Hraun

Ferlir hefur fundið og skráð u.þ.b. 110 fornar hlaðnar refagildrur á Reykjanesskaganum, í fyrrum landnámi Ingólfs.

Refagildra

Refagildra.

Af fyrri skrifum lærdómsmanna mætti ætla að gildrurnar væru miklu mun færri, en það er röng ályktun. Þessi fyrrum afstaða þeirra hefur leitt til þess að fornleifafræðingar eru síður á varðbergi þegar þeir mæta stökum grjóthleðslum á víðavangi og skrá þær jafnan sem „vörður“ eða „óþekkt“. Ef betur væri að gáð og grunnur hins „óþekkta“ skoðaður nánar má auðveldlega komast að hinu rétta.

Ein sú merkilegri af mörgum slíkum refagildrum hér á landi má telja krosshlaðna refagildru ofan við bæinn Hraun austan Grindavíkur.

Hraun

Krossrefgildran ofan Hrauns.

Sigurður Gíslason, bóndi á Hrauni, þá orðinn aldraður, leiddi Ferlirsfélaga upp Sandleyninn og upp eftir fornri gróinni leið um ofanvert hraunið. Gatan sú tengist Þórkötlustaðagötunni áleiðis upp á Skógfellaveg, en ekki þótti ástæða til að feta götuna á enda því gildran nefnda, sem var markmiðið, er í mosahrauninu þar miðsvæðis. Reyndar hafði verið gengið framhjá annarri slíkri stakri neðarlega í Sandleyninum.

Krossgildra þessi hefur hvorki verið fornleifaskráð né hennar getið í örnefnaskrám eða öðrum heimildum.

Hraun

Hraun refagildra í Sandleyni.

Til eru lýsingar af grjótgildrum þar sem hvatt er til að bændur útbúi þær til refaveiða. Elsta og jafnframt gleggsta lýsing þeirra er í Atla, riti Björns Halldórssonar í Sauðlauksdal, fyrst pr. í Hrappsey 1780. Þar segir, að dýrabogar leggist nú mjög af, en bóndi veitir Atla þarna nákvæma fyrirsögn um, hversu hann skuli útbúa gildrur sínar. Er lýsingin í rauninni nákvæmlega hin sama og hér mun brátt skýrt frá, en gert er ráð fyrir að hellan, sem lokar munnanum, sé krossbundin eða með gati, til að hún hlaupi niður í réttri andrá.

Refagildra

Vatnsleysuheiði – refagildra er líkist vörðu, enda verið skráð sem slík í fornleifaskráningu.

Í Lærdómslistafélagsritunum, XII b. 1792, er grein um refaveiðar eftir Þórð Þorkelsson. Hann nefnir grjótgildrurnar en lýsir þeim ekki, þar sem þeim sé lýst í Atla og efast hann jafnvel um gagnsemi þeirra. Víða í 19. aldar ritum eru greinar og leiðbeiningar um refaveiðar og má t.d. nefna grein í Reykjavíkurpóstinum 1848 þar sem segir, að slíkar grjótgildrur hafi verið víða tíðkaðar fyrrum en nær enginn beri nú við að nota þær. Þar segir einni, að dýrabogar séu nú orðnir sjaldséðir, og hafi hina gömlu veiðiaðferðir vafalaust þokað fyrir skotveiðinni á þessum tíma.
Theodór Gunnlaugsson, hin þekkta refaskytta, segist í fyrrnefndri bók sinni stundum hafa hlaðið grjótgildrur við greni til að veiða yrðlinga í eftir að fullorðnu dýrin höfðu verið unnin og mun hann sennilegast vera síðastur manna til að nota þær hérlendis.

Gömlu-Hafnir

Gömlu-Hafnir; refagildra.

„Vafalaust hafa ýmsir orðið til að taka upp notkun grjótgildra eftir hvatningu Björn Halldórssonar í Atla. Atli var prentaður þrívegis og fyrstu prentuninni að minnsta kosti dreift ókeypis og hafa því margir kynnst því riti á 18. og 19. öld. En það lætur að líkum að veiðiaðferðin hefur verið seinleg og gildrurnar ekki alltaf fengsælar og hefur t.d. skotveiði úr skothúsum verið margfalt stórvirkari, enda mjög tíðkuð á síðustu [19.] öld að minnsta kosti.
Grjótgildrur eru þekktar á Grænlandi og hefur svo verið talið, að þær væri frá tímum Grænlendinga hinna fornu, en þær hafa einnig verið notaðar þar í seinni tíð af bændum landsins. Er mér næst að ætla, að Grænlendingar hafi lært notkun þeirra af norrænum mönnum á miðöldum, en dæmi eru um, að þeir hafi tekið upp áhöld og vinnuaðferðir norrænna manna. Sá ég líka gildru á Grænlandi 1977 í grennd við forna rúst í Qordlortoq-dal, og virtist hún helst vera frá byggð norrænna manna“.

Staðarberg

Staðarberg – refagildra.

Sigurður Breiðfjörð lýsir grænlenskum gildrum í bók sinni frá Grænlandi, sem kom út 1836, en einkennilegt er, að hann virðist ekki þekkja notkun slíkra gildra á Íslandi og hvetur bændur hér til að setja slíkar skollagildrur, eins og hann nefnir þær, í landareignum sínum.
Ég hef ekki gert gangskör að því að kanna útbreiðslu þessara gildra, en viðbúið er að langflestra þeirra sé getið í örnefnaskrám einstakra jarða, sem vaðveittar eru í Örnefnastofnun Þjóðminjasafnsins. Árið 1964 var send út spurningaskrá frá Þjóðháttadeild Þjóðminjasafnsins þar sem spurt var aukalega um slíkar refagildrur og hvað menn kynnu að segja um notkun þeirra.

Húsatóttir

Refagildra, ein af mörgum,  við Húsatóttir.

