Færslur

Þingvellir

Þingvellir eru flatir, grasi grónir vellir norðan við Þingvallavatn á bökkum Öxarár, sem rennur eftir völlunum út í Þingvallavatn, sem er stærsta stöðuvatn á Íslandi. Þjóðgarður var stofnaður árið 1928 og nær hann yfir Þingvelli og nánasta umhverfi þeirra. Í Öxará er Öxarárfoss, þar sem áin steypist ofan í Almannagjá. Rennur áin síðan eftir gjánni og svo út úr henni og niður á vellina. Almannagjá er sprunga við vestanverða sigdældina á milli úthafsflekanna tveggja sem Ísland liggur á.
thingvellir-992Þingvellir eru einn af mikilvægustu stöðunum í íslenskri sögu. Alþingi var stofnað á Þingvöllum árið 930 og kom þar saman árlega allt fram til ársins 1798. Það var árið 999 eða 1000 sem lögsögumaðurinn Þorgeir Ljósvetningagoði lagðist undir feld og lýsti Íslendinga í kjölfarið kristna.
Þingvellir urðu að þýðingarmiklu sameiningartákni í sjálfstæðisbaráttu Íslendinga á 19. og 20. öld. Sumarið 1798 var síðasta þingið haldið á Þingvöllum. Eftir að þingið var lagt af voru Þingvellir hljóður staður, utan alfaraleiðar um nokkurn tíma. Þegar svo straumar sjálfstæðisvakningar í Evrópu náðu til Íslendinga í upphafi 19. aldar voru saga og náttúra Þingvalla vakin til lífsins. Þingvellir fengu lifandi hlutverk í þjóðlífinu sem tákn um sjálfstæði.
Hið forna þing var ofarlega í hugum fólks og fornhetjunar voru vaktar til lífsins í kvæðum og ljóðum. Þjóðernisvakningin varð til þess að umræða um staðsetningu Alþingis var mikil. Skiptar skoðanir voru um hvar það skyldi staðsett en strax komu upp raddir um að Alþingi skyldi vera á Þingvöllum.
Árið 1843 gaf Kristján konungur VIII út konungsúrskurð um stofnun þings á Íslandi sem nefnast skyldi Alþingi og kom það fyrst saman 1. júlí 1845 í Latínuskólanum í Reykjavík.  Alþingi var einungis ráðgjafarþing en hafði ekki löggjafarvald. Árið 1848 var fyrsti Þingvallafundurinn haldinn og sóttu hann 19 fulltrúar sem settu saman bænaskrá til konungs þar sem þeir beiddust þess að konungur veitti Íslendingum þjóðþing með sömu réttindi danskir þegnar nutu.

thingvellir-992

Þingvallafundir voru haldnir óreglulega allt til ársins 1907. Á þeim var stjórnmálabaráttan í landinu skipulögð og málin búin í hendur þeim sem báru þau fram á Alþingi og fyrir stjórnvöld.
Vegna Þingvallafundana og sjálfstæðisbaráttunnar festust Þingvellir í sessi á ný sem helsti samkomustaður þjóðarinnar – þar koma Íslendingar saman til að fagna stærstu og mikilvægustu atburðum í sögu þjóðarinnar.
Árið 1907 ritaði Matthías Þórðarson grein í Skírni undir yfirskriftinni Verndun fagurra staða og merkra náttúrumenja. Í henni fjallaði hann um nauðsyn þess að hlúa að stöðum sem væru merkilegir og sérstakir sökum fegurðar jafn vel og verndun fornminja og gamlir kirkjumunir voru varðveittir. Hann nefndi ýmsa staði en tiltók Almanngjá og svæðið umhverfis Þingvelli við Öxará sem dæmi um stað sem mætti  sinna betur. Raunar tók hann fram að það væri búið að skemma Almannagjá með þeim vegi sem þá var búið að leggja. Hann rak dæmi um friðunaráform erlendis og nefndi meðal annars Yellowstone Park í Bandaríkjunum sem dæmi um stað sem friðaður væri með allsherjarlögum.

thingvellir-993

Umhverfisvernd var ein af þessum hugmyndum sem komu hingað til lands um aldamótin 1900 og fengu sinn hljómgrunn.
Árið 1913 ritaði Guðmundur Davíðsson þá grein sem átti eftir að ýta umræðunni um stofnun þjóðgarðsins á Þingvöllum úr vör. Greinin nefndist Þingvellir við Öxará og birtist í tímaritinu Eimreiðinni sem ritstýrt var af Valtý Guðmundssyni háskólakennara. Greinin var mjög beinskeytt og Guðmundur dró ekkert undan í lýsingum sínum af illri umgengni og skeytingarleysi landans á þessum sögufrægasta stað landsins, Þingvöllum. Hann ritaði í upphafi greinarinnar:
“Fáir Íslendingar munu koma svo í fyrsta sinn á Þingvelli við Öxará, að eigi dáist þeir að náttúrufegurðinni og í hug þeirra vakni, endurminningar um helstu viðburði sem tengdir eru við sögu þessa merkisstaðar. Þetta tvennt, söguviðburðirnir og náttúrufegurðin hlýtur að snerta tilfinningar allra sem staddir eru á þessum fornhelga stað. Þar má segja að saman sé komið flest það sem einkennilegast og fegurst er í íslenskri náttúru og þar hafa einnig gerst margir merkustu viðburðirnir í sögu Íslendinga”
hrauntun-998Í greininni rakti Guðmundur dæmi um þjóðgarða í Bandaríkjunum og í framhaldi af því nauðsyn þess að vernda bæri Þingvelli sem þá voru orðnir að vinsælum helgaráningarstað ferðamanna. Ekki var það þó fyrr en á árinu 1930 að brotið var blað í sögu náttúruverndar á Íslandi en þá var fyrsti þjóðgarðurinn á Íslandi stofnaður – Þjóðgarðurinn á Þingvöllum.
Guðmundur Davíðsson barnakennari varð fyrsti umsjónarmaður hins friðlýsta lands á Þingvöllum sem var stofnað til árið 1930, með lagasetningu frá 1928. Árið 1930 var hann ráðinn fyrsti þjóðgarðsvörðurinn á Þingvöllum og bjó hann þar þangað til 1940 er hann lét af störfum vegna heilsubrests. Hann fluttist þá til Reykjavíkur og gerðist starfsmaður Alþingis til ársins 1948.
Þingvallanefnd fer í dag skv. lögum með forræði þjóðgarðsins. Gerðir hafa verið göngustígar um garðinn, en hinum fornu leiðum, sem víða er þar að finna hefur lítill sómi verið sýndur sem og öðrum sögulegum minjum á svæðinu.

Heimild m.a.:
-http://skemman.is/stream/get/1946/2218/6752/1/Aðdragandi_að_friðun_fixed.pdf

Þingvellir

Þingvellir – Þingvallakirkja.

Hrauntún

Á Árbók Hins íslenska fornleifafélags árið 1938 er m.a. fjallað um “Örnefni í Þingvallahrauni”.
Þar er getið um hrauntun-heimtrodsvonefnda Selhóla austan Hrauntúns: “Austan-frá Sláttubrekkum, norður-af Hellishæð, er Flekkuhóll; er hann stór um sig, með smá-hólum og lautum, allt skógi og grasi vaxið. Norður af honum og Sláttubrekkum er Bruni; var þar eyða mikil í skóginn, sem stafaði af því, að kviknað hafði í reiðingin á hesti og eldurinn komizt í skóginn. Það mun hafa skeð um 1859 (eða ’60). Var sá blettur þraut-beittur á vetrum; voru þar oft hagar, þótt litlir væru annars staðar, og færð betri, því að þar reif snjó meira, vegna skógleysis. Þrátt fyrir beitina óx þar aftur skógur smátt og smátt; um aldamót voru komnir runnar um allan blettinn, en sást þó mjög greinilega fyrir honum. Um 1930 sást hann tæplega eða alls ekki.
Norðaustur af Bruna eru Selhólar tveir, annar með vörðubroti. Þeir eru rjett norður frá Flekkhól. Norðaustur af þeim er Syðri-Gapahæð; snýr hún í suðaustur og norðvestur; er hún skógi vaxin að suðaustan, en skógarlítill að norðaustan. Vestan í henni er sjerstakur klapparhóll; hann heitir Grenhóll Austur af Flekkuhól, norður frá Selstíg, eru tveir stórir, sjerstakir hólar með litlu millibili. Þeir heitai Svínhólar. Þar er Þingvallahraun hæst og hallar þaðan í allar áttir, nema austur. Er þaðan víðsýni mikið. Suðaustur af Svínhólum, norðaustur af Hrafnagjárenda, er allstór hóll, sem Rauðhóll heitir. Fyrir norðan Svínhóla kemur Hrafnagjá aftur í ljós, þó miklu sje hún minni en að sunnanverðu, og heitir nú Gaphæðagjá, og í Innri-Gapahæð hverfur hún alveg.”
Skv. því áttu Selhólar að vera spölkorn sunnan við sauðfjárveikigirðingu er umlykur Þingvöll. Þegar gengið var á hnitið kom ýmislegt athyglisvert í ljós. Þegar komið var á vettvang var efitt að sjá að þarna gæti hafa verið bæjarstæði, sem þó hefði þá verið það á mjög  ákjósanlegum stað. Tóftir, mjög gamlar, virtust vera sunnan undir lágum aflöngum klapparhól. Efst á honum var fallin varða, mosavaxin. Grjótið var þá augljóst. Undir hólnum virtist vera grasi gróin geil inn að honum. Mótaði fyrir veggjum beggja vegna, þó ekki hleðslum. Stafn hefur verið mót suðri. Gata lá framan við. Til beggja hliða virtust vera leifar minja, gerði til vesturs og hús til austurs. Þar virtust geta hafa verið tvískipt tóft. Gaflar sneru mót suðri. Stór varða var neðar í hrauninu, skammt austan við Hrauntúnsbæinn. Vel sást yfir að Þingvallavatni.
Hafa ber í huga að landið hefur breyst mikið á Litla-Hrauntun-991umliðnum öldum. Varða var á klapparhól skammt suðvestar. Milli hans og “bæjarstæðisins” voru grónir hraunbollar, sem vatn gæti hafa safnast saman í. Skammt austar var opin djúp (botnlaus) gjá, en í hana hefði hugsanlega verið hægt að sækja vatn. Allt um kring voru grasbollar og skjól, hin ákjósanlegasta fjárbeit.
Hrauntún var fyrrum selstaða frá Þingvallabænum, en þar byggðist síðan bær 1830. Örnefnið “Selhólar” og “Gamli stekkur” gefa til kynna að þar hafi fyrrum verið selstaða frá Hrauntúni. En þar sem einungis er u.þ.b. 10 mín. gangur á á millum mátti ætla að þar væri a.m.k. stekk að finna, en angar aðrar minjar, s.s. hús, þ.e. að um heimasel hafi verið að ræða.
Þegar hólarnir og svæðið umhverfis var skoðað mátti vel rekja stíg frá suðaustanverði túngarði Hrauntúns að hólunum.

Hrauntun-992

Þegar gengin er gamla gatan frá Skólgarhólum að Hrauntúni má hafa eftirfarandi lýsingu til hliðsjónar: “Rjett fyrir norðvestan túnið í Skógarkoti er brekkumynd vestan í hæð, sem heitir Rjettarhæð; skammt norðvestur þaðan eru vörðubrot á þremur smá-hólum; þær heita Jafningjar. Austan við þær liggur hin nýja gata upp að Hrauntúni, sem rudd var um 1910 til 1912; áður var gatan upp svo-nefndar Brúnir. Austur frá Jafningjum, skammt norðaustur frá túninu, heita Djúpudalir; eru þeir tveir. Þar austan-við er hin gamla Hrauntúns gata; á milii Djúpudala og Skygnis er hóll með vörðubroti, sem heitir Gráa-varða. Þaðan frá Djúpudölum, hækkar hraunið norður eftir, og er það kallað einu nafni Brúnir. Er fyrst Neðsta-brún; austast á henni er Smalavarða; er það dálítil grjóthrúga, norður og upp frá Strýtuhólum; brúnin er einnig kölluð Smalavörðubrún. Vestur frá henni, norður frá Djúpudölum, eru hólar nokkrir, er heita Hrútaklettar. Dálítið ofar en Neðsta-brún er Mið-brún, þá Efsta-brún. Þar sjezt fyrst heim að Hrauntúni, þegar þessi gamla gata er farin. Austur af Miðbrún eru Stórhólar tveir, þar sem hækkar hraunið til norðausturs frá Mosalág, þar til nokkuð fyrir norðan Músarhóla og upp undir Tvívörður. Þær eru í stórum bala, bar sem hraunið hættir að hækka, og heita þær nú Þorsteins-varða. Því að rjett fyrir 1900 var vinnumaður í Skógarkoti, sem Þorsteinn hjet Þorbergsson, og hlóð hann eina vörðu úr tveimur. Frá Efstu-brún er mishæðalítið, gras- og skógar-lautir með smá-hólum, heim að Hrauntúni. Stutt vestur af Efstu-brún er vörðubrot lítið, sem heitir Markavarða. Í Þingvallalandi var engum afnotum skipt milli hjáleignanna, nema skógarhöggi.
hrauntun-993

