Hvaleyri

Eftirfarandi upplýsingar um kletta og klifur í og við Hafnarfjörð er að finna í Örnefnalýsingu Guðlaugs Rúnars Guðmundssonar fyrir Hafnarfjörð árið 2004:

Guðlaugur Rúnar Guðmundsson

Guðlaugur Rúnar Guðmundsson.

Arnarnípa, uppmjór klettur í vesturenda Hæðarinnar í klifinu, Ljósaklifinu (G.B.).

Ágústarvörður (Augustarvörður) ofan Rauðhólsnefns og framan við Eyrarhraun. Sjá má vörðurlaga klett að baki Herjólfsgötu 34, þaðan markaðist Ágústarland Flygenrings suður í Sönghól (Gönguhól (hjáleiga, eftir 1903, Grútarstöðin) við Sönghóls-/Gönguhólsklif milli Herjólfsgötu 28 og Langeyrarbæjar. Lá fram í sjó. Herjólfsgata var brotin þar í gegn 1946-1947 (G.B.).

Balaklettur (-ar) er fram af túni býlisins bala í Garðahverfi. Á Balakletti er varða, Markavarða. Þaðan er sjónhending í vörðuna sem er rétt sunnan við Hrafnistu í Hafnarfirði.

Hafnarfjörður

Bingurinn.

Bingurinn var svæðið kallað frá Christensenshúsi suður að pakkhúsi sem brann 1906 (G.S.). Þarna er um að ræða neðsta hluta Reykjavíkurvegar nálægt því sem nú er eystri brún eystri akreinar og undir suðvesturhluta Vitans, hins verðandi bókasafns Hafnarfjarðar. Christensenshús stóð þar sem síðar reis Flygeringshús/Hótel Björninn/Hótel Þröstur/Veiðafæradeild Kaupsfélags Hafnarfjarðar. Það var Vesturgata 2 en veitingahúsið A. Hansen er Vesturgata 4. Bingsnafnið virðist tilkomið af því að þarna voru geymdar kolabirgðir dönsku varðskipanna (G.B.).

Hafnarfjörður

Hafnarfjörður um 1900.

Blikalón I. Býli í Hraunum. Vorið 1966 samþykkti bæjarstjórn Hafnarfjarðar að nota heimild í 26. grin skipulagslaga nr. 19/1964 til að áskilja sér forkaupsrétt að öllum lóðum og fasteignum í Hafnarfirði vestan Krýsuvíkurvegar sem lagðar voru undir lögsagarumdæmi Hafnarfjarðar með lögum nr. 46/1964. Meðal þessara eigna voru jörðin Lónakot, jörðin Óttarsstaðir, þar með talið gamla býlið Óttarsstaðir II, Óttarsstaðagerði, Blikalón I og Glaumbær.
Húsið stóð niðri í lægðinni niður og vestur frá Sæbóli. Lægðin var alldjúp, næstum gjóta og hefur þar verið skjólsælt (G.B.).

Hafnarfjörður

Hafnarfjörður – málverk frá því um 1900.

Brúarhraunsklettur var spölkorn norðan Hamrakotslækjar. Allstór klettastapi gekk fram úr hrauninu og náði nokkuð út í fjöruna fram undan Brúarhraunsbæjunum. Brúarhraunsklettur var eini kletturinn fyrir botni fjarðarins sjávarmegin götunnar. Gatan lá skammt fyrir ofan klettinn. Kletturinn var að mestu flatur að ofan og nokkuð gróinn, um 30 metra á lengd en um 10-12 metra á breidd. Endi hans mun hafa verið um 5-7 metrar á hæð og nokkuð þverhníptur. Hliðar hans lækkuðu þegar ofar dró þar sem fjaran beggja vegna hafði nokkurn halla.

Hafnarfjörður

Hafnarfjörður – ströndin neðan Hafnarborgar og Hafnarfjarðarbíós.

Þegar dönsku herskipin Hekla og Heimdallur voru hér við land um og fyrir síðustu aldamót var það oft að lúðrasveit þeirra kom í land, þar eð þau lágu oft langdvölum í Hafnarfirði með lúðra sína og bumbur og raðaði sér upp á Brúarhraunskletti og spilaði fyrir fólkið sem fyllti götuna fyrir ofan. Var Hafnfirðingum að þessu hin besta skemmtun. Að þessu leyti var Brúarhraunsklettur Austurvöllur Hafnfirðinga (Ólafur Þorvaldsson). Brúarhraunsklettur var þar undir sem nú (2002) er Pósthúsið og Símstöðin, gegnt Strandgötu 25-27 (G.B.).

Brúarklöppin var klöppin kölluð sem liggur undir Hafnarfjarðarbíói (G.S.). Brúarklöppin lá svolíti austar en Brúarhraunsklettur, örlitlu austar en móts við Gunnarssund. Þar var einmitt Hafnarfjarðarbíó, sem rifið var um 15. nóvember 2001. Bílastæði nú (2002) (G.B.).

Hafnarfjörður

Efstireitur við Ljósaklif.

Efstireitur var austan við Ljósaklif. Skreiðarskemmur voru reistar þar upp úr 1950 er skreiðaröld hófst að nýju. Hann tók við ofan Háareits, þ.e. nálægt því þar sem nú er vegur að húsunum Ljósklifi og Fagrahvammi. Hann var í raun tvískiptur og var eystri hluti hans, sá er meðfram vegi lá lægri en hinn hlutinn á bungunni þar vestur af. Vesturbrún reitsins má enn já að hluta, hlaðna á barmi lægðarinnar sem Ljósaklif stendur í og er þar lág. Víðast ein steinaröð eða tvær. Hvorugur reitanna náði alveg upp að Garðavegi (G.B.).

Hafnarfjörður

Engidalsnef.

Engidalsnef er hraunbrúnin við Engidal. Þegar vegurinn var lagður 1873 lá hann út af hrauninu um Engidalsnef, rétt á austurhorninu (G.S.).

Fiskaklettur. Krosssprunginn klettur vestur frá Gestshúsum í sjó fram. Allmikið dýpi var við klettinn og þar fiskaðist vel. Enn má sjá leifar af Fiskakletti við vöruskemmu Eimskipafélags Íslands (G.S.). Ólafur Þorvaldsson lýsir klettinum: „Fiskaklettur var hraundrangur, nokkurra metra hár, ekki mikill ummáls, en mjókkaði nokkuð, þegar til toppsins dró, sem var nokkuð klofinn.

Hafnarfjörður

Fiskaklettur.

Nokkuð var hann brimsorfinn á þeim hliðum, séð að sjó vissu, enda var hann oftast votur um fætur, og höfðu Ægisdætur endur fyrir löngu tekið að sér að sjá um þann sjóþvott. Í skjölum og sögnum síðari alda kemur Fiskaklettur oft við sögu. Þetta mun oftast vera vegna þess, að hann var endimark hinnar fornu verslunarlóðaar (Akurgerðislóðar) að vestan með sjó. Að austan voru takmörk þeirra lóðar Hamarskotslækur“.