Bárust svör allvíða að af landinu og reyndust 20 heimildarmenn þekkja gildrur eða leifar þeirra eða þá örnefni, sem ótvírætt benda til að gildrur hafi verið á þeim stöðum, þótt þeirra sæjust stundum engar leifar nú. Eru þessir staðir dreifðir um allt land að kalla má, sumir úti við sjó en aðrir inn til landsins, venjulegast í grennd við bæi eða beitarhús, þar sem menn fóru of um á vetrum…

Á hraungarði vestan við Selatanga eru nokkrar hlaðnar refagildrur og austan við Seljabót er rúst af gildru.

Refgildra

Refagildra – ÓSÁ.

Greinilegt er af lýsingum þeirra, sem upplýsingar hafa gefið um gildrur þessar, að þær eru flestar af sömu gerð, úr allstóru grjóti, aflangar og munninn látinn snúa undan veðurátt.
Einn heimildarmaður greinir frá slíkri gildru úr tré, aflöngum tréstokki um 3 álnir á lengd og voru lok við báða enda og rann annað fyrir er refurinn var kominn inn í stokkinn, en grjóti var hlaðið umhverfis stokkinn svo að minna bæri á honum utan frá séð.
Gildra á Húsafelli sýnir vel hversu grjótgildrur voru gerðar í meginatriðum. Gildran er hlaðin efst á klettakambi og lítur út til að sjá eins og grjóthrúga. Hefur hún áreiðanlega alla tíð verið mjög áberandi og er svo um aðrar þær gildrur, sem ég hefi séð og hefur greinilega ekki verið reynt að fela þær eða hylja þær jarðvegi. Hefur verið leitast við að hafa gildrurnar þar sem hátt bar svo að þær færu ekki á kaf í snjó og mestu máli skipti, að þær væru þar sem refir fóru um í ætisleit á vetrum, en gildruveiðar munu einkum hafa verið stundaðar að vetrarlagi.

Húsfell - refagildra

Refagildra ofan við Húsfell.

Gildran á Húsafelli ofan Hafnarfjarðar er þannig gerð, að á klappirnar hefur verið hlaðið stórum steinum, sem sumir eru vel meðalmannstak. Eru þrír steinar í röð hvorum megin og milli þeirra um 30 cm bil, en fyrir enda tveir steinar. Þannig myndast eins konar gangur, um 150 cm langur, sem er opinn í þann enda sem í norður snýr, og þar er munninn, sem lágfótu hefur verið ætlað að fara inn um. Ofan á grjótganginum eru síðan aðrir stórir steinar, sem mynda þak. Síðan hafa allar glufur og op verið þéttuð með minni steinum og gengið svo frá, að sem minnst op væru á gildrunni nema munninn.

Refagildra

Refagildra – teikning ÓSÁ.

Milli tveggja fremstu steinanna í þakinu er nokkur glufa. Þar hefur verið skorðað allvænlegt hellublað, sem enn lá hjá gildrunni, um 20 cm breitt neðst og um 30 cm hátt, og gegnum það er klappað smágat ofarlega. Í gatinu hefur verið trétittur, sem legið hefur milli þaksteinanna og hellan þannig hangið uppi. Í tittinn var síðan bundið snæri, sem lá ofan á gildrunni og niður í hana aftast, hinn endinn bundinn í agnið, sem væntanlega heftir tíðast verið kjötbiti. Lá agnið innst í gildrunni og var nú útbúnaðurinn þannig, að þegar tófan skreið inn í gildruna og glefsaði í agnið og dró það til sín, kipptist titturinn úr gatinu og hellan rann niður.

Refagildra

Refagildra innanverð.

Rýmið í sjálfri gildrunni hefur verið við það miðað, að tófan kæmist mátulega fyrir en gæti ekki snúið sér við. Þannig átti hún erfitt með hreyfingar og gat með engu móti komist út aftur, enda var hún nú auðunnin í gildrunni, t.d. með broddstaf, sem lagt var inn á milli steinanna.
Gildra af þessari gerð er í raun einföld, en talsverða nákvæmni hefur þurft til að stilla helluna svo vel af, að hún rynni auðveldlega niður og skorðaðist og lokaði refinn inni. Er líklegt, að gildrur þessar hafi verið misvel veiðnar, enda er lágfóta kæn og kvekkist auðveldlega og er vör um sig, ekki síst ef hún finnur mannaþef af agninu.

Minna-Knarrarnes

Minna-Knarrarnes – enn ein forn refagildra opinberuð. Skráð sem „varða“ í fornleifaskráningu.

Í hörðum árum, þegar sultur svarf að, hefur svengdin orðið tortryggninni yfirsterkari.
Þessi gildra er hin eina, þar sem ég veit til að hellan hafi verið með gati fyrir trétitt. Annars hefur hellan yfirleitt verið krossbundin og lykkju á hinum enda bandsins bundið um afsleppan trétitt eða hvalbeinshæl innst í gildrunni þar sem agninu var komið fyrir, líklegast oftast smeygt bak við bandið. Þegar glefsað var í agnið kipptist bandið fram af tittinum og hellan féll niður.“

Rétt er að endurtaka það sem fyrst var sagt; að FERLIR hefur nú staðsett og skoðað rúmlega 100 hlaðnar refagildrur, sem hér hefur verið lýst, á Reykjanesskaganum. Fæstar hafa hingað til ratað inn í opinberar fornleifaskráningar. Sumar þeirra verða þó að teljast fornar og sennilega eru þær allar miklu mun eldri en 100 ára og því friðaðar skv. ákvæðum gildandi minjalaga.

Hraun

Hraun – yfirlit 2025.

Krossrefagildran ofan við Sandleyni ofan Hrauns við Grindavík er nú horfin. Hið sárgrætilega er að hún varð ekki nýrunnu hrauninu frá Sundhnúkagígaröðinni að bráð heldur var eyðilögð af mannavöldum. Stjórnendur á stórvirkum vinnuvélum hafa einhverra hluta vegna þurft að ýta upp nánast öllum Sandleyninum langt utan hraunspýjunnar, sem þar er ofanverð, með tilheyrandi eyðileggingu þeirrar fornleifar sem krossrefagildran var! Ekki er vitað til þess að Minjastofnun hafi gert hinar minnstu athugasemdir við þau áform? Stofnuninni til sárabótar má þó telja að fyrirliggjandi fornleifaskráning af svæðinu má telja hreina hörmung, bæði hvað varðar skilgreiningar og staðsetningar.