Norður af Jafningjum er stór hæð, og norður af henni Miðhólar, smá-hólar nokkrir; á milli þeirra og Markavörðu er all-einkennilegur hóll, klofinn mjög og grasi gróinn að neðan; hann heitir Eyvindarhóll. Hjá honum liggur hin nýja gata milli Hrauntúns og Skógarkots.
Frá Markavörðu, fyrir norðan Eyvindarhól, gengur lægð talsverð til vesturs; sunnan-við lægðina er óglögg skógarrönd niður að Miðhólum, en norðan-við hana eru hæðir, vaxnar þjettum skógi og grasi, svo að varla sjezt á stein; þær heita Kolgrafarhólshæðir; hæst á þeim er vörðubrot, sem heitir Litla-Gríms-varða, sem nú hefir lengi verið kölluð í daglegu tali Grímsvarða. Við vesturenda hæða þessara er Kolgrafarhóll. Þaðan gengur lægð til norðausturs alla leið að Stóruvörðu. Hallinn austan við lægðina heitir Þrívarðnaskógur, sem hefur nafn af þremur vörðum á austurbarmi Þrívarðnagjár, norðan við götu þá, sem er frá Hrauntúni út á Leira. Gjáin er að mestu gjárholur á hraunbrúninni, þar sem lægðin byrjar að myndast frá Kolgrafarhæðum norður fyrir Þrívörður.

hrauntun-994

Vestan við slakkann hækkar hraunið á dálitlum kafla vestur að Leiragjá,.. Í miðjum slakkanum er Birkihóll, talsvert stór um sig, klofinn mjög og skógi vaxinn.
Frá Þrívörðum austur að Hrauntúni er hraunið fremur sljett, grösugt og skógi vaxið. Ejett fyrir vestan túnið er Litla-varða og þjett við túngarðinn að vestan Hellishóll. Hrauntún var fyrst sel frá Þingvöllum, en 1830 byggði Halldór Jónsson þar, og bjó þar í mörg ár. Árið 1935 var það lagt algjört í eyði, eins og aðrar jarðir í Þingvallahrauni.
hrauntun-995Stutt fyrir austan túnið er Skygnisvarða; þar byrja Skygnirnar þeir, er fyr voru nefndir. Að sunnan við þá gengur slakki austur að Klofhól, sem er suður af Háskygnirahólum. Stutt austur-af Skygnisvörðu er Hálfa-varða, og er hún sízt meira en hálf. Á móti henni, sunnan við slakkann, eru litlir grjóthólar, sem heita Gráu-klettar, norðan-við Gaphæðaslóða, sem að mestu voru fjárslóðar og lágu austur að Gapa; góðan kipp þar suður-af er áður-nefnd Þorsteinsvarða. Dálítið austur af Hálfu-vörðu er Gamli-stekkur; í djúpum hólkrók sjest þar glöggt til tófta. Nokkuð í hásuður þaðan er Þorsteinshóll og suður af honum Kolgerðir, mishæðótt svæði í skóginum.

hrauntun-996

— Norðaustur frá Hrauntúnsbæ gengur annar slakki norðan Skygnira, norðaustur að Brúnavörðu. Eftir slakka þessum liggur Víðivallagata, sem notuð var til heyflutninga af Hofmannaflöt í mörg ár. Norður af Gamla-stekk, sunnan götunnar, eru Stórhólar tveir; vestan hennar er Lamabgjárhraun alla leið frá Hrauntúni að Ármannsfelli, austur að Víðivöllum og vestur að Sandskeiðum. Austast í því, norður af Stórhólum, er Jarpmerarhóll.
Þaðan norð-austur frá eru Brúnir með samnefndri Hrauntun-gamli-stekkur-2vörðu á hæsta hólnum austan götu; er hún góðan kipp suður frá Víðivöllum og suð-vestur frá Mjóafellsvörðu, sem áður hefur verið getið. Norðaustur af Brúnavörðu er laut, sem oft stendur í vatn; þar heitir Grýlupollur.
Rjett fyrir norðan túnið í Hrauntúni er hóll, stór og djúpt klofinn, og hefur verið notaður til að geyma í kindur yfir stuttan tíma, með því að hlaða fyrir sprunguna, og er hún grasi vaxin í botninn. Hóllinn heitir Lambagjá. Stutt þar norður frá ber hæst á litlum, skörpum hól, sem heitir Nibba. Norður þaðan er Kerjavarða; ber hún nafn af kerjum nokkrum, sem þar eru. En ker eru hellar, sem þakið hefur fallið niður í og engin útgangur er úr, nema beint upp. Þau voru oft hættuleg fje, sem hljóp þar niður, en komst ekki upp aftur. Þau eru venjulegast í sljettum bölum. Efst í Lambagjárhrauni, niður undan Stóra-gili, er stekkur, sem notaður var frá Hrauntúni, þar til, að ekki þurfti meir á að halda.”
Frábært veður.

Heimild:
-Árbók Hins íslenska fornleifafélags, 46. árg. 1937-1938, Örnefni í Þingvallahrauni, Ásgeir Jónasson, bls. 49-50 og 154-156.

Hrauntún

Hrauntún – loftmynd.

Spöngin

“Alþingisstaðurinn forni á Þingvöllum er mjög mikilvægur vettvangur rannsókna í íslenskri fornleifafræði af því að hann var miðstöð þjóðarinnar á víkingaöld. Þingvellir hafa verið brennidepill rannsókna frá því fyrstu kortin af staðnum voru spongin-901útbúin á 18. öld til upphafs íslenskrar fornleifafræði á 19. öld sem leiddi til þróaðri fornleifafræðilegri rannsókna og uppgrafta á 20. öldinni. Enda þótt þessar rannsóknir hafi aukið þekkingu og lagt grunninn að vitneskju um Alþingisstaðinn, þá eru þær eingöngu byrjunin, og þörf á fleiri rannskóknum til þess að skilja betur fornleifafræðilegan bakrunn Alþingis hið forna. Markmið þessarar rannsóknar er að auka framlag á þessu sviði og bæta við þekkinguna um hið óþekkta mannvirki Byrgisbúð á Spönginni.
Spöngin líkist hálsi á austurhluta Alþingisstaðarins. Hún er staðsett á enda hraunbreiðunnar og er umlukin tveimur vatnsgjám sem heita Flosagjá og Nikulásargjá. Sýnt er fram á í þessari rannsókn að Spöngin fellur vel að þeirri hugmynd að hún sé norræn lagastaður, einkum vegna þess að hún líkist hólma í miðju vatni. Trú og stjórnmál voru óaðskiljanleg á víkingaöld og er það lykillinn að þeim skilningi hvernig fundir voru skipulagðir á Alþingi til forna. Spöngin getur verið auðkennd sem norrænn lagastaður af því að útlit hólmans vísar til hugmyndarinnar um helgistað sem er umlukinn `helgu vatni´ og mikilvægi innávið/útávið aðskilnaðar, á milli helgidóms (helgra vé) og þess sem er óguðlegt. Slíkur staður var vettvangur manna til lagalegs ágrennings og tilbeiðslu heiðinna guða.
Byrgisbúð er þyrping af fornleifafræðilegum rústum sem eru staðsettar í miðri Spönginni á breiðasta oddanum. Þetta flosagja-901mannvirki hefur oft verið grafið upp og kortlagt, en fullnægjandi túlkun hefur ekki enn komið fram. Í þessari rannsókn var farið yfir fyrri athuganir og sýnt fram á með nýrri rannsókn að Byrgisbúð samanstendur af fjórum aðskildum mannvirkjum, frá tveimur tímaskeiðum. Fyrstu þrjú mannvirkin eru hringlaga en það fjórða er rétthyrnt og aðskilið frá hinum mannvirkjunum með öskulögum og viðarkolum sem bendir til að þau hafi ekki verið samtengd.
Tilgátan sem sett er fram í rannsókn þessari er að upprunalega Lögréttan hafi verið staðsett á Spönginni þegar Alþingi var stofnsett árið 930. Mikilvægi hringlaga mannvirkjanna koma fram í staðsetningu þeirra, sem líkist hólma umlukinn vatni, og hringlaga formi þeirra. Fyrsta hringlaga mannvirkið hafi verið heiðinn helgistaður. Það var þá notað eins og undirstaða fyrir samsetninginu Lögréttu, sem samanstóð af þremur sammiðja hringlaga bekkjum, nægjanlega stórum til þess að 36 Goðar og ráðgjafar þeirra gátu setið saman. Þegar Lögrétta var stækkuð árið 965, fyrir 39 Goðar og síðar fyrir 48, var stærð hringjanna á Spönginni of lítil og því hafi Lögréttan verið flutt niður að Öxará, á Neðrivelli eða á hólmann við Öxará. Þrátt fyrir að Lögréttan hafi flust þá hélt Spöngin áfram að vera heiðinn helgistaður þar til Ísland tók upp kristni árið 1000.”

Heimild:
-Þingvellir: Archaeology of the Althing, MA 2010 – Aidan Bell
http://skemman.is/stream/get/1946/6937/18731/1/ÞingvellirAJB.pdf

Þingvellir

Þingvellir 1905 – Ásgrímur Jónsson.

Þingvellir

Löng hefð er fyrir því að forsætisráðherra hafi bústað á Þingvöllum til einkaafnota og opinberra gestamóttaka.
thingv-221Vorið 1907 var reist timburhús á Þingvöllum sem ætlað var Friðriki konungi VIII til bústaðar í heimsókn hans til Íslands um sumarið. Húsið var reist ofan við eða við Vellina, rétt fyrir neðan Öxarárfoss, og var í eigu Landsjóðs. Var það kallað Konungshúsið. Húsið var leigt út til kaffisölu og gistingar næstu sumur og í því voru haldin réttarböll á haustin. Fyrir alþingishátíðina 1930 var ákveðið að flytja húsið og gera það upp og var það staðsett um 200 metrum utan við Valhöll. Var húsið haft sem bústaður Kristjáns konungs og Alexandrínu drottningar á Alþingishátíðinni.
Upp frá þessu mun það hafa farið að tíðkast að ráðherrar dveldu í Konungshúsinu að sumarlagi, einkum forsætisráðherra. Var það oft nefnt forsætisráðherrabústaðurinn á Þingvöllum. Árið 1946 er talað um hann sem „sumarhús ráðherra hins íslenska lýðveldis“.
thingvellir-222Konungshúsið brann í eldsvoða 10. júlí 1970 og fórust þar þáverandi forsætisráðherra, Bjarni Benediktsson, Sigríður Björnsdóttir kona hans og ungur dóttursonur. Þar er nú minnisvarði um þau.
Fyrir lýðveldishátíðina 1974 voru byggðar tvær burstir til viðbótar við þær þrjár sem fyrir voru við Þingvallabæinn en hann hafði verið reistur 1930 eftir teikningu Guðjóns Samúelssonar. Í viðbótarbyggingunni hefur forsætisráðherra síðan haft opinberan sumardvalarstað, sem kom í stað Konungshússins sem brann, og getur notað hann bæði til einkaafnota og við embættisstörf, svo sem fundarhalda og móttöku gesta. Eldri hluti Þingvallabæjarins var íbúð þjóðgarðsvarðar en eftir að hann hætti að búa á staðnum árið 2000 tók forsætisráðherra yfir meginhluta bæjarins og var húsinu við það tækifæri breytt, milliveggir teknir og útbúnir salir fyrir móttöku gesta. Í nyrstu burstinni var þó áfram höfð aðstaða fyrir þjóðgarðsvörð og prest Þingvallakirkju.

Heimild:
http://www.forsaetisraduneyti.is/raduneyti/radherrabustadir/thingvellir/

Þingvellir

Þingvellir 1900.

Þingvellir

Í Íslendingabók er m.a. fjallað um stofnun Alþingis: “Alþingi var sett at ráði Úlfljóts ok allra landsmanna, þar er nú er, en áðr var þing á Kjalarnesi, þat er Þorsteinn Ingólfssonr landnámamanns, faðir Þorkels mána lögsögumanns, hafði þar ok höfðingjar þeir, er at því hurfu.
Spongin-4En maðr hafði sekr orðit of þræls morð eða leysings, sá er land átti í Bláskógum. Hann er nefndr Þórir kroppinskeggi, en dóttursonr hans er kallaðr Þorvaldr kroppinskeggi, sá er fór síðan í Austfjörðu ok brenndi þar inni Gunnar, bróður sinn. Svá sagði Hallr Órækjusonr. En sá hét Kolr, er myrðr var. Við hann er kennd gjá sú, er þar er kölluð síðan Kolsgjá, sem hræin fundust.
Land þat varð síðan allsherjarfé, en þat lögðu landsmenn til alþingis neyzlu. Af því er þar almenning at viða til alþingis í skógum ok á heiðum hagi til hrossahafnar. Þat sagði Úlfheðinn oss.
Svá hafa ok spakir menn sagt, at á sex tigum vetra yrði Ísland albyggt, svá at eigi væri meir síðan.
Því nær tók Hrafn lögsögu Hæingssonr landnámamanns, næstr Úlfljóti, ok hafði tuttugu sumur. Hann var ór Rangárhverfi. Þat var sex tigum vetra eftir dráp Eadmundar konungs, vetri eða tveim, áðr Haraldr inn hárfagri yrði dauðr, at tölu spakra manna.
Þórarinn Ragabróðir, sonr Óleifs hjalta, tók lögsögu næstr Hrafni ok hafði önnur tuttugu. Hann var borgfirzkr.”

