Seltún

Í Árbók Hins íslenska fornleifafélags árið 1943 lýsir Ólafur Þorvalddson „Fornum slóðum milli Krýsuvíkur og Hafnarfjarðar„.

„Gömlum vinum og gömlum götum á enginn að gleyma“.

Ólafur Þorvaldsson

Þetta segja frændur okkar Færeyingar, og væri gott, að fleiri minntust.
Með þennan málshátt í huga rifja ég hér upp minningar um nokkrar gamlar götur hér í nágrenni, sem voru fram á síðustu áratugi nokkuð fjölfarnar, en eru nú að mestu og flestar að öllu lagðar af, — hætt að fara þær. Ýmist hafa þessar götur lagzt af vegna þess, að girðingar hafa verið settar um þær þverar eða sökum þess, að nýir vegir hafa verið lagðir og þeir að sjálfsögðu farnir nú, þar sem flest farartæki, sem nú eru mest notuð, eru þannig, að krókóttir götuslóðar, sem aðeins voru ætlaðir manna- og hestafótum, koma þeim ekki að notum.
Þessar gömlu götur og vegir, því að nokkuð af þeim kallaðist vegir, annað götur eða stígar, búa í þögn sinni og yfirgróningu yfir margra alda óskráðum minningum um alla þá menn, sem þar hafa um ferðazt; um alla þá erfiðleika, sem þeir áttu við að etja, á jafntorfærum leiðum og margar þeirra voru, — en voru þrátt fyrir allt leið manna um landið frá landnámstíð fram á vora daga.

Hrauntungustígur

Hrauntungustígur.

Þær búa líka yfir mörgum ánægjustundum vegfarenda, sem svo oft síðar var vitnað til, að þetta eða hitt hefði borið við á þessum leiðum. Efast ég um, að fólk, sem ferðast nú um landið eftir dýrum vegum, á dýrum farartækjum nútímans, eigi ánægjulegri og bjartari minningar að ferðalokum en þessar fornu og nú yfirgefnu slóðir veittu oft og einatt þeim, sem um þær fóru á sínum tíma.
Flestar hafa þessar götur orðið til smám saman af umferð manna og hesta, og hafa margar þeirra verið mjög fjölfarnar, t. d. sést víða, þar sem leiðir liggja yfir hraunhellur, að hesthófurinn með sínum pottuðu skeifum og oft líka pottuðu hestskónöglum, hefur sorfið götur oft 10—20 sm djúpar. Til þess að djúpar götur myndist í hart hraunið eða grágrýtisklappir, hefur umferðin hlotið að vera bæði mikil og það um langan tíma.

Krýsuvíkurgötur
Ég ætla nú að lýsa að nokkru vegum, götum og stígum, sem liggja milli Hafnarfjarðar og Krýsuvíkur og oftast voru farnir. Að sjálfsögðu sleppi ég hér þeim nýja Krísuvíkurvegi, sem nú er að mestu fullger. Þó á hann þegar nokkra sögu, en hún er annars eðlis og skal ekki rakin hér.

Kaldárselsgata

Kaldárselsgata.

Fyrst skal hér lýst þeim vegi, sem mest var farinn og aðallega, þegar farið var með hesta. Vegur sá var tekinn úr Hafnarfirði öðru hvoru megin Hamarskotshamars, upp yfir Öldur, þar sem nú er kirkjugarður Hafnfirðinga, upp í Lækjarbotna, með Gráhelluhrauni sunnanverðu, upp að Gjám, sem er hraunbelti frá því móts við Fremstahöfða, upp í Kaldársel. Þar var venjulega aðeins staldrað við, hestar látnir drekka, þegar farið var yfir ána, því að oftast var ekki um annað vatn að ræða, fyrr en til Krýsuvíkur var komið.

Frá Kaldárseli lá leiðin yfir smáhraunbelti, unz komið var að Undirhlíðum. Lá vegurinn suður með þeim, víða allsæmilegur, moldar- og melgötur. Vegurinn liggur yfir eitt hraunhaft, norðarlega með Undirhlíðum, kringum eldvörp þau, sem Ker heita, og hefur hraun streymt þar upp undan hlíðinni á vinstri hönd, þegar suður er farið.

Kerin

Kerin í Undirhlíðum.

Syðst með Undirhlíðum, eða nokkru sunnar en Stórihríshvammur, er farið yfir mel úr rauðu gjalli, og heitir sá melur Vatnsskarðsháls, þaðan er stutt í Vatnsskarð, þar sem hinn nýi vegur liggur nú úr hrauninu upp á hálsinn. Í Vatnsskarði var talin hálfnuð leiðin milli Hafnarfjarðar og Krýsuvíkur. Venjulega var áð þar snöggvast, lagað á hestunum, gert að, sem kallað var, stundum kippt ofan, einkum ef lest var ekki þung. Þegar lagt er upp úr Vatnsskarði, taka við hinir svonefndu Hálsar, réttu nafni Sveifluháls, og má segja, að suður með hálsinum sé góður vegur. Sem næst þriggja stundarfjórðunga lestagang frá Vatnsskarði skerst dálítil melalda fram úr hálsinum, og heitir þar Norðlingaháls.

Köldunámur

Köldunámur.

Nokkru þar sunnar sjást í hálsinum leifar af brennisteinshverum, og heitir það svæði Köldunámur. Þar litlu sunnar tekur við stór grasflöt, sem Hofmannaflöt heitir. Við suðurenda hennar rís upp úr hálsinum hæsti tindur Sveifluháls, sem Miðdagshnjúkur heitir. Veit ég ekki, hvernig það nafn er til orðið, — en gamalt er það. Ef um dagsmörk er að ræða í því sambandi, getur það ekki komið frá Krýsuvík. Fremur gæti það átt við frá Hvaleyri eða Ási eða annars staðar í grennd Hafnarfjarðar. Þegar Hofmannaflöt sleppir, er skammt ófarið að Ketilsstíg, þar sem vegurinn liggur upp yfir hálsinn. Stór steinn er á hægri hönd og á honum dálítil varða, og er það leiðarmerki um það, að þeir, sem til Krýsuvíkur ætluðu, tækju stíginn upp í hálsinn, en héldu ekki lengra suður með, því að sá vegur lá til Vigdísarvalla og enda alla leið suður fyrir háls, og er syðsti útvörður þessa langa og tindótta háls, fagurt, keilulagað fell, — Mælifell. Þegar Ketilsstígur er tekinn, liggur vegurinn fyrst upp allbratt klettahögg, en þegar upp á það er komið, liggur Ketillinn svo að segja fyrir fótum manns. Ketillinn er kringlóttur, djúpur dalur eða skál inn og ofan í hálsinn. Grasflöt er í botni Ketilsins, sem er svo djúpur, að botn hans mun vera jafn undirlendinu fyrir neðan Hálsinn.

Seltún

Seltún.

Vestur- og norðvesturbrún Ketilsins er þunnur móbergshringur, en norður-, austur- og suðurhliðar eru hálsinn sjálfur upp á brún, og er hæð hans þar um 350 m. Ketilsstígur liggur því í fullan hálfhring um Ketilinn, hærra og hærra, þar til á brún kemur. Láta mun nærri, að verið sé 30—4 5 mín. upp stíginn með lest, enda sama þótt lausir hestar væru, því að flestir teymdu hesta sína upp stíginn. Ketilsstígur er tvímælalaust erfiðasti kaflinn á þessari hér um ræddu leið. Slæmt þótti, ef laga þurfti á hestum í stígnum, og búast mátti við, ef baggi hrökk af klakk, hvort heldur var á uppleið eða ofan, að hann þá, ef svo var lagaður, ylti langt niður, því að utan stígsins, sem heita má snarbrattur, eru mest sléttar skriður ofan í Ketilbotn.

Ketilsstígur

Ketilsstígur.

Ketilsstígur er mjög erfiður klyfjahestum og sízt betri niður að fara en upp. Þegar upp á brún kemur, sést, að hálsinn er klofinn nokkuð langt norður, allt norður að Miðdagshnjúk, og eru í þeirri klauf sanddalir, sem Folaldadalir heita. Af vestari brún hálsins liggur vegurinn spölkorn eftir sléttum mel til suðausturs, og blasir þar við hæsta nípa á austurbrún hálsins og heitir Arnarnípa.

Seltún

Seltún.

Litlu sunnar er komið að dálitlu stöðuvatni, sem Arnarvatn heitir. Eftir það fer að halla niður af hálsinum að sunnan, og er nú ekki eins bratt og að vestan, þar til komið er fram á síðari brekkuna, sem er brött, en stutt. Þegar brekkunni sleppir, er komið í grashvamm, sem Seltún heitir. Allur er hálsinn uppi, norðan vegar, gróðurlaus, en sunnan vegar er sæmilegur gróður. Allhár og umfangsmikill hnjúkur er sunnan vegarins, þegar austur af er farið, og heitir sá Hattur. Víðsýnt er af vesturbrún Sveifluháls, þaðan sér yfir allan Faxaflóa, allt til Snæfellsness, en af austurbrún blasir Atlantshafið við, sunnan Reykjaness. Þegar í Seltún kemur, er talið, að komið sé til Krýsuvíkur, þó er um einnar stundar lestagangur heim að Krýsuvík. Í Seltúni eru nokkrir leirhverir, og kraumar í sumum græn leðja, aðrir eru dauðir. Ur Seltúnshvamminum er farið yfir alldjúpt gil, Selgil. Á sumrum seytlar þar vatn í botni, en á vetrum getur það orðið ófært með hesta sökum fannar, sem í það skeflir, þar eð gilið er djúpt og krappt.

Seltún

Námuhús Brennisteinsfélagsins við Seltúnsbarð.

Sunnan gilsins er Seltúnsbarð, og stóðu þar fram yfir aldamót síðustu tvö allstór timburhús, sem enskt félag, er rak brennisteinsnám þar og í Brennisteinsfjöllum á síðari hluta nítjándu aldar, reisti þar. Nú eru þessi hús löngu horfin. Af Seltúnsbarði er haldið yfir svonefnda Vaðla.

Grænavatn

Grænavatn.

Eftir það taka við melar, og liggur vegurinn þar á vesturbakka Grænavatns. Nokkru norðvestar er Gestsstaðavatn, umlukt háum melum, og sést ekki af veginum. Þegar Grænavatni sleppir, er örstuttur spölur suður á móts við Nýjabæina, Stóri-Nýibær til vinstri, Litli-Nýibær til hægri, og þar með komið í Krýsuvíkurhverfi. Milli Nýjabæjanna og heimajarðarinnar Krýsuvíkur er um 12 mín. gangur. Tún heimajarðarinnar liggur sunnan undir og uppi í Bæjarfelli, en bæjarhús, kirkjan og kirkjugarðurinn standa á hól eða hrygg sunnarlega á túninu.
Hér hefur verið lýst að nokkru aðalveginum milli Krýsuvíkur og Hafnarfjarðar, sem, eins og fyrr segir, var oftast farinn og aðalleið á sumrin, þegar farið var lausríðandi eða með lest, og var þessi leið talin um 8 klst. lestagangur.

Arnarvatn

Arnarvatn á Sveifluhálsi við Ketilsstíg.

Þá mun ég hér að nokkru lýsa tveimur stígum, sem vestar liggja og aðallega voru farnir af gangandi mönnum, svo og ef farið var með fáa hesta að vetrarlagi, bæði af því að þessar leiðir lágu mun beinna við til Hafnarfjarðar eða frá, svo líka eftir því, hvernig snjór lá, ef mikill var.

Krýsuvíkurgata

Krýsuvíkurgatan milli Grænavatns og Krýsuvíkurbæjar.

Ef snjó setti niður af austri eða norðaustri, t. d. meðan menn höfðu viðdvöl í kaupstaðnum, var venjulega snjóléttara á þessum leiðum en með Undirhlíðum og Hálsum. Hins vegar gat síðartalda leiðin verið snjóminni, ef mikið snjóaði af suðvestri. Þetta þekktu rnenn af langri reynslu. Annars voru vetrarferðir fátíðar með hesta milli Krýsuvíkur og Hafnarfjarðar. Þó kom fyrir, að farið var fyrir jólin, aðallega þá með rjúpur til að selja, svo og stöku sinnum á útmánuðum. Venjulega fóru menn vetrarferðir, ef farnar voru, gangandi, og ýmist báru menn þá eða drógu á sleða það, sem með var verið. Stillt var svo til, að tungl væri í vexti og færi og veðurútlit sem ákjósanlegast. Margir voru þá mjög veðurglöggir, og var þar eftir ýmsu að fara, sem löng reynsla, ásamt skarpri eftirtekt kenndi mönnum.

Stórhöfðastígur

Stórhöfðastígur

Stórhöfðastígur.

Þegar ferðamenn fetuðu Stórhöfðastíg, var farið frá Hafnarfirði upp hjá Jófríðarstöðum, um hlaðið í Ási, oft gist þar, ef menn t. d. komu frá Reykjavík. Frá Ási var farið suður úr Skarði, yfir Bleiksteinsháls, suður yfir Selhraun, vestan undir Stórhöfða, nokkurn spöl suðaustur með honum, lagt á hraunið frá suðurhorni hans, fyrst um gamalt klappahraun, þar til komið var á nýrra brunabelti, sem á sínum tíma hefur runnið ofan á gamla hraunið. Gegnum nýja brunann liggur stígur eða gata, sem enginn veit, hvenær ruddur hefur verið, annars með öllu ófær hestum.

Snókalönd

Snókalönd.

Í nýja brunanum, spölkorn austur af stígnum, eru tveir dálitlir blettir eða hólmar, sem bruninn hefur ekki náð að renna yfir. Hólmar þessir heita Snókalönd. Ekki ber þau hærra en umhverfið og sjást því ekki lengra til, og helzt ekki fyrr en að er komið. Hestfær götuslóð liggur norður í Snókalönd, nokkru austar en þar, sem Stórhöfðastígurinn kemur suður úr brunanum. Ekki eru Snókalöndin jafnstór, það vestra nokkru stærra, og slóð á milli. Hvað liggur til grundvallar þessu nafni, veit víst enginn lengur, en á tvennt mætti benda. Í fyrra lagi, að þarna hafi vaxið villihvönn, snókahvönn — geitla. Í öðru lagi, að blettir þessir, sem hafa verið miklu gróðurríkari en umhverfið, hafi fengið nafn sem land af töngum þeim og hornum, sem hinn ójafni brunakantur myndar þarna í grennd, og gæti því þýtt „Krókalönd“.

Stórhöfðastígur

Stórhöfðastígur norðan Snókalanda.

Í orðabók Blöndals segir, að snókur sé angi eða útskiki út frá öðru stærra. Gætu því tangar þeir, sem út úr brunanum ganga, verið stofn að þessu nafni. Þó finnst mér fyrri tilgátan sennilegri. Líkur benda til, að þarna hafi verið nokkur skógur og máske verið gert þar til kola fyrrum.
Gatan út í Snókalöndin bendir á nokkra umferð þangað. Sökum fjarlægðar þessa staðar frá alfaraleið óttast ég, að svo geti farið, að hann gleymist og nafnið týnist, þar sem þeir, er mest fóru þar um og héldu með því við mörgum örnefnum, voru fjármenn og smalar, en þeim fækkar óðum um þessar slóðir sem víðar.

Stórhöfðastígur

Stórhöfðastígur.

Af þessum orsökum get ég hér þessara litlu hólma með hinu fágæta og fallega nafni. Þess má geta, að gren er í vestara Snókalandinu — Snókalandagren. Þegar suður úr brunanum kemur, liggur stígurinn upp með suðvesturbrún hans, og fylgir maður brunanum, þar til komið er móts við Vatnsskarð í Undirhlíðum, sem farið er þá að nálgast. Úr því liggur stígurinn meira til suðurs, þar til komið er að Fjallinu eina. Er það fremur lágt, hrygglaga fjall með klettaborg á suðurenda. Austan undir því liggur stígurinn, og er þá Sandfell á vinstri hönd allnærri. Er nú stutt þar til komið er á Undirhlíðaveginn, skammt suður af Sandfellsklofa.

Stórhöfðastígur

Stórhöfðastígur.

Stórhöfðastíg fóru stundum lausríðandi menn frá Krýsuvík til Hafnarfjarðar. Fóru þá sem leið lá inn með hálsum, þar sem sú leið er allgóður reiðvegur, þar til kom á móts við, þar sem Stórhöfðastígurinn lá vestur á milli Fjallsins eina og Sandfells. Sá stígur var stundum tekinn, því að við það féll úr mikill krókur, inn með Undirhlíðum um Kaldársel, en hitt bein lína til Hafnarfjarðar. Þó að Stórhöfðastígurinn sé frekar slitróttur, var gott að láta hestinn njóta hægu ferðarinnar, en jafnsnemma komið til Hafnarfjarðar eða fyrr, þrátt fyrir stirðari veg.

Hrauntungustígur

Þeir, sem ætluðu sér Hrauntungustíg frá Hafnarfirði til Krýsuvíkur, fóru um Jófríðarstaði að Ási, þaðan um skarð vestan Ásfjallsaxlar, yfir hraunhaft milli Grísaness og Hamraness, undir vesturenda þess, austur að stórum steini flötum ofan, sem er þar stakur á jafnsléttu.

