„Óskot er jörð í Mosfellssveit, liggur vestan við Hafravatn“ segir í „Örnefnalýsingu“ Ara Gíslasonar fyrir Óskot.

Óskot – örnefni og minjar (ÓSÁ).
Þá segir nánar: „Jörðin liggur vestanvert við Hafravatn, en sunnan við Úlfarsá. Þar sem áin kemur úr vatninu, heitir Ós, sem bærinn dregur nafn af. Nafnið er gamalt, frá því fyrir svartadauða; svo er mýri inn með vatninu, sem heitir Mómýri, og stórt, ávalt holt milli hennar og bæjarins heitir Holt. Austur af Holtinu er lítill lækur, sem heitir Rás, og þar austar er lítið holt, sem heitir Litlaholt, nær austur að á móts við bæ; þar austur af heitir Vörðuholtsmýri niður í Hafravatni (svo) og upp að holti, og efst í henni eru tvö lítil holt, sem nefnd eru Hulduhólar. Smámýrarhaft er milli þeirra. Austur af mýrinni er svo Vörðuholt, bungumyndað, hátt holt. Svo koma Eyrar, þar norðaustur frá Vörðuholti með vatninu, sléttar flatir að ánni.

Óskot – loftmynd 1996.
Þá er næst syðst og efst Hamar, há klettaborg fram við ána, og áin heitir Seljadalsá; svo er þar framhald af Hamrinum, hæðarhryggur til suðurs, sem heitir Dýjadalsmelur. Svo er þar niður af Dýjadalskjaftur, og þar upp af er Dýjadalur; eftir honum er smálækjarvætla fram í vatn, er heitir Dýjadalsrás.
Þá er næst Dýjadalshryggur, efst á honum miðjum er Þúfa, stór þúfa, stund nefnd um Dýjadalsþúfa. Svo er suðvestur af henni Þórðargjóta, smádæld grasi vaxin. Þar varð úti smalamaður frá Miðdal. Þá er þar næst Þórðargjótuhryggur, sem er þar næst, og þá kemur Óskotsheiði; þar upp af er svo Langavatn. Suður af fram í vatnið er nafnlaus tangi.

Óskot – túnakort 1916.
Svo eru Efri-Þverbrekkur, grasflatir, er liggja fram undir frá vatninu suður í heiðina. Þá er smámelbunga, er heitir Fjárhúsmelur, liggur þvert á Þverbrekkurnar; svo eru Gömluhús, þar voru beitarhús áður fyrr í heiðarbrúninni. Vestur af Fjárhúsmel eru valllendismóar, sem heita Mýrarver; þetta eru nefnd þau Efri-, en þau neðri eru í Reynisvatnslandi. Efsta mýrin upp við heiðina heitir Háavik, er í mýrarjaðri; þar austur af er svo Heybandsflöt, slétt valllendisflöt. Þá eru nafnlausar mýrar; milli þess og túns er framhald af Vörðuhólsmýri, svo er niður með heiðinni Tóft, ævagömul beitarhús; svo er aðeins neðar stór steinn á merkjum, sem heitir Skjóni. Svo er mýri, nefnd Neðrimýrar. Í henni heitir Skógarholt neðst niður við ána. Þau eru tvö, en milli þeirra er mýri, nafnlaus, en skilgreind sem Mýrin milli holtanna, Mósulind. Upp við tún er dýjavilpa í. Vestast í túni er Stóristeinn, huldufólkssteinn.“

Óskot – bæjartóftir.
Í „Skráningu fornleifa í Mosfellsbæ“ á vegum Þjóðminjasafnsins árið 2006 segir m.a. um sögu, náttúrfar og jarðabætur að Óskoti:
„Í skrá um kvikfé og leigumála jarða Viðeyjarklausturs er Óskots fyrst getið en nefnist þá Ós: „…at Osi. ij. merkr“ (Dipl. Isl. III). Af því má trúlega álykta, að Óskot hefur verið lögbýli áður fyrr (sbr. Ólaf Lárusson).
Jarðabók frá 1704 hefur eftirfarandi að segja um Óskot: „Óskot, forn eyðijörð og veit enginn maður hvað lengi hún hefur í auðn verið. Nú brúka ábúendur á Reynisvatni það land til beitar og líka fyr meir til torfskurðar, sem nú er þar eyddur. Vita menn þó ekki hvör eigandi þeirrar jarðar hafi til forna verið, og meina þó flestir kóngseign vera.