Jónas Jónsson frá Hriflu skrifaði “Um Þingvelli” í Skinfaxa árið 1932. Hér má lesa hluta frásagnarinnar:

thingvellir-323

“Þingvellir er einhver kunnasti staður á Íslandi, bæði sökum sögufrægðar og náttúrufegurðar. Þar hafa Íslendingar lengst af æfi þjóðarinnar átt höfuðstað sinn og hið eiginlega setur löggjafar og dómsvalds. Frá Þingvöllum fluttist höfuðstaðurinn að Bessastöðum, þann tíma, þegar þjóðin var allra mest máttvana, og þaðan aftur til Reykjavíkur, eftir að kauptún og kaupstaðir tóku að myndast á Íslandi.
Náttúrufræðingum og listamönnum hefir þótt Þingvallahéraðið merkilegt, þótt eigi væri litið á sögufrægðina. Myndunarsaga Þingvallahéraðs er einhver tilkomumesti þátturinn í sögu íslenskrar jarðmyndunar, og um þann þátt í jarðsögunni hefir eitt af mestu skáldum landsins ort eitt af sínum fegurstu kvæðum, sem jafnan mun lifa á vörum þjóðarinnar.
Eftir að Ísland eignaðist þjóðlega og vel menntaða málara, hafa þeir gert Þingvelli að höfuðstað sínum. Þangað koma yngstu listamehn landsins og búa í tjöldum að fornmanna sið og leitast við að skýra með litum hina stórfenglegu, breytilegu og fögru náttúru.
Og þangað koma engu síður reyndustu og þroskuðustu listamenn Thingvellir-321landsins. Frá engum stað á Íslandi eru nú þegar til jafn mörg merkileg málverk og frá Þingvöllum, og þó eru engin tvö af þessum listaverkum beinlínis lík. Fjölbreytni náttúrunnar á Þingvöllum, og hin skjótu og undursamlegu litbrigði virðast vera ótæmandi gullnáma fyrir íslenzka málara og líkleg til að geta verið það, meðan menning helzt í landinu.
Í fornöld virðist mestallt láglendi í Þingvallasveit hafa verið vaxið skógi, nema grundir þær meðfram Almannagjá, sem Öxará hefir myndað með framburði sínum og staðurinn dregur nafn af. Í þessu skóglendi voru mörg býli, allt norður til fjalla, þar sem nú eru blásin hraun og eyðisandar. Engjar voru litlar á nálega öllum þessum jörðum og búskapurinn hlaut fyrst og fremst að byggjast á því, að beita skóginn. Þetta var gert. Búsmalinn eyddi skóginn meir og meir. Að sama skapi blés landið upp og býlin eyddust hvert af öðru. Þegar Alþingi hélt þúsund ára hátíð sína voru jarðirnar í Þingvallahrauni ekki nema þrjár, prestsetrið Þingvellir, Skógarkot og Hrauntún.

thingvellir-324

Á öllum þessum jörðum byggðist atvinnulífið fyrst og fremst á því, að beita skóginn, enda voru tvær af þessum jörðum næsta engja-litlar. Sauðfjárbeitin var þess vegna vel á veg komin með að eyðileggja hið forna skóglendi í þessari frægustu byggð á Íslandi.
Og Þingvellir urðu á ný fyrir aðsteðjandi hættu. Akvegur hafði verið lagður til Þingvalla. Ferðamannastraumurinn fór að beinast þangað. Um aldamótin hafði verið byggt fremur lítilfjörlegt gistihús, í miðri þinghelginni, skírt veglegu nafni og kallað Valhöll. Litlu síðar lét landið reisa fremur ólaglegt timburskýli við vellina, neðan við fossinn. Þetta skýli var kallað konungshús, af því að konungur landsins hafði eitt sinn gist þar. Annars var hús þetta einstaka sinnum notað sem sumarbústaður forsætisráðherra, en af og til sem almennt veitingahús. Til umgengni í kring og viðbótarbygginga var ekki vandað.
Heima á Þingvöllum var óreglulega byggt bárujárnshús, með fjölmörgum ósmekklegum skúrum úr bárujárni, thingvellir-326steypu og torfi. Í Þingvallabænum endurspeglaðist allt það fálm og stefnuleysi og smekkleysi í byggingum, sem einkenndi mikið af þeim heimilum, sem byggð voru í rigningahéruðum landsins, frá því hætt var við bæi með torfveggjum og torfþökum og þartil komu vönduð steinsteypuhús. En sunnan undir þessum hrörlega bæ hafði prestur staðarins gróðursett nokkur reyni- og víðitré og hirt þau með mestu alúð. Þessi tré þrifast ágætlega, og verða stærri og blómlegri með hverju ári. Þau urðu í einu tákn þess gróðurs, sem hafði verið og á að koma í Þingvallahrauni, og lofsamlegur minnisvarði um þann mann, sem gróðursetti þau og hlúði að þeim meðan þau voru ung.
Þingvellir og gróður byggðarinnar voru nú orðnir milli tveggja elda. Annars vegar sótti sauðbeitin að skóginum og eyddi honum meir og meir. Og á hinn bóginn óx ferðamannastraumur til staðarins. Léleg bráðabirgðarskýli voru reist, án þess að líta hið minnsta á það, hvern svip þau gáfu Þingvöllum. Um sama leyti var Reykjavík í örum vexti. Einn kaupsýslumaður byggði sér ofurlítið sumarhús í Fögrubrekku.
Margir Reykvíkingar fundu, að þarna var gott að vera. Margir fleiri vildu thingvellir-326byggja sér skúra við gjárnar eða á völlunum. Við sjálft lá, að gamla Valböll fæddi af sér óreglulega og ósmekklega byggð um alla þinghelgina, um leið og búsmali frá þremur bæjum fullkomnaði eyðingu skógar og gróðurs í hrauninu. Menn sáu, að hinn frægi og glæsilegi sögustaður var að verða allri þjóðinni til minnkunar. Hin nýja skúrabyggð á Þingvöllum var enn hættulegri staðnum heldur en börn og hrafnar.
Nú liðu nokkur ár, þar sem örlög Þingvalla svo að segja hengu á þræði. Annars vegar var sótt á að yfirbyggja Þingvelli með lélegum bráðabirgðaskúrum til sumardvalar fyrir Reykvíkinga. A hinn bóginn efldist flokkur þeirra álmgamanna, sem vildu friða Þingvöll, þingstaðinn og skóglendið.
Og svo kom afmæli Alþingis 1930. Meðal þeirra manna, sem undirbjuggu hátíðahöldin, voru nokkrir þeir menn, sem  vildu að Þingvöllur yrði viðurkenndur sem helgistaður þjóðarinnar.
Og nú kom hreyfing á málið. Alþingi samþykkti lög um friðun og verndun Þingvalla. Landsstjórninni var heimilað að láta girða af hraunið milli Almannagjár og Hrafnagjár, og að bæta bændunum á jörðunum í hrauninu það tjóni, er þeir kynnu að bíða við að hætta sauðbúskap á þessum jörðum.
thingvellir-328Eins og við mátti búast, mætti þetta friðunarmál töluverðri mótspyrnu. Menn sögðu, að það væri hart að leggja niður sauðbúskap á tveim jörðum, en gleymdu um leið, að sá hinn sami sauðbúskapur var búinn að eyðileggja fjölda býla og mestallan skóg í sveitinni. Þeir sögðu, að það yrði afar dýrt, að girða Þingvallahraun, og girðingin myndi standa illa, vegna fannkomu. En reynslan hefir orðið sú, að þessi girðing mun vera hin dýrasta, sem ríkið hefir gert, miðað við landstærð, vegna þess, að tvær gjár og vatnið skapa sjálfheldu nálega á þrjár hliðar. Og af því girðingin er á hrauni, er hún líkleg til að endast í bezta lagi. Margar fleiri mótbárur komu fram, en reyndust álíka léttvægar.
Nú mun eg víkja að þeim breytingum, sem gerðar voru á Þingvöllum vegna alþingishátíðarinnar, og sem hafa varanlega þýðingu, og þar næst að þeim ráðstöfunum, sem gerðar hafa verið vegna friðunarlaganna.
thingvellir-331Langdýrasta umbótin, sem gerð var vegna hátíðarinnar, var nýi vegurinn gegnum Mosfellssveit og yfir Mosfellsdal. Þeim veg átti að gera, hvort sem var, en það myndi annars hafa dregizt nokkur ár. Vegna þessa vegar er akfært á Þingvöll nálega allt árið. Þá var vegur lagður frá Þingvöllum inn á Leirur, þar sem tjaldborgin stóð, og áleiðis að ruðningnum yfir Kaldadal. Er þessi nýi vegur nú orðin ein hin fjölfarnasta sumarleið hér á landi, fyrir ferðafólk.
Næsta aðgerðin var við sjálfa vellina. Upprunalega höfðu þeir verið slétt grund, mynduð af framburði árinnar, og átt þátt í að gefa staðnum nafn. En nú voru þeir orðnir kargaþýfi og sundurgrafnir af vatni. Hátíðarnefndin lét slétta nálega 10 ha. og breyta í tún, eftir því, sem efni voru til, og á þessum hinum miklu grundum hafði mannstraumurinn olbogarúm hátíðisdagana. Þá voru hin misheppnuðu bráðabirgðahús mitt í þinghelginni, Valhöll og Konungsskálinn færð suður yfir ána, og komið þar svo fyrir að þau eru fremur til prýði fyrir staðinn. Valhöll var stækkuð og endurbætt til stórra muna, auk þess byggður áfastur við gistihúsið stór og myndarlegur samkomusalur. Er öll aðstaða í Valhöll nú orðið til að taka vel á móti gestum, þó að margir séu, og þar má nú efna til funda miklu fremur en áður var. Að lokum var bærinn á Þingvöllum rifinn og endurbyggður úr steini, með þremur burstum og torfþaki. Gamli bærinn hefði orðið landinu til óafmáanlegrar minnkunnar, ef hann hefði staðið, og lifað um langan aldur á myndum úti um allan heim, sem vottur um virðingu Íslendinga fyrir sínum sögufrægasta stað. Nýi bærinn þykir aftur hinn prýðilegastí, og landi og þjóð til sæmdar bæði á hátíðinni og síðar. Nokkur hluti hússins stendur enn með venjulegum útbúnaði, til að hægt sé þar að taka á móti gestum landsins, einkum lista- og thingvellir-329fræðimönnum. Þar bjuggu um stund Sigrid Undset með syni sínum og Gunnar Gunnarsson með fjölskyldu sinni allri. Meta margir slíkir menn eigi lítils, sem sóma frá landinu, að mega búa nokkra stund á rólegu heimili á Þingvöllum.
Undirstaða að verndun Þingvalla var þannig lögð með hátíðinni. Síðan hefir enn verið bætt við, að girða hraunið, eins og fyr er sagt, og borga tveim bændum bætur eftir mati, fyrir að hætta sauðfjárbúskap nú á yfirstandandi vori. Auk þess hafa verið girtar hinar nýgerðu sléttur, og á að freista að halda þeim í rækt, svo að þær verði, eins og í fornöld, grónir vellir. Eftir að slætti er lokið, geta ferðamenn gengið um túnin að vild.
Þingvöllur framtíðarinnar verður, eins og nú horfir, eitthvað á þessa leið: Vellirnir haldast grænir og sléttir. Skógurinn fyllir hraunið á einum mannsaldri og sækir heim undir vellina. Engin hús verða í þinghelginni, nema bærinn og kirkjan. Vestan árinnar verður gistihúsið, nokkur sumarhús, og bílatorgið. Mitt í skóginum verða tvö býli, en ekkert sauðfé. Umönnun mannanna kemur fram í að láta náttúruna njóta sín, án þess að skyggja með veikum mannaverkum á tign og dýrð héraðsins.”

Heimild:
-Skinfaxi, 23. árg. 1932, 5. tbl,  bls. 97-105.

Þingvellir

Þingvellir – Almannagjá.

