Færslur

Hrauntún

Sigurveig Guðmundsdóttir skrifaði um Hrauntún á Þingvöllum í Lesbók Morgunblaðsins árið 1984. Þar lýsir hún m.a. Hrauntúnsbænum.
Hrauntun-baerinn“Það var orðið kvöldsett, bjart yfir fjöllum og bláleit sumarmóða brá undursamlegri mýkt yfir umhverfið. Túnið fyrir innan garðinn var allt í mjúkum öldum þar sem hraunhólarnir lágu undir grassverðinum.

Mitt í þessu fagra ilmandi grængresi reis bærinn Hrauntún, hlýr og vinalegur eins og torfbæir einir gátu orðið. Tvær burstir sneru til suðurs fram á hlaðið og bæjargöngin á milli. Baðstofan var með einum sexrúðu glugga á stafni og tveggjarúðu glugga til vesturs. Stofan var meðþrísettum glugga og klædd bárujárni.
Baðstofan með eldhúsið og fjósið afturaf var allt klætt torfi. Vandlega hlaðin stétt úr hraunhellum var fyrir framan bæinn. Hlaða, fjárhús og skemma með þvottahjalli lágu við heimtraðirnar sem lágu í norður í átt að Ármannsfelli. Þrennir fjárhúskofar voru dreifðir um túnið. Austur af túninu var afgirt gerði sem notast var við sem kúahaga. Brunnhola var vestan undir baðstofuveggnum. Var þar sæmilegt drykkjarvatn þó að vatnsmagnið væri lítið. Þegar þvottar voru þvegnir í Hrauntúni varð að fara niður á Leirur og þvo við lækinn sem þar rennur enn. Þar voru hlóðir og þar við soðinn þvotturinn.

hrauntun-gardur

Framan við bæinn var kálgarður með grónum vallargarði í kring. Allt var þarna með hinum mesta snyrtibrag, hver hlutur á sínum rétta stað. Upp við bæjarvegginn reis sleggja gerð úr blágrýtishnullungi með gati sem stungið var í vænum birkilurk. Þetta var fisksleggja. Mamma barði að dyrum og út kom dökkhærður maður lágvaxinn með yfirskegg, léttur í hreyfingum og alúðlegur. Þetta var Halldór sonur Jónasar bónda sem bjó hjá föður sínum. Þeir voru menn ekki líkir.
Halldór fylgdi okkur inn göngin. Hurð lá inn í stofuna til hægri og önnur hurð inn í geymslukompu þar innar af. Gengið var upp tvö þrep inn í baðstofu til vinstri en í eldhús og fjós fyrir enda ganganna. Í baðstofu voru fjögur rúm. Jónas bóndi svaf næst glugga og var borð undir glugganum. Lítil bókahilla, full af rímnakverum og riddarasögum, var yfir fótagafli á þili.
Okkur mæðgum var vísað á rúmið gegnt rúmi bónda. Aftur af okkar rúmi svaf Bjarni Gíslason vinnumaður og Halldór gegnt honum. Ofurlítil kabyssa og tvær hillur fyrir bollapör og diska voru í hinum enda baðstofu.”

Heimild:
-Lesbók Morgunblaðsins 22. desember 1984, bls. 40 – Sigurveig Guðmundsdóttir.

Hrauntún

Hrauntún – loftmynd.

Þingvellir

Fjölmargar fornar leiðir liggja um Þingvöllu – allt frá fyrstu tíð til þessa dags. Í Árbók Hins íslenska fornleifafélags 1880-1881 er m.a. fjallað um hinar fornu götur að og frá Þingvöllum fyrir þá tíð:

