Elliðaár

Um Ártúnshöfða er fjallað í „Fornleifaskrá fyrir Ártúnshöfða“ frá árinu 2021. Þar er m.a. rakin saga svæðisins frá fortíð til nútíma:

Ártúnshöfði

Ártúnshöfði.

„Landsvæðið sem núverandi borgarland Reykjavíkur nær yfir skiptist á öldum áður upp í jarðir lögbýla. Það landsvæði sem nú er skilgreint sem Ártúnshöfði tilheyrði áður að mestu tveimur bújörðum. Landið á vestanverðum höfðanum tilheyrði Ártúni en austar var land Árbæjar. Svæðið einkennist af holtum og ásum, mýrum og fornum ísaldareyrum sem nú eru sundurgrafnar vegna malarnáms. Svæðið er að mestu byggt, en við Elliðaárvog og Grafarvog eru miklar landfyllingar. Fyrir botni Elliðaárvogs eru ósar Elliðaánna sem renna nú eftir manngerðum rásum til sjávar.

Ártúnshöfði

Ártúnshöfði – strandlínan um 1900.

Á tímabilinu 1965-1975 voru gerðar miklar uppfyllingar á svæðinu svo að ásýnd og náttúra Elliðaárósa breyttist mjög. Við framkvæmdirnar urðu til tveir flatlendir tangar eða nes og er það eystra kallað Geirsnef en á vestari fyllingunni er gatan Naustavogur og smábátahöfn Snarfara. Þröngur vogur sem myndaðist vestan uppfyllinganna hefur verið kallaður Arnarvogur. Austast er svo þriðja stóra uppfyllingin landföst, á henni er gatan Sævarhöfði, en götunöfn á Ártúnshöfða enda öll á -höfði. Áður en þessar landfyllingar voru gerðar voru þarna miklar leirur og þar sem land og leirur mættust voru kallaðir Árkjaftar. Þar voru neðri veiðihúsin, sunnan við þau voru Almenningsvöð, neðstu vöðin yfir Elliðaár. Sagt er að Elliðaár og Elliðaárvogur dragi nöfn sín af skipi Ketilbjörns gamla landnámsmanns, Elliða.
Ártúnshöfði.Norðan og austan er Grafarvogur. Þar er líka mikil landuppfylling og á henni var Bryggjuhverfið byggt. Svæðinu hallar til vesturs (Ártúnsbrekka) að Elliðaánum frá gatnamótum Höfðabakka og Vesturlandsvegar. Austan við Sævarhöfða voru gamlar malarnámur og norðar grjótnámur. Það land er að mestu allt raskað.
Norðan á höfðanum við Grafarvog er Ytriurð, hár grjótbakki sem liggur niður að uppfyllingunni út í voginn og austan við Gullinbrú er Innriurð, neðan og norðan við Stórhöfða. Krossamýri var stór mýrarfláki á miðjum Ártúnshöfða þar sem nú er Breiðhöfði. Þar voru Krossamýrarblettir. Afrennsli frá mýrinni var til vesturs um Krossagil í Elliðaárvog. Austar á svæðinu var Jörfi og Borgarmýri við Vesturlandsveg.

Í landi Ártúns, Árbæjar og Bústaða
Ártúnshöfði.Svæðið sem hér er til umfjöllunar tilheyrði að mestu tveimur jörðum: Ártúni og Árbæ. Jarðirnar voru lagðar til Viðeyjarklausturs sem var stofnað árið 1226, en klaustrið hafði mikil stjórnsýsluleg völd meðan það var starfandi. Við siðaskiptin 1550 yfirtók Danakonungur allar eignir klaustursins. Konungur seldi síðan jarðirnar árið 1838 og komust þær þá í einkaeigu.
Austan við eystri Elliðaárkvíslina var jörðin Ártún, en um kvíslina lágu sveitarfélagsmörk til ársins 1929. Bæjarstæði Ártúns er á háum hól vestan undir Ártúnsbrekkunni.

Artún

Ártún.

Jarðarinnar Ártúns er ekki getið í Íslenzku fornbréfasafni en menn hafa getið sér þess til að jörðin Árland neðra, sem getið er um í Vilchinsbók frá 1379, þá eign kirkjunnar í Nesi, og í Gíslamáldaga frá 16. öld, sé umrædd jörð. Ártún var lengi vel í alfaraleið og þar var stunduð greiðasala og gistiþjónusta á seinni hluta 19. aldar.
Árið 1906 keypti bæjarstjórn Reykjavíkur jarðirnar Ártún, Árbæ og Breiðholt, ásamt hluta úr Gröf, vegna fyrirhugaðra vatnsveituframkvæmda, því fyrstu hugmyndir gengu út á að taka neysluvatn úr Elliðaánum fyrir þéttbýli í Reykjavík.

