Kringlumýri

Í „Svæðisskráning fornleifa í Hafnarfirði“ árið 1998 segir m.a. um Gestsstaði í Krýsuvík:

Gestsstaðir

Tóftir Gestsstaða í Krýsuvík – austan hálsa.

„Gestsstaðir skal hafa verið jörð heitið nálægt Krýsuvík undir Móhálsum austanverðum, þar allnærri sem nú liggur almenningsvegur. Sjer þar enn nú bæði fyrir túngarði og tóftum. En völlur er allur uppblásinn og kominn í mýri, mosa og hrjóstur, so ómögulegt er jörðina aftur að byggja. Þar með liggur hún aldeilis í Krýsuvíkurlandi og kann ekki fyrir utan skaða Krýsuvíkur landsnytjar að hafa. Hefur og so lánga tíma í eyði legið, en engi veit til nær hún hafi bygð verið.“ „Gestsstaðir eru eða voru norðvestan við Krýsuvík sunnan undir dálítilli hæð, sem gengur austur úr Sveifluhálsi. Sér þar fyrir miklum tóftum. Mun þetta hafa verið stórbýli, enda eru þau ummæli til, að þessi bær hafi fyrrum heitið Krýsuvík. …Fram undan Hverafjalli eru rústir Gestsstaða, sem sagt er, að séu undir Móhálsinum, og er það nafn nú glatað.“

Gestsstaðir

Gestsstaðir – minjar.

„Gestsstaðir heitir eyðibær, norðvestur frá Krýsuvík, þar sem hún er nú. Hann hefir staðið sunnanundir dálítilli hæð, sem gengur austur úr Sveifluhálsi. Bæjartóftin er 10 ft löng frá austri til vesturs, hefur engan miðgafl, og mun hafa verið þiljuð sundur. Dys sjást ógjörla, en á suðurhlið hafa þær verið, því hvorki eru þær á endanum nér norðurhliðinni. Skamt austar er fjóstóft, 5 fðm löng, og heygarður eigi lítill. Túnið hefir verið umgirt, er það víða komið í sand af frárennsli. – Þau ummæli heyrði eg í Grindavík fyrir 40 árum sannleikann í þeim. Jörðin Gestsstaðir hefir verið í eign Krýsuvíkurkirkju. Hefur bærinn og kirkjan því verið flutt í Gestsstaðaland eftir eldinn. En við það hafa Gestsstaðir verið að nýta hjáleigur í nytum, og meir og meir þrengt að þeim, unz þeir lögðust í eyði.“ Framangreind lýsing er höfð eftir Brynjúlfi Jónssyni frá árinu 1902.

Gestsstaðir

Gestsstaðir, austan hálsa – uppdráttur ÓSÁ.

Í Jarðabók Árna og Páls (1703) segir frá jörðinni Gestsstöðum nálægt Krýsuvík. Þá voru greinilegar bæði tóftir og túngarður þó mikið væri uppblásið. Bærinn hafði þá verið svo lengi í eyði að enginn vissi hvenær hann var byggður síðast.

Gestsstaðir

Tóft vestan við Gestsstaði.

Matthías Þórðarson, Þjóðminjavörður, friðlýsti eyðibýlið Gestsstaði við Krýsuvík árið 1930 á grundvelli lýsingar Brynjúlfs Jónssonar er birtist í Árbók Hins íslenska fornleifafélags árið 1903, bls. 50, undir yfirskriftinni „Rannsókn í Gullbringusýslu og Árnessýslu sumarið 1902“: „Gestsstaðir heitir eyðibær, norðvestur frá Krýsuvík, þar sem hún er nú. Hann hefir staðið sunnanundir dálítilli hæð, sem gengur austur úr Sveifluhálsi. Sér þar enn fyrir tóftum, og hefir þar verið stórbýli á sínum tíma.

Gestsstaðir

Gestsstaðir sunnan Gestsstaðavatns – skáli.

Bæjartóftin er 10 fðm. löng frá austri til vesturs, hefir engan miðgafl, og mun hafa verið þiljuð sundur. Dyr sjást ógjörla, en á suðurhliðinni hafa þær verið, því hvorki eru þær á endanum né norðurhliðinni. Skamt austar er fjóstóft, 6 fðm. löng, og heygarður eigi lítill. Túnið hefir og verið mikið og umgirt, en nú er það víða komið í sand af árennsli. – Þau ummæli heyrði eg í Grindavík fyrir 40 árum, að Krýsuvík hefði í fyrstu heitið Ges[s]tstaðir og staðið vestur við hálsinn.

Gestsstaðir

Gestsstaðir – eystri tóftin og gerði.

Nú þykist eg skilja sannleikann í þeim. Jörðin Geststaðir hefir verið eign Krýsuvíkurkirkju. Hefir bærinn og kirkjan því verið flutt í Geststaðaland eftir eldinn. En við það hafa Geststaðir verið sviftir nytjum, og meir og meir þrengt að þeim, unz þeir lögðust í eyði.“
Í örnefnaskrá segir að á Gestsstöðum sjái fyrir miklum tóftum og að þar muni hafa verið stórbýli sem munnmæli séu um að hafi fyrrum heitið Krýsuvík. Rústirnar eru undir blásnum hól, ca. 150 m suðvestur af Krýsuvíkurskóla, á um það bil 30×50 metra stóru svæði. Í fornleifaskráningu Bjarna F. Einarssonar eru skráðar þarna 3 tóftir, bæjarrúst, garður/gerði og ógreinileg rúst.
Heimildir eru einnig um aðra rúst uppi á hálsinum ekki langt frá, hún stendur stök og greinilegt grjót í hleðslum.

Kringlumýri

Gestsstaðir „vestan hálsa“. Líklegra er þó að þarna sé um að ræða seltóft og þá væntanlega frá Húshólmabæjunum (Gömlu Krýsuvík).

Málið er að þeir Gestsstaðir, sem „hefðu í fyrstu heitið Gestsstaðir vestur við hálsinn“, hafa hingað til aldrei ratað inn í fornleifaskráningar, hingað til a.m.k., þrátt fyrir eftirlit Fornleifastofnunar með gildi slíkra skráninga. Tilvist minja um slíka heimild er þó til á vettvangi. Og telja má víst, að fornleifafræðingar, sem á eftir koma, munu ekki vísa í þessa heimild. Slík er smánin.

Kringlumýri

Kringlumýri vestan Sveifluhálss.

Vestan Móhálsa [eldra nafn á Sveifluhálsi] er að finna mjög fornar minjar, mjög líklega eldri en elstu minjar, sem hingað til hafa fundist hér á landi. Um er að ræða minjasvæði á þurrsvæði ofan mikillar mýri. Bæjarhóllinn er nú orðinn fordjarfaður; lítt mótar fyrir veggjum, nema kannski miðsvæðis. Þar virðist hafa verið meginbygging, en allt umhverfis virðast hafa verið ýmskonar húsakostir. Ekki sést móta fyrir girðingum eða gerðum umleikis.
Lækir renna beggja vegna minjasvæðisins. Líklegt má þykja að hæð þeirra í landslaginu og afurð þeirra hafi breyst í gegnum aldirnar. Neðar er umfangsmikil mýri og neðst í henni er forn skjólgóður gígur með vatnssvarmi.
Svæðið í heild er einstaklega skjólgott fyrir nánast öllum veðráttum.

Hettustígur

Hettuvegur – gatan er vel mörkuð í móbergið.

Hettusvegur, millum Krýsuvíkurbæjanna og Vigdísarvalla, liggur með vestanverðri Hettu ofan Kringlumýrar.  Vegurinn er vel markaður í hlíðina á köflum. Vegurinn sá virðist hafa týnst, eftir því sem hann varð fáfranari á millum svæðanna, en fannst síðan aftur eftir leit áhugamanna.

Krýsuvík

Gestsstaðir sunnan Gestsstaðavatns – eystri bæjarhúsin (útihús).

Í fyrstu töldu FERLIRsfinnendur minjasvæðisins að þarna hefði verið um að ræða selstöðu frá „Húshólmabæjunum“, einum elstu mannvistarleifum í Krýsuvík sem og landinu öllu – sjá HÉR.

Kringlumýri

Kringlumýri – líklega ein elsta selstaðan á Reykjanesskaganum.

Tiltölulega auðvelt var að rekja augljósa forna götu niður og upp með mýrinni – allt þar til lækirnir koma saman neðan hennar, allt niður að Krýsuvíkur-Mælifelli. Þar hverfur gatan í hraunið er rann 1151 – áleiðis niður í Húshólma. Sjá HÉR.

Minsjasvæðið í Kringlumýri hefur aldrei notið verðskuldaðrar athygli hingað til, hvorki í umfjöllun né í fornleifaskráningum af svæðinu – hvað þá að það hafi verið rannsakað að verðleikum. Ekki er ólíklegt að minjarnar þar kunni að vera frá sama tíma og minjarnar í Húshólma – eða jafnvel enn eldri.

Til er frásögn af pöpum í Hettu ofan Kringlumýrar – sjá HÉR.

Heimildir:
-Svæðisskráning fornleifa í Hafnarfirði, 1998.
-JÁM III, 7; Ö-Krýsuvík, 8 15; Árbók 1903, 50.
-Krýsuvík – Trölladyngja, Fornleifaskráning, Fornleifavernd ríkisins 2008.
-Árbók Hins íslenska fornleifafélags 1903, Rannsókn í Gullbringusýslu og Árnessýslu sumarið 1902, eftir Brynjúlf Jónsson, bls. 50.
-Árni Magnússon og Páll Vídalin: Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalíns III, 7.

Kringlumýri

Kringlumýri.

Húshólmi

Í tímaritið Jökul 1988 skrifa Haukur Jóhannesson og Sigmundur Einarsson um „Krýsuvíkurelda„. Greinin nefnist „Krýsuvíkureldar I  – Aldur Ögmundarhrauns og miðaldalagsins“.

Ágrip
JökullÍ grein þessari er fjallað um aldur Ögmundarhrauns og miðaldalagsins. Aldur hraunsins er kannaður í ljósi öskulaga sem eru undir því og ofan á.
Eitt þessara öskulaga er svonefnt miðaldalag og eru leidd sterk rök að aldri þess og uppruna. Einnig eru geislakolsaldursgreiningar leiðréttar með nýjustu aðferðum. Ofangreindar athuganir eru bornar saman við ritheimildir og teljum við okkur geta ákvarðað aldur Ögmundarhrauns upp á ár. Í lokin er getið um aldursákvörðun forns torfgarðs í Húshólma sem reynist vera eitt af elstu mannvirkjum sem fundist hafa á Íslandi.

Inngangur

Húshólmi

Húshólmi – tilgáta.

Nokkuð hefur verið ritað um aldur Ögmundarhrauns á Reykjanesi á undanförnum árum og hefur sitt sýnst hverjum. Jón Jónsson (1982, 1983) og Sigurður Þórarinsson (1974) hafa á grundvelli geislakolsaldursgreininga og afstöðu hraunsins til mannvistarleifa í Krýsuvík dregið þá ályktun, að það hafi brunnið á öndverðri 11. öld. Sveinbjörn Rafnsson (1982) hefur kannað sögulegar heimildir um hraunið og kirkjustaðinn í Krýsuvík og álítur hann, að hraunið hafi runnið seint á tímabilinu 1558-1563.

Húshólmi

Húshólmi – garður.

Þorvaldur Thoroddsen (1925) áleit að Ögmundarhraun gæti hafa runnið 1340 og Jónas Hallgrímsson (útg. 1934-37) var sömu skoðunar. Tómas Tómasson (1948) og Einar Gunnlaugsson (1973) hafa rakið heimildir um eldgos á Krýsuvíkursvæði en taka ekki afstöðu til aldurs Ögmundarhrauns. Ástæða þess, að áhugi hefur verið meiri fyrir könnun Ögmundarhrauns en annarra hrauna á Reykjanesi er sú, að það hefur runnið yfir bæ og önnur mannvirki s.s. fjárrétt og torf- og grjótgarða, sem sjást í hraunjaðrinum.
Gjóskulag sem nefnt hefur verið miðaldalagið hjálpar til við ákvörðun á aldri Ögmundarhrauns og skal fyrst reynt að varpa ljósi á aldur þess. Miðaldalagið er eina gjóskulagið frá miðöldum auk landnámslagsins sem finnst í jarðvegssniðum á svæðinu.
Í þessari grein verður skýrt frá niðurstöðum rannsókna sem gerðar voru síðla hausts 1987.

