Herdísarvíkursel

Gengið var frá Herdísarvíkurvegi neðan við Sýslustein suður í Seljabót, með ströndinni til vesturs yfir í Keflavík og síðan upp (norður) Klofninga í Krýsuvíkurhrauni, upp á þjóðveginn og gamla þjóðleiðin síðan gengin til baka að Sýslusteini.

Sýslusteinn

Sýslusteinn.

Girðing er á sýslumörkum Ánessýslu og Gullbringusýslu. Þjóðvegurinn liggur í gegnum girðinguna. Ofan við þjóðveginn er stór rúnaður kleprasteinn; Sýslusteinn. Um hann liggja sýslumörkin úr Seljabót og upp í Kóngsfell. Í þjóðsögunni um Herdísi og Krýsu og landamerkjadeilur þeirra segir að “svo fór um landamerkin sem Krýsa vildi og heitir nú kletturinn Sýslusteinn”.
Gengið var niður hraunið með girðingunni. Að austanverðu heitir hraunið Herdísarvíkurhraun, en Krýsuvíkurhraun að vestanverðu. Í raun eru ekki skörp skil á hraununum, auk þess sem um mörg hraun er að ræða, hvert á og utan í öðru.
Eftir u.þ.b. 20 mín gang er komið niður fyrir neðsta hraunkantinn. Á vinstri hönd, undir honum, eru tóftir Herdísarvíkursels.

Herdísarvíkursel

Herdísarvíkursel.

Í örnefnalýsingu fyrir Herdísarvík segir að “allar gamlar menningarminjar á jörðinni Herdísarvík, svo sem fiskigarðar verbúðir, tættur af íveruhúsum, peningshúsum og öðrum útihúsum, þar á meðal seljarústir í Seljabót voru friðlýstar af Þór Magnússyni 7.9.1976.” Skammt frá hraunkantinum eru fleiri tóftir, s.s. stekkur og hús. Vatnsstæðið er skammt vestar.
Sjávarmegin við selið er eldra hraun, slétt og greiðfært. Í því eru nokkrir skútar og merkt greni. Seljabótin er í grónum krika undir nýrra hrauni og Seljabótanef þar framan við að vestanverðu. Í gömlum sögnum segir að Krýsuvíkurhellir hafi verið við Seljabót.

Seljabót

Seljabót undir Seljabótarnefi – gerði.

Landamerkin eru um Seljabótanefið. Þar er merkjastaur. Eini hellirinn á svæðinu er lágur skúti vel austan markanna, í Herdísarvíkurlandi. Ofan við hann er manngerður gróinn hraunhóll. Hafi hellirinn verið í berginu er hann löngu horfinn, enda sér sjórinn um að brjóta það markvisst niður. Líklegra er að þarna hafi einhver villst á Seljabót og Bergsendum í Krýsuvíkurlandi. Við þá er hellir með mannvistarleifum. Hann nær bæði inn í gamla bergið og er ofan við það.

Seljabót

Gerði í Seljabót.

Gerði eða rétt er í Seljabótinni. Orðið “bót” virðist vera til allvíða um land, en í mismunandi merkingum eftir því hvar er. Það getur bæði þýtt ‘hvilft, dalbotn’ og ‘vík, smávogur’, skylt orðinu bugt, sbr. Þórkötlustaðabót. Stundum er það notað um fiskimið, en sennilega er orðið hér notað um hvilftina þar sem gerðið er.
Af fiðrinu að dæma virðist refurinn una hag sínum vel þarna. Af Seljabótanefi er fagurt útsýni austur með Herdísarvíkurbjargi.

Keflavík

Í Keflavík.

Gengið var til vesturs ofan við bjargið, áleiðis að Keflavík. Umhverfið er stórbrotið. Skammt austan við Keflavík er stór “svelgur” og gatklettur. Hvorutveggja eru ágætt dæmi um hvernig sjórinn hefur náð að brjóta sig í inn undir bergið og upp úr því, en skilið eftir stöpul líkt og eyju utan við það. Síðan mun hann smám saman leika sér að því að brjóta hana niður líkt og aðra hluta bergsins.
Gatklettur er austan við Keflavík. Niður í víkina er stígur, en þangað hefur rekaviður án efa verið sóttur fyrrum. Nóg er af keflunum í víkinni. Í henni er og gott skjól. Utan við hana er lágbarið stórgrýti, gott dæmi um bergmola sem sjórinn hefur “tuggið” og hnoðað smám saman og í langan tíma, en síðan kastað á land. Hluti af mun eldra bergi er þarna í og við víkina. Geldingar heita glæðuklæddir steinar vestan og ofan við Keflavík. Þeir standa á þessu gamla bergi, sem nýrra hraun, er nú myndar bergvegginn, hefur runnið að og útvíkkað landið.

Gvendarhellir

Gvendarhellir/Arngrímshellir – tóft.

Gengið var upp Klofninga í Krýsuvíkurhrauni með viðkomu í Arngrímshelli (Gvendarhelli) á leiðinni upp á þjóðveginn og til baka eftir gömlu þjóðleiðinni milli Krýsuvíkur og Herdísarvíkur. Hún liggur að mestu skammt ofan núverandi vegar.
Í þjóðsögunni um Herdísi og Krýsu segir að “Krýsa bjó í Krýsuvík, en Herdís á Herdísarvík. Þær deildu um landamerki milli sín. Vildi Krýsa eiga Geitahlíð alla og væru landamerki í stóran stein er stendur í hrauninu fyrir austan hlíðarhornið. Herdís vildi eiga út á Deildarháls. Hann er nokkuð vestar en undir miðri Geitahlíð og hefir spúð eldi því í honum er gígur ekki alllítill, og úr honum hefir runnið hraun það er Klofningur heitir eða Klofningar.“
Frábært veður. Gangan tók 3 klst og 33 mín.

Heimild m.a.:
-Ásgeir Bl. Magnússon: Íslensk orðsifjabók. Rvk. 1989.

Herdísarvíkurbjarg

Gatklettur í Herdísarvíkurbjargi.

Kaldársel

Í bókinni “Blárra tinda blessað land” segir Árni Óla frá Grindaskarðavegi: “Rétt fyrir vestan Smalafell liggur gamli vegurinn frá Hafnarfirði til Selvogs. Heitir hann Grindaskarðavegur.
Göturnar eru nú horfnar og gleymdar, þótt þetta væri Grindaskarðavegurinn, sem nefndur er - Jón Bergssonáður alfaraleið, en vegurinn segir þó til sín. Hafa verið sett ýmiss merki við hann, svo sem smávörður, tréstaurar eða járnhælar, sem reknir hafa verið niður með stuttu millibili. Og svo hefir á löngum köflum verið raðað steini við stein meðfram götunni. Kemur þessi langa steinaröð, hér í óbyggðum, ókunnugum einkennilega fyrir sjónir, því að hún líkist gangstétt. Liggur hún þvert yfir jarðfallið með stefnu á eldgíg nokkurn austan Valafell. Er þetta víst eina færa leiðin með hesta þarna þvert yfir, til þess að komast framhjá tveimur hrikalegum gjám, sem eru sín hvoru megin við jarðfallið. Þegar komið er upp undir hlíðarnar að sunnan, beygir vegurinn vestur að Kaldárseli.”
Þarna er væntanlega átt við götu þá, sem enn sést klöppuð í berghelluna vestan við Borgarstand utan við Kaldársel. Þar hefur eininungis á einum stað verið hægt að komast yfir gjána með hesta. Gatan sunnan Kaldársels bendir til þess að sú leið hafi síðan verið farin að Kýrgili og áfram með stefnu sunnan Helgafells. Þá hefur línan verið tekin undir hraunbrúninni að Dauðadölum, síðan beygt inn á slétt hraunið við Dauðadalahella og upp á gatnamótin þar sem Selvogsgata/Grindaskarðsvegur greindust um Grindaskörð annars vegar og Kerlingaskarð hins vegar.
Dauðadalaleiðin gæti skv. þessu hafa verið nefnd Grindaskarðavegur, en Selvogsgata að austanverðu, um Helgadal. Selvogsbúar nefndu þá leið Suðurferðaveg. Hafa ber í huga að jafnan var afdrep í Kaldárseli því það fór ekki í eyði fyrr en um aldamótin 1900 og stóðu þó húsin enn um nokkurt skeið eftir það. Að vísu var afdrep í Setbergsseli á hinni leiðinni, en það fór sennilega í eyði í byrjun 19. aldar.

Kaldá

Í bókinni segir Árni Óla jafnframt: „Einu sinni var byggð í Kaldárseli. Bjó þar seinast einsetumaður og dó þar, svo að enginn vissi fyrr en nokkru seinna, að einhverja menn bar þar að garði. Eftir það fór kotið í eyði. En fyrir nokkrum árum byggði K.F.U.M. í Hafnarfirpi þarna skála og hafði þar bækistöð sína. Í fyrra var skálinn stækkaður um helming, og í sumar hafa Hafnfirðingar haft þar barnaheimili með 27 börnum. .
Um Kaldá er og fjallað. Sagt er frá hugmynd Eggerts Ólafssonar þess efnis að áin renni neðan jarðar all aleið vestur á Reykjanestá og þar til hafs, en af straumi hennar myndist Reykjanesröst. Brynjúlfur Jónsson frá Minna-Núpi sagði það almælt að á fyrri öldum hafi á sú runnið úr Þingvallavatni, „eitthvert hið mesta vatnsfalla á Íslandi“. Hún á að hafa runnið norðan við Hengil og ofan þar, sem nú eru Fóelluvötn, og svo suður með hlíðum og í sjó á Reykjanesi. „Sé sagt, að hún komi upp í Reykjanesröst og að Kaldá hjá Helgafelli sé úr henni“. „En svo þurfti að fá skýringu á því, hvernig stóð á því stóð, að þetta mikla vatnsfall skyldi hverfa, og eru um það ýmsar sögur. Ein er sú, að karl nokkur, sem var kraftaskáld, missti í ána tvo sonu sína, og kvað hana þá niður. Önnur sögn, og öllu vísindalegri, er sú, að Kaldá hafi horfið eitt sinn, er suðurfjöll brunnu, svo einn var eldur ofan úr Hengli og út í sjó á Reykjanesi og hafi þá jörðin gengið upp fyrir sunnan Elliðavatn.“

Heimild:
-Árni Óla, Blárra tinda blessað land“, 1945, bls. 33-34.

