Reykjavík

Í Árbók Hins íslenska fornleifafélags árið 1994 skrifar Ragnar Edvardsson um „Fornleifar á Arnarhóli„:

Saga Arnarhóls

Ragnar Edvardsson

Ragnar Edvardsson.

„Í rituðum heimildum er Arnarhóls sjaldan getið. Elsta heimild þar sem jarðarinnar er getið er frá 16. öld og var Arnarhólsjörðin þá sjálfstæð eign, og átti hana Hrafn Guðmundsson bóndi í Engey. Árið 1534 gaf Hrafn síðan Viðeyjarklaustri jörðina. Árið 1642 var Arnarhóll eign konungs. Árið 1787 var stofnaður kaupstaður í Reykjavík og kaupstaðarlóðin mæld út. Í
skjalinu varðandi þetta kemur fram að konungur hefur ætlast til að Arnarhóllinn skuli leggjast við Reykjavíkurlóðina. Þetta fórst þó fyrir og Arnarhóll lenti fyrir utan lóðina. Upp kom deilumál og þurfti Reykjavík síðar meir að kaupa jörðina. Í febrúar 1835 var ýmsum bújörðum í nágrenninu þ.á m. Arnarhól bætt við bæjarlandið og hefur Arnarhóll síðan tilheyrt Reykjavík.

Arnarhóll

Málverk Aage Nielsen frá um 1960 af stiftamtmannshúsinu nálægt 1820 (sem fáum árum áður var tugthús) og næsta umhverfi. Í bakgrunni má sjá torfbæinn Arnarhól, sem rifinn var 1828 og einnig Arnarhólstraðir sem var þjóðleiðin til Reykjavíkur um aldir. Myndin er lífleg og skemmtileg en taka verður hana með fyrirvara. Athygli vekur hversu fjallgarðurinn í kringum Reykjavík er fjarri raunveruleikanum. Danski fáninn áberandi, enda Reykjavík nánast danskur bær á þessum tíma.

Arnarhóll þótti hið myndarlegasta býli þar til tugthús var reist syðst á Arnarhólstúninu á árunum 1759-64. Þá fór að halla undan fæti og hálfri öld síðar var bærinn orðinn mjög hrörlegur. Ástæðumar má rekja til þess að tekjur Arnarhóls voru lagðar til reksturs tugthússins og smám saman fengu einnig ýmsir embættismenn tugthússins jörðina til eigin afnota.
Fyrstu ábúendur Arnarhóls, sem getið er í heimildum, voru Tómas Bergsteinsson, fæddur 1652 og Guðrún Símonardóttir. Þau bjuggu þar árið 1703 ásamt bróður Tómasar, Jóni Bergsteinssyni. Í Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalíns stendur að Tómas hafi búið á hálfri jörðinni og Jón á hálfri. Heimilismenn hjá Tómasi voru sex og fimm hjá Jóni. Samkvæmt þessu hefur Arnarhólsbýlið verið tvíbýli. Auk þessara heimilismanna hafa 6 heimilismenn á Litla-Arnarhóli nytjað gögn Arnarhóls og að auki tveir tómthúsmenn og einn húsmaður, samtals ríflega 20 manns á hólnum 1703.

Arnarhóll

Sölvhóll – bærinn. Sambandshúsið í bakgrunni.

Í Jarðabókinni kemur ekkert fram um húsakynni en sitthvað annað kemur þar fram. Leigukúgildi voru tvö hjá Tómasi og Jóni árið 1703, eitt hjá hvorum bónda. Leigur voru borgaðar með smjöri til Bessastaða eða Viðeyjar. Ennfremur voru á jörðinni 4 kýr, 29 sauðkindur og 8 hross, en Arnarhólsbændur hafa lifað meira af sjó en landi.“ Hvorki voru engjar né úthagar. Frá bænum var róið árið um kring en rekavon var lítil og sömuleiðis fjörugrasatekja. Lending var góð undan hólnum og lentu kóngsskip þar stundum. Sjór gekk iðulega yfir tún og vatnsból þraut oft. Landskuldir býlisins voru greiddar með 3 vættum og 6 fjórðungum af fiski í kaupstað.

Arnarhóll

Arnarhóll – upplýsingaskilti.

Kvaðir Arnarhólsbænda voru ýmsar t.d. að flytja Bessastaðamenn til Viðeyjar og til baka hvenær sem þeim þóknaðist bæði á nóttu sem degi. Þessu til viðbótar komu tveir dagslættir í Viðey á ári, einn á hvorn bónda og skyldi bóndinn fæða sig sjálfur í þessum ferðum. Við til húsaviðgerðar áttu bændur að útvega sér sjálfir en torf og eldivið sóttu þeir í land Reykjavíkur.
Eins og áður hefur komið fram fengu embættismenn fangelsisins býlið til ábúðar sem launauppbót. Fyrir utan þessa embættismenn bjuggu ýmsar fjölskyldur á Arnarhóli uppfrá þessu, en þær stóðu oftast stutt við.

Síðasti ábúandinn á Arnarhóli var Sveinn Ólafsson. Þar bjó hann til ársins 1828. Hann var faðir Málfríðar sem þótti fríðust kvenna í Reykjavík um 1830.
Árið 1828 þótti Arnarhólsbýlið vera kaupstaðnum til mikillar óprýði. Það var Peter Fjelsted Hoppe stiftamtmaður sem stóð fyrir því að rífa býlið og þótt það gott framlag til fegrunar bæjarins.

Arnarhóll.

Sumarið 1930, séð yfir miðbæinn, Arnarhóll og styttan af Ingólfi Arnarsyni í forgrunni. Hverfisgata, Lækjartorg, Hafnarstræti, Kalkofnsvegur ofl. Verið að heyja á Arnarhóli.

Á þessum tíma var býlinu lýst sem kofaþyrpingu eða rústum, þannig að ekki hafa bæjarhúsin verið ásjáleg seinustu ár sem þau voru í notkun.
Oft var rætt um það í skipulagsnefnd Reykjavíkur hvort nota ætti Arnarhólinn sem byggingarlóð eða hvernig mætti nota svæðið. Ýmsar hugmyndir komu fram en síðan var ákveðið að stytta Ingólfs Arnarsonar landnámsmanns skyldi standa efst á hólnum.“
Haustið 1923 var hafist handa við að reisa stall undir styttuna og í febrúar 1924 var styttan síðan alhjúpuð að viðstöddu miklu fjölmenni. Styttuna gerði Einar Jónsson en Iðnaðarmannafélag Reykjavíkur sem stofnað var árið 1867, stóð fyrir framkvæmd verksins. Við framkvæmdirnar komu upp ýmsir gripir og var skrifað um það í blöðin hvort ekki ætti að rannsaka hólinn en ekkert var gert. Svo virðist sem staðsetning Arnarhólsbýlisins hafi verið algerlega gleymd um 1920, 92 árum eftir að það var rifið.

Fornleifarannsókn á Arnarhóli

Arnarhóll

Arnarhóll – fornleifauppgröftur.

Framkvæmdir á háhólnum hófust austantil og eftir u.þ.b. eins metra gröft rakst grafan í stein. Þegar hreinsað hafði verið frá var greinilegt að hér var komið niður á bæjarrústir. Við blasti að fornleifarannsókn yrði að gera og því voru framkvæmdir stöðvaðar á meðan að rannsókn fór fram. Allt rannsóknarsvæðið var u.þ.b. 10 x 16 metrar og var grafið frá júníbyrjun og fram í nóvember. Svæðinu var skipt í þrjú minni svæði, A, A1 og A2, og voru svæðin grafin jöfnum höndum.
Við uppgröftinn kom í Ijós að um tvö mannvirki var að ræða, hvort ofan á öðru. Það efra var lítið og hafði orðið fyrir miklu raski af völdum framkvæmdanna um 1924. Sennilegt þykir mér að það hafi verið rétt eða garður frá síðustu öld því engin merki um gólf sáust þar.
ArnarhóllSeinna mannvirkið var miklu stærra og náði yfir allt rannsóknarsvæðið. Fljótlega var greinilegt að þetta mannvirki var leifar torfbæjar sem staðið hafði á hólnum. Heimildir bentu til að hér væri Arnarhólsbýlið sjálft (4. mynd).

Komið var niður á tvö bæjarhús og hellulögð bæjargöng, og snéri rústin í norður og suður. Sennilega hefur verið gengið inn í bæinn vestanmegin, á þeirri hlið sem snýr að miðbænum. Rústin sjálf var illa farin, bæði vegna þess að býlið hafði verið jafnað við jörðu árið 1828 og að framkvæmdirnar um 1924 höfðu skemmt rústasvæðið rnikið. Á þeim tíma var grunnurinn undir styttuna af Ingólfi grafinn beint í gegnum rústina og vinna við tröppur og hólinn sjálfan höfðu einnig farið illa með rústina. Á syðsta hluta rústarinnar, sem snýr að Hverfisgötunni, voru heillegustu mannvirkin. Á því svæði komu í ljós heillegir veggir og á milli þeirra gólf með hellulögn undir. Líklegt er að þetta séu bæjargöngin.

Arnarhóll

Arnarhóll – stuttan af Ingólfi og Arnarhólstraðir framar v.m.

Lítið er hægt að álykta um notkun mannvirkjanna því bæði er rústin mjög skemmd og eingöngu hluti rústarinnar var kannaður.
Margir gripir komu í ljós við uppgröftinn. Mest var af leirkerabrotum, glerbrotum og málmi. Í efstu jarðlögunum úði og grúði af gripum frá 17.- 20. öld. Ástæða þess að gripir frá ýmsum tímum finnast hver innan um annan er hve mikið rask hefur verið á hólnum. Því neðar sem dró fækkaði gripunum.
Mörg brot úr krítarpípum fundust og voru mörg þeirra skreytt. Flest voru þau frá því í kringum 1800. Erfitt er að tímasetja krítarpípubrotin nákvæmlega, þar sem sömu gerðir voru oft framleiddar lengi.
ArnarhóllSjö peningar fundust á hólnum og hægt var að greina fimrn þeirra. Tveir peninganna, frá árunum 1727 og 1734, fundust í gólflögum og gefur það hugmynd um aldur rústarinnar.
Einn rómverskur peningur fannst á hólnum, svo nefndur dupondius frá 260-290 e. Kr., sleginn af Árelianusi keisara.
Peningar Árelianusar komust ekki í umferð um allt rómverska heimsveldið og barst lítið sem ekkert af þeim til Norður-Evrópu. Þeir finnast því sjaldan við uppgröft í Norður-Evrópu og yfirleitt ekki stakir.

Arnarhóll

Arnarhóll – upplýsingaskilti um Arnarhólstraðir.

Peningar Árelianusar keisara frá 260-290 finnast t.d. afar sjaldan á Bretlandseyjum, en aftur á móti finnst þar mikið af peningum annarra keisara. Rómverski peningurinn fannst í rúst frá átjándu eða nítjándu öld, og kann að hafa verið komið þar fyrir meðan á uppgreftinum stóð.

Af öðrum gripum má nefna beltissylgjur, hnappa, myllur, netanálar, vaðsteina, brýni og ýmsa aðra smágripi. Einn vaðsteinninn sem fannst var með áletruninni 1790 og upphafstöfunum S.E.S. og A þar undir. Þá fannst á einum stað hrúga af netaflám. Margir gripanna voru svo illa farnir að ekki var hægt að greina þá.
Uppgröfturinn á Arnarhóli stóð í sex mánuði, frá júní og fram í nóvember. Eingöngu var grafið í efstu hlutum rústarinnar og það sem neðar liggur verður að bíða betri tíma.“

Heimild:
-Árbók Hins íslenska fornleifafélags, 01.01.1994, Fornleifar á Arnarhóli – Ragnar Edvardsson, bls. 17-27.

Arnarhóll

Hátíðahöld á Arnarhóli 17. júní árið 1948. (Ljósmynd: Sigurhans Vignir)

Hveradalir

Um tíma, á árunum 1927 til 1934, komu Anders Christian Carl Julius Höyer og kona hans, Eriku Höyer, sér fyrir í nýbýli við hverasvæðið í Hveradölum undir vestanverðri Hellisheiði og ræktuðu þar m.a. blóm og aðrar jurtir. Nánast engar leifar eru eftir af býlinu og athafnasvæði þeirra hjóna. Skíðaskálinn í dalnum var síðar byggður þar skammt vestar.

Höyer

Höyershjónin í Hveradölum. Erika Höyer (1900-1982) var húsfreyja í Hveradölum og síðar við Gunnuhver á Reykjanesi. Hún var gift Anders Christian Carl Julius Høyer (1885-1959) og vann ásamt manni sínum að garðyrkju og blómarækt í Hveradölum og síðan að því að herða hveraleir við jarðhita. Endurminningar hennar hafa komið út á íslensku og dönsku.
Erika fæddist í Kúrlandi. Hún flutti á fermingaraldri til Rússlands og að loknu fyrra stríði til Þýskalands. Síðan bjó hún mörg ár sem einyrki á heiðum Íslands. Í seinna stríði urðu Erika og maður hennar innlyksa í Danmörku. Árni Óla þýddi endurminningar hennar á íslensku og komu þær út árið 1942 undir nafninu Anna Iwanowna.

