Landnám

Í Tímanum árið 1989 fjallar Margrét-Hermanns Auðardóttir um kenningar sýnar um upphaf landnáms hér á landi að fenginni reynslu hennar að uppgreftri landnámsbýlis í Herjólfsdal í Vesmannaeyjum undir fyrir sögninni „Öllum fyrri kenningum um upphaf og tímasetningu landnáms á Íslandi kollvarpað – Var Ingólfur á seinni skipunum?“. Þrátt fyrir að tilefnið tengist ekki Reykjanesskaganum, fyrrum landnámi Ingólfs, beint er þó ástæða til að gefa hugmyndafræðinni gaum.

Margrét-Hermanns Auðardóttir

Margrét-Hermanns Auðardóttir, f. 1949.

„Margrét Auðar-Hermannsdóttir fornleifafræðingur varði nýlega doktorsritgerð sína við Umeaa Háskóla í Svíþjóð. Ritgerðin ber heitið: „Islands tidiga bosattning“ og fjallar um fyrstu byggð norrænna manna á Íslandi. Þar er því haldið fram að byggð á Íslandi nái allt aftur á sjöundu öld.
Niðurstöður sínar byggir Margrét á fornleifarannsóknum í Herjólfsdal í Vestmannaeyjum sem fóru fram á árunum 1971 til 1983. Tímasetning Margrétar á landnáminu byggir á uppgreftrinum í Herjólfsdal, þ.e. því hvað má lesa út frá húsaleifunum og þeim munum sem þar hafa fundist. Þá er mannvistarlagið, þykktin á því og hvernig það hefur hlaðist upp í gegnum tímann, borið saman við gjóskulög eða gosöskulög. Sú viðmiðun sem Margrét notar er meðal annars svokallað landnámslag sem er öskufall frá gosi á Vatnaöldusvæðinu fljótlega eftir að landið byggðist. Hún styðst einnig við aldursgreiningar með geislakoli, svokallaða C-14 aðferð, við aldursgreiningarnar.

Landnámsbyggð í Herjólfsdal

Herjólfsdalur

Uppgraftrarsvæðið í Herjólfsdal séð frá austri. Eftirfarandi er merkt á myndina:
I) Skáli-íveruhús
II) Skáli-íveruhús
III) Eldhús
IV) Fjós
V) Skáli-íveruhús
VI) Heygarður
VII) Matargerðarhús
VIII)Fjós og íveruhús undir sama þaki
IX) Byggingaleifar
X) Garður, sennilega kví
XI) Lítið gripahús, trúlega fyrir svín.

Niðurstöður Margrétar eru í stuttu máli á þá leið að byggð norrænna manna á Íslandi nái allt aftur á sjöundu öld og að byggðin í Herjólfsdal hafi varað frá sjöundu öld og fram á tíundu eða elleftu öld. Margrét hefur j afnframt tengt niðurstöður rannsóknanna úr Herjólfsdal við rannsóknir sem hafa verið gerðar á fastalandinu og telur hún að komið hafi í ljós að byggðin á fastalandinu sé jafngömul byggðinni í Herjólfsdal.
Margrét hefur bent á að áður hafi niðurstöður mælinga samkvæmt geislakolsaðferðinni bent til byggðar á Íslandi fyrir árið 874. Menn hafi hinsvegar aðeins tekið þær niðurstöður gildar sem stutt hafi að landnám hafi átt sér stað í kringum 874 en ekki þær niðurstöður sem gefi til kynna eldri uppruna.
Fyrrnefnt landnámslag, sem Margrét hefur meðal annars til viðmiðunar hefur verið tímasett í kringum árið 900 e. Kr. en Margrét telur að gosið hafi átt sér stað allt að 200 árum fyrr.

Landnámslag 200 árum eldra

Herjólfsdalur

Herjólfsdalur – viðarleifar.

Átta sýni, viðarkol úr birki, úr uppgreftrinum í Herjólfsdal voru tekin til aldursgreiningar. Sex aldursgreiningar benda til hærri aldurs en 874 og þrjár þeirra gáfu til kynna að byggð á svæðinu nái allt aftur á sjöundu öld.
Í viðtali við Tímann útskýrði Margrét niðurstöður sínar varðandi aldur landnámslagsins á eftirfarandi hátt: „Niðurstöður aldursgreininganna eru á bilinu frá sjöundu öld og fram á tíundu og elleftu öld. Neðarlega í mannvistarlaginu í Herjólfsdal er svokallað landnámslag. Ég lít svo á úr því að landnámsaska hefur fallið snemma á byggðina, þá sé það væntanlega eftir elstu aldursgreiningarnar sem ná aftur á sjöundu öld. Þessvegna held ég því fram að þetta gos hafi orðið á sjöundu öld eða í seinasta lagi í kringum árið 700.“

