Lambatangi

Bólstraberg er ein þeirra bergtegunda er einkenna Reykjanesskagann. Augljósasta, og í rauninni besta kennslubókardæmið um það, er að finna í Lambatanga við suðvestanvert Kleifarvatn.
BólstriBólstraberg er hraun sem myndast við gos djúpt undir vatni þar sem þrýstingur er of mikill til að gufusprengingar verði. Þegar kvika kemur upp á yfirborðið springur hún ekki vegna þrýstingsins en yfirborðið snöggstorknar og þunn svört glerhúð myndast á hrauninu. Kvikan myndar þá nokkurs konar bolta eða „kodda“, nánast kúlulaga, til að lágmarka yfirborð kvikunnar og um leið verður lágmarkskæling í kvikunni. Við kólnun hraunsins myndast stuðlar í bólstrunum og liggja þeir þvert á kólnunarflötinn, frá miðjunni út í yfirborðið. Bólstraberg getur myndast í neðansjávargosi, í gosi í stöðuvatni eða í gosi undir jökli.
Lambatangabólstrarnir hafa greinilega myndast annað hvort gos undir jökli eða í stöðuvatni. En fyrst, svona til að skilja samhengið; hvað er hraun? Samkvæmt fræðilegum skilgreiningum er hraun bráðið berg eða möttulefni (einnig kallað bergkvika) sem flæðir upp á yfirborð jarðar við eldgos og storknar þar. Hitastig hraunbráðar getur verið frá 700 – 1200°C.

Bólstri

Bólstri.

Kvikan verður til vegna hitamyndunar í iðrum jarðar sem einkum stafar af niðurbroti geislavirkra efna (t.d. úrans og þóríums). Kvikan er heit og því eðlisléttari en umhverfið, sem veldur því að hún tekur að stíga í átt til yfirborðs þar sem hún kemur upp í eldgosum og rennur sem hraun.
Bólstraberg getur myndast bæði úr basískri og súrri kviku þegar kvikan rennur í vatni. Við slíkar aðstæður kólnar yfirborð kvikunnar snögglega. Seigjan verður því mest á yfirborðinu og leitast kvikan því við að mynda því sem næst kúlulaga form svo yfirborð verði sem minnst miðað við rúmmál. Yfirleitt ná bólstrarnir ekki að verða kúlulaga en líkjast einna helst vel úttroðnum koddum sem fletjast út vegna eigin þunga og eru því yfirleitt ílangir. Oft sjást tengsl á milli þeirra því líklegt er að kvikan streymi úr einum bólstri í þann næsta. Bólstrarnir eru glerjaðir að utan en innar er fínkornótt blöðrótt berg sem er smástuðlað og vita stuðlarnir hornrétt á yfirborðið, þ.e. kólnunarflötinn.

Bólstri

Þegar basísk hraun renna út í sjó eða stöðuvötn mynda þau oft stóra, fremur óreglulega bólstra. Við mikinn vatnsþrýsting í djúpu vatni eins og gerist við eldgos á hafsbotni eða undir þykkum jökli myndast reglulegir bólstrar. Oft mynda þeir margra metra þykkt bólstrabergslag þar sem bólstrarnir liggja hver um annan þveran og eru þeir oftast fremur smáir. Þannig myndanir eru algengar neðst í stöpum og bólstrabergshryggjum. Má sjá slík bólstrabergslög í Stapafelli á Reykjanesi (reyndar sagði Sigurður Þórarinsson, jarðfræðingur, að þar mætti augum líta „einn stærsta bólstra í heimi“), Mosfelli í Mosfellsdal, Lambafelli við Höskuldarvelli og Þorbirni sem er dæmigerður bólstrabergshryggur. Skálaga bólstraberg og bólstrabrotaberg myndast þegar gjall eða gjóska mynda skálaga hlíðar undir vatnsborði og einstaka bólstrar eða brot úr þeim renna niður hallann og umlykjast gjóskusalla. Slíkar myndanir eru algengar undir hraunhettum stapa og apalhraunum sem renna út í vatn.