Þingvellir

Í LANDNÁMSBÓK (Sturlubók), 100. kafla, segir m.a.: “Þorgrímur Grímólfsson var bróðurson Álfs; hann fór út með honum og tók arf eftir hann, því að Álfur átti ekki barn. Sonur Þorgríms var Eyvindur, faðir Þórodds goða og Össurar, er átti Beru, dóttur Egils Skalla-Grímssonar. Móðir Þorgríms var Kormlöð, dóttir Kjarvals Írakonungs.”
Thingvalla-3Nefndur Þóroddur var á Þingvöllum er Þorgeir Ljósvetningagoði hvað upp úrskurð um að kristni skyldi framvegis verða trú landsmanna.
Sagan segir að hraun hafi runnið á Hellisheiði, er Alþingi var haldið, skammt frá Þingvöllum og stefnt í átt að bæ eins kristna höfðingjans [Þórodds goða]. Töldu heiðnir menn að þetta væri merki um að guðirnir reiddust. Á þá Snorri Þorgrímsson á Helgafelli að hafa mælt „Um hvað reiddust goðin, þá er hér brann hraunið, er nú stöndum vér á?“ og þótti sýna mikla skynsemi.
Í Íslendingabók Ara fróða (rituð um 1130) segir um framangreindan atburð árið 999 eða 1000:
“Ó
lafur konungur Tryggvason, Ólafssonar, Haraldssonar hins hárfagra, kom kristni í Noreg og á Ísland. Hann sendi hingað til lands prest þann, er hét Þangbrandur og hér kenndi mönnum kristni og skírði þá alla, er við trú tóku. En Hallur á Síðu Þorsteinsson lét skírast snemmhendis og Hjalti Skeggjason úr Þjórsárdali og Gissur hinn hvíti Teitsson, Ketilbjarnarsonar, frá Mosfelli, og margir höfðingjar aðrir; en þeir voru þó fleiri, er í gegn mæltu og neituðu. En þá er hann hafði hér verið einn vetur eða tvo, þá fór hann á braut og hafði vegið hér tvo menn eða þrjá, þá er hann höfðu nítt. En hann sagði konunginum er hann kom austur, allt það, er hér hafði yfir hann gengið, og lét örvænt, að hér myndi kristni enn takast. En hann varð við það reiður mjög og ætlaði að láta meiða eða drepa okkar landa fyrir, þá er þar voru austur. En það sumar hið sama komu utan h ðan þeir Gissur og Hjalti og þágu þá undan við konunginn og hétu honum umsýslu sinni til á nýjan leik, að hér yrði enn við kristninni tekið, og létu sér eigi annars von en þar myndi hlýða.
Thingvalla-4En hið næsta sumar eftir fóru þeir austan og prestur sá, er Þormóður hét, og komu þá í Vestmannaeyjar, er tíu vikur voru af sumri, og hafði allt farist vel að. Svo kvað Teitur þann segja, er sjálfur var þar. Þá var það mælt hið næsta sumar áður í lögum, að menn skyldu svo koma til alþingis, er tíu vikur væru af sumri, en þangað til komu viku fyrr. En þeir fóru þegar inn til meginlands og síðan til alþingis og gátu að Hjalta, að hann var eftir í Laugardali með tólfta mann, af því að hann hafði áður sekur orðið fjórbaugsmaður hið næsta sumar á alþingi um goðgá. En það var til þess haft, að hann kvað að lögbergi kviðling þennan: Vil ég eigi goð geyja; grey þykir mér Freyja.
En þeir Gissur fóru, uns þeir komu í stað þann í hjá Ölfossvatni, er kallaður er Vellankatla, og gjörðu orð þaðan til þings, að á mót þeim skyldi koma allir fulltingismenn þeirra, af því að þeir höfðu spurt, að andskotar þeirra vildu verja þeim vígi þingvöllinn.
En fyrr en þeir færu þaðan, þá Thingvalla-6kom þar ríðandi Hjalti og þeir, er eftir voru með honum. En síðan riðu þeir á þingið, og komu áður á mót þeim frændur þeirra og vinir, sem þeir höfðu æst. En hinir heiðnu menn hurfu saman með alvæpni, og hafði svo nær, að þeir myndu berjast, að eigi um sá á milli. En annan dag eftir gengu þeir Gissur og Hjalti til lögbergs og báru þar upp erindi sín; en svo er sagt, að það bæri frá, hve vel þeir mæltu. En það görðist af því, að þar nefndi annar maður að öðrum votta, og sögðust hvorir úr lögum við aðra, hinir kristnu menn og hinir heiðnu, og gengu síðan frá lögbergi. Þá báðu hinir kristnu menn Hall
á Síðu, að hann skyldi lög þeirra upp segja, þau er kristninni skyldu fylgja; en hann leystist því undan við þá, að hann keypti að Þorgeiri lögsögumanni, að hann skyldi upp segja, en hann var enn þá heiðinn.
En síðan er menn komu í búðir, þá lagðist hann niður Þorgeir og breiddi feld sinn á sig og hvíldi þann dag allan og nóttina eftir og kvað ekki orð; en morguninn eftir Thingvalla-7settist hann upp og gjörði orð, að menn skyldu ganga til lögbergs. En þá hóf hann tölu sína upp, er menn komu þar, og sagði, að honum þætti þá komið hag manna í ónýtt efni, ef menn skyldu eigi hafa allir lög ein á landi hér, og taldi fyrir mönnum á marga vega, að það skyldi eigi láta verða, og sagði, að þáð mundi að því ósætti verða, er vísavon var, að þær barsmíðir gjörðust á
milli manna, er landið eyddist af. Hann sagði frá því, að konungar úr Noregi og úr Danmörku hefðu haft ófrið og orrustur á milli sín langa tíð, til þess uns landsmenn gjörðu frið á milli þeirra, þótt þeir vildu eigi. En það ráð gjörðist svo, að af stundu sendust þeir gersemar á milli, enda hélt friður sá, meðan þeir lifðu. „En nú þykir mér það ráð,” kvað hann, „að vér látum og eigi þá ráða, er mest vilja í gegn gangast, og miðlum svo mál á milli þeirra, að hvorirtveggja hafi nokkuð síns máls, og höfum allir ein lög og einn sið. Það mun verða satt, er vér slítum í sundur lögin, að vér munum slfta og friðinn.” En hann lauk svo máli sínu, að hvorirtveggja játtu því, að allir skildu ein lög hafa, þau sem hann réði upp að segja. Þá var það mælt í lögum, að
allir menn skyldu kristnir vera og skírn taka, þeir er áður voru óskírðir á landi hér; en um barna útburð skyldu standa hin fornu lög og um hrossakjötsát. Skyldu menn blóta á laun, ef vildu, en varða fjórbaugsgarði, ef vottum um kæmi við. En síðar fáum vetrum var sú heiðni af numin sem önnur.
Þennan atburð sagði Teitur oss að því, er kristni kom á Ísland.”

Heimild:
-Morgunblaðið, 30. júní 2000, bls. C8-C9.
-Landnáma (Sturlubók).
-Íslendingabók.

Þingvellir

Þingvellir.

Ármannsfell

FERLIR hafði fyrir skömmu hnitsett Hrafnabjargagötuna milli Hlíðargjár og fornbæjarins Hrafnabjarga.
Prestastigur-31Nú var ætlunin að rekja Prestastíginn, gleymda þjóðleið frá Barmaskarði um Hrafnarbjargaháls að Ármannsfelli. Þá var og tilgangurinn að rekja efri (nyrðri) hluta Hlíðarstígs milli Hrafnarbjargagötu og Prestastígs. Á milli þeirra gatna liggur síðan Hrafnabjargavegur áleiðis að Hrauntúni. Prestastígur lá um Litla-Hrauntún og átti því að skoða rústir þess eyðikots í leiðinni.
Lagt var af stað undir Stórkonugili í Ármannsfelli, skammt sunnan Hofmannaflatar. Á sléttum hraunhrygg mátti greina vörðubrot. Þegar að því var komið mátti sjá að þarna hafi fyrrum staðið myndarleg varða. Gata lá með henni með stefnu til suðausturs inn á Prestahraun. Norðvestan vörðunnar hallaði niður og mátti þar greina djúpa gróna götu. Við hlið hennar er fjárgata. Ljóst var að Prestastígurinn hinn forni væri nú vel gróin gata og við hlið hennar á hvora vegu mætti greina kindastíga, sem ekki mætti láta rugla leitina.
Prestastigur-32Brynjúlfur Jónsson frá Minna-Núpi skrifaði um Prestastíginn í Árbókina árið 1905: “Forn vegur liggur yfir ofanvert Þingvallahraun. Hann liggur frá Reyðarmúla (nú Reyðarbarmi til norð-vesturs yfir Hrafnabjargaháls, ofan af honum skamt vestur frá Hrafnabjörgum, norður hjá bæjarrústinni, sem þar er og svo þvert yfir hraunið til Ármannsfells og kemur á þjóðveginn litlu fyrir neðan Hofmannaflöt. Þessi vegur heitir Prestastígur. Er sagt að prestar af Vesturlandi hafl oft farið hann í Skálholtsferðum sínum. Og svo er að sjá, sem Sturla Sighvatsson hafi farið hann, er hann fór Apavatnsför. Það er miklu beinna en að fara um Þingvelli. En mjög er þessi leið ógreið víðasthvar, svo mjó að eigi getur farið nema 1 hestur í senn og að því skapi er hún grýtt. En hvar sem hún liggur um greiðfæra bletti, verður hún að mörgum og djúpum götum. Þar af sést, að allmikil umferð hefir verið þar fyrrum. Nú er Prestastígur ekki notaður.”

Prestastigur-33

Prestastígur er ekki merktur inn á kort og því var kærkomið að reyna að rekja hann í gegnum Prestahraunið, gegnum Litla-Hrauntún, yfir Hlíðargjá, um Kræklur, framhjá býlinu Hrafnabjörgum og áleiðis upp hálsinn suðvestan Hrafnabjarga(fjalls).
Í Lögréttu árið 1919 segir m.a. um Litla-Hrauntún: “Litla-Hrauntún stóð langt norðri á Þingvallahrauni hjer um bil miðja vegu milli Ármannsfells og Hlíðargjár. Liggur sú gjá norður af Hrafnagjá.” Þá segir um Hrafnabjörg: “Sá bær stóð fyrir ofan Hlíðargjá upp undan svokölluðum Prestastíg. Er sögn manna, að þar hafi verið hálfkirkja til forna. Þar sjest enn fyrir mannvirkjum.”

Prestholl-23

Rétt er að geta þess varðandi “hálfkirkjuna” að hennar er getið á uppdrætti Brynjúlfs af tóftunum af Hrafnabjörgum. Á þeim tíma, um og í kringum aldarmótin 1900, var jafnan reynt að staðsetja goðhús, hálfkirkjur eða bænhús við að það talið var fornar bæjarrústir. Það átti að vera til marks um aldur þeirra. Við seinni tíma rannsóknir á þessum “goðhúsum” hafa nánast engin þeirra reynst hafa verið slík.
Þegar gengið var um Prestahraun áleiðis upp í Kræklur mátti vel sjá hversu rýrt þetta forna hraun var af gróðri. Tré var helst að sjá undir hólum og í lægðum.
Í framangreindum skrifum í Lögréttu er fjallað meira um “Þingvelli við Öxará”: “Þingvallasveit er með einkennilegustu og fegurstu sveitum hjer á landi. Í fornöld mun hún líka hafa verið með bestu búsældarsveitunum, sem marka má af þjettbýlinu, sem þar hefur verið.
Nú er hún ekki nema skuggi einn hjá því sem áður var, hvað Prestholl-21búsældina snertir, — á þeim tíma er hún öll var gróðri vafin og skógi skrýdd. Í sveitinni er nú skógurinn takmarkaður á litlu svæði, á hrauninu norður af Þingvallavatni milli Almannagjár og Hrafnagjár. Og allstaðar bera þessar skógarleifar vott um, að þeim er ofþjakað af fjárbeit.
Hraunylurinn, jarðvegurinn og veðursældin hafa haldið skóginum við — þar sem hann er, annars væri hann fyrir löngu upprættur, og bæirnir komnir í eyði, sem mest nota hann. En allar líkur eru til að samt reki að því, fyr eða síðar, að hann hverfi með öllu, ef ekki verður tekið bráðlega í taumana.
Engar brigður er hægt að bera á það, að Þingvallasveit hefur öll verið skógivaxin í fornöld, og það jafnvel alla leið norður undir Skjaldbreið. Það sannar bæði landslagið, jarðvegurinn og loftslagið. Sveitin liggur langt frá sjó, en þó ekki hærra en 100—200 metra yfir sævarflöt. Saltir sævarvindar hafa ekki náð að blása inn á þetta svæði, er skapað hafi skóginum aldur.

Prestholl-22

Ekki stafar skógeyðingin heldur af eldgosum eða skriðum. Hún á eingöngu rót sína að rekja til óskynsamlegrar aðferðar mannanna sjálfra, sem búið hafa við skóginn. Þeir hafa rifið hann upp með rótum, höggið hann takmarkalaust og ofboðið honum með fjárbeit. Mörgum hefur verið illa við skóginn, þótt hann tefja fyrig smalamensku og rýra ullina á sauðfjenu á vorin, og óskað honum því norður og niður. Þess eru dæmi enn í dag, að bændur á skógjörðunum hafa haft það á orði, og þeir væru búnir að kveikja í skóginum og brenna hann til kaldra kola, ef þeir vissu það ekki fyrirfram, að landið mundi blása upp á eftir og breytast í gróðurlausa auðn.
Hræðslan við þetta hefur hlíft skóginum á einstaka stað á Litla-Hrauntun 21landinu. En menn hafa þó ekki alstaðar verið svo skynsamir að sjá þetta — fyr en eftir á, — þess vegna hefur verið herjað á skóginn með fjárbeit, eldi og járni, — gengdarlaust og fyrirhyggjulaust, hann upprættur á stórum svæðum og landinu breytt í eyðimörk.
Í Þingvallasveit hlaut skógurinn fyrst að hverfa af bersvæði, hálsum, hæðum og halllendi, þar sem ekkert skjól var í neinni átt, og minst var mótstöðuafli gegn eyðingunni. Jafnskjótt og skógurinn hvarf breyttust skilyrðin fyrir hann að vaxa upp aftur, enda hafði hann ekkert næði til þess vegna sauðfjárbeitar. Og þegar skógurinn var horfinn alstaðar í sveitinni, nema á litlum bletti í Þingvallahrauni, fengu allir bændur í sveitinni samt undantekningarlaust aðgang að skóginum til fjárbeitar, kolagerðar, eldiviðar og raftviðar.
Vegna þess hve mikið orð fór af skógargæðunum í Þingvallahrauni, náðu bændur úr öðrum Litla-Hrauntun 22hjeruðum ítaki í honum, gerðu þar til kola, og sóttu þangað óspart eldsneyti. Í eina tíð átti Skálholtskirkja ítak í Þingvallaskógi. Þá var og sóttur viður í Þingvallaskóg neðan úr Grafningi, hjeðan af Suðurnesjum og vestan úr Kjós. Engan þarf því að furða þótt skógarleifarnar i Þingvallahrauni sjeu nú rýrar, eftir alt sem á undan er gengið.
Jarðabók Árna Magnússonar telur 30 jarðir i Þingvallasveit árið 1711; af þeim voru 14 í eyði. Ennfremur hafði Á. M. það eftir munnmælum, að 50 bæir hefðu verið i sveitinni fyrir pláguna miklu (Svartadauða) 1402, og að Hrafnabjargir hafi staðið í miðri sveit. Sá bær stóð langt norð-austur í hrauninu niður undan Hrafnarbjargaklettum. Umhverfis þann stað er nú gróðurlaust og berblásið hraun að kalla má. Bygðabýli í Þingvallasveit eru nú 16 að tölu og eyðibýlin 15, sem menn vita fyrir víst að voru í ábúð fyr á tímum. Flestöll eru þau nefnd í jarðabók Á. M. Og eru þau þessi:

