Gljúfrasteinn

Við „Gljúfrastein“ í austanverðum Mosfellsdal er upplýsingaskilti. Á því er eftirfarandi texti:

Gljúfrasteinn

Halldór Kiljan Laxnes á vinnustofu sinni að Gljúfrasteini.

„Gljúfrasteinn var byggður í Laxneslandi og arkitekt hússins var Ágúst Pálsson. Húsið reis á hálfu ári. Auður Laxnes segir þannig frá í ævisögu sinni, „Á Gljúfratseini“: „Á þjóðhátíðardaginn 17. júní 1945, kom ég mér vel fyrir í sólkskininu á svölum Landspítalans, og vélritaði samning um byggingu Gljúfrasteins, og dagana á eftir var hafist handa. Fyrstu merki þess að framkvæmdir væru hafnar, var sími festur uppá steini hér úti á hól, og breiddur yfir hann segldúkur á kvöldin. Þá var fátt um byggingarefni, og þurfti að hringja í ýmsar áttir og tína það saman héðam og þaðan af landinu.“
Um jólin 1945 fluttu Halldór og Auður að Gljúfrasteini og varð heimili þeirra strax einstaklega hlýlegt og prýtt mörgum fallegum listaverkum. Hér var heimili og vinnustaður Halldórs Laxness um hálfrar aldar skeið og húsið skipar sérstakan virðingarsess í augum íslensku þjóðarinnar.“

Gljúfrasteinn opnaði sem safn 2004 og er húsinu haldið óbreyttu frá því sem var. Boðið er upp á hljóðleiðsögn um húsið á ýmsum tungumálum.

Gljúfrasteinn

Halldór Kiljan Laxnes og Auður með Nóbelsverðlaunaskjalið 1955.

Fagradalsfjall

Í ritvélarituðu verki Jóns Jónssonar, jarðfræðings, útgefnu af Orkustofnun  árið 1978, er gagnmerkt „Jarðfræðikort af Reykjanesskaga og skýringar við þau„. Kortin, sem þar birtust, eru handunnin og einkar nákvæm – á þess tíma mælikvarða.

Jón Jónsson

Rit Jón Jónssonar um „Jarðfræðikort af Reykjanesskaga“.

Arfveri Orkustofnunar mætti gjarnan gefa út hin fjölmörgu nákvæmari jarðfræðiuppdráttarkort Jóns af Reykjanesskaganum, umfram það sem sjá má í framangreindu ritverki. Skrifari er minnugur þess að hafa villst í dimmri þoku ofan Geitahlíðar í leit að hraunhellum, en hafði í vasanum ljósprentað jarðfræðikort Jóns af svæðinu er gerði honum kleift að feta sig með merktum hraunjaðri úr þokunni niður í Sláttudal.
Hér verður lýst athugun jarðfræðingsins á nokkrum hraungosum í Fagradalsfjalli og nágrenni, allt frá forsögulegum tíma til aðdraganda núverandi hraungoss í fjallinu, sem ætti reyndar ekki að hafa komið á óvart.

Hraun í og við Fagradalsfjall

Borgarhraun nefnist hraunfláki sá, er nær ofan frá suðurhlíðum Fagradalsfjalls að norðan og þekur allt svæðið milli Bleikhóls að vestan og Borgarfjalls að austan.

Jón Jónsson

Jón Jónsson.

Það hefur fallið í sjó fram vestan við Ísólfsskála og þar fram af hömrum, en ekki sér nú í það neðan við þá hamra. Hraun þetta er víða stórbrotið og á nokkrum stöðum í því eru gjár, sem tilheyra megin sprungukerfinu. Allt bendir til að hraunið sé nokkuð gamalt. Engir gígir sjást í þessu hrauni og er því ekki fyllilega ljóst hvar upptök þess eru.
Gígur allstór er sunnan í Fagradalsfjalli og líklegast að hraunið séð þaðan komið, þó ekki verið það fullyrt, því engar hrauntraðir tengja það við eldstöðina. Hins vegar er ljóst að þarna hefur gosið við fjallsrætur og ná gígmyndanirnar, gjall og hraunkleprar, upp á fjallsbrún. Hraunið er plagioklasdílótt og einstaka ólinvíndíl má og sjá í því. Hraunið nær yfir 3.22 km2 og mun því vera um 0.06 km3.

Uppi á Fagradalsfjalli sunnanverðu hefur gosið (H-46). Það er stutt gígaröð á sprungum, sem stefna nærri beint norður-suður. Gígirnir eru litlir og að mestu úr hraunkleprum.

Fagradalsfjall

Fagradalsfjall – jarðfræðikort JJ.

Hraunið er þunnt. Það þekur dálítið svæði suðvestan á fjallinu og hefur fossað vestur af því niður í dalinn austan við kast og niður með því að norðan, þar er sprunga gegnum það og stefnir sú eins og sprungurnar á Fagradalsfjalli og raunar í austanverðu Dalahrauni líka. Hraunið hverfur svo undir Dalahraun, er niður á sléttuna kemur.

Fagradalsfjall

Fagradalsfjall – jarðfræðikort JJ. Dyngjan Þráinsskjöldur miðsvæðis.

Hraun (H-47) hefur komið úr sprungu samhliða Sundhnúkagígunum og því úr austasta hluta gígaraðar, sem nær nokkuð upp í vesturhlíð Þráinsskjaldar. Hraunið er afar gjallkennt og þunnt. Það hefur runnið norður á við og hverfur brátt undir yngri hraun. Gírgirnir eru lítt áberandi og mörk hraunsins fremur ógreinileg.

(H-48) er efsta hraunið í Fagradal og þekur dalbotninn að heita má. Undir því er annað eldra hraun, sem kemur fram í farvegi miðja vegu í dalnum. Það er picrithraun og vafalaust komið frá dyngju og hef ég sökum þess kennt það við dalinn, eins og áður er sagt. Gígir eru efst í dalnum milli Fagradalsfjalls og Þráinsskjaldarhrauna, en þau mynda raunar norðurbrún dalsins og er harla dularfullt hvers vegna þau hafa ekki runnið alveg upp að fjallinu á þessum stað, heldur mynda allhá og skarpa brún norðan hans. Ætla verður að hraunið sé komið úr gígunum efst í dalnum, en ekki er sambandið greinilegt. Hraunið hverfur í dalnum undir framburð úr læknum, sem í vorleysingum fellur þarna niður og svo undir yngri hraun.

(H-49) og (H-50) eru bæði ofan við Fagradal og lítið af þeim sýnlegt nema gígirnir, sem eru mikið veðraðir og fornlegir. Samtals ná þessi hraun ekki yfir nema um 0.7 km2 og eru varla nema 0.0004 km3.

Fagradalsfjall

Gígurinn nyrst í Fagradalsdfjalli.

