Hafnahreppur – minjastaðir

Hafnir

Árið 1903 birtist í Árbók Hins íslenska fornleifafélags „Rannsókn Brynjúlfs Jónssonar í Gullbringusýslu og Árnessýslu árið 1902„. Þar fjallar hann m.a. um aðstæður og minjastaði í Hafnahreppi:

Brynjúlfur Jónsson

Brynjúlfur Jónsson (1838 – 1914).

„Kirkjuvogur hefir til forna staðið langt inn með Ósunum að norðanverðu. Ósarnir eru sem dálítill fjörður, sem gengur til austurs inn úr Hafnavík. Innst skiftist hann í smá-voga, og kallast þeir Ósabotnar. Er löng bæjarleið frá Þórshöfn inn að Kirkjuvogi forna. Þar sem bærinn var, er rústabunga mikil. Þar er alt nú blásið hraun, þó er rústin að nokkru leyti grasgróin. Er eigi hægt að sjá grein á húsaskipun og eigi sést með vissu hvar kirkjan hefir verið. En kunnugir menn vita það, því mannabein hafa fundist þar, er kirkjugarðurinn blés upp. Voru þau flutt að Kirkjuvogi. Var það nálægt aldamótunum 1800, að bein voru síðast flutt þaðan, en sagt er að nokkuð hafi verið flutt áður, smátt og smátt.

Hafnir

Kotvogur í Höfnum v.m.

Kotvogur stóð þó þar, sem hann er enn, sunnanmegin við Ósana. En kirkjusókn átti hann að Kirkjuvogi og allir bæir fyrir innan Kalmanstjörn. En þaðan, og frá þeim bæjum, er sunnar voru, var kirkja sótt að Kirkjuhöfn. Til Kirkjuvogs sóttu líka Suðurnesjabæirnir: Fuglavík, Melaberg, Hvalsnes og Stafnes, ásamt hjáleigum. Stóð það fram að 1370, er Oddgeir biskup vígði kirkju á Hvalsnesi. Enn átti Innri-Njarðvík sókn að Kirkjuvogi: hélzt það, þó Kirkjuvogur væri fluttur suður fyrir Ósa, og þangað til 1760, er Ólafur biskup Gíslason, vígði kirkju í Njarðvík.

Gamli Kirkjuvogur

Gamli Kirkjuvogur – kirkjugarðurinn.

Fremur er það fátt, sem menn vita um Kirkjuvog hinn forna. Þess er getið í Árbókum Espólíns II. 68. að 1467 seldi Ólafur biskup Rögnvaldsson Eyjúlfi Arnfinnssyni »Voga« í Rosmhvalsnesshreppi fyrir 3 jarðir á Vestfjörðum.
Nú er enginn bær í Rosmhvalsnesshreppi, er heitir »í Vogum«. Mun hér því átt við Kirkjuvog hinn forna og ef til vill Kotvog með, eða þó öllu heldur Djúpavog, sem mun hafa verið hjáleiga frá Kirkjuvogi og staðið við Ósabotnana. Svo segir í landamerkjabréfi frá 1270:

Hafnir

Hafnir – herforingjarðarskort.

»En lyngrifamörk skilur gata sú, er liggur fyrir innan Torfmýrar og upp á Háfaleiti til vörðu þeirrar, er stendur á leitinu þar, sem hæst er milli Kirkjuvogs, Njarðvíkur og Djúpavogs. En rekamörk millum Djúpavogs, Starness og Hvalsness skilur gróf sú, er verður fyrir innan klettana til hægri handar, er riðið er frá Kirkjuvogi«. Hér virðist »Djúpivogur« vera bæjarnafn.
Og það getur ekki verið annað nafn á Kirkjuvogi, þar eð hann er líka nefndur í sömu málsgreininni. Nokkru fyrir innan Kirkjuvog hinn forna gengur gróf mikil frá Ósabotnunum þvert til norðurs. Gengur sjór nokkuð inneftir henni, og heitir þar enn Djúpivogur. Þar litlu innar ætti bærinn, Djúpivogur, að hafa verið. Merki sjást ekki til þess; en það er ekki að marka.

Hafnir

Hafnarhreppur – kort.

