Í Árbók Hins íslenska fornleifafélags árið 1943 lýsir Ólafur Þorvalddson „Fornum slóðum milli Krýsuvíkur og Hafnarfjarðar„.
„Gömlum vinum og gömlum götum á enginn að gleyma“.
Þetta segja frændur okkar Færeyingar, og væri gott, að fleiri minntust.
Með þennan málshátt í huga rifja ég hér upp minningar um nokkrar gamlar götur hér í nágrenni, sem voru fram á síðustu áratugi nokkuð fjölfarnar, en eru nú að mestu og flestar að öllu lagðar af, — hætt að fara þær. Ýmist hafa þessar götur lagzt af vegna þess, að girðingar hafa verið settar um þær þverar eða sökum þess, að nýir vegir hafa verið lagðir og þeir að sjálfsögðu farnir nú, þar sem flest farartæki, sem nú eru mest notuð, eru þannig, að krókóttir götuslóðar, sem aðeins voru ætlaðir manna- og hestafótum, koma þeim ekki að notum.
Þessar gömlu götur og vegir, því að nokkuð af þeim kallaðist vegir, annað götur eða stígar, búa í þögn sinni og yfirgróningu yfir margra alda óskráðum minningum um alla þá menn, sem þar hafa um ferðazt; um alla þá erfiðleika, sem þeir áttu við að etja, á jafntorfærum leiðum og margar þeirra voru, — en voru þrátt fyrir allt leið manna um landið frá landnámstíð fram á vora daga.
Þær búa líka yfir mörgum ánægjustundum vegfarenda, sem svo oft síðar var vitnað til, að þetta eða hitt hefði borið við á þessum leiðum. Efast ég um, að fólk, sem ferðast nú um landið eftir dýrum vegum, á dýrum farartækjum nútímans, eigi ánægjulegri og bjartari minningar að ferðalokum en þessar fornu og nú yfirgefnu slóðir veittu oft og einatt þeim, sem um þær fóru á sínum tíma.
Flestar hafa þessar götur orðið til smám saman af umferð manna og hesta, og hafa margar þeirra verið mjög fjölfarnar, t. d. sést víða, þar sem leiðir liggja yfir hraunhellur, að hesthófurinn með sínum pottuðu skeifum og oft líka pottuðu hestskónöglum, hefur sorfið götur oft 10—20 sm djúpar. Til þess að djúpar götur myndist í hart hraunið eða grágrýtisklappir, hefur umferðin hlotið að vera bæði mikil og það um langan tíma.
Ég ætla nú að lýsa að nokkru vegum, götum og stígum, sem liggja milli Hafnarfjarðar og Krýsuvíkur og oftast voru farnir. Að sjálfsögðu sleppi ég hér þeim nýja Krísuvíkurvegi, sem nú er að mestu fullger. Þó á hann þegar nokkra sögu, en hún er annars eðlis og skal ekki rakin hér.
Fyrst skal hér lýst þeim vegi, sem mest var farinn og aðallega, þegar farið var með hesta. Vegur sá var tekinn úr Hafnarfirði öðru hvoru megin Hamarskotshamars, upp yfir Öldur, þar sem nú er kirkjugarður Hafnfirðinga, upp í Lækjarbotna, með Gráhelluhrauni sunnanverðu, upp að Gjám, sem er hraunbelti frá því móts við Fremstahöfða, upp í Kaldársel. Þar var venjulega aðeins staldrað við, hestar látnir drekka, þegar farið var yfir ána, því að oftast var ekki um annað vatn að ræða, fyrr en til Krýsuvíkur var komið.
Frá Kaldárseli lá leiðin yfir smáhraunbelti, unz komið var að Undirhlíðum. Lá vegurinn suður með þeim, víða allsæmilegur, moldar- og melgötur. Vegurinn liggur yfir eitt hraunhaft, norðarlega með Undirhlíðum, kringum eldvörp þau, sem Ker heita, og hefur hraun streymt þar upp undan hlíðinni á vinstri hönd, þegar suður er farið.