Kaldá

Eyktarmark

Í bókinni „Gullöld Íslendinga – menning og lífshættir feðra vorra á söguöldinni“ eftir Jón Jónsson Aðils er m.a. fjallað um eyktarmörk. Bókin er samansafn alþýðufyrirlestra með myndum.
Eyktarmörk frá seljunum á Baðsvöllum„Dægrinu skiptu forfeður vorir eftir áttum og sólargangi niður í eyktir, og voru eyktirnar 8 (sbr. áttirnar) í hverjum sólarhring og 3 stundir í hverri eykt. Í elztu tíð hafa menn að líkindum talið tímann eftir nóttum, en eigi eftir dögum, og vottar víða fyrir því í fornum ritum. Svo komst Ari fróði að orði, er hann telur mánuðina „þrítugnætta“, og algengt er í fornu máli að miða tímann við nóttina („á tveggja tíma fresti“), „þriggja nátta gamall!“ o.s.frv.). Á þetta að líkindum rót sína að rekja til hins forna tunglárs, er menn töldu eftir tungli og stjörnum, annars voru stundir dagsins taldar eftir aðstöðu sólar við hæðir, fjöll og gnýpur úti við sjóndeildarhringinn (dagsmörk), líkt og enn tíðkast víða til sveita, en eigi er slíkt stundatal fast eða nákvæmt. Aðalstundir dagsins voru þessara: Rismál  eða miðr morgunn (kl. 6 að morgni); dagmál (kl. 9 árd.); hádegi (kl. 12); miðmundi (kl. 1 1/2 síðd.); nón (kl. 3); miðr aftann (kl. 6); náttmál (kl. 9): miðnætti (kl. 12); síðari hluti nætur undir morgun var nefndur ótta (sbr. óttusöngur).“

Miðmundavarða á Miðmundahól við Þorbjarnastaði

Eyktarörnefni eru fjölmörg á Reykjanesskaganum. Varla er til sú örnefnalýsing þar sem þeirra er ekki getið. Í lýsingu fyrir Járngerðarstaði í Grindavík er t.d. getið um Hádegisgil og Miðmundagil í Þorbirni ofan við Baðsvelli. Skýringin á nöfnunum er sú að þau voru eyktarmörk frá seljunum norðan undir fellinu.
Þá er Miðmundahæð ofan við Þorbjarnastaði í Hraunum þekkt kennileiti. Svo virðist, af örnefnunum að dæma, sem meira hafi að öllu jöfnu verið haft um miðmunda en önnur eyktarmörk því örnefni því tengdu eru allmörg. Hádegishólar eru og til, en mun færri.

Heimild:
-Jón Jónsson Aðils, Gullöld Íslendinga – menning og lífshættir feðra vorra á söguöldinni, Reykjavík 1948, bls. 200, sbr. Skand. Verhältn. bl. 39-40.Eyktarmark

Vogar

Kristjánstangi skagar út í Vogavíkina sunnan Voga. Ofan hans er tjörn sem gengur inn úr Síkinu svonefnda. Kallast hún Síkistjörn. Ofan við tjörnina er hesthúsahverfi.
Gerði á KristjánstangaÍ örnefnalýsingu Ara Gíslasonar fyrir Voga segir m.a. um þetta svæði: „Nú er að halda áfram með sjó og neðan við þjóðveg. Þegar komið er inn fyrir Brekkulón er þar tangi sem heitir Kristjánstangi þar var einnig útgerð áður fyrr. Inn í þennan tanga, tvö smávik inn í fjöruna, þau eru nafnlaus, nema af sjó hafa þau nöfn og eru þá nefnd Litla-Molda og Stóra-Molda. Upp af Moldunum er svo fjárrétt, Vogafjárrétt sem er reyndar niður fallin. Tangi gengur fram af Kristjánstanga og heitir þar Svartiklettur, er það eins með hann og Moldurnar að hann heitir það af sjó en öðru nafni heitir hann Brimarhólmur og sker fram af honum heitir Brimarhólmstangar en þarna eru nokkur sker. Hóll er á Kristjánstanga sem heitir Guðnýjarhóll þar eru skemmtanir stundum haldnar. Norðan við Kristjánstangann heitir Síki, þetta er rás úr tjörn sem er þar fyrir ofan. Þar upp af tanganum er svo upp undir vegi holt með rústum á, þarna var býli sem hét Steinsholt, svo er þar hóll með rústum sem heitir Sandhóll. Innan við Síkið og Kristjánstanga tekur við svonefndur Vogasandur.“
Í örnefnalýsingu Gísla Sigurðssonar segir: „Langasker innan við Brekkulóð, en svo var Brekkutúnið kallað, var svo Kristjánstangi. Fremst á honum var Brimarhólmur og þar fram af Brimarhólmstangi og fram í tanganum Tangavör eða Brimhólmstangavör. Tvö vik voru þarna, nefndust Moldir og greindust í Stóru-Moldu og Litlu-Moldu.“
Garður á KristjánstangaÁ aðalskipulags-uppdrætti Voga er örnefnið Andrésarborg ofan við Kristjánstanga. Einu tóftirnar sem þar sjást er hlaðin gróin gerði á hól og hlaðin smátóft. Niður undir bakkanum, skammt sunnar, má sjá hringlaga hleðslur, sem sjórinn hefur verið að taka til sín smám saman, og a.m.k. tveir garðar út frá henni og utan hennar skammt suðvestar. Þegar Viktor Guðmundsson, Vogamaður nr. 1, var spurður um nefnda borg, svaraði hann: „Andrés í Nýjabæ var með hænur í tóttunum á hólnum. Andrésarborg var tóttin kölluð. Hvaðan borgarnafnið er komið veit ég ekki.“
Viktor hafði vísað FERLIR á hringlaga gerðið framan við Kristjánstanga sem og veggina, sem þar eru og hleðslur lítillar tóttar sem stendur undan bakkanum. Beint neðan við hana er gömul vör; Kristjánstangavörin. Þegar umhverfið er skoðað gagnrýnum augum er augljóst að landið hefur tekið verulegum breytingum á umliðnum öldum og áratugum. Bæði hefur sjórinn verið að brjóta smám saman af ströndinni og auk þess hefur landið lækkað þarna frá því sem áður var. Fyrrnefndur Brimahólmur hefur áreiðanlega verið landfastur sem og Svartiklettur.
Ljóst er að á Kristjánstanga var útræði á tímum árabátanna, áður en útgerð hófst í Hólminum (Hólmabúðum) framan við Brekku undir Stapanum. Litlar heimildir eru hins vegar til um útgerðina þar, líkt og reyndar um aðra sambærilega útgerðarstaði á Reykjanesskaganum.
VörVogaréttin fyrrnefnda var, að sögn, þar sem fiskeldisstöðin skammt sunnan Kristjánstanga er nú. Henni hefur nú verið raskað með öllu.  Erfitt er að gera sér í hugarlund hvaða hlutverki leifarnar undan Kristjánstanga hafa þjónað fyrrum. Hringlaga gerðið, ca. 9 m í ummál, hefur verið vandlega hlaðið. Neðsta steinaröðin sést enn. Veggbreiddin hefur verið um 1 1/2 m. Út frá því hefur legið garður til suðvesturs og annar samhliða honum sunnar. Þarna gæti hafa verið geymslusvæði innan gerðisins tilheyrandi útgerðinni og garðarnir þurrkgarðar, en þarna gæti samnefnd Vogarétt einnig hafa verið fyrrum og nefndar Moldir þá verið tvö smávik framar í fjörunni. Þegar horft er á umhverfið þeim augum er slíkt alls ekki útilokað.
Hvað sem framangreindu líður er ljóst að ástæða er til að skoða Kristjánstangann og minjanar þar mun nánar. Augljóst er að verulegar minjar kunna að leynast undir sandinum ofan strandarinnar þegar tekið er mið af þeim minjum sem þegar sjást í sjávarmálinu.
Frábært veður. Gangan tók 25 mín.

Heimildir m.a.:
-Örnefnalýsingar AG og GS fyrir Voga.
-Viktor Guðmundsson.

Vogarétt

Vogarétt – uppdráttur (úr fornleifaskráningu fyrir Vogavík).

 

Stiflishólar

„Þeir vóru margir saman í einu félagi, skiptu sér niður á bæi á Álftanesi og gengu ljósum loganum svo enginn hafði frið. Þeir vóru kallaðir Hverfisdraugar.

Brúsastaðir

Brúsastaðir og Stiflishólar.