Herjólfsdalur

Sumarið 1971 hóf Margrét Hermanns Auðardóttir, fornleifafræðingur, ásamt öðrum sérfræðingum, uppgröft á sama svæði og Matthías Þórðarson hafði grafið upp langhús áratugum áður. Rannsóknin hélt áfram í fimm sumur en tafðist um nokkur ár vegna eldgossins í Heimaey 1973. Haustið 1980 lauk formlega áralöngum rannsóknum Margrétar og sagði hún í fréttatilkynningu í september, þetta sama ár, að á því 1300 m² uppgraftarsvæði hefðu m.a. fundist átta hús og garðhleðslur. Þau tilheyrðu 4-5 byggingarskeiðum og voru frá mismunandi tímum. Þarna bjuggu bændur, enda ummerki um húsdýr, en einnig nýttu bændur sér hin ýmsu hlunnindi s.s. fugl og fisk. Samkvæmt aldursgreiningum Herjólfsdalsbyggðar, sem formlega voru út gefnar ári seinna, var um mjög forn híbýli að ræða. Elstu húsbyggingarnar eru frá fyrri hluta 9. aldar eða mun eldri en áður var talin. Byggð þessi virðist síðan hafa lagst af á seinni hluta 10. aldar, líklega vegna uppblásturs. Landnámsbyggð í Vestmannaeyjum er því, samkvæmt þessu, eldri en kemur fram í elstu heimildum, Sturlubók og Hauksbók.

Margrét bætti því við að niðurstöður sem þessar byggðu auðvitað á líkum á sama hátt og niðurstöður jarðfræðinga sem hafa verið ríkjandi varðandi aldur gosa og gjóskulaga. „Ég er sammála öðrum fræðimönnum um að gjóskufallið frá Vatnaöldusvæðinu er landnámslag. Þetta er gjóskufall frá gosi sem á sér stað skömmu eftir að land byggðist. Það eru flestir fræðimenn sammála um að það megi kalla þetta landnámslag en ég er ekki sammála þeim um hvenær gosið varð. Auðvitað getur verið að það eigi eftir að mæla þetta nákvæmar. En ef miðað er við uppgröftinn í Eyjum og aldursgreiningarnar þaðan, þá er byggðin í landinu örugglega eldri en frá árinu 874. Spurningin er hvort að ég teygi aldurslíkurnar of langt aftur eða of stutt, það verður ekki vitað fyrr en haldið verður áfram að rannsaka þessa hluti með tilliti til aldurs.“- En er þá hægt að komast lengra í að fá nákvæmari vitneskju um aldur landnámsins?
„Já, slíkt er mögulegt. Það þarf að halda rannsóknum áfram hvað varðar elstu byggð í landinu, enda er stöðugt unnið að því að þróa aðferðir til að fá fram nákvæmari aldur til dæmis á lífrænum leifum.“

Aldursgreining gagnrýnd
Margrét Hallsdóttir jarðfræðingur hefur gagnrýnt niðurstöður Margrétar Auðar-Hermannsdóttur varðandi aldur landnámslagsins. Gagnrýnir hún að aldursgreint er út frá viðarkolum en ekki út frá gróðurleifum í öskulaginu. Viðarkol séu ekki endilega úr gróðri sem lifði á Íslandi við upphaf Íslandsbyggðar.

Landnámslagið

C-14 aldursgreining byggist á kolefni 14 (C-14, C14 eða 14C), sem er samsæta kolefnis, sem inniheldur 6 róteindir og 8 nifteindir í kjarna. Þessi kolefnissamsæta er geislavirk og klofnar með beta klofnun og myndar köfnunarefni. C-14 er til staðar í öllu náttúrulegu kolefni í hlutfalli sem er nokkurn veginn 1:1012. Helmingunartíminn er 5730±40 ár, sem samsvarar því að í einu grammi kolefnis úr lifandi lífveru verði um það bil 14 klofnanir á mínútu.
Á þessu byggist C-14 aldursgreiningin. Þegar lífvera deyr hættir hún að sjálfsögðu að taka til sín kolefni, en það kolefni sem er til staðar klofnar í sífellu og breytist þá hlutfall geislakolsins með tímanum. Með því að mæla það hlutfall geislakols, sem til staðar er má meta hve langt er síðan lífveran, sem hið lífræna sýni er komið frá, lauk ævi sinni. Sé eitthvert mælanlegt magn geislakols til staðar, gefur það til kynna að aldur sýnisins sé mjög lítill í jarðsögulegum skilningi. Til dæmis eru jarðolía og kol of gömul til þess að magn geislakols í þeim sé mælanlegt.