Syðst með Undirhlíðum, eða nokkru sunnar en Stórihríshvammur, er farið yfir mel úr rauðu gjalli, og heitir sá melur Vatnsskarðsháls, þaðan er stutt í Vatnsskarð, þar sem hinn nýi vegur liggur nú úr hrauninu upp á hálsinn. Í Vatnsskarði var talin hálfnuð leiðin milli Hafnarfjarðar og Krýsuvíkur. Venjulega var áð þar snöggvast, lagað á hestunum, gert að, sem kallað var, stundum kippt ofan, einkum ef lest var ekki þung. Þegar lagt er upp úr Vatnsskarði, taka við hinir svonefndu Hálsar, réttu nafni Sveifluháls, og má segja, að suður með hálsinum sé góður vegur. Sem næst þriggja stundarfjórðunga lestagang frá Vatnsskarði skerst dálítil melalda fram úr hálsinum, og heitir þar Norðlingaháls.
Nokkru þar sunnar sjást í hálsinum leifar af brennisteinshverum, og heitir það svæði Köldunámur. Þar litlu sunnar tekur við stór grasflöt, sem Hofmannaflöt heitir. Við suðurenda hennar rís upp úr hálsinum hæsti tindur Sveifluháls, sem Miðdagshnjúkur heitir. Veit ég ekki, hvernig það nafn er til orðið, — en gamalt er það. Ef um dagsmörk er að ræða í því sambandi, getur það ekki komið frá Krýsuvík. Fremur gæti það átt við frá Hvaleyri eða Ási eða annars staðar í grennd Hafnarfjarðar. Þegar Hofmannaflöt sleppir, er skammt ófarið að Ketilsstíg, þar sem vegurinn liggur upp yfir hálsinn. Stór steinn er á hægri hönd og á honum dálítil varða, og er það leiðarmerki um það, að þeir, sem til Krýsuvíkur ætluðu, tækju stíginn upp í hálsinn, en héldu ekki lengra suður með, því að sá vegur lá til Vigdísarvalla og enda alla leið suður fyrir háls, og er syðsti útvörður þessa langa og tindótta háls, fagurt, keilulagað fell, — Mælifell. Þegar Ketilsstígur er tekinn, liggur vegurinn fyrst upp allbratt klettahögg, en þegar upp á það er komið, liggur Ketillinn svo að segja fyrir fótum manns. Ketillinn er kringlóttur, djúpur dalur eða skál inn og ofan í hálsinn. Grasflöt er í botni Ketilsins, sem er svo djúpur, að botn hans mun vera jafn undirlendinu fyrir neðan Hálsinn.
Vestur- og norðvesturbrún Ketilsins er þunnur móbergshringur, en norður-, austur- og suðurhliðar eru hálsinn sjálfur upp á brún, og er hæð hans þar um 350 m. Ketilsstígur liggur því í fullan hálfhring um Ketilinn, hærra og hærra, þar til á brún kemur. Láta mun nærri, að verið sé 30—4 5 mín. upp stíginn með lest, enda sama þótt lausir hestar væru, því að flestir teymdu hesta sína upp stíginn. Ketilsstígur er tvímælalaust erfiðasti kaflinn á þessari hér um ræddu leið. Slæmt þótti, ef laga þurfti á hestum í stígnum, og búast mátti við, ef baggi hrökk af klakk, hvort heldur var á uppleið eða ofan, að hann þá, ef svo var lagaður, ylti langt niður, því að utan stígsins, sem heita má snarbrattur, eru mest sléttar skriður ofan í Ketilbotn.
Ketilsstígur er mjög erfiður klyfjahestum og sízt betri niður að fara en upp. Þegar upp á brún kemur, sést, að hálsinn er klofinn nokkuð langt norður, allt norður að Miðdagshnjúk, og eru í þeirri klauf sanddalir, sem Folaldadalir heita. Af vestari brún hálsins liggur vegurinn spölkorn eftir sléttum mel til suðausturs, og blasir þar við hæsta nípa á austurbrún hálsins og heitir Arnarnípa.
Litlu sunnar er komið að dálitlu stöðuvatni, sem Arnarvatn heitir. Eftir það fer að halla niður af hálsinum að sunnan, og er nú ekki eins bratt og að vestan, þar til komið er fram á síðari brekkuna, sem er brött, en stutt. Þegar brekkunni sleppir, er komið í grashvamm, sem Seltún heitir. Allur er hálsinn uppi, norðan vegar, gróðurlaus, en sunnan vegar er sæmilegur gróður. Allhár og umfangsmikill hnjúkur er sunnan vegarins, þegar austur af er farið, og heitir sá Hattur. Víðsýnt er af vesturbrún Sveifluháls, þaðan sér yfir allan Faxaflóa, allt til Snæfellsness, en af austurbrún blasir Atlantshafið við, sunnan Reykjaness. Þegar í Seltún kemur, er talið, að komið sé til Krýsuvíkur, þó er um einnar stundar lestagangur heim að Krýsuvík. Í Seltúni eru nokkrir leirhverir, og kraumar í sumum græn leðja, aðrir eru dauðir. Ur Seltúnshvamminum er farið yfir alldjúpt gil, Selgil. Á sumrum seytlar þar vatn í botni, en á vetrum getur það orðið ófært með hesta sökum fannar, sem í það skeflir, þar eð gilið er djúpt og krappt.
