Bólstraberg er ein þeirra bergtegunda er einkenna Reykjanesskagann. Augljósasta, og í rauninni besta kennslubókardæmið um það, er að finna í Lambatanga við suðvestanvert Kleifarvatn.
Bólstraberg er hraun sem myndast við gos djúpt undir vatni þar sem þrýstingur er of mikill til að gufusprengingar verði. Þegar kvika kemur upp á yfirborðið springur hún ekki vegna þrýstingsins en yfirborðið snöggstorknar og þunn svört glerhúð myndast á hrauninu. Kvikan myndar þá nokkurs konar bolta eða „kodda“, nánast kúlulaga, til að lágmarka yfirborð kvikunnar og um leið verður lágmarkskæling í kvikunni. Við kólnun hraunsins myndast stuðlar í bólstrunum og liggja þeir þvert á kólnunarflötinn, frá miðjunni út í yfirborðið. Bólstraberg getur myndast í neðansjávargosi, í gosi í stöðuvatni eða í gosi undir jökli.
Lambatangabólstrarnir hafa greinilega myndast annað hvort gos undir jökli eða í stöðuvatni. En fyrst, svona til að skilja samhengið; hvað er hraun? Samkvæmt fræðilegum skilgreiningum er hraun bráðið berg eða möttulefni (einnig kallað bergkvika) sem flæðir upp á yfirborð jarðar við eldgos og storknar þar. Hitastig hraunbráðar getur verið frá 700 – 1200°C.
Kvikan verður til vegna hitamyndunar í iðrum jarðar sem einkum stafar af niðurbroti geislavirkra efna (t.d. úrans og þóríums). Kvikan er heit og því eðlisléttari en umhverfið, sem veldur því að hún tekur að stíga í átt til yfirborðs þar sem hún kemur upp í eldgosum og rennur sem hraun.
Bólstraberg getur myndast bæði úr basískri og súrri kviku þegar kvikan rennur í vatni. Við slíkar aðstæður kólnar yfirborð kvikunnar snögglega. Seigjan verður því mest á yfirborðinu og leitast kvikan því við að mynda því sem næst kúlulaga form svo yfirborð verði sem minnst miðað við rúmmál. Yfirleitt ná bólstrarnir ekki að verða kúlulaga en líkjast einna helst vel úttroðnum koddum sem fletjast út vegna eigin þunga og eru því yfirleitt ílangir. Oft sjást tengsl á milli þeirra því líklegt er að kvikan streymi úr einum bólstri í þann næsta. Bólstrarnir eru glerjaðir að utan en innar er fínkornótt blöðrótt berg sem er smástuðlað og vita stuðlarnir hornrétt á yfirborðið, þ.e. kólnunarflötinn.
Þegar basísk hraun renna út í sjó eða stöðuvötn mynda þau oft stóra, fremur óreglulega bólstra. Við mikinn vatnsþrýsting í djúpu vatni eins og gerist við eldgos á hafsbotni eða undir þykkum jökli myndast reglulegir bólstrar. Oft mynda þeir margra metra þykkt bólstrabergslag þar sem bólstrarnir liggja hver um annan þveran og eru þeir oftast fremur smáir. Þannig myndanir eru algengar neðst í stöpum og bólstrabergshryggjum. Má sjá slík bólstrabergslög í Stapafelli á Reykjanesi (reyndar sagði Sigurður Þórarinsson, jarðfræðingur, að þar mætti augum líta „einn stærsta bólstra í heimi“), Mosfelli í Mosfellsdal, Lambafelli við Höskuldarvelli og Þorbirni sem er dæmigerður bólstrabergshryggur. Skálaga bólstraberg og bólstrabrotaberg myndast þegar gjall eða gjóska mynda skálaga hlíðar undir vatnsborði og einstaka bólstrar eða brot úr þeim renna niður hallann og umlykjast gjóskusalla. Slíkar myndanir eru algengar undir hraunhettum stapa og apalhraunum sem renna út í vatn.
