Vatnsleysuströnd – Borgarkot
Gengið var frá Minni-Vatnsleysu að Þórustöðum. Skoðuð var stórgripagirðingin vestan Vatnsleysu, en hún liggur í beina línu frá hæðinni vestan bæjar niður að sjó.
Einmana ryðgaður mjólkurbrúsi, merktur MSR, stóð þar uppréttur á mosavaxinni hæð, líkt og hann vildi enn um sinn minna á hina gömlu búskapahætti. Staldrað var við vatnsstæði á milli kletta austan Flekkuvíkur og síðan haldið yfir túnið með viðkomu við Flekkuleiði og skoðaður rúnasteinninn, sem þar er. Litið var á Stefánsvörðu efst á Almenningsleiðinni, en í henni er letursteinn eftir þá feðga, Jón og Magnús, sem hlóðu hana á sínum tíma. Austan við Litlabæ var gengið að stórgripagirðingunni gömlu, sem þar liggur frá austri til vesturs og komið að gamalli refagildru skammt ofan hennar. Þaðan var haldið yfir og niður fyrir Kálfatjörn, þar sem ætlun var að skoða letursteininn frá 1674.
Sjórinn er búinn að róta grjóti yfir hann að nýju. Hann fannst þó eftir nokkra leit, en er nú að færast neðar í fjörukambinn. Skoðaðar voru tóttir suðvestan sjóbúðanna. Við þær er greinilega gamall brunnur eða vatnsstæði, hlaðið undir hól. Þegar komið var að Þórustöðum blasti við hópnum hinn fallegasti brunnur, hlaðinn niður og í kringum opið, ca. 7-8 metra djúpur. Myndaði brunnurinn fallegan forgrunn við gamla hrörlega bárujánshúsið á hólnum ofan við hann.
Golfararnir á Kálfatjarnarvelli gerðu hlé á iðju sinni þegar FERLIRsfólkið gekk þvert yfir völlinn á bakaleiðinni, tóku niður derhúfur og lutu höfði – fullt lotningar yfir að til væri fólk er getur gengið lengra en að endimörkum vallarins…