Hrauntungustígur

Hrauntungustígur.

Frá Hrauntungustíg er farið suður á gamalt helluhraun um 10 mínútur, þá tekur við Nýibruni eða Háibruni, sem runnið hefur ofan á eldra hraunið. Gegnum brunann er, eins og á Stórhöfðastíg, rudd allgreiðfær gata, sennilega gerð á svipuðum tíma og Stórhöfðastígur, en hver það hefur látið gera, veit víst enginn, en mjög gamlar eru þessar vegabætur, og eru þær sennilega fyrstu vegabætur, sem gerðar hafa verið til Krýsuvíkur.

Hrauntungustígur

Hrauntungustígur – vegvísir.

Gegnum Háabrunann er sem næst 20 mín. gangur með lest, og þegar á suðurbrún hans kemur, ganga til beggja handa suður úr brunanum tvær brunatungur, sem stígurinn liggur suður á milli, og ná þessar tungur spölkorn suður á svokallaðan Almenning, sem er nú búfjárhagar Hraunajarðanna, en hefur fyrr á öldum, eins og nafnið bendir til, verið frjáls til afnota fleiri en Hraunabændum, t. d. til kolagerðar, og sjást þar enn allvíða leifar gamalla kolagrafa. Af brunatungum þessum tel ég víst, að stígurinn hafi nafn fengið, Hrauntungustígur.

Hrauntungustígur

Hrauntungustígur.

Eftir að suður úr Hrauntungum kemur, er óglögg, sums staðar jafnvel engin gata, og verður því sjónhending að ráða, enda torfærulaust yfir kjarri vaxið lágahraun, en allt á fótinn. Þegar kemur dálítið upp í Almenninginn, fer maður nálægt gömlu selstæði, sem Gjásel heitir, og er þar venjulega vatn.

Gjásel

Gjásel.

Sennilega hefur þar verið haft í seli frá Þorbjarnarstöðum eða Stóra-Lambhaga í Hraunum. Nokkru austar er annað selstæði, sem Fornasel heitir. Þegar suður á há-Almenning kemur og útsýnið víkkar til suðurs, sést hár klettahryggur í suðvestur, og eru það Sauðabrekkur. Norður af þeim er farið yfir víða og djúpa gjá, á jarðbrú, Sauðabrekkugjá, eftir það er komið á svonefnda Mosa, sem er flatt grámosahraun, og er gata þar allglögg. Þá er hár brunahryggur, sem liggur frá norðri til suðurs á vinstri hönd og heitir Hrútagjá, Hrútadalir þar suður af. Þegar Mosum sleppir, hefur maður Mávahlíðarhnjúk og Mávahlíðar skammt sunnar á hægri hönd. Móti Mávahlíðum syðst er komið í Hrúthólma; er það langur, en fremur þunnur melhryggur, nokkuð gróinn neðan, öllum megin, smávin í þessari brunaeyðimörk.

Hrúthólmi

Hrúthólmi.

Þegar úr Hrúthólma er farið, taka við sléttar hraunhellur, ágætar yfirferðar. Sunnarlega á þessum hellum er stakt móbergsfell, Hrútafell. Þegar á móts við það kemur, en það er nokkuð til hægri við stíginn, er stutt þar til komið er á sumarveg Krýsuvíkur, skammt norðan Ketilsstígs. Þessi leið, sem hér hefur lýst verið að nokkru, var að heita má eingöngu farin af gangandi mönnum, og stundum ráku Krýsvíkingar fé til förgunar þessa leið. Sömuleiðis kom fyrir, að hún var farin af Herdísarvíkurmönnum, svo og Selvogsbúum, þegar þeir ráku fé í kaupstað, ef snjór var fallinn á fjallið og Kerlingarskarð, sem annars var þeirra aðalleið til Hafnarfjarðar og Reykjavíkur.
Hér hefur þá nokkuð ýtarlega verið gerð tilraun til að lýsa þeim þremur höfuðleiðum, sem lágu milli Hafnarfjarðar og Krýsuvíkur, frá því þar varð fyrst byggð, fram á síðustu ár.

Óttarsstaðasel

Rauðamelsstígur.

Að lokum vil ég svo geta að nokkru fjórðu leiðarinnar, sem kom fyrir, að Krýsvíkingar fóru, ef með hesta voru fyrir neðan, þ . e. í Hafnarfirði, og dreif niður svo miklum snjó, að hinum leiðunum var engri treyst. Þá gat þessi leið verið fær. Leið þessi lá frá byggð í Hraunum sunnan Hafnarfjarðar.

Óttarsstaðaselsstígur

Óttarsstaðaselsstígur (Rauðmelsstígur).

Þegar menn fóru þessa leið, var venjulega farið út af Suðurnesjaveginum, norðan Rauðamels, skammt sunnan Óttarsstaða, um Óttarsstaðasel, vestan undir Skógarnefjum, sunnan Einihlíða, en norðan Lambafells, fram hjá afar stórum klettum, sem eru einstæðir á sléttum mosaflákum og Bögguklettar heita, þaðan yfir brunatagl, sem liggur upp að norðurhálsi Trölladyngju, upp slóða yfir hálsinn, síðan yfir helluhraun slétt norðan Hörðuvalla, sem er nokkurt undirlendi mót norðri, milli Trölladyngju og Grænudyngju. Þá er komið að fjalli, sem Fíflavallafjall heitir, og farið nokkuð suður með því að austan, þar til komið er undir Stórusteinabrekku, þaðan liggur stígurinn yfir slétt helluhraun norðan Hrútafells, unz komið er á stíginn upp úr Hrúthólma, sem er á Hrauntungustígsleið, sem áður getur.

Önnur leið upp úr Hraunum lá nokkru norðar, — eða upp frá Þorbjarnarstöðum, venjulega norðan Draughólshrauns, um Straumsel, norðan Gömluþúfu, sem er hár og umfangsmikill klettur upp úr hæstu hæð Hraunaskógar (Almennings). Þegar upp fyrir Gömluþúfu kom, mátti fara hvort menn vildu heldur, austan eða vestan Sauðabrekkna, og var komið á Hrauntungustíg norðan Mávahlíða.

Straumsselsstígur

Straumsselsstígur – Fornasels- og Gjáselsstígur.

Þessi leið var helzt farin af Hraunamönnum, er svo voru almennt kallaðir, sem fóru aðallega til fjárleita haust og vor til Krýsuvíkur, svo og af Krýsvíkingum, þegar fyrir kom, að þeir sóttu sjóföng til Hraunabænda, því að meðan Hraunajarðir voru almennt í byggð sem bændabýli, sem var fram yfir síðustu aldamót, — enda tvær jarðir enn —, var þaðan mikil sjósókn.

Hellan

Hellan vestan Kleifarvatns.

Áður en við yfirgefum þessar slóðir að fullu, skulum við nú, þegar við hverfum frá Krýsuvík að þessu sinni, fara leið, sem við höfum ekki áður farið. Þessi leið er hin svonefnda Vatns- eða Dalaleið. Nú vill svo til, að nokkur kafli hins nýja vegar frá Hafnarfirði til Krýsuvíkur liggur með Kleifarvatni að vestan, svo að nú gefst fleiri mönnum kostur á að fara þessa leið en áður var.

Þessi leið mun ekki hafa talizt til höfuðleiða milli Krýsuvíkur og Hafnarfjarðar, enda sjaldan farin, og þá helzt á vetrum. Þó tel ég hana ekki með öllu ómerkilega, og ber fleira til en eitt. Það er þá fyrst, að þessi leið er stytzta og beinasta lestaleiðin milli Krýsuvíkur og Hafnarfjarðar. Hún er greiðasta og hægasta leiðin. Hún liggur í sérkennilegu og fögru umhverfi. Hún var nokkrum annmörkum háð, — og hún gat verið hættuleg.

Gvendarsel

Askur í Gvendarseli við Bakhlíðar.

Þessa leið var ekki hægt að fara, jafnvel svo árum skipti, nema ísar væru tryggir, og lágu til þess tvær meginástæður. Annars vegar réðu hér um vetrarhörkur, hins vegar náttúrufyrirbæri, sem enn eru óskýrð, svo að fullsannað sé. Hér kom fram sem oftar, að ekki fóru ávallt saman óskir ferðamannsins og lögmál náttúrunnar. Til þess að hægt væri að fara þessa leið með hesía að vetri til, varð Kleifarvatn að vera á hestís. Reynslu voru menn búnir að fá fyrir því, að Kleifarvatni var ekki að treysta á ís með hesta fyrr en eftir vetrarsólhvörf.

Hellan

Krýsuvíkurvegurinn um Helluna undir Sveifluhálsi. Dalaleiðin lá ofar á Hellunni.

Meginorsök þess, hve vatnið leggur seint, er vafalaust sú, að allmikill hiti er í botni þess, sér í lagi að sunnanverðu, og hafa, þegar vatnið er lítið, verið talin þar milli 10 og 20 hveraaugu, sem spýta sjóðheitri gufu upp í vatnið og í loft upp, þegar út af þeim fjarar. Hvað sem um skoðanir manna og reynslu í þessu efni er að segja, er hitt víst, að frosthörkur voru venjulega meiri og stóðu oft lengur, eftir að kom fram yfir miðjan vetur. Hins vegar var vorís ekki treyst, þótt þykkur væri.
Á þessari leið gátu ísar verið ótryggir víðar en á Kleifarvatni, sem síðar mun að vikið. Á öðrum árstíðum, þegar menn hefðu gjarnan viljað fara þessa leið með hesta, gat það dottið í Kleifarvatn að banna ferðir manna, svo að árum skipti. Þar kemur leyndardómur Kleifarvatns til sögunnar. Kleifarvatn hefur frá ómunatíð verið mjög breytilegt að vatnsmagni. Það er háð eins konar flóði og fjöru, útfalli og aðfalli, — en þetta gerðist ekki allt á einum sólarhring. Annað fallið tekur, eftir reynslu margra kynslóða, hvorki meira né minna en 12 — 20 ár, getur verið nokkuð breytilegt til eða frá. Hvað veldur þessari hreyfingu á vatninu, er, að því er ég bezt veit, ósannað enn, þrátt fyrir ýmsar minni háttar rannsóknir, sem venjulega hafa endað á getgátum sitt á hvað.

Gullbringa

Gullbringa.

Landi því, sem að Kleifarvatni liggur, er þannig háttað í höfuðdráttum: Fyrir suðausturenda vatnsins er móbergshöfði, sem gengur í vatn fram og heitir Geithöfði. Þá nokkru lengra til suðausturs er hæðabunga, sem Gullbringa heitir. Þá tekur við grámosahraun, sem steypzt hefur fram af fjallinu norðan Vörðufells og runnið í mjóu belti í vatn fram og heitir Hvannahraun. Eftir það tekur Vatnshlíðin við, brött og nokkuð grafin af giljum, sem ófær eru hestum, og þar með lokast leiðin austan Kleifarvatns, því að vatnið liggur upp að hlíðinni, en stórgrýtt er í botni við landið.
Innst í Vatnshlíðinni eru Hrossabrekkur, brattar og giljóttar. Þegar yfir þær er komið, telst, að komið sé inn fyrir Kleifarvatn að austan. Vestan Kleifarvatns liggur Sveifluháls, brattur, tindóttur og svipmikill. Tveir stapar skaga austur úr hálsinum út í vatnið og heita Syðri- og Innri-Stapi. Vegurinn liggur uppi á stöpunum, en milli þeirra gengur klettarani fram að vatninu, en til þess að menn kæmust leiðar sinnar með vatninu, varð að komast framan undir þessum klettarana, en til þess að hægt væri að komast þar með klyfjahesta, varð vatnið að vera allmikið fjarað, — eða lítið vaxið, ef í vexti var.

Kleifarvatn

Innri-Stapi.

Nokkru innar en Innri-Stapi gengur hálsinn eða hamar úr honum þverhnípt í vatn á litlum spöl. Þarna er hin svonefnda Hella. Þegar hátt var í vatninu, náði það upp í Helluna, en stórgrýtt er í botni undir hamrinum. Einstigi, aðeins fyrir gangandi menn, lá eftir Hellunni um 10—20 m ofar vatni, en svo var stígur þessi tæpur, að ekki fóru hann nema stöku menn, og það aðeins þegar autt var, og þá sumir á sokkaleistum, og lofthræddir fóru þar alls ekki. Þegar inn fyrir Helluna kom, voru torfærur á Vatnsleiðinni yfirstígnar. Að öðru leyti var þessi leið sem hér segir: Þegar farið var frá Krýsuvík, var venjan að vetri til að fara inn með Lambafellum, yfir Svuntulækinn, milli Lambafells og Norðurkotsness, þaðan beint inn Nýjaland og inn á Kleifarvatn. Væri hins vegar farið á auðu, var farið úr Norðurkotsnesi, vestan við Nýjaland um Kaldrana. Á Kaldrana er sagt að ein hjáleiga Krýsuvíkur hafi verið fyrr meir, og segja munnmæli, að hún hafi eyðzt vegna álaga, sem mæltu svo um, að allur silungur í Kleifarvatni skyldi að loðsilung verða, en hann á óætur að vera, samanber vísu þá, sem sagt er, að kveðin hafi verið á glugga í Krýsuvík, eftir að fólkið á Kaldrana hafði étið silunginn, en það vissi ekki, að það var búið að gera hann að umskiptingi. Vísuna hef ég lært þannig:

Liggur andvana
lýður á Kaldrana,
utan ein niðurseta,
sem ei vildi eta.

Kaldrani

Tóftir Kaldrana.

Nú sjást engin merki um býlið á Kaldrana, en staðinn geta menn enn bent á. (Saga þessi er í Þjóðs. Jóns Árnasonar I, bls. 636—37. Í nafnaskrá er gert ráð fyrir, að bærinn sé Kaldrani á Skaga, enda er Kleifarvatn ekki nefnt á nafn í sögunni. Sbr. þó Árbók fornl.fél. 1903, bls. 50.)
Af Kaldrana liggur leiðin inn yfir Sand, um Syðri-Stapa. Eftir það var farið ýmist alveg með vatninu eða aðeins ofar, þar til komið er inn fyrir Hellu. Eftir það sléttur sandur, þar til komið er inn á Blesaflöt. Þegar á hæðina kemur innan Blesaflatar, opnast útsýn til norðurs og norðausturs. Til norðausturs sér inn með Lönguhlíð allt til Grindaskarða, og lengra í sömu átt sér til Vífilfells og Hengils. Mestallt land í þessum víða fjallafaðmi, milli Lönguhlíðar og allt til Vífilfells annars vegar, allt í sjó fram, sunnan Reykjaness til Hafnarfjarðar hins vegar, að nokkrum smærri fjöllum og hlíðum undanteknum, — er brunnið land, hraun á hraun ofan. Öll eru hraun þessi mosavaxin, og allvíða annar gróður, svo sem viðarkjarr, lyng, víðir, einir og margs konar grasategundir.

Breiðdalur

Breiðdalur – Helgafell fjær.

Þó að land þetta sýnist auðnarlegt og gróðursnautt yfir að líta, er hér mörg matarholan fyrir búpening manna og margur fagur blettur og aðlaðandi, þegar lærzt hefur að þekkja þá.
Af áður umgetinni hæð innan Blesaflatar liggur gatan inn á Breiðdal, sem sendinn er að sunnanverðu, en að austan og norðan samfelldur harðvellisgróður og sem tún yfir að líta. Upp úr norðurbotni Breiðdals er farið yfir allbratt melhaft, og þegar norður af því kemur, er komið í Syðri-Leirdal, sem er aðeins sandur og leir, og má svo heita, að samtengdur sé innsta dalnum á þessari leið — Slysadal. Það nafn mun þessi dalur hafa fengið á síðari helmingi nítjándu aldar, eftir að vinnumaður frá Krýsuvík, sem var á leið til Hafnarfjarðar, missti þar ofan um ís þrjá hesta, sem allir fórust.

Slysadalur

Slysadalur.

Í öllum þessum dölum er að vísu allmikið vatn á vetrum, sem svo leggur í frostum, og ættu þeir því ekki að vera hættulegri yfirferðar en Kleifarvatn. Hér hefur áreiðanlega einstök slysni hent þennan umrædda ferðamann, þar eð hann var klaklaust kominn yfir Kleifarvatn og syðri dalina. En svo er háttað, að nyrzt á Slysadal, þar sem hann er gróinn sem tún væri, eru jarðföll nokkur, sem sennilega hafa myndazt þar, sem vatn hefur hlaupið í jörð á vorin.

Leirdalur

Slysadalir / Leirdalur – Helgafell fjær.

Jarðföll þessi eru að vísu ekki djúp, 2—4 m, en nógu djúp til þess, að þegar vatn er og ísar yfir öllu, er í þeim meira vatn en svo, að hestar nái niðri, ef ofan í lenda. Af þessu má ráða, að ferðamaðurinn hafi verið svo óheppinn, að leið hans hafi legið yfir eitthvert jarðfallið, þar eð þau flest eru nærri götu, vatn verið hlaupið undan ísnum og hol komið milli íss og vatns, og ísinn þar með misst viðhald að neðan, sem svo leiddi til þess, að ísinn brast undan þunga hestanna. Hafi þetta slys þannig að borið, var vonlaust fyrir einn mann að bjarga hestunum, enda tókst það ekki.
Þegar Slysadal sleppir, er komið á Bakhlíðar. Liggur gatan með þeim, um smáhæðir og daladrög, þar til komið er á Gvendarselshæð. Þar var haft í seli á síðustu öld, og sagt hefur verið, að þar hafi svo þykkur rjómi verið á trogum, að haldið hafi uppi vænni silfurskeið, aðrir segja skaflaskeifu.