Bólstri

Rýólítbólstrar verða til þegar rýólítkvika kemur upp í gosum undir vatni. Slíkir bólstrar eru oft margir metrar í þvermál eins og t.d. í Bláhnúk við Landmannalaugar.
Tegundir hrauna eru fleiri en ein og fleiri en tvær. Basísk hraun (eða mafísk) eru venjulega fremur kísilsnauð og eru því fremur þunnfljótandi. Þau koma oftast upp í gígaröðum eða dyngjum. Súr hraun (eða felsísk) eru yfirleitt kísilrík og seigfljótandi og mynda gjarnan straumflögótt berg. Þau koma oftast upp í megineldstöðvum.
Hraun kólna eða storkna á yfirborði og mynda fast berg. Fasta bergið er samsett úr kristölluðum steindum, en kólnunarhraði hraunsins ræður Bólstrimestu um það hversu grófgerðir kristallarnir verða. Þeim mun hægar sem hraun kólna þeim mun stærri verða kristallarnir. Stórir kristallar geta einnig myndast í kvikunni meðan hún er neðanjarðar og þá verður hraunið sem upp kemur dílótt. Snertifletir og yfirborð hrauna er oft gler- eða kargakennt, þar sem kólnun þessara flata er hraðari vegna snertingar við eldri og kaldari jarðmyndanir og andrúmsloft. Því ná kristallar ekki að myndast. Berg sem myndast við eldgos kallast einu nafni gosberg hvort sem um er að ræða hraun, gjóskuberg eða móberg.
Basísk hraun mynda venjulega annaðhvort hellu- eða apalhraun sem vísar að mestu til yfirborðsásýndar hraunanna. Enskt heiti þessara hraungerða eru „Aa-lava“ (apalhraun) og „Pahoehoe“ (helluhraun), en ensku nafngiftirnar eru komnar frá Hawaii eyjaklasanum, þar sem eingöngu renna basalthraun.
BólstriDyngja er breitt, aflíðandi og keilulaga eldfjall sem myndast í langvinnu eldgosi á hringlaga gosopi. Dyngjugos eru svo kölluð flæðigos þar sem hraunið er þunnfljótandi og flæðir langar leiðir. Eldvirkni í dyngjum getur varað mörg ár eða áratugi líkt og dæmi eru um á Reykjanesskaganum (Sandfellshæð, Þráinsskjöldur og Hrútargjárdyngja). Á Íslandi setja dyngjur mikinn svip á landslagið. Einna þekktastar utan Reykjanesskagans eru Skjaldbreiður og Trölladyngja, hvor um sig um 600 metrar á hæð frá rótum. Aðrar eru flatari og ógreinilegri í landslaginu, s.s. Háleyjarbunga og Stapinn.
Til fróðleiks má nefna að
stærsta fjall sólkerfisins, Ólympusfjall á Mars, er dyngja.
Hraun eru að meginefni til tvenns konar; a
palhraun er úfið hraun sem verður til í þeim eldgosum þar sem er flæðigos með basískri hraunkviku. Dæmi um apalhraun er hraunið sem liggur yfir Suðurnesin.

Bólstri

Helluhraun er nokkuð slétt hraun sem verða til við eldgos með þunnfljótandi basalt-kviku. Helluhraun eru að jafnaði auðveld yfirferðar og oft alsett hraunreipum sem myndast þegar efsta lag hraunsins storknar en massinn heldur áfram að hreyfast. Stærstu helluhraun heims eru á Hawaii en einnig eru helluhraun á Íslandi; svo sem Eldborgarhraun í Brennisteinsfjöllum og hraun úr Vörðufellsborgum. Það síðarnefnda rann sennilega á árunum í kringum eitt þúsund.
Við mikið hraunrennsli getur myndast hraungöng yfir og undir yfirborðinu. Ef slík hraungöng tæmast myndast hellar og traðir sem standa eftir. Dæmi um slíka hella eru Búri og Raufarhólshellir.
Við mjög svo aðgengilega skoðun á bólstrunum á Lambatanga má glögglega sjá með eigin augum og upplifa allt það er sagt er hér að framan.

Heimildir m.a.:
-GK jarðfræðiglósur.
-Wikipedia netorðabókin

Bólstri

Bólstri í Stapafelli.

 

Lambhagi

Eftirfarandi viðtal við Magnús Guðjónsson birtist í Vísi fimmtudaginn 19. júní 1969 undir yfirskriftinni „Bóndinn í STRAUMSVÍK„:

Straumsvík

Myndin fylgdi viðtalinu (tekin 1969). Álverið í baksýn.

„Hin mikilfenglegu mannvirki, sem rísa upp norðan Straumsvíkur, vekja athygli þeirra vegfarenda, sem ekki eru þar daglega á ferð. En sjálfsagt verður það með þau eins og margt annað, að vaninn slævir eftirtektina og hin því nær kílómetralanga verksmiðjubygging hættir að vekja sérstæð viðbrögð augans.

Stóri-Lambhagi

Tóftir Stóra-Lambhaga.

Hraunið, sem nú hefur verið brotið niður, bjó yfir dulrænni fegurð í litbrigðum ljóss og skugga. Á því var aldrei hinn óumbreytanlegi kuldasvipur steinmúranna. Lifandi mosafeldur brosti við skapara sínum eins og önnur jarðarinnar börn.