Geislakolsmælingar á gróðurleifum úr landnámslaginu hafi sýnt aldur á bilinu frá 700-900 e. Kr. og 95% líkur séu á því að lagið sé frá því tímabili. Aðrar rannsóknaraðferðir en geislakolsmælingar bendi þó á síðari hluta níundu aldar.
Varðandi þessa gagnrýni segir Margrét Auðar-Hermannsdóttir: „Hvað varðar aldursgreiningar á lífrænum leifum í landnámslaginu sjálfu, þá hafa þeir sem ég hef leitað ráða hjá mælt með sýnum sem tekin eru undir landnámslaginu til aldursgreininga, en ekki í því vegna truflana sem geta skapast á gosog öskufallstímanum.
Það er greinilegt ósamræmi í því hvernig fjallað er um 14 C aldursgreiningar. Jarðfræðingar draga til dæmis sjaldnast í efa aldursgreiningar frá tíundu og elleftu öld en ef að aldursgreiningar benda til eldri tíma en 874 þá er þeim fundið allt til foráttu. Það sem ég geri í minni rannsókn er að raða saman upplýsingum sem fengnar eru með því að skoða húsaleifarnar og muni sem fundust. Því miður hef ég ekki muni úr elsta hluta mannvistarlagsins, sem gætu sagt til um aldur út frá gildandi formfræði, svokallaðri týpólogíu fornleifafræðinnar. Aftur á móti hef ég hluti efst úr mannvistarlaginu sem eru frá sama tímaskeiði og yngstu aldursgreiningarnar. Þar af leiðandi bendi ég á að þarna er ákveðin fylgni á milli. Rétt er að taka fram að það er mjög algengt að formfræðilega greindir munir finnist ekki í lögum frá þessum eldri tíma, sé tekið mið af fornleifarannsóknum á eyðibýlum í Skandinavíu.“

Myrkar aldir

Vestmannaeyjar

Vestmannaeyjar – Uppdráttur af Heimaey frá 1776
eftir Sæmund Holm.

„Við verðum að hafa í huga að á þessu tímabili, frá 600-800, eru myrkar aldir á Norðurlöndum, sérstaklega í Vestur-Noregi. Mér sýnist á öllu að þetta landnámsfólk komi frá sömu svæðum og áður hefur verið talið út frá hinni hefðbundnu skoðun.
Ari fróði nefnir að hér á landi hafi verið fólk, papar, fyrir hið eiginlega landnám. Ég kem inn á það í ritgerðinni að papar hafi hugsanlega verið norrænir menn. Enda er alltaf tilgreint að Norðmenn kalli þá papa. Einnig má nefna vangaveltur sem hafa komið fram um að þeir hafi verið kristnir og þess vegna kallast papar. Þó að hér hafi fundist írskar bjöllur og baglar þá segir það ekkert til um uppruna fólksins. Það var engin kirkja til á Norðurlöndum svo snemma, þannig að kirkjuleg tákn sem finnast á Íslandi koma annað hvort frá Bretlandseyjum eða meginlandi Evrópu, en segja ekki endilega til um uppruna fólksins sem bjó hér fyrst.

Landnáma

Landnáma.

Þeir sem stóðu að baki Landnámabók á miðöldum gátu ekki haldið því fram að papar hafi verið fyrstu landnámsmennirnir. Með ritun bókarinnar var verið að verja ákveðin völd og eignir og þar þurfti gjarnan að rekja jarðnýtingarréttinn aftur á „landnámstíma“ viðkomandi ætta.
Ég tel sýnt að fyrsta byggðin nái aftur fyrir árið 874 en það verður örugglega áfram deilt um hve langt aftur hún nær. Þar sem ekki er að sjá nein greinileg skil í byggingahefð eða öðru er snertir fyrstu landnámsmenn og þá er seinna koma, þá virðist sem þetta fólk sé að stærstum hluta af sameiginlegum uppruna.“- Af hverju eru menn svona tregir til að meðtaka niðurstöður af þessu tagi?

Herjólfsdalur

Herjólfsdalur – uppdráttur af uppgraftarsvæðinu.

„Í ritgerðinni kem ég inn á það strax í byrjun að íslensk menningarsaga hefur stjómast af miðalda heimildum, en alls ekki af fornleifafræði. Þegar ráðist hefur verið í fornleifauppgreftri á stöðum sem grunur leikur á að tengist elstu byggð, þá er yfirleitt byrjað á að slá upp í Landnámu eða öðrum rituðum heimildum og að loknum uppgreftri lestu yfirleitt í niðurstöðunum að þetta sé landnámsbær þessa eða hins og þetta passi við hefðbundnar hugmyndir um landnám, o.s.frv. Það hafa sjaldnast verið notaðar aldursgreiningaraðferðir að hætti fornleifafræðinnar. Auk þess er lítill hluti svokallaðra heiðinna grafa eða kumla þar sem munir hafa fundist sem geta sagt til um aldur.“

Að breyta fornleifafræðinni

Herjólfsdalur

Herjólfsdalur – skilti.