Óskot – útihús.
Silúngsveiði sýnist þar til forna verið hafa, og enn nú vera kunna með stóru erfiði. Sýnist valla mögulegt aftur að byggja, og óvíst að jafnmikill ávinníngur sem kostnaður yrði“ (Jarðabók Árna og Páls).
„Óskot, suðvestanvert við Hafravatn, í vestur útnorður frá Miðdal, lagt í eyði fyrir mörgum árum, en hvað mörgum, vita menn ekki gjörla, og er landi þess skipt upp meðal nærliggjandi jarða, Þormóðsdals og Miðdals, Reynisvatns og Kálfakots“ (Stefán Þorvaldsson.
Óskots er ekki getið í Jarðatali J. Johnsens frá 1847, né í Jarðabók 1861.
Nýbýlið Óskot var stofnað árið 1889. Í dag er jörðin notuð til slægna og beitar. Eigandi 1979 er Magnús Vigfússon múrarameistari (Jarðaskrár).

Óskot – kálgarður, lambhús og hesthús.
Í Nýbyggjarabréfi fyrir Óskot frá amtmanninum yfir Suðuramti og Vesturamti dagsettu 24. september 1889 segir: „…þareð Guðmundur Kláusson frá Blikastöðum, samkvæmt tilsk. 15. apr. 1776, hefur, með skoðunargjörð, er framkvæmd var af sýslumanninum í Gullbringu- og Kjósarsýslu, með tilkvöddum 4 mönnum óvilhöllum, 23. augúst mán. þ.á., fengið útvísað land til nýbýlis í svo nefndu Óskotslandi í Mosfellssveit, með þessum landamerkjum: að norðan Hafravatn og Úlfarsá, sjónhending yfir svonefndan „Skjóna“ og þverbrekkur upp að Langavatni í stefnu á Stóra Skygni, að sunnan Langavatn og úr nyrsta vikinu á austurenda þess sjónhending yfir hæstu þúfu á sunnanverðum Dýjadalshólum beina stefnu að Seljadalsá, er svo ræður merkjum að austan til Hafravatns.

Óskotsbærinn.
Þá veitist nefndum Guðmundi Kláussyni hjer með nýbyggjararjettur yfir hinu tilgreinda landi með þeim skyldum og rjettindum og undanþágum, sem í ofangreindri tilskipun eru heimilaðar, þó að óskertum betri rjetti sérhvers annars manns, ef sannaður verður“ (Dipl.Isl).
Janus Eiríksson sýndi skráningarmanni Þjóðminjasafns rústina þann 27.09.1980. Hann sagði að þarna hefði bær Guðmundar Kláussonar, frá 1889, staðið. Hefðu rústir hans verið vel greinilegar í æsku Janusar.“
Helstu minjar að Óskoti, auk bæjarhúsanna (skv. Fasteignabók 1938 var bærinn í Óskoti byggður úr torfi, grjóti og timbri), og útihúsa, má telja:
Gömluhús

Óskot – Gömluhús; uppdráttur ÓSÁ.
Um 500 m SV af Hafravatni og um 530 m S af Óskoti. Lág uppblásin melbunga með grasgeirum umhverfis. Rústin er allvel varðveitt og veggirnir, sem eru aðallega úr grjóti, ná um 1 m hæð. Þykkt veggja er um 1 m. Þakið hefur verið klætt bárujárni og torfi. Innanmál fjárhússins eru um 3 x 8 m. Inngangur er fyrir miðju á NV-gafli. SA gaflinn er aðeins lág grjóthleðsla og hinum megin við hana er um 1 m djúp gryfja. Innanmál þessarar gryfju eru um 3 x 4 m. Hliðar hennar eru hlaðnar úr grjóti. Þetta er heygryfja. Janus segir að þessi fjárhús hafi faðir sinn látið reisa.
Gömlufjárhús
Þrjár samsíða rústir. Tvær þær syðri eru hlaðnar úr torfi og grjóti. Veggir eru allvel uppistandandi, um 1 m á hæð. Veggjaþykkt er um 1,2-1,5 m.