Norðan á Fagradals-Vatnsfelli eru eldvörp allstór (H-51). Hraun frá þeim þekur suðurhluta fjallsins og hefur fallið vestur af því. Uppi á fjallinu og utan í því er það örþunnt nema rétt við gígina. Smágígur er vestan í fjallinu neðarlega í hlíð. Hraun þetta hverfur undir Þráinsskjaldarhraun og er því eldra en það. Aðalgígirnir eru þrí í röð með stefnu norðaustur-suðvestur og er sá nyrsti þeirra opinn móti norðri. Virðist líklegt að þaðan hafi aðal hraunrennslið verið, en eins og áður er sagt er ekki vitað um stærð þess hrauns, sem þar átti upptök.

Fagradalsfjall

Fagridalur – Nauthólar og Dalssel.

(H-52) er gjallgígaröð, sem liggur um þvert sundið milli Fagradalsfjalls og Fagradals-Vatnsfells. Hún er að mestu fær í kafi af hraunum frá Þráinsskildi og frá lítilli dyngju þar suður af.

(H-53) er örlítil og fornleg hraunspýja norðaustan í Fagradasfjalli ofan við Meradali. Hraunið er sums staðar svo þunnt að utan í brekkunni hangir það ekki lengur saman og mjög hefur veðrunin unnið á því.

Fagradalsfjall

Fagradalsfjall – kort.

(H-54) er hraun, sem hefur runnið niður í dalinn vestan við Höfða og er án efa komið af svæðinu milli Sandfells og Vesturháls. Það hefur fallið vestur sundið milli Höfða og Sandfells, en er það að heita má hulið yngra hrauni. Það sést svo ekki fyrr en í dalnum sunnanverðum, þar sem það kemur fram undan ygra hrauni. Loks fellur það í þrem smáum hraunfossum fram af fjallinu suður af Méltunnuklifi og austan við Skála-Mælifell. Það hverfur strax undir yngri hraun, er niður á sléttuna kemur. Eldstöðin, sem þetta hraun er úr, sést nú ekki, en hún er án efa á sömu slóðum og gígaröðin, sem yngsta hraunið í dalnum er komið frá, en verlegur aldursmunur virðist era á þessum hraunum.

Höfði

Höfðahrauntröð.

Höfðahraun kemur úr Höfðagígunum, sem eru stutt gígaröð austan í móbergs-bólstrabergs hrygg, sem nefndur er Höfði, hraunið þar austur af milli Höfða og Núpshlíðarháls. Þessa leið hafa hraun runnið, sem þekja allt svæðið með sjó fram frá mynni þessa dals all vestur að Ísólfsskála. greinilegt er, að á allstóru svæði hefur þetta hraun runnið í sjó út, t.d. á svæðinu milli Ræningjagjögurs og Veiðibjöllunefns og má telja víst að hraunið hafi þarna bætt allverulegri sneið við landið. Skammt eitt austan við Ísólfsskála má sjá fornan malarkamb uppi í hrauninu og skammt þar frá votta fyrir gervigígum. Þessi hraunfláki allur er án nokkurs efa kominn af svæðinu vestan við Núpshlíðarháls, en að hvað miklu leyti það er í Höfðagígum komið, gígunum við þjóðveginn fremst í dalnum, sem nefndir eru Moshólar, eða öðrum eldstöðvum, sem nú eru huldar yngri hraunum, skal að svo komnu máli ekki fullyrt um. Moshólar eru fremst í dalnum og liggur þjóðvegurinn milli þeirra. Hrauntraðir allstórar liggja frá syðsta gígnum ái átt til sjávar. Svo virðist sem Höfðahraun hafi klofnað á þessum gígum og sé því eitthvað yngra en þeir. Hins vegar er hugsanlegt að gosið því nær samtímsis á báðum þessum stöðum.

Méltunnuklif - misgengi

Méltunnuklif – misgengi.

Misgengi það, er liggur um Höfða vestanverðan og myndar stallinn Méltunnuklif, brýtur hraunið þar suður af og er sigið austan megin. Bendir þetta til að hraunflákinn sé allgamall.“

Heimild:
-Orkustofnun, Jarðfræðikort af Reykjanesskaga – skýringar við jarðfræðikort, Jón Jónsson, 1978, bls. 149-153.

Fagradalsfjall

Fagradalsfjall – kort.

Latur

Í Tímanum 1996 er grein um „Frumbyggja í Kópavogi og yngri kynslóðir sem eiga sér þjóðsögur líkt og aðrir“. Anna Hedvig Þorsteinsdóttir og Inga Þóra Þórisdóttir segja frá:

Latur

„Gamlar“ sagnir eru um að steinninn sé
álfabústaður. Einnig kemur hann nokkuð við sögu Jóns bónda Guðmundssonar í Digranesi. Mun hann hafa setið við steininn og sungið þegar hann kom heim úr sollinum í Reykjavík á fyrri helmingi
tuttugustu aldar.

„Rótarýklúbburinn í Kópavogi hefur gefið út bókina „Þjóðsögur og sagnir úr Kópavogi„, sem Anna Hedvig Þorsteinsdóttir og Inga Þóra Þórisdóttir söfnuðu af elju meöal eldri Kópavogsbúa. Einnig fengu þær að láni spólur frá Stofnun Árna Magnússonar með viðtölum Hallfreðar Arnar Eiríkssonar við eldri Kópavogsbúa, sem tekin voru upp árið 1967. Bókin er unnin upp úr lokaritgerb Önnu og Ingu úr Kennaraháskóla Íslands og eru sögurnar býsna
fjölbreyttar. Þar má finna sögur af hinum fræga Jóa á hjólinu, draugum, karlinum sem býr orðið einn í Álfhólnum, Jóni í Digranesi, Kársnesorminum og huldufólki, svo eitthvað sé nefnt. Hér á síðunni birtist ein huldufólkssagan. Hún segir frá huldukonunni á peysufötunum sem safnararnir höfðu eftir Kristni Hallssyni.

Huldukonan á peysufötunum

Latur

Latur.

