Í Hveradölum undir Hellisheiði er göngubrú um hluta hverasvæðisins. Við brúna eru sex upplýsingaskilti. Á þeim má lesa eftirfarandi fróðleik:
Háhitasvæðið í Hveradölum
Hveradalir eru grasigrónar hvilftir í suðvestanverðu Stóra-Reykjafelli, í sunnanverðum Henglinum. Stóra-Reykjafell er forn gígur sem myndaðist í gufusprengigosi á íslöld og eru hliðar hans myndaðar úr móbergstúffi. Miðja þess forna sprengigígs nefnist Stóridalur. Hverasvæðið í Hveradölum tilheyrir hverasvæðinu á Hellisheiði, sem er eitt af fjölmörgum háhitasvæðum Hengilssvæðisins.
Eldstöðvakerfi Hengilsins liggur austast í röð fimm eldstöðvakerfa Reykjanesskagans. Gosbeltin raða sér á skýrt afmarkaðar sprungureinar sem liggja skástígar eftir skagagnum endilöngum. Gosbelti Reykjanesskagans er eitt af virkustu eldvirknisvæðum landsins. Eldstöðvakerfi Hengilsins er nokkuð frábrugðið hinum kerfunum þar sem það er eina megineldstöðin á skaganum, með tilheyrandi kvikuhólfi og súrri gosvirkni.
Hengillinn er virk megineldstöð og liggur sprungurein eldstöðvakerfisins frá Selvogi á Reykjanesi í suðvestri og um 50 til 60 km leið norðaustur fyrir Þingvallavatn. Eldstöðvarkerfið er um 5 til 10 km breitt. Breiðast er það um Þingvallavatn en mjókkar til suðvesturs.
Eldstöðvakerfið nær yfir um 100 km2 og er eitt af stærstu háhitasvæðum landsins að finna á svæðinu. Eldstöðvarkerfið samanstendur af þremur megineldstöðvum; Hveragerði – Grændalur sem er elsta kerfið (300.000-700.000 ára gamalt); Hrómundartindur (sem er yngri en 115.000 ára) og Hengillinn sem er enn virkur í dag.
Vitað er um þrjú eldgos á nútíma (síðastliðin 10.000 ár) sem tilheyra virkri eldstöð Hengilsins, en þar gaus síðast fyrir um 2000 árum.
Borholur
Árið 1986 var boruð 50 m djúp hola við hliðina á Skíðaskálanum í Hveradölum. Tilgangur borunarinnar var að kanna hvirt nýta mætti jarðhita á svæðinu til upphitunar. Önnur 100 m djúp hola var síðan boruð árið 1993 og er það sú hola sem hér má sjá sunnan megin við stíginn. Í dag er heita vatnið nýtt til upphitunar á Skíðaskálanum.
Lónið sem göngustígurinn liggur yfir er mangert en þar safnast saman heitt vatn sem er afrennsli frá hverasvæðinu. Útfellingarnar sem sjást í vatninu myndast þegar uppleyst steinefni, einkum kísill, falla út þegar hveravatnið kemur upp á yfirborð jarðar og kólnar.
Hvað er háhitasvæði
Um 20 háhitasvæði er að finna á Íslandi og eru þau öll staðsett á og við virk gos- og rekbelti landsins.
Háhitasvæði eru oft staðsett í miðju eldstöðvakerfa og eru skilgreind þar sem hiti jarðhitavökva er yfir 200°C á 1000 m dýpi. Til þess að jarðhitavökvinn nái þessu hitastigi þá þarf hitagjafa sem er annað hvort grunnstætt kvikuhólf eða kvikuinnskot þar sem hiti kvikunnar hetur verið allt að 1000-1200°C.
Við upphitun grunnvatnsins breytist eðlilþyngd þess. Gastegundir sem losna úr heitri kvikunni blandast við grunnvatnið og berast með því til yfirborðs sem eðlislétt súrt jarðhitavatn eða gufa. Dæmi um þessi gös eru brennisteinsvetni (H2S) sem veldur hverafýlu, brennisteinstvíoxið (SO2) og koltvísýringur (CO2),
Á leið sinni til yfirborðsins þá sýður þessi heiti og súri jarðhitavökvi jarðlögin sem hann fer í gegnum. Við það vera efnaskipti milli vatnsins og bergsins og steindir leysast upp. Í heitu jarðhitavatni er því mikið magn uppleystra efna, svo sem kísill, kalk, brennsiteinn og fleiri efni.
Á hverasvæðinu í Hveradölum koma bæði fryir gufuhverir og leirhverir. Um svæðið rennur lækur og er grunnvatnsborð háhitasvæðisins því nokkuð hátt, en þó breytilegt.
Hæð vatnsyfirborðs í lóninu sveiflast með grunnvatnsstöðu svæðisins. Stundum er hér lón og stundum er allt skrjáfaþurrt á öðrum dögum.
