Magnús Már Lárusson fjallar um Hafnarfjörð í jólablaði Alþýðublaðs Hafnarfjarðar 1960 undir fyrirsögninni „Enn úr firðinum„:
Magnús Már Lárusson.
Árið 1957 skrifaði prófessor Magnús Már Lárusson grein í þetta blað, er hann nefndi „Sitthvað um Fjörðinn“. Í þessari grein komu fram athyglisverðar upplýsingar um sögu Hafnarfjarðar. Vakti greinin verðskuldaða athygli. Nú hefur þessi glöggi vísindamaður enn á ný skrifað grein fyrir þetta blað. Er hún ekki ómerkari en sú fyrri og varpar nýju ljósi á sögu Hafnarfjarðar og nágrennis. Rannsóknir og athugasemdir Magnúsar kollvarpa ýmsum fyrri hugmyndum manna og leiðréttir hann misskilning sem jafnvel fræðimenn hafa byggt á til þessa. Þá víkur prófessorinn enn að leit sinni og annarra að landnámsjörðinni Skúlastöðum, fullyrðir ekki en leggur á borðið nýjar athuganir og skýringar, sem vekja menn til umhugsunar um þetta merkilega rannsóknarefni.
Elzta saga byggðar á Reykjanesskaga er harla óljós og gloppótt. Heimildir eru fáar og stangast iðulega á. Náttúruhamfarir, eldgos og landbrot hafa geisað án þess að setja teljandi spor í heimildir. Og örnefni hafa týnzt eða breytzt.
Hér skal ekki drepið á nema örfáa þætti, sem ef til vill gætu verið til fróðleiks. Hins vegar er varla mögulegt að gera þeim full skil á þessum vettvangi. Áður hefur hér verið bent á þann möguleika, að upphaflegt heiti Ófriðarstaða, sent ranglega nefnast nú Jófríðarstaðir, hafi e.t.v. verið Unnólfsstaðir. Jörð með því nafni kemur fyrir í skrá frá Viðeyjarklaustri 1395, DI iii 597. Leiga er talin þar 3 merkur, og er það landskuld. Fyrir 1400 er almennast, að landskuld er full lögleiga eða 10% aí andvirði þess, sem leigt er. Dýrleiki Unnólfsstaða þessara er þá 12 hundruð, sem er býsna nærri dýrleika Ófriðarstaða síðar á öldum. Í sömu skrá er og Hvaleyri talin klausturjörð og er landskuld af henni talin 4 hundruð. Þá er dýrleikinn með sama reikningi og að ofan 40 hundruð.
Jófríðarstaðir fyrrum – tilgáta.
Í síðari tíma heimildum er hún talin 20 hundruð. Gætu menn þá spurt, hvernig á þessum mismun standi. Hér kemur a. m. k. tvennt til greina. Annars vegar er sú einfalda staðreynd, að ein afleiðing af mannfalli Svarta dauða var sú, að jarðir fengust ekki byggðar nema með lækkaðri landskuld og er þá höluðreglan, að hún er felld til helmings eða ofan í 5%. Er það þegar staðreynd um miðja 15. öld á Norðurlandi og helzt svo þar og á Suðurlandi fram eltir öldum, þótt landskuld í Vestfjörðum og á Austurlandi víðast hvar væri 81/3%.
Hafnarfjörður á 18. öld. Hvaleyri fjær.