Kaldársel

Kaldársel – gamla gatan.

Frá Gvendarseli er stutt, þar til farið er ofan af Undirhlíðum, í Kúadal, og þá komið á Krýsuvíkurleið, aðalleið, skammt sunnan Kaldársels. Þótt þessi leið væri heldur fáfarin sökum annmarka, fannst mér hún þess verð, að hennar væri að nokkru getið.

Stóri-Nýibær

Stóri-Nýibær í Krýsuvík.

Hér skal ekki fjölyrt um Krýsuvík, þetta forna stórbýli með 10 hjáleigum sínum, — þótt nú séu bæirnir hrundir og löndin auð — , sem áður var sérstök kirkjusókn og allar þessar leiðir lágu til. Þó er hún á svo margan hátt stórbrotin og merkileg jörð, að vel væri til fallið, að saga hennar væri skráð. Allar þær leiðir, sem hér hafa verið að nokkru teknar til lýsingar, er nú hætt að fara. Fyrir sumum þeim, sem einhvern tíma hafa farið þær, eru þær nú gleymdar og týndar, fyrir fjöldanum nú með öllu ókunnar, og fæstir vita, að þær hafi nokkurn tíma til verið.

Litli-Nýibær

Litli-Nýibær í Krýsuvík.

Fer því um þær eins og annað það, sem úr gildi fellur og hætt er að nota, að yfir þær fyrnist með öllu, þær gleymast, týnast, og með þeim mörg örnefni, sem staðið hafa og standa í órofa sambandi við þær, flest ef ekki öll svo vel heitin, að nútíðin eða framtíðin mun trauðla fylla þau skörð, þar sem gömul nöfn týnast, ef þá nokkurn tíma verður reynt að bæta fyrir það virðingar- og ræktarleysi þjóðarinnar að hafa gleymt og glatað gömlu örnefnunum og gömlu götunum, gleymt gömlum vinum.

Heimild:
Árbók Hins íslenska fornleifafélags, Fornar slóðir milli Krýsuvíkur og Hafnarfjarðar, Ólafur Þorvaldsson,01.01.1943, bls. 6 og 83-95.

Ketilsstígur

Ketilsstígur.

Steðji

Í Kjós ofan Kjalarness er fátt minnismerkja. Þau eru þó þar fleiri en engin.

Neðri-Háls

Kjós

Kjós – minnismerki.

Við þjóðveginn ofan við Neðri-Háls í Kjós er grágrýtissteinn. Á honum er skjöldur með áletrun: „Þar sem jökulinn ber við loft hættir landið að vera jarðneskt, en jörðin fær hlutdeild í himninum. Þar búa ekki framan neinar sogir og þessvegna er gleðin ekki nauðsynleg. Þar ríkir fegurðin ein, ofar hverri kröfu.“ – Heimsljós H.K.L.
Hornsteinn Umhverfis- og náttúruverndar, 7. júní 1998 – Sól í Hvalfirði“.

Í mbl.is 7.6.1998 er fyrirsögn; „Samtökin SÓL í Hvalfirði afhjúpa minnisvarða“: Undir henni segir: „Samtökin SÓL í Hvalfirði afhjúpa í dag hornstein að Hálsnesi í Kjós, sem er tileinkaður umhverfis- og náttúruvernd.

Í fréttatilkynningu frá samtökunum segir að hornsteinninn sé minnisvarði um þá baráttu sem íbúar Hvalfjarðar háðu fyrir umhverfi sínu og jafnframt áminning um það umhverfisslys sem staðsetning álvers á Grundartanga er. Hornsteinninn er ekki síst ætlað að marka upphaf aukinnar sóknar í umhverfismálum á Íslandi í framtíðinni.“

Kjós

Kjós – minnismerki.

Krýsuvík

Þórður Jónsson á Eyrarbakka skrifaði grein í Alþýðublaðið 1935 um „Krýsuvík„:

Krýsuvík

Krýsuvík – Lækur.

„Krýsuvík er staður, sem virðist vera að falla í gleymsku, og vegna þess að ég heyri varla þann stað nefndan á nafn, langar mig aö minna menn á, að Krýsuvík er þó enn til á landi voru, þó að sé með öðrum hætti en áður var.
Eflaust eiga einhverjir af núlifandi mönnum minningar frá þeim stað — Krýsuvík — ef til vill þær ljúfustu og beztu, minningar æskuáranna.
Krýsuvík er nú í eyði — eða víst að mestu leyti. — En fyrir nokkrum tugum ára var þar allblómleg bygð, eins og kunnugt er.
Guðmundur Ísleifsson frá Stóru-Háeyri hefir gefið mér dálitlar upplýsingar um Krýsuvík, og fer ég eftir frásögn hans í eftirfarandi línum.

Krýsuvík

Krýsuvík – Norðurkot.

Guðmundur Ísleifsson fluttist með foreldrum sínum frá Kirkjubæjarklaustri í Skaftafellssýslu árið 1858 að Krýsuvík, þá átta ára. Ísleifur, faðir Guðmundar, varð að víkja frá Kirkjubæjarklaustri fyrir Árna sýslumanni Gíslasyni, sem hafði ráð á þeirri jörð. En rétt er að geta þess einkennilega tilfellis, að nokkrum árum síðar fluttist þessi sami Árni sýslumaður að Krýsuvík í annað sinn í „ból“ Ísleifs — að því er virðist.
Guðmundur Ísleifsson dvaldi á þessum slóðum — Krýsuvík og Selvogi — til 20 ára aldurs, er hann fluttist til Eyrarbakka.

Krýsuvík

Krýsuvíkurtorfan – kort (ÓSÁ).

Árið 1861 segir Guðmundur Ísleifsson þannig högum háttað í Krýsuvík og umhverfi Krýsuvíkur:
Á heimajörðinni:
Krýsuvík – 2 búendur
Stóra-Nýjabæ – 2 búendur
Litla-Nýjabæ – 1 búandi
Norðurkoti – 1 búandi
Suðurkoti – 1 búandi
Arnarfelli – 1 búandi
Fitjum – 1 búandi
Vigdísarvöllum – 2 ábúendur

[Svo virðist sem bæirnir Lækur og Garðshorn hafi gleymst í upptalningunni, auk Fells.]

Þessir bæir allir höfðu svokölluð jarðarafnot.
Auk þessara bæja voru tvö tómthúsbýli, er hétu Snorrakot og Hnausar. Ofantaldir bæir voru svo einu nafni kallaðir Krýsuvíkurhverfi.

Krýsuvík

Krýsuvík – Snorrakot.

Allmiklar engjar fylgdu þessum jörðum, og lágu þær umhverfis Kleifarvatn að sunnan og vestan, en Kleifarvatn er allstórt stöðuvatn um klukkustundarferð í norðaustur frá Krýsuvík. Engjarnar skiftust hlutfallslega milli býlanna í „skákar.“
Meirihlutinn af engjunum var mýrkent, og stundum í þurrkatíð fjaraði svo vatnið, að mikið engi náðist þannig, sem vatnið flóði annars yfir, og var það ágætt starengi.

Arngrímshellir

Í Arngrímshelli í Krýsuvíkurhrauni.

Bændur í Krýsuvíkurhverfi höfðu 1—4 kýr, og sauðfé eftir efnum, því hagaganga fyrir sauðfé var ótakmörkuð, og sauðfé gekk úti að mestu leyti. Hús voru engin til fyrir féð.
Slíkt voru ekki landslög á þeim tíma. Fénu var helzt haldið í hrauninu framan við Geitahlíð, fram undir sjó, þar voru hellar, sem fénu var haldið við í illviðrum á vetrin.
Til hlunninda Krýsuvíkur mátti telja eggja- og fuglatekju, sem var allmikil í Krýsuvíkurbergi. Var sú veiði stunduð af miklum dugnaði, og skiftust þau föng niður á búendur í Krýsuvíkurhverfi eftir því, sem hver hafði kraftinn til við veiðina.

Krýsuvík

Krýsuvík – minjar brennisteinsvinnslu undir Baðstofu.

Þá er að minnast á hina miklu brennisteinshveri í fjallahálsunum vestan við Kleifarvatn, en á þessum árum, 1858—1861, var það sem Englendingar byggðu þar hús og starfræktu hinar nafnkunnu brennisteinsnámur í Krýsuvík, og var brennisteininn fluttur á hestum til Hafnarfjarðar, og höfðu þá Krýsuvíkurbúar mikinn hagnað af þessum atvinnurekstri Englendinga við námurnar. En örlög þessa fyrirtækis urðu sem kunnugt er.
Í Krýsuvík var kirkja, og kirkjusóknin Krýsuvíkurhverfi, og rnessaði Vogsósaprestur þar þriðja hvern sunnudag.

Selatangar

Selatangar – búðir Krýsuvíkurbænda.

Á þessum tímum var ekki lítil búsæld í Krýsuvík. Atvinnuvegirnir eins og áður er sagt var landbúnaður, eggja- og fuglatekja, auk þess sjávarafli nokkur. Þá var útræði á Selatöngum. Gekk þá eitt — áttróið — skip þar úr Krýsuvík, og var á því skipi formaður Einar frá Stóra-Nýjabæ, og mun það síðasta skip, er þaðan hefir gengið, en sú sögn fylgir, að útræði frá Selatöngum hafi lagst niður vegna reimleika.

Krýsuvík

Krýsuvík – minjar gamla bæjarins.

Fyrr á árum var Krýsuvík mikið „ferðamannaland“. Allir, sem fóru til Suðurnesja syðri leiðina austan úr sýslum, fóru um Krýsuvík, og eins og gefur að skilja gaf það þessum afskekta stað alt annan svip. Af umferðinni leiddi fjölbreyttara líf og meiri gleðibrag í litla þorpinu.
Að líkindum hefir Krýsuvík staðið á hátindi blóma síns þessi ár, sem Englendingar starfræktu brennisteinsnámurnar.

Fornugata

Fornugata austan Herdísarvíkur.

Austan úr sýslum, Árness-, Rangárvalla- og Skaftafellssýsum, var þá kallað að fara suður „innra“, og „syðra“ þeir, sem fóru til Suðurnesja. Innri leiðin var yfir Hellisheiði nálægt þeim stað, sem nú er farið yfir hana, yfir stórárnar Þjórsá og Ölfusá á þessum stöðum: Þjórsá á Egilsstöðum eða Króki, og yfir Ölfusá í Laugardælum. En þeir, sem fóru syðri leiðina, fóru yfir Þjórsá á Sandhólaferju eða Selparti, og Ölfusá í Óseyrarnesi og þá um Þorlákshöfn, Selvog, Herdísarvík, Krýsuvík. Sumir fóru hringferð, t.d. „innri“ aðra leiðina og „syðri“ hina.

Fornugötur

Fornugötur.

Þarna — syðri leiðina — um Krýsuvík — er ljóst að hefir verið mikil umferð um margra alda skeið. Þess bera ljósan vott hestagötur í hraununum á þeirri leið. Þó eru slíkar götur mest áberandi í Herdisarvíkurhrauni, þar liggur gatan víða á sléttum hraunhellum, og ég — sem þetta rita — fór yfir Herdísarvíkurhraun fyrir nokkrum árum, og mældi ég dýpt götunnar á nokkrum stöðum, og reyndist hún að vera 8—12 cm. á sléttum hraunhellunum, Og þó þetta sé brunahraun, þá sætir það furðu, hvað djúpar þessar götur eru, og sýnilegt, að margir hestafætur hafa orðið að stíga á bergið til að mynda slíka götu, og er næsta fróðlegt að sjá þetta „fornaldarsmíð“, og mikill er sá mismunun á nútímafarartækjum og slíkum, er forfeður okkar áttu við að búa.

Krýsuvík

Krýsuvík – útihús.

En skyldu þeir í nokkru hafa verið vansælli, sígandi með hestalestina sína klyfjaða af skreið en við í bílunum okkar og vaggandi í alls konar þægindum? Um slíkt er ekki hægt neitt að fullyrða. En sennilegt er að oft hafi verið glatt á hjalla í þessum ferðum, þó erfiðar væru.
En ef nokkrar lifandi verur hefðu ástæðu til að hrósa happi yfir breyíingum tímans í þessu efni, þá væru það hestarnir, því þeir hafa oft hlotið að eiga erfiðar stundir í slíkum ferðalögum.

Krýsuvík

Krýsuvík – kirkjan og gömlu bæjartóftirnar. Hnausar h.m. við kirkjuna.

Þó ef til vill sé ekki ástæða til að harma það, að slíkir staðir sem Krýsuvík leggist í eyði, þá er engu síður vert að muna eftir þeim stöðum og sýna þeim rækt og sóma. Þarna á þessum stað — Krýsuvík — hefir fjöldi manna háð sína hörðu lífsbaráttu við óblíð náttúruskilyrði öld fram af öld með hreysti og karlmensku, því öllum öðrum en hraustmennum hefir náttúran hlotið að vera þar naumgjöful. Gínandi fuglabjargið og stórhríðarnar á vetrum við fjárgeymsluna hefir ekki verið heiglum hent, og oft hefir hlotið að vera teflt á tæpasta vaðið við slík störf. Þau hreystiverk eru því miður óskráð.

Krýsuvík

Krýsuvík – Garðshorn.

Mér, sem þetta rita, hefir lengi verið hlýtt til þessa staðar, Krýsuvíkur, af þeirri ástæðu, að aldrei á æfinni hefi ég orðið fegnari að koma til mannabústaða en einmitt að Krýsuvík. Það var veturinn 1896, að ég — þá unglingur var á ferð til Grindavíkur, og vorum við fjórir saman — alt unglingar — og skall á okkur norðan blindhríð þegar við komum í hraunið utan við Herdísarvík, og eftir langa villu hittum við þó Krýsuvík af einhverri tilviljun — um hánótt. Ég hefi aldrei efast um hver örlög okkar, þessara unglinga, hefðu orðið hefðum við ekki hitt Krýsuvík, því þessi blindhríð stóð í tvo daga — og nætur.

Krýsuvík

Legsteinn Árna Gíslasonar að baki Krýsuvíkurkirkju.

Þá bjó i Krýsuvík Árni sýslumaður Gíslason, og á heimili hans, meðan veðrið hélst, í tvo daga, nutum við hinnar mestu gestrisni.
Trúlegt þætti mér að húsaskjól í Krýsuvík hafi oftar verið ferðamönnum kærkomið en í þetta skifti, sem að ofan greinir.
Þegar ég hugsa um Krýsuvík og íhuga það, hvað erfitt hefir verið að búa þar og nota þau gæði, sem þar hafa verið fáanleg, finnst mér ómögulegt að þar hafi getað lifað aðrir en afburðamenn að dugnaði. Af þeirri kennd verður manni staðurinn hugþekkari. Nútímakynslóðin vill ekki leggja á sig þá erfiðleika, sem útheimtast til að lifa á slíkum stöðum sem Krýsuvík er. Það er hægara og þægilegra að búa í borgum og þorpum og leggja svo slíka stáði í eyði, sem Krýsuvík er, og jarðsyngja með því allar búmannsraunir. Því ef í nauðir rekur leggja borgir og bæir fram einhver bjargráð til framdráttar atvinnubótavinnu eða eitthvað slíkt. En hvort slík bjargráð verða eins haldgóð til að viðhalda karlmennsku og hreysti og búskapurinn í Krýsuvík, skal ósagt látið.
Krýsuvík 1998Ég hefi því miður hvergi séð Krýsuvíkur minnst í bókum eða blöðum. Nú er það ætlun mín og von, að einhver, sem er mér fróðari um þennan stað — Krýsuvík — lýsi betur en hér er gert þessum forna mannabústað, sem nútímakynslóðin vill ekkert með hafa, því staðurinn er vel þess verður, og varla má minna vera en Ferðafélag Íslands líti þangað augum sínum í eitt skifti. Því þó Krýsuvík krjúpi í sorg sinni yfir vanþóknun mannanna og ræktarleysi, þá hlýtur umhverfi hennar að vera broshýrt í sólskini sumardaganna.“ – Þórður Jónsson.

Heimild:
-Alþýðublaðið, tölublað 07.04.1935, Krýsuvík eftir Þórð Jónsson, Eyrarbakka, bls. 3 og 4.

Krýsuvík

Krýsuvík – Lækur.

Stafnes

Í Árbók Hins ísl. fornleifafélags árið 1903 er að finna grein Brynjúlfs Jónssonar; „Rannsókn í Gullbringusýslu og Ánessýslu sumarið 1902„. Fjallar hann þar m.a. um Stafnes, Básenda, Þórshöfn og Gamla Kirkjuvog við Ósa.