Hafnarfjörður

Gunnarsbær, bær Gunnars Gunnarssonar.
„Gunnarsbær stóð þar sem húsið Gunnarssund 1 stendur stóð áður.

Fjósaklettur (Linnetsklettur, Fjósklettur) er nú niðurbrotinn, tyrfður og umhlaðinn brotahleðslusteini í hinu húslausa horni austan og ofan gatnamóta Strandgötu og Linnetsstígs, í raun krikinn vestan undir húsunum Strandgötu 17 og 17b en mun hafa náð nokkuð niður í stæði Strandgötunnar (G.B.). Fjósaklettur var einnig kallaður Linnetsklettur (G.S. og Ó.Þ.). Ólafur Þorvaldsson kallar klettinn Fjósklettt eða Linnetsklett og segir ennfremur: „Klettur þessi var austan við verslunarhús H.A.Linnets, og var hann ofan við götuna, þegar vestur eftir var farið. Hann gekk fram í götuna og var nokkur sveigur á henni fyrir klettinn. Þó var sýnilegt, að úr honum hafði verið rifið fyrir götunni, það eð hann var nokkuð þverhníptur fremst, en þó með smásyllum, og höfðu börn þar stundum bú sín og leikföng, sem að mestu voru steinar og skeljar úr fjörunni. Börnunum var þetta hættulaust, þótt við alfaraveg væri, vegna þess að umferðin var þeim ekki þá eins hættuleg á götum úti og síðar varð.

Hafnarfjörður

Gunnarssund 1 og nágrenni.

Linnetsklettur var sléttur að ofan og grasi gróinn. Ekki var hann mikils ummáls, þó hefðu sennilega getað staðið þar uppi í einu framt að hundrað manns. Við þá hlið klettsins, sem frá götunni sneri, hafði Linnet byggt fjós fyrir kýr sínar, sem oftast munu hafa verið tvær. Var fjósið byggt að nokkru inn í klettinn, og sáust því aðeins tveir útveggir, norðurhlið og suðurstafn. Torfþak var á fjósinu og tók ris þess upp fyrir yfirborð klettsins. Var það sniddutyrft og jafngróið, eins og kletturinn að ofan… Flestir ferðamenn sem um Fjörðinn fóru, einkum þeir, sem oft fóru um, svo sem þeir sem með skreiðarlestir fóru, könnuðust vel við þennan klett, sem þeir stundum nefndu „Þránd í götu“, svo oft rákust baggar hestanna í klettinn, sökum þess, hve gatan var mjó þarna vegna hleðslu, sem þarna var fyrir framan til varnar sjávargangi upp á götuna“ (Ó.Þ.).

Hafnarfjörður

Til vinstri í fjarska, er líklega Brúarhraun, næst Gunnarsbær, hann var rifinn fyrir allmörgum árum, þar er nú bílastæði. Í fjarska er líklega Hraunprýði, það var rifið, nú er þar bílastæði. Nær, fyrir miðri mynd, lágreist hús, það var Gunnarssund 4, rifið, á lóðinnin stendur nú tveggja hæða steypt hús. Annað hús frá hægri er hús sem fyrst var Miðsund 3 en er nú Austurgata 30. Það hús byggði Christian Olauvson Smith árið 1905 en hann kom til landsins á vegum Jóhannesar Reykdals til að setja upp vélar í nýja timburverksmiðju hans, við lækinn. Því næst er húsið Austurgata 32 , áður Miðsund 4, byggt 1906. 

Gataklettur var fram undan sundhöll Hafnarfjarðar, en er nú horfinn (Á.G.).

Gunnarssund lá upp í hraunið vestan við Ragnheiðarhól og lá í krókum upp í hraunið. Uppsátur skipa og báta (G.S.). Gunnar Gunnarsson hjó sundið upphaflega í hraunið til að draga þar upp báta sína um vetur. Sundið lá sunnan/austan Árnahúslóðar að Gunnarsbæ er stóð á næstu lóð fyrir ofan, beint upp af Strandgötu 29. Nafnið var síðan notað þegar farið var að gefa götum nöfn í Hafnarfirði. Sigurjón Gunnarsson segir svo um Gunnarssund: „Frá Strandgötunni og heim að bænum ruddi faðir minn braut það breiða að hægt var að setja sexæring þar upp á veturna, hvolfdi hann skipi sínu þar í suðri [sennilega sunnan undir bænum (G.B.] svo að það væri öruggt fyrir sjávargangi“ (G.S.).

Hafnarfjörður

Syðstavarða ofan Gjögurs.

Gjögur nefnist strandlengjan við Hvaleyrarhraun og kapelluhraun frá Arnarklettum vestur undir Lónakot (Á.G.). Í lýsingu G.S.. segir að Gjögrin taki við þar sem Litla-Sandvík endar. Alfaraleiðin eða suðurferðaleiðin lá frá túngarðshliðinu niður á Hveleyrarsand og lá lítið eitt ofan við Gjögrin. Þar var klapparhóll er leiðin lá um, nefndist Miðhóll og þar í Móðhola (G.S.). Í Móðlu var kveðinn niður draugur.

Heimastavarða var við gömlu leiðina við Gjögur í Hvaleyrarhrauni. Síðan kom Miðvarða og syðst Syðstavarða (G.S.).

Hótel Björninn rak Guðrún Eiríksdóttir á Vesturgötu 2 (G.S.). Þar var oft mikill gleðskapur hermanna á stríðsárunum.

Hafnarfjarðar

Hraunprýðishóll.

Hraunprýðishóll (Fríkirkjuhóll) var heitið á Fríkirkjuhól fram að því að Fríkirkjan reis 1913 (G.B.).

Hvíldarhóll (Hvíluhóll) var hraunhóll rétt við Kirkjuveginn (G.D.). Hann var einnig nefndur Hvíluhóll. Hann er fremsti hluti hólranans niður undan markavörðunni fram við Hrafnistu. Garðavegur var brotinn um hann framanverðan og liggur þar enn. Hóllinn dró nafn af því að þar hvíldi kirkjufók sig á göngunni milli Hafnarfjarðar og Garða frá því um aldamót er Garðavegur var lagður og til 1914 er Hafnarfjarðarkirkja var vígð. G.B. heyrði aldrei annað nafn en Hvíluhóll fyrr en 1999 er hann heyrði fyrst Hvíldarhólsnafnið nefnt. Lítið eitt var brotið af hólnum við húsflutning (->Sæból). (G.B.).

Hafnarfjörður

Fagrihvammur og Ljósaklif.

Jóhannshellir (->Kristínarhellir) var nálægt Vitanum, sami hellir og Kristínarhellir. Þar hafði Jóhann Baldvinsson fé sitt (G.S.).

Klofhóll var þar sem Gamla-Fjarðargata lá upp á hraunið við Engidalsnef og suður af honum, Stekkjarlaut, sem nú er afgirt (G.S.).