Heimild m.a.:
–Hluti af skrifum Þórs Magnússonar, Hrafnahrekkurinn – sitt af hverju um refagildrur – úr Árbók Hins íslenska fornleifafélags, 1980.

Hraun

Sigurður Gíslason, bóndi á Hrauni, sýnir FERLIRsfélögum eina refagildru af nokkrum ofan Hrauns.

Kringlumýrarsel

Selsstöðunnar í Kringlumýri ofan Krýsuvíkur (Húshóma) í umdæmi Grindavíkru er hvergi getið í heimildum né í fornleifaskráningum af svæðinu. Hún var því vel frekari rannsóknarinnar virði, en FERLIRsfélagar fundu minjarnar fyrir u.þ.b. tveimur áratugum á ferð þeirra um svæðið.

Hettustígur

Hettustígur.

Hvort sem þarna hafi verið kúasel eða fjársel breytir í rauninni litlu um gildi fundarins því næsta öruggt má telja að selstaðan kunni verið mjög forn, mögulega frá hinum fornu bæjarleifum í Húshólma, hinni fornu Krýsuvík. Vegarlengdin þangað er um 6.5 km. Enn má rekja selstíginn frá hraunjarðri Ögmundarhrauns (rann 1151) ofan Krýsuvíkur-Mælifells í selstöðina. Þetta er sjöunda selstaðan, sem FERLIR hefur staðsett í landi Krýsuvíkur.

Genginn var stígur frá austanverðum Vigdísarvöllum upp í gegnum neðanverða Smérdali undir Hettu vestanverðri, svonefndur Hettustígur. Stígurinn liggur upp með læk uns hann greinist í tvennt, annars vegar í göngustíg og hins vegar í hestagötu skammt ofar. Göturnar sameinast í eina skammt ofar þar sem útsýni birtist yfir Innradal norðan Bleikingsdals austan Slögu. Bleikingsdalur er grösugur og skjólsæll dalur er lækur hríslast um hann miðjan.

Kringlumýri

Innridalur.

Hettustígurinn liggur áfram áleiðis upp með Hettu vestanverðri, en áður en hann liggur á brattann er slóði til suðurs, yfir lítinn læk Bleikingsdals ofanverðan. Slóðinn er kindargata. Hún liggur inn að Kringlumýri. Eftir að hafa klofað auðveldlega yfir lítinn læk og klöngrast léttilega upp á ofanverða mýrina var gangan auðveld inn að selstóftunum, sem hvíla ofan grafins lækjarfarvegs efst og austast á þurru grasigrónu svæði.

Kringlumýrarsel

Kringlumýrarsel.

Sestaðan er gróin sporöskulaga „bæjarhóll“. Í honum má greina óregluleg rými á a.m.k. þremur stöðum. Ekki er neinum vafa undirorpið að þarna eru mannvistarleifar, mjög fornar, mögulega þær elstu hér á landi. Greina má reglulegar grjóthleðslur í tóftunum. Miðað við umfang og hæð tóftasamstæðunnar virðist hún hafa verið notuð um allnokkrun tíma. Þegar staðið er við selið efst í Kringlumýrinni og horft til suðurs má sjá startjörn í fornum gíg fjærst, en allt svæðið neðanvert rís vel undir örnefninu því segja má að það sé nánast allt samfeld mýri. Af aðstæðum að dæma má telja líklegt að þarna hafi verið kúasel þar sem kýr og gjeldfé hafa verið haft í seli yfir sumartímann.

Kringlumýrarsel

Kringlumýrarsel.

Fyrir einhverja tilviljun hafði stunguskófla verið með í för. Hvernig er hægt að hemja áhugasamt fólk þegar „sérfræðingarnir“ hafa brugðist ítrekað? Á meðan þátttakendur snæddu nestið sitt undir grasi grónum bakkanum ofan við selið hafði einhverjum, öllum að óvörum, dottið í hug að grafa holu í tóftarhólinn. Í henni kom í ljós, að því er virtist, að landnámsöskulagið svonefnda liggur ofan á minjunum. Öðrum datt í hug að stinga niður þverskorinni mælistöng. Í ljós komu kolagnir. Það styrkir þá trú að þarna hafi fyrrum verið selstaða frá Húshólmabæjunum, enda liggur sama öskulagið þar yfir minjum, s.s. görðum, sem þar neðra er að finna. Ekki er ólíklegt að ætla að hér hafi verið um byggð kelta eða papa um nokkurra ára skeið, jafnvel áratuga, áður en norrænir menn festu ráð sitt hér á landi.
Þess var vel gætt að frágangur væri með þeim hætti að hvergi var ör að sjá á jörð.

Frábært veður. Gangan tók 2 kst og 2 mín.

Kringlumýrarsel

Kringlumýrarsel.

Hafnir

Fjallað er um álit Páls Theodórssonar á rannsóknum gjóskulaga í Fréttablaðinu árið 2015 undir fyrirsögninni „Kallar á endurskoðun á sögu landnáms„:

Páll Theódórsson

Páll Theódórsson (1928-2018).

Með nýrri tölvuúrvinnslu á gögnum um gjóskulög telur Páll Theódórsson eðlisfræðingur hægt að tímasetja mannvistarleifar með ná kvæmari hætti en áður. Ljóst sé að landnám hafi hafist hér fyrr en áður hefur verið talið. Segir stöðnun ríkja í tímatali landnáms.