„Ég sé ritgerðina sem lið í því að það verði vonandi tekið öðruvísi á fornleifaframkvæmdum hér á landi en hingað til hefur verið gert. Þá vil ég ekki síður sýna fram á að fornleifafræðin vinnur ekki út frá rituðum heimildum heldur eigin aðferðum. Auðvitað hundsar hún ekki ritaðar heimildir en hún gengur ekki út frá þeim sem vísum. Fomleifafræðingar eiga að veita gjaldgengum aðferðum eigin faggreinar sem að mínu mati hefur verið gert of lítið af hér á landi, og erum við þar langt á eftir nágrannaþjóðunum bæði hvað opinber framlög varðar og eins menntun þeirra sem bera ábyrgð á framkvæmdunum. “

Er 874 heilög tala?- Afhverju hefur þessi afstaða verið ríkjandi?

Landnám

Ingólfur og öndvegissúlurnar í Reykjavík um 870.

„Allt þetta með landnámið, ártalið 874 og sjálfstæðisbaráttuna er svo greipt í huga Íslendinga að það er nánast heilagt. En þar sem sjálfstæðisbaráttunni lauk meira eða minna með fullveldinu 1918 þá hefði maður búist við að ný og ferskari stefna yrði ríkjandi í sagnfræði og norrænum fræðum og lögð yrði áhersla á þátt fomleifarannsókna, en sú varð ekki raunin. Þegar stöðnun festist í sessi þá er henni alltaf beitt hatrammlega gegn öllu sem dregur í efa ríkjandi skoðanir og þar með stöðu einhverra valdaaðila og svo er því miður með íslenska fornleifafræði og aðrar tengdar greinar.
Í nágrannalöndunum finnst mönnum óskaplega skrítin sú afstaða að finna því allt til foráttu ef einhver kemst að því að byggð á Íslandi sé hugsanlega eldri en hefðbundnar hugmyndir gera ráð fyrir. “

Sömu niðurstöður í miðbæ Reykjavíkur- Hafa fleiri komist að sömu niðurstöðu?

landnámsskáli

Reykjavík – minjar landnámsbæjar í Aðalstræti.

„Það eru til háar aldursgreiningar frá fleiri stöðum á Íslandi en Herjólfsdal. Fyrir mörgum er þetta greinilega mikið tilfinningamál, fyrir mér er þetta auðvitað bara fagleg staðreynd sem hefur ekkert með tilfinningar að gera.
Það eru til háar aldursgreiningar úr uppgreftrinum í miðbæ Reykjavíkur frá síðasta áratug. Skýrslan um þann uppgröft kom út í vetur í sænskri ritröð sem út af fyrir sig sýnir hve staða íslenskrar fornleifafræði er bágborin. Þar koma fram aldursgreiningar sem eru sambærilegar við aldursgreiningarnar úr Eyjum. Auk þess eru til merki um elstu byggð, þ.e.a.s. mannvist undir landnámslagi, á vesturhluta Suðurlands.“

Er hægt að breyta svona rótgrónum hugmyndum?

Hólar

Fornleifauppgröftur að Hólum. Fornleifafræðingar er jafnan sjálfum sér verstir. Skýrsla um stjórnsýslu fornleifarannsókna og fornleifavernd hafði t.d. að geyma tímbundnar rangfærslur um störf Ragnheiðar Traustadóttur, stjórnanda Hólarannsóknarinnar, sem voru til þess fallnar að valda henni tímabundnum álitshnekki og fjártjóni. Ragnheiður er í dag einn traustvekjandi fornleifafræðingur landsins.

„Já, ég hugsa það. Þetta síast smám saman inn í vitund manna. Þetta er spurning um tíma. Það verða örugglega einhverjir aðrir en ég sem fá hluti upp í hendurnar sem benda í sömu átt. Ég túlka það þannig að það hafi þegar gerst með uppgreftrinum í miðbæ Reykjavíkur. Þetta er spurning um hvernig maður vill líta á þessar aldursgreiningar í heild sinni. Það er ekki hægt að taka einungis góðar og gildar þær aldursgreiningar sem eru okkar megin við 874 og neita að horfa á þær sem eru hinumegin við sama ártal. Við verðum að líta á niðurstöðurnar sömu augum hvoru megin sem þær lenda við hefðbundnar hugmyndir.“

