Þingvellir

Skammt frá fyrrum Valhöll á Þingvöllum, fast vestan við brúna yfir Öxará, er skilti þar sem gestir eru boðnir “Velkomnir til Þingvalla “með eftirfarandi boðskap:

Þingvellir

Þingvellir – yfirlit.

“Þingvellir við Öxará er merkasti sögustaður Íslands og hvergi kemur saga lands og þjóðar fram með sterkari hætti. Hér var Alþingi stofnað um árið 930 og kom það hér saman árlega allt til ársins 1798. Margir merkustu atburðir Íslandssögunnar urðu hér, svo sem kristnitakan árið 1000 og stofnun lýðveldisins Íslands árið 1944. Því skipa Þingvellir sérstakan sess í hugum Íslendinga. Árið 1930 voru Þingvellir friðlýstir og þjóðgarður stofnaður en árið 2004 var þessi helgistaður allra Íslendinga samþykktur á heimsminjaskrá Menningarstofnunar Sameinuðu þjóðanna, UNESCO.

Þingvellir

Náttúra Þingvalla er talin einstök.

Náttúra Þingvallasvæðisins er einstök í heiminum. Jarðfræði svæðisins og vistkerfi Þingvallavatns, stærsta náttúrulega stöðuvatns Íslands, mynda dýrmæta heild. Lífríki vatnsins er auðugt en vatnasvið Þingvalavatns sem er um 1300 km2 hefur að geyma gríðarlega auðlind fyrir komandi kynslóðir. Þingvellir eru hluti flekaskila Atlantshafshryggjarins sem hvergi er eins sýnilegur í veröldinni og einmitt hér. Þá má sjá í fjölmörgum sprungum og gjám svæðisins og gliðnun þess sem sífellt á sér stað.

Alþingi stofnað

Þingvellir

Frásagnir eru til um fjölbreytta skemmtan og þjónustu á þingtímanum.

Þú stendur nú á mörkum þinghelginnar þar sem meginstörf hins forna Alþingis fóru fram. Hér sagði lögsögumaður upp lög þjóðveldisins á Lögbergi og goðar landsins sátu ásamt ráðgjöfum sínum í lögréttu. Innan þinghelginnar áttu allir menn að njóta friðar en grasivaxnar rústir búða sem tjaldað var yfir, vitna um þau híbýli sem þingheimur dvaldist í meðan þing stóð.
Fljótlega eftir landnám um 870 fóru landnámsmenn Íslands að velta fyrir sér möguleikum varðandi stjórnskipan og uppbyggingu samfélags á Íslandi. Eftir norrænni fyrirmynd voru héraðsþing stofnuð, það fyrsta í landnámi fyrsta landnámsmannsins, Ingólfs Arnarsonar á Kjalarnesi.

Þingvellir

Þingvellir – Lögberg til forna.

Í Íslendingabók er sagt að maður einn, Úlfljótur að nafni, hafi farið Noregs til að kynna sér lagasetningu og við hann voru kennd fyrstu lögin sem sögð voru upp á Alþingi, Úlfljótslög. Einnig er sagt í Íslendingabók að Grímur geitskör, hafi verið ábyrgur fyrir þeirri ákvörðun að hentugast væri að velja Þingvelli fyrir þing þar sem menn gætu komið saman af landinu öllu.
Heimildir um þinghald landsmanna á þjóðveldistímanum (930-1262/64) bera þjóðskipulagi og réttarvitund germanskra þjóða vitni. Alþingi er einstakt meðal forna germanska þinga sökum þess hve heimildarstaða um þinghaldið er ríkulegt. Þar munar mest um lagasafnið Grágás sem gefur einstaka sýn inn í réttarvitund miðaldamanna. Í grunninn var samfélagsskipanin þó byggð á trúnaðarsambandi milli höfðingja og á sambandi frjálsra bænda.

Hvers vegna Þingvellir?

Þingvellir

Þingvellir – Öxarárfoss.

Líklega voru ástæður þess að Þingvellir voru valdir sem þingstaður landsmanna nokkrar. Vellirnir lágu vel við öllum helstu leiðum sem þá voru notaðar til ferðalaga milli landshluta. Ferðalag til Alþingis gat þó tekið um og yfir tvær vikur fyrir þá sem lengst þurftu að ferðast. leiðin lá oft yfir þvert hálendi landsins þar sem veður gátu verið válynd. Einnig var hér nægur eldiviður, hagar fyrir búfénað og vatn til drykkjar. Í Sturlungu er að nefnt að fornmenn hafi breytt árfarvegi Öxarár þannig að hún félli á vellina til þess a tryggja þingheimi aðgang að rennandi vatni.

Þingvellir í Íslendingasögum
Þingvellir koma víða við sögu í íslenskum miðaldabókmenntum. Þekktustu kappar Íslandssagnanna, Gunnar Hámundarson á Hlíðaenda og Egill Skallagrímsson, eru dæmi um það.

Þingvellir

Horft til norðurs yfir þingstaðinn.