Ljósaklif (húsið) var reist af Benedikt Guðnasyni 1945-1946. Þar við var hænsnahús, fiskverkunarhús, bílaverkstæði, gallerí, allt sama húsið nema galleríið sem var verkstæðishúsið endurgert.

Hafnarfjörður

Hamarskotsmöl.

Marlaroddinn var vesturendi Hamarskotsmalar, austan við Lækjarósinn. Náði mislangt vestur eftir því hvar ósinn lá – eða var látinn liggja (G.B.).

Mölin (->Hamarskotsmöl) var svæðið sunnan Hamarskotslækjar kallað á svipuðum slóðum og Strandgatan er nú. Um hana segir Ólafur Þorvaldsson: „Þegar til Reykjavíkur var farið úr suðurfirðinum, lá leiðin svipað og Strandgatan er nú. Sunnan lækjarins var Mölin, og var enginn vegur lagður yfir hana, og var því ýmist farið um sýslumannstúnið, ef sæmilega þurrt var um, eða þá eftir Mölinni, allt sunnan frá bakaríi og nyrst á Malarenda, en þar var brú á læknum, rétt þar sunnan við, sem nú er lyfjabúð Hafnarfjarðar.

Hafnarfjörður

Rauðhólsnef.

Mölin var var laus og þung hestum og tók þeim víða í hófskegg. „Magnús Jónsson segir að þegar talað var um húsin á Mölinni að nefnt hafi verið að fara suður fyrir Möl, að vera niðri á Möl eða þvíumlíkt.“ „Síðan var Mölin oft kennd við helstu athafnamenn þar á hverjum tíma – Bergmannsmöl, Ólafsmöl og svo Einarsmöl þegar nálgaðist Moldarflötina og lækinn og Einar Þorgilsson flutti bækistöð sína á Óseyri“ (M.J.).

Ágústarklettur

Ágústarklettur ofan Langeyris.

Sjóhús við Rauðhólsnef, allstór risbyggður bárujárnsskúr til verkunar grásleppuhrogna, reistur á möl beint ofan Rauðhólsnefs um 1953. Rifinn fyrir 75 ára afmæli Hafnarfjarðar 1983 (G.B.).

Skipaklettur (Jaktaklettur) er nefndur í Jarðabók Árna og Páls: „Jörðin [Setberg] á ekki land til sjávar, en búðarstöðu á hún og skipsuppsátur í Garðastaðar landareign þar sem heitir Skipaklettur. Er þetta eiginlega í Akurgerðislandi, sem Hafnarfjarðarkaupstað tilheyrir. En þó er undirgiftin fyrir þetta skipsuppsátur betöluð og hefur betalast til staðarhaldarans í Görðum með xx álnum“.

Hafnarfjörður

Hvíldarhóll.

Bjarni Sívertsen lét árið 1805 grafa þurrkví inn í malarkambinn austan við Skipaklett (Jaktaklett) örskammt vestan við verslunarhúsin í Akurgerði (L.G.).
Ólafur Þorvaldsson þekkir einungis nafnið Jaktaklettur. „Jaktaklettur hefði eftir útliti og lögun mátt fremur nefnast hóll heldur en klettur, svo mikill var hann um sig. Hliðar hans, sem móti norðri og austri sneru, höfðu nokkurn aflíðanda, en suðurhlið, sem að sjó vissi, og vesturhlið voru ýmist þverhníptar eða stöllóttar. Norður- og austurhliðar Jaktakletts drógust nokkuð jafnt til efstu brúnar, og myndaðist þar hryggur til suðvesturs og norðausturs, og stóðu klappirnar þar víða upp úr.

Hafnarfjörður

„Sundklettur“, neðan Sundhallarinnar. Þar var hafnfirskum börnum kennt sund fyrr á árum.

Á efri árum Jaktakletts, ef svo mætti segja, ber að vísu ekki mið við sögu hans, þó skal þess getið, að á fyrstu árum, sem Ágúst Flygering kaupmaður og útgerðarmaður rak þá atvinnu í næsta nágrenni, lét hann reisa fánastöng uppi á Jaktakletti. Þaðan var skipum, innlendum og útlendum, heilsað og þau við burtför kvödd fánakveðju. Á sviðuðum tíma höfðu tveir eða fleiri Hafnafirðingar söltunar- og verkunarstöð sunnan undir klettinum, í pöllum hans og básum, fyrir hrognkelsiveiði sína, og versluðu þar meða afla sinn við sína viðskiptamenn.
Fremur mun fátítt, að klettar og önnur kennileiti á landi uppi séu kennd við skip, en svo er þó hér, Umræddur klettur er kennur við jaktir, þ.e. lítil fiskiskip seytjándu og átjándu aldarinnar (máske eitthvað lengur).

Hafnarfjörður

Gönguhóll.

Á fyrsta tug nítjánu aldarinnar mun fyrstu og að ég ætla einu þurrkvínni, sem byggð hefur verið hér á landi, hafa verið komið upp austan undir þessum umrædda kletti, og allar líkur benda til, að hún hafi verið fyrsta skipasmíðastöð landsins, sem svo getur kallast. Í þurrkví þessa munu, eftir því sem sögur herma, hafa verið teknar til viðgerðar fiskiskútur, sem þá gengu undir nafni jaktir. Sömuleiðir benda og allar líkur til þess, að þarna hafi verið byggðar tvær eða fleiri jaktir. Árið 1803 hafði Bjarni Sívertsen þá ánægju að sjá fyrstu jaktina fljóta fyrir landi.

Stifnishólar

Stifnishólar.

Stifnishólar eru beint framan Brúsastaða. Aðrir segja Stífnishóla vera kletta ofan bæjarins. Sama saga er sögð um Stíflishóla í landi Selskarðs við Skógtjörn. Vestan Stífnishóla eru hleðslur, sennilega vígis frá styrjaldarárunum, fremur en naust. Þar hvolfdi Þórður Eyjólfsson á Brúsastöðum kænu sinni á vetrum á 6. áratugnum en almennt var þetta álitið „vígi“ en fley Þórðar á þeim tíma smátt. Þarna var gerð leikmynd fyrir sjónvarp á 8. og 9. áratugnum er upp var tekinn þáttur um börn á stríðsárunum síðari. Nokkrar hleðslur allþykkar mátti sjá í klettaskorum vestan við Stífnishóla á eftirstríðsárunum. Ungmenni kotanna töldu þetta „vígi úr stríðinu“ er þá var nýlokið (G.B.). Stífnishólar eru krossprungnir klapparhólar beint framan af bænum. Þar var kveðinn niður draugur um aldamótin 1800 (G.S.).

Hafnarfjörður

Svendsensklettur neðan Reykjavíkurvegar 16.

Svendsensklettur stendur enn neðan Reykjavíkurvegar 16 (G.S.).