Í ómarkvissu þarsi fornleifafræðinga í gegnum tíðina um mat á einstökum merkilegheitum virðist meginmarkmið fræðagreinarinnar gleymst. Dæmi eru um að einhverjir þóknanlegir pótentátar eru fengnir til að taka saman „rannsóknarskýrslur“ fyrir einstakar stofnanir eða Hið opinbera án þess þó að hafa a.m.k. lágmarksþekkingu á viðfangsefninu. Þeir eða þau er hlut eiga að máli hafa sjaldnast fengið að tjá sig um um „rannsóknina.
Fornleifafræðingar landsins þurfa að reyna að hefja sig upp úr daglegu argaþrasi hversdagsins, sem engu skilar, og beina þekkingu sinni að því sem raunverulega skiptir máli – til framtíðar litið.

Heimildir:
-Tíminn, 192. tbl. 28.09.1989, Öllum fyrri kenningum um upphaf og tímasetningu landnáms á Íslandi kollvarpað: Var Ingólfur á seinni skipunum?, bls. 10-11.
-Fornleifaskráning; Fyrri hluti – heimildir fyrir Vestmannaeyjar, 2002.

Herjólfsbær

Herjólfsbær. Í októbermánuði 2005 var ráðist í byggingu nýs Herjólfsbæjar í Herjólfsdal. Að smíðinni er notast við áreiðanlegastu heimildir og reynt að gera hann sem líkastan upprunalegum bænum. Húsið er byggt sem langhús og gripahús. Lista- og menningarfélagið Herjólfsbæjarfélagið hafði frumkvæði að smíðinni. Að framkvæmdinni stóðu Árni Johnsen, Þórður Guðnason, Þorsteinn D. Rafnsson, Esra Ó. Víglundsson og Víglundur Kristjánsson.

Reykjavík

Lilja Björk Pálsdóttir skrifaði skýrslu um „Steinbryggjuna, framkvæmdaeftirlit og frágang árin 2018-2019“ á árinu 2020:

Aðdragandi rannsóknar og heimildir um minjarnar

Lilja Pálsdóttir

Lilja Björk Pálsdóttir.

„Vor og sumar árið 2018 var unnið að framkvæmdum í Tryggvagötu austan Pósthússtrætis auk Steinbryggju. Vitað var að leifar gömlu Steinbryggjunnar (Bæjarbryggjunnar) var að finna á þessum stað enda höfðu hlutar hennar áður komið fram við fornleifarannsóknir í Pósthússtræti. Í upphafi var áætlað að á svæðinu færi fram yfirborðsfrágangur ásamt minni háttar lagnavinnu og tekið fram að ekki þyrfti að ráðast í jarðvegsskipti á svæðinu.

Markmið og aðferðafræði
Markmið með rannsókninni var að hafa eftirlit með þessum framkvæmdum, og þá sérstaklega á gatnamótum Tryggvagötu og Pósthússtrætis þar sem vitað var um minjar.
Um framkvæmdavakt með framkvæmdaeftirliti og bakvakt var að ræða þar sem fornleifafræðingur var ávallt viðstaddur þegar jarðrask átti sér stað á svæðinu en sinnti annars daglegu eftirliti þegar verið var að vinna.
ReykjavíkÞegar minjar komu í ljós var hreinsað frá þeim jafnóðum. Notast var við vélgröfu til að fjarlægja yfirborðslög og uppfyllingar en minjarnar voru fínhreinsaðar með handafli til að koma í veg fyrir skemmdir.

Rannsóknin og niðurstöður
Verkið skiptist niður á tvö ár, 2018 og 2019. Árið 2018 var að mestu unnið á gatnamótum Pósthússtrætis þar sem tvö byggingarstig bryggjunar auk hafnargarða voru grafin fram, en einnig mestur hluti austurbakka Steinbryggjunar. Stærri hluti bryggjunar var svo afhjúpaður árið eftir. Mest var um framkvæmdavakt að ræða á meðan á framkvæmdum stóð en unnið var við lagnavinnu ýmisskonar. Reynt var að laga staðsetningu lagnanna að minjunum og tókst það að mestu.
ReykjavíkYfirborðslög og uppfylling voru fjarlægð með vélgröfu en þegar komið var niður að minjum voru þær hreinsaðar betur fram með skóflum, múrskeiðum og burstum.
Þrátt fyrir góða varðveislu vantaði steina á nokkrum stöðum í yfirborðslögnina og var því leitað eftir því hjá Minjastofnun að fá leyfi til að fjarlægja nokkra steina úr suðurenda lagnarinnar sem þegar var raskaður, til að fylla inn í þar sem vantaði. Voru til þess notaðir steinar syðst úr hleðslunni en óskað hafði verið eftir því við Minjastofnun að fá leyfi til að fjarlægja þá steina vegna framkvæmda. Með þeirri aðgerð varð stétt Steinbryggjunnar heildstæð.
ReykjavíkVið stækkun svæðisins kom í ljós hluti af járnbrautarteinum þeim sem lagðir voru til að ferja varning af bryggju og upp á hafnarbakkann. Teinarnir höfðu einnig komið í ljós við fyrri rannsóknir og höfðu þá verið mældir upp. Þegar ráðist var í miklar endurbætur á bryggjunni með því að skipta út maðkétnu timbri fyrir grjóthleðslur árið 1892, var jarðvegi mokað yfir þessa járnbrautarteina og þeir þar með teknir úr notkun. Á ljósmynd sést hækkunin vel sem varð á Steinbryggjunni við þessa framkvæmd.