Klaustur- og kirkjujarðir tíunduðust yfirleitt ekki. Týndist þá hið forna hundraðsmat víða niður. En þegar farið var að gera jarðabækur fullkomnar á s.l. 17. aldar, var dýrleikinn reiknaður upp úr landskuldinni með því að tuttugfalda hana. Jarðabók Kleins fylgir sérstök tafla, sem notuð hefur verið til þess að setja dýrleikatölu á jarðir þær, sem eigi höfðu tíundazt. Á 17. öld var landskuld af Hvaleyri 1 hundrað frítt, sem samkvæmt þessum reikningi gerir 20 hundruð. Af þessu ætti þá að vera ljóst, að dýrleikinn hefur ekki valdið breytingunni, heldur er það landskuldin, sem hefur lækkað vegna fólksfæðar m. a. — Hins vegar ber að nefna eitt mjög mikilvægt atriði. Samkvæmt vitnisburði Steinmóðs ábóta í Viðey, sennilegast frá því um 1475, er kirkjan á Hvaleyri talin eiga töluverðan hluta at Hvaleyrarlandi, sjá DI iv 751. Er sá hluti það mikill, að vel hefði mátt nema hálfum dýrleikanum. En þar sem kirkjan missti í raun stöðu sína sem hálfkirkja eftir siðbót, má vera að kirkjuhlutinn í jörðinni hali gleymzt. Þess eru dæmi til. Nefna má t.d. Saxhól yzt á Snæfellsnesi.
Hafnarfjörður 1880-1890. Hér má sjá Hvaleyrarlónið, Grandann og nágrenni.
Þegar þessir tveir möguleikar eru grandskoðaðir, verður nýtt uppi á teningnum. Fyrri upphæðin er reiknuð sem 10% af 40 hundruðum, hin sem 5% af 20 hundruðum. Seinni landskuldin er helmingur þess, sem full lögleiga mundi nema, j.e. 2 hundruð. En 1395 er landskuldin helmingi meiri eða 4 hundruð. Dýrleikinn sem afgjaldsmælir er þá helmingi meiri. Þá verður spurningin sú, hvort kirkjan hafi verið reist eftir 1395 og til hennar verið lögð 20 hundruð. Það kann að vera svo, en virðist fremur ósennilegt. Kirkjan hefði þá varla fengið svo mikið af landi. Það virðist fremur vera svo, að hún hljóti að vera eldri. Dýrleikamunurinn hlýtur að stafa frá öðru, sem varla getur annað verið en rýrnun í gæðum. Og má þar fyrst benda á, að síðan á landnámsöld hefur stöðugt landbrot átt sér stað, sem einkum ætti að ganga nærri jörð eins og Hvaleyri, þar sem túnstæðið er á nesi fram í sjó. Vitað er með vissu, að verzlunarstaðinn varð að flytja um miðja 17. öld norður yfir fjörðinn í Akurgerði vegna landbrots. Það ætti að sýna hugsanlegan möguleika þess, að Hvaleyri sjált hefði þá orðið fyrir hnjaski.
Hvaleyri – túnakort 1908.
Séu fógetareikningar frá miðri 16. öld athugaðir, þá sést, að þá þegar er rýrnun þessi komin fram. Þar segir 1547—48, að með Hvaleyri standi 2 leigukýr, 6 ær og 4 kirkjukúgildi, en landskuld er kúgildi, frítt hundrað, og tunna mjöls og leigur (af 3 kúgildum) eru 6 1 jcirðungar smjörs. 1552 er greidd tunna bjórs í stað mjöls, sjá DI xii 114, 140, 154, 174 og 400. Samkvæmt kaupsetningu 1546 er mjöltunna sama virði og bjórtunna, þ. e. 30 fiska, DI xi 518-19, sbr. ix 583—4. Samkvæmt kaupabálki 6 í Jónsbók verður að telja fiskinn hér 2 álnir innanlands til útlausnar, því 3 vættir mjölvægs matar er hundrað, en í tunnu er þá 240 merkur eða 11/2 vætt og er því verðið 60 álnir. 1509 er bjór- eða mjöltunna talin 40 álnir til landskuldar í kauptíð. DI viii 268. Landskuldin er þá að álnatali 180, en sé hún reiknuð 1 /20, þá er Hvaleyri að hundraðstali 30 hundruð um þær mundir. Það er þá auðséð, að hnignunin er að eiga sér stað. Þess má geta hér, að Þorbjarnarstaðir í Hraunum eru í eyði 1395.