Elliðaár

Elliðaár, stífla, um 1900.

Á árunum 1920 1921 voru Elliðaárnar virkjaðar og mannvirki Elliðaárvirkjunar reist sunnan við Ártún.
Austur af Ártúni var jörðin Árbær. Gömlu bæjarhúsin eru nú innan safnsvæðis Árbæjarsafns, en jörðin lá upp með Elliðaánum og í norður að Grafarvogi. Elsta heimild um Árbæ er í skjali frá 31. júlí 1464. Þar votta Steinmóður ábóti í Viðey og Jón Narfason að Ólöf ríka Loptsdóttir hafi látið Gerrek gullsmið í Hafnarfirði fá silfur sem greiðslu fyrir jarðir Guðmundar Arasonar, sem hún og hennar maður Björn Þorleifsson höfðu keypt af konungi, en Gerrekur átti að koma silfrinu til konungs fyrir þeirra hönd. Vitað er að búið hefur verið í Árbæ frá 10. öld, eins og fornleifarannsóknir á bæjarstæði Árbæjar hafa leitt í ljós.

Árbær

Árbær.

Síðustu ábúendur í Árbæ voru hjónin Margrét Pétursdóttir og Eyleifur Einarsson sem bjuggu þar frá 1881 og dóttir þeirra Kristjana, sem tók við búinu árið 1935 og bjó þar til 1948, en þá fór bærinn í eyði. Í tíð Margrétar og Eyleifs var fjölsótt greiðasala í Árbæ,
með svipuðu móti og áður hafði verið í Ártúni.19 Saga Árbæjar, eins og Ártúns, er einnig samofin nýtingu Elliðaánna. Eins og áður segir keypti bæjarstjórn Reykjavíkur jörðina ásamt Ártúni og fleiri jörðum árið 1906 vegna fyrirhugaðra vatnsveituframkvæmda og árið 1929 voru jarðirnar Ártún og Árbær báðar lagðar undir lögsagnarumdæmi Reykjavíkur.

Ártúnshöfði

Ártúnshöfði – fyrrum beitarhús; loftmynd 1954. Ofra má slá leifar fjarskiptastöðvarinnar.

Ártúnshöfði var áður notaður til beitar og þar var mór tekinn úr mýrum. Beitarhús voru nyrst á Ártúnshöfða þar sem nú er Eirhöfði 11. Þessi rúst er nú horfin en var mæld inn á gömul kort, auk þess sem hún sést á loftmynd frá árinu 1946.

Ártún – Fenton Street Camp – Elliðaárhverfi
Fenton Street Camp var við Ártúnsbrekku þar sem Sævarhöfði 2 er nú (2021). Í fyrstu voru þetta búðir reistar af Breska hernum fyrir stórskotaliðsfylki (Artillery Regiment) sem þó hafði þar einungis aðalstöðvar og þriðjung liðsaflans, samtals um 250 menn.
ÁrtúnshöfðiSeinna tók Bandaríkjaher við búðunum og fékk loftvarnabyssuflokkur sem taldi um 150 menn þær til íbúðar. Þegar þeir fluttu annað voru herbúðirnar notaðar um hríð af byggingarsveit hersins og fleiri fámennum liðsveitum. Eftir að setuliðið yfirgaf braggana nýttu íslenskar fjölskyldur sér hluta af kampinum sem fékk þá nafnið Elliðaárhverfi.

Ártún – Fjarskiptastöð
Á tímum hersetunnar var fjarskiptastöð breska flughersins á Ártúnshöfða við Krossamýri á svæði frá Dverghöfða í norður að Eldshöfða. Þar voru áður Krossamýrarblettir 5-12.
ÁrtúnshöfðiStöðin General Receiving Station, Artunshofdi tók til starfa í ágúst 1941, eftir að starfsemin var flutt frá Reykjavíkurflugvelli (úr Corbett Camp við Nauthólsvík). Nokkrir tugir manna störfuðu við stöðina, en hún var í nokkrum bröggum og hjá þeim stóðu allmörg grindamöstur og staurar sem héldu uppi vírunum sem mynduðu móttökuloftnet af nokkrum gerðum. Á loftljósmynd sem tekin var 6. mars 1946 má sjá sex loftskeytamöstur á Krossamýrarblettum nr. 6, 12, 11 og 10.
Braggaþyrping var á bletti nr. 7, þar sem nú er lóðin Breiðhöfði 10, og vestan við hann, þar sem nú eru bílastæði á lóðinni Þórðarhöfða 4. Á annarri loftmynd frá sama ári eru möstrin og braggarnir horfin, nema einn braggi við endann á Krossamýrarvegi.“

Heimild:
-Ártúnshöfði – Fornleifaskrá, Reykjavík 2021.
Ártúnshöfði