Flankastaðahverfi
Á Flankastaðatorfunni voru um tíma bæirnir Endagerði (nyrst), nú Arnarhóll, Arnarbæli, gamla Klöpp, nýja Klöpp, Kólga, Tjarnarkot, Norður Flankastaðir, fyrrum Flankastaðakot, Efri-Flankastaðir og Neðri-Flankastaðir, einnig nefndir Syðri-Flankastaðir. Suðaustan við túngarðinn var Traðarkot um tíma uns Garðskagavegurinn var lagður yfir bæjarstæðið og skar sundur Sandgerðistjörnina.
„Flankastaðir eru bæir rétt fyrir norðan Sandgerði. Flankastaðir eru allstór jörð á Suðurnesjamælikvarða og gætu verið landnámsjörð, þó svo að Landnáma tilgreini ekki landnámsmann þar. Bærinn er samt nefndur í Landnámu (þar Flangastaðir) og segir þar frá því er Leiðólfur í Skógum elti Una danska Garðarsson (Svavarssonar) eftir að Uni hafði fíflað Þórunni, dóttur Leiðólfs. Hann náði honum við Flankastaði og börðust þeir þar. Féllu nokkrir menn af Una, en hann fór nauðugur aftur með Leiðólfi. Barn þeirra Una og Þórunnar varð Hróar Tungugoði. Hann var mágur Gunnars á Hlíðarenda og faðir Hámundar halta, er var mikill vígamaður að sögn Landnámu.
Frá Flankastöðum hafa jafnan verið stundaðir útróðrar, eins og frá flestum öðrum jörðum er liggja að sjó. Flankastaðir eru næsti bær norðan Sandgerðis, en þaðan var líka mikið útræði. Útgerðin og góð fiskimið skammt undan í Miðnessjó hafa að líkindum verið aðalundirstaða lífsafkomu bænda á Flankastöðum. Þaðan var Magnús Þórarinsson, sem skrifaði bókina Frá Suðurnesjum og gaf út um miðja tuttugustu öld.
Á Flankastöðum voru lengi haldnir vikivakar um miðsvetrarleytið og var þar dansað og sungið á meðan nokkur gat staðið. Að líkindum hafa veislur þessar oft verið svallsamar og voru prestar þeim mjög andvígir. Að lokum lagði Árni Hallvarðsson, prestur á Hvalsnesi blátt bann við þeim. Nokkrum árum síðar fórst hann á leið að Kirkjuvogi í Höfnum til að syngja þar messu. Höfðu sóknarbörn hans á orði að þar hefndist honum fyrir að afleggja vikivakana á Flankastöðum.
Svavar Sigmundsson, fyrrv. forstöðumaður Örnefnastofnunar svarar spurningu um Flankastaði á Vísindavef HÍ; „Hvaða ‘flanki’ er á Flankastöðum?“:
„Flankastaðir eru bær í Miðneshreppi í Gullbringusýslu. Þeir eru nefndir í skrá um rekaskipti á Rosmhvalanesi frá um 1270, skrifað „flankastader“, en í afritum bæði „flangastader“ og“flantastader“. Bæjarnafnið er einnig ritað „flankastader“ í skrá um hvalskipti á sama stað og frá sama tíma (Ísl. fornbréfasafn II:77 og 79).
Í Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalíns frá 1703 er skrifað Flangastader (II:62). Þannig er nafnið ritað hjá sr. Magnúsi Grímssyni, sem skrifaði greinina Fornminjar um Reykjanessskaga (ÍB 72 fol.) sem prentuð var í Landnámi Ingólfs II:247 (Reykjavík 1936-40). Í sóknarlýsingu Útskálaprestakalls 1839 eftir Sigurð B. Sívertsen er hvorttveggja nefnt, Flanka- og Flangastaðir, en höfundur notar Flankastaðir í lýsingunni (sama rit III:163-164).