Hvaleyri fyrrum. Bærinn á seinni hluta 18. aldar. Varða til minningar um Flóka Valgarðsson, þess er elst er getið, í forgrunni.
Máldagi Hvaleyrarkirkju áðurnefndur nefnir Nýjahraun, en í landamerkjaskrá frá 7. júní 1890 segir skilmerkilega, að Nýjahraun nefnist Kapelluhraun neðst. Gæti verið fróðlegt að rifja upp það, sem vitað verður úr heimildum um Nýjahraun þetta. Í Flateyjarannál segir við árið 1343, að skipið Katrínarsúðina braut við Nýjahraun. Skálholtsannáll segir við sama ár, að Katrínarsúðina, er lét úr höfn í Hvalfirði, braut fyrir utan Hafnarfjörð og drukknuðu 23 menn, en Gottskálksannáll segir, að Katrínarsúðina braut fyrir Hvaleyri 1343 og drukknuðu þar 4 menn og 20. Sennilega var þetta skip Snorra nokkurs, sbr. annálsbrot og lögmannsannál, þótt Flateyjarannáll tilgreini skipstapa hans 1342. Hér er þá skip, sem ferst við Nýjahraun eða fyrir utan Hafnarfjörð eða fyrir Hvaleyri. Staðsetningin er þá allsæmileg. Skipstapinn hefur orðið út af enda Kapelluhrauns. Hins vegar má gjarnan minnast þess, að í gömlum heimildum, t. d. sóknalýsingu síra Árna í Görðum 1842, er Hafnarfjörður talinn ná milli Melshöfða að norðan og Hraunsness að sunnan. Sé það haft í huga verða heimildirnar enn skiljanlegri.
Jarðfræðikort af Reykjanesskaga.
Enn getur Nýjahrauns í Kjalnesinga sögu, kap. 2 og 17, og er þar talið suðurtakmark Bryndælagoðorðs, en Botnsá í Hvalfirði norðurtakmarkið. Saga þessi er frá 14. öld, en erfitt er að segja með vissu, hvort frekar eigi að setja hana til upphafs aldarinnar eða miðju hennar. Sem söguleg heimild er hún slæm. Nú verður spurningin þessi, hversu nýtt Nýjahraun er á 14. öld og ennfremur hver eru takmörk þess. Heitið sjálft ber með sér, að það hljóti að hafa runnið eftir að landið byggðist. Heiti eins og Óbrynnishólar bendir til hins sama. Um tímann er erfiðara að fullyrða. Allar líkur benda þó fremur til tíma fyrir 14. öld, og er vitað, að eldgos hafi verið mikil á Reykjanesskaganum um miðja 12. öld. Sennilegast er Nýjahraun frá þeim tíma rétt eins og Ögmundarhraun í Krýsuvík. Bezt er að skoða víðáttu þess á Jarðfræðikorti Guðmundar Kjartanssonar, blað 3. Þar sést, hvernig hraunið hefur ollið upp úr gossprungum meðfram Undirhlíðum og er það breiðast þar. Mjókkar það svo og fellur til hafs og er suðurkantur þess í Straumi. Breidd þess þar er rúml. 1/2 km. Ástæða nokkur er fyrir því að virða fyrir sér hraun þetta. Það kann að hafa runnið yfir byggt land að einhverju leyti og þá sennilegast niðri hjá Straumi. Þar kann að hafa verið eitthvert dalverpi lítilfjörlegt, og áreiðanlega hefur þar verið vatn til drykkjar rétt eins og nú.
Árni Helgason.