„Með nýrri tölvuúrvinnslu er hægt að tímasetja með nákvæmari hætti byggð og fornmuni sem fundist hafa hér á landi. Þetta kemur fram í nýju smáriti Páls Theódórssonar, eðlisfræðings og vísindamanns emeritus hjá Raunvísindastofnun Háskólans.
Páll segir að með aðferðinni sem hann hefur þróað sé kominn traustur grunnur að gjóskutíma talinu (þar sem tímasetning er ákvörðuð eftir gjóskulögum í jarðvegi) og nákvæmar tímasetningar mannvistarleifa og gjóskulaga mögulegar. Óvissumörk tímasetninga séu á bilinu fjögur til tíu ár. „Fornleifafræðingar reyna iðulega að tímasetja mannvist af formgerð muna. Þetta er nú úrelt aðferð,“ segir hann í ritinu.

Hrísbrú

Hrísbrú – uppgröftur.

Páll vill meina að landnám Íslands hafi hafist umtalsvert fyrr en viðtekið sé í fræðaheiminum, þar sem talið sé að landnám hafi hafist í Reykjavík um 870. „Fyrstu landnámsmennirnir hafa vafalítið valið sér land til búsetu við sjávarsíðuna þar sem aðstaða til útróðra var góð,“ segir hann og bætir við að benda megi á fjölmarga staði á landinu sem hefðu þótt álitlegir.
„Þar sem umtalsverð forleifarannsókn hefur aðeins farið fram á einum slíkum stað, í Reykjavík, og margt sem bendir til að landnám hafi hafist mun fyrr, stöndum við í raun á byrjunarreit í þessum efnum.“
LandnámÝmsar niðurstöður nýrrar úrvinnslu gjóskusniða sem hann hefur hannað segir Páll að varpi ljósi á þennan frumþátt í sögu þjóðarinnar og sýni að landnám hafi hafist mun fyrr en nú sé talið. „Í ljósi þessara upplýsinga er augljóst að í íslenskri fornleifafræði ríkir alvarleg stöðnun í tímatali landnáms.“

Hafnir

Hafnir – landnámsskáli. Bjarni Einarsson hefur haldið því fram að skálatóftin lýsi tímabundinni búsetu manna hér á landi fyrir eiginlegt landnám norrænna manna.

Sögu elstu búsetu á Íslandi þurfi að taka til gagngerrar endurskoðunar.
Niðurstöður sínar byggir Páll að hluta á nýrri nálgun við mat á þykknun jarðlaga, en hraði þykknunar segir hann að hafi verið stöðugur í átta aldir eftir 870. „Hvorki búseta manna né stórfelldar breytingar á veðurfari hafa haft áhrif á þykknunina — gagnstætt því sem almennt er talið.“
Í riti Páls kemur fram að hann líti á samantektina sem frumniðurstöður og nýja nálgun sem fleiri geti nýtt sér. „Ég lít á þetta kver sem byrjun þar sem aðrir taka síðan við keflinu.“

Hratt landnám bendir til fyrri heimsókna

Orri Vésteinsson

Orri Vésteinsson.

„Fáum hlutum í fornleifafræði er hægt að slá fram sem fullvísum, segir Orri Vésteinsson, prófessor í fornleifafræði við Háskóla Íslands, og fagnar allri umræðu um aldur fornminja hér á landi.
Spurningunni um hvort landnám Íslands hafi verið neglt niður við ártalið 870 segir hann bæði hægt að svara með jái og neii. „Það skýrist æ betur að svarið er já í þeim skilningi að það er ekki fyrr en eftir 870 sem stórfelldir fólksflutningar hefjast hingað. Þá er landið numið geysilega hratt og kannski mun hraðar en menn töldu áður,“ segir hann. Á hinn bóginn sé auðvitað vitað að hingað hafi verið komið fólk fyrir 870. „Og um það deilir enginn.“

Fornleifauppgröftur

Fornleifauppgröftur í Stöðvarfirði.

Til þess að hratt landnám og uppbygging frá 870 gangi upp segir Orri menn hljóta að gera ráð fyrir fólki hér í einhverjum mæli og þess vegna töluvert löngu á undan. „Í mínum huga er ekkert sem mælir á móti því að fólk hafi siglt hingað eða komið þess vegna hundrað árum áður og það eru nýlegar niðurstöður frá Færeyjum sem benda í nákvæmlega þá átt.“ Orri segir menn hafa verið duglega að lesa söguna þannig að landið hljóti að byggjast um leið og það hafi verið uppgötvað. Allt eins gæti verið að fólk hefði vitað af landinu en ekki séð ástæðu til að byggja það fyrr en um 1870.“

Heimild:
-Fréttablaðið, 198. tbl. 26.08.2015, Kallar á endurskoðun á sögu landnáms, bls. 4.

Eiríksstaðir

Eiríksstaðir – skáli Eiríks rauða í Haukadal.

Reykjanesbær

Við norðanverða Ægisgötu í Reykjanesbæ, neðan Hafnargötu 2, er skilti með yfirskriftinni „Hús Duus kaupmanns“. Á skiltinu má sjá eftirfarandi fróðleik:

Reykjanesbær

Duus-hús; skilti.

„Við Keflavíkurtúnið standa tvö hús sem Hans Pétur Duus lét reisa fyrir verslun sína. Verslunin var rekin í Gömlubúð sem reist var árið 1870. Til móts við það stendur Bryggjuhúsið sem var gríðarstórt og mikið pakkhús, byggt árið 1879. Þessi tvo hús standa enn. Á myndinni sést einnig eldra verslunarhúsið sem nú er horfið.
Kaupmaðurinn lagði áherslu á gott viðhald húsanna. Hann lét á hverju ári bera blöndu af tjöru og lýsi á húsin enda er viðurinn í húsunum enn í góðu ástandi.“
Duus-hús

Stekkjarkot

Við tilgátusmábýlið Stekkjarkot í Ytri-Njarðvík (Reykjanesbæ) er skilti. Á því má lesa eftirfarandi texta:

Stekkjarkot

Stekkjarkot.

