Brynjúlfur Jónsson – Æfisaga mín
Brynjúlfur var frá Minna-Núpi í Gnúpverjahreppi, Árnessýslu, sonur hjónanna Jóns Brynjúlfssonar og Margrétar Jónsdóttur. Hann var elstur af sjö systkinum og ólst upp í fátækt. Brynjúlfur safnaði miklum fróðleik um Reykjanesskagann og miðlaði honum eftir getu.
Brynjúlfur naut engrar skólagöngu fyrir utan að þegar hann var 17 ára var hann í hálfan mánuð hjá presti til að læra grunn í dönsku, reikningi og skrift. Sama ár fór hann á vetrarvertíð og var við útróðra á vetrum til þrítugs þrátt fyrir bága heilsu. Á vorin reri hann í Reykjavík og komst þar í kynni við ýmsa menntamenn sem útveguðu honum bækur, svo að hann gat lært dönsku og lesið sér til um málfræði, náttúrusögu, landafræði og margt annað sem hann hafði áhuga á.
Brynjúlfur hafði alla tíð verið heilsulítill en um þrítugt veiktist illa með tímanum þurfti hann að hætta allri erfiðisvinnu. Sjálfur kenndi hann um falli af hestbaki. Veikindin sjálf sá hann sem lán í óláni; þar sem hann mátti ekki stunda erfiðisvinnu fékk hann meiri tíma til að mennta sig eins og hann sagði sjálfur í ævisögu sinni: „Þá er veikindi mín voru að byrja og lengi síðan, áleit ég þau hina mestu ógæfu; en svo hefir guðleg forsjón hagað til, að þau urðu upphaf minna betri daga.“ Þegar Brynjúlfi batnaði hóf hann að kenna börnum á veturna til þess að sjá fyrir sér og fékk síðar launað starf hjá Fornleifafélaginu, en Sigurður Guðmundsson málari hafði vakið áhuga hans á fornleifum. Um leið hélt hann stöðugt áfram að lesa sér til og fræðast og tókst að verða vel læs á sænsku, þýsku og ensku auk dönskunnar.
Brynjólfur kvæntist ekki en eignaðist einn son, Dag Brynjúlfsson hreppstjóra í Gaulverjabæ.
Í Lögbergi árið 1915 birtist grein; „Æfisga mín“ eftir Brynjúlf Jónsson. Þar segir m.a.:
„Einn af merkari rithöfundum í seinni tíð, á Íslandi, var Brynjólfur frá Minna-Núpi. Hann menntaði sig af bókum, án tilsagnar, og varð vel að sér, bæði í málfræði, fornfræði, guðfræ8i og heimspeki, sem bækur hans og ritgerðir votta. Æfisögu sína ritaði hann sjálfur, skömmu fyrir dauða sinn, og birtist hún í Skírni. Hún er svo yfirlætislaus og lík hinumm spaka öldungi, að oss þykir sennilegt, aö lesendur vorir hafi skemtun af að lesa hana.
Ég er fæddur aö Minna-Núpi 26. sept. 1838. Foreldrar mínir voru: Jón bóndi Brynjólfsson og kona hans Margrét Jónsdóttir, er lengi bjuggu á Minna-Núpi. Brynjólfur föðurfaðir minn bjó þar áður; hann var son Jóns Thorlaciusar bónda á Stóra-Núpi, Brynjólfssonar á Hlíðarenda, Þórðarsonar biskups. Móöir föður míns, síðari kona Brynjúlfs á Minna-Núpi, var Þóra Erlingsdóttir, Ólafssonar bónda í Syðra Langholti, Gíslasonar prests á Ólafsvöllum. Móðir Brynjólfs, afa míns, var Þórunn Halldórsdóttir biskups. Móðir Þóru, ömmu minnar, var Helga Jónsdóttir bónda á Ásólfsstöðum, Þorsteinssonar; Helgu átti síðar Jón bryti í Háholti, er þar bjó í sambýli viö Gottsvein gamla, sem getið er í Kambsránsögu.