Í Landnámu eru nefndir Flangastaðir í Vestur-Skaftafellssýslu (Ísl. fornrit I:300) en ekki er ljóst hvort það er bæjarnafn eða ekki. Örnefnið er nú týnt en uppi á Síðuheiðum eru Flangir, mýrlendi og Flangaháls (Kålund II:315). Auk þessa er Flangi hátt klettasker á Grundarfirði, Flangagil í landi Þórdísarstaða í Eyrarsveit í Snæfellssýslu og Flangey er eyja á Hornafirði í Austur-Skaftafellssýslu.
Spurningin er hvort er upphaflegra, Flanka- eða Flangastaðir. Ásgeir Blöndal Magnússon nefnir í orðsifjabók sinni að hvorugkynsorðið flank merki ‘flakk’ og sögnin flanka ‘flakka, flækjast um’. Orðið flangi merki hinsvegar ‘lausagopi, æringi’, samanber meðal annars að á nýnorsku er flange ‘stór og óviðfelldinn maður’. Ásgeir nefnir þann möguleika að myndir með -nk- séu staðbundnar framburðarmyndir af orðunum með -ng- (bls. 186).
Samkvæmt orðabók Björns Halldórssonar frá 18. öld merkir flankari ‘en forfængelig person, en Laps’ eða ‘spjátrungur’ (Ný útgáfa. Reykjavík 1992, bls. 145). Þórhallur Vilmundarson nefnir þá skýringu að flangi gæti merkt ‘kápa’ samanber merkingina ‘kjóll’ í orðinu flange í norsku, og að norski fræðimaðurinn Magnus Olsen hugsaði sér nafnliðinn dreginn af norska orðinu flong ‘stór hella’. Finnur Jónsson prófessor taldi að orðið flangi væri viðurnefni manns, ef til vill skylt flengja eða tengt flange í nýnorsku, og E.H. Lind taldi að það merkti ‘ósæmilegur maður’ (Grímnir 1:82). Líklegra verður að telja að upphaflega myndin sé Flanka-, samanber nútímamyndina, og flanki = flankari merki ‘spjátrungur’ og sé viðurnefni manns.
Saga Flankastaða
Flankastaðir eru bær á Miðnesi (Rosmhvalanesi), nú í Suðurnesjabæ, fyrrum Miðneshreppi. Flankastaðir (þ.e. jörðin fyrir skiptingu hennar um 1900-1930) eru allstór jörð á Suðurnesjamælikvarða og gætu verið landnámsjörð, þó svo að Landnáma tilgreini ekki landnámsmann þar.
Bærinn er samt nefndur í Landnámu (þar Flangastaðir) og segir þar frá því er Leiðólfur í Skógum elti Una danska Garðarsson (Svavarssonar) eftir að Uni hafði fíflað Þórunni, dóttur Leiðólfs. Hann náði honum við Flankastaði og börðust þeir þar. Féllu nokkrir menn af Una, en hann fór nauðugur aftur með Leiðólfi. Barn þeirra Una og Þórunnar varð Hróar Tungugoði. Hann var mágur Gunnars á Hlíðarenda og faðir Hámundar halta, er var mikill vígamaður að sögn Landnámu. (Islendinga Sögur ud. efter gamle Haandskrifter af det kongelige nor liske Oldskrift-Selskab. isl. et praef. dan, Bindi 1, Möller, 1843. bls 246.)
Heimildir um örnefni
Sunnan við Klappartún er Tjarnarkotstún. Tjarnarkot fór í eyði nálægt aldamótum, en túnið lagðist undir Klöpp. Sunnan við þessi tún er allstór tjörn, sem heitir Flankastaðatjörn. Þar hefi ég séð þéttastar pöddur í vatni, að síldarátu ekki undanskilinni. Á malarkampinum milli tjarnar og sjávar sér enn fyrir rústum af gömlum sjómannabyrgjum. Það er útjaðar Flankastaðanausta; þau eru fáum föðmum sunnar. Þar stóðu tveir timburskúrar norðan við vörina, var annar (sá vestri) frá Klöpp, en hinn frá Flankastöðum (Austurbæ).