Óskot – Gömlufjárhús; uppdráttur ÓSÁ.
Stærsta rústin er í miðið um 3 x 7 m að innanmáli. Inngangur er á miðjum NV-gafli. Nokkuð minni rúst liggur með V-langhliðinni, um 2 x 6 m að innanmáli. Inngangur er á NV-gafli, upp við V-langhlið.
Austan við stærstu rústina er lág grjóthleðsla, um 30-40 cm á hæð og um 1 m á þykkt. Innanmál garðsins er um 2 x 8 m. Þetta hefur e.t.v. verið heygarður. Janus sagði Gömlufjárhús hafa verið notuð fyrir búskap föður hans.
Gömlufjárhús eru um 450 m VSV af Óskoti og um 100 m A við landamerki Óskots og Reynisstaða.
Stóri steinn

Óskot – Stóri steinn.
„Vestast í túni er Stóri steinn, huldufólkssteinn“
Skjóni – landamerki
Skjóni heitir stór steinn um 100 m V við Gömlufjárhús og er landamerkjasteinn. Ekki langt frá steininum Skjóna, í SV, á smali frá Reynisvatni að hafa orðið úti.
Gekk hann aftur og hélt þá til í Gömlufjárhúsum. Sást hann þar oft í dyragættum og var hann talinn fyrirboði óveðra.
Þjóðsaga
„Suðvestur af Dýjadalsþúfu er Þórðargjóta, smádæld grasi vaxin. Þar varð úti smalamaður frá Miðdal“.
Kálgarður – hesthús – lambhús

Óskot – kálgarður, lambhús og hesthús.
Óreglulega lagaður garður um 16 x 18 m að innanmáli. Þykkt garðhleðslu, sem er úr torfi og grjóti, er um 2 m neðst og dregst að sér upp. Veggjahæð er um 0,5-1.0 m. Grjót úr hleðslunni hefur hrunið inn í garðinn.
S-hliðin er bein, um 14 m löng, en liggur svo í stórum boga að NA hliðinni. Tveggja m breiður veggur greinir þær að. Veggjahæð um 0,5 – 1,0 m. Sú syðri er hesthús og sú nyrðri er lambhús með jötum meðfram veggjum.
Í Morgunblaðinu 1964 segir: „Fjölskylda flýr bæ sinn – Dulafullir atburðir í Mosfellssveit“:
„Að bænum Óskoti í Mosfellshreppi gerðu reimleikar vart við sig fyrir og um páskana. Urðu þeir svo magnaðir að lokum, að bóndinn, Kristján H. Sveinsson, taldi sér ekki fært að dveljast áfram á bænum með konu sinni og tveim börnum og flutti því til ættingja í Reykjavík að kvöldi annars páskadags og dvelur þar enn.
Reimleikarnir að Óskoti lýsa sér þannig, að mold og lausum munum er kastað að heimilisfólkinu og gestkomandi. Að þessu eru vitni, en þrátt fyrir rækilega atbugun hefur ekki tekizt að komast fyrir uppruna þessara fyrirbrigða.
Bærinn Óskot er í Mosfellshreppi, stendur skammt frá Hafravatni, og má mjög vel sjá þaðan til Reykjavíkur. Sjálfur bærinn sést ekki frá Hafravatnsveginum, en eftir nokkurra mínútna akstur það an er komið að bænum. Í grendinni eru margir sumarbústaðir í eigu Reykvíkinga.
Sem fyrr segir taldi Kristján bóndi sig tilneyddan að hverfa á brott frá Óskoti með fjölskylduna. Morgunblaðið átti tal við Kristján í gjær og féllst hann á að fara að bænum með blaðamanni og ljósmyndara og var haldið þangað um kl. 2 í gærdag.
Kristján sagði, að Óskot hafi verið í eyði um tíma, en um miðjan marzmánuð hafi hann flutzt þangað ásamt konu sinni, Guðnýju Guðmundsdóttur, ættaðri úr Skriðdal í Múlasýslu, og börnum þeirra Jóni Ingvari, 13 ára, og Guðmundi, 9 ára. Kvaðst Kristján áður hafa verið ráðsmaður að Geitdal, en tekið Óskot á leigu til að hefja eigin búskap.
Að sögn Kristjáns hófust reimleikarnir fljótlega eftir að fjölskyldan flutti, en í fyrstu hefðu þau ekki orðið neins áþreifanlega vör, aðeins fundizt þau ekki ein í bænum. En laugardaginn fyrir páska hefði ókyrrleikinn hafizt fyrir alvöru.
„Þegar líða tók á kvöldið þegar ég og kona mín vorum stödd í gangi bæjarins kom skyndilega moldargusa á mig og virtist mér hún koma úr skemmudyrum fyrir enda hans. Ég fór inn í skemmu til að athuga hverju þetta sætti, en sá þar engan mann, né nein vegsummerki.

