Björn Þorsteinsson – ræktunarmaðurinn

Brunntorfur

Í Andvara árið 2017 er grein Gunnars F. Guðmundssonar um Björn Þorsteinsson, sagnfræðing og prófessor.  Í greininni er m.a. fjallað um „Ræktunarmanninn Björn Þorsteinsson„:

Andvari

Aldvari – forsíða 2017.

„Í minningargrein, sem Sigurður H. Þorsteinsson skrifaði um bróður sinn, leitaði hugurinn til fyrstu samverustunda þeirra bræðra:
„Fyrstu minningar mínar eru frá leik á Hellu, t.d. er Högni bróðir okkar var í heimsókn. Þó sitja sennilega þær lengst er hann hvatti mig til forvitni um lífið í kringum mig, nágrennið og til hverskonar lestrar og náms. Stundirnar sem hann gekk með mér um valllendi og hraun í Selsundi og sýndi mér hverja plöntuna af annarri og útskýrði fyrir mér leyndardóma þeirra og tilgang í ríki náttúrunnar.“
Náttúran og gróðurríkið var Birni alla tíð hugleikið, og í náttúrufræði náði hann frábærum árangri á stúdentsprófi. Hann var baráttumaður fyrir ræktun og uppgræðslu örfoka lands og lét þau orð falla í viðtali að landeyðing væri „höfuðglæpur“. Engu væri þar frekar um að kenna en íslenskum sauðfjárbúskap sem væri víða „vélvædd rányrkja“. Þegar Björn mælti þessi orð, var hann orðinn roskinn maður, kominn á eftirlaunaaldur og hafði lengi átt í stríði við þrályndar rollur á Reykjanesskaga. Hann var á þeim tíma ásamt félögum sínum að vinna brautryðjendastarf sem var ævintýri líkast.

Björn Þorsteinsson

Björn Þorsteinsson (1918-1986).

Það hófst í byrjun sjötta áratugarins, þegar Bjarni Bjarnason, skólastjóri Héraðsskólans á Laugarvatni, gaf Skógrækt ríkisins sinn hlut í jörðinni Straumi, um 2000 hektara. Landsvæði þetta hefur verið kallað Almenningur frá fornu fari. Með nýjum skógræktarlögum árið 1955 var skógræktarstjóra heimilt, að fengnu samþykki ráðherra, að leigja einstaklingum, félögum eða stofnunum lönd á erfðafestu innan girðingar Skógræktarinnar gegn því að leigutakar gróðursettu barrskóg í landinu samkvæmt fyrirmælum skógræktarstjóra og samningi við leigutaka. Allur skógur í landinu skyldi verða eign leigutaka en meðferð hans og grisjun háð fyrirmælum skógræktarstjóra.
Fljótlega eftir að lögin tóku gildi, hófust ræktunartilraunir á afmörkuðu svæði í Straumi, og um eða upp úr 1960 gerðu fjórir félagar samning við Skógræktina um leigu á landi til skógræktar. Fékk hver þeirra tíu hektara. Þessir menn voru: Björn Þorsteinsson, Broddi Jóhannesson, síðar rektor Kennaraháskólans, Marteinn Björnsson verkfræðingur og Þorbjörn Sigurgeirsson eðlisfræðingur og síðar prófessor við Háskóla Íslands, allir miklir náttúruvinir.

Brunatorfur

Brunatorfur – kort.

Straumsheiðin þótti ekki kræsileg til ræktunar og tvísýnt um árangurinn, en mennirnir létu það ekki á sig fá og gengu til verks af eldmóði. Ekki bætti úr skák að girðingin, sem átti að afmarka tilraunarreitina, var tæplega fjárheld, svo að „ókindin“ eða „girðingafanturinn“, eins og þeir kölluðu sauðkindina, olli þar oft töluverðum usla.
Birni Þorsteinssyni var tamt að skoða athafnir manna í ljósi sögunnar, og þannig leit hann einnig á þetta ræktunarstarf. Hann sá fyrir sér að á fyrstu árum Íslandsbyggðar hefði Reykjanesskaginn búið yfir miklum landkostum, undirlendi mikið, varp- og akureyjar þar sem hægt var að rækta bygg, góð fiskimið, laxár og veiðivötn, sellátur, hvalreki og geirfuglabyggð skammt undan, fuglabjörg, góðar hafnir, heitar laugar og talsverður trjáreki.