Sæból (áður Reykjavíkurvegur 12), flutt 1959-1951 á næstu lóð framan við eða nær sjó en Dalbær. Þar bjó Björn Bjarnason (f. 1907- d. 1998) með fjölskyldu sinni. Það hús á nú sonur hans Edvard Rafn (G.B.). Er hús þetta var flutt þurfti að brjóta nokkuð framan af Hvíluhól (Hvíldarhól) nokkuð framan við Markavörðuna við Hrafnistu til að húsið mætti flytja þar um veginn (Árni Gunnlaugsson 1984).

Heimild:
-Guðlaugur Rúnar Guðmundsson – Örnefnalýsing Hafnarfjarðar 2004.

Hafnarfjörður

Hafnarfjörður – loftmynd 1954.

Straumsvík

Í Náttúrufræðingnum árið 1998 fjallar Páll Imsland  „Um náttúruvár á Straumsvíkursvæðinu„.

Náttúrufræðingurinn 1998

Náttúrufræðingurinn 1998 – forsíða.

„Ekkert mat á umhverfisáhrifum mannvirkja eða framkvæmda var komið til þegar undirbúningur og bygging álvers við Straum átti sér stað á sjöunda áratug 20. aldar og þá var heldur ekki farið að huga í mikilli alvöru að mögulegum áhrifum náttúrunnar á byggingar eða starfsemi slíkra iðjuvera. Það má því segja að álverið sé við Straum þrátt fyrir að starfsemi þess beri í sér möguleikana á óheillavænlegum áhrifum á umhverfið og þó að þar lúri vár í náttúrunni sem gætu orðið starfseminni til óþurftar. Hér verður ekki fjallað um áhrif álversins á umhverfið heldur reynt að gefa einfalda mynd af því hvernig álverið er í sveit sett með tilliti til náttúruváa. Ekki hefur verið gerð sérstök og magnbundin úttekt á náttúruvám með beinni hliðsjón af mögulegum áhrifum þeirra á álverið, en sitthvað er vitað almenns eðlis um náttúru svæðisins, þær vár sem þar gætu komið upp og hver almenn áhrif þeirra yrðu.

Páll Imsland

Páll Imsland (f. 1943) lauk B.S.-prófi í jarðfræði frá Háskóla íslands 1973 og doktorsprófi frá sama skóla 1985. Páll hefur m.a. unnið að rannsóknum á jarðfræði Jan Mayen og náttúruvám. Páll er fyrrverandi ritstjóri Náttúrufræðingsins.

Þessi umfjöllun er á þeim almennu nótum. Á mjög einfaldan hátt má gefa várnar til kynna með því að lýsa staðsetningu álversins í landinu í ljósi náttúrufars þar: Álverið stendur á opinni ströndu sem liggur í fjölfarinni braut orkuríkra veðurkerfa skammt frá eldvirku landrekssvæði. Með öðrum orðum þýðir þetta að þarna megi vænta náttúruváa sem eiga sér orsakir í hafrænum, jarðlægum og veðurfarslegum ferlum eða í samspili þeirra. Þau jarðlægu öfl sem þarna eru virk tengjast flest landrekinu. Undir Reykjanesskaganum liggja mörkin milli þeirra tveggja jarðskorpufleka sem mynda jarðskorpu Norður-Atlantshafsins mestan hluta norðurhvels og jarðar, Evrasíuflekans og Norður-Ameríkuflekans, og þar verða flekarnir til við gliðnun og eldvirkni. Því eru sterk tengsl milli nokkurra þeirra ferla sem geta valdið ólíkunr vám á þessu svæði, og ef eitt þeirra fer að gera vart við sig má vænta þess að önnur fylgi í kjölfarið.
Skal nú vikið að hverri þessara náttúruváa og reynt að hafa Straumsvík í huga. Þær náttúruvár sem eru líklegastar til að gera verulegan usla á svæðinu eru: ofviðri, strandflóð, jarðskjálftar, sprungumyndun í yfirborði jarðar, eldvirkni, landsig og landbrot við ströndina. Yfirlit yfir náttúruvár á Straumsvíkursvæðinu er gefið á 1. mynd.

Ofviðri

Páll Imsland

1. mynd. Kortskissa af Suðvesturlandi sem sýnir helstu þætti náttúruhamfara á svœðinu og hvernig þeitn er fyrirkomið í jörð og andrúmslofti með tilliti til Straums. R stendur fyrir Reykjanes-, G fyrir Grindavíkur-, K fyrir Krýsuvíkur-, B fyrir Brennisteinsfjalla- og H fyrir Hengilssprungurein.

Óveður ganga undir ýmsum nöfnum, svo sem illviðri, ofviðri, aftakaveður, fárviðri o.fl. Hér verða einkum notuð orðin ofviðri og aftakaveður. Ofviðri einkennast af sterkum vindi, sem hér á landi er oftast samfara úrkomu. Venjulegast er að miða við 9 vindstig eða meira. Þá fer hlutum að verða hætt við foki og fólk á í erfiðleikum með að ráða sér úti við. Trausti Jónsson (1980 og 1981) hefur fjallað um ofviðri hér á landi. Hann skilgreinir ofviðri þannig að á fjórðungi veðurathugunarstöðva í landinu mælist 9 vindstig eða meira eða að á 10% stöðvanna mælist 10 vindstig eða meira. Mælist 10 vindstig eða meira á 45% stöðvanna kallast veðrið aftakaveður.
Áhrif af ofviðrum eru gífurlega margvísleg og því ógerlegt að tíunda þau öll. Það sem einkum getur orðið fyrir skakkaföllum í ofviðrum, ef við reynum að einfalda yfirlitið, eru fyrst og fremst lausir hlutir, sem vindurinn tekur og feykir, eða hlutir og byggingar sem lausir hlutir fjúka á og skemma. Sjaldgæfara er að heilar byggingar og aðrir fastir hlutir eða þungir fjúki, nema elli og viðhaldsleysi sé farið að setja mark sitt á þá. Þó er plötufok algengt hér á landi. Einkum eru það þakplötur sem vindur nær sér undir og losar og feykir síðan.

Foktjón

Foktjón.

Af slíku foki er tvöfaldur skaði algengur, þ.e.a.s. affoksskaðinn og síðan einnig áfoksskaði annars staðar. Þessu á yfirleitt að vera auðvelt að sjá við og gera ráðstafanir í tæka tíð ef eftirlit er haft með ástandi bygginga. Þar sem sjór gengur á land í óveðrum geta skakkaföllin magnast verulega. Einnig geta fylgt svona veðrum ýmis fyrirbæri sem valda skaða. Má þar t.d. nefna seltu af sjávardrifi, sem getur haft mikil áhrif á flutningsgetu raflína í lofti, og ísingu, sem á það til að sliga slíkar lagnir.
Hér á landi eru illviðri af þessu tagi svo algeng og geta komið svo skyndilega að engan veginn er ráðlegt að skilja eftir létta, lausa hluti óvarða utandyra, að minnsta kosti að vetri til.

Aftakaveður

Aftakaveður.