thingvellir-oxararfoss

“Eitt af því, sem þarf að gjöra grein fyrir, svo vel sem unnt er, er það, hverja vegi fornmenn hafi riðið á þing og af þingi, bæði þeir, er kómu norðan og vestan, austan og sunnan. Eg hefi talað hér að framan um veg þann, er norðan og vestanmenn munu hafa riðið; enn sunnanmenn eða þeir, sem kómu úr Kjalarnesþingi, hafa varla getað farið niðr Kárastaðastíg, sem nú er aðalvegrinn; sá vegr var ekki gjörðr vel fær fyrr enn hér um bil 1831; þá var sprengt úr klettunum og vegrinn lagðr, svo að nú má fara með klyfjahross, sem kunnugt er; áðr varð þar að eins farið með lausa hesta. Ef söðull var t. d. á hestinum, varð að halda sveifinni, að hún eigi rækist í klett, er stóð fram úr berginu, enn sá klettr var sprengdr í burtu, og svo var víðar. Sama er að segja um Langastíg, sem liggr norðr og upp af Völlunum efri upp úr Almannagjá; hann var gjörðr ári síðar.
Enn í fyrri daga var annar vegr á Þingvöll fyrir Sunnanmenn; lá hann frá Skálabrekku og austr yfir hraunið að Almannagjá niðr við vatnið; mótar þar víða fyrir fornum götum eða troðningum; er þá farið yfir Öxarárfarveginn gamla. Niðr við vatnið er Almannagjá orðin lítil, eða klofnar þar í smágjár og sprungur; þar hefir legið vegr yfir, og heitir Ferðamannaklif enn í dag. Þar virðist víða vera eins og mannaverk úr grjóti yfir gjárnar. Síðan lá vegrinn upp með berghallanum upp með vatninu og upp í þingið, sem nú er kallað, fyrir vestan ána, þar sem búðatóttirnar eru mestar. Þessi vegr var kallaðr Hallvegr; þá var vað á Öxará leirunum eða söndunum við vatnið fyrir framan túnið á Þingvelli, og svo lá vegrinn austr eftir nálægt Vatnskotsveginum, sem nú er kallaðr, og svo til Vellankötlu, og síðan austr til Gjábakka. Það er að segja: þá lá vegrinn ekki yfir Gjábakkastíg sem nú, því að hann var fyrst gjörðr 1832 eða 1833, heldr sunnar fyrir utan, þar sem Hrafnagjá endar eða er orðin nær að engu; síðan lá vegurinn austr á Hrafnabjargaháls. Þessi Hallvegr lagðist af í jarðskjálftanum 1789 eða einkannlega vaðið á Öxará fram við vatnið; þar sprakk í sundr og kómu álar, sem eigi var fært yfir, enda fóru þá af að mestu hólmarnir fram undan Þingvallartúni, sem hafði áðr verið engi töluvert. Þegar vaðið lagðist af á ánni, vóru gjörðar traðirnar gegnum Þingvallartún og austr úr, því að annars staðar varð þá eigi vel farið. Þetta sögðu mér gamlir menn í Þingvallarsveit eftir sínu foreldri, sem lifði í jarðskjálftanum.
Eprestastigur-221nn þá einn vegr liggr frá Armannsfelli eða af Hofmannafleti austr yfir hraunið undir Hrafnabjörg og hjá Raftahlíð, sem kölluð er, og þaðan austr á Hrafnabjargaháls. Þessi vegr var kallaðr Prestavegr eða Byskupavegr, það er auðsjáanlega þessi vegr, sem talað er um við þingreið Þorgils Oddasonar: „Ok hugsa nökkut fyrir sér ráðit ok þykkir eigi ólíklegt at þeir Hafliði myndi þar fyrir sitja ok gæta svo hvárrar tveggju leiðarinnar, er önnur liggr fram undir Ármannsfell ok hjá Sleðaási: en önnur liggr. leiðin austr yfir hraun undir Hrafnabjörg, ok undir Reyðarmúla til Gjábakka, ok svo austan um hraunit til búða”. Eigi mun þetta eiga að skiljast þannig, að Presta- eða Byskupavegrinn hafi verið hin vanalega leið, er Norðlendingar fóru á þing, því að hún var miklu lengri, enn hana mátti þó koma á þing, ef hin var varin.
Nafnið Bláskógaheiði er nú týnt þannig, að það er eigi viðhaft í daglegu máli, enn það er víst, að Bláskógaheiði hét yfír höfuð í fornöld allar heiðar og aðalvegir, er liggja fyrir norðan og vestan Bláskóga (Þingvallarsveit); er það og eðlilegt, að fjallvegrinn í heild sinni hafi dregið nafn af Bláskógum.
Einn er aðalvegrinn, þegar farið er norðr eða vestr af Þingvelli; liggr hann upp hjá Ármannsfelli, sem kunnugt er, og upp Klyftir og hjá Sandvatni og yfir Tröllaháls. Norðrvegrinn liggr upp á Kaldadal. Fyrir ofan Brunna, sem eru efstu grös á þeim vegi, eða þar sem menn á, er af Kaldadal er komið, þar skiftist vegrinn, og er það kallað að fara fyrir Ok, er þá komið ofan í Reykholtsdal (Reykjadal nyrðra) eða Hálsasveit.”
Síðan framangreint var skrifað af kostgæfni í Árbókina á fyrrgreindum tíma, þótt ekki sé langur tími um liðinn, hefur mikið vatn áa runnið til sjávar. Um framhaldið má lesa á næstunni í “Reykjavíkurleiðir”. Ritið mun birtast á vefsíðu Vegagerðarinnar, líkt og “Grindavíkurleiðir“. 

Heimild:
-Árbók Hins íslenska fornleifafélags, 1. árg. 1880-1881, bls. 32-42.

Þingvellir

Þingvellir – Langistígur.

Þingvellir

Almannagjá er líklega upprunalegt nafn. Framhald hennar er gjárnar Stekkjargjá, Snókagjá og Hvannagjá, sem teygir sig inn að Ármannsfelli. Samtals eru þessar gjár um 8 km langar. Suður undir Hakinu eru Hestagjá, Lambagjá og Hrútagjá, sem bera allar samnefnið Almannagjá. Enn austar er Háagjá og Flosagjá.

Thingvellir-gjar

Við austurjaðar sigdældarinnar eru Hrafnagjá, Guldruholtsgjá og Heiðargjá, Brennugjá er austan valla meðfram veginum og opnast að Öxará, þar sem vegurinn stendur á uppfyllingu í henni. Sagt er að níu menn hafi verið brenndir í gjármynninu á 17. öld. Flosagjá (Nikulásargjá, Peningagjá) er sunnan Spangarinnar. Kattargjá klofnar út úr Skötutjörn, sem er framhald Flosagjár. Kolsgjá er norðaustan Flosagjár.
Leiragjá er framhald Háugjár, austan Tæpastígs og Leirna. Sleðaásgjá er framhald Leirugjár inni undir Bolaklifi sunnan Sleðaáss. Vallargjá er framhald Flosagjár frá Spangarsporði norður vellina.
Framhald Nikulásargjár (Flosagjár) til vesturs um tún Þingvallabæjarins eru Seigla, Túngjá og Fjósagjá. Silfra, sem er aðeins austar, er horfið undir vatn. Þaðan kemur oftast meira vatn úr uppsprettunum en frá Öxará. Skötugjá er framhald Flosagjár í Þingvallatúni.

Þingvellir

Þingvellir – Almannagjá.

