Kuml og haugfé – Kaldárhöfði; Kristján Eldjárn
Í Samvinnunni árið 1956 eru skrif Kristjáns Eldjárns þjóðminjavarðar í bók hans „Kuml og haugfé – úr heiðnum sið á Íslandi„. Blaðið „grípur niður í þessari jólabók Norðra þar sem höfundur fjallar m.a. um álitamál fornleifafræðinnar“:
„Öllum fornleifum fylgir sá kostur, að þær eru áþreifanlegar og ótvíræðar að vissu marki. Rituð heimild getur verið tilbúin eða ýkt, en sverð er sverð og spjót er spjót, hvorki meira né minna. Um sverð og spjót fornaldar er ekki til betri heimild en gripirnir sjálfir, sem varðveitzt hafa til þessa dags og fundizt við öruggar aðstæður.
Íslenzkar fornleifar úr heiðnum sið bregða skærara ljósi yfir tiltekin atriði í menningu fornmanna en hin bezta rituð heimild gæti gert. Þær sýna vopnaburð fornmanna, alvæpni þeirra, sverð, spjót, axir, örvar og skildi, hvernig allt þetta leit út og var smíðað. Á sama hátt sýna þær skartgripi karla og kvenna, skrautnælur margs konar, prjóna, bauga, festar og fleira, sem fólk bar á sér til skrauts og þarfa. Þær sýna list hins daglega umhverfis, í skartgripum og að nokkru leyti í hýbýlum, smekk og fegurðarskyn. Þær sýna verðmálminn, silfrið, hversu það var saman sett og með farið, vegið með smámetum á skálavogum. Þær sýna að nokkru dægrastyttingu manna, taflíþróttina.
Þær sýna daglegan verkfærakost, þann sem ekki var smíðaður úr viðnámslitlu efni, jarðvinnslutæki, uppskeruáhöld, smíðatól, tóvinnutæki, jafnvel báta að nokkru leyti. Þær sýna samgöngutækið, hestinn altygjaðan, ójárnaðan á sumar, en bryddan á vetur, sömuleiðis járnaðan fót mannsins á ís eða hjarni. Loks veita þær glögga vitneskju um hina hinztu för, hversu búið var um lík dauðra og gengið frá kumlum þeirra.
Öll þessi atriði hafa verið gaumgæfð. Þegar þau koma saman, verður af býsna fjölbreytileg og skýr menningarmynd úr lífi hinna fyrstu kynslóða á Íslandi.
Það er því ómaksins vert að leggja rækt við fornleifarnar eins og hvern annan efnivið í íslenzka menningarsögu. En skylt er að hafa jafnan í huga, hve þröngum takmörkum þær eru háðar sem heimildir. Þótt sæmilega fjölbreytt sé, verður mynd fornleifanna af daglegu menningarumhverfi gloppótt sökum þess, að margir þættir þess voru gerðir af þeim efnum, sem tímans tönn vinnur á. Mörg verkfæri og annað, sem gert var af trjáviði einum, svo og klæðnaður manna, hefur að heita má horfið ummerkjalaust, og verður það skarð seint fyllt.