Grunnvatnsstaða jarðhitasvæðsins ræðst af úrkomu og leysingum en háhitavatnið sem kemur upp undir Hengli á uppruna sinn í Langjökli þaðan sem það rennur sem grunnvatn í Þingvallavatn og þaðan undir Hengilinn.
Garðyrkjubúið í Hveradölum
Undir fótum þínum stóð eitt sinn gróðurhús sem nýtti jarðvarma. Sú bygging var partur af garðyrkjubýli sem byrjað var að byggja hér í Hveradölum árið 1927 af hjónunum Anders C. Höyer frá Danmörku og Ericu Hartmann frá Lettlandi. Árinu eftir að Anders hjálpaði við byggingu fyrsta garðyrkjubýlisins á Íslandi þar sem treyst var á ylrækt, en það býli var Blómvangur í Mosfellsbæ.
Íslenskir bændur höfðu nýtt náttúrulega heitan jarðveg til að rækta kartöflur og annað grænmeti í langan tíma áður en garðyrkja í gróðurhúsum sem nýtti jarðvarma varð til á fyrri hluta 20. aldar, svo þetta var kærkomin nýjung sem auðveldaði ræktun til muna.
Anders sem var áhugasamur blaðamaður um garðyrkju var nýkominn til Íslands þegar hann fékk leyfi til að setjast að í Hveradölum ásamt konu sinni sem flutt hafði til íslands frá lettlandi um sumarið. Þau fluttu hingað upp á heiðina um haustið og bjuggu í tjaldi þar til þau höfðu byggt bæinn sinn sem upphitaður var með jarðvarma. Þau gifta sig svo á bænum í viðuvist sendiherra Dana, þann 27. október 1927. Lífið hefur ekki verið auðvelt, að minnsta ekki til að byrja með en hjonin eru fljót að koma sér upp húsaskjóli og geta í framhaldi af því þróað áfram uppbyggingu og tryggt þannig lífsviðurværi sitt.
Í gróðurhúsum ræktuðu þau fyrst um sinn begóníur en fara síðan að rækta rósir í blómapottum eftir að þau stækka gróðurhúsið árið 1929. Þau veiða líka rjúpur og brugga heimagert öl úr íslenskum jurtum sem þau selja vegfarendum ásamt því að bjóða upp á leirböð. Þau selja einnig vörur sínar á torgum í reykjavík.
Árið 1934 byggir Skíðafélag Reykjavíkur skála við hlið þeirra í Hveradölum og hefur þar greiðasölu. Nálægðin við skálann þrýstir á að þau flytja burt og koma sér upp heimili við Gunnuhver á Reykjanesi, þar sem þau reyna áfram að reka svipaða starfsemi og í Hveradölum, áður en þau flytja til Danmerkur 1937. Reynslan úr Hveradölum virðist hafa verið hjónum góð, því Erica á að hafa sagt þegar hún leit yfir líf sitt: „Bara að við hefðum aldrei farið úr Hveradölum“.
Húsin stóðu hér undir hlíðinni norðanmegin við stíginn þar sem enn sjást tóftir.
Tegundir hvera á háhitasvæðum
Helstu yfirborðeinkenni háhitasvæða eru margbreytilegir gufu- og leirhverir. Víða má sjá ummyndað berg á yfirborði þessara svæða og er liatdýrð oft mikil vegna hverasalta. Á einstaka háhitasvæðum þar sem grunnvatnsstaða er há, má sjá goshveri sem þeyta vatns- og gufustrókum upp úr jörðu með reglulegu millibili.
Stóri hverinn sem er hér norðan megin viðð göngustíginn er leirhver. leirhverir myndast þar sem bergið hefur brotnað niður vegna efnaveðrunar frá súrri jarðgufu. Til að slík fyrirbæri myndist þarf að vera hæfilega mikið yfirborðsvatn eða þéttivatn í gufunni. Leirinn samanstendur af vatni og soðnu umbreyttu bergi og ræðst þykkt hans af framboði yfirborðvatns.
Hér má sjá jarðhitagufu og
gös streyma upp til yfirborðsins. grunnvatnið hitnar og súr vökvinn leyrir upp bergið sem umbreytist í leir. leirinn sýður og vellur, þeytist upp á brúnir hversins og myndar gráleita kápu. Grár litur leirsins stafar yfirleitt af örsmáum kristöllum brennisteinskíss (FeS).
Á svæðinu má jafnframt finna gufuhveri en þeir myndast þar sem grunnvatn jarðhitakerfis er það fdjúpt að einungis gufa eða gas nær upp til yfirborðs. Hiti í slíkum gufuhverum getur farið yfir 100°C við yfirborð. Vatnsgufan sem kemur upp á háhitasvæðum inniheldur líka kolsýru, vetni og brennisteinsvetni.
Vatnshverir og laugar eru algengari á háhitasvæðum, en það má finna þá hér þar sem gufan hefur blandast yfirborðsvatni.
