Botnadalur

Í Botnadal í Grafningi eru tóftir skammvinns kotbýlis eða jafnvel tímbundinnar selstöðu frá Nesjum að teknu tilliti til stærðar og gerðar minjanna.

Botnadalur

Botnadalur – bærinn.

Örnefnið virðist tiltölulega nýtt. Svo virðist sem þarna hafi orðið til skammvinn búseta, nefnd Botn eða Botnar. Dalurinn hafi síðan hlotið nafn sitt af „bæjarstæðinu“, nefndur Botnadalur, en eldra nafn á honum virðist hafa verið Kleyfardalur (Kleifardalur). Þó gæti það örnefni hafa verið fyrrum þar sem nú er þverdalur undir Jórutindi sunnan Jórukleifar. Þar eru hins vegar engar minjar að teknu tilli til frásagnar Brynjúlf Jónssonar m.a. um fornleifar í Grafningi. Í Árbók Hins íslenska fornleifafélags 1899 segir Brynjúlfur Jónsson um tóftirnar í Kleyfardal: „Kleyfardalur heitir suðvestur með hlíðinni, lítill dalur og þó fagur, en hrikalegt i kring. Þar eru tvær rústir allglöggvar. Önnur bæjartóft (eða seltóft), 9 fðm. löng, tvískift og eru engar dyr á milliveggnum, en útidyr úr báðum tóftum á suður hliðvegg. Hin, fjóstóft (eða kvíatóft?), 8 fðm. löng og 2 fðm. breið, hefir dyr út úr suðvesturhorni. Við efri enda hennar var sem sæi á tóftarbrún, sem gæti verið hlöðutóft. En þar um get eg þó ekkert sagt, því fönn lá þar yfir, svo eigi sást hvort hér er tóft eða ekki. Hafi hér verið býli, þá hefi það verið hjáleiga frá Steinröðarstöðum (?) og síðar orðið, ásamt þeim, hjáleiga frá Nesjum.“

Botnadalur

Botnadalur – útihús.

Í örnefnalýsingu fyrir Nesjar segir m.a.: „Jóruhóll heitir lítill hóll við Jórugil suður af Kleifadalshrygg, sem er austan við Jórukleifina. Kleifadalur er lítill dalur undir Jórukleif, djúpur og dálítið langur. Hann er milli Kleifadalshryggs og Jórukleifar.“
Á skilti við rústirnar í Kleyfardal segir m.a.: „Rústirnar sem hér sjást eru af hjáleigu frá bænum Nesjum sem nefndist Botnsdalur. Hér var búið í skamman tíma eða á milli 1832-1844. Um það leyti var hjáleigubúskapur á þessu svæði vaxandi og urðu sum nýbýlin að lögbýlum, t.d. Nesjavellir, en önnur, eins og Botnsdalur áttu skamma sögu og lögðust í eyði. Enn sjást glögglega að minnsta kosti fjórar tóftir sem tilheyrðu gamla Bontnadalsbænum, sú stærsta af bæjarhúsunum sjálfum en þrjár minni af útihúsum.

Botnadalur

Botnadalur – bærinn.

Ekki er gott að segja með vissu hvaða hlutverkum einstök útihús gegndu og eru hringlaga tóftirnar tvær allsérstakar. Sennilegt er að kofarnir hafi flestir verið fjárhús en kýr verið hýstar inni í bænum.

Lítið er vitað um ábúnedur í Botnsdal en ætla má að þeir hafi háð harða baráttu við nátttúruöflin jafnt sem yfirboðara sína á Nesjum. Ekkert vatnsból er sjáanlegt við tóftirnar og hefur að það að líkindum verið meginorsök þess að byggð hélst hér aðeins um skamman tíma. Þá háttar svo til að á vorin þegar snjóa leysir, liggur leysingarvatn að miklu leyti yfir dalbotninum og hefur það vafalaust torveldað ábúð.

Botnadalur

Botnadalur – tóftir.

Af byggingarleifum má ráða ýmsilegt um búskapinn, svo sem að hann hafi ekki verið stór í sniðum en slíkt var dæmigert fyrir hjáleigur. Algengt var að hjáleigubændur ættu aðeins eina mjólkurkú og ekki hafa droparnir úr henni náð að metta marga munna. Þá þurftu þeir ósjaldan að taka búpeninginn á leigu og jafnvel búsáhöld með jarðnæðinu. Þetta fyrirkomulag torveldaði leiguliðum að koma sér upp eigin bústofni og auka hann. Margt fleira gerði þeim lífið erfitt.

Botnadalur

Botnadalur – útihús.

Algengt var að leiguliðar þyrftu að inna af hendi störf og kvaðir fyrir jarðeigendur, til dæmis slátt, og höfðu skemmri tíma til að vinna að eigin búi.
Það kann að vera erfitt fyrir nútímafólk að setja sig í spor bláfátækra leiguliða á 19. öld. Landbúnaður var enn rekinn með fornlegum hætti, til að mynda voru tún lítið ræktuð og þýfð og ljáirnir ekki afkastamikil  verkfæri. Fjölgun býla á þessum tíma stafaði fyrst og fremst af auknum fólksfjölda en framfarir í landbúnaði urðu ekki að marki fyrr en á seinni hluta 19. aldar.“
Óþarfi er að vera alveg sammála textanum, en taka verður viljan fyrir verkið.

Heimildir m.a.:
-Skilti við minjarnar í Botnadal.
-Örnefnalýsing fyrir Nesjar í Grafningi.
-Árbók Hins íslenska Fornleifafélags 1899, Rannsókn sögustaða í Grafningi í maímán. 1898. Eftir Brynjúlf Jónsson, bls. 3-5.

Kleifardalur

Kleifardalur.

Möðruvallarétt

Í „Fornleifaskráningu í Kjósarhreppi I“ frá árinu 2008 er m.a. fjallað um „Möðruvallarétt„. Þar segir:

Möðruvallarétt

Möðruvallarétt – uppdráttur.

„Innan við þetta er gil, sem heitir Ytra-Réttargil. Sultarmói er næst, nú túnblettur upp af Eyrunum, sérskilið er ofan við götuna heiman, en neðar er tún á Eyrunum niður að á. Næst er Heimra-Réttargil eða Réttargil. Milli þessara gilja er stuttur kambur. Upp af Eyrunum neðan við Réttargilið er Hæðarskarð, þar sem vegurinn liggur í gegnum. Upp af skarðinu undir rótum er Réttarhóll, og heiman við hólinn er Réttin, gömul fjárrétt. Innar, rétt utan bæjar, er gil á ská upp,“ segir í örnefnaskrá. Réttin er um 340 m norðvestan við bæ. Ekki er vitað hvenær réttin var síðast í notkun.
Réttin er í lægð milli tveggja ílangra hæða þar sem landinu hallar til norðausturs. Réttin er innan um og neðan við fjölda stórra bjarga sem hrunið hafa úr fjallinu. Framan við réttina til norðausturs er grösugt dalverpi. Búið er að planta trjám um allt svæðið sem réttin stendur á en þau eru enn mjög smá.

Möðruvallarétt

Möðruvallarétt 2024- loftmynd.

„Möðruvallarétt er milli Ytra- og Heimra-Réttargils,“ segir í athugasemdum og viðbótum við örnefnaskrá. Réttin skiptist í a.m.k. 14 hólf og svo eru tvær aðskildar tóftir neðan við réttina til norðurs og norðausturs. Svæðið allt er um 40×30 m og snýr NA-SV. Í miðri réttinni er stærsta hólfið sem hefur verið almenningur, það er um 18×7 m að stærð og snýr NA-SV. Það hólf er þar sem lægst er í dældinni og sléttast. Ekki sést greinilega hvar rekið hefur verið inn í almenninginn en það hefur að öllum líkindum verið við norðausturhlið hans þar sem engir dilkar eru. Ofan við þetta hólf og báðum megin við það eru minni hólf, dilkar.

Möðruvallarétt

Dilkur í Möðruvallarétt.

Dilkarnir sem eru norðvestan við almenninginn eru nokkuð svipaðir að stærð og eru allgreinilegir. Dilkarnir sem eru sunnan og austan við almenninginn eru óljósari og erfiðara að sjá dilkaskiptinguna. Ef til vill er sá hluti réttarinnar eldri eða hefur síður verið haldið við. Réttin er grjóthlaðin milli stórra bjarga og eru stórgrýtt brekka og steinar í hleðslum víða mjög stórir. Hleðslur eru mjög signar og víða grónar. Öll hólfin halla inn að almenningnum. Tóftin sem er 2 m norðan við réttina er tvískipt, um 8×5 m og eru hleðslur signar. Tóftin snýr NA-SV, ekki sést op milli hólfa. Hólfið í suðvesturendanum er mjög óljóst, þar sjást nokkrir steinar í röð en ekkert grjót sést í hleðslum hólfsins í norðausturendanum. Tóftin sem er um 8 m norðaustan við réttina er einföld, um 7×5 m, snýr NV-SA, opin til suðvesturs. Tóftin er vel gróin en grjót sést í hleðslum sem eru signar.

Möðruvallarétt

Möðruvallarétt.

Nokkur stór björg eru í veggjum tóftar. Ekki er víst hvaða hlutverki þessar lausu tóftir hafa gegnt. Ólíklegt er að tóftin sem er fjær réttinni hafi verið hús vegna þess hve stór björg eru í veggjum hennar. Líklegra er að tóftin sem er nær réttinni hafi verið hús, a.m.k. norðausturhólfið þar sem veggir eru rúmur 1 m á þykkt. Mesta hleðsluhæð í rétt og tóftum er um 0,4 m.
Hættumat: hætta, vegna trjáræktar.“

Þegar FERLIRsfélagar skoðuðu réttarstæðið 2025 mátti greina innan um þétta skógræktina einstaka hluta réttarinnar, sem virðist hafa verið lítilfjörleg innan um stokka og steina.

Heimild:
-Fornleifaskráning í Kjósarhreppi I: Fornleifastofnun Íslands, Reykjavík 2008.
-Örnefnalýsing Möðruvalla, Ari Gíslason.

Möðruvallarétt

Möðruvallarétt.

Gamli Þingvallavegur

Í nýenduruppgerðu og -vígðu sæluhúsi við Gamla Þingvallaveginn á Mosfellsheiði eru tvö upplýsingaskilti. Annað er um „Mosfellsheiðarvegi“ og hitt „Hús sælunnar„. Á þessum skiltum má lesa eftirfarandi:

Hraunið brann og rann til strandar

Mosfellsheiði

Borgarhólar.

Mosfellsheiði er dyngja sem rís hæst í Borgarhólum (410 m.y.s.). Á hlýskeiðum ísaldar rann svonefnt Reykjavíkurgrágrýti frá heiðinni alla leið til sjávar, allt frá Hafnarfirði og upp í Kollafjhörð. Nyrstu leifar þess eru á Brimnesi, á milli Kollafjarðar og Hofsvíkur á Kjalarnesi, en hraunið er einnig að finna í Gróttu og eyjunum á Kollafirði. Mesta þykkt þess hefur mæslt í Árbæ (80 m.y.s.) og í Öskjuhlíð (70 m.y.s.).

Fótspor og hófaför mörkuðu slóð

Gamli Þingvallavegur

Gamli Þingvallavegur 2025.

Í aldanna rás áttu margir leið um Mosfellsheiði, þar er að finna fjölda þjóðleiðia, um þær fóru gangandi og ríðandi vermenn, bændur í kaupstaðaferðum, erlendi ferðamenn og fólk á leið til og frá Alþingi á Þingvöllum. Fótspor og hofaför mótuðu þessar leiðir um aldir svo ur varð heilt vegakerfi um gervalla heiðina, við þær voru hlaðnar vörður sem urðu samtals um 800 talsins, þær eru flestar hrundar.

Óboðlegt fyrir menn og hesta

Gamli Þingvallavegur

Gamli Þingvallavegur – skilti í nýuppbyggðu sæluhúsinu.

Heiðarleiðarnar voru misgóðar eftir árstíma, veðri og snjóalögum og stundum svo erfiðar yfirferðar að þær voru vart mönnum og hestumbjóðandi. Séra Jens Pálsson á Þingvöllum lýsti óviðunandi ástandi á Mosfellsheiði í blaðinu Ísafold árið 1881: „…zumstaðar er vegurinn órfærð urð, og grjótið svo þjett, að varla er nægilegt bil handa hestfætinum á milli steinanna. Þegar aptur á móti rignir, þótt eigi sje lengur en enn dag eð atvo, blotnar leirmoldin og treðst upp, og myndast þá leirleðjupollur innan um stórgrýtið, má þá vegurinn teljast ófær, jafnvel fyrir lausríðandi mann. Þó er enn verri meðferðin á hestunum þegar þeir eru reknir um slíkanveg með þyngsla-klyfjum, t.d. með borðviðardrögum á haustdegi opt í stormi eða regni, þá er viðbjóðslegt að sjá skepnurnar hrekjast fyrir storminum tilog frá um ófæru þessa…“.

Beinn og breiður vegur

Gamli Þingvallavegur

Gamli Þingvallavegur – skilti í nýuppbyggðu sæluhúsinu.

