinn og ferhyrningurinn séu byggðir á sama tíma. Hnit á vesturvegginn er (X).

Mögulegt vatnsból er milli rústasvæðanna.

Mælingar eru grófar ágiskanir og ekki heilagar. Fremur til gamans.

Ródolfsstaðir

Hús D til vesturs, endilöng tótt, austurendaveggur næst á mynd – Gunnar.

Um myndirnar er það að segja að þær eru teknar í tveimur ferðum á þessu ári, annarri 21. maí og hinni 16. ágúst. Í hinni fyrri varð heldur hvasst fyrri smádróna áður en góður árangur náðist og ekki hægt að ná nægri hæð. Í hinni síðari varð ég fyrir því óláni að missa spaða af drónanum í miðjum klíðum sem leiddi til flugslyss (þó án verulegs tjóns). Því eru yfirlitsmyndir fjærri því að vera eins góðar og ég hefði viljað og þarf að fá þær betri. Þær ættu þó að gefa einhverja hugmynd. Almennt er erfitt að mynda tóttirnar svo vel sé enda svæðið erfitt viðureignar og litir, gróðurfar og yfirbragð tóttanna oftast í engu frábrugðið umhverfinu.

Ródolfsstaðir

Hús D til vesturs, endilöng tótt, austurendaveggur næst á mynd – Gunnar.

Ég er ekki menntaður fræðimaður. Þið kynnuð því að spyrja hvers vegna ég hafi þetta undir höndum. Ástæðan er sú að ég litaðist um eftir Rótólfsstöðum fyrir allmörgum árum en fann ekkert. Löngu síðar sá ég á síðunni ykkar aðleit stæði yfir og þá ákvað ég að að reyna aftur, mest til gamans og til að fá útivist og hreyfingu. Þá hafði ég eignast dróna og var því vel útbúinn. Eftir að hafa rýnt í loftmyndir þótti mér eins og eitthvað einkennilegt væri á þessum tiltekna stað og svo reyndist líka vera. Auðvitað getur verið að þið hafið vitað af þessu og ef svo er, þá hendið þið bara þessum pósti. Ef þið viljið meira, þá á ég fleiri myndir og upplýsingar. “

FERLIR fékk góðfúslegt leyfi Gunnars til að birta framangreindan texta.

Ródólfsstaðir

Hús C til vesturs, mögulega tótt en ekki öruggt – Gunnar.