Þetta var seint á 18 öld, og þá var séra Guðlaugur prestur í Görðum og hann kunni margt fyrir sér. Nú þegar bændur voru orðnir ráðalausir með þessa aðsókn þá fóru þeir til séra Guðlaugs og beiddu hann að hjálpa. „Mikið er að vita,“ segir prestur, „að þið skulið ekki hafa komið fyrr; það er nú orðið of seint, þeir eru nú orðnir of magnaðir, ég get ekki sett þá niður.“ Þó fór hann af stað og fékkst lengi við draugana og gat komið þeim að Stiflishólum, en lengra kom hann þeim ekki í því hvar sem hann leitaði á þar var eitthvað fyrir. Hann markaði því reit umhverfis hólana sem þeir aldrei komust út yfir og skildi svo við. Síðan eru þeir kallaðir Stiflishóladraugar, og hefur lengi verið þar reimt og einhver vandræði fyrir flesta sem fara þar fram hjá, en nú eru þeir farnir að dofna því þeir eru orðnir svo gamlir.“

Heimild:
-Jón Árnason I (1954), 254.

Stifnishóll

Stiflishóll.

Selvogur
Gengið var um Nes í Selvogi í fylgd Kristófers Bjarnasonar, kirkjuvarðar í Strandarkirkju, til vesturs með ströndinni og yfir að Bjarnastöðum.
Nes er austasta býli í Selvogi. Neshverfi eða Nestorfa var sameiginlegt heiti á Nesi og hjáleigum þar. Einnig var hverfið nefnt Austurvogur eða Austurvogshverfi.

Nes

Nes – legsteinn.

Landnámsmaður í Selvogi var Þórir Haustmyrkur, sem hafði bú í Hlíð. Konráð Bjarnason úr Selvogi segir í Lesbók MBL 17. des. 1991 að hann telji að sonur hans, Böðmóður, hafi fengið hinn víðáttumikla eystri hluta landnáms föðurs síns og orðið fyrsti bóndinn í Nesi. Heggur, annar sonur Þóris, er sagður hafa búið í Vogi, sem getið er til að hafi verið Vogsósar.
Í Selvogi virðast hafa verið tvö hverfi, í kringum Nes og Strönd, og þéttbýli var mikið, svo að tún flestra eða allra jarðanna lágu saman. Á 11. öld er vitað um kirkju á Nesi. Kirkjurnar, sem vitað er um, eru á öllum dýrustu jörðunum. Þess hefur verið getið til að undir lok 13. aldar hafi Nes í Selvogi orðið bústaður höfingja. Maður að nafni Finnur Bjarnason byggði þar nýja kirkju á seinni hluta 13. aldar og var hann af höfðingjaættum. Eftir hann bjó í Nesi Erlendur sterki Ólafsson (d. 1312), faðir Hauks lögmanns og bókagerðarmanns. Það að Erlendur hafi valið sér Nes til bústaðar hefur verið tekið til marks um aukið mikilvægi sjávarútvegs frá því um 1300 og að höfðingjar hafi þá kosið frekar að búa við sjávarsíðuna til að geta auðgast á sjávarfangi en í miðju fjölbyggðra landbúnaðarhéraða.

Nes

Nesbrunnur.

Næsta lítið er vitað um byggð í Selvogi á síðmiðöldum, en margar jarðir þar komust í eigu Erlendunga; Þorvarðar Erlendssonar lögmanns (d. 1513) og afkomenda hans, sem margir bjuggu á þessum slóðum. Synir Þorvarðar, Vigfús og Erlendur áttu fjölda jarða á þessu svæði og bjó Erlendur (d. 1576) á Strönd og Guðbjörg dóttir hans (d. 1596) eftir hann. Sextánda öldin var einskonar blómaskeið Selvogs. Þá bjuggu þar stórhöfðingjar áratugum saman og mjög mikið fer fyrir útgerð Skálholtsbiskupa frá Þorlákshöfn, Selvogi og Herdísarvík í skjölum frá þessum tíma. Byggð í Selvogi fór hinsvegar mjög hnignandi í kjölfar 17. aldar. Þar eyddist land vegna sandfoks, tún Strandar og nærliggjandi jarða voru smátt og smátt beinlínis kaffærð í sandi og var öll byggð eydd í Strandarhverfi um 1750.

Nes

FERLIRsfélagar í Nesi.

Jarðabók Árna og Páls sem tekin var saman á árunum 1706 og 1708 á þessu svæði er víða getið um hjáleigur og afbýli sem höfðu byggst á seinni hluta 17. aldar. Margar fóru fljótlega í eyði aftur í harðindunum um 1700 eða í kjölfar Stórubólu 1707, en önnur héldust í byggð. Ekki er ástæða að í Selvogi hafi orðið verulegar breytingar í skipulagi byggðar í Selvogi fyrr en á þessari öld.

Bærinn í Nesi stóð á Bæjarhól neðan við mitt tún. Þegar tvíbýli var í Nesi, voru bæirnir nefndir Austurnes og Vesturnes. Fyrrum mun kirkjan í Nesi hafa staðið, þar sem nú er braggabygging, notuð síðast sem heygeymsla. Legsteinar komu upp, þegar grafið var fyrir þessu húsi, og munu þeir vera þarna á hlaðinu. Kirkjan var lögð niður 1706.

Selvogur

Selvogur – Nesborgir.

Síðustu sjóbúðir í Nesi voru niðri á kampinum, og sér fyrir þeim enn. Nesbrunnur eða Austurnesbrunnur er í Suðurtúni, beint suður af tröðunum. Hann er alltaf fullur af vatni. Þaðan lágu götur til bæjanna og allra hjáleiganna.
Vestar á kampinum ofan við vörina voru Nesborgir, þrjár fjárborgir. Vestasta borgin fór í flóðinu mikla 25. febr. 1925. Enn sést hluti af hinum tveimur.
Í austri blasir Selvogsviti við, en hann var reistur fyrst framarlega á klöppunum, en síðar færður ofar, þangað sem hann stendur nú. Eldri vitinn (1919) var stálgrindarviti, en nýi vitinn er steyptur. Hann var byggður 1931 og er 18 m hár.

Selvogur

Selvogur – Nesborgir.

Gísli Sigurðsson tók saman örnefnaskrá um Nes. Þar kemur m.a. fram að af bæjarstæðinu í Nesi hafi verið eitthvert fegursta útsýni í Selvogi. Í Austurtúni neðst var hjáleigan Litla-Leður. Tóftir Litla-Leðurs hafa nú verið sléttaðar út. Austast í Hátúni var Stóra-Leður. Þar sjást enn tóftir, upp við túngarðinn. Í Vesturtúni voru þrjár hjáleigur: Neðst var Bartakot í miðju túni, og Erta var ofar og austar, rétt vestan við traðirnar. Þessi kot hafa bæði verið sléttuð út. Þórðarkot var norðvestur af Ertu, vestur undir mörkum. Það er nokkurn veginn uppistandandi enn. Beitarland frá Nesi, eins og öðrum bæjum í Selvogi, er í Selvogsheiði. Hún liggur neðan frá túngörðum allt vestur að Hlíðarfjalli, neðan Svörtubjarga, um Hnúkana og austur að hreppamörkum.

Nesborg

Nesborg.

Ofan byggðarinnar er heiðinni skipt í Austurheiði, sem er Nesland, Miðheiði, sem er upp frá Bjarnastöðum og vestur um Torfabæjarland, og Vesturheiði eða Útheiði, sem er land Eimu og Vogsósa.
Frá túngarði í Nesi liggur sjávarkampur austur að vita. Hlaðinn garður er á honum, en hann nær ekki alla leið. Austast á kampinum var bær, sem hét Snjóhús
Gengið var að brunninum, niður að sjóbúðunum og síðan út með ströndinni að fjárborgunum, sem enn standa að hluta. Gengið var framhjá Guðnabæ, kíkt í brunninn í túninu og síðan haldið áfram yfir að Bjarnastöðum.
Þorkelsgerði

Bjarnastaðir

Bjarnastaðir í Selvogi.

Á túngarði austan Bjarnastaða var hlið, og lá þar um kirkjugatan frá Nesi og vestur um hjá Bjarnastöðum. „Kirkjugatan lá neðan við Harðhaus og ofan við Mosaflöt og Víðavöll“, eins og segir í örnefnaskrá.
Í fornleifakönnun um Bjarnastaði koma m.a. fram upplýsingar um Fornagarð í gegnum Selvog, ofan bæjarins. Árið 1821 segir að “máské mætti telia Meniar-Fornaldar: Sýnishorn af þeim stóra Vördslu gardi, úr Hlídar-Vatni, allt framm ad Strónd og einlægum Túngardi þadan, austur ad Snióthúsa vórdu, fyrir óllum Túnum sveitarinnar / sem óll skyldu þá hafa samfóst verid / med læstu Hlidi ad Lógbýli hvóriu.“

Fornigarður

Fornigarður í Selvogi.

Einnig segir í sömu lýsingu að „eignad er verk þetta Erlendi Þorvardssyni sem hér var lógmadur sunnan og austan, frá 1520, til 1554; bió léngi sin efri ár ad Strónd i Selvogi og Deidi þar 1576. … Þessum nausynlegu Túna og Vórdslu Górdum verdur hér ei vidhaldid, vegna sandfoks, sem þegar hefur eydilagt, þetta, i Fyrndinni góda og Prídilega Pláts, er þá nefndist Sæluvogur, ad sógn Manna.”
Árið 1840 segir að „engar fornleifar eru hér af neinu merkilegu, nema garðlag eftir stóran varnargarð frá tíð Erlendar lögmanns Þorvarðssonar, sem liggur úr Hlíðarvatni og austur að Snjóthúsavörðu, fyrir ofan alla byggðina.