Ögmundarhraun
Krýsuvíkureldar
Ögmundarhraun (mynd 1) er komið upp í eldstöðvakerfi sem oftast hefur verið kennt við Krýsuvík, en stundum við Trölladyngju. Eldstöðvakerfið einkennist aðallega af gígaröðum og gapandi gjám og sprungum. Sprungureinin er víðast um og innan við 5 km breið og nær 50 km löng. Hún nær frá Ísólfsskála í suðvestri, norðaustur um Núpshlíðarháls og Sveifluháls og áfram um Undirhlíðar og Helgafell fyrir ofan Hafnarfjörð. Við Helgafell endar gos virknin að mestu en sprungurnar ná lengra til norðausturs yfir Heiðmörk, Elliðavatn og Rauðavatn og enda í Mosfellssveit.

Trölladyngja

Trölladyngja og nágrenni.

Eldgos í kerfinu verða að líkindum með svipuðum hætti og gerðist í Kröflueldum, þ.e. í umbrotahrinum sem einkennast af gliðnun lands og kvikuhlaupum, oft jafnhliða eldgosum, en síðan verða hlé á milli.
Síðustu eldsumbrot í Trölladyngju- og Krýsuvíkurkerfinu mætti nefna Krýsuvíkurelda því þá eyddist bærinn í Krýsuvík. Útbreiðsla hrauna sem þá runnu er sýnd á mynd 1. Hraunin hafa að mestu fyllt Móhálsadal milli Núpshlíðarháls og Sveifluháls, og runnið til sjávar í suðri. Nyrst í Móhálsadal slitnar gígaröðin á 7 km kafla en tekur sig aftur upp norðan við Vatnsskarð og liggur þaðan meðfram Undirhlíðum allt norður á móts við Helgafell. Hraun frá þessum hluta gígaraðarinnar (Kapelluhraun o.fl.) hafa runnið til sjávar milli Hvaleyrarholts og Straumsvíkur og er ætlun okkar að fjalla nánar um þau í annarri grein um Krýsuvíkurelda sem nú er í smíðum. Jón Jónsson (1982) hefur áður haldið því fram að Ögmundarhraun, Kapelluhraun og Gvendarselshraun hafi runnið í sömu goshrinu.

Rústir í Ögmundarhrauni
Krýsuvíkureldar
Í Ögmundarhrauni em nokkrir óbrennishólmar, en svo nefnast landskikar umluktir sögulegu hrauni. Stærstur er Húshólmi sem er austast og neðst í hrauninu en nokkru vestar og ofar er Óbrennishólmi.

Húshólmi

Húshólmi – skáli í gömlu Krýsuvík þar sem nú er Húshólmi.

Rústir em í báðum þessum hólmum (mynd 2). Merkastar eru rústirnar í svonefndum Kirkjulágum sem em smáhólmar skammt vestan við Húshólma. Þeim hefur Brynjúlfur Jónsson (1903) lýst. Þar eru greinilegar rústir af bæjarhúsum sem hlaðin hafa verið að mestu úr lábörðu grjóti. Í efri láginni hefur hraunið mnnið upp að byggingum og að hluta yfir þær. Í neðri láginni er m.a. ein tóft sem hraunið hefur ekki náð að renna yfir og hefur verið talið líklegt að þar hafi verið kirkja eins og örnefnin Kirkjulágar og Kirkjuflöt benda til.

Húshólmi

Húshólmi – kirkjutóft.

Hús þetta virðist hafa verið brúkað eftir að hraunið rann sem sést af því hve miklu greinilegri og hærri tóftin er heldur en þær sem hraunið hefur lagst upp að. Húsið hefur dyr í vestur og snýr eins og kirkjur hafa gert um aldir.
Þar sem segir frá Krýsuvík í dagbók Eggerts Ólafssonar og Bjarna Pálssonar (31. maí 1755) og einnig í hinni prentuðu ferðabók þeirra (Eggert Olafsson, 1772) er þess getið að hraunflóð hafi eytt kirkjustað sem Hólmastaður hét. Það átti að sögn heimamanna í Krýsuvík að hafa gerst tveim öldum áður en Eggert og Bjarni komu þar. Nafnið Hólmastaður bendir til að staðurinn dragi nafn af Húshólma en það nafn hefur hann vart fengið fyrr en eftir að Ögmundarhraun rann.
Landslag við bæjarrústirnar bendir til að bærinn hafi staðið nærri sjó, sennilega við austanverða vík, sem hefur verið hin eiginlega Krýsuvík, en hún hefur fyllst af hrauni í Krýsuvíkureldum. Í sjávarkampinn hafa menn sótt grjót í byggingar á hinu forna bæjarstæði í Krýsuvík.

Óbrennishólmi

Óbrennishólmi – uppdráttur ÓSÁ.

Í Húshólma eru tveir garðar, sem hverfa inn undir hraunið (mynd 2). Efri garðurinn liggur þvert yfir hólmann og hefur að mestu verið hlaðinn úr torfi en þó sést í grjót á stöku stað. Allnokkur hluti hans er nú blásinn. Neðri garðurinn liggur í sveig vestast í hólmanum og er mun meira grjót í honum en þeim efri. Þessi garður mun marka það stykki sem nefnt var Kirkjuflöt. Efst í Húshólma er lítil fjárborg forn og niðri við gamla fjörukampinn er lítil hústóft.

Óbrennishólmi

Óbrennishólmi; fjárborg eða virki!?

Í Óbrennishólma eru tvö mannvirki. Annað er fjárborg sunnan til í hólmanum en hitt eru leifar af fjárrétt nyrst í honum og hefur Ögmundarhraun runnið að nokkru yfir og inn í hana (Jón Jónsson, 1982).
Gata liggur í Húshólma austan frá. Hún er greinilega rudd og 2-3 m á breidd og allgreiðfær. Augljóst er af ummerkjum að þessi vegagerð er ekki frá síðustu tímum. Í dagbók Eggerts Ólafssonar og Bjarna Pálssonar um ferð þeirra til Krýsuvíkur er þess getið að þáverandi bóndi þar hafi lagt veg út í hólmann með miklu erfiði (sbr. Sveinbjörn Rafnsson, 1982). Þá gæti gatan hafa komist í núverandi horf. Engin gata er milli Húshólma og Óbrennishólma. Gata liggur úr neðri Kirkjulág og vestur að Selatöngum en í Óbrennishólma liggur gata frá Latfjalli og úr hólmanum niður að sjó. Af loftmyndum að dæma hefur gatan að hinu forna bæjarstæði í Krýsuvík austan að legið nokkru neðar en sú gata sem nú liggur í Húshólma (mynd 2).

Gjóskulagasnið
Krýsuvíkureldar
Til að kanna aldur Ögmundarhrauns voru mæld nokkur gjóskulagasnið, bæði við jaðra hraunsins og utan þess (myndir 3 og 5). Á þessu svæði eru nokkur lík gjóskulög af þekktum aldri.

Landnámslagið
Krýsuvíkureldar
Þekktasta gjóskulagið á þessu slóðum er svonefnt landnámslag. Lagið er venjulega tvílitt, neðri hlutinn er ljós og efri hlutinn dökkur, en á Reykjanesskaga er það oftast hvítgult og slitrótt en þó auðþekkjanlegt. Ekki hefur tekist að finna dökka hlutann á sunnanverðum skaganum eða vestar en í Reykjavík. Lagið hefur greinilega fokið til og því að líkindum fallið að vetri til. Landnámslaginu fylgja yfirleitt litaskipti í jarðvegssniðunum og er jarðvegurinn dökkur undir því, en ljósari ofan þess og fokkenndari. Þessi litaskipti hafa verið álitin marka upphaf búsetu í landinu (Þorleifur Einarsson, 1974). Lagið hefur verið notað til að ákvarða hvaða hraun á Reykjanesi hafi brunnið eftir að land byggðist (sbr. Jón Jónsson, 1983).

Aldur landnámslagsins
Krýsuvíkureldar
Um aldur landnámslagsins hefur allmikið verið ritað og hefur Margrét Hallsdóttir (1987) tekið saman yfirlit um það.

Reynt hefur verið að aldurssetja landnámslagið með þremur ólíkum aðferðum. Í fyrsta lagi með geislakolsgreiningum. Í öðru lagi með könnun á afstöðu þess til annarra þekktra gjóskulaga og aldur þess síðan reiknaður út frá jarðvegsþykknun. Í þriðja lagi með tengingu við frávík í sýrustigi í ískjörnum í Grænlandsjökli en frávikin eru rakin til eldgosa.

Landnámslagið

Landnámslagið.

Geislakolsgreiningar eru þeim annmarka háðar að mæliskekkja er sjaldnast minni en 50 ár til eða frá.
Þær aldursgreiningar sem til eru af landnámslaginu benda til síðari hluta níundu aldar (Sigurður Þórarinsson, 1977; Hreinn Haraldsson, 1981; Margrét Hallsdóttir, 1987).
Guðrún Larsen (1982, 1984) hefur sett fram þá tilgátu að sýrustigsfrávik í Grænlandskjörnunum 897-898 gæti orsakast af eldgosi því sem myndaði landnámslagið. Skekkjan er 1-2 ár. Bryndís G. Róbertsdóttir og Haukur Jóhannesson (1986) reiknuðu aldur lagsins út frá afstöðu þess til annarra þekktra öskulaga og fengu ártalið 901-902. Í þessari grein er reiknað með að landnámslagið sé fallið um 900.

Miðaldalagið
Krýsuvíkureldar
Annað nokkuð vel þekkt gjóskulag á Reykjanesskaga er svonefnt miðaldalag. Gunnar Ólafsson (1983) hefur kannað útbreiðslu þess og reynt að heimfæra það upp á eldgos sem getið er í rituðum heimildum. Lagið er þykkast yst á Reykjanesskaga þar sem það er um 20 cm og auðvelt er að rekja það inn allan skagann. Upptök öskulagsins eru í sjó við Reykjanestána. Leifar gígsins eru Karlinn, stakur drangur skammt undan landi, en hluti af gígbarminum er skammt norðvestur af Valahnúk og hefur yngra Stampahraunið runnið upp að honum.

Reykjanes

Reykjanes – loftmynd.

Yngra Stampahraunið er því runnið á sögulegum tíma. Miðaldalagið er dökkt og nokkuð jafngróft og auðgreint frá Kötlulaginu 1485 sem er kolsvart og fínkornótt en það finnst greinilega á norðanverðum skaganum.
Gunnar Ólafsson var í vafa um hvernig heimfæra skyldi gos þetta upp á ritaðar heimildir um eldgos á svæðinu. Hann komst að þeirri niðurstöðu að heimildir bendi til áranna 1226/27 eða 1231 en útreikningar á jarðvegsþykknun milli þekktra gjóskulaga (landnámslags og gjóskulags frá Kötlu sem ýmist er talið fallið um 1485 eða 1500 (Sigurður Þórarinsson, 1967; Guðrún Larsen, 1978), bendi til ársins 1340. Hann endar greinargerð sína á eftirfarandi orðum: „Hér verður ekki gert upp á milli þessara þriggja gosára.“

Aldur miðaldalagsins

Landnámsöskulagið

Dökka lagið með ljósum botni þar fyrir neðan er Landnámsöskulagið. Ofan þess má m.a. sjá Miðaldaöskulagið.

Til að gera sér betur grein fyrir því, hvaða ár miðaldalagið féll, er vert að rýna í heimildimar að nýju. Augljóst er, að goshrina hefur verið í sjó undan Reykjanesi frá 1210 eða 1211 til 1240, og virðist hún hafa náð hámarki á þriðja áratug aldarinnar. Annálar, Biskupasögur og Íslendinga Saga eru nokkuð samhljóða um þessa atburði. Hér á eftir verða heimildirnar prentaðar hráar. Það sem Setbergsannáll segir umfram aðra annála er talinn skáldskapur höfundarins. Stafsetning á Oddaverjaannál er ekki samræmd því Storm (1888) hefir fellt út hluta af textanum ef hann er samhljóða öðrum annálum, einkum Konungsannál og Lögmannsannál.
Tilvitnun úr annálabrotum Gísla Oddssonar er tekin eftir þýðingu Jónasar Rafnar (Gísli Oddsson, 1942) en frumritið er ekki til lengur, heldur aðeins latnesk þýðing (sjá Gísli Oddsson, 1917). Tilvitnanir í Íslendinga Sögu era teknar úr Sturlunga Sögu (1946).
Tilvitnanir í einsakar biskupasögur era teknar úr Biskupa Sögum (1858-1878). Tilvitnanir í aðra annála en annál Flateyjarbókar, annálabrot Gísla Oddssonar og Setbergsannál eru teknar úr Storm (1888). Annáll Flateyjarbókar er í Flateyjarbók (1945).