Sunnan gilsins er Seltúnsbarð, og stóðu þar fram yfir aldamót síðustu tvö allstór timburhús, sem enskt félag, er rak brennisteinsnám þar og í Brennisteinsfjöllum á síðari hluta nítjándu aldar, reisti þar. Nú eru þessi hús löngu horfin. Af Seltúnsbarði er haldið yfir svonefnda Vaðla.
Eftir það taka við melar, og liggur vegurinn þar á vesturbakka Grænavatns. Nokkru norðvestar er Gestsstaðavatn, umlukt háum melum, og sést ekki af veginum. Þegar Grænavatni sleppir, er örstuttur spölur suður á móts við Nýjabæina, Stóri-Nýibær til vinstri, Litli-Nýibær til hægri, og þar með komið í Krýsuvíkurhverfi. Milli Nýjabæjanna og heimajarðarinnar Krýsuvíkur er um 12 mín. gangur. Tún heimajarðarinnar liggur sunnan undir og uppi í Bæjarfelli, en bæjarhús, kirkjan og kirkjugarðurinn standa á hól eða hrygg sunnarlega á túninu.
Hér hefur verið lýst að nokkru aðalveginum milli Krýsuvíkur og Hafnarfjarðar, sem, eins og fyrr segir, var oftast farinn og aðalleið á sumrin, þegar farið var lausríðandi eða með lest, og var þessi leið talin um 8 klst. lestagangur.
Þá mun ég hér að nokkru lýsa tveimur stígum, sem vestar liggja og aðallega voru farnir af gangandi mönnum, svo og ef farið var með fáa hesta að vetrarlagi, bæði af því að þessar leiðir lágu mun beinna við til Hafnarfjarðar eða frá, svo líka eftir því, hvernig snjór lá, ef mikill var.
Ef snjó setti niður af austri eða norðaustri, t. d. meðan menn höfðu viðdvöl í kaupstaðnum, var venjulega snjóléttara á þessum leiðum en með Undirhlíðum og Hálsum. Hins vegar gat síðartalda leiðin verið snjóminni, ef mikið snjóaði af suðvestri. Þetta þekktu rnenn af langri reynslu. Annars voru vetrarferðir fátíðar með hesta milli Krýsuvíkur og Hafnarfjarðar. Þó kom fyrir, að farið var fyrir jólin, aðallega þá með rjúpur til að selja, svo og stöku sinnum á útmánuðum. Venjulega fóru menn vetrarferðir, ef farnar voru, gangandi, og ýmist báru menn þá eða drógu á sleða það, sem með var verið. Stillt var svo til, að tungl væri í vexti og færi og veðurútlit sem ákjósanlegast. Margir voru þá mjög veðurglöggir, og var þar eftir ýmsu að fara, sem löng reynsla, ásamt skarpri eftirtekt kenndi mönnum.
Stórhöfðastígur
Þegar ferðamenn fetuðu Stórhöfðastíg, var farið frá Hafnarfirði upp hjá Jófríðarstöðum, um hlaðið í Ási, oft gist þar, ef menn t. d. komu frá Reykjavík. Frá Ási var farið suður úr Skarði, yfir Bleiksteinsháls, suður yfir Selhraun, vestan undir Stórhöfða, nokkurn spöl suðaustur með honum, lagt á hraunið frá suðurhorni hans, fyrst um gamalt klappahraun, þar til komið var á nýrra brunabelti, sem á sínum tíma hefur runnið ofan á gamla hraunið. Gegnum nýja brunann liggur stígur eða gata, sem enginn veit, hvenær ruddur hefur verið, annars með öllu ófær hestum.
