Vermenn

Verbúð

“Um aldir hafði það hagnast landbændum að senda vinnumenn sína í verið til útróðra á vetrarvertíð einmitt þegar hvað minnst var um að vera og erfiðast um bjargræði til sveita.

Sjóklæði

Fátækir einyrkjar héldu einnig oft í verið og skildu búið eftir í höndum konu og barna. Þá héldu ungir bændasynir suður á Nes og undir Jökul til að “togna á árinni”, eins og það var kallað, njóta frjálsræðis fjarri föðurhúsum og lenda í slarki.
Útróðrarmennirnir komu af stóru svæði; allt austan af Síðu og norðan úr Skagafirði. Eins og eðlilegt má teljast sóttu Vestfirðingar og Snæfellingar ekki í ver suður á Nes. En þangað sóttu Húnvetningar, Dalamenn, Borgfirðingar og Mýramenn, að því er ætla má  til jafns við verstöðvar undir Jökli. Skagfirðingar voru fjölmennir frá fornri tíð er Norðlendingar fjölmenntu á útgerð Hólastóls á Bæjarskerjum. Kjósverjar, Kjalnesingar, Mosfellingar og Reykvíkingar héldu einnig suður á Miðnes ef þeir sóttu ekki eigin inntökubáta í Garði og Leiru. Þá var títt að Strandarmenn, Njarðvíkingar og fleiri “innanbugtarmenn” sæktu í verin á utanverðum Reykjanesskaga áður en þeirra eigin vertíð hófst 14. mars – til að  ná sér í nokkra viðbótarfiska áður en síðbúnir vermenn leystu þá að hólmi. Uppistaðan í vermannafjölda þeirri er á hverri vertíð reri á bátum útvegsbænda á Miðnesi var þó Sunnlendingar: Árnesingar, Rangæingar og Skaftfellingar, en þó einkanlega, eins og áður hefur verið að vikið, menn úr Landeyjum og undan Eyjafjöllum. Eftir aldamót færðist þó í auka að menn úr byggðum við sunnanverðan Faxaflóa reru frá Miðsnesi en þá hafði verið breytt um útgerðarhætti á Miðnesi svo þeim svipaði meir til útvegs Innnesinga.
Samkvæmt fornri venju þurftu vermenn á útnesinu að vera “komnir að sínum keip” á kyndilmessu, hinn 12. febrúar. Í umhleypingum, vetrarhörkum og skammdegi janúarmánaðar þurftu þessir menn því að ferðast landshluta á milli, iðurlega fótgangandi með þungar byrðar, “þræða hrikalegt fjalllendi og buðótta dali” og leggja að baki grýtt hraun og beljandi fljó.
Héldu þeir oft af stað úr heimasveit í hópum, þó meðalstórum svo hægar reyndist að afla gistingar. Norðlendingar þurftu að glíma við langa heiðarvegi og erfiða fjallvegi en Sunnlendingar fóru léttstígari götur. Oftast var byggð fylgt og reynt að Uppróðrarmenn að störfumhafa sem stysta leið milli bæja. Stundum voru þó farnar öræfaleiðir eins og “Skagfirðingavegur” um Stórasand og Fjallabaksleið. Voru það áhættusamar ævintýraferðir sem gátu endað með ósköpum, eins og slysið fræga á Fjallabaksleið 1868 ber vitni um. Þá urðu fjórir vermenn úti á leið til Suðurnesja en bein þeirra fundust ekki fyrr en að tíu árum liðnum. Fátt jafnast þó á við stórslysið á Tvídægru í janúar 1588 er 13 vermenn urðu úti og margir fleiri örrkumluðust. Bæði Norðlendingar og Sunnlendingar, er héldu í útver á Suðurnesjum, þurftu síðan að fara yfir úfin og villugjörn Reykjaneshraunin sem oft reyndust erfiðasti hjallinn. “Hraunstrýta kom eftir hraunstrýtu”… svitinn fraus fraus á hálsnetum okkar, klakaskel setti í loðhúfuna og niður fyrir augu, sem smám saman varð að brjóta burtu”, svo vitnað sé í hrollkennda frásögn Eyjólfs Guðmundssonar, sem bætti við að skrambi reimt hefði verið á leiðinni. Þessar langferðir á versta árstíma voru eitt af merkilegri fyrirbærum í gamla bændasamfélaginu auk þeirra mikilvægu samskipta Vermenninnsveita og sjávarsíðu er þeim fylgdu.