Stafnes

Stafnes

Stafnes – uppdráttur ÓSÁ.

er í fornum máldögum oftast kallað »Starues«, og ef það er upprunanafn bæjarins, bendir það til þess, að þar hafi í fyrri daga verið starengi. En hafi svo verið, þá er líklegast, að það sé uú komið í sjó. Skal eg ekkert um það segja. En sannfróðir eru menn um það, að þar hafa margar hjáleigur lagzt í eyði og þar af sumar af sjógangi.
Nokkrar af eyðihjáleigunum heyrði eg nefndar, og eru þær þessar: Urðabær, Sandhús, Refabær, Hólmabær, Gosa (Gosabær=Gottsvinsbærr), Vallarhús, Lodda (þ. e. Loðvíksstofa). Þar hefir víst verið einna bezt lýsing um aldamótin 1800, því þangað flúði Bátsendakaupmaður er kaupstaðurinn fór af. Nú sjást varla merki til tófta í Loddu, því öskuhaugur hefir seinna verið borinn ofan á þær og gróið upp sem hóll í túninu hjá heimabænum.

Stafnes

Stafnes – dómhringur.

Í túninu er ein at þessum hringmynduðu fornbyggingum, sem kallaðar eru »lögréttur«. Þessi er líka kölluð það. Hún er einkennileg og frábrugðin öllum öðrum, er eg hefi séð, að því leyti, að á henni eru 6 dyr eða hlið, sem skifta henni í 6 jafna parta. Mundi svara því að 2 sæti hefði verið undir hverjum parti. Að öðru leyti er ekki hægt að gizka á hvaða tilgang hlið þessi hafa haft. Og því óskiljanlegri eru þau, ef maður vill geta þess til, að hringurinn sé sáðgarður eða fjárrétt. Og ekki lítur þó út fyrir, að það séu skörð. Þau eru hér um bil jafnstór og jafnlangt milli þeirra, eins og þau séu skipulega sett af mönnum. Annað er hér þó ekki, sem bendir á þingstað, hvorki munnmæli né búðatóftir. Þær gætu að vísu verið horfnar. Sumstaðar hefir sandfok sléttað túnið.
Sumstaðar geta kot verið bygð ofan á búðatóftir. Á tveim stöðum, skamt frá »lögréttunni«, var eins og vottaði fyrir tóftum, en mjög var það óglögt, enda var þá þessi hluti túnsins ósleginn. Skal eg ekkert frekara um þetta segja.

Bátsendar

Básendar

Básendar – uppdráttur ÓSÁ.

heita skamt fyrir austan Stafnes. Þar liggur strandlengjan til austurs inn í Ásabotna. Á Bátsendum var kaupstaður, sem kunnugt er, og stóð á hraunnefi milli tveggja mjórra víka. Var höfnin á eystri víkinni. Var innsigling fremur vandasöm, en höfn trygg er inn var komið, þó svo, að binda varð skipin á 3 vegu, en með því móti gátu 2 skip legið þar undir eins. Sér enn um fjöru, járnbolta þá, sem greiptir cru í klappirnar, til að festa skipin við. Hafa verið höggnar holur í klappirnar fyrir þá og blýi rent utan með þeim. Hraunnefið, sem kaupstaðurinn stóð á, er hæst framantil og var þar bær. Sér þar enn nokkuð af rúst bæjarins á grastorfu lítilli. Þar fyrir ofan er lægð yfir þeim þvert milli víkabotnanna og í þeirri lægð sér leifar af undirstöðum verzlunarhússins. Hefir það verið hér um bil 12 fðm. langt og 6 fðm. breitt. Þó er ekki öldungis víst, að það hafi verið alt eitt hús, svo óslitin er undirstaðan ekki. En útlit er til þess. Af kaupstaðnum sjást nú ekki aðrar leifar en nú hefir verið sagt. En miklar girðingar hafa verið þar fyrir ofan, líklega bæði túngarðar og jurtagarðar. En nú er þar alt blásið.

Básendar

Festarkengir á Básendum.

Kaupstaðurinn eyddist í flóðinu mikla nóttina fyrir 9. jan. 1800. Fólkið komst nauðulega undan, nema ein gömul kona, sem heldur kaus að verða eftir og taka því er guð vildi verða láta, en að reynt yrði að hrökklast með hana heim að Stafnesi. Síðasti kaupmaður á Bátsendum er nefndur I. Hansen, danskur að ætt. Hann flúði til Loðvíksstofu, sem fyr getur. Um vorið fór hann utan og kom eigi aftur til Íslands.
Nafnið »Bátsendar« er óviðkunnanlegt og óefað afbökun. En hvað hefir það þá upprunalega veriðr Naumast getur það hafa verið »Bátsandar« (af: sandur), því að, þó þar sé blásið nú, þá hefir það eigi verið fyrrum, þá er nafnið var gefið. Og enn eru þar meiri klappir en sandar, bæði með sjónum og fyrir ofan, svo ástæðulítið virðist að gefa þar örnefni af söndum. Líklegra virðist mér, að þágufallsmyndin: »á Bátsendum« sé afbökun úr þágufallsmyndinni: að Bátsundum (af: sund). Það nafn hefði getað átt við sjávarsund þar fyrir framan. Og alkunnugt er, að bæjarnöfn og önnur örnefni eru langoftast nefnd í þágufalli hér á landi. Verður það því jafnan, eí þágufallið afbakast, að sú afbökun verður ósjálfrátt fram einnig í öðrum föllum.

Þórshöfn

Þórshöfn

Þórshöfn.

heitir vík ein, löngum spöl fyrir innan Bátsenda.

Hallgrímshellan

„Hallgrímshellan“ í geymslum Þjóðminjasafnsins.

Þar er þrautalending og óbrigðul höfn í öllum norðlægum áttum. Þó eru þar engin mannvirki að sjá, enginn vottur þess, að þar hafi bygð verið, enda er engin sögn um það. En því get eg Þórshafnar, að mér þykir það líklegt, að sveitarnafnið »Hafnir* sé þannig myndað, að miðað hafi verið við Þórshöfn og Kirkjuhöfn, sem eru andspænis hvor annari út með Hafnavík, sín hvorumegin. Mun þeirri sveit hafa verið tileinkað alt svæðið milli þessara hafna.

Milli Bátsenda og Þórshafnar var mér vísað á vörðubrot, er steinnværi í með áhöggnu fangamarki Hallgríms Péturssonar og ártali. Það er og svo; fangamarkið er HP; en ártalið er 1728.

Kirkjuvogur

Gamli Kirkjuvogur

Gamli Kirkjuvogur – uppdráttur ÓSÁ.

hefir til forna staðið langt inn með Ósum að norðanverðu. Ósarnir eru sem dálítill fjörður, sem gengur til austurs inn úr Hafnavík. Inst skiftist hann í smávoga, og kallast þeir Ósabotnar. Er löng bæjarleið frá Þórshöfn inn að KirkjuVógi forna. Þar sem bærinn var, er rústabunga mikil. Þar er alt nú blásið hraun, þó er rústin að nokkru leyti grasgróin. Er eigi hægt að sjá grein á húsaskipun og eigi sést með vissu hvar kirkjan hefir verið. En kunnugir menn vita það, því mannabein hafa fundist þar, er kirkjugarðurinn blés upp. Voru þau flutt að Kirkjuvogi. Var það nálægt aldamótunum 1800, að bein voru síðast flutt þaðan, en sagt er að nokkuð hafi verið flutt áður, smátt og smátt.“

Heimild:
-Árbók Hins ísl. fornleifafélags, 01.01.1903, Rannsókn í Gullbringusýslu og Ánessýslu sumarið 1902 eftir Brynjúlf Jónsson, bls. 39-41.

Ósabotnar

Ósabotnar – götukort.

Garðahverfi

Skúlastaðir var frumbýli Garða á Álftanesi.

Garðar

Garðar á Garðaholti í Garðahverfi.

Ingólfur Arnarsson, er fyrstur norrænna manna nam Reykjanesskagann, ánafnaði frændfólki, vinum og venslafólki er á eftir honum komu landkostum úr landnámi hans. Ásbjörn Össurarson, bróðurson Ingólfs, nam land milli Hraunholtslækjar og Hvassahrauns. Álftanes allt, og bjó á Skúlastöðum. Hans son var Egill, faðir (Össurar, föður) Þórarins, föður Óláfs, föður Sveinbjarnar, föður Ásmundar, föður Sveinbjarnar, föður Styrkárs (101. kafli Landnámu (Sturlubók). Skúlastaðir voru utan í hæðardragi ofan fjarðar gegnt Hvaleyri.
Skúlastaðir áttu kúaselstöðu í Litlumýri á Bessastaðanesi, auk sauðaselstöðu í Helgadal. Ásbjörn reyndi, líkt og aðrir landeigendur, að gera nágrönnum sínum mörk jarðarinnar ljós er á var herjað og nefndi í því sambandi vænlega gróninga eina með lækjarfarvegi úr Markraka á ystu mörkum hennar; „Skúlatún“, ókunnugt um að u.þ.b. 70 árum síðar áttu eftir að koma upp jarðeldar í Grindarskörðum er létu hraun renna niður hlíðarnar er nánast eyddu gróningunum, nema þeim er hæst stóð – og sést enn.

Skílatún

Skúlatún norðanvert.

Skúlastaðir gætu ekki hafa verið í Skúlatúni því allir bæir landnámsmanna á Reykjanesskaganum voru við sjávarsíðuna.

Hefur hóllinn sá hæsti æ síðan verið nefndur „Skúlatún“, til minningar fyrsta ábúandans. Hafur-Björn og bræður hans, afkomendur Molda-Gnúps, sem hafði byggt Krýsuvík (þar sem nú er Húshólmi undir (G)Núpshlíð, höfðu þá ásælst jarðnæðið, enda skammt norðan landamerkjanna, auk þess Molda-Gnúpur þótti lítt friðvænlegur.
Þegar selstaðan í Litlumýri lagðist af fékk afkomandi Skúla, Bessi, aðstöðuna til afnotar og byggði sér þar nálægan bæ, sem jafnan hefur verið nefndur „Bessastaðir“. Í nútíma hefði sá bær jafnvel mátt heita „Guðnastaðir“ eða „Höllustaðir“.

Urriðakot

Urriðakot – fornleifauppgröftur neðan bæjarins; forn sel frá Hofstöðum.

Annar afkomandi fékk Hofsstaði. Sá hafði kúaselstöðu við Urriðavatn og fjársel við Grunnuvötn.
Vífill, einn þræla Ingólfs, hafði fengið Vífilsstaði. Sá hafði í seli ofan Hlíða, þar sem nú eru tóftir Víðistaðasels.

Garðar

Garðar – Túnakort 1918.

Þegar fram liðu stundir eftir árþúsundið var kirkja reist á frumbýlinu. Húsráðendur, prestarnir fýsti lítt að kenna bæinn við heiðingjann þann er hann fyrst byggði, enda fátt þá til vitneskjunnar fyrrum. Þegar þar var komið höfðu nokkur kotbýli, búin leiguliðum, byggst upp í kringum bæjarstæðið. Einstaka ábúendur töldu ráðlegt að afmarka skika sína með garðshleðslum. Prestinum fannst að sér sorfið og fyrirskipaði slíkt hið sama svo enginn kotbændanna yrði í vafa um hvar mörk stórbýlisins væri versus þeirra. Varð þá til bæjarnafnið „Garðar“, enda þá orðið nauðsynlegt að aðskilja hinn forna sið frá hinum „nýja“.

Bessi reyndist drjúgur umfram efni, kom á fót ágætu búi og vildi láta að sér kveða. Hafði hann frumkvæði að því að Álftanesbændur sammæltust um selstöður í Selgjá, norðan Helgadals. Garðabóndi færði þá selstöðu sína úr Helgadal að Kaldá.

Magnús Már Lárusson

Magnús Már Lárusson.

Magnús Már Lárusson, prófessor, skrifaði grein í jólablað Alþýðublaðs Hafnarfjarðar árið 1960. Greinin var framhald greinar hans í blaðið árið 1957 er nefndist “Sitthvað um Fjörðinn”. Þar skrifar hann m.a. um Skúlastaði.
“Elzta saga byggðar á Reykjanesskaga er halla óljós og gloppótt. Heimildir eru fáar og stangast iðurlega á. Náttúruhamfarir, eldgos og landbrot hafa geisað án þess að setja teljandi spor í heimildir. Og örnefni hafa týnzt eða breyzt.
Í sóknarlýsingu sinni segir síra Árni í Görðum um eyðijarðir, að hann viti ekki um neina, “nema það skyldu vera Skúlastaðir, sem mælst er hafi verið jörð áður fyrr meir, og hvar af skuli finnast minjar uppi í hrauni, suður frá Hvaleyri.” Það er sorglegt að hann skuli ekki tilgreina staðsetninguna skilmerkilegar.“

Selgjá

Selgjá – uppdráttur ÓSÁ.

Svæði þetta er stórt mjög, en Jarðabók Árna Magnússonar segir, að staðurinn í Görðum eigi selstöðu, þar sem heitir við Kaldá, og eru þar bæði hagar og vatnsból gott. Í öllum máldögum Garða er svæði þetta nefnt; “Afrétt í Múlatún”, t.d. DI iv 108, vi 123, xv 638 og var síra Árna þetta kunnugt, enda er pláss þetta í Garðalandi. Skúlatún er vafalaust afbökun úr Múlatúni.”

Sé lýsing Brynjólfs frá Minna-Núpi í Árbók fornleifafélagsins 1908 [1903] athuguð, þá er hún ekki sannfærandi um, að þar hafi býli verið. Enda eigi heldur lýsing Þorvalds Thoroddsen í Ferðaból I.

Þekktustu staðir á Álftanesi eru Bessastaðir og Garðar. Í Landnámu er tveggja jarða getið innan þess svæðis sem Garðabær nær til. Ásbjörn Özurarson, bróðursonur Ingólfs Arnarsonar, er sagður hafa búið á Skúlastöðum, en Garðakirkja nam síðar land milli Hraunsholtslækjar og Hvassahrauns og Álftanes allt.

Vífilsstaðir

Vífilsstaðir – loftmynd 1954.

Eru munnmæli um að Skúlastaðir hafi verið ein jörðin en hin jörðin hafi verið Vífilsstaðir, eða Vífilstóftir, sem þó telst ekki til hinna eiginlegu landnámsjarða, en hún var byggð af Vífli. Vífilsstaðir munu fljótlega eftir landnám hafa komist í eigu kirkjunnar, fyrst Viðeyjarklausturs, en árið 1558 eignaðist Garðakirkja jörðina.
Talið er að kirkja hafi verið að Görðum á Álftanesi allt frá því að kristni var lögtekin á Íslandi árið 1000. Garðakirkju er fyrst getið í heimildum um 1200 í kirknamáldaga Páls biskups Jónssonar.

Bessastaðanes

Bessastaðanes – uppdráttur ÓSÁ.

Í „Bessastaðaannáli“ forsetaskrifstofunni frá 1968 segir um Skúlastaði:
Landnámabók segir að Ásbjörn Össurarson, bróðursonur Ingólfs Amarsonar, hafi numið land milli Hraunholtslækjar og Hvassahrauns, Álftaness allt, og búið að Skúlastöðum.

Bessastaðir eftir Tryggva Gíslason, lektor. Útvarpsþáttur fluttur 30. júní 1968 Sá, sem nam Álftanes, hét Ásbjörn Özurarson, bróðursonur Ingólfs. Bær hans er sagður hafa heitið á Skúlastöðum, en það bæjarnafn er ekki lengur til í hinu forna Landnámi Ásbjarnar milli Hraunsholtslækjar og Hvassahrauns, en í hrauninu undir Lönguhlíðum, suðaustan Hafnarfjarðar, heitir lítill grasgeiri Skúlatún og hraunið þar norður af Skúlatúnshraun, en óvíst er með öllu, að það eigi nokkuð skylt við hið forna bæjarheiti á Álftanesi, Skúlastaði.
Engar spurnir fara af manni þeim, Bersa eða Bessa, sem Bessastaðir gætu heitið eftir.

Garðaholt

Garðaholt – jarðnæði.

Garðakirkja í Görðum á Álftanesi er sóknarkirkja Garðasóknar. Kirkja hefur staðið í Görðum frá fornu fari. Garðakirkja var frá upphafi Péturskirkja en algengt var, er menn fóru að reisa kirkjur hér á landi eftir kristnitöku, að þeir helguðu kirkjur sínar Pétri postula. Máldagar greina frá, að Bessastaðakirkja sé í fyrstu talin Maríukirkja og síðar Nikulásarkirkja, og bendir það til þess, að Garðakirkja sé eldri. Í þessu felst skýr ábending um háan aldur hennar, því svo miklar eignir hlóðust ekki á kirkjur yfirleitt nema þá á all löngum tíma. Sterk rök virðast því hníga að því, að Garðar séu hin forna landnámsjörð Ásbjarnar Össurarsonar, bróðursonar Ingólfs Arnarsonar, og jafnframt með elstu kirkjustöðum þessa lands.