Í nýja brunanum, spölkorn austur af stígnum, eru tveir dálitlir blettir eða hólmar, sem bruninn hefur ekki náð að renna yfir. Hólmar þessir heita Snókalönd. Ekki ber þau hærra en umhverfið og sjást því ekki lengra til, og helzt ekki fyrr en að er komið. Hestfær götuslóð liggur norður í Snókalönd, nokkru austar en þar, sem Stórhöfðastígurinn kemur suður úr brunanum. Ekki eru Snókalöndin jafnstór, það vestra nokkru stærra, og slóð á milli. Hvað liggur til grundvallar þessu nafni, veit víst enginn lengur, en á tvennt mætti benda. Í fyrra lagi, að þarna hafi vaxið villihvönn, snókahvönn — geitla. Í öðru lagi, að blettir þessir, sem hafa verið miklu gróðurríkari en umhverfið, hafi fengið nafn sem land af töngum þeim og hornum, sem hinn ójafni brunakantur myndar þarna í grennd, og gæti því þýtt „Krókalönd“.
Í orðabók Blöndals segir, að snókur sé angi eða útskiki út frá öðru stærra. Gætu því tangar þeir, sem út úr brunanum ganga, verið stofn að þessu nafni. Þó finnst mér fyrri tilgátan sennilegri. Líkur benda til, að þarna hafi verið nokkur skógur og máske verið gert þar til kola fyrrum.
Gatan út í Snókalöndin bendir á nokkra umferð þangað. Sökum fjarlægðar þessa staðar frá alfaraleið óttast ég, að svo geti farið, að hann gleymist og nafnið týnist, þar sem þeir, er mest fóru þar um og héldu með því við mörgum örnefnum, voru fjármenn og smalar, en þeim fækkar óðum um þessar slóðir sem víðar.
Af þessum orsökum get ég hér þessara litlu hólma með hinu fágæta og fallega nafni. Þess má geta, að gren er í vestara Snókalandinu — Snókalandagren. Þegar suður úr brunanum kemur, liggur stígurinn upp með suðvesturbrún hans, og fylgir maður brunanum, þar til komið er móts við Vatnsskarð í Undirhlíðum, sem farið er þá að nálgast. Úr því liggur stígurinn meira til suðurs, þar til komið er að Fjallinu eina. Er það fremur lágt, hrygglaga fjall með klettaborg á suðurenda. Austan undir því liggur stígurinn, og er þá Sandfell á vinstri hönd allnærri. Er nú stutt þar til komið er á Undirhlíðaveginn, skammt suður af Sandfellsklofa.
Stórhöfðastíg fóru stundum lausríðandi menn frá Krýsuvík til Hafnarfjarðar. Fóru þá sem leið lá inn með hálsum, þar sem sú leið er allgóður reiðvegur, þar til kom á móts við, þar sem Stórhöfðastígurinn lá vestur á milli Fjallsins eina og Sandfells. Sá stígur var stundum tekinn, því að við það féll úr mikill krókur, inn með Undirhlíðum um Kaldársel, en hitt bein lína til Hafnarfjarðar. Þó að Stórhöfðastígurinn sé frekar slitróttur, var gott að láta hestinn njóta hægu ferðarinnar, en jafnsnemma komið til Hafnarfjarðar eða fyrr, þrátt fyrir stirðari veg.
Hrauntungustígur
Þeir, sem ætluðu sér Hrauntungustíg frá Hafnarfirði til Krýsuvíkur, fóru um Jófríðarstaði að Ási, þaðan um skarð vestan Ásfjallsaxlar, yfir hraunhaft milli Grísaness og Hamraness, undir vesturenda þess, austur að stórum steini flötum ofan, sem er þar stakur á jafnsléttu.
Frá Hrauntungustíg er farið suður á gamalt helluhraun um 10 mínútur, þá tekur við Nýibruni eða Háibruni, sem runnið hefur ofan á eldra hraunið. Gegnum brunann er, eins og á Stórhöfðastíg, rudd allgreiðfær gata, sennilega gerð á svipuðum tíma og Stórhöfðastígur, en hver það hefur látið gera, veit víst enginn, en mjög gamlar eru þessar vegabætur, og eru þær sennilega fyrstu vegabætur, sem gerðar hafa verið til Krýsuvíkur.
Gegnum Háabrunann er sem næst 20 mín. gangur með lest, og þegar á suðurbrún hans kemur, ganga til beggja handa suður úr brunanum tvær brunatungur, sem stígurinn liggur suður á milli, og ná þessar tungur spölkorn suður á svokallaðan Almenning, sem er nú búfjárhagar Hraunajarðanna, en hefur fyrr á öldum, eins og nafnið bendir til, verið frjáls til afnota fleiri en Hraunabændum, t. d. til kolagerðar, og sjást þar enn allvíða leifar gamalla kolagrafa. Af brunatungum þessum tel ég víst, að stígurinn hafi nafn fengið, Hrauntungustígur.