Á fyrri hluta þessarar aldar var byggð ekki mikil í Kópavogi. Mátti þó sjá bústaði, sem fólk hafði reist sér til sumardvalar, og einnig var farið að bera á því að bústaðir þessir væru nýttir sem íbúðarhúsnæði árið um kring. Í Digraneslandi stóðu nokkrir þessara bústaða neðst í sunnanverðri Digraneshlíð þar sem Digraneslækur rennur.
Þá bjó í Reykjavík ungur drengur ásamt fjölskyldu sinni og hét Kristinn Hallsson. Drengurinn þótti söngvinn með eindæmum og síðar varð hann landsfrægur söngvari. Foreldrar Kristins áttu sumarbústað niðri við Digraneslækinn og dvöldu þar jafnan sumarlangt með börnum sínum.
Áslaug Ágústsdóttir hét móðursystir Kristins, hávaxin kona og grönn. Hafði hún þann sið að heimsækja fjöskylduna og kom þá ætíð fótgangandi eftir Fossvogsdalnum og yfir Digraneshálsinn sem leið lá að sumarbústaðnum. Brá hún aldrei af þeirri leið.
Dag nokkurn um miðsumar var von á Áslaugu til Kópavogs. Börnin voru þá úti við leiki. Láta þau fljótlega af þeirri iðju og halda af stað til móts við Áslaugu. Fara þau hægt yfir og tína upp í sig ber á leiðinni upp hæðina. Uppi á hæðinni var mikill steinn, sem eldri menn sögðu vera álagastein. Mun þetta hafa verið steinninn Latur, sá sami og Jón bóndi í Digranesi var vanur að sitja á þegar hann var kenndur og syngja, sem frægt var á hans tíma. Var steinninn á gönguleið Áslaugar.

Latur

Latur.

Barnahópurinn var nú staddur skammt frá honum og var Kristinn Hallsson í broddi fylkingar eins og venjulega. Sjá börnin öll hvar kona ein birtist skammt undan steininum. Var hún í peysufötum líkum þeim sem Áslaug klæddist jafnan. Há var hún og grannvaxin líkt og Áslaug og taldi Kristinn að móðursystir sín væri þar á ferð, enda ekki von á öðrum mannaferðum. Þegar ekki er lengra en tíu fet á milli konunnar og barnanna, sér Kristinn að þetta er ekki Áslaug eins og þau áttu von á.

Latur

Latur í Kópavogi.

Þá fyrst er sem konan verði þess vör að börnin veiti henni athygli. Nemur hún snögglega staðar, setur upp undrunarsvip og síðan hræðslusvip. Snýr hún snögglega á braut og tekur til fótanna upp hlíðina og hverfur sjónum skammt frá steininum. Fylgja börnin konunni eftir uns þau koma upp á hálsinn þar sem útsýni er allgott yfir Fossvoginn. Ekki var þar sálu að sjá svo langt sem augað eygði. Fátt var um felustaði og var engu líkara en að jörðin hefði gleypt konuna. Leituðu þau þá allt í kringum steininn, en án árangurs.
Gengu nú börnin heim á leið og sögðu fólki frá atburðinum og konunni í peysufötunum. Flestir urðu undrandi yfir þessum tíðindum, en margir hinna eldri létu sér fátt um finnast. Sögðu þeir að þarna á Digraneshálsinum hefði verið á ferð huldukona. Mun henni hafa brugðið er hún varð þess vör að börnin sáu hana. Í það sinnið hefur hún gleymt að setja upp huliðshjálminn, eins óg kallað var.“

Heimild:
-Tíminn, 131. tbl. 13.07.1996, Frumbyggjar í Kópavogi og yngri kynslóðir eiga sér þjóðsögur líkt og aðrir, Anna hedvig Þorsteinsdóttir og Inga Þóra Þórisdóttir, bls. 6.

Digranes

Digranes – gamla bæjarstæðið t.h.

Torfdalur

Stefnan var tekin á Torfdal ofan við bæinn Helgadal í Mosfellssveit (Mosfellsdal). Dalurinn er fremur stuttur. Um hann rennur Torfdalslækur, vatnslítill nema í leysingum. Neðarlega myndar hann fossagil, Stórutorfugil. Ætlunin var að staðsetja Selhól, sem getið er í örnefnalýsingu svog mögulegar selminjar af draganda nafngiftar hólsins.

Torfdalur

Torfdalur – kort.

Að sögn bóndans í Helgadag, Ásgeirs Péturssonar, eftir að hafa ráðfært sig við húsfreyjuna, er hafði sótt örnefnalýsingu jarðarinnar sér til halds og trausts, mun Selhóll skaga út úr norðvesturhorni Grímarsfells, „augljós er upp væri komið“. Að sögn lægju „gamlar götur upp frá bænum áleiðis að Selhól, sem þó virtist ekki greinanlegt í dag“.
Í Jarðabókinni 1703 segir um selstöðu frá Helgadal (bls. 317); „Landþröng er mikil, og hafði jörðin áður í lánga selstöðu í Stardal frí, en nú verða ábúendur hana út að kaupa“. Þá segir: „Vatnsskortur er margoft um vetur að stórmeini.“

Torfdalur

Torfdalur – Varða á Selhól.

Skv. Jarðabókinni á Helgadalur að hafi selstöðu í Stardal ásamt allmörgum öðrum. Selfarir voru hins vegar einungis að sumarlægi. Ef aðstæður eru skoðaðar má telja að vatnsskortur hafi aldrei háð Helgadalsábúendum því þrjár ár renna við bæjarstæðið. Lýsingin virðist því eitthvað hafa skolast til hvað þetta varðar.
Þá má telja af líkindum að Helgadalssel hafi mögulega verið þar sem nefnt hefur verið Varmársel. Í Jarðabókinni er nefnilega ekki getið um selstöðu frá Varmá í landi Stardals og reyndar er alls ekki getið þar um selstöðu frá jörðinni, enda ólíklegra út frá landfræðilegum aðstæðum.

Torfdalur

Torfdalur – gata.

Í örnefnalýsingu Helgadals um göngusvæðið segir m.a.: „Jörð í Mosfellsveit, næst austan Æsustaða. Upplýsingar gáfu Hjalti og Ólafur Þórðarsynir, Æsustöðum, einnig frá föður þeirra.
„Suður með Grímarsfelli upp af hæðinni, er graslendur dalur er heitir Torfdalur, lokast hann að sunnan af Torfdalshrygg, en vestan Torfdals tekur við Suður-Reykjaland. Í króknum, er Torfdalshryggur og Grímarsfell mætast, eru brattar grasbrekkur er heita Stóratorfa. Norðan hennar er hóll er heitir Selhóll, og þar er einnig allmikið klettagil, Stórutorfugil. Upp af Selhól eru klettar sem heita Standur.“
Í athugasemdum um lýsinguna segir m.a.: „Guðjón Sigurður Jónsson, Borgarholtsbraut 25, Kópavogi, skráði athugasemdir við örnefnaskrá Helgadals í september 1983. Þær eru ýmist ritaðar inn á ljósrit af skránni eða færðar sem svör á spurningalista.
„Stóridalur er í Þormóðsdalslandi. Grímarsfell, ekki Grímansfell.

Torfdalur

Torfdalur ofanverður.