Silfurnæla, kringlótt og kúpt, skreytt með upphleyptu mynstri sem er bönd er ganga undir og yfir hvert annað í hring út frá miðju. Nælunni fylgir brotin nál. Fannst við rannsókn á hestkumli hjá Mið Sandfelli.
Og manninn sjálfan að öðru en ytra menningargervi megna fornleifarnar ekki að sýna nema í mjög daufri birtu. Það er rétt, að með fornminjunum fylgja oft líkamlegar leifar fyrri manna, meira og minna heillegar beinagrindur. Þetta eru merkilegar heimildir um útlit og sköpulag fornmanna, og mu nú þær reynast drjúg uppspretta þekkingar um ætternislegan uppruna landnámsmanna.
En bæði fornleifar og mannfræðilegar leifar hafa lítið til mála að leggja um andlega menningu þeirra manna, sem þetta hafa eftir sig látið. Raunar er enginn smíðisgripur svo með öllu vesæll, að ekki sé einhver mannleg hugsun forsenda hans. En sú hugsun, sem dylst að baki hversdagslegs nauðsynjagrips, er hluti af verkmenningu smiðsins, en ekki andlegri menningu.
Fornminjarnar birta listasmekk og veita nokkra sýn til trúarsiða, einkum í sambandi við útför og legstað, en að öðru leyti er hugsunarlíf og andleg menning utan seilingar fornleifafræðinnar. Af þessu stafar það, að menningarmynd fornleifafræðinga af fjarlægum forsöguskeiðum hættir til að vera mjög einhæf. Fræðigreininni verður þó ekki gefið þetta að sök, meðan hún ætlar sér af í samræmi við þau takmörk, sem efniviðurinn setur henni.
Fornleifafræði víkingaaldar er ekki forsöguleg fornleifafræði í strangasta skilningi. Menningarmynd vora af Íslendingum 10. aldar þarf ekki að draga af fornleifum einvörðungu. Af sögum og kvæðum og lögbókum þekkjum vér andlega menningu þessa tíma eins vel og verkmenningu hans og list af fornleifum. Þegar öll kurl koma til grafar, er nú tiltækur ekki lítill forði þekkingar á andlegum og líkamlegum högum þjóðarinnar, þegar hún hóf vegferð sína í landinu.
Það er fyrsta skylda fornleifafræðinnar að draga öll gögn, sem hún ræður yfir, að sem heillegastri mynd af menningarbrag þess tímabils, sem hún fæst við hverju sinni. En hún getur ekki látið þar við sitja, heldur hlýtur hún að spyrja, hvers vegna hvað eina sé eins og það er, hverjar forsendur þess á fyrri skeiðum og hver afdrif þess. Hún reynir að rekja þróunarferil menningarinnar, og kemst þá óhjákvæmilega inn á svið sagnfræðinnar, enda keppir hún að sama aðalmarki. Hún reynir að leggja nokkuð til mála um rás viðburða, skapa sögu.

Grafið í kumlið á Kaldárhöfða við Úlfljóstvatn. Kaldárhöfði er bær gegnt Dráttarhlíð austan við Sogið. Þar var einn bezti veiðistaður árinnar áður en Steingrímsstöð var byggð.
Árið 1946 fannst eitt verðmætasta kuml úr heiðni (10. öld) hérlendis á hólmanum Torfnesi rétt hjá þessum veiðistað. Þarna voru grafin fullorðinn maður og barn í litlum báti. Meðal muna, sem voru lagðir í hauginn með þeim, var alvæpni og silungadorg. Þessi fundur er oftast kenndur við Úlfljótsvatn, þótt hólmurinn sé í landi Kaldárhöfða.
Skammt frá bænum er tótt vöruhúss Skálholtsstaðar við ferjustaðinn yfir Sogið. Ein þjóðsaga Jóns Árnasonar segir frá gíg ofarlega í Soginu, þaðan sem bitmýið við ána sé upprunnið.
En sú saga, sem sögð er eftir heimildum fornminja einum, er ófullkomin og öðruvísi ásýndar en sú, er styðst við ritaðar heimildir. Því verður þó að taka, þegar fengizt er við hin löngu forsögulegu skeið mannkyns, sem enginn ritaður stafur bregður birtu yfir. Þá verður að reyna að nota fornminjar til að rekja hina stærstu sögulegu drætti ásamt menningarsögulegri þróun.
Nú er tímabil það í ævi íslenzku þjóðarinnar, sem fengizt er við í þessari bók, ekki forsögulegt skeið. Um það eru ritaðar heimildir, hvenær landið fannst, hvenær þjóðin tók kristni, hvaðan landnámsmenn komu og hverjir voru helztu viðburðir hér á 10. öld. í samanburði við þessar heimildir eru fornleifar tímabilsins engin undirstaða undir sögu þjóðarinnar. En þær fylla þessar heimildir á sinn hátt og eru mikilsverður mælikvarði á gildi þeirra, geta eflt eða veikt traustið á áreiðanleik þeirra.
Kunnugt er af sögulegum heimildum, að írskir munkar fóru til Íslands ekki síðar en í lok 8. aldar, og slæðingur af þeim var hér á landi á seinni hluta 9. aldar.

