Á wikipedia má m.a. lesa eftirfarandi um „miltisbrand“ á Íslandi:

Fjöldi staða og bæja þar sem veikin hefur fundist eða má ætla að hún hafi fundist eru tilgreindir hér að ofan eftir landsvæðum og einnig hvernig merkingum hefur verið háttað á hverju svæði. Fjölda staða og bæja þarf að taka með fyrirvara.
„Talið er að miltisbrands hafi fyrst orðið vart á Íslandi árið 1865 en árið áður hófst innflutningur á ósútuðum, hertum húðum frá Afríku. Miltisbrandur hefur á íslensku einnig verið nefndur miltisbruni, miltisdrep, miltisbráðadauði og skinnapest. Sjúkdómsins varð síðar vart af og til. Miltisbrandur kom upp í Ölfusi 1965. Í desember árið 2004 kom upp miltisbrandur í fjórum hrossum sem höfðu haldið til við eyðibýlið Sjónarhól á Vatnsleysuströnd.
Miltisbrands virðist fyrst hafa orðið vart árið 1865 á Skarði á Skarðströnd en þá drápust á annað hundrað fjár vegna sjúkdómsins. Árið eftir kom upp miltisbrandur í Miðdal í Mosfellsveit og þar drápust 20 stórgripir (hross og nautgripir) en einnig lömb og hundar. Ári seinna kom aftur upp miltisbrandur á sama bæ.
Upp úr 1870 fór meira á bera á veikinni, einkum í Reykjavík og nærsveitum en það er talið tengjast því að um þetta leyti hófst innflutningur á ósútuðum, hertum húðum sem komu um Kaupmannahöfn en voru frá Zansibar í Afríku. Þessar aðfluttu húðir voru allt að helmingi ódýrari en innlendar húðir en einnig var skortur á húðum vegna útflutnings á hrossum og sauðfé. Árið 1890 er talið að fluttar hafi verið til landsins um 4000 stórgripahúðir. Erlendu húðirnar þurfti að leggja í bleyti áður en hægt var að vinna úr þeim og ef húðirnar voru mengaðar miltisbrandsbakteríum smituðust dýr sem komust í það vatn. Árið 1891 var flutt frumvarp á Alþingi til að sporna við hættu af innfluttum hertum húðum og skinnum en ekki var lagt bann við innflutningi. Árið 1902 er samþykkt lög þar sem Alþingi er heimilt að banna innflutning á ósútuðum húðum. Seinna voru einnig sett lög sem banna innflutning á kjöt- og beinmjöli og íblöndun þess í kjarnfóður.

Loftmynd af Reykjavík 1946. Hér má sjá býlin Háteig, Sunnuhvol, Klambra, Reykjahlíð og Eskihlíð. Stýrimannaskólinn á
Rauðarárholti er til vinstri og Norðurmýri til hægri. Neðst til hægri er herskálahverfið Camp Vulcan og til vinstri er Camp
Sheerwood við Háteigsveg.
Miltisbrandasýking kom m.a. upp á bænum Klömbrun þar sem núr er Klambratún.
Árið 1901 lést maður í Reykjavík eftir að hafa neytt kjöts af kú með miltisbrand. Árið 1901 kom upp miltisbrandur á bæ og drap mestalla nautgripi á bænum. Bóndinn hafði keypt útlenta herta húð og lagt hana í breyti í bæjarlæknum og síðan dregið hana inn í heyhlöðu þar sem hey handa nautgripum var tekið.
Árið 1901 greindi héraðslæknir á Eyrarbakka frá að bóndi í Selvogi hafi fengið drepbólu á enni eftir að hafa gert til sjálfdauðan hest. Háls og höfuð bóndans bólgnaði og hann lést. Einnig drapst annar hestur á bænum. Kona bóndans þvoði koddaver hans eftir að hann var látinn úr leysingavatni í dæld á túninu við bæinn. Um sama leyti var þar sótt vatn handa kú á öðrum bæ og snöggdrapst sú kú. Konan fékk drepbólu á eyra en læknaðist, maður á bænum fékk bólu á vör og dó.