Garðurinn rofinn
Komið var rof í garðinn vegna lagnavinnu sem áður hafði farið fram og því var ekki hægt að sjá bein tengsl hans við bryggjuna. Hár bakki uppfyllingarefnis lá upp að og yfir austurenda garðsins. Hleðslurnar hafa sigið til vesturs og er líklegt að það hafi að mestu gerst við síðari tíma lagnavinnu. Að öðru leyti var hleðslan þétt og stöðug.
ReykjavíkGrjótið sem notað hefur verið í hleðsluna er ótilhoggið holtagrjót úr Öskjuhlíð. Valið hefur verið stórt grjót, allt að 0,70m í þvermál. Smærri steinar voru notaðir til að skorða þá stærri. Vélgrafið var niður á um 2,5 metra sem var nauðsynleg fyrir vatnsbrunn og lagnir tengdar honum. Sást í allt að fjögur umför hleðslugrjóts á þessu dýpi. Ofan garðsins og að hluta yfir honum lágu vatns- og rafmagnslagnir sem þjóna Tollhúsinu við
Tryggvagötu 19. Skráning sniðsins gekk því erfiðlega en teknar voru ljósmyndir af garðinum eins og hægt var og teiknað eftir þeim. Hleðslur hafnargarðs sáust einnig austanmegin við Steinbryggjuna. Hleðslurnar höfðu orðið fyrir raski vegna síðari tíma framkvæmda en þær voru óhreyfðar upp við bryggjuna.
Þessi hluti hafnargarðsins var upphaflega hlaðinn á árunum 1913-1917 en var endurhlaðinn árið 1928.

Steinbryggjan í heimildum
ReykjavíkÍ skýrslu sem gefin var út árið 2015 af Fornleifastofnun Íslands ses. í tengslum við fyrrnefndar rannsóknir voru teknar saman eftirfarandi heimildir um bryggjuna sem hér eftir verður vísað til sem Steinbryggju:
“Fram á seinni hluta 19. aldar voru einu bryggjurnar í Reykjavík, timburbryggjur sem kaupmennirnir reistu sjálfir. Árið 1884 var hins vegar fyrsta bryggjan gerð, sem byggð var á vegum yfirvalda eftir nokkurra ára umræðu um frjálsan aðgang að bryggju í Reykjavík. Bryggjan hét formlega Bæjarbryggjan, en var yfirleitt kölluð Steinbryggjan. Bryggjan, sem lá beint undan Pósthússtræti, var byggð af Jakobi Sveinssyni trésmiði, og var hún upprunalega að hluta úr tré og að hluta úr steini. Bryggjan þótti illa smíðuð. Nokkrum mánuðum eftir að hún var tekin í notkun var ritað um hana í Ísafold:

Reykjavík

Steinbryggjan 2020.

„Bæjarbryggjan mikla, er bæjarstjórnin hefir snarað í um 10,000 kr., en sem er svo vísdómslega gerð, að það verður hvorki lent við hana um flóð nje fjöru, og sjór gengur upp eptir henni endilangri, ef ekki er nærri hvítalogn, og er þá ekki fyrir aðra en vatnsstigvjelaða að nota hana.“
Árið 1892 var bryggjan því endurbætt, og sá hluti hennar sem áður var úr tré hlaðinn úr grjóti. Árið 1905 var enn unnið að endurbótum á bryggjunni undir stjórn Tryggva Gunnarssonar bankastjóra. Ekki þótti þetta takast betur til en svo, að eftir viðgerðina fór bryggjan að síga og var hún þá kölluð Tryggvasker eða Tryggvaboði. Eftir að hafnargerðin hófst árið 1913 minnkaði hlutverk bryggjunar enn frekar og hvarf hún á endanum undir hafnarfyllingu á árum heimstyrjaldarinnar síðari.
Það voru þó ekki einungis bátar sem lögðust upp að Steinbryggjunni heldur segir frá í Mannlífi við Sund að flugvélar hafi lagst upp að henni áður en flughöfn var byggð í Örfirisey.
Engir gripir komu í ljós enda um að ræða svæði þar sem um uppfyllingu frá síðari tímum var að ræða ofan á og við minjarnar sjálfar auk enn yngri lagnafyllinga.“

Heimild:
-Steinbryggjan, Framkvæmdaeftirlit og frágangur árin 2018-2019, skýrsla Fornleifastofnunar Íslands 2020.