Eftir að suður úr Hrauntungum kemur, er óglögg, sums staðar jafnvel engin gata, og verður því sjónhending að ráða, enda torfærulaust yfir kjarri vaxið lágahraun, en allt á fótinn. Þegar kemur dálítið upp í Almenninginn, fer maður nálægt gömlu selstæði, sem Gjásel heitir, og er þar venjulega vatn.
Sennilega hefur þar verið haft í seli frá Þorbjarnarstöðum eða Stóra-Lambhaga í Hraunum. Nokkru austar er annað selstæði, sem Fornasel heitir. Þegar suður á há-Almenning kemur og útsýnið víkkar til suðurs, sést hár klettahryggur í suðvestur, og eru það Sauðabrekkur. Norður af þeim er farið yfir víða og djúpa gjá, á jarðbrú, Sauðabrekkugjá, eftir það er komið á svonefnda Mosa, sem er flatt grámosahraun, og er gata þar allglögg. Þá er hár brunahryggur, sem liggur frá norðri til suðurs á vinstri hönd og heitir Hrútagjá, Hrútadalir þar suður af. Þegar Mosum sleppir, hefur maður Mávahlíðarhnjúk og Mávahlíðar skammt sunnar á hægri hönd. Móti Mávahlíðum syðst er komið í Hrúthólma; er það langur, en fremur þunnur melhryggur, nokkuð gróinn neðan, öllum megin, smávin í þessari brunaeyðimörk.
Þegar úr Hrúthólma er farið, taka við sléttar hraunhellur, ágætar yfirferðar. Sunnarlega á þessum hellum er stakt móbergsfell, Hrútafell. Þegar á móts við það kemur, en það er nokkuð til hægri við stíginn, er stutt þar til komið er á sumarveg Krýsuvíkur, skammt norðan Ketilsstígs. Þessi leið, sem hér hefur lýst verið að nokkru, var að heita má eingöngu farin af gangandi mönnum, og stundum ráku Krýsvíkingar fé til förgunar þessa leið. Sömuleiðis kom fyrir, að hún var farin af Herdísarvíkurmönnum, svo og Selvogsbúum, þegar þeir ráku fé í kaupstað, ef snjór var fallinn á fjallið og Kerlingarskarð, sem annars var þeirra aðalleið til Hafnarfjarðar og Reykjavíkur.
Hér hefur þá nokkuð ýtarlega verið gerð tilraun til að lýsa þeim þremur höfuðleiðum, sem lágu milli Hafnarfjarðar og Krýsuvíkur, frá því þar varð fyrst byggð, fram á síðustu ár.
Að lokum vil ég svo geta að nokkru fjórðu leiðarinnar, sem kom fyrir, að Krýsvíkingar fóru, ef með hesta voru fyrir neðan, þ . e. í Hafnarfirði, og dreif niður svo miklum snjó, að hinum leiðunum var engri treyst. Þá gat þessi leið verið fær. Leið þessi lá frá byggð í Hraunum sunnan Hafnarfjarðar.
Þegar menn fóru þessa leið, var venjulega farið út af Suðurnesjaveginum, norðan Rauðamels, skammt sunnan Óttarsstaða, um Óttarsstaðasel, vestan undir Skógarnefjum, sunnan Einihlíða, en norðan Lambafells, fram hjá afar stórum klettum, sem eru einstæðir á sléttum mosaflákum og Bögguklettar heita, þaðan yfir brunatagl, sem liggur upp að norðurhálsi Trölladyngju, upp slóða yfir hálsinn, síðan yfir helluhraun slétt norðan Hörðuvalla, sem er nokkurt undirlendi mót norðri, milli Trölladyngju og Grænudyngju. Þá er komið að fjalli, sem Fíflavallafjall heitir, og farið nokkuð suður með því að austan, þar til komið er undir Stórusteinabrekku, þaðan liggur stígurinn yfir slétt helluhraun norðan Hrútafells, unz komið er á stíginn upp úr Hrúthólma, sem er á Hrauntungustígsleið, sem áður getur.
Önnur leið upp úr Hraunum lá nokkru norðar, — eða upp frá Þorbjarnarstöðum, venjulega norðan Draughólshrauns, um Straumsel, norðan Gömluþúfu, sem er hár og umfangsmikill klettur upp úr hæstu hæð Hraunaskógar (Almennings). Þegar upp fyrir Gömluþúfu kom, mátti fara hvort menn vildu heldur, austan eða vestan Sauðabrekkna, og var komið á Hrauntungustíg norðan Mávahlíða.