Eldey

Eldey.

1210:
„Elldur wm Reykianes: Saurli fann Elldeyiar hinar nyo enn hinar horfnar er alla æfi haufðu stadit“ (Oddaverjaannáll bls. 478). Sigurður Þórarinsson (1952, 1965) setur þessa heimild ranglega við 1211.
Um 1210?:
„Á vorum dögum hefur það gerst að hafið hefur á þriggja mílna svæði ólgað og soðið eins og í potti, en jörðin opnast og kastað upp úr djúpunum eldlegum gufum og myndað stórt fjall upp úr sjónum“ (Noregskróníka á latínu (Munch, 1850), þýðing Sigurðar Þórarinssonar (1965)). Sigurður Þórarinsson (1965) telur að hér sé átt við eldgos undan Reykjanesi 1211 og verður ekki annað séð en hér sé á ferð lýsing á myndun Eldeyjar.
1211:

Eldey

Eldey.

„Elldr kom vpp ór séa. Sörli Kols sonr fann Elldéyiar“ (Konungsannáll bls. 123).
„Elldr kom vpp or sia fyrir Reykia nesi. Sörli Kols son fann Elld eyiar“ (Skálholtsann áll bls. 182).
„Eldr kom upp ór sjó. Sörli fann Eldeyjar“ (Annáll Flateyjarbókarbls. 311).
„En viku fyrir andlát Páls biskups sýndist túngl svá sem roðra væri, ok gaf eigi ljós af sér um miðnætti í heiðviðri, ok bauð þat þá þegar mikla ógn mörgum manni“ (Páls biskups saga bls. 145; Páll biskup lést þriðjud. 29. nóv. 1211. Roðra=blóð – innskot höf.).
„..en hér má sjá, hversu margr kviðbjóðr hefir farit fyrir fráfalli þessa hins dýrliga höfðíngja Páls biskups: jörðin skalf öll og pipraði af ótta (harður jarðskjálfti varð þetta ár samkvæmt mörgum annálum og fórust 13-14 menn – innskot höf.); himin ok skýin grétu, svá at mikill hlutr spilltist jarðar ávaxtarins, en himintúnglin sýndu dauðatákn ber á sér, þá er náliga var komit at hinum efstum lífsstundum Páls biskups, en sjórinn brann ok fyrir landinu þá; þar sem hans biskupsdómr stóð yfir sýndist náliga allar höfuðskepnur nokkut hrygðarmark á sér sýna frá hans fráfalli“ (Páls biskups saga bls. 145).

Önglabrjótsnef

Gígur ofan Kerlingarbáss. Karlinn fjær.

„Þat fylgir þessum fádæmum, at í sjálfu hafinu, viku sjávar suðr undan landinu, hefur upp komit af eldsganginum stórt fjall, en annat sökk niðr í staðinn, þat er upp kom í fyrstu með sömu grein“ (Guðmundar saga Arasonar Hólabiskups bls. 5; Vika sjávar er forn mælieining sem virðist hafa verið breytileg frá um fimm km upp í liðlega átta – innskot höf.).
Sigurður Þórarinsson (1965) rekur einnig nokkrar erlendar heimildir sem eiga við um neðansjávargos á öndverðri 13. öld og telur að minnsta kosti eina þeirra eiga við eldgosið 1211 (Munch, 1850).
1223:
„Elldz vppkuama fyrir Reykianese“ (Oddaverjaannáll bls. 479).
„Enn fremur eldgos við Reykjanes“ (Annálabrot Gísla Oddssonar, bls. 10). Sigurður Þórarinsson (1965) nefnir ekki þetta eldgos.

Karlsgígurinn

Stampahraunið á Reykjanesi.

1225:
„Sandwetur ai Jslandi“ (Oddaverjaannáll bls. 479).
„Sandvetur hinn mikli víðast um Island, svo peningur almúgans hafði litla björg afjörðu og varð oftast hey að gefa“ (Setbergsannáll bls. 25).
1226:
„Ellz vpqvama fyr Revkia nesi“ (Resensannáll bls. 24).
„Elldz upqvama fyrir Reykjanesi“ (Höyersannáll bls. 64).

Stampar

Stampagígaröðin myndaðist um 1230.

„Elldr i séa firir Réykianesi. Myrkr vm miðian dag“ (Konungsannáll bls. 127).
„Elldr fyrir Reykia nesi“ (Skálholtann áll bls. 186).
„Elldr fyrir Reykia nesi“ (Gottskálksannáll bls. 326). „Sandfalls wetur ai Jslandi. Elldr i séa fyrir Réykianesi. Myrkr vm miðian dag“ (Oddaverjaannáll bls. 479).
„Elldz vppkuama fyrir Reykianese“ (Lögmannsannáll bls. 255).
„Það varð til um sumarið, að mikið myrkur varð um miðdegi” (Setbergsannáll bls. 25).
„Vetur markverður vegna skaðlegs sandfoks; einnig myrkvi á hádegi. Eldgos úr hafi við Reykjanes“ (Annálabrot Gísla Oddssonar bls. 10).
„Eldr í sjó fyrir Reykjanesi. Myrkr um miðjan dag“ (Annáll Flateyjarbókar bls. 315).
„Sumar þetta var illt ok vátviðrasamt. Kom upp eldr ór sjónum fyrir Reykjanesi“ (Íslendinga Saga bls. 311).
„Sumar þetta var illt ok vandréðasamt. Kom upp eldr or sjónum fire Reykjanese“ (Guðmundar saga Arasonar hin elsta bls. 546).
1226/27:
„Þessi vetr var kallaðr sandvetr ok var fellivetr mikill, ok dó hundrað nauta fyrir Snorra Sturlusyni út í Svignaskarði“ (Íslendinga Saga bls. 314-15).
„Sandvetr hinn mikle ok fjárfellir” (Guðmundar saga Arasonar hin elsta bls. 548).

Gjóskusnið

Unnið við að greina gjóskulög í jarðvegssniði.

1227:
„Sandvetr” (Resensannáll bls. 24).
„Sanduetr a Islande“ (Lögmannsannáll bls. 256).
„Sand vetr“ (Skálholtsannáll bls. 186).
„Sanndvetr“ (Konungsannáll bls. 117).
„Sanduetr” (Gottskálksannáll bls. 326).
„Sanndvetr“ (Oddaverjaannáll bls. 480).

Stampar

Gígar í Yngra- Stampahrauni.

„Sandvetur eins og sá næsti á undan“ (Annálabrot Gísla Oddssonar bls. 10).
„Sandvetr“ (Annáll Flateyjarbókar bls. 315). Beinast liggur við að þessi sandvetur eigi við síðari hluta vetrar 1226/27 og annálagreinar um hann því samstofna frásögn Sturlungu og Guðmundar sögu biskups sem getið er hér næst að framan.
1231:
„Þetta var kallat sandsumar, því at eldr var uppi í sjónum fyrir Reykjanesi, ok var grasleysa mikil“ (Íslendinga Saga bls. 346).
„Þetta var kallat sandsumar, því at eldr var uppe fire Reykjanese ok var grasleysa mikil“ (Guðmundar saga Arasonár hin elsta bls. 553-554).
1238:
„Ellz vppqvama i Revkia nesi“ (Resensannáll bls. 25).
„Elldz upkuama fyrir Reykianesi“ (Höyersannáll bls. 65).
„Elldr firir Réykianesi“ (Konungsannáll bls. 130).
„Elldz vppqvama fyrir Reykia nesi. Varþ brestr mikill at Sauða felli ok margir fyrir burþir“ (Skálholtsannáll bls. 188).
„Elldr fyrir Reykia nesi“ (Gottskálksannáll bls. 327).

Karl

Karlinn við Reykjanes.

„Elldr firir Réykianesi“ (Oddaverjaannáll bls. 481).
„Eldgos við Reykjanes-skaga“ (Annálabrot Gísla Oddssonar bls. 10).
„Eldr uppi fyrir Reykjanesi“ (Annáll Flateyjarbókar bls. 317).
1240:
„Sól rávð. Elldr firir Réykianesi” (Konungsannáll bls. 131).
„Sol varð rauð” (Skálholtsann áll bls. 188).
„Sol raud sem blod: Elldur wpi fyrir Reykianesi“ (Oddaverjaannáll bls. 481).
„Sól rauð sem blóð. Eldgos aftur við Reykjanes“ (Annálabrot Gísla Oddssonar bls.10).
„Eldr fyrir Reykjanesi“ (Annáll Flateyjarbókar bls. 318).

Önglabrjótsnef

Hraun og aska nýlegra hrauna við Önglabrjótsnef á Reykjanesi. Karlinn fjær.

1340:

„Einnig Reykjaneshöfði (Sigurður Þórarinsson (1965) þýðir hér Reykjanesskagi og er svo í Sjávarborgarannál bls. 236 – innskot höf.) eyddist í eldi meira en að hálfu; sjást merki hans ennþá í rúmsjó, gnæfandi drangar, sem af þessu nefnast Eldeyjar, – eða Driftarsteinn, eins og eldri menn vilja kalla þá. Sömuleiðis Geirfuglasker, þar sem allt til þessa sjást fjölmargir brunnir steinar“ (Annálabrot Gísla Oddssonar bls. 11). Síðast nefnda frásögnin er einnig í Sjávarborgarannál við árið 1389 (Þorlákur Markússon, 1940-48) og í Árbókum Espólíns við árið 1390 (Jón Espólín, 1821). Þessi frásögn er hluti af reyfarakenndum frásögnum af eldgosum víða um land og hefur á stundum verið talin uppspuni. Þarflegt væri að kanna sannleiksgildi þessara frásagna betur, en ekki eru tök á því hér.

Önglabrjóstnef

Önglabrjótsnef. Karlinn fjær.

Höfundur Sjávarborgarannáls (Þorlákur Markússon) hefur ekki þekkt annálabrot Gísla Oddssonar og því haft annálsgreinina annars staðar frá og hún þá líklega ekki verið ársett í frumheimild. Jón Jóhannesson (sjá Þorlákur Markússon, 1940-48) hefir rannsakað Sjávarborgarannál. Í hann var sett efni úr a.m.k. einum annál sem nú er glataður, og telja verður víst að hann hafi haft ofangreinda frásögn úr eldri heimild, sem nú er með öllu ókunn. Hugsanlega hefur það verið sama heimildin og Gísli Oddsson hafði undir höndum en þó er það ekki víst. Espólín hefur frásögnina vafalítið úr Sjávarborgarannál. Það er umhugsunarvert að þessi frásögn finnst ekki í gömlu annálunum þ. á m. annál Flateyjarbókar sem er mjög ýtarlegur um fjórtándu öldina (hefur þó gosið í Öræfajökli 1350 í stað 1362) og þar er getið um Heklugosin 1341 og 1389.
ÖnglabrjóstnefFlestar heimildirnar em úr annálum en þeir éta oft hver upp eftir öðrum. Talið hefur verið að þeim annálum sem við nú þekkjum hafi verið steypt saman úr eldri skrám um 1280 (Jakob Benediktsson, 1976). Íslendingasögu verður að telja samtímaheimild og auðsæ tengsl em milli hennar og sögu Guðmundar góða. Það sést best á klausunum um árin 1226 og 1231, sem em nær samhljóða í báðum heimildum. Saga Páls biskups í Skálholti mun rituð skömmu eftir dauða hans og má því telja hana samtímaheimild.
Við lestur biskupasagnanna verður hverjum manni ljóst að höfundar þeirra hafa haft fyrir sér ritaðar skrár m.a. um náttúmhamfarir auk heimilda um marga aðra atburði sem sést best af því að inn í sögurnar er mjög víða skotið efni í upptalningarstíl sem kemur efni þeirra lítið við. Einnig ber að hafa í huga, að sumar klausurnar um eldgos og jarðskjálfta eru nær samhljóða í annálum og biskupasögunum og liggur þá beinast við að álykta að höfundar biskupasagnanna hafi haft frumgerðir annálanna undir höndum og þeir því nær samtíma heimildir um þá atburði sem hér em til umræðu. Því hefir reyndar einnig verið haldið fram að við endurritun biskupasagnanna hafi efni verið skotið inn í þær úr annálum, en það getur vart átt við Guðmundar sögu og Páls sögu því þær eru að sumu leyti ýtarlegri um þessa atburði en annálarnir.