Árið 1891 bjuggu í Stóra-Lambhaga í Hraunum, Guðjón Gíslason og Kristbjörg Steingrímsdóttir. Þann 21. september það ár fæddist sonur þeirra Magnús. Þá var fjölbýlt í Hraunahverfinu, enda fólkið margt, búskapur nokkur og áraskipaútgerð. Guðjón var útvegsbóndi, hélt út og stjórnaði sjálfur sex rónu skipi, varð honum gott til manna, því hann var ötull sjósóknari og aflasæll.
Þótt oft væri snöggslægt Lambhagatúnið eftir langvarandi þurrka, tókst honum oftast að hafa tvær kýr og rúmlega eitt hundrað sauðfjár. En sum ár varð hann að sækja nokkurn heyskap inn á Álftanes.

Óttarsstaðir

Hraunin – herforingjaráðskort.

Á þessum tíma voru eftirtalin býli og hjáleigukot í Garðahreppi sunnan Hvaleyrar: Stóri-lambhagi, Litli-Lambhagi, Gerði, Þorbjarnarstaðir, Péturskot, Straumur, Þýzkabúð, Jónsbúð, Kolbeinskot, Eyðikot, Óttarsstaðir og Lónakot. Það var ysti bær í Garðahreppi hinum forna.
Eins og fyrr er sagt, var mikil sjósókn frá þessum bæjum með an enn þá var öld áraskipanna. Oftast var stutt róið. Aðalmiðin voru Lóndjúpið Brúnin eða vestur á Svið. Til bar það, að farið var út í Garðssjó væri ördeyða á innmiðum, en þangað var að eins farið á velbúnum skipum að forviði, veiðarfærum og mannafla.

Straumur

Straumur 1935.

Venjulega var aflavon þangað til togararnir fóru að skafa botninn með fram ströndinni, þá skipti sköpum. Ýmsir útvegsbændur voru brúnaþungir þegar þeir sáu aðfarirnar. Fullir pokar voru dregnir upp. Koli og lúða var hirt en öðrum fiski var hent og flaut hann dauður um allan sjó. Þetta varð til þess að sumir fóru að sækja í togara. Aðrir voru svo stórir af sjálfum sér að þeir höfðu ekki skap til en sátu í landi með sárt ennið, og bölvuðu ástandinu án þess að fá nokkuð að gert.

Á vertíðinni var oft margt að komumanna, sem reru á útvegi heimabænda. Lending var fremur góð umhverfis Straumsvíkina bæði í Stóra-Lambhaga og þó sérstaklega við Straum eða í Straumsós en inn á hann varð aðeins komist á flóði og þarna er mikill munur flóðs og fjöru.

Litli-Lambhagi

Eldhús við Litla-Lambhaga. Straumur fjær.

Á þessari öld, þegar ýmiss konar skoðanakannanir virðast vera mjög ofarlega á dagskrá, er það ekki óalgengt, að þeir sem fræðast vilja taki upp símann, velji númer og spyrji um álit manna, sem þeir aldrei áður hafa átt nein samskipti við.
Vel má vera að með svona hátta lagi þyki sumum sér nóg boðið, jafnvel þótt orðnir séu aldurhnignir og hafi á langri leið ýmsu kynnst og mörgu vanist.
— Hringdu bara, — segir Hrafnkell sölustjóri, og svo hringi ég.

Bifreiðin undir stjórn Magnúsar Guðjónssonar rennur mjúklega suður Hafnarfjarðarveginn. Hann er kunnugur þessari leið gamli maðurinn, því frá árinu 1916, að hann tók bifreiðastjórapróf hjá Agli Vilhjálmssyni, hefur hann oft setið undir stýri og lengst af milli Hafnarfjarðar og Reykjavíkur.

Straumsvík

Straumsvík 1965. Á myndinni sjást m.a. Litli- og Stóri-Lambhagi sem og tjarnirnar.

Hann vildi gjarnan láta fólkinu í sín um heimabæ góða þjónustu í té og auðvelda því ferð til höfuðstaðarins. Árið 1922 fékk hann Kristján vagnasmið til þess að byggja fyrir sig farþegahús á vörubíl. Það rúmaði 13 manns. Þá varð Steindór Einarsson reiður og sagði að með þessu væri Magnús að stofna til harðvítugrar samkeppni við sína dýru og fullkomnu fólksbíla, en hann hafði þá keypt eina tuttugu slíka. En Magnús lét sig ekki og hélt sínu striki, sagði aðeins: „Stærri bifreiðar til fólksflutninga er það sem koma skal“, og sú varð raunin á. Það sá Steindór síðar.
Og nú byrjar fræðslan.
– Sjáðu, hérna, þar sem við ökum með fram höfninni í Hafnarfirði var áður sjór. Þetta er nýtt land gjört af mönnum. Þar sem vegurinn liggur framan undir hamrinum var áður hyldýpi. Í Ásbúðum bjó Andrés Jónsson. Ásbúðir, það er litli bærinn með fánalitunum þarna undir brekkunni Andrés safnaði fornminjum. Ég starfaði að þessu með honum af og til í fimmtíu ár, ók út um sveitir og sótti muni. Nú er sérstök deild í Þjóðminjasafninu, sem varðveitir þessar minjar, — Ásbúðasafnið. —

Hafnarfjörður

Ásbúð og nágrenni.