Fornigarður

Selvogur – Fornigarður. Nesviti fjær.

Var þá hagalandið milli garðs og fjalls, en tún og engjar milli garðs og sjóar, allt sjálfvarið. Mælt er, að læst hlið hafi verið fyrir hverju lögbýli, og átti hvör heimabóndi að passa sitt hlið, að ei stæði opið, og þessvegna læst, að enginn gæti opnað hliðið óforvarandis.” Samkvæmt þessu voru læst hlið á vörslugarðinum að hverjum bæ.
Bjarnastaðavörin er neðan bæjarins. Þar er merki á klöpp, sem og „bindisteinar“ við lendingu.
Fáir staðir við ströndina eru skemmtilegri til göngu en Selvogur. Þarna er sagan svo að segja við hvert fótmál. Í dag er Selvogur lifandi minjasafn – óspillt af mannanna hendi.
Frábært veður. Gangan tók 1 klst og 11 mín.

Selvogur - örnefna- og minjakort

Selvogur – örnefna- og minjakort – ÓSÁ.

Þorgarðsdys

„Sviðholtsættinni fylgdi draugur, sem kallaður var Þorgarður. En um uppruna hans er þessi saga:
Hallldór faðir Bjarna í Sviðholti bjó að Skildinganesi og var maður auðugur. Um þessar mundir fekk maður einn, sem annað hvort var dæmdur til dauða eða ævilangrar fangelsisvistar, leyfi til þess að leysa sig út með peningum, en hann var sjálfur fátækur og fekk því loforð hjá Bjarna fyrir gjaldi því, er þurfti. Aðrir nefna til þess bróður Halldórs.
Þá er Halldór var að telja gjaldið, kom að kona hans. alftanes-221Hún sópaði saman peningunum og sagði að þarfara væri aft verja þeim öðruvísi en að kasta þeim svo á glæður. Seki maðurinn fekk ekki fjeð, og sagði hann að svo mætti fara að tiltæki konunnar yrði henni til lítillar hamingju og ættliði hennar. Nú átti að flytja hann utan, en dugga sú, er hann var á, týndist fyrir Austfjörðum með allri áhöfn. Eftir þetta gekk hann aftur og sótti mjög að konu Halldórs og fór svo að hún ljest. Tók draugurinn þá fyrir aðra menn í ættinni og varð að ættarfylgju. Hann var nefndur Þorgarður.
Þuríður hjet systir Bjarna í  Sviðholti og sótti Þorgarður einna mest  að henni. Loksins skrifaði Bjarni eftir Sigmundi, fóstursyni Latínu-Bjarna, sem var ramgöldróttur, en hann kom að vestan og dvaldist hjá Bjarna um hríð. Við það ljetti ásókn Þorgarðs.

Álftanes

Sviðholt.

Sigmundur bjóst við góðum launum hjá Bjarna, en minna varð úr en hann hafði ætlað. Þegar þeir Bjarni skildu spurði hann  mund hvort sjer mundi vera óhætt. Sigmundur svaraði að svo yrði að vera, en enn mundi sumum af ættmönnum hans verða klaksárt, enda er sagt, að aðsóknin yrði Þuríði ]oksins að bana og alls dæi fjórir menn í ættinni, þar á meðal Þórður stúdent sonur Bjarna. Þetta var alt kent Þorgarði.

Það er mælt að Björn Gunnlaugsson hafi haft mestu skömm á Þorgarði, en sjeð hann oft. Björn þjeraði alla. En einu sinni er hann mætti Þorgarði á hann að hafa sagt: „Ekki held jeg að jeg fari nú að þjera yður“.
Þorgarður fylgdi Bjarna rektor, syni Jóns adjunkts og Ragnheiðar. En það var merkilegt um Þorgarð. að hann var svo sjóhræddur (líklega af því að hann hafði drukknað), að Bjarni rektor þurfti ekki annað en fara yfir Skerjafjörð eða út í Viðey til að losna við hann. Eftir lát Bjarna fara engar sögur af Þorgarði.“

Þorgarðsdys

Þorgarðsdys.

Sagan í „Þjóðsögur og munnmæli í samantekt Jóns Þorkelssonar, 1899, bls. 16-17, er svona: „Þorgarður drepur Þórð í Sviðholti; fer á kjól og stígvél; frá Birni og Þorgarði. [Eptir bréfi Guðmundar Jónssonar, Salomonssonar, úr skóla, til Friðriks prófasts Jónssonar á Stað 2. marts 1835].
Stúdent Þórður Bjarnason (Sviðholti dó af skrítilegum atvikum, að sögn manna. Óbótamaður hafði einu sinn átt að biðja einhvern forföður Þórðar Bjarnasonar að kaupa sig út frá lílsstraffi; ætlaði maðurinn reyndar að gera þetta, en varð ekki af vegna mótmæla konu hans (í Þjóðsögum Jóns Árnasonar I, 388 er sagt, að þessi hjón hafi verið Jón bóndi á Seli við Reykjavík og Guðrún kona hans. Aðrir segja, að það hafi verið Bjarni Bergsteinsson á Seli og í Skildinganesi (d. 1759) og kona hans, er neitaði Þorgarði um féð, en Bjarni var faðir Halldórs, föður Bjarna, föður Þórðar í Sviðholti.)

Skildingarnes

Skildingarnes – landamerkjasteinn 1830.

Sá seki hafði þá átt að boða manninum, að hann skyldi ekki kippa sér upp við það, þótt ókennilegir sjúkdómar vildu til í ættinni eptir þetta. Síðan brá svo við, eptir að sá seki var af tekinn, að kona þessa manns varð brjáluð. Síðan hefir ætíð einhver í ættinni verið veikur af sinnis- og hjartveiki. Þessi déskoti segja menn að einlægt hafi ásótt madame Gunnlögsen meðan Johnsen sálugi lifði. Þá hann sigldi og fórst segja menn, að hann, nefnilega Johnsen, hafi verið svo máttugur að láta hann koma með sér. Síðan hefir karlinn, að sögn manna, ætíð birzt á kjól og stígvélum.
Í haust fór Bjarnesen inn í Reykjavík til lækninga, svo hann gæti verið nær doktornum. Fór hann þá stundum að gamni upp á Klupp (klúbb). Sóru sig þá margir, bæði danskir og íslenzkir, upp á það, að þeir hefðu þá séð þénarann“.
Þorgarður var sá eini, sem komst af og ekki drukknaði af póstskipinu undir Svörtuloptum 1817. Kom hann sjóhrakinn af skipbrotinu á bæ undir Jökli um kvöldið og bað að lofa sér að vera, en var farinn um morguninn, þegar fólk kom á fætur, og hafði þá áður drepið þrjár kýr í fjósinu í þóknun fyrir næturgreiðann. Eptir það er sagt, að hann hafi um hríð öðru hverju haldið sig að konu Björns Gunnlaugssonar, ekkju Jóns skólakennara og systur Þórðar í Sviðholti. Er sagt Þorgarði hafi þó heldur staðið geigur af Birni, og hefir hann líklega verið hræddur um, að hann mundi reikna sig í rot með tölvísi. Lagði Björn og litla virðing á Þorgarð. Björn þéraði alla, en þegar Þorgarður varð á vegi hans, er haft eptir honum: „Já, ekki held eg fari ekki að þéra yður“ og „farið þér nú út um norðurdyrnar“.

Heimild:
-Lesbók Morgunblaðsins 25. ágúst 1946, bls. 344.
-Þjóðsögur og munnmæli, Jón Þorkelsson, 1899, bls. 16-17.

Garðabær

Þorgarðsdys í Arnarnesi.