Á ofanverðir 19. öld voru menn ráðnir upp á hlut að fornu lagi og eins upp á fast vertíðarkaup. Hlutamenn lögðu með sér mötu sem þeir höfðu ýmist með sér að heiman eða fengu hjá kaupmönnum ásamt skinnklæði og hluta veiðifæra. Hjá bændum fengu þeir vökvun og á stundum harðæti en þurftu að greiða fyrir soðningu. Í aukinni samkeppni um vinnufafl við sjávarsíðuna fór að tíðkast undir lok 19. aldar að sjómenn væru ráðnir upp á kaup og ókeypis fæði og húsnæði. Sérstaklega voru það Norðanmenn sem réðu sig uppá fast kaup á Miðnesi og í Höfnum. Vertíðarkaup var yfirleitt 40-50 krónur en gat verið allt að 100 krónur, Það var vitanlega hagstæðara útvegsbændum á aflaárum en útróðrarmönnum í aflatregðu. Reyndar héldu vermennirnir til í húsakynnum útvegsbændanna og í tómthúsum í kring, ólíkt og var á tímum konungsútgerðar fyrrum. Þegar Sigurður frá Syðstu-Mörk kom að Miðkoti laust eftir 1879 voru útróðrarmenn þar hýstir í óþiljuðu herbergi undir baðstofuloftinu. Sigurði þótti þetta þröngar og daunillar vistarverur. Var siður vermanna að hengja skinnklæði á stólpa er voru á milli rúmanna og lagði af þeim hvað mestan ódaun. Þröng var á þingi í þessum vistarverum. Þurftu menn að liggja saman í hverju rúmi. Var það algengt Oddur V. Gíslasonumkvörtunarefni útróðarramanna hversu þröng og hörð marhálmsfleti Suðurnesjamanna væru. Í þessum vistarverum mötuðust einnig útróðramennirnir er þeir komu af sjónum að kvöldi. Vistarverur í Miðkoti voru fornlegar og lét Sigurður betur af bænum að Bursthúsum, þar sem voru “allgóð húsakynni og meiri þrifnaður”. Af samanburði við aðrar lýsingar á aðbúnaði vermanna á Suðurnesjum má þó ætla að lýsing hans sé í meginatriðum rétt.
Verið heillaði unga menn; “töfraheimar hranna laga / hugann til sín draga” kvað Þorsteinn Gíslason. Það veitti frjálsræði og ævintýri en einnig þolraunir og vosbúð. Flestir komu þó vitanlega fyrir annarra verknað eða í leit að lífsbjörg en gátu þó engu að síður notið karlmennskulífsins í verinu.
Skiptar skoðanir voru um gildi verferða. Sérstaklega lá verbúðarlíf undir ámæli á ofanverðri 19. öld er sveitarbændur tóku að finna fyrir samkeppni við sjávarsíðuna um vinnuafl. Einnig lögðu áhugamenn um verklegar og menningarlegar framfarir á Íslandi orð í belg. Bæði var fundið að aðbúnaði og lélegri menningu. Má telja vonum seinna að aðbúnaður útróðrarmanna kæmu til umræðu. Sjóbúðir voru ærið óhrjálegar vistarverur; þröngar, kaldar, loftlausar og daunillar. Hreinlæti var mjög ábótavant og húsakynni þessi óholl í meira lagi. Áhrifa þessa gætti ekki hvað síst í heilsufari. Kvillasamt var á vertíðum. Sérstaklega voru hver skyns kýli og fingurmein algeng. Má rekja það til vosbúðar og óhreinlætis og hversu oft ígerð komst í smáskeinur jafnvel svo að hætt var við stórfelldu heilsutjóni, ef til vill bana, ef í komst eitrun. Ætla má að aðbúnaður sjómanna hafi verið betri þar sem sem þeir voru vistaðir á heimilum eða sérstökum vermannaskálum er tengdir voru bæjarhúsum. Þá var mjög til bóta ef sjóklæði og veiðarfæri voru geymd í bæjargöngum eða sértakri skemmu.
Veður gátu verið váleg og brimasamt mjög á vetrarvertíð á Miðsnesi. Landlegur voru því tíðar og oft gæftarleysi svo vikum skipti. Stundum voru útróðrarmenn látnir ganga til annarra starfa eins og t.d að dytta að grjótgörðum bænda. Annars þurftu þeir að finna sér eitthvað til dundurs í ógæftum. Ef inni þurfti að að sitja ófu menn, gerðu að skinnklæðum eða hnýttu hrognkelsanet, sumir tegldu og táðu, aðrir spiluðu spil eða tefldu. Ekki fara af því sögur hvort Vermaðurfjárhættuspil hafi verið iðkað til vansa af vermönnum á Miðnesi. Í Grindavík fékk Oddur á Stað sett sýslumannsbann á “hazardspil” er honum þótti “kötturinn” (en svo hét vinsælasta fjárglæfraspilið) vera farinn að taka völdin af þorskinum. Oddur fékk þá einnig sett bann á allt lausaprang með áfengi í Grindavík og fylgdu málssóknir í kjölfarið mörgum bændum til armæðu. Ekki er vitað hvort leynivínsala og drykkjuskapur var viðlíka vandamál á utanverðu Rosmhvalanesi. Ef til vill voru Útskálaklerkar ekki eins eftirlitssamir og eldhuginn á Stað. Þá var styttri ganga Miðnesinga en Grindvíkinga til Keflvavíkur. Oft var kátt í “Norðfjörðsbúð” (Knutzonsverslun) þegar vermenn söfnuðust þangað í landlegum, skammdegi og vetrarhörkum.
