eldgos

Eftirfarandi frétt, viðtal við Pál Einarsson, jarðfræðing, birtist í Morgunblaðinu 20. október 2012 undir fyrirsögninni: „Engin teikn um eldsumbrot á Reykjanesi“.

Páll Einarsson

Páll Einarsson.

„Komi upp jarðeldar á Reykjanesi er ekki ólíklegt að þeim muni svipa til Kröfluelda 1975-1984. Þar yrðu gangainnskot með sprunguhreyfingum og hraunflæði aðallega þegar færi að líða á umbrotin. Hraungos af því tagi myndi eiga sér nokkurn aðdraganda. Engin óyggjandi teikn eru um að slíkir atburðir séu í aðsigi.
Þetta kom fram í erindi Páls Einarssonar jarðeðlisfræðings í gær á ráðstefnunni Björgun 2012 sem Slysavarnafélagið Landsbjörg heldur nú um helgina. Yfirskrift erindis Páls var „Jarðskjálfta- og eldfjallavá í nágrenni Reykjavíkur.“
Páll EinarssonPáll sagði að höfuðborgarsvæðið væri nálægt mjög sérkennilegum jarðskjálfta- og eldgosasvæðum. Þar með væri ekki sagt að bráð hætta steðjaði að fólki þeirra vegna.
Nokkur eldstöðvakerfi eru á Reykjanesi og tengjast þau gangainnskotum. Páll sagði að þegar svona kerfi yrði virkt streymdi hraunkvika upp í rætur þess og gæti síðan leitað eftir sprungunum og upp á yfirborðið. Það fer eftir spennuástandi á hverjum tíma hve langt kvikan getur farið og hvað gliðnunin verður mikil sem fylgir hverju gangainnskoti.
Vestasta kerfið liggur um Reykjanesið utanvert, norðan við Grindavík og út í Vogaheiði. Næsta kerfi austan við er Krýsuvíkurkerfið sem innifelur allar eldstöðvar í Krýsuvík og eldstöðvar sem hraun runnu úr niður í Hafnarfjörð. Þetta kerfi liggur m.a. um úthverfi Reykjavíkur. Sprungurnar í Heiðmörk tilheyra þessu eldstöðvakerfi og er eldstöðin í Búrfelli ofan við Hafnarfjörð sú nyrsta í kerfinu. Það liggur áfram norður um Elliðavatn og Rauðavatn og deyr út í Úlfarsfelli. „Þetta er það kerfi sem getur kannski valdið mestum usla í sambandi við eldvirkni og eldvirknivá á höfuðborgarsvæðinu,“ sagði Páll.
EldgosÞriðja kerfið liggur um Brennisteinsfjöll og sagði Páll að það væri ef til vill virkasta kerfið og úr því hefði runnið mesta hraunið. Kerfið liggur um Bláfjöll og Sandskeið og upp í Mosfellsheiði. Lengra til austurs er Hengilskerfið. Það nær alveg frá Selvogi og upp á Þingvelli. Páll sagði að þar til fyrir skömmu hefðu ekki sést nein merki um að kvika væri að streyma inn í eldstöðvakerfin á Reykjanesskaga. Fyrir 2-3 árum fór þó að örla á því að eitthvað gæti verið að gerast.

Páll vildi þó ekki gera mikið úr því og sagði menn enn vera að reyna að átta sig á því hvað hefði gerst. Hann sagði að Krýsuvíkursvæðið væri undir smásjánni að þessu leyti. Þar varð landris 2009 og svo aftur landsig.
EldgosEldstöðvakerfin á Reykjanesi virðast hafa orðið virk á um þúsund ára fresti og hver hviða hafa staðið í 300-500 ár. Öll eldstöðvakerfin virðast vera virk í hverri hviðu en hvert kerfi tímabundið.
Páll taldi að hraungos á Reykjanesskaga á okkar tímum myndi tæplega ógna mannslífum. Líklegra væri að það myndi valda eignatjóni, aðallega á innviðum eins og vatnsveitu, hitaveitu, rafveitu og vegum. Öskufall gæti orðið staðbundið og myndi nágrennið við Keflavíkurflugvöll líklega valda mönnum mestum áhyggjum, að mati Páls. Grunnvatn gæti hitnað og vatnsból mengast. Skjálftavirkni gæti orðið nokkur. Hraun gæti hugsanlega runnið nálægt byggð án þess þó að ógna beinlínis mannslífum.

eldgos

Eldgos á Reykjanesi frá landnámi – Ekkert gos eftir 1240
Nokkur hraun hafa runnið á Reykjanesi frá því að sögur hófust. Það gaus við Reykjanestá, í Eldvörpum norðan við Grindavík, Arnarseturshraun við Grindavíkurveg rann einnig.
Goshrina varð í Krýsuvíkurkerfinu í kringum árið 1150 e.Kr. Ögmundarhraun er syðst og rann út í sjó. Síðan rann Kapelluhraunið niður í Straumsvík. Þetta gerðist sennilega allt í þeirri hrinu.
Nokkur hraun hafa runnið úr Brennisteinsfjallakerfinu frá því að land byggðist. Kristnitökuhraunið er á milli Brennisteinsfjallakerfisins og Hengilskerfisins.
Nánast öll þessi eldgos urðu á tímabilinu 900-1240 e.Kr. Ekkert eldgos er þekkt á Reykjanesskaga eftir árið 1240.“ [Þrátt fyrir ótölulegan fjölda jarðskjálfta í gegnum tíðina hefur ekki orðið eldgos á Reykjanesskagnum – a.m.k. ekki hingað til].