Samkvæmt samantekt Trausta Jónssonar (1981) voru ofviðri á Íslandi rúmlega 9 á ári að meðaltali á 68 ára tímabili, 1912-1980. Á sama tímabili voru aftakaveður um eitt og hálft á ári að jafnaði. Þessi veður eru langalgengust í NA-, S- og SV-áttum. Ekki liggur fyrir könnun á dreifingu þeirra eða áhrifum þeirra um landið, að öðru leyti en því að hvert veður nær gjarnan yfir stórt landsvæði, eins og fjöldi veðurathugunarstöðvanna í skilgreiningu þeirra gefur til kynna. Þau eru því alls ekki staðbundin fyrirbæri að jafnaði. Eins segja vindáttirnar sem veðrinu fylgja nokkuð um líkur á dreifingu áhrifanna, einkum varðandi sjávaráhrifin, flóð, landbrot og skaða í höfnum og á halfnarmannvirkjum.

Straumsvík

Straumsvíkursvæðið – álverið.

Veðuráhrif eru þó mjög gjarnan staðbundin, þar sem landslag stjórnar vindi á hverjum stað að verulegu leyti, og við slíkar aðstæður geta þung áhrif hitt fyrir ýmis svæði, jafnt við ströndu sem að fjallabaki. Ekki liggur fyrir skýrsla eða samantekt um áhrif ofviðra á Straumsvíkursvæðinu sjálfu, en sterkar S- og SV-áttir eru þar tíðar, einkum að vetrarlagi. Nátengd ofviðrum eru svonefnd strandflóð, sem fjallað er um hér á eftir.

Strandflóð

Strandflóð

2. mynd. Flest strandflóð hérlendis verða i svartasta skammdeginu. Vegna myrkurs og
veðurofsa er erfitt að mynda atburðina sjálfa. Afleiðingarnar er hins vegar auðveldara að
mynda. Strandflóðið 14. okt. 1977 var eitt hinna mestu á síðustu áratugum. Á Stokkseyri mátti sjá mikilfenglegar afleiðingar þess. Þar rak flóðið fjóra fiskibáta á land. Eins og myndin sýnir er einn þeirra alveg uppi á bryggju en hinir uppi á malarkambinum.
Fiskibátar þessir, Bakkavík, sem er uppi á bryggjunni, Hásteinn, Jósep Geir og Vigfús
Þórðarson voru um og yftr 50 tonn að burðargetu. Tveir þeir fyrsttöldu fóru aldrei á sjó
aftur.

Strandflóð eru flókin fyrirbæri sem eiga sér orsök í samspili landslags, áhrifa himintungla og hafrænna og veðurfarslegra ferla. Þær aðstæður sem helst þurfa að vera til staðar í landslaginu til þess að strandflóðahætta skapist eru flatlend og láglend strandsvæði. Gerð strandbergsins og þau rofform sem í því finnast, langt út fyrir fjöruborð, ásamt gerð og magni strandsets, hafa veruleg áhrif á framvindu strandflóða.
Strandflóða gætir mun meir þar sem beinar strendur eru fyrir opnu hafi en þar sem eyjar, sker og skerjagarðar verja ströndina eða þar sem vogar og víkur draga úr ölduhraða og stuðla að öldusveigju. Þá skiptir aðdýpi og grunnsævi fyrir ströndinni og ekki síst ölduaðdragandi (fetch) miklu máli um hæð strandflóða og sjávarmagn sem tekur þátt í flóðinu. Strendur fyrir opnu, víðáttumiklu úthafi verða mun verr fyrir barðinu á slíkum flóðum en strendur innhafa eða þar sem stutt er milli landa og mesti mögulegi ölduaðdragandi því stuttur.
Þau áhrif himintungla sem mestu máli skipta eru togkraftar sólar og tungls. Þannig gætir strandflóða því meir sem þau eiga sér stað nær stórstraumi og þeim mun stærri sem straumurinn er.

Grindavíkurbrim

Brim haföldunnar.

Hafræn og veðurfarsleg ferli, eins og stormur og ölduhæð, krappleiki öldunnar og hraði stormsins og fleira slíkt, eru afgerandi þættir. Í stuttu máli má segja að því meiri sem stormurinn er, því hraðar sem lægðin, sem hann fylgir, fer yfir og því hraðar sem hún dýpkar, þeim mun hærri og krappari verður aldan. För lægðarinnar yfir hafflötinn og lækkandi loftþrýstingi fylgir ris sjávarborðsins, sem verður þeim mun hærra sem loftþrýstingur lækkar meir. Þetta sjávarborðsris myndar bungu á yfirborði sjávar sem eltir lægðina, og mætti kalla hana sjávarskafl (storm surge). Eftir því sem sjávarskaflinn er hærri og meiri um sig, þeim mun meiri verða áhrif hans þegar hann berst upp að ströndu og þeim mun verri verða strandflóðin.

Grindavíkurbrim

Brot haföldunnar.

Veðurlag dægrin á undan lægðinni, sem sjávarskaflinn og flóðið fylgja, skiptir einnig máli, einkum þegar svo háttar til að veðrin valda áhlaðanda, upphleðslu sjávar við ströndina, þ.e.a.s. veðrin hafa blásið sjó að ströndinni svo hann stendur þar hærra en ella. Einnig getur eldra veður, nýlega gengið yfir, haft veruleg áhrif á ölduhæð og öldumynstur á sjónum.
Af þessu ætti að vera ljóst að strandflóðin eru margræð fyrirbæri og þar af leiðandi eru þau einnig æði misjöfn. Hér við land eru strandflóð tíð, enda djúpar, hraðfara lægðir algengar, einkum að vetri, og ölduaðdragandi hér almennt langur.

Grindavíkurbrim

Hafaldan.

Algengast er að lægðirnar komi úr suðvestri og strandflóðin hér fylgi suðvest-, suð- og suðaustlægum stormum. Tíðust eru þau við suður- og suð-vesturströndina. Þessar strendur eru í farvegi lægðanna og suðurströndin er auk þess flöt, lítt vogskorin og að mestu leyti óvarin af eyjum og skerjum.
Svo vill til að Reykjanesskagi ver sunnanverðan Faxaflóa fyrir áhrifum lægðanna, þannig að hinir stóru sjávarskaflar sunnan úr hafi berast þar sjaldan ótruflaðir að ströndu. Í vestlægri öldu er ölduaðdragandi í Faxaflóa tiltölulega stuttur vegna nálægðar Grænlands, og vestanáttir eru sjaldgæfastar allra stífra vindátta hér á landi. Seltjarnarnes og Álftanes verja hluta af sunnanverðum Faxaflóa fyrir norðvestlægum öldum, einkum Hafnarfjörð og Straumsvíkursvæðið. Af þessu leiðir að við sunnanverðan Faxaflóa gætir strandflóða yfirleitt mun minna en veðurfarsleg efni annars standa til.

Grindavíkurbrim

Hafaldan brotnar.