Torf var rist í Torfdal. Reiðingur var tekinn í Torfdalnum og notaður yfir hey sem stóðu í heygörðum. Ekki er vitað um sel við Selhól og ekki hvenær síðast var haft í seli í Helgadal.“
Gata var rakin frá Helgadal upp eftir Torfdal, skammt neðan Hádegisvörðu og allt upp þangað er gil skiptu að Grímarsfelli. Sjóskaflar þökktu svæðið svo erfitt var um staðfestingu minjatilvistar þar.
Þegar horft var yfir Stórutorfu mátti telja líklegast að selminjar myndu vera undir lágum melhól norðan torfunnar. Á honum er vörðubrot. Önnur mannanna verk var ekki að sjá í Torfdal (utan framreisluskurðar undir Torfdalshrygg).
Ástæða er til að skoða Torfdalinn nánar þegar vorar.

Torfdalur

Torfdalur – gata.

Sumarið eftir var aftur gengið um Torfdalinn ofan Helgafells. Rifjuð var upp örnefnalýsing þeirra Hjalta og Ólafs: „Sunnan Helgadalsbæjar er hæð, sem nær vestur að Æsustaðafjalli. Á henni, beint suður af Helgadalsbæ er Hádegisvarða. Suður með Grímarsfelli upp af hæðinni, er graslendur dalur er heitir Torfdalur, lokast hann að sunnan af Torfdalshrygg, en vestan Torfdals tekur við Suður-Reykjaland. Í króknum, er Torfdalshryggur og Grímarsfell mætast, eru brattar grasbrekkur er heita Stóratorfa. Norðan hennar er hóll er heitir Selhóll, og þar er einnig allmikið klettagil, Stórutorfugil. (Um það rennur Norðurreykjaá.) Upp af Selhól eru klettar sem heita Standur. Austan við Stórutorfu og Stand, sunnar í fellinu, ofarlega, er dæld, sem heitir Stóridalur. Þar neðar og vestur af er urð mikil sem heitir Skollurð, er hún í Þormóðsdalslandi, og enn austar skerst djúpt gil sunnar í fellið er heitir Vondagil (mun nefnt Illagil á korti). Á háfellinu, upp af Torfdal, er kollóttur móbergshóll er heitir Kollhóll; er hann á há-Suðurfellinu vestanverðu. Enn vestar er Nóngilslækur, á merkjum Helgadals og Æsustaða. Má telja, að Suðurá byrji þegar Torfdalslækur og Nóngilslækur koma saman.
Í suðausturkrika dalsins, í Helgadalstúni og upp af því, er Bæjargil, enn vestar Torfdalsgil og Nóngil, sem er á mörkum Helgadals og Suður-Reykja. Nóngil er forn eyktamörk frá Helgadal. Í Torfdalsgili er Torfdalsfoss og í Nóngili Nóngilsfoss.“

Í athugasemdum Guðjóns Sigurðar við Örnefnalýsinguna segir m.a.: „Niður af Hádegisvörðu (á Hádegishæð) er djúpur hvammur sem nefnist Bolabás . Torf var rist í Torfdal. Reiðingur var tekinn í Torfdalnum og notaður yfir hey sem stóðu í heygörðum. Ekki er vitað um sel við Selhól og ekki hvenær síðast var haft í seli í Helgadal.“

Torfdalur

Torfdalsfoss.

Í króknum þar sem Torfdalshryggur og Grímarsfell mætast eru brattar grasbrekkur sem nefnast Stóratorfa, en „…norðan hennar er hóll er heitir Selhóll, og þar er einnig allmikið klettagil, Stórutorfugil. Upp af Selhól eru klettar sem heita Standur“ (Ólafur Þórðarson). Ekki er vitað hvort sel var við Selhól og ekki heldur hvenær síðast var haft í seli í Helgadal. Hvorki Sigurði Helgasyni, fyrrverandi bónda í Helgadal, né öðrum er kunnugt um rústir við Selhól eða sel í Torfdal.

Helgadalur

Helgadalur – Mosfellsbæ.

Líklegt má telja, ekki síst vegna þess hversu stutt er frá bæ að Selhól, að þar hafi um tíma verið heimasel. Í heimaseljum voru venjulega einungis eitt mannvirki; stekkur eða afdrep, allt eftir tilgangi selstöðunnar. Þegar framangreindri götu frá bæ var fylgt upp með Stórutorfugili austan Norðurreykjaár, upp með Hádegisvörðu og upp á Stórutorfu suðaustan Selhóls (á Selhól er varða, sem vandað hefur verið til) má sjá á einu barðinu móta fyrir mannvistarleifum. Líkast til er þar um að ræða fornan stekk eða annað mannvirki, að mestu gerður úr torfi, en þó má einnig sjá þar grjót. Minjarnar er skammt austan við ána ofan við flæður, sem í henni eru. Selstöður voru nytjastaðir, hvort sem var fyrir fé, nautgripi, fuglatekju, kolagerð, hrístöku, torfristu, mótekju eða annað þ.h. Af nafni dalsins má e.t.v. draga þá ályktun að Torfdalur dragi, líkt og svo margir nafnar hans á landinu, nafn af torfskurði, hugsanlega mótaki því að torf merkir að fornu bæði grastorf og mór („elditorf“). Þess vegna má ætla að ekki hafi verið lagt í mikil mannvirki í dalnum því stutt er heim til bæjar.
Frábært veður.

Heimildir:
-Ólafur Þórðarson frá Æsustöðum. Örnefnalýsing Helgadals, skráð 1968 sem endurbót á lýsingu Ara Gíslasonar og aftur endurbætt 22. sept. 1983.
-Athugasemdir við lýsinguna: Guðjón Sigurður Jónsson, Borgarholtsbraut 25, Kópavogi, skráði athugasemdir við örnefnaskrá Helgadals í september 1983.
-Ásgeir Pétursson, bóndi í Helgadal.
-Jarðabók ÁM 1703.

Torfdalur

Helgadalur framundan – Hádegisvarða.

Gunnuhver

Gunnuhver er gufuhvera- og leirpyttaklasi á Reykjanesi, en svo nefnist ysti oddi Reykjanesskagans. Gufu- og leirhverir stafa af suðu í jarðhitageymi. Gufan leitar upp og blandast yfirborðsvatni. Henni fylgja gastegundir. Þær gera vatnið súrt. Af því umbreytist hraungrýti og móberg í leir með tilheyrandi sílitabreytingum.
Gufustreymið jókst áberandi á tímabili er þrýstingur lækkaði í jarðhitageyminum við vinnslu vatns og gufu úr honum. Stærsti leirhver landsins, nú með digrum suðustólpa í 20 m víðum stampi, er efst í brekkunni. Um tíma náði gosstólpinn um 10 m hæð og slettur úr honum hlóðust á barmana.

Gunnuhver

Gunnuhver og nágrenni.