Þingvellir

Eftirfarandi fróðleikur um Öxará er finna má bæði í Sturlubók og Landnámu birtist í Tímariti Hins íslenska bókmenntafélags árið 1889:
oxararfoss 1935“Á eftir fer orðrjettur útdráttur úr Íslendingabók hinni yngri um þá feðga Ísleif og Gizur og Teit Ísleifsson. Alveg tilsvarandi kafli er í Landnámu vorri, og það vill líka svo vel til, að ættartala Ketilbjarnar, sem stóð í „ættartölu” hinnar eldri Íslendingabókar, hefur geymst aftan við Íslendingabók hina yngri, og hef jeg áður tilfært hana orðrjett ásamt tilsvarandi kafla úr hinni yngri Íslendingabók. Í Sturlungu og Landnámu er grein sú, sem hjer ræðir um, svo látandi (Sturl. Oxf. 1878,1,203.bls. (Khöfn 1817,1, 202. bls.)): Ketilbjörn Ketilsson, maðr norænn ok frægr, fór til Íslands, þá er landit var víða bygt með sjó. Móðir hans hét Æsa Grjótgarðsdóttir, systir Hákonar Hlaðajarls. Hann átti Helgu, dóttur Þórðar Skeggja , Hrapps sonar, ok var með honum inn fyrsta vetr á Íslandi fyrir neðan Bláskógaheiði ok fór upp í landaleitan um várit eftir. Svá segir Teitr. En þeir görðu sér skála, þar er þeir höfðu náttból, ok kölluðu þat af því Skálabrekku. En er þeir vóru þaðan skamt farnir, þá komu þeir á árís, ok hjoggu þar á vök, ok felldu í öxi sína, ok kölluðu hana af því Öxará. Sú á var síðan veitt í Almannagjá, ok fellr nú eftir Þingvelli. Þá fóru þeir þar til, er nú er kallaðr Reyðarmúli. Þar urðu þeim eftir reyðar þær, er þeir fóru með, ok kölluðu þar af því Reyðarmúla.
Ketibjörn görði bú undir Mosfelli ok nam þar land umhverfis svá vítt sem hann vildi átt hafa. Frá þeim Ketilbirni ok Helgu eru Mosfellingar komnir.”
Áin kemur upp í Myrkavatni og fellur milli Búrfells og Leggjabrjóts og um Biskupsbrekkuhraun innan við Brúsastaði. Hún mun áður hafa runnið suður um Kárastaðahraun og í vatnið rétt hjá Skálabrekku en í Sturlungu segir að henni hafi verið veitt í Almannagjá til að þingmenn þyrftu styttra að fara til að sækja sér neysluvatn. Eftir það fellur hún ofan í gjána í fossi, Öxarárfossi.

Heimild:
-Tímarit Hins íslenska bókmenntafélags, 10. árg. 1889, bls. 229-230.

Öxará

Öxará – virkjun.

Þingvellir

Eftirfarandi saga um Skötutjörn á Þingvöllum birtist í Unga Ísland árið 1938:
“Við hittum umsjónarmanninn í Þingvallabænum — bærinn var byggður fyrir Alþingishátíðina 1930 — og fáum hjá honum leyfi til að tjalda. Líklega vísar hann okkur á tjaldstað austur í hrauninu. Við ætlum nefnilega að búa í tjaldi og vera sjálfum okkur nógir. Það er frjálsara, skotutjorn-991skemmtilegra og ódýrara.
Á leiðinni austur túnið göngum við fram hjá dálítilli tjörn. Hún er nærri kringlótt, bratt niður að henni og vatnið hyldjúpt, blágrænt og tært eins og í öllum gjám hérna. Þetta er Skötutjörn. Um nafnið er þessi þjóðsaga: Einu sinni fyrir löngu var gjá, er lá undir búrgólfið á prestssetrinu. Ef rennt var færi í gjána veiddist silungur, en álög voru það, að ekki mátti veiða meira í senn en sem svaraði nógu í eina máltíð handa öllu heimilisfólkinu. Var þess og vandlega gætt. Nú kom þar að, að prestaskipti urðu og var nýi presturinn ákaflega ágjarn. Dregur hann nú upp silung úr gjánni í búrgólfinu og er hann hefir veitt nóg í máltíð, rennir hann enn. Kemur þá á öngulinn skata – og var hún með níu hölum. Verður klerki allfelmt við; þrífur skötuna, hleypur sem fætur toga austur túnið og kastar henni í tjörnina.

Seinna átti skatan að hafa veiðst suður á Reykjanesi. En eftir þetta tók fyrir alla veiði í búrgjánni og hefndist presti þannig fyrir ágirnd sína.”
thingvellir - skotutjorn-995Þjóðsagan útskýrir nafnið svona: “Einu sinni náði Skötugjá alveg undir eldhúsið á Þingvallabæ. Hlemmur var á eldhúsgólfinu yfir gjánni. Hægt var að opna hlemminn og veiða silung upp úr gjánni. Veiðin var óþrjótandi, alltaf veiddist silungur þegar færi var dýft í gjána úr eldhúsinu. Hins vegar var sú kvöð á að aldrei mátti veiða meira en það sem þurfti í næstu máltíð. Svo kom nýr ábúandi að Þingvöllum. Sagt var að hann væri bæði illur og ágjarn. Hann vildi græða á veiðinni í gjánni. Hann opnaði því hlemminn í eldhúsgólfinu og settist við að veiða. Hann veiddi og veiddi, dag og nótt. Margir reyndu að vara hann við og segja honum að þetta mætti hann ekki en hann lét sig það engu skipta og veiddi hvern silunginn á fætur öðrum. Svo gerðist það loks að bitið var óvenju fast í færið. Maðurinn togaði af miklum krafti og dró loks upp úr gjánni stóra og ljóta skötu með sjö eða jafnvel níu hala. Búandinn varð dauðhræddur og þess fullviss að þarna væri kölski sjálfur kominn í skötulíki. Hann kastaði því færinu með öllu saman í tjörnina sem síðan er kölluð Skötutjörn. Eftir þetta hefur engin veiði verið í Skötutjörn eða -gjá.”

Heimild:
-Unga Ísland, 33. árg. 1938, 8. tbl., bls. 109-110.

Þingvellir

Þingvellir – Skötutjörn.