Árið 1897 veiktist maður á Fáskrúðsfirði af miltisbruna en hann hafði fengið drepbólu á handlegg eftir að hafa gert til hest sem lést af miltisbruna. Maðurinn komst til heilsu eftir tvo mánuði. Nokkur dýr drápust á bænum en miltisbruna hafði orðið vart á sama stað 23 árum áður og er talið að orsökina megi rekja til lélegs vatnsbóls.
Sumarið 1871 drapst hross snögglega á Grímstunguheiði, háin var hirt og flutt að Guðrúnarstöðum í Vatnsdal en veturinn eftir drápust tvær kýr og fimm hross sem gengið höfðu í landi Guðrúnarstaða. Bóndinn á Marðarnúpi var fenginn til að reyna að lækna eitt hross en blóð úr hrossinu slettist á hann og fékk hann við það smit og dó eftir fáa daga.
Á Seltjarnarnesi veiktust 15 hross af miltisbruna árið 1870 en hluti þeirra lifði.
Árið 1871 drápust þrjár kýr á Ási við Hafnarfjörð og einn hestur á Ófriðarstöðum.
Árið 1874 drápust fimm stórgripir að Hjálmsstöðum í Laugardal.
Árið 1873 drápust sjö stórgripir í Hagavík í Grafningi.
Árið 1873 dráust fimm stórgripir á Háafelli í Miðdölum. Það er getið um miltisbruna að Bæ í Miðdölum og Ólafsdal í Dalasýslu árið 1893 og 1894 og einnig sama ár á bæ í Steingrímsfirði í Strandasýslu. Í Ölfusi er getið um miltisbruna í Arnarbæli 1890 en þá drápust tíu stórgripir og einnig er getið um miltisbruna í Ölfusi árið 1897. Árið 1899 drápust sex hross úr miltisbruna.
Árið 1899 drápust nokkur hross úr miltisbruna á Völlum, Suður-Múlasýslu.
Árið 1942 drapst kýr að Hraunsholti við Hafnarfjörð og voru miltisbrunasýklar greindir úr bólgnum hálseitlum. Önnur kýr sem var hafði verið á svipuðum slóðum drapst einnig. Talið er að í haga þar sem þessar kýr gengu hafi verið jarðrask og komið upp stórgripabein dýra sem drepist hafi úr miltisbruna og verið dysjuð þar.
Á bænum Skáney (og Skáneyjarkoti) í Reykholtsdal varð miltisbruna vart hvað eftir annað í eina öld. Fyrst varð veikinnar vart í ágúst 1873 en þá drápust fimm gripir með stuttu millibili.
Dýralæknir kom á staðinn, greindi miltisbruna og lét flytja eftirlifandi gripi annað og þvo upp úr karbólsýruvatni (1 lóð karbólsýra í tvo potta af vatni), sótthreinsa og flytja fjós og grafa kjöt og húðir. Árið 1877 drápust fleiri naugripir úr miltisbruna í Skáney og árið 1886 veiktist naut þar og drapst. Allt fram yfir aldamótin voru hross að drepast í Skáney og voru eitt sinn fimm hross lögð saman í dys. Mörgum áratugum seinna eða árið 1935 fannst ein kýr dauð á bás sínum í fjósinu á Skáney og þar sem heimilisfólk datt ekki strax miltisbruni í hug var kýrin gerð til á hlaðinu fyrir framan fjósdyrnar. Grunur vaknaði svo um miltisbruna og var gripið til sótthreinsunar og kýrin urðuð. Fleiri dýr drápust þar úr miltisbruna og einn maður veiktist en lifði. Árið 1952 veiktist kýr í Skáney og dó eftir tvo daga og ræktuðust miltisbrandsbakteríur úr sýni og var þá gripið til sótthreinsunar.