Í Njáls sögu er Gunnar sagður hafa hitt hina skörulegu Hallgerði hér á völlunum: “Það var einn dag er Gunnar gekk frá Lögbergi. Hann gekk fyrir neðan Mosfellingabúð. Þá sa hann konur ganga á móti sér og vour vel búnar. Sú var í fararbroddi konan er best var búin. En er þau fundust kvaddi hún þegar Gunnar. Hann tók vel kveðju hennar og spurði hvað kbenna hún væri. Hún nefndist Hallgerður og kvaðst vera dóttir Höskulds Dala-Kollssonar. Hún mælti til hans djarflega og bað hann segja sér frá ferðum sínum en hann kvaðst ekki varna mundu henni máls. Settust þau þá niður og töluðu. Hún var svo búin að hún var í rauðum kyrtli og var á búningur mikill. Hún hafði yfir sér skarlatsskykkju og var búin hlöðum í skaut niður. Hárið tók ofan á bringu henni og var bæði mikið og fagurt.

Þingvellir

Búð á Þingvöllum.

Gunnar var í tignarklæðum þeim er haraldur konungur Gormsson gaf honum. Hann hafði og hringinn á hendi Hákonarnaut. Þau töluðu lengi hátt. Þar kom er hann spurði hvort hún væri ógefin”.
Og Egils saga segir frá Agli Skallagrímssyni á gamals aldri þegar hann vill ríða til þings: “Ég skal segja þér.” kvað hann, “hvað eg hefi hugsað. Eg ætla að hafa til þings með mér kistur þær tvær, er Aðalsteinn konungur gaf mér, er hvortveggja er full af ensku silfri. Ætla eg að láta bera kisturnar til Lögbergs, þá er þar er fjölmennast, síðan ætla eg að sá silfrinu, og þykir mér undarlegt, ef allir skipta vel sín á milli; ætla eg, að þar myndi vera þá hrundingar, eða pústrar”.

Samkomustaður landsmanna

Þingvellir

Hestaat var stundað til forna.

Um tveggja vikna skeið í síðari hluta júnímánaðar ár hvert lifnuðu Þingvellir við þegar margmenni streymdi til Alþingis. Frásagnir eru til um fjölbreytta skemmtan og þjónustu við þingheim. Ýmis varningur var boðin til sölu og veislur voru haldnar. Kaupahéðnar, sverðskriðar og sútarar buðu vörur og þjónustu, trúðar léku listir og ölgerðarmenn sáu um að þingheimur gæti vætt kverkarnar.

Þingvellir

Tekist var á í leik og alvöru á Alþingi hinu forna.

Fréttir voru sagðar úr fjarlægum landshlutum og kappleikar háðir. Lausamenn leituðu sér atvinnu og ölmusufólk baðst beininga. Þingvellir voru samkomustaður allra landsmanna, þar var grundvöllur lagður að tungu og bókmenntum sem verið hafa snar þáttur í menningu Íslendinga allar götur síðan.

Þingvellir

Á tíundu öld háðu kappar þjóðveldistímans einvígi í Öxarárhólma, en hólmgöngur voru aflagðar eftir kristnitöku árið 1000.

Eitt er víst að Þingvellir voru með sönnu samkomustaður landsmanna um aldir, frá 930 til 1798, þó að á síðari öldum hafi umsvif þinghaldins dregist saman og störf þess einkum takmarkast við dómsstörf og refsingar. Á síðari hluta 19. aldar og á 20. öld tengdust Þingvellir sterkt sjálfstæðisbaráttu Íslendinga og öðluðust því sess sem sérstakur hátíðarsamkomustaður landsmanna.
Þrátt fyrir marga kosti þess að finna Alþingi stað á Þingvöllum hefur jarðfræði svæðisins haft erfiðleika í för með sér. Landsig Þingvallasigdældarinnar, sem ætla má að hafi verið um 4 metra frá því að Alþingi var stofnað um 930, hefur gert það að verkum að vatn hefyr gengið upp í þinghelgina. Talið er að kirkjan á Þingvöllum hafi verið færð vegna vatnságangs á 16. öld og Lögrétta var einnig færð vegna vatnsflaums árið 1594. Hún var þá við að eingangrast á hólma út í miðri Öxará. Mikið landsig olli frekari vandræðum í jarðskjálfahrinu árið 1789 þegar tún fóru undir vatn og gjár opnuðust. Þá seig land um 2 metra þar sem mest var.

Þingvallakirkja og bær

Þingvellir

Þingvallabærinn, kirkjan og þjóðargrafreiturinn.

Það var Ólafur helgi Noregskonungur sem fyrstur stóð fyrir því að kirkja væri reist á Þingvöllum. Hann sendi við í kirkju og kirkjuklukku til landsins nokkru eftir kristnitöku árið 1000. Núverandi kirkja á Þingvöllum var vígð 1859 en turn hennar var endurbyggður árið 1907. Bak við Þingvallakirkju er þjóðargrafreitur Íslendinga sem var hlaðinn árið 1939. Þar hvíla skáldin Jónas Hallgrímsson og Einar Benediktsson.
Þingvallabærinn var reistur fyrir 1000 ára afmæli Alþingis á Þingvöllum árið 1930, en nú er hann í notkun þjóðgarðsins og forsætisráðherra. Tveimur burstum var bætt við bæinn árið 1974 fyrir þjóðhátíð þar sem Íslendingar minntust ellefuhundruð ára afmælis byggðar á Íslandi.”

Þingvellir

Þingvellir – skiltið við Öxará.