Hvítanes í Kjós – sagan
Jörðin Hvítanes í Kjósarhreppi var hluti af landnámi Þóris Haustmyrkurs. Hér eru helstu heimildir um jörðina:

Hvítanes – bæjarhúsin 2024. Gömlu bæjarhúsin h.m.
1585: Jörðin gefin í arf.
20 hdr. 1705: 20 hdr. JÁM III.
1705: „Túnum og úthögum spillir fjallsskriða. Engjar eru nær öngvar, því skriður hafa mestan part eyðilagt þær litlar sem voru.“ JÁM III.
1840: „… þar er stór tún, rammþýft. Engi lítið grasgott og lítið land til veitar – ekki óhult fyrir aurskriðum á túnið.“
Túnakort 1917: „Mest alt túnið sléttað, smáblettir og jaðrar þýfðir. Tún telst 5,9 t. (Mikil útgræðsla). Kálgarðar 950 m2.“
Í bókinni Kjósarmenn eftir Harald Pétursson segir: ,,Jón Helgason og síðari kona hans Lára Þórhannesdóttir bjuggu í Hvítanesi 1933-1941, en hrökkluðust þaðan er jörðin var hernumin. Þar hefur ekki verið búið síðan.“
Í eyði frá um 1942, í Hvítanesi byggði herinn mikið af byggingum, herskálahverfi o.fl. og lagðist jörðin því í eyði.
„Kálgarður var austan við bæinn, en þegar byggt var, 1914, var gamli bærinn jafnaður við jörðu og gerður kálgarður þar; hann var þá vestan við bæinn. Snúrur voru framan við bæinn. Talið var vita á þurrk, þegar lét hátt í Glym í Botnsdal,“ segir í örnefnaskrá. Í bókinni Ljósmyndir segir um Hvítanes: „Bætti Sveinbjörn [Einarsson, kemur 1907, fer 1921] mikið túnið í Hvítanesi, byggði þar lítinn steinbæ í stað baðstofunnar gömlu og stendur hann enn að mestu.
… Var jörðin Hvítanes mjög notaleg jörð, túnin stór og grasgefin, en engjar litlar. Hafði túnið verið stórbætt á liðnum áratugum, byggð heyhlaða, votheyshlaða og allgóð fénaðarhús. Allt þetta mátti heita í góðu lagi, er herstjórnin tók jörðina til sinna umráða [árið 1941].“ „Í Hvítanesbænum var aðsetur yfirmanna úr breska hernum. Einhverjar lítilsháttar breytingar gerður þeir á honum en í aðalatriðum og að ytra útliti hélt hann sinni upprunalegu mynd,“ segir í bók Óskars Þórðarssonar sem vann í Hvítanesi í upphafi stríðsáranna. Bæjarhóllinn í Hvítanesi er suðvestarlega á nesinu um 200 m norðan við Hvalfjarðarveg, um 3 km NNA við Reynivelli og um 2,5 km VNV við Fossá 356:001. Hvítanes hefur verið í eyði síðan herinn yfirgaf Ísland eftir seinni heimstyrjöldina.
Hvítanes er vel grasigróið, sérstaklega bæjarhóllinn, en brenninetlur eru búnar að breiða úr sér, sérstaklega á gömlum steingrunnum herskálanna. Landið hallar í um 5-20° til NNA.
Á austan- og norðaustanverðu nesinu er láglent við sjóinn en að norðvestan og vestan hækkar landið mjög til suðvesturs. Þverhnípt er niður í sjó um 180 m vestan við bæinn.
Sjálfur bæjarhóllinn í Hvítanesi virðist óraskaður af hernum, a.m.k. í kring um bæinn sjálfan. Hóllinn er ekki mjög skýr en hægt er að greina óljósa 0,5-1,5 m háa hæð í landinu þar sem bæjarhúsin standa, á svæði sem er um 70 x 50 m stórt og snýr ASA-VNV. Herinn nýtti húsin á hólnum og kann að hafa bætt og breytt húsum eitthvað. Þær leifar sem nú sjást eru steinveggir yngsta íbúðarhúss sem byggt var 1914. Veggirnir standa ennþá uppi illa farnir en þakið er horfið. Steypuklumpar sem liggja á víð og dreif inni og utan við íbúðarhúsið og gömlu útihúsin sýna að veggirnir eru smám saman að hrynja.
Leifar skorsteins liggja í grasinu um 4 m norðvestan við rústir íbúðarhússins. Lítil op í hleðslu íbúðarhússins, neðst við jörðu gefa vísbendinu um að hugsanlega hafi verið kjallari undir húsinu. Útlínur kálgarðs 008 sjást ennþá en engin greinileg ummerki eru sjáanleg um gamla bæinn sem þar stóð áður. Steypan sem notuð var í að reisa yngsta húsið er mjög gróf og samsett úr fjörumöl, sandi og sementi. Veggirnir eru um 20 cm á breidd og 1,5-3 m hæð. Yngstu útihúsin voru einnig steinsteypt. Grunnur íbúðarhúss er 8×8 m að stærð. Gengið hefur verið inn bæinn að norðvestan. Fast norðvestan við húsið norðaustan við innganginn glittir í lágar grjóthleðslur sem eru trúlega leifar lítils timburskúrs, 4×4 m að stærð, sem sýndur er á túnakorti.
Yngstu útihúsin eru um 2 m ANA við íbúðarhúsið, þau eru þrískipt og um 12×12 m að stærð. Þau hafa verið byggð eftir 1917 því þau eru ekki sýnd á túnakorti Hvítaness. Útihúsin voru steypt upp að norðvestanverðri útihústóft 004 sem búið var að hlaða 1917 því hún er sýnd á túnakorti. Hægt var að ganga inn í útihúsin bæði að norðaustan og suðvestan. Bæjarhóllinn í Hvítanesi og minjarnar á honum voru hafðar með í herminjaskráningu þar sem herinn bjó þar og nýtti sér þau mannvirki sem þar voru.
Heimildir:
-Hernámið frá sjónarhóli fornleifafræðinnar – Skráning á minjum úr síðari heimstyrjöldinni í Hvítanesi í Hvalfirði, 2025.
