— Hér er Óseyrin, þar var áður býli og oftast vel búið. Einu sinni átti þar heima ísak í Fífuhvammi. Einar Þorgilsson útgerðarmaður þurrkaði fisk á grandanum framan við eyrina. Þarna syðst er svo Hvaleyrin. Sú jörð átti landamerki móti Stóra-Lambhaga. Í Óseyrar og Hvaleyrartjörnum var fyrrum mikil rauðsprettuveiði. Já, ég man vel aðra mynd af Hafnarfirði en þá sem nú er sýnileg þeim sem um veginn fara.
Nú erum við komnir móts við hið mikla mannvirki — Álbræðsluna — sem reist hefur verið á landi Stóra-Lambhaga.
— Hér er orðið breytt síðan ég var að smala hraunin og ára skipum var hrundið á flot og ráðið til hlunns í Straumsvíkur og Lambhagavörum.

Straumsvík

Straumsvík – Loftmynd af svæðinu.

Fyrstu sjóferðina fór ég 9 ára gamall. Ekki mun þá hafa verið til mikillar liðveislu ætlast, enda var pilturinn lítt til stórræða, því sjóveikin þjakaði mig mjög og var svo jafnan, enda þótt ekki þýddi að láta slíkt á sig fá. Uppeldissystur minni, Margréti Magnúsdóttur, var öðruvísi farið. Hún var bæði kjarkmikil og sjósterk, enda reri hún sem dugandi karlmaður væri og þótti engu síður hlutgeng. Ekki sjaldan kom það fyrir, að hún fór á sjóinn þegar verra var veður og ég kaus heldur að hirða fé föður míns.

Litli-Lambhagi

Litli-Lambhagi – túnakort 1919.

Einu minjarnar um hina fornu byggð í Stóra-Lambhaga er vörin, sem lent var í og þetta gamla fjárhús við sjóinn. Í Straumi bjó lengi Guðmundur Símonarson. Hann hafði stórt bú. Þó sérstaklega sonur hans, Guðmundur Tjörfi, hann hafði mikinn fénað. Hjá honum var „Stjáni blái“ oft á veturna áður en vertíð hófst. Stjáni ólst upp hjá séra Þórarni í Görðum, kom þangað 7 ára gamall frá Klöpp í Reykjavík. Séra Þórarinn keypti áraskip handa honum og Óla Garða. Stjáni var mikill sjómaður, ég þekkti hann vel.
Þegar hann fór sína síðustu för var ég á bryggjunni í Hafnarfirði. Stjáni var örlítið ör og þegar ég hafði orð á því að honum lægi ekkert, á út eftir, leit hann til mín þeim augum, sem gáfu greinilega til kynna, að það væri hann en ekki ég, er réði þár ferðinni.

Stóri-Lambhagi

Stóri-Lambhagi – túnakort 1919.

Mun ég sennilega hafa verið einn þeirra síðustu, sem rétti honum höndina til kveðju.
Svo „strengdi Stjáni klóna“, settist við stjórn og tók stefnu fyrir Keilisnes. Hann var þá búsettur í Keflavík. Hið snjalla kvæði, sem Örn Arnarson kvað, mun gefa nokkuð sanna hugmynd um þessa síöustu siglingu og einnig um manninn sjálfan, Meðan Stjáni var formaður fyrir séra Þórarin í Görðum reri hann venjulega úr Garðavör og sótti oftast út á Svið.

— Í Straumi bjó síðar Bjarni Bjarnason, sem lengi var skólastjóri héraðsskólans á Laugarvatni. Hann var þá kennari í Hafnarfirði.

Straumur

Straumur.

Nú eru því nær öll hraunabýlin í eyði fallin. Að vísu hefur verið rekið svínabú í Straumi, en heyrt hef ég á orði haft, að þeim rekstri mundi senn lokið. Á Óttarsstöðum eru heimilisföst roskin hjón. Húsbóndinn stundar smíðar og auk þess hafa þau nokkur hænsni.
Öll þau ár, sem ég var heima í Stóra-Lambhaga, voru í Eyðikoti þrjú systkini – bræðurnir Sveinn og Guðmundur og systirin Steinunn Bergsteinsbörn. Sveinn var sjómaður en Guðmundur var sjálfmenntaður járnsmiður. Hann smíðaði mikið af skónálum og brennimörkum.

Lambhagi

Lambhagi.