Elliðavatn

Gísli Sigurðsson skrifar um „Elliðavatn“ í Lesbók Morgunblaðsins árið 2000:
„Bújörðin Elliðavatn í Seltjarnarneshreppi var lengst af meðal þekktustu bújarða í nágrenni Reykjavíkur. Vatn eins og bærinn var gjarnan nefndur var þó ekki höfuðból; til þess að svo væri þurftu jarðir að vera 60 hundruð, en Vatn var aðeins 12. Hlunnindin voru engjarnar fyrrnefndu sem nú sjást ekki lengur, kvistbeit í hraununum og veiði í vatninu og ánum Dimmu og Bugðu.
Ellidavatn-881Elliðavatn var í landnámi Ingólfs og því ekki landnámsjörð. Ef til vill hefur Ingólfur ráðstafað; þessari blómlegu og kjarri vöxnu engjajörð til frændfólks eða vina, en um það er ekkert vitað.
Engar heimildir eru til um upphaf bæjarins á Elliðavatni, en í máldaga frá 1234 segir að Viðeyjarklaustur eigi hálft land jarðarinnar. Getið er um Elliðavatn í Kjalnesingasögu, sem skrifuð
var á 14. öld, en telst full ævintýraleg til þess að vera treystandi sem heimild. Þar segir að á þeim bæ „er heitir að Vatni, er síðan er kallat Elliðavatn“ hafi búið kona sem Þorgerður hét. Hún átti son þann er Kolfinnur hét og var Kolbítur, eða með öðrum orðum: Hann lá í öskustó og hafðist lítt að. Þetta fyrirbæri er vel þekkt úr ævintýrum. Ef til vill þjáðist hann af þunglyndi, en síðan hefur bráð af honum; hann reis úr öskustónni og tók að líta í kringum sig eftir konuefni. Með tilliti til þess að kolbítar voru ekki í miklu áliti, verður að teljast að Kolfinnur hafi ekki ráðizt á garðinn þar sem hann var lægstur með því að leita eftir ástum Ólafar vænu, dóttur Kolla bónda í Kollafirði. Urðu vígaferli vegna bónorðsins og kolbíturinn sýndi að það voru töggur í honum, því hann nam Ólöfu á brott og hafði hana með sér heim að Elliðavatni.
ellidavatn-882Ekki hélst honum þó lengi á konunni. Ástmaður hennar, sá mikli kappi Búi Ástríðsson sem Kjalnesinga saga greinir frá, gerði sér lítið fyrir og felldi Kolfinn. Við konunni leit hann ekki meir, „síðan Kolfiðr hefir spillt henni“.
Klausturjarðir urðu konungseign eftir siðaskiptin og þeirra á meðal var Elliðavatn. Í Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalín sem gerð var skömmu eftir 1700 segir að eigandinn sé „kóngl. Majestat.“ Jarðardýrleiki er sagður óviss og á jörðinni er þá þríbýli. Ábúendur eru Einar Eyvindsson á hálfri jörðinni, Tómas Vigfússon á fjórðungi og sá þriðji er Snorri Snorrason, og býr hann á þeim fjórðungi jarðarinnar, sem áður var hjáleigan Vatnskot. Allir eru þeir leiguliðar hjá kónginum og er landskuld goldin með ,4ii vættum fiska eður í fríðu og átta tunnum kola“ (viðarkol). Margvíslegar kvaðir eru og á jörðinni, enda þótti ekki gott að búa í næsta nágrenni við Bessastaðavaldið. Sem dæmi um þessar kvaðir má nefna að eitt mannlán er um vertíð, hestlán til alþingis eða austur á Eyrarbakka; einn hestur frá hverjum ábúanda. Enn gætir yfirráðanna frá Viðey, „tveir dagslættir“ renna þangað. Hægt er að kalla menn til formennsku á bátum ef þeir eru til þess hæfir og fá þeir formannskaup „ef þeim heppnast afli.“ Tvo til þrjá hríshesta verður jörðin að láta af hendi og tvö til þrjú lömb skulu tekin í fóður og láta verður tvo heyhesta „til fálkafjár í Hólmskaupstað“. Tólf kýr má fóðra á allri jörðinni segir Jarðabókin, en rifhrís til eldiviðar og kolagjörðar „fer mjög í þurð“. Þrönglendi er í högum, engjar spillast af vatnsgángi, en torfrista og stúnga „lök og lítt nýtandi“.
ellidavatn-883Þessi lýsing bendir ekki til mikillar búsældar á Elliðavatni. Segir nú fátt af búskap á Vatni þar til brautryðjandinn Skúli Magnússon kom upp Innréttingum sínum í Reykjavík eftir 1750. Meðal verkefna þar var ullarvinnsla og þurfti þá að koma upp fjárræktarbúi, bæði til þess að tryggja vinnslunni næga ull, en einnig var ætlunin að bæta hana með blöndun á útlendu sauðfé. Elliðavatn varð fyrir valinu og má ætla að ástæðan hafi einkum verið sú að þar hefur verið talin bezta fjárjörðin í nágrenni Reykjavíkur vegna beitarinnar í skóglendinu þar sem Heiðmörk er nú. Vegna kynbótanna voru fluttir inn hrútar af enskum sauðfjárstofni, en sænskur barón, Hastfer að nafni, átti að stýra kynbótunum fyrsta kastið. Ekki er alveg ljóst hvers vegna þessi kynbótatilraun var flutt að Helliskoti, skammt frá Elliðavatni árið 1757. En þar var reist „mikil stofa“ þó ekki sjái hennar stað, en einnig að sjálfsögðu vandaðasta fjárhús landsins, „meira en flestar kirkjur hér á landi og afþiljað“. En ekki dugði þetta afburða fjárhús til þess að bægja óláninu frá, sem fólst í að upp kom veiki í fénu: Fjárkláði sem breiddist ört út og olli gífurlegum búsifjum. Á einum áratugi frá 1760-1770 hrapaði sauðfjáreign landsmanna úr 360 þúsundum í 140. Uggjaust er það eitthvert mesta efnahagsáfall sem Íslendingar hafa orðið fyrir, svo háðir sem þeir voru sauðfjárbúskap. Fjárræktarævintýrinu á Elliðavatni lauk
með þessu; búið var lagt formlega niður 1764. Ber nú lítt til tíðinda fram til 1815 að fjöldi konungsjarða var seldur og Elliðavatn þar á meðal.
ellidavatn-885Merkir gestir á Elliðavatni Sextán árum síðar, 1836, var Paul Gaimard í öðrum Íslandsleiðangri sínum. Hann var maður ferðavanur; hafði þá tvívegis farið kringum hnöttinn. Í leiðangurinn til Íslands hafði hann með sér lið valinkunnra manna og þar á meðal yar teiknarinn Auguste Mayer. Hann gerði fjölda teikninga og skyssa á Íslandi sem eru ómetanleg heimild, ekki sízt um húsakynni landsmanna, og þar á meðal er teikning af Elliðavatnsbænum. Mayer var frábær teiknari, en ætla má að oft hafi hann fullunnið baksviðið, fjöll og annað úr umhverfi bæja, eftir að heim var komið. Fyrir kemur að þekkt kennileiti eru óþekkjanleg og þar á meðal er hæðin ofan við Elliðavatnsbæinn. Ætla má þó að myndin sé trúverðug heimild um bæinn og hún er einnig allnokkur vísbending um að Elliðavatn hafi þá þótt markverður bær. Kirkja var þó aldrei á Vatni; bærinn átti kirkjusókn að Laugarnesi ásamt Breiðholtsbænum, Vatnsenda, Bústöðum, Kleppi, Rauðará, Hólmi, Hvammskoti, Digranesi og Kópavogi.
Á teikningu Mayers af Elliðavatnsbænum er aðeins að sjá eina stæðilega byggingu. Hún er með hefðbundnu lagi torfbæja eins og það varð á síðustu öld og snýr stafninum fram. Prýði þessa húss er vindskeið og hefur verið lagður metnaður í að hafa hana viðhafnarlega. Slíkar vindskeiðar voru ekki á bæjum almennt. Skýringuna má ef til vill finna í því, að ábúendur á Elliðavatni voru þá Jón Jónsson silfursmiður og Ragnheiður Guðmundsdóttir. Kynni að vera að listrænn metnaður silfursmiðsins kæmi þarna í ljós. Að öðru leyti sýnir myndin venjulega og fremur bágborna torfkofa, en hjallur úr timbri stendur sér. Tröðin heim að bænum liggur meðfram hlöðnum grjótvegg sem sveigist til suðurs, enda var algengasta leiðin úr Reykjavík að Elliðavatnsbænum sunnan við vatnið. Hægt var að fara aðra leið norðan vatnsins, en þá þurfti að komast yfir Elliðaárnar, Bugðu og álinn úr Helluvatni.
Bærinn á teikningu Mayers hefur trúlega verið á Elliðavatni 1841 þegar náttúrufræðingurinn og skáldið Jónas Hallgrímsson kom þar til að sjá og teikna upp minjar um þingstaðinn Þingnes sunnan við vatnið. Þaðan hélt Jónas för sinni áfram til Þingvalla og Skjaldbreiðar og lenti í frægri villu og útilegu, sem fór þó vel og gaf af sér eitt vinsælasta kvæði Jónasar.
Ellidavatn-887Þingstaðurinn var þó ekki á sjálfu nesinu sem skagar út í vatnið, heldur í hallanum ofan við nesið. Þar hafa fornleifarannsóknir farið fram; stórt rannsóknarsvæði var grafið upp og komu í ljós leifar af stórum, hringlaga garði. Innan hans sást móta fyrir fleiri mannvirkjum. Garður og rústir voru taldar vera frá 11.-12. öld og undir þeim reyndust vera minjar frá 10. öld. Frá vegamótum austan við Elliðavatnsbæinn liggur vegur sem nefndur er Þingnesslóð út með vatninu og er ökufært alla leið að Þingnesi. Sunnan vegarins er Myllulækur og samnefnd tjörn, sem samkvæmt uppdrættinum frá 1916 virðist ekki hafa verið til þá, enda hefur hún orðið til við framkvæmdir Vatnsveitunnar. Ætla má að kornmylla hafi einhverju sinni verið við Myllulæk. Þingnes er talinn einn merkasti sögustaður í nágrenni Reykjavíkur, jafnvel á landsvísu og hafa fleiri en Jónas Hallgrímsson rannsakað hann. Þeirra á meðal er Sigurður Guðmundsson málari, sem gerði uppdrátt af staðnum, Brynjólfur frá Minna-Núpi, Daniel Bruun, Finnur Jónsson prófessor, svo og Þjóðminjasafnið að sjálfsögðu. Ari fróði segir í Íslendingabók sinni, að Alþingi hafi verið sett „at ráði Úlfljóts ok allra landsmanna þar es nú es, en áður var þing á Kjalarnesi, þat es Þorsteinn Ingólfssonr landnámsmanns, faðir Þorkels mána lögsögumanns, hafði þar ok höfðingjar þeir es at því hurfu“.