Faðir móður minnar var Jón hreppstjóri Einarsson á Baugstöðum. Einarssonar bónda þar, Jónssonar bónda á Eyrarbakka, Pálssonar. Móðir móður minnar var síðari kona Jóns hreppstjóra, Sezelja Ámundadóttir, “snikkara”, Jónssonar. Móðir Jóns hreppstjóra, kona Einars bónda, var Vilborg Bjanadóttir bónda á Baugstöðum, Brynjúlfssonar hins sterka, er bjó á Baugstöðum á dögum séra Eiríks á Vogsósum. Móðir Sesselju, ömmu minnar, var Sigríður Halldórsdótttir, Torfasonar frá Höfn í Borgarfirði. Má rekja þessar ættir langt fram og víða út, sem mörgum er kunnugt.
Ég ólst upp hjá foreldrum mínum og vandist sveitalífi og sveitavinnu. Meir var ég þó hneigður til bóka snemma, en hafði ekki tækifæri til að stunda bóknám. Foreldrar mínir voru eigi rík, en áttu 7 börn er úr æsku komust, og var ég þeira elztur. Þau höfðu ekki efni á að láta kenna mér, en þurftu mín við til vinnu, jafnóðum og ég fór að geta nokkuð unnið.
Fremur var ég seinþroska og orkulítill frameftir árum, og var eigi traust að ég fengi að skilja það hjá jafnöldrum mínum að ég væri þeim eigi jafnsnjall að harðfeng né atorku, eða að þeir gerðu gys að bókfýst minni. Slíkt tók ég mér þá nærri, en fékk eigi að gert, með því heilsa mín var líka tæp fram að tvítugsaldri. En þá fór hún að styrkjast; og mun ég eigi hafa staðið öðrum mjög mikið að baki, meðan hún var nokkurnveginn góð.
Þegar ég var á 17. ári komu foreldrar mínir mér fyrir hálfsmánaðartíma hjá séra Jóni Högnasyni í Hrepphólum, til að læra skrift, reikning og byrjun í dönsku. Það var stuttur námstími, en þó átti ég hægra með að berjast á eigin spýtur eftir en áður. Þann vetur fór ég fyrst til sjávar; reri ég síðan út 13 vetrarvertíðir, flestar í Grindavík, og auk þess nokkrar vorvertíðir. Við útróðrana kyntist ég fleiri hliðum lífsins, fleiri mönnum og fleiri héröðum. Þetta get ég með sanni kallað mína fyrstu mentunar undirstöðu.
Þó hún væri á næsta lágu stigi, var hún þó betri en ekkert, því við þessar breytingar þroskaðist hugurinn betur en hann hefði gert, ef ég hefði ávallt setið kyrr heima. Vorróðra mína reri ég í Reykjavík, og komst þar í kynni viö mentaða menn, svo sem Dr. Jón Hjaltalín landlækni, Jón Pétursson yfirdómara, Jón Árnason bókavörð, Sigurð Guömundsson málara, Árna Thorsteinsson og Steingrím bróður hans, Arnljót Ólafsson og Gísla jarðyrkjumann bróður hans.
Gísla hefði ég vel mátt telja fyrstan, því við hann kyntist ég fyrst, og hann kom mér beinlínis og óbeinlínis í kynni við flesta þeirra. Þetta varð mér að góðum notum; ég lærði talsvert af viðkynningunni við þessa menn, auk þess sem þeir gáfu mér ýmsar góðar bækur. Á þessum árum lærði ég að lesa dönsku, rita hreina íslenzku og skilja hinar málfræðilegu hugmyndir. Einnig fékk ég yfirlit yfir landafræði og náttúrusögu. Af grasafræði Odds Hjaltalíns lærði ég að þekkja flestar blómjurtir, sem ég sá; varði ég til þess mörgum sunnudögum á sumrin.
Jón Árnason kom mér á að skrifa upp þjóðsögur, þó lítið af því kæmist í safn hans, er þá var nær fullbúið.—
Sigurður málari vakti athygli mina á fornleifum; og fór ég þá að nota tækifæri, að skoða rústir í Þjórsárdal, og síðar ritaði ég um þær. Á þeim byrjaði ég þá; en lítið varð úr því flestu, því ég varð að verja tímanum til líkamlegrar vinnu, og gat því eigi tekið verulegum framförum í bóklegum efnum, meðan ég var bezt fallinn til þess.