Árið 1965 veiktist kýr á Þórustöðum í Ölfusi og stuttu síðar drápust fleiri kýr. Allir gripir voru settir á penicillinmeðferð og gripið til bólusetninga. Þrír menn á bænum sem höfðu sinnt um sjúka gripi fengu drepbólur á handleggi og hendur en náðu sér að fullu eftir sýklalyfjameðferð. Tilgáta er um að smitið á Þórustöðum hafi komist í kýrnar þannig að um þetta leyti var þeim beitt á fóðurkál sem ræktað var í gömlu mógrafarstykki og fundust beinaleifar víða á þeirri spildu og gæti þar hafa verið urðuð dýr sem drápust úr miltisbruna og hafi beinaleifar komist upp á yfirborðið við jarðrask við ræktunina.
Í desember árið 2004 kom upp miltisbrandur í fjórum hrossum sem höfðu haldið til við eyðibýlið Sjónarhól á Vatnsleysuströnd. Þrjú þeirra létust úr sjúkdómnum og því fjórða var lógað og voru hræin brennd til varnar frekara smiti. Ekki fannst smit í fleiri dýrum. Talið er að sjúkdómurinn hafi komið upp við landbrot í landi Sjónarhóls.“
Á Vísindavef HÍ er fjallað um sjúkdóminn miltisbrand:
„Miltisbrandur er sjúkdómur sem sýkill að nafni Bacillus anthracis veldur. Það eru einkum grasbítandi dýr sem taka þennan sjúkdóm en menn geta þó af og til sýkst af honum. Sjúkdómar sem finnast í dýrum en geta jafnframt lagst á menn eru nefndir súnur (zoonosis).
Sýkillinn getur myndað dvalagró eða spora. Sporarnir geta lifað áratugum saman í jarðvegi, einkum rökum og súrum. Af þessum ástæðum getur miltisbrandur verið alvarlegt vandamál í búfjárrækt. Stærð sporanna, sem eru 2-6 míkron (míkrómetrar, milljónustu partar úr metra) í þvermáli, gerir þá kjörna til að setjast á slímhúð í öndunarvegum manna og dýra.
Sporarnir loða hins vegar við jarðveginn en það dregur úr líkum á því að menn smitist með beinum hætti frá jarðvegi. Þegar sporar komast í hýsil þar sem skilyrði eru hagstæð breytast þeir í það form sem sýkillinn hefur þegar hann er að vaxa. Sýkillinn ber með sér eiturefni eða toxín sem er afar skaðlegt og veldur drepi.

Tvær tölvugerðar myndir frá Shutterstock sem sýna A: dæmigert sár af völdum miltisbrands og B: byggingu bakteríunnar sem getur geymst von úr viti.
Einkenni miltisbrands ráðast að nokkru af því hvernig dýr og menn smitast. Þegar sýkilsins er neytt með mengaðri fæðu kemst hann í blóðrásina og sogæðakerfið um meltingarveginn. Milti dýra bólgnar upp og skemmist af völdum dreps. Af þessu er nafnið miltisbrandur dregið. Þá getur sýkillinn komist gegnum húð sem er rofin. Þetta er algengasta smitleið til manna. Þeir sem meðhöndla sýkt dýr eða afurðir dýra sem hafa drepist af völdum sjúkdómsins, svo sem húðkeipi, ull eða kjöt, eru í mestri hættu. Veldur sýkillinn þá kýli sem rofnar síðar og er þá með svörtum sárbotni vegna dreps (af því er væntanlega nafnið anthrax dregið en það merkir kol). Að lokum geta sporar sýkilsins borist í öndunarveg og þaðan í eitilvef og valdið þar sýkingu, drepi og blóðsýkingu.
Miltisbrandur er þekktur sjúkdómur um heim allan frá fornu fari. Páll A. Pálsson hefur fjallað um miltisbrand á Íslandi í Bók Davíðs Dvíðssonar, Háskólaútgáfan, 1996, bls. 545-558. Páll kallar sjúkdóminn miltisbruna og bendir á að hann hafi gengið undir ýmsum nöfnum hér á landi svo sem miltisdrep, miltisbráðadauði og skinnapest.“
Í Bændablaðinu 2019 segir: „Merkingu á 162 miltisbrandsstöðum lokið“. Þar er vitnað í Sigurð Sigurðarson, dýralækni.