Arnarseturshraun

Arnarseturshraun – rann um 1226.

Í stuttu máli virðist sem tíð gos hafi verið í sjó undan Reykjanesi á árunum 1210 eða 1211 til 1240 en telja verður óvíst um eldgos 1340. Eldgos hafa verið. 1210 og/eða 1211, 1223, 1226, 1231, 1238 og 1240. Einnig gæti hafa gosið 1225 því þá getur Oddaverjaannáll um sandvetur. Sandvetur er veturinn 1226/27 samkvæmt Íslendinga Sögu og Guðmundar sögu góða, en annálar hafa sandvetur 1227. Hér er líklega átt við sama atburðinn.

Nýey

Ný eyja rís úr sjó.

Gjóskufalls er og getið við gosið 1231 og að það hafi verið að sumri til (sandsumar). Líklegt er að gjóska sem fallið hefur 1231 falli saman við gjóskulagið frá 1226 og myndi því ekki sérstakt öskulag. Telja má víst, að gjóskufallið, sem varð 1226 hafi verið mikið því getið er um, að myrkur hafi verið um miðjan dag. Þorsteinn Sæmundsson stjarnfræðingur kannaði fyrir höfunda hvort um sólmyrkva hafi verið að ræða en enginn almyrkvi á sólu varð 1226. Því kemur vart annað til greina en að myrkvinn hafi verið af völdum gjóskufalls. Allmikið gjóskufall þarf til að svo sterkt sé til orða tekið, að myrkur hafi verið um miðjan dag. Ekkert annað gjóskulag er þekkt sem getur átt við þennan atburð. Við könnun á miðaldalaginu á Reykjanesi kemur í ljós, að það er víða fokið til og vantar sumstaðar alveg, sem bendir til að það eigi frekar við veturinn 1226/27 en sumrin 1226 eða 1231. Þá taka höfundar Biskupasagnanna og Íslendinga Sögu mun sterkar til orða um sandfallsveturinn og afleiðingar hans sem bendir einnig til meira öskufalls þá en 1231.

Óbrennishólmi

Óútskýrð tóft í Óbrennishólma.

Haukur Jóhannesson (1988) hefur mælt þrjú jarðvegssnið í Viðey. Eyjan er utan uppblásturssvæða og því má búast við nokkuð áreiðanlegum niðurstöðum úr útreikningum á aldri miðaldalagsins miðað við jarðvegsþykkt milli þekktra öskulaga. Jarðvegsþykknun er nokkuð jöfn síðustu 1000 árin eða á bilinu 0.04-0.06 cm á ári. í tveimur sniðanna eru þrjú þekkt öskulög, landnámslag, miðaldalag og Kötlulagið frá 1485.

Húshólmi

Húshólmi – garður. Landnámslagið er í garðinum.

Miðað við að landnámslagið sé fallið um árið 900 fást eftirfarandi ártöl fyrir aldur miðaldalagsins: 1170 og 1228 (meðaltal 1199). Út frá þeirri niðurstöðu er nánast útilokað að lagið hafi fallið á fjórtándu öld.
Af ofangreindu má vera ljóst, að yfirgnæfandi líkindi eru til að miðaldalagið hafi fallið 1226, líklega um haustið eða fyrri hluta vetrar, en vitaskuld getur hafa bæst í það 1231. Ekkert annað öskulag hefur fundist á Reykjanesi sem tengst getur þessum eldsumbrotum og gerum við ráð fyrir að það sé að meginhluta fallið síðla árs 1226.

Aldur Ögmundarhrauns – geislakolsaldursgreiningar

Latur

Latur í Ögmundarhrauni.

Til eru fimm geislakolsaldursgreiningar, sem tengjast Ögmundarhrauni. Árið 1974 tók Þorleifur Einarsson (munnl. uppl.) tvö koluð sýni úr eldstæði í rústunum í Kirkjulágum (efri láginni) í Húshólma og lét aldursgreina þau. Þorleifur telur að taka beri þessum aldursgreiningum með varúð þar sem þær geti verið af koluðum rekavið eða mó og því eldri en hraunið. Niðurstöður voru eftirfarandi.
U-2590 980 + 60
U-2591 960 ±170

Gjóskulög

Gjóskulög í jarðvegssniði.

Séu aldursgreiningamar miðjaðar (970 ár) og leiðréttar samkvæmt leiðréttingarlínuriti Stuivers og Beckers (1986) fæst að sýnið sé frá því um 1027 e.Kr. (mynd 4). Sé leiðrétt samkvæmt leiðréttingarlínuriti Stuivers og Pearsons (1986) fæst 1030.
Jón Jónsson (1982) lét gera þrjár aldursgreiningar árið 1979 á koluðum gróðurleifum undan hrauninu.
Tvö sýni, U-4355 og U-4356, vom undan Ögmundarhrauni efst í Óbrennishólma, og eitt sýni, U-4005, var tekið undan hrauninu austan í Núpshlíðarhálsi.
Jón telur þó ekki víst, að þar sé sama hraunið en aldurinn, sem fékkst, er mjög áþekkur hinum.
U-4355 905 ±60
U-4356 940 ±55
U-4005 925 ±70
Meðaltal: 923,3 ár. Miðgildi: 922,5 ár.
Þegar beitt er sömu leiðréttingaraðferð (Stuiver og Becker, 1986) og að ofan (miðgildi er 923 ár) þá koma fimm ártöl til greina: 1044, 1096, 1122, 1141 og 1156 (mynd 4). Sé aftur á móti leiðrétt samkvæmt Stuiver og Pearson (1986) fæst 1050, 1095, 1125, 1142 og 1148.

Álfakirkja

Hraun er hægt að aldursgreina.

Ástæðan fyrir því, að svo mörg gildi fást er óregla í 14C magni í andrúmsloftinu á þessum tíma, en leiðréttingarnar byggjast á geislakolsgreiningum á árhringjum í trjám. Aldursgreiningar Þorleifs gefa nokkuð hærri aldur en aldursgreiningar Jóns eins og búast mátti við af fyrirvara þeim sem Þorleifur hafði gert um aldursmun hraunsins og kolaleifanna í eldstæðinu. Aldursgreining Jóns Jónssonar (1982) af Gvendarselshrauni gefur svipaðar niðurstöður en aldursgreiningar af Kapelluhrauni gefa ekki ótvíræða niðurstöðu.

Gjóskulög undir og ofaná hrauninu

Gjóskulög

Gjóskulög í jarðvegssniði.

Landnámslagið fannst víðast hvar undir Ögmundarhrauni (mynd 5) þar sem grafið var, en milli þess og hraunsins fannst aftur á móti ekkert gjóskulag. Milli landnámslagsins og hraunsins var víðast 2-4 cm þykkur jarðvegur. Í sniðum sem tekin vom utan hrauns en nærri gígunum (mynd 3) reyndist jarðvegsþykktin vera 3-7 cm milli gjóskulagsins og gjalldreifar frá gígunum. Ofan á sjálfu hrauninu fannst aðeins eitt gjóskulag, miðaldalagið og var jarðvegur 0-4 cm þykkur milli hrauns og gjóskulags. Í sniðum sem tekin voru utan hrauns en nærri gígunum reyndist þykktin vera um 2-4 cm frá miðaldalaginu niður að gjalldreif frá Krýsuvíkureldum.

Rauðablástur

Gjall.

Hlutfallið milli jarðvegsþykktar frá landnámslagi að hrauni/gjalldreif annars vegar og þykktar frá hrauni/gjalli að miðaldalagi hins vegar er afar mismunandi frá einum stað til annars og því ekki einhlítt að brúka það til aldursákvörðunar hraunsins. Hraunið eða gjalldreifin frá gosinu er þó í flestum tilvikum mun nær miðaldalaginu en landnámslaginu.

Sögulegar heimildir
Fátt er sögulegra heimilda um eldgos á Reykjaneskaga á þessum tíma og eru þær allar knappar.

1151:
„Elldr i Trölladyngivm. Hvsrið“ (Konungsannáll bls. 115).
„Elldur wppi j Trolla dyngium“ (Oddaverjaannáll bls. 474).
„Eldr í Trölladyngjum. Húshríð“ (Annáll Flateyjarbókar bls. 301).
1188:
„Ellz vppqvama j Trolla dyngiu“ (Skálholtsannáll bls. 180). (Úr Skálholtsannál hefur glatast þ.á.m. fyrir árið 1151 – innskot höf.).

Trölladyngja

Trölladyngja.

Trölladyngja eða Trölladyngjur heitir nyrsti hluti Núpshlíðarháls. í sumum eldri heimildum (Árni Magnússon, 1955) er notað nafnið Dyngjur (og mun þá átt við Grænudyngju og Trölladyngju) og eru þær m.a. eyktarmark frá Kálfatjörn (Pétur Jónsson, 1937-39). Hingað til hefur ekki verið hægt með vissu að heimfæra þessar heimildir upp á eldgos.

Sveifluháls

Sveifluháls.

Einstöku menn hafa álitið að hér væri átt við Trölladyngju eða Dyngjufjöll í Ódáðahrauni (Ólafur Jónsson, 1945). Þar hefur þó ekki fundist hraun sem tengja má þessum heimildum. Þorvaldur Thoroddsen (1925) telur umrædd gos hafa verið í Trölladyngju á Reykjanesi og það gerði Jónas Hallgrímsson (1934-37) einnig. Sigurður Þórarinsson (1965) birti kort af Íslandi þar sem merkt em inn gos á sögulegum tíma og þar telur hann eldgos í Trölladyngju á Reykjanesi vera 1151, 1188 og 1360 en telur þó síðastnefnda ártalið óvisst.

Brennisteinsfjöll

Brennisteinsfjöll – gígur Drottningar efst.

Jón Jónsson (1983) getur sér þess til að Brennisteinsfjöll hafi áður fyrri verið nefnd Trölladyngjur en ekki hafa fundist nein gögn önnur en klausa í annálabrotum Gísla Oddssonar (1942) sem styðja þá tilgátu og í raun engin ástæða til þar sem Trölladyngja eða Trölladyngjur hafa ávallt verið þekktar þar sem þær nú eru enda við alfaraveg milli Innnesja annars vegar og Krýsuvíkur og Grindavíkur hins vegar (sbr. Ólafur Þorvaldsson, 1949).
Það er athyglivert, að húsrið (þ.e. landskjálfti svo harður að hús hristast) er nefnt í Konungsannál og annál Flateyjarbókar, í framhaldi af eldgosinu. Vafalítið er samband þar á milli sem þá sýnir að átt er við Trölladyngjur á Reykjanesi en ekki í Ódáðahrauni.

Grindavík

Grindavík – jarðskjálftar í nóv. 2023.

Bæði er að jarðskjálftar geta verið nokkuð harðir á Reykjanesskaga og Trölladyngja og Dyngjufjöll í Ódáðahrauni eru fjarri byggð. Þess má einnig geta að eldvirkni í Dyngjufjöllum mun hafa verið hverfandi lítil á umræddu tímabili (Guðmundur E. Sigvaldason, o. fl. í undirbúningi).
Þegar litið er á ofangreindar niðurstöður hníga ýmis rök að því, að Ögmundarhraun hafi runnið á 12. öld og engin ástæða er til að véfengja frásagnir annála af gosi 1151. Gígaröð Krýsuvíkurelda spannar liðlega 25 km og miðhluti hennar liggur skammt austan við Trölladyngju. Eldgosið sem varð 1188 gæti vel hafa verið á svipuðum slóðum og hluti af sömu goshrinu. Þar sem svo langt hefur liðið milli gosanna þá er hugsanlegt að seinna gosið hafi verið mun minna, sbr. reynsluna af Mývatnseldum 1724-1729 og 1749.