Smiðjuhurðin bar glögg merki þeirrar iðju. Eins og ég drap á áðan, þá höfðu bændur hér í hverfinu talsverðan búpening. Enda þótt heyfengur væri venjulega rýr, þá kom þar f móti, að sauðfé var mjög létt á fóðrum. Marga vetur kom það aldrei í hús, nema lömbin fyrsta veturinn. Þegar verri voru veður lá féð í hellisskútum hér og þar í hrauninu. Ef tað safnaðist í þá voru þeir þrifnir og stungið út úr þeim, mátti segja að hér væri um að ræða nokkurs konar fjárhús. Þrátt fyrir það, að hraunið virðist gróðurvana yfir að sjá, þá þreifst féð vel bæði vetur og sumar, en hirðingin var erilsöm, sérstaklega á vorin, því víða eru jarðföll og holur, sem hættuleg eru nýfæddum lömbum og þungfærum ám. Yfir þessu þurfti að hafa vakandi auga.

Lambhagi

Lambhagi – stífla v/fiskeldis.

Það féll oft í minn hlut að sinna þessu starfi meðan ég var drengur heima í Lambhaga, þá kunni ég því vel. Þó hér sé ekki stórbrotið til lands að líta er víðáttan fögur og heillandi, sérstaklega á vorin, og hraunið býr yfir meiri og fjölbreyttari náttúruöflum en ætla mætti þegar menn líta yfir það sem hraðfara vegfarendur. Það er margur fagur reitur falinn í skjóli hraunborganna.

Þeir voru engir smákarlar sumir bændurnir hérna á ströndinni í gamla daga. Guðmundur á Auðnum, Guðmundur í Landakoti, Guðmundur i Flekkuvík og Sæmundur á Vatnsleysu. Þeim Guðmundi á Auðnum og Sæmundi þótti nú sopinn góður og komið gat fyrir að kaupstaðarferðin til Reykjavíkur tæki þá upp undir hálfan mánuð. Þá var komið við á bæjunum, þeginn og Veittur beini, sem orsakað gat næturdvöl. En þetta voru dugnaðarmenn, aflasælir og sjálfum sér nógir.

Stóri-Lambhagi

Tóftir Stóra-Lambahaga við Straumsvík.

Og hef svo sem fengist við ýmislegt fleira en aksturinn, enda þótt ég telji hann hafa verið mitt aðalstarf um ævina. Í tíu ár fékkst ég við útgerð og átti um sjö ára skeið elsta skipið í íslenska veiðiflotanum, m.b. Njál, 38 lestir að stærð. Nokkuð kom ég einnig við verslunarsöguna bæði sem sjálfstæður aðili og nú síðustu átta árin verið innheimtumaður hjá firmanu Nathan & Ólsen.
— Jú, ég kvæntist árið 1913. Konan mín hét Herdís Níelsdóttir, ættuð úr Hafnarfirði. Við bjuggum saman í 33 ár, þá lézt hún. Við vorum barnlaus og nú er ég einn míns liðs.
— Okkur liggur ekkert á, ég er minn eigin herra í dag.
— Aka, jú, ég sé vel til að aka þótt ég sé senn 79 ára gamall. Enn þá les ég gleraugnalaust.

Litli-Lambhagi

Litli-Lambhagi.

Ég hef aldrei ekið hratt, ó nei, og komist leiðar minnar þrátt fyrir það.
Sérðu hvernig þeir hafa brotið niður hraunið. Á gömlum fjárgötum fortíðarinnar, hrófum áraskipanna, harðbalatúnum og húsatóftum fornra mannabyggða hafa þeir reist þetta verksmiðjuhús.
— Hvort munu þeir, sem þar ráða ríkjum svara betur kalli sinnar samtíðar en hinir, sem áður lifðu þar lífi íslenskra útvegsbænda?“ – Þ.M.

Sjá meira HÉR.

Heimild:
-Vísir – Bóndinn í Straumsvík; Magnús Guðjónsson, fimmtudagur 19. júní 1969, bls. 9-10.

Stóri-Lambhagi

Tóftir Stóra-Lambahaga við Straumsvík.

Steðji

Ísaldarminjar eru ummerki um ýmiss konar jarðfræðileg fyrirbæri sem mynduðust fyrir meira en 10.000 árum þegar jöklar huldu landið að hluta eða öllu leyti. Hérlendis eru ísaldarminjar ýmiskonar jarðgrunnsmyndanir rofummerki á berggrunni og ummerki um eldvirkni undir jökli. Elstu ísaldarminjar hér á landi eru 4–5 milljóna ára gamlar og er þar um að ræða jökulbergslög sem finnast á milli hraunlaga í jarðlagasniðum.

Grettistak

Grettistak á Reykjanesskaga.

Síðasta ísöld hófst fyrir um 2,6 milljónum ára og henni lauk fyrir um 10.000 árum. Ekki var þó um einn fimbulvetur að ræða heldur skiptust á jökulskeið (kuldaskeið) og hlýskeið. Í setlögum og bergmyndunum í jarðlagastöflum, til dæmis austur í Jökuldal, Borgarfirði og Tjörneslögunum norðan Húsavíkur, eru varðveitt ummerki um 14–16 jökulskeið.

Jökulruðningur

Jökulruðningur og -rákir í Fossvogi.