Vorið 1866 féll ég af hesti, kom niður á höfuðið og kenndi meiðsla í hálsinum og herðunum; þó bötnuðu þau bráðum aftur. En það sama sumar fékk ég þau einkennilegu veikindi, að þegar ég lét upp bagga eða reyndi á brjóstið, fékk ég óþolandi verkjarflog í höfuðið, og fannst mér sem það liði upp frá brjóstinu. Fyrst framan af leið verkjarflogið úr jafnóðum og áreynslan hætti; en af því ég hélt áfram aö reyna á mig, hættu þau að líða svo fljótt úr. Skúli læknir Thorarensen réöi mér þá til að hætta vinnu. En því ráði sá ég mér ekki fært að fylgja; og svo fór ég versnandi næstu árin. Taugar mínar tóku að veikjast. Komu nú fram fleiri einkenni; þegar ég talaði hátt fékk ég magnleysi í tunguræturnar; þegar ég sofnaði á kveldin, dró svo úr andardrættinum, að ég hrökk upp eins og mér lægi við köfnun. Raunar var þetta ekki á hverju kvöldi, en þó oft, og aldrei oftar en þrisvar sama kvöldið.
Um þessar mundir varð sveitungi minn einn yfirfallinn af brjóstveiki. Hann fór til séra Þorsteins sál. á Hálsi, var þar eitt sumar og kom aftur albata. Hann réð mér til að fara þangað líka, og svo fór ég norður vorið 1868. En ég komst ekki að hjá séra Þorsteini, og fór því til séra Magnúsar á Grenjaðarstað, sem fyrstur var “homöopath” hér á landi. Var ég þar um sumarið og brúkaði meðul hans. Batnaði mér þar svo, að aldrei síðan hefi ég kent floganna í höfðinu, magnleysis í tungurótum eða að drægi úr andardrættinum er ég sofnaði. Taugarnar styrktust og nokkuð, en eigi til hlítar á svo stuttum tíma. Þá er ég fór frá séra Magnúsi um haustið, varaði hann mig stranglega við erfiðisvinnu einkum útróðri, og við því að verða drukkinn. — Svo þótti mér sem sál mín þroskaðist við för mína norður og dvöl mína þar; einkum lærði ég ýmislegt er að mentun laut, af sonum séra Magnúsar, Birni og Sigfúsi, sem báðir voru mjög vel að sér.
Þá er ég var kominn heim aftur, dróst til hins sama fyrir mér með vinnuna, og ég reri nú næstu tvær vetrarvertíðarnar. Lasnaði þá heilsa mín óðum aftur og fékk taugaveiklunin yfirhönd. Kom hún einkum fram í höfuðsvima og magnleysi í öllum vöðvum: Þá er ég stóð kyrr eða gekk, átti ég bágt með að halda jafnvægi; alt sýndist á flugi fyrir augum mínum, og á vissri fjarlægð sýndist alt tvennt; ég þoldi ekki að horfa nema beint fram, allrasízt að lúta; ef ég t.a.m. las í bók, þurfti ég að halda henni jafnhátt andlitinu; en til þess urðu handleggirnir nú of þróttlitlir; aflvöðvar þeirra rýrnuðu smátt og smátt. Fór þetta svo í vöxt að á vertíðinni 1870 gafst ég upp um sumarmálin og var fluttur til Reykjavíkur. Má nærri geta, að sjómenska mín var orðin lítilfjörleg áður. En formaður minn, Sæmundur Jónsson frá Járngerðarstöðum, reyndist mér þá góður vinur og allir skipsmenn yfir höfuð.
Loks fluttu þeir mig ókeypis til Reykjavíkur. Þar tóku vinir mínir vel á móti mér, og var ég þar um vorið undir læknishendi Dr. Jóns Hjaltalíns og Dr. J. Jónassens. Lögðu þeir hina mestu alúð á að lækna mig og gáfu mér allan kostnaðinn. En þeir voru í óvissu um, af hverju þessi einkennilegi sjúkdómur stafaði, — svo sagði Dr. Hjaltalín mér sjálfur, — enda vildi mér ekki batna, og fór eg heim
um sumarið. Ég hætti að geta klætt mig eða afklætt hjálparlaust, gat lítið lesið, en ekkert skrifað, því ég þoldi ekki að horfa niður á við.