Rýólítbólstrar verða til þegar rýólítkvika kemur upp í gosum undir vatni. Slíkir bólstrar eru oft margir metrar í þvermál eins og t.d. í Bláhnúk við Landmannalaugar.
Tegundir hrauna eru fleiri en ein og fleiri en tvær. Basísk hraun (eða mafísk) eru venjulega fremur kísilsnauð og eru því fremur þunnfljótandi. Þau koma oftast upp í gígaröðum eða dyngjum. Súr hraun (eða felsísk) eru yfirleitt kísilrík og seigfljótandi og mynda gjarnan straumflögótt berg. Þau koma oftast upp í megineldstöðvum.
Hraun kólna eða storkna á yfirborði og mynda fast berg. Fasta bergið er samsett úr kristölluðum steindum, en kólnunarhraði hraunsins ræður mestu um það hversu grófgerðir kristallarnir verða. Þeim mun hægar sem hraun kólna þeim mun stærri verða kristallarnir. Stórir kristallar geta einnig myndast í kvikunni meðan hún er neðanjarðar og þá verður hraunið sem upp kemur dílótt. Snertifletir og yfirborð hrauna er oft gler- eða kargakennt, þar sem kólnun þessara flata er hraðari vegna snertingar við eldri og kaldari jarðmyndanir og andrúmsloft. Því ná kristallar ekki að myndast. Berg sem myndast við eldgos kallast einu nafni gosberg hvort sem um er að ræða hraun, gjóskuberg eða móberg.
Basísk hraun mynda venjulega annaðhvort hellu- eða apalhraun sem vísar að mestu til yfirborðsásýndar hraunanna. Enskt heiti þessara hraungerða eru „Aa-lava“ (apalhraun) og „Pahoehoe“ (helluhraun), en ensku nafngiftirnar eru komnar frá Hawaii eyjaklasanum, þar sem eingöngu renna basalthraun.
Dyngja er breitt, aflíðandi og keilulaga eldfjall sem myndast í langvinnu eldgosi á hringlaga gosopi. Dyngjugos eru svo kölluð flæðigos þar sem hraunið er þunnfljótandi og flæðir langar leiðir. Eldvirkni í dyngjum getur varað mörg ár eða áratugi líkt og dæmi eru um á Reykjanesskaganum (Sandfellshæð, Þráinsskjöldur og Hrútargjárdyngja). Á Íslandi setja dyngjur mikinn svip á landslagið. Einna þekktastar utan Reykjanesskagans eru Skjaldbreiður og Trölladyngja, hvor um sig um 600 metrar á hæð frá rótum. Aðrar eru flatari og ógreinilegri í landslaginu, s.s. Háleyjarbunga og Stapinn.
Til fróðleiks má nefna að stærsta fjall sólkerfisins, Ólympusfjall á Mars, er dyngja.
Hraun eru að meginefni til tvenns konar; apalhraun er úfið hraun sem verður til í þeim eldgosum þar sem er flæðigos með basískri hraunkviku. Dæmi um apalhraun er hraunið sem liggur yfir Suðurnesin.
Helluhraun er nokkuð slétt hraun sem verða til við eldgos með þunnfljótandi basalt-kviku. Helluhraun eru að jafnaði auðveld yfirferðar og oft alsett hraunreipum sem myndast þegar efsta lag hraunsins storknar en massinn heldur áfram að hreyfast. Stærstu helluhraun heims eru á Hawaii en einnig eru helluhraun á Íslandi; svo sem Eldborgarhraun í Brennisteinsfjöllum og hraun úr Vörðufellsborgum. Það síðarnefnda rann sennilega á árunum í kringum eitt þúsund.
Við mikið hraunrennsli getur myndast hraungöng yfir og undir yfirborðinu. Ef slík hraungöng tæmast myndast hellar og traðir sem standa eftir. Dæmi um slíka hella eru Búri og Raufarhólshellir.
Við mjög svo aðgengilega skoðun á bólstrunum á Lambatanga má glögglega sjá með eigin augum og upplifa allt það er sagt er hér að framan.
Heimildir m.a.:
-GK jarðfræðiglósur.
-Wikipedia netorðabókin