Óróasamt er á Reykjanesi af völdum jarðskjálfta. Þeir koma í hrinum en eru vægir, þeir stærstu rúmlega 5 að stærð. Í helstu hrinunum hefur sprunga sem liggur frá Valbjargagjá til norðausturs um Gunnuhver hreyfst til, síðast fyrir um 40 árum. Við slík umbrot hefur hveravirkni aukist um tíma og efnaríkt vatn úr jarðhitageyminum náð til yfirborðs og myndað goshveri með útfellingum af hverahrúðri. Þetta voru sjóhverir. Kísilhóll er nefndur eftir kísilhellu efst á honum. Í henni eru skálar eftir kulnaða goshveri. Kulnaður bolli „Hversins 1919“ er um 100 m sunnar, ofan vegar. Hann var síðast virkur kringum 1970. Skammt þar suðvestan við var Geysir (Reykjanes-Geysir);  virkur kringum aldamótin 1900 og framan af 20. öld. Engin merki sjást um hann nú.

Gunnuhver

Gunnuhver – litadýrð.

Á þessu sumri (2021) hefur hverasvæðið nálægt Gunnuhver tekið verulegum breytingum, einkum vegna þess að jarðsjórinn á hverasvæðinu hefur þornað svo um munar; fagurlituð ölkelda, sem þarna var um tíma, er nú horfin og svo mætti lengi telja.

Einhverjum hálfvita hefur látið sér detta í huga að koma upp skiltum umleikis Reykjanesvita með áletrunni „Payzone“ þar sem krafist er kr. 1000 greiðslu fyrir að leggja bifreið um stund á svæðinu. Á skiltunum er vakin athygli á rafrænu eftirliti. Framangreint hefur gert það að verkum að Íslendingar leggja ekki nálægt vitanum.

Hverasvæðið er síbreytilegt og þurrkarnir að undanförnu hafa aukið verulega á litadýrðina – sjá MYNDIR.

Gunnuhver

Við Gunnuhver.

Sveifluháls

Sveifluháls eða Austari Móháls er bæði eitt af aðgengilegustu útivistarsvæðunum á Reykjanesskaganum og jafnframt það stórbrotnasta.

Sveifluháls

Á Sveifluhálsi.

Óvíða er hægt að sjá fyrrum jarðmyndun skagans jafn augljóslega og á hálsinum. Arnarvatn í samspili við Folaldadalina í norðri og Smérdalina í suðri eru einstakar náttúruperlur – sjá MYNDIR

Arnarvatn

Arnarvatn á Sveifluhálsi við Ketilsstíg.

Ketilsstígur

Í Árbók Hins íslenska fornleifafélags 1943 fjallar Ólafur Þorvaldsson um „Fornar slóðir milli Krýsuvíkur og Hafnarfjarðar„, þ.á.m.a. Ketilsstíg:

„Ég ætla nú að lýsa að nokkru vegum, götum og stígum, sem liggja milli Hafnarfjarðar og Krýsuvíkur og oftast voru farnir. Að sjálfsögðu sleppi ég hér þeim nýja Krýsuvíkurvegi, sem nú er að mestu fullger. Þó á hann þegar nokkra sögu, en hún er annars eðlis og skal ekki rakin hér.

Undirhlíðavegur

Krýsuvíkurleiðir

Krýsuvík – gamlar götur (ÓÞ).

Fyrst skal hér lýst þeim vegi, sem mest var farinn og aðallega, þegar farið var með hesta. Vegur sá var tekinn úr Hafnarfirði öðru hvoru megin Hamarskotshamars, upp yfir Öldur, þar sem nú er kirkjugarður Hafnfirðinga, upp í Lækjarbotna, með Gráhelluhrauni sunnanverðu, upp að Gjám, sem er hraunbelti frá því móts við Fremstahöfða, upp í Kaldársel. Þar var venjulega aðeins staldrað við, hestar látnir drekka, þegar farið var yfir ána, því að oftast var ekki um annað vatn að ræða, fyrr en til Krýsuvíkur var komið.
Frá Kaldárseli lá leiðin yfir smáhraunbelti, unz komið var að Undirhlíðum. Lá vegurinn suður með þeim, víða allsæmilegur, moldar- og melgötur. Vegurinn liggur yfir eitt hraunhaft, norðarlega með Undirhlíðum, kringum eldvörp þau, sem Ker heita, og hefur hraun streymt þar upp undan hlíðinni á vinstri hönd, þegar suður er farið.
Syðst með Undirhlíðum, eða nokkru sunnar en Stórihríshvammur, er farið yfir mel úr rauðu gjalli, og heitir sá melur Vatnsskarðsháls, þaðan er stutt í Vatnsskarð, þar sem hinn nýi vegur liggur nú úr hrauninu upp á hálsinn. Í Vatnsskarði var talin hálfnuð leiðin milli Hafnarfjarðar og Krýsuvíkur. Venjulega var áð þar snöggvast, lagað á hestunum, gert að, sem kallað var, stundum kippt ofan, einkum ef lest var ekki þung.

Vatnsskarð

Vatnsskarð og Undirhlíðar – kort.

Þegar lagt er upp úr Vatnsskarði, taka við hinir svonefndu Hálsar, réttu nafni Sveifluháls, og má segja, að suður með hálsinum sé góður vegur. Sem næst þriggja stundarfjórðunga lestagang frá Vatnsskarði skerst dálítil melalda fram úr hálsinum, og heitir þar Norðlingaháls. Nokkru þar sunnar sjást í hálsinum leifar af brennisteinshverum, og heitir það svæði Köldunámur. Þar litlu sunnar tekur við stór grasflöt, sem Hofmannaflöt heitir. Við suðurenda hennar rís upp úr hálsinum hæsti tindur Sveifluháls, sem Miðdagshnjúkur heitir. Veit ég ekki, hvernig það nafn er til orðið, — en gamalt er það. Ef um dagsmörk er að ræða í því sambandi, getur það ekki komið frá Krýsuvík. Fremur gæti það átt við frá Hvaleyri eða Ási eða annars staðar í grennd Hafnarfjarðar. Þegar Hofmannaflöt sleppir, er skammt ófarið að Ketilsstíg, þar sem vegurinn liggur upp yfir hálsinn. Stór steinn er á hægri hönd og á honum dálítil varða, og er það leiðarmerki um það, að þeir, sem til Krýsuvíkur ætluðu, tækju stíginn upp í hálsinn, en héldu ekki lengra suður með, því að sá vegur lá til Vigdísarvalla og enda alla leið suður fyrir háls, og er syðsti útvörður þessa langa og tindótta háls, fagurt, keilulagað fell, — Mælifell.

Ketilsstígur

Ketilsstígur norðan Ketils.

Þegar Ketilsstígur er tekinn, liggur vegurinn fyrst upp allbratt klettahögg, en þegar upp á það er komið, liggur Ketillinn svo að segja fyrir fótum manns. Ketillinn er kringlóttur, djúpur dalur eða skálinn og ofan í hálsinn. Grasflöt er í botni Ketilsins, sem er svo djúpur, að botn hans mun vera jafn undirlendinu fyrir neðan Hálsinn.