Í sóknarlýsingu sinni segir síra Árni í Görðum um eyðijarðir, að hann viti ekki um neina, „nema það skyldu vera Skúlastaðir, sem mælt er hafi verið jörð áður fyrr meir, og hvar af skuli finnast minjar upp í hrauni, suður frá Hvaleyri.“ Það er sorglegt að hann skuli ekki tilgreina staðsetninguna skilmerkilegar. En leyfilegt væri að láta sér detta í hug Kapelluhraun, því „suður“ er hér um slóðir oftast notað í merkingunni „útsuður“. Ennfremur má benda á Almenningana sunnan við Kapelluhraun. Af heimildum sést að margir bæir eiga þar beit, skóg o. 11., sem á verður drepið síðar. Þetta hefur upphaflega verið mjög sæmilegt land og er enn ekki verulega farið að blása. Þessir Almenningar koma samt skringilega fyrir sjónir. Það er eins og eftirstöðvar af jörð séu þar eftir, sem orðið hafa almenningseign, en ekki að þeir séu óskipt sameignarland.
Nú kynni einhver að benda á svonefnt Skúlatún, sem Brynjúlfur Jónsson túlkaði sem Skúlastaðatún í Árbók fornleifafélagsins 1903. Menn kynnu að halda, að síra Árni ætti við það. En það er varla svo, því er hann ræðir um selstöður, segist hann ekki vita nema það, að Garðar eigi selstöðu í því svokallaða Kirkjulandi, sem liggur fyrir ofan byggðina, frá Elliðavatns- og Vatnsendalandi, suður að Krýsuvíkurlandi og upp undir fjöllin, og hafði verið haft í seli þar til 1832, en aðrir í sókninni höfðu ekki notað selstöðu um hálfa öld fyrir 1842. Svæði þetta er stórt mjög, en Jarðabók Árna Magnússonar segir, að staðurinn í Görðum eigi selstöður, þar sem heitir við Kaldá, og eru þar bæði hagar og vatnsból gott. Í öllum máldögum Garða er svæði þetta nefnt: Afrétt í Múlaún, t. d. DI iv 108, vi 123, xv 638, og var síra Árna þetta kunnugt, enda er pláss þetta í Garðalandi.
Brynjúlfur Jónsson.
Örnefni í kringum Hafnarfjörð og í honum sjálfum hafa orðið fyrir töluverðu hnjaski innfluttra manna. Ófriðarstaðir verða Jófríðarstaðir, Steinhes verður Steinhús, Klelrakkagil verður Markrakagil, öfugt, svo örfá dæmi séu tekin. Skúlatún er vafalaust afbökun úr Múlatúni. Leitin að Skúlastöðum hefur sennilega verið áköf, meðan lærðir menn bjuggu á Álftanesi og skólinn var starfræktur á Bessastöðum. Þeir hafa vitað, að Skúlastaðir eru eingöngu nefndir í Landnámu. Þeir kunna að hafa stuðlað að nýrri nafngift. Eltirtektarvert er, að Árni Magnússon nefnir m.a. eftir sögn gamals manns, að bær hafi staðið í Lönguhlíð. Virðist bæjarheitið nefnt, því maðurinn ruglar svo sögnunni saman við skriðuhlaupið á Lönguhlíð í Hörgárdal 1389. Sbr. Ssí 2: I, 2 bls. 60.
Sé lýsing Brynjólfs frá Minna-Núpi í Árbók fornleifafélagsins 1908 athuguð, þá er hún ekki sannberandi um, að þar hafi býli verið. Enda eigi heldur lýsing Þorvalds Thoroddsen í Ferðabók I. Tilgátan, sem hér hefur verið drepið á, er eigi heldur svo sennileg – Kapelluhraun og þá Nýjahraun liggur á eldra hrauni. Eftir aðalínum að dæma hefur þó legið kvos í landsuður frá henni og myndað dalverpi rúmlega 1 km á breidd, en 3 km inn frá sjó. Pláss hefði verið þar, hefði jarðvegur verið nægur á hinu eldra hrauni. Landnámsjarðarinnar er eðlilegast að leita við sjóinn, því fiskiföng hafa laðað frumbýlinginn.
Ólafur Lárusson.