Heimildir m.a.:
-forseti.is
-alftanes.is
-Úrval, 11. hefti 01.11.1968
-https://timarit.is/page/8005106?iabr=on#page/n51/mode/2up
-Aðalheimild: Vilhjálmur Þ. Gíslason: Bessastaðir, Reykjavík 1947.
-https://gardasokn.is/gardakirkja/
-Forsetakynning, 2. tbl. 10.06.1968.
-https://timarit.is/page/5374305?iabr=on#page/n0/mode/2up
-Magnús Már Lárusson, Enn úr Firðinum, Alþýðublað Hafnarfjarðar (jólablað) 1960, bls. 4-5.

Garðahverfi

Garðahverfi – bæir.

Kjós

Tvö skilti eru við þjóðveginn ofan Hvítaness í Hvalfirði. Annað er um „Hernaðarumsvif í Hvalfirði í síðari heimsstyrjöldinni“ og hitt „Útsýni frá Hvítanesi„.

Kjós

Hvítanes – skilti.

Á skiltinu um „Hernaðarumsvif í Hvalfirði í síðari heimsstyrjöldinni“ má lesa eftirfarandi texta: „Hvammsvík var miðstöð Bandaríkjaflota með skotfærageymslur herskipa og tómstundaheimili sjóliða. Í Hvammsey var tómstundaheimili fyrir sjómenn á kaupskipum. Þeir fengu ekki annað landgönguleyfi enda Hvalfjörður skipalægi en ekki viðkomuhöfn. Stjórnstöð á Hvammshöfða stýrði umferð skipa og úthlutaði legustöðum í firðinum. Skipalægi kaupskipa var utan við Hvammsvík.

Kjós

Hvammsvík á stríðsárunum.

Bækistöð Bandaríkjaflota, Falcon Camp, var í Hvammsvík (Falcon Landing). Bretar settu upp loftvarnabyssur og reistu skálahverfi í Hvammshólum sem Bandaríkjaher tók síðan við. Lengst til vinstri eru byssustæðin, þá íbúðarskálar og tómstundaheimili sjóliða, vöruskemmur og tómstundaheimili liðsforingja austast. Sunnan vegar stendur stjórnstöð skipalægisins á Hvammshól og skotfærageymslur flotans til hægri. Á Miðsandi og Litlasandi handan fjarðarins stóð stór eldsneytisbirgðastöð sem þjónaði skipum bandamanna og herliðinu á Íslandi.

Kjós

Hvítanes á stríðsárunum.

Hvítanes var bækistöð breska flotans. Á nesinu voru 250 byggingar; birgðageymslur, verkstæði, íbúðarskálar, spítali og annað til þjónustu við herskipaflotann, ásamt kvikmyndahúsi, verslun, veitingastofu og tómstundaheimili fyrir sjóliðana. Einnig verkstæði til viðhalds kafbátagirðingar og tundurduflalagnar sem vernduðu skipalægið. Viðgerðar- og birgðaskip lágu innan við Hvítanes og önnuðust viðhald herskipa ásmat öflugri flotkví. Gat þar oft að líta stærstu bryndreka veraldar sem vernduðu skipalestir fyrir orrustuskipum þýska flotans í Noregi.

Kjós

Vagn frá Hvítanesi.

Akvegir og lítil járnbraut með flutningavögnum lágu um nesið og þar var rafstöð og götulýsing, vatnsveita, fjarvarmaveita og fráveitulögn. Stálbryggja var gerð til að landa netum og búnaði kafbátagirðingarinnar við Hvalfjarðareyri sem þarfnaðist stöðugs viðhalds. Skip voru einnig afgreidd við bryggjuna en flutningabátar notuðu steinbryggju á vestanverðu nesinu.

Kjós

Hvítanes – skilti.

Hvalfjörður var mikilvæg flotabækistöð í síðari heimsstyrjöld. Kaupskip frá Bretlandi og Bandaríkjunum söfnuðust saman í Hvalfirði til siglingar í skipalestum um afar hættulega leið til rússneskra hafna. Þýskar könnunarflugvélar lögðu stöðugt leið sína með ströndum landsins en bandarískar orrustuflugvélar grönduðu fjórum þeirra í grennd við Hvalfjörð. Bandaenn náðu yfirhöndinni í baráttu við þýska kafbátaflotann á Atlantshafi 1943. Síðasta herliðið yfirgaf bækistöðvar sínar í stríðslok og var tundurduflagirðingu við Hálsnes eytt með sprengingu en kafbátagirðingu við Hvalfjarðareyri sökkt í fjörðinn.“

Á skiltinu „Útsýni frá Hvítanesi“ er eftirfarandi texti: „

1. Hvammsvík

Kjós

Hvammsvík – skipalægi.

Í Hvammsvík fæddist Loftur Guðmundsson (1892-1952) ljósmyndari. Hann gerði fyrstu íslensku talmyndina, Milli fjalls og fjöru, sem var m.a. tekin upp í Kjós á 5. áratug 20. aldar. Myndin var frumsýnd árið 1949.

2. Saurbær

Kirkjustaður og prestsetur, kunnast af dvöl sálmaskáldsins Hallgríms Péturssonar (1614-1674), en hann var prestur og orti Passíusálmana. Hallgrímskirkja í Saurbæ er helguð minningu séra Hallgríms.

3. Ferstikla

Kjós

Útsýni yfir Hvalfjörð frá Hvítanesi.

Landnámsjörð. Fjórir af fimm tindum Botnssúla sjást þaðan og er talið að nafnið sé dregið af því. Þar dvaldi séra Hallgrímur Pétursson síðustu æviárin og andaðist þar.

4. Miðsandur

Hvalfjörður

Hvalfjörður – herstöðin á Miðsandi.

Bandaríkjamenn reistu olíubirgðastöð í landi Miðsands og Litlasands í síðari heimsstyrjöld. Á Miðsandi var jafnframt birgðastöð vegna skipaviðgerða. Stöðin var starfrækt áratugum saman í þágu varnarliðsins ásamt hvalstöð sem hóf rekstur árið 1948 og var árið 2009 aftur í rekstri eftir 20 ára hlé. Þarna er enn braggahverfi frá því í heimsstyrjöldinni síðari.

5. Geirshólmi

Kjós

Geirshólmi í Hvalfirði.

Kletthólmi sem segir í harðar sögu Grímkelssonar að ránsmannahópur undir forystu Harðar Grímkelssonar hafi dvalist um skeið. Byggðamenn hafi síðan ginnt Hólmverja í land með loforðum um sættir en svikið þá og fellt þá alla.
[Allir, sem í land komu að ráðum byggðamanna, voru felldir. En það voru allir er trúðu loforðum þeirra.]

6. Þyrill

Þyrill

Þyrill í Hvalfirði.

Sérkennilegt hömrum girt basaltfjall, 399 m. Þar finnast margar tegundir sjaldgæfra geislasteina. Í fjallið er klauf, Helguskarð, sem sagan segir að helga Jarlsdóttir hafi klifið upp með syni sína á flóttanum eftir víg Hólmverja þegar hún hafi synt með þá til lands úr Geirshólma. Undir fjallinu er samnefndur bær er kemur við harðar sögu. Í Þyrilsklifi er unnið líparít til sementsgerðar.

7. Botnsá

Botnsá

Botnsá.

Í Botnsá er fossinn Glymur, um 200 m, hæsti foss landsins. Þar eru vinsælar gönguleiðir. Við Botnsá eru sýslumörk Gullbringu- og Kjósarsýslu og Borgarfjarðarsýslu.

Á Hvítanesi má enn sjá mannvirki breska flotans frá umsvifum hans í Hvalfirðinum í seinni heimsstyrjöldinni. Umsvif hersins voru mikil í Hvalfirði og höfðu í för með sér mikla röskun á lífi fólks í nágrenninu. Sumir fengu vinnu hjá hernum. Innan við Hvítanes eru leifar af tröppum sem gerðar voru þegar Winston Churchill kom til landsins árið 1941. Mannvirki hersins voru rifin að loknu hernámi.“

Hvítanes

Hvítanes – leifar hernaðarmannvirkjanna.

Reyndar voru ekki öll mannvirki hersins rifin, þau voru flest fjarlægð til þjóðþrifa og notuð til útihúsa, fjósa, geymsla, verkstæða og jafnvel mannabústaða víðs vegar um land. Eftir stóðu hlaðin hús, sem síðan hafa ýmist verið rifin með stórvirkum vinnuvélum eða verið látin drabbast niður þar sem tímans tönn hefur náð að jafna þau við jörðu.

Kjós

Hvítanes – skilti.

Gullbringu- og Kjósarsýsla

Í útgáfu Sögufélagsins um „Gullbringu- og Kjósarsýslu; sýslu- og sóknarlýsingar“ má m.a. lesa um örnefni, atburði o.fl. í sýslunum á árunum 1839-1855.

Útgáfa Sýslu- og sóknalýsinga Gullbringu- og Kjósársýslu markaði upphaf endurútgáfu Sögufélags á Sýslu- og sóknalýsingum Hins íslenska bókmenntafélags sem lengi höfðu verið ófáanlegar. Guðlaugur R. Guðmundsson sagnfræðingur og Svavar Sigmundsson rannsóknarprófessor við Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum annast undirbúning útgáfunnar.

Gullbringu- og Kjósarsýsla.
Í bókinni eru ítarlegar upplýsingar á sýslunni og flestum sóknum hennar, skrifaðar af staðkunnugum mönnum á fyrstu áratugum nítjándu aldar, áður en nútíminn gekk í garð, og í henni eru birtar myndir af kirkjum og nokkum höfundanna. Í viðauka eru sýnd sóknarmörk og gamlar götur eftir korti Björns Gunnlaugssonar frá 1844. Sýslu- og sóknalýsingar Gullbringu- og Kjósársýslu eru grundvallarrit um örnefni og lýsingar á fornum leiðum á svæðinu og kjörið rit fyrir þá sem unna sögu og staðfræði á suðvesturhorni landsins.

Landnám

Landnám Ingólfs – skipting.

Stutt lýsing á Gullbringu- og Kjósarsýslu – Þórður Jónasson [1852]
-Geir Backmann – Grindavík 1840-’41
-Brandur Guðmundsson – Lýsing á Höfnum
-Sigurður Sívertsen – Útskála- og Kirkjuvogssóknir 1839
-Pétur Jónsson – Kálfatjarnarprestakall 1840
-Árni Helgason – Garðaprestakall 1842
-Stefán Þorvaldsson – Lýsing á Mosfells- og Gufunessóknu 1855
-Sigurður Sigurðsson – Lýsing á Reynivallasókn 1840

Formáli

Jónas Hallgrímsson

Jónas Hallgrímsson.

„Hefst þá meginsform þessa bindis, en það eru sýslulýsingar og sóknalýsingar þær, sem gerðar voru að tilhlutun Hins íslenska bókmenntafélags. Aðalhvatamaður þessa verks var skáldið Jónas Hallgrímsson, er hugðist þannig að safna efni til ýtarlegrar og nákvæmlegrar Íslandslýsingar, sem hann hafði ætlað sér að semja, en entist ekki aldur til.

Boðsbréf og spurningar frá deild Hins íslenska bókmenntafélags í Kaupmannahöfn til sýslumanna og presta á Íslandi 1839.
Spurningarnar voru:

Í fyrsta lagi:

1. Afstaða og stærð landsins.
2. Landslag.
3. Haf og vötn.

Íslandskort

Íslandskort 1824.

4. Veðráttufar og loftslag.
5. Auðæfi náttúrunnar.
6. Kynferði og eðlisfar þjóðarinnar.

Í öðru lagi:
1. Landsbyggð allt frá landnámstíð.
2. Læknisdæmi.
3. Veraldleg skipan allt frá landnámstíð.

Í þriðja lagi:
A. Uppruni og forlög þjóðarinnar (almennt yfirlit).
B. Þjóðarlýsing.
C. Landsstjórnarsagan.

Þórður Jónason: Stutt lýsing á Gullbringu- og Kjósarsýslu 1852

Þórður Jónason

Þórður Jónason.

„Sýslur þessar hétu fyrrum Kjalarnesþing, og eru þær báðar eitt prófastdæmi og sami sýslumaður í þeim báðum; heitir hann héraðdómari í Gullbringusýslu, en sýslumaður í Kjósarsýslu.
Gullbringusýsla er að landslagi frábrugðin öðrum sýslum í landinu. Hún er mestmegnis hraun og melar; þar vantar víða sauðfjár- en alls staðar kúahaga; útheyisslægjur eru engar og utantúns lítið og allvíðast ekkert graslendi. Þar eru engar ár og einungis 3 lækir í allri sýslunni. Atvinnuvegur sýslubúa er því einkum fiskiveiði, og sækja þangað og margir úr öðrum sveitum á vetrarvertíðinni, bæði úr Norðurlandi og úr Árnessýslu. Nafnkenndustu veiðistöðvar eru Vogar, Njarðvíkur (Norðvíkur) og Hafnir.
Gullbringusýsa er íll yfirferðar og vegirnir bæði krókóttir og slitróttir. Bæirnir standa með sjónum og byggðin er hvergi tvésett, og sýslan er þannig öll á lengdina.

Draugatjörn

Draugatjörn – sæluhúsið.

Í Kjósarsýslu, sem Elliðaár aðskilja frá Gullbringusýslu, eru landskostir þar á móti góðir, víðast nægar slægjur og mikið graslendi, móskurður góður, torfrista og hagar vetur og sumar og hægt til allra aðdrátta, og má að vísu telja Kjósarsýslu í þessu tilliti með hinum bestu sýslum á landinu.
Innan sýslu eru engir fjallvegir, nema ef telja skyldi Svínaskarð milli Kjósar og Mosfellssveitar, sem mun vera hér um bil 2 mílur bæja á milli.
Bæði Mosfells- og Hellisheiði eru býsna langir fjallvegir og vandrataðir á vetrardag. Eru því vörður reistar og sæluhús byggð á heiðum þessum, eitt á Mosfellsheiði, en 2 á Hellisheiði handa ferðamönnum, og eiga þeir oft náttstað á Hellisheiði í sæluhúsum þessum, þegar þá dagar uppi á leiðinni. Torfærur eru engar á vegum þessum, nema menn villist af réttum vegi, en þá kvað ferðamönnum hætta búin, einkum á Hellisheiði, þegar fara skal niður af heiðinni, því heiðin er mjög brött að austanverðu.

Grindavík – Geir Backmann 1840-’41
Gullbringu- og Kjósarsýsla
Takmörk sóknarinnar eru að vestanverðu Valahnúkur, sem aðskilur bæði land og reka Hafna og Grindavíkur. Á Selatöngum er drangi eða klettur í fjörunni, Dagon kallaður, og skilur hann bæði land og reka Krisi- og Grindavíkur.

Staður

Staður 1925.

Í Grindavíkursókn eru einasta 7 aðalbýli, en hina bæina köllum vér hjáleigur, og eru þær nú á tímum 13 byggðar. Hinn fyrsti og vestasti bær í sökninni er Staður. Stekkjarveg í landnorður frá Stað er annað aðalbýlið Húsatóttir. Hið þriðja býlið er Járngerðarstaðir. Fjóra býlið er Hóp. Hið 5ta býlið eru Þorkötlustaðir. 6ta aðalbýlið er Hraun. Á milli Hrauns og hins 7da býlisins, Ísuskála, alii Ísólfsskála, sem er austasti bærinn í sókninni, er hið minnsta 1 1/4 míla, því nú verður að afra almenningsveg upp svo kallað Hálsa.

Geir Backmann

Geir Backmann.

Það er vel að merkja við allar jarðir í sókn þessarri, að þær árlega að segja má, ganga af sér bæði til lands og sjávar, sumar af sjó og sandfoki, t.d. Staður, Hraun og Þorkötlustaðir, af sandfoki Húsatóttir, af sjávargangi Járngerðarstaðir, Hóp og Ísuskáli, en við hvertveggi mætti þó með pössun og atorku mikið gjöra.

Staður á selstöðu á Selsvöllum. Selsvellir eru héðan í landnorður upp í fellum, og er Keilir, þegar í sel þetta er komið, rétt í útnorður. Stendur selið í Strandarmannalandi eður fyrir norðan Grindavíkur landamerki. Þar er allgrösugt, en bíst fljótt upp, því allir bæir í sókninni nema Hraun hafa þar í seli, og þó að engu goldið Staðarprestinum. Vilja menn hér gjöra þess selstöðu almenning, og þyrfti þó ei að vera. Litlu vestar en Selsvellir er selstaða frá Hrauni; hér er árlega haft í seli frá bæ þessum, og eru landamerkin milli seljanna í svoköllum Þrengslum.

Selsvellir

Selsvellir – sel Grindvíkinga; uppdráttur ÓSÁ.