Ströndin við Straum er á svæði þar sem strandflóð eru almennt tíð, en hún er frá náttúrunnar hendi vel varin fyrir áhrifum þeirra, þótt hún sé fremur opin fyrir og ekki varin af skerjagarði.
Á síðustu 200 árum hafa hátt í 60 strandflóð orðið við Suðvesturland, sem í þessu tilviki er talið frá Dyrhólaey vestur um til Skipaskaga. Þetta þýðar að meðaltímalengd milli strandflóða á svæðinu er um 3,3 ár. Ekki gætir þó allra þessara flóða í Faxaflóa, þar eð þau eru að mestu leyti fylgifiskur suðaust-, suð- og suðvestlægra átta og Faxaflói, einkum að sunnanverðu, nýtur skjóls af Reykjanesskaga í þess konar flóðum, eins og áður kom fram. Strandflóðin eru fyrst og fremst vetrarfyrirbæri. (2. mynd).

Jarðskjálftar og sprungumyndun

Sprungumyndun

3. mynd. Við Grindavík,
nánar tiltekið við suður-
endann á annarri þeirra
sprungureina sem valdið
geta sprungum í yfirborði
jarðar á Straumsvíkur-
svœðinu. A myndinni er
horft til NA, sunnan frá sjó
upp til bæjarins. Sprungan
teygist í lítið eitt hliðruðum
sprungubútum alla leið inn
að bœnum. Sprungukerfið
heldur áfram inn undir
byggðina, kemur síðan í
ljós aftur norðan hennar og
teygist þaðan norður eftir
heiðunum og allt að
Straumi.

Það er ekki einfalt mál að gera grein fyrir jarðskjálftavirkni og áhrifum jarðskjálfta þannig að umfangið verði augljóst. Jarðskjálftar eru afar breytilegir að stærð og áhrif þeirra eru því mismunandi. Áhrifin eru ekki einungis misjöfn á upptakasvæðinu og eftir stærð skjálftanna heldur breytast þau líka með fjarlægð og það misjafnlega, í samræmi við byggingu jarðskorpunnar. Því er ekki unnt að gera neina einfalda grein fyrir áhrifum jarðskjálfta á tiltekin svæði, t.d. Straumsvíkursvæðið. Áhrifin fara eftir því hvar upptakasvæði skjálftanna eru, hversu stórir skjálftarnir eru og um hvers konar jarðlög þeir berast.
Þau upptakasvæði jarðskjálfta sem líklegust eru til að hafa áhrif á Straumsvíkursvæðinu eru flekaskil jarðskorpunnar undir Reykjanesskaga, allt austur undir Ölfus, og einnig vestasti hluti þvergengisbeltisins sem liggur um Suðurland. Jarðskjálftar á þessum svæðum hafa tilhneigingu til að koma í hrinum, sem standa vikum, mánuðum eða jafnvel árum saman, með hundruðum og oftast þúsundum einstakra skjálfta. Flestir eru þessir skjálftar svo litlir að þeir finnast ekki, mælast aðeins á jarðskjálftamælum, og hafa því lítil sem engin áhrif á yfirborði. Skjálftunum fækkar yfirleitt jafnt og þétt með stærð. Stærð skjálftanna er gefin í stigum á Richter-kvarða. Kvarðinn er lógariþmískur; þannig er skjálfti upp á 4 stig tíu sinnum öflugri en skjálfti upp á 3 stig o.s.frv. Kvarðinn gefur til kynna orkulosun í upptökum skjálftans en segir ekkert um áhrifm af skjálftanum á mismunandi stöðum. Til þess að lýsa áhrifum jarðskjálfta á tilgreindum stöðum er notaður annar kvarði, Mercalli-kvarðinn, sem er gjörólíkur og minnir meir á stigakvarðann sem notaður er um vindstyrk. Skjálftahrina gekk yfir Reykjanesskagann á ámnum 1971 og 1972 og var hún vel rannsökuð (F.W. Klein o.Il. 1973). Hún einkenndist af einstökum, tiltölulega lillum hrinum og minni virkni þeirra á milli. Í stærstu hrinunni, sem stóð í um 8 sólarhringa, mældust um 14.600 kippir. Skjálftahrina þessi, 1971-1972, varð á flekaskilunum undir Reykjanesskaga og mátti af skjálftunum kortleggja skilin í fyrsta sinn. Síðan hafa fleiri slíkar hrinur komið og er ein slík, að vísu flóknari, í gangi nú og hefur verið undanfarin ár austar á flekaskilunum, á Hengilssvæðinu.

Grindavík

Grindavík – jarðskjálftar í nóv. 2023.

Það er yfirleitt ekki fyrr en skjálftarnir ná 3-4 stigum á Richter-kvarða að verulega áþreifanlegra áhrifa af þeim fer að gæta á yfirborði. Það er hins vegar háð gerð og byggingu jarðskorpunnar, spennuástandi hennar og upptakadýpi skjálftanna hver og hve mikil áhrifin verða. Ef skjálftarnir verða stærri en þetta fer áhrifanna að gæta mun meir, og skjálfti af stærðinni 7 hefur venjulega áhrif svo tugum kílómetra skiptir út fyrir upptakasvæðið. Á plötuskilunum á Reykjanesskaga má vænta stærstu skjálfta í kringum 6 stig, stækkandi austur á bóginn (Páll Halldórsson 1992). líkir skjálftar gætu haft þó nokkuð mikil áhrif á Straumsvíkursvæðinu, en þó varla til mikils skaða.

Jarðskálfti

Þann 26. ágúst 1896 hófust á Suðurlandi einhverjir mestu jarðskjálftar, sem sögur fara af hér á landi. Fyrsti kippurinn var snarpastur í Rangárvallasýslu og í Eystri hrepp í Árnessýslu, þar sem fjölmargir bæir hrundu til grunna. Næsta morgun kom annar kippur og virtist hann hafa verið snarpastur í Hrunamannahreppi, en þar féllu nokkrir bæir. Að kvöldi 5. september kom enn mjög snarpur kippur, sem olli miklu tjóni í Holtum, Skeið og Flóa.

Stærstu skjálftar, sem menn búast við á Suðurlandsþvergengisbeltinu, gætu farið eitthvað yfir 7 stig á Richter-kvarða. Slíkur skjálfti sem ætti upptök vestast á svæðinu, t.d. í Ölfusi eða undir Hellisheiði, mundi að líkindum hafa veruleg áhrif víða vestanfjalls og valda þar þó nokkru tjóni.
Líkur eru fyrir því að auk skjáfta á þessum alþekktu skjálftabeltum, þar sem jarðskorpuflekar snertast, komi öðru hverju skjálftar sem eiga upptök sín utan skjálftabeltanna. Slíkir skjálftar kallast gjaman innflekaskjálftar, til aðgreiningar frá flekajaðraskjálftum. Þeir verða vegna þess að spennubreytingar verða í skorpunni innan flekanna sjálfra, fjarri flekajöðrum, sem afleiðing af spennulosun í jarðskjálftum hingað og þangað við flekaskilin. Þessar spennubreytingar geta leitt til skjálfta, sem eiga sér upptök innan flekans, og virðast slíkir skjálftar geta orðið allsterkir.