Þingvellir

Eftirfarandi áætlanir um friðun Þingvalla og undirbúning Alþingshátíðarinnar árið 1930 birtist bæði í Ísafold og Lögbergi árið 1925:
thingvelli-1771-2“Friðun og verndun Þingvalla – Nauðsynleg mannvirki sem gera þarf. Friðun skógarins. Eftir viðtali við Matthías Þórðarson þjóðminjavörð.
Er Matthías Þórðarson kom frá Þingvöllum í vikunni sem leið, hittum vjer hann að máli og spurðum hann um hitt og annað viðvíkjandi starfi Þingvallanefndarinnar, er skipuð var í vetur sem leið.
Tilgangurinn með skipun nefndarinnar er sá, að nefndin komi fram með tillögur um hvað gera skuli, til að friða staðinn, skóginn og annan gróður á Þingvöllum og í næsta umhverfi þeirra, svo og að athuga einhverjar, einkum verklegar framkvæmdir, sje nauðsynlegt að gera þar til undirbúnings hátíðahöldum árið 1930.
thingvellir 1789-2Nefndin tekur einnig til athugunar, hverjar ráðstafanir eru nauðsynlegar vegna hins mikla gestagangs á Þingvöllum. Eins og kunnugt er, hefir Matthías Þórðarson látið gera nokkrar verklegar umbætur á Þingvöllum undanfarin sumur. Unnið hefir verið þar að útgræðslu á völlunum, vegurinn hefur verið fluttur o.fl. Enn er þó talsvert eftir af framkvæmdum þeim, sem hann hefir ætlast til, að gerðar yrðu þarna. Það, sem á vantar, er m.a. að hækka eyrina vestanvið Öxará og dýpka árfarveginn. Setja gangbrú þar yfir ána og gangstíg meðfram ánni um túnið, ennfremur akveg alveg heim að prestssetrinu. Nöfn vill Matthías setja á margar búðartóptirnar og aðra fornminjastaði. Sjeu nöfnin höggin á steina.
En auk þessara aðgerða, sem nauðsynlegar eru á völlunum, verður eigi hjá því komist að reisa þar bæði kirkju og bæjarhús af flýju, og gera gistihús í námunda við sjálfan þingstaðinn, sem sje fullkomnara en Valhöll er nú. Allar þessar framkvæmdir eru nauðsynlegar, þó ekkert tillit sje tekið til alþingishátíðarinnar. En vegna hennar þarf að gera ýmsar fleiri byggingar og skýli, sem nefndin mun síðar gera tillögur um. Í vegalögunum frá 1924, er ákveðið að leggja nýja Þingvallabraut frá Mosfellssveitar-veginum skamt sunnan við Köldukvísl um Mosfellsdalinn eins og leið liggur lægst austur í Þingvallasveit.
Til þess þarf auk annara verulegra umbóta að gera thingvellir 1930-3nýjan akveg úr Mosfellssveitinni 15 — 16 km. á lengd, áður en komið verður á hinn núverandi Þingvallaveg. Með því móti yrði vegurinn akfær mikið lengri tíma á árinu en nú er.

Frumvarp til laga um friðun Þingvallaskógar var samþykt í Efri deild fyrir skömmu. En málið dagaði uppi í Neðri deild.
Eftir frumvarpi þessu átti að gerfriða alt landið, milli Almannagjár og Hrafnagjár, og svo langt uppeftir, að ábúð varð að leggjast niður á Þingvöllum, svo og í Vatnskoti, Skógarkoti og Hrauntúni. Þingvallanefndin lítur svo á, að alger friðun skógarins þurfi ekki að vera eins víðtæk og til var ætlast í frumvarpi þessu, og hefir það mál nú til frekari athugunar.
Nefndin telur einnig nauðsynlegt, að spilda úr Þingvalla- og Brúsastaðalandi verði numin undan ábúðarnotkun, það er Almannagjá öll og spilda fram með henni að austan. Í spildu þeirri er þingstaðurinn sjálfur og nánasta umhverfi hans. Hið núverandi tún prestsins ætti þó að fylgja ábúð jarðarinnar framvegis. Slík ráðabreytni er vitanlega ekki framkvæmanleg, nema samið verði við núverandi ábúendur jarðanna.

thingvellir 1930-2

Setja yrði sjerstakan skógarvörð til að gæta alls skógarins, grisja hann og vinna úr honum. Yrði skógarvörðurinn að hafa fastan bústað þar eystra. Annar vörður með lögregluvaldi er nauðsynlegur á þingstaðnum og í grend við hann um sumartímann, meðan gestagangurinn er mestur.
Hjer er þá tekið fram hið helsta, sem Matthías Þórðarson hafði um þetta mál að segja að svo komnu. Nánari grein mun nefndin gera fyrir áliti sínu. áður en þing kemur saman í vetur. Almenningur mun fylgja því öllu með hinni mestu athygli, sem gert verður til umbóta á Þingvöllum og þar í nágrenninu.
Senn er undirbúningurinn ekki orðinn langur undir hátíðahöldin 1930, og tími er til þess kominn að menn geri sjer grein fyrir því í aðalatriðum, hvernig þeim skuli haga.
Ef halda á þúsund ára hátíð Alþingis með þeim ummerkjum og þeirri viðhöfn, sem vera ber, þarf margskonar undirbúning, sem eigi verður gerður í fumi og flaustri á 1—2 árum.”

Heimildir:
-Ísafold 25. ágúst 1925, bls. 3.
-Lögberg 29. október 1925, bls. 8.

Þingvellir

Þingvellir – búðartóft.