Óskot – bærinn; teikning.
Meðan ég var þarna inni kom önnur gusa og virtist mér hún koma úr rjáfrinu, en ég varð einskis vísari að heldur. Seinna um kvöldið var öll fjölskyldan stödd í stofunni og þá var eins og upp væri lokið stofuhurðinni og komu sendingar inn, torf, dósir, spýtur og allskyns lausamunir. Ég fór fram á gang að athuga hverju þetta sætti en sá enga lifandi sálu, en meðan ég var í burtu héldu sendingar áfram inn í stofu. Hélt þessu áfram allt til miðnættis“, sagði Kristján.
Ég hélt í fyrstu, að einhverjir ólátastrákar úr Reykjavík stæðu fyrir þessu, en gat ómögulega skilið hvers vegna þeirra yrði ekki vart.
Þó brá mér í brún daginn eftir, þegar hestasteinn, sem er um 200 pund á þyngd, var kominn upp á þak. Það hefur ekki þurft neitt smáátak til að koma honurn þangað, því það er ekki meira en svo að sterkur maður lofti honum. Þegar á daginn leið byrjuðu sendingamar á nýjan leik og enn sem fyrr varð ég einskis vísari um hvaðan þær kæmu.
Mágur minn, Haraldur Guðmundsson, sem er bílstjóri í Reykjavíki kom í heimsókn um kvöldið og var vitni að þessu. Hann fékk á sig moldargusur, diskar og bækur flugu um alla stofuna.

Óskot – bæjartóftir.
Okkur var nú ekki farið að lítast á blikuna og börnin orðin talsvert skelkuð og við hjónin líka. Við lokuðum vel stofudyrunum og dundu sendingar á þeim látlaust allt til miðnættis, en þá hætti þeim sem fyrr. Haraldur snéri þá aftur til Reykjavíkur, eftir að hafa gengið um allan bæinn með mér, en við urðum einskis vísari. Við erum öll sammála um, að enginn mann legur máttur hafi verið valdur að þessu.
Á annan páskadag þegjar ég kom út var hestasteinninn kominn ofan af þaki og á sinn gamla stað og þá varð mér ekki um sel og sama er að segja um konuna mína. Og þegar sendingarnar byrjuðu aftur ákváðum við að flytja til Haralds, því ekki er okkur vært að Óskoti.“

Óskot – kálgarður og túnabeður.
Þegar Morgunblaðsmennimir komu að Óskoti í fylgd Kristjáns var greinilegt, að þar hafði ekki svo lítið gengið á. Allt var á rúi og stúi á bænum. Á göngunum og í stofu lá alls konar dót og drasl um öll gólf, torf, glertau, bækur og meira að segja bein. Mold var á víð og dreif, einkum á ganginum við bæjarinnganginn og við stofuhurðina.
Kristján sagði, að kona sín hefði reynt að hreinsa það mesta upp til að byrja með, en gefizt upp á því þegar gauragangurinn hélt áfram.
Nánar aðspurður um fyrirbrigðið sagði bóndinn, að sendingarnar hefðu aldrei verið nema á einum stað í senn og annaðhvort hafi öll fjölskyldan verið þar saman eða einn og einn hefði orðið fyrir því. Hann sagði, að hann hafi lesið sálma á páskadagskvöld þegar reimleikamir hafi verið mestir og þá hafi um stund eins og dregið úr þeim en það hafi ekki staðið lengi.