Prófessor Ólafur Lárusson hefur bent á ákvæði í elzta máldaga Bessastaða, sem gæti bent til, að annað hvort Sveinbjörn Ásmundsson á 12. öld eða afi hans Sveinbjörn Ólafsson á 11. öld hafi átt Bessastaði, en þeir voru í beinan karllegg af Ásbirni Özurarsyni landnámsmanni á Skúlastöðum, en landnám hans náði frá Hraunsholtslæk suður að Hvassahrauni, þ. e. Afstapahrauni.
Sjálfur hef ég á þessum vettvangi bent á Garða. Nú má í því sambandi benda á annað. Sonur Sveinbjarnar Ásmundssonar var Styrkár, en hans getur í sambandi við Viðeyjarklaustur, sem hann gaf rekapart.
Er þess getið í máldaga, er varðveitzt hefur í afskrift frá því um 1598, er Oddur biskup Einarsson lét gera og er prentað eftir henni í DI i 507. En eins og textinn er þar lesinn og prentaður, er hann mjög villandi. Þó virðist hann eiga við Krýsuvík að nokkru. Það er í máldögum reyndar að finna orðalagið til marks við Beðstæðinga (eða Bessstæðinga), DI ii 361, sem hefur verið skilið sem Bessastaðamenn. Gæti það þá enn stuðlað að því að binda Bessastaði við ættmenn Ásbjarnar á Skúlastöðum. Og hafa menn þá í því sambandi blínt á ofarnefndan máldaga og tengt Styrkár við Bessastaði og gjört ráð fyrir, að reki Styrkárs væri sanmi og fjórðungsreki Viðeyjar í Krýsuvík.
Bessastaðir 1789.
Nú vill svo til, að textinn er ranglesinn, en aðeins eitt orð. Í máldaganum stendur og til hægðarauka fyrir lesendur fært til nútímastafsetningar: „Styrkár Sveinbjarnarson galt staðnum hvalreka meðal Hraunnesstjarna og Kolbeinsskora, hina fjórðu hverju vætt, og hval, hvort sem er meiri eða minni. En sá maður, er býr í Krýsuvík skal skyldur að festa hvalinn, svo að ei taki sær út og gera orð til Viðeyjar fyrir þriðju sól.“
Í fornbréfasafninu stendur í hval. í máldagabókinni stendur fyrir og löng z. í landamerkjaskrá Steingríms biskups Jónssonar og með hans hendi í Lbs. 112 4to bls. 166 er lesið og eins og ég geri. Að sá lestur er réttur er tiltölulega auðvelt að sýna fram á í skjölum tveim frá 1497, sem varðveitzt hafa í Bessastaðabók, skrifaðri um 1570, er að finna vitnisburði um reka Viðeyjarklausturs.
Stapinn – flugmynd.
Segir þar skýrt, að vitnin hafi heyrt lesinn máldaga þess efnis, að kirkja og klaustur í Viðey ætti hina fjórðu hverju vætt í öllum hvalreka utan frá Kolbeinsskor og inn að Hraunnesstjörnum eður vötnum, hvar sem á land kæmi á þessu takmarki, er liggur fyrir Strönd í Kálfatjarnarkirkjusókn. Eitt vitnið hafði verið 29 vetur í Hraunum og annað alizt þar upp; þriðja vitnið hafði verið 46 vetur í klaustursins vernd, en 15 vetur heimilisfastur í Viðey, en búið annars á klaustursins jörðu og verið formaður á skipum þess. Sjá D1 vii 337-38.
Takmark þetta er reyndar hreppsmörk Vatnsleysustrandarhrepps, Kolbeinsskorir heita nú Ytri- og Innri-Skor í Stapanum. Einkennilegt er, að reki þessi skuli ekki koma fram í skránum D ii 245-48. Texti máldagans, eins og hann liggur fyrir, er spilltur. Er ekki hægt að segja með neinni vissu, hvort Styrkár hafi gefið rekann, sem Viðeyjarklaustur átti óefanlega í Krýsuvík. En hitt liggur ljóst fyrir, að Styrkár Sveinbjarnarson hafi átt Vatnsleysuströndina alla eða a. m. k. rekann fyrir henni.