Reykjavík

Steinbryggjan við uppgröft.

Húshólmi

Orri Vésteinsson skrifaði grein í Morgunblaðið 2001 undir fyrirsögninni: „Fornleifar eru auðlind„:

Orri Vésteinsson

Orri Vésteinsson – „Það er enginn skortur á fornleifum þó að viljann skortitil að nýta þær“.

„Nýverið kom út skýrsla á vegum samgöngumálaráðuneytis um menningartengda ferðaþjónustu á Íslandi. Flestir sem starfa að íslenskri menningu hljóta að fagna henni enda er þar tekin afdráttarlaus afstaða með nauðsyn þess að efla menningartengda ferðaþjónustu. Í skýrslunni eru settar fram hugmyndir um leiðir sem ríkisvaldið hefur til að styðja þennan vaxtarbrodd íslensks atvinnulífs. Er öruggt að þær verði til góðs ef þær komast í framkvæmd.
Í skýrslunni er sú forsenda gefin að hér á landi séu ekki fornleifar sem vert sé að kynna (s. 17) og þess vegna beri fyrst og fremst að leggja áherslu á bókmenntir og sögu þjóðarinnar í menningartengdri ferðaþjónustu. Á þeim grundvelli er sett fram ákveðin skoðun á framvindu Íslandssögunnar og hvaða atriði á hverju tímabili séu helst líkleg til að vekja áhuga.

Fornleifar

Fornleifar undir Bessastaðastofu. Fundust við uppgröft.

Það er full ástæða til að efast um nauðsyn þess eða gagnsemi að ríkisvaldið byggi stefnu sína í ferðaþjónustu á einni tiltekinni söguskoðun, og víst er að í þessu tilfelli hefur þessi afstaða byrgt sýn á þá fjölmörgu möguleika aðra sem eru á vexti á þessu sviði. Ekki er hægt að kenna um áhugaleysi, því í skýrslunni er lögð áhersla á nauðsyn aukinna fornleifarannsókna (s. 11, 23). Þar ræður fremur skortur á þekkingu á íslenskum fornleifum og möguleikum til að hagnýta þær.

Íslenskar fornleifar

landnámsskáli

Reykjavík – minjar landmámsbæjar í Aðalstræti.

Það er almenn skoðun en röng að ekki séu á Íslandi miklar eða merkilegar fornleifar. Íslendingar notuðu að vísu lengst af forgengileg byggingarefni eins og torf og tré þannig að mannvirkjaleifar skera sig ekki úr í landslaginu eins og byggingar úr
steini myndu gera. Það þýðir hinsvegar ekki að leifarnar séu ekki til eða að þær séu ekki áhugaverðar.
Á vegum Fornleifastofnunar er unnið að skráningu fornleifa um allt land og hefur nú verið safnað upplýsingum um 53.000 íslenska fornleifastaði. Skráningin nær til um 44% landsins þannig að ætla má að alls séu 120.000 fornleifastaðir á landinu öllu. Það er því enginn skortur á fornleifum þó að viljann skorti til að nýta þær.

Selatangar

Selatangar – fiskbyrgi. Áþreifanlegar fornleifar.

Í nýlegri könnun um áhuga erlendra ferðamanna á íslenskum menningararfi kemur í ljós að flestir nefna fornleifar sem það atriði menningararfsins sem þeir höfðu mestan áhuga á. Hinsvegar kom í ljós að þessir ferðamenn töldu gæði kynningar á fornleifum hvað lakasta og var um þetta atriði mestur munur á væntingum ferðamanna og frammistöðu íslenskrar ferðaþjónustu (Rögnvaldur Guðmundsson: Sagnagarður Íslands, 2000). Með öðrum orðum þá stöndum við ekki undir þeim væntingum sem erlendir ferðamenn hafa um eðlilega þjónustu á þessu sviði.

Dæmi frá Orkneyjum

Keltar

Minjar Kelta á Orkneyjum.