ellidavatn-890Því er verr, að ekki eru til neinar heimildir um það hvar Kjalarnessþing var háð, en vísir menn hafa talið að um tíma hafi það verið í Þingnesi. Rannsóknir sem fóru fram 1984 benda eindregið til þess að þar hafi mannfundir farið fram. Dr. Jakob Benediktsson telur ljóst í Sögu Íslands, 1. bindi sem út kom 1974, að Kjalarnesþing hafí verið eins konar undanfari Alþingis, enda þótt það hafi ekM verið löggjafarþing, heldur aðeins dómþing og „sennilegt sé að upptakanna að stofnun Alþingis sé að leita í hópi þeirra höfðingja, sem stóðu að þinginu á Kjalarnesi.“ Sé þetta rétt er Þingnes hinn allra merkasti staður á bökkum Elliðavatns og nöturlegt til þess að vita að hluti þingstaðarins lenti undir vatni þegar stíflað var. Þá verður það naumast talið til fyrirmyndar að sumarbústaður hefur verið fast uppi við hinn forna þingstað og skilti með nafni Þingness virðist vera hlið að sumarbústaðarlandinu.
Algengt er að sjá í bókum aðra mynd af Elliðavatnsbænum en þá sem Mayer teiknaði og er sú mynd sögð vera teiknuð aðeins 9 árum eftir að Mayer var þar á ferðinni. Vegna Heklugossins 1845 kom náttúruvísindaleiðangur undir forustu Danans J.C. Schiitte til rannsókna á Íslandi og með í för var ungur myndlistarmaður, Emanuel Larsen, sem var ígildi ljósmyndara og vann sitt verk dyggilega.
Teikning, sem oft hefur birst og eignuð er Schiitte þessum, er sögð vera af Elliðavatnsbænum en er þó fremur grunsamleg. Enda þótt skammt sé um liðið frá því bær silfursmiðsins var teiknaður er ekM annað hægt að sjá en að sá bær hafi verið rifinn svo til grunna að enginn kofi hafi eftir staðið, en annar bær byggður með gerólíku lagi; þó ekki burstabæjarstílnum sem ruddi sér til rúms á 19. öldinni. Þarna er kominn þverstæður bær með bæjardyrum fyrir miðju og tveim gluggum sín hvorum megin við þær. Ætla má að loft hafi verið á þessum bæ yfir baðstofu og stofu; að minnsta kosti eru tveir litlir gluggar á þekjunni. Óvenjulegt verður að tefja að þarna er snyrtileg steinhleðsla utan með bænum sem einungis virðist vera til prýði, en grjótgarðar voru yfirleitt ekki hlaðnir öðruvísi en í ákveðnum tilgangi, til dæmis utanum tún eða gerði.
ellidavatn-891Í forgrunni myndarinnar er mjó vík sem er harla ósennilegt er að hafi nokkru sinni getað verið þarna og ennþá síður stenzt það, að sá bratti sem var og er frá bæjarstæðinu niður að vatninu er nánast ekkert til þarna. Ótrúlegast er samt að hvorki standa eftir tangur né tetur af bæ silfursmiðsins eftir svo fá ár. Jafnvel ennþá síður marktæk er teikning af þriggja bursta steinbæ á Elliðavatni, sem birt er í ritröðinni, Reykjavík – sögustaður við Sund. Þar er sagt að þetta muni vera húsið sem Sverrir Runólfsson byggði á Elliðavatni. Það var steinhús sem Sverrir byggði og ekkert svipað burstabænum á myndinni. Árið 1860 beinist kastljósið í fásinni hins íslenzka bændaþjóðfélags í svo ríkum mæli að Elliðavatni, að staðurinn verður á hvers manns vörum. Benedikt Sveinsson, alþingismaður og yfirdómari í Reykjavík, kaupir þá jörðina af ekkjunni Guðrúnu Jónsdóttur með það fyrir augum að gera hana að stærstu bújörð á Íslandi; jafnvel að þar yrði „fyrirmyndarbýli“ eins og Benedikt orðaði það í bréfi til Jóns Sigurðssonar:
„Eg skal gjöra Elliðavatnið að Mönstergaard…“ Benedikt var stórhuga maður, forframaður úr laganámi í Kaupmannahöfn og þótti höfðinglegra að búa á fallegri jörð en í hinni hálfdönsku Reykjavík, enda sagði hann: „…ég vil heldur láta dysja mig lifandi niður í grænan hól en svelta og kafna hérna á mölinni þar sem enginn kraftur, líkamlegur eða andlegur þrífst.“ Kaupverðið var 3.000 ríkisdalir, mikið fé fyrir mann sem var fremur skuldugur en auðugur. Þessu var þó hægt að koma í kring með því að Katrín kona Benedikts, skagfirzk höfðingjadóttir, fékk fyrirfram greiddan arf frá foreldrum sínum á Reynistað. Fyrir utan rúmlega 2.000 ríkisdali gat Katrín lagt með sér til búsins fjórar mjólkandi kyr, 15 fullorðna sauði, 50 veturgamlar gimbrar, 4 hesta með reiðingum, 20 lömb og þar að auki sængur og kodda. Eitt var víst: Hafi sá áratugar gamli torfbær, sem heldur vafasöm teikning sýnir að hafi staðið á Elliðavatni, þá ætlaði assessorinn ekki að flytja í hann. Úti í Kaupmannahöfn hafði hann kynnst Sverri Runólfssyni steinhöggvara, sem síðar byggði Þingeyrakirkju í Húnaþingi og Íþöku, bókhlöðu Lærða skólans í Reykjavík. Benedikt linnti ekki látum fyrr en hann fékk Sverri til að flytjast heim frá Danmörku; borgaði farið og hét honum ríflegum árslaunum. Það urðu þó vanefndir á launagreiðslunum og Sverrir fór í fússi frá verkinu áður en húsið var risið. Það er því ekki hægt að telja Elliðavatnshúsið eitt af verkum Sverris, en það er engu að síður eitt af elztu steinhlöðnu húsunum á landinu. Eins og fram kom í fyrri greininni var þetta ekki steinbær með burstum, heldur hús með venjulegu lagi og fjórum gluggum á suðurhlið, 50 fermetrar að stærð, kjallari, hæð og loft. Þetta hús stendur enn á Elliðavatni, bárujárnsklætt að vísu og búið að byggja við það.
ellidavatn-892Á árinu 1861 er assesorinn fluttur að Elliðavatni með fjölskyldu sína og bústofninn er þá 200 fjár, 8 kýr og 7 hestar. Í heimili eru 16 manns með vinnukonum og vinnumönnum, en frú Katrín flutti hálfnauðug uppeftir og leið eins og hún væri í fangelsi. Það hafa líka verið mikil viðbrigði fyrir hana að láta af sínu hógværa yfirstéttarlífi í Reykjavík og fara að stýra búi. Það hefur hún orðið að gera því húsbóndinn fór ríðandi til vinnu sinnar í Reykjavík að morgni og það sem verra var: Hann kom oft seint heim og var þá drukkinn.
Benedikt Sveinssyni var margt vel gefið. En í aðra röndina var hann eins og bandvitlaus maður. Áföllin létu heldur ekki á sér standa á Elliðavatni. Fjárkláði tók sig upp og það var reiðarslag. Benedikt missti trú á lækningum og gerðist ákafur niðurskurðarsinni. En fjárbú sitt missti hann og í framhaldi af því lét hann eins og óður maður og réðist ákaflega á stjórnvöld í blaði sínu, Íslendingi. Heimatilbúinn ófriður magnaðist þegar Benedikt hugðist bæta Elliðavatnsengjar með áveitu. Hann lét stífla Dimmu og Bugðu og Elliðaárnar þornuðu. Það gat hann vitað fyrirfram og þar með að Thomsen kaupmaður, sem átti laxveiðiréttinn, biði stórtjón. Af þessu spratt langvarandi málaþras.
Elliðavatnsbóndinn herti á drykkjunni samfara öllu þessu. Myrkfælni hans var fræg. Bágt átti hann með að ríða upp að Elliðavatni á kvöldin eftir að dimmt var orðið; varð jafnvel að drekka í sig kjark til þess. Menn höfðu orðið úti á þessum slóðum, illa búnir í vetrarveðrum. Til dæmis rakst ég á heimild um að langalangafi minn, Eyvindur bóndi í Miðdalskoti í Laugardal, hafði drukknað í Bugðu í marzmánuði 1823. Ekki sýnist Bugða þó vera neitt skaðræðis vatnsfall.
ellidavatn-893Á fyrstu búskaparárum Benedikts og Katrínar á Elliðavatni varð Magnús nokkur frá Lækjarbotnum úti við vatnið. Líkið var látið standa uppi í Elliðavatnsbænum og var því um kennt að mikill reimleiki fór að gera vart við sig. Hafði fólk stundum ekki svefnfrið vikum saman fyrir söng og drykkjurausi á frönsku, höggum og hurðaskellum. Ýmsan annan óskunda gerði þessi afturganga Magnúsar, til að mynda sligaði hún tvö hross. Mest sótti þessi draugur þó að vinnumanninum Erlendi, sem verið hafði drykkjufélagi Magnúsar. Eftir að Erlendur fór frá Vatni færði draugurinn sig í beitarhús og loks út í mýri þar sem Magnús hafði orðið úti. Var hann eftir það nefndur Mýrardraugurinn. Átti hann sinn þátt í því að Benedikt bjóst sífellt við því að mæta draugi á leiðinni upp að Vatni.