„Sumarið 2017 og einnig 2018 fóru Sigurður Sigurðarson, dýralæknir á Selfossi, og Ólöf Erla Halldórsdóttir, kona hans, um landið og merktu miltisbrunagrafir, en þær eru um allt land. Reynslan hefur sýnt hvað mikilvægt er að þekkja og merkja grafirnar.
Sýkillinn sem veldur miltisbrandi myndar dvalargró og lifir nær endalaust niðri í jörðinni en virðist verða hættulítill í yfirborðinu í grennd við grafirnar eftir fáar vikur væntanlega fyrir áhrif sólarljóss og veðrunar. Ef jörð er raskað t.d. við skurðgröft, ræktun, vegalagningar, byggingar og flagmyndun sem verður við nauðbeit hrossa svo að hræ dýranna eða hlutar þeirra kunna að koma upp á yfirborðið er hætta á ferðum. Ef jörðin er látin óhreyfð, þar sem miltisbrunagrafirnar eru er engin smithætta.
Smithætta er fyrir flestar dýrategundir með heitu blóði og fyrir fólk. Að minnsta kosti 10 manns hafa látist af þeim sökum hér á landi og margir tugir manna hafa veikst, sem tekist hefur að lækna. Áður en menn þekktu veikina og ráð gegn henni, dóu þúsundir manna erlendis úr miltisbrandi. Skepnur sem drápust úr miltisbrandi voru grafnar djúpt og girt í kringum grafirnar.“
Þekktar eru um 160 grafir á um 130 stöðum. Merkingarnar eru nú varanlegri en áður þ.e. stálplata með ágröfnu númeri, sem gæti enst í 100 ár og endurskinslímborði, sem gæti enst í 20 ár. Síðasta merkið rákum við Ólöf í jörð í haga Neslands á Seltjarnarnesi í október 2018. Þar veiktust 15 hross haustið 1870 og 10 þeirra dóu úr miltisbrandi. Merkin eru hvítur sívalur stólpi, 50 cm hár og 7 cm í þvermál á jarðföstum teini (kambstál).
„Ég fór að undirbúa merkingar á gröfunum árið 2004. Þá hafði ég verið á ráðstefnu í Svíþjóð, þar sem fjallað var um miltisbrand í villtum dýrum. Þar hitti ég menn frá Suður-Afríku, sem sögðu mér að þeir þekktu dæmi þess að miltisbrunasýking hefði lifað í 200 ár. Mér varð þá ljóst að hér á landi væri miltisbrunasýking frá skepnum, sem grafnar hefðu verið í jörðu um allt land, eins og tifandi tímasprengjur,“ segir Sigurður Sigurðarson.
„Eftir að ég hætti störfum hjá yfirdýralækni um 2006 hefur þetta starf þ.e.; öflun upplýsinga, staðsetning, merking og skráning að mestu verið sjálfboðavinna mín, en kostnaður sem undirritaður hefur greitt úr eigin vasa vegna þessa verks er kominn í 950.000. Í þeirri upphæð eru engin vinnulaun, enda hafði ég ætlað mér að láta eftirlaunin mín duga til þess.

Austurbæjarapótek á gatnamótum Rauðárstígs og Háteigsvegar.
Kýr frá bóndabænum Sunnuhvoli í Reykjavík, sem var á sinni tíð í hvilftinni þar sem Austurbæjarapótek er nú, veiktust af miltisbrandi og voru flestar grafnar einhvers staðar í námunda við býlið, að sögn Sigurðar Sigurðssonar, dýralæknis sauðfjár- og nautgripasjúkdóma hjá yfirdýralæknisembættinu. „Það þótti alveg öruggt að þarna hefðu 4-5 kýr sýkst af miltisbrandi og þær voru settar í eina stóra gröf,“ sagði Sigurður. „Ein kýrin liggur undir Hlemmi sjálfum.“
Ég geri mér ljóst, að ég mun ekki geta tekið þetta verkefni með mér yfir í aðra heima. Aðrir verða að taka við ábyrgðinni. Ég hef nú rætt við Matvælastofnun. Hún tekur því vel að taka við starfi mínu og eftirliti og gera tillögur um reglugerð, sem tryggi öryggi merkinganna og endurnýjun merkja, sem kunna að falla út af eða týnast, en sem betur fer virðist merkingarlag okkar traust og endingargott.