Þingvellir

Þingvellir eru flatir, grasi grónir vellir norðan við Þingvallavatn á bökkum Öxarár, sem rennur eftir völlunum út í Þingvallavatn, sem er stærsta stöðuvatn á Íslandi. Þjóðgarður var stofnaður árið 1928 og nær hann yfir Þingvelli og nánasta umhverfi þeirra. Í Öxará er Öxarárfoss, þar sem áin steypist ofan í Almannagjá. Rennur áin síðan eftir gjánni og svo út úr henni og niður á vellina. Almannagjá er sprunga við vestanverða sigdældina á milli úthafsflekanna tveggja sem Ísland liggur á.
thingvellir-992Þingvellir eru einn af mikilvægustu stöðunum í íslenskri sögu. Alþingi var stofnað á Þingvöllum árið 930 og kom þar saman árlega allt fram til ársins 1798. Það var árið 999 eða 1000 sem lögsögumaðurinn Þorgeir Ljósvetningagoði lagðist undir feld og lýsti Íslendinga í kjölfarið kristna.
Þingvellir urðu að þýðingarmiklu sameiningartákni í sjálfstæðisbaráttu Íslendinga á 19. og 20. öld. Sumarið 1798 var síðasta þingið haldið á Þingvöllum. Eftir að þingið var lagt af voru Þingvellir hljóður staður, utan alfaraleiðar um nokkurn tíma. Þegar svo straumar sjálfstæðisvakningar í Evrópu náðu til Íslendinga í upphafi 19. aldar voru saga og náttúra Þingvalla vakin til lífsins. Þingvellir fengu lifandi hlutverk í þjóðlífinu sem tákn um sjálfstæði.
Hið forna þing var ofarlega í hugum fólks og fornhetjunar voru vaktar til lífsins í kvæðum og ljóðum. Þjóðernisvakningin varð til þess að umræða um staðsetningu Alþingis var mikil. Skiptar skoðanir voru um hvar það skyldi staðsett en strax komu upp raddir um að Alþingi skyldi vera á Þingvöllum.
Árið 1843 gaf Kristján konungur VIII út konungsúrskurð um stofnun þings á Íslandi sem nefnast skyldi Alþingi og kom það fyrst saman 1. júlí 1845 í Latínuskólanum í Reykjavík.  Alþingi var einungis ráðgjafarþing en hafði ekki löggjafarvald. Árið 1848 var fyrsti Þingvallafundurinn haldinn og sóttu hann 19 fulltrúar sem settu saman bænaskrá til konungs þar sem þeir beiddust þess að konungur veitti Íslendingum þjóðþing með sömu réttindi danskir þegnar nutu.

thingvellir-992

Þingvallafundir voru haldnir óreglulega allt til ársins 1907. Á þeim var stjórnmálabaráttan í landinu skipulögð og málin búin í hendur þeim sem báru þau fram á Alþingi og fyrir stjórnvöld.
Vegna Þingvallafundana og sjálfstæðisbaráttunnar festust Þingvellir í sessi á ný sem helsti samkomustaður þjóðarinnar – þar koma Íslendingar saman til að fagna stærstu og mikilvægustu atburðum í sögu þjóðarinnar.
Árið 1907 ritaði Matthías Þórðarson grein í Skírni undir yfirskriftinni Verndun fagurra staða og merkra náttúrumenja. Í henni fjallaði hann um nauðsyn þess að hlúa að stöðum sem væru merkilegir og sérstakir sökum fegurðar jafn vel og verndun fornminja og gamlir kirkjumunir voru varðveittir. Hann nefndi ýmsa staði en tiltók Almanngjá og svæðið umhverfis Þingvelli við Öxará sem dæmi um stað sem mætti  sinna betur. Raunar tók hann fram að það væri búið að skemma Almannagjá með þeim vegi sem þá var búið að leggja. Hann rak dæmi um friðunaráform erlendis og nefndi meðal annars Yellowstone Park í Bandaríkjunum sem dæmi um stað sem friðaður væri með allsherjarlögum.

thingvellir-993

Umhverfisvernd var ein af þessum hugmyndum sem komu hingað til lands um aldamótin 1900 og fengu sinn hljómgrunn.
Árið 1913 ritaði Guðmundur Davíðsson þá grein sem átti eftir að ýta umræðunni um stofnun þjóðgarðsins á Þingvöllum úr vör. Greinin nefndist Þingvellir við Öxará og birtist í tímaritinu Eimreiðinni sem ritstýrt var af Valtý Guðmundssyni háskólakennara. Greinin var mjög beinskeytt og Guðmundur dró ekkert undan í lýsingum sínum af illri umgengni og skeytingarleysi landans á þessum sögufrægasta stað landsins, Þingvöllum. Hann ritaði í upphafi greinarinnar:
“Fáir Íslendingar munu koma svo í fyrsta sinn á Þingvelli við Öxará, að eigi dáist þeir að náttúrufegurðinni og í hug þeirra vakni, endurminningar um helstu viðburði sem tengdir eru við sögu þessa merkisstaðar. Þetta tvennt, söguviðburðirnir og náttúrufegurðin hlýtur að snerta tilfinningar allra sem staddir eru á þessum fornhelga stað. Þar má segja að saman sé komið flest það sem einkennilegast og fegurst er í íslenskri náttúru og þar hafa einnig gerst margir merkustu viðburðirnir í sögu Íslendinga”
hrauntun-998Í greininni rakti Guðmundur dæmi um þjóðgarða í Bandaríkjunum og í framhaldi af því nauðsyn þess að vernda bæri Þingvelli sem þá voru orðnir að vinsælum helgaráningarstað ferðamanna. Ekki var það þó fyrr en á árinu 1930 að brotið var blað í sögu náttúruverndar á Íslandi en þá var fyrsti þjóðgarðurinn á Íslandi stofnaður – Þjóðgarðurinn á Þingvöllum.
Guðmundur Davíðsson barnakennari varð fyrsti umsjónarmaður hins friðlýsta lands á Þingvöllum sem var stofnað til árið 1930, með lagasetningu frá 1928. Árið 1930 var hann ráðinn fyrsti þjóðgarðsvörðurinn á Þingvöllum og bjó hann þar þangað til 1940 er hann lét af störfum vegna heilsubrests. Hann fluttist þá til Reykjavíkur og gerðist starfsmaður Alþingis til ársins 1948.
Þingvallanefnd fer í dag skv. lögum með forræði þjóðgarðsins. Gerðir hafa verið göngustígar um garðinn, en hinum fornu leiðum, sem víða er þar að finna hefur lítill sómi verið sýndur sem og öðrum sögulegum minjum á svæðinu.

Heimild m.a.:
-http://skemman.is/stream/get/1946/2218/6752/1/Aðdragandi_að_friðun_fixed.pdf

Þingvellir

Þingvellir – Þingvallakirkja.