Björn Þorsteinsson

Björn Þorsteinsson í Brunatorfum.

Að auki var á Reykjanesi beitiland sem aldrei brást og skógur mikill. Þetta var sannkallað gósenland, að sögn Björns. Almenningur var enn gróðursæll og skógi vaxinn, þegar Sigríður Bogadóttir biskupsfrú og Árni Thorsteinsson landfógeti létu sækja þangað reynivið í garða sína um og eftir miðja 19. öld og hófu með því trjárækt í Reykjavík. En eftir það fór að síga á ógæfuhliðina. Björn kunni skýringar á því. Á 19. öld yfirfylltust sveitir landsins af fólki, og þá flýði það í hrönnum til verstöðvanna. Á Vatnsleysuströnd komst fólksfjöldinn upp í um 650 manns árið 1870. „Þá var gróðri skagans eytt svo að hann hefur staðið rúinn og eyddur eftir.“ Björn vildi endurheimta landið sem horfið var og klæða það skógi eins og fyrr á öldum. Hann lagði því til að Reykjanesskagi yrði friðaður fyrir sauðfé og að fólk fengi þar úthlutuð ræktunarlönd.
Ávinningurinn yrði þrenns konar: „Fólki hættir að leiðast, orkuvandinn leysist því að menn losna við að flýja austur á Hérað eða til sólarlanda sér til afþreyinga og nytjaskógar og unaðsreitir munu prýða Reykjanesskaga.“ Björn unni landi sínu og þjóð, en hann var ekki svo mikill þjóðernissinni að ekki mætti vaxa annar viður úr íslenskri fold en innlendir stofnar.

Björn Þorsteinsson

Björn við Skilningstréð.

Aðrar trjátegundir, aðfluttar, þrifust ekkert síður, einkum stafafura, bergfura og sitkagreni, og í skjóli þeirra spratt síðan upp sjálfsáinn birkiviður. Í trjálundi Björns bar af eitt slíkt birkitré, fagurlimað og laufskrúðugt, rúmlega fimm metrar á hæð og um 30 sentímetrar í þvermál. Var það nefnt skilningstréð.

Björn hlaut um síðir verðskuldaða viðurkenningu fyrir ræktunarstarfið, því að hann var einn fimm framtaksmanna um skógrækt sem Samtök sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu í samvinnu við Skógrækt ríkisins heiðruðu í mars 1985 með listaverki eftir Hallstein Sigurðsson.
Björn Þorsteinsson var „ósvikið barn útivistar og íslenzkrar náttúru“, segir Bergsteinn Jónsson prófessor í minningargrein um kollega sinn.

Brunntorfur

Brunatorfur (Brunntorfur) – loftmynd.

Hann rifjaði það upp, þegar þeir hittust á aðfangadag jóla næstum tveimur árum fyrr. Björn hafi þá verið sárt leikinn af erfiðum sjúkdómi og svo lamaður í kverkum að hann hafi átt örðugt um mál: „En við þessar örðugu aðstæður snerist ræða hans um þau áform hans að kaupa vörugám, sem boðinn var til sölu! Til hvers? Jú, úr honum mætti fyrirhafnarlítið gera skýli, sem hann þyrfti nú nauðsynlega að koma sér upp í landareign sinni í Hafnarfjarðarhrauni, þar sem hann á liðnum árum hefur komið sér upp álitlegum trjálundi. Um þetta ræddi hann af lífi og sál, og þetta þoldi enga bið, því að með vordögum ætlaði hann að leita út í guðsgræna náttúruna. Yrði slíkt að venju allra meina bót.“
Ekki varð Birni bót meina sinna. En lundurinn lifir manninn. Á heiðinni sunnan við Kapelluhraun er nú vaxinn upp myndarlegur skógur, unaðsreitur, mönnum til yndisauka um ókomin ár. Þökk sé þrotlausri elju og þolgæði Hraunverjans Björns Þorsteinssonar og félaga hans.“

Sjá einnig meira um skógrækina í Brunatorfum HÉR.

Heimild:
-Andvari, 1. tbl. 01.01,2017, Ræktunarmaðurinn Björn Þorsteinsson, Gunnar F. Guðmundsson, bls. 56-59.

Brunatorfur

Í Brunatorfum.