Í Degi árið 1955 mátti lesa eftirfarandi undir fyrirsögninni „Ræktaði blóm í Hveradölum – Landnám í Hveradölum og Reykjanesi„:
„Þau byggðu sér bæ við heitar laugar í Hveradölum við rætur Hellisheiðar, og bjuggu þar í 7 ár. Þar reis þá upp næst fyrsta gróðurhús á Íslandi og þar ræktuðu þau hjónin alls konar suðræn blóm. Þóttu það tíðindi í höfuðstaðnum, er þessi útlendi ræktunarmaður auglýsti að hann mundi hafa torgsölu á blómum.
Hann kom svo akandi með bilfarm af fallegum blómum op þau seldust öll á svipstundu. En með árunum urðu Hveradalir landnám skíðafólksins í æ stærri stíl, og þá var ekki rúm fyrir búskap Höyers. Þá hóf hann annað landnám sitt hér á landi og settist að úti á Reykjanestá, við heitar laugar þar.“

Í Reykvíkingi árið 1928 segir um „Gróðrastöðina í Hveradölum„:
„Þeir, sem farið hafa um Hellisheiði síðastliðið ár, munu flestir hafa tekið eftir nýbýlinu á heiðinni.
Sú var tíðin að engin bygð var á Hellisheiði, frá því er farið var frá Lækjarbotnum og þar til komið var austur yfir fjall.
Má nærri geta að gangandi mönnum á vetrardag hefur þótt leiðin löng þá. Svo var bygt að Kolviðarhóli, með styrk af opinberu fé. En nú er Kolviðarhóll að verða að sumardvalastað Reykvíkinga, og sennilega verður bráðum reist þar hótel, og allir hafa fyrir löngu gleymt að Kolviðarhóll sé nýbýli.
En svo er þetta nýja nýbýli. Það er í Hveradölum.
Það er Dani einn, Höyer að nafni, er dvalið hefur hér nokkur ár, sem reist hefur þar býli, og mun hann hafa fengið landið að erfðafestu hjá landsstjórninni.
Flutti hann þangað 21. ágúst í fyrra, og hafa þau búið um tvö ein, hann, og kona hans, sem er rússnesk.

Höyer

Höyer undir húsvegg í Hveradölum.

Nýlega var Höyer í kaupstað. Sagði hann að þeim hefði liðið vel þarna í vetur. Hann hefur reist býlið þarna til þess að nota jarðhitann og er búinn að koma sér upp 22 vermireitum. Sagðist hann hafa sáð kartöflum 15. apríl í vor, og að fyrstu hreðkurnar væru að verða fullproska hjá sér.
Hveradalir eru í 300 metra hæð yfir sjávarflöt, og spyr Reykvíkvíkingur Höyer, hvort garðaávextir hans muni ekki, svona hátt yfir sjó, vaxa þeim mun hægar, eftir að hann er búinn að planta peim undir bert loft, sem þeir uxu hraðar meðan þeir voru í vermireitum hans. En hann er ekki hræddur um það. Í haust ætlar hann að byggja gróðrarhús en það er sama — þar sem hverahiti er — og að breyta jafnstóru svæði af landinu í hitabelti, þar sem rækta má suðræn aldini allan ársins hring.

Hveradalir

Hveradalir – bær Höyershjóna.

Gróðrarmoldin er ágæt þarna í Hveradölum, segir Höyer, og það er hægt að nota hveravatnið til annars en að hita vermireiti — það er ágætt í kaffi.
Vonandi verður fólkið í Gróðrarstöðinni í Hveradölum heppið í sumar með garðaávexti sína, því allir nýbýlingar og landnemar þurfa að hafa hepnina með sér.“

Í Litla-Bergþóri árið 2012 er m.a. fjallað um „Hveradala Höyer og konu hans„:
„Aldrei í manna minnum hafði rignt svo mikið eins og þetta haust. Allt fór á flot, matur eyðilagðist, enga flík var hægt að þurrka og þeim var ekki svefnsamt um nætur vegna kulda þó þau væru örþeytt eftir 14 til 16 tíma þrældóm við moldarverk.

Höyer

Anders C. Höyer (1885-1959).

En þetta hafðist, þau gátu í lok október flutt í hlýjan kofa þar sem hverahitinn var nýttur og voru þannig í senn útilegufólk í anda Eyvindar og Höllu, og einskonar brautryðjendur. Þann 27. október þetta haust giftu þau sig og voru svaramennirnir Johannes Boeskov garðyrkjumaður og svo sendiherra Dana, sá með langa nafnið, Frank le Sage de Fonteney. Þarna í Hveradölum voru þau að basla til ársins 1934 þegar Skíðafélag Reykjavíkur reisti þar sinn skála og hóf greiðasölu. Þá fannst þeim sér ofaukið og leituðu annað. Þau prófuðu ýmislegt þarna uppfrá, ræktuðu í gróðurhúsum, brugguðu jurtamjöð, reyndu leirbaðslækningar, þjónuðu ferðamönnum og voru fyrst með torgsölu í Reykjavík með afurðir sínar. Þau stunduðu líka rjúpnaveiði sem stundum var happafengur en gaf stundum ekki neitt. Erica sagði löngu seinna er hún leit yfir líf sitt; „Bara að við hefðum aldrei farið úr Hveradölum“.

Hótel ÍslandEftir að Höyershjónin hurfu úr Hveradölum kom Sveinn Steindórsson frá Hveragerði þar upp baðhúsi, eða árið 1938, sem hann rak um skamman tíma, uns hann lést sex árum síðar þegar Hótel Ísland brann til kaldra kola, sbr: „Aðfararnótt 3. febrúar 1944 kom upp eldur í geymslulofti hótelsins sem breiddist hratt út. Hótelið brann til kaldra kola á tveimur tímum og lést ungur maður í brunanum, Sveinn Steindórsson úr Hveragerði“.

Sjá meira um Höyer HÉR.

Heimildir:
-Dagur, 14. tbl. 16.03.1955, Ræktaði blóm í Hveradölum, bls. 5.
-Reykvíkingur, 4. tb. 06.06.1928, Gróðrastöðin í Hveradölum, bls. 127-128.
-Litli-Bergþór, 2. tbl. 01.12.2012, Hveradala Höyer og kona hans, bls. 20-21.
-https://afangar.com/byggdasaga/hotel-island/

Hveradalir

Hveradalir – Bæjarstæði Höyershjóna.

Þórkötlustaðanes

Þorbjörn eða Þorbjarnarfell er fjall rétt norður af Grindavík sem varð til á ísöldinni við gos undir jökl. Það er úr móbergi og er 243 metra hátt. Fjallið er ekki eldfjall, heldur stendur á gosbelti.
Þótt fjallið sé ekki hátt, t.d. miðað við Everest í útlöndum, er það þó talið hátt á mælikvarða Grindvíkinga.

Grindavík

Þorbjörn.

Landnámsmaður í Grindavík var Molda-Gnúpur Hrólfsson. Í Landnámabók segir svo frá Moldar-Gnúpi að hann hafi verið sonur Hrólfs höggvandi, sem bjó í Moldartúni á Norðmæri í Noregi. Þeir Gnúpur og Vémundur bróðir hans voru vígamenn miklir og vegna drápa þeirra fór Gnúpur til Íslands. Hann nam land á milli Kúðafljóts og Eyjarár og allt Álftaver. Þar bjó hann uns byggðin spilltist af hraunstraumi en þá hélt hann vestur til Höfðabrekku og reisti sér skála, þar sem nú heita Kaplagarðar og dvaldist þar um veturinn. Þar lenti hann enn í ófriði og hélt um vorið ásamt sonum sínum vestur til Grindavíkur og tóku þeir sér þar bólfestu.

Núpshlíð

[G]Núpshlíðarhorn ofan Húshólma.

(Þessi saga er rituð í Sturlungabók, en í annarri gerð Landnámu, Hauksbók, segir að Gnúpur hafi fallið ásamt 2 sonum sínum í átökum við Kaplagarða um veturinn. Hinir synirnir, Björn, Þórður og Þorsteinn, hafi hins vegar numið land í Grindavík. Sérfræðingar geta ekki fullyrt hvort er rétt en telja meiri líkur en minni að Molda-Gnúpur hafi komist alla leið).

Sandakravegur

Sandakravegur 2006.

Erfitt er að tímasetja landnámið nákvæmlega. Nýlegar rannsóknir jarðfræðinga sýna að hraun hefur runnið yfir Álftaver og þau svæði sem Moldar-Gnúpur settist fyrst að á um og eftir 934. Þessu ártali kann að skeika um 1 eða 2 ár til eða frá, en ef það er notað til viðmiðunar hefur Moldar-Gnúpur og fólks hans komið til Grindavíkur um og eftir árið 940.
Fólkinu virðist hafa gengið vel að koma sér fyrir eins og fram kemur í hinni frægu sögu um Hafur-Björn: “Björn hafði nær ekki kvikfé; hann dreymdi að bergbúi kæmi at honum og byði að gera félag við hann, en hann játti. Þá kom hafr til geita hans litlu síðar; því var hann Hafr-Björn kallaðr. Hann gerðist bæði ríkr og stórauðigr. Þat sá ófresk kona, at allar landvættir fylgdu Hafr-Birni þá er hann fór til þings en Þorsteinn ok Þórði bræðrum hans þá þeir fiskuðu”.

Skógfellavegur

Skógfellavegur.

Vitneskja okkar um upphaf byggðar í Grindavík takmarkast við frásögn Landnámu af Moldar-Gnúpi og sonum hans og ekkert er vitað með vissu um byggðina og sögu hennar næstu 300 árin eftir landnám. Engu að síður verður að telja líklegt að flestar bújarðirnar hafi byggst þegar á 10. og 11. öld og með því að gefa hugarfluginu lausan tauminn til þess að reyna að lesa milli línanna í Landnámu og þætta saman frásögn hennar og alþekktrar þjóðsögu má geta sér til hvernig hin fyrsta byggð í Grindavík hefur risið.

Svartiklettur

Svartiklettur við Hópið – sundmerki (Svíravarða).

Hvergi kemur fram hve margt fólk fylgdi Moldar-Gnúpi á ferð hans austan úr Álftaveri, en varla hafa það verið færri en 20-30 manns, fjölskylda og fylgdarlið.
Þegar landnemarnir voru komnir á áfangastað hafa þeir vafalaust byrjað á því að velja sér stað til vetursetu og reist þar skála. Sá staður hefur að öllum líkindum verið í námunda við Hópið, trúlega á einhverjum þeirra staða sem síðar risu bæirnir Húsatóftir, Hóp og Járngerðarstaðir.

Hópsvarða

Efri-Hópsvarðan í viðgerð 2010.

Hópið var ákjósanlegur staður til að setjast að og reisa skála. Þar var öruggt vatnsból, stutt sjávargata, mið með ágætum, grónar hvylftir, góð lending fyrir báta og mikil fjörugæði. Hinn fyrsta vetur hafa landnemarnir vafalítið notað til að kanna landkosti í nýjum heimkynnum og ekkert var eðlilegra en þeir Molda-Gnúpssynir tækju að svipast um eftir löndum fyrir sjálfan sig. Að sögn Landnámu voru þeir allir fullorðnir er hér var komið sögu og frumbyggjasamfélagið krafðist þess að menn staðfestu ráð sitt og hæfu búskap eins fljótt og auðið var.

Grindavík

Hóp – Neðri innsiglingarvarðan.

Við vitum ekki í hvaða röð þeir bræður giftust né hvar hver þeirra reisti sér bú. Við vitum að bræðurnir voru fjórir; Gnúpur, Björn (Hafr-Björn), Þorsteinn hrungnir og Þórður leggjandi. Við vitum líka að Gnúpur (yngri) giftist Arnbjörgu Ráðormsdóttur og að Hafr-Björn giftist Jórunni dóttur Arnbjargar og Svertings Hrollleifssonar. Björn og Jórunn bjuggu í Grindavík, en óvíst er hvort Gnúpur og Arnbjörg hafi gert það líka.
Flestir kannast við þjóðsöguna um þær Járngerði og Þórkötlu, sem bjuggu á Járngerðarstöðum og Þórkötlustöðum.

Skógfellavegur

Skógfellavegur við hraunbrúnina að norðanverðu.

Þjóðsögur geyma oft löngu gleymda vitneskju. Það er því ekki ólíklegt að konur með þessum nöfnum hafi í fyrndinni búið í Grindavík á þessum tveimur jörðum og jarðirnar dragi nöfn sín af þeim. Er þá ekki hugsanlegt að þær hafi verið tengdardætur Molda-Gnúps, giftst Þorsteini hrugni og Þórði leggjanda, og þá fyrstu húsfreyjur á Járngerðarstöðum og Þórkötlustöðum.