Hrauntún

Á Árbók Hins íslenska fornleifafélags árið 1938 er m.a. fjallað um “Örnefni í Þingvallahrauni”.
Þar er getið um hrauntun-heimtrodsvonefnda Selhóla austan Hrauntúns: “Austan-frá Sláttubrekkum, norður-af Hellishæð, er Flekkuhóll; er hann stór um sig, með smá-hólum og lautum, allt skógi og grasi vaxið. Norður af honum og Sláttubrekkum er Bruni; var þar eyða mikil í skóginn, sem stafaði af því, að kviknað hafði í reiðingin á hesti og eldurinn komizt í skóginn. Það mun hafa skeð um 1859 (eða ’60). Var sá blettur þraut-beittur á vetrum; voru þar oft hagar, þótt litlir væru annars staðar, og færð betri, því að þar reif snjó meira, vegna skógleysis. Þrátt fyrir beitina óx þar aftur skógur smátt og smátt; um aldamót voru komnir runnar um allan blettinn, en sást þó mjög greinilega fyrir honum. Um 1930 sást hann tæplega eða alls ekki.
Norðaustur af Bruna eru Selhólar tveir, annar með vörðubroti. Þeir eru rjett norður frá Flekkhól. Norðaustur af þeim er Syðri-Gapahæð; snýr hún í suðaustur og norðvestur; er hún skógi vaxin að suðaustan, en skógarlítill að norðaustan. Vestan í henni er sjerstakur klapparhóll; hann heitir Grenhóll Austur af Flekkuhól, norður frá Selstíg, eru tveir stórir, sjerstakir hólar með litlu millibili. Þeir heitai Svínhólar. Þar er Þingvallahraun hæst og hallar þaðan í allar áttir, nema austur. Er þaðan víðsýni mikið. Suðaustur af Svínhólum, norðaustur af Hrafnagjárenda, er allstór hóll, sem Rauðhóll heitir. Fyrir norðan Svínhóla kemur Hrafnagjá aftur í ljós, þó miklu sje hún minni en að sunnanverðu, og heitir nú Gaphæðagjá, og í Innri-Gapahæð hverfur hún alveg.”
Skv. því áttu Selhólar að vera spölkorn sunnan við sauðfjárveikigirðingu er umlykur Þingvöll. Þegar gengið var á hnitið kom ýmislegt athyglisvert í ljós. Þegar komið var á vettvang var efitt að sjá að þarna gæti hafa verið bæjarstæði, sem þó hefði þá verið það á mjög  ákjósanlegum stað. Tóftir, mjög gamlar, virtust vera sunnan undir lágum aflöngum klapparhól. Efst á honum var fallin varða, mosavaxin. Grjótið var þá augljóst. Undir hólnum virtist vera grasi gróin geil inn að honum. Mótaði fyrir veggjum beggja vegna, þó ekki hleðslum. Stafn hefur verið mót suðri. Gata lá framan við. Til beggja hliða virtust vera leifar minja, gerði til vesturs og hús til austurs. Þar virtust geta hafa verið tvískipt tóft. Gaflar sneru mót suðri. Stór varða var neðar í hrauninu, skammt austan við Hrauntúnsbæinn. Vel sást yfir að Þingvallavatni.
Hafa ber í huga að landið hefur breyst mikið á Litla-Hrauntun-991umliðnum öldum. Varða var á klapparhól skammt suðvestar. Milli hans og “bæjarstæðisins” voru grónir hraunbollar, sem vatn gæti hafa safnast saman í. Skammt austar var opin djúp (botnlaus) gjá, en í hana hefði hugsanlega verið hægt að sækja vatn. Allt um kring voru grasbollar og skjól, hin ákjósanlegasta fjárbeit.
Hrauntún var fyrrum selstaða frá Þingvallabænum, en þar byggðist síðan bær 1830. Örnefnið “Selhólar” og “Gamli stekkur” gefa til kynna að þar hafi fyrrum verið selstaða frá Hrauntúni. En þar sem einungis er u.þ.b. 10 mín. gangur á á millum mátti ætla að þar væri a.m.k. stekk að finna, en angar aðrar minjar, s.s. hús, þ.e. að um heimasel hafi verið að ræða.
Þegar hólarnir og svæðið umhverfis var skoðað mátti vel rekja stíg frá suðaustanverði túngarði Hrauntúns að hólunum.

Hrauntun-992

Þegar gengin er gamla gatan frá Skólgarhólum að Hrauntúni má hafa eftirfarandi lýsingu til hliðsjónar: “Rjett fyrir norðvestan túnið í Skógarkoti er brekkumynd vestan í hæð, sem heitir Rjettarhæð; skammt norðvestur þaðan eru vörðubrot á þremur smá-hólum; þær heita Jafningjar. Austan við þær liggur hin nýja gata upp að Hrauntúni, sem rudd var um 1910 til 1912; áður var gatan upp svo-nefndar Brúnir. Austur frá Jafningjum, skammt norðaustur frá túninu, heita Djúpudalir; eru þeir tveir. Þar austan-við er hin gamla Hrauntúns gata; á milii Djúpudala og Skygnis er hóll með vörðubroti, sem heitir Gráa-varða. Þaðan frá Djúpudölum, hækkar hraunið norður eftir, og er það kallað einu nafni Brúnir. Er fyrst Neðsta-brún; austast á henni er Smalavarða; er það dálítil grjóthrúga, norður og upp frá Strýtuhólum; brúnin er einnig kölluð Smalavörðubrún. Vestur frá henni, norður frá Djúpudölum, eru hólar nokkrir, er heita Hrútaklettar. Dálítið ofar en Neðsta-brún er Mið-brún, þá Efsta-brún. Þar sjezt fyrst heim að Hrauntúni, þegar þessi gamla gata er farin. Austur af Miðbrún eru Stórhólar tveir, þar sem hækkar hraunið til norðausturs frá Mosalág, þar til nokkuð fyrir norðan Músarhóla og upp undir Tvívörður. Þær eru í stórum bala, bar sem hraunið hættir að hækka, og heita þær nú Þorsteins-varða. Því að rjett fyrir 1900 var vinnumaður í Skógarkoti, sem Þorsteinn hjet Þorbergsson, og hlóð hann eina vörðu úr tveimur. Frá Efstu-brún er mishæðalítið, gras- og skógar-lautir með smá-hólum, heim að Hrauntúni. Stutt vestur af Efstu-brún er vörðubrot lítið, sem heitir Markavarða. Í Þingvallalandi var engum afnotum skipt milli hjáleignanna, nema skógarhöggi.
hrauntun-993