Loks komst ég upp á að halda skriffærunum á lausu lofti. Og enn verð ég að skrifa á lausu lofti, þó ég þurfi nú ekki að halda skriffærunum jafnhátt og áður, þá þoli ég ekki enn að skrifa á borði. — Þó ég ætti bágt með að lesa, hætti ég því ekki alveg, með því líka að hugsunarlífið var óskert.
Fékk ég mér ýmsar fræðibækur léðar, hvar sem þess var kostur. Magnús Andrésson, sem nú er prestur á Gilsbakka, var þá farinn að lesa “homöopathin”; hann var góður vinur minn; hann léði mér lækningabók á dönsku, og í henni fann ég sjúkdómslýsingu, sem virtist eiga við minn sjúkdóm, og bataskilyrði, sem stóð í mínu valdi; gætti ég þess síðan. Eftir það versnaði mér ekki. Jafnframt reyndi ég ýms ráð og meðul.
Séra Arnljótur hafði áður ráðlagt mér, að láta þvo mig úr köldu vatni á hverjum morgni. Það hafði ég ekki framkvæmt. En nú byrjaöi ég á því, og hélt því síðan um mörg ár. Þótti mér sem það styrkti mig. Vera má og, að meðöl hafi gert sitt til. En aldrei fann ég bráðan bata af neinu.
Og það var fyrst eftir 3 ár, að ég var fullviss um, að ég væri kominn á eindreginn bataveg. Og síðan hefir batinn haldið áfram, hægt en stöðugt, til þessa. Ég er að vísu veikur af mér enn: þoli enga verulega áreynslu, eigi að lesa nema með hvíldum og eigi að skrifa nema ég haldi skriffærunum nokkuð hátt á lofti; og yfir höfuð fer heilsa mín mjög “eftir veðri”. En batinn, sem ég hefi fengið, er svo mikill, að því hefði ég ekki trúað ef það hefði verið sagt fyrir, þá er ég var veikastur.
Þá er veikindi mín voru að byrja og lengi síðan, áleit ég þau hina mestu ógæfu; en svo hefir guðleg forsjón hagaö til, að þau urðu upphaf minna betri daga: Undir eins og mér var dálítið farið að batna, tóku menn að nota mig til barnakennslu, sem þá var vaknaður áhugi á.
Sá sem fyrstur notaði mig til þess var Sigurður hreppstjóri Magnússon á Kópsvatni. Hefi ég það fyrir satt, að séra Jóhann sál. Briem í Hruna, sóknarprestur hans, hafi bent honum á mig til þess; — en séra Jóhann sál. var mér kunnugur og hafði ég oft fengið bækur hjá honum.
Síðan hefi ég haft atvinnu af barnakennslu á vetrum. Fyrst var það um nokkur ár, að ég kenndi á ýmsum stöðum, þar til Einar kaupmaður Jónsson á Eyrarbakka tók mig til að kenna syni sínum; var ég honum síðan áhangandi í marga vetur, og reyndist hann mér hinn bezti drengur. Frá honum réðst ég til Sigurðar sýslumanns Ólafssonar í Kaldaðanesi, en þaðan til Jóns óðalsbónda Sveinbjarnarsonar á Bíldsfelli. Hafa bæði þeir og yfir höfuð allir sem ég hefi verið hjá, sýnt mér hina mestu nærgætni og góðvild. — Á sumrum hefi ég ferðast meðal vina minna; hefir mér reynst það hin bezta hressing. Bæði hefir reið á þægilegum hesti ávalt haft styrkjandi áhrif á mig, og eigi síður góðvild sú og aðstoð, sem ég hefi hvarvetna átt að mæta. Þannig höföu menn mig með sér á Þingvallafund 1873, og á þjóðhátíðina þar 1874, og höfðu báðar þær ferðir góð áhrif á mig. Fleira mætti telja.