Prestastigur-35

1. Bárukot fyrir ofan Almannagjá, en norðan Öxarár. Var af sumum mönnum bær þessi kallaður Þverspyrna eða Fótakefli. Kotið var fyrst bygt árið 1684, og var í ábúð aðeins 8 ár og lagðist svo í eyði.
2. Grímastaðir eða Grímakot var skamt fyrir norðan Bárukot. Árið 1711 sást þar votta fyrir garðhleðslu og mun að líkindum sjást fyrir henni enn. Bær þessi mun áður hafa heitið
Grímsstaðir og kendur við Grím hinn litla, sem getið er um í Harðarsögu og Hólmverja, og bygði hann þar fyrstur og hafði stórt bú.
3. Múlakot, af sumum nefnt Mosastaðir, var sunnan undir Sleðási norður við Ármannsfell. Um 1680 var sá bær bygður upp úr fjárhúsum frá Svartagil. Ekki hafði það verið í ábúð nema eitt eða tvö ár.
4. Litla-Hrauntún stóð langt norðri á Þingvallahrauni hjer um bil miðja vegu milli Ármannsfells og Hlíðargjár. Liggur sú gjá norður af Hrafnagjá.
5. Hrafnabjörg. Sá bær stóð fyrir ofan Hlíðargjá upp undan svokölluðum Prestastíg. Er sögn manna, að þar hafi verið hálfkirkja til forna. Þar sjest enn fyrir mannvirkjum.
6. Bövarshóll er örnefni í skóginum skamt frá Vellankötlu. Býli þetta var komið í eyði löngu fyrir 1700. — Sagt er að býlið hafi tekið nafn af Böðvari nokkrum, sem kvað hafa bygt það fyrstur. Um 1680 er sagt, að maður nokkur að nafni Sæfinnur nafi búið þar rúmlega hálft ár eða svo, og hafi þar dáið.

Prestastigur-36

7. Ölkofra var bær norðaustur í hrauninu frá Þingvöllum. Fyrir austan Skógarkot er enn þá örnefni, sem heitir Ölkofrastaðir og Ölhóll. Mun sá bær hafa dregið nafn af Þórhali. Ölkofra, sem Ölkofra-þáttur er af. Gerði Ölkofra öl á alþingi til fjár sjer. Hann kveikti í Goðaskógi í Þingvallahrauni. Þá var bær hans kallaður Þórhallastaðir í Bláskógum. Bær þessi var í ábúð um 1700, en þar áður ýmist bygður eða í eyði.
8. Þórhallastaðir. Sá bær lagðist í eyði í Svartadauða, en löngu seinna er sagt, að bærinn hafi verið bygður upp aftur þar sem Skógarkot er nú, og að þar hafi þeir staðið áður. Hjer virðist eitthvað blandað málum með eyðibýlin. Að líkindum hafa Þórhallastaðir og Ölkofra verið sami bærinn, og ýmist verið kenndur við Þórhall eða Ölkofra, og færður þangað, sem Skógarkot er nú. Þó ei ekki loku fyrir það skotið, að hjer geti verið um tvo bæi að ræða.
9. Eiríksstaðir eru sagðir að hafa staðið fyrir norðan Mjóafell, milli þess og Skjaldbreiðar. Bæiar þessa er getið í Bárðarsögu Snæfellsáss og Ármannssögu. Eiríkur frá Eiríksstöðum var einn þeirra manna sem glímdu á Hofmannafleti.
10. Fíflavellir áttu að hafa verið í landsuður frá Skjaldbreið. Getið er um þenna bæ í Ármannssögu.
11. Rótólfsstaðir voru norðan undir Miðfellsfjalli.
12. Kárastaðakot var bygt úr Kárastaðalandi um 1685. Þar var búið í 6 ár, svo lagðist það i eyði.
Prestastigur-3413. Neðridalur var bær í dalnum norður af Stíflisdal. Hann lagðist í eyði í Svartadauða. Um 1700 sást þar votta fyrir girðingum og tóttum.
14. Hólkot var í landsuður frá Stíflisdal. Þar var bygð fyrir Svartadauða. Sagt er, að þar hafi sjest fyrir tóftum og garðhleðslu.
15. Móakot var bygt á 19. öld, milli Skálabrekku og Heiðabæjar. Það var í ábúð aðeins sárfá ár.
Hvort nokkuð er hæft í því, að 50 bæir hafi verið í Þingvallasveit á 13. og 14. öld og þar áður, og að Hrafnabjargir, sem áður eru nefndar, nafi staðið í miðri sveit, er ekki hægt að fullyrða; hefur það ekki verið rannsakað. En ekki er ósennilegt að svo hafi verið, því að skógarsveitir voru yfirleitt mjög þjettbýlar til forna. Til þess að ganga úr skugga með það, þarf að rannsaka alt það svæði, sem líkindi eru til að bygðin hafi náð yfir í Bláskógum. Sagt er, að enn sjáist leifar af tóftum norður undir Skjaldbreið. En hvort það eru fornar bæjarrústir, vita menn ekki. Svo gæti víðar fundist, ef vel væri leitað. Hafi bygð verið áður í Þingvallahrauni, á skóglendi, þar sem nú er algerlega berblásin jörð, hafa bæirnir lagst í eyði af öðrum orsökum en þeim, að menn fengjust ekki til að búa á jörðunum, ef það hefði verið nokkur leið. Jarðirnar lögðust í eyði sökum þess, að skógurinn var rifinn og upprættur með öllu, en landið bljes upp og varð óbyggilegt.

Hlidargja-21

Að líkindum hefur alt svæðið fyrir norðan og austan Þingvallavatn heitið Bláskógar til forna. Hefur það verið mjög víðáttumikið land, og alt skógi vaxið. Í útjöðrum skógarins, þar sem bygðin náði lengst til fjalla, var jarðvegurinn, að líkindum, mjög þunnur ofan á hrauninu, þar var hættan mest fyrir uppblæstri. Enda byrjaði uppblásturinn þar. Vindurinn skóf jarðveginn alveg ofan á hraun, þar sem skógurinn var upprættur, og jafnt í kringum býlin sem annarstaðar. Skógarkjörrin sem stóðu eftir hjer og hvar í afdrepi hjeldust ekki við til lengdar. Þegar alt var berblásið í kring um þau, vindur og vatn svarf að utan, þangað til allur gróður var upprættur. Túnkragarnir kringum kotin stóðu lengst, því að þar var ofurlítil rækt í jarðveginum, og gróðurmoldin þjettari fyrir, en urðu þó að lokum vindi og vatni að bráð, svo ekki sást örmull eftir af þeim heldur.

Prestholl-24

Skógeyðingin og uppblástur landsins færðist smámsaman suður eftir Þingvallahrauni og tók með sjer hvert býlið á fætur öðru og jafnaði þau að jörðu. Það er því ekki að undra, þótt litlar eða engar menjar sjáist eftir horfnu býlin í Þingvallasveit. Nú eru að eins eftir 4 býli í Þingvallahrauni; verður ekki annað sjeð, en að þau eigi fyrir höndum sömu útreið og horfnu býlin.
Skóginum er spilt enn í dag á þessu svæði, og landið blæs árlega upp. Þegar hraunið er orðið bert og nakið, verður það smámsaman mosavaxið. Með tímanum fúnar mosinn og myndar nýjan jarðveg, — nýja gróðurmold. — Jurtafræ berst á ný yfir á jarðveginn og festir þar rætur, og hraunið klæðist aftur grösum og skógi.
Náttúran ræktar sig sjálf á þennan hátt, ef hún Prestholl-25má vera sjálfráð; en til þess þarf hún að njóta algerðar friðunar um langan aldur. Skógurinn hefur hingað til verið lifæð býlanna á Þingvallahrauni. Jafnskjótt og hann hvarf, hurfu býlin líka. Og þessir 4 bæir: Þingvellir, Skógarkot, Hrauntún og Vatnskot, sem segja má að sjeu leifar af heilli sveit í Þingvallahrauni, standa og falla með skóginum. Þeir hverfa úr sögunni fyr eða síðar, af sjálfsdáðum, þegar skógurinn er horfinn. Ef ekki tekst að halda í skóginn, verður fornhelgi þingstaðurinn — hjarta landsins, sem kallað er — svo útleikinn í framtíðinni, að þar sjást engar minjar fornra mannvirkja, og umhverfi hans eintóm gróðurlaus eyðimörk. Það var níðingshönd, sem breytti skóglendinu í gróðurlausa auðn og öræfi. Og það þarf volduga verndarhönd til að hjálpa náttúrunni að græða og bæta aftur það, sem spilt hefur verið. Verður það ekki gert með öðru mót, en að afgirða svo vítt svæði, sem skógur vex á í Þingvallahrauni, eða svæðið frá Ármannsfelli, milli Almannagjár og Hrafnagjár, suður að Þingvallavatni. 

Hrafnabjorg-27

Gera síðan Þingvelli að friðlýstum þjóðskemtigarði til gagns og gleði fyrir þjóðina, og hafa þar griðastað öllum íslenskum jurtategundum, sem þar geta þrifist og aukið kyn sitt, óáreitt um aldur og æfi. Þetta getur ekki komist í framkvæmd, nema því að eins að búpeningsrækt sje útrýmt á þessu svæði. Og þá verður að taka ábúð af 4 býlum, sem eru á Þingvallahrauni, og áður eru nefnd. En búskapnum hefur alt af farið hnignandi öld eftir öld á jörðum þessum. Því til sönnunar má geta þess, að árið 1397 voru 14 kýr á Þingvöllum, en 1711 voru þær ekki orðnar fleiri en 7. Nú mun ekki hægt að hafa þær fleiri en 3. Hrauntún var 1711 selstöð frá Þingvöllum. Þar var ekki sjálfstæð ábúð fyr en á 19. öld. Má þar nú hafa 1—2 nautgripi. Á Skógarkoti voru árið 1711 9 nautgripir. Nú munu þar vera 2—3.

Prestastigur-37

Á Vatnskoti voru þá 4 kýr og 3 geldneyti. Túnkraginn gefur nú ekki af sjer hálft kýrfóður, hvað þá meira. Enda hefur kotið lengi verið í eyði. En fyrir nokkrum árum síðan var það tekið í ábúð. Á þessum 4 jörðum eru engar útheysslægjur, eða hafa verið, aðrar en þær, sem sækja verður langt út fyrir Þingvallahraun. Af þessu má sjá, að búskapnum hefur farið hnignandi að sama skapi og skóginum. Jarðirnar gefa nú ekki af sjer meira ræktað fóður en ein lítilfjörleg jörð annarstaðar á landinu. Á Þingvöllum er fjölbreyttari og einkennilegri náttúra, en í nokkurri annari sveit á Íslandi.

Prestastigur-38

Auk þess er staðurinn svo frægur úr sögu landsins, að þjóðgarður á þessum stað mundi bera órækan vott um ræktarsemi Íslendinga til sögu þjóðar sinnar, engu síður en til náttúru landsins. Mönnum er nokkurn veginn ljóst, hvar merkustu og helstu sögustaðirnir eru á Þingvöllum. Þar verður að setja glögg merki, sem sýna við hvaða menn og atburði þeir eru tengdir, svo að menn, sem koma á þingstaðinn, geti áttað sig á þeim. Eins og áður er drepið á, verður að taka ábúð af jörðunum í Þingvallahrauni, til þess að þjóðgarðsstofnunin geti náð tilgangi sínum.
Fáir eða engir munu neita því, að þjóðgarðsstofnun á Þingvöllum sje rjettmæt. Og staðurinn vel þess virði, að svo verði með hann farið. En það gagnar lítið að viðurkenna þetta í orði, án þess að gera eitthvað til að koma þeirri hugmynd í framkvæmd. G. D.”
MeyjarsaetiÞegar komið var yfir Hlíðargjá og upp í Kræklur blasti Presthóll, sprunginn hraunhóll, við. Við skoðun í og við hólinn komu í ljós leifar af hlöðnu skjóli og tóft, líklega sæluhús. Skjólið er inni í hólnum en tóftin fast suðaustan við hann.
Prestastígnum var fylgt upp fyrir tóftir Hrafnabjarga – og síðan til baka að Ármannsfelli. Stígurinn er enn vel greinilegur ef athyglinni er haldið. Sem fyrr sagði er hann víða gróinn, en kindagata fylgir honum drjúgan hluta leiðarinnar. Leiðin er auðgengin og einstaklega falleg á að líta.
Tækifærið var notað til að hnitsetja stíginn.
Frábært veður. Gangan tók 6 klst og 6 mín.

Heimildir m.a.:
Árbók Hins íslenska fornleifafélags 1905, Brynjúlfur Jónsson, bls. 47.
-Lögrétta, 14. árg. 19. tbl. 07.05.1919, Þingvellir við Öxará, bls. 67.

Hrafnabjörg

Hrafnabjörg.