Þessi leið var helzt farin af Hraunamönnum, er svo voru almennt kallaðir, sem fóru aðallega til fjárleita haust og vor til Krýsuvíkur, svo og af Krýsvíkingum, þegar fyrir kom, að þeir sóttu sjóföng til Hraunabænda, því að meðan Hraunajarðir voru almennt í byggð sem bændabýli, sem var fram yfir síðustu aldamót, — enda tvær jarðir enn —, var þaðan mikil sjósókn.
Áður en við yfirgefum þessar slóðir að fullu, skulum við nú, þegar við hverfum frá Krýsuvík að þessu sinni, fara leið, sem við höfum ekki áður farið. Þessi leið er hin svonefnda Vatns- eða Dalaleið. Nú vill svo til, að nokkur kafli hins nýja vegar frá Hafnarfirði til Krýsuvíkur liggur með Kleifarvatni að vestan, svo að nú gefst fleiri mönnum kostur á að fara þessa leið en áður var.
Þessi leið mun ekki hafa talizt til höfuðleiða milli Krýsuvíkur og Hafnarfjarðar, enda sjaldan farin, og þá helzt á vetrum. Þó tel ég hana ekki með öllu ómerkilega, og ber fleira til en eitt. Það er þá fyrst, að þessi leið er stytzta og beinasta lestaleiðin milli Krýsuvíkur og Hafnarfjarðar. Hún er greiðasta og hægasta leiðin. Hún liggur í sérkennilegu og fögru umhverfi. Hún var nokkrum annmörkum háð, — og hún gat verið hættuleg.
Þessa leið var ekki hægt að fara, jafnvel svo árum skipti, nema ísar væru tryggir, og lágu til þess tvær meginástæður. Annars vegar réðu hér um vetrarhörkur, hins vegar náttúrufyrirbæri, sem enn eru óskýrð, svo að fullsannað sé. Hér kom fram sem oftar, að ekki fóru ávallt saman óskir ferðamannsins og lögmál náttúrunnar. Til þess að hægt væri að fara þessa leið með hesía að vetri til, varð Kleifarvatn að vera á hestís. Reynslu voru menn búnir að fá fyrir því, að Kleifarvatni var ekki að treysta á ís með hesta fyrr en eftir vetrarsólhvörf.
Meginorsök þess, hve vatnið leggur seint, er vafalaust sú, að allmikill hiti er í botni þess, sér í lagi að sunnanverðu, og hafa, þegar vatnið er lítið, verið talin þar milli 10 og 20 hveraaugu, sem spýta sjóðheitri gufu upp í vatnið og í loft upp, þegar út af þeim fjarar. Hvað sem um skoðanir manna og reynslu í þessu efni er að segja, er hitt víst, að frosthörkur voru venjulega meiri og stóðu oft lengur, eftir að kom fram yfir miðjan vetur. Hins vegar var vorís ekki treyst, þótt þykkur væri.
Á þessari leið gátu ísar verið ótryggir víðar en á Kleifarvatni, sem síðar mun að vikið. Á öðrum árstíðum, þegar menn hefðu gjarnan viljað fara þessa leið með hesta, gat það dottið í Kleifarvatn að banna ferðir manna, svo að árum skipti. Þar kemur leyndardómur Kleifarvatns til sögunnar. Kleifarvatn hefur frá ómunatíð verið mjög breytilegt að vatnsmagni. Það er háð eins konar flóði og fjöru, útfalli og aðfalli, — en þetta gerðist ekki allt á einum sólarhring. Annað fallið tekur, eftir reynslu margra kynslóða, hvorki meira né minna en 12 — 20 ár, getur verið nokkuð breytilegt til eða frá. Hvað veldur þessari hreyfingu á vatninu, er, að því er ég bezt veit, ósannað enn, þrátt fyrir ýmsar minni háttar rannsóknir, sem venjulega hafa endað á getgátum sitt á hvað.
Landi því, sem að Kleifarvatni liggur, er þannig háttað í höfuðdráttum: Fyrir suðausturenda vatnsins er móbergshöfði, sem gengur í vatn fram og heitir Geithöfði. Þá nokkru lengra til suðausturs er hæðabunga, sem Gullbringa heitir. Þá tekur við grámosahraun, sem steypzt hefur fram af fjallinu norðan Vörðufells og runnið í mjóu belti í vatn fram og heitir Hvannahraun. Eftir það tekur Vatnshlíðin við, brött og nokkuð grafin af giljum, sem ófær eru hestum, og þar með lokast leiðin austan Kleifarvatns, því að vatnið liggur upp að hlíðinni, en stórgrýtt er í botni við landið.