Nokkur undanfarin sumur hefi ég ferðast um héruð til fornleifarannsókna í þjónustu foraleifafélagsins. Um efrihluta Árnessýslu, Rangárvallasýslu og Skaftafellssýslu (hina vestri 1893; um vesturhluta Húnavatnssýslu 1894; um Flóamanna,- Hrunamanna- og Biskupstungnaafrétt, svo og um Langavatnsdal o.v. 1895; um Mýra- Snæfellsnes- og Dalasýslur 1896. Frá árangri þeirra rannsókna hefi ég jafnóðum skýrt í Árbók fornleifafélagsins.
Þetta frjálsa og þægilega líf bæði sumar og vetur hefir eigi einasta styrkt heilsu mína og gert mér æfina skemmtilega: það hefir ennfremur gefið mér tækifæri til að fylgja betur eðli míns innra lífs, en áður var kostur á að stunda bókfræð og mentun yfir höfuð. Skamt hefi ég að vísu komist í samanburði við vel mentaða menn, og er það eðlilegt, þar eð ég byrjaði svo seint og hefi enn orðið að “spila á eigin spýtur” að mestu. En vanþakklátur væri ég þó við guð og menn, ef ég segði að ég væri engu mentaðri nú heldur en áður en ég veiktist. Auk dönsku og sænsku hefi eg lesið bækur á þýzku og léttri ensku; ég hefi gert mér ljósar ýmsar fræðigreinar, svo sem heimspeki, eðlisfræði, efnafræði, heimspekifræði og “homöopathiska” læknisfræði. Enginn skyldi þó ætla, að ég jafni mér við skólagengna menn í neinu þessu. Við ljóðagerð hafði ég fengist löngu áður en ég veiktist, en fyrst eftir það fékk ég réttan skilning á íslenzkri bragfræði.
Sem skáldi jafna ég mér ekki við “stórskáld” eða “þjóðskáld” vor: ég veit að ég er í því sem einn “minstur postulanna.” Og það, sem ég hefi áfram komist, í hverju sem er, þakka ég engan veginn ástundun minni einni saman: Margir hafa veitt mér mikið í mentunarefnum bæði með leiðbeiningum og bendingum í ýmjum greinum og með því að lána mér og gefa góðar bækur.
Meðal þeirra vil ég nefna dr. Jón Þorkelsson rektor, dr. Björn M. Ólsen rektor, séra Eggert sál. Brien, séra Eirik Briem, séra Magnús Andrésson og þá frændur hans Helgasyni, Einar alþingismann Ásmundsson í Nesi, sem skrifaðist á við mig í mörg ár, en komst fyrst í kynni við mig fyrir tilstilli Ásmundar bónda Benediktssonar í Haga, frænda hans.
Enn má telja Sigurð bóksala Kristjánsson, Guðmund bóksala Guðmundsson á Eyrarbakka og Friðrik bróSur hans. Marga fleiri mætti telja, en fremstan allra sóknarprest minn, séra Valdemar Briem, sem ég á meira að þakka en nokkrum manni öðrum, frá því er foreldra mína leið. Égg var lítið eitt kominn á bataveg þá er ég missti föður minn. Hann varð bráðkvaddur sunnudaginn 2. nóv. 1873, á heimleið frá kirkju og altarisgöngu. Var hann þá 70 ára gamall og orðinn mjög heilsutæpur. Hann hafði verið hinn mesti atorkumaSur, en hafði litlum kröftum á að skipa öðrum en eigin höndum. Voru því kraftar hans orðnir veiklaðir af lúa. Fáum dögum áður en hann dó, hafði hann fengið snögt verkjarflog fyrir brjóstið, eins og þar ætlaði eitthvað að springa, en leið frá aftur að því sinni. Grunaði hann að svo kynnt að fara sem fór, en talaði þó fátt um það. — Móðir mín bjó eftir hann næsta árið eftir lát hans, en brá svo búi. Fékk þá Jón bróðir minn jörðina Minna-Núp til ábúðar, og var móðir um stund hjá honum meðan hún lifði. Hún dó 29. marz 1879 og skorti þá 40 daga á 92 ára aldur. — Ég hefi ávallt átt lögheimili á Minna-Núpi, þó ég hafi oft dvalið mestan hluta ársins í öðrum stöðum.