Jarðskjálfti

Þann 26. ágúst 1896 hófust á Suðurlandi einhverjir mestu jarðskjálftar, sem sögur fara af hér á landi. Fyrsti kippurinn var snarpastur í Rangárvallasýslu og í Eystri hrepp í Árnessýslu, þar sem fjölmargir bæir hrundu til grunna. Næsta morgun kom annar kippur og virtist hann hafa verið snarpastur í Hrunamannahreppi, en þar féllu nokkrir bæir. Að kvöldi 5. september kom enn mjög snarpur kippur, sem olli miklu tjóni í Holtum, Skeið og Flóa.
Fólk var komið í háttinn þegar skjálfti 7,5 á Richter reið yfir. Síðan um 1700 hafa 7 jarðskjálftar verið á Suðurlandi og hafa haft styrkleika >VIII (1706, 1734, 1752, 1784, 1789, 1896 og 1912).
Svipað er að segja um Rangárvelli. Þar hafa bæir örugglega fallið 12 sinnum, líklega 17 sinnum, og þar hafa að minnsta kosti 5 jarðskjálftar siðan 1700 haft styrkleika >VIII eða 1725, 1732, 1784, 1896 og 1912. Aðeins einu sinni er vitað með vissu, að jarðskjálftar samfara byrjun Heklugoss hafi orðið svo sterkir, að bæir hafa hrunið, en líklegt, að það hafi skeð tvisvar eða þrisvar sinnum.

Upplýsingar um slíka skjálfta eru nokkuð af skornum skammti og við þeim er ennþá aðeins eitt ráð tiltækt: að byggja vel og gera miklar kröfur um styrkleika viðkvæmra mannvirkja. Slfkir skjálftar eru tíðari nærri flekaskilum en fjær þeim og því má ekki útiloka slíka skjálfta á Straumsvíkursvæðinu. Áhrif þeirragætu orðið mikil.
Augljósustu ummerki eftir jarðskjálfta í landslagi eru sprungur og misgengi. Reykjanesskagi einkennist mjög af sprungnum berggrunni og eftir skaganum liggja nokkrar mjög áberandi, samsíða sprungureinar frá suðvestri til norðausturs og sjást þær glöggt á jarðfræðikortum (Kristján Sæmundsson og Sigmundur Einarssson 1980). Á þeim eiga landsrekshreyfingarnar sér fyrst og fremst stað og þær einkennast af þrem megingerðum sprungna: opnum gjám (verða til við gliðnunartilfærslu), misgengjum (verða til við lóðréttar tilfærslur) og gosgígaröðum (sem eru yfirborðsmyndir sprungna sem flytja bergkviku að neðan og upp til yfirborðs). Vestast þessara reina liggur Reykjanessprungureinin, sem nær utan af Reykjaneshrygg um Reykjanes og norðaustur eftir Strandarheiði og Elliðavatni og allt upp í Mosfellssveit (Páll Imsland 1985). Vesturhluti hennar lendir í sjó við Stóru-Vatnsleysu, en eystri hlutinn fylgir þurrlendinu áfram norðaustur á bóginn og stefnir á Straumsvík og Hafnarfjörð.
SprungurÚr sjó stefnir sprungureinin aftur á land á innanverðu Álftanesi fyrir mynni Hafnarfjarðar. Sums staðar er þessi rein mjög áberandi í landinu, einkum á hraununumsem runnið hafa eftir að ísaldarjökulinn leysti af landinu fyrir um 10.000 árum. Þó hafa yngstu hraunin sums staðar runnið yfir sprungurnar og hulið þær. Þannig háttar til við Straum. Sprungur eru þar ekki áberandi í landinu, enda þekja ung hraun svæðið. Sprungureinin liggur samt sem áður undir þessum ungu hraunum og einnig úti fyrir ströndinni, og hún er sá hluti svæðisins sem líklegast er að hreyfist í jarðskjálftum í framtíðinni. Telja má að áhrif af jarðskjálftum á svæðinu í framtíðinni geti einkum orðið í fyrsta lagi má vænta þess að barmar sprungna í berginu gjögti vegna bylgjuhreyfinga sem fara um berggrunninn frá skjálftum á og utan svæðisins. Þetta gjögt getur haft margvísleg minni háttar áhrif á berggrunninn jafnt sem byggingar og önnur mannvirki sem liggja yfir sprungur.

Sprungur

Sprungur í nágrenni Reykjavíkur. Uppdráttur Jóns Jónssonar, jarðfræðings.

Í öðru lagi má vænta þess að á sumum þessara sprungna, á nokkru dýpi, brotni jörðin á ný og hreyfing verði á sprunguflötunum. Þar hliðrast þá barmarnir til og gjár opnast eða lokast, ganga á mis í lóðrétta eða lárétta stefnu. Sambland einhverra eða allra þessara hreyfingarþátta getur einnig átt sér stað. Slíkar hreyfingar gætu einnig átt sér stað við myndun nýrra sprungna á svæðinu, sjá 3. mynd. Myndun nýrra sprungna og hreyfing gamalla eins og hér var lýst er líkleg til að rjúfa vegi, lagnir í jörð og línur í lofti. Hún getur einnig raskað byggingum eða brotið þær illilega.
Í þriðja lagi er ekki ástæðulaust að ætla að misgengishreyfingar á sprungum á sjávarbotni úti fyrir ströndinni geti valdið flóðöldum af þeirri gerð sem kallast tsunami (sjávarskriða), þótt við þekkjum ekki dæmi þess héðan, en aðstæður til slíks eru fyrir hendi á Straumsvíkursvæðinu.
Tíðni sprunguhreyfinga og sprungumyndunar á þessu svæði er óþekkt, eins og raunar víðast hvar. Eðli slíkra atburða er margrætt og litlar tilraunir hafa verið gerðar til að slá tölu á þá.

Eldvirkni og hraunrennsli

Jarðfræðikort

Jarðfræðikort ISOR af Reykjanesskaga (Jón Jónsson og Kristján Sæmundsson).

Eins og lesa má af jarðfræðikortum (Kristján Sæmundsson og Sigmundur Einarsson 1980) er Straumsvíkursvæðið allt á ungum hraunum sem runnið hafa eftir að ísöld lauk. Austan svæðisins eru móbergshálsar sem orðið hafa til í eldgosum undir jöklum ísaldar. Rétt norðan við svæðið taka við grágrýtisholt mynduð við hraunrennsli á síðustu hlýskeiðum ísaldar. Eldsumbrot hafa því ekki aðeins sett svip sinn á svæðið heldur myndað það allt. Eldvirknin sem hér á hlut að máli er svokölluð rekeldvirkni, en það þýðir að bergkvikan kemur upp á sprungum sem tengjast andrekshreyfingum jarðskorpunnar. Kvika þessi er í nær öllum tilvikum basaltkvika, yfirleitt þunnlljótandi og heit og hefur því litla tilhneigingu til sprenginga.