Hrafnabjörg

Ætlunin var að ganga í svonefnt Fornasel norðan Arnarfells, en þar ku hafa verið forn selstaða frá Þingvallabænum.
Fornasel-22Þá átti að halda upp með ofanverðri Hrafnagjá að Rauðhól, en grunur er um að þar sunnan hólsins kynnu að leynast mannvistarleifar. Loks átti að ganga inn með vestanverðum Hrafnabjörgum að svæði sem ekki ólíklega kynni að geyma leifar Hrafnabjarga-bæjarins hins forna.
Fornasels er getið á landakorti og er það staðsett norðan undir Arnarfelli norðaustan Þingvallavatns. Þegar gengið var áleiðis að selinu var komið inn á gamla götu er lá áleiðis að Arnarfelli. Gatan var augljós þar sem sem hún kom undan kjarrinu. Selstígurinn lá af henni niður undir gróinn bakka og að seltóftunum ofan vatnsbakkans. Beint undir þar sem stígurinn kemur niður er ferhyrnd hleðsla, gróin. Í Fornaseli eru augljóslega bæði eldri og nýrri seltóftir. Þær eldri eru sunnan þeirra nýrri. Í þeim sést móta fyrir a.m.k. tveimur rýmum og virðast þau hafa verið óreglulegri en sjá má í nýrri seltóftunum. Í þeim eru fjögur rými; eldhús vestast, baðstofa og búr og hliðarrými austast. Gæti hafa verið fiskgeymsla. Stekkurinn er suðaustan við selið og sést móta fyrir honum.
Fornasel-26Þegar nýrra selið er skoðað má telja líklegt að það hafi verið byggt af sama aðila og Sigurðarsel þarna norður af (sjá HÉR), en stærð þess og gerð virðist svo til nákvæmlega eins. Þessar tvær selstöður hafa þá líklega verið í notkun samtímis, enda virðast gróningarnar í tóftunum nánast eins í þeim báðum.
Þá var haldið upp með ofanverðri Hrafnagjá, framhjá Svínhólum og norður Hlíðarveg neðan Hlíðargjár. Glögg augu komu fljótlega á stíg upp í og yfir gjána. Honum var fylgt áleiðis að Hrafnabjörgum. Svo heppilega vildi til að gatan leiddi þátttakendur beint að hinum fornu rústum Hrafnabjargabæjarins. Þar mátti enn sjá hleðslur í veggjum og a.m.k. þrjú rými, hluti af garðhleðslu og brunn. Bæjarstæðið er á fallegum stað, snýr mót suðri með útsýni yfir að fjallinu tignarlega.
Hrafnabjorg-24Sigurður Vigfússon skrifaði m.a. eftirfarandi í Árbókina 1880-1881: “Vestr frá Hrafnabjörgum sést votta fyrir gömlum bæjarrústum; þar vottar og fyrir því, að tún hafi þar getað verið, og þar er gjóta eða hola, sem litr út fyrir að hafa verið brunnr. Í Ármannssögu er talað um bæ undir Hrafnabjörgum.” Brynjúlfur Jónsson getur um rústina í skrifum sínum í Árbókinni 1905: “Sé á hinn bóginn Hrafnabjargarústin hin rétta Grímsstaðarúst, þá virðist orðunin: »ok svá til Grimsstaða« vera ofaukið í frásögninni um ferð Indriða. Og víst er um það, að úr því Indriði fór Jórukleif, þá var beinna fyrir hann að fara ekki um Grímagil, heldur vestar. Og að Grímsstöðum átti hann varla erindi, úr því viðkomandi fólk var alt burt þaðan.

Hrafnabjorg-25

En hugsanlegt er, að söguritarinn hafi ekki athugað þetta, og því talið víst, að Indriði kæmi að Grímsstöðum áður hann fór vestur. En líka getur verið, að Grímastaðir hafi þá verið bygðir og Indriði farið þar um af einhverjum orsökum, og væri þá að eins stafvilla í sögunni: »til Grímsstaða«, i staðinn fyrir: »til Grímastaða«, eða enn heldur: til »Grímarsstaða«, sem að öllum líkindum er upprunanafn þessa býlis. Þannig hneigist eg helzt að þeirri ætlun, að Grímsstaðir, þar sem Grímur lítli bjó, hafi verið undir Hrafnabjörgum.”

Raufholl

Eftir að hafa skoðað rústirnar var kíkt á Prestastíginn, en hann liggur framhjá tóftunum með stefnu til norðurs og suðurs. Presthóll sést ekki frá bæjarstæðinu. Um Prestastíginn skrifaði Brynjúlfur: “Forn vegur liggur yfir ofanvert Þingvallahraun. Hann liggur frá Reyðarmúla (nú Reyðarbarmi til norð-vesturs yfir Hrafnabjargaháls, ofan af honum skamt vestur frá Hrafnabjörgum, norður hjá bæjarrústinni, sem þar er og svo þvert yfir hraunið til Ármannsfells og kemur á þjóðveginn litlu fyrir neðan Hofmannaflöt. Þessi vegur heitir Prestastígur. Er sagt að prestar af Vesturlandi hafl oft farið hann í Skálholtsferðum sínum. Og svo er að sjá, sem Sturla Sighvatsson hafi farið hann, er hann fór Apavatnsför. Það er miklu beinna en að fara um Þingvelli. En mjög er þessi leið ógreið víðasthvar, svo mjó að eigi getur farið nema 1 hestur í senn og að því skapi er hún grýtt. En hvar sem hún liggur um greiðfæra bletti, verður hún að mörgum og djúpum götum. Þar af sést, að allmikil umferð hefir verið þar fyrrum. Nú er Prestastígur ekki notaður.”
Í bakaleiðinni var gengið um Gildruholt með viðkomu í Rauðhól. Líklegt má telja að hljóðvilla hafi breytt nafninu á einhverju stigi því líklegra er að hann hafi heitið Raufhóll. Í hólnum er varðað skjól. Engin ummerki eftir mannvistarleifar var hins vegar að sjá sunnan undir hólnum, nema ef vera skyldi Gjábakkafjárskjólið.
Tækifærið var notað til að hnitsetja Hrafnabjargagötuna.
Frábært veður. Gangan tók 8 klst og 8 mín.

Heimildir m.a.:
-Árbók Hins íslenska fornleifafélags, Um Þingvöll og Þingvallasveit, Sigurður Vigfússon, 1880-1881, bls. 43.
-Árbók Hins íslenska fornleifafélags 1905, Brynjúlfur Jónsson, bls. 47.

Hrafnabjörg

Hrafnabjörg – uppdráttur.

Sigurðarsel

Á ýmsum kortum af Þingvallasvæðinu má sjá örnefnið “Sigurðarsel”, en bara á jafn mörgum stöðum og kortin eru mörg. Á sumum þeirra er selið skráð sunnan þjóðvegarins í gegnum þjóðgarðinn, sunnan við svonefndan Klukkustíg, og á öðrum er það staðsett skammt norðan þjóðvegarins. Á öllum kortunum er selið þó staðsett austast í Þingvallahrauni, vestan Hrafnagjár.

Hellishaedarhellir

Þegar FERLIR var að fylgja sjálfboðaliða-samtökum um náttúruvernd um Þingvallahraun daginn eftir þjóðhátíðardaginn 17. júní með það fyrir augum að rekja fornar götur, s.s. að Hellishæðahelli, um Svínhóla og síðan Klukkustíg frá Hrafnagjá að Þórhallsstöðum austan Skógarkots, birtist selið skyndilega uppljómað í heiðinni.
Reyndar kostaði það nokkurra mínútna undirbúning á áningarstað vestan undir Svínhólum eftir að komið hafði verið við í hellinum í Hellishæð. Í Jarðabókinni 1703 mátti lesa eftirfarandi um selstöðuna frá Þingvallabænum: “Selstöðu góða á staðurinn í sínu landi, en þar er örðugt til vatns í þerra sumrum, því brunnurinn þornar aldeilis upp.”
Í örnefnalýsingu um Þingvallahraunin er birtist í Árbókinni 1937-1939 mátti lesa eftirfarandi um svæðið umleikis og  Sigurðarsel (Þingvallarsel): “Frá Gjábakkastíg vestur að Tjörnum hækkar hraunið norður-eftir, norður fyrir Þingvallahelli; er svo að mestu leyti flatt norður-af Sigurðarseli og Hellishæð og vestur-að Hábrún, en hallar þaðan vestur- að Mosalág og Lágbrún.
Sigurdarsel-4Þetta heitir einu nafni Brún. Þetta var þrautastaður, að því er sauðbeit snerti á vetrum, bæði fyrir hraunbúa og aðra; jafnvel var f je rekið þangað til beitar austan úr Laugardal.
Eins og áður er sagt, heitir Klukkustígur þar, sem hverfur hallinn á vestri barmi Hrafnagjár. Alla leið þangað frá Hallstíg er gjáin djúp, breið og að öllu hin hrikalegasta. Þar fyrir norðan verður austurbarmurinn hár á dálitlum kafla, en vesturbarmurinn nær því jafn hrauninu, enda hækkar það þar á ný og hallar mót suðvestri; heitir sá halli Sigurðarsel. Sunnan í því er stór og falleg brekka, sem heitir Sigurðarselsbrekka; suður frá henni, vestur af Klukkustíg, er stór hóll, sem heitir Klukkustígshóll. Á gjánni, þar sem barmar hennar eru orðnir jafnir, er Selstígur; þar norður-frá eru fornar tóftir, sem má ske hafa verið hið virkilega Sigurðarsel. Skógur var um 1900 stærstur og sverastur í Sigurðarseli, en þar fyllist fljótt að snjó, sjerstaklega í norðaustan-hríðum.

Sigurdarsel-5

Sigurðarsel – uppdráttur ÓSÁ.

Við norðvestur-horn Sigurðarsels[hæðar] er Hellishæð. Það er há hæð, sem snýr h.u.b. í austur og vestur, með skógi vaxna grasbrekku að sunnanverðu. Uppi á henni er hellir, ei all-lítill, sem notaður var frá Skógarkoti til fjárgeymslu. Hann var mörgum hellum betri að því leyti, að hann var talsvert hár, en blautur var hann þar, sem gólfið var lægst. Lægð lítil er við vesturenda Hellishæðar; fyrir
vestan hana er Litla-Hellishæð, dálítill hóll með vörðubroti; sunnan undir henni, niður á Brún, er klettahóll, sem heitir Þorkelsklettur. Norðvestur frá Litlu-Hellishæð er stór, sundurtættur klappahóll, sem heitir Ketilhöfðaklettur.”
Þetta verður að teljast sérstaklega merkur fundur, bæði vegna þess að líklega hefur enginn núlifandi maður áður litið tóftirnar augum og auk þess verður staðsetningin að teljast merkilegt innlegg í sögu búsetu á Þingvöllum fyrr á öldum. Selstaðan er á mjög fallegum stað með tilkomumiklu útsýni yfir Þingvallahraunið. Um er að ræða heilstaðan selsklasa með baðstofu og búri og hliðstæðu eldhúsi. Mikið hefur verið lagt í að gera vatnsbólið nýtilegt með ganghleðslum umleikis. Tvískiptur hlaðinn stekkur er skammt norðan við selið.
Ekki er ólíklegt að sauðaskjólið í Hellishæð hafi tengst selstöðunni fyrrum.
Annars hylur birkiskógur minjarnar svo önnur en vel þjálfuð leitaraugu eiga mjög erfitt að koma auga á þær, sem betur fer.
Ferðin um Þingvallahraunið var farin með félögum í Sjálfboðasamtökum um náttúruvernd (SJÁ).
Frábært veður. Gangan tók 4 klst og 4 mín.

Heimildir m.a.:
-Jarðabókin 1703, Þingvellir.
-Árbók Hins íslenska fornleifafélags, örnefni í Þingvallahrauni, bls. 147-149.

Sigurðarsel

Sigurðarsel.

Þingvellir

Eftirfarandi texti eftir Matthías Þórðarson um búðartóftir á og við Þingvelli við Almannagjá, “Fornleifar á Þingvelli”, búðir, lögrjetta og lögberg, birtist í Árbók Hins íslenska fornleifafélags 1921-1922 og síðan aftur í Árb. 1941-1942. Textinn í fyrrnefndu greininni er 70 bls. svo einungis inngangurinn birtist hér til að leggja áherslu á tóftirnar, sem víða er að finna á og við hinn forna þingstað.