Sjór hefir mjög gengið á land í Ósunum, og getur bæjarstæðið verið brotið af. Þó hefir það ekki verið sjávargangur, heldur sandfok, sem eytt hefir Kirkjuvogi hinum forna. Hvenær það var, vita menn ógjörla. Jarðabók A. M. telur hann hafa verið í eyði meir en 120 ár þá er hún var rituð. Hefir það því eigi verið síðar en á 16. öld, en getur vel hafa verið fyr. Það liggur nærri að ætla, að þá hafi sami maður átt bæði Kirkjuvog og Kotvog, er hann flutti Kirkjuvog heim á tún í Kotvogi. Bendir það til þess, að Kotvogur hafi frá upphafi verið talinn hjáleiga frá Kirkjuvogi, þó Ósarnir væri á milli.
Þess er getið, að Kirkjuvogskirkja átti 1/2 Geirfuglasker. — Kirkjubólskirkja og Hvalsnesskirkja áttu 1/4 hvor. — Hannes hét maður, Erlendsson, er var á Stafnesi hjá Guðna sýslumanni Sigurðssyni og fluttist með honum að Kirkjuvogi 1752. Um Hannes er þess getið í riti séra Sigurðar, að hann hafði oft farið í Geirfuglasker á tólfæringi. Þá var skerið sem kýrfóðurvöllur að stærð, og alþakið fugli. Nú er skerið alveg í kafi.

Geirfuglasker

Geirfuglasker.

Efni þess var móberg, og hefir sjórinn smámsaman máð það burtu. Á dögum Guðna sýslumanns fékkst sáta af heyi þar sem nú heitir Kirkjusker fyrir framan Kotvog. Það er nú þangi vaxið. Þetta sagði séra Sigurði Gróa Hafliðadóttir, merk kona í Kirkjuvogi, en henni hafði sagt Ragnhildur Jónsdóttur, er var ráðskona Guðna sýslumanns á síðustu árum hans. Hún komst á níræðisaldur og var einkar fróð kona.
Enn má geta þess, til merkis um það hve landið hefir brotnað, að í Ósunum var ey mikil, milli Kotvogs og Kirkjuvogs forna, og var hún slægjuland. Nú í seinhi tíð hefir hún bæði blásið upp og sjór brotið
hana, því flóð falla mjög svo yfir klappir þær, sem undir jarðveginum láu. Þar fann Vilhjálmur sál. Hákonarson, á yngri árum sínum, skeifu, er kom fram undan 3 al. háum bakka. Hún var miklu stærri en skeifur eru nú á dögum. En þá var forngripasafnið enn ekki stofnað. Var ekkert hirt um skeifuna og er hún glötuð fyrir löngu.

Hafnir

Teigur innan Hafna – minjar.

Árnagerði heitir eyðijörð fyrir innan Kirkjuvogshverfið. Mun það án efa hafa verið hjáleiga. Önnur eyðijörð ei fyrir utan hverfið, og heitir Haugsendar. Um það bæjarnafn er sama að segja sem um BátsX enda. Þar mun upphaflega hafa heitið »í Haugsundum«, hvort sem það á við sjávarsund eða sund milli hæða á iandi. Það getur hvorttveggja verið. Annara eyðijarða er ekki getið fyrir innan Kalmanstjörn. En þar tekur sandblásturinn við fyrir alvöru.

Gömlu-Hafnir

Gömlu-Hafnir – Kirkjuhöfn, Sandhöfn og Eyrarhöfn; uppdráttur ÓSÁ.

Kirkjuhöfn er góðum kipp fyrir sunnan Kalmanstjörn. En þar mitt á rnilli, eða því nær, er hóll sá er Stekkjarhóll heitir, því þar hefir í seinni tíð verið stekkur frá Kalmanstjörn. Þar er rústabunga mikil, og hefir óefað verið bær. Liggur þaðan óslitinn garður, líklega túngarður, alla leið út að Kirkjuhöfn. Þvert frá þeim garði liggja þrír þvergarðar til sjávarkambs, með þeim millibilum að svara mundi kýrfóðurvelli eða meira. Liggur beint við að ætla, að sitt býli hafi fyrrurn verið á hverri þessari spildu og bæirnir staðið við sjóinn. En hann hefir brotið landið, og er þar nú kamburinn, sem bæirnir hafa staðið. Alt land er hér sandrokið hraun.

Gömlu-Hafnir

Kirkjuhöfn – bæjarhóll.

Þó er grashóll þar, sem bærinn Kirkjuhöfn stóð, og er gróið yfir bæjarrústina, svo hún sést ógjörla. Sunnan undir hólnum er sérstök grjótrúst, sern ætla má að sé kirkjutóftin. Suður þaðan er dálítil sandvík með malarkambi. Bak við kambinn hefir verið mýrardæld, sem nú er leirflag. Í henni sést brunnurinn. Utanvert við vík þessa er höfnin, sem bærinn Kirkjuhöfn er kenndur við. Það er lón fyrir innan skerjaröð. Þar er þrautalending í öllum suðlægum áttum.

Gömlu-Hafnir

Gömlu-Hafnir; Kirkjuhöfn fremst, þá Sandhöfn og yst Eyrarhöfn (Hafnareyri).