Seint á 19. öld urðu tímamót í samgöngusögu Mosfellsheiðar. Þá var hestvagnavegur lagður frá Geithálsi við Suðurlandsveg þvert yfir heiðina og austur til Þingvalla, um 33 kílómetra vegalengd. Vegurinn var tímamótamannvirki á sinni tíð, beinn og breiðuur og upphlaðinn á köflum. Um 100 vörður voru hlaðnar meðfram veginum, brýr voru byggðar og vegræsi lögð. Verkinu lauk árið 1896 með smíði brúar yfir Drekkingarhyl á Þingvöllum.

Gamli Þingvallavegur

Gamli Þingvallavegur – nýuppgert sæluhúsið framundan.

Sama á fór maður á reiðhjóli í fyrsta skipti eftir þessum nýja Þingvallavegi og var hann fimm klukkustundir á leiðinni.
Í nokkra áratugi var vegur þessi sá greiðasti yfir Mosfellsheiði, hér fór Friðrik VIII Danakonungur um með föruneyti sínu árið 1907, séstakur konungsvagn var með í för en konungur vildi heldur fara ríðandi yfir heiðina. Um þetta leyti var bílaöld að renna upp á Íslandi og fyrsti bíllinn fór hér um árið 1913.

Nýr vegur gerist gamall

Gamli Þingvallavegur

Gamli Þingvallavegur 2025. Fallin varða t.v. Ekkert er minnst á hinn forna Þingvallaveg skammt norðar um Seljadal. Á þeirri leið var og sæluhús, mun eldra en sæluhúsin í Molbrekkum.

Árið 1910 voru þúsund ár liðin frá stofnun Alþingis og efnt til mikillar hátíðar á Þingvöllum, þá var ráðist í vegagerð úr Mosfellsdal og alla leið til Þingvalla, á svipuðum slóðum og Þingvallavegurinn (nr. 36) liggur nú á dögum, 30-35 þúsund manns komu á Alþingishátíðina sem var um þriðjungur þjóðarinnar. Bæði nýi og gamli Þingvallavegurinn voru notaðir yfir hátíðadagana til að liðka fyrir bílaumferð. 14 árum síðar stofnuðu Íslendingar lýðveldi á Þingvöllum, þá var hestvagnavegurinn frá árinu 1896 lagfærður í því aygnamiði að ökuþórar gætu nýtt sér hann á leiðinni til baka til Reykjavíkur. En himnarnir fögnuðu hinu nýstofnaða lýðveldi með úrhellisrigningu, vegurinn kiknaði undan bílabyrðinni og ljóst að dagar hans sem akvegur voru taldir. Hann varð því gamann fyrir aldur fram og gengur undir nafninu Gamli Þingvallavegurinn nú á dögum. Vegurinn hefur síðustu aratugina verið notaður sem göngu-, hjóla- og reiðleið og hefur mikið varðveislugildi.

Sæluhús í tímans rás

Gamli Þingvallavegur

Gamli Þingvallavegur – nýuppbyggt sæluhúsið.

Sæluhús hafa verið byggð á Íslandi síðan á miðöldum, þá var fólk hvatt til að greiða götu ferðafólks og vegfarenda, sjálfu sér til sálubótar. Nokkur sæluhús voru reist á Mosfellsheiði og í grennd við hana, eitt undir Húsmúla skammt frá Henglinum, húsið var þekkt fyrir reimleika, enda kallað Draugakofinn. Það sæluhús var aflagt á 19. öld og nýtt hús byggt á Kolviðarhóli þar í grenndinni. Annað sæluhús var reist í Moldbrekkum á norðanverðri Mosfellsheiði um miðja 19. öld. Ekki komust allir til byggða eða í sæluhús sem fóru yfir heiðina, til dæmis urðu sex vermenn þar úti snemma í marsmánuði árið 1857.

Gamli Þingvallavegur

Gamli Þingvallavegur – nýuppgert sæluhúsið.

Blómaskeið sæluhúsanna á Mosfellsheiði var á ofanverði 19. öld þegar allt að fimm sæluhús voru til staðar á heiðinni og í grend við hana. Einnig leitaði fólk gistingar á bóndabæjum, til dæmis í Elliðakoti og Miðdal í sunnanverðri Mosfellsveit, á Kárastöðum í Þingvallasveit og á Kolviðarhóli. Á Kárastöðum og Kolviðarhóli var gistiþjónusta um skeið og einnig í Valhöll sem reist var á Þingvöllum árið 1898.

Grágrýtið stendur tímans tönn

Gamli Þingvallavegur

Gamli Þingvallavegur – nýendurbyggt sæluhúsið. Á skiltatexta er getið um jarðlæga tóft austan (h.m.) við húsið. Um er reyndar að ræða leifar af eldra sæluhúsi með framanverðan brunn. Til eru myndir af sæluhúsinu í heiðinni á meðan var.

Sæluhúsið sem hér stendur var byggt um 1890 úr tilhöggnu grágrýti héðan af heiðinni. Þessi hleðslutækni hafði rutt sér til rúms á íslandi ogvar meðal notuð við byggingu Alþingishússins og Hegningarhússins í Reykjavík. Sigurður Hansson (1834-1896) stýrði byggingu sæluhússins sem var 7×4 metrar að utanmáli og hæð undir þakbrún á langvegg var 1.80 metri. Um fimm metra frá austurgafi var jarðlæg tótt sem er 8.50 m x 6.79 m að utanmáli.
Eftir að umferð um Gamla Þingvallaveginn lagðist að mestu niður var viðhaldi sæluhússins ekki sinnt, svo fór að það hrundi undan eigin þunga. Allt hleðslugrjótið var þó á staðnum en timburverk, hurð, gluggar og þak, höfðu orðið fúa, vindi og ryði að bráð.

Margir lögðu hönd á plóginn

Gamli Þingvallavegur

Gamli Þingvallavegur – nýuppgert sæluhúsið.

Árið 2019 hóf Ferðafélag Íslands að huga að endurbyggingu sæluhússins og lauk þeirri vinnu árið 2025. Margir lögðu hér hönd á plóg með einum eða öðrum hætti sem hér segir… Síðan eru taldir upp alls kyns pótintátar sem litlu mál skipta, en þeirra merkilegri eru þó hleðslumeistararnir Ævar og Örn Aðasteinssynir, sem eiga mikið lof skilið fyrir handverkið.

Súkkulaði og koníak í nesti
Á öðru skiltinu er eftirfarandi frásögn. „Newcome Wright (1184-1955) var enskur lögfræðingur sem kom til Reykjavíkur með skipinu Botníu í apríllok áerið 1914. Líkt og margir erlendir ferðamenn fyrr og síðar vildi hann heimsækja alþingisstaðinn fornar á Þingvöllum.

Gamli Þingvallavegur

Gamli Þingvallavegur – varða við veginn austan sæluhússins.

Hann arkaði fótgangandi af stað og hugðist ganga nýja veginn frá Geithálsi til Þingvalla, allt gekk slysalaust fyrst í stað en síðan skall á blindbylur. Þá komu vörðurnar við veginn í góðar þarfir, stundum sá Wright sæluhúsið í fjarska, taldi vörðurnar þangað og komst að húsinu við illan leik. Er skemmst frá því að segja að sæluhúsið bjargaði lífi ferðalangsins, hann sagði í viðtali í Morgunblaðinu: „Í húsinu fann ég nokkra heypoka, ég tæmdi þá á gólfið, fór í pokana, hvern utan yfir annan og sofnaði, held ég, í rúma hálfa klukkustund. Að öllum líkindum svaf ég ekki lengur, en þegar ég vaknaði við einhvern hálf leiðan draum, langt uppi á heiðum Íslands, kaldur og svangur, þá vissi ég, að nú væri um að gera að flýta sér niður í byggð. Stormurinn og hríðin úti hræddu mig ekki. Ég ráfaði áfram, jafnt og þétt, sá Þingvallavatnið og komst svo kl. 5-6 um morguninn niður í Almannagjá.“

 

Gamli Þingvallavegur

Gamli Þingvallavegur – vegvísir við veginn og gatnamót línuvegar millum Nesvallavegar og Bringna.

P.S. Eitt er svolítið skondið! Búið er að stika leið frá Heiðartjörninni við Þingvallaveg upp að sæluhúsinu í Moldbrekkum og áfram að skilti á línuveginum þvert á Gamla Þingvallaveginn millum Nejavallavegar og Bringna, 5.9 km leið. Á skilti við „gatnamótin“, sem er reyndar ekki fær nema jeppabifreiðum (skrifari, ökumaður og göngumaður fór hana samt sem áður alla leið á fjórhjóladrifinni fólksbifreið, reyndar Toyotu,  sem sannaði þrátt fyrir það að ökumaðurinn skiptir jafnan meira máli en ökutækið sjálft). Ökuferðin niður að skiltinu tók u.þ.b. klukkustund, enda betra að fara bæði rólega varlega í mestu grófningunum þegar varadekkið er ekkert.
Gangan frá skiltinu að sæluhúsinu, fram og til baka, tók u.þ.b. 40 mín. Aksturinn frá skiltinu niður að Bringum tók u.þ.b. hálftíma.
1.7 km eru, skv. skiltinu, að sæluhúsinu frá línuveginum millum Nesjavallavegar og Bringna, 5.9 km frá því niður á Þingvallaveg, sem fyrr sagði, og 5.7 km að Bringum.

Gamli Þingvallavegur

Gamli Þingvallavegur – skilti við línuveginn millum Nesjavallavegar og Bringna.

Óskiljanlegt er með öllu hvers vegna mönnum datt í huga að stika þessa leið, enda hefur viðkomandi þar með tekist það ómögulega, að leggja hana niður frá sæluhúsinu áleiðis að Þingvallavegi, án þess að snetra hið minnsta hina fornu neðanverða þjóðleið vermannanna fyrrum, sem og hið gamla sæluhús við Þrívörður þar skammt austar, landamerki Mosfellssveitar og Grafningshrepps! Svona er Ísland víst í dag…

Sæluhúsið er alltaf opið fyrir gesti og gangandi. Göngum vel um þessar merku menningarminjar.

Gamli Þingvallavegur

Gamli Þingvallavegur – nýendurgert sæluhúsið innanvert. Ákveðið hefur verið hafa allt húsið á sama gólfi, en fyrrum var í því timburþilpallur að austanverðu fyrir fólk og aðstaða fyrir hesta í því vestanverðu.  Ólíklegt er að hestum verði boðið þangað inn í framtíðinni, enda sæluhúsið einungis ætlað sem „hús sælunnar“…

Fornleifauppgröftur

Í Vísi þann 23. janúar 2017 fjallar Kristján Már Unnarsson um doktorsverkefni forneifafræðingsins Magdalenu Schmid undir fyrirsögninni „Telur fornsögurnar sannar um landnámstíma Íslands„.

Magdalena Schmid

Magdalena Schmid.

„Þýskur fornleifafræðingur telur ítarlegar aldursgreiningar elstu minja á Íslandi staðfesta frásagnir fornsagna um að landið hafi fyrst verið numið á árunum eftir 870. Þetta kom fram í fréttum Stöðvar 2 og í þættinum Landnemarnir.

Fornleifar sem fundust síðastliðið sumar í Stöðvarfirði eru raunar nýjasta dæmið um mannvirki sem einhver virðist hafa reist löngu áður en Ingólfur Arnarson á að hafa numið Ísland fyrstur manna. Sú niðurstaða Margrétar Hermanns Auðardóttur fyrir 35 árum, að fyrsti bóndinn í Herjólfsdal í Vestmannaeyjum hefði byggt bæ sinn um 150 árum á undan Ingólfi, reyndist olía á eld viðvarandi deilna um hvort landnámssagan sé rétt.

Og þetta er einmitt doktorsverkefni fornleifafræðingsins Magdalenu Schmid; að grandskoða allar aldursgreiningar landnámstímans, en þær eru yfir 300 talsins.

Orri Vésteinsson

Orri Vésteinsson.

„Ef maður skoðar öll gögnin, eins og ég geri í rannsókn minni, – því stundum er auðvelt að draga ályktun frá einu sýnishorni, – en þegar öll myndin er skoðuð segja gögnin okkur að þetta hafi ekki átt sér stað fyrir árið 870,“ segir Magdalena Schmid. Hún viðurkennir að vegghleðslan í Aðalstræti sé dæmi um mannvirki frá því áður en landnámsaskan féll.

Orri Vésteinsson prófessor, sem er leiðbeinandi hennar, telur aðalniðurstöðuna þá hve mikil og traust gögn séu til um landnámið. „Það er búið að gera alveg gríðarlega margar greiningar. Það er búið að fara á marga staði, grafa þá upp, og safna miklum heimildum,“ segir Orri.

Húshólmi

Húshólmi – skáli.

Yfirgnæfandi hluti þeirra bendi til að landnám hefjist eftir að landnámsgjóskulagið féll. Tveir staðir, Reykjavík og Húshólmi við Krýsuvík, sýni mannvist undir gjóskunni en yfir 300 staðir sýni elstu mannvist rétt ofan á gjóskulaginu.

„Þetta sýnir okkur það auðvitað að fólk er komið hingað fyrir 870 en landnámið sjálft hefst ekki fyrr en eitthvað eftir þann tíma,“ segir Orri.

Niðurstaða Magdalenu Schmid er að fornleifarnar styðji frásagnir fornsagna af landnáminu.

Landnáma

Landnáma.