„Á 19. öld risu fjölmörg kot við sjóinn og voru þau fyrsti vísirunn að þéttbýliskjörnum. Stekkjarkot var fyrst reist á árunum 1855-1857 og var þurrabúð. Þurrabúðir stóðu á leigulandi og þurftu ábúendur að reiða sig á sjósókn til að draga fram lífið því ekki máttu þeir halda þar búfénað.
Búseta var stopul í Stekkjarkoti. Árið 1877 lagðist það í eyði en var aftur byggt upp árið 1917. Árið 1921 varð Stekkjarkot grasbýli sem gaf íbúm rétt til þess að halda einhverjar skepnur. Búseta lagðist endanlega af í Stekkjarkoti árið 1924.

Stekkjarkot

Stekkjarkot.

Húsið sem nú stendur hér var reist í tilefni af 50 ára afmæli Njarðvíkurkaupstaðar og opnað almenningi árið 1933. Við byggingu hússins var stuðst við endurminningar eins af síðustu íbúum hússins.
Húsið er byggt úr torfi og grjóti og er tvískipt. Eldri hlutinn á rætur að rekja til 19. aldar. Þar er hlóðaeldur og moldargólf. Yngra húsið er frá síðari búsetudögum. Baðstofa og eldhús eru alþiljuð og kolaeldavél komin í húsið svo ekki virðist hafa farið illa um heimilisfólk.

Stekkjarkot er í umsjón Byggðasafns Reykjanesbæjar. Nánari upplýsingar um opnunartíma má nálgast á vef safnsins.“

Stekkjarkot

Stekkjarkot.

Kaldársel

Í skrautgarðinum Hellisgerði í Hafnarfirði eru sex aðskilin skilti með yfirskriftinni „Kaldársel í 100 ár„.

Fyrsta skiltið fjallar um KFUM og KFUK 1925-1945:

Kaldársel

Kaldársel 100 ára; skilti.

„Í Kaldárseli reis fyrsti sumarbúðakálinn sem KFUMfélögin hér á landi eignuðust. Félögin byggðu húsið árið 1925 til sumardvalar fyrir börn og var það vígt 25. júní sama ár.
Jólel Friðrik Ingvarsson var mikill frumkvöðull í KFUK í Hafnarfirði og gegndi lykilhlutverki við stofnun sumarbúðanna í Kaldárseli. Hann fór með sér Friðriki Friðrikssyni, stofnanda KFUM og KFUK í Reykjavík, í Kaldársel og í þeirri ferð fæddist sú hugmynd að þar væri gott fyrir KFUM að eiga bústað.

Kaldársel

Kaldársel 1926.

Náttúrfegurðin í Kaldárseli heillaði alla sem þangað komu. Nokkurra ára aðdragandi var að stofnun sumarbúðanna, þar sem félagar í KFUM báðu fyrir hugmyndinni og söfnuðu í skálasjóð.
Í Vísi árið 1929 lýsti Sigurbjörn Á Gíslason dagsferð í Kaldársel, meðal anars húsakynnum KFUM: „Í skálanum eru 2 smáherbergi, eldhús og svefnstofa, og eitt stórt [herbergi], þar eru 24 rúm. þrísett upp á við og 2 langborð í miðju, til að matast við. Félögin nota skálann sumpart handa sjálfum sér að sumarbústað og sumpart þó eða einkanlega nú sem drengjabústað. Drengirnir voru í þetta sinn flestir 8 til 10 ára gamlir, bæði úr Reykjavík og Hafnarfirði“.

Annað skiltið fjallar um KFUM og KFUK 1946-1965:

Kaldársel

Kaldársel 100 ára; skilti.

„Börnin sem dvalið hafa í Kaldárseli í gegnum tíðina eiga þaðan fallegar minningar um fjölbreytt starf og skemmtilegan leik.
Gyða Gunnarsdóttir skrifaði eftirfarandi orð um sína fyrstu sumarbúðaferð í Kaldársel árið 1958 sem hófst á ferðalaginu þangað; „Það kom rúta á Hverfisgötuna í Hafnarfirði og stoppaði fyrir framan KFUM og K húsið. Við stelpurnar vorum að fara í Kaldársel, ég í fyrsta sinn í fjórar vikur og var aðeins sex ára. Árið 1958. Ég var spennt. Jafngaman að fara í rútu og það var að fara í strætó en núna var að hefjast ævintýri.

Kaldársel

Kaldársel – buslað í Kaldá.

Leiðin lá út Hverfisgötuna og upp Öldugötuna og upp fyrir bæinn. Þegar rútan lagði af stað vinkaði mamma, ég vinkaði á móti og fann strax fryir heimþrá sem svo gleymdist fljótt vegna alls þess sem beið mín og gerðist. Leiðin lá um hraunið fyrir ofan bæinn, framhjá Sléttuhlíð og svo niður brekkuna með klettum á báðar hliðar næstum eins og Alammangjá á Þingvöllum. Svo blasti litla hvíta húsið við, húsið við Kaldána við Kaldársel, þar sem við allar í rútunni ætluðum að dvelja næstu fjórar vikurnar….“

Þriðja skiltið fjallar um KFUM og KFUK 1966-1985:

Kaldársel

Kaldársel 100 ára; skilti.

„Í viðtali við Sigrúnu Sumarrós Jónsdóttur matráðskonu í Kaldárseli við tímaritið Bjarma árið 1985 rifjaði hún upp gamla tíma í Selinu eins og flestir kölluðu Kaldársel í daglegu tali: „Eldað var á kolavél sem var um leið eina upphitunin í skálanum. […] Í þá daga voru börnin heilan mánuð í einu í Selinu og þegar þau áttu að fara í bað, eins og nauðsynlegt var, þurfti að hita allt vatn á kolavélinni. Oft bogaði af manni sveitinn við það starfs og eitt sinn var mér orðið svo heitt að ég skutlaði mér út í Kaldá á eftir.

Kaldársel

Kaldársel endurbætt.