Gæfan varð ekki samferða þessari fjölskyldu að Elliðavatni. Það voru líkt og álög talsvert löngu síðar, 1. júní 1900, þegar sonur þeirra hjóna, efnismaðurinn Ólafur Sveinar Haukur, þá 28 ára gamall, átti leið heim að Elliðavatni til að vera viðstaddur úttekt á jörðinni fyrir hönd erfingja. Þetta var greið og hættulaus leið ef farið er sunnan vatnsins, en norðan megin þurfti að komast vfir Elliðaárnar, Bugðu og álinn milli Elliða- og Hellisvatns. Þeim megin fór Ólafur Sveinar og kallaði á ferju við álinn, en fékk ekki svar. Hann ákvað að sundríða, klæddur þungri kápu og skjöl tók hann úr hnakktösku og stakk inn á sig. En eitthvað óvænt kom fyrir; hesturinn steyptist í álinn og flæktist í taumnum. Ólafur varð undir og þótt hann væri vel syndur dugði það ekki; hann sökk og drukknaði.
ellidavatn-894Gæfan brosti hinsvegar við þeim Elliðavatnshjónum 31. október 1864 þegar frú Katrín varð léttari löngu fyrir tímann og drengur fæddist. Hann var skírður Einar og varð á fullorðinsárum svo frægur og umtalaður með þjóð sinni sem stórskáld og ævintýramaður, að núna, 60 árum eftir að hann lézt, selst ævisaga hans eins og heitar lummur. Nútíminn hefur ekki lengur ljóðin hans á hraðbergi eins og menn höfðu á fyrri hluta 20. aldarinnar, en hann dáist að skáldinu og manninum sem lifði eins og greifi í útlöndum á því að stofna hlutafélög og gera út á vonir og bjartsýni. Svo segjum við núna: Sem betur fer sluppu hinir fögru fossar okkar frá þessu óskaddaðir. Sama ár og þjóðskáldið tilvonandi fæddist varð assessorinn á Elliðavatni þingmaður Árnesinga. Samtímis átti hann að sinna störfum sínum í húsi Landsyfirdóms við Austurstræti. Uppi á Elliðavatni mátti frú Katrín una með börnin þeirra; stolt höfðingskona með eigin reikning í verzluninni Glasgow. Það var í hæsta máta óvenjulegt. Þar kom að eyðslusemi hennar gekk fram af húsbóndanum og þóttist hann til neyddur að loka fyrir úttektir frúarinnar á munaðarvöru. En um hlöðin á Elliðavatni vappaði Einar litli; þar liggja bernskuspor hans og ugglaust niðri við vatnið sem ævinlega hefur mikið aðdráttarafl á unga sveina með ævintýrahug. Hann var þriggja ára þegar hann eignaðist systurina Kristínu, en ári síðar kom dauðinn og sótti Svein litla bróður hans, sem þá var bara 6 ára. Það voru bæði skin og skúrir á Elliðavatni.
ellidaar-1880Það sem næst bar til tíðinda á Vatni var að hingað til lands kom danskur áveitumeistari, Niels Jörgensen, árið 1869. Næsti draumur í draumalandinu var að hann kæmi á stórkostlegri áveitu; nú skyldu Elliðavatnsengjar bættar svo um munaði. Þá voru 60 menn ráðnir í vinnu við að hlaða kílómetra langan stíflugarð sem náði þvert yfir Dimmu, útrennslið úr Elliðavatni. Með því vannst tvennt: Assessorinn gat veitt vatni á engjarnar og haft vatnsrennslið í Elliðaánum á valdi sínu. Honum þóknaðist að skrúfa fyrir um leið og laxveiðitíminn hófst sumarið 1869 og allt varð vitlaust.
Áður en lögbanni hafði verið komið á hleypti Benedikt úr stíflunni og vatnsflóðið sópaði
laxastiganum burt. Þá hefur verið gaman á Elliðavatni. En ekki til langframa. Reiðarslagið dundi yfir 19. ágúst 1870 þegar Benedikt Sveinsson var sviptur embætti fyrirvaralaust. Ugglaust var það ekid að ástæðulausu og ekki fékk hann góða einkunn hjá Jóni Sigurðssyni: „Bensi var efnilegur, en hann er strax grunnskemmdur, – og svo er það fylleríið!“
Næsti draumur á Elliðavatni snerist um prentsmiðju og blaðaútgáfu. En til þess vantaði fé og næst var Elliðavatnsbóndinn önnum kafinn við fjársöfnun í þessu augnamiði. Sumir gamlir samherjar töldu hann nú genginn af göflunum og ekki var það fjarri sanni, því sjálfur hirti hann hluta þess fjár sem tókst að skrapa saman.
Blaðið Þjóðólfur birti þá frétt 9. marz 1872 að leturstokkar og pressa væru í smíðum á Elliðavatni, en von væri á pappír, letri og svertu með næsta skipi. Meinið var, að leyfi þurfti til prentsmiðjureksturs og slíkt leyfi hafði Elliðavatnsbóndinn ekki.
Heima á Vatni beið prentari verkefnalaus og fór að verða óþolinmóður. Hann fór að prenta ýmislegt
smálegt í leyfisleysi, sem varð til þess eins að sýslumaðurinn kom og innsiglaði græjurnar. Leyfið fékkst aldrei.
einar ben um sextugtBensi var sagður þrotinn að kröftum eftir þetta, en þó ekki meir en svo að sumarið 1872 fæddist þeim hjónum sonurinn Ólafur Sveinar Haukur sem áður er frá sagt. Um haustið hafði frú Katrín fengið nóg og flutti til Reykjavíkur með tvö börn sín og varð þar með hálfgerð betlikerling. En mælirinn var fullur og formlega var gengið frá skilnaði þeirra hjóna í desember 1872. Einsi litli varð eftir hjá hinum galna föður sínum á Elliðavatni.
Nú var fátt um fína drætti í steinhúsinu á Elliðavatni. Búskapurinn hafði drabbast niður og slægjur á hinum rómuðu engjum voru leigðar út til manna í Reykjavík. Sárast hefur verið að húsmóðurina vantaði. Hjón voru fengin til að sjá um heimilishald, en voru ekki vandanum vaxin og sóðaskapurin gekk út yfir allan þjófabálk. Einar litli undi hag sínum illa, enda varð afleiðingin af sóðaskapnum sú að hann fékk sull. Faðir hans unni honum mjög, en hann var út og suður á ferðalögum og gat ekki sinnt börnunum, Einari og Kristínu. Sjálfsagt hefur það bjargað Einsa litla að hann var um tíma sendur í fóstur til Gríms Thomsens, skálds og bónda á Bessastöðum. En það var ekki til frambúðar.
Þjóðhátíðarsumarið 1874 ferðbjuggust þeir feðgar frá Elliðavatni og riðu yfir fjöll og firnindi norður í land, því Benedikt hafði verið skipaður sýslumaður Þingeyinga. Búið á Elliðavatni fól hann í hendur Jóni bróður sínum. Svo fór eftir mikið þras, að hann hélt ekki Elliðavatninu lengur, enda hafði hann slegið lán fyrir stærstu, gjaldföllnu veðskuldunum og ekki staðið í skilum með afborganir. Haustið 1876 urðu eigendaskipti þegar lánveitandinn, Sæmundur Sæmundsson í Reykjakoti í Ölfusi, fékk landshöfðingjaritarann til að ljúka málinu.
Kastljós fréttanna hafði oft beinzt að Elliðavatni í hálfan annan áratug. Nú komu þeir tímar að Elliðavatnsbændur voru ekki fréttaefni. Um 1907 keyptí Páll Stefánsson Elliðavatn fyrir andvirði nokkurra jarða sem hann hafði erft. En honum búnaðist ekki þar; hann seldi jörðina og flutti að Ásólfsstöðum í Gnúpverjahreppi árið 1917 og varð vel metinn sunnlenzkur höfðingi með hökutopp á
ljósmynd sem Pétur Brynjólfsson tók af Elliðavatnsbænum 1910 má sjá að búið er að byggja tímburhús vestan við steinhúsið og má gera ráð fyrir að Páll hafi byggt það. Líklega hefur steinhúsið verið kalt, enda var þá ekki um neina góða einangrun að ræða, helzt að mór væri notaður til þess eða moð.
Timburhúsið sem sést á myndinni frá 1910 stendur ennþá, en annað hús var byggt vestan við
það 1946, einnig úr timbri. Þá var sett upp kúabú, sem kann að virðast undarleg ráðstöfun á túnalausri jörð, en tilgangurinn var sá að koma á fót vistheimili fyrir vinnuhæfa sjúklinga af Kleppsspítala. Þeir unnu við búið og sú starfsemi stóð til 1960. Á ljósmynd Péturs Brynjólfssonar má sjá skúr niðri við vatnið, sem greinilega hefur verið búið í, en menn vita ekki lengur deili á honum. Þarna sést steinbrú sem notuð var til að stikla yfir álinn og auðvelda mönnum að komast á engjarnar. Þar sést einnig bátur á leið yfir álinn; fínir menn og spariklæddir á ferð.
Síðasti ábúandinn á Elliðavatni, sem bjó þar á hefðbundinn hátt, hætti 1941. Þá hafði verið kippt
grundvelli undan þeim búskap á jörðinni, sem reistur var á engjaheyskap og túnið var eftir sem
áður afar lítið. Þessi umstópti urðu með því að Rafmagnsveita Reykjavíkur keypti jörðina á árunum
1923-28 af Krisjáni Ziemsen, bæjarstjóra í Reykjavík, Þórði Sveinssyni, lækni á Kleppi, og Emil Rockstad, sem var norskur verzlunarmaður. Ugglaust hefur þessi þrenning verið með einhverjar fyrirætianir um nýtingu á jörðinni – eða vatninu, en ekki er vitað hverjar þær voru. Þeir fengu hver um sig að halda eftir einum hektara lands.
En hversvegna sóttist Rafveitan eftir Elliðavatni?
Forsaga þess er virkjun Elliðaánna, sem hafði verið á döfinni frá 1914, en fram að þeim tíma hafði gas orðið ofaná sem ljósgjafi. Elliðaárnar voru virkjaðar 1920, en veruleg óþægindi urðu á næstu árum af völdum ísmyndunar í ánum annarsvegar og hinsvegar af vatnsskorti yfir
sumartímann. Lausnin var vatnsmiðlun með stíflu við ELliðavatn og stækkun vatnsins um !
helming. Fyrsta tilraun í þessa veru var 600 metra langur torfgarður uppi á Elliðavatnsengjum, en 1928 var gerð jarðvegsstífla með timburþili og grjótvörn. Síðar var stíflan steypt og hækkuð og þá hafði vatnsborð Elliðavatns hækkað til muna.