Herbert kapelán

Traðarfjöll

Traðarfjöll – loftmynd.

Auk áðurnefndra heimilda um Krýsuvíkurelda er rétt að geta lýsingar Herberts kapelláns í Clairvaux í Frakklandi á hraunrennsli í sjó á Íslandi. Um rit hans, Liber miraculorum (Bók um furður), sem skrifuð var 1178 – 80 hefur Sigurður Þórarinsson (1952, 1975) fjallað allítarlega. Herbert lýsir ýmsum furðum sem gerst hafa á Íslandi og þar segir m.a. (þýð. Jakobs Benediktssonar, birt í grein Sigurðar Þórarinssonar, 1952): „Á vorum tímum hefur það sézt einhverju sinni, að hann (þ.e. vítiseldur – innskot höf.) gaus upp svo ákaflega, að hann eyðilagði mestan hluta landsins allt í kring. Hann brenndi ekki aðeins borgir og allar byggingar, heldur einnig grös og tré að rótum og jafnvel sjálfa moldina með beinum sínum. Og þótt furðulegt sé frásagnar, bráðnuðu fjöll úr grjóti og jafnvel málmi algjörlega fyrir eldi þessum eins og vax, runnu yfir landið og þöktu það, svo að dalirnir umhverfis fylltust af leðjunni og fjalllendi jafnaðist við jörðu. En bráðnu klettarnir, sem runnu út yfir allan jarðveginn í allar áttir, dreifðust síðan, þegar eldinum slotaði, og þá varð yfirborð jarðar eins og úr marmara og eins og steinlagt stræti, og jörðin, sem áður var byggileg og frjósöm, varð að eyðimörk.

Hraun

Hraunmyndun.

Þegar þessi ofsagrimmi eldur hafði eytt land þetta og allt, sem á því var, með óseðjandi græðgi sinni, jók hann við því enn skelfilegra undri, að hann réðst einnig á hafið við ströndina, og þegar hann kom út á hafsdjúpið, tók hann að brenna og eyða vatninu með fáheyrðum ofsa, allt niður á hyldýpi. Auk þess bar eldurinn með sér í flóði sínu gríðarstór fjöll og hæðir, sem aðrir gráðugir eldslogar höfðu steypt um, svo að þar sem vatnið varð að láta undan síga, kom land í staðinn, og fjöllin bárust út í hafsauga. Og þegar þau höfðu fyllt sjóinn algjörlega á löngu og breiðu svæði og gert hafsdjúpið jafnt sjávarströndu, varð sjórinn að þurru landi, svo að þar sem áður var vatn, varð nú fast land um 12 mílur og er ef til vill enn. Enn fremur eyddist í þessum eldum fræg borg og mannmörg, en þar var ágæt höfn við fjörð, sem eyðilagðist þó, þegar sjórinn þurrkaðist upp.“

Kapeluhraun

Kapelluhraun – jarðfræðikort.

Sigurður Þórarinsson (1975) telur að hér sé á ferðinni ýkt og ruglingsleg lýsing sem annað hvort eigi við hraunrennsli í sjó og þá líklega Ögmundarhraun, eða jökulhlaup og þá líklega Kötluhlaup, nema hvorttveggja sé. Um heimildarmenn Herberts kapelláns fjallar Sigurður einnig og þar kemur nokkuð merkilegt í ljós. Frásögnina hefur Herbert líklegast eftir Eskil erkibiskupi í Lundi, en hann dvaldi í Clairvaux meðan ritið var samið.

Trölladyngja

Trölladyngja nyrst á Núpshlíðarhálsi.

Eskil erkibiskup vígði Klæng Þorsteinsson til biskups í Skálholti árið 1152, þ.e. árið eftir að annálar nefna gos í Trölladyngjum sem við teljum meginhrinu Krýsuvíkurelda og næsta víst að eldsumbrotin hafa þá verið ofarlega á baugi í fréttum frá Íslandi. Ljóst er að í riti Herberts er farið nokkuð frjálslega með tölur og stærðir en að öðru leyti á lýsingin ágætlega við Krýsuvíkurelda. Í eldsumbrotunum rann hraun í sjó fram bæði á norðan- og sunnanverðum Reykjanesskaga. Að norðanverðu runnu Kapelluhraun og Hvaleyrarhraun sem fylltu víkina sem var á milli núverandi Straumsvíkur og Hvaleyrarholts en að sunnanverðu Ögmundarhraun.

Sigurður Þórarinsson

Sigurður Þórarinsson.

Sigurður Þórarinsson (1975) taldi að sá hluti frásagnar Herberts sem segir að eldurinn beri með flóði sínu gríðarstór fjöll og hæðir sem berist út í hafsauga, eigi við jakaburð í Kötluhlaupi og má það vera rétt. Jafnlíklegt er að lýsingin eigi við um stórgerða hraunmúga sem ýttust fram með hrauninu. Þessi heimild tekur af allan vafa um að hraun hefur runnið í sjó á Íslandi á tólftu öld og þá fyrir 1180. Þar sem hraunrennsli í sjó á þessum tíma er aðeins þekkt frá Krýsuvíkureldum renna skrif kapillánsins frekari stoðum undir þá skoðun okkar að Ögmundarhraun hafi brunnið árið 1151. Ólíklegt er að átt sé við eldgosið 1188 því rit Herberts múnks er talið fært í letur 1178-80.

Aldur garðs í Húshólma

Húshólmi

Garður í Húshólma.

Grafið var eitt snið í gegnum efri garðinn í Húshólma og reyndist það forvitnilegt. Garðurinn er mjög vel varðveittur.

Húshólmi

Húshólmi – garður – uppdráttur.

Hliðar hans standa nokkuð vel og eru nær lóðréttar, um 40 cm háar (50-55 cm sé pælunni bætt við) en breidd garðsins er um 150 cm. Pælan, sem stungin hefur verið með garðinum beggja vegna til efnistöku, sést greinilega af litaskiptum í jarðvegi og er hún nú um 10-15 cm djúp í sniðinu. Neðst í pælunni norðan megin við garðinn var dreif af landnámslaginu en hún lá ekki inn undir garðinn svo það hefur fallið eftir að hann var hlaðinn. Þess skal getið til glöggvunar að sniðið var gaumgæfilega athugað og landnámsaskan var skoðuð í víðsjá (binocular smásjá) og borin saman við sýni af ösku úr öðrum sniðum. Miðaldalagið liggur upp að garðinum beggja vegna. Hann er því hlaðinn fyrir 900 en þegar miðaldalagið féll um 1226/27 var verulega fokið að honum.

Húshólmi

Fjárborgin í Húshólma.

Einnig var grafið snið við fjárborgina efst í Húshólma og þar lá miðaldalagið upp að vegghleðslunni og er hún því allnokkru eldri en öskulagið.
Eins og áður var bent á virðist sem kirkja hafi verið í notkun í Húshólma eftir að hraunið rann. Sveinbjörn Rafnsson (1982) getur þess að kirkjan í Krýsuvík hafi verið lögð af 1563.

Húshólmi

Kirkjutóftin við Húshólma.

Telja má nær fullvíst að hraunið hafi runnið 1151 og í því gosi hafa bæjarhúsin í hinni fornu Krýsuvík og garðarnir farið undir hraun. Kirkjan hefur því að líkindum verið í notkun í allt að fjórar aldir eftir að Ögmundarhraun rann. Nafnið Hólmastaður bendir til þess að þar hafi verið kirkja eftir að Húshólminn fékk nafn og þá síðar en hraunið rann.

Húshólmi

Húshólmi – minjasvæðið. Kirkjulágar efst.

Eftir að hin forna Krýsuvík fylltist af hrauni neyddust ábúendur í Krýsuvík til að gera út frá Selatöngum sem eru vestast í Ögmundarhrauni og eftir jarðeldinn eina mögulega lendingin í landi Krýsuvíkur. Kirkjan í Húshólma er mitt á milli Selatanga og hins yngri Krýsuvíkurbæjar. Það gæti verið ástæðan fyrir því að kirkjan var ekki færð um leið og bærinn. Hún hefur verið miðsvæðis. Búandkarlar þeir sem Eggert og Bjami höfðu tal af í maílok 1755 hafa hugsanlega ruglað saman eldgosinu 1151 og því að kirkjan í Krýsuvík var aflögð 1563.
Það þótti guðleg forsjón að Reykjahlíðarkirkju við Mývatn skyldi ekki taka af í Mývatnseldum. Hlýtur fommönnum ekki hafa þótt það jafnstórt undur að kirkjan ein skyldi standa eftir af húsum í Krýsuvík hinni fornu, er hraunið umlukti hólminn sem hún stóð á?

Sjá einnig um aldur Ögmundarhrauns HÉR.

Heimild:
-Jökull, 1. tbl. 01.12.1988, Krýsuvíkureldar I – Aldur Ögmundarhrauns og miðaldalagsins, Haukur Jóhannesson og Sigmundur Einarsson, bls. 71-85.

Húshólmi

Húshólmi – uppdráttur ÓSÁ.

Ölfus

Í Lingua Islandica – Íslensk tunga – Tímariti um íslenska og almenna málfræði árið 1963, skrifaði Baldur Jónsson grein um örnefnið „Ölfus„.

Islandica„ÖLFUS er sem kunnugt nafn á sveit í Árnessýslu, og mun það orð vera að öðru leyti óþekkt nema þá sem liður í samsettum nöfnum. Þetta einkennilega nafn, sem öldum saman hefir verið mönnum óskiljanlegt, verður aðalviðfangsefni þessarar ritgerðar.

En áður en farið verður að glíma við nafnið sjálft, er rétt að glöggva sig betur á því, hvað kallað er og kallað hefir verið Ölfus.

Þorvaldur Thoroddsen segir, að Ölfus takmarkist „að sunnan af sjó og Ölfusárósum, að vestan af Selvogsheiði, að norðan af fjallshlíðum Reykjanesfjallgarðs, að austan af Ölfusá, og nær nokkur hluti sveitarinnar upp með Ingólfsfjalli að austanverðu“.

Ölfus er m.ö.o. hið byggða undirlendi við Ölfusá að vestan (og norðan), og er fátítt, að með þessu nafni sé átt við annað en þetta nú á dögum. Þó kemur fyrir, að Ölfus er notað í merkingunni ‘Ölfushreppur’, en mestur hluti þess landsvæðis er fjöll og óbyggðir.

Árbók FÍ

Árbók FÍ 1936.

Í Árbók Ferðafélags Íslands 1936 er ritgerð eftir Steinþór Sigurðsson og Skúla Skúlason, er nefnist „Austur yfir fjall“. Þar segir á bls. 101: „Þeim, sem líta yfir Ölfusið, sem svo er kallað venjulega, þ. e. byggðina að svo miklu leyti, sem þeir sjá hana, finnst sveitin ekki stór. Þeir athuga fæstir, að þeir hafa verið í Ölfusinu nær helming leiðarinnar úr Reykjavík og til Kamba.“ Síðan er lýst takmörkum Ölfussins, og er einnig þar átt við Ölfushrepp. En annars staðar í ritgerðinni er nafnið Ölfus notað um hið byggða undirlendi sérstaklega. Á bls. 100 er t. d. talað um „Grafningsfjöllin, sem lykja um Ölfusið að norðan“, og nokkru síðar er komizt svo að orði: „Nærlendinu, Ölfusinu sjálfu, verður ekki lýst hér, því að lýsing þess kemur í næsta kafla, og verður einnig miðuð við Kambabrún að mestu leyti. Því skal nú haldið áfram ferðinni niður í Ölfusið, um Kambana.“

Ölfus

Ölfus vestan Þingvallavatns (Ölfusvatns).

Þegar Hálfdan á Reykjum talar um kirkju að Úlfljótsvatni, bætir hann við innan sviga: „í þeim parti sveitarinnar, er Grafningur kallast“ (bls. 59). Og síðar segir hann: „Í landnorður undan Ingólfsfelli og upp með Soginu eru mýrar, þar til byggðin í þeim kjálka sveitarinnar til tekur, er Grafningur kallast. En í vestur yfir Álftavatn og fyrir norðan Ingólfsfjall [svo hér] liggur vegur fram Grafningshálsinn og í Olvesið“ (bls. 72). Eftir þessu að dæma er það hið byggða undirlendi við Ölfusá, sem Hálfdani er tamt að kalla Ölfus. Þó getur hann notað það nafn um allt landsvæðið, Ölfus og Grafning, en þá var einnig hægt að tala um Ölfushrepp til að taka af tvímæli.