Flestir bæir í Grindavík hafa haft í seli einhvers staðar til fjalla; er mér sagt, að vatnsleysi olli því, að allar þær eru afræktar og getur vel verið sannleiki. Sú mun og orsök, að allir hafa þyrpst á Selsvelli, því þar er dálítill rennandi lækur rétt við selið. Vanalegt er að reka sel í 8du v(iku) sumars, og aftur úr því 16 eða síðast 17 v(iku) af sumri, nema óþerrir hafi hamlað fólki að ná töðum af túnum sínum. Ekkert er hér afréttarlandM allt fé ungt og gamalt, lömb og sauðir er rekið í selið og þar smalað á hverju máli; lömbin eru kefluð.
Hér skulu hvergi finnasdt nokkrar fornmannaleifar, nema ef væru nokkur garðlög úti um hraun, sem ég ímynda mér helst gjörð umkring gamalla manna beitiland. Ekki veit ég að fornleifar hér fundnar og því ekki heldur vera hér í nokkurs manns geymslu.
Ég óska, að línur þessar mættu koma að því gagni, sem til er miðað.“

Lýsing á Höfnum – Brandur Guðmundsson
Gullbringu- og kjósarsýsla
Byggð þessi er við sjóinn, hvar Kirkjuvogsósar byrja; er sjór fyrir vestan og norðan, en Ósarnir liggja til austurs landnorðurs, eru um hálfa viku sjávar að lengd með skerjum víða. [Í Jarðabók ÁM segir, að Gamli Kirkjuvogur hafi legið í auðn lengur en 120 ár 1703, en það bæjarstæði var í Kirkjuvogslandi.

Gömlu-Hafnir

Gömlu-Hafnir – Kirkjuhöfn, Sandhöfn og Eyrarhöfn; uppdráttur ÓSÁ.

„Heyrt hefi eg, að þær 3 jarðir Stóra- og Litla-Sandhöfn og Kirkjuhöfn hafi lagst í eyði, að kirkja hafi staðið þar, eftir að jörðin lagist í eyði, en ofnaumt mun tilnefnt tímatalið á annað hundrað ár síðan [hefir lagst í eyði um 1660, því tilnefnd Ingigerður sál. vissi aðeins til, að uppblásin mannabein í hennar minni hefðu verið flutt til Kirkjuvogskirkju og lögð í kirkjugarð, og eru þó síðan full 100 ár… – Á sama aukablaði getur Brandur og þess, að hann hafi á „landcommissiþingi á Járngerðarstöðum 1801 séð í bók hjá commissariis Kirkjuvog nefndan fyrir norðan Ósa ár 1516, sem mig minnir og þar í getið eyðijarða Haugsenda hér og Arnargerðis“].

Gamli-Kirkjuvogur

Gamli-Kirkjuvogur – kirkjugarður.

24 geirfuglum alls á skip langmest, en optast 5 til 8, en seinustu 2 vorin hafi hann ekki sést.
Engar vita menn þar fornmenjar í jörðu eða á, en steinkol meina menn vera á Reykjanesi.
Þetta er þá sú upplýsing, er eg get í stuttu máli meðdeilt yður, prestur minn góður, í því áður umtalaða og bið eg yður auðmjúklega að virða, en skyldi þurfa nokkru við að bæta, vilda eg að því leyti get sýna viljann, en bið auðmjúklega leiðréttingar á missmíðinni og yfirsjónum.“

Útskálaprestakall – Sigurður B. Sívertsen 1839
Gullbringu- og Kjósarsýsla
Útskálaprestakall inniheldur 3 aóknir, nl. Útskála, Hvalsness- og Kirkjuvogssóknir; þær 2 síðari voru lagðar við 1811.
Takmörk milli Útskála- og Kirkjuvogssóknar er Háaleiti, milli Hvalsness- og Kirkjuvogssóknar Ósar þeir, er skerast inn í austur-landnorður, og þaðan upp að Háaleiti. Á millum Útskála- og Hvalsnessóknar eru engin örnefni, sem sóknir skilja.
Í Útskálasókn eru þessi byggðalög: Keflavík, Leiran, Stórihólmur, Gufuskálar (landnámsjörð) og Rafnkelsstaðir.

Kirkjuból

Kirkjuból – grafstæði.

Fyrir sunnan Skagann kemur Nesið, sem liggur suður með sjónum. Þar var í fyrri daga höfuðból, sem Kirkjuból heitir, sem nú að mestu má heita komið í eyði. Á Kirkjubóli var áður hálfkirkja eða bænahús, sem síðar var af tekið. Eftir máldögum átti Péturskirkja að Kirkjubóli xl hndr. í heimalandi, fjórðung í Geirfuglaskeri og viðreka allan á Skarðaurð. (Á Kirkjubóli var junkherra Ívar Hólmur drepinn af biskupssveinum í Skálholti 1443. Líka Kristján skrifari í hefndir eftir Jón biskup Arason, voru þeir, sem Norðlingar drápu, dysjaðir fyrir norðan túngarð á Hafurbjarnastöðum, hafa bein þeirra í núverandi manna minnum blásið upp úr sandinum.

Hvalsneskirkja

Hvalsneskirkja.

Flangastaðir er jörð. Hennar er getið í Landnámu, og mælt, að Flangur, sem fyrstu skyldi hafa byggt hana, sé heygður þar í túninu; er grjót umhverfis leiði hans, ef tilhæfi er í.
Á Býjaskerjum var áður kirkja, sem um er geið í Vilchins-máldaga, og kennd er við Ólaf kóng helga; er haldið, að hún hafi staðið á svonefndum Kirkjukletti.
Sunnar, í fullt útsuður, stendur Hvalsnes. Þar er snotur timburkirkja, annexía frá Útskálum. Hvalsneskirkja var fyrst byggð og vígð 1370, með þeim máldaga.
Syðst liggja Bátssandar, gamall kaupstaður, sem fór í stórflóði, sem síðan er kallað Básendaflóðið. Það var árið 1799, nóttina m(illi) 8. og 9. jan.

Þórshöfn

Þórshöfn – áletranir á klöpp; flestar frá um og eftir 1880.

Sunnar með sjónum liggur Þórshöfn; það er mjó vík, sem þýskir höfðu lagt inn skipum sínum, þá þeir höfðu verslun.
Tveir liggja alfaravegir útúr sókninni, sem nefnast Sandgerðis- og Hvalsnesvegur. Liggja þeir báðir inn í Keflavík; kemur sá fyrri á Garðveg skammt fyrir innan Keflavík, en hinn liggur beint að sunnan og byrjast við Melbergsá. Til er líka gamall vegur, sem aflagður er, frá Stafnesi og suður með sjó, inn fyrir Ósa og suður í Hafnir; það er gamall kaupstaðavegur frá Bátssöndum; er hann grýttur og langur.

Sigurður Sívertssen

Sigurður Sívertsen.

Sunnan við Kalmanstjörn er Sandhöfn, eyðijörð, sem af lagðist og fór í eyði vegna sandsfoks, því ekkert sést eftir nema lítið af hól, hvar bærinn skyldi hafa staðið. Sunnar er Eyrin, fyrir innan Hafnarberg. Þar var bær og útræði fyrir rúmum 50 árum síðan.
Sunnar eru Skjótastaðir, sem meint verið hafi ein eyðijörð, enda er í mæli, sem satt mun vera, að allt Reykjanes hafi fyrr meir byggt verið.
Sunnar eru Valhúkar, sem er bergnös há, þá Valahnúksmöl (við hvörja trjáviðaskipið mikla strandaði um árið, eða réttara sagt þau mörgu og stóru tré bárust að landi).
Eldey er stór klettur í hafinu í vestur frá Reykjanesi. Mest hafa fengist þar á seinni tímum 24 geirfuglar í einu, en í 2 skipti seinast ekki sést.
Af fornleifum veit ég öngvum innan þessara <sókna> merkilegum. Steinn er eða klettur, sem stendur í svo nendu Kistugerði nálægt Rafnkelsstöðum með áklöppuðum rúnastöfum. Ekki hafa menn getað lesið úr þeim, en hafa þó oft verið af teiknaðir. (Líklega er það frá seinni tímum og skammstafað eða bundið mannsnafn).

Kistugerði

Kistugerði – rúnasteinn.

Að þar skammt frá sé heyður Rafnkell sá, sem jörðin er kennd við, eru munnmæli, sem við ekkert hafa að styðjast.)
Á Flangastöðum eða þar í túni nálægt Klöll er grjóthrúga, líkt sem dys. Þar hafa gamlir menn sagt, að heygður væri Flangur sá, sem í landnámstíð mundi fyrstu byggt hafa þá jörð, eða sem hún nefnist eftir. Annað dys eða haug þykjast menn geta séð í túni á Nesjum, sem áður lá til Másbúða, og segir fólk, að þar liggi undir Már sá, sem fyrstur hafi byggt Mársbúðir. Því er líka bætt við munnmæli þessi, að Katla hafi heitið kona hans, skörungur mikill. Annar haugur sé og í túninu, undir hverjum að liggi smali Márs.
Þetta, í flýti saman tekið og uppskrifað, en þó sem sannleikanum næst og nákvæmast sem orðið gat, biður undirskrifaður félagið vel að virða.“

Kálfatjarnarprestakall – Pétur Jónsson 1840
Gullbringu- og Kjósarsýsla
Takmörk Njarðvíkusóknar að utanverðu er skurður eður dæld, sem liggur beint frá heiði, rétt við höndlunarstaðinn Keflavík ofan við sjó; frá hans efri enda upp í heiðinni að Gömlu-Þúfu á svo kölluðu Háaleiti, af hvörju sjá má umhverfis 3já vegu í sjó.

Stekkjarkot

Brunnur við Stekkjarkot.

Hvergi er rennandi vatn, en brunnar grafnir, víðast slæmir og saltir.
Höfuðbæir í Njarðvíkum eru tveir; innri- og Ytri-Njarðvík; hinir eru afbýli, hjáleigur og kot.
kirkjan í Njarðvík, orðin altimburkirkja, á ekkert utan það hún á stendur, þar sem hún fékki ekki kirkjrétt fyrri en í Jóns biskups Vídalíns tíð, og Njarðvíkur áttu áður kirkjusókn yfir heiði, suður í Hafnir; varð fyrst annexía frá Hvalsnesi og þar eftir að Kálfatjörn.
Á Kálfatjörn er nýbyggð altimburkirkja.
Þetta er það helsta, sem ég get skýrt frá.“

Garðaprestakall – Árni Helgason 1842
Gullbringu- og Kjósarsýsla
„Álftanessveit, sem yfir grípur Garða- og Bessastaðasóknir, hefur að norðanverðu við sig Reykjavíkursókn, að sunnanverðu Kálfatjarnar.

Straumur

Óttarsstaðir/Straumur /Jónsbúð – örnefni og minjar; uppdráttur ÓSÁ.

Á næstliðnu sumri þóttist fyrrverandi kaupm(aður) í Keflavík A. Gunnarsson hafa fundið brennisteinsnámu í Hraunamannalandi, nálægt Stórhöfðastígsvegi, er enginn vissi af áður. Hann segist hafa sent út með kaupmanni Siemsen nokkuð af þessum fundið, en eg þekki ei dóminn.

Þessir bæir eru í Garðasókn: Syðst Lónakot, þá Óttarstaðir með tveimur hjáleigum, Straumur, Þórbjarnarstaðir með tveimur tómthúsum, Lambhagi. Allir þessir bæir heita einu nafni Hraunabæir. Nú kemur Hvaleyi með 5 hjáleigum; ei hafa þær allar grasnyt. Óseyri með tómthúsi. Ás með tíomthúsi. Ófriðarstaðir, Hamarskot. Sá eiginlegi Havnarfjarðarhöndlunarstaður tekur nú við. Þar var áður jörð tilheyrandi Garðakirkju, sem hét Akurgerði; nú sjást hennar ekki menjar. Þessi jörð var tekin frá Garðaprestakalli fyrir hálfa Rauðkollsstaði vestur í Hnappadalssýslu.

Hafnarfjörður

Herforningjaráðskort; Hafnarfjörður og Álftanes 1903.

Enginn veit nú, hvað mikið land Akurgerði fylgdi, og þingsvitni, sem tekið var nálægt 1790, gat engu orkað, það hefir dankað svona, að kaupmenn, sem eiga Akurgerði, eigna sér ströndina frá Fiskakletti og inn að Hamrakotslæk, og prestar í Görðum hafa eigi ákært. Á þessu petti eru nú þrjú höndlunaraðsetur, grossera Knutzons, Thomsens og Linnets.
Í Bessastaðasókn eru þessir bæir: Bessastaðir, Lambhús og Breiðabólstaðir.

Árni Helgason

Árni Helgason.

Ég veit ekki nema það, að Garðar eiga selstöðu í því sokallaða Kirkjulandi, sem liggur fyrir ofan byggðina, frá Elliðavatns- og Vatnsendalandi, suður að Krýsuvíkurlandi og upp undir fjöllin. Hitt veit eg og, að nú brúkar enginn hér selstöður, og séu Garðar undanteknir, sem höfðu pening í seli til 1832, hafa ei selstöðu héðan verið brúkaðar í næstliðin 50 a 60 ár.

Úr sókninni liggur vegur úr Hafnarfirði upp í Selvog, sem heitir Grindarskarðavegur. Syðst er Ólafsskarðsvegur, svo er Lágaskarð og loks Hellisheiðarvegur. Á þessum vegi eru, þá Hellisheiði er farin, 3 sæluhús; þeir, sem fara Lágaskarð, gefa haft gagn af einu þeirra, og af öðru þeirra þeir, sem fara Ólafsskarð. Hjá Arnarnesi liggur og vegur og til hægri handar, þá héðan er farð, upp úr Kópavogi inn að Helliám, sem kemur þar saman við alfaraveg allra austa, norðan- og vestanmanna, sem ferðast til Reykjavíkur. Við fleta þessa vegi er gjör árlega, brýr lagðar hér og hvar yfir bleytuflög, en vörður brúkast ei nema á fjallvegum og þó ei öllum. Á Hellisheiðar- og Lágaskarðsvegi eru Bolavellir, upp við fjallið, og Vötnin, nokkru nær byggðinni hérna megin, almennustu áfangastaðirnir. Helliskot er næsti bær á sama vegi hérna megin við fjallið, hinum megin Reykir eða Reykjakot.

Flókaklöpp

Flókaklöpp við Hvaleyri.

Fornleifar eru varla, að megi kalla. Skoðað hef eg klappir þær, sem eru utarlega á Hvaleyrarhöfða, og séð, að þær eru margvíslega útrispaðar (bergið er ekki hart). Mörg nöfn get eg þar lesið, sem voru alþekkt nöfn danskra og þýskra, og eru þessi nöfn líklega skrifuð þar af sjómönnum framandi þjóða, helst meðan kaupstaðurinn var þeim megin við fjörðinn, rétt eins og margir hafa grafið nöfn sín inní bergið í Rauðshellir, sem þangað hafa komið; sums staðar er hvað skrifað ofan í annað. Mögulegt er, að þeir, sem betur eru læsir, geti hér fundið rúnir.
Gerði tvö, sem sumir ætla, að séu dómhringir, finnast. Hið annað á Hofstöðum, hitt í Ráðagerðistúni, sem er næsti bær við Garða.

Lýsing á Mosfells- og Gufunessóknum – Stefán Þorvalddson 1955
Gullbringu- og Kjósarsýsla
Mosfellsprestakall er tvær kirkjusóknir, Mosfells og Gufuness.
Þrír liggja þjóðvegir um sóknirnar; 1. Vegur sá, er liggur norðan yfir Svínaskarð, sem er stuttur fjallvegur milli Kjósar og Kjalarness og Mosfellssveitar. – 2. Sá, er liggur austan yfir Mosfellsheiði og fram í Seljadal, niður hjá bæjunum Þormóðsdal, Miðdal og Reynisvatni og Árbæ, og 3ji vegurinn liggur suðaustan yfir Hellisheiði, fyrir sunna Helliskot og norðan Klapparholt og Árbæ.

Hraðaleiði

Hraðaleiði.

Fornmenjar eru hér fáar sem engar, hvörki rúnir eða myndir, húsatóftir eða dómhringar. En haugur einn er hér í dalnum, á landamærum milli Hraðastaða og Mosfells, á sléttu undirlendi við Suðurá, og er haugur sá nefndur Hraðaleiði. Hann er aflangur og snýr í norður og suður og ekki allstór. Það er mælt, að Hraði hafi verið þræll í fornöld, en hafi fengið frelsi, og hafi hann þá reist bæ sinn þarm er enn kallast Hraðastaðir, og sé þessi haugur yfir hann orpinn og við hann kenndur.“

Lýsing á Reynivallasókn – Sigurður Sigurðsson 1940
Gullbringu- og Kjósarsýsla
„Meðtekið hefi eg á næstl(iðnu) sumri ykkar heiðursverða og góða bréf til mín af 30. apríl f.á., áhrærandi það efni að svara upp á þær spurningar, sem bréfið hljóðaði upp á. En bæði varleysi þá í stað og sumarannir hindruðu mig frá því að sýna lit á að koma þessu í verk, síst í lagi nokkuð eftir óskum, sem þurfti, þar fáviska, aldurdómur og ókunnleiki, þar sem maður kemur gamall langt að, bægði mér að geta nákvæmari útmálan gefið en þessa.“

Heimild:
-Gullbringu- og Kjósarsýsla; sýslu og sóknarlýsingar Hins íslenska bókmenntafélags 1839-1855, Guðlaugur R. Guðmundsson og Svavar Sigmundsson, Sögufélagið 2007.

Gullbringu- og Kjósarsýsla

Kort Björn Gunnlaugssonar.

Leiruvogur

Í „Fornleifaskráningu um Skiphól og Varmárbakka 2020 vegna deiliskipulagsbreytinga“ má lesa eftirfarandi um Skiphól og Hestaþinghól, auk bæjarins Varmár í Mosfellsbæ.