„Í sögunum er sagt að Ísland hafi verið numið á 60 vetrum og að fólk hafi komið árið 870 eða 874. Tímasetningin er mjög nákvæm, og þótt við vitum nú að fólk hafi komið aðeins fyrr, er talað um landnám, – og það stenst, – því það átti sér stað eftir 870. Þannig að sögurnar eru sannar,“ segir Magdalena.

Heimild:
-https://www.visir.is/g/2017170129545/telur-fornsogurnar-sannar-um-landnamstima-islands

Fornleifauppgröftur

Fornleifauppgröftur í Stöðvarfirði. Jörðin hefur margt forvitnilegra að geyma, þrátt fyrir allar skráðar ritheimildir…

Nessel

Guðjón Jenssen skrifaði um „Seljadal“ í Mosfelling 2024:
„Einn af fegurstu og sérstæðustu dölum innan marka Mosfellsbæjar er Seljadalur.

Guðjón Jensson

Guðjón Jensson.

Þessi skjólsæli og vel gróni dalur er við vesturmörk Mosfellsheiðar, sunnan og austan við Grímannsfell sem er hæsta fjall Mosfellsbæjar. Fremur fátítt er að þar sé fólk á ferð utan hestafólk sem ríður elstu leiðina í átt til Þingvalla.
Þetta var leið þriggja konunga en Kristján IX fór þarna um 1874, Friðrik VIII 1907 og Kristján X 1921.

Jón á Reykjum segir svo í mjög fróðlegri lýsingu sinni af Seljadal sem birtist í Mosfellspóstinum 19.6.1981: „Seljadalurinn er allur eða að mestu í eigu hreppsins, en er upphaflega úr jörðunum Þormóðsdal og Miðdal. Náttúrufegurð er mikil í dalnum enda skýlt úr öllum áttum nema ef til vill að norðaustan.“

Nessel

Nessel í Seljadal.

Örnefnið Seljadalur vísar til að í honum hafi verið tvö sel, kannski fleiri. Í dag er einungis eitt þekkt, Nessel vestarlega í dalnum undir Grímannsfelli. Mun það fremur vera kennt við Gufunes en Nes á Seltjarnarnesi.
Má enn í dag sjá vel varðveittar rústirnar og hvernig húsaskipan var, mjög hefðbundin. Í næsta nágrenni rennur lækur en aðgengi að góðu vatni var ein af mikilvægustu forsendum seljabúskaparins enda hreinlæti mjög mikilvægt.

En hvar var hitt selið?

Viðeyjarsel

Viðeyjarsel (Bessastaðasel) í Lækjarbotnum.

Viðeyjarklaustur var auðugasta klaustur á Íslandi á miðöldum. Til þess var stofnað af helstu höfðingjum landsins, sjálfum Snorra Sturlusyni og Þorvaldi Gissurarsyni, föður Gissurar jarls. Klaustrið var vígt 1226 af Magnúsi biskup í Skálholti, bróður Þorvaldar. Lagði hann til klaustursins biskupstíund (osttolla) milli Botnsár í Hvalfirði og Hafnarfjarðar. Auk þess átti það reka víða um Reykjanes. Klaustrið var rænt tvívegis; 1539 og 1550.

Magnús Guðmundarson sem var prestur á Þingvelli gaf Viðeyjarklaustri selför í Þormóðsdal hinum efri segir í máldaga (eignaskrá) Viðeyjarklausturs frá 1234. Nafnið bendir til að örnefnið Seljadalur kemur síðar við sögu eftir að selin hafa verið tvö. Seljadalur er mjög grösugur og skjólsæll og Seljalandsbrúnirnar veita búsmala gott aðhald.

Mosfellsbær

Kambsrétt í Seljadal.

Landbúnaðarsamfélagið fyrrum byggðist á því að unnt væri að hafa seljabúskap yfir hásumarið þannig að afla mætti nægra heyja af heimatúnum og koma búfénu frá. Þannig hefur klausturfólk átt gott samstarf við Gufunesinga við að koma búsmalanum stystu leið upp með Úlfarsá og upp í Seljadal. Þessi leið hefur þann ótvíræða kost að vera fremur stutt og greiðfær enda engar erfiðar torfærur á leiðinni.

Með siðaskiptunum verða gríðarlegar breytingar á búskaparháttum landsmanna. Danski kóngurinn leggur undir sig allar eignir klaustra, kirkna og biskupsstóla og er á einu ári orðinn eigandi 20% allra jarða á Íslandi.

Seljadalur

Seljadalur – óskráðar selsminjar.

Fyrrum voru jarðirnar leigðar með þeim skilmálum að leiguliðar afhentu klaustrinu tiltekinn hluta af afurðum jarðarinnar, oft 5-10%. Eftir siðaskipti voru þær leigðar með öðrum skilmálum sem einkum var falið í vinnuframlagi í þágu Bessastaðavaldsins. Margir leiguliðar urðu að sjá um að senda vinnumenn sína í verið til að róa á kóngsbátunum og til veiða í Elliðaánum, en fyrirferðarmesta kvöðin hefur verið að vinna viðarkol í Þingvallaskógi og afhenda tiltekið magn á Bessastaði á tilteknum tíma.

Seljadalur

Vegur (brú) um Seljadal.

Þetta hefur væntanlega verið ein þyngsta kvöðin enda verða viðarkol ekki unnin nema um hásumarið þegar mest er um að vera í heyönnum.
Allt þetta breytti öllum búskaparháttum meira og minna. Nautgriparækt dregst verulega saman, enda þörfin fyrir framleiðslu á mjólk og mjólkurafurðum minni, en sauðfjárbúskapur eykst að sama skapi. Unnt var að sleppa sauðfé í haga eftir sauðburð og ekki þurfti eins mikla fyrirhöfn við að mjólka kýr og sinna tímafrekum bústörfum.

Nærsel

Nærsel í Þormóðsdal „hinum efri“.

Mér þykir mjög líklegt að Viðeyjarsel hafi verið þar sem nú er Kambsrétt. Hún var skilarétt Mosfellinga og nærsveitarmanna væntanlega fljótlega upp úr siðaskiptum og fram yfir miðja 19. öld. Þá var Árnakróksrétt austan Selvatns tekin í notkun, mjög stór og stæðileg.
Umhverfi hennar er votlendi og þótti auk þess vera nokkuð úr leið einkum fyrir þá Mosfellinga sem í Mosfellsdal bjuggu. Varð það til þess að Hafravatnsrétt var tekin í notkun 1901 og er líklega einna frægust rétta í Mosfellsbæ.“

Í Seljadal eru reyndar fleiri en tvö sel, þ.e. Nessel og Nærsel. Þau eru a.m.k. þrjú talsins. Hvorki Nærsel né hið þriðja hafa enn ekki verið skráð. Selstaða hefur hins vegar aldrei verið í Kambsrétt.

Heimildir:
-https://mosfellingur.is/seljadalur/
-Heimild: https://timarit.is/files/66988132
-heimild: Fornbréfasafn Íslands, fyrsta bindi bls. 507.
-Guðjón Jensson.

Nærsel

Nærsel í Þormóðsdal – uppdráttur ÓSÁ.

Knarrarnes

Á göngu FERLIRsfélaga í heiðinni ofan Vatnsleysustrandar, millum Auðnaborgar og Lynghólsborgar, ofan Knarrarness, rákust þeir m.a. á fjórar nálægar tóftir á grónum klapparhrygg, á og við svonefnd Sauðholt.

Krummhóll

Krummhóll – „vörðubrot“.

Getið er um Sauðholt í örnefnalýsingu Kristjáns Eiríkssonar fyrir Knarrarnes, sbr. „Upp af Vorkvíum er Krummhóll og var vörðubrot á honum. – Grasigróinn hóll, þýfður og svolítið toppmyndaður, er rétt suðaustan Krummhóls. Hann heitir Borg – Svolítil lægð er milli Borgar og Krummhóls. Lynghóll er vestur af Krummhól. Flatir eru ofan við Borgina og ofan þeirra Sauðholt (ft)“. Kristján getur ekki um tóftir í Sauðholtum.

Framangreind lýsing skýrir margt enn óskýrt á þessu svæði, auk þess að nauðsynlegt var að skýra það um betur. Vörðubrotið á Krummhól sést enn, Vorkvíar voru afgirtur gróinn blettur ofan við Hellur í landi Minni-Knarrarvogs. „Grashóllinn gróni“ er reyndar austan Krummhóls. Á honum er gömul fjárborg. Lynghóll er langt farri í suðvestri. Lýsing Kristjáns er þrátt fyrir framangreint ágæt ávísun á Sauðholtin. Hún vakti áhuga á nánari könnun á vettvangi.

Knarrarnes - refagildra

Knarrarnes – refagildra.

FERLIR gekk í framhaldinu með Birgi Þórarinssyni, húsbónda á Minni-Knarrarnesi, upp í heiðina á tilnefndu svæði. Birgir er þarna öllum hnútum kunnugur.

Eftir að hafa gengið að Digruvörðu, landamerkum Minni-Knarrarness og Ásláksstaða vestan yfir Vorkvíar og skoðuð tóft „brúsahússins“ við Gamlaveg ofan Hellu var staðnæmst við litla landamerkjavörðu á klapparhól ofan vegarins. Ljóst var að varðan sú var í sjónhendingu við Digruvörðu í línu upp heiðina að áberandi vörðu á Knarrarstaðaholti með beina stefnu í „Nyrðri-Keilisbróður“.

Minna-Knarranes

Minna-Knarrarnes – minnismerki um ítalskan hund.

Skammt austar var stölluð nútímavarða í lægð á millum skollóttra hraunhraunhóla. Birgir sagði að hann hefði leyft Ítala nokkrum, eftir hans þrábeiðni, að grafa dauðan hundinn hans þarna og auk þess að hlaða minnismerki hundinum til heiðurs. Birgir sagðist hafa verið fjarverandi þegar leyfið var veitt svo umfangið hafi komið honum á óvart er heim kom.

Haldið var áfram upp heiðina og staðnæmst við vörðubrotið á Krummhól. Auðljóst var að þarna hafði verið skjól refaskyttu fyrrum. Leifar af torfhlaðna skjólinu gáfu það til kynna, auk þess sem varðan virtist skjól fyrir skyttuna fyrir niðurkomu refsins beggja vegna ofanverðar klapparhæðar.

Minna-Knarrarnes

Krummhóll – „vörðubrot“.

Töldu viðstaddir líklegt, að fenginni reynslu, að hlaðna refgildru væri að finna í nágrenninu. Bæði var það vegna staðsetningar skjólsins með hliðsjón af landslaginu og tilkomu byssunnar á síðari tímum. Hafa ber í huga að refurinn hefur frá örófi alda fetað sömu slóðirnar fram og til baka eftir árstíðum. Forfeðrum vorum var kunnugt um það. Þeir hlóðu því gildrur í gegnum aldir á sömu slóðum og seinni tíma veiðimenn nýttu sér aðstöðuna með nýjum og nútímalegri áhöldum.

Eftir stutta göngu var gengið, að því er virtist fram á vörðubrot á klapparhrygg. Við nánari skoðun var þarna greinilega um forna hlaðna refagildru að ræða, þá 98. fundna og skráða á Reykjanesskaganum.

Minna-Knarrarnes

Minna-Knarrarnes – forn refagildra, óskráð, opinberuð um skamma stund.

Skv. Þjóðminjalögum má að vísu ekki hreyfa við fornleifum án heimildar Minjastofnunar, en þar sem reyndasti fornleifafræðingurinn á svæðinu var með í för, var ákveðið að sýna þátttakendum hleðslutæknina, innvolsið og lýsa tilgangi og tilurð þess fyrir viðstöddum. Að því loknu voru allir fyrrum steinar fjarlægðir ofan af innganginum, mannvirkinu lýst af nákvæmni, og steinarnir síðan settir nákvæmlega á sinn stað aftur.

Hlaðnar refagildrur eru mannvirki er komu hingað til lands með forfeðrum og -mæðrum vorum frá Noregi. Þær voru notaðar, sem fyrr sagði, allt umfram tilkomu skotvopna. Með tilkomu þeirra voru gildrurnar jafnan virkjaðar að vetrarlagi. Eftir því sem skotvopnin urðu algengari og betri lagðist gildrunotkunin af. Þeir síðustu manna er vitjuðu gildranna gengu illa um þær. Þeir rótuðu grjótinu ofan þeim án þess að laga til eftir sig. Þess vegna líta fornar refagildrur út líkt og fallnar vörður í augum nútíma fornleifafræðinga. A.m.k. hafa þær sjaldnast verið skráðar sem slíkar í nútíma fornleifaskráningum.

Refgildra

Refagildra – ÓSÁ.

Steinhlaðin refagildra felur í sér op, gang, farg, lokhellu og fyrirstöðu. Hér verður ekki eytt stöfum í að lýsa veiðiaðferðinni. Henni hefur áður verið lýst á vefsíðunni.