Hrossum verður þó að halda frá slíkum merkjum. Slíkt eftirlit og ábyrgð verður í fyrstu lotu að falla á ábúendur og eigendur jarða, þar sem grafirnar eru og hætta fyrir umhverfið. Því miður hafa ekki allir þessir aðilar áttað sig á nauðsyn þess og sum merki hafa týnst eða verið troðin í svað af hrossum,“ segir Sigurður.
Helstu þekktu miltisbrandsstaðirnir á Reykjanesskaganum eru taldir vera eftirfarandi:
-Árnessýsla (vestan Ölfusár): Hagavík, Þórustaðir (3st), Stóri-Háls, Gljúfurárholt, Hvammur, Arnarbæli, Þorkelsgerði.
-Gullbringusýsla: Suðurkot, Sjónarhóll, Ás, Jófríðarstaðir, Urriðakot (2st), Hraunsholt (2st),
-Reykjavík og Kjós: Reykjavík (*?staðir), Breiðholt, Sunnuhvoll, Klambrar, *Hlemmur, Miðdalur (2st), Hraðastaðir, Sólvellir.
Í Læknabaðinu 2003 er m.a.a fjallað um sjúdóminn: „Hnitmiðaða sjúkrasögu má finna í bókinni Hjúkrun sjúkra frá 1923 eftir Steingrím Matthíasson, héraðslækni á Akureyri: Karl skar kú sína, sem drepist hafði úr miltisbrandi. Læknir bannaði honum að hirða kjötið. Hann óhlýðnaðist, sauð sér til matar, sýktist og dó.
Sagt er að bólga og drep komi fram í milti dýranna og af því er fyrri orðhlutinn vafalítið dreginn. Síðari hlutinn, brandur, merkir samkvæmt Íslenskri orðabók Eddu: 1 eldur, logi 2 (logandi) skíði, eldiviður 3 skáld 4 svæðið framan við hlóðir 5 sverð, sverðsblað. Líklegt má telja að hálfbrunninn og kolsvartur lurkur geti gefið hina sjónrænu ímynd drepsins.
Í Morgunblaðið 2004 er sagt frá því er miltisbrandur „Varð skepnum og mönnum að bana„:
„Í grein eftir Pál Agnar Pálsson, fyrrum yfirdýralækni, í ritinu Bók Davíðs (1996) til heiðurs Davíð Davíðssyni prófessor, sem jafnframt er talin ein besta yfirlitsgreinin um miltisbruna á Íslandi, er getið um nokkur tilvik miltisbrands sem upp hafa komið á Íslandi bæði í dýrum og mönnum.
Fram kemur að flestum heimildum beri saman um að miltisbruna hafi fyrst orðið vart á Íslandi 1865 að Skarði á Skarðsströnd, þar sem á annað hundrað fjár drapst af völdum sjúkdómsins. Upp úr 1870 fór að bera meira á veikinni, einkum í Reykjavík og nærsveitum, síðar varð hennar vart hingað og þangað um landið fram yfir aldamót en þá fór að draga úr tilfellum.
Í grein Páls Agnars segir að ári áður en varð vart við miltisbrand hafi verið farið að flytja inn til landsins ósútaðar, hertar húðir, sem sumar voru mengaðar af miltisbrandssýklum. Fram kemur að yfirleitt hafi lítið verið hirt um að auðkenna staði, þar sem skepnur haldnar miltisbruna hafi verið dysjaðar eða auðkennin horfið í áranna rás og staðirnir fallið í gleymsku smátt og smátt. Mjög erfitt sé því að átta sig á hvar hætta getur leynst ef gera þarf jarðrask á landi gamalla miltisbrunajarða í dag.