 

Logberg

“Eins og mörgum mun kunnugt, eru enn í dag sýnilegar allmargar búðarústir og tóttaleifar á Þingvelli, allar vallgrónar og lágar, sumar heillegar og greinilegar, aðrar mjög ógreinilegar. Enn fremur eru á hinum eystri barmi Almannagjár, rjett hjá búðatóttunum, leifar af mannvirki, er þar virðist hafa verið gert í sambandi við alþingishaldið, flatri upphækkun, sem af ýmsum fræðimönnum á síðustu öldum, Jóni Ólafssyni frá Grunnavík fyrstum, hefir verið álitin vera hið forna lögberg, eða eiginlega mannvirki, gert til umbóta á lögbergi svo sem það var frá náttúrunnar hendi. Niður undan þessari upphækkun, og þó litlu norðar, er útflatt, allstórt mannvirki, leifar lögrjettunnar, sem þar var bygð á 17. öldinni. Loks er á Spönginni svo nefndu, þar sem sumir nú um tveggja alda skeið hafa álitið lögberg hafa verið, og er hins vegar við sjálfan þingvöllinn, kringlótt upphækkun eða hringmynduð tótt og önnur ferhyrnd innaní; er þetta nefnt dómhringur (eða »dómhringar«), eða var nefnt svo til skamms tima að minsta kosti.
Thingvellir-137Sigurður málari Guðmundsson, höfundur Þjóðminjasafnsins, er einnig upphafsmaður fornfræðilegrar rannsóknar á Þingvelli, og hóf hann þær rannsóknir áður en safnið varð stofnað. Í brjefi til Jóns Sigurðssonar, líklega rituðu vorið 1863, kemst hann svo að orði um fyrstu upptök þessara rannsókna: »Árið 1860 fór eg til Geysis og skoðaði þá Þingvöll, og myndaði þar þá lögberg og fleira.
Síðan fór eg að fá eins konar áhyggjur út af því, að jafn-merkur staður í sögu landsins lægi þannig alveg órannsakaður, og skrifaði eg um haustið Guðbrandi (svo sem þjer víst hafið orðið varir við), og beiddi hann að komast eftir, hvort þar ytra væru til nokkrar upplýsingar um Þingvöll, en fjekk 13. október1 það svar, að þar væri ekkert til, því máli til upplýsingar. Eg hjelt þá, að enginn hugsaði neitt um það málefni, og fór eg þá um veturinn að rannsaka Þingvöll eftir sögunum*.
Thingvellir-138Vitanlega höfðu margir getið um Þingvóll og alþingishaldið þar í ritum sínum, svo sem sjá má t. d. í Landfr.s. Ísl.s, í ferðabók Eggerts Ólafssonar og Bjarna Pálssonar (á víð og dreif) o. fl. Tveir — þrír uppdrættir höfðu verið gerðir af Þingvelli; um einn sbr. Kálunds Ísl. beskr., L, 148, aths.; sá uppdráttur (mynd) er nú í vörzlum Þjóðminjasafnsins; og um annan sjá Ant. Ann. IV., bls., 450 (1827); er það uppdráttur, sem þjóðminjasafni Dana var gefinn 1824, en sá uppdráttur er nú ekki vís. — Sigurður málari hefir og getið þess í skrifum sinum, að Bjarni Thorsteinsson hafi átt mjög lítið kort af Þingvelli, en að lítið muni hafa verið á þvi að græða.
Thingvellir-139Eins og síðar skal vikið að nánar, lauk Sigurður málari ekki við rannsóknir sínar á Þingvelli eða rit sitt um hann; lá víst starf hans í þá átt mjög lengi niðri, sennilega 10 hin síðustu æviár hans; en ýmsu hafði hann safnað.
Síðan hafa ýmsir skrifað um Þingvöll. Einna fyrstur George Webbe Dasent, dálitla ritgerð, með uppdrætti, í I. b. af útleggingu sinni af Njáls-s., 1861, bls. cxxiii o. s. frv. Búðatóttunum hefir fæstum verið lýst nokkru sinni greinilega í ritgerðum um Þingvöll, en upphækkunina á gjárbarminum og mannvirkin á Spönginni, sem eru beint þar austurundan, 300 m. frá, rannsakaði Sigurður Vigfússon nokkuð með grefti og mældi, snemma sumars 1880; eru skýrslur um þær rannsóknir hans hið fyrsta, er ársrit þetta birti (Árb. 1880—81, bls. 8 o. s. frv.), enda gerðar að fyrirlagi Fornleifafjelagsins, sem hafði þá nýlega (8. nóv. 1879) verið stofnað, einmitt til þess fyrst og fremst, að fá framkvæmdar þessar og fleiri rannsóknir á Þingvelli.
Um leið rannsakaði S. V. 2 af hinum fornu búðatóttum, þær sem nefndar voru byskupabúð og Njáls-búð, og Thingvellir-139dálítið hina, Snorra-búð. í sambandi við skýrslur sínar um þessar rannsóknir, ritaði S. V. jafnframt um ýmislegt annað, viðvíkjandi Þingvelli og umhverfl hans, dró upp mynd af honum og jók nöfnum við á uppdrátt (»kort«), sem Björn Gunnlögsson hafði gert um 20 árum áður, 1861. Eftir að öll þessi 3 kort og 3 ritgerðir höfðu komið út, Kálunds og kort Björns 1877, S G. með korti hans (og B. Gr.) 1878 og S.V. með korti B. Gunnl, auknu af S. V. sjálfum 1881, varð aftur hlje á rannsóknunum á sjálfum staðnum, en almennt viðurkend niðurstaða ekki fengin í lögbergsmálinu.
Landmælingadeild herforingjaráðsins danska gjörði uppdrátt af Þingvelli árið eftir, 1908, og gaf hann út 1910; stærðin var 1 : 5000, miklum mun stærri en útgáfurnar af uppdrætti Björns Gunnlögssonar, (sem voru hluti af frumkortinu, 1 : 6912). Þessi nýi uppdráttur náði og yfir nokkru stærra svæði; jafnframt gerði landmælingadeildin uppdrætti af öllu umhverfinu og gaf út næsta ár (1909); voru það blöð af hinu stærra Íslands-korti hennar, stærðin 1 : 50000. Þessir uppdrættir eru vitanlega rjettir að því er mælingar og afstöðu snertir, en ekki með nægilega mörgum nje rjettum nöfnum á, og eiga þessi blöð að því leyti sammerkt við önnur blöð af þessum mikla lands-uppdrætti. — Á Þingvalla-kortinu eru flestar búðatóttirnar markaðar, en hvorki mannvirkið á gjárbarminum lægri fyrir norðan Snorra-búð, nje mannvirkin á hinu svonefnda Lögbergi, og að ýmsu leyti er kort þetta ekki nægilega nákvæmt til að sýna þennan margbreytta stað með öllum hans einkennum.
Thingvellir-143Í mörgum af fornsögum vorum og Sturlunga-sögu eru nefndar ýmsar búðir á Þingvelli, sumar austan ár, en aðrar vestan. Um enga þeirra er neins staðar tekið fram nákvæmlega, hvar hún hafi verið, svo nákvæmlega, að nú sje hægt að benda á staðinn, t. d. á búðartótt þar nú. Þó hefir Sigurður málari Guðmuudsson, eins og áður var drepið á, reynt að gera það í riti sínu um Þingvöll, bls. 9—27 (»búðir, eldri en Sturlunga tíð«) og 28—35 (»búðir Sturlunga«); reynir hann að ákveða, hvar búðirnar hafi verið, af frásögnunum, en einkum af katastasis Sigurðar lögmanns Björnssonar. Á uppdrætti sínum setur hann búðirnar með hinum fornu nöfnum, bæði þar sem nú sjást tóttir og þar sem nú verður á engan hátt sjeð, að búðir hafi nokkru sinni verið bygðar. — Björn Gunnlögsson setti
einnig samkvæmt katastaais Sigurðar Björnssonar, og líklega nokkuð eftir tillögum Sigurðar Guðmundssonar, fornbúðanöfnin sum á tóttir þær, er hann roarkaði á sinn uppdrátt.

Búðaskrá
Thingvellir-144Samanber meðfylgjandi uppdrátt af Þingvelli.
1. Búð Lýðs Guðmundssonar, sýslumanns í Vestur-Skaftafellssýslu 1755—1800.
2. Búð Jóns Helgasonar, sýslumanns í Austur-Skaftafellssýslu 1759—1798.
3. Búð Magnúsar Ketilssonar, sýslumanns í Dalasýslu 1754—1803.
4. Búð Guðmundar Ketilssonar, sýslumanns í Mýrasýslu 1778—1806.
5.—7. Óvíst hverra búðir. I Snorrabúð goða Þorgrímssonar. — Búð Sigurðar Björnssonar, lögmanns sunnan og austan 1677—1705, Sigurðar sonar hans, sýslumanns í Árnessýslu 1724—45, og síðast Magnúsar Ólafssonar lögmanns 1791 —1800.
10. Byrgi, tilheyrandi Snorra-búð að líkindum.
11.—12. Óvíst hverra búðir.
13. Búð Magnúsar Gíslasonar, lögmanns sunnan og austan 1732 — 1756; síðar amtmanns, sbr. amtmannsbúð, nr. 28. — Síðar mun Ólafur Thingvellir-145Stephánsson, seinna amtmaður og stiptamtmaður hafa tjaldað þessa búð, og loks dr. Magnús Stephensen, sonur hans, varalögmaður og lögmaður 1788—1800.
14. Búð Benedikts Þorsteinssonar, lögmanns norðan og vestan 1727 —1733.
15. Búð Þorleifs Nikulássonar, landþingsskrifara (1764—) 1780—1800. Önnurhvor var búð Odds Magnússonar, landþingsskrifara 1734—1738. Um hina er óvíst, hver tjaldað hafi.
18. (16. eða 17.) Búð Guðmundar ríka á Möðruvöllum (óvíst).
19. „Fógeta-búð”. Búð Povls Michaels Finne, landfógeta 1796—1804. Kann að hafa verið áður búð Skúla Magnússonar, landfógeta 1749—93.
20.—27. Óvíst hverra búðir. — Vatnsfirðinga-búð kann að hafa verið þar sem er 24. eða 25. búð, sbr. Njáls-s. og Laxd.-s.
28. Búð Christophers Heidemanns landfógeta, hlaðin ásamt 30. búð (amtmannsbúð) 1691, fyrstu búðirnar á síðari öldum. Um miðja 18. öld v
ar hér bygð „amtmannsstofa,, (— búð) úr timbri. — Hér á fyrrum að hafa verið búð Geirs goða.

29. Byrgi, sennilega tilheyrandi amtmannsbúð
30. Amtmannsbúð, bygð 1691 (sbr. 28. búð); fyrstur tjaldaði hana Christian Miiller amtmaður (d. 1720) og síðan eftirmenn hans fram á miðja 18. öld, er „amtmannsstofa”
var bygð (sbr. 28. búð). — Mosfellinga-búð (búð Gissurar hvíta) kann að hafa verið hér.
31. Búð Guðmundar Sigurðssonar, sýslumanns í Snæfellsnessýslu 1734—1753.
32. Búð Jens Madtzens Spendrups, sýslumanns í Skagafjarðarsýslu (1715—) 1718—1735.
33. Búð Bjarna Halldórssonar, sýslumanns í Húnavatnssýslu 1729—1773.
34. Búð Nikulásar Magnússonar, sýslumanns í Rangárvallasýslu (1727—) 1730 — 1742.
35. „Njáls-búð”, svo kölluð, en ekki er fullvíst, að Njáll hafi verið í henni.
36. Byskupa-búð, svo nefnd, eða Gyrðs-búð, eða Ogmundar-búð, kend við Gyrð Ivarsson, byskup í Skálholti 1349—1360, og Ogmund Pá!sson, byskup s. st. 1521 — 1542.
37. Byrgisbúð, á 11. og 12. öld; virki um, að því er virðist.

Þingstaðurinn forni á Þingvelli
Thingvellir-140Þau fimm ár, sem jeg var prestur á Þingvöllum, 1923—28, gekk jeg oft um þingstaðinn forna og var að hugleiða, hvar mestar líkur væru fyrir því, að »Lögberg« og »Lögrjetta« mundu hafa verið til forna, því að jeg var frá byrjun sannfærður um, að »Lögberg« var aldrei á þeim stað, sem nú er talið og merkt sem »Lögberg« á austurbarmi Almannagjár, norðan Snorrabúðar.
Það, sem fyrst benti mjer á, að sá staður væri vafasamur, var það, að tveir jafnmiklir fræðimenn og þeir prófessor Björn M. Ólsen og Matthías Þórðarson fornmenjavörður gátu ekki komið sjer saman um, hvar »Grýla«, búð Snorra Sturlusonar, sem byggð var samkv. Sturlungu: »upp frá Lögbergi«, stóð, og augljóst mál, að báðir höfðu á röngu að standa, ef farið væri niður til búðar þeirrar frá lögbergi, eins og þeir þó báðir telja, að hafi verið, er annar, Björn M. Ólsen, telur að Grýla hafi verið niður við á, fyrir neðan hallinn, en hinn, Matthías Þórðarson, að hún hafi verið niðri í gjánni, í vestur frá þessu svonefnda »Lögbergi«. Þeir virðast hafa slegið því föstu fyrirfram, að þessi staður á gjárbarminum eystra væri lögberg og orðið því í vandræðum með Grýlu.
Thingvellir-146Þetta mannvirki, sem nú er merkt »Lögberg«, segir M. P. að sje »langstærsta mannvirkið á hinum forna þingstað« (Árb. Fornl. fjel. 1921 — 22, bls. 80), en það er engan veginn rjett, flestar elztu búðaleifarnar virðast hafa verið eins stórar eða stærri, og mannvirkið milli Brennugjár og Flosagjár er til muna stærra. En það virðist hafa verið eitt með öðru, sem studdi að því, að M.Þ., vill telja þetta mannvirki á austurbarmi Almannagjár sem lögberg, að það var svo mikið mannvirki og erfitt að gjöra það, sem mjer virðist þó heldur benda í gagnstæða átt.
Við rannsókn Sigurðar Vigfússonar 1880 kom það í ljós, að í glufu undir þessu mannvirki fannst aska, og um það segir M.Þ. (Árbók, ’21 — 22, bls. 85): »mjer fyrir mitt leyti þykir líklegast, að þessi aska hafi verið borin þarna í glufuna til þess að koma henni frá einhverri búðinni, sennilegast frá Snorrabúð, sem næst var«, og er það án efa rjett á litið, nema því að eins, að þarna hafi staðið búð og askan sje frá henni sjálfri.
Thingvellir-146En hvort heldur sem er, þá er þessi aska sönnun þess, að lögberg hefur ekki verið þarna, þegar askan var flutt þangað. Það er vart hugsanlegt, að neinn maður hefði látið bera öskuna frá búð sinni á jafn-helgan stað sem lögberg var og fleygja henni þar, enda mundu höfðingjarnir hafa unað því illa, að sitja í öskuryki á lögbergi, ef vindur bljes. En hafi búð staðið þarna, er mannvirkið leifar hennar en ekki lögbergs.