Norður af Jafningjum er stór hæð, og norður af henni Miðhólar, smá-hólar nokkrir; á milli þeirra og Markavörðu er all-einkennilegur hóll, klofinn mjög og grasi gróinn að neðan; hann heitir Eyvindarhóll. Hjá honum liggur hin nýja gata milli Hrauntúns og Skógarkots.
Frá Markavörðu, fyrir norðan Eyvindarhól, gengur lægð talsverð til vesturs; sunnan-við lægðina er óglögg skógarrönd niður að Miðhólum, en norðan-við hana eru hæðir, vaxnar þjettum skógi og grasi, svo að varla sjezt á stein; þær heita Kolgrafarhólshæðir; hæst á þeim er vörðubrot, sem heitir Litla-Gríms-varða, sem nú hefir lengi verið kölluð í daglegu tali Grímsvarða. Við vesturenda hæða þessara er Kolgrafarhóll. Þaðan gengur lægð til norðausturs alla leið að Stóruvörðu. Hallinn austan við lægðina heitir Þrívarðnaskógur, sem hefur nafn af þremur vörðum á austurbarmi Þrívarðnagjár, norðan við götu þá, sem er frá Hrauntúni út á Leira. Gjáin er að mestu gjárholur á hraunbrúninni, þar sem lægðin byrjar að myndast frá Kolgrafarhæðum norður fyrir Þrívörður.

hrauntun-994

Vestan við slakkann hækkar hraunið á dálitlum kafla vestur að Leiragjá,.. Í miðjum slakkanum er Birkihóll, talsvert stór um sig, klofinn mjög og skógi vaxinn.
Frá Þrívörðum austur að Hrauntúni er hraunið fremur sljett, grösugt og skógi vaxið. Ejett fyrir vestan túnið er Litla-varða og þjett við túngarðinn að vestan Hellishóll. Hrauntún var fyrst sel frá Þingvöllum, en 1830 byggði Halldór Jónsson þar, og bjó þar í mörg ár. Árið 1935 var það lagt algjört í eyði, eins og aðrar jarðir í Þingvallahrauni.
hrauntun-995Stutt fyrir austan túnið er Skygnisvarða; þar byrja Skygnirnar þeir, er fyr voru nefndir. Að sunnan við þá gengur slakki austur að Klofhól, sem er suður af Háskygnirahólum. Stutt austur-af Skygnisvörðu er Hálfa-varða, og er hún sízt meira en hálf. Á móti henni, sunnan við slakkann, eru litlir grjóthólar, sem heita Gráu-klettar, norðan-við Gaphæðaslóða, sem að mestu voru fjárslóðar og lágu austur að Gapa; góðan kipp þar suður-af er áður-nefnd Þorsteinsvarða. Dálítið austur af Hálfu-vörðu er Gamli-stekkur; í djúpum hólkrók sjest þar glöggt til tófta. Nokkuð í hásuður þaðan er Þorsteinshóll og suður af honum Kolgerðir, mishæðótt svæði í skóginum.

hrauntun-996

— Norðaustur frá Hrauntúnsbæ gengur annar slakki norðan Skygnira, norðaustur að Brúnavörðu. Eftir slakka þessum liggur Víðivallagata, sem notuð var til heyflutninga af Hofmannaflöt í mörg ár. Norður af Gamla-stekk, sunnan götunnar, eru Stórhólar tveir; vestan hennar er Lamabgjárhraun alla leið frá Hrauntúni að Ármannsfelli, austur að Víðivöllum og vestur að Sandskeiðum. Austast í því, norður af Stórhólum, er Jarpmerarhóll.
Þaðan norð-austur frá eru Brúnir með samnefndri Hrauntun-gamli-stekkur-2vörðu á hæsta hólnum austan götu; er hún góðan kipp suður frá Víðivöllum og suð-vestur frá Mjóafellsvörðu, sem áður hefur verið getið. Norðaustur af Brúnavörðu er laut, sem oft stendur í vatn; þar heitir Grýlupollur.
Rjett fyrir norðan túnið í Hrauntúni er hóll, stór og djúpt klofinn, og hefur verið notaður til að geyma í kindur yfir stuttan tíma, með því að hlaða fyrir sprunguna, og er hún grasi vaxin í botninn. Hóllinn heitir Lambagjá. Stutt þar norður frá ber hæst á litlum, skörpum hól, sem heitir Nibba. Norður þaðan er Kerjavarða; ber hún nafn af kerjum nokkrum, sem þar eru. En ker eru hellar, sem þakið hefur fallið niður í og engin útgangur er úr, nema beint upp. Þau voru oft hættuleg fje, sem hljóp þar niður, en komst ekki upp aftur. Þau eru venjulegast í sljettum bölum. Efst í Lambagjárhrauni, niður undan Stóra-gili, er stekkur, sem notaður var frá Hrauntúni, þar til, að ekki þurfti meir á að halda.”
Frábært veður.

Heimild:
-Árbók Hins íslenska fornleifafélags, 46. árg. 1937-1938, Örnefni í Þingvallahrauni, Ásgeir Jónasson, bls. 49-50 og 154-156.

Hrauntún

Hrauntún – loftmynd.