Ketilsstígur

Ketillinn. Fíflvallafjall , Grænadyngja og Hrútafell fjær

Vestur- og norðvesturbrún Ketilsins er þunnur móbergshringur, en norður-, austur- og suðurhliðar eru hálsinn sjálfur upp á brún, og er hæð hans þar um 350 m. Ketilsstígur liggur því í fullan hálfhring um Ketilinn, hærra og hærra, þar til á brún kemur. Láta mun nærri, að verið sé 30—4 5 mín. upp stíginn með lest, enda sama þótt lausir hestar væru, því að flestir teymdu hesta sína upp stíginn.

Ketilsstígur

Ketilsstígur

Ketilsstígur er tvímælalaust erfiðasti kaflinn á þessari hér umræddu leið. Slæmt þótti, ef laga þurfti á hestum í stígnum, og búast mátti við, ef baggi hrökk af klakk, hvort heldur var á uppleið eða ofan, að hann þá, ef svo var lagaður, ylti langt niður, því að utan stígsins, sem heita má snarbrattur, eru mest sléttar skriður ofan í Ketilbotn. Ketilsstígur er mjög erfiður klyfjahestum og sízt betri niður að fara en upp. Þegar upp á brún kemur, sést, að hálsinn er klofinn nokkuð langt norður, allt norður að Miðdagshnjúk, og eru í þeirri klauf sanddalir, sem Folaldadalir heita. Af vestari brún hálsins liggur vegurinn spölkorn eftir sléttum mel til suðausturs, og blasir þar við hæsta nípa á austurbrún hálsins og heitir Arnarnípa. Litlu sunnar er komið að dálitlu stöðuvatni, sem Arnarvatn heitir. Eftir það fer að halla niður af hálsinum að sunnan, og er nú ekki eins bratt og að vestan, þar til komið er fram á síðari brekkuna, sem er brött, en stutt. Þegar brekkunni sleppir, er komið í grashvamm, sem Seltún heitir.

Ketilsstígur

Ketilsstígur.

[Framangreind lýsing er verulega ýkt. Ekkert snarbretti er á þessari leið og er hún mjög auðveld göngufólki upp á hálsinn.]
Allur er hálsinn uppi, norðan vegar, gróðurlaus, en sunnan vegar er sæmilegur gróður. Allhár og umfangsmikill hnjúkur er sunnan vegarins, þegar austur af er farið, og heitir sá Hattur. Víðsýnt er af vesturbrún Sveifluháls, þaðan sér yfir allan Faxaflóa, allt til Snæfellsness, en af austurbrún blasir Atlantshafið við, sunnan Reykjaness.

Arnarvatn

Arnarvatn við Ketilsstíg.

Þegar í Seltún kemur, er talið, að komið sé til Krýsuvíkur, þó er um einnar stundar lestagangur heim að Krýsuvík. Í Seltúni eru nokkrir leirhverir, og kraumar í sumum græn leðja, aðrir eru dauðir.
Úr Seltúnshvamminum er farið yfir alldjúpt gil, Selgil. Á sumrum seytlar þar vatn í botni, en á vetrum getur það orðið ófært með hesta sökum fannar, sem í það skeflir, þar eð gilið er djúpt og krappt.
Sunnan gilsins er Seltúnsbarð, og stóðu þar fram yfir aldamót síðustu tvö allstór timburhús, sem enskt félag, er rak brennisteinsnám þar og í Brennisteinsfjöllum á síðari hluta nítjándu aldar, reisti þar.
Nú eru þessi hús löngu horfin. Af Seltúnsbarði er haldið yfir svonefnda Vaðla. Eftir það taka við melar, og liggur vegurinn þar á vesturbakka Grænavatns. Nokkru norðvestar er Gestsstaðavatn, umlukt háum melum, og sést ekki af veginum. Þegar Grænavatni sleppir, er örstuttur spölur suður á móts við Nýjabæina, Stóri-Nýibær til vinstri, Litli-Nýibær til hægri, og þar með komið í Krýsuvíkurhverfi. Milli Nýjabæjanna og heimajarðarinnar Krýsuvíkur er um 12 mín. gangur. Tún heimajarðarinnar liggur sunnan undir og uppi í Bæjarfelli, en bæjarhús, kirkjan og kirkjugarðurinn standa á hól eða hrygg sunnarlega á túninu.

Ketilsstígur

Ketilsstígur.

Hér hefur verið lýst að nokkru aðalveginum milli Krýsuvíkur og Hafnarfjarðar, sem, eins og fyrr segir, var oftast farinn og aðalleið á sumrin, þegar farið var lausríðandi eða með lest, og var þessi leið talin um 8 klst. lestagangur.

Seltún

Brennisteinsnámuvinnslusvæðið við Seltún.

Þá mun ég hér að nokkru lýsa tveimur stígum, sem vestar liggja og aðallega voru farnir af gangandi mönnum, svo og ef farið var með fáa hesta að vetrarlagi, bæði af því að þessar leiðir lágu mun beinna við til Hafnarfjarðar eða frá, svo líka eftir því, hvernig snjór lá, ef mikill var. Ef snjó setti niður af austri eða norðaustri, t.d. meðan menn höfðu viðdvöl í kaupstaðnum, var venjulega snjóléttara á þessum leiðum en með Undirhlíðum og Hálsum. Hins vegar gat síðartalda leiðin verið snjóminni, ef mikið snjóaði af suðvestri. Þetta þekktu menn af langri reynslu. Annars voru vetrarferðir fátíðar með hesta milli Krýsuvíkur og Hafnarfjarðar. Þó kom fyrir, að farið var fyrir jólin, aðallega þá með rjúpur til að selja, svo og stöku sinnum á útmánuðum. Venjulega fóru menn vetrarferðir, ef farnar voru, gangandi, og ýmist báru menn þá eSa drógu á sleSa þaS, sem með var verið. Stillt var svo til, að tungl væri í vexti og færi og veðurútlit sem ákjósanlegast. Margir voru þá mjög veðurglöggir, og var þar eftir ýmsu að fara, sem löng reynsla, ásamt skarpri eftirtekt kenndi mönnum.

Stórhöfðastígur
Þegar ferðamenn fóru Stórhöfðastíg, var farið frá Hafnarfirði upp hjá Jófríðarstöðum, um hlaðið í Ási, oft gist þar, ef menn t. d. komu frá Reykjavík. Frá Ási var farið suður úr Skarði, yfir Bleiksteinsháls, suður yfir Selhraun, vestan undir Stórhöfða, nokkurn spöl suðaustur með honum, lagt á hraunið frá suðrhorni hans, fyrst um gamalt klappahraun, þar til komið var á nýrra brunabelti, sem á sínum tíma hefur runnið ofan á gamla hraunið.