Frásagnir um útræði frá Flankastöðum
Stórfiskur er út af Vesturbæjarfjörunni; ekki má fara grynnra fyrir hann á árabát en kirkjuna um Munkasetur. Sunnan við vörina er Vesturbæjarfjara; næst vörinni eru Vesturbæjarklappir, ekki háar en nokkuð miklar um sig, bæði fram í fjöruna og suður með kampinum. Að öðru leyti er fjaran að mestu slétt, nema syðst og vestast er hár stórgrýtisbálkur, sem kallast Vesturbæjarhausinn; lágur tangi er norðvestur úr fjörunni, varasamur þegar beygt er inn í vörina.
Hamarsund var fyrir allar lendingar norðan Bæjarskerseyrar, þegar sund þurfti að nota. Þegar lenda skyldi á Flankastöðum var, þegar inn úr sundinu kom, farið skáhallt yfir víkina norður á við að suðurósnum, sem liggur að Flankastaðavör.
Flankastaðir á síðustu öld
Á vef Landmælinga Íslands má finna fjölda loftmynda allt tilbaka til fjórða áratugar síðustu aldar. Ég tók út myndir af Efri-Flankastöðum og bar saman þróun bæjarins í áranna rás. Þetta finnst mér afar skemmtilegt og í hvert sinn sem ég skoða myndirnar aftur rekst ég á eitthvað nýtt.
Í lýsingu Magnúsar Þórarinssonar: „Leiðir, lendingar og örnefni á Miðnesi; – Flankastaðir“, Frá Suðurnesjum. Frásagnir frá liðinni tíð“, Félag Suðurnesjamanna í Reykjavík, 1960, bls. 113-118, segir m.a.:
„Mjög mikil lá (sogadráttur) var í Flankastaðavör um flóð í brimi (enda segir jarðabók, að lending sé voveifleg þar; getur þá varla verið átt við annað en lána). Þar þurfti því góða skiphaldsmenn, sem þeir líka voru, gömlu hraustmennin; hert í eldi hörðustu lífsbaráttu, sem við ekki þekkjum nú. Þeir voru þungir í vöfum, teinahringarnir, sem ekki máttu taka niður í hnísuna (samskeyti kjalar og framstefnis). Ef skipið tók niður að framan, þegar mikil lá var, stóð það strax svo fast, að ómögulegt var að ýta því út aftur, svo þungu, sogaði þá óðara undan, svo skipið varð á þurru og lagðist á hliðina; næsta aðsog fyllti þá skipið, og allt var í voða. Það varð því sífellt að halda þeim á floti og ýta frá fyrir hvert útsog, en halda í kollubandið. Næsta ólag kom svo með skipið aftur, en þrekmennin settu axlirnar við, svo ekki tæki niður; stóðu þeir oft í þessum stympingum, þó sjór væri undir hendur eða í axlir, en klofbundnir voru þeir oftast, er þetta starf höfðu. Sjóföt manna á opnum skipum voru, fram að aldamótum, einungis brók og skinnstakkur, heima saumað úr íslenzkum skinnum. Brókin náði upp á síður, en stakkurinn niður á læri. Ef bandi var brugðið um mittið, ofan við mjaðmir, hertist skinnstakkurinn að brókinni; hert var að á bakinu og endanum brugðið fram milli fótanna upp í mittisbandið að framan; féll þá stakkurinn að brókinni, einnig að neðan. Þetta var hin svonefnda klofbinding. Mátti talsvert svalka í sjó þannig umbúinn, án þess að verða „brókarfullur“, eins og það var kallað, ef ofan í brókina rann.
Í Flankastaðavör voru stórskipin ætíð sett, áður en fiskur var borinn upp. En kampurinn var brattur, svo að stundum gekk ekki meira í koki (átaki) en þverhandar breidd eða minna. Mátti þó heyra mörg eggjunarorð svo sem: Tökum á! Allir eitt! Samtaka nú! o. s. frv. En skipin voru þung, menn þreyttir og misjafnir að þreki eftir erfiðan barning og daglanga sveltu, því aldrei var matarbiti með á sjóinn á þeim árum á Miðnesi. Að því búnu var fiskurinn borinn upp á bakinu og honum skipt eftir stærð og gæðum. — Aldrei heyrði ég formanni ámælt fyrir röng skipti, og þó einhverju hefði munað, var óvíst, hver hlyti, þar sem hlutkesti var ætíð viðhaft. Hins vegar þóttust hásetar stundum finna mismun á hlutum eftir skiptin. Sagðist sá hafa orðið kastböllur, sem taldi sig óheppinn í hlutkestinu, og sumir þóttust alltaf verða kastbellir. En það er víst, að ekki bar öllum sami hlutur, svo misjafnir voru hásetar að dugnaði. Þegar ég skrifa þetta minnist ég áranna um 1890.