Það gefur einnig hugmynd um starfið þá, að eitt af kvöldverkum ráðskonunnar var að hreinsa útikamrana og grafa í jörð það sem í föturnar hafði safnast um daginn. Nú eru aðstæður allar aðrar og munar þar kannski mest um breytinguna sem varð þegar byggt var við skálann og hann endurbættur [árið] 1967. Nú höfum við heitt vatn frá olíuhitun og gasvél er tekinvið af gömlu kolavélinni. Enn höfum við þó ekki fengið rafmagn“.

Fjórða skiltið fjallar um KFUM og KFUK 1986-2005:

Kaldársel

Kaldársel 100 ára; skilti.

„Í Kaldárseli fá börnin að heyra um Jesú og ýmsar sögur úr Biblíunni. Auk þess læra þau mörg vers og kristilega söngva. Þeir Guðmundur Vignir og Friðfinnur Freyr höfðu þetta að segja í Barnablaðinu árið 1989 þegar þeir voru spurðir að því hvað þeir höfðu helst lært af verunni í Kaldárseli: „Fyrst og fremst höfum við lært um Guð. Það er allatf verið að tala um Guð hérna. Okkur eru sagðar kristilegar sögur og venjulegar sögur sem við eigum að læra eitthvað af. T.d. höfum við lært að fyrirgefa og hvað það er nauðsynlegt að vera vinir, sagði Guðmundur.

Kaldársel

Drengir í Kaldárseli.

Það slettist þó stundum upp á vinskapinn, sagði Friðfinnur, en við leysum alltaf úr öllum hlutum og allir verða vinir aftur.“
Þrisvar sinnum var farið í stækkun á Kaldárseli og aðbúnaðurinn bættur í takt við auknar kröfur samtímans. Ný stór viðbygging var vígð sunnudaginn 24. júní 1990. Sama ár var fengin díselvél sem sá skálanum fyrir rafmagni og hita en fyrir það hafði ekki verið rafmagn í Kaldárseli. Um 250 börn dvöldust í sumarbúðunum það árið og voru þau 38 í einu þegar flokkurinn var fullskipaður“.

Fimmta skiltið fjallar um KFUM og KFUK 2006-2025:

Kaldársel

Kaldársel 100 ára; skilti.

„Í 100 ára hafa börn komið í Kaldársel, þar hafa þau fengið dýrmæt tækifæri til að rækta líkama, sál og anda. Umhverfi Kaldársels spilar stórt hlutverk í dagskrá sumarbúðanna og leikjanámskeiðanna. Þar er fjöldi hella og ævintýralegra staða sem gaman er að skoða. Fjölbreytt dagskrá er í boði fyrir börnin allan daginn. Útileikir, sullað í ánni, búleikir og virki í hrauninu, hellaferðir, fjallganga, samverustundir, fræðsla, föndur, söngur og bænir svo eitthvað sé nefnt. Í Kaldárseli er leitast við að efla og styðja góð samskipti með uppbyggilegri leiðsögn og kristnifræðslu.

Kaldársel

Stúlkur í Kaldárseli.

Ásamt sumarbúðunum hefur Vinasetrið bæst við í starfsemi Kaldársels og er það starfrækt um helgar allan ársins hring. Tilgangur og markmið Vinasetursins er að veita börnum og fjölskyldum þeirra sem þurfa á þéttu stuðningsneti frá fagfólki að halda athvarf og stuðning. Unnið er af heilhug eftir þeirri hugsjón að hvert barn er einstakt og á skilið það allra besta.
Kaldársel hefur verið til staðar fyrir börnin okkar í 100 ár“.

Sjötta skiltið fjallar um Benedikt Arnkelsson og Sigrúnu Sumarrós Jónsdóttur:

Kaldársel

Kaldársel 100 ára; skilti.

„Benedkit forstöðumaður, alltaf kallaður Benni, starfaði í Kaldárseli í rúmlega 45 sumur og lengur ef talin eru sumur þar sem hann kom til aðstoðar í tyttri tíma. Hann var trúr sinni köllun af vera innanlandskristniboði. Hann hafði fastar skorður á hlutunum og náði vel til barnanna.
Sigrún Sumarrós, alltaf kölluð Rúna, var matráðskoma í Kaldárseli í um það bil 50 sumur. Eldhúsið var hjarta Kaldársels og Rúna sá til þess að hjartað sló traustum takti. Rúnu féll aldrei verk úr hendi og naut hún sín hvergi betur en í skarkala og hlátrasköllum barnanna.
Í sameiningu stýrðu Benni og Rúna sumarbúðunum í Kaldárseli með styrkri hendi og hlýju. Vitnisburðir óteljandi barna, sem nú eru löngu orðin fullorðin, segja að þau hafi gengið þeim í föður- og móðurstað meðan á dvöl þeirra stóð í Selinu góða“.

Heimild:
-Skilti í Hellisgerði í Hafnarfirði árið 2025.

Hellisgerði

Hellisgerði 2025.

Reykjavík

Við innganga í Grasagarðinn í Reykjavík eru skilti. Á þeim má lesa eftirfarandi texta:

Reykjavík

Grasagarðurinn – skilti.

„Velkomin í Grasagarðinn.
Grasagarðurinn var stofnaður árið 1961 og er eitt af söfnun Reykjavíkurborgar. Hlutverk hans er að varðveita og skrá plöntur til fræðslu, rannsókna og yndisauka. Í honum eru átta safndeildir með um 5.000 plöntum. Heildarfjöldi tegunda, undirtegunda, afbrigða og yrkja er rúmlega 3.500. Plöntusafn garðsins sýnir fjölbreytni þess gróðurs sem vex í norðlæga tempraða beltinu.

1. Flóra Íslands
Í safndeildinni er að finna um 300 af þeim u.þ.b. 485 tegundum blómplantna og byrkinga sem teljast til íslensku flórunnar. Reynt er af fremsta megni að líkja eftir náttúrlegum vaxtarsvæðum plantnanna, svo sem votlendi og jarðhitasvæðum.

Reykjavík

Í Grasagarðinum.

2. Fjölærar jurtir
Fjölæringum er raðað í beð eftir flokkun þeirra í plöntuættkvíslir og ættir. Í safndeildinni er að finna bæði tegundir af villtum uppruna, afbrigði þeirra sem og ræktuð yrki.