Varmá

Varmá

Varmá – túnakort 1916

Jörðin Varmá kemur fyrir í heimildum þegar á 14. öld og var þar þá kirkja en hún lagðist af skömmu fyrir 1600. Jörðin er síðan nefnd í Fógetareikningum frá 1547-1552 og þá sem konungseign.

Varmá

Varmá – bæjarhóll.

Varmá var þingstaður og er fyrst getið sem slíks árið 1505.
Jörðin var áfram í konungseign við jarðaskráningu árin 1704 og 1847 og ábúendur tveir.

Varmá var svo lögð undir Lágafell um 1900.
Af Fasteignabókum má sjá að jörðin var ekki lengur í ábúð árin 1922-1932 og hefur ekki verið það síðan. Rústir gamla bæjarins eru greinilegar um 40-50 metra suðaustan og austan við Varmárskóla.

Varmá – Kirkja

Varmá

Varmá – uppgröftur kirkjutóftar.

Árin 1968 og 1969 fór fram fornleifauppgröftur að Varmá. Elsta tóftin, sem kom fram við uppgröftinn, var af lítilli kirkja úr kaþólsku. Þar var líklega vallgróin tóft 1721 en skömmu síðar er reist smiðja á staðnum.

Varmá

Varmá – uppgröftur kirkjutóftar.

Á nítjándu öld virðist hún fallin og er litlum kofa þá fundinn staður í tóftinni. Af rituðum heimildum er vitað um kirkju að Varmá á 14. öld. Messuhaldi er hætt þar á árunum 1554-1584. Að öðru leyti vísast til greinar Sveinbjarnar Rafnssonar „Kirkja frá síðmiðöldum að Varmá“.

Skv. ábendingu Hauks Níelssonar, bónda að Helgafelli, á kirkjan að hafa staðið um 5-7 m vestan við bæinn. Borið saman við mynd þá, sem birt er í Árbók Hins íslenska fornleifafélags 1970, bls. 32, virðist staðsetning Hauks nokkurn veginn rétt. Við byggingu skólans, sem er þarna vestan við, hefur verið ýtt fram mikilli möl og mold, þannig að nú er allhár bakki vestan við rústirnar. Líklega er kirkjan öll eða að hluta komin undir þennan bakka (Ágúst Ó. Georgsson).

Varmá

Herforingjaráðskort frá 1909. Hér sjást fornar leiðir og leirvogur nær lengra inn í landið en nú.

Leiðir
Á Herforingjaráðskortinu er að finna leið sunnan megin við hafnarsvæðið sem hefur verið sunnan Leiruvogs en er nú sunnan Köldukvíslar. Þessi leið hefur legið út í Langatanga og fram hjá Skiphól og komið þar sem eru krossgötur á austurbakka Varmár. Þessi leið hefur líka verið farin út að Hestaþingshól. Loks hefur legið leið niður að Skiphól frá bænum Varmá og sést hún líka á kortinu.

Skiphóll

Leiruvogur

Siglingar um Norður-Atlantshafið fyrrum.

Kålund nefnir Skiphól þegar árið 1877: „Nord for Guvenæs skærer sig Lervågene (Leiruvogur) eller som i oldskrifterne udtrykke sig Lerevågen (Leiruvágr) sig ind i landet; nu bruges ordet sædvanlig i flt., på grund af den huk Skibshol, som adskiller dem.“ Við örnefnaskráningu í Varmárlandi sagði Ari Gíslason: „Merkin móti Lágfelli eru frá Lækjarfarveg við sjó […]. Ef við höldum með sjó inn, þá er þar tangi fram í sjóinn og voginn. Þar eru tveir hólar. Heitir sá neðri Skiphóll, en sá, sem er ofar, er með þúfu á, og heitir hann Hestaþingshóll. Bendir nafn hans á forn hestaöt þarna niður við sjóinn. Hóll þessi er á tanganum, og ef vel er að gáð virðist þarna vera um gamalt mannvirki að gera.“ Árni Jónsson gerði athugasemdir við skráningu Ara og taldi að Skiphóll væri ofar: „Farið er út með Varmá að Skiphól ekki inn með. Skiphóll er ofar, Hestaþingshóll neðar.“

Skiphóll

Skiphóll.

Eins þarna kemur fram voru áður tveir hólar á svæðinu og nokkuð á reiki hvor hóllinn var Skiphóll. Samkvæmt Hauki Níelssyni, bónda á Helgafelli og heimildamanni við fornleifaskráningu árið 1980, var hóllinn næst Varmá nefndur Hestaþingshóll þótt sjálfur teldi hann líklegra, að það væri Skiphóll því þar væri betra skipalægi. Annar heimildamaður árið 1980, Einar Björnsson á Litla-Landi, var sömu skoðunar og sagði hólinn á Varmárbakka heita Skiphól. Einar ólst upp í Norður-Gröf í Kjalarneshreppi og var fyrrverandi bóndi á Skeggjastöðum og seinna Laxnesi og því mjög kunnugur staðháttum á svæðinu. Að hans sögn var byggingarefni fyrir Álafossverksmiðjuna skipað upp við Skipshól. Þar var líka skipað út heyi sem fór til Reykjavíkur og var notað sem fóður fyrir hesta. Einar taldi þó örnefnið vera eldra.

Skiphóll

Skiphóll.

Í „Lýsingu Mosfells- og Gufunessókna“ 1855 er fjallað um lendingar við Leiruvog: „Lendingar eru hér víðast góðar, því vogar þeir, er áður eru nefndir, skerast langt inn, svo að brimsjóir af hafi ganga sjaldan inn í þá, og eyjar þar, er einnig eru nefndar, eru til hlífðar við sjógangi.

Álfsnes

Álfsnes og Leirvogur – herforingjaráðskort 1903.

Í Þerney og Kollafirði eru góðar lendingar, sömuleiðis í Viðey og Gufunesi. Í Leiruvogum eru sléttar leirur og útgrynni mikið, en ekki sker eða boðar.“ Á fyrri öldum er eins og þarna stundum talað um Leiruvoga í fleirtölu; sjórinn virðist áður hafi teygt sig lengra inn og þá hefur mótað betur fyrir tveimur vogum við mynni ánna, Köldukvíslar og Varmár sunnar en Leirvogsár norðar. Landsvæðið á milli ánna nefnist Leirvogstunga. Vogarnir hafa hins vegar grynnkað með árframburði í aldanna rás og fleirtölumyndin Leiruvogar þá horfið úr málinu. Þegar nýleg kort af svæðinu eru borin saman við Herforingjaráðskort Dana frá árinu 1909 sést greinilega að landið nær lengra út nú en áður.
Í Landnámu og Íslendinga sögum er margsinnis getið um skipakomur í Leiruvog fyrir sunnan land eða neðan Heiði og er þá átt við Mosfellsheiði. Þarna hefur verið siglingastaður og ein mikilvægasta höfnin á suðvesturhorni landsins. Skjól var fyrir brimi og vindi af landi og hafnarskilyrði góð fyrir grunnrist skip. Á flóði hefur Leiruvogur verið skipgengur allt upp fyrir Hestaþingshól og að Skiphóli. Ætla má að skipum hafi verið lent við Skiphól allt frá þjóðveldisöld og þannig hefur örnefnið orðið til. Jafnframt er líklegt að þar hafi verið haldnar kaupstefnur þar sem skipt var á varningi sem skip komu með að utan og vörum heimamanna úr nærliggjandi sveitum.

Skiphóll

Skiphóll.

Skiphóll er lágur grasi vaxinn hóll á suðurbakka Köldukvíslar, skammt vestan við Varmá sem sameinast Köldukvísl rétt áður en hún rennur fram hjá hólnum. Hann er um 10 m sunnan árbakkans og um 20 m norðan við austasta hesthúsið. Hóllinn er sa. 26 x 21 m að stærð og 2,5 m á hæð. Birkitré hafa nú verið sett niður í hálfhring um hólinn eins og skjólveggur vestan, sunnan og austan við hann. Austan og vestan hans eru mýrarsund og sunnan megin eru hesthús.

Vesturlandsvegur

Uppdráttur Björn Gunnlaugssonar af Leirvogi og nágrenni.

Engin ummerki eru lengur um höfnina við Skiphól og engar rústir sjáanlegar, hvorki á hólnum eða við hann. Þegar rætt var við Hauk á Helgafelli kvaðst hann þó hafa séð hleðslur úr torfi á honum og sýndist honum það vera tóft eða tóftir. Á þeim tíma sást að grafið hafði verið í systa hluta hólsins og mátti þá sjá að hann var úr mold. Haukur minntist einnig á hróf og varir við hólinn. Þessar minjar eru horfnar en við fornleifakönnun og jarðsjármælingar árin 2012-2014 fundust minjar. Í könnunarskurði í hólnum sjálfum komu í ljós torfhleðslur og skurðir og virtist jafnvel mega greina skurð með skipslögun innan í hólnum auk þess fannst bátasaumur. Þessar minjar eru líklega frá því skömmu eftir 871 en ekki yngri en 1226. Tveir litlir skurðir voru teknir nokkru vestan við Skiphóll en engar mannvistarleifar fundust þar. En vel má vera að mannvistarleifar leynist vestan við hann og þarf að fara gætilega á því svæði en aðeins lítill hluti af svæðinu var kannaður.

Skiphóll

Fræðsluskilti við Skiphól; -Skiphóll er gamalt skipalægi við ísa Varmár en á flóði var hægt að sigla skipum alla leið að hólnum. Lengi mátti sjá tvö skipshróf (eins konar naust) hér við Skiphól en þau eru nú horfin. Í fornum sögum er getið um skipaferðir hér í Leiruvogi og stundum talað um að skip hafi komið út í Leiruvog fyrir neðan heiði, þ.e. Hellisheiði. Í Hallferðar sögu er sagt frá viðskiptum Hallfreðar vandræðaskálds og Mosfellinga eftir að hann hafði lent skipi sínu á þessum slóðum.- „Og að sumri fór Hallfreður út til Íslands og kom skipi sínu í Leiruvog fyrir sunnan land. Þá bjó Önundur að Mosfelli. Hallfreður átti að gjalda hálfa mörk silfurs húskarli Önundar og svaraði heldur harðlega. Kom húskarlinn heim og sagði sín vandræði. Hrafn kvað slíks von að hann mundi lægra hlut bera í þeirra skiptum. Og um morguninn eftir reið Hrafn til skips og ætlaði að höggva strengina og stöðva brottferð þeirra Hallfreðar. Síðan áttu menn hlut í að sætta þá og var gjaldið hálfu meira en húskarl átti og skildu að því.“ (Úr Hallfreðar sögu)

Í örnefnalýsingu Ara Gíslasonar af Varmá segir m.a.: „Ef við höldum með sjó inn, þá er þar tangi fram í sjóinn og voginn. Þar eru tveir hólar. Heitir sá neðri Skiphóll, en sá sem er ofar, er með þúfu á, og heitir hann Hestaþingshóll. Bendir nafn hans á forn hestaöt þarna niður við sjóinn. Hóll þessi er á tanganum, og ef vel er að gáð, virðist vera þarna um gamalt mannvirki að gera.“
Í athugasemdum við örnefalýsinguna segir: „Skiphóll er seinasta leiti á mörkum milli Helgafells og Varmár. Skip gátu komizt þar upp um flóð og tóku hey úr Skaftatungu.“

Hestaþinghóll

Hestaþinghóll.

Lágur grasivaxinn hóll á suðurbakka Leirvogsár, skammt þar frá, sem Varmá og Leirvogsá mætast. Hóllinn er um 10 m sunnan árbakkans og um 10-15 m norðan við austasta hesthúsið. Hóll þessi er ýmist kallaður Skipshóll eða Hestaþingshóll.
Engar rústir sjánlegar á eða við hólinn.
Mýrarsund eru austan og vestan við. Haukur Níelsson, bóndi á Helgafelli segir, að hóll þessi heiti Hestaþingshóll. Telur hann þó líklegra, að réttnefni sé Skipshóll. Þar sé betra skipalægi en neðar við ána (þar sem hann segir að Skipshóll sé).
Sem sagt: Munnmæli þau sem Haukur hefur heyrt segja, að Hestaþingshóll sé ofar við ána, en Skipshóll neðar. Haukur, sem pælir í Íslendingasögum, vill hins vegar ætla Skipshól stað ofar við ána.
Syðsti hluti hólsins er nú skemmdur. Hefur verið grafið þar í hann. Sýnir sárið að hóllinn er úr mold.
Á Hestaþingshól kveðst Haukur hafa séð einhverjar hleðslur, úr torfi einungis. Var því líkast sem um einhverjar tóftir eða tóft væri að ræða.
Einar Björnsson, Litla-Landi, uppalinn í Norður-Gröf, Kjalarneshr. og f.v. bóndi á Skeggjastöðum og seinna í Laxnesi, segir hól þennan heita Skiphól. Byggingarefni í Álafossverksmiðjuna hafi verið skipað upp við Skipshól. Þó telur Einar örnefni þetta vera eldra, en frá þessum tíma. Þarna var líka skipað út heyi, sem fór til Rvk og var notað sem fóður fyrir hesta.
17/9 1980 (Ágúst Ólafur Georgsson)

Hestþinghóll

Hestþinghóll

Hestþinghóll.

Auk Skiphóls var svonefndur Hest[a]þingshóll á þessu svæði. Honum er lýst í landamerkjalýsingu frá árinu 1889:
”1. Á suðursíðuna milli Varmár og Reykjahverfis: Úr Markarlæksfossi við ána Varmá ræður lækurinn upp að næsta krók á honum, og þaðan eptir beinni stefnu á Stórahnjúk allt að Lágafellslandi eptir svokallaðri Markakeldu.
2. Á vestursíðunni frá Markakeldu um Svartaklett og syðri Urðarþúfu, þaðan í stærstu steinana á svokölluðu Markholti og þaðan í beina línu í lækjarfarveg niður við sjó, þaðan ræður sjórinn merkjum að Hestaþingshól.
3. Á norður og suðursíðuna, frá nefndum Hestaþingshól, ræður áin Varmá merkjum milli Leirvogstungu og Helgafells alla leið upp að fyrstnefndum Markalæksfossi.“
Miðað við þessa lýsingu liggja merkin frá Hestaþingshól eftir Varmá og hljómar það eins og þarna sé átt við hólinn við bakka Varmár sem oftast hefur verið nefndur Skiphóll. En eins og komið hefur fram eru heimildir ekki samsagna um það hvor hóllinn hafi verið ofar með Köldukvísl og hvor þeirra utar. Ljóst er að þeir voru tveir en sá ytri er horfinn. Hann hefur verið úti á tanga sem nú er búið að ýta til og raska.
Nafnið Hestaþingshóll bendir til að þar hafi verið haldin hestaþing eða hestaöt og má ætla að efnt hafi verið til þeirra í tengslum við kaupstefnur við Skiphól. Á hestaþingum skemmtu menn sér við að etja saman stóðhestum og fara sögur af slíku allt frá landnámi. Siðurinn hefur flust hingað frá Noregi og hélst fram eftir öldum. Hestaöt virðast að lokum hafa lagst af á 16. og 17. öld í kjölfar þess að kirkjunnar menn fóru að amast við þeim eftir siðskiptin.
Leirurnar við Leiruvog hafa verið vinsælar meðal ríðandi fólks. Þar hefur verið hægt að spretta úr spori og enn í dag er þarna útivistarsvæði hestamanna og hesthúsahverfi reis sunnan Skiphóls á síðari hluta 20. aldar.

Heimild:
-Skiphóll og Varmárbakkar; Fornleifaskráning vegna deiliskipulags breytingar, Ragnheiður Traustadóttir og Rúna K. Tetzschner – ANTIKVA EHF 2020.
-Agnes Stefánsdóttir, Rúna K. Tetzschner o.fl., Skráning fornleifa í Mosfellsbæ, 2006.
-Ari Gíslason. Varmá. Örnefnastofnun Íslands. ópr.
-Ágúst Ólafur Georgsson. Fornleifaskráning í Mosfellssveit 1980. Skráningarbók 1604-100.
-Árni Jónsson frá Varmá. Athugasemdir við handrit Ara Gíslasonar. Örnefnastofnun Íslands. ópr.
-Stefán Þorvaldsson. „Lýsing Mosfells- og Gufunessókna“. Sýslulýsingar og sóknalýsingar. Landnám Ingólfs. Safn til sögu þess III. Félagið Ingólfur gaf út. Reykjavík 1937-1939.

Leiruvogur

Leiruvogur – loftmynd.

Íslandsuppdráttur 1595

Á vefsíðunni https://www.kb.dk/ má líta ýmsan aldraðan fróðleik um Ísland, s.s. gömul Íslandskort og uppdrætti. Hér er ætlunin að sýna nokkur þeirra með skírskotun til meðfylgjandi texta hverju og einu til handa. Textinn er, af skiljanlegum ástæðum, á dönsku:

Reykjanesskagi – kort 1900

Reykjanesskagi 1900

Reykjanesskagi 1900.