Sandhöfn, stóra og litla, heita tvær graxivaxnar hæðir, sem eru hvor hjá annari suðvestur frá höfninni.
eyði. Í þeim hæðum voru bæir, sem nú eru eyddir af sandfoki. Stóra Sandhöfn er austar, og lagðist hún fyr í eyði. Er svo langt síðan, að Á. M. jarðab. getur hennar ekki. En Kirkjuhöfn og Litlu-Sandhöfn telur hún sem eyðijarðir. Seinna var gjör bær á Hafnareyri. Það er skamt út frá Litlu-Sandhöfn. En hann hélzt skamma stund við. Er sá maður nefndur Ormur Þórarinsson, sem þar bjó síðast. Allir þessir bæir hafa verið fyrir innan Hafnaberg.

Skjótastaðir

Leifar Skjótastaða á Hafnabergi.

Skjótastaðir er hið eina býli sem nefnt er fyrir sunnan Hafnaberg. Það örnefni er norðantil við vík nokkra, er Sandvík heitir. Engar sjást þar rústir. En þær geta verið sandorpnar. Sunnantil við víkina er allgóður lendingarstaður.“

Védís Elsa Kristjánsdóttir fjallar um „Byggðaþróun á Suðurnesjum“ í Faxa árið 1978. Hér er umfjöllun hennar um „Hafnarhrepp„:
„Á fyrstu öldum Íslandsbyggðar munu hafa verið blómleg bú í landi Hafnarhrepps, en jarðir eyddust og byggð lagðist niður sökum eldgosa, jarðskjálfta, sandfoks og ágangs sjávar.

Védís Elsa kristjánsdóttir

Védís Elsa Kristjánsdóttir.

Höfnum er lýst svo um aldamótin 1700: „Kirkjuvogur stendur sunnan við svonefnda Ósa, er skerast 1/2 viku sjávar til norðausturs, með sandi og marhálmi í botni. Eyja er í Ósunum, grasgefin mjög og gefur af sér lítið eitt á annað kýrfóður. Kirkjuvogur hefur fóðrað yfir 20 kýr, en nú ekki meira en 16, vegna sjávargangs og sandfoks. Hér er eitt hið allra mesta útræði og ganga héðan aðeins stór skip, tíræðingar, og er sótt á reginhaf, margar vikur sjávar, enda heppnast oftast aflabrögð. Selveiði er mikið tíðkuð hér, fyrir og eftir fardagaleytið og hrognkelsaveiði fyrir og eftir slátt. Mikið landrými er hér og hagabeit góð. Kirkjuvogur er talin 72 hndr., en skiptist í Austurbæ, Miðbæ, Vesturbæ og Kotvog.“
Í Kirkjuvogi sátu lögréttumenn og höfðingjar mann fram af manni. Um síðustu aldamót voru Kirkjuvogur og Kotvogur enn stórbýli, þar sem bjuggu útvegsbændur. Nokkurt þéttbýli var þar í kring.

Kotvogur

Kotvogur 2003.

Með breyttum háttum í útgerð á fyrri hluta þessarar aldar, varð hafnleysið til þess að útgerð dróst þar mjög saman og fólki fækkaði.
Sú fjölgun íbúa sem var milli 1950 og 1960 (úr 146 í 250),. stafar af því, að starfsmenn á Keflavíkurflugvelli, sem bjuggu á Stór-Reykjavíkursvæðinu, sáu sér hagnað í því að flytja lögheimili sitt
til Hafnahrepps, vegna lágra útsvara þar. Síðan hefur dregið úr þess háttar tilfærslum.

Hafnir

Höfnin í Höfnum hefur verið úrskurðuð ónýt. Hún fór mjög illa í sjávarflóðunum 2025. Nú liggur fyrir að ekki verður ráðist í viðgerðir.

Hafnir liggja vel við fiskimiðum, en höfn er þar léleg og hentar aðeins smábátum og trillum. Þaðan eru nú gerðir út 10-12 bátar, 2-15 lestir að stærð og eingöngu á handfæri. Frystihús var byggt um 1945, en rekstur þess hefur gengið skrykkjótt og síðast liðin tvö ár hefur það ekki verið starfrækt. Eina atvinnufyrirtækið í hreppnum er saltfiskverkunarstöð, sem einnig hefur lítilsháttar frystingu.
Atvinnulífið er mjög háð Keflavíkurflugvelli. Íbúar 1. desember, 1975, voru 134.“

Í greininni kemur reyndar fram að Grindavík sé á Suðurnesjum, sem er mikill misskilningur. Grindavíkur taldist fyrrum aldrei til Suðurnesja.

Heimildir:
-Árbók Hins íslenska fornleifafélags 01.01.1903, Rannsókn í Gullbringusýslu og Árnessýslu sumarið 1902, Brynjúfur Jónsson, bls. 41-43.
-Faxi, 2. tbl. 01.03.1978, Byggðaþróun á Suðurnesjum, Védís Elsa Kristjánsdóttir, bls. 10.

Hafnir

Hafnir – Kotvogur fyrrum.