Skráðar heimildir versus raunverulegar heimildir
Jafnan er þess gætt að vitnað sé í skráðar heimildir um nýskrif við hinu og þessu. Háskólanemendum er t.d. kennt að setja ekkert á blað, nema þeir geti vitnað í skráðar heimildir. Sjálfstæð öflun heimilda eða hrakning skráðra heimilda er yfirleitt ekki metin að verðleikum.
Háskólalært fólk forðast sjálfstæða heimildaleit, t.d. á vettvangi. Það dirfist heldur ekki að efast eða gagnrýna áður skráðar heimildir, jafnvel þótt þær virðist augljóslega rangar. Málið er að áður skráðar heimildir þurfa alls ekki að vera réttar, eins og dæmin sanna.
Fræðafólk vitnar yfirleitt í skráðar heimildir, gjarnan ritaðar. Flest gerir það athugasemdalaust þótt augljóst megi virðast að sumar heimildarnar eru í besta falli ótrúverðugar, ef ekki beinlínis rangar.
Þá er í skrifum oftlega stuðst við skráðar heimildir, t.d. við fornleifaskráningar. Það gerir það jafnan að verkum að u.þ.b. 40% minja á tilteknum svæðum fær nákvæmlega enga athygli, þrátt fyrir raunverulega tilvist þeirra. Dæmi um slíkt má nefna fjárborgirnar þrjár ofan við Staðarborgina á Vatnsleysuströnd. Þeirra var hvergi getið í skráðum heimildum og rötuðu því ekki inn í nýlega fornleifaskráningu af svæðinu.
Örnefnalýsingar eru oftast skráðar eftir einum aðila. Frásögn hans ratar inn í lýsinguna, en allt þar fyrir utan virðist ekki vera til, a.mk. þegar vitnað er í skráðar heimildir, s.s. minjar, sem voru aflagðar löngu fyrir tíð hlutaðeigandi, eða minjar, sem voru þá í nýtingu, en þóttu ekki sérstaklega í frásögu færandi. Ágætt dæmi um slíkt eru selsminjar. U.þ.b. þriðjungi þeirra er getið í skráðum heimildum, þriðjungur finnst auk þess eftir áður óskráðum viðtölum við fólk, sem þekkir vel til staðhátta, og þriðjungur finnst við leit eftir fyrirliggjandi óskráðum örnefnum.
FERLIRshöfundi leiðist gjarnan þegar fræðafólk virðist svo upptekið að sjálfu sér við að vitna í skráðar heimildir að allt annað, sem engu minna máli virðist skipta, er látið liggja óskipt hjá garði.
Heimildir:
-https://skrif.hi.is/ritver/skraning-heimilda/
-https://www.ru.is/bokasafn/heimildavinna/apa-stadallinn/munnlegar-heimildir/
-https://is.wikipedia.org/wiki/Heimild