Skúlatún. Helgafell fjær.
Þá er komið í annað landnám en Ásbjarnar á Skúlastöðum. Hér var landnámskona Steinunn hin gamla, er keypti Romshvalanes allt fyrir utan Hvassahraun af Ingólfi Arnarsyni, en gaf Eyvindi frænda sínum land milli Hvassahrauns og Kvíguvogabjarga, sem nú nefnast Vogastapi. Athugasemd þessi styrkir, að Styrkár Sveinbjarnarson hafi haft mikilla hagsmuna að gæta suður með sjó og gerir það líklegt, að Sveinbjörn Styrkársson af Rosmhvalanesi, er féll í Bæjarbardaga 1237, hafi getað verið sonur Styrkárs. Enn fremur styrkir hún skoðun Ólafs prófessors Lárussonar, að Hafur-Björn, sonur Styrkárs, hafi komizt að Nesi við Seltjörn með kvonlangi sínu, sjá Landnám Ingólfs, II., bls. 48-51.
Almenningur í Hraunum – herforingjakort 1903.
Áður er minnzt á Almenningana. Nú er ástæða til að benda á eftirtektarvert atriði í sambandi við þá. Í Jarðabók Árna Magnússonar er svo greint um þá, að „það, sem Suðurnesjamenn kalla Almenning, tekur til suður við Hvassahraunsland og Trölladyngjur. Gengur svo norður eftir fyrir ofan lönd allra Hraunbæjanna og endast svo norðan til, þar sem hann mætir Ásslandi, svo sem við taglið á Kapelluhrauni. Þá kemur Garðastaðarland og selstaða.“ Sé svo jarðabókin grandskoðuð, þá kemur í ljós, að jarðirnar í Grindavíkur-, þó ekki Krýsuvík, Rosmhvalaness- og Vatnsleysustrandarhreppum, auk Hraunabæjanna og Hvaleyrar, Áss og Ófriðarstaða
eiga hrísrif til kolagjörðar og eldiviðar í Almenningum. — Það er furða, að nokkur hrísla skuli vera eftir. — Hafnirnar eiga þar ekki ítök fremur en Krýsuvík.
Það, sem eftirtektarvert er, getur verið tilviljun. Fyrst má benda á, að meðal þessara landssvæða er hluti úr landnámi Ásbjarnar Özurarsonar, bróðursonar Ingólfs, land Steinunnar hinnar gömlu allt, frændkonu Ingólfs, og land það, er fyrsti Hafur-Björn var uppi á, en það er Grindavík.
Hafur-Bjarnastaðir á Rosmhvalanesi.
Styrkár Sveinbjarnarson virðist hafa staðfestu suður með sjó, en eigi á Álftanesi og sonur hans hét Hafur-Björn. Gæti það bent til þess, að erfðir og tengdir höfðu orkað að því að tengja framangreind svæði saman að þessu leyti, er Almenningunum við kemur. Hafur-Birnir þessir tveir eru hinir einu þekktu með því nafni frá þjóðveldisöld. Enn fremur eru Hafurbjarnarstaðir á Rosmhvalanesi þeir einu með því nafni á landinu og reyndar Viðeyjarklaustursjörð 1398.
Hvernig sem þessu er varið, þá er eitt ljóst, að jarðirnar við sunnanverðan Hafnarfjörð eiga samleið með Suðurnesjum, en jarðirnar norðan við hana þar engra hagsmuna að gæta, nema Garðar, er eiga lönd með Undirhlíðum. Og liggja skilin um Hamarinn. – Magnús Már Lárusson
Framhald er undir fyrirsögninni „Sitthvað um Fjörðinn„.
Heimild:
-Alþýðublað Hafnarfjarðar, jólablað 24.12.1960, Enn úr firðinum – Magnús Már Lárusson, bls. 4-5.
Hafnarfjörður – örnefnakort.