Innst í Vatnshlíðinni eru Hrossabrekkur, brattar og giljóttar. Þegar yfir þær er komið, telst, að komið sé inn fyrir Kleifarvatn að austan. Vestan Kleifarvatns liggur Sveifluháls, brattur, tindóttur og svipmikill. Tveir stapar skaga austur úr hálsinum út í vatnið og heita Syðri- og Innri-Stapi. Vegurinn liggur uppi á stöpunum, en milli þeirra gengur klettarani fram að vatninu, en til þess að menn kæmust leiðar sinnar með vatninu, varð að komast framan undir þessum klettarana, en til þess að hægt væri að komast þar með klyfjahesta, varð vatnið að vera allmikið fjarað, — eða lítið vaxið, ef í vexti var.
Nokkru innar en Innri-Stapi gengur hálsinn eða hamar úr honum þverhnípt í vatn á litlum spöl. Þarna er hin svonefnda Hella. Þegar hátt var í vatninu, náði það upp í Helluna, en stórgrýtt er í botni undir hamrinum. Einstigi, aðeins fyrir gangandi menn, lá eftir Hellunni um 10—20 m ofar vatni, en svo var stígur þessi tæpur, að ekki fóru hann nema stöku menn, og það aðeins þegar autt var, og þá sumir á sokkaleistum, og lofthræddir fóru þar alls ekki. Þegar inn fyrir Helluna kom, voru torfærur á Vatnsleiðinni yfirstígnar. Að öðru leyti var þessi leið sem hér segir: Þegar farið var frá Krýsuvík, var venjan að vetri til að fara inn með Lambafellum, yfir Svuntulækinn, milli Lambafells og Norðurkotsness, þaðan beint inn Nýjaland og inn á Kleifarvatn. Væri hins vegar farið á auðu, var farið úr Norðurkotsnesi, vestan við Nýjaland um Kaldrana. Á Kaldrana er sagt að ein hjáleiga Krýsuvíkur hafi verið fyrr meir, og segja munnmæli, að hún hafi eyðzt vegna álaga, sem mæltu svo um, að allur silungur í Kleifarvatni skyldi að loðsilung verða, en hann á óætur að vera, samanber vísu þá, sem sagt er, að kveðin hafi verið á glugga í Krýsuvík, eftir að fólkið á Kaldrana hafði étið silunginn, en það vissi ekki, að það var búið að gera hann að umskiptingi. Vísuna hef ég lært þannig:
Liggur andvana
lýður á Kaldrana,
utan ein niðurseta,
sem ei vildi eta.
Nú sjást engin merki um býlið á Kaldrana, en staðinn geta menn enn bent á. (Saga þessi er í Þjóðs. Jóns Árnasonar I, bls. 636—37. Í nafnaskrá er gert ráð fyrir, að bærinn sé Kaldrani á Skaga, enda er Kleifarvatn ekki nefnt á nafn í sögunni. Sbr. þó Árbók fornl.fél. 1903, bls. 50.)
Af Kaldrana liggur leiðin inn yfir Sand, um Syðri-Stapa. Eftir það var farið ýmist alveg með vatninu eða aðeins ofar, þar til komið er inn fyrir Hellu. Eftir það sléttur sandur, þar til komið er inn á Blesaflöt. Þegar á hæðina kemur innan Blesaflatar, opnast útsýn til norðurs og norðausturs. Til norðausturs sér inn með Lönguhlíð allt til Grindaskarða, og lengra í sömu átt sér til Vífilfells og Hengils. Mestallt land í þessum víða fjallafaðmi, milli Lönguhlíðar og allt til Vífilfells annars vegar, allt í sjó fram, sunnan Reykjaness til Hafnarfjarðar hins vegar, að nokkrum smærri fjöllum og hlíðum undanteknum, — er brunnið land, hraun á hraun ofan. Öll eru hraun þessi mosavaxin, og allvíða annar gróður, svo sem viðarkjarr, lyng, víðir, einir og margs konar grasategundir.
Þó að land þetta sýnist auðnarlegt og gróðursnautt yfir að líta, er hér mörg matarholan fyrir búpening manna og margur fagur blettur og aðlaðandi, þegar lærzt hefur að þekkja þá.