Stórhöfðastígur

Stórhöfðastígur.

Gegnum nýja brunann liggur stígur eða gata, sem enginn veit, hvenær ruddur hefur verið, annars með öllu ófær hestum. Í nýja brunanum, spölkorn austur af stígnum, eru tveir dálitlir blettir eða hólmar, sem bruninn hefur ekki náð að renna yfir. Hólmar þessir heita Snókalönd. Ekki ber þau hærra en umhverfið og sjást því ekki lengra til, og helzt ekki fyrr en að er komið. Hestfær götuslóð liggur norður í Snókalönd, nokkru austar en þar, sem Stórhöfðastígurinn kemur suður úr brunanum.

Snókalönd

Snókalönd.

Ekki eru Snókalöndin jafnstór, það vestra nokkru stærra, og slóð á milli. Hvað liggur til grundvallar þessu nafni, veit víst enginn lengur, en á tvennt mætti benda. Í fyrra lagi, að þarna hafi vaxið villihvönn, snókahvönn — geitla. Í öðru lagi, að blettir þessir, sem hafa verið miklu gróðurríkari en umhverfið, hafi fengið nafn sem land af töngum þeim og hornum, sem hinn ójafni brunakantur myndar þarna í grennd, og gæti því þýtt „Krókalönd“. Í orðabók Blöndals segir, að snókur sé angi eða útskiki út frá öðru stærra. Gætu því tangar þeir, sem út úr brunanum ganga, verið stofn að þessu nafni. Þó finnst mér fyrri tilgátan sennilegri. Líkur benda til, að þarna hafi verið nokkur skógur og máske verið gert þar til kola fyrrum.
Gatan út í Snókalöndin bendir á nokkra umferð þangað. Sökum fjarlægðar þessa staðar frá alfaraleið óttast ég, að svo geti farið, að hann gleymist og nafnið týnist, þar sem þeir, er mest fóru þar um og héldu með því við mörgum örnefnum, voru fjármenn og smalar, en þeim fækkar óðum um þessar slóðir sem víðar.

Snókalönd

Gata í Snókalönd.

Af þessum örsókum get ég hér þessara litlu hólma með hinu fágæta og fallega nafni. Þess má geta, að gren er í vestara Snókalandinu — Snókalandagren.
Þegar suður úr brunanum kemur, liggur stígurinn upp með suðvesturbrún hans, og fylgir maður brunanum, þar til komið er móts við Vatnsskarð í Undirhlíðum, sem farið er þá að nálgast.

Stórhöfðastígur

Stórhöfðastígur – Fremstihöfði og Helgafell fjær.

Úr því liggur stígurinn meira til suðurs, þar til komið er að Fjallinu eina. Er það fremur lágt, hrygglaga fjall með klettaborg á suðurenda. Austan undir því liggur stígurinn, og er þá Sandfell á vinstri hönd allnærri. Er nú stutt þar til komið er á Undirhlíðaveginn, skammt suður af Sandfellsklofa.
Stórhöfðastíg fóru stundum lausríðandi menn frá Krýsuvík til Hafnarfjarðar. Fóru þá sem leið lá inn með hálsum, þar sem sú leið er allgóður reiðvegur, þar til kom á móts við, þar sem Stórhöfðastígurinn lá vestur á milli Fjallsins eina og Sandfells. Sá stígur var stundum tekinn, því að við það féll úr mikill krókur, inn með Undirhlíðum um Kaldársel, en hitt bein lína til Hafnarfjarðar. Þó að Stórhöfðastígurinn sé frekar slitróttur, var gott að láta hestinn njóta hægu ferðarinnar, en jafnsnemma komið til Hafnarfjarðar eða fyrr, þrátt fyrir stirðari veg.

Hrauntungustígur

Hrauntungustígur

Hrauntungustígur.

Þeir, sem ætluðu sér Hrauntungustíg frá Hafnaríirði til Krýsuvíkur, fóru um Jófríðarstaði að Ási, þaðan um bkarð vestan Ásfjallsaxlar, yfir hraunhaft milli Grísaness og Hamraness, undir vesturenda þess, austur að stórum steini flötum ofan, sem er þar stakur á jafnsléttu. Frá honum er farið suður á gamalt helluhraun um 10 mínútur, þá tekur við Nýibruni eða Háibruni, sem runnið hefur ofan á eldra hraunið. Gegnum brunann er, eins og á Stórhöfðastíg, rudd allgreiðfær gata, sennilega gerð á svipuðum tíma og Stórhöfðastígur, en hver það hefur látið gera, veit víst enginn, en nijög gamlar eru þessar vegabætur, og eru þær sennilega fyrstu vegabætur, sem gerðar hafa verið til Krýsuvíkur. Þó kann að vera, að stígurinn gegnum Ögmundarhraun, sem fyrr getur, sé eldri, og þá sennilega þær fyrstu. Gegnum Háabrunann er sem næst 20 mín. gangur með lest, og þegar á suðurbrún hans kemur, ganga til beggja handa suður úr brunanum tvær brunatungur, sem stígurinn liggur suður á milli, og ná þessar tungur spölkorn suður á svokallaðan Almenning, sem er nú búfjárhagar Hraunajarðanna, en hefur fyrr á öldum, eins og nafnið bendir til, verið frjáls til afnota fleiri en Hraunabændum, t. d. til kolagerðar, og sjást þar enn allvíða leifar gamalla kolagrafa. Af brunatungum þessum tel ég víst, að stígurinn hafi nafn fengið, Hrauntungustígur.

Hrauntungustígur

Hrauntungustígur.

Eftir að suður úr Hrauntungum kemur, er óglögg, sums staðar jafnvel engin gata, og verður því sjónhending að ráða, enda torfærulaust yfir kjarri vaxið lágahraun, en allt á fótinn. Þegar kemur dálítið upp í Almenninginn, fer maður nálægt gömlu selstæði, sem Gjásel heitir, og er þar venjulega vatn. Sennilega hefur þar verið haft í seli frá Þorbjarnarstöðum eða Stóra-Lambhaga í Hraunum.

Fornasel

Fornasel – vatnsstæði.