Skammt ofar var komið upp á Sauðholtin fyrrnefndu. Á þeim bar fyrir augu þrjár hlaðnar tóftir; fremst beitarhúsið framangreint, og ofar hlaðinn stekkur með aðtengdri tóft. Augljóslega var þarna um að ræða fyrrum heimasel frá Minna-Knarrarnesi, þrátt fyrir að minjarnar væru skráðar með Ásláksstöðum, næsta bæ að vestanverðu.
Stekkurinn og aðliggjandi tóft bárum þess merki að um heimasel hafi verið að ræða, væntanlega eftir að aflokinni selstöðinni í Knarrarnesseli ofar í heiðinni lokinni. Með breyttum búskaparháttum, tilkomu þéttbýlismyndunar og fækkun fólks í sveitum færðust selstöðurnar nær bæjunum. Það er reyndar saga út af fyrir sig, sem vel hefur áður verið tíunduð hér á vefsíðunni.
Selshúsin eru hefðbundin, með þremur rýmum. Grjóthleðsslur í veggjum sjást enn vel.

Minna-KnarrarnesÍ „Aðalskráningu fornleifa í Sveitarfélaginu Vogum – Áfangaskýrsla II“ segir undir skráningu Ásláksstaða: „Beitarhústóft; Tvískipt tóft er um 1,2 km suðaustan við bæ. Tóftin er á flatlendi ofan/suðvestan við gróinn og nokkuð grösugan lautarbolla. Dálítil brekka er til norðurs frá tóftinni.
Tóftin er grjóthlaðin og tvískipt og snýr nálega norður-suður. Hún er um 8,5×6 m að stærð. Mesta hæð veggja er um0,5 m og sjást 2 umför hleðslu. Vesturhluti tóftar er gróinn og sést ekki í hleðslur þar. Hólf I er nyrst í tóftinni, það er um 5×2,5 m að innanmáli og snýr austur-vestur. Ekki virðist vera veggur fyrir austurhlið hólfsins og er það því opið til þeirrar áttar. Hólf II er samsíða hólfi I en ógreinilegra. Það er um 5×1 m að innanmáli og snýr austur-vestur. Ekki sést op á því. Líklegt er að þarna hafi verið beitarhús en lag tóftarinnar, staðsetning hennar og fjarlægð frá bæ bendir allt til þess hlutverks.“

Minna-Knarrarnes

Minna-Knarrarnes – beitarhús.

Í fornleifaskráningunni fyrir Stærra-Knarrarnes segir: „Upp af Vorkvíum er Krummahóll og var vörðubrot á honum.- Grasigróinn hóll, þýfður og svolítið toppmyndaður, er rétt suðaustan Krummahóls. Hann heitir Borg. Svolítil lægð er milli Borgar og Krummhóls,“ segir í örnefnaskrá. „Rétt sunnan og ofan við vegamót Gamlavegar og Strandarvegar í Breiðagerði er Krummhóll með uppmjórri vörðu á og í framhaldi og upp af honum kemur svo Borg en það er langt holt nokkuð gróið og þar gæti hafa verið fjárborg fyrrum. Ofarlega í holtinu eru rústir af beitarhúsum, tvær tóftir hlið við hlið og ein þvert á þær.

Minna-Knarrarnes

Minna-Knarrarnes – stekkur (heimasel). Beitarhús efst t.h.

Aðeins neðar á holtinu er greinilega nýrri fjárhústóft. Rétt ofan og austan við efri rústirnar finnum við lítið vatnsstæði í klöpp, vel falið í viki norðan undir lágum hól,“ segir í Örnefnum og gönguleiðum. Allar þær minjar sem að framan eru nefndar eru skráðar saman og fleiri til en vatnsstæðið fannst ekki. Heimildum kemur ekki saman um örnefnið Borg. Í örnefnaskrá er það sagt vera grasigróinn, toppmyndaður hóll, en í bókinni Örnefni og gönguleiðir er það sagt vera holt. Niðurstöður vettvangskönnunar eru að örnefnið Borg eigi við um fjárborg sem hefur verið breytt í stekk á einhverjum tímapunkti. Þessar minjar hafa bókstafinn C í nánar umfjöllun hér fyrir neðan. Minjarnar eru um 1 km sunnan við bæ. Minjarnar eru sunnarlega á löngu og háu holti sem snýr norður-suður.

Minna-Knarrarnes

Minna-Kjarrarnes – heimasel.

Minjarnar eru á svæði sem er um 55×20 m að stærð og snýr norðvestur-suðaustur.
Nyrst á svæðinu er tóft A. Hún er grjóthlaðin en gróin. Hún er um 7×5 m að stærð, snýr suðaustur-norðvestur. Hún virðist vera einföld og er op á henni til norðvesturs. Mikið grjót hefur hrunið inn í hana og norðausturlangveggur hefur allur hrunið inn í tóftina. Mesta hleðsluhæð er um 0,5 m. Líklega er þessi tóft sú sem sögð er „nýrri fjárhústóft“ í tilvísun hér að ofan eða beitarhús.

Minna-Knarrarnes

Minna-Knarrarnes – búr.

Um 40 m suðaustan við tóft A er gróin tóft B. Hún er einföld, um 4×4 m að stærð og er inngangur inn í hana úr austri. Mesta hæð veggja er um 0,5 m. Lítillega sést í grjót í norðausturhorni tóftarinnar. Til austurs frá tóftinni er greinilegur niðurgröftur eða renna sem virðist vera manngerð. Hún er um 6×3 m að innanmáli, snýr austur-vestur og mjókkar í austurenda. Mesta dýpt er um 0,3 m. Um 5 m austan við endann á rennunni er tóft C, meint stekkjartóft. Lögun tóftarinnar og örnefnið Borg bendir til þess að þarna hafi áður verið fjárborg. Annað dæmi um fjárborg sem virðist hafa verið breytt í stekk er t.d. Þórustaðaborg og Vatnabergsstekkur/Vatnaborg.

Tóftin myndar dálítinn hól og er orðin óskýr. Símastrengur hefur verið grafinn í gegnum hana og skemmt hana.

Minna-Knarrarnes

Minna-Knarrarnes – stekkur (heimasel).

Tóftin er nokkuð gróin þó enn sjáist í grjóthleðslur. Hún er um 9×12 m að stærð og snýr nálega austur-vestur. Hún skiptist í þrjú hólf en hólfin eru nefnd tóftir í tilvísun hér að framan. Hólf I er í norðvesturhorni. Það er um 1×3,5 m að innanmáli, snýr norður-suður. Inngangur er úr suðri. Hólf II er samsíða hólfi I. Það er um 1×2,5 m að innanmáli. Það snýr eins og hólf I og inngangur í það er einnig úr suðri. Hólf III er sunnan við hólf I og II og er um 4×1,5 m að innanmáli, snýr austur-vestur. Mesta hæð tóftar er um 1 m. Mest sjást 2 umför í innanverðum hleðslum. Gróin en grýtt tota liggur úr tóftinni til austurs sem er um 4 m löng og um 2 m á breidd. Mögulegt er að rekstrargarður hafi verið þar og inngangur inn í tóftina (hólf III) en það sést ekki lengur. Gryfja D er um 2 m suðaustan við tóft C. Hún er um 2×1,5 m að innanmáli, snýr suðvestur-norðaustur. Mesta dýpt er um 0,5 m. Ógreinilegar grjóthleðslur eru í innanverðum veggjum.“

Knarrarnes

Knarrarnes – beitarhús.

Um er að ræða áhugaverðan stað í hvívetna, ekki síst að teknu tilliti í sögulegu samhengi fyrrum búskaparhátta. Um er að ræða 424. þekktu selstöðuna á Reykjanesskaganum.

Í „Smáriti Byggðasafns Skagfirðinga“ um „Vitnisburð búsetuminja“ árið 2010 segir um beitarhús: „Beitarhús – sauðir voru langoftast hafði á beitarhúsum, allfjarri túnum. Stundum til fjalla. Þar sem var góð vetrarbeit, sem þýðir að þeim var beitt (látnir bíta gras) á meðan gaf á jörð, sem kallaða var.
Menn gengu á beitarhúsin alla daga eftir að farið var að hýsa féð, til að reka það til beitar. Ef haglaust var var hey gefið á garða. Í einstaka tilfellum voru hey geymd og tyrfð við húsin þannig að skepnur kæmust ekki í það, eða að menn báru hey í meis (rimlakassi úr tré) á bakinu til húsanna þá daga sem nauðsynlegt þótti að gefa á garðann.“

Beitarhús

Beitarhús ofan Knarrarness.

Í neðanverðri heiðinnni, ofan bæjanna við ströndina, er að öllu jöfnu tiltölulega snólétt og því er staðsetning beitarhússins vel skiljanleg. Augljóst er að „stekkurinn“ hefur verið notaður um alllangt skeið og eftir að beitarhúsið var byggt  því annars hefði grjótið verið tekið úr hleðslum stekksins við byggingu þess. Hvorutveggja hefur farið vel saman því um notkun hvors um sig voru á sitthvorri ártíðinni.

Knarrarnes

Knarrarnes – heimasel.

Skammt sunnan við Sauðholt eru tóftir í gróinni kvis undir lágum aflöngum klapparhól. Um er að ræða stekk og litla byggingu með einu rými. Tóftirnar eru greinilega mjög gamlar, mun eldri en minjarnar á Sauðholti. Líklega hefur þarna verið heimasel frá Minna-Knarrarnesi. Þessara minja er hvorki getið í örnefnalýsingum né í fornleifaskráningum af svæðinu.

Frábært veður. Gangan tók 1 klst og 1.mín.

Heimildir:
-Aðalskráning fornleifa í Sveitarfélaginu Vogum – Áfangaskýrsla II, Fornleifastofnun Íslands, Reykjavík 2014.
-Örnefnalýsing Kristjáns Eiríkssonar fyrir Knarrarnes.

Keilir

Keilir – með tilheyrandi stauramengun.

Gamli Þingvallavegur

Á vefsíðu Ferðafélags Íslands mátti þann 23. júni 2025 lesa eftirfarandi um „Vígslu sæluhúss FÍ á Mosfellsheiði“:

Gamli Þingvallavegur

Gamli Þingvallavegur – endurgert sæluhúsið.

„Veðrið lék við gesti sem áttu mjög ánægjulega og hátíðlega stund. Fjallasýnin til Þingvalla var einstaklega tilkomumikil og fögur.
Ferðafélag Íslands vígði nýtt endurgert sæluhús félagsins á Mosfellsheiði sunnudaginn 22 júní að viðstöddum fjölmörgum gestum.
Ólöf Kristín Sívertsen, forseti FÍ bauð fólk velkomið og þakkaði sérstaklega öllum þeim sem hafa komið að endurbyggingu hússins. Þar hafa bræðurnir Örvar og Ævar Aðalsteinssynir annast byggingu hússins en auk þeirra var Unnsteini Elíassyni hleðslumeistara úr Borgarfirði, Bjarka Bjarnasyni sem leiddi undirbúning verkefnisins, leyfismál og fl., Bjarna Bjarnasyni frá Hraðastöðum og Jóni Sverri einnig þakkað fyrir þeirra framlag. Þá var þakkaður stuðningur frá Erni Kærnested og fasteignafélaginu Bakka.

Gamli Þingvallavegur

Gamli Þingvallavegur – Örvar og Ævar að verki við endurgerð sæluhússins.

Páll Guðmundsson framkvæmdastjóri FÍ fór m.a. yfir sögu skálabygginga FÍ og starf félagsins í upphafi, sýn og drauma frumkvöðlanna og sjálfboðaliðanna sem leiddu starf félagins og byggðu upp á fyrstu árum þess. ,,Endurbygging sæluhússins er okkur hjá FÍ afar kær og okkur finnst mikilvægt að sinna því. Skilgreint hlutverk félagsins er m.a. bæði að skipuleggja ferðir um landið og standa að skálauppbyggingu og rekstri fjallaskála. Okkar hlutverk er einnig að halda til haga ýmsum fróðleik og huga að sögulegum rótum – framkvæmdirnar á Mosfellsheiði eru mjög í þeim anda,“ sagði Páll.
Bjarki Bjarnason fór m.a. yfir vegagerð á Mosfellsheiði, sagði sögu af enskum ferðalangi sem leitaði skjóls í sæluhúsinu í aftakaveðri og með koníak og súkkulaði í nesti, sem bjargaði lífi hans. Þá rakti hann tilurð verkefnis og framkvæmdasögu sæluhússins.

Gamli Þingvallavegur

Örvar og Ævar Aðalsteinssynir hafa haft veg og vanda af endurbyggingu hússins og gert það með miklum sóma. 

Örvar og Ævar Aðalsteinssynir greindu frá byggingu hússins, allt frá grunni og þar til verkinu var lokið. Þeir greindu frá því hvernig verkefnið hefði verið unnið í áföngum, frá ári til árs og gengið einstaklega vel.
Fjölmargir hestamenn mættu i kaffi ( kristal ) og tóku lagið.
Pétur Ármannsson þakkaði fyrir ánægjulegt samstarf við alla þá sem að þessu verkefni hafa komið og greindi frá hugsanlegri friðun Þingvallavegar hins gamla, sem nú er í umsóknarferli.
Sr. Guðlaug Helga Guðlaugsdóttir, sóknarprestur í Mosfellsbæ blessaði sæluhúsið og hendur þeirra sem að komu, og mæltist einstaklega vel í fallegri ræðu.
Að lokum var boðið upp á léttar veitingar og Örævabandið tók nokkur lög inni í sæluhúsinu við góðar undirtektir.“

Mosfellsheiði

Sæluhúsið við Gamla-Þingvallaveginn um 1900.