Grafið í kumlið á Torfnesi við Kaldárhöfða árið 1946. Fornleifafræðingar munu seint verða á ný svona töff í tauinu. Þarna var þó ærið tilefni til viðeigandi klæðnaðar! Kumlið er sagt „Vestur af Vaðhól við Efra-Torfnes. Það er nú komið undir vatn nema lítill hólmi, þar sem það var hæst. Þar sem dysin var, er nú komið undir vatn“, segir í örnefnaskrá.
Norrænir menn settust að í landinu um 870, en landnám þeirra hófst þó fyrst að marki um 890, og byggðu þeir síðan landið allt á næstu áratugum. Landsmenn tóku kristni árið 1000. Ef mælikvarði fornleifafræðinnar er lagður á þessar niðurstöður, kemur þetta í ljós: Rómverskir peningar frá um 300 e. Kr., fundnir á Austfjörðum, vekja grun um, að Ísland hafi fundizt, líklega frá Englandi, löngu áður en fornir sagnaritarar vissu. Byggð varð þó engin. Írskra einsetumanna sér ekki stað í fornminjum, en það hnekkir engan veginn sögulegum heimildum um þá. Norðurlandamenn nema allt landið um 900. Aðeins í einu kumli hafa fundizt gripir, sem taldir mundu vera frá fyrri hluta 9. aldar eða um 850, ef þeir hefðu fundizt á Norðurlöndum. Það eru Berdalsnælurnar frá Skógum í Flókadal, í Ásubergsstíl.
Þessi eina undantekning styrkir aðeins þá meginreglu, að íslenzkir forngripir sögualdar eru 10. aldar gripir, sumir þó ef til vill frá lokum 9. aldar (Borróstíl). Annars hafa þær forngripagerðir, sem auðkenna 9. öld á Norðurlöndum, aldrei fundizt hér. Nefna má til dæmis jafnarma nælur, ýmsar gerðir kúptra nælna, spjót eins og Rygh 517 og Rygh 518, margar gerðir sverða. Það er 10. aldar byggð, sem blasir við í íslenzkum forngripgripum, heiðin, norræn 10. aldar byggð og menning, sú sem löngum er kennd við víkinga eða víkingaöld.
Fornminjarnar staðfesta söguna: landið hefur byggzt norrænum mönnum nálægt aldamótunum 900.
Í aðeins einu fornmannskumli hefur fundizt hlutur af þeirri tegund, sem yfirleitt er talin frá 11. öld á Norðurlöndum. Það er kúpta nælan Rygh 656 úr kumlinu í Syðri-Hofdölum í Skagafirði. Þó er ekki loku fyrir skotið, að sú gerð hafi eitthvað verið farin að láta á sér brydda seint á 10. öld, og má því kuml þetta vera frá því fyrir 1000. En þótt svo væri ekki og þarna væri ein undantekning, sýna kumlin sem heild, að heiðnir grafsiðir hafa ekki haldizt hér fram á 11. öld að neinu ráði. Haugféð er frá 10. öld. Þannig kemur vitnisburður fornleifanna einnig ákjósanlega heim við hið sögulega ártal um lok heiðins siðar.

Þríblaðanæla frá 10. öld með sérstæðum skrauthnút, fundin hjá Hóli í Hjaltastaðarþinghá í Norður-Múlasýslu en fundaraðstæður ókunnar. Mun þó úr kumli konu.
Af þessum samanburði sést, að fornleifafræði og sagnfræði fylla hvor aðra í smáatriðum, en ber algjörlega saman um aðalatriði, sem hvor um sig gæti borið sjálfstætt vitni um. Þótt ekki væru sögulegar heimildir, gætu fornleifarnar veitt örugga fræðslu um, að land þetta byggðist Norðurlandamönnum um 900 og hér bjó heiðin þjóð á 10. öld. Þegar nánar er eftir innt, gerist ógreiðara um svör, og verður þó einhvers í að leita.
Hér að framan hefur verið reynt að sýna, að íslenzkir grafsiðir stangist ekki við hina fornu arfsögn, að Íslendingar séu af Norðmönnum komnir. Er þá röðin komin að haugfé og öðrum forngripum heiðins tíma, þeim er á Íslandi hafa fundizt.

Sverð, sem fannst í kumli manns og ungs drengs, hjá Kaldárhöfða. Hjölt og knappur eru úr bronsi og knappurinn með fimm tungum.
Sami svipur er á norrænni víkingaaldarmenningu, hvar sem hennar verður vart, enda er fjöldi íslenzkra forngripa af samnorrænum gerðum og hefðu getað fundizt hvar sem er á öllu svæði þessarar menningar. Aðrar forngripategundir eru aftur þannig, að þær virðast hafa verið algengastar í einhverju tilteknu landi en finnast þó oft utan þess. Enn eru svo aðrar, sem hægt er að marka þrengri bás.“
Heimild:
-Samvinnan, 12. tbl. 01.12.1956, Kuml og haugfé – úr heiðnum sið á Íslandi; Kristján Eldjárn, bls. 29-31.