Ölfus

Ölfus sunnan Þingvallavatns (Ölfusvatns).

Í Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalíns, II (Kaupmannahöfn 1918—1921), 376, er notað nafnið Aulves sveit um Grafning og Ölfus. Þegar lokið er jarðatali í Grafningi, er komizt svo að orði: »,Hjer endast Grafníngur, en byrjar sjálft Ölves“ (bls. 389).

Af því, sem nú hefir verið rakið, mætti álykta, að Ölfus væri hið eldra nafn á Grafnings- og Ölfushreppum samanlögðum, en nafnið Grafningur síðar til komið til að auðkenna nyrðra hluta sveitarinnar.

Grafningsháls

Grafningsháls norðanverður – Tunguá.

Nú er vitað, að þessu hefir einmitt verið svo háttað. Ólafur Lárusson hefir sýnt fram á, að Grafningur varð ekki til sem byggðarnafn fyrr en um 1500 og getur ekki verið eldra en 1448. Það kemur fyrst fyrir í máldaga frá dögum Stefáns biskups Jónssonar (1491-1518). Ölfus hefir þá í fyrndinni náð yfir það svæði, sem nú deilist á tvær sveitir, Ölfus og Grafning. Allt það land, sem lá að Þingvallavatni (áður Ölfusvatni) að sunnan (og suðvestan), Soginu að vestan og framhaldi þess, Ölfusá, allt til sjávar, hefir verið í Ölfusi. Þetta verður auðvitað að hafa í huga, og það skiptir nokkru máli. En hinu má ekki gleyma, að Grafningur og Ölfus eru frá náttúrunnar hendi aðgreindar sveitir, og megin byggðarinnar er og hefir ávallt verið í Ölfusi. Nafnið Ölfus hlýtur því að hafa verið miklu oftar notað í sambandi við bæi og búendur í neðri byggðinni og þannig verið fastara tengt henni, þegar áður en efri byggðin fékk nafnið Grafningur. Og þetta hefir einmitt stuðlað að þeirri nafngift.

Grafningur

Grafningsháls framundan. Gamli þjóðvegurinn.

Samkvæmt skýringu Ólafs Lárussonar, sem er áreiðanlega rétt, hefir efri byggðin fengið nafn sitt af grafningi þeim eða skarði, sem nú heitir Grafningsháls, milli Bjarnarfells og Ingólfsfjalls, en um þennan grafning var alfaraleið á milli byggðarlaganna. Nafnið Grafningur gefur ranga hugmynd um landslag þeirrar sveitar, eins og Ólafur Lárusson tekur fram. Landslagsins vegna hefði því Grafnings-nafnið eins getað flust á neðri byggðina, en á því var engin hætta. Sú byggð hét Ölfus, skýrt afmörkuð á alla vegu, miklu mannfleiri og áhrifameiri en hin. Nafngiftin Grafningur er því runnin frá Ölfusingum. Þeir hafa talað um að fara „upp um Grafning“ eða „upp í Grafning“, og síðan hefir nafnið flust á byggðina fyrir ofan, sem þeir fundu, að var í rauninni annað byggðarlag en sveitin þeirra sunnan fjalla, Ölfusið.

Ölfus

Ölfus umhverfis Ölfusá.

Áður en lengra er haldið, þykir rétt að fara einnig nokkrum orðum um nöfnin Ölfusá — Sog og Ölfusvatn — Þingvallavatn. Því hefir oft verið haldið fram, að vatnsfallið Sog -(Ölfusá hafi áður fyrr heitið einu nafni, því sem nú hefir fengið myndina Ölfusá. Sbr. lýsingu Kálunds: „Nord for Ölves, langs Sog og Thíngvoldsoens sydvestlige bred, ligger den såkaldte Gravning (Grafníngr), et afsides og lidet besögt bygdelag, hvis beboere báde i deres personlige optræden og huslige indretning viser sig kun lidet pávirkede af omverdenen.

Hengill

Hengill.

Fra Olves adskilles Gravningen ved Ingolvsfell og fjældstrogene, der forbinder dette fjæld med Hengilen og dertil hörende fjældheder“ (Uidrag, 1, 85). Fyrir því eru þó engar beinar heimildir; það hefir verið ráðið af mjög sterkum líkum, og hefir enginn mælt í móti, svo að ég viti. Enn fremur er líklegt, eins og Brynjúlfur frá Minna-Núpi og Einar Arnórsson taka fram, að Sog sé eigi að síður mjög gamalt örnefni, en hafi í öndverðu verið bundið við sjálfan ós Þingvallavatns (Ölfusvatns) eða efsta spotta árinnar að Úlfljótsvatni, sem nú er kallaður Efra-Sog.

Sogið

Sogið.

Nafnið Sog hefi ég hvorki fundið í íslenskum fornritum né Íslenzku fornbréfasafni (ekki heldur Þingvallavatn). Um Ölfusá gegnir öðru máli. Það nafn kemur alloft fyrir í fornritum, en eftir notkun
þess að dæma verður ekki afdráttarlaust fullyrt, að það hafi tekið til alls vatnsfallsins, Sogs og Ölfusár. Eðlilegast er þó að skilja svo, þegar sagt er frá landnámi Ingólfs (í Sturlubók), að hann „nam land milli Olfus ár ok Hvalfiardar fyrer vtann Bryniudals aa milli ok Avxar ar ok aull Nes vt“.J ] Í sömu átt bendir það, þegar talað er um Ingólfsfell fyrir vestan Ölfusá — í Íslendingabók og Landnámabók.

Ölfus

Ölfus – sveitarfélagið.

Þingvallavatn hét Ölfusvatn að fornu. Þegar haft er í huga, að Ölfus náði þá allt að vatninu, er eðlilegast að hugsa sér, að það dragi nafn af sveitinni og áin, sem setti henni takmörk að austan, hafi þá einnig verið nefnd einu nafni Ölfusá allt frá Ölfusvatni til sjávar.

Ölfusvatn

Ölfusvatn (Þingvallavatn).

Ljóst er, að efri hluti vatnsfallsins kemur lítt við sögur, og hefir verið miklu minni þörf fyrir nafn á ánni ofan Hvítár en neðan. Af því leiðir, að nafnið Ölfusá hefir smám saman einskorðazt við neðra hluta árinnar eins og Ölfus við neðra hluta sveitarinnar. Sogið fær þá sitt sérstaka nafn sennilega um líkt leyti og Grafningur. Er þá rofið samhengið milli Ölfuss og Ölfusár annars vegar og hins vegar Ölfusvatns, sem fær enda nafnið Þingvallavaln. Auðvitað getur eins vel verið, að vatnið hafi skipt um nafn fyrst, en Grafningur og Sog komið á eftir. Röðin skiptir í rauninni ekki máli fyrir skýringu Ölfitss-nafnsins.

Sogið

Sogið.

Örnefnin Grafningur, Sog (sem árheiti) og Þingvallavatn eru varla mjög misaldra, en Grafningur er hið eina þeirra, sem unnt er að tímasetja nokkuð nákvæmlega, þ. e. frá h. u. b. 1500. Elzta dæmi, sem ég hefi rekist á, um Þingvallafrjvatn er úr Diskupa-annálurn, Jóns Egilssonar, sem skráðir eru 1605: „þá riðu þeir úr Grafnínginum upp eptir Þíngvallavatne til saungs og tíða.“]; Á Íslandsuppdrætti Þórðar biskups Þorlákssonar 1668 eru nöfnin Þingvallavatn (Thingualla watn), Grajningur (Grafnvigur), Ölfusá (Ölvesa) og Ölfus (Ölves). Á uppdrætti hans 1670 eru sömu nöfn, nema Ölfus vantar, en þar er að auki nafnið Sog milli Úlfljótsvatns og Álftavatns, svo að ljóst er, að það er árheiti. Er þetta elzta heimild, sem ég hefi um það.

Ölfus

Í Ölfusi.

Með nánari rannsókn mætti eflaust komast nær aldri nafnanna Sog og Þingvallavatn, en eins og málið horfir við nú, virðast þau vera frá 15. eða 16. öld.

Líklegt er, að menn hafi snemma tekið að skapa sér hugmyndir um uppruna og frummerkingu nafnsins Ölfus. Elsta áþreifanlegt dæmi þess, sem ég þekki, er frá byrjun 16. aldar. Í bréfi frá 1509, sem til er í frumriti, kemur fyrir rithátturinn auluersaa.

Ölvusvatn

Bærinn Ölvusvatn við Þingvallavatn – loftmynd.

Ljóst er, að orðið er sett í samband við mannsnafnið Ölver, og verður slíkt allalgengt í bréfum og skjölum eftir þetta.

Vafalaust er það þó enn eldra að skilja Ölfus sem eignarfall af mannsnafninu Ölvir (þ. e. Ölvis). Um 1400 er fyrst farið að rita -is og síðar -es í stað eldra -us, -os í nafninu Ölfus, og hygg ég, að sú breyting sé eingöngu hljóðfræðilegs eðlis, eins og síðar verður gerð grein fyrir. En þar með hefir líka Ölfus fengið sama eða nokkurn veginn sama framburð og ef. af Ölvir, og getur varla hj á því farið, að menn hafi þegar á 15. öld tekið að skýra fyrir sér Ölfuss-nafnið í samræmi við það. Í Landnámuhandritinu AM 107 fol. (Sturlubók), skrifuðu af Jóni Erlendssyni í Villingaholti, kemur t. d. fyrir rithátturinn Aulvisaar og á sömu blaðsíðu í útgáfunni Aulvir, -er (mannsnafnið), Aulvis dottur, Aulvisstadir. Handritið er að vísu frá 17. öld, en það er eftirrit skinnhandrits, sem líklegast hefir verið frá l5. öld.

Ölfusvegir

Ölfusvegir.

Reynt hefir verið að færa rök fyrir því, að nafnið Ölfus standi upprunalega í sambandi við mannsnafnið Ölvir. Þar sem rætt er um niðja Ölvis barnakarls í ritgerð Guðbrands Vigfússonar, „Um tímatal í Íslendingasögum í fornöld“, kemst höfundur svo að orði: „Ölfusið mun bera nafn sitt af þessari ætt; getr vel verið, að svo hafi heitið hérað á Ögðum, þaðan sem þeir voru.“ Hér er bætt við í neðanmálsgrein: „Nafnið er óvanalega myndað (Ölves, líkt og Valdres), mun varla vera á Íslandi annað örnefni, sem er eins myndað. Eyríkr ölfus (ölfús?) hét maðr í Súrnadal (Sírudal) á Ogðum, nálægt Hvini.“

Ölfusvatn

Ölfusvatn – minjar.

Í orðabók Guðbrands er engin skýring gefin á orðinu, en þar er það skrifað „Ölluss, n.“ og talið vera bæði viðurnefni og „the name of a county in Icel., id. (mod. Olves), whence Olfusingar, m. pl. the men jrom O.“

Hér skal ekki farið mörgum orðum um hugmyndir Guðbrands Vigfússonar. Eftirtektarvert er, að í þessum stuttu tilvitnunum hefir hann skrifað orðið á fjóra mismunandi vegu, Ölfus(ið), Ölves, Ölfuss, Ölves (sbr. einnig Ölfusingar). Það sýnir, hve framandi það er honum. Samlíkingin Ölves: Valdres er gagnslaus, því að orðmyndin Ölves er tiltölulega ung, endingin -es yngri en 1400, eins og áður var getið. Auk þess hefir enginn vitað, hvernig nafnið Valdres er myndað. Þegar Magnus Olsen gerði tilraun til að skýra það 1912, vissi hann ekki til þess, að neitt hefði áður birzt um það efni á prenti.

Ölfus

Ölfusölkelda.

Eftir daga Guðbrands Vigfússonar hefir sú kenning skotið upp kollinum oftar en einu sinni, að Ölfus standi í sambandi við mannsnafnið Ölvir (eða Ölver), en enginn fræðimaður mun nú trúaður á það.

Í Lýsingu Ölveshrepps 1703, er áður var getið, segir Hálfdan á Reykjum í upphafi máls síns, að „Aulfvus eður Ölveshreppur“ dragi nafn sitt af Álfi, „fyrsta landnámsmanni þess héraðs“.