3. Rósir
Í safndeildinni eru sýnishorn af algengum rósategundum og mörgum þeirra rósayrkja sem eru í ræktun utandyra á Íslandi.

4. Lyngrósir
Safn sígrænna lyngrósarunna. Elsta lyngrósin, skógalyngrós, er frá árinu 1977, blómgast í maí og blómstrar stórum, bleikum, klukkulaga blómum. Einnig eru í safndeildinni ýmsar skógarbotnstegundir sem þrífast í súrum jarðvegi.

Reykjavík

Í Grasagarðinum.

5. Skógarbotnsplöntur
Skógarbotsplöntur safndeildarinnar eiga uppruna sinn á skógarsvæðum tempraða beltisins nyrðra og blómstra margar áður en tré laufgast. Þær þrífast best í skugga og í jarðvegi sem er ríkur af lífrænum plöntuleifum.

6 Trjásafn
Trjásafnið er stærsta safndeild Grasagarðsins og í henni eru fjöldi tegunda trjáa og runna prófaðar utandyra með tilliti til þrifa og harðgerðis.

7. Steinhæð

Reykjavík

Grasagarðurinn – skilti.

Í steinhæðinni eru erlendar fjölærar háfjallajurtit og smárunnar. Plöntunum er raðað saman eftir upprunalegum heimkynnum þeirra. Þar má finna plöntur frá fjallasvæðum Evrópu, Norður- og Suður-

Ameríku, Asíu og Eyjaálfu.

8. Nytjajurtagarður
Í safndeildinni eru ræktaðar matjurtir, krydd og lækningajurtir. Þar má finna allar helstu tegundir þeirra nytjajurta sem eru ræktaðar í heimilisgörðum á Íslandi.“

Reykjavík

Grasagarðurinn – skilti.

Rauðhólar

Rauðhólar voru friðlýstir sem náttúruvætti á árinu 1961 vegna jarðminja en einnig landsslags, lífríkis og útivistargildis, og sem fólkvangur frá árinu 1974.

Rauðhólar

Rauðhólar – kort er fylgdi friðlýsingunni 1974.

Stærð hins friðlýsta svæðis er um 45 ha og er afmörkun þess sýnd á uppdrættinum. Fólkvangar eru útivistarsvæði í umsjón sveitarfélaga þar sem reynt er að auðvelda aðgang almennings án þess að náttúran bíði tjón af. Efnisnámi hefur verið hætt í Rauðhólum, nema til að snyrta efnistökusvæðið. Um helmingur hólanna er raskaður og þar er jafnframt víða hægt að skoða innviði rofinna gervigíga.

Í „Stj.tíð. B, nr. 185/1974“ segir í „Auglýsingu um fólkvang í Rauðhólum“:
„[Umhverfisstofnun] hefur fyrir sitt leyti samþykkt stofnun fólkvangs í Rauðhólum við Reykjavík og tjáð ráðuneytinu, að frestur til að gera athugasemdir við stofnun fólkvangsins sé útrunninn, og hafi engar athugasemdir borist.
RauðhólarRáðuneytið er samþykkt ákvörðun [Umhverfisstofnunar] og með skírskotun til laga nr. 47/1971, um náttúruvernd, tekur stofnun fólkvangsins gildi við birtingu þessarar auglýsingar í Stjórnartíðindum. Reglur um fólkvanginn eru í meðfylgjandi fylgiskjali.“ – Í menntamálaráðuneytinu, 12. mars 1974; Magnús T. Ólafsson.

Fylgiskjal – Auglýsing frá [Umhverfisstofnun] um fólkvang í Rauðhólum.
„Að tillögu náttúruverndarnefndar Reykjavíkur og að fengnu samþykki borgarstjórnar Reykjavíkur, hefur [Umhverfisstofnun] ákveðið að lýsa Rauðhóla og nágrenni þeirra fólkvang, samkvæmt 26.gr. laga nr. 47/1971.

Rauðhólar

Í Rauðhólum.

Takmörk þess svæðis, sem náttúruverndarnefnd Reykjavíkur ákvarðar til fólkvangsfriðunar á, eru sem hér segir, sbr. meðfylgjandi uppdrátt:
Brotin lína frá punkti 1 í miðri Hólmsá, þar sem brúin á gamla veginum var, ákvarðast hún af punktunum 1-2-3-4 og 5, frá punkti 5 ræður miður farvegur lækjar þess, sem rennur úr Hrauntúnstjörn í Helluvatn að punkti 6, þaðan brotna línan sem ákvarðast af punktunum 6-7 og 8, þaðan bogin lína, sem ákvarðast af punktunum 9-10-11-12-13-14 og 15, þaðan bogin lína, sem liggur fyrst um 5 m frá norðurbrún vegar að vesturenda Sundhóls og og þaðan áfram vestan sumarbústaða (Litla-Hvamms) suðvestan í Sundhól, sem uppdráttur sýnir, að punkti 16, þaðan brotin lína, sem ákvarðast af punktunum 16-17-18 og 19, þaðan miður farvegur Hólmsár að punkti 1.

Rauðhólar

Í Rauðhólum.

Reglur þessar gildi um fólkvanginn
1. Fótgangandi fólki er heimil för um allr svæðið og óheimilt er að reisa þar girðingar eða annars konar tálmanir, á þann veg að umferð fólks torveldist.
2. Óheimilt er að gera á svæðinu mannvirki né gera jarðrask, nema leyfi [Umhverfisstofnunar] komi til.
Eftirlit með fólkvanginum er í höndum náttúruverndarnefndar Reykjavíkur.“

Rauðhólar

Kort af Rauðhólum sbemma á 20. öld (von Komorowicz 1912).

Maríuhellar

Við bifreiðastæði við Heiðmerkurveg sunnan Maríuhella er skilti með eftirfarandi upplýsingum:

Maríuhellar

Maríuhellar – skilti.