Þetta hefur verið svolítið skondin samkoma á Mosfellsheiðinni þennan umrædda „dýrðardag“ og margir raftar þar á sjó dregnir af litlu tilefni „endurvígslunnar“.
Þess má t.d. geta, í fysta lagi, að ekki er um „endurbyggingu“ sæluhúss FÍ að ræða. Sæluhúsið var byggt á kostnað íslenska ríkisins árið 1906 í þeim tilgangi að skapa afdrep fyrir Friðrik VIII Danakonung í heimsókn hans hingað til lands árið eftir. Einn forkólfa Árbókar FÍ 2023 ánafnaði félaginu leifum hússins, að því er virðist án nokkurrar heimildar.

Mosfellsheiði

Eldra sæluhúsið í Moldabrekkum, endurgert.

Þá ber að hafa í huga að vagnvegagerðin um Mosfellsheiði, sem hófst árið 1886, var að fullu lokið árið 1891. Í upphafi vegagerðarinnar var reist skjól fyrir vegagerðarmennina sem steintilhöggna sæluhúsið var síðar reist þar skammt frá. Tóftir gamla hússins má sjá austan við hið endurgerða hús sem og brunninn, sem þar var fyrrum upphlaðinn á klöpp. Svo virðist sem bæði minjaverði svæðisins og forkólfum verkefnisins hafi yfirsést þessar eldri minjar við útekt og undirbúning framkvæmdanna. Fyrrum reynsla af slíkum kemur þó ekki á óvart.

Mosfellsheiði

Upphaflega sæluhúsið í Moldarbrekkum 1896 – Daniel Bruun.

Af lýsingu Kålunds frá þessum tíma má a.m.k. lesa tvennt; hann skrifar lýsingu sína 1877 og er þá að lýsa elstu Þingvallaleiðinni um Seljadal um Moldabrekkur, sem er nokkuð norðan Gamla Þingvallavegarins, sem byggður var, sem fyrr segir, á árunum 1886-1891. Við þá eldri leið hafði verið byggt sæluhús í Moldabrekkum 1841. Húsið var byggt úr svonefndum Sýsluvörðum (Þrívörðum). Vatnslind er þá neðan við húsið. Til er ljósmynd af því húsi, sem nú er tóft ein. Á því var lítill kross á gafli, líkum þeim er settur hefur verið á gafl hins endurgerða sæluhúss.

Þingvallavegur

Gamli Þingvallavegur – endurbyggt hús og eldri sæluhúsatóft.

Í Lögbergi-Heimskringlu 1890 segir að við Gamla Þingvallaveginn hafi fyrst verið byggt sæluhús 1890, á háheiðinni. Hleðslumeistari hafi verið Sigurður Hansson (1834-1896), sem hlóð einnig reisulegar vörður meðfram veginum. Hafa ber í huga að vörður á fyrirhugðum vagnvegum voru jafnan hlaðnar nokkru áður en fyrirhuguð vegagerð hófst.

Í framangreinda lýsingu virðist hafa gleymst að „sæluhús“ úr torfi og grjóti hafði þegar verið reist á framangreindum stað, líklega um 1890. Tóftir hússins eru skammt austan steinhlaðna hússins, sem líklegt er að hafi verið byggt um 1906 í tilefni af væntanlegri konungskomu Friðriks VIII árið 1907. Aftan (norðan) við gamla sæluhúsið mótar fyrir gerði.

Gamli Þingvallavegur

„Endurvígsla“ gamla sæluhússins – Jón Svanþórsson, einn höfundanna um Árbók FÍ 2023 um Mosfellsheiðina kímir svolítið í kampinn.

Fyrirmenn hafa væntanlega ekki talið „sæluhús“ vegagerðarmanna, gert upp á íslenskan máta úr torfi og grjóti, boðlegt hinum konungbornu og því verið ákveðið að gera nýtt álitlegra „skjól“ við hlið þess. Innandyra var aðstaða fyrir ferðamenn á upphækkuðum trépalli að austanverðu og fyrir nokkra hesta að vestanverðu.

Pétri „presti“ Ármannssyni ætti að vera vel kunnugt um að skv. Minjalögum eru allar minjar eldri en 100 ára friðaðar og því óþarfi að beita þær „friðlýsingum“ líkt og gert hafði í anda gömlu Þjóðminjalaganna.

Handverk Örvars og Ævars ber þó, þrátt fyrir alla vitleysuna, að lofa.  Efast má hins vegar um að nokkur prestur hafi haft þar nokkurn tilgang, þangað til núna, til þess eins að babla um eitthvað sem engu máli skiptir.

Heimild:
-https://www.fi.is/is/fi/frettir/saeluhuhus

Gamli Þingvallavegur

Eldra sæluhúsið við Gamla Þingvallaveginn, sem enginn virðist hafa gefið nokkurn gaum..

Húshólmi

Í Morgunblaðinu 1998 kynnti Orri Páll Ormarsson sér sögu fornleifaskráningar á Íslandi, sem skiptist í nokkur góðæri með löngum harðindaskeiðum á milli, fræddist um starfið sem nú er verið að vinna og ræddi við Orra Vésteinsson, fornleifafræðing, undir fyrirsögninni „Fortíðinni forðað frá glötun„:

Krýsuvík

Krýsuvík neðan Baðstofu – fornleifar, nú í verulegri hættu vegna orkuframkvæmda.

„Sá dýri arfur sem fólginn er í fornleifum þessa lands er að hverfa. Þetta fullyrða fornleifafræðingar. Svo virðist sem Íslendingar, sem til þessa hefur verið annt um sögu sína og uppruna, haíí gleymt sér í töfraheimi tækninnar – fortíðin er fótum troðin. Nú er mál að linni, segja fornleifafræðingar. Vöknum til vitundar um illvirkið áður en það er um seinan!
Fornleifar eru ekki ótæmandi auðlind. Þjóð sem veit ekki hvaðan hún kemur getur ekki vitað hvert hún er að fara!

Beittasta vopnið í baráttunni fyrir varðveislu fornleifa er sú tegund grunnrannsókna sem nefnist fornleifaskráning. En hún er lítt þekkt meðal almennings hér á landi.

Krýsuvík

Krýsuvík neðan Baðstofu – fornleifar eyðilagðar á fyrsta degi orkuframkvæmda 2025 – og það þrátt fyrir alla viðleytni hlutaðeigandi um vonlega varðveislu.

Fornleifaskráning er kerfisbundin leit og skráning á fornum mannvistarleifum en án slíkra upplýsinga er ekki hægt að gera ráðstafanir til að vernda minjarnar. Skráning af þessu tagi hefur verið unnin jafnt og þétt í rúma öld í nágrannalöndunum og á sumum stöðum er hafin önnur eða þriðja umferð. Á Íslandi lauk fyrstu yfirferð um 1823 en þær upplýsingar eru að mestu gagnslausar eða úreltar sem tæki til minjaverndar eða annarrar stjórnsýslu á nútímavísu. Engin heildarskrá yfir fornleifar landsins er enn fyrir hendi. Er því lítið vitað um fornleifar á Íslandi, hve margar hafa eyðst á síðustu áratugum, hve margar eru hólpnar. Þetta er þó óðum að breytast.

Orri Vésteinsson

Orri Vésteinsson.

Markviss fornleifaskráning hefur opnað ýmsa nýja möguleika í fornleifavernd, að sögn Orra Vésteinssonar, fornleifafræðings sem stjórnar fornleifaskráningarstarfinu hjá Fornleifastofnun, og nú er hægt að áætla hversu margir minjastaðir séu á landinu öllu, rúmlega 100.000, hversu stórt hlutfall þeirra hefur orðið fyrir skemmdum eða eyðileggingu, allt að 60%, og hvaða svæði eða minjaflokkar séu í mestri hættu. Forsendur hafa því skapast til að gera nákvæmar áætlanir um umfang og kostnað við skráningu fornleifa og leggja þannig grunninn að öflugri minjavernd á næstu öld.
Orri VésteinssonOrri segir að á þeim stutta tíma síðan Fornleifastofnun byrjaði á skráningunni hafi hugmyndir fornleifafræðinga um íslenskar fornleifar tekið stakkaskiptum. „Við vissum lítið sem ekkert um þær í upphafi – hvorki hvað þær væru margar né hvers eðlis þær væru. Núna höfum við að minnsta kosti allgóða hugmynd um það og eftir nokkur ár munum við vita miklu meira. Við erum rétt byrjuð að fleyta rjómann ofan af þessum upplýsingum sem við höfum verið að safna en hægt verður að nýta þennan grunn mjög lengi, gera bæði skemmtilegar og gagnlegar rannsóknir á íslenskum fornleifum og miðla upplýsingum til ferðamanna um staði sem gaman er að heimsækja. Við teljum því nefnilega statt og stöðugt að með því að gera fornleifar meira spennandi vinnum við um leið að verndun þeirra.“

Hjátrúin betri en enginn

Flekkuvík

Flekkusteinninn – rúnasteinn í Flekkuvík.

Skipuleg skráning fornleifa á Íslandi hófst árið 1817 er hin konunglega danska fornminjanefnd sendi spurningalista til allra sóknarpresta í landinu. Fékk nefndin upplýsingar um fomleifar af ýmsum toga á um 700 stöðum hringinn í kringum landið, einkum minjar tengdar söguöld, svo sem hauga, hof, þing og dómhringa. Frásagnir um þessar minjar voru umluktar þjóðsögulegri hulu og er þess víða getið að menn hafi reynt að grafa tilteknar minjar og orðið fyrir allskyns óhöppum fyrir vikið. Hefur hjátrúin, að sögn Orra, reynst betri en enginn við varðveislu fornleifa. Nefndin gekkst fyrir fyrstu friðlýsingunum í sögu íslenskrar minjaverndar og friðaði meðal annars Snorralaug í Reykholti, dómhring á Þórsnesi á Snæfellsnesi og allnokkra steina með rúnaáletrunum.

Húshólmi

Húshólmi – garður. Landnámslagið +/- 874 er í garðinum.

Undir miðja 19. öld sendi Hið íslenzka bókmenntafélag sóknarprestum spumingalista um nærri allt milli himins og jarðar, enda hugðist félagið gefa út allsherjarlýsingu á landi og þjóð. Því verki lauk aldrei en skýrslur frá prestum, sem varðveist hafa, geyma upplýsingar um fornleifar í flestum sóknum þótt víða hafi menn svarað erindinu á þann veg að í þeirra sókn væri „engar fornleifar“ að finna. Fornleifar eru auðvitað alls staðar þar sem einhver mannvist hefur verið en þessi sérkennilegu viðbrögð segir Orri að megi væntanlega skýra með því að skýrsluhöfundar hafi talið að einungis væri verið að leita markverðra fornleifa. „Enn í dag eru þetta oft fyrstu viðbrögð ábúenda þegar skráningarmaður mætir á vettvang til að spyrjast fyrir um minjastaði.“

Kristian kålund

Peter Erasmus Kristian Kaalund (1844–1919).

Er líða tók á 19. öldina hófst sjálfstæðisbaráttan og um leið jókst áhugi Íslendinga á fortíð þjóðarinnar. Í vísindum og fræðum birtist þessi áhugi einkum í rannsóknum á fornsögum en jafnframt var sjónum beint að staðháttum og fornleifum sem unnt var að fella saman við lýsingar á fornritum. Fornleifakönnun fluttist af höndum presta til sérfróðra manna og var það danski norrænufræðingurinn Kristian Kálund sem fyrstur ferðaðist um Ísland í því skyni að finna staði sem getið er um í fornsögum og lýsa staðháttum og fornminjum sem sagnir voru um að vörðuðu atburði eða einstaklinga frá söguöld. Rit hans, Bidrag til en historisk-topografisk Beskrivelse av Island, sem birtist á árunum 1877-82, er enn meðhöndlað sem undirstöðurit í staðfræði Íslendingasagna og hinn vandaðasti leiðarvísir um söguslóðir, að því er fram kemur í máli Orra.

Brynjúlfur Jónsson

Brynjúlfur Jónsson (1838-1914).

Hið íslenzka fornleifafélag var stofnað 1879 og á vegum þess fóru fornfræðingar í rannsóknarleiðangra vítt og breitt um landið í þrjá áratugi. Fyrir þeim fóru Sigurður Vigfússon og síðar Brynjúlfur Jónsson. Markmið þeirra var áþekkt markmiði Kálunds – að finna og lýsa fornleifum sem þeir töldu að gætu skýrt einstakar frásagnir í Íslendingasögum eða varpað ljósi á þjóðskipulag Íslands á söguöld.
Sigurður og Brynjúlfur skráðu fjölda rústa og birtu niðurstöður sínar jafnóðum í Árbók fornleifafélagsins.

Hlutlægari aðferðir
Um síðustu aldamót voru hér einnig á ferð danski kafteinninn Daniel Bruun og Þorsteinn Erlingsson skáld en þeir beittu heldur hlutlægari aðferðum en Sigurður og Brynjúlfur. Báðir reyndu þeir að lýsa og skilgreina tegundir fornleifa og Bruun gerði fyrstur manna skipulegar rannsóknir á landbúnaðarminjum og byggingarlagi íslenskra torfhúsa.
Fyrstu íslensku þjóðminjalögin, svonefnd „Lög um verndun fornmenja„, voru samþykkt árið 1907 og embætti fornminjavarðar – síðar þjóðminjavarðar – sett á laggirnar.