Heimild:
-Morgunblaðið 20. október 2012, bls. 28.
Eldgos

eldgos

Í Fréttablaðið.is 5. mars 2021 mátti lesa eftirfarandi „frétt“; „Minjar í hættu samkvæmt spá um hraunrennsli“. Þar segir m.a.:

EldgisYfirlitskort Minjastofnunar er unnið út frá þeim minjum sem eru þekktar og eru á skrá hjá stofnuninni en fleiri minjar er að finna á svæðinu þar sem heildarskráning fornleifa á svæðinu hefur ekki farið fram.
Fornleifafræðingar Minjastofnunar eru í kapphlaupi við tímann að skrá minjar sem eru í hættu miðað við hraunrennslisspá. Enn á eftir skrá margar minjar sem gætu glatast að eilífu komi til eldgoss.

„Fjölmargar friðaðar og friðlýstar minjar eru á óróasvæðinu og enn á eftir að skrá margar minjar með fullnægjandi hætti að sögn Sólrúnar Ingu Traustadóttur fornleifafræðings. Hætta er á að þær glatist að eilífu komi til eldgoss.

Eldgos
„Fjöldi þekktra friðaðra minja er á svæðinu. Minjarnar tilheyra ýmsum minjaflokkum en helst er að nefna fjölmörg sel, bæði frá bæjum sunnan- og norðanvert á Reykjanesskaganum,“ útskýrir Sólrún. Hún segir helstu selin í hættu vera Dalssel við Fagradalsfjall, Knarrarnessel, Auðnasel, Fornasel, Rauðhólasel, Seltó, Kolhólasel, Oddafellssel nyrðra og syðra sem eru sunnan Reykjanesbrautar.

Ekki er talið líklegt að gos hefjist á næstu klukkustundum og lauk gosóróanum sem hófst um klukkan 14:20 á miðvikudag um miðnætti þann sama dag.

„Nú er viðvarandi skjálftavirkni á svæðinu en óróinn var bara á miðvikudag,“ segir Einar Hjörleifsson, náttúruvársérfræðingur, í samtali við Fréttablaðið.“

Staðreyndirnar eru hins vegar þessar:

Kringlumýri

Kringlumýri ofan Krýsuvíkur – með elstu mannvistarleifum á Íslandi.

Í fyrsta lagi; Minjastofnun hefur sýnt minjum á svæðinu takmarkaðan áhuga í gegnum tíðina, jafnvel svo jaðrar við vanrækslu, þrátt fyrir þrálátar ábendingar. Eitt svarið við einni slíkri ábendingu var t.d.: „Það eru engar merkilegar minjar á svæðinu“.

Í öðru lagi; Minjastofnun hefur hingað til ekki haft einn sérstakan minjavörð er gætt hefur hagsmuni svæðisins sérstaklega, líkt og um aðra landshluta.

Seltó

Kort Sesseljar af Seltó og nágrenni.

Í þriðja lagi; Minjastofnun á að vita að áhugasamir einstaklingar, umfram starfsfólk hennar, hefur bæði skoðað, skráð, ljósmyndað, teiknað upp og fjallað opinberlega um allar mikilvægar minjar á svæðinu. Má þar t.d. nefna Sesselju Guðmundsdóttur o.fl. Þessir aðilar hafa haldið skrár, þ.á.m. hnitaskrár, af öllum fornminjunum. Stofnunin hefur hins vegar haft lítinn áhuga á samvinnu við þetta fólk, a.m.k. hingað til.

Sel

Sel vestan Esju – ÓSÁ.

Í fjórða lagi; Minjastofnun má vita að allar selstöðurnar á svæðinu hafa þegar verið skráðar, hnitsettar, ljósmyndaðar og teiknaðar upp. Heimildir um það liggja fyrir í opinberum skrám, öðrum en hennar.

Í fimmta lagi; Seltó var ekki selstaða í eiginlegum skilningi, líkt og þekktist í heiðinni. Staðurinn var að vísu nytjastaður til hrístöku fyrrum, líkt og nafnið bendir til, þótt þar finnast engar minjar þess í dag.

Í sjötta lagi; Ef Minjastofnun vildi leggja áherslu á minjasvæði á mögulegu gossvæði ætti starfsfólkið að beina athygli sinni  fyrst og fremst að Selsvöllum, en mér að vitandi hefur starfsmaður stofnunarinnar varla stigið þar niður fæti þrátt fyrir aldarlýsingar ferðalanga og sagnir þeirra fyrrum af minjunum þar sem og handavinnu áhugasamra einstaklinga um mikilvægi þeirra í hinu sögulega samhengi svæðisins.

Hraun

Refagildra við Hraun.

Í áttunda lagi; Fáir vita t.d. að fjárborgir á Reykjanesskagnum eru 134 talsins, fornar refagildrur 91 og sels og selstöður 402, réttir 122 o.s.frv.  Efast er um að Minjastofnun hafi yfirlit um allar þær minjar, hvað þá allar mannvistaðleifarnar er finna má í hellum á svæðinu.

Í níunda lagi mætti Minjastofnun gjarnan líta sér nær þegar kemur að umræðu um minjar á Reykjanesskaga.

Fyrir áhugasama vil ég vekja athygli á vefsíðunni www.ferlir.is sem hefur fjallað um örnefni, leitir að mannvistarleifum, hversu ómerkilegar sem þar kynnu að virðast, á Reykjanesskaga um áratuga skeið…

Heimild:
-Fréttablaðið.is 5. mars 2021, Minjar í hættu samkvæmt spá um hraunrennsli.

Selsvellir

Selsvellir – uppdráttur ÓSÁ.