Þingvellir

Þingvellir eru flatir, grasi grónir vellir norðan við Þingvallavatn á bökkum Öxarár, sem rennur eftir völlunum út í Þingvallavatn, sem er stærsta stöðuvatn á Íslandi. Þjóðgarður var stofnaður árið 1928 og nær hann yfir Þingvelli og nánasta umhverfi þeirra. Í Öxará er Öxarárfoss, þar sem áin steypist ofan í Almannagjá. Rennur áin síðan eftir gjánni og svo út úr henni og niður á vellina. Almannagjá er sprunga við vestanverða sigdældina á milli úthafsflekanna tveggja sem Ísland liggur á.
thingvellir-992Þingvellir eru einn af mikilvægustu stöðunum í íslenskri sögu. Alþingi var stofnað á Þingvöllum árið 930 og kom þar saman árlega allt fram til ársins 1798. Það var árið 999 eða 1000 sem lögsögumaðurinn Þorgeir Ljósvetningagoði lagðist undir feld og lýsti Íslendinga í kjölfarið kristna.
Þingvellir urðu að þýðingarmiklu sameiningartákni í sjálfstæðisbaráttu Íslendinga á 19. og 20. öld. Sumarið 1798 var síðasta þingið haldið á Þingvöllum. Eftir að þingið var lagt af voru Þingvellir hljóður staður, utan alfaraleiðar um nokkurn tíma. Þegar svo straumar sjálfstæðisvakningar í Evrópu náðu til Íslendinga í upphafi 19. aldar voru saga og náttúra Þingvalla vakin til lífsins. Þingvellir fengu lifandi hlutverk í þjóðlífinu sem tákn um sjálfstæði.
Hið forna þing var ofarlega í hugum fólks og fornhetjunar voru vaktar til lífsins í kvæðum og ljóðum. Þjóðernisvakningin varð til þess að umræða um staðsetningu Alþingis var mikil. Skiptar skoðanir voru um hvar það skyldi staðsett en strax komu upp raddir um að Alþingi skyldi vera á Þingvöllum.
Árið 1843 gaf Kristján konungur VIII út konungsúrskurð um stofnun þings á Íslandi sem nefnast skyldi Alþingi og kom það fyrst saman 1. júlí 1845 í Latínuskólanum í Reykjavík.  Alþingi var einungis ráðgjafarþing en hafði ekki löggjafarvald. Árið 1848 var fyrsti Þingvallafundurinn haldinn og sóttu hann 19 fulltrúar sem settu saman bænaskrá til konungs þar sem þeir beiddust þess að konungur veitti Íslendingum þjóðþing með sömu réttindi danskir þegnar nutu.

thingvellir-992

Þingvallafundir voru haldnir óreglulega allt til ársins 1907. Á þeim var stjórnmálabaráttan í landinu skipulögð og málin búin í hendur þeim sem báru þau fram á Alþingi og fyrir stjórnvöld.
Vegna Þingvallafundana og sjálfstæðisbaráttunnar festust Þingvellir í sessi á ný sem helsti samkomustaður þjóðarinnar – þar koma Íslendingar saman til að fagna stærstu og mikilvægustu atburðum í sögu þjóðarinnar.
Árið 1907 ritaði Matthías Þórðarson grein í Skírni undir yfirskriftinni Verndun fagurra staða og merkra náttúrumenja. Í henni fjallaði hann um nauðsyn þess að hlúa að stöðum sem væru merkilegir og sérstakir sökum fegurðar jafn vel og verndun fornminja og gamlir kirkjumunir voru varðveittir. Hann nefndi ýmsa staði en tiltók Almanngjá og svæðið umhverfis Þingvelli við Öxará sem dæmi um stað sem mætti  sinna betur. Raunar tók hann fram að það væri búið að skemma Almannagjá með þeim vegi sem þá var búið að leggja. Hann rak dæmi um friðunaráform erlendis og nefndi meðal annars Yellowstone Park í Bandaríkjunum sem dæmi um stað sem friðaður væri með allsherjarlögum.

thingvellir-993

Umhverfisvernd var ein af þessum hugmyndum sem komu hingað til lands um aldamótin 1900 og fengu sinn hljómgrunn.
Árið 1913 ritaði Guðmundur Davíðsson þá grein sem átti eftir að ýta umræðunni um stofnun þjóðgarðsins á Þingvöllum úr vör. Greinin nefndist Þingvellir við Öxará og birtist í tímaritinu Eimreiðinni sem ritstýrt var af Valtý Guðmundssyni háskólakennara. Greinin var mjög beinskeytt og Guðmundur dró ekkert undan í lýsingum sínum af illri umgengni og skeytingarleysi landans á þessum sögufrægasta stað landsins, Þingvöllum. Hann ritaði í upphafi greinarinnar:
“Fáir Íslendingar munu koma svo í fyrsta sinn á Þingvelli við Öxará, að eigi dáist þeir að náttúrufegurðinni og í hug þeirra vakni, endurminningar um helstu viðburði sem tengdir eru við sögu þessa merkisstaðar. Þetta tvennt, söguviðburðirnir og náttúrufegurðin hlýtur að snerta tilfinningar allra sem staddir eru á þessum fornhelga stað. Þar má segja að saman sé komið flest það sem einkennilegast og fegurst er í íslenskri náttúru og þar hafa einnig gerst margir merkustu viðburðirnir í sögu Íslendinga”
hrauntun-998Í greininni rakti Guðmundur dæmi um þjóðgarða í Bandaríkjunum og í framhaldi af því nauðsyn þess að vernda bæri Þingvelli sem þá voru orðnir að vinsælum helgaráningarstað ferðamanna. Ekki var það þó fyrr en á árinu 1930 að brotið var blað í sögu náttúruverndar á Íslandi en þá var fyrsti þjóðgarðurinn á Íslandi stofnaður – Þjóðgarðurinn á Þingvöllum.
Guðmundur Davíðsson barnakennari varð fyrsti umsjónarmaður hins friðlýsta lands á Þingvöllum sem var stofnað til árið 1930, með lagasetningu frá 1928. Árið 1930 var hann ráðinn fyrsti þjóðgarðsvörðurinn á Þingvöllum og bjó hann þar þangað til 1940 er hann lét af störfum vegna heilsubrests. Hann fluttist þá til Reykjavíkur og gerðist starfsmaður Alþingis til ársins 1948.
Þingvallanefnd fer í dag skv. lögum með forræði þjóðgarðsins. Gerðir hafa verið göngustígar um garðinn, en hinum fornu leiðum, sem víða er þar að finna hefur lítill sómi verið sýndur sem og öðrum sögulegum minjum á svæðinu.

Heimild m.a.:
-http://skemman.is/stream/get/1946/2218/6752/1/Aðdragandi_að_friðun_fixed.pdf

Þingvellir

Þingvellir – Þingvallakirkja.