Stærsta útgerðin úr Flankastaðavör var frá Klöpp. Magnús Stefánsson byggði stóran og góðan teinahring um 1880. Gerði hann út einn og var sjálfur formaður. Magnús andaðist 17. janúar 1890. Hélt þá ekkjan, Gróa Sveinbjarnardóttir, áfram útgerðinni og varð Oddur í Brautarholti við Reykjavík formaður skipsins um nokkur ár. Hann var dugnaðarmaður og aflasæll. Fyrir og um aldamót voru stórskipin lögð niður, en upp voru tekin sexmannaför, og fleiri breytingar urðu þá, svo sem það, að þá var upptekin lending í Klapparlóninu. Klöpp var þá annar af nyrztu bæjum í hverfinu og sá, er stóð nær sjó. Árið 1936 var lögð niður byggð þar, sem Klöpp hafði áður staðið, norðan við Kólgutjörn, en reist að nýju suður á gamla Tjarnarkotstúni. Eins og áður er sagt, er malarkampur fyrir neðan Klöpp og neðan við kampinn er Lónið í fjörinni; þröskuldur er fyrir framan og rann sífellt úr Lóninu um fjöru, og ekki flaut þar inn með lægra en há[l]fföllnum sjó.
Þarna var þá orðinn lendingarstaður Klapparskipsins og raunar fleiri af þeim, sem áður lentu í Flankastaðavör. Auk þess að Klapparskúrinn var fluttur frá Flankastaðavör norður á kampinn við Lónið, voru þar byggðir skúrar frá Flankastaðakoti og Endagerði, og sund-merki af tré var sett á kampinn. Fyrir utan fjöruna fram af Lóninu er sandgljá dálítil, en fyrir utan sandgljána eru flúðir, vaxnar háum þönglum, sem mikið brýtur á, en hjaðnar þó niður, þegar kemur á gljána, nema mikið brim sé, enda var þá ófært. Í hroða varð að skáskjóta sér undir flötum sjó milli fjörunnar og FIúðabrotsins til þess að komast á sundmerkin, en þau voru: Loftsglugginn í Flankastaðakoti í trémerkið í kampinum; þar var dýpsta rásin inn í Lónið. Vörin var sandvik, sem gekk frá Lóninu upp í kampinn, og voru hlaðnar upp varabrúnirnar, svo þar mátti leggja skipi að og kasta fiski á land. Nærri má geta, að oft hefir verið lá við Lónið; hvergi leitar sjórinn meira inn yfir kampinn en fyrir neðan gömlu Klöpp, þess vegna var líka bærinn færður. Karl Jónsson útgerðarmaður, sem bóndi var í Klöpp frá 1936—1942, gróf niður í kampinn tvo gamla nótabáta, hvorn við endann á öðrum, fyllti þá af grjóti og sléttaði yfir. Bátarnir virðast veita nóg viðhald því kampurinn hefir ekki ruðzt inn á túnið síðan. En hvernig fer þegar bátarnir fúna?“
Heimildir:
-https://is.wikipedia.org/wiki/Flankasta%C3%B0ir
-https://www.visindavefur.is/svar.php?id=5414
-https://www.flankastadir-is.vonflankenstein.net/index.php/saga-flankastadha
-Flankastaðir, Magnús Þórarinsson: „Leiðir, lendingar og örnefni á Miðnesi; Frá Suðurnesjum. Frásagnir frá liðinni tíð, Félag Suðurnesjamanna í Reykjavík, 1960, bls. 113-11.
-Einar Valgeir Arason, Klöpp.
-Manfred Limke, Efri Flankastöðum.