Þær ísaldarminjar sem eru mest áberandi hérlendis eru frá síðasta jökulskeiði sem hófst fyrir um 100.000 árum og eru þær flestar og mestar frá ísaldarlokum, fyrir um 10.000–15.000 árum, þegar umhverfi og veðurfar færðist smám saman í það horf sem það er í dag.

Helstu ísaldarminjar landsins eru eftirfarandi:
• Jökulruðningur og landform sem jökullinn hefur myndað úr honum, til að mynda jökulgarðar og aflangar jökulöldur og jökulkembur sem vitna um tilvist, stefnu og meginþunga ísstrauma ísaldarjökulsins.

Móberg

Móbergsmyndanir.

• Grettistök eru sérstaklega áberandi á ákveðnum hálendissvæðum. Þau bera vott um lítið lausefni undir jöklinum á þessum svæðum en um leið mikilvirkt plokk jökulsins úr berggrunninum undir jökulhvelinu.

• Jökulrákir, hvalbök og grópir eru dæmi um rofform á berggrunni sem vitna einnig til um stefnu ísflæðis og rofmátt ísaldarjökulsins.
Á stöku stað, til dæmis á Melrakkasléttu, finnast jökulrákir með tveimur til þremur mismunandi stefnum.

Jökurispur

Jökulrispur í Heiðmörk.

Slíkt er talið merki þess að ísaskil hafi flust og skriðstefna jökuls þar með breyst vegna breytinga á stærð og útbreiðslu ísaldarjökulsins.
• Stærri form og landslagseinkenni í berggrunni landsins, eins og flestir dalir og firðir, eru grafnir og mótaðir af jöklum á mörgum jökulskeiðum, með aðstoð vatns, frostveðrunar og hrunvirkni.
• Móbergsmyndanir, til dæmis hryggir og stapar, myndast við gos undir jökli og eru áberandi við gosbelti landsins. Þær geta gefið upplýsingar um útbreiðslu og þykkt jökulsins við myndun þeirra.

Borgarholt

Borgarholt í Kópavogi.

Frostveðrun var mjög virk í fimbulkulda jökulskeiðanna en talið er að ákveðin svæði hafi verið íslaus í lengri tíma, til dæmis hærri fjöll og annes. Af þeim sökum er berggrunnurinn á slíkum svæðum oft mjög sprunginn og molinn, hriplekur og jafnvel óstöðugur í brattlendi.

Sveifluháls

Móbergsháls (Sveifluháls) á Reykjanesskaga – Kleifarvatn.

Vífilsstaðasel

Hér verður lýst fjórum leiðum í Gjáarrétt, sem er neðst í Búrfellsgjá. Leiðirnar eru: Selsleið, Hlíðarleið, Hjallaleið og Kolhólaleið. Upplýsingarnar eru úr bókinni Áfangar, ferðabók hestamannsins (1986).

Vífilsstaðir

Vífilsstaðir – Jónshellnastígur.

Hafa ber í huga að framangreindar götur hafa og verið nefndar öðrum nöfnum, bæði að hluta og í heild. Áður en farið er í tilvitnaða frásögn má hér sjá aðrar lýsingar, sem skýrast síðar.
„Austan [Reykjanes]brautarinnar var stígnum fylgt til suðurs upp með Svínahrauni, en síðan vikið af honum og Jónshellnastíg fylgt að Jónshellum. Gróið er yfir hann að mestu, en þó má á stöku stað sjá móta fyrir henni og fallegar hleðslur á köflum. Skammt ofan við hellana liggja Moldargötur. Haldið var upp með vestanverðum hraunkantinum að Urriðakotshrauni, framhjá Maríuhellum og Dyngjuhól (var svo nefndur af Urriðakotsbúum, en Hádegishóll af Vífilsstaðafólki – eyktamark þaðan) með Dyngjuhólsvörðum og götunni fylgt langleiðina upp að Stekkjartúnsrétt (efri), en áður en komið var alveg að henni beygir gatan inn í hraunið, við Hraunholtsflöt. Þar tekur Grásteinsstígur við og liggur síðan til austurs með norðanverðum hraunkantinum, framhjá heillega hlöðnu fjárhúsi (Gráhellufjárhúsi) við Gráhellu, áfram inn á Flatir.

Jónshellar

Jónshellar.