Nokkru austar er annað selstæði, sem Fornasel heitir. Þegar suður á há-Almenning kemur og útsýnið víkkar til suðurs, sést hár klettahryggur í suðvestur, og eru það Sauðabrekkur. Norður af þeim er farið yfir víða og djúpa gjá, á jarðbrú, Sauðabrekkugjá, eftir það er komið á svonefnda Mosa, sem er flatt grámosahraun, og er gata þar allglögg. Þá er hár brunahryggur, sem liggur frá norðri til suðurs á vinstri hönd og heitir Hrútagjá, Hrútadalir þar suður af. Þegar Mosum sleppir, hefur maður Mávahlíðarhnjúk og Mávahlíðar skammt sunnar á hægri hönd.
Móti Mávahlíðum syðst er komið í Hrúthólma; er það langur, en fremur þunnur melhryggur, nokkuð gróinn neðan, öllum megin, smávin í þessari brunaeyðimörk. Þegar úr Hrúthólma er farið, taka við sléttar hraunhellur, ágætar yfirferðar. Sunnarlega á þessum hellum er stakt móbergsfell, Hrútafell. Þegar á móts við það kemur, en það er nokkuð til hægri við stíginn, er stutt þar til komið er á sumarveg Krýsuvíkur, skammt norðan Ketilsstígs.
Þessi leið, sem hér hefur lýst verið að nokkru, var að heita má eingöngu farin af gangandi mönnum, og stundum ráku Krýsvíkingar fé til förgunar þessa leið. Sömuleiðis kom fyrir, að hún var farin af Herdísarvíkurmönnum, svo og Selvogsbúum, þegar þeir ráku fé í kaupstað, ef snjór var fallinn á fjallið og Kerlingarskarð, sem annars var þeirra aðalleið til Hafnarfjarðar og Reykjavíkur.
Hér hefur þá nokkuð ýtarlega verið gerð tilraun til að lýsa þeim þremur höfuðleiðum, sem lágu milli Hafnarfjarðar og Krýsuvíkur, frá því þar varð fyrst byggð, fram á síðustu ár.

Hrútfell

Hrútfell.

Að lokum vil ég svo geta að nokkru fjórðu leiðarinnar, sem kom fyrir, að Krýsvíkingar fóru, ef með hesta voru fyrir néðan, þ.e. í Hafnarfirði, og dreif niður svo miklum snjó, að hinum leiðunum var engri treyst. Þá gat þessi leið verið fær. Leið þessi lá frá byggð í Hraunum sunnan Hafnarfjarðar.

Rauðamelsstígur

Rauðamelsstígur.

Þegar menn fóru þessa leið, var venjulega farið út af Suðurnesjaveginum, norðan Rauðamels, skammt sunnan Óttarsstaða, um Óttarsstaðasel, vestan undir Skógarnefjum, sunnan Einihlíða, en norðan Lambafells, fram hjá afar stórum klettum, sem eru einstæðir á sléttum mosaflákum og Bögguklettar heita, þaðan yfir brunatagl, sem liggur upp að norðurhálsi Trölladyngju, upp slóða yfir hálsinn, síðan yfir helluhraun slétt norðan Hörðuvalla, sem er nokkurt undirlendi mót norðri, milli Trölladyngju og Grænudyngju. Þá er komið að fjalli, sem Fíflavallafjall heitir, og farið nokkuð suður með því að austan, þar til komið er undir Stórusteinabrekku, þaðan liggur stígurinn yfir slétt helluhraun norðan Hrútafells, unz komið er á stíginn upp úr Hrúthólma, sem er á Hrauntungustígsleið, sem áður getur.
Önnur leið upp úr Hraunum lá nokkru norðar, — eða upp frá Þorbjarnarstöðum, venjulega norðan Draughólshrauns, um Straumsel, norðan Gömluþúfu, sem er hár og umfangsmikill klettur upp úr hæstu hæð Hraunaskógar (Almennings). Þegar upp fyrir Gömluþúfu kom, mátti fara hvort menn vildu heldur, austan eða vestan Sauðabrekkna, og var komið á Hrauntungustíg norðan Mávahlíða. Þessi leið var helzt farin af Hraunamönnum, er svo voru almennt kallaðir, sem fóru aðallega til fjárleita haust og vor til Krýsuvíkur, svo og af Krýsvíkingum, þegar fyrir kom, að þeir sóttu sjóföng til Hraunabænda, því að meðan Hraunajarðir voru almennt í byggð sem bændabýli, sem var fram yfir síðustu aldamót, — enda tvær jarðir enn —, var þaðan mikil sjósókn.

Hellan

Krýsuvíkurvegur um Helluna.

Áður en við yfirgefum þessar slóðir að fullu, skulum við nú, þegar við hverfum frá Krýsuvík að þessu sinni, fara leið, sem við höfum ekki áður farið. Þessi leið er hin svonefnda Vatns- eða Dalaleið. Nú vill svo til, að nokkur kafli hins nýja vegar frá Hafnarfirði til Krýsuvíkur liggur með Kleifarvatni að vestan, svo að nú gefst fleiri mönnum kostur á að fara þessa leið en áður var.

Hellan

Hellan vestan Kleifarvatns.

Þessi leið mun ekki hafa talizt til höfuðleiða milli Krýsuvíkur og Hafnarfjarðar, enda sjaldan farin, og þá helzt á vetrum. Þó tel ég hana ekki með öllu ómerkilega, og ber fleira til en eitt. Það er þá fyrst, að þessi leið er stytzta og beinasta lestaleiðin milli Krýsuvíkur og Hafnarfjarðar. Hún er greiðasta og hægasta leiðin. Hún liggur í sérkennilegu og fögru umhverfi. Hún var nokkrum annmörkum háð, — og hún gat verið hættuleg.
Þessa leið var ekki hægt að fara, jafnvel svo árum skipti, nema ísar væru tryggir, og lágu til þess tvær meginástæður. Annars vegar réðu hér um vetrarhörkur, hins vegar náttúrufyrirbæri, sem enn eru óskýrð, svo að fullsannað sé. Hér kom fram sem oftar, að ekki fóru ávallt saman óskir ferðamannsins og lögmál náttúrunnar. Til þess að hægt væri að fara þessa leið með hesta að vetri til, varð Kleifarvatn að vera á hestís. Reynslu voru menn búnir að fá fyrir því, að Kleifarvatni var ekki að treysta á ís með hesta fyrr en eftir vetrarsólhvörf.
Meginorsök þess, hve vatnið leggur seint, er vafalaust sú, að allmikill hiti er í botni þess, sér í lagi að sunnanverðu, og hafa, þegar vatnið er lítið, verið talin þar milli 10 og 20 hveraaugu, sem spýta sjóðheitri gufu upp í vatnið og í loft upp, þegar út af þeim fjarar. Hvað sem um skoðanir manna og reynslu í þessu efni er að segja, er hitt víst, að frosthörkur voru venjulega meiri og stóðu oft lengur, eftir að kom fram yfir miðjan vetur. Hins vegar var vorís ekki treyst, þótt þykkur væri.“

Heimild:
-Árbók Hins íslenska fornleifafélags 01.01.1943, Fornar slóðir milli Krýsuvíkur og Hafnarfjarðar – Ólafur Þorvaldsson, bls. 83-87.

Arnarvatn

Arnarvatn við Ketilsstíg.