Eldgos

Eldgos á Reykjanesskaga 2024.

Einkennandi fyrir hana eru þunn hraun sem ná mikilli útbreiðslu. Ekki hefur gosið á þessu svæði síðustu aldirnar.
Yngsta hraunið á Straumsvíkursvæðinu er venjulega kallað Kapelluhraun og er talið vera sama hraun og heitir í fornum heimildum Nýjahraun. Það rann skömmu eftir landnám. Nýlega hafa Sigmundur Einarsson o.fl. (1991) gert grein fyrir þessu hrauni. Kapelluhraun er hluti af hraunaklasa, sem þeir telja hafa runnið í hrinu sprungueldgosa, Krísuvíkureldum, sem stóðu á svæðinu líklegast í nokkra áratugi á 12. öld. Gossprungan, sem var virk í þessari hrinu, náði sunnan frá Latsfjalli við suðurenda Móhálsadals og norður á bóginn undir vesturhlíðum Undirhlíða, allt norður undir Helgafell. Hún er á Krýsuvíkursprungureininni, sem er næsta rein austan við Reykjanessprungureinina.

Helgafell

Austasti gígurinn á Ögmundarhraunsgígaröðinni 1151.

Hraun frá sprungunni runnu í þessum eldum í sjó beggja vegna á Reykjanesskaga, bæði við Krýsuvík hina fornu og Straum. Samkvæmt kolefnisaldursgreiningum rann Kapelluhraun á elleftu eða tólftu öld. Það er í góðu samræmi við hinar fornu heimildir um Nýjahraun. Nafnið Nýjahraun telja menn merki þess að hraunið hafi runnið eftir að menn komu til landsins og það er frá því fyrir árið 1343, því þá braut þar skip, eða eins og segir í Annál Flateyjarbókar (Storm 1888) við árið 1343: „…braut Katrínarsúðina við Nýjahraun…“

Hraunhóll

Hraunhóll undir Vatnsskarði. Upptök Kapelluhrauns.

Á þessu um það bil 850 ára gamla hrauni stendur álverið við Straum. Hraunið kom upp á gossprungu innan Krýsuvíkursprungureinarinnar en hefur runnið út úr henni til norðvesturs og inn yfir norðurhluta Reykjanessprungureinarinnar. Svo norðarlega á Reykjanesreininni hafa ekki komið upp nein eldgos svo vitað sé. Virkni hennar þar einkennist af tiltölulega grunnum jarðskjálftum og sprungumyndun. Það er því fyrst og fremst virkni á Krýsuvíkursprungureininni norðanverðri sem er líkleg til að ógna Straumsvíkursvæðinu með hraunrennsli.

Bollar

Bollagígar austan Lönguhlíðar.

Gosstöðvar eu líklegastar í Undirhlíðum eða vestanundir þeim. Eftir Krýsuvíkurelda á 13. öld hafa ekki komið upp hraun í nágrenni Straumsvíkursvæðisins. Landslagi er þannig háttað að hraun sem koma upp vestanundir Undirhlíðum eiga ekki annarra kosta völ en að renna út á hraunflákana til vesturs og norðurs og leita undan halla og þrýstingi frá kvikunni sem flæðir úr gígunum í átt til strandar, í átt að Straumsvík.

Straumslína

Straumslína frá Hamranesi.

Áður en að álverinu sjálfu kemur eru raflagnir, spennuvirki, þjóðvegur og fleira slíkt í rennslisleiðum hrauna; mannvirki sem skipta verulegu máli, bæði fyrir starfrækslu álversins og alla byggð sunnar á skaganum. Það er því ljóst að hraunflóðahætta er þarna til staðar, en ekkert er þekkt sem bendir til yfirvofandi hæltu. Náttúran á svæðinu hefur ekki sýnt nein þekkjanleg merki þess að þarna séu eldgos í uppsiglingu. Á hitt ber samt að líta að þetta er afkastamikið, virkt eldgosasvæði þar sem ekki hefur gosið í um 850 ár, og til eru vísbendingar um að virknin á Reykjanesskaganum gangi í hrinum með nokkurra alda aðgerðalitlum hléum. Hrinur þessar einkennast af jarðskjálftum, spmngumyndun og eldgosum.

Landsig og strandrof

Hvaleyri

Hvaleyrarfjara.

Ströndin á Suðvesturlandi er almennt að síga, en þó er á því viss óregla. Þetta er hægfara og lítið landsig, sem tengist annars vegar landrekshreyfingum og hins vegar eldvirkni svæðisins. Þessir tveir þættir vinna þannig: Höggunarhreyfingar landreksins valda því að stöku sinnum hrökkva til berggrunnsblokkir sem eru afmarkaðar af sprungum. Þær síga eða lyftast eftir atvikum og getur þá munað miklu, mörgum metrum, á hæðarstöðu þeirra fyrir og eftir. Skrið jarðskorpuflekanna burt frá landreksásnum stefnir þeim út á meira dýpi, í átt að kólnandi umhverfi, og hvort tveggja veldur örlitlu landsigi, millimetrabrotum á ári.

Reykjanesskagi - jarðfræði

Kort Jóns Jónssonar – Eldvirkni á nútíma.

Meginþáttur landsigsins er hins vegar jafnan talinn vera tengdur eldvirkninni. Því háttar þannig til að þegar bergkvikan berst upp á yfirborðið og hleðst þar upp sem hraun eða móbergsfjöll veldur hún auknu fargi á skorpuflekann. Uppbygging jarðlagastaflans hefur þannig tilhneigingu til að pressa flekana niður, þar eð þeir eru stinnir og á floti á seigfljótandi undirlagi. Nánar má lesa um orsakir þessar í áðurtilvitnaðri grein. Þessi síðasti þáttur gæti á Straumsvíkursvæðinu numið 1-3 mm á ári að jafnaði, eða um 2 cm á 10 árum, 20 cm á öld o.s.frv.
Af þessu sést að ekki er líklegt að landsig á Straumsvíkursvæðinu valdi miklum vandamálum. Hinu má samt ekki gleyma að landsigið hefur afleiðingar sem í samspili við sigið sjálft gætu aukið á áhrifin. Þessar afleiðingar eru aukin áhrif strandrofs. Þar sem ströndin sígur á sjórinn smám saman greiðari leið inn á landið og hefur meiri möguleika á að valda rofi og öðrum usla á strandsvæðinu. Engin töluleg gögn liggja fyrir um afköst strandrofs á svæðinu. Hin hljóða vá á ströndinni er greinilega til staðar á Straumsvíkursvæðinu, en í óþekktum mæli.“

Heimild:
-Náttúrufræðingurinn, 3.-4. tbl. 1998, Páll Imsland – Um náttúruvár á Straumsvíkursvæðinu, bls. 263-272.

Straumsvík

Straumsvík 1978 – loftmynd.