Þó ég væri þegar í æsku mest hneigður til bókar, var ég þó alls ekki frábitinn búsýslu. Þvert á móti hugsaði ég oft um þess konar efni. Þaö var hvorttveggja, að ég hafði aldrei neina von unt að komast í “hærri” stöðu, enda langaði mig mest til að verða bóndi, það er að segja: góður bóndi! Þá stöðu áleit ég frjálslegasta og eiginlegasta á næstu árum áður en ég veiktist, var ég á ýmsan hátt farinn að búa mig undir bóndastöðuna og hafði allfjörugan framtíðarhug í þá átt. Það ætlaði ég mér að verða jarðabótamaður eins og faðir minn eða fremur, og áleit mig nokkuð hagsýnan í þeim efnum. Líka vissi ég, að “það er ekki gott, að maðurinn sé einsamall”: Ég hafði þegar valið mér “meðhjálp”; en eigi vissu það aðrir menn. En svo veiktist ég, og þá slepti ég allri framtíðarhugsun, ég bjóst eigi við að verða langlífur, og allrasízt að verða sjálfbjarga. Því vildi ég eigi að stúlkan mín skyldi binda sig við ógæfu mína. Kom okkur saman um að hyggja hvort af öðru, og láta aldrei nokkurn mann vita neitt um það, er okkar hafði milli farið. Og þó ég kæmist á bataveg aftur, þá fékk ég aldrei neina von um búskap eða hjúskap.
Þó höfðu veikindin ekki svift mig ástarhæfileikum. Veturinn 1878 kenndi ég börnum í Vatnsdal í Fljótshlíð. Þar var þá vinnukona, er Guðrún hét, Gísladóttir, ættuð undan Eyjafjöllum; hún þjónaði mér og féll vel á með okkur. Um vorið fór hún að Núpi í Fljótshlíð til Högna hreppstjóra Ólafssonar. Þar fæddi hún sveinbarn veturinn eftir og kenndi mér en gekk við. Hann heitir Dagur. Var hann fyrst nokkar ár á Núpi með móður sinni, og reyndist Högni hreppstjóri okkur hið bezta. En er Dagur var á 6. ári tók Erlingur bóndi Ólafsson á Sámsstöðum hann ti! fósturs. Ólst hann síðan upp hjá honum og konu hans, Þuríði Jónsdóttur, fyrst á SámsstöSum og síðan í Árhrauni á Skeiðum. Reyndust þau honum sem beztu foreldrar, og Páll son þeirra, er tók við búi eftir föður sinn, sem bezti bróðir, og sama er að segja um öll þau systkin. (Eitt þeirra, Þorsteinn skáld og ritstjóri, var eigi alinn upp hjá foreldrum sínum.)
Man ég vel hve hræddur ég var við erfið kjör og ómilda dóma, þá er ég var slíkir aumingi, hafði eignast barn. En hér fór sem endranær, að guðsleg forsjón bætti úr fyrir mér. Ég hefi haft mikla ánægju af sveininum. Hann hefir komið sér vel, er talinn vel gáfaður, en þó meir hneigður til búsýslu. Þykir mér það og meira vert.
Það ætla ég, að ég sé trúhneigður af náttúru; en móðir mín innrætti mér líka trúrækni þegar ég var barn. Samt er ég enn meira hneigður fyrir að vita en trúa. Ég hefi átt við efasemdir að stríða, og ég hefi reynt að leita upp sönnun fyrir trúaratriðum. Tilraun til þess kom fram í kvæðinu “Skuggsjá og ráðgáta”, og í fleiri kvæðum mínum. Um þesskonar efni hefði ég verið fúsastur að rita, ef ég hefði verið fær um það.
En hitt hefir orðið ofan á, að það lítið, em eftir mig liggur ritað, er mest sögulegs efnis, ellegar um landsins gagn og nausynjar.“
Heimild:
-Lögberg, 11. tbl. 11.03 1915, Æfisga mín, Brynjúlfur Jónsson, bls 5.


