Úr þeim liggur gatan upp á hraunhrygg, framhjá fjárskjóli utan í hraunklettum og áfram framhjá Sauðahellunum nyrðri undir Kolanefi. Þaðan liggur gata upp (suður) með Vífilsstaðahlíðinni og niður í Selgjá að norðanverðu. Grásteinsstígur nær að Kolanefninu. Ekki vannst að þessu sinni tími til að skoða fjárborgina norðan götunnar sem og fjárhústóftirnar við hana. Selgjá og minjarnar í henni eru hins vegar sérstakur kapítuli og verður hvorutveggja lýst í annarri FERLIRslýsingu.“
Í enn annarri lýsingu segir um þessar götur við Gjáarrétt: „Í Búrfellsgjá, við mannvirkin, má sjá a.m.k. þrjár fornar götur. Ein liggur upp úr gjánni að norðanverðu gegnt réttinni, önnur upp úr gjánni sunnanverðri skammt austan við Gerðið og sú þriðja til vesturs við mörk Selgjár. Sú síðastnefnda mun hafa heitið Gjáarréttargata (Gjáarrréttarstígur) og lá áleiðis niður að Urriðakoti annars vegar og Vífilsstöðum hins vegar. Hinar göturnar hafa verið leiðir annars vegar heim að Vatnsenda og Elliðavatni og hins vegar niður að Setbergi og í Hafnarfjörð. Fjórða gatan hefur legið upp Búrfellsgjá og síðan upp úr henni yfir á Selvogsgötu ofan Helgadalsmisgengisins því þær útréttir, sem Selvogsbændur urðu að fara í voru, auk Eldborgarréttar Grindvíkinga, Lögbergsréttar við Reykjavík og Ölfusréttar, Gjáarréttin í Búrfellsgjá…“

Vífilsstaðasel

Vífilsstaðasel.

Selsleiðinni er lýst á eftirfarandi hátt (úrdráttur): „Við hefjum ferð okkar í hesthúsahverfi Gusts í landi Smárahvamms í Kópavogi. Leið okkar liggur um Hnoðraholt. Holtið dregur nafn af Hnoðranum, en það er talsvert áberandi fuglaþúfa á holtinu norðvestanverðu þar sem það er einna hæst. Hnoðrann ber við loft og sést vel, þegar horft er til austurs úr hesthúsahverfinu sunnanverðu. Alveg við Hnoðrann eru fallegar, jökulnúnar grágrýtisklappir.

Hnoðraholt

Hnoðri á Hnoðraholti.

Þegar gatan er riðin upp úr hverfinu, verður fyrst fyrir á hægri hönd landspilda í brekku. Þar fyrir sunnan er Vífilsstaðaland. Landamerkjalínan milli Fífuhvamms (Smárahvamms) og Vífilsstaða var dregin frá Hnoðranum í svonefnt Norðlingavað í Arnarneslæk. Ofan við húsaþyrpinguna og sunnanvert í holtinu er steinsteypt vélbyssuvígi frá árum síðari heimstyrjaldar.

Finnsstaðir

Finnsstaðir /Finnsstekkur.

Reiðgatan (Selsleið) sveigir nú til austurs eftir holtinu. Á hægri hönd fyrir neðan okkur eru mikil tún frá Vífilsstöðum. Þetta er svokölluð Vetrarmýri. Áður en berklahælið (hvítmálaður spítalinn blasir við augum) var reist á Vífilsstöðum var þar í raun og veru aðeins kotbýli. Hornsteinninn að Vífilsstaðahæli var lagður 31. maí 1909 og fyrsti sjúklingurinn flutti þangað inn 5. september 1910. Bygging hælisins gekk með ólíkindum vel, þótt unnið væri að þeirrar tíðar hætti. Möl og annað byggingarefni var til dæmis flutt á hestvögnum.

Vífilsstaðir

Vífilsstaðir – loftmynd 1954.

Vetrarmýri var ótrúlega blaut. Þar var ekki fært með hesta og illa fært gangandi manni. Ef til vill tekur mýrin nafn sitt af því að hún nýttist skepnum fyrst þegar fraus á vetrum. Arnarneslækur á upptök sín í mýrinni vestast.  Upp úr 1920 var byrjað að handgrafa skurði í mýrinni og þurrka hana. Árið 1922 var landið svo tætt og sléttað með svokölluðum þúfnabana. Voru Vífilsstaðir einn af fyrstu stöðunum þar sem þessi forveri nútíma dráttarvéla var notaður. 

 

Ræktunarframkvæmdir heima við Vífilsstaðahælið hófust fyrr, strax árið 1916 þegar ríkissjóður tók við rekstri hælisins úr höndum áhugamannafélags þess, er hælið reisti.

Þorsteinshellir

Þorsteinshellir.

Þegar mest var voru um eitt hundrað gripir í fjósi á Vífilsstöðum og heyfengur mikið á fjórða þúsund hestburði.
Þar sem reiðgatan milli Vetrarmýrar og Leirdals er lægst heitir Leirdalsop. Framundan er Smalaholt og Vífilsstaðavatn. Þar rétt við bílveginn, neðan undir Smalaholtinu, eru rústir af gömlu býli eða peningshúsum, nema hvort tveggja sé. Á korti heita þetta Finnsstaðir, en engar heimildir þekkjum við um að hér hafi byggð verið. Í Jarðabókinni frá 1703 er Finnsstaða ekki getið. Hugsanlega er að þarna hafi verið stekkur frá Vífilsstöðum.
Þá er komið upp á Vífilsstaðaháls. Þaðan er fagurt að horfa yfir Vífilsstaðavatn. Við það fá Garðbæingar neysluvatn sitt úr borholu. Nefna sumir það Vatnsbotna, en aðrir Dýjakróka.