Hafi svo verið hafa þeir bræður verið fyrstir til að búa á þessum tveim bæjum og á sama hátt getum við hugsað okkur Moldar-Gnúpur hafi búið á Hópi (Hofi) og Þosteinn erft jörðina eftir föður sinn, Gnúpur búið um sig í Krýsuvík, Björn á Þórkötlustöðum og Þórður á Stað, enda heitir fjallið þaðan ofanvert Þórðarfell. Gnúpshlíð heitir syðsti enda [G]núpshlíðarháls vestan Krýsuvíkur. Hraun hefur væntanlega byggst upp á 14. öld, enda benda allar heimildir til þess.

Hraun

Hraun í Grindavík.

Þetta er aðeins tilgáta en skemmtilegt að velta þessu fyrri sér. Það er staðreynd að allar stærstu jarðirnar í sveitinni hafa byggst strax á landnámsöld og hverfin 3 vaxið út frá höfðubólunum uns þær lögðust af um tíma vegna tíðra eldgosahrina ofan byggðarinnar.
Í Krýsuvík er landnámsmaður reyndar talinn Þórir haustmyrkur. Hann hafi búið í á bæ, sem Hlíð hét og lagt veg yfir svonefnd Grindarskörð. Þar átti þá að hafa verið svo mikill skógur að hann hafi tekið börkinn af nokkrum trjám og búið til grind og sett á skarðsbrúnina vestanverða til að merkja hvar fara ætti þegar ferð lá yfir fjallið.

Sundhnúkur

Sundhnúkur, á miðri mynd, ofan Grindavíkur.

Er ekki ósennilegt að sú skýring að örnefninu Grindavík og Grindarskörð séu dregin af veggrindum á fjöllum uppi eigi rætur að rekja til þessarar sögu – þó ólíklegt kunni að svo hafi verið í raun. Örnefnið „Grindavík“ verður þó að skoða í ljósi þess að grind fyrrum átti við sundmerki, „sem tréð með grind stendur í“ (sbr. Örnefnaskrá). Sundmerki er innsiglingarmerki, oft varðað með tré í, grindum, til dæmis þannig að tvær slíkar vörður átti að bera saman þar sem innsigling var örugg.“ Þannig gæti örnefnið „Grindavík“ orðið til, en fjölmargar minjar og örnefni sem benda til þess að svo hafi verið.

Hópsheiði

Hópsheiði – lagfærð Hópsvarðan; fyrrum siglingamerki.

Auk innsiglingamerkjanna tveggja við  Hóp má enn sjá Hópsvörðuna í heiðinni, stefnuvörðunar tvær ofan Lága í Þórkötlustaðahverfi, sundvörðuna ío hrauninu ofan Buðlungu (þótt sí neðri á kampinum sé nú horfin), sundvörðurnar tvær inn í Þórkötlustaðasundið, sjósundvörðurnar ofan við Arfadalsvíkina í Staðarhverfi og svo mætti lengi telja.

Famangreint verður að teljast fróðlegt í ljósi allra sundmerkjaminjanna í Grindavík. Reyndar eru núverandi sundmerki ekki svo gömul að telja megi til landnáms, en þau verður þó að telja öllu merkilegri í samhengi sögunnar.

Grindavík

Efri-Sundvarðan á Leiti – ofan Þórkötlustaða.

Engum vafa er um það orpið að Grindvíkingar hafi sótt sjó um aldir og hafa því nýtt sér sundmerkin sér til leiðsagnar, sbr. Siggu og önnur kennileiti ofan byggðar. Flest þeirra eru nú orðin mosavaxin, líkt og merkið á Leiti ofan Þórkötlusstaða, en önnur þau nýrri eru þó enn augljós, s.s. sundmerkin ofan Hóps. Bæði þess vegna og ekki síður er og verður mikilvægt fyrir íbúa Grindavíkur til framtíðar litið að varðveita uppruna byggðarinnar, ekki síst í hinu sögulega samhengi.

Grindavík

Efri-Sundvarðan við Húsatóftir.

Engar heimildir eru um tilvist Grindavíkur á 12. og fram eftir 13. öld. Talið er að byggðin hafi lagst af á meðan á eldgosahrinutímabilinu stóð ofan bæjarins sem og næstu áratugina eftir að því lauk. Nú á 21. öldinni hafa eldgosahrinurnar vaknað til lífsins og skelft íbúana – a.m.k. um stund. Með tilkomu þeirra og meðfylgjandi hraunflæði hafa þekkt örnefni óhjákvæmilega farið undir hraun. Má þar t.d. nefna Beinavörðuhraun,
Dalahraun, Nauthólaflatir, Aurar, Krókar, Nyrðri-Mosadalagjá, Syðri-Mosadalagjá, Mosadalir, Kolhraun, Fagridalur, Eldborgir, Rauðhóll, Stóri-Rauðhóll, Sandakravegur, Skógfellavegur, Sprengisandur, Títublaðavarða, Sundhnúkur, Geldingadalir, Meradalir og Nátthagi.

Þórkötlustaðir

Þórkötlustaðir – sundvarða.

Vonandi, eftir að núverandi jarðeldahrinu loks linnir, munu bæjaryfirvöld fela málsmetandi Grindvíkingum að gefa annars hinu áberandi nýbreytni landvættana í ofanverðu landslagi byggðarinnar ný örnefni er munu þá væntanlega lifa um nánustu framtíð. Hafa ber í huga að umbrotalandið er í óskiptu landi Þórkötlustaða og ættu landeigendur að eiga þar að fá eitthvað til síns máls.
Miklu um munar að vitleysunni er fulltrúar bæjarstjórnar gáfu nýrunnu hrauni í Geldingadölum örnefnið „Fagradalshraun“ linni. Örnefnið „Fagradalur“ er, eða reyndar var, miðað við nýjustu fréttir, alllangt fjarri Geldingadölunum í Fagradalsfjalli…

Grindavík

Grindavík – eldgos er kann möguelga að rugla einhverja í rýminu…

Rauðavatnsstöðin

Suðaustan við Rauðavatn er skilti; „Rauðavatnsstöðin – Upphaf skógræktar á höfuðborgarsvæðinu„. Á því má lesa eftirfarandi texta:

Rauðavatnsstöðin

Rauðavatnsstöðin – skilti.

„Skógar voru fáir og illa farnir á Íslandi, þegar Skógræktarfélag Reykjavíkur var stofnað 25. ágúst 1901. Félagið var stofnað til að safna fé til að kaupa landskika nálægt Reykjavík og rækta þar skóg.
Að félaginu stóðu ýmsir þekktir bæjarbúar, og svo danskur skógfræðingur að nafni Christian Flensborg, sem hafði umsjón með öllum framkvæmdum. Flesborg taldi að við Rauðavatn væri tilvalinn staður fyrir lystigarð í framtíðinni. Staðurinn væri stutt frá höfuðborginni, við lítið vatn og með fagurt útsýni yfir Rauðhóla.

Rauðavatnsstöðin

Rauðavatnsstöðin – Tré ársins 2021.

Ýmsar trjátegundir voru gróðursettar við Rauðavatn á næstu árum. Plönturnar flutti Flensborg með sér frá Danmörku, þegar hann sigldi til Íslands á vorin. Flestar þrifust þær illa enda vanar hlýrra loftslagi og mikil afföll urðu í flutningunum yfir hafið. Aðrar voru gróðursettar í þeirra stað og kom Flensborg einnig upp græðireit þar sem trjáplöntur voru ræktaðar upp af fræi.
Þetta var mikið framfaraskref því lítið var vitað um hvaða tegundir gætu dafnað á Íslandi aðrar en birki og reynir og erfitt að nálgast fræ eða trjáplöntur.
Sum af fyrstu trjánum sem íbúar í Reykjavík og víðar gróðursettu í görðum sínum eru komin úr Rauðavatnsstöðinni. Talsverður gangur var í ræktunarstarfinu við Rauðavatn fyrstu árin en þrótturinn minnkaði er leið á annan áratug aldarinnar. Trén, einkum fjallafura, héldu þó áfram að vaxa og mynda skjól og jarðvegsskilyrði fyirir uppvöxt annarra trjáa.
Rauðavatnsstöðin var vinsæll áfangastaður fyrir borgarbúa í helgarferðum fram undir miðja öldina. Í dag er þarna fallegt skóglendi sem er hluti af miklu stærra útivistarsvæði upp af Rauðavatni. Lystigarðurinn sem Flensborg og félagar létu sig dreyma um, var hins vegar stofnaður örskot frá, við annað vatn og með fagurt útsýni yfir Rauðhóla. Og fékk nafnið Heiðmörk.“

Rauðavatnsstöðin

Rauðavatnsstöðin – skilti.

Móakot

Þrír bæir Þingvallasveitar voru neðan gamla Þingvallavegarins 1890, þ.e. Skálabrekka, Móakot og Heiðarbær. Ljóst er hvar bæjarstæði Skálabrekku og Heiðarbæjar voru fyrrum, en margt er hins vegar á huldu um bæjarstæði Móakots.

Móakot

Móakot – bæjartóftirnar.

Þegar FERLIRsfélagar reyndu að nálgast fyrrum bæjarstæðið komu þeir hvarvetna að lokuðum hliðum sumarbústaðaeigenda. Því var, líkt og fyrrum, ákveðið að feta bara yfir torærur og klofa yfir girðingar, með það fyrir augum að nálgast markmiðið. Það er reyndar alveg ótrúlegt hvernig einstakir sumarbústaðaeigendur geti útilokað almenning frá einstökum minjastöðum innan sveita, langt út fyrir umráðasvæði sín. Bara það eitt er verðugt umfjöllunarefni út af fyrir sig.

Móakot

Móakot – útihús.

Í „Örnefnaskráningu Guðmanns Björnssonar um Skálabrekku„, fæddur 13. nóvember 1909, segir: Guðmann fluttist að Skálabrekku árið 1941 frá Hagavík í Grafningi, ásamt konu sinni, Regínu Sveinbjarnardóttur, en hún ólst upp á Heiðarbæ, næsta bæ við Skálabrekku. Hafa þau átt þar heima síðan. Megnið af örnefnum jarðarinnar lærði Guðmann af Þorláki Björnssyni, sem bjó á Skálabrekku á undan þeim. Ennfremur mun Regína hafa þekkt mörg þeirra“.
Í örnefnalýsingunni segir um Móakot: „Nú verður haldið utast í landið neðan Þingvallavegar. Móakot var þar við Móakotsána undir Móakotsás. Móakot fór í eyði um 1865. Þarna undir Ásnum eru nokkrir sumarbústaðir. Þar er nú kominn mikill skógur. Þarna rétt hjá er vaðið í Ánni og Móakotsárfoss skammt fyrir ofan, fellur fram af 7 m háu bergi.“

Móakot

Móakot – útihús.

Í „Kortlagning eyðibyggðarinnar á Þingvöllum með flygildum og hitamyndavél“ Gunnars Grímssonar frá því mái 2020 segir:
„Heiðarbær, Skálabrekka og Móakot. Fjögur lögbýli eru ofan Almannagjár og á þeim er enn búið. Syðst er Heiðarbær, þar sem Hrolleifur Einarsson er sagður hafa búið og er landnám hans talið hafa náð frá Öxará og suður fyrir Heiðarbæ (Íslenzk fornrit I, bls. 391). Heiðarbær átti sel við Selbrúnir í hlíðunum norðan bæjarins („Heiðarbær 1“, e.d., bls. 2). Norðaustan Heiðarbæjar er Skálabrekka, þar sem Landnámabók getur þess að Ketilbjörn hinn gamli hafi reist sér skála á leið sinni til að nema land á Mosfelli í Grímsnesi (Íslenzk fornrit I, bls. 385).

Móakot

Móakotsárfoss.

Áin Móakotsá rennur sunnan Skálabrekku en hún er kennd við hjáleiguna Móakot, sem var í byggð á miðri 19. öld og fór í eyði um 1865 (Hjörtur Björnsson, 1937, bls. 165; „Skálabrekka 1“, e.d., bls. 4). Rústir eru sjáanlegar við árbakka Móakotsár, Skálabrekkumegin, nokkuð skammt frá Þingvallavatni (Jóhannes Sveinbjörnsson, munnleg heimild, febrúar 2020). Bæjarrúst Móakots var skráð ásamt útihúsum af nemendum í fornleifafræði við Háskóla Íslands árið 2004, í trjáreit austan Móakotsárfoss. Var það hluti af vettvangsnámskeiði sem var haldið í kjölfar svæðisskráningar fornleifa í Þingvallasveit þar um kring árið áður (Guðrún Alda Gísladóttir og Orri Vésteinsson, 2003).“

Heiðarbær

Tóftir Móakots í Þingvallasveit – nánast horfnar í skóg árið 2014.

Sá er þetta skrifar tók þátt í fornleifaskráningarverkefni HÍ undir forystu Guðmundar Ólafssonar árið 2014. Tilgangurinn var að teikna upp rústir Móakots. Síðan eru liðin 11 ár. Það verður að segjast eins og er að nákvæmlega ekkert hefur verið gert til að gera framangreindar minjar aðgengilegar almenningi, hvað þá að varðveita þær fyrir ágengri skógrækt. Í dag eru minjarnar ekki svipur hjá sjón, frá því sem var, auk þess sem nálægur sumarbústaður getur varla talist lengur svipur hjá sjón.

Heimildir:
-Skálabrekka, Guðmann Ólafsson á Skálabrekku skráði, snemma á árinu 1982.
-Kortlagning eyðibyggðarinnar á Þingvöllum með flygildum og hitamyndavél. Ritgerð til B.A.–prófs í fornleifafræði Gunnar Grímsson, 2020, bls 29.

Móakot

Móakot – bæjarminjarnar hornar í skóg 2025.

Ingólfur Arnarsson

Helgi Þorláksson, prófesor emeritus í sagnfræði við HÍ, svaraði spurningunni „Var Ingólfur Arnarsson til í alvörunni?“ á Vísindavefnum:

Helgi Þorláksson

Helgi Þorláksson.

„Um 1940 voru dásamlegir tímar í íslenskri miðaldasagnfræði, fræðimenn trúðu flestum Íslendingasögunum eins og nýju neti um menn og málefni 10. aldar en þeirri dýrð lauk um 1950. Því olli líklega einkum að bókfestukenningin svonefnda hafði skotið rótum. Hún nefndist öðru nafni íslenski skólinn og samkvæmt henni voru Íslendingasögur að mestu skáldskapur, og ónothæfar sem heimildir um menn og atburði tímabilsins frá um 870 til um 1050. Gætti aukinnar gagnrýni í allri notkun miðaldaheimilda og er tímaritið Saga, sem hóf göngu um miðja síðustu öld, skýr vitnisburður um slíkar hræringar.
Landnámabók taldist þó halda velli. Stundum er ósamræmi milli gerða hennar og sú gerðin sem helsti sérfræðingur síns tíma um Landnámu, Jón Jóhannesson, taldi standa næst frumtexta segir að Ingólfur hafi verið Björnólfsson. Jón benti á að Björnólfur kunni að hafa haft viðurnefnið örn. Þannig gat Ingólfur verið bæði Arnarson og Björnólfsson.

Ingólfur Arnarsson

Stytta Ingólfs Arnarsonar á Arnarhóli. Styttan var afhjúpuð árið 1924 og er afsteypa. Frummyndin var gerð árið 1907.

Um 1970 var hins vegar almennt farið að draga í efa vitnisburð Landnámu og Íslendingabókar um sögu Íslands fyrir 1050. Sjálfstæðisbaráttan var að baki, lýðveldið að verða aldarfjórðungs gamalt og eðlilegt að endurskoða gömul viðhorf. Hið nýja viðhorf var að heimildir eins og Landnáma segðu jafnvel meira um þá sem sögðu frá, létu festa frásagnir á skinn, en hina sem sagt var frá. Hin rétta spurning var þá ekki: Var Ingólfur til? Heldur: Hvaða tilgangur vakti fyrir þeim sem sögðu frá Ingólfi? Efasemdir komu jafnvel fram um Íslendingabók Ara fróða og það sem hann segir um Ingólf. Til greina þótti koma að það hefði verið samkomulagsatriði ráðamanna um 1120 að telja að Ingólfur hefði verið fyrstur og merkastur landnámsmanna, slíkt hefði getað þjónað hagsmunum ráðamanna á tímum Ara.

Ölfus

Inghóll á Ingólfsfjalli.

Örnefni voru líka gengisfelld sem heimildir um 1970, með svonefndri náttúrunafnakenningu. Höfundur hennar er Þórhallur Vilmundarson sem flutti röð rómaðra fyrirlestra árið 1966 og á næstu árum um kenninguna. Hún snýst um að mannanöfn séu lesin út úr örnefnum en ekki öfugt; örnefnin séu ekki endilega tengd mannanöfnum eins og Landnáma og aðrar heimildir gefa í skyn. Þannig er ing- í Ingólfshöfði standur, fyrirbæri í náttúrunni sem rís upp yfir umhverfi sitt. Höfundur benti líka á Inghól sem er efst á Ingólfsfjalli.

Vestmannaeyjar

Í Landnámabók segir að írskir þrælar Hjörleifs Hróðmarssonar úr Dalsfirði í Noregi, fóstbróður Ingólfs Arnarssonar, hafi fyrstir sest að í Heimaey og Vestmannaeyjar kenndar við þá. Nafngreindir voru þeir: Dufþakur, Geirröður, Skjaldbjörn, Halldór, Drafdritur og fleiri, alls tíu og bjuggust þeir fyrir í eyjunni um hríð, eða þar til Ingólfur kom og hefndi Hjörleifs fóstbróður síns sem þeir höfðu drepið. Ýmis örnefni í eyjunni eru enn við þá kennd svo sem Dufþekja og Halldórssandur.

Einfaldast væri að sniðganga Ingólf alveg. Þá er ritheimildum um hann hafnað og ekki fengist við spurninguna um það hvort hann var til. Sú saga gengur að fréttamaður hafi spurt fornleifafræðing einn um Ingólf Arnarson og hann svarað „Ingólfur hvaða?“ Þetta ætti einmitt að vera fyrsta spurning, hvaða Ingólfur er það sem við höfnum, höfnum við eingöngu vitnisburði ritheimilda um hann, ef til vill að vissu marki, eða höfnum við tilvist hans með öllu? Sagan í Landnámu um þá félaga, Ingólf og Hjörleif, ber skýr bókmenntaeinkenni, er vafalítið skáldskapur og miklar líkur til að Hjörleifur hafi ekki verið til, að minnsta kosti ekki í þeirri mynd sem birt er af honum í Landnámu.
Mér finnst einsýnt að hafna líka persónunni Ingólfi, eins og hann kemur fram í Landnámu. En merkir það að hinn ætlaði frumherji hafi ekki verið til, og verði jafnvel sniðgenginn með öllu? Ari fróði segir að landið hafi verið numið nærri 870 og vísar til þriggja heimildarmanna um þetta. Hann skrifar eins og Ingólfur hafi verið hinn mikli frumherji. Kannski vissi hann þetta ekki fyrir víst en vafalítið er að landnemar í Reykjavík komu snemma út. Fornleifarannsóknir sýna að menn voru á ferð í Reykjavík þegar fyrir 871 ± 2 ár. Hversu löngu fyrr er óljóst. Einhver var fyrstur og miðað við stöðu fornleifarannsókna er líklegt að það hafi verið landneminn í Reykjavík enda þekkjast ekki skýrar vísbendingar um að aðrir landnemar hafi verið fyrr á ferð annars staðar. Í öðru lagi er varla ástæða til að efast um að frumherjinn hafi verið af norskum uppruna og er það eins og Ari telur. Í þriðja lagi er líklegt að hann hafi numið allmikið land, fyrst hann kom snemma. Í fjórða lagi er líklegt að hann hafi getað látið til sín taka og verið áhrifamikill, eins og sagt er, hafi hann komið fyrstur eða manna fyrstur og fékk þetta forskot á aðra.

Skálafell

Skálafell austan Esju – tóft, sem aldrei hefur verið fornleifaskráð. Tóftarinnar er getið í Landnámu þegar Ingólfur er sagður hafa leitað Karla og fundið.

Það skiptir máli hér að Reykjavík var ekki höfðingjasetur, svo að séð verði, á 12. og 13. öld þegar sagðar voru sögur af Ingólfi, fyrirmynd annarra landnema, enda er Karli þræll látinn undrast í Landnámu að Ingólfur skyldi setjast að á útnesi. Þetta styður þá skoðun að það sé ekki tilbúningur frá 12. öld að frumherjinn hafi átt heima í Reykjavík, getur að minnsta kosti verið mun eldri sögn. Af Íslendingabók verður ráðið að sagnir um mikilvægi Ingólfs voru til áður en Ari samdi bókina.
Þótt efast sé um að tilgangurinn með Íslendingabók hafi verið algjörlega fræðilegur og því trúað að Ari kunni að þegja um sumt verður hann ekki auðveldlega sniðgenginn með öllu um Ingólf.

Ingólfshöfði

Ingólfshöfði – MWL.

En þótt þannig sé gerður munur á gildi frásagna um Ingólf og Hjörleif er heldur rýrt það sem eftir stendur um landnemann í Reykjavík. Hann hét kannski Ingólfur, var norskur, kom snemma, var ef til vill fyrstur og hann og afkomendur hans munu líklega hafa orðið nokkuð fyrirferðarmikil á elsta skeiði Íslandssögunnar. Eftir stendur það mat margra fræðimanna, lítt haggað, að ritheimildir séu ekki vænlegar til að færa okkur örugga vitneskju um persónur og atburði eða stjórnmálasögu fyrir 1050. Það má kannski segja að það sé samkomulagsatriði að telja, svo lengi sem annað afsannar það ekki, að hinn fyrsti landnemi hafi sest að í Reykjavík og heitið Ingólfur. Hvorugt vitum við þó fyrir víst, kannski voru einhverjir fyrr á ferð annars staðar og kannski er nafn Ingólfs lesið út úr örnefnum.“

Heimild:
-https://www.visindavefur.is/svar.php?id=7366
-Helgi Þorláksson prófessor emeritus í sagnfræði við HÍ.

Ölfusá

Ölfusá. Ingólfsfjall fjær.
Selfoss er landnámsjörð Þóris Hersis Ásasonar en einnig er getið um vetursetu Ingólfs Arnarsonar 873-74 „undir Ingólfsfelli fyrir vestan Ölfusá“.

Sundhnúkagígaröðin

Níunda eldgosið á og við Sundhnúksgígaröðina ofan Grindavíkur hófst 16. apríl 2025 kl. 03:55 að undangenginni skammvinnri jarðskjálftahrinu. Áður höfðu þrjú gos brotist út í eldstöðvakerfinu sem kennt er við Fagradalsfjall. Þetta er því tólfta hrinan í röð eldgosa á sama sveimi síðan 2021, en það níunda í röð eldgosa á Sundhnúkagígaröðinni síðan í desember árið 2023. Líklega er þó hér um eitt og sama gosið að ræða – með hléum?

Sundhnúkagígaröðin

Eldgos á Sundhnúksgígaröðinni 16. júlí 2025.

Gosið hófst að þessu sinni af talsverðum krafti á sprungureininni við Sundhnúk til norðurs millum Stóra-Skógfells áleiðis að Kálffelli, sunnan Litla-Skógfells, á u.þ.b. 2,5 km löngum kafla. Hraunrennslið lá til suðurs og suðausturs í átt að Slögu í Fagradalsfjalli. Talsverður gosmökkur fylgdi í kjölfarið með stefnu á Njarðvíkur og Keflavík.

Fyrri gosuppsprettur á sprungureininni hafa jafnan byrjað með skammvinnum látum, en væntanlega mun, líkt og reynslan gefur til kynna, draga úr gosinu fljótlega og ljúka eftir ca. 12 – 20 daga.

Sundhnúkagígaröðin

Eldgis á Sundhnúksgígaröðinni 16. júlí 2025.

Fyrsta eldgosalotan ofan Grindavíkur var 18. desember 2023, önnur 14. janúar 2024, þriðja 8. febrúar 2024, fjórða 16. mars 2024, fimmta 29. maí, sjötta 22. ágúst, áttunda 20. nóv. og loks þetta níunda 1. apríl 2025 sem fyrr sagði. Fyrstu goshrinurnar þrjár voru skammvinnar, vöruðu einungis í rúman sólarhring, sú fjórða varði í u.þ.b. tvo mánuði – lauk þann 9. maí sama ár, eftir 54 daga dugnað og sú fimmta tuttugu dögum síðar, eða þann 29. maí. Stærsta goshrinan að magni til varð hins vegar 22. ágúst 2024.

Sundhnúksgígaröðin

Eldgos á Sundhnúksgígaröðinni 16. júlí 2025.

Ætla má að þessi hrina verði skammlíf, í tíma talið, líkt og þau fyrri. Eitt er þó víst – von er á nýju áhugaverðu landslagi ofan Grindavíkur með nýjum ófyrirséðum framtíðarmöguleikum. Náttúruöflin eru jú ólíkindatól. Þótt þetta eldgosin virðast óálitlegt tilsýndar munu þau bjóða upp á nýja og spennandi tækifæri – til lengri framtíðar litið. Spurningin er bara að reyna að hugsa til lengri framtíðar og nýta það sem í boði verður. Jarðaröflunum verður ekki stjórnað, en hægt verður að nýta þau þá og þegar svo ber undir, líkt og mannkynið hefur gert í árþúsundir.

Sundhnúksgígaröðin

Eldgos á Sundhnúksgígaröðinni 16. júlí 2025.

Kvikuvirknin virðist skv. mælingum hafa teigt sig lengra til norðurs og er nú mest ofan Voga, sem kemur reyndar ekki á óvart að teknu tilliti til landshátta; gífurlegs landsigs millum Þráinsskjaldardyngjunnar og Hrafnagjár.

Eldsumbrot á þessu svæði ætti ekki að hafa komið nokkrum á óvart í ljósi sögunnar – með Dyngjuna Þráinsskjöld í austri, dyngjuna Fagradalsfjall í suðaustri, dyngjuna Vatnsheiði í suðri og dyngjuna Lágafell í suðvestri og dyngjuna Sandfellshæð í vestri.

Sundhnúksgígaröðin

Eldgos á Sundhnúksgígaröðinni 16. júlí 2025.

Gosið er nokkurn veginn á sömu slóðum og fyrri gos á þekktri sprungurein er liggur áleiðis að Kálffelli. Það ætti að þykja heppileg staðsetning m.t.t. byggðarinnar í Grindavík og að merkilegri megininnviðum standi tiltölulega lítil ógn af gosinu. Ólíklegt er að reyna muni á vatnargarðanna ofan Grindavíkur að þessu sinni.

Eldgosið að þessu sinni, líkt og hin fyrri, undirstrikar hversu litla þekkingu jarðfræðingar og jarðeðlisfræðingar virðast hafa á náttúrufyrirbærum sem þessum.

Sundhnúksgígaröðin

Eldgos á Sundhnúksgígaröðinni 16. júlí 2025.

Jörðin, og þar með umhverfið, hefur verið að breytast allt frá því að hún varð til. Slíkar breytingar, smærri sem stærri, munu eiga sér stað á meðan Jörðin lifir, en reynslan hefur sýnt að þær munu eftir sem áður koma venjulegu núlifandi fólki og sérfæðingum alltaf jafn mikið á óvart.
Sem betur fer verða jarðeldarnir ofan Grindavíkur að teljast léttvægir að teknu tilliti til alltumliggjandi atburða sögunnar.

Sundhnúksgígaröðin

Eldgos á Sundhnúksgígaröðinni 16. júlí 2025.

Áhugavert er að engin gögn hafi borist sem sýna að landið hafi sigið eftir að umrætt gos hófst. Engin merki landsigs liggja fyrir. Það beri þess merki að breytingar hafi orðið á eldstöðvarkerfinu í kjölfar gossins í apríl s.l. Enn er þó óljóst hverjar þær breytingar séu eða hvaða afleiðingar þær gætu hafi í för með sér. Líklegt má telja að núverandi goshrina geti verið sú síðusta í Sundhnúksferlinu.

Þessari hrinu eldgossins í Sundhnúkaröðinni lauk 5. ágúst.

Sjá MYNDIR úr eldgosunum átta við Sundhnúkagígaröðina ofan Grindavíkur sem og hrinunum í Geldingadölum, Meradölum og við Litla-Hrút í og við Fagradalsfjall.

Sundhnúksgígaröðin

Eldgos á Sundhnúksgígaröðinni 16. júlí 2015.

Kringlumýri

Á Vísindavef HÍ var spurt: „Hófst landnám á Íslandi 200 árum fyrr en talið hefur verið?“ Höfundur svarsins var Orri Vésteinsson prófessor í fornleifafræði við Háskóla Íslands.

„Stutta svarið er nei.
Hér kemur langa svarið:

Orri Vésteinsson

Orri Vésteinsson.

Í hugum flestra hefst landnám með því að einhver kemur á hinn nýja stað, kastar eign sinni á landið, kemur undir sig fótunum og skilur eftir sig arfleifð í afkomendum, örnefnum og sögum. Fleiri fylgja í kjölfarið og leika sama leikinn þar til landið er orðið fullt og ekki pláss fyrir fleiri. Allar landnámssögur fylgja þessum stefum og gildir þá einu hvort söguhetjan er Ingólfur Arnarson á Íslandi, Abraham og Lot í Jórdandalnum og Kananslandi, eða skipverjarnir á Mayflower í Nýja Englandi.

Víkingar

Víkingar komu til Norður-Ameríku, þar sem nú er Nýfundnaland í Kanada, í kringum árið 1000. En af hverju gerðu þeir svæðið ekki að nýlendu sinni eins og aðrir Evrópubúar gerðu nokkrum öldum síðar?
Þessari spurningu var nýlega velt upp á vef Live Science sem bendir á að í kjölfar fyrstu ferðar Kristófers Kólumbusar yfir Atlantshafið 1492 hafi Spánn og fleiri Evrópuríki staðið fyrir stórfelldu landnámi sem varð til þess að evrópskir landnemar og afkomendur þeirra lögðu stærsta hluta álfunnar undir sig.
En eins og við Íslendingar vitum, þá voru Kristófer Kólumbus og samferðamenn hans ekki fyrstu Evrópubúarnir sem komu til Norður-Ameríku. Eftir að víkingarnir tóku sér bólfestu á Íslandi og Grænlandi á níundu og tíundu öld, náðu þeir til Nýfundnalands í krinum árið 1000. Þeir komu sér upp útvarðstöð í L‘anse aux Meadows og notuðu hana sem útgangspunkt fyrir könnunarferðir um önnur svæði í norðausturhluta Norður-Ameríku. Sögulegar heimildir benda til að þeir hafi síðan komið sér upp annarri útvarðstöð sem nefnist „Hop“ en hún var einhvers staðar þar sem nú er New Brunswick.
En víkingarnir stunduðu ekki stórfellt landnám í Norður-Ameríku, að minnsta kosti ekki í samanburði við það sem aðrir Evrópubúar gerðu eftir 1492.

Slíkar sögur lúta lögmálum frásagnarinnar: það verður að vera aðalpersóna og gerðir hennar verða að hafa sæmilega skýrt upphaf og skilgreinanlegar afleiðingar. Það er erfitt að segja sögu um landnám nema það sé einhver skilgreindur gerandi sem gerir markverða hluti á ákveðnum stað og á ákveðnum tíma. Landnámssögur lúta hins vegar ekki lögmálum raunveruleikans. Raunveruleikinn er iðulega lítið annað en kássa af samhengislausum atburðum og nafnlausu fólki sem hegðar sér alls ekki eins og sögupersónur. Landnám gerist í raun ekki eins og sögur um það bera með sér; það hefur ekki eitt ákveðið upphaf og það er ekki hægt að skilgreina það út frá einstaklingum eða verkum þeirra.
Upphafsmýta Bandaríkjanna segir til dæmis frá því þegar skipverjar á Mayflower stigu á land á Plymouth Rock í Massachusetts árið 1620 en er það upphaf landnáms Evrópumanna á þeim slóðum? Sumir rekja upphafið frekar til þess að Plymouth-félagið fékk konunglega heimild til landnáms þar sem nú er Nýja England árið 1606 og stofnaði skammlífa nýlendu í Popham í Maine árið eftir. Aðrir benda á aðra staði þar sem Evrópumenn voru löngu búnir að koma sér fyrir þegar Mayflower bar að landi, frá Red Bay á Labrador (frá um 1550) til Jamestown í Virginíu (1607), St. Augustine í Flórída (1565) og Santa Fe í Nýju Mexíkó (1598). Fyrir öðrum eru þetta allt afleiðingar af því að Kólumbus fann Ameríku árið 1492 og enn öðrum sýnist að allir þessir atburðir séu aukaatriði í meir en fimmtán þúsund ára sögu mannvistar í Ameríku. Hvenær byrjaði þá landnám í Ameríku?

Hvalstöð

Leyfar eldhólfs hvalsbræðslu á Asknesi í Mjóafirði.

Margir myndu segja að landnámssögur geymi kjarna málsins. Að það skipti ekki svo miklu máli að einhverjir Baskar voru að veiða hvali við Labrador á 16. öld enda leiddi það hvorki til varanlegrar byggðar þeirra þar né hafði það nein sýnileg áhrif á seinni þróun. Að það séu fremur atburðir eins og koma Mayflower sem lýsa því sem markvert er: koma fólks með þekkta afkomendur sem leiddi til samfelldrar sögu og vaxandi byggðar, og sem þar að auki gerði með sér sáttmála – Mayflower compact – sem markar upphaf hugmyndarinnar um sérstakt samfélag Evrópumanna á austurströnd Norður-Ameríku. Þessu má halda fram en þegar spurt er um upphaf landnáms verður að skilgreina hvað það er sem maður á við: er það þegar landið var uppgötvað, þegar fyrsta tilraunin var gerð til að búa þar eða þegar slík tilraun bar fyrst árangur sem skilaði sér í varanlegri byggð? Eða var það sú varanlega byggð sem hafði mest áhrif á síðari þróun sem skiptir mestu máli að halda á lofti?

Mayflower

Mayflower.

Í íslenskri sagnahefð skipar Ingólfur Arnarson sams konar sess og Mayflower í bandarískri. Sagan um hann markar það upphaf sem Íslendingum, frá 12. öld að minnsta kosti, hefur þótt skipta máli. Hún lýsir upphafi samfelldrar byggðar fólks sem átti eitthvað undir sér og átti þekkta afkomendur sem þar að auki voru lykilmenn í þróun laga og réttar á fyrstu áratugum íslensks samfélags. Aðrar sögur eru til, um Naddoð, Garðar og Hrafna-Flóka að ekki sé minnst á Náttfara (sem fær ekki að vera fyrsti landnámsmaðurinn, ekki af því að hann hafi ekki verið það, heldur af því að hann var ekki nógu fínn pappír).

Skarðsbók

Skarðsbók Landnámu.

Sagnahefð okkar er nógu rík til að fólk getur á grundvelli hennar einnar saman valið sér mismunandi áherslur og haft ólíkar skoðanir á hvað það var sem skipti máli. Í einu af handritum Landnámu, Skarðsárbók, hefur einhver skemmt sér við að setja ártöl á spássíuna hjá sögunum um landkönnuðina. Samkvæmt því kom Naddoður til Íslands árið 770. Af hverju skyldum við ekki taka mark á þessu og nota sem upphafsár landnáms á Íslandi?
Í hugum Íslendinga er landnám Íslands órjúfanlega tengt þessum sögum og flestum finnst erfitt að hugsa um það án tilvísunar til þeirra. Á síðastliðnum áratugum hafa hins vegar verið að koma í ljós æ fleiri fornleifar sem knýja okkur til að hugsa öðruvísi um landnámið. Þær sýna að mikill fjöldi fólks tók sér bólfestu á Íslandi skömmu eftir að mikið gjóskulag, svokallað landnámslag, sem þekur um tvo þriðju hluta landsins, féll um 870.

Torfbær

Torfbær.

Fyrir lok 9. aldar var komin byggð á smákotum upp til heiða jafnt sem góðbýlum á láglendi og bendir það til þess að landnámið hafi gengið mjög hratt fyrir sig. Það sést einnig af því að í byrjun 10. aldar hafði orðið gerbreyting á gróðurfari landsins: þar sem áður voru samfelldir birkiskógar voru nú grasmóar. Fornleifar sem örugglega eru frá seinni hluta 9. aldar og þeirri 10. eru mjög miklar að vexti og í samanburði við þær eru vísbendingar um eldri mannvist hverfandi. En þær eru þó til og hefur fólki eðlilega orðið starsýnt á þær: gætu þær bent til þess að fólk hafi verið komið til Íslands löngu áður en Ingólfur á að hafa stigið á skipsfjöl?

Landnámslagið

C-14 aldursgreining byggist á kolefni 14 (C-14, C14 eða 14C), sem er samsæta kolefnis, sem inniheldur 6 róteindir og 8 nifteindir í kjarna. Þessi kolefnissamsæta er geislavirk og klofnar með beta klofnun og myndar köfnunarefni. C-14 er til staðar í öllu náttúrulegu kolefni í hlutfalli sem er nokkurn veginn 1:1012. Helmingunartíminn er 5730±40 ár, sem samsvarar því að í einu grammi kolefnis úr lifandi lífveru verði um það bil 14 klofnanir á mínútu.
Á þessu byggist C-14 aldursgreiningin. Þegar lífvera deyr hættir hún að sjálfsögðu að taka til sín kolefni, en það kolefni sem er til staðar klofnar í sífellu og breytist þá hlutfall geislakolsins með tímanum. Með því að mæla það hlutfall geislakols, sem til staðar er má meta hve langt er síðan lífveran, sem hið lífræna sýni er komið frá, lauk ævi sinni. Sé eitthvert mælanlegt magn geislakols til staðar, gefur það til kynna að aldur sýnisins sé mjög lítill í jarðsögulegum skilningi. Til dæmis eru jarðolía og kol of gömul til þess að magn geislakols í þeim sé mælanlegt.