Ölfusá

Ölfusá neðan Gnúpa.

Nokkru síðar segir höfundur (bls. 62): „Landnáma greinir, að Álfur (hvar af eg meina allt héraðið dragi sitt nafn og fyrrum er á vikið) hafi numið land í Ölvesi, kom skipi sínu inn Ölvesár mynni, upp eftir Þorleifslæk, í Álfsós, og bjó að Gnúpum.“ Þessu fylgir engin nánari útskýring, en örnefnið Alfsós hefir minnt Hálfdan á Ölfus, og er hugmyndin af því sprottin, án þess að hann hafi gert sér nánari grein fyrir myndun orðsins.

Nærri tveimur öldum síðar reyndi Brynjúlfur Jónsson frá Minna-Núpi að sýna fram á, að Ölfus væri Álf(s)ós. Brynjúlfur mun þó óháður Hálfdani á Reykjum og hefir ekki þekkt ritgerð hans, sem þá hafði ekki verið gefin út, enda segist hann ekki vita til þess, að neinn hafi reynt „að skýra nafnið Olfus, nema hvað Dr. Guðbrandur Vigfússon víkur að því nokkrum orðum í riti sínu: Um tímatal í Íslendingasögum“.

Ölfusvatn

Ölfusvatn – blótsteinn.

– Skal nú vikið nánara að skýringu Brynjúlfs frá Minna-Núpi. Hún er, ásamt athugasemdum Bjarnar M. Ólsens, rækilegasta tilraun, sem enn hefir verið gerð, til að skýra nafnið Ölfus.

Ölfus

Ölfus fyrrum – kort.

Sagt er frá því í Landnámabók, að Álfur hinn egðski, sem stökk fyrir Haraldi konungi til Íslands af Ögðum, hafi komið skipi sínu í ós þann, er við hann sé kenndur og heiti Álfsós. Hyggur Brynjúlfur, að þar sé átt við Ölfusárós og nafnið Ölfus sé einmitt Álf(s)ós. Hann telur, að Álfsós sé hið upphaflega nafn á vatnsfalli því, sem nú heitir Sog og Ölfusá, og hið forna nafn á Þingvallavatni, Ölfusvatn, sé af því dregið, Álfsóssvatn. Sem sveitarnafn hyggur hann Ölfus þannig til orðið, að sveitin hafi verið kennd „við ósinn, sem rann með henni endilangri“ og nefnd Álfsóss-sveit, -hérað, -hreppr eða þvílíku nafni, sem síðar hafi verið stytt, af því að „hver maður vissi hvað um var talað. Menn nenntu þá ekki heldur að hafa orðið lengra en þurfa þótti, nefndu svo sveitina blátt áfram „Ölfus“, og varð það að vana. En um leið fundu menn til þess, að viðfeldnast var, að hafa það nafn hvorugkyns, og gerðu menn það ósjálfrátt“.

Ölfus

Ölkelda á Ölkelduhálsi.

Nafnið Álfsós hefir m. ö. o. aðeins breyst sem liður í samsettu orði, annars ekki. Þess vegna verður að gera ráð fyrir því, að sveitarnafnið hafi upphaflega verið lengra en það er nú. Þetta virðist nokkuð langsótt.

Brynjúlfur Jónsson

Brynjúlfur Jónsson.

En Brynjúlfur varð að gera ráð fyrir þessu til að skýra það, að nafnið Alfsós er varðveitt í Landnámabók ásamt nöfnunum Ölfusá og Ölfusvatn, en Ölfus kemur ekki fyrir þar nema í þessum samsetningum. Brynjúlfur reynir að gera sér grein fyrir því, hvernig Álfsóss gat breyst í Ölfus og rekur það mál. Hann segir þó, að hann vilji ekki fullyrða, að breytingasaga orðsins hafi verið þannig, og telur sig skorta þekkingu á fornmálinu til að geta fullyrt nokkuð um það. En hann telur „víst, að þeir, sem betur kunna, geti sannað það málfræðislega, að orðið Ölfus sje ummyndað úr orðinu Álfós ( = Álfsós)“.

Björn M. Olsen hljóp nú undir bagga með Brynjúlfi og belrumbætti „breytingasögu orðsins“. Hann er sammála Brynjúlfi „um það, að Ölfusið dragi nafn sitt af Álfsósi þeim, sem Landn. nefnir“ og enn fremur „að elsta nafn sveitarinnar hafi verið Alj(s)ósssveit (eða Alj(s)óssherað, Alf(s)ósshreppr)“. Til samanburðar nefnir hann, að Heklufell > Hekla, Auðkúluslaðir > Auðkúla o. fl. Skýring Brynjúlfs fær bezt staðizt í þeim efnum, sem hann taldi sig sérstaklega skorta þekkingu á. Hljóðsögulega séð er ekkert því til fyrirstöðu, að Olfus sé < *Alfös. En sú orðmynd kemur ekki fyrir. Í Landnámabók er höfð eignarfallssamsetning, Álfs ós, en þá mynd vildi Brynjúlfur helzt skýra svo, að seinni afritarar hafi bætt 5-inu inn í. Hér er, að minni hyggju, farið aftan að hlutunum. Eignarfallssamsetningin er einmitt það, sem við mátti búast, og sú staðreynd, að Álfsós kemur fyrir í Landnámabók (ásamt nöfnunum Olfusá og Olfusvatn), bendir eindregið til þess, að það nafn hafi ekkert breytzt, hvorki í Álfós né Ölfus.

Ölfus

Ölfusketill.

Það er alþekkt fyrirbrigði, að landslags- eða náttúrunafn verður byggðarnafn (sbr. Grafnings-nafn), og eru fjölmörg dæmi þess á Íslandi um nöfn á vogum, víkum, fjörðum, ósum o. s. frv., t. d. Selvogur, Kópavogur, Grindavík, Aðalvík, Hornafjörður, Borgarfjörður, Blönduós, Hofsós, svo að fáein séu nefnd af handahófi. Það hefði því ekki verið óeðlilegt, ef nafnið á Ölfusárósi hefði færzt yfir á byggðina við ósinn.

Ölfusá

Ölfusá.

Til dæmis um slíka þróun á Norðurlöndum utan Íslands má nefna Aarhusur ekki notfært sér með því að gera ráð fyrir því, að ósinn hafi heitið Alfsós, því að nafnið er að finna í Landnámabók og gat að hans hyggju ekki breylzt í Olfus nema sem liður í samsettu orði. Gefur hann þó enga skýringu á, hverju það sætir. Þess vegna verður hann að grípa til þess úrræðis, að sveitin hafi heitið Alf(s)ósssveit eða þ. u. l. En óhætt er að fullyrða, að fyrir því eru litlar eða engar líkur, að Olfus sé orðið til sem brot úr slíkri samsetningu. Engum mun detta í hug að halda því fram, að áðurtalin byggðarnöfn séu orðin til með þvílíkum hætti, t. d. Selvogur eða Borgarfjörður. Ölfus hefir greinilega verið til sem sjálfstætt orð, þegar samsettu nöfnin, Ölfusá og Ölfusvaln, voru mynduð.

Ölfusá

Ölfusá.

Fleiri athugasemdir mætti gera við skýringu Brynjúlfs, t. d. um kynferði orðsins. En það, sem nú hefir verið sagt, ætti að nægja til að sýna, að hún er vægast sagt mjög hæpin. Þessari skýringu hefir þó verið haldið fram síðar.

Skal nú horfið að framlagi Finns Jónssonar til þessa máls. Hann telur, að sú skýring sé „efalaust með öllu röng“, að Ölfus sé „afbakað“ úr Alfsós. Hann sýnir helztu rithætti orðsins „í fornbókum og skj ölum“ og segir síðan: „Elsta myndin er Ölfoss-, þ. e. Öl-foss, um það getur enginn vafi verið.“ Telur hann, að nafnið sé „líklega dregið af fossi eða fossum í ánni og er nóg af þeim (í „Sogi“, er nú heitir svo, en áður hefur víst heitið „Ölfossá“), en „öl“ hygg jeg sje s. s. al-, stofninn í allur“. Finnur hugði, að Ölfossvatn væri stytt úr Ölfossárvatn. „Svo færðist nafnið yfir á hjeraðið og varð úr því Ölfoss — Ölfos (með einu s) og svo Ölfus, og varð hvorugkyns, af því að upphaf orðsins var fallið í gleymsku. Þessi skýring á þessu orði er eins hæg eða hægari en hin skýringin úr Álfsós.“

Ölfus

Ölfustaumar.

Páll Eggert Ólafson hugsar sér, að af nöfnunum Ölfus, Ölfusá, Ölfusvatn sé Ölfusá elzt, en Ölfus hafi molnað út úr samsetningu og orðið að byggðarnafni. Eg hefi áður minnzt á, hve sennilegt það er. Þá mun það vera hrein ágizkun, að Ölfusvatn sé Ölfossárvatn, og er ekki fjarska líklegt, að sú breyting hafi átt sér stað fyrir daga Ara fróða. Frá merkingarlegu sjónarmiði er varla hægt að hugsa sér meiri öfugmæli en kenna Ölfusá við fossa. Hún er sérstaklega lygn, eins og kunnugt er.

Ölfusá

Ölfusá.

Að vísu bendir allt til þess, að Sogið hafi einnig heitið Ölfusá í öndverðu, en eins og áður var sýnt, var árheitið að langmestu leyti bundið við vatnsfallið neðan Hvítár, og virðist því fráleitt, að það eigi rætur að rekja til fossa uppi í Sogi. — Gerum samt ráð fyrir því, að sú tilgáta sé rétt, að Ölfusá sé kennd við marga fossa. Hvernig er þá nafnið myndað? Finnur gerir enga grein fyrir því. Líklegast hefir hann hugsað sér, að áin hafi í fyrstu verið nefnd alfossa. Verður þá að gera ráð fyrir lýsingarorði, sem ella er ókunnugt, og fleiri afbrigðum.

Matthías Þórðarson

Matthías Þórðarson – 1877- 1961.

Matthías Þórðarson hefir einnig lagt orð í belg um uppruna nafnsins Ölfus,en það er mjög í sama anda og fyrrnefndar skýringar. Nafnið Ölfusá er að hans hyggju elzt í fjölskyldunni, allt frá dögum Ingólfs Arnarsonar, er hann dvaldist undir Ingólfsfelli, en Ölfus telur hann hafa losnað úr samsetningu, t. d. Ölfoss(ár)hérað eða Ölfosssveit. Skýringu Finns Jónssonar hafnar hann ekki algerlega, en virðist telja líklegra, að Ölfusá sé aðeins kennd við einn foss, er hafi heitið Ölfoss. Hann játar, að óvíst sé, við hvaða foss sé átt, en telur, að komið geti til mála, að strengur sá í Ölfusá, sem nú heitir Selfoss, hafi áður heitið Ölfoss, enda hafi nafnið Ölfusá (Ölfossá) ætíð haldizt á þessum hluta árinnar, en farið af hinum efra (Soginu). Hann telur m. a. s. nöfnin Ölfoss og Selfoss „allmikið lík“ og dettur í hug, að „hið síðara sé sprottið af misskilningi og afbökun á hinu fyrra. Nýgert öl er skolljóst að lit (sbr. nafnið hvítöl) og hefur jökulliturinn á vatninu í fossinum ráðið nafngjöfinni í fyrstu, er ölgerð var stunduð, en selurinn síðar, er menn tóku að verða hans mjög varir við fossinn, þegar hann var að elta þar laxinn“.

Ölfusá

Ölfusá – Selfoss (MWL).

Loks viðurkennir Matthías, að Ölfusvatn (Olfossvatn) sé helzti langt frá þessum fossi til að hljóta nafn sitt af honum, en það muni þá hafa verið kennt við ána og nefnt Ólfossárvatn í upphafi. — Skýringin hefir sem sé ýmsa sams konar annmarka og hinar fyrri, og verður að grípa til harðla ósennilegra ágizkana til að koma henni í höfn.

Ein skýringin — ef skýringu má kalla — er sú, að Ölfus merki ‘fjallver’, þ. e. víst ‘fjallaskjól’. Fyrri liður orðsins er þá talinn alp-, að því er virðist, og hugsað til Alpafjalla í því sambandi. Síðari liðurinn á að vera -ver, sbr. bæjarnafnið Hringver. — Skýringin er öll í miðaldastíl og hrein lokleysa.