Fyrsta hveragufubaðið
Vísir þann 27. október 1938:
„Lækningakraftur hveragufunnar og hveraleirsins. Býr ísland yfir ónotuðum heilsubrunnum? – Gufuböðin við skíðaskálann í Hveradölum og dvöl manna í Hveragerði…“
„Þeir, sem hafa átt leið austur yfir Hellisheiði hafa efalaust veitt því eftirtekt, að rétt oafn við rústirnar af húsi Höyers í Hveradölum hefir risið upp lítill og snotur kofi. Yfir hann og alt um kring leggur eiminn frá brennisteinshvernum, en rör liggja úr hvernum sjálfum og inn í húsið og út um það að nýju, en þetta mun vera fyrsta baðhús á íslandi, þar sem eingöngu er notast við hveragufu til að orna mönnum og baða þá. Þetta er nýjung, sem verðskuldar full athygli, ekki síst fyrir Reykvíkinga, sem búa í nágrenninu og geta auðveldlega orðið baðanna aðnjótandi, og þá einkum skíðagarpar vorir, sem þarna iðka íþróttina mikinn hluta vetrar.“ (…)
„Þegar inn í húsið kemur verður fyrst fyrir búningsherbergi, og er þar bekkjum fyrir komið, þannig að menn geta legið þar og fengið nudd sér til heilsubótar og hressingar, hvort sem um íþróttamenn eða sjúklinga er að ræða,…“ (…)
„Innar af baðherberginu er gangur, sem liggur inn í baðklefann og er þar komið fyrir köldu steypibaði, en það er annar þáttur gufubaðsins og engu ónauðsynlegri til þess að baðsins verði notið til fulls, Innst í húsinu er svo baðklefinn sjálfur. Hann er ekki stór, en nógu til þess að nokkrir menn geta tekið bað í einu.
Liggja rörin frá hvernum í gegnum hann og á þeim er handfang, þannig að hægt er með einu handtaki að hleypa frá gufunni eða loka fyrir hana að fullu eða tempra hana eftir vild. Sveinn Steindórsson frá Ásum í Hveragerði hefir reist baðskála þennan og gengið haganlega frá öllum útbúnaði hans eins og að framan greinir.“ (…)
„Ef það sýnir sig að dvöl við jarðhitasvæðin er jafn heilnæm, og talið er af ýmsum, fást með reynslunni öll önnur skilyrði til frekari athafna, og mætti þá vel svo fara að Ísland yrði hressingarstaður erlendra manna, sem færði þeim flesta meina bót, og væri þá auðveldara um öll vik eftir en áður.“
Uppleyst efni í jarðhitavökva
Við hringrás vatns í jarðhitakerfum vera efnaskipti milli bergs og vatns þegar heitur jarðhitavökvinn leikur um bergið. Þetta ferli leiðir til þess að mikið magn uppleystra efna berst til yfirborðs með heitum vökvanum. Þegar vatnið kemur upp til yfirborðs þá kólnar það og þrýstingur lækkar. Við það mettast vatnið af efnum sem þá falla út úr vatninu.
Við uppstreymi jarðhitavökvans og gufunnar verður ummyndun á yfirborði, fyrst og fremst við suðu bergsins í brennisteinssúru umhverfi. Við þessa ummyndun leysast sumar frumeindir og gler úr berginu upp.
Aðrar steintegundir endurkristallast og mynda svokallaðar ummyndunarsteindir, sem eru í jafnvægi við þær aðstæður sem ríkja við yfirborð. þannig myndast nýjar steindir við yfirborð háhitasvæða, aðallega leirsteindir, sem birtast sem hvítur, grár, gulur eða rauður leir.
Litadýrð háhitasvæða
Leir á háhitasvæðum getur birst í ýmsum litaafbrigðum. Áberandi og einjennandi er gulur litur brennisteins (S), rauður litur steindarinnar hematíts (ferríoxiðs, Fe2O3) og dökkgrár litur leirs, sem virðist yfirleitt stafa af örsmáum kristöllum brennisteinskíss (FeS). Gifs (kalsíumsúlfat, CaSo4) er auðgreinanlegur og myndar hvítmatta kristalla. Gifs getur haft önnur litbrigði svo sem rauðlitað sökum járns eða jafnvel grænleitt vegna kopars, en það er sjaldgæft.
Lífríki háhitasvæða
Á háhitasvæðum má finna blómlegt líf þrátt fyrir að aðstæður kunni að virðast fjandsamlegar. Í hverum lifa örverur sem hafa aðlagast háum hita. Stundum má jafnvel sjá þær með berum augum, til dæmis sem hvíta þræði eða þykkar og litríkar þekjur. Örveruþekjur myndast gjarnan í affalli frá hverum og við jaðra þeirra. Þær eru oft grænar eða appelsínugular vegna þörunga, blágrænna baktería og annarra örvera sem búa yfir leitarefnum er binda sólarljós.
Í súrum og bullandi leirhverum finnast fábreytt samfélög og mjög hitakærra baktería og arkea. Þær nýta gjarnan jarðhitagasið og geta til dæmis fengið orku úr vetni eða brennisteinssamböndum og bundið koltvísýring í lífræn efni.