Arbejdskort over Island med Opmaalingsnet til Atlasblade i 1:100 000 indtegnet.
Udgivelsesdato; 1900-1905.
Lokalitet; Island.
Opmålingsnettet er indtegnet på: Uppdráttr Íslands af Ó. N. Ólsen og B. Gunnlaugsson [Generalstabens topografiske Afdeling].

Reykjanesskagi – uppdráttur 1879 – Kålund

Reykjanesskagi

Reykjanesskagi 1879 – Kålund.

Guldbringe og Kjos Sysler OphavKålund, P.E. Kristian.
Udgivelsesdato; 1879.
Lokalitet; Island.

Ísland – uppdráttur 1849

Ísland

Ísland 1849.

Uppdráttr Íslands Ophav Gunnlaugsson, Bjørn Olsen, Oluf Nicolai.
Udgivelsesdato; 1849.
Lokalitet; Island.
Kommentargjörðr að fyrirsögn Ólafs Nikolas Ólsens eptir landmælíngum Bjarnar Gunnlaugssonar … gefinn út af hinu Íslenzka Bókmentafélagi F. C. Holm sculp. Kjöbenhavn Paralleltitel: Carte d’Islande /d’après le mesurage de Björn Gunnlaugsson; exécutée sous la direction de O. N. Olsen ; publiée par la Societété Littéraire d’Islande hið bókmenntafélag Med liste over koordinater for trigonometriske stationer og liste over sysler og herreder i randen uden for kortet.

Ísland – uppdráttur 1844

Reykjanesskagi

Reykjanesskagi 1944.

Uppdráttr Íslands: No. 1: Suðvestr-fjórðúngr Ophav Gunnlaugsson, Bjørn Olsen, Oluf Nicolai Scheel, Hans Jacob.
Lokalitet; Island.
Opstilling KBK 1115-0-1844/2a-d. KommentarStik gjörðr að fyrirsögn Ólafs Nikolas Ólsens eptir landmælingum Bjarnar Gunnlaugssonar … reiknað hefir Hans Jakob Scheel gefinn út af hinu Íslenzka Bókmentafèlagi grafið hefir F. C. Holm hið bókmenntafèlag Indsat: Bjergprofiler og snit Koordinaterne for 124 trigonometriske stationer angivet i randen af kortet Titelblad og signaturforklaring er med islandsk og fransk tekst OphavsretMaterialet er fri af ophavsret.

Ísland – uppdráttur 1944

Reykjanesskagi 1944

Reykjanesskagi 1944.

Uppdráttr Íslands: No. 1: Suðvestr-fjórðúngr OphavGunnlaugsson, Bjørn Olsen, Oluf Nicolai Scheel, Hans Jacob.
Udgivelsesdato; 1944.
Lokalitet; Island.
Kommentargjörðr að fyrirsögn Ólafs Nikolas Ólsens eptir landmælíngum Bjarnar Gunnlaugssonar … reiknað hefir Hans Jakob Scheel gefinn út af hinu Íslenzka Bókmentafèlagi grafið hefir F. C. Holm Indsat: Bjergprofiler og snit Koordinaterne for 124 trigonometriske stationer angivet i randen af kortet Faksimileudgave af kort sandsynligvis udarbejdet til: Islands Kortlægning.

Ísland – uppdráttur 1761

Íslandsuppdráttur

Íslandsuppdráttur 1761.

Islandiae delineatio, prout haec Solenni mensurandi negotio sub Auspiciis Potentissimi Regis Daniae facto, & a. 1734. demum per Cnopfium Archit. militarem ad finem perducto, debetur; divisæ in quatuor partes, Islandice Fiördung, quarum quævis in suas minores regiunculas Islandice Sislu, danice Syssel dictas subdividitur OphavHomann, Johann Baptist Knoff, Thomas Hans Henrik Homanns Arvinger.
Udgivelsesdato; 1761.
Lokalitet; Island.

Hólmakaupstaður – kort 1715

Hólmakaupstaður

Hólmakaupstaður 1715.

[Holmskaupstad] = [Reykjavik] OphavHoffgaard, Hans.
Udgivelsesdato; 1715.
Emne Island, Syd Vest Reykjavik og omegn.
OpstillingKBK 1115,1-0-1715/1 KommentarKoloreret håndtegning H. Hoffgaard Tekst nederst på kortet: Paa Holmen Haabet kom aar Sytten hundrede og fembten Tillige voor Conböy Som war dend Svendske Fallecken/ Dend Tied jeg paa Gafonen laa mig tieden Ey fortrød og omskiøndt blandt gledskabt Hatex, waer skjult dend blege død/Som sig da tegne lod da heste flock reed granden da hørtes jammer og råb af Skougaard og Kiøbmanden og svie som så derpå og oh elendig strand! Det Hierte briste maatte da Kiøbmanden/reckte haand.

Ísland – uppdráttur 1700

Íslandskort 1700

Íslandskort 1700.

Novissima Islandiæ tabula OphavSchenk, Pieter Schenk, Petrus Valk, Gerard.
Udgivelsesdato; 1700.
Lokalitet; Island.

Ísland – uppdráttur 1684

Íslandsuppdráttur

Íslandsuppdráttur 1684.

Isle D’ Islande Ophav Mallet, Allain Manesson.
Udgivelsesdato; 1684.
Lokalitet; Island.

Ísland – uppdráttur 1683

Íslandskort 1683

Íslandskort 1683.

Isle D’ Islande Ophav Mallet, Allain Manesson.
Udgivelsesdato; 1683.
Lokalitet; Island.

Reykjaneskagi – uppdráttur 1650

Íslandskort 1683

Íslandskort 1650.

Sydlendinja Fiording Ophav Mejer, Johannes (1606-1674).
Udgivelsesdato; 1650?
Lokalitet; Island.

Ísland – uppdráttur 1595

Íslansuppdráttur 1595

Íslandsuppdráttur 1594.

Islandia Ophav Ortelius, Abraham Velleius, Andreas Vedel, Anders Sørensen.
Udgivelsesdato; 1595.
Lokalitet; Island.

Bessastaðastofa – uppdráttur 1724

Íslandskort 1724

Íslandskort 1724.

Ældre islandske specialkort : 1: Plan og Prospect af Bessesteds Kongs Gaard udi Island bygt Anno 1722 Ophav Raben.
Udgivelsesdato; 1720-1722. Emne; Bessestaðir -Søkort – Bessested Hafnarfjördur.
Lokalitet; Island.

Þingvellir 1720

Þingvellir 1720

Þingvellir 1720.

Ældre islandske specialkort: 3: Plan og Prospect af Øver Aae Alting Tagen Anno 1720 Ophav Raben.
Udgivelsesdato; 1720-1722.
Lokalitet; Island.

Bessastaðir – uppdráttur 1720

Bessastaðir 1770

Bessastaðir 1770.

Ældre islandske specialkort : 2: Plan og Prospect af Bessesteds KongsGaard, og St. Nicolai Kirke Ophav Raben.
Udgivelsesdato; 1720-1722. Emne; Bessestaðir – Søkort – Bessested Hafnarfjördur.
Lokalitet; Island.

Bessastaðir 1750

BessastaðirBessastaður 1750.
Ældre islandske specialkort : 2: Plan og Prospect af Bessesteds KongsGaard, og St. Nicolai Kirke Ophav Raben.
Udgivelsesdato; 1720-1722. Emne; Bessestaðir Bessested Hafnarfjördur.
Lokalitet; Island.

Bessastaðir – kort 1750
Ældre islandske specialkort: 4: Haune: Fjord Ophav Raben.
Udgivelsesdato; 1720-1722. Emne; Bessestaðir – Søkort – Bessested Hafnarfjördur.
Lokalitet; Island.

Ísland – uppdráttur 1770

Íslandskort

Íslandskort 1770.

Island RessourcetypeKort GenreTopografi.
Udgivelsesdato; 1770.
Lokalitet; Island.

Gullbringusýsla 1944

Reykjanesskagi

Reykjanesskagi 1944.

Soe og Land Charta over Guldbringe og Kioese=Sysseler samt een deel af Aarness Syssel udi Iisland OphavAressen, Magnus Aresen, Magnus Arason, Magnus Raben, Peter Sheel, Hans Jacob.
Kort i farver.
Emne; Guldbringe Syssel Gullbringusýsla Kioese Syssel Kjósarsýsla
Lokalitet; Island
Koloreret håndtegning i delvis eleveret plan Efter Deres Kongl. Maj:t allernaadigste Ordre og Befalning paa det accurateste i de aar 1721 og 1722 optaget og forfærdiget af Magnus Aressen og nu i det aar 1733 copieret af Hans Jacob Sheel Med signaturforklaring Iflg. Geodætisk Institut betegnet Admiral Rabens kort nr. 4. Se også: Islands Kortlægning. En historisk Fremstilling af N. E. Nørlund. Geodætisk Instituts Publikationer VII. København 1944.

Básendar [höfn] 1736

Básenra 1726

Básendahöfn 1726.

Bosand og Kieblevigs Havner udi Island OphavBech, Hans Christian – Søkort.
Emne; Island, Syd Vest Bosand Keflavík.
Lokalitet; Island.
Årstallet er rettet til 1736 – Hans Christian Bech 1726.

Grindavík [höfn] 1751

Grindavík 1751

Grindavíkurhöfn 1751.

Grindevigs havn udi Island, Hans Christian Klog, Christoph – Søkort.
Emne; Island, Syd Vest Grindevig Grindavik.
Lokalitet; Island.
KommentarKoloreret håndtegning H[ans] C[hristian] B[ech] an: 1751 tegnet af Christoph Klog.

Heimild:
-http://www5.kb.dk/maps/kortsa/2012/jul/kortatlas/subject341/da?sort=creator_ssi+asc%2C+score+desc%2C+cobject_random_number_dbsi+desc

Reykjanesskagi 8844.

Reykjanesskagi 1844.

Camp Dailey

Í Youtube miðlinum „Vogar TV“ má sjá þann 7. okt. 2018 myndband af gönguferð Vogamanna undir leiðsögn Viktors Guðmundssonar að fyrrum herspítalanum Camp Dailey á innanverðanum Stapanum, við gamla Suðurnesjaveginn, er reyndar var upphaflega lagður sem vagnvegur þar á árinu 1912.

Grindavíkurvegur

Grindavíkurvegur á Stapanum 1921.

Vegagerðinni frá höfuðborginni lauk loks í Njarðvíkum árið eftir. Með tilkomu bílsins var vegurinn lagaður að þörfum hans, breikkaður og undirlagið bætt til muna. Síðan hafa framfarirnar jafnan mótast að kröfum nútímans…
Viktor Guðmundsson, svæðaleiðsögumaður á Reykjanesskaga og fyrrum FERLIRsfélagi leiddi gönguna. Hér á eftir má lesa fróðleik og myndir frá henni:

Herdeildin, 22 og eitthvað svoleiðis, kom til landsins í ágúst 1942. Hún staðsetti sig fyrst á Reykjum í Hrútafirði.
Í júnímánuðu árið eftir færði sveitin sig suður yfir heiðar. Eftir skamma viðdvöl í Mosfellssveit var ákveðið að reisa ætlað sjúkrahús nálægt Meeks-flugvelli á Miðnesheiði.

Camp Dailey

Viktor Guðmundsson leiðsegir.

Á árunum 1942-’43 voru um 50.000 erlendir hermenn hér á landi.

Camp Dailey

Camp Dailey – uppdráttur.

Gert var ráð fyrir veikindum og slysum af 5% af heildarfjölda eða um 2500 manns. Þann 21. ágúst 1943 sama ár hófst bygging sjúkrahússins á Camp Dailey á Vogastapa. Verkið tók 9 mánuði. Spítalinn samanstóð af 32 braggabyggingum. Auk þess bjó starfsfólk spítalans í 42 bröggum er stóðu á víð og dreif umhverfis – auk áberandi frárennslislagnar í sjó fram niður í Vogavík.

Sem betur fer var þurfti herinn lítið á spítalaþjónustinni að halda. Þegar þjónustu hans lauk eftir stríðslok 1945 brann miðkjarni spítalans í óveðri í apríl árið 1946. Í framhaldinu hirtu landsmenn aðrar leifar hans líkt og maurar úr þúfu. Öllu, sem hægt var að stela var stolið.

Camp Dailey

Camp Dailey.

Í dag er minjasvæði Camp Dailey takmarkað því nokkuð af því fór undir núverandi Reykjanesbraut, auk þess sem öðrum hlutum þess hefur lítill sómi verið sýndur.
Afliggjarinn til Grindavíkur á sínum tíma lá í gegnum búðirnar.
Enn má sjá a.m.k. tvær fóðraðar vatnsborholur hersins á svæðinu. Flestar jarðlægar minjar eru huldar lúpínu.

Daily Camp

Daily Camp – minjar.

Menn hafa oft verið að rugla Camp Dailey við stóra húsið ofan vegarins, en það var fjarskiptastöð hersins.
Olíutankur var við hvern einasta bragga, líkt og sjá má á vettvangi.
Sýnilegustu minjarnar í dag eru steyptir stöplar undir frárennslislögn frá spítalanum er lá í sjó í Vogavík, eins og áður sagði.
Á árunum 1978-1982 var plantað grenitrjám utan í lágina þar sem spítalabraggahverfið var.

Í „Örnefni og gönguleiðir í Vatnsleysustrandarhreppi“ eftir Sesselja Guðmundsdóttur segir á bls, 57-58 um svæðið;

Reiðskarð

Stapagata um Reiðskarð.

„Næst förum við um Stapann eða Vogastapa (Njarðvíkur-stapa segir Skúli Magnússon, 1785) en eldra nafn á Stapanum er Kvíguvogabjörg eða -bjarg. Vogastapi er um 5 km langur og liggur allt vestur undir Innri-Njarðvík. Sjávarmegin eru klettabelti að mestu með stórgrýtisurðum við sjávarmál en að ofanverðu eru aflíðandi hjallar mót suðri og austri. Gamla þjóð leiðin Almenningsvegur sem liggur um hreppinn endilangan og við höfum fylgt endrum og sinnum heitir nú Stapagata. Hún liggur um Stapann endilangan og er lýst aftast í ritinu.

Camp Dailey

Fyrr á öldum lá þjóðleiðin til Suðurnesja ofar (sunnar) á Stapanum og í heimild frá árinu 1840 er hún kölluð Gamli-Stapavegur. Sú gata er nú horfin að mestu leyti á eystri hluta Stapans en vestar sást hún býsna glöggt fyrir fáum árum allt til Innri-Njarðvíkur. Nú er gamla þjóðleiðin á þeim kafla eyðilögð af vinnuvélum. Mjög villugjarnt var á Gamla-Stapavegi segja heimildir og þess vegna var gerð ný þjóðleið og lá sú nær sjónum.

Camp Daily

Úr skýrslu um „Reykjanesbraut – Fornleifakönnun. Fornleifastofnun Íslands 2001.“

Við Stapahornið milli Gamla-Keflavíkurvegar og Reykjanesbrautar er slétt svæði en á því var reist herskálahverfi árið 1942 sem kallað var Dailey camp. Þar var sjúkrahús með fullkomnum skurðstofum og sjúkrarými fyrir 250 sjúklinga og var eina starfandi hersjúkrahúsið hér á landi í stríðslok. Dailey camp brann til kaldra kola í óveðri í apríl árið 1946. Eldri hreppsbúar nota enn þetta örnefni yfir umrætt svæði. Frá herskálunum lá skolplögn niður Stapabrekkuna og síðan í sveig allt til sjávar. Á lögninni eru opnir steyptir brunnar, sumir nokkuð háir, með stuttu millibili og hafa þeir ótrúlega lengi staðist tímans tönn.

Stapinn

Kálgarðsbjalli – kálgarður ofan Camp Daily.

Við Dailey camp að austanverðu plöntuðu systur úr Soroptimistaklúbbi Keflavíkur trjám árið 1990 og kölluðu svæðið Bjartsýnisreitinn. En það er til önnur skýring: Soror þýðir systir á latínu og optimist þýðir bjartsýnismanneskja þannig að soroptimisti þýðir bjartsýnissystir og þá er örnefnaskýringin ljós.
Bjallar heita hjallarnir eða misgengin sem ganga suðvestur úr Vogastapa og eru þeir fimm í hreppslandinu en sá efsti og syðsti fylgir B-svæði. Eitthvað eru sérnöfn Bjallanna óljós, svo virðist sem tvö nöfn geti átt við einn og sama Bjallann og erfitt er að staðsetja Mýrabjalla, Sandbjalla og Miðbjalla. Næsta víst er þó að sá bjalli sem er fyrir vestan Dailey camp heitir Lyngbjalli og sá vestan hans heitir Kálgarðsbjalli. Bjallinn sá dregur nafn sitt af kartöflugarði (hreppsgarði), norðan Gamla-Keflavíkurvegarins, sem þar var um aldamótin.“

Heimildir:
-Örnefni og gönguleiðir í Vatnsleysustrandarhreppi, Sesselja Guðmundsdóttir, bls, 57-58, Lionsklúbburinn Keilir 2007.
-Vogar TV 7, leiðsögn Viktors Guðmundssonar, okt. 2018.
-Reykjanesbraut – Fornleifakönnun. Fornleifastofnun Íslands 2001.

Camp Dailey

Camp Dailey.