Húshólmi

Húshólmi – teikning Brynjúlfs í Árbókinni 1903.

Með þessum lögum voru fornleifar skilgreindar með lagabókstaf og þjóðminjaverði heimilað að friðlýsa minjastaði. Bar honum jafnframt að semja skrá yfir allar fornleifar sem honum þótti ástæða til að friða. Lögðust leiðangrar Fornleifafélagsins þá af að mestu.
Á árunum 1926-30 var fjöldi fornleifa tekinn á friðlýsingaskrá. Friðlýsingar þessar byggðust einkum á rannsóknum Sigurðar og Brynjúlfs sem gerðar voru allt að öld áður. Út frá því dregur Orri þá ályktun að stefnan í minjavörslu á fyrri hluta aldarinnar hafi verið sú að varðveita einkum þá staði sem taldir voru sögualdarminjar.

Friðlýsingar frá árdögum opinberrar fornminjavörslu mynda meginhluta friðlýstra minja í landinu en að jafnaði hafa friðlýsingar verið stopular frá því á fjórða áratugnum.
Á sama tíma og dró úr sögustaðaskráningu í byrjun aldarinnar fór áhugi á örnefnum vaxandi og stóð Fornleifafélagið og síðar Þjóðminjasafnið að örnefnaskráningu um land allt.

Sigurður Vigfússon

Sigurður Vigfússon (1828–1892).

Í örnefnaskrám er oft að finna upplýsingar um minjastaði, eða mikilvægar vísbendingar um staði þar sem mannvirki hafa staðið áður en eru nú horfin.
Fornleifaskráning í nútímaskilningi, þar sem leitast er við að skrá allar þekktar fornleifar en ekki aðeins þær sem þóttu „merkilegar“, hófst í Reykjavík á sjöunda áratugnum og hefur staðið með löngum hléum síðan. Henni er ekki lokið. Skráning er líka hafin víðar um land en hvergi að fullu lokið á þann veg að út hafi verið gefin rækileg fornleifaskrá.
„Í kjölfar húsverndunaráhuga, sem efldist mjög á 8. áratugnum, fóru menn að hugsa skipulega um fornleifaskráningu,“ segir Orri.
„Þjóðminjasafnið reið á vaðið og stóð fyrir skráningu í samstarfi við nokkur þéttbýlissveitarfélög, einkum á suðvesturhorninu, þar á meðal flesta kaupstaðina í kringum Reykjavík.
HelgadalurAð mörgu leyti var þetta skynsamleg nálgun því fornminjar eru auðvitað í mestri hættu í þéttbýli. Þarna var því unnið mjög mikilvægt starf.“
Ólíkt fornleifakönnun 19. aldar, sem hafði það markmið að finna áþreifanleg minnismerki um sögu lands og þjóðar, hefur áhugi á skráningu fornleifa síðustu tvo til þrjá áratugi þannig fyrst og fremst stafað af vaxandi áhyggjum af stórfelldri eyðileggingu fornleifa sökum stóraukinnar þéttbýlismyndunar og vélvæðingar í landbúnaði allt frá stofnun lýðveldisins.

Stórhöfði

Stórhöfði við Hafnarfjörð – nátthagi. Minjarnar eru enn óskráðar þrátt fyrir meinta fornleifaskráningu af svæðinu.

Segir Orri sveitarstjórnarmenn fyrir bragðið víða hafa tekið við sér og hlutast til um að hefja skráningu fornleifa í héraði.
„Það er gaman að lesa greinar sem menn skrifuðu um þetta vandamál um síðustu aldamót. Þá sáu þeir ofsjónum yfir eyðileggingu fornleifa af völdum túnaslétta með handverkfærum, sem var auðvitað ekki nema brotabrot af því sem síðar varð. Þetta segir okkur það að maður er alltaf aðeins of seinn! Í svo til hvert einasta skipti sem við komum í nýja sveit er gamli maðurinn sem vissi allt nýdáinn. Þetta er eitt af því sem maður verður að sætta sig við. Við getum líka huggað okkur við það, að þótt við séum heldur sein fyrir núna verður þessi skráning óvinnandi vegur eftir fimmtíu ár.“

Vatnaskil í minjavernd

Fossárrétt

Fossárréttin í Kjós 2011 – var friðlýst 16.03.1972. Fornleifarnar eru nú klæddar skógi.

Auk fornleifaskráningar á vegum sveitarstjórna hafa einstakir vísindamenn staðið fyrir fornleifaskráningu í rannsóknarskyni. Þar hefur fyrst og fremst verið um að ræða skráningu á eyðibyggðum og afdölum þar sem rústir eru í lítilli hættu. Víða um land hefur áhugasamt fólk reyndar skráð fornleifar að eigin frumkvæði. Slíkar skrár eru, að hyggju Orra, misjafnar að gæðum en reynast oft ómetanlegar heimildir um fornleifar sem síðar hefur verið hróflað við.
Árið 1989 urðu vatnaskil í íslenskri minjavernd er Alþingi samþykkti ný lög um þjóðminjavörslu í landinu. Með nýjum lögum öðluðust allar fornleifar á Íslandi friðhelgi: „Fornleifum má enginn, hvorki landeigandi, ábúandi né nokkur annar, spilla, granda né breyta, ekki heldur hylja þær, laga né aflaga né úr stað flytja…“ Á þetta jafnt við um fornleifar sem eru þekktar og sýnilegar og þær fornleifar sem koma í ljós við jarðrask af einhverju tagi. Brot gegn þessum ákvæðum varða sektum til ríkissjóðs eða þyngri refsingu.

Dalurinn

Fjárskjól frá Ási, hið síðasta innan bæjarmarka Hafnarfjarðar. Eyðilagt af verktökum vegna framkvæmda 2023.

Í þessum lögum var einnig það nýmæli að fornleifaskráning varð lögbundin forsenda skipulagsvinnu: „Skylt er að fornleifaskráning fari fram á skipulagsskyldum svæðum áður en gengið er frá skipulagi eða endurskoðun þess…“
Árið 1993 voru einnig samþykkt lög um umhverfismat sem herða enn á fornleifavernd. Er nú ekki hægt að leggja í stórar framkvæmdir nema gerð hafi verið fornleifakönnun á undan.
Segir Orri þessa öru þróun í löggjöf í þágu minjaverndar kærkomna. „Til þess að fylgja mætti þessari löggjöf eftir var nauðsynlegt að þróa og bæta aðferðir við fornleifaskráningu. Til þessa hafði hún verið ómarkviss, hægvirk og afar kostnaðarsöm.

Kringlumýri

Horft niður á Kringlumýri, forna selstöðu frá Húshólmabæjunum. Selstaðan hefur aldrei verið fornleifaskráð þrátt fyrir að fornleifaskráningu svæðisins er sögð vera lokið.

Fornleifastofnun hefur unnið að endurbótum á skráningaraðferðum síðustu ár. Markmiðið með þessu óvenjulega samstarfi sveitarstjórnarmanna og fornleifafræðinga var að sameina ólíka hagsmuni minjaverndar, framkvæmdaaðila, skipulagsgerðar, ferðaþjónustu og almennrar héraðsstjórnar.“ Segir Orri árangurinn þegar vera að koma í ljós. Fjöldi minja hafi verið kortlagður og fornleifavernd og hagnýting minjastaða er tekin með í reikninginn við skipulagsvinnu og framtíðaráform í ferðaþjónustu. Þá gaf menntamálaráðuneytið út í júní síðastliðnum reglugerð með þjóðminjalögum, þar sem er að finna skilgreiningu á því í hverju fornleifaskráning er fólgin. Segir Oni þessa viðleitni ráðuneytisins stuðla að því að fagmannlega verði unnið að fornleifaskráningu framvegis og færa fornleifafræðingum beitt vopn í hendur í baráttu þeirra fyrir öflugri fornleifavernd á nýrri öld.

Krýsuvíkursel

Tóftir Krýsuvíkursels austan Selöldu. Selið hefur aldrei verið fornleifaskráð þrátt fyrir meinta fullnaðarfornleifaskráningu fyrirhugaðs Suðurstrandarvegar.

Fornleifaskráning er nú eingöngu fjármögnuð af sveitarfélögum og framkvæmd að vilja og frumkvæði sveitarstjórnarmanna í hverju héraði. Þetta nýja hlutverk sveitarstjórna hefur að vísu ekki verið lögfest en Orri segir að í því felist umtalsverðir hagsmunir, meðal annars þar sem brýnt sé að til séu nákvæmar og aðgengilegar upplýsingar um menningarminjar. Þar að auki fari skilningur vaxandi á því að fornleifar séu vannýttar auðlindir í ferðaþjónustu.

En hvað eru fornleifar?

Ingvaldarsel

Ingvaldarsel í Grafningi. Var fyrst nýlega fornleifaskráð þrátt fyrir nokkrar fyrrum skráningar á svæðinu.

Orri segir að skoðanir manna á því hafi breyst mikið á undanförnum áratugum. Byggingar sem voru hversdagslegar fyrir hundrað árum séu nú orðnar minjar um horfna lífshætti. Í lögum eru fornleifar skilgreindar á eftirfarandi hátt: „Til fornleifa teljast hvers kyns leifar fornra mannvirkja og annarra staðbundinna minja sem menn hafa gert eða mannaverk era á… Að jafnaði skal telja minjar 100 ára og eldri til fornleifa, en heimilt er þó að friðlýsa yngri minjar…“
Í lögunum eru gefin allnokkur dæmi, svo sem byggðaleifar, bæjarstæði, húsleifar hvers kyns, svo sem kirkna, bænahúsa, klaustra og búða, leifar af verbúðum, naustum, verslunarstöðum og byggðaleifar í hellum og skútum.

Gullbringuhellir

Gullbringuhellir – bæli sem aldrei hefur verið fornleifaskráð.

Einnig vinnustaðir þar sem aflað var fanga, gömul tún- og akurgerði, áveitumannvirki og leifar eftir veiðar til sjávar og sveita, gamlir vegir, stíflur, brýr, vatnsvöð, varir, hafnir og bátalægi, slippir, ferjustaðir, kláfar, vörður og vitar og önnur vega- og siglingamerki ásamt kennileitum þeirra; varnamannvirki; þingstaðir, meintir hörgar, hof og vé, brannar, uppsprettur, álagablettir og aðrir staðir og kennileiti sem tengjast siðum, venjum, þjóðtrú eða þjóðsagnahefð; áletranir, greftranarstaðir og skipsflök.
Það er skýrt af þessari skilgreiningu að fornleifar eru ekki aðeins öll mannvirki í víðasta skilningi heldur einnig staðir sem á einn eða annan hátt tengjast menningu og atvinnuvegum.

Skálafell

Skálafell austan Esju – tóft, sem aldrei hefur verið fornleifaskráð. Tóftarinnar er getið í Landnámu.

Er þessari skilgreiningu nú fylgt við fornleifaskráningu, auk þess sem allar byggingar úr torfi og grjóti eru skráðar sem og önnur mannvirki sem eru vitni um horfið verklag eða tækni, þótt þau séu yngri en 100 ára. Þar með geta talist elstu steypubyggingar, byggingar úr blönduðu efni (torf, grjót, timbur, steypa, bárajárn) og mannvirki eins og heimarafstöðvar, sundlaugar, upphlaðnir vegir frá því fyrir jarðýtuöld, fiskplön, áveituskurðir og hvers kyns minjar aðrar sem tengjast umbreytingum í atvinnuvegum og lífsafkomu á fyrri hluta 20. aldar. Minjar sem tengjast seinni heimsstyrjöldinni, veru setuliðsins og framkvæmdum á vegum þess (vegir, flugvellir, braggahverfi, skotgrafir o.s.frv.) eru einnig skráðar að jafnaði.

Nauðsynlegnr undirbúningur

Hraun

Refagildra við Hraun. Gildran sú er með fjórum inngöngum, sem verður að þykja verulega  sjaldgæft. Refagildran, sem er ein af u.þ.b. 100 slíkur á Reykjanesskaganum hefur aldrei verið fornleifaskráð. Sigurður Gíslason, bóndi á Hrauni, er hér ásamt Sesselju Guðmundsdóttur o.fl.

Nauðsynlegar upplýsingar um gerð og ástand fornleifa er aðeins hægt að afla með vettvangsathugun og við það er venjulega átt með hugtakinu fornleifaskráning. Til þess að vettvangsathugun komi að fullu gagni verður, að sögn Orra, þó fyrst að taka saman ýmiskonar upplýsingar, bæði skriflegar og munnlegar, sem vísa á minjastaði og geta gefíð vísbendingar um hlutverk mannvirkjaleifanna. „Slík heimildakönnun er nauðsynlegur undirbúningur undir vettvangsathuganir en hún getur líka skilað sjálfstæðum niðurstöðum. Til eru heimildir sem geta gefið grófa mynd af fjölda, eðli og ástandi minja á ákveðnum svæðum og skipuleg heimildaúttekt í því skyni getur komið að gagni við skipulagsgerð jafnt sem minjavernd og rannsóknir.“

Gufuskálar

Brunnur (lind) við Gufuskála í Suðurnesjabæ. Lindin hefur aldrei verið fornleifaskráð. Skammt neðan hennar er meint bæjarstæði Steinunnar gömlu, sem einnig hefur ekki verið fornleifaskráð.

