Söðulsteinn
Flestar ef ekki allar jarðir landsins eiga, eða áttu, sín merki á mörkum. Enn má t.d. sjá landamerkjasteina í borginni, þótt einn og einn hafi verið færður úr stað eða jafnvel á milli svæðs, sbr. landamerkjasteinnin, sem var við Háskóla Íslands og er nú við Árbæjarsafn. Steinn, eða klöpp á móti honum, má enn sjá í vestanverðri Öskjuhlíð.
Söðulsteinn hét steinn á mörkum Bústaða, Klepps og Kópavogsjarðanna (Digraness). Hann var nefndur svo vegna lögunnar sinnar, þ.e. hann mun hafa verið söðullaga. Lína lá úr honum til vesturs að Hanganda í botni Fossvogar. Sú lína voru suðurmörk Laugarnessjarðarinnar. Lína úr henni til austurs markaði jörðina Bústaði að norðanverðu, Digraness að sunnanverðu og lá að norðausturmörkum Breiðholtsjarðarinnar. Úr Söðulsteini lá lína til norðnorðausturs að Þrísteinum, sem var varða á Laugarholti eða Laugarási, eins og það holt hefur verið nefnt í seinni tíð. Í Þrísteina lágu einnig norðurmörk Bústaða frá ósum Elliðaáa.
Söðulsteinn var annað af tveimur landamörkum Laugarness sem enn sjást. Vesturmörk Laugarness miðuðust við stein er síðar var nefndur Stúlknaklettur eða Stúlkuklettur. Munnmæli segja að einhvern tíma hafi vanfær stúlka horfið úr Laugarnesi en fundist við þennan stein, ásamt tveimur stúlkubörnum.
Í bók Þorgríms Gestssonar, Mannlíf við Sund (1998), kemur fram að Söðulsteinn hafi af lítt skiljanlegum ástæðum staðið af sér mestallt rask og breytingar í þúsund ár og standi enn rétt ofan við Bústaðaveg. Þó má ætla að helmingur steinsins hafi einhvern tíma sprungið frá og brotin fjarlægð því hann er ekki lengur söðulbakaður eins og hann hefur sjálfsagt verið í upphafi, miðað við nafngiftina.
Söðulsteinn var færður á núverandi stað eftir að bílstjórar höfðu kvartað yfir því að hann hindraði útsýni þegar ekið var inn á gatnamótin. Auk þess hafði þá a.m.k. tvisvar verið ekið á steininn. Steininum gæti hafa verið snúið við tilfærsluna.
Meira er um Sölustein í „Reykjavík fyrri tíma“ eftir Árna Óla. Hann fjallaði áður um steininn í grein í Lesbók Morgunblaðsins árið 1961 (bls. 363). Þar lýsir hann einnig framangreindum landamerkjum.
„Eftir að Reykjavíkurbær hafði eignast Laugarnes og Klepp, hófust landamerkjadeilur við H. Th. A. Thomsen kaupmann, sem þá var eigandi Bústaða. Í þeim deilum er minnst á Söðulstein, „mjög einkennilegan stein“, sem sé rétt við þjóðveginn gamla, sem lá um Bústaðaholtið niður á Öskjuhlíð.
Héldu margir því fram að þetta væri landamerkjasteinn milli Bústaða og Laugarness…
Steinninn er rétt austan við vegamót Réttarholtsvegar og Bústaðavegar, beint niður af endanum á raðhúsinu Réttarholtsvegi 81-97. Það er enginn vafi á að þetta er Söðulsteinn. Hann er á sínum stað eftir því sem segir frá í landamerkjamálunum. Og hann er „mjög einkennilegur“, ljós á litinn og úr öðru efni en annað grjót þarna á holtinu. Hann er um 2 metra á lengd, en hálfu mjórri. Annar gafl hans er sléttur og líkist mest bæjarburst. hryggur er eftir honum endilöngum, en ofan í miðjan hrygginn er laut, svo að hann er „söðulbakaður“, og má vera að hann hafi fengið nafn sitt af því. Og hann hefir staðið rétt norðan við gamla þjóðveginn.
Það er einkennileg hending, að Söðulsteinn skyldi ekki „verða fyrir“ þegar öllu var umbylt í holtinu, að hann skyldi lenda milli vegar og byggingalóðar. Það er eins og bending um, að hann skyldi varðveitast. Og þótt hann geti ekki talist frægur, finnst mér rétt að bærinn leggi á hann verndarhönd, þótt ekki væri til annars en að geyma þennan „einkennilega stein“ og örnefnið. Þau eru ekki svo mörg örnefnin, sem hlíft hefir verið“.
Svo er að sjá sem Þorgrímur hafi m.a. fengið upplýsingar um Söðulstein frá Árna Óla.
Í Lesbók Mbl 25. janúar 1948 er getið um Söðulstein. Þar segir: „Þá er í þessum landamerkjaþrætum einnig minst á Söðulstein, „mjög einkennilegan stein“, rjett við þjóðveginn gamla, heldur til austurs frá Bústaðaborg“. Árni Óla hafði það eftir Valdimar Kr. Árnasyni að gamli þjóðvegurinn hafi legið vestar og neðar í holtinu en var 1961. Þeir skoðuðu vettvanginn saman. Þá var enn sýnilegur stuttur bútur af veginum, sem nú er að sjálfsögðu horfinn.
Borgaryfirvöld hafa orðið við óskum Árna, fært steininn og gætt þess að honum væri þyrmt – að hluta.
Ekki þyrfti að koma á óvart þó að í Söðulsteini búi álfar, þó svo að þess hafi ekki sérstaklega verið getið í heimildum.
Heimildir m.a.:
-Mannlíf við Sund. Þorgrímur Gestsson, Íslenska bókaútgáfan ehf, 1998.
-Lesbók MBL 25. janúar 1948.
-Lesbók MBL 25. júní 1961, bls. 363 (ÁÓ).
-Reykjavík fyrri tíma – Árni Óla (1985), II. bindi, bls. 434-435.