Lögberg og lögrjetta

Það virðist ætla að verða erfitt, að sannfæra suma menn um það, að lögberg hafi verið þar á þingstaðnum forna við Öxará, sem Jón Ólafsson frá Grunnavík benti á og lýsti, og kvaðst álíta, að það hefði verið, bergið með áhleðslunni miklu á gjárbakkanum norðan við Snorrabúð.

Thingvellir-147

Að sönnu hefir mikið af því, sem ritað hefir verið um það, hvar lögberg hafi verið á þingstaðnum, snúizt um það, að sýna fram á, að það hafi ekki verið austan Öxarár, og því ekki á Spönginni, heldur vestan árinnar, enda mun það hafa á unnizt, að menn eru farnir að sjá sannleikann í þessu efni. Hitt sýnist þar á móti ekki hafa gengið í suma menn enn þá, að lögberg hafi verið þar, sem Jón frá Grunnavík áleit, og nokkrir aðrir fræðimenn á síðasta fjórðungi síðustu aldar og fyrsta fjórðungi þessarar. Því var það, er alþingishátíðin var haldin, að lítilfjörleg klettsnös í Hamraskarði var tekin til að vera hið forna lögberg, að því, er virtist; stóðu ræðumenn þarna og sneru bakinu að deginum og hinum forna þingstað, en áheyrendum var troðið ofan-í Almannagjá, svo mörgum, sem þar komust fyrir, og þar sem þeir að sjálfsögðu hefðu lítið eða sem ekkert heyrt til ræðumanna flestir, ef ekki hefði verið talað hátt og í »gjallarhorn«.
Thingvellir-148Geta menn nú sjeð, hversu eðlilegt það var, að einmitt næsta sumar, »anno 1504, samtóku allir þingmenn lögrjettuna að færa í annað pláss við 0xará, með kongs leyfi,« sem höfuðsmaður sjálfur vissi, að þeir höfðu fengið fyrir rúmum 30 árum, 1563. Ekki hvað sízt var það eðlilegt, ef lögrjettan hefur allt til þessa verið á sínum forna stað, og hann orðinn hólmi af vatnagangi. Það hefur ekki verið þægilegt að sitja þar, stundum í misjöfnu veðri, ef til vildi, og enginn furða, að reynt yrði að komast af með 1 dag eða 2 til þinghaldsins.
Eftir að notkun lögbergs lagðist niður, þingtíminn styttist og hætt var að tjalda hlaðnar búðir á Þingvelli, hefir þinghaldið farið fram í lögrjettu og þingmenn hafzt við nálægt henni, austan ár, tjaldað þar á völlunum og fyrir norðan ána, undir hallinum og uppi í Almannagjá. En eftir að lögrjetta var flutt vestur fyrir á, hefir þinghaldið farið fram þar og þingmenn flestir hafzt þar við, — síðustu 2 aldirnar, — þótt hina fyrri þeirra yrði lítið um löng þing og búðabyggingar, meðan lögrjetta var ekki heldur tjölduð.
En Thingvellir-149tvent var það, sem látið var fara fram mjög nálægt hinum gamla lögrjettustað austan ár, og benda örnefnin Brennugjá og Höggstokkseyri, nyrzt á hólmanum framundan mynni hennar, á það. Þegar jeg ritaði greinina um lögrjettuna í Árb. 1921—22, bls. 70—80, þótti mjer ekki næg rök til að halda þeirri skoðun fram, að hún hefði ekki verið færð nema einu sinni, þar eð sumt, sem þá og nú var getið, benti til, að hún hefði verið flutt tvisvar að minnsta kosti. En eins og þær athugasemdir, er hjer hafa verið settar fram, bera með sjer, virðast mjer nú allmiklar líkur til þess, að lögrjetta hafi verið færð að eins einu sinni, — svo sögur fari af, sumarið 1594. Apríl 1942. M.Þ.

Búðaskrár Jóns prófasts Steingrímssonar
Skrifaðar af honum sjálfum í bók þá, sem nú er í handritasafni Landsbókasafnsins nr. 574, 4to. Um búðastæði á alþingi við Öxará, fornaldarmanna, sem landsins sögur og annálar um geta. Þeim til Thingvellir-149fróðleiks og gamans, er það girnist að sjá eða heyra. Heimskur er sá, að öngu spyr. Flosabúð var norður lengst fyrir vestan ána, við fossinn í Öxará. Þorgeirs Ljósvetninga[-goða] búð þar vestar með hallinum. Snorra goða búð var þar, sem hún enn nefnist og stendur.
Guðmundar ríka [búð] næst Þorgeirs Ljósvetninga[-goða] búð, fyrir vestan ána. Áður var hans búð fyrir norðan ána, nærri því gamla lögbergi.  Eyjólfs Bölverkssonar biíð var á hól fyrir sunnan Snorrabúð, að stefna á Þingvelli.
Gissurs hvíta búð þar fyrir vestan; en næst fyrir norðan Heedemannsbúð var Geirs goða [búð].
Ásgríms Elliða-Grímssonar [búð] var norðar upp með gjánni, mótsvið Geirs goða búð.
Höskuldar Dala-Kollssonar búð var milli árinnar og Oeirs goða búðar.
Egils Skalla-Grímssonar [búð] milli Geirsbúðar og Hjalta Skeggjasonar [búðar].
Flosi hafði áður búð fyrir austan ána, skammt frá Síðu-Halls búð, sem síðar var Ogmundarbúð, [fyrir] vestan traðirnar á Þingvallatúni.
Thingvellir-150Lögbergið er fyrir austan ána; eru þar vatnsgjár á báðar síður.
Fyrir austan lögrjettutóftina á þvt er svo-kallað Flosahlaup yfir austari er einstigi að búð Skafta lögmanns Þóroddssonar, Markúsar Skeggjasonar og Gríms Svertingssonar.
Suður lengst með ánni, móts-við Þingvelli, stóð Njálsbúð, nærri ánni, fyrir sunnan Gissurs hvíta búð, [og] Rangvellinga [búð].
Marðar gígju búð [var] út-með berginu, fyrir ofan og vestan Gissurs hvíta búð.
Þá kristnin var í lög tekin, var lögrjettan færð á hólmann í ánni, en aftur þaðan færð í tíð Þórðar Guðmundssonar lögmanns og Jóns Jónsssonar vestur-yfir ána, í þann, stað, hvar hún hefur síðan verið.
Kross-skarð, sem næst er fyrir norðan Snorrabúð, þess hæð er eftir Ólafi kóngi Tryggvasyni og Hjalta Skeggjasyni. Hleðslan, sem þar er á milli á gjábarminum, var áður fjórðu[n]gsdóma-þingstaður. Menn kalla nú það pláss Kristna-lögberg.

Um búðastæði nú á alþingi, 1783

Þingvellir

Búð á Þingvöllum.

Eftir siðaskiptin aflögðust allar þær fornu búðir fyrir utan Snorrabúð, er sagt er ætíð hafi haldizt við lýði. Brúkuðu þá landsins yfirvöld sín tjöld allt fram á þessa öld, 1700, svo 1730 voru allfáar búðir á alþingi, en síðan hafa þær árlega fjölgað, og það í þeim stað, er þær voru ei til forna, sem er í svo-kallaðri Almannagjá, fyrir vestan og ofan hallinn, sem fornar sögur ei um geta. Mun þar þá ei hafa verið því-Iíkt graslendi í gjánni, sem það er nú. Þessar eru nú búðir í gjánni: Næst fyrir vestan fossinn í g[j]ánni, undir austara berginu, er búð og tjöld sýslumanna úr Skaftafellssýslu. Þar yfir-af og undir vestara berginu búð sýslumanna úr ísafjarðarsýslu. Þar næst undir austara berginu búð sýslumanns úr Barðastrandar-og Dala-sýslu. Par fyrir sunnan, frá uppgöngu fógetabúðar, er búð sýslumanns úr Rangárþingi, en syðst, fyrir vestan stíg frá Snorrabúð, stendur búð sýslumanns úr Þingeyjarsýslu. Þar sem Flosabúð var, við fossinn, er nú fógetabúð. Þar næst var lögmannsins búð, sem þjenaði að sunnan og austan á landinu. Þar til [forna] var Þorgeirs Ljósvetninga[goða] búð. En þar [sem varalögmanns búð]in nú stendur, var búð Guðmundar ríka. En þar sem að [var] búð Eyjólfs Bölvekssonar, má um tvíla, hvort heldur er landþings[sk]rifara búð, á hól fyrir austan götuna að Þingvöllum, eður stift[am]tmanns, sem er fyrir vestan sömu götu. Þar Gissurs hvíta búð var, er nú amtmannsins búð. Þar Geirs goða búð var, er nú [bú]ð sýslumanns úr Árnessýslu. Í Snorrabúð sýslumenn [úr] Mýra- og Borgarfjarðar-sýslu. Þar. Ásgrímur Elliða-Grímsson var, hafa sýslumenn úr Múlasýslu sinn aðsetursstað, og enn ofar í Hallinum sýslumaðurinn úr Kjósar- og Gullbringu-sýslu.
Höskuldar Dala-Kollssonar er nú sýs[!]umanns úr Strandasýslu. Njálsbúð tjaldar sýslumaður Skagafjarðarsýslu og klaust[ur]haldari þaðan. En Marðar gígju sýslumaður úr Húnavatnssýslu, nú síðast sá nafnfrsegi Bjarni Halldórsson. —
En fyrir austan ána eru aflagðar allar búðir. Eru þar hjer og þar tjöld geistlegra manna. Þar sem Síðu-Halls-búð var, standa nú biskups tjöld. Undir Thingvellir-153berginu að vestanverðu, þar sem a[ð] stóðu búðir Skafta, Markúsar og Oríms, eru tjaldstæði prófasta úr Skaftafells- og Barðastranda[r]-sýslum, en framar, á hólmunum, prófasta úr Gullbringu- og Rángárvalla-sýslum. En hinir aðrir, sem ei fá sjer verur á Þingvöllum, þar í heimahúsum, eru hjer og þar inn-á flötunum fyrir norðan ána, í svo-kölluðum Prestakrók, og þeim megin, næst við fossinn, eru svo-kölluð fálkafangaratjöld og bókaseljara frá Hólum.”
Af framangreindu má sjá að aldur og staðsetning einstakra búðatófta eru einungis getgátur. Full ástæða væri til að gera rannsóknaráætlun á öllum búðunum 37 (50) m.t.t. aldursgreiningar og staðfestingar á tilvist þeirra – svo langt sem það næði.

Thingvellir-160

Á skilti við Snorrabúð (vestan Lögbergs) á Þingvöllum eru m.a. eftirfarandi upplýsingar um búðir: “Hér er það Snorrabúð sem staðið er við, kennd við Snorra Þorgrímsson goða en hún er ein sýnilegasta búðatóftin á Þingvöllum. Hana nýttu sýslumenn Árnesinga á síðari öldum en búðin vakti einnig athygli þjóðskáldsins Jónasar Hallgrímssonar (1807-1845) þegar hann orti ljóðið Ísland. Jónas vissi að hinn forni þingstaður hefði mátt muna sinn fífil fegurri.
Uppgrónar tóftir finnast víða á Þingvöllum en þær voru híbýli þinggesta í þær tvær vikur sem þing stóð á hverju sumri. Búðatóftir og tóftabrot munu vera um fimmtíu talsins á svæðinu og finnast meðfram bakka Öxarár beggja vegna árinnar og með brekkunni inn að Valhöll.

Thingvellir-161

Búðir voru iðulega reistar á grunni eldri búða og því eru flestar búðarústir, sem sjást í þinghelginni, frá seinustu tveimur öldum þingsins, 17. og 18. öld. Erfitt er að geta til um nákvæmt byggingarlag búða á Þingvöllum. Þó má telja líklegt að veggir hafi verið hlaðnir úr torfi og grjóti og síðan reist timburgrind sem yfir var tjaldað með teppum eða vaðmáli. Lítið er vitað um búðir þjóðveldisaldar en lýsingar ritheimilda gefa tilefni til að þær hafi oft verið nokkuð miklar að umfangi. Víða stóðu búðir þröngt í þinghelginni og er stundum fjallað um “búðasund” í heimildum.
Í lagasafninu Grágás og Íslendingasögum má finna ýmsar hugmyndir um stærð og notkun búða, m.a. að goðar skyldu tjalda búð þvera með vaðmáli og að þeir skyldu sjá þingmönnum sínum fyrir rými í búð. Þeir sem erindi áttu á þing munu einnig hafa reist sér margvísleg skýli, hreysi og tjöld á meðan þeir heimsóttu þingið. Búðir síðari alda hafa að öllum líkindum verið minni að umfangi en búðir þjóðveldistímans enda störf Alþings þá takmörkuð við dómsstörf.”
Frábært veður. Gangan tók 3 klst og 3 mín.

Heimild:
-Matthías Þórðarson, Fornleifar á Þingvelli. Búðir, lögrjetta og lögberg, Árbók HÍF 1921-1922, bls. 1-7.
-Guðmundur Einarsson: Þingstaðurinn forni á Þingvelli. Árbók HÍF 1941-1942, bls 34—39.
-Matthías Þórðarson: Lögrjetta og Lögberg. Árbók HÍF 1941-1942, fylgiskjöl: Búðaskrár Jóns prófasts Steingrímssonar. (Hjer með mynd, búðaskrá og kort), bls. 40—68.
-Skilti við Snorrabúð á Þingvöllum.

Þingvellir

Þingvellir – búðartóft.