Aðferðir fornleifaskráningu fela í sér að skráningunni er skipt í þrjú afmörkuð stig og eru þar höfð til riðmiðunar þrjú stig skipulagsvinnu, það er svæðis-, aðal- og deiliskipulag.
Svæðisskráning felst í því að taka saman gögn annars vegar um þekktar fornleifar og hins vegar um atriði sem geta gefið vísbendingar um staðsetningu og eðli fornleifa. Á þeim grunni er lagt mat á fjölda, dreifingu, eðli og ástand menningarminja viðkomandi svæða og gerðar tillögur um verndun, nýtingu og frekari athuganir. Niðurstaða svæðisskráningar er annars vegar skýrsla með heildarmati á menninganninjum á svæðinu og hins vegar skrá yfir allar þær upplýsingar sem safnað hefur verið með kortgrunni sem aðalskráning fornleifa mun síðan byggjast á.

Hlöðunes

Hlöðunesleiði. Helgi Davíðsson í Vogum, þá  84 ára, var manna fróðastur um Ásláksstaði og nágrenni, en hann ólst þar upp og bjó þar lengi framan af. Helgi gat bæði bent á leiði Hlöðvers í Hlöðunesi og Hjónaleiðið á Ásláksstöðum. Helgi lést skömmu síðar.

Á því stigi skráningar, sem kallast aðalskráning, er farið á vettvang og viðtöl tekin við ábúendur eða aðra staðkunnuga. Markmið með viðtölum er að endurskoða þær upplýsingar sem þegar hefur verið safnað, fá upplýsingar um nýja staði og síðan leiðsögn um viðkomandi landareign.
Með hliðsjón af munnlegum og rituðum heimildum er síðan gengið á þá minjastaði sem upplýsingar hafa fengist um, en jafnframt eru athuguð svæði þar sem líklegt getur talist, út frá gróðurfari og öðram aðstæðum, að fornleifar leynist. Orri segir að á velflestum minjastöðum séu tóftir eða aðrar mannvirkjaleifar ekki sýnilegar og því ekki annað hægt að gera en komast sem næst staðsetningu minjanna og færa hana á kort. Er það gert með því að finna hnattstöðu staðarins með staðsetningartæki.

Reykjavík

Steinbryggjan við uppgröft við enda Pósthússtrætis í Reykjavík.

Þar sem fornleifar eru huldar sjónum er lögð áhersla á að komast að því fyrir hvers konar hnjaski þær geta hafa orðið, hvernig aðstæður voru áður á viðkomandi stað og reynt eftir fóngum að meta hvort staðurinn sé enn í hættu.
Þar sem tóftir eða mannvirkjaleifar eru sýnilegar er þeim lýst á staðlaðan hátt og gerður af þeim uppdráttur, auk þess sem þær eru færðar á kort og hnattstaða þeirra fundin. Áhersla er lögð á að fá skýra mynd af umfangi, lögun og ástandi minjanna en að öðra leyti er ekki um að ræða nákvæma rannsókn á hverjum stað. Einnig er ástæðum lýst og reynt að meta hvort minjastaðurinn sé í hættu og þá af hvaða völdum.

Leynir

Skjól í Leyni ofan Lambhaga við Hafnarfjörð. Nú horfið vegna framkvæmda.

Ólíkt svæðis- og aðalskráningu fornleifa er ekki gert ráð fyrir að deiliskráning verði gerð á öllum minjastöðum. Deiliskráning er fyrst og fremst gerð þar sem verið er að vinna deiliskipulag og niðurstöður umhverfismats benda til að séu markverðar fornleifar sem rannsaka þarf nánar og þar sem haft er í hyggju að kynna minjastaði fyrir almenningi.
Markmið deiliskráningar er öðru fremur að fá nákvæmar upplýsingar um einstaka minjastaði eða minjar á litlum afmörkuðum svæðum. Aðferðirnar sem beitt er geta verið mismunandi eftir markmiði athugunarinnar en í minnsta lagi er gerð nákvæm yfirborðsmæling á minjunum og þeim lýst í smáatriðum. Sömuleiðis getur í sumum tilvikum verið æskilegt að grafa litla könnunarskurði, til dæmis til að komast að aldri minjanna eða þegar staðfesta þarf að um mannvirki sé að ræða.
Aðferðir deiliskráningar eru í aðalatriðum þær sömu og beitt er í rannsóknum í vísindaskyni og raunar er æskilegt að vísindaleg sjónarmið séu látin ráða ferðinni við uppgröft þótt tilefni athugunarinnar séu önnur.

Hefur gefið góða raun

Reykjavík

Hafnargerðin í Reykjavík á árunum 1913—17 var á sínum tíma stærsta verklega framkvæmd sem ráðist hafði verið í hér á landi. […] Vegna seinni tíma uppfyllinga hefur lítið varðveist af sýnilegum ummerkjum um þessa merku framkvæmd.
Við framkvæmdir þróunarfélagsins Landstólpa hefur hafnargarður frá Reykjavíkurhöfn sem fór undir landfyllingu árið 1939 komið í ljós. Garðurinn var reistur á fyrri stríðsárunum sem hluti af hafnargerðinni en hún var á þeim tíma stærsta og merkasta verklega framkvæmd sem Íslendingar höfðu ráðist í.
Garðurinn tengdist steinbryggju sem var við enda Pósthússtrætis. Nú horfinn undir byggingaframkvæmdir.

Orri segir þessa skráningartilhögun hafa gefið góða raun. Nú liggja fyrir um fimmtíu skýrslur með skrám um fornleifar á hverri jörð í allnokkrum hreppum. Framundan er þó mikið starf, því ætla má að einungis um 15-20% minjastaða séu komin á skrá og þar af hefur minna en fjórðungur verið skráður á vettvangi.
„Vöxturinn í greininni hangir saman við miklu meiri skipulagsvinnu. Nú er landið allt orðið skipulagsskylt og stefnt er að því að aðalskipulag fyrir það verði til á næstu áram eða áratugum. Í sambandi við þá vinnu á, samkvæmt lögunum, að fara fram fornleifaskráning og stefnum við að því að henni verði lokið eftir um tvo áratugi.“
Fornleifastofnun Íslands hefur þjálfað nokkurn fjölda manna í fornleifaskráningu. Segir Orri starfið fjölbreytilegt en að mörgu
leyti erfitt. „Það krefst þess að menn kunni á ritaðar heimildir, geti tekið viðtöl og séu tilbúnir að leggja á sig miklar göngur, meðal annars á fjöllum, og talsverða útivist. Þetta er óvenjulegt starf en skemmtilegt finnst okkur sem stundum það.“
En eitthvað hlýtur skráning sem þessi að kosta?

Reykjavík

Reykjavík – varðveittar minjar landmámsbæjar í Aðalstræti.

„Vissulega. Fornleifaskráning er dýr, til dæmis í samanburði við sagnfræðirannsóknir, en reynt hefur verið að taka á þessu annars vegar með því að lækka kostnað með hraðari og staðlaðri vinnubrögðum en áður þekktust og hins vegar með því að efla skilning almennings á þeim verðmætum sem felast í starfi af þessu tagi. Ég held að þær sveitarstjórnir sem þegar hafa ráðist í fornleifaskráningu hafi að verki loknu yfirleitt verið undrandi á því hversu miklum upplýsingum tókst að safna á skömmum tíma. Þetta er þannig spurning um verðmætamat og ef menn skilja hvílík verðmæti felast í upplýsingum um fornminjar og sögu byggðar, þá má alveg eins segja að fornleifaskráning sé hlægilega ódýr.
Það hefur líka verið tiltölulega auðvelt að sannfæra almenning, sérstaklega sveitarfélög, um að það sé mikilvægt að setja pening í rannsóknir og skráningu af þessu tagi. Áhuginn er fyrir hendi – það þarf bara að virkja hann. Það hefur því ekki verið vandamál að fá þau verkefni sem við höfum borið okkur eftir.“
Orri segir það meira áhyggjuefni hversu fáir fornleifafræðingar séu í landinu og hversu fáir leggi stund á nám í þeim fræðum.“

Fornleifar

Friðlýstar fornleifar.

Framangreind grein er athyglisverð, 27 ára gömul opinber umfjöllun. Allt sem sagt er lýsir mikilli bjartsýni og góðri von fyrir hönd minjavörslu landsins.

Betra ef hvorutveggja hefði gengið eftir. Hið jákvæða er að fjöldi fornleifaskráninga hefur farið fram síðan skráð var, en draga þarf bæði gæði þeirra og viðbrögð embættismanna og kjörinna fulltrúa í efa.
Þegar horft er til gæðanna er ljóst að skráningaraðilar virðast líta framhjá allt of mörgum merkilegum fornminjum, líklega til að spara sér tíma og pening. Hin meintu viðbrögð má auk þess augljóslega sjá í hversu margföld minjaeyðileggingin hefur orðið á umliðnum árum og virðist fara ört vaxandi. Svo virðist sem og hinu opinberu stofnanir, sem eiga að gæta fornminja landsins, standi sig bara ekki í stykkinu…

-Morgunblaðið, 208. tbl. 15.09.1998, Fortíðinni forðað frá glötun – Orri Vésteinsson, bls. 32-33.

Húshólmi

Húshólmi – frágangur Fornleifaverndar ríkisins til upplýsingagjafar á staðnum til a.m.k. tíu ára. Staðsetningin og áhugaleysið getur varla lýst miklum metnaði af hálfu ríkisstofnunarinnar.

Hafnir

Guðrún Helgadóttir í Ferðamáladeild Hólaskóla, háskólans á Hólum, skrifaði í Frey 2006 um „Fornleifar og ferðaþjónustu„:

Guðrún Helgadóttir

Guðrún Helgadóttir.

„Fortíðarþráin er sterkur leiðarþráður í öllum ferðalögum, við viljum kynnast lífsbaráttunni gegnum tíðina og jafnvel heimsækja staði þar sem tíminn stóð í stað. Ferðaþjónusta skapar forsendur fyrir upplifun, meðal annars þeirri að kynnast og fræðast um fornleifar, sem er ein leið ferðafólks til að kynnast áfangastaðnum sem það er statt á eða hefur hug á að heimsækja.
Fornleifar hafa notið aukinnar athygli undanfarin ár og umræðan um varðveislu þeirra og nýtingu farið vaxandi. Hérlendis var gert átak á sviði fornleifarannsókna með tilstyrk Kristnihátíðarsjóðs. Þessi mikla rannsóknavirkni fornleifafræðinga hefur fengið töluverða umfjöllun í fjölmiðlum og almenningur sýnt rannsóknunum og niðurstöðum þeirra áhuga.
Þessa áhuga hefur orðið vart á þeim stöðum þar sem fornleifauppgröftur fer fram, en það er reynsla flestra rannsóknahópanna að þörf sé á að hafa starfsmann á vakt við það að taka á móti ferðafólki. Það kemur jafnan nokkuð á óvart að áhuginn snýst ekki bara um minjarnar sjálfar og tengsl þeirra við söguna, heldur verður rannsóknin sjálf áhugaverð fyrir hinn almenna gest.

Hvað eru fornleifar?

Fornagata

Fornagata í Selvogi. Samgönguminjar teljast til fornleifa.

Samkvæmt núgildandi lögum sem eru Þjóðminjalög 107/2001 eru fornleifar skilgreindar sem: „…hvers kyns leifar fornra mannvirkja og annarra staðbundinna minja sem menn hafa gert eða mannaverk eru á. Að jafnaði skal telja minjar 100 ára og eldri til fornleifa, en heimilt er þó að friðlýsa yngri minjar.“ Samkvæmt skipulagslögum er fornleifaskráning ein af forsendum skipulags, en allt landið er skipulagsskylt.
Í dag er vitað um rúmlega 200.000 fornleifar á Íslandi. Til fornleifa teljast öll merki um mannvirki, ekki bara byggingar heldur líka tún, girðingar og garðar, skipsflök, samgöngumannvirki, minningarmörk, atvinnusvæði s.s. verstöðvar og svo má lengi telja. Það má ætla að aðeins brot af þeim fornleifum sem fyrirfinnast séu þekktar því sífellt uppgötvast minjar þar sem enginn átti þeirra von. Þetta varðar mjög landnýtingu í samtímanum því fornleifar eru friðaðar, eða eins og segir í 10. gr. Þjóðminjalaga: „Fornleifum má enginn, hvorki landeigandi, ábúandi né nokkur annar, spilla, granda né breyta, ekki heldur hylja þær, laga né aflaga né úr stað flytja nema leyfi fornleifanefndar komi til.“

Fornleif

Fornleifauppgröftur.

Menn spyrja sig eðlilega hvort þetta sé ekki mikil kvöð og takmörkun á landnýtingu? En fornleifar eru ekki helsta takmörkun á landnýtingu. Öll landnýting sem felur í sér mannvirkjagerð er háð leyfum til framkvæmda samkvæmt skipulagslögum. Fornleifar eru einungis einn af fjölmörgum þáttum sem taka þarf tillit til þegar ákvörðun er tekin og framkvæmdir hafnar t.d. við að setja niður sumarbústað.

Eru fornleifar auðlind í landnýtingu?

Hofsstaðir

Hofsstaðir í Garðabæ – fyrirmynd góðs frágangs eftir fornleifauppgröft.