„Maríuhellar er samheiti á þremur hellum á landamerkjum Urriðavatns og Vífilsstaða, Vífilsstaðahelli, Urriðakotshelli og Draugahelli.
Tveir fyrstnefndu hennarnir voru áður fyrr notaðir sem fjárhellarr en víða í Búrfellshrauni er að finna hella og skúta sem voru fjárskjól. Fjárhellar eru fornleifar og friðaðir samkvæmt þjóðminjalögnum.
Maríuhellar eru líklega kenndir við Maríu guðsmóður. Í landamerkjalýsingu Urriðakots frá 1890 er talað um „Fjárhellra mót Vífilsstöðum sem fyrrum hjetu Maríuhellar“. Ef til vill var talið gæfulegt fyrir féð að kenna fjárhellana við hana.

Draugahellir er vestastur Maríuhella, um 65-70 m langur inn í botn en er mjög lágur innst. Inngangurinn í hann er um þrönga gjótu sem liggur niður með vegg hraunrásarinnar og stórgrýtis úr hrundu loftinu.

Maríuhellar

Maríuhellar – skilti.

Urriðakotshellir er sá hellir sem mest ber á, opin hraunrás í miklu jarðfalli, 24 m. á lengd. Gengið er ofan í hann að vestanverðu og niður nálega 20 m langa rás uns komið er í grasi gróið jarðfallið. Í framhaldi af því heldur rásin áfram inn í sal og er gat í háu loftinu þar sem sér til himins. Fremst í hellismunnanum eru hleðslur og gólfin bera merki þess að þarna var fé geymt. Í jarðfallinu fyrir framan skútann mótar fyrir hleðslum. Virðist vera hús þar og ef til vill kví.

Vífilsstaðahellir er nyrstur Maríuhella. Hann er í hraunkatli, kanturinn liggur norðvestur og austur og er 19 m langur. Hægt er að ganga beint inn í hann til norðurs í stóru jarðfalli og einnig beggja vegna í kantinum. Þegar farið er inn í eystri rásina er gengið utan í hrauni annars vegar og rásveggnum hins vegar. Á gólfinu í hellinum sést að hann hefur verið fjárskjól. Hleðslur eru ekki greinilegar við opið og þar hefur orðið mikið hrun.

Urriðakotshellir

Urriðakotshellir.

Jónshellar eru þrír skútar og ekki hluti af maríuhellum. Þá er að finna rétt norðan við Draugahelli. Enn skútinn er sýnu mestur, um 50 m langur, og annar hefur greinilega verið fjárskjól. Hleðsla er fremst í þeim skútanum en fyrir innan er slétt moldargólf.

Margir hraunhellar eru þekktir í Búrfellshrauni, s.s. Hundrametrahellir (Fosshellir) (102 m), Níutíumetrahellir (93m), Rauðshellir (65 m), Ketshellir (22 m), Kershellir (34 m), Hvatshellir (50 m), Sauðahellir syðri (Þorsteinshellir) (43 m), Sauðahellir nyrðri (32 m), Skátahellir syðri (237 m), Skátahellir nyrðri (127 m), Hraunsholtshellir (23 m), Vatnshellir (23 m), Sauðaskjólið (12 m), Selgjárhellir syðri (8 m) og Selgjárhellir eystri (11 m).“

Skammt norðan við Urriðakotshelli er forn gróinn stekkur.

Urriðakotshellir

Urriðakotshellir (Maríuhellar).

Rauðhólar

Við bifreiðastæði við Heiðmerkurveg sunnan Rauðhóla er skilti. Á því má lesa eftirfarandi:

Gervigígar

Rauðhólar

Rauðhólar – skilti.

Rauðhólar eru gervigígar. Þeir myndast þegar hraun rennur yfir grunn stöðuvötn, votlendi eða í árfarvegi.
Gervigígar eru jafnan í óreglulegum þyrpingum. Oft má styðjast við skipulagsleysið og legu í dældum eða dölum til að greina gervigíga frá eldgígum.

Myndunarsaga Rauðhóla
Fyrir fimm þúsund árum varð eldgos í gígnum Leiti, sem er suðaustan í Bláfjöllum. Hraunið nefnist Leitarhraun. Hraunstraumurinn rann niður Sandskeið og þaðan með farvegum Hólmsár og síðan Elliðaáa allt í sjó fram í Elliðavogi.
RauðhólarÞegar hraunkvikan rann yfir hið forna Elliðavatn snöggkólnaði hún og dró í sig vatn í gufuformi. Gufan kom af stað ólgu og suðu í kvikunni svo hún tættist í sundur og varð að gjalli. Við þetta hlóðust upp um 80 gjallgígar, sem mynda Rauðhólana.

Norðaustan í Rauðhólunum var stór og merkilegur gígur, sem hét Kastali og er hann mikið skemmdur. Þar vestur af var Stóri-Rauðhóll, en af honum sést ekki urmull og þar suðaustur af Miðaftanshóll, sem nú er óþekkjanlegur.
Á árinu 1949 flutti Sigurður Þórarinsson jarðfræðingur erindi um náttúrvernd. Þar fjallaði hann m.a. um eyðileggingu Rauðhóla og taldi að þeim yrði ekki bjargað. Erindið vakti mikla athygli og hafði m.a. áhrif til að flýta gildistöku náttúrverndarlaga á Íslandi.

Rauðhólar

Rauðhólar – friðlýsing.

Rauðhólar voru friðlýstir sem náttúruvætti á árinu 1961 og sem fólkvangur á árinu 1974. Stærð hins friðlýsta svæðis er um 45 ha og er afmörkun þess sýnd á uppdrættinum. Fólkvangar eru útivistarsvæði í umsjón sveitarfélaga þar sem reynt er að auðvelda aðgang almennings án þess að náttúran bíði tjón af. Efnisnámi hefur verið hætt í Rauðhólum, nema til að snyrta efnistökusvæðið. Um helmingur hólanna er raskaður og þar er jafnframt víða hægt að skoða innviði rofinna gervigíga.“

Rauðhólar

Í Rauðhólum.