Þótti mörgum iðjuleysi sjómanna í landlegum (og “atvinnusjómanna” utan vertíða) hið mesta þjóðfélagsböl. Hvöttu gagnrýnendur formenn og útvegsbændur ti að ganga á undan með góðu fordæmi, fá útróðramönnum verðug viðfangsefni í hendur, kenna þeim til landverka, og hvetja til bóklesturs. Hvatt var m.a. til stofnunar lestrarfélaga í verstöðvum til að bæta úr bágu menningarástandi og beina huga þeirra frá “iðjuleysi eða dýrslegu gjáleysi”. Þessi umræða varð háværari eftir afnám vistarskyldu er vinnumönnum í ársvistum fór fækkandi. Íslensk sjómannastétt var í mótun; stétt lausamann sen fylgdu vertíðum um landið, reru ýmist á árabátum eða þilsskipum, og kröfðust í auknum mæli fastra peningagreiðslna í stað hefðbundinna ráðningar upp á hlut. Hvort raddir siðapostula og heimsósómaþulur hafði náð eyrum manna í útverum Suðurnesja vitum við ekki. Á stórbæjum suður með sjó var ekki reynt að víkka sjóndeildarhring útróðrarmanna, enda engar forsendur fyrir hendi, í mesta lagi var haldið að mönnum fornum guðsótta. Vermenn hlýddu þar á húslestra úr postillum (helst Vídalínspostillu því sjómenn mátu fremur “kjarna og kraft” en hægláta umvöndun), voru látnir setja ofan í Jesú nafni, syngja sjóferðasálma og hafa yfir sjóferðabænir. Vermenn þurftu að þjónusta á fleiri vegu. “Verpóstar” báru þeim bréf og sögðu almælt tíðindi. Yfirleitt veittu þekktir landshornaflakkarar þesa þjónustu og höfðu þá oft skemmtanir fyrir útróðrarmenn. Á hávertíð voru þessir menn nokkurs konar tengiliðir útvera við umheiminn. Ef útróðrarmenn þurftu að svara tilskrifum komst margt heljarmennið til lands og sjávar í hann krappan, því margir þessara manna kunnu ekki að rit nafn sitt hvað þá meira. Var þá leitað á náðir pennafærra manna í byggðalaginu. Presturinn, hreppsstjórinn og hérðarslæknirinn önnuðust margs konar bréfaskriftir bæði fyrir Miðnesinga og útróðrarmenn þeirra. Sumir kvörtuðu yfir ónæðinu er þessu fylgdi enda skiptu útróðrarmenn hundruðum í útverum Suðurnesja.
Ekki fara af því sögur að útvegsbændur á Miðnesi hafi átt í erfiðleikum með að manna báta sína. Samkeppni um Uppvaxin verstöð - Grindavík fyrrumvinnuafl jókst þó töluvert er skútuútgerð óx fiskur um hrygg sunnanlands og vestan á lokaáratug 19. aldar. Betri og jafnari aðkomumöguleikar löðuðu fólk til fastrar búsetu í skútuútgerðarbæjunum, bæði úr sjávarbyggðum Suðurnesja og eins fólk sem fyrrum hafði sest þar að. Samkeppni um vistfast vinnuafl var harðari en samkeppni um lausamenn. Þó ríkti ákveðið jafnvægi milli skútuútgerðar og bátaútvegs á vetrarvertíðarsvæðunum. Ákveðin umsetning skútuáhafna átti sér stað; sumir voru einungis á skútu á vetrarvertíð en reru voru og sumar á bátum (t.d. Austfjörðum); aðrir reru á vetrarvertíða (t.d. á Miðnesi) og jafnvel einnig á vorvertíð en skiptu síðan á skútu um lok eða Jónsmessu. Þá þurfti minna aðkomuvinnuafls við eftir að lóðir urðu höfuðveiðarfæri Miðnesinga og útgerð hinna fornu stórkskipa aflagðist. Útvegsbændur á Suðurnesjum þurfu þó að hafa allar klær úti við að afla sér manna. Þeir skrifuðust á við landbændur og höfðu menn til taks í Rekjavík, þá vermenn streymdu þangað, er gáfu sig á tal við aðkomumenn sem skorinortu ávarpi; “Ertu ráðinn lagsi?”

Heimild:
-Ásgeir Ásgeirsson – Við opið haf, sjávarbyggð á Miðnesi 1886-1907 – 1998.