Auk beinna skýringartilrauna hafa verið settar fram hugmyndir og tilgátur, sem vert er að gefa gaum.

Ölfusá

Ölfusá. Ingólfsfjall fjær.
Selfoss var landnámsjörð Þóris Hersis Ásasonar en einnig er getið um vetursetu Ingólfs Arnarsonar 873-74 „undir Ingólfsfelli fyrir vestan Ölfusá“.

Í orðabók Larssons er eitt dæmi um nafnið Ölfus. Það er úr AM 645 4to, stendur í þgf. og er skrifað avlfose.“ Í orðabókinni er gert ráð fyrir nefnifallsmyndinni aolfóss, og í skránni aftan við orðasafnið sést, að Larsson hefir talið orðið vera samsett aolf-óss og flokkar það (ásamt óss) undir karlkennda a-stofna (bls. 423). Þetta er auðvitað tilgáta Larssons. Hann gat ekki haft neina heimild fyrir því, að orðið hafi verið karlkyns eða haft -ss í nf., og um lengd síðara sérhljóðsins (o) hefir hann einnig orðið að geta sér til.

Gljúfur

Gljúfur í Ölfusi – vestan við Grafningsháls.

Orðmyndin „aolfóss“ er því búin til í lok 19. aldar, en kemur ekki fyrir í elztu handritum. Enginn þeirra, sem reynt hafa að skýra nafnið, síðan bók Larssons kom út (1891), virðist hafa veitt hugmynd hans athygli.

Hér á eftir verður nú gerð ein tilraun enn til að varpa ljósi á uppruna nafnsins Ölfus.

Með því að athuga samsett örnefni má fá vitneskju um afstæðan aldur þeirra. Þetta ber að hafa í huga við skýringu orðsins Ölfus. Af merkingarlegum ástæðum er einnig nauðsynlegt að hafa hliðsjón af samsettu nöfnunum Ölfusá og Ölfusvatn. Af þeim eru svo mynduð önnur samsett nöfn, t. d. Ölfusárós, Ölfusvatnsfjöll, Ölfusvatnsá. Rétt er og að hafa í huga orðið Ölfusingur, sem er greinilega leitt af nafninu Ölfus.

Ölfus

Ölfus – áletranir á steini…

Það getur varla verið neitt vafamál, að Oljus er elzt þessara nafna; prentuð í Lögrjettu, 23. okt. 1918, síðan endurprentuð í frumútgáfu Nýals, 2. hefti, 1920.

Hér má nefna eitt dæmi til viðbótar. Í Hervarar sögu er sagt, að Starkaðr Aludrengr bjó við Álufossa. Þetta nafn vildi Birger Nerman lesa Alufossa og taldi það sama orð og Qljossa = Qljusá (Birger Nerman, „Alvastra“, Namn och bygd,l (1913—14), 98).

Árbók HÍF 1949-50

Árbók HÍF 1949-50.

Sbr. Hans Kuhn, „Upphaf íslenzkra örnefna og bæjanafna“, Samtíð og saga, safnrit háskólafyrirlestra, V (Reykjavík 1951), 183—197; sami, „Vestfirzk örnefni“, Árbók Hins íslenzka fornleifajélags, 1949—50, 5—40, a. m. k. er eðlilegast að gera ráð fyrir því. Bendir allt til þess, að það sé mjög gamalt örnefni. Samsetningarnar Ölfusvatn og Ölfusá koma báðar fyrir í elztu ritum (Íslendingabók og Landnámabók) og verður ekki betur séð en Ölfus sé þá orðið óskiljanlegt orð.
Ef það hefir verið gegnsætt og auðskilið öllum í fyrstu, verður að ætla því nokkra áratugi a. m. k. til að breytast svo, að það verði öllum mönnum framandi. — Olíklegt er, að það hafi verið óþekktrar merkingar, er það varð örnefni á Íslandi. En ef svo hefir verið, kemur varla annað til greina en það sé fornt örnefni, sem flutzt hafi með landnemum. — Loks er hugsanlegt, að nafnið hafi í upphafi skilizt af sumum, en ekki öllum, en slíkar aðstæður voru tæpast fyrir hendi nema á landnámsöld. — Eg mun því hafa fyrir satt, að Ölfus sé eitt af elztu örnefnum á Íslandi, nokkurn veginn jafnaldri byggðarinnar í landinu.

Næstelzta handrit, sem varðveitir nafnið Ölfus, svo að mér sé kunnugt, er ÁM 310 4to, eitt af aðalhandritum Ólafs sögu Tryggvasonar eftir Odd munk Snorrason. Það er talið ritað af Norðmanni á síðara hluta 13. aldar eftir íslenzku forriti. Í þessu handriti er ritað hia Olvus vatni (bls. 128 í útg. Finns) og er í Olfosi (bls. 162). Eru þá talin dæmi, er ég þekki úr handritum, sem víst má telja eldri en 1300.

Orðið Ölfus kemur fyrir í Íslendingabók og Landnámabók, sem auðvitað eru eldri en AM 645 4to. En öll handrit þeirra eru yngri en 1300, og er því ekkert á þau að treysta í þessum efnum. Handrit Íslendingabókar {AM 113a og 113b fol.) eru m. a. s. frá miðri 17. öld, eins og kunnugt er, en um þau gegnir nokkuð sérstöku máli. Talið er, að þau séu eftirrit mjög gamals skinnhandrits, jafnvel frá því um eða fyrir 1200.

Ölfus

Í ofanverðu Ölfusi…

Finnur Jónsson sagði í skýringu sinni á orðinu Ölfus, að elzta mynd þess væri „Ölfoss-, þ. e. Öl-foss, um það getur enginn vafi verið í handritum frá 14. öld fram til 17. aldar virðist mér oftast skrifað au, en o er einnig algengt, ýmist ómerkt eða með merkjum, þverstriki eða lykkju yfir eða undir, o. fl. Eftir að sú hefð hefir einu sinni komizt á að skrifa au eða o í þessu orði, er henni gjarnan haldið áfram.

Finnur Jónsson

Finnur Jónsson frá Kjörseyri.

Í Þorsteins sögu Víkingssonar (1. kap. I er þessi frásögn: Grímr var inn mesti berserkr. Hann átti Alvöru, systur Álfs hins gamla. Hann réð fyrir því ríki, er liggr í milli á tveggja. Þær tóku nafn af honum, ok var kölluð elfr hvártveggi. Var sú kölluð Gautelfr, er fyrir sunnan var við land Gauta konungs ok skildi við Gautland. En sú var kölluð Raumelfr, er fyrir norðan var ok kennd var við Raum konung. Ríki þat var kallat Raumaríki. Þat váru kallaðir Álfheimar, er Álfr konungr réð fyrir, en þat fólk er allt álfakyns, er af honum er komit.

Í 10. kap. Sögubrots af fornkonungum er einnig sagt, að af Álfi gamla „tóku nöfn þær tvær meginár, er elfr heitir hvártveggi síðan“. Og áþekkar eða hliðstæðar frásagnir eru víða til í fornaldarsögum.

Það er ekki laust við, að þessar sagnir í öllum sínum ófullkomleik renni nokkurri stoð undir skýringuna á Álfheimar og Álfarheimr og þá um leið orðmyndina alfös. Þær sýna, að snemma á öldum var í hugum manna náið samband milli orðanna Alfr og elfr. Hér virðist vera um gamla og rótgróna hefð að ræða, svo oft er á þetta minnzt í fornaldarsögum. — Og það má mikið vera, ef hér er ekki komin skýringin á nafninu Álfsós í Landnámabók. Gæti það ekki verið til orðið sem eldgömul tilraun til að skýra fyrir sér orðmyndina alfðs n.? Álfsós er hvergi nefndur í fornritum nema í Landnámabók.

Ölfus

Í Ölfusborgum.

Hálfdan á Reykjum eykur við frásögn hennar, er hann segir, að Álfr hinn egðski hafi komið „skipi sínu inn Ölvesár mynni, upp eftir Þorleifslæk, í Álfsós, og bjó að Gnúpum. Ós þessi liggur að austanverðu nær því við Þurrárhraun“. Hálfdan hefir þekkt einhverjar sagnir um það, að þarna væri Álfsós Landnámu, ef hér er þá ekki um eigin ályktun að ræða, en það virðist mér allt eins sennilegt. Í Jarðabók Arna Magnússonar og Páls Vídalíns er óssins tvívegis getið. Í fyrra skiptið er talað um silungsveiðivon í Álfsós, er sumir nefni Alflarós, og því nafni einu er svo ósinn nefndur skömmu síðar (bls. 420). Gæti verið, að Álftarós hafi verið algengara nafnið, en Hálfdan á Reykjum viljað halda hinu fram. Þessi hluti Jarðabókar er skrifaður á Reykjum í Ölfusi 9. ág. 1708, ári eftir lát Hálfdanar. Nú munu þessi örnefni týnd.

Ölfusá

Ölfusá – Þorleifslækur.

Þessar hugleiðingar fæða af sér nýjar spurningar. Hvað líður nú Álfi landnámsmanni, er Landnáma telur Alfsós við kenndan? Sannleikurinn er sá, að sögnin um hann er mjög tortryggileg og ekkert líklegra en hún sé sprottin af örnefninu. Eru slíkar örnefnasögur kunnari á Íslandi en frá þurfi að segja — og reyndar víðar. — Álfr er sagður barnlaus, föðurnafn er óþekkt og framætt öll, en viðurnefnið bendir til Agða, og þaðan er hann sagður hafa stokkið fyrir Haraldi konungi hárfagra. Hann er tengdur þannig við Ölfusinga, að Þorgrímr Grímólfsson, föðurfaðir Þórodds goða, er sagður vera bróðursonur Álfs og á að hafa komið út með honum til Íslands og tekið arf eftir hann. Ef sagan af Álfi er tilbúningur, hefir hann fengið viðurnefni, af því að föðurnafni var ekki til að dreifa, og nefndur hinn egðski, af því að Þorgrímr hefir verið talinn frá Ogðum. Á öðrum stað í Landnámu er maður nefndur Grímólfr af Ögðum, en hann er talinn vera sami maður og Grímólfr, faðir Þorgríms, eða m.ö.o. bróðirÁlfs.“

Ölfusvatn

Ölfusvatn (Þingvallavatn).

Ef Álfr hinn egðski er nú dæmdur úr leik og gert er ráð fyrir því, að nafnið Olfus sé ættað frá Suðaustur-Noregi eða Vestur-Svíþjóð, má þá ekki vænta þess, að Landnámabók greini frá innflytjendum þaðan? Þess eru víst dæmi, en ekki í Árnessþingi. Mér hefir ekki tekizt að finna neitt í Landnámabók, er sérstaklega styðji skýringu mína á uppruna Ó//«sí-nafnsins. Ekki má þó leggja mikið upp úr því; svo tæmandi og traust heimild er Landnámabók ekki. „Landnámabækur veita litla fræðslu um uppruna landnámsmanna í Árnessþingi né heldur, hvar þeir dvöldust eða áttu heimkynni síðast, áður en þeir fóru til Íslands,“ segir Einar Arnórsson.

Ölfusvatn

Ölfusvatn (Þingvallavatn).

Einhverjum kann að þykja það langsótt, að Ölfusá hafi haft frummerkinguna ‘áróssá’. Það er þó ekki fráleitara en nafnið Aaroselven í Noregi (Rygh, Norske Gaardnavne, V (1909), 346). Annars geri ég ekki ráð fyrir, að Ölfusá hafi nokkurn tímann merkt ‘áróssá’. Ég hugsa mér, að Ölfus hafi verið orðið óskiljanlegt nafn, þegar heitið Ölfusá varð til.“

Annars verður að telja svolítið sérstakt í framangreindu samhengi að fornt örnefni skuli vitna um tiltekna heild fyrrum, sem nú virðist orðin samhverf…

Heimild:
-Lingua Islandica – Íslensk tunga – Baldur Jónsson, Tímarit um íslenska og almenna málfræði, 4. árg., Bókaútgáfa Menningarsjóðs og Félags íslenskra fræða, Reykjavík 1963, bls. 7-53.

Ölfus

Ferlirsfélagar við leitir að fornleifum í Ölfusi.