Af áður umgetinni hæð innan Blesaflatar liggur gatan inn á Breiðdal, sem sendinn er að sunnanverðu, en að austan og norðan samfelldur harðvellisgróður og sem tún yfir að líta. Upp úr norðurbotni Breiðdals er farið yfir allbratt melhaft, og þegar norður af því kemur, er komið í Syðri-Leirdal, sem er aðeins sandur og leir, og má svo heita, að samtengdur sé innsta dalnum á þessari leið — Slysadal. Það nafn mun þessi dalur hafa fengið á síðari helmingi nítjándu aldar, eftir að vinnumaður frá Krýsuvík, sem var á leið til Hafnarfjarðar, missti þar ofan um ís þrjá hesta, sem allir fórust.
Í öllum þessum dölum er að vísu allmikið vatn á vetrum, sem svo leggur í frostum, og ættu þeir því ekki að vera hættulegri yfirferðar en Kleifarvatn. Hér hefur áreiðanlega einstök slysni hent þennan umrædda ferðamann, þar eð hann var klaklaust kominn yfir Kleifarvatn og syðri dalina. En svo er háttað, að nyrzt á Slysadal, þar sem hann er gróinn sem tún væri, eru jarðföll nokkur, sem sennilega hafa myndazt þar, sem vatn hefur hlaupið í jörð á vorin.
Jarðföll þessi eru að vísu ekki djúp, 2—4 m, en nógu djúp til þess, að þegar vatn er og ísar yfir öllu, er í þeim meira vatn en svo, að hestar nái niðri, ef ofan í lenda. Af þessu má ráða, að ferðamaðurinn hafi verið svo óheppinn, að leið hans hafi legið yfir eitthvert jarðfallið, þar eð þau flest eru nærri götu, vatn verið hlaupið undan ísnum og hol komið milli íss og vatns, og ísinn þar með misst viðhald að neðan, sem svo leiddi til þess, að ísinn brast undan þunga hestanna. Hafi þetta slys þannig að borið, var vonlaust fyrir einn mann að bjarga hestunum, enda tókst það ekki.
Þegar Slysadal sleppir, er komið á Bakhlíðar. Liggur gatan með þeim, um smáhæðir og daladrög, þar til komið er á Gvendarselshæð. Þar var haft í seli á síðustu öld, og sagt hefur verið, að þar hafi svo þykkur rjómi verið á trogum, að haldið hafi uppi vænni silfurskeið, aðrir segja skaflaskeifu.
Frá Gvendarseli er stutt, þar til farið er ofan af Undirhlíðum, í Kúadal, og þá komið á Krýsuvíkurleið, aðalleið, skammt sunnan Kaldársels. Þótt þessi leið væri heldur fáfarin sökum annmarka, fannst mér hún þess verð, að hennar væri að nokkru getið.
Hér skal ekki fjölyrt um Krýsuvík, þetta forna stórbýli með 10 hjáleigum sínum, — þótt nú séu bæirnir hrundir og löndin auð — , sem áður var sérstök kirkjusókn og allar þessar leiðir lágu til. Þó er hún á svo margan hátt stórbrotin og merkileg jörð, að vel væri til fallið, að saga hennar væri skráð. Allar þær leiðir, sem hér hafa verið að nokkru teknar til lýsingar, er nú hætt að fara. Fyrir sumum þeim, sem einhvern tíma hafa farið þær, eru þær nú gleymdar og týndar, fyrir fjöldanum nú með öllu ókunnar, og fæstir vita, að þær hafi nokkurn tíma til verið.
Fer því um þær eins og annað það, sem úr gildi fellur og hætt er að nota, að yfir þær fyrnist með öllu, þær gleymast, týnast, og með þeim mörg örnefni, sem staðið hafa og standa í órofa sambandi við þær, flest ef ekki öll svo vel heitin, að nútíðin eða framtíðin mun trauðla fylla þau skörð, þar sem gömul nöfn týnast, ef þá nokkurn tíma verður reynt að bæta fyrir það virðingar- og ræktarleysi þjóðarinnar að hafa gleymt og glatað gömlu örnefnunum og gömlu götunum, gleymt gömlum vinum.
Heimild:
Árbók Hins íslenska fornleifafélags, Fornar slóðir milli Krýsuvíkur og Hafnarfjarðar, Ólafur Þorvaldsson,01.01.1943, bls. 6 og 83-95.