Spöngin

“Alþingisstaðurinn forni á Þingvöllum er mjög mikilvægur vettvangur rannsókna í íslenskri fornleifafræði af því að hann var miðstöð þjóðarinnar á víkingaöld. Þingvellir hafa verið brennidepill rannsókna frá því fyrstu kortin af staðnum voru spongin-901útbúin á 18. öld til upphafs íslenskrar fornleifafræði á 19. öld sem leiddi til þróaðri fornleifafræðilegri rannsókna og uppgrafta á 20. öldinni. Enda þótt þessar rannsóknir hafi aukið þekkingu og lagt grunninn að vitneskju um Alþingisstaðinn, þá eru þær eingöngu byrjunin, og þörf á fleiri rannskóknum til þess að skilja betur fornleifafræðilegan bakrunn Alþingis hið forna. Markmið þessarar rannsóknar er að auka framlag á þessu sviði og bæta við þekkinguna um hið óþekkta mannvirki Byrgisbúð á Spönginni.
Spöngin líkist hálsi á austurhluta Alþingisstaðarins. Hún er staðsett á enda hraunbreiðunnar og er umlukin tveimur vatnsgjám sem heita Flosagjá og Nikulásargjá. Sýnt er fram á í þessari rannsókn að Spöngin fellur vel að þeirri hugmynd að hún sé norræn lagastaður, einkum vegna þess að hún líkist hólma í miðju vatni. Trú og stjórnmál voru óaðskiljanleg á víkingaöld og er það lykillinn að þeim skilningi hvernig fundir voru skipulagðir á Alþingi til forna. Spöngin getur verið auðkennd sem norrænn lagastaður af því að útlit hólmans vísar til hugmyndarinnar um helgistað sem er umlukinn `helgu vatni´ og mikilvægi innávið/útávið aðskilnaðar, á milli helgidóms (helgra vé) og þess sem er óguðlegt. Slíkur staður var vettvangur manna til lagalegs ágrennings og tilbeiðslu heiðinna guða.
Byrgisbúð er þyrping af fornleifafræðilegum rústum sem eru staðsettar í miðri Spönginni á breiðasta oddanum. Þetta flosagja-901mannvirki hefur oft verið grafið upp og kortlagt, en fullnægjandi túlkun hefur ekki enn komið fram. Í þessari rannsókn var farið yfir fyrri athuganir og sýnt fram á með nýrri rannsókn að Byrgisbúð samanstendur af fjórum aðskildum mannvirkjum, frá tveimur tímaskeiðum. Fyrstu þrjú mannvirkin eru hringlaga en það fjórða er rétthyrnt og aðskilið frá hinum mannvirkjunum með öskulögum og viðarkolum sem bendir til að þau hafi ekki verið samtengd.
Tilgátan sem sett er fram í rannsókn þessari er að upprunalega Lögréttan hafi verið staðsett á Spönginni þegar Alþingi var stofnsett árið 930. Mikilvægi hringlaga mannvirkjanna koma fram í staðsetningu þeirra, sem líkist hólma umlukinn vatni, og hringlaga formi þeirra. Fyrsta hringlaga mannvirkið hafi verið heiðinn helgistaður. Það var þá notað eins og undirstaða fyrir samsetninginu Lögréttu, sem samanstóð af þremur sammiðja hringlaga bekkjum, nægjanlega stórum til þess að 36 Goðar og ráðgjafar þeirra gátu setið saman. Þegar Lögrétta var stækkuð árið 965, fyrir 39 Goðar og síðar fyrir 48, var stærð hringjanna á Spönginni of lítil og því hafi Lögréttan verið flutt niður að Öxará, á Neðrivelli eða á hólmann við Öxará. Þrátt fyrir að Lögréttan hafi flust þá hélt Spöngin áfram að vera heiðinn helgistaður þar til Ísland tók upp kristni árið 1000.”

Heimild:
-Þingvellir: Archaeology of the Althing, MA 2010 – Aidan Bell
http://skemman.is/stream/get/1946/6937/18731/1/ÞingvellirAJB.pdf

Þingvellir

Þingvellir 1905 – Ásgrímur Jónsson.

Þingvellir

Löng hefð er fyrir því að forsætisráðherra hafi bústað á Þingvöllum til einkaafnota og opinberra gestamóttaka.
thingv-221Vorið 1907 var reist timburhús á Þingvöllum sem ætlað var Friðriki konungi VIII til bústaðar í heimsókn hans til Íslands um sumarið. Húsið var reist ofan við eða við Vellina, rétt fyrir neðan Öxarárfoss, og var í eigu Landsjóðs. Var það kallað Konungshúsið. Húsið var leigt út til kaffisölu og gistingar næstu sumur og í því voru haldin réttarböll á haustin. Fyrir alþingishátíðina 1930 var ákveðið að flytja húsið og gera það upp og var það staðsett um 200 metrum utan við Valhöll. Var húsið haft sem bústaður Kristjáns konungs og Alexandrínu drottningar á Alþingishátíðinni.
Upp frá þessu mun það hafa farið að tíðkast að ráðherrar dveldu í Konungshúsinu að sumarlagi, einkum forsætisráðherra. Var það oft nefnt forsætisráðherrabústaðurinn á Þingvöllum. Árið 1946 er talað um hann sem „sumarhús ráðherra hins íslenska lýðveldis“.
thingvellir-222Konungshúsið brann í eldsvoða 10. júlí 1970 og fórust þar þáverandi forsætisráðherra, Bjarni Benediktsson, Sigríður Björnsdóttir kona hans og ungur dóttursonur. Þar er nú minnisvarði um þau.
Fyrir lýðveldishátíðina 1974 voru byggðar tvær burstir til viðbótar við þær þrjár sem fyrir voru við Þingvallabæinn en hann hafði verið reistur 1930 eftir teikningu Guðjóns Samúelssonar. Í viðbótarbyggingunni hefur forsætisráðherra síðan haft opinberan sumardvalarstað, sem kom í stað Konungshússins sem brann, og getur notað hann bæði til einkaafnota og við embættisstörf, svo sem fundarhalda og móttöku gesta. Eldri hluti Þingvallabæjarins var íbúð þjóðgarðsvarðar en eftir að hann hætti að búa á staðnum árið 2000 tók forsætisráðherra yfir meginhluta bæjarins og var húsinu við það tækifæri breytt, milliveggir teknir og útbúnir salir fyrir móttöku gesta. Í nyrstu burstinni var þó áfram höfð aðstaða fyrir þjóðgarðsvörð og prest Þingvallakirkju.

Heimild:
http://www.forsaetisraduneyti.is/raduneyti/radherrabustadir/thingvellir/

Þingvellir

Þingvellir 1900.

Portfolio Items