Selgjá

Selgjá – stekkur.

Við ríðum með Kjóavöllum vestanverðum og stefnum þaðan til suðausturs. Þarna í brekkunni, utan í Sandahlíð og suðvestan Kjóavalla,  verður fyrir okkur steinsteypt mannvirki, greinilega nokkuð gamalt. Þótt mannvirki þetta sé ekki ýkja stórt sjáum við strax að ekki hefur verið spöruð í það steypan. Þegar betur er að gáð má sjá innan við þykka veggim sem skýla innganginum, ofn úr járni, rammbyggilegan eins og aðra hluta þessa mannvirkis. Raunar er þetta mannvirki leifar frá stríðsárunum síðari. Var þetta „prengjuofn“ þar sem var eytt gömlum skotfærum og sprengjum, sem Bandaríkjamenn þurftu að losa sig við.
Þá er haldið upp Básaskarð. Innar er hæðardrag. Á því eru fjárhúsarústir og eru þær frá Vatnsenda. Rústirnar vera þess merki að húsin hafi verið

Vatnsendi

Vatnsendi – fjárhús.

nokkuð stór og myndarleg. Húsunum hefur verið valinn staður nærri mörkum Vífilsstaðalands, en þó tæplega svo að bryti í bága við ákvæði Jónsbókar og yrði fellt undir ágang.
Framundan er allhá hæð með vörðu efst. Hún heitir Arnarbæli. Um hana liggur landamerkjalína Vatnsenda og Vífilsstaða. Grunnavans syðra er neðar. Á Hjallabrún stendur Vatnsendaborg. Sést hún vel af Vatnsásnum, listilega hlaðin. Mjög stórt grjót er í hleðslunni neðst, en borgin er nú því miður að hluta fallin. Dyrnar á borginni vita í norðvestur. Borgin er hringlaga og sem næst sex metrar í þvermál að innan. Meira verður rætt um fjárborg þess í lýsingunni um Hjallaleið.

Vífilsstaðasel

Vífilsstaðasel – uppdráttur ÓSÁ.

Línuvegur liggur þarna skammt frá. Austan við háspennumastur nr. 29 er grösugur hvammur. Suðaustanhallt í hvamminum og undir ás, sem nefnist Selás, eru rústir af seli frá Vífilsstöðum, sem að öllum líkindum hefur verið meiri háttar og sennilega lengi notað. Þetta virðist hafa verið venjulegt sel með þremur vistarverum, líklega svefnhúsi, eldhúsi og mjólkurhúsi. Sunnanvert við aðalrústina eru tvær aðrar rústir, ef til vill kvíar og stöðull. Selið hefur verið tiltölulega stórt. Aðalrústin er einir fimmtíu fermetrar að utanmáli. Víðistaðasels er ekki getið í Jarðabók 1703, þótt undarlegt megi virðast.

Vatnsendaborg

Vatnsendaborg.

Að þessu seli eins og öðrum hefur legið gata, selgata. Okkur sýnist að með góðum vilja megi fylgja selgötunni í austanverðri Vífilsstaðahlíð, ofan Grunnavatns nyrðra og niður Grunnavatnsskarð vestanvert.
Til suðurs sést grunn  en breið gjá í hrauninu fyrir neðan. Þetta er Selgjá (Norðurhellragjá). Í Selgjá eru margar vallgrónar seljarústir, sem flestar eru fremur smáar í sniðum og minni en Vífilsstaðasel. Rústirnar standa flestar þétt við barna gjárinnar beggja vegna, en aðrar eru dálítið fjær. Selstaða þessi er nefnd í Jarðabók 1703 og virðast samkvæmt henni átta kóngsjarðir á Álftanesi hafa haft þar í seli.

Selgjá

Selgjá.

Athyglisvert er að ávallt er rætt um selstöðu þarna í þátíð og jafnvel þannig að hún virðist að því komin að falla í gleymsku.

Við norðurenda Selgjár er reisuleg varða. Við skulum leggja hana á minnið, því að þar hjá eru gömul og að okkar mati mjög merkileg fjárbyrgi, sem við eigum eftir að huga að síðar, sjá lýsingu á Hlíðarleið.
Framundan er Búrfellsgjá og Gjáarrétt. Við höldum í gerðið og hvílum þar, sjá Kolhólsleið.“

Heimild:
-Áfangar – ferðahandbók hestamannsins, 1986 – Þorkell Jóhannesson og Óttar Kjartansson.

Búrfellsrétt

Búrfellsrétt. Gerðið fjær.