Heimildir:
-Lesbók Morgunblaðsins 12. febrúar 2000, bls. 10-12.
-Lesbók Morgunblaðsins 19. febrúar 2000, bls. 10-12.

Elliðavatn

Elliðavatn.

Arnarnes

„Sumarið 1926 hafði ég tal af frú Þuríði Guðmundsdóttur Mathiesen, ekkju Theodors Mathiesen í Hafnarfirði. Hún er fædd í Kópavogi 14 árum eftir að Jónas kom þangað (21. sept. 1855) og uppalin þar, unz hún var komin á 19. ár. Frú Þuríður er prýðilega gáfuð kona, skýr í tali og minnug vel enn á margt það er hún sá eða heyrði í æsku. — Hún sagði mér af munnmælunum um dysina við veginn gamla efst á Arnarnesshálsi, sem getið er um hér að framan.
Thorgardsdys-21Neðar, á norðanverðum hálsinum, kvað hún vera dys Þorgarðs, sem svo miklar þjóðsögur gengu um, sbr. Þjóðs. Jóns Árnas., I, 388—91. Mun sú dys þó frá fyrri tímum en Þorgarður á að hafa verið á, eftir þjóðsögunum. Annars er svo að sjá sem sumt í þeim, einkum frásögnin um glæp þann er Þorgarður á að hafa verið drepinn fyrir, stafi frá máli Sigurðar á Árbæ. En hvað sem um það er, þá er líklegast að þessi dys sé yfir einhverjum, sem hafi verið líflátinn hér skammt frá eftir dómi á Kópavogsþingi. Ögmundur skólastjóri Sigurðsson hefir sagt mér, að Filippus heitinn Filippusson, sem ólst upp í Arnarnesi, hafi skýrt svo frá, að þetta væri dys Steinunnar frá Árbæ. Ekki er það fortaks-mál, þótt það komi ekki heim við frásögn Þuríðar. Dysin er úr grjóti og allstór. Að norðanverðu hefir henni verið rótað mikið upp, fyrir nokkrum árum, og kann þá að hafa verið tekið nokkuð grjót úr henni. Hún er að austanverðu við gamla veginn, skammt suður frá Litla-Arnarnesi, er Þuríður kvað svo heita. Þar sjást enn á flöt niður við voginn, norðan gamla vegarins, litlar og óglöggar tóftir eftir kot, sem var þar fyrrum.“

Heimild:
-Árbók Hins íslenska fornleifafélags, 42. árg. 1929, bls. 29-30.

Þorgautsdys

Þorgautsdys.

Gálgahraun

Gengið var um Grástein á Álftanesi, framhjá Selskarði, skoðuð steinbrú yfir Skógtjörn og haldið austur með suðurjarðri Gálgahrauns að Garðastekk.

Gálgahraun

Gálgahraun – skófir.

Skammt frá vegamótum Suðurnesvegar og Norðurnesvegar er sá merki steinn Grásteinn, sem er álagasteinn. Í honum eru för sem sýna að reynt hefur verið að færa steininn úr stað en eitt sinn er það var reynt sýndist mönnum Eyvindarstaðir standa í björtu báli og hættu við flutninginn. Skyggnt fólk segja álfa búa í steininum. Þeim er illa við að fólk fari með gassagangi framhjá honum. Sé það gert reyna þeir að gera því fólki glettu. Þeir láta fólks hins vegar í friði fari með friðsemd.
Gengið var með Álftanesvegi áleiðis að Gráhelluhrauni. Selskarð er þar á vinstri hönd, skammt austan heimkeyrslunnar að Bessastöðum.

Garðastekkur

Í Garðastekk.

Á leiðinni var skoðuð gömul göngu- og reiðleið um Álamýri við Skógtjörnina. Leiðin lá fyrrum um steinbrú, „stíflurnar“ yfir jarðar tjarnarinnar og stytti það leiðina yfir í Garðahverfi. Brúin var þó hrunin á nítjándu öld, að minnsta kosti þegar Benedikt Gröndal skrifaði Dægradvöl. Benedikt segir brúna „allmikið verk, en illa gert“.

Guðmann Magnússon, bóndi á Dysjum í Garðahverfi, lýsti helstu leiðum, sem farnar voru út á Álftanes um aldamótin.

Skógartjörn

Skógartjörn – brú.

Austur úr hafi tvær leiðir með sjónum í gegnum hraunið. Önnur í vestæga stefnu um Garðastekk, en þaðan hafi sú leið skiptst í tvennt og ein leið legið meðfram sjónum og út á Álftanes (Bessastaðasókn), en önnur í Garðahverfi.

Þetta getur vel passað við Fógetagötuna annars vegar og Garðaveg/-götu hins vegar, en hún liggur upp á Garðaholt, svo til í beina stefnu á Garðakirkju. Álftanesgatan gæti síðan hafa tekið við frá gatnamótunum, áleiðis að Bessastöðum.
Selskarði hefur verið mikið raskað, þrátt fyrir viðurkennt fornleifagildi. Það er í rauninni ágætt dæmi um hvernig á ekki að umgangast fornminjar og ætti því að geta orðið víti til varnaðar.

Fógetagata

Fógetagatan um Garðahraun.

Gísli Sigurðsson nefnir nafnið Selsgarðar. Í jarðabók ÁM og PV segir að Garðar hafi brúkað þar (í landi Hausastaða) skipsuppsátur. Álftanesgata (Fógetagata) hafi legið á vatnaskilum (þurrlendi) sunnan Selskarðsbæjar gamla.
Gálgahraun er fremsti hlutinn af hrauninu norðvestan Álftanesvegar. Þar lá vegurinn til Bessastaða allt fram á nítjándu öld. Gálgahraun þótti mjög gjöfult.

Ólafur Þorvaldsson segir í enduminningum sínum að “þeir , sem fóru til aðdrátta í Gálgahrauni, voru aðallega Garðhverfingar, svo eitthvað Hafnfirðingar, og var það þang og marhálmur, sem þangað var sótt, og ver það bæði rekaþang og skorið þang.

Garðastekkur

Garðastekkur.

Betra þótti rekaþang til brennslu en þang það, sem skorið var, aðallega fyrir það að minna salt virtist í því og þornaði því fyrr.
Þegar þangið var orðið þurrt báru menn það oftast heim á sjálfum sér, í stórum byrðum eða sátum, þar eð fæstir þurrabúðarmenn áttu hesta. Gálgahraun lætur ekki mikið yfir gróðri þeim, sem það býr yfir, en hann er meiri heldur en flesta grunar. Gálgahraun fæddi og fóstraði marga sauðkindina, meðan menn hagnýttu sér útibeit. Þó var beitin þar ekki með öllu áhættulaus. Gálgahraun, sem er nyrsti hluti Garðahrauns, á sér engin ákveðin mörk að sunnan í hrauninu.

Gálgahraun

Gálgahraun – kort.

Gálgahraun býður upp á stórbrotna náttúru. Hraunið, sem kemur úr Búrfelli um Búrfellsgjá, um 10 km leið og er um 18 ferkílómetrar. Hraunið er talið vera um 7200 ára. Heitir það ýmsum nöfnum á leiðinni. Í því eru fjölbreyttar tjarnir, fjörur og grunnsævi með auðugu lífríki. Gálgahraun er tilkomumikið nútímahraun með lífauðugum sjávarfitjum.

Hluti þessa svæðis hefur verið friðlýstur. Í matsskýrslu fyrir nýjan Álftanesveg kemur fram að hin forna þjóðleið, Fógetastígur, hafi verið leið um Gálgahraun. Stígurinn þykir mjög óvenjulegur þar sem óvíða hafi umferð á Íslandi verið það mikil fyrr á öldum að rásir hafi klappast í hraun. Stígurinn er þannig minnisvarði um mikilvægi Bessastaða sem miðstöðvar stjórnsýslu á Íslandi og efnahagslífs við Faxaflóa um aldur. Þykir stígurinn “meðal allra merkustu fornleiða á höfðuborgarsvæðinu og hefur ótvírætt varðveislugildi”.

Gálgaklettar

Gálgaklettar.

Gálgahraun er nefnt eftir Gálgunum nyrst í hrauninu. Þar var aftökustaður. Sakamannastígur liggur frá Álftanesgötu (Fógetastíg/-götu) yfir að Gálgaklettum.
Gengið var að Garðastekk. Garðastekkur er gömul fjárrétt. Mikilvægt er að varðveita stekkinn, enda teljst hann til menningarminja. Í hrauninu, ofan við stekkinn, er gömul fjárborg, sem ekki er getið um í örnefna- eða fornleifalýsingum.
Frábært veður. Gangan tók 1 klst og 1 mín.

Heimild m.a.:
-Örnefni og leiðir í landi Garðabæjar – 2002.
-Álftanessaga – Anna Ólafsdóttir Björnsson.

Gálgaklettar

Gálgaklettar – meintur grafreitur.