Reynsla þeirra sem taka á móti gestum á stöðum þar sem fornleifar eru þekktar og/eða uppgröftur fer fram er sú að fornleifar geti reynst raunveruleg auðlind í landnýtingu.
Þó fornleifar séu friðaðar, þ.e. að ekki má hrófla við þeim án leyfis, þá eru þær ekki alltaf varðveittar til framtíðar. Þegar fornleifar finnast við framkvæmdir sem leyfi hefur verið gefið til, er jafnan farið í að rannsaka þær en síðan er framkvæmdum haldið áfram. Þetta kann að virðast undarleg verndarstefna, en fornleifauppgröftur er eðli málsins samkvæmt röskun og jafnvel eyðing fornleifanna. Þær eru grafnar upp og eftir standa heimildirnar um rannsóknina og rannsóknargögnin.

Fornleifar

Leiðsögn um fornminjastað.

Hvað er þá eftir til að skoða og upplifa? Það er æði margt, því eins og fornleifarannsóknir undanfarinna ára hafa sýnt vakna sífellt nýjar spurningar og ráðgátur um staði og fólk í tímans rás. Minjar veita margvísleg tækifæri til að tengja starfsemi ferðaþjónustunnar sterkari böndum við fortíðina, s.s. að byggja upp afþreyingu fyrir ferðamenn eða að vísa til minjanna í gisti- og/eða veitingarekstri.

Aðdráttarafl fornleifa

Fornleifauppgröftur

Fornleifauppgröftur.

Aðdráttarafl fornleifa er mikið, jafnvel þó staðsetning þeirra og tilvist sé óljós. Leitin að Lögbergi hefur til dæmis vakið áhuga Íslendinga lengi. Vitundin um skipsflök í sandi eða sjó gerir ákveðna staði áhugaverða ekki síður en það að standa í uppgröfnum rústum. Eins og Jón Helgason komst svo fallega að orði þá „…grunar hugann hjá grassins rót gamalt spor eftir lítinn fót“ – þennan grun getur sett að okkur við að sjá rúst, leifar mannvirkis, menningarlandslag sem hefur orðið eftir – hrörnað. Spurningin er hvort rannsóknir okkar, varðveisla og miðlun styrki þennan grun eða hvort hún víki honum úr huga okkar vegna annars áreitis?

Húshólmi

Húshólmi – skilti Fornleifaverndar ríkisins.

Fornleifavernd ríkisins hefur m.a. með höndum skráningu og merkingu fornleifa og víða um land má sjá upplýsingaskilti um fornleifar.
Þessi skilti eru ein leið, en þess þarf að gæta að þau fari vel í landslagi, séu vel hirt og liggi vel við umferð. Rústir hafa yfir sér ákveðið yfirbragð og vekja til umhugsunar um liðna tíð, þá íhugun og upplifun getum við dýpkað með því að segja gestum hvað það var sem þarna varð að rúst.
Það gefur frásögninni gildi ef sögumaðurinn er heimamaður sem þekkir minjastaðinn af eigin raun og gefur gestunum innsýn sem hvergi annars staðar er að fá. Þannig er hægt að tengja hætti fortíð og nútíð á eftirminnilegan hátt. Minjarnar eru ekki bara fortíð, við upplifum þær í nútíðinni og það eru engir betri í því en heimamenn að setja sögustaðinn í samhengi við það sem fyrir augu ber þar í dag.

Fornleifastaðir

Hafnir

Fornleifaruppgröftur í Höfnum.

Staðir hafa ímynd, fólk hefur hugmyndir um þá hvort sem ummerki sögunnar eru sýnileg eða ekki. Túlkun ákveðinna hugmynda í skipulagi og hönnun staða er vandmeðfarið vald. Með hönnun landslagsins, með merkingum og fræðslu er verið að móta hugmyndir og upplifun – að setja mark á staðina.
Þetta þurfa heimamenn að hugleiða og vera virkir þátttakendur með minjaverndinni í því að ákvarða hvernig þessari merkingu staðanna og aðgengi að þeim er best fyrirkomið þannig að það sé til hagsbóta bæði fyrir heimamenn og gesti.
Það er mikils virði að sjá við nánari athugun á landslagi að það hefur einhvern tíma verið vettvangur mannlífs, að það er menningarlandslag.

Þórkötlustaðanes

Þórkötlustaðanes/Hópsnes; sögu og minjaskilti – uppdráttur ÓSÁ.

Söguskilti, bæklingar, símaleiðsögn og upplýsingar á Netinu eru allt mikilvægir þættir í að veita upplýsingar, en upplýsingar verða þó ekki að upplifun fyrr en einhver breytir þeim í sögu fyrir okkur. Það eru sögurnar um staðinn, bæði tilgátur um fortíðina og rannsóknin sem spennusaga, sem standa upp úr. Landið öðlast nýja merkingu við það að skoða verk genginna kynslóða, heyra hvernig það er nýtt og búið við það í dag. Upplifunin af staðnum dýpkar með skilningi á því að landið býr yfir leyndarmálum, sögu sem við eigum aðeins eftir að heyra brot af.
„Landslag væri lítils virði ef það héti ekki neitt,“ sagði borgarskáldið Tómas Guðmundsson. í upplýsingasamfélagi munu sögur af landi keppa við dilkakjöt, möl, rafmagn, dún og hey þegar kemur að verðmætasköpun byggðri á landnýtingu. Við lifum á tímum borgarbarnanna, á tímum þar sem það að vita hvað landið heitir, að þekkja það og kunna að segja sögu þess er auðlind sem verður sífellt verðmætari.“

Heimild:
-Freyr, 4. tbl. 01.08.2006, Fornleifar og ferðaþjónusta – Auðlind í landnýtingu, Guðrún Helgadóttir, bls. 8-9.

landnámsskáli

Landnámsskáli á landnámssýningunni í miðborg Reykjavíkur.

Kjói

FERLIRsfélagar ákváðu á blíðviðrismorgni júnímánaðar að skoða ofanvert svæðið ofan Knarrarness og Ásláksstaða millum Gamlavegar og Reykjanesbrautar með það að markmiði að skoða m.a. Ásláksstaðastekk frá Ásláksstöðum Innri og hina meintu Knarrarstaðafjárborg upp við Geldingahóla, austan Lynghóls.

Knarrarnesfjárborg

Knarrarnesborg

Knarrarnesborg (-stekkur) – uppdráttur ÓSÁ.

Í „Örnefni og gönguleiðir í Vatnsleysustrandarhreppi“ eftir Sesselju Guðmundsdóttur segir: „Ofan sléttlendisins sem er austur af Lynghól liggur stór hlaðinn grjóthringur uppi á klapparholti og er hann u.þ.b. 8m í þvermál og innan í hinum sléttur bali. Vegghæðin er mjög lág og svo virðist sem þarna hafi átt að byggja fjárborg á stærð við Staðarborg en verið hætt við verkið af einhverjum ástæðum. Einnig gæti svo sem verið að unglingar hefðu gert sér það til dundurs að mynda hringinn“.

Í „Aðalskráningu fornleifa í Sveitarfélaginu Vogum“ frá 2014 segir um borgina: „Tvær tóftir fundust á þessum stað, um 2.4 km suðastan við Ásláksstaði. Tóft meints fjárskýlis er uppi á nokkuð flötum hraunhól í heiðinni suður af ströndinni. Dálítil grashvilft er NNA við hana sem þó er að blása upp að hluta og er hin tóftin í hvilftinni.

Knarrarnesfjárborg

Knarrrarnesfárborg.

Minjarnar eru á svæði sem er um 24x24m að stærð. Hringlaga tóftin er, sem fyrr segir, um 9 m í þvermál. Veggir hennar eru grjóthlaðnir en signir og grónir, um 0.5m á hæð þar sem þeir eru hæstir. Ekki sést fjöldi hringfara. Mesta breidd veggja er um 1.0m. Op er á tóftinni til norðurs.
Hin tóftin er af meintu fjárskýli, 10x6m að stærð og snýr austur-vestur. Hvergi sést grjót í hleðslum. Tóftin er mjög grasi vaxin og sker grasvöxtur á henni sker sig úr öðrum gróðri í nágrenninu. Tóftin er öll hlaupin í þúfur. Ekki er augljóst hvaða hlutverki hún hefur gegnt en mögulega hefur þarna verið stekkur.“

Knarrarnesborg

Knarrarnesborg.

Þegar staðið er í „borginni“ og horft umhverfis, með Lynghól til vesturs þar sem nánast jarðlæg lágreist Lynghólsfjárborgin hvílir og Breiðagerðiskrossgarðinn í austri er ekki ólíklegt að Knarrarnesbændur hafi ekki viljað vera minni menn en nágrannar þeirra og ákveðið að gefa þau skilaboð um að þeir ætluðu að byggja fjárborg á þessu víðsýna holti – á þeirra landi.
U.þ.b. klukkustundargangur er á vettvang frá bæ. Norðan holtsins er falleg startjörn og sunnan þess ferhyrnt flag í gróningum. Vestan svæðisins má sjá grasi grónar lendur, sem bendir til góðrar staðbundinnar fjárnýtingar í heiðinni.

Knarrarnesborg

Knarrarnesborg, torftökusvæðið og startjörnin.

Líklegt má telja að verkamennirnir hafi þar skorið torf í bygginguna, sem augljóslega er byggð úr torfi og grjóti, en af hinu síðarnefnda er gnótt í nágrenninu. Borgarstæðið horfir vel við landamerkjum, sem gæti reyndar hafa verið tilefni staðsetningarinnar. Eins og vitað er voru bændur jafnan uppteknir fyrrum að því að verja landamerki sín fyrir ágengi nágrannanna. Tíð eignarskipti á jörðum voru ekki síst ástæðan. Þess vegna má í dag sjá fjölmargar minjar út frá einstökum bæjum nálægt landamerkjum, s.s. selstöður, stekki, útihús, beitarhús  o.s.frv. Viðkomandi staðsetningar minjanna voru öðrum þræði ætlaðar til að undirstrika eignarhald viðkomandi jarðar á landssvæðinu.

Knarrarnesborg

Knarrarnesborg.

Kannski að „borgin“ hafi einfaldlega verið hlaðin sem málamyndarkennileiti í skammvinnum deilum til að undirstrika eignarhaldið, þ.e. grunnur að einhverju sem gæti orðið ef… Stríð hafa jú brotist út af minna tilefni. Hvað svo sem því líður er staðurinn vel valinn og eflaust af einhverri ástæðu, t.d. startjörninni, sem hefur þótt verðmæt út af fyrir sig í annars vatnslítilli heiðinni er líða tók á sumarið. Mannvirkið sem slíkt virðist ekki hafa þjónað nokkrum öðrum tilgangi. Knarrarnesbændur hafa a.m.k. ekki haft neina burði til að skáka staðarklerki á Kálfatjörn, enda aldrei komist upp með slíkt ef saga Staðarborgarinnar er skoðuð.
Eðlilegasta skýringin er þó sú það þarna hafi bóndi ætlað að vista geldinga sína tímabundið sbr. örnafnið á holtinu.

Ásláksstaðastekkur II

Ásláksstaðastekkur II

Ásláksstaðastekkur II – uppdráttur ÓSÁ.

Stekkur á gróinni klapparhæð ofan Ásláksstaða Innri er hér nefndur „Ásláksstaðastekkur II“ til aðgreiningar frá „Ásláksstaðasekk“ í Kúadal frá Ásláksstöðum Ytri.
Í „Aðalskráningu fornleifa í Sveitarfélaginu Vogum“ frá 2014 segir um stekkinn: „Tvískipt tóft um 1.2 km suðaustan við bæ. Tóftin er á flatlendi ofan og suðvestan við gróinn og nokkuð grösugan lautarbolla. Dálítil brekka er tilnorðurs frá tóftinni.
Tóftin er grjóthlaðin og tvískipt og snýr nálega norður-suður. Hún er um 8.5c6m að stærð. Mesta hæð veggja er um 0.5m og sjást 2 umför í hleðslu. Vesturhluti tóftar er gróinn og sést ekki í hleðslur þar.
Líklegt er að þarna hafi verið beitarhús en lag tóftarinnar, staðsetning hennar og fjarlægð frá bæ bendir allt til þess hlutverks“.

Ásláksstaðastekkur II

Ásláksstaðastekkur II.

Þrátt fyrir framangreinda fullyrðingu að stekkurinn sá hafi verið beitarhús verður með fullri virðingu að telja að þarna hafi aldrei verið annað skepnuhald en til tímabundins aðhalds. Stekkur er meira lagi.

Lýsing á tóftum stekksins er ágæt en gleymst hefur að tilefna tættur tveggja óskilgreindra húsa vestan þeirra. Þarna er um að ræða stekk frá Ásláksstöðum Innri.

Víða í heiðinni mátti líta augum skjól og byrgi refaskyttna frá fyrri tíð.

Frábært veður. Gangan tók 2 klst og 2 mín.

Heimildir:
-Aðalskráning fornleifa í Sveitarfélaginu Vogum, áfangaskýrsla II, 2014.
-Örnefni og gönguleiðir á Vatnsleysuströnd (ofan Gamla-Keflavíkurvegarins), Sesselja Guðmundsdóttir, bls. 46.

Ásláksstaðastekkur II

Ásláksstaðastekkur II.