Á Orkneyjum er ferðaþjónusta ein stærsta atvinnugreinin og hafa eyjaskeggjar um 3,5 milljarða íslenskra króna í tekjur af henni árlega. 23% ferðamanna nefna fornleifar sem meginástæðuna fyrir því að þeir heimsækja eyjarnar, en 73% nefna fornleifar sem eina af ástæðunum, þannig að tekjur hinna tuttugu þúsund Orkneyinga af fornleifum einum eru á bilinu 1-2 milljarðar íslenskra króna (upplýsingar frá Orkney Enterprise). Til Íslands koma tvöfalt fleiri ferðamenn og ætti því að vera raunhæft markmið að við gætum haft 2-3 milljarða tekjur á ári af þessari auðlind. Eins og er eru tekjur Íslendinga af fornleifum varla meiri en nokkrar milljónir á ári.

Orkneyjar

Orkeneyjar – keltneskar minjar.

Ástæðan fyrir því að ég tek Orkneyjar sem dæmi er að þar eru hvorki pýramíðar né kastalar sem setja svip sinn á landslagið heldur eru fornleifar þær sem vekja svo mikinn áhuga ekki ólíkar þeim íslensku að eðli og umfangi. Munurinn liggur í því að hinar orkneysku fornleifar hafa verið rannsakaðar og staðirnir í kjölfarið gerðir aðgengilegir gestum. Orkneyingar hafa verið lengi að við þetta og verið óhræddir við að fjárfesta í rannsóknum, kynningu á rannsóknarniðurstöðum og aðgengi að fornleifastöðum.

Hvernig getum við hagnýtt íslenskar fornleifar?

Hofsstaðir

Hofsstaðir í Garðabæ – skáli eftir uppgröft. Dæmi um vandaðan frágang og aðgengilegan.

Það eru margar leiðir til að hagnýta íslenskar fornleifar. Aðeins er fjallað um eina þeirra í áðurnefndri skýrslu, þá að gera fornleifauppgröft sem síðan er byggt á við kynningu á viðkomandi stað. Það er dýrasta leiðin og sú sem lengstan tíma tekur.
Ódýrari leiðir eru einnig til. Ljóst er að fjölmarga uppgrafna íslenska minjastaði mætti gera aðgengilega og kynna fyrir gestum. Í þeim skilningi má líta á eldri rannsóknir sem vannýtta auðlind.
En það þarf heldur ekki uppgröft til að hagnýta fornleifar. Sandblásin verbúð á eyðiströnd eða vallgróin beitarhúsatóft á lækjarbakka geta sagt meira um lífshætti og lífskjör Íslendinga á liðnum öldum en margar blaðsíður af ritmáli.

Borgarholt

Borgarholt – fyrrum selsminjar við Úlfljótsvatn?

Slíkar fornleifar er að finna um allt land og eru nánast endalausir möguleikar á því hvernig hægt er að nýta þær í ferðaþjónustu.

Kynning á slíkum minjastöðum byggist á því að líta á þá sem hluta af landslaginu og skynjun þess. Það gerbreytir upplifun ferðamannsins af íslenskri náttúru þegar honum er bent á minjar um íslenskt samfélag og komið í skilning um þá lífshætti sem hér tíðkuðust og þá lífsbaráttu sem hér fór fram. Það er ekki ómerkileg saga.

Reykjavik

Steinbryggjan við enda Pósthússtrætis, nú Bryggjugata.

Fornleifar hafa þann meginkost fyrir ferðaþjónustu að þær eru staðbundnar og krefjast þess að menn ferðist til að hægt sé að skoða þær öfugt við bókmenntir sem hver sem er getur notið í stofunni heima hjá sér. Þær hafa líka þann kost að þær eru dreifðar um allt land, sem þýðir að hægt er að hafa áhrif á hvert ferðamenn fara með því að stjórna uppbyggingu fornleifastaða.

Skynjun okkar Íslendinga af fortíðinni byggist nær alfarið á sögum og rituðu máli. Það er sérstaða okkar því fæstar aðrar þjóðir eiga jafnmikinn sagnaarf og við, eða eru jafnmeðvitaðar um hann. Það er sjálfsagt fyrir okkur að nýta okkur þessa sérstöðu í ferðaþjónustu, en það er ástæðulaust að láta hana takmarka möguleika okkar. Erlendis er mönnum tamara að skynja fortíðina í gegnum hluti byggingar, listaverk eða gripi – og þeir búast við því að þeim sé miðlað upplýsingum með sama hætta þegar þeir koma hingað. Hvers vegna eigum við að valda þeim vonbrigðum?“

Heimild:
-Morgunblaðið, 281. tbl. 07.12.2001, Fornleifar eru auðlind – Orri Vésteinsson, bls. 64.

Reykjavík

Steinbryggjan við enda Pósthússtrætis 1930.