Tvær hliðar eru á þessu máli. Annars vegar snýst það um ákveðna tímasetningaraðferð, kolefnisaldursgreiningu. Sú aðferð hefur þann kost að hún gefur aldur á lífrænum leifum óháð samhengi. Hún er sjálfstæð og þegar henni var fyrst beitt á leifar frá upphafi Íslandsbyggðar virtist hún sýna að landnám gæti hafa hafist allt að 200 árum fyrr en talið hafði verið. Á þeim tíma var ekki búið að tímasetja landnámslagið og þá snerust deilur vísindamanna um tímasetningu landnáms í raun um hversu gamalt landnámslagið væri – það var innan ramma hins mögulega að lagið væri mun eldra og þar með öll byggð sem hægt var að tímasetja út frá því. Árið 1995 var sýnt, með tilvísun í lagskiptingu vegna bráðnunar íss á yfirborði Grænlandsjökuls, að landnámslagið hefði fallið á árunum 869-73. Þar með dró kraft úr þessum deilum því þó að á tveimur stöðum hafi fundist torfveggir undir landnámslaginu þá hafa hvergi fundist nein yfirgefin hús, hvergi neinar grafir, öskuhaugar eða gripir sem sannarlega eru undir þessu lagi og þar með eldri en það.
Á fjölmörgum stöðum eru hins vegar merki um mannvist beint ofan á landnámslaginu sem sýnir að veruleg breyting verður ekki fyrr en eftir að lagið féll. Eftir standa allmargar kolefnisaldursgreiningar sem virðast benda í aðra átt. Margar hafa einfaldlega verið túlkaðar vitlaust: skekkjumörkin eru oft víð og ná iðulega fram yfir 870 þó miðgildið sé mun eldra og þó það sé freistandi að horfa á miðgildið þá er það ekki líklegri aldur á tilteknu sýni en gildin til endanna á líkindadreifingunni.

Hrísbrú

Hrísbrú – uppgröftur.

Ýmiss konar vandræði geta verið með tæknileg atriði eins og hlutfall geislavirks kolefnis í umhverfinu og eiginn aldur sýnanna en meginatriðið er að ekkert einasta sýni sem gefur svo háan aldur er sannarlega tekið úr lögum sem eru eldri en landnámslagið. Sýnin eru annaðhvort tekin úr lögum sem eru sannarlega yngri en landnámslagið eða þau eru úr óþekktu samhengi (sem þýðir líka að þá er óvíst hvað þau eru að tímasetja).
Þetta þýðir ekki að fólk hafi ekki verið komið til Íslands fyrir 870 og er það hin hlið málsins. Torfveggirnir tveir sýna raunar ótvírætt að fólk var komið til Íslands áður en landnámslagið féll en þeir skera ekki úr um hvort það hafi verið nokkrum mánuðum fyrr eða áratugum.

Húshólmi

Húshólmi – garður. Landnámslagið er í garðinum.

Undir landnámslaginu hafa fundist frjó sem gætu verið úr korni, kolasalli sem gæti stafað af bruna af mannavöldum og ummerki um að birkiskógarnir hafi verið byrjaðir að minnka áður en lagið féll. Þá eru nokkrir gripir til sem geta hafa verið komnir til landsins fyrir 870. Engar af þessum vísbendingum eru ótvíræðar en þær koma heim og saman við þá hugmynd að fólk hljóti að hafa verið komið til Íslands allnokkru fyrir 870.
Það er ekki einfalt mál eða auðvelt að nema land þar sem enginn býr og það myndi gera það miklu skiljanlegra sem gerðist á árunum eftir 870 ef við gerum ráð fyrir því að fólk hafi þá verið hér á ferli um hríð til að kanna landið, gera tilraunir með búskap og koma upp bústofni.

Húshólmi

Húshólmi – skáli. Skráð fornleif, sennilega sú elsta hér á landi.

Einkum og sér í lagi verður allt auðveldara ef fólkið sem kom eftir 870 hefur getað keypt eða leigt búfé sem þegar var búið að rækta. Það eru getgátur einar að svo hafi verið en það er ekkert í fornleifaheimildunum sem útilokar að Ísland hafi fundist og það hafi verið kannað áratugum, og jafnvel öldum, áður en stórfellt landnám hófst, né að fólk hafi verið byrjað að prófa sig áfram með búskap nokkrum áratugum fyrr. Það getur ekki hafa verið mjög víða eða í stórum stíl en nógu mikið til að gera eftirleikinn mögulegan.
Kolefnisaldursgreiningarnar sem notaðar hafa verið til að rökstyðja landnám á 7. öld stafa ekki frá slíkri frumbyggð. Þær tengjast allar byggðinni sem reis eftir 870. En það þýðir ekki að fólk hafi ekki getað verið hér á ferli á 7. eða 8. öld.“

Heimild:
-https://www.visindavefur.is/svar.php?id=64420

Hellir

Hellir landnámsmanna, Papa eða Kelta, á Suðurlandi.

Grímslækur

FERLIRsfélagar ákváðu einn góðan sumardagsmorgun að leita að og skoða Borgarhólsborgina á Efri-Grímslæk í Ölfusi, tvíræðan Hjallhólinn þar neðan við og örnefnið Krossmóa á millum bæjarins og Ytri-Grímslækjar. Þá var ætlunin að skoða Þúfustekk í Krögghólsstaðartorfunni suðaustan Krögghólsstaðarstekks (-borgar) sem og að lokum Breiðabólstaðaborgina.

Ölfus

Aðalskráning fornleifa í Ölfusi I – 2015; forsíða.

Í „Aðalskráningu fornleifa í sveitarfélaginu Ölfusi – Áfangaskýrslu I“ frá árinu 2015 má m.a. lesa eftirfarandi um Efri-Grímslæk:
„1847: Bændaeign, 5 hdr. JJ, 76.
1542: Getið í kaupbréfi. DI XI, 146
1551: Getið í kaupbréfi. DI XII, 307
1708: „Ein jörð að fornu. En fyrir manna minni sundurdeild í tvo bæi […] Kallast annað býlið Efre Grimslækur, en annað Sudre Grimslækur. Dýrleiki á báðum saman er x, v hver partur.“ JÁM II, 428. Ekki er vitað hvort Ytri-eða Efri-Grímslækur er upphaflega býlið.
1917: Tún 3.5 ha, 3/4 slétt. Garðar 1002 m2. „Grímslækir eru tveir, Efri-Grímslækur og Ytri-Grímslækur.
Túnin liggja saman“ Ö-Grímslækir, 1.“

Um Hjallhól segir; „þjóðsaga/hjallur

Hjallhóll

Hjallhóll.

„Í Miðtúni efst, uppi við veginn út að Hrauni, er allstór hóll sem heitir Hjallshóll eða Hjallhóll að sögn heimamanna, en Guðjón á Ytri-Grímslæk kallar hann Hjallhól. Á hólnum er hjallsrúst. Þar var leikvangur barna í eina tíð. Í Hjallshól bjó huldufólk áður,“ segir í örnefnalýsingu. Hjallhóll er 150 m norðvestan við bæ. Hjallhóll er fast austan við malarveg að Ytri-Grímslæk og Hrauni. Við norðausturhorn hólsins er braggi. Grasivaxin tún eru til allra átta nema vesturs, þar er malarvegur. Hólar eru víða í túninu.

Hjallhóll

Hjallhóll.

Hjallhóll er gróinn hraunhóll, 31×25 m í þvermál, 34 m á hæð og snýr austur-vestur. Lítill hellir er norðaustan til í hólnum. Hjallurinn er horfinn en hann var úr timbri að sögn Gunnars Konráðssonar, heimildamanns. Garðlag liggur þvert yfir vesturhluta hólsins og annað hleðslubrot eftir suðurhliðinni. Samtals afmarka þau svæði sem er 20×10 m að stærð og snýr norður-suður. Garðlag liggur norður-suður yfir vesturhluta hólsins. Það er 20 m á lengd, 0,2 m á hæð og grjóthlaðið. Það má greina 1 umfar af grjóthleðslu í garðlaginu en líklega var það hlaðið undir vírgirðingu. Garðlag B er 5 m austan við garðlag A.“

Grímslækur

Grímslækur – fjárhústóft.

Suðaustan við Hjallhól er fjárhústóft, tæpa 140 m norðvestan við bæ 20 m suðaustan við Hjallhól. „Hún er rétt utan heimatúnsins eins og það er afmarkað á túnakorti frá 1920. Tóftin er líklega ekki forn en höfð hér með vegna forns byggingarlags. Miðað við stærð og gerð tóftarinnar er hér um fjárhús að ræða. Timbri og fleira rusli hefur verið safnað suðaustan við tóftina.
Fjárhúsin eru innan grasivaxins túns með grónum hraunhólum og klettum víða.
Tóftin er ofan á grónum hraunhól en klettar eru norðan og sunnan í hólnum. Fjárhúsin eru 7×6 m að stærð, einföld og snúa norðvestur-suðaustur. Timburdyr eru suðaustan í tóftinni og standa þær enn. Þakið er fallið inn í tóftina og rusl þar yfir í norðurhluta. Veggirnir eru hlaðnir, 1-1,3 m á hæð. Ekki sést glitta í skýr umför heldur glittir víða í grjót. Ofan á veggjunum er bárujárn, fiskinet, plast og timbur.“

Grímslækur

Borgarhólsborg.

Í örnefnalýsingu fyrir Ytri-Grímslæk segir: „Klapparhóll og tóft af fjárborg. Nálægt miðju svæðisins er lágur klapparhóll og utan í honum er tóft af fjárborg. Var fjárborgin notuð af bændum í sveitinni fyrr á öldum og þá fyrst og fremst til að skýla sauðfé í vondum veðrum. (Munnleg heimild: Gunnar Konráðsson, nóvember 1997). Hóllinn og fjárborgin setja skemmtilegan svip á landslagið. Fjárborgin telst orðið til fornleifa þar sem hún er eldri en 100 ára og af þeirri ástæðu skal ekki gróðursetja nær ystu mörkum hennar en 20 m. og er það í samræmi við þjóðminjalög.“

Grímslækur

Grímslækur – tóftir Ytri-Grímslækjar.

Ekkert íbúðarhús er að Ytri-Grímsstöðum, einungis tóftir þess og útihúsa. Tekið var hús á ábúanda Efri-Grímslækjar, Gunnari Gunnarssyni, syni Gunnars Konráðssonar og barnabarni Konráðs Einarssonar, fyrrum bónda á sameiginlegri jörðinni. Gunnar tók mjög vinsamlega á móti aðkomandi. Eftir stutt spjall benti hann þeim á Borgarhólinn, skammt ofan við gatnamótin að bænum, áberandi hóll með hárri fuglaþúfu. Sagði hann Hjallhól vera neðan vegar, enda mætti enn sjá leifar hjallsins á hólnum.

Grímslækur

Grímslækur – Borgarhólsborg.

Þegar nánar var að gáð kom í ljós að fornleifaskráendur höfðu skráð og merkt Hjallhól sem Borgarhól, lýst honum sem slíkum en bæði lýst hjallhólsminjunum og fjárborgarminjunum á sama staðnum. Þarna hafði greinilega eitthvað misfarist í úrvinnsluskrifmeðförum.

Í fornleifaskráningunni er „Borgarhóli“ lýst með eftirfarandi hætti: „Borgarhóll/tóft/hjallur: „Ofan vegarins út að Hrauni, vestan við heimvegarhliðið, er allstór hóll sem heitir Borgarhóll.

Grímslækur

Grímslækur – Borgarhólsborg.

Á honum er rúst (hjalls),“ segir í örnefnalýsingu. Borgarhóll er tæpa 240 m norðvestan við bæ og 80 m norðan við Hjallhól. Hóllinn er stór og víðsýnt ofan af honum. Að sögn Gunnars Konráðssonar, heimildamanns, var byggður timburkofi á Borgarhól af breska hernum meðan á hernámi þeirra stóð hérlendis á tímum seinni heimsstyrjaldarinnar. Húsið stóð þar í einhver ár en fauk síðan og engin ummerki þess sjáanleg. Um 10 m austan hólsins er malarvegur að Hrauni.
Slétt, grasivaxið tún er til allra átta frá Borgarhól. Gaddavírsgirðing liggur eftir vesturhlið hólsins.

Grímslækur

Grímslækur – borgin á Borgarhól.

Þá segir: „Borgarhóll er stór hraunhóll, gróinn að hluta. Hann er 20-30 m í þvermál og 2-2,5 m á hæð. Í auðausturenda hólsins er grjóthlaðin tóft á milli tveggja kletta. Tóftin er 8×8 m að stærð og skiptist í tvö hólf. Hólf 1 er sunnar. Það er 7×4 m að innanmáli og snýr austur-vestur. Veggirnir eru 0,2 m á hæð og sést 1 umfar af grjóthleðslu í þeim. Klettur afmarkar suðurhlið hólfsins. Hólfið var líklega opið til vesturs en þar afmarkast tóftin öll af þýfðum bakka. Hólf 2 er norðar. Það er 7×3 m að stærð og snýr austur-vestur. Veggirnir eru 0,2-0,3 m á hæð og einungis 1 umfar af grjóthleðslu í veggjum. Hólfið var líklega opið til vesturs og grjót borið úr veggjum, þeir eru það lágir.“

Grímslækur

Grímslækur – fjárrétt.

Falleg lítil fjárrétt er skammt norðan við Hjallhól. Í fornleifaskráningunni segir: „Gerði/rétt: „Tæpum 200 m norðan við bæ og rúmlega 30 m vestan við Kishól er fjárrétt. Hún er líklega einungis nokkurra áratuga gömul en höfð í þessari skrá sökum forns byggingarlags. Réttin er 30 m austan við malarveg að bænum.
Óræktað, gróið tún með hraunhólum og stökum klettum er norðan við réttina. Gaddavírsgirðing liggur til norðvesturs og austurs frá réttinni. Girðingin afmarkar slétt, grasivaxið tún sunnan við réttina.
Réttin er 16×11 m að stærð, einföld og snýr norðaustur-suðvestur. Réttin er grjóthlaðin og veggirnir standa enn.
Þeir eru 2-3 m á breidd, 0,5-1,3 m á hæð og sést glitta í 3-6 umför grjóthleðslu í þeim. Op inn í réttina er í norðvesturhorni og liggur gaddavírsgirðing frá því til tveggja átta líkt og lýst er hér ofar. Timburgrind er í opinu til varnar búfénaði. Inni í réttinni og ofan á veggjum er rusl, m.a. timbur, járn og girðingarefni.“

Um Ytri-Grímslæk segir í heimildum:

Grímslækur

Grímslækur – „minnismerki“ um fyrrum heitavatnsæðina að Þorlákshöfn ofan svæðis.

„1847: Bændaeign, 5 hdr. JJ, 76.
1542: Getið í kaupbréfi. DI XI, 146
1551: Getið í kaupbréfi. DI XII, 307
1708: „Ein jörð að fornu. En fyrir manna minni sundurdeild í tvo bæi […] Kallast annað býlið Efre Grimslækur, en annað Sudre Grimslækur. Dýrleiki á báðum saman er x, v hver partur.“ JÁM II, 428. Ekki er vitað hvort Ytri-eða Efri-Grímslækur er upphaflega býlið. Ekki er föst ábúð á jörðinni heldur er hún nýtt til hrossabeitar.
1917: Tún 3.4 ha, 6/7 slétt. Garðar 1514 m2. „Grímslækir eru tveir, Efri-Grímslækur og Ytri-Grímslækur.
Túnin liggja saman“ Ö-Grímslækir, 1.“

Á milli bæjanna Efri- og Ytri-Grímsstaðir er merkilegt örnefni: „Krossmói/heimild/nátthagi. Í kaupbréfi jarðarinnar Hrauns frá 1551 segir:: „svo og skildi herra Ellendur fra ij stags eingi j Lanbeyrvm og þad eingi sem krosinum á Grimslæck til heyrir.“ „Í mörkum milli bæjanna (Efri- og Ytri-Grímslækjar, niður við mýrina, er stórþýfður mói, vel hálfur frá Efri-Grímslæk. Móinn heitir Krossmói. Þar myndi krossinn helgi, sem nefndur er í Íslenzku Fornbréfasafni, er mér tjáð, staðið hafa.“ segir í örnefnalýsingu.

Grímslækur

Grímslækur – Krossmói.

Krossmói er 80 m norðan við bæ, rétt sunnan við landamerki Efri-Grímslækjar. Þar er grasivaxin, lág hraunbrún og mýrlent austan hennar. Ekki er vitað hvar krossinn stóð. Að sögn Gunnars Konráðssonar, heimildamanns, var þarna nátthagi fyrir kýr en engin tóft.“

Í örnefnalýsingu um Grímslæki segir m.a.: „Grímslækir eru tveir, Efri-Grímslækur og Ytri-Grímslækur. Túnin liggja saman. Efri-Grímslækur heitir eystri bærinn. Heimildarmenn: Konráð Einarsson, f. 21/11 1898 á Efri-Grímslæk. Hefur verið þar síðan. Guðjón Eyjólfsson, f. 21/1 1898 á Ytri-Grímslæk. Hefur verið þar síðan. Systkini Konráðs, Ólafur, Kristinn og Sigurbjörg, sem öll ólust þar upp. Forfeður þeirra Grímslækjar manna hafa verið þar í marga ættliði. – 26. ágúst 1968; Eiríkur Einarsson.“

Kröggólfsstaðir

Þúfustekkur.

Í örnefnalýsingu fyrir Kröggólfsstaðatorfu segir m.a.: „Jarðirnar í henni eru: Kröggólfsstaðir, Þúfa og Vötn, auk þess voru hjáleigur á Kröggólfsst. og Þúfu (jarðab. Á.M). Hver jörð hafði sitt deilt tún og engi, en beitiland var óskipt. Hlutur Kröggólfsstaða var bestur, enda mun hún hafa verið talin aðaljörðin. Nú mun vera búið að skipta beitilandi, en þau uppskipti eru utan við þessa skrá. Heimildarmenn eru: Eggert Engilbertsson í Hveragerði fyrir Kröggólfsstaði og sameiginlegt beitiland. Hann er fæddur á Kröggólfsstöðum 27. júlí 1904, og átti heima þar til 1929. Faðir hans og afi bjuggu og á Kröggólfsstöðum. Sá ættleggur mun hafa búið þar hátt í 200 ár.“

Kröggólfsstaðastekkur er gróinn hóll með leifum af stekk, fast sunnan við þjóðveginn norðaustur af Krossgötum. Skammt suðvestar er svo Þúfustekkur, síðar sauðahús, aflagt vegna þess að bráðapest var þar mögnuð.

Þúfustekkur

Þúfustekkur – uppdráttur ÓSÁ.

Í „Aðalskráningu fornleifa í Ölfusi – Áfangaskýrslu II“ frá árini 2017 segir m.a.:
„Þúfustekkur/tóft/stekkur; „Þúfustekkur: Hóll austur af Krst. stekk. Þar var gamall stekkur, síðar sauðahús, aflagt vegna þess að bráðapest var þar mögnuð.“ segir í örnefnalýsingu. Þúfustekkur er tæpa 1,2 km norðan við Þúfu og 180 m austan við Kröggólfsstaðastekk. Tóftin er 2 m vestan við vírgirðingu á merkjum Þúfu og Kröggólfsstaða en var áður í sameiginlegu beitarlandi.
Gróið hraun og mói. Víða kemur grjót í gegnum svörð. Móinn er þýfður og flatur. Hér og þar eru lágir hraunhólar, tóftin er á einum slíkum.
Tóftin er 21 x 7 m að stærð, snýr NNV-SSA og skiptist í tvö hólf eða byggingarstig. Beitarhúsið er sunnar og stekkurinn er norðar. Lýsingin hefst til suðurs í hólfi 1 sem er beitarhúsið. Það er 11 x 3 m að innanmáli og snýr NNV-SSA. Veggirnir eru grjóthlaðnir, 0,5 – 0,8 m á hæð, 2 m breiðir og má sjá 2-3 umför af grjóthleðslu í þeim. Víða er tekið að hrynja úr veggjunum að innan og gróið yfir hleðslurnar.

Breiðabólastaður

Breiðabólstaðaborg.

Um Breiðabólsstað í framangreindri fornleifaskráningu segir:
„1847: Bændaeign. 40 hdr. með Vindheimum ÁR-545. JJ, 76
1397: Getið í Vilchinsmáldaga. DI IV, 98-99.
1523: Getið í kirkjureikningum. DI IX, 158-159.
1542: Getið í kaupbréfi. DI XI, 146
1551: Getið í kaupbréfi. DI XII, 307
1561: Getið í tylftardómi. DI XIII, 622-623
1575: Getið í Gíslamáldaga. DI XV, 642.
1708: „Jarðdýrleiki xl og so tíundast fjórum tíundum.“ JÁM II, 439.
„Kirkja var þar samkvæmt gömlum heimildum.“ segir í Sunnlenskum byggðum III.
1917: Tún 5 ha, 9/10 slétt. Garðar 1050 m2.“

 Breiðabólstaðaborg

Breiðabólstaðaborg.

Í skráningunni segir um Breiðabólsstaðarborg: „tóft/fjárskýli:
Litlu austar [en Steingríms gamla-stekkatún] er hár stórgrýtishóll, með rúst. Hann heitir Breiðabólsstaðarborg, oft Breiðaborg,“ segir í örnefnalýsingu. Breiðabólsstaðarborg er tæpum 1 km ANA við bæ og 700 m norðaustan við Stekkjatún. Fjárborgin er áberandi þegar ekið er eftir Hlíðardalsvegi. Víðsýnt er frá fjárborginni til allra átta.
Gróið hraun er allt umhverfis hólinn sem fjárborgin er á. Þar vex mosi, gras og lyng. Klettar koma víða uppúr sverði.

Grímslækur

Grímslækur – Borgarhóll.

Fjárborgin er efst á grónum hraunhól. Klettar eru á hólnum og er fjárborgin hlaðin á milli þeirra. Klettarnir eru suðvestan, suðaustan og norðaustan við tóftina. Fjárborgin er sunnarlega á hólnum og er ferhyrningslaga. Hún er 8×8 m að stærð, einföld og grjóthlaðin. Veggirnir eru 0,2-0,5 m á hæð og 1 umfar af stóru grjóti sést í þeim. Það er tekið úr hólnum sjálfum og er ekki verið hentugt í hleðslur. Vesturveggurinn er best varðveittur og þar eru 2-3 umför af grjóti. Op er í norðvesturhorni en hrunið er fyrir það að mestu. Til norðurs frá fjárborginni, uppi á hólnum er grasivaxið svæði og hleðsla þar á brúninni. Mögulega eru þetta ummerki um aðrekstrargarð eða annað hólf. Hleðslan samanstendur af einföldri steinaröð.“

Með framangreindri skoðun kom glögglega í ljós að ekki fara alltaf saman „hljóð og mynd“ þegar fornleifaskráningar og örnefnalýsingar eru annars vegar…

Heimildir m.a.:
-Aðalskráning fornleifa í sveitarfélaginu Ölfusi – Áfangaskýrsla I, Reykjaavík 2015.
-Aðalskráning fornleifa í Ölfusi – Áfangaskýrsla II, 2017.
-Örnefnalýsing fyrir Efra- og Ytri Grímslæk í Ölfusi.
-Örnefnalýsing fyrir Kröggólfsstaði í Ölfusi.
-Örnefnaskrá fyrir Breiðabólstað í Ölfusi.

Grímslækur

Grímslækur – fjáborgin á Borgarhól – uppdráttur ÓSÁ.

Hengill

Í Hveradölum undir Hellisheiði er göngubrú um hluta hverasvæðisins. Við brúna eru sex upplýsingaskilti. Á þeim má lesa eftirfarandi fróðleik:

Háhitasvæðið í Hveradölum

Hveradalir

Sprungusveimar Reykjanesskagans.

Hveradalir eru grasigrónar hvilftir í suðvestanverðu Stóra-Reykjafelli, í sunnanverðum Henglinum. Stóra-Reykjafell er forn gígur sem myndaðist í gufusprengigosi á íslöld og eru hliðar hans myndaðar úr móbergstúffi. Miðja þess forna sprengigígs nefnist Stóridalur. Hverasvæðið í Hveradölum tilheyrir hverasvæðinu á Hellisheiði, sem er eitt af fjölmörgum háhitasvæðum Hengilssvæðisins.
Eldstöðvakerfi Hengilsins liggur austast í röð fimm eldstöðvakerfa Reykjanesskagans. Gosbeltin raða sér á skýrt afmarkaðar sprungureinar sem liggja skástígar eftir skagagnum endilöngum. Gosbelti Reykjanesskagans er eitt af virkustu eldvirknisvæðum landsins. Eldstöðvakerfi Hengilsins er nokkuð frábrugðið hinum kerfunum þar sem það er eina megineldstöðin á skaganum, með tilheyrandi kvikuhólfi og súrri gosvirkni.

Hengill

Hengill.

Hengillinn er virk megineldstöð og liggur sprungurein eldstöðvakerfisins frá Selvogi á Reykjanesi í suðvestri og um 50 til 60 km leið norðaustur fyrir Þingvallavatn. Eldstöðvarkerfið er um 5 til 10 km breitt. Breiðast er það um Þingvallavatn en mjókkar til suðvesturs.
Eldstöðvakerfið nær yfir um 100 km2 og er eitt af stærstu háhitasvæðum landsins að finna á svæðinu. Eldstöðvarkerfið samanstendur af þremur megineldstöðvum; Hveragerði – Grændalur sem er elsta kerfið (300.000-700.000 ára gamalt); Hrómundartindur (sem er yngri en 115.000 ára) og Hengillinn sem er enn virkur í dag.
Vitað er um þrjú eldgos á nútíma (síðastliðin 10.000 ár) sem tilheyra virkri eldstöð Hengilsins, en þar gaus síðast fyrir um 2000 árum.

Borholur

Hengill

Hengill – borhola.

Árið 1986 var boruð 50 m djúp hola við hliðina á Skíðaskálanum í Hveradölum. Tilgangur borunarinnar var að kanna hvirt nýta mætti jarðhita á svæðinu til upphitunar. Önnur 100 m djúp hola var síðan boruð árið 1993 og er það sú hola sem hér má sjá sunnan megin við stíginn. Í dag er heita vatnið nýtt til upphitunar á Skíðaskálanum.
Lónið sem göngustígurinn liggur yfir er mangert en þar safnast saman heitt vatn sem er afrennsli frá hverasvæðinu. Útfellingarnar sem sjást í vatninu myndast þegar uppleyst steinefni, einkum kísill, falla út þegar hveravatnið kemur upp á yfirborð jarðar og kólnar.

Hvað er háhitasvæði
Um 20 háhitasvæði er að finna á Íslandi og eru þau öll staðsett á og við virk gos- og rekbelti landsins.
HengillHáhitasvæði eru oft staðsett í miðju eldstöðvakerfa og eru skilgreind þar sem hiti jarðhitavökva er yfir 200°C á 1000 m dýpi. Til þess að jarðhitavökvinn nái þessu hitastigi þá þarf hitagjafa sem er annað hvort grunnstætt kvikuhólf eða kvikuinnskot þar sem hiti kvikunnar hetur verið allt að 1000-1200°C.
Við upphitun grunnvatnsins breytist eðlilþyngd þess. Gastegundir sem losna úr heitri kvikunni blandast við grunnvatnið og berast með því til yfirborðs sem eðlislétt súrt jarðhitavatn eða gufa. Dæmi um þessi gös eru brennisteinsvetni (H2S) sem veldur hverafýlu, brennisteinstvíoxið (SO2) og koltvísýringur (CO2),
HengillÁ leið sinni til yfirborðsins þá sýður þessi heiti og súri jarðhitavökvi jarðlögin sem hann fer í gegnum. Við það vera efnaskipti milli vatnsins og bergsins og steindir leysast upp. Í heitu jarðhitavatni er því mikið magn uppleystra efna, svo sem kísill, kalk, brennsiteinn og fleiri efni.
Á hverasvæðinu í Hveradölum koma bæði fryir gufuhverir og leirhverir. Um svæðið rennur lækur og er grunnvatnsborð háhitasvæðisins því nokkuð hátt, en þó breytilegt.
Hæð vatnsyfirborðs í lóninu sveiflast með grunnvatnsstöðu svæðisins. Stundum er hér lón og stundum er allt skrjáfaþurrt á öðrum dögum.
Grunnvatnsstaða jarðhitasvæðsins ræðst af úrkomu og leysingum en háhitavatnið sem kemur upp undir Hengli á uppruna sinn í Langjökli þaðan sem það rennur sem grunnvatn í Þingvallavatn og þaðan undir Hengilinn.

Garðyrkjubúið í Hveradölum

Hveradalir

Hveradalir – hús Höyers.

Undir fótum þínum stóð eitt sinn gróðurhús sem nýtti jarðvarma. Sú bygging var partur af garðyrkjubýli sem byrjað var að byggja hér í Hveradölum árið 1927 af hjónunum Anders C. Höyer frá Danmörku og Ericu Hartmann frá Lettlandi. Árinu eftir að Anders hjálpaði við byggingu fyrsta garðyrkjubýlisins á Íslandi þar sem treyst var á ylrækt, en það býli var Blómvangur í Mosfellsbæ.
Íslenskir bændur höfðu nýtt náttúrulega heitan jarðveg til að rækta kartöflur og annað grænmeti í langan tíma áður en garðyrkja í gróðurhúsum sem nýtti jarðvarma varð til á fyrri hluta 20. aldar, svo þetta var kærkomin nýjung sem auðveldaði ræktun til muna.

Hveradalir

Hveradalir – tóftir af húsi Höyers.

Anders sem var áhugasamur blaðamaður um garðyrkju var nýkominn til Íslands þegar hann fékk leyfi til að setjast að í Hveradölum ásamt konu sinni sem flutt hafði til íslands frá lettlandi um sumarið. Þau fluttu hingað upp á heiðina um haustið og bjuggu í tjaldi þar til þau höfðu byggt bæinn sinn sem upphitaður var með jarðvarma. Þau gifta sig svo á bænum í viðuvist sendiherra Dana, þann 27. október 1927. Lífið hefur ekki verið auðvelt, að minnsta ekki til að byrja með en hjonin eru fljót að koma sér upp húsaskjóli og geta í framhaldi af því þróað áfram uppbyggingu og tryggt þannig lífsviðurværi sitt.

Hveradalir

Hveradalir – tóftir Höyers.

Í gróðurhúsum ræktuðu þau fyrst um sinn begóníur en fara síðan að rækta rósir í blómapottum eftir að þau stækka gróðurhúsið árið 1929. Þau veiða líka rjúpur og brugga heimagert öl úr íslenskum jurtum sem þau selja vegfarendum ásamt því að bjóða upp á leirböð. Þau selja einnig vörur sínar á torgum í reykjavík.
Árið 1934 byggir Skíðafélag Reykjavíkur skála við hlið þeirra í Hveradölum og hefur þar greiðasölu. Nálægðin við skálann þrýstir á að þau flytja burt og koma sér upp heimili við Gunnuhver á Reykjanesi, þar sem þau reyna áfram að reka svipaða starfsemi og í Hveradölum, áður en þau flytja til Danmerkur 1937. Reynslan úr Hveradölum virðist hafa verið hjónum góð, því Erica á að hafa sagt þegar hún leit yfir líf sitt: „Bara að við hefðum aldrei farið úr Hveradölum“.
Húsin stóðu hér undir hlíðinni norðanmegin við stíginn þar sem enn sjást tóftir.

Tegundir hvera á háhitasvæðum

Hveradalir

Hveradalir – leirhver.

Helstu yfirborðeinkenni háhitasvæða eru margbreytilegir gufu- og leirhverir. Víða má sjá ummyndað berg á yfirborði þessara svæða og er liatdýrð oft mikil vegna hverasalta. Á einstaka háhitasvæðum þar sem grunnvatnsstaða er há, má sjá goshveri sem þeyta vatns- og gufustrókum upp úr jörðu með reglulegu millibili.
Stóri hverinn sem er hér norðan megin viðð göngustíginn er leirhver. leirhverir myndast þar sem bergið hefur brotnað niður vegna efnaveðrunar frá súrri jarðgufu. Til að slík fyrirbæri myndist þarf að vera hæfilega mikið yfirborðsvatn eða þéttivatn í gufunni. Leirinn samanstendur af vatni og soðnu umbreyttu bergi og ræðst þykkt hans af framboði yfirborðvatns.
Hér má sjá jarðhitagufu og

Hverasvæði

Hverasvæði.

gös streyma upp til yfirborðsins. grunnvatnið hitnar og súr vökvinn leyrir upp bergið sem umbreytist í leir. leirinn sýður og vellur, þeytist upp á brúnir hversins og myndar gráleita kápu. Grár litur leirsins stafar yfirleitt af örsmáum kristöllum brennisteinskíss (FeS).
Á svæðinu má jafnframt finna gufuhveri en þeir myndast þar sem grunnvatn jarðhitakerfis er það fdjúpt að einungis gufa eða gas nær upp til yfirborðs. Hiti í slíkum gufuhverum getur farið yfir 100°C við yfirborð. Vatnsgufan sem kemur upp á háhitasvæðum inniheldur líka kolsýru, vetni og brennisteinsvetni.
Vatnshverir og laugar eru algengari á háhitasvæðum, en það má finna þá hér þar sem gufan hefur blandast yfirborðsvatni.

Fyrsta hveragufubaðið
Vísir þann 27. október 1938:

Hveradalir

Hveradalir – skilti.

„Lækningakraftur hveragufunnar og hveraleirsins. Býr ísland yfir ónotuðum heilsubrunnum? – Gufuböðin við skíðaskálann í Hveradölum og dvöl manna í Hveragerði…“
„Þeir, sem hafa átt leið austur yfir Hellisheiði hafa efalaust veitt því eftirtekt, að rétt oafn við rústirnar af húsi Höyers í Hveradölum hefir risið upp lítill og snotur kofi. Yfir hann og alt um kring leggur eiminn frá brennisteinshvernum, en rör liggja úr hvernum sjálfum og inn í húsið og út um það að nýju, en þetta mun vera fyrsta baðhús á íslandi, þar sem eingöngu er notast við hveragufu til að orna mönnum og baða þá. Þetta er nýjung, sem verðskuldar full athygli, ekki síst fyrir Reykvíkinga, sem búa í nágrenninu og geta auðveldlega orðið baðanna aðnjótandi, og þá einkum skíðagarpar vorir, sem þarna iðka íþróttina mikinn hluta vetrar.“ (…)

Hveradalir

Hveradalir – tóftir baðhússins.

„Þegar inn í húsið kemur verður fyrst fyrir búningsherbergi, og er þar bekkjum fyrir komið, þannig að menn geta legið þar og fengið nudd sér til heilsubótar og hressingar, hvort sem um íþróttamenn eða sjúklinga er að ræða,…“ (…)
„Innar af baðherberginu er gangur, sem liggur inn í baðklefann og er þar komið fyrir köldu steypibaði, en það er annar þáttur gufubaðsins og engu ónauðsynlegri til þess að baðsins verði notið til fulls, Innst í húsinu er svo baðklefinn sjálfur. Hann er ekki stór, en nógu til þess að nokkrir menn geta tekið bað í einu.

Hveradalir

Hveradalir – hverinn fyrir hús Höyers og baðhúsið.

Liggja rörin frá hvernum í gegnum hann og á þeim er handfang, þannig að hægt er með einu handtaki að hleypa frá gufunni eða loka fyrir hana að fullu eða tempra hana eftir vild. Sveinn Steindórsson frá Ásum í Hveragerði hefir reist baðskála þennan og gengið haganlega frá öllum útbúnaði hans eins og að framan greinir.“ (…)
„Ef það sýnir sig að dvöl við jarðhitasvæðin er jafn heilnæm, og talið er af ýmsum, fást með reynslunni öll önnur skilyrði til frekari athafna, og mætti þá vel svo fara að Ísland yrði hressingarstaður erlendra manna, sem færði þeim flesta meina bót, og væri þá auðveldara um öll vik eftir en áður.“

Uppleyst efni í jarðhitavökva

Hveradalir

Hveradalir – hver.

Við hringrás vatns í jarðhitakerfum vera efnaskipti milli bergs og vatns þegar heitur jarðhitavökvinn leikur um bergið. Þetta ferli leiðir til þess að mikið magn uppleystra efna berst til yfirborðs með heitum vökvanum. Þegar vatnið kemur upp til yfirborðs þá kólnar það og þrýstingur lækkar. Við það mettast vatnið af efnum sem þá falla út úr vatninu.
Við uppstreymi jarðhitavökvans og gufunnar verður ummyndun á yfirborði, fyrst og fremst við suðu bergsins í brennisteinssúru umhverfi. Við þessa ummyndun leysast sumar frumeindir og gler úr berginu upp.

Hveradalir

Hveradalir – skilti.

Aðrar steintegundir endurkristallast og mynda svokallaðar ummyndunarsteindir, sem eru í jafnvægi við þær aðstæður sem ríkja við yfirborð. þannig myndast nýjar steindir við yfirborð háhitasvæða, aðallega leirsteindir, sem birtast sem hvítur, grár, gulur eða rauður leir.

Litadýrð háhitasvæða

Hveradalir

Hveradalir – hveraauga.

Leir á háhitasvæðum getur birst í ýmsum litaafbrigðum. Áberandi og einjennandi er gulur litur brennisteins (S), rauður litur steindarinnar hematíts (ferríoxiðs, Fe2O3) og dökkgrár litur leirs, sem virðist yfirleitt stafa af örsmáum kristöllum brennisteinskíss (FeS). Gifs (kalsíumsúlfat, CaSo4) er auðgreinanlegur og myndar hvítmatta kristalla. Gifs getur haft önnur litbrigði svo sem rauðlitað sökum járns eða jafnvel grænleitt vegna kopars, en það er sjaldgæft.

Lífríki háhitasvæða

Hveradalir

Hveradalir – leirhver.

Á háhitasvæðum má finna blómlegt líf þrátt fyrir að aðstæður kunni að virðast fjandsamlegar. Í hverum lifa örverur sem hafa aðlagast háum hita. Stundum má jafnvel sjá þær með berum augum, til dæmis sem hvíta þræði eða þykkar og litríkar þekjur. Örveruþekjur myndast gjarnan í affalli frá hverum og við jaðra þeirra. Þær eru oft grænar eða appelsínugular vegna þörunga, blágrænna baktería og annarra örvera sem búa yfir leitarefnum er binda sólarljós.
Í súrum og bullandi leirhverum finnast fábreytt samfélög og mjög hitakærra baktería og arkea. Þær nýta gjarnan jarðhitagasið og geta til dæmis fengið orku úr vetni eða brennisteinssamböndum og bundið koltvísýring í lífræn efni.

Hveradalir

Hveradalir – skiltin.