Í grein Páls Agnars eru rakin nokkur dæmi af mönnum sem sýktust af miltisbrandi. Í skýrslum um heilsufar og heilbrigðismál á Íslandi frá 1901 segir að maður í Reykjavík hafi misst kú úr miltisbrandi en hann ekki trúað því, litist vel á kjötið og sýnt það bæði landlækni og héraðslækni, sem hvorugur vildi leyfa að það yrði nýtt til manneldis. Þrátt fyrir það át eigandinn ásamt öðrum manni bita af kjötinu. Eftir tvo daga dó eigandinn, var krufinn og reyndist hafa miltisbrand. Hinn maðurinn lifði.

Við framkvæmdir á byggingarsvæði í Garðabæ, fimmtudaginn 1. nóvember 2007, kom grafa niður á hræ af kú. Verktakar brugðust rétt við, mokuðu yfir hræið og höfðu samband við heilbrigðisfulltrúa og héraðsdýralækni. Ákveðið var að láta fjarlægja hræið með þeim varúðarráðstöfunum sem við eiga þegar um miltisbrandssmitað hræ er að ræða. Þetta var gert vegna þess að vitað er að á þessum slóðum var grafið hræ af kú sem smituð var af miltisbrandi árið 1941. Gró miltisbrandsbakteríunnar geta lifað mjög lengi í jarðvegi. Héraðsdýralæknir óskaði eftir aðstoð Slökkviliðs höfuðborgarsvæðisins, lögreglu og verktaka við að fjarlægja hræið og koma því á öruggan hátt til förgunar. Öll tæki sem komið höfðu í snertingu við hræið voru sótthreinsuð og gengið var frá svæðinu á þann hátt að engri hættu stafi af því.
Um 1930 töldu dýralæknar að miltisbruni væri horfinn að kalla og hefur hans síðan aðeins orðið vart á þremur stöðum, sem vitað er um og þar sem sýktar skepnur höfðu áður verið grafnar í jörðu.“
Telja má víst að „miltisbrandsgrafirnar“ 260, sem sagðar eru að hafa verið skráðar hér á landi, séu í raun miklu mun fleiri en áður hefur verið talið. Líklegt má telja að hinir ýmsu „álagblettir“, sem ætlaðir voru til að fæla fólk frá frekari nálgun eða athöfnum við grafirnar, enda vitað mál að gröfunum var með tímanum gefin slík heiti með það að markmiði að minnka líkur á slysum. Sumar grafirnar hafa m.a. síðar verið eignaðar meintum fornmönnum og álfa- og huldufólksbyggðum eða jafnvel ranglega verið tileinkaðar þekktum mannvistarleifum eða þjóðsagnakenndum stöðum sem hafa tapast í tímans rás en fólkinu hafði þótt vænt um, svona til að leggja áherslu á friðhelgi þeirra og draga þar með úr líkum á röskun. Þannig runnu saman smám saman og brengluðst sagnir og staðreyndir í hugum þeirra er á eftir komu. Eldra fólkið þekkti vel afleiðingarnar miltisbrandsins ef út af var brugðið og óttaðist þær, bæði fyrir það sjálft og afkomendur þess.. Dæmin tala jú sínu máli.
Þrátt fyrir allt framangreint hafa þessir fyrrnefndu staðir sjaldnast verið fornleifaskráðir með hliðsjón af slíkum möguleikum, allra síst á Reykjanesskaganum…
Heimildir:
-https://is.wikipedia.org/wiki/Miltisbrandur
-https://www.visindavefur.is/svar.php?id=958
-Bændablaðið 2. jan. 2019, Merkingu á 152 miltisbrandsstöðum lokið – Sigurður Sigurðarson, bls.
-https://www.laeknabladid.is/media/skjol/2003-4/2003-04-u12.pdf
-https://www.mast.is/is/um-mast/frettir/frettir/gomul-miltisbrandsgrof-i-garabae
-https://www.visir.is/g/2020109858d/miltisbrandur-undir-hlemmi
-Morgunblaðið, 337. tbl. 10.12.2004, Varð skepnum og mönnum að bana, bls. 10.
-Morgunblaðið, 337. tbl. 10.12.1004, Yfir 60 þekktar miltisbrandsgrafir á Íslandi, bls. 10.