Óskot 2025.
Morgunblaðsmennimir skoðuðu hestasteininn og var rétt svo að þeir gætu bifað honum. Það liggur í augum uppi, að enginn einn maður hafi getað komið honum upp á bæjarþekju, enda var það einimtt það sem Kristján virtist vera einna mest sleginn yfir.
Á meðan Morgtinblaðsmenn dvöldust að Óskoti með Kristjáni varð ekki neinna fyrirbæra vart og virtist bónda létta mikið við það. Hann sagðist þó mundu ætla að vera í Reykjavík með fjölskylduna í nokkra daga og sjá hverju fram færi, enda hefði hann ekki komið sér upp bústofni ennþá, nema hvað hann ætti tvo hesta sem gætu gengið úti.“

Óskot – auglýsing í MBl. 1965.
Í Morgunblaðinu 1965 mátti sjá auglýsingu: „Jörð til sölu“ – Óskot í Mosfellssveit. Jörðin selst með öllum hlunnindum. Laxveiði og silungsveiði og öðrum verðmætum vatnsréttindum. — Viljum benda félagasamtökum á þessa eign. Selst hvort sem er í heilu lagi eða í smærri pörtum. — Upplýsingar í síma 37437 eftir kl. 8,30 á kvöldin.“
Í sama blaði árið 1958 er fjallað um flugóhapp við Óskot undir fyrirsögninni „Tveggja sæta flugvél stórskemmist í nauðlendingu við Hafravatn – Tveir menn, sem í vélinni voru, hlutu nokkur meiðsl„:

Óskot – Gömlufjárhús.
„Um hálf sex leytið í gærkvöldi vildi það slys til uppi við Hafravatn skammt frá Reykjavík, að lítil tveggja sæta flugvél, sem ætlaði að nauðlenda þar vegna skyndilegrar vélarbilunar, rakst á húskofa í lendingunni og stórskemmdist. Tveir menn, sem í vélinni voru hlutu nokkur meiðsl.
Samkvæmt upplýsingum, sem Mbl. fékk hjá Finnboga Guðmundssyni, lögregluþjóni í Reykjavík, sem af tilviljun var staddur þarna uppfrá, er slysið vildi til, var hér um að ræða litla flugvél frá Flugskólanum Þyt, merkta TF/KAP.

Óskot – Gömluhús.
Eðvarð Guðmundsson, Njálsgötu 59 í Reykjavík, var við stjórn vélarinnar og hefir hann flugmannsréttindi. Farþeginn var Pétur Jónsson, Hólsvegi 15, Reykjavík. Höfðu þeir félagar áætlað um hálfrar klukkustundar flug frá Reykjavík.
Flugmaðurinn skýrði svo frá, að vélin hafi allt í einu „misst mótor“ eins og kallað er á máli flugmanna — þ.e. vélin hætti skyndilega að ganga. Ætlaði hann þá að nauðlenda á túninu við Óskot, sem er bóndabær sunnan við Hafravatn, en rakst í lendingunni á lítinn húskofa þar í túninu með ofangreindum afleiðingum.

Óskot – Skjóni; landameki.
Finnbogi lögregluþjónn, sem var þarna nærstaddur kom þegar til hjálpar hinum slösuðu mönnum og gerði að meiðslum þeirra til bráðabirgða, en hann er þaulvanur slíkri hjálp í viðlögum frá um 20 ára starfi í lögreglunni.
Flugmaðurinn hafði meiðst illa á vinstra hné og hlotið minni háttar meiðsl á höfði, en farþeginn, Pétur Jónsson, slapp með kúlu á enni og skrámu á olnboga.
Finnbogi ók síðan með mennina í bæinn, Eðvarð á slysavarðstofuna, en Pétur var það hress, að Finnbogi ók með hann út á flugvöll, þar sem hann geymdi bíl og ók Pétur honum hjálfur heim.“
Óskot er nú í eyði, en liggur annars vel við byggð ofan Úlfarsárdals.
Heimildir:
-Örnefnaskráning fyrir Óskot – Ari Gíslason.
-Skráning fornleifa í Mosfellsbæ, Þjóðminjasafnið 2006.
-Morgunblaðið, 73. tbl. 01.04.1964, Fjölskylda flýr bæ sinn – Dulafullir atburðir í Mosfellssveit, bls. 32 og 28.
-Morgunblaðið, 111. tbl. 18.05.1965, Jörð til sölu, bls. 22.
-Morgunblaðið, 184. tbl. 16.08.1958, Tveggja sæta flugvél stórskemmist í nauðlendingu við Hafravatn – Tveir menn, sem í vélinni voru, hlutu nokkur meiðsl, bls. 16.

